Fréttir
  • Fyrsta brúin á Íslandi úr eftirspenntri steypu var brú á Blöndu hjá Blönduósi sem byggð var árið 1963.
  • Brú á Hornafjarðarfljóti. Brú með forspenntum bitum, byggð 1960.
  • Eyðublað fyrir uppspennuskýrslu sem verður notað hér eftir.

Ástand spennikapla í steyptum brúm

Ný skýrsla styrkt af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar

30.6.2021

Ástand spennikapla í steyptum brúm – verklýsingar  og gátlistar, er yfirskrift nýjustu áfangaskýrslu verkefnis eftir Baldvin Einarsson hjá Eflu verkfræðistofu sem styrkt var af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Tillaga að breytingum á almennum verklýsingum fyrir tvo verkþætti sem tengjast spenntri járnalögn og uppspennu og grautun verða innleiddar í verklýsingar Vegagerðarinnar.

Í íslenska vegakerfinu eru samtals í kringum 1.200 brýr og samanlögð lengd þeirra er yfir 30 km. Margar af þessum brúm eru svokallaðar eftirspenntar brýr, þ.e. í steyptri yfirbyggingu þeirra eru ídráttarrör með spenniköplum úr stáli. Þessir kaplar eru spenntir upp og þjóna þeim tilgangi að minnka togspennur í steypunni. Á Íslandi hefur eftirlit með spenniköplum ekki verið til staðar og nú eru margar eftirspenntar brýr í íslenska vegakerfinu komnar á þann aldur að nauðsynlegt er að gefa þessum málaflokki aukinn gaum.

Áfangaskýrslan er sú þriðja í röðinni í verkefninu en sú fyrsta kom út 2015 og veitti hún yfirlit yfir algengar aðferðir sem beitt hefur verið við eftirlit á eftirspenntum brúm. Í áfangaskýrslu 2 frá 2017 voru 12 brýr á íslenska vegakerfinu valdar, þær metnar út frá breskum matslykli fyrir ástand eftirspenntra brúa sem staðfærður er á íslenskar aðstæður og þrjár þeirra tilteknar sem brýr sem henta vel til nánari skoðunar með þeim aðferðum sem lýst er í fyrstu áfangaskýrslu verkefnisins. Einnig er gerður samanburður á breskri verklýsingu fyrir uppspennu og grautun, Alverki ´95 frá Vegagerðinni og nýrri verklýsingu sem er í vinnslu hjá Vegagerðinni.

Í áfangaskýrslu 3 er fyrst fjallað um eftirspenntar brýr á Íslandi almennt og hvernig staðið var að uppspennu þeirra og grautun. Þá er farið lauslega yfir ástandskönnun á spenniköplum í brúnum á Blöndu og tveimur brúm yfir gjána í Kópavogi, en það voru tveir Finnar frá Rambøl sem gegnumlýstu brýrnar í leit að holrýmum í kapalrörum.

Eftir samanburð á breskum og íslenskum verklýsingum, sem gerður var í síðustu skýrslu, er gerð tillaga að breytingum á almennum verklýsingum fyrir tvo verkþætti í verklýsingum Vegagerðarinnar. Í fyrsta lagi verkþátt 84.36, Spennt járnalögn og í öðru lagi verkþátt 84.37, Uppspenna og grautun. Þá er sett fram tillaga að sniðmáti fyrir uppspennu- og grautunarskýrslu. Markmiðið með staðlaðri skýrslu er að sjá til þess að öllum gögnum um framkvæmd eftirspenntrar járnalagnar sé haldið til haga. Loks eru sett fram drög að gátlistum fyrir allt sem lýtur að eftirspenntum brúm. Þar er fyrst gátlisti fyrir hönnuði, þá eru gátlistar fyrir eftirlit með útfærslu vinnunnar á verkstað. Loks eru settar fram hugleiðingar varðandi verklýsingarnar til umræðu meðal hönnuða og eftirlitsaðila og hverju væri ástæða til að breyta þegar fram líða stundir. Að lokum eru svo talin upp atriði sem eftir er að skoða frekar varðandi endingu og ástand eftirspenntra brúa.

Rannsókn þessi er dæmi um hagnýtt gildi verkefna sem styrkt eru af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar en niðurstöður rannsóknarinnar verða innleiddar í starf Vegagerðarinnar.

Skýrsluna í heild má lesa hér.

Þessi grein birtist í 4. tbl Framkvæmdafrétta sem er á leið til lesenda.  Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.