Fréttir
  • Umferð á Kringlumýrarbraut í september 2021. Mynd/Bjarki Jóhannsson
  • Erlingur Freyr Jensson.
  • Breytingar á slysatíðni og akstri á árunum 2002-2021.
  • Mynd 2. Breytingar á slysatíðni í þéttbýli og dreifbýli á árunum 2002-2021.
  • Mynd 3. Svæðaskipting Vegagerðarinnar.
  • Mynd 4. Breytingar á slysatíðni svæða Vegagerðarinnar 2013-2021.
  • Mynd 5. Breytingar á slysatíðni nokkurra vega 2013-2021.
  • Mynd 6. Breytingar á slysatíðni nokkura vega 2013-2021.
  • Mynd 7. Slysatíðni jarðganga á árunum 2011-2020.
  • Mynd 8. Umferðarslys á einbreiðum brúm árin 2002-2021.
  • Mynd 9. Fjöldi látinna á hverja 100 þúsund íbúa í Evrópu á árunum 2017-2021.

Breytingar á slysatíðni á árunum 2002-2021

Slysatíðni lækkar en fjöldi slysa helst svipaður

16.8.2022

Vegagerðin leggur mikla áherslu á umferðaröryggi í öllu sínu starfi. Það er ekki nóg að horfa til einstakra slysa þegar kannað er hvort að vegurinn, vegbúnaður eða umhverfi vega hafi átt þátt í slysi. Líta þarf til slysatíðninnar, þ.e.a.s. horfa til samspils umferðarþunga og slysa og meta þannig hvort ákveðnir kaflar á vegakerfinu gætu hugsanlega valdið því að fleiri slys verði þar en annarsstaðar.

Við uppbyggingu og þróun samgöngukerfisins eru greiðar samgöngur og öryggi einstaklinga forgangsatriði svo ekki komi til alvarlegra slysa. Vegagerðin vinnur að því að bæta öryggi samgangna með það að markmiði að fækka slysum og draga úr tjóni af völdum þeirra. Þannig hefur Vegagerðin sl. 15 ár beitt ákveðinni aðferðafræði við að rýna útfærslur nýrra vega, til að bæta umferðaröryggi á vegunum. Víða hafa verið gerðar minniháttar lagfæringar á núverandi vegum til að minnka líkur á slysum ef til umferðaróhapps kemur. Samgöngustofa heldur utan um umferðarslysaskráningu á landsvísu og byggjast þær upplýsingar á lögregluskýrslum sem fengnar eru úr gagnagrunni ríkislögreglustjóra. Vegagerðin fær svo þessar upplýsingar og heldur utan um slys skráð á vegum í hennar umsjón og reiknar út slysatíðni, sem byggist á fjölda slysa og fjölda bíla sem fer um ákveðna vegalengd á hverju ári. Vegakerfi Vegagerðarinnar er alls um 12.900 km, þar af stofn- og tengivegir um 8.300 km. Á þeim eru fastir teljarar á umferðarmesta fjórðungi þeirra, og til viðbótar er á öðrum vegum beitt skynditalningum á nokkurra ára fresti. Síðan 2007 hefur staðsetning slysa verið skráð í hnitum og með því móti getur Vegagerðin enn frekar fundið  þá vegarkafla þar sem  slysatíðni reynist meiri en annarsstaðar, og jafnvel einstaka staði innan þeirra vegarkafla. Með því móti má forgangsraða svokölluðum umferðaröryggisframkvæmdum, sem eru tiltölulega litlar framkvæmdir sem geta samt bætt umferðar­öryggi töluvert og minnkað líkur á meiðslum ef slys verður. Hugsanlegir slysastaðir eru þannig skoðaðir nánar, þ.e.a.s. athugað er hvort slys verði af sama toga eða við sömu aðstæður og reynt að finna leiðir til úrbóta.

Hvað er slysatíðni?

Fjöldi slysa er ekki það sama og slysatíðni. Þegar slysatíðni er reiknuð út er tekið tillit til umferðar, enda er fjöldi slysa oftast háður umferðarmagni. Slysatíðni vegarkafla er fjöldi slysa á milljón ekinna kílómetra. (Nánar tiltekið; slysatíðnin er fjöldi þekktra slysa margfaldaður með milljón, deilt með meðaltalsumferð á sólarhring, sinnum fjöldi daga, sinnum lengd vegarkaflans.) T.d. ef 5 slys verða á 10 km löngum vegarkafla með 1000 bíla umferð að meðaltali á sólarhring, þá er slysatíðnin 1,37.

Skilgreining á umferðarslysi er það óhapp sem a.m.k. eitt ökutæki á hreyfingu á aðild að og á sér stað á opinberum vegi, einkavegi eða svæði sem opið er almennri umferð. Almennt er talið að umferðarslys séu eilítið vanskráð og geta verið ýmsar ástæður fyrir því, t.d. vegna ölvunaraksturs, aksturs án ökuréttinda og án heimildar eiganda ökutækisins og slysið þá aldrei tilkynnt. Slys á hjólreiðafólki eru þó helst ætlað að séu vantalin líkt og slys sem verða á rafskútum. Umferðarslysum er skipt upp í 4 flokka eftir alvarleika þeirra; án meiðsla, lítil meiðsl, alvarleg slys og banaslys. Er um að ræða alþjóðlega flokkun sem auðveldar allan samanburð milli landa.

Slysatíðni lækkar en fjöldi slysa helst svipaður

Meðal slysatíðni allra vega í umsjón Vegagerðarinnar var 1,94 árið 2002 en var árið 2021 komin niður í 0,86. Þrátt fyrir að slysatíðnin er almennt að lækka og að banaslysum fækki, þá slasast að meðaltali 170 manns alvarlega á hverju ári og sú tala virðist haldast nokkuð stöðug. Skýringin á lækkun slysatíðni felst í því að það eru fleiri eknir kílómetrar, eða aukin umferð, en ekki það að slysum hafi fækkað umtalsvert.

Slysum fækkaði áberandi mikið við efnahagshrunið árið 2008, og er aðallega um að ræða minni slysatíðni í þéttbýli. Frá árinu 2006 minnkaði slysatíðni nokkuð (mynd 1), en eftir 2008 hefur  þróunin verið nokkuð stöðug en í rétta átt.

Mannleg mistök aðalorsök flestra umferðarslysa

Sem fyrr segir er fjöldi slysa oftast háður umferðarmagni og hvort um er að ræða umferð í dreifbýli eða þéttbýli. Vegagerðin hefur allt frá árinu 2000 reiknað sérstaklega slysatíðni eftirtalinna þriggja vegflokka: Þjóðvegir í dreifbýli, þjóðvegir á höfuðborgarsvæðinu og þjóðvegir í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðis (mynd 2). Þó svo að slysatíðni sé hærri í þéttbýli, þá segir það ekki alla söguna, þar sem slysin verða hlutfallslega alvarlegri í dreifbýlinu og banaslysin verða frekar þar. Meira en 50% alvarlegra slysa og banaslysa á þjóðvegum í dreifbýli verða við útafakstur. Mannleg mistök eru aðalorsök flestra umferðarslysa og samkvæmt reynslu erlendis frá er talið að einungis megi rekja um 3% umferðarslysa beint til þátta er snerta veginn sjálfan eða umhverfi hans, en hins vegar er vegurinn og umhverfi hans talin vera meðvirkandi orsök í um þriðjungi umferðarslysa.

Á heimasíðu Vegagerðarinnar má finna upplýsingar um slysatíðni einstakra vegarkafla á öllu þjóðvegakerfinu frá árinu 2000.

Á heimasíðu Samgöngustofu má finna enn meiri greiningu á umferðarslysum, t.d. varðandi bæjarfélög og landshluta, vikudaga og tímasetningar, búsetu, aldur og þjóðerni ökumanna. Eiga þær upplýsingar við um öll umferðarslys, þ.e.a.s. einnig þau sem eiga sér stað á öðrum vegum en þeim sem Vegagerðin sér um.

Slysatíðni eftir svæðum Vegagerðarinnar

Slysatíðni er einnig tekin saman eftir svæðum Vegagerðarinnar (mynd 3), en svæðaskiptingu Vegagerðarinnar var breytt árið 2013 og er núna eins og á mynd 3. Áður hétu svæðin öðrum nöfnum og mörk þeirra á milli breyttust nokkuð um áramótin 2012/2013, en slysatíðni þeirra er að finna á heimasíðu Vegagerðarinnar. Er því valið hér að sýna þróun á slysatíðni á hverju svæði frá árinu 2013, þ.e.a.s. eins og þau eru skilgreind í dag.

Innan einstakra vega getur slysatíðnin breyst talsvert milli ára. Mynd 5 sýnir 4 vegi á hverju svæði Vegagerðarinnar, sem hafa töluverða umferð m.v. sitt svæði.

Mynd 6 sýnir 4 vegi á hverju svæði Vegagerðarinnar, sem hafa svipaða tegund umferðar og liggja að þéttbýli. Á Suðursvæði leiðin frá Hringvegi að Flúðum, á Vestursvæði leiðin frá Hringvegi (Borgarnesi) að Vatnaleið, á Norðursvæði frá Hringvegi að Húsavík og á Austursvæði milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar.

Há slysatíðni í einbreiðum jarðgöngum

Einn er sá hluti vegakerfisins þar sem nokkurrar sérstöðu gætir, en það eru jarðgöng. Nýlega voru skoðuð hjá Vegagerðinni slys og óhöpp í 10 jarðgöngum, auk 200 m sitt hvoru megin við þau, árin 2011 til 2020. Vaðlaheiðargöng og Norðfjarðargöng þó bara í 2 og 3 ár frá opnun þeirra. Til að aðgreina slysatíðni gangamunna og slysatíðni jarðganganna sjálfra, voru annars vegar sérstaklega skoðuð slys á vegarköflum 200 m frá göngunum og 50 m inn í göngin beggja megin við þau, og hins vegar jarðgöngin sjálf, sem eru þá heildarlengd þeirra að frádregnum 100 m (50 m + 50 m). Þá er jarðgöngunum skipt upp í einbreið og tvíbreið göng, til að gera greinarmun á slysatíðni þeirra. Ekki þarf að koma á óvart há slysatíðni einbreiðra jarðganga. Á mynd 6 sést að slysatíðni í og við gangamunna er há og er það nokkuð sem Vegagerðin mun skoða nánar hvort hægt sé að lækka. Við gangamunna er áríðandi að ökumenn hafi fulla athygli við aksturinn þar sem birtuskilyrði breytast og skyndileg veðrabrigði geta átt sér stað, sérstaklega þegar snjókóf er, þá er hitastig á yfirborði vegar einnig breytilegt á veturna.

Átta banaslys á einbreiðum brúm á 20 árum

Á árunum 2002-2021 eru skráð 400 slys á einbreiðum brúm (sjá mynd 8), eða að meðaltali 20 á ári, en samhliða fækkun á einbreiðum brúm þá hefur þessum slysum fækkað. Af þessum eru 8 banaslys, þar af 4 árið 2002.

Ísland á svipuðu róli og hin Norðurlöndin

Miðað við fjölda látinna í umferðinni í Evrópu sl. 5 ár og slysatíðni, telst Ísland vera undir meðaltalinu. Norðurlöndin eru á svipuðu róli hvað þetta varðar, en almennt séð fer slysatíðni lækkandi í Evrópu og hefur gert sl. 20 ár. Líklegt er að betur búin ökutæki skýri að hluta til fækkun slysa, þar sem kominn er ýmis hjálpar- og viðvörunarbúnaður í ökutækin. Almenn notkun bílbelta og kennsla/þjálfun nýrra ökumanna er einnig meiri en áður var. Hlutfallslega fækkun alvarlegra slysa má einnig að einhverju leyti þakka sterkbyggðari ökutækjum, þar sem þau verja betur ökumenn og farþega. Þá eru vegirnir þrátt fyrir allt öruggari heldur en áður var. Síðastliðin 20 ár hefur af hálfu Vegagerðarinnar verið lögð áhersla á það við nýbyggingar vega að hafa svokallað öryggissvæði veganna þannig úr garði gert að við útafakstur verði ökumanni fyrirgefið, þ.e.a.s. þannig að ökutæki velti síður eða rekist síður á óeftirgefanlegar hindranir. Öryggissvæði er ákveðin breidd utan vegstikanna, háð umferð og leyfðum hámarkshraða. Ella setja upp vegrið þar sem ekki verður við komið að hafa t.d. fláa aflíðandi eða án hindrana.

Sýnum tillitsemi, virðum hraðatakmörk

Undanfarin ár hafa flest slys átt sér stað yfir sumartímann. Öll teikn eru á lofti um að umferðin muni aukast all verulega í sumar, eftir 2 ár með tiltölulega fáa erlenda ferðamenn. Miðað við þróun umferðar á lykilteljurum á Hringvegi það sem af er ári, stefnir í að umferðin árið 2022 verði jafnmikil eða meiri heldur en árin 2018 og 2019 sem voru metár á Hringveginum. Því þurfa allir ökumenn að leggjast á eitt um að vanda til verka í umferðinni, sýna tillitssemi og virða hraðatakmörk, svo unnt verði að minnka líkur á slysum og að lágmarka afleiðingar þeirra sem verða, svo unnt verði að halda áfram á þeirri braut að lækka slysatíðnina. Vegagerðin mun áfram vinna að því að finna þá staði þar sem fjöldi  slysa er mikill og í kjölfarið greina orsakir og forgangsraða úrbótum eftir því sem fjárveitingar leyfa.

Þessi grein birtist í 5. tbl. Framkvæmdafrétta 2022.    Rafræna útgáfu má finna hér.      Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.