Fréttir
  • Þjónusta stofnana - meðaltal mældra stofnana.
  • Niðurstöður Vegagerðarinnar í þjónustukönnun ríkisins.
  • Reynsla af viðmóti stofnana.
  • Ánægja með stafræna þjónustu.
  • Áreiðanleiki upplýsinga.
  • Hraði þjónustu.
  • Ánægja með þjónustu stofnana.

Ánægja með þjónustu Vegagerðarinnar

Fyrsta samræmda þjónustukönnun ríkisins

16.4.2020

Almennt er mikil ánægja með opinbera þjónustu samkvæmt niðurstöðum úr fyrstu samræmdu könnun á þjónustu ríkisstofnana sem gerð var í janúar síðastliðnum. Í þessari fyrstu lotu var spurt um stofnanir sem þjónusta íbúa landsins. Það voru Sjúkratryggingar Íslands, Vinnumálastofnun, Tollstjórinn, Þjóðskrá Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, sýslumannsembættin, heilsugæslustöðvar, Samgöngustofa, Ríkisskattstjóri, Veðurstofa Íslands og Vegagerðin.

Fjöldi svarenda var 1.447 talsins en að minnsta kosti hundrað svarenda eru á bak við hverja stofnun. Niðurstöðurnar gefa upplýsingar um heildaránægju með opinbera þjónustu í þessum málaflokkum og gefa einnig vísbendingu um ánægju með þjónustu þeirra stofnana sem spurt var um. Síðar verður hægt að endurtaka könnunina og fylgjast þannig með þróun á þjónustustigi stofnananna og meta árangur af stafvæðingu.

Fólk kýs stafræna þjónustu

Vegagerðin kemur vel út í könnuninni og er yfir meðaltali í öllum liðum. Fólk virðist hafa góða reynslu af viðmóti stofnunarinnar, er ánægt með þjónustuna og treystir þeim upplýsingum sem gefnar eru. Ánægja er með stafræna þjónustu Vegagerðarinnar enda er mikil áhersla lögð á að gefa nákvæmar upplýsingar á vef Vegagerðarinnar.

Auk þess að mæla ánægju með þjónustu má í niðurstöðum könnunarinnar sjá hvernig almenningur nýtir þjónustu stofnanna. Hvort fólk kemur á staðinn, hringir eða notar vefi stofnana. Þegar spurt var um Vegagerðina höfðu 86,3 % svarenda nýtt sér vefsíðu stofnunarinnar, 3,9% höfðu komið í stofnunina og 12.7% hringt í hana. Rúmlega fjórðungur svarenda sögðust hafa nýtt sér upplýsingar frá stofnuninni.

Nánari upplýsingar um könnunina má finna á vef Gallup. 

Almenn frétt um könnunina á vef stjórnarráðsins