Fréttir
  • Gripið var til þess ráðs að festa stálbita á milli hliðarveggjanna og láta undirstöður fyrir plötumót hvíla ofan á þeim í stað þess að fara með þær ofan í ánna.

Brúarsmíði yfir Varmá í góðri sátt við lífríki í ánni

Framkvæmdaferli í sátt og samlyndi við veiðileyfishafa og vatnsréttareigendur

3.6.2019

Breikkun Suðurlandsvegar kallar á fjölmargar viðamiklar framkvæmdir. Ein þeirra er breikkun á brúnni yfir Varmá um u.þ.b. 13 metra. Þar sem Varmá og nágrenni hennar eru á Náttúruminjaskrá þurfti að huga sérstaklega vel að því að framkvæmdir við brúna röskuðu ekki viðkvæmu jafnvægi í lífríki árinnar. Á svæðinu er talsvert uppeldi sjógengins urriða, en þar er einnig uppeldi lax, flundru og ála. Þá er smádýralíf ríkulegt og fjölskrúðugt.

Framkvæmdatími aðeins þrír mánuðir

Í útboðslýsingu er mikil áhersla lögð á að framkvæmdir í og við Varmá taki tillit til þess lífríkis sem er í ánni. Þannig er gert ráð fyrir að tímasetning framkvæmda í og við Varmá skuli hagað þannig að þær falli utan veiðitíma og göngutíma laxfiska, bæði niðurgöngu seiða og uppgöngu fullorðins fisks eða nærri hrygningartíma. Sá tími er 1.apríl til 30. desember.

Framkvæmdatíminn var því frá 31. desember til 31. mars eða einungis þrír mánuðir. Í hönnunargögnum var einnig lögð mikil áhersla á að halda raski í og við farveg vatnsfalla í lágmarki, og að breyta botngerð sem minnst enda gæti slík haft varanleg áhrif á þéttleika og samsetningu lífríkisins.

Allt gert til að minnka rask

„Núverandi brú á Hringvegi við Varmá var byggð árið 1970. Breikkun brúarinnar um 13 metra fylgir formi eldri hlutans, sem er steinsteyptur stokkur á klöpp með grjóthleðslum til flóðvarna við stokksendann. Burðarvirkið er slakbent steinsteypa og er haflengd milli hliðarveggja um 8.0 m. Ekki eru legur á brúnni og engar þensluraufar,“ lýsir Helgi Bárðarson byggingarverkfræðingur hjá Verkís.

Framkvæmdaferlið gekk mjög vel fyrir sig að mati Helga. „Markmiðið hjá verktakanum, ÍAV, var að allt framkvæmdaferlið yrði í sátt og samlyndi við veiðileyfishafa og vatnsréttareigendur og var þeim haldið upplýstum um framgang verksins í gegnum allt framkvæmdaferlið.“

Framkvæmdatíminn var mjög knappur auk þess sem janúar, febrúar og mars eru verstu vetrarmánuðirnir. „Það þurfti því að vanda vel til verka og sjá til þess að allt færi vel fram og að ekki yrðu miklar tafir á framkvæmdum til að hægt væri að klára uppsteypu brúarinnar fyrir 1. apríl,“ lýsir Helgi en veður var oft slæmt á þessum tíma og hafði áhrif á framkvæmdina.

„Þar sem vatnasvið árinnar er töluvert umsvifamikið og árfarvegurinn þröngur við brúnna, hækkaði oft vel í ánni á stuttum tíma þegar um miklar rigningar var að ræða eða þegar mikil hláka var. Kom það fyrir að dælur höfðu ekki undan vatnavöxtunum og flæddi því stundum yfir sandpokahleðslurnar. Þrátt fyrir þessar tafir náðist að klára að steypa seinni hliðarvegginn fyrir 1.apríl en hann var steyptur 27. mars.“

Þá átti hins vegar eftir að steypa yfirbygginguna, en upphaflega var ráðgert að undirstöður undir plötumót yfirbyggingar færu ofan í ánna. „En þar sem leyfilegur framkvæmdatími var liðinn var ákveðið að notast við aðrar aðferðir til að koma í veg fyrir rask í árfarveginum. Var því gripið til þess ráðs að festa stálbita á milli hliðarveggjanna og láta undirstöður fyrir plötumót hvíla ofan á þeim í stað þess að fara með þær ofan í ánna.“

Helgi segir umgengni verktaka í og við ánna hafa verið til fyrirmyndar. „Á meðan á framkvæmdum stóð var verktakinn mjög vandvirkur og reyndi eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að efni frá vélum og tækjum kæmust ofan í ánna. Þannig var til dæmis ekki leyft að hreinsa steypubíla og steypuáhöld við ánna heldur var bílstjórum gert að hreinsa bílana í töluverðri fjarlægð frá ánni sjálfri. Einnig var passað uppá þegar steypudælan var færð yfir ánna að koma í veg fyrir að steypa myndi leka af rana dælunnar ofan í ánna.“