Fréttir

Álag á vegi landsins hefur margfaldast

Ferðamenn óku 660 milljónir kílómetra á bílaleigubílum í fyrra

20.9.2019

Fimmtán sinnum fleiri erlendir ferðamenn óku á bílaleigubílum yfir vetrarmánuðina í fyrra en 2010. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn fyrirtækisins Rannsókn & ráðgjöf ferðaþjónustunnar sem birt er á vef Vegagerðarinnar .
Heiti greinargerðarinnar er: Erlendir ferðamenn og hringvegurinn 2010-2018 , og er unnin af Rögnvaldi Guðmundssyni.

Meðal þess sem kemur fram í greinargerðinni er að áætlað er að erlendir ferðamenn hafi ekið bílaleigubílum um 660 milljónir kílómetra á Íslandi í fyrra. Talið er að álag bílaleigubíla á vegakerfið, þar sem erlendir ferðamenn voru við stýrið, hafi verið rúmlega sexfalt meira á seinasta ári en á árinu 2010. Álagið á vegakerfið hefur því margfaldast á fáum árum.
Áætlað er að 15 sinnum fleiri erlendir ferðamenn hafi nýtt sér bílaleigubíla yfir síðustu vetrarmánuðina á árinu 2018 en átta árum áður.

Akstur erlendra ferðamanna í fyrra var talið 22% af öllum einkaakstri hér á landi. Í greinargerðinni er skotið á hversu miklu ferðamenn hafi eytt í eldsneyti. Sé miðað við átta lítra meðaleyðslu hvers bíls á hundraðið og að eldsneytisverð hafi að jafnaði verið 200 kr. á lítra má slá á að eldsneytisútgjöld erlendra ferðamanna vegna aksturs bílaleigubíla hér á landi á síðasta ári hafi numið um 10,6 milljörðum króna.

Morgunblaðið birti góða umfjöllun um niðurstöðurnar og þær má finna hér .