Fréttir
  • Ísþykkt mæld á Skeiðarárjökli í apríl 1994.
  • Ísþykkt mæld á Skeiðarárjökli í apríl 1994.
  • Skeiðarárjökull. Megin rannsóknarsvæðið er innan bláa rammans. Lónstæði Grænalóns er innan græna ferningsins.
  • Grænalónsminni í júlí 1996
  • Vír komið fyrir í leysingamæli í júlí 1996
  • Ísstífla í Grænalónsminni í júlí 1996

Áhrif þróunar Skeiðarárjökuls á farveg og rennsli Súlu

Rannsókn jöklahóps Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands

26.10.2020

Rannsóknasjóður Vegagerðarinnar hefur undanfarin ár styrkt jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands en rannsóknir hópsins hafa nýst Vegagerðinni við hönnun vega og brúa. Á Rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar greinir hópurinn frá nýjustu rannsókn sinni sem fjallar um hvernig þróun Skeiðarárjökuls hefur áhrif á farveg og rennsli Súlu.

Skeiðarárjökull hefur, eins og aðrir jöklar, rýrnað mikið á síðustu áratugum, sérstaklega frá 1995. Þessu hafa fylgt breytingar í farvegum fallvatna frá jöklinum. Allar meginkvíslar (Skeiðará austast, Sæluhúsakvísl, Gígjukvísl og Súla vestast) sem áður dreifðu úr sér niður sandana renna nú að hluta til með sporðinum og sameinast í Gígjukvísl. Þetta hefur haft mikil áhrif á umferðarmannvirki á Skeiðarársandi. Til dæmis var Skeiðarárbrú, lengsta brú landsins, tekin úr notkun 2017 og 70 m löng brú yfir Morsá tekin í notkun í staðinn, en Skeiðará hvarf úr farvegi sínum og fór að renna til Gígjukvíslar árið 2009.

Jöklahópur Jarðvísindastofnunar HÍ hefur undanfarið skoðað breytingar á Skeiðarárjökli og árfarvegum vestast. Jökullinn hefur hopað og jökulsporðurinn breyst. Farvegur Súlu hefur frá 2016 legið til austurs og suðurs yfir til Gígjukvíslar, um lægð í landi sem fyrir nokkrum árum var undir jökli. Í áratugi lá farvegurinn nær beint til suðurs um skarð og sameinaðist Núpsvötnum. Þetta skarð stendur hærra en núverandi farvegur.

Það sem helst ógnar stöðugleika hins nýja farvegar er hugsanlegt framhlaup jökulsins, en hann hefur áður gengið fram um allt að einn kílómetra. Í slíku framhlaupi gæti jökull lagst yfir farveginn og stíflað hann.  Einnig er mögulegt að framhlaup gæti haft áhrif á ísstíflu Grænalóns sem þá gæti safnað vatni á ný og þaðan komið jökulhlaup.

Til að varpa ljósi á þróun Skeiðarárjökuls og áhrif á farveg og rennsli Súlu skoðaði hópurinn meðal annars fyrirliggjandi gögn af svæðinu, þar á meðal botnkort, yfirborðshæðarlíkön og loftmyndir.

Nánar verður fjallað um áhrif breytinga Skeiðarárjökuls á farveg og rennsli Súlu á Rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar sem haldin verður rafrænt 30. október 2020.

Hægt er að skrá sig hér

Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér