Fréttir
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin eftir vikudögum

Aldrei verið meiri umferð í febrúar á höfuðborgarsvæðinu

umferðin hefur aukist mikið í ár

3.3.2017

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um 5,6 prósent í febrúar miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Umferðin á höfuðborgarsvæðinu hefur aldrei verið meiri í febrúar. Frá áramótum hefur umferðin aukist um 7,4 prósent. Útlit er fyrir að umferðin í ár gæti þá aukist um fimm prósent.

 

Milli mánaða 2016 og 2017
Umferðin um 3 lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um 5,6% í nýliðnum mánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári. 

Mest jókst umferð um mælisnið á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða um rúmlega 8% en minnst mældist aukningin um mælisnið á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku eða um tæp 3%.

Meðalumferð á sólarhring, um mælisniðin þrjú, hefur aldrei verið meiri í febrúarmánuði frá upphafi samantektar.

Nú hefur meðalsólarhringsumferð í febrúar vaxið, að jafnaði, um 2,4% á ári frá árinu 2005.

Frá áramótum milli 2016 og 2017
Frá áramótum hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu aukist um 7,4% miðað við sama tímabil á síðasta ári. 

Umferð eftir vikudögum milli 2016 og 2017
Umferð í öllum vikudögum jókst miðað við sama mánuð á síðasta ári. Mest jókst umferðin á fimmtudögum eða um 14,4% en minnst á sunnudögum eða um 0,3%.  Í nýliðnum mánuði var mest ekið á fimmtudögum og minnst á sunnudögum. 

Horfur út árið 2017
Þegar tveir fyrstu mánuðir ársins eru liðnir benda líkur til þess að umferðin á höfuðborgarsvæðinu gæti aukist um 5% m.v. síðasta ár. Þessi spá er nokkuð í takt við hagvaxtarspá Seðlabanka Íslands, sem spáir 5,3% hagvexti árið 2017, en Vegagerðin hefur bent á mikla fylgni milli þróun umferðar á höfuðborgarsvæðinu og hagvaxtar (91% milli áranna 2005 – 2016). 

Talnaefni