Fréttir
  • Framkvæmdir eins og t.d. þær sem nú standa yfir á Hringvegi um Kjalarnes munu skila sér í auknu umferðaröryggi. Það eru þó ekki eingöngu þessar stóru framkvæmdir sem skipta máli fyrir umferðaröryggið.
  • Víravegrið meðfram Stykkishólmsvegi um Vogsbotn sem sett var upp fyrir allmörgum árum.
  • Ræsi á Snæfellsnesvegi á sunnanverðu Snæfellsnesi sem þarf að lengja.
  • Ræsi á Snæfellsnesvegi á sunnanverðu Snæfellsnesi sem þarf að lengja og/eða setja upp vegrið.
  • Hraðahindrandi aðgerð á Hringvegi við innkomu í Hvolsvöll að austan (sunnan).
  • Vegrið með öryggisenda á Hringvegi við brú yfir Karlsá í Lóni.
  • Framkvæmdir eins og t.d. þær sem nú standa yfir á Hringvegi um Kjalarnes munu skila sér í auknu umferðaröryggi. Það eru þó ekki eingöngu þessar stóru framkvæmdir sem skipta máli fyrir umferðaröryggið.

700 milljónum varið í umferðaröryggisaðgerðir

8.7.2021

Alls verður 700 milljónum króna af viðhaldsfé Vegagerðarinnar í ár varið til verkefna umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda.

Vegagerðin leggur mjög mikla áherslu á umferðaröryggi og stöðugt er unnið að endurbótum á vegakerfinu í þeim tilgangi. Stærri umferðaröryggisaðgerðir, s.s. aðgreining akstursstefna,  breikkun einbreiðra brúa og gerð hringtorga, fá sérstakar fjárveitingar af stofnkostnaðarlið samgönguáætlunar.  Framkvæmdir eins og t.d. þær sem nú standa yfir á Hringvegi um Kjalarnes, þar sem akstursstefnur eru aðgreindar og tengingum inn á veg fækkar með tilkomu sérstakra hliðarvega, munu skila sér í auknu umferðaröryggi og sama má segja um breikkun einbreiðra brúa á umferðarmiklum vegum þar sem mörg slys hafa orðið. Það eru þó ekki eingöngu þessar stóru framkvæmdir sem skipta máli fyrir umferðaröryggið. Tiltölulega ódýrar aðgerðir geta skilað miklu. Árlega hefur hluta viðhaldsfjárveitinga verið ráðstafað sérstaklega til þeirra verkefna Vegagerðarinnar sem tilheyra umferðaröryggisáætlun og var fjárveitingin í ár, 700 milljónir króna.

Mörg verkefnanna snúa að lagfæringum á umhverfi vega og/eða að uppsetningu vegriða og það er engin tilviljun því meira en helmingur alvarlegustu slysanna á þjóðvegum í dreifbýli verður við útafakstur. Skv. núgildandi veghönnunarreglum skal vera svæði af ákveðinni breidd næst vegi sem er þannig útfært að  þar séu ekki hættur s.s. hættulegar hindranir eða mikill bratti. Þetta svæði kallast öryggissvæði. Þegar farið er í lagfæringar til að tryggja öryggissvæði er uppsetning vegriðs aldrei fyrsti kostur, fyrst er leitað leiða til að lagfæra umhverfi vegarins á annan hátt t.d. með því að draga úr bratta fláa (vegkants) eða lengja of stutt ræsi þannig að kröfur um öryggissvæði séu uppfylltar.  Einnig mætti nefna fyllingu skurða og brottnám stórgrýtis.

Nokkur verkefni á hverju ári felast í því að auka öryggi gangandi vegfarenda, s.s. þar sem þjóðvegur liggur um þéttbýlisstaði á landsbyggðinni. Það er m.a. gert með ýmsum hraðatakmarkandi aðgerðum, s.s. útfærslu öruggari gönguþverana og uppsetningu hraðaviðvörunarljósa. Í fyrra var ákveðið að fjármagna kaup á rauðljósa- og hraðamyndavél sem nýlega hefur verið sett upp við Hörgárbraut (Hringveg) á Akureyri en Vegagerðin sér um rekstur hraðamyndavéla víða um land í samstarfi við lögreglu og fleiri eftir því sem við á.

Öryggi nokkurra vegamóta verður aukið í ár. Vegamót Eyrarbakkavegar og Þorlákshafnarvegar verða endurbætt og einnig má nefna að gerðar verða svonefndar hjáreinar við fimm tengingar við Hringveg austan Akrafjalls en þær auka öryggi þeirra sem ætla að beygja af aðalveginum inn á hliðarveginn þar eð auðveldara verður að aka fram hjá ökutæki sem hefur stöðvað og því minni hætta á að ekið verði aftan á.

Bættar merkingar geta einnig skipt miklu máli til dæmis til að vekja athygli á vegamótum fram undan eða til að undirstrika stefnubreytingu vegar með því að setja upp beygjuörvar.

Hér á eftir er listi yfir þær umferðaröryggisaðgerðir Vegagerðarinnar í ár sem tengjast umferðaröryggisáætlun beint en svæði Vegagerðarinnar bera hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd umferðaröryggisaðgerðanna.

Helstu aðgerðir Vegagerðarinnar 2021 sem tengjast umferðaröryggisáætlun beint

Lagfæringar á umhverfi vega og/eða uppsetning vegriða:

Hringvegur nokkru vestan við Foss, uppsetning vegriðs við óvarið ræsi neðan vegar.

Hringvegur vestan Víkur, lagfæringar á umhverfi vegar sem felast i að draga úr bratta vegfláa.

Hringvegur út frá Ölfusárbrú, endurnýjun vegriðs meðfram vegi, ármegin.

Hringvegur um Kollafjörð, endurnýjun vegriða.

Hringvegur við steinvegg í Kollafirði, uppsetning vegriðs.

Skeiða- og Hrunamannavegur ofan Hlemmiskeiðs, lenging ræsa og lagfæringar á fláa við ræsin.

Þjórsárdalsvegur milli vegamóta við Skeiða- og Hrunamannaveg og Árness, ýmsar lagfæringar á öryggissvæði.

Eyrarbakkavegur út frá Óseyrarbrú, endurnýjun vegriðs meðfram vegi vestan brúar.

Biskupstungnabraut, ýmsar lagfæringar á öryggissvæði, frh.

Þingvallavegur frá Vinaskógi (í grennd við Kárastaði) að Grafningsvegi efri, ýmsar lagfæringar á umhverfi vegar.

Þingvallavegur milli Grafningsvegar efri og Kjósarskarðsvegar, ýmsar lagfæringa á umhverfi vegar, annar áfangi.

Þingvallavegur í grennd við Seljabrekku, lagfæring öryggissvæðis sem felst í því að fylla í skurð.

Laugarvatnsvegur ofan Laugarvatns, lenging nokkurra ræsa og lagfæring fláa við ræsin.

Krýsuvíkurvegur við Kleifarvatn, uppsetning vegriðs, frh.

Hvalfjarðarvegur við sunnanverðan Hvalfjörð, lenging sex ræsa og fleiri lagfæringar á umhverfi vegar.

Nesvegur í grennd við Grindavík, lagfæringar á umhverfi vegar sem felast í að draga úr bratta vegfláa.

Sandgerðisvegur við Miðnesheiðarveg, lagfæringar á umhverfi vegar sem felast fyrst og fremst í grjóthreinsun.

Hringvegur austan Akrafjalls, ýmsar lagfæringar á umhverfi vegar, fjórði áfangi.

Hringvegur undir Hafnarfjalli, ýmsar lagfæringar á umhverfi vegar, annar áfangi.

Hringvegur milli Hvítárvallavegar og Borgarfjarðarbrautar, ýmsar lagfæringar á umhverfi vegar, fjórði áfangi.

Akrafjallsvegur norðan Akrafjalls, ýmsar lagfæringar á umhverfi vegar, annar áfangi.

Snæfellsnesvegur milli Búlandshöfða og Grundarfjarðar, ýmsar lagfæringar á umhverfi vegar, frh.

Heydalsvegur um Haffjarðardalsgil, uppsetning vegriðs við stórt óvarið ræsi.

Vestfjarðavegur um Svínadal, uppsetning vegriðs, fyrsti áfangi. Verkefnið átti að hefjast árið 2020 en frestaðist.

Djúpvegur um Skötufjörð, uppsetning vegriðs, frh.

Djúpvegur í Hestfirði, lagfæringar á umhverfi vegar sem felast í endurmótun skeringar í þeim tilgangi að draga úr hættu á grjóthruni, frh.

Hringvegur í Hrútafirði, lagfæringar á umhverfi vegar, þriðji áfangi. Lagfæringar felast í lengingu ræsa og lagfæringum á fláa ofan vegar en uppsetningu vegriðs neðan vegar.

Hringvegur við Litlu-Giljá, lagfæringar á umhverfi vegar sem felast í að mýkja fláa á heimreið að Litlu-Giljá.

Hringvegur um Langadal og Vatnsskarð, frh. Lagfæring fláa og uppsetning vegriða, m.a. þar sem Svartá liggur nálægt vegi.

Hringvegur um Blönduhlíð. Lagfæringar á umhverfi vegar sem m.a. felast í að fylla í skurði.  Verkefnið var á áætlun árið 2020 en frestaðist þar sem ekki náðist að ljúka samningum við landeigendur.

Hringvegur um Öxnadalsheiði, lenging vegriðs.

Hringvegur við Másvatn. Uppsetning vegriðs þar sem vegur liggur nálægt vatni.

Hringvegur við Laxá, uppsetning vegriðs.

Ólafsfjarðarvegur milli Hringvegar og Hauganesvegar, ýmsar lagfæringar á umhverfi vegar, fyrsti áfangi. Verkefnið var á áætlun 2020 og efni var keypt en framkvæmd frestaðist.

Ólafsfjarðarvegur milli Hauganesvegar og Dalvíkur, ýmsar lagfæringar á umhverfi vegar, annar áfangi.

Hvammavegur í Þingeyjarsveit, uppsetning vegriðs í krappri beygju.

Laxárdalsvegur við Laxárgljúfur, uppsetning vegriðs.

Hringvegur um Fagradal. Ýmsar lagfæringar á umhverfi vegar, frh.

Hringvegur við Tóftá í Stöðvarfirði, lenging ræsis ofan vegar og uppsetning vegriðs neðan vegar.

Hringvegur í Álftafirði, uppsetning vegriðs við tvö óvarin ræsi/steypta stokka.

Hringvegur við Hvalnes, uppsetning vegriðs, annar áfangi.

Hringvegur sunnan Háöldu í Öræfum, lagfæringar á umhverfi vegar sem felast í að bæta efni í vegfláa og draga þar með úr bratta hans.

Hringvegur um Skeiðarársand, lenging ræsa, frh.

Norðfjarðarvegur á Hólmahálsi, milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, lenging vegriðs.

Lagarfossvegur við Lagarfoss, uppsetning vegriðs.

Lagfæring vegamóta:

Hringvegur við Reynishverfisveg, gerð hægri beygju fleygs.

Skeiða- og Hrunamannavegur við Hrunaveg á Flúðum, útfærsla vegamóta lagfærð.

Eyrarbakkavegur við Þorlákshafnarveg, stefnugreining vegamóta.

Fljótshlíðarvegur við Lambalækjarveg, færsla Lambalækjarvegar til að auka öryggi vegamótanna.

Hringvegur austan Akrafjalls.  Gerð hjáreina við fimm tengingar.

Búfjár- og reiðgöng:

Hringvegur undir Eyjafjöllum, milli Núps og Hvamms, gerð búfjárræsis.

Biskupstungnabraut við Myrkholt, gerð reiðganga, frh.

Sérstakar aðgerðir við áningarstaði:

Hringvegur við áningarstað í Eldhrauni, framhald aðgerða frá 2020 sem fólust í að bæta tengingu að áningarstaðnum með gerð hægri beygju fleygs.

Öryggisaðgerðir í þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni og víðar þar sem mikið er um umferð gangandi fólks og einnig á fleiri stöðum þar sem leyfilegur hámarkshraði hefur verið lækkaður af einhverjum ástæðum:

Hringvegur við Þingborg, uppsetning hraðaviðvörunarljósa.

Hringvegur um Selfoss. Aðgerðir sem felast í setja þrengingar við átta gangbrautir í þeim tilgangi að koma í veg fyrir framúrakstur.  Einnig verður lýsing við gangbrautirnar bætt.

Fljótshlíðarvegur Hvolsvelli, gerð upphækkuð gangbraut með lýsingu.

Djúpvegur Ísafirði, við hringtorg móts við kirkju, bætt lýsing við þrjár gangbrautir.

Flateyrarvegur við innkomu í bæinn, uppsetning hraðaviðvörunarljóss.

Innnesvegur sunnan Leynisbrautar á Akranesi, upphækkuð gönguþverun og uppsetning hraðaviðvörunarljóss.

Útnesvegur vestan Ólafsvíkur.  Breyting á kantsteinum og miðeyjum  og uppsetning gagnvirkrar hraðahindrunar. Tilraunaverkefni.

Þingeyrarvegur við innkomu í bæinn, uppsetning hraðaviðvörunarljóss.

Drangsnesvegur, hraðahindrandi aðgerðir, annar áfangi.

Hringvegur sunnan Varmahlíðar, uppsetning hraðaviðvörunarljóss.

Hringvegur norðan við afleggjara að leikskóla við Lónsbakka, uppsetning hraðaviðvörunarljóss.

Hringvegur norðan við innkomu í þéttbýli Reykjahlíðar, uppsetning hraðaviðvörunarljóss.

Hvammstangavegur við innkomu í Hvammstanga, uppsetning hraðaviðvörunarljósa.

Grenivíkurvegur við innkomu í bæinn, uppsetning hraðaviðvörunarljóss.

Mývatnssveitarvegur við Skútustaði, stýring gangandi umferðar. Verkefnið var á áætlun 2020 en frestaðist.

Þórshafnarvegur við innkomu í bæinn, uppsetning hraðaviðvörunarljóss.

Hringvegur við Jökulsá á Breiðamerkursandi, uppsetning hraðaviðvörunarljósa.

Borgarfjarðarvegur um Eiðar, uppsetning hraðaviðvörunarljósa.

Djúpavogsvegur við innkomu í bæinn, hraðahindrandi aðgerðir, annar áfangi.

Verkefni sem tengjast kaupum á hraðamyndavélum og rekstri sjálfvirks hraðaeftirlits:

Hraða- og rauðljósamyndavél til notkunar við gatnamót á Hringvegi um Akureyri. Verkefnið felst í að ljúka vinnu við gangsetningu myndavélarinnar sem keypt var árið 2020.

 

Ofangreindur listi er ekki tæmandi,  víða verða merkingar bættar og auk þess fá þjónustustöðvar Vegagerðarinnar sérstakar fjárveitingar til  ýmissa aðgerða svo eitthvað sé nefnt.