Fréttir
  • Snjómokstur í Önundarfirði (625). Mynd/Haukur Sigurðsson

50 milljóna króna kostnaður á einum degi

Snjóruðnings- og hálkuvarnarbílum á vegum Vegagerðarinnar var ekið 28 þúsund km á föstudag.

4.3.2020

Stærsti vetrarþjónustudagur Vegagerðarinnar það sem af er vetri var föstudaginn 28. febrúar. Þann dag var snjóruðnings- og hálkuvarnarbílum ekið um það bil 28 þúsund kílómetra. Kostnaðurinn við aksturinn einan er áætlaður um 25 milljónir króna og eru þá ótalinn kostnaður vegna snjóblásara, vinnuvéla og eftirlits með færð á vegum auk annarar vinnu sem unnin er á þjónustustöðvum Vegagerðarinnar. Gróflega áætlaður kostnaður þessa dags er því í kringum fimmtíu milljónir króna, ef allt er tekið með í reikninginn.

Annar stærsti stærsti vetrarþjónustudagur vetrarins var 9. janúar þegar eknir voru 26.200 km og þriðji stærsti dagurinn var 7. janúar en þá voru eknir 25.800 km.

Janúar hefur verið sérstaklega erfiður í vetrarþjónustu. Í janúar voru eknir um 490 þúsund kílómetrar en í janúar 2019 voru eknir um 390 þúsund km. Akstur í janúar á þessu ári er því um 26% meiri en í fyrra.

Í febrúar voru eknir um 335 þúsund km en í febrúar í fyrra voru eknir 281 þúsund km. Hækkun um 19% milli ára. Fyrri hluti febrúar var fremur rólegur en síðari hluti hans var mun erfiðari.