Fréttir
  • Ártúnshöfði - Hamraborg. Fyrsta lota Borgarlínu.

Borgarlína - Drög að matsáætlun

Ártúnshöfði - Hamraborg

14.5.2020

Birt hafa verið drög að matsáætlun Borgarlínu fyrir leiðina Ártúnshöfði-Hamraborg. Fyrsta lota Borgarlínu, milli Ártúnshöfða í Reykjavík og Hamraborgar í Kópavogi, er um 13 km löng. Fyrstu áætlanir gera ráð fyrir 25 stöðvum, en það kann að breytast í hönnunarferlinu.

Verkefnastofa Borgarlínu stendur að undirbúningi að framkvæmdinni og mati á umhverfisáhrifum. Eru þessi drög að matsáætlun fyrsta þrep í matsferli Borgarlínu. Í þeim er gerð grein fyrir fyrstu hugmyndum að því hvernig áætlað er að standa að mati á umhverfisáhrifum. Gerð er grein fyrir helstu framkvæmda- og áhrifaþáttum framkvæmdar, rannsóknaráætlun og fyrirhugaðri gagnaöflun, og matsspurningum.

Verkefnastofa Borgarlínu mun kynna drög að matsáætlun fyrir almenningi, öðrum hagaðilum og umsagnaraðilum.

Undirbúningur Borgarlínunnar hefur staðið yfir undanfarin misseri. Leiðin frá Ártúnshöfða að Hamraborg er fyrsta lota Borgarlínu skv. samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem skrifað var undir 26. september 2019.

Skýrsluna í heild má nálgast hér.