Fréttir
  • Forgangsröðun uppbyggingar stofnleiða 2020-2033.
  • Katrín Halldórsdóttir verkfræðingur frá Vegagerðinni, fer fyrir hjólahópnum.

Bættar samgöngur fyrir hjólandi

Framkvæmdir eru hafnar við stofnhjólanet sem tengir saman sveitarfélög og hverfi á höfuðborgarsvæðinu

7.7.2020

Vinnuhópur á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar hefur útbúið kort sem sýnir forgangsröðun uppbyggingar á stofnhjólaleiðum á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 árin. Framkvæmdir eru þegar hafnar.

Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins, sem íslenska ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, skrifuðu undir haustið 2019, tekur meðal annars til uppbyggingar á samgönguinnviðum fyrir hjólandi vegfarendur. Í byrjun þessa árs var skipaður hópur með fulltrúum frá sveitarfélögunum og Vegagerðinni sem falið var að skipuleggja uppbyggingu stofnhjólanets fyrir höfuðborgarsvæðið.

„Stofnhjólanetið snýst fyrst og fremst um að mynda sameiginlega sýn sveitarfélaganna á kerfi fyrir hjólandi vegfarendur, til að auðvelda þeim ferðir sínar á hjóli og tryggja öryggi þeirra,“ segir Katrín Halldórsdóttir verkfræðingur hjá Vegagerðinni sem fer fyrir vinnuhópnum.

Hugmyndin að baki stofnhjólanets er að útfæra hjólaleiðir sem ná yfir sem stærstan hluta höfuðborgarsvæðisins, tengja saman sveitarfélögin og hverfi innan þeirra.

„Við horfðum fyrst og fremst til samgönguhjólreiða við skipulagningu stofnhjólanetsins. Stofnhjólaleiðirnar eiga að uppfylla viss skilyrði um hönnun og til að tryggja öryggi er hönnun hjólaleiðanna send í umferðaröryggisrýni,“ upplýsir Katrín.

Í hönnunarleiðbeiningunum fyrir hjólreiðar er hönnuðum leiðbeint hvaða útfærsla á hjólaleið á best við á hverjum stað, meðal annars út frá samsetningu umferðar akandi, hjólandi og gangandi vegfarenda. Ólíkar lausnir henta við ólíkar aðstæður. Þannig getur á einum stað verið hentugt að gera sameiginlegan göngu- og hjólastíg, og annars staðar að aðskilja hjólandi umferð frá gangandi með sér hjólastíg eða jafnvel gera einstefnustíga meðfram götum eða hjólareinar í götum.

„Gerð stofnhjólanets höfuðborgarsvæðisins nær yfir stóran hluta þeirra hjólaleiða sem áætlað er að fari í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, en mörg sveitarfélaganna hafa einnig metnaðarfull áform um enn frekari uppbyggingu á hjólainnviðum innan síns sveitarfélags.“

Vinnuhópurinn hóf störf strax í byrjun árs. Verkefni hans var að skipuleggja uppbyggingu stofnhjólanets og forgangsraða framkvæmdum. Hópurinn naut aðstoðar verkfræðistofunnar Eflu við verkefnið. Niðurstöðu vinnunnar má finna á korti sem sjá má hér með fréttinni. 

Við gerð kortsins hafði verkfræðistofan Efla samráð við hvert sveitarfélag fyrir sig sem kom á framfæri sínum óskum. Stofnhjólaleiðirnar eru sýndar með dökkgrænum línum og tengileiðir með ljósbrúnum.

Samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna fólst fyrst og fremst í því að forgangsraða uppbyggingu á mikilvægustu stofnhjólaleiðunum. Dökkgrænu leiðirnar sem sýndar eru á kortinu sem stofnleiðir, eru því ekki endilega hannaðar sem slíkar og í raun á ábyrgð hvers sveitarfélags að gera það, sé vilji til þess næstu 15 árin,“ lýsir Katrín.

Fyrstu áfangar uppbyggingar á stofnhjólaneti eru sýndar með rauðu (í fyrsta forgangi), appelsínugulu (í öðrum forgangi) og bláu (í þriðja forgangi). Forgangsröðun verkefna skiptist á þrjú tímabil. Verkefni í fyrsta forgangi á að framkvæma á tímabilinu 2020-2024, annan forgang á að framkvæma á tímabilinu 2024-2029 og verkefni í þriðja forgangi á að framkvæma á tímabilinu 2030-2033.

Þeir þættir sem spiluðu inní við forgangsröðun hjólaleiðanna voru; framtíðarsýn sveitarfélaganna, fjöldi hjólandi vegfarenda samkvæmt umferðartalningum, samspil við Borgarlínu og heildarmynd stofnhjólanetsins. 

Framkvæmdir eru hafnar

Framkvæmdir á hjólreiðaáætluninni eru þegar hafnar. „Verið er að leggja hjólastíg við Geirsgötu í Reykjavík og fljótlega verður farið í áframhaldandi stígagerð við Eiðisgranda í Reykjavík,“ tekur Katrín sem dæmi.

Auk þess er fyrirhugað er að hefjast handa við gerð hjólastígs á tveimur stöðum við Bústaðaveg.  Í Kópavogi verður farið í framkvæmdir á hjólastíg meðfram hluta Fífuhvammsvegar og til stendur að hefjast handa við uppbyggingu hjólastígs í gegnum Ævintýragarðinn í Mosfellsbæ.  Enn fremur stendur til að breikka og lagfæra núverandi stíg meðfram Strandgötu í Hafnarfirði. 

„Í heildina ná þessar framkvæmdir yfir fjögurra kílómetra kafla og stefnt er að áframhaldandi uppbyggingu á nokkrum af þessum stöðum á næsta ári.  Að auki verða fyrirhugaðar framkvæmdir næsta árs, 2021, undirbúnar en þá stendur meðal annars til að fara í framkvæmdir á Seltjarnarnesi og í Garðabæ.“