Fréttir
  • Höfundur með Bergþóru Þorkelsdóttur forstjóra Vegagerðarinnar.
  • Útgáfuteiti bókarinnar á Akranesi var vel sótt.
  • Atli Rúnar Halldórsson áritar eintak af bókinni fyrir Hrein Haraldsson fyrrverandi Vegagmálastjóra.

Bók um sögu Hvalfjarðarganga

Undir kelduna, sagan um Hvalfjarðargöng 1987-2019, eftir Atla Rúnar Halldórsson blaðamann.

19.8.2019

Út er komin bókin Undir kelduna, sagan um Hvalfjarðargöng 1987-2019, eftir Atla Rúnar Halldórsson blaðamann. Fjallað er um aðdraganda framkvæmda við göngin allt frá því Hreinn Haraldsson, jarðfræðingur og síðar vegamálastjóri, nefndi göng undir Hvalfjörð sem raunhæfan möguleika, í viðauka skýrslu nefndar um jarðgangaáætlun í mars 1987, þar til ríkið tók við göngunum í lok september 2018 og eignaðist svo rekstrarfélag ganganna, Spöl ehf., vorið 2019.

Bókin er 400 blaðsíður með fjölda ljósmynda og teikninga. Útgefandi er Svarfdælasýsla forlag sf. Eigendur forlagsins eru bókarhöfundur og fimm systkin hans frá Jarðbrú í Svarfaðardal.

Bókin var kynnt í teiti útgefenda á Akranesi 15. ágúst síðastliðinn. Þar var margt um manninn en meðal gesta voru Hreinn Haraldsson fyrrverandi vegamálastjóri og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Á kápu bókarinnar kemur fram að þar sé að finna margvíslegan fróðleik sem ekki hafi verið fjallað um opinberlega áður. Um göngin segir síðan:

„Hvalfjarðargöng eru fyrsta einkaframkvæmd í vegakerfinu á Íslandi, fyrstu neðansjávargöng veraldar í ungu gosbergi, fyrsta fjárfesting sinnar tegundar í Evrópu á vegum bandarísks tryggingafélags, fyrsta fjárfesting íslenskra lífeyrissjóða í einkaframkvæmd og fyrsta verkefnið þar sem verktakinn bar alla ábyrgð á fjármögnun verkefnisins og tæknilega ábyrgð á framkvæmdatímanum.“