Fréttir
 • Unnið að því að draga úr bratta vegfláa.
 • Ólafsfjarðarvegur milli Hringvegar og Dalvíkur. Unnið verður að ýmsum lagfæringum á umhverfi vegarins í ár.
 • Mikil umferð gangandi fólks er jafnan í grennd við Skútustaði í Mývatnssveit enda má þar m.a. finna hina frægu Skútustaðagíga. Í ár verður unnið að því að stýra gangandi umferð betur um svæðið.
 • Of stutt ræsi við Brandslæk í Mýrdal sem nú hefur verið lengt.
 • Djúpvegur vestan Bolungarvíkurganga, þarna stendur til að lagfæra umhverfi vegar til að draga úr snjókófi sem getur myndast við gangamunnann.

650 milljónum varið í umferðaröryggisaðgerðir

Verkefni Vegagerðarinnar í tengslum við umferðaröryggisáætlun stjórnvalda 2020

12.5.2020

Alls verður 650 milljónum króna varið til verkefna Vegagerðarinnar í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda í ár. Þar af var 150 milljónum úthlutað í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisins vegna COVID-19. Verkefnin eru fjölmörg og fjölbreytt og miða öll að því að auka öryggi vegfarenda.

„Vegagerðin vinnur stöðugt að endurbótum á vegakerfinu,“ segir Auður Þóra Árnadóttir forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar. Undanfarin ár hefur um 500 milljónum króna af viðhaldsfjárveitingum verið varið í þau verkefni Vegagerðarinnar sem tilheyra umferðaröryggisáætlun. Í ár fengust 650 milljónir til þessara verkefna vegna 150 milljóna króna aukafjárveitingar ríkisins.

Auður segir viðbótina afar mikilvæga. „Við gátum bætt við mörgum mikilvægum verkefnum,“ segir hún en af nægu er að taka. „Mörg verkefni snúa að lagfæringum á umhverfi vega og/eða uppsetningu vegriða. Tilgangurinn er sá að draga úr líkum á alvarlegum meiðslum fólks þegar bifreiðar lenda út af vegi en meira en helmingur alvarlegustu slysanna á þjóðvegum í dreifbýli verður við útafakstur.  Einnig má nefna mörg verkefni sem ganga út á að auka öryggi við vegamót.  Þau geta verið margs konar; eins og gerð hjáreina eða vinstri beygju vasa, bættar merkingar og aukin lýsing.“

Ekki má gleyma einbreiðu brúnum. Auður bendir á að jafnt og þétt hafi verið unnið að fækkun þeirra en enn sé langt í land. „Þess vegna vinnum við markvisst að því að merkja þessar einbreiðu brýr betur, til dæmis með uppsetningu blikkljósa. Á síðasta ári var síðan tekin sú ákvörðun að lækka leyfilegan hámarkshraða við þær á vegum með umferð yfir ákveðnum mörkum.“

Nokkur verkefni á hverju ári felast í því að auka öryggi gangandi vegfarenda, til dæmis þar sem þjóðvegur liggur um þéttbýlisstaði á landsbyggðinni. Í ár var meðal annars ákveðið að fjármagna kaup á rauðljósa- og hraðamyndavél sem sett verður upp við Hörgárbraut (Hringveg) á Akureyri en Vegagerðin sér um rekstur hraðamyndavéla  í samstarfi við lögreglu og fleiri eftir því sem við á.

Lítil lagfæring getur skipt miklu

Auður segir litlar lagfæringar geta breytt mjög miklu varðandi umferðaröryggi.  „Markmið með lagfæringum á umhverfi vega er meðal annars að gera öryggissvæði vegarins, það er svæðið næst vegi, þannig úr garði að ökutæki sem hafnar utan vegar geti komist hjá því að velta, það geti staðnæmst smám saman og komist aftur inn á veginn náist stjórn á ökutækinu,“ segir Auður og bendir á að gömul ræsi séu mörg of stutt og þá geti myndast nokkurs konar dæld í vegfláann, vegkantinn, á stuttum kafla í kringum ræsið. „Ef einhver er svo óheppinn að lenda út af vegi í grennd við ræsið getur farið illa og ökutækið oltið. Það þarf ekki að vera svo dýrt að lengja ræsi og laga vegfláann í kring en sú aðgerð getur svo sannarlega verið fljót að borga sig.“

Hún tekur annað dæmi um staka steina innan öryggissvæðis sem lögð er mikil áhersla á að fjarlægja því alvarleg slys geta orðið ef ökutæki lenda á þeim við útafakstur.  „Í þessu sambandi má geta þess að í svonefndum umferðaröryggisúttektum er einmitt lögð áhersla á að skrá þessi atriði svo hægt sé að vinna að lagfæringum áður en slysin verða en að sjálfsögðu eru aðgerðir á þekktum slysastöðum alltaf í forgangi.“

Svæði Vegagerðarinnar bera hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd umferðaröryggisaðgerðanna og eins og sjá má hér að neðan er listinn langur og að mörgu að hyggja. Auður segir sérstaklega ánægjulegt að finna hvað áhuginn á þessum málum er mikill.

Aðgreining akstursstefna, hringtorg og breikkun brúa

Stærri umferðaröryggisaðgerðir eins og aðgreining akstursstefna, gerð hringtorga og breikkun einbreiðra brúa, fá sérstakar fjárveitingar af stofnkostnaðarlið samgönguáætlunar og falla því ekki undir verkefni umferðaröryggisáætlunar. Þó nokkur slík verkefni verða unnin í ár. Nú þegar er unnið að aðgreiningu akstursstefna á Reykjanesbraut milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegamóta. Þá er stutt í að framkvæmdir hefjist við breikkun Hringvegar milli Skarhólabrautar og Langatanga í Mosfellsbæ, breikkun Hringvegar milli Bæjarháls og Nesbrautar og síðast en ekki síst næsta áfanga breikkunar Hringvegar milli Hveragerðis og Selfoss. „Þá má einnig sérstaklega nefna að nýlega hefur verið ákveðið að gera hringtorg við Landvegamót,“ bendir Auður á.


Helstu aðgerðir Vegagerðarinnar 2020 sem tengjast umferðaröryggisáætlun beint


Lagfæringar á umhverfi vega og/eða uppsetning vegriða:

 • Hringvegur milli Skaftafells og Kirkjubæjarklausturs, lenging ræsa á mörgum stöðum
 • Hringvegur við Kötlugarð, breikkun vegar við blindhæð og lagfæring fláa
 • Hringvegur vestan Víkur, uppsetning vegriða
 • Hringvegur milli Þjórsár og Selfoss, lenging ræsa og lagfæring fláa við ræsi
 • Þingvallavegur um Mosfellsheiði, lagfæring umhverfis vegar, frh.
 • Laugarvatnsvegur við Brekkulæk, uppsetning vegriðs
 • Krýsuvíkurvegur milli Leiðarendavegar (fyrrum Bláfjallavegar) og Vatnsskarðs, lagfæring fláa
 • Krýsuvíkurvegur við Kleifarvatn, uppsetning vegriðs, frh.
 • Hringvegur austan Akrafjalls, lagfæringar á umhverfi vegar, frh.
 • Hringvegur undir Hafnarfjalli, lagfæringar á umhverfi vegar
 • Hringvegur frá Hvítárvallavegi að Borgarfjarðarbraut, lagfæringar á umhverfi vegar, frh.
 • Snæfellsnesvegur  milli Búlandshöfða og Kirkjufells, lagfæringar á umhverfi vegar, frh.
 • Snæfellsnesvegur milli Vatnaleiðar og Stykkishólmsvegar, lagfæringar á umhverfi vegar
 • Vestfjarðavegur um Svínadal, uppsetning vegriða
 • Djúpvegur vestan Bolungarvíkurganga, lagfæringar á umhverfi til að draga úr snjókófi við gangamunna
 • Drangsnesvegur, uppsetning vegriðs
 • Hringvegur Hrútafirði, lagfæringar á umhverfi vegar, frh. Lenging ræsa og lagfæring fláa.
 • Hringvegur sunnan Blönduóss, lagfæringar á fláum annars vegar við Öxl og hins vegar við Stóru-Giljá
 • Hringvegur um Langadal og Vatnsskarð, lagfæringar á umhverfi og uppsetning vegriða, frh.
 • Hringvegur um Blönduhlíð, fylling skurða
 • Hringvegur sunnan Vaðlaheiðarganga, uppsetning vegriðs
 • Ólafsfjarðarvegur milli Hringvegar og Dalvíkur, lagfæringar á umhverfi vegar og uppsetning vegriða
 • Hringvegur um Fagradal, lenging ræsa, lagfæring á fláa og uppsetning vegriða, frh.
 • Hringvegur austan í Kambaskriðum, uppsetning vegriða, frh.
 • Hringvegur í Álftafirði, uppsetning vegriðs við tvö ræsi
 • Hringvegur í grennd við Hvalnes, uppsetning vegriðs, 1. áfangi
 • Upphéraðsvegur í grennd við Lagarfljót, uppsetning vegriða á tveimur stöðum

 

Lagfæring vegamóta:

 • Hringvegur við Reynishverfisveg, gerð hægri beygju fleygs
 • Hringvegur við Skógaveg, gerð vinstri beygju vasa
 • Hringvegur við Þórsmerkurveg, útfærsla nýrra vegamóta með klæðingu og máluðum eyjum
 • Hringvegur við Urriðafossveg, gerð hjáreinar
 • Grindavíkurvegur við tengingu að HS-orku, gerð hægri beygju fleygs
 • Hringvegur við Hróarstunguveg, lagfæringar langhalla Hróarstunguvegar og umhverfis vegamótanna

 

Bætt lýsing:

 • Vegamót Hringvegar og Norðfjarðarvegar vestan Reyðarfjarðar
 • Vegamót Hringvegar og Vattarnesvegar í grennd við Fáskrúðsfjörð
 • Vegamót Norðfjarðarvegar og Mjóeyrarvegar
 • Vegamót Norðfjarðarvegar og vegar að álveri Fjarðaáls
 • Norðfjarðarvegur við Neskaupstað, bætt lýsing, frh.
 • Skriðdals- og Breiðdalsvegur sunnan Egilsstaða, bætt lýsing, frh.

 

Búfjár- og reiðgöng:

 • Hringvegur undir Eyjafjöllum, milli Núps og Hvamms, gerð búfjárræsis
 • Biskupstungnabraut við Myrkholt, gerð reiðganga

 

Uppsetning blikkljósa við einbreiðar brýr:

 • Borgarfjarðarbraut, 3 brýr
 • Snæfellsnesvegur, 2 brýr
 • Laxárdalsvegur, 1 brú
 • Hálsasveitarvegur, 1 brú
 • Norðausturvegur, 1 brú
 • Eyjafjarðarbraut vestri, 3 brýr
 • Hólsfjallavegur, 3 brýr

 

Sérstakar aðgerðir við áningarstaði:

 • Hringvegur í Eldhrauni, bætt öryggi við tengingu að áningarstað með gerð hægri beygju fleygs.

Öryggisaðgerðir í þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni og víðar þar sem mikið er um umferð gangandi fólks:

 • Drangsnesvegur um Drangsnes, hraðahindrandi aðgerðir
 • Ólafsfjarðarvegur um Dalvík, gangbraut með miðeyju, verkefni frá fyrra ári
 • Mývatnssveitarvegur við Skútustaði, stýring gangandi umferðar
 • Kísilvegur við Heiðarbæ, aðskilnaður bílaplans frá vegi, þarna er félagsheimili og tjaldsvæði
 • Djúpavogsvegur, gönguþverun og fl.

 

Ofangreindur listi er ekki tæmandi,  víða verða merkingar bættar og auk þess fá þjónustustöðvar Vegagerðarinnar sérstakar fjárveitingar til  ýmissa aðgerða svo eitthvað sé nefnt.

 

Verkefni sem tengjast kaupum á hraðamyndavélum og rekstri sjálfvirks hraðaeftirlits:

 • Kaup og uppsetning rauðljósa- og hraðamyndavélar til notkunar við Hringveg um Akureyri.  Gert í samráði við lögreglu.
 • Hefðbundinn rekstur hraðamyndavélakerfisins, þ.m.t. kvörðun búnaðar.