1909

Austri, 31. des. 1909, 19. árg., 48. tbl., bls. 182:

Fagradalsbrautin.
Hinn 6. ágúst, síðastliðið sumar, í fögru veðri, lagði ég af stað til að skoða brautina. Bygging brautarinnar var þá komin niður fyrir Egilsstaðaháls að norðan, en að eins mölborin nærri á hálsbrún að sunnanverðu. Þar tekur við Egilsstaðaskógur. Liggur brautin um skóginn ofan hálsinn í mörgum bugðum. Þar er víða fagurt útsýni, einkum af hálsbrúninni, yfir skóginn og Héraðið. Þá var skógurinn þakinn laufum og skógar-rjóðrin vafin blómgresi, er sameinuðu skógar blóm-ilm í einu, sem kvöldblærinn flutti að "vitum" manns, er gjörir bæði að hressa og endurnæra hinn þreytta ferðamann. Margur staðurinn er fallegur á Íslandi. "Ó, fögur er vor fjósturjörð um fríða sumardaga".....


Ég er ekki fróður um það hvernig haga skal vegagjörð þegar um akbraut er að ræða, dæmi heldur ekki um það, en mér kom Fagradalsbrautin þannig fyrir sjónir, að hún væri vel og traustlega byggð Reyðarfjarðarmegin, að undanteknum stuttum kafla milli Bakkagerðiseyrar og Búðareyrar, en vitanlega verður bætt upp á það sem áfátt er á þessum kafla.


Hætt er brautinni við skemmdum, sumstaðar, af hlaupum úr fjöllunum, einkum úr fjallinu á hægri hönd (Grænafelli?) í dalsmynninu, þá farið er upp úr Reyðarfirði. Í "Skriðunum" liggur brautin tæpt á gilbarmi. Þar virðist vera þörf á einhverju öruggu til varnar því að akfæri skriki ekki framaf, og einnig til þess að vísa á brautarbrúnina, þá snjór liggur yfir. Samskonar þarf að setja á brautina víða annarstaðar, þar sem hún er hátt hlaðin upp, t. d. ferstrenda uppmjóa steina, líka þeim er standa á nyrðra sporði Lagarfljótsbrúar. Sjálfsagt verða settir þesskonar steinar á brautina þar sem þörf er á, en það er allmikið verk og kostnaðarsamt.


Á brautinni eru 10 sperrubrýr úr tré, yfir ár, vel smíðaðar, en heldur grannar að viðum. Margar minni trébrýr eru á brautinni yfir læk, og einnig margar hlaðnar úr grjóti. Sumar þeirra eru mikið mannvirki.
Stólpar þeir, er sperrubrú sú hvílir á, er liggur yfir Fagradalsána, virðast hefðu þurft að vera 3-4 fetum hærri, til varnar því, að ekki mikil snjóþyngsli legðust á brúna.
Víðast hvar í dalnum er jarðvegurinn þakinn skriðuhlaupum úr fjöllunum, þar er ágætt byggingarefni í brautinni "sjálfgjörður" steinmulningur eins og Reyðarfjarðarmegin og í Skriðunum; má því gjöra ráð fyrir að brautin standi allvel þar sem svo hagar til. Aftur á móti er hættara við að hún endist miður þar sem brautin er hátt hlaðin úr moldblöndnum jarðvegi, svo sem í hinum svokölluðu "Græfum" Héraðsmegin á dalnum og beggja vegna í Egilsstaðahálsinum, þar sem hið efsta malarlag hvílir á mold eða mýrartorfi. Á nokkrum stöðum hafði hlaupið hleðslan á neðri hlið brautarinnar, þar sem hún er þakin hátt með grastorfi og mikill halli er.
Síðari hluta septbr.mán byrjuðu menn að aka eftir brautinni og höfðu á vagni með 2 hestum 1800 - 2000 pund.


Fyrstu daga októbermánaðar gjörði mikla snjóa á fjöll með kraparegni í byggð, þegar "kauptíðin" stóð hæst á síðast liðnu hausti. Hætti þá umferð um dalinn aðeins um 5 daga. Þegar umferð hófst aftur óku menn á vagninum 1000 - 1400 pundum, og á kerru með einum hesti 700 - 800 pd. Þá var illkleyft sökum snjódýptar aðra fjallvegi.


Hinn 15. oktbr. gjörði stórrigningarveður og vatnavexti mikla, svo elstu menn muna ei meir en annað eins. Óttuðust menn þá fyrir að brautin hefði bilað, þar nær og fjær var að frétta stórskaða og skemmdir, ekki einungis á heyjum, húsum og fénaði, heldur einnig á vegum og brúm. Til dæmis á einum stað sópaði burt brú, og stólpum úr stórgrýti, er staðið hefir í tugi ára. - En það var vonum minna, sem Fagradalsbrúin bilaði. Á stöku stöðum skorningar og á einum stað stórt aurhlaup. Gefur það von um að brautin muni standa vel framvegis, sé henni vel haldið við, sem sjálfsagt verður gjört. Árlegt viðhald brautarinnar verður sennilega bæði mikið verk og dýrt, einkum fyrst í stað. Líklegt er, að þar sem brautin er undirorpin mestum skemmdum, verði svo vel og traustlega byggt upp aftur, að viðhaldið minnki ár frá ári.


Til viðhalds flutningsbrauta er veitt á fjárlögum 1910 - 1911 7 þús. kr. hvort ár. Brautirnar eru 6 að tölu. Sá kvóti er Fagradalsbrautin fær af þessu fé, léttir auðvitað kostnað við viðhald hennar, en mikið fé hljóta Múlasýslur að leggja fram í þessu skyni, þessi ár.
Til að fullgjöra brautina frá Egilsstöðum að Lagarfljótsbrú, er veitt hvort ár fjárhagstímabilsins, 3 þús. krónur.


Fagradalsbrautin er mikið og þarft mannvirki fyrir Austurland og allt landið, en einkum fyrir þau byggðarlög, er brautin tengir saman, Reyðarfjörð og Fljótsdalshérað.
Það eru engar öfgar eða loftkastalar, þó gjört sé ráð fyrir, að hinar greiðu samgöngur og haganleg viðskipti milli Reyðarfjarðar og Fljótsdalshéraðs gjöri það að verkum, að byggð aukist og íbúum fjölgi mikið, innan fárra ára á báðum þessum stöðum. Þegar það er orðið og þar eru risnar upp blómlegar byggðir og fjörugt viðskiptalíf, hygg ég að sá "spádómur" rætist, að þá verði lögð járnbraut gegn um Fagradalinn.


Austri, 31. des. 1909, 19. árg., 48. tbl., bls. 182:

Fagradalsbrautin.
Hinn 6. ágúst, síðastliðið sumar, í fögru veðri, lagði ég af stað til að skoða brautina. Bygging brautarinnar var þá komin niður fyrir Egilsstaðaháls að norðan, en að eins mölborin nærri á hálsbrún að sunnanverðu. Þar tekur við Egilsstaðaskógur. Liggur brautin um skóginn ofan hálsinn í mörgum bugðum. Þar er víða fagurt útsýni, einkum af hálsbrúninni, yfir skóginn og Héraðið. Þá var skógurinn þakinn laufum og skógar-rjóðrin vafin blómgresi, er sameinuðu skógar blóm-ilm í einu, sem kvöldblærinn flutti að "vitum" manns, er gjörir bæði að hressa og endurnæra hinn þreytta ferðamann. Margur staðurinn er fallegur á Íslandi. "Ó, fögur er vor fjósturjörð um fríða sumardaga".....


Ég er ekki fróður um það hvernig haga skal vegagjörð þegar um akbraut er að ræða, dæmi heldur ekki um það, en mér kom Fagradalsbrautin þannig fyrir sjónir, að hún væri vel og traustlega byggð Reyðarfjarðarmegin, að undanteknum stuttum kafla milli Bakkagerðiseyrar og Búðareyrar, en vitanlega verður bætt upp á það sem áfátt er á þessum kafla.


Hætt er brautinni við skemmdum, sumstaðar, af hlaupum úr fjöllunum, einkum úr fjallinu á hægri hönd (Grænafelli?) í dalsmynninu, þá farið er upp úr Reyðarfirði. Í "Skriðunum" liggur brautin tæpt á gilbarmi. Þar virðist vera þörf á einhverju öruggu til varnar því að akfæri skriki ekki framaf, og einnig til þess að vísa á brautarbrúnina, þá snjór liggur yfir. Samskonar þarf að setja á brautina víða annarstaðar, þar sem hún er hátt hlaðin upp, t. d. ferstrenda uppmjóa steina, líka þeim er standa á nyrðra sporði Lagarfljótsbrúar. Sjálfsagt verða settir þesskonar steinar á brautina þar sem þörf er á, en það er allmikið verk og kostnaðarsamt.


Á brautinni eru 10 sperrubrýr úr tré, yfir ár, vel smíðaðar, en heldur grannar að viðum. Margar minni trébrýr eru á brautinni yfir læk, og einnig margar hlaðnar úr grjóti. Sumar þeirra eru mikið mannvirki.
Stólpar þeir, er sperrubrú sú hvílir á, er liggur yfir Fagradalsána, virðast hefðu þurft að vera 3-4 fetum hærri, til varnar því, að ekki mikil snjóþyngsli legðust á brúna.
Víðast hvar í dalnum er jarðvegurinn þakinn skriðuhlaupum úr fjöllunum, þar er ágætt byggingarefni í brautinni "sjálfgjörður" steinmulningur eins og Reyðarfjarðarmegin og í Skriðunum; má því gjöra ráð fyrir að brautin standi allvel þar sem svo hagar til. Aftur á móti er hættara við að hún endist miður þar sem brautin er hátt hlaðin úr moldblöndnum jarðvegi, svo sem í hinum svokölluðu "Græfum" Héraðsmegin á dalnum og beggja vegna í Egilsstaðahálsinum, þar sem hið efsta malarlag hvílir á mold eða mýrartorfi. Á nokkrum stöðum hafði hlaupið hleðslan á neðri hlið brautarinnar, þar sem hún er þakin hátt með grastorfi og mikill halli er.
Síðari hluta septbr.mán byrjuðu menn að aka eftir brautinni og höfðu á vagni með 2 hestum 1800 - 2000 pund.


Fyrstu daga októbermánaðar gjörði mikla snjóa á fjöll með kraparegni í byggð, þegar "kauptíðin" stóð hæst á síðast liðnu hausti. Hætti þá umferð um dalinn aðeins um 5 daga. Þegar umferð hófst aftur óku menn á vagninum 1000 - 1400 pundum, og á kerru með einum hesti 700 - 800 pd. Þá var illkleyft sökum snjódýptar aðra fjallvegi.


Hinn 15. oktbr. gjörði stórrigningarveður og vatnavexti mikla, svo elstu menn muna ei meir en annað eins. Óttuðust menn þá fyrir að brautin hefði bilað, þar nær og fjær var að frétta stórskaða og skemmdir, ekki einungis á heyjum, húsum og fénaði, heldur einnig á vegum og brúm. Til dæmis á einum stað sópaði burt brú, og stólpum úr stórgrýti, er staðið hefir í tugi ára. - En það var vonum minna, sem Fagradalsbrúin bilaði. Á stöku stöðum skorningar og á einum stað stórt aurhlaup. Gefur það von um að brautin muni standa vel framvegis, sé henni vel haldið við, sem sjálfsagt verður gjört. Árlegt viðhald brautarinnar verður sennilega bæði mikið verk og dýrt, einkum fyrst í stað. Líklegt er, að þar sem brautin er undirorpin mestum skemmdum, verði svo vel og traustlega byggt upp aftur, að viðhaldið minnki ár frá ári.


Til viðhalds flutningsbrauta er veitt á fjárlögum 1910 - 1911 7 þús. kr. hvort ár. Brautirnar eru 6 að tölu. Sá kvóti er Fagradalsbrautin fær af þessu fé, léttir auðvitað kostnað við viðhald hennar, en mikið fé hljóta Múlasýslur að leggja fram í þessu skyni, þessi ár.
Til að fullgjöra brautina frá Egilsstöðum að Lagarfljótsbrú, er veitt hvort ár fjárhagstímabilsins, 3 þús. krónur.


Fagradalsbrautin er mikið og þarft mannvirki fyrir Austurland og allt landið, en einkum fyrir þau byggðarlög, er brautin tengir saman, Reyðarfjörð og Fljótsdalshérað.
Það eru engar öfgar eða loftkastalar, þó gjört sé ráð fyrir, að hinar greiðu samgöngur og haganleg viðskipti milli Reyðarfjarðar og Fljótsdalshéraðs gjöri það að verkum, að byggð aukist og íbúum fjölgi mikið, innan fárra ára á báðum þessum stöðum. Þegar það er orðið og þar eru risnar upp blómlegar byggðir og fjörugt viðskiptalíf, hygg ég að sá "spádómur" rætist, að þá verði lögð járnbraut gegn um Fagradalinn.