Fréttir
  • Umferð um Ölfusárbrú á korti
  • Ölfusárbrú
  • Ölfusárbrú

Að glöggva sig á tölum

það getur verið snúið að gera það

23.8.2018

Hver er umferðin um Ölfusárbrú? Svarið er hvorttveggja einfalt og flókið. Umferðin getur verið svo og svo mikil á hverjum degi árið um kring en þá er það meðaltalstala. Umferðin er meiri á sumrin en á veturna, meiri á daginn en á nóttunni. Þannig að það er ekki alltaf einfalt að finna út hver umferðin er. Meðalumferð á dag allt árið yfir Ölfusárbrú er - að gefnu tilefni - áætluð ríflega 13 þúsund bílar en er töluvert meiri þá daga sem umferðin er sem mest á sumrin.

Vegagerðin mælir umferðin mjög víða og reiknar hana svo út á enn fleiri stöðum eftir því hvað upplýsingar eru til um umferðarhegðun. Umferðin er mæld við Biskupstungnabraut og hefur verið mæld sunnan brúar og þannig er hægt að áætla umferðarþungann yfir brúna sjálfa. Þannig að allar umferðartölur um Ölfusárbrú eru áætlaðar en ættu að vera nokkuð nærri raunumferð.

Þannig er svo kölluð ársdagsumferð (ÁDU), sem er umferðin alla daga ársins að meðaltali á dag, áætluð ríflega 13 þúsund bílar á sólarhring. Síðan er vetrardagsumferð (VDU) áætluð um 10.500 bílar á sólarhring og að sama skapi SDU eða sumardagsumferðin áætluð um 16.500 bílar á sólarhring. Þessa vegna var gefið upp að umferðin um það leyti sem Ölfusárbrú var lokuð gæti verið um 17.000 bílar á sólarhring, miðað við að hásumar væri þá vikuna.

En viðmiðunartalan við annað væri iðulega ÁDU sem er minna eða þessir ríflega 13.000 bílar á sólarhring. 

Þetta má sjá á korti hér á vef Vegagerðarinnar , þar sem hægt er að skoða áætlaða umferð um land allt. Myndin sem fylgir fréttinni sýnir áætlaða umferð.

Einnig má skoða skilgreiningar á því hvað felst í ÁDU, SDU og VDU .