Fréttir
  • Höfðabakki (419) séð úr lofti. Mynd/Baldur Kristjánsson

Auknar kröfur í malbiksframkvæmdum

Hluti morgunfundaraðar Vegagerðarinnar vorið 2021

26.1.2021

Morgunfundur þar sem kynntar verða auknar kröfur og hertar reglur Vegagerðarinnar í útboðum malbiks- og klæðingaframkvæmda verður haldinn í streymi þriðjudaginn 2. febrúar nk. kl. 09:00 – 10:15.

Á fundinum kynnir Vegagerðin stórauknar kröfur til verktaka og eftirlitsaðila með framkvæmdum þar sem lagt er út malbik og klæðing. Gerðar verða ýmsar nýjar kröfur og aðrar auknar til að tryggja að ekki skapist aðstæður að lokinni framkvæmd sem geta reynst hættulegar vegfarendum.

Frummælendur verða Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar, Pétur Pétursson hjá PP ráðgjöf og Birkir Hrafn Jóakimsson verkefnastjóri hjá Vegagerðinni.

Morgunfundurinn er hluti fundaraðar sem haldin verður í vetur og lýkur í vor með ráðstefnu um yfirlagnir á Íslandi. Á fundunum sem fylgja í kjölfar þessa fyrsta fundar verður fjallað um vetrarþjónustu, bikblæðingar og þjóðvegi á hálendi Íslands.

Á ráðstefnunni verður fjallað heildstætt um yfirlagnir og bundið slitlag þar sem erlendir sérfræðingar verða einnig fengnir til að fjalla um málefnið út frá sínu sjónarhorni og með áherslu á hvort að framkvæmdum á Íslandi sé háttað á annan hátt en annarsstaðar.

Streymt verður á eftirfarandi slóð: https://livestream.com/accounts/15827392/events/9502061

Spurningar til frummælenda er hægt að senda í gegnum Sli.do: Slóð:  https://app.sli.do/event/rtpi0lmp   Kóði:  # 92945