1907

Austri, 26. janúar 1907, 17. árg.,3. tbl., forsíða:

Vegir og vegleysur.
Það eru til ótal vegir og enn þá fleiri vegleysur, svo það væri að ergja óstöðugan að elta allar þær slóðir; ég vil því aðeins víkja máli í þetta sinn að hinum svonefndu hreppa- og sýsluvegum um sveitirnar og héruð landsins, og leitast við að vekja athygli almennings á ýmsum atriðum sem þar að lúta, án þess ég þó vilji skuldbinda mig til að þræða þráðbeint alla þá troðninga og ösla hverja forarkelduna á fætur annari. Má því enginn kippa sér upp við það þó ég staldri við á stöku stað og bindi skóþvengi mína, eða vindi úr plöggum mínum. Það má hver kalla það útúrdúra sem vill.
Þá er nú formálanum og ferðabæninni lokið, kippi ég því upp um mig sokkunum og held af stað í snatri. Mun ekki af veita, því vegurinn er víða há bölvaður og löng leið fyrir höndum.
Allir, sem til vits og ára eru komnir, þekkja hve afar ógreiðfært er bæja á milli víða hér á landi, á öllum tímum ársins, að undanteknum tíma og tíma að vetrarlagi, þegar það dettur í þá frændurna Frosta og Snæ, að ditta að vegarháðsmáninni og bæta með því samgöngur manna, með ís og hjarni. Við megum vera þeim kumpánum þakklátir í aðra röndina, þótt þeir gjöri oss um leið skömm til. En verst er - þótt menn finni ekki svo mikið til þess að vissu leyti - að þessir nýnefndu herrar eru svo ærið mistækir og oft og einatt mjög gjarnir til dutlunga, fá menn því ekki nema með höppum og glöppum notið aðstoðar þeirra í almenningsþarfir og til samgangnabóta. Því þó "fröken" Þíða sé þeim dálítið hliðholl með köflum, og búi í haginn fyrir hinn fyrnefnda þegar hún hefir lokið vegferð sinni í það og það sinn, þá ólagar hún samt verk þeirra félaga á ýmsan hátt og gjörir það loks að engu, og þegar svo mikið kveður að henni, eru þeir algjörlega neyddir til að leggja á flótta, og fá þeir ekki vatni haldið. Sjaldan láta þeir samt hjá líða að gjöra bændum og búþegnum meiri og minni skráveifur, áður en gjörðir eru upp reikningarnir, og er það ærið nóg til þess að gjöra þá og þeirra viðskipti flestum mönnum hvimleið. Öllum getst því mun betur að ungfrúnni, þó hverflynd sé.
Að öllum líkindum á það kippkorn í land að akvegir verði lagðir - af mennskum höndum - um héruðin, þvert og endilangt, en látum það nú vera. Auðvitað væri mjög æskilegt að vegir hér á landi kæmust í það horf, en það er nú ekki kastað til slíks höndunum. Landsmenn hafa í mörg horn að líta. Sjáum fyrst hina fögru ávexti Fagradalsbrautarinnar, sem mun verða mikið mannvirki þegar fullgjör er, enda mun hún þá hafa kostað Austfirðinga og allt landið ærna peninga, svo þeir munu vel þess verðir að njóta ávaxtanna af því skilningstré. Fullvel mætti una við það í bráð, ef vegirnir um byggðir landsins væru þannig úr garði gjörðir, að menn og skepnur gætu farið óhindraðar og fyrirstöðulítið eftir þeim, að svo miklu leyti sem unnt er. Nú hefir Ísland verið byggt í liðug þúsund ár og á því tímabili hefir það stigið margt gott spor, einkum á síðari tímum, en samt eru vegirnir í landinu annað eins hundspott og þeir eru. Hér hafa landsmenn "dagað uppi" eins og hver önnur nátttröll. Þeir kynnu best frá því að segja, o. fl., hestarnir okkar, sem stynja undir þungum klyfjum og klöngrast og kafa vegleysurnar. Við erum stráka heppnastir, að þeim skuli vera varnað málsins!
Það er margra manna álit að sá maður sé í meira en í meðallagi orðvar, sem ekki hrýtur blótsyrði af vörum, eða að minnsta kosti bölvar í hljóði, þegar vesalings hesturinn hans hnýtur, svo að segja í öðru hverju spori, eða veður fen og forræði milli hnés og kviðar - gott, þegar hann liggur ekki í kafi í einhverri forarkeldunni. Já, mann-garminum er nú raunar ekki láandi þó honum verði dálítið gramt í geði, þegar svo lætur. En, má ég spyrja: á hverjum lætur hann gremju sína og fúkyrðin - sem henni fylgja - fyrst bitna? Ekki vænti ég að hann fari að bannsyngja sjálfan sig, sem þó lægi næst. Ónei, hann lætur það vera, mannskepnan, heldur bölsótast hann yfir hestinum og veginum. "Getur ekki klárskrattinn staðið á bölvuðum bífunum!" - "Mikill helv... vegur er þetta!" Ég hefi því miður verið heyrnarvottur að svona ófögrum ummælum og fleiri líkum óbænum, þegar hestur hefir hnotið um stein í götu, eða legið í einhverri keldunni. Mörgum fantinum þykir ekki nóg að láta slíkt um munn fara, heldur - eins og til frekari áherslu - láta þeir svipuna ríða af alefli einhversstaðar á skrokk vesalings skepnunnar saklausu. Þetta varðar ekki við lög - nema þá ef til vill, ef því meiri brögð eru að, - en gefi maður náunganum "á hann" þótt fyrir ærnar sakir kunni að vera, varðar það fésektum eða fangelsi eftir atvikum. En látum það nú vera þótt vér mennirnir séum ögn rétthærri en klárinn okkar. En hvað býður mannúðarskyldan oss? Það er reiðinnar rammskakki hugsunarháttur og mannvonskufullt skeytingar- og tilfinningaleysi, að skeyta skapi sínu á saklausum málleysingjanum - skynlausri skepnunni sem svo er almennt talin. Skellum heldur skuldinni og skömminni á okkur mennina sjálfa, því þar á það heima að því er þetta snertir. Ég er ekki að telja menn til að bannsyngja sjálfa sig í heyrandi hljóði - enda er fæstum það lagið - þótt söngmenn séu. Vér vinnum hvort sem er ekkert með slíkum stóryrðum hvorki á þá hlið né aðra. Temji menn sér aðeins, að hugsa og starfa með skynsamlegri ályktun og samviskusemi án þess að gefa heimskunni og gáleysinu of slakan taum, munu menn fljótt komast að raun um hvað er í vegi, - hvað það er sem í götunni er. Það þarf ekki skyggnan mann til að sjá það, síst um hábjartan dag: Það er draugur ómennskunnar, vanþekkingarinnar og hirðuleysisins, og hann verður ekki kveðinn niður með neinum kveðskap af líku tagi og ég áður gat um, því þó mínir háttvirtu landar séu margir vel hagmæltir - það verður ekki af þeim skafið, - þá eru þeir eftir því sem ég frekast veit engin kraftaskáld -í vanalegri merkingu þess orðs. Til þess að koma þessum meinvætti - sem nefna mætti Vegleysu - fyrir, þurfa landsmenn að hefjast handa og leggjast á eitt, með allar stjórnarnefndir hreppa og sýsla í broddi fylkingar. Mun þá skjótt til skarar skríða, ef ekki er slælega fram gengið. En ekki mun hún aldauða, ókind þessi, fyr en á síðari helming þessarar aldar - og má þó gott heita - svo er hún mögnuð. Og svo eru enn ein vandræðin við þessar forynjur að fást, sem menn mega ekki gleyma og hverjum manni ætti að vera í fersku minni, sem einu sinni hefir heyrt eða lesið um Þórólf karlinn bægifót og fleiri afturgöngur, að þær geta ekki legið kyrrar, nema því betur sé um hnútana búið. Samt hefir margkunnugum mönnum þótt verst við þá drauga að eiga, sem vaktir hafa verið upp.
Fyrirgefið að ég vakti máls á þessu. Það (ólæsilegur texti)
En er ég farinn að villast, eða hvað? Já, það er von, er það nokkur vegur að tarna! Og þetta kalla menn hreppavegi, sýsluvegi og þjóðvegi! - og til er enn vegur sem heitir embættisvegur, en hann ganga ekki nema sérstakir gáfumenn, sem ætla sér að verða embættismenn og leiðtogar þjóðarinnar. Leikur mikil öfund á þeim vegi, því hann kvað vera vel lagður og með miklum hagleik gjörður. En oft þarf þjóðin að þrífa í vasa sinn, því vegurinn þarf árlegt viðhald. Kalla sum hann Hít - en það eru nú náttúrlega ekki nema sinkir sjálfbyrgingar sem ekki sjá sóma sinn. En það eru aumu vegirnir þessir hreppavegir, þeir eru vissulega allra vega verstir. Það er auðséð að lítil lund er lögð við að bæta þá af þeim sem hlut eiga að máli. Það lítur helst út fyrir að þeir sem eiga að sjá um þá, vilji heldur stingast kollhnýs í sínum eigin hlaðvarpa, eða kafhleypa klárnum rétt við túnfótinn hjá sér, heldur en leggja stakt handarvik eða einu eyri til veganna í hreppunum sínum, svo þeir geti talist færir. Margir hreppar eiga sammerkt í því að slá slöku við í þessu efni og verður ekki ofsögum sagt, þótt sagt sé, að þeir snúi lötu hliðinni að vegunum sínum. Því þó hreppsbúar séu eitthvað að káka við þá endrum og sinnum, þá er það oft slíkt hrákasmíði að engu tali tekur, sem raunar er von, þegar bæði fé það sem til vega er lagt er af skornum skammti og nurlað við fingur eins og hjá "naumustu" húsmóður, og svo er umsjón verksins fengin í hendur einhverjum og einhverjum, rétt af handahófi, manni, sem ef til vill er gjörsneiddur allri hagsýni og þekkingu sem til þess krefst að geta leyst þetta verk vel af hendi. Hann getur svo sem verið vitsmunamaður að öðru leyti maðurinn - já meira að segja mætur maður og meðhjálpari hinn besti - þó hann hafi ekki vit á að láta gjöra góðan veg. Sé stjórn hreppsfélaganna annt um að vegabætur séu sæmilega af hendi leystar og standi lengur en árlangt, þá ætti hún að velja þann mann til að hafa forstöðu þess starfa á hendi, sem álitinn er verkhagastur í því efni, mann sem er starfinu vaxinn og helst því vanur, - þótt ólærður sé á þá vísu og aldrei hafi í neina nefnd komist. - Á lærðum vegfræðingum er ekki ætíð kostur. Verkstjórinn má trauðla hafa fleiri menn til yfirráða, en það, að þeir geti allir unnið í einu lagi; eða þá að það sé svo skammt á milli þeirra, að hann eigi auðvelt með að veita þeim og verkum þeirra nákvæmt eftirlit. Annars er oft mjög hætt við að margt kunni að fara í handaskolum. Þegar gjörðar eru vegabætur í nokkuð stórum stíl, ættu menn aldrei að taka fyrir stærri eða lengri spöl í einu en svo, að hægt sé að gjöra hann svo fullkominn sem þurfa þykir, það er miklum mun meira í það varið heldur en hórfa upp, eða afkasta svo eða svo langri handaskömm sem að litlu er nýt og stöðugt þarf að vera að gjöra við. Á slíkum hroðverkum er enginn hörgull.
Ein hin hægasta og kostnaðarminnsta vegabót, sem ég kann að nefna, er að sneiða úr götubörmum, þar sem djúpar götur eru. Til skamms tíma hafa menn sneitt hjá þeirri vegabót sem er þó - um leið og hún er fljótunnin - afarþörf. Nú loksins er eins og dálítil leiðindi séu komin í menn yfir hinu sífelda hnjaski sem fætur þeirra og tær hafa orðið fyrir af völdum götubarmanna, svo víða er tekið að lækka þá, þó mikils sé enn ávant, svo vel sé.
Áður en ég skilst við þetta mál, vil ég leyfa mér að minnast örlítið á laun verkamanna á vegum hreppanna. Öllum er greitt jafn-hátt kaup: unglingum, gigtveikum gamalmennum og gildum karlmönnum, iðjumönnum og húðarletingjum. Þetta mælir á móti allri réttsýni, það ætti hver heilvita maður að sjá. Ég get ógn vel fellt mig við ýmsar kenningar jafnaðarmanna, en þegar þær færast í þetta horf, getst mér miðlungi vel að þeim. Að gjalda öllum jafnt kaup er góð tilraun (en engan veginn góðra gjalda verð) til þess, að gjöra alla að letingjum sem starfa að vegavinnu. Þar stendur letinginn eins og sönn fyrirmynd! Eða hvað liggur nær? Er nokkur von til þess að þeir menn, sem eru ólatir og iðjumenn að náttúrufari, vilji vinna af kappi og með alúð, þegar þeir vita að ekkert tillit er tekið til þess við kaupgjaldið og að sá sem vinnur með "hangandi hendi" - þótt hraustur sé og hafi fullt starfsþol í samanburði við þá - vinnur eða er látinn vinna fyrir sama kaup. Nei, ég held varla. "Verður er verkamaðurinn launanna", og ætti því ekki að misbjóða honum á þennan hátt. Auk þess, sem það er hin mesta fjarstæða og ósanngirni, að kaupgjaldið sé jafnt fyrir alla, elur það einnig leti og ómennsku. Verkalaunin ættu að vera eins og nokkurskonar einkunn vinnendanna. Mismunandi, eftir því sem hver og einn vinnur til.
Með því dagur er að kvöldi kominn, guða ég á gluggann hjá "Austra", góðkunningja mínum, og bið hann um gistingu.
Gestur af Héraði.


Austri, 26. janúar 1907, 17. árg.,3. tbl., forsíða:

Vegir og vegleysur.
Það eru til ótal vegir og enn þá fleiri vegleysur, svo það væri að ergja óstöðugan að elta allar þær slóðir; ég vil því aðeins víkja máli í þetta sinn að hinum svonefndu hreppa- og sýsluvegum um sveitirnar og héruð landsins, og leitast við að vekja athygli almennings á ýmsum atriðum sem þar að lúta, án þess ég þó vilji skuldbinda mig til að þræða þráðbeint alla þá troðninga og ösla hverja forarkelduna á fætur annari. Má því enginn kippa sér upp við það þó ég staldri við á stöku stað og bindi skóþvengi mína, eða vindi úr plöggum mínum. Það má hver kalla það útúrdúra sem vill.
Þá er nú formálanum og ferðabæninni lokið, kippi ég því upp um mig sokkunum og held af stað í snatri. Mun ekki af veita, því vegurinn er víða há bölvaður og löng leið fyrir höndum.
Allir, sem til vits og ára eru komnir, þekkja hve afar ógreiðfært er bæja á milli víða hér á landi, á öllum tímum ársins, að undanteknum tíma og tíma að vetrarlagi, þegar það dettur í þá frændurna Frosta og Snæ, að ditta að vegarháðsmáninni og bæta með því samgöngur manna, með ís og hjarni. Við megum vera þeim kumpánum þakklátir í aðra röndina, þótt þeir gjöri oss um leið skömm til. En verst er - þótt menn finni ekki svo mikið til þess að vissu leyti - að þessir nýnefndu herrar eru svo ærið mistækir og oft og einatt mjög gjarnir til dutlunga, fá menn því ekki nema með höppum og glöppum notið aðstoðar þeirra í almenningsþarfir og til samgangnabóta. Því þó "fröken" Þíða sé þeim dálítið hliðholl með köflum, og búi í haginn fyrir hinn fyrnefnda þegar hún hefir lokið vegferð sinni í það og það sinn, þá ólagar hún samt verk þeirra félaga á ýmsan hátt og gjörir það loks að engu, og þegar svo mikið kveður að henni, eru þeir algjörlega neyddir til að leggja á flótta, og fá þeir ekki vatni haldið. Sjaldan láta þeir samt hjá líða að gjöra bændum og búþegnum meiri og minni skráveifur, áður en gjörðir eru upp reikningarnir, og er það ærið nóg til þess að gjöra þá og þeirra viðskipti flestum mönnum hvimleið. Öllum getst því mun betur að ungfrúnni, þó hverflynd sé.
Að öllum líkindum á það kippkorn í land að akvegir verði lagðir - af mennskum höndum - um héruðin, þvert og endilangt, en látum það nú vera. Auðvitað væri mjög æskilegt að vegir hér á landi kæmust í það horf, en það er nú ekki kastað til slíks höndunum. Landsmenn hafa í mörg horn að líta. Sjáum fyrst hina fögru ávexti Fagradalsbrautarinnar, sem mun verða mikið mannvirki þegar fullgjör er, enda mun hún þá hafa kostað Austfirðinga og allt landið ærna peninga, svo þeir munu vel þess verðir að njóta ávaxtanna af því skilningstré. Fullvel mætti una við það í bráð, ef vegirnir um byggðir landsins væru þannig úr garði gjörðir, að menn og skepnur gætu farið óhindraðar og fyrirstöðulítið eftir þeim, að svo miklu leyti sem unnt er. Nú hefir Ísland verið byggt í liðug þúsund ár og á því tímabili hefir það stigið margt gott spor, einkum á síðari tímum, en samt eru vegirnir í landinu annað eins hundspott og þeir eru. Hér hafa landsmenn "dagað uppi" eins og hver önnur nátttröll. Þeir kynnu best frá því að segja, o. fl., hestarnir okkar, sem stynja undir þungum klyfjum og klöngrast og kafa vegleysurnar. Við erum stráka heppnastir, að þeim skuli vera varnað málsins!
Það er margra manna álit að sá maður sé í meira en í meðallagi orðvar, sem ekki hrýtur blótsyrði af vörum, eða að minnsta kosti bölvar í hljóði, þegar vesalings hesturinn hans hnýtur, svo að segja í öðru hverju spori, eða veður fen og forræði milli hnés og kviðar - gott, þegar hann liggur ekki í kafi í einhverri forarkeldunni. Já, mann-garminum er nú raunar ekki láandi þó honum verði dálítið gramt í geði, þegar svo lætur. En, má ég spyrja: á hverjum lætur hann gremju sína og fúkyrðin - sem henni fylgja - fyrst bitna? Ekki vænti ég að hann fari að bannsyngja sjálfan sig, sem þó lægi næst. Ónei, hann lætur það vera, mannskepnan, heldur bölsótast hann yfir hestinum og veginum. "Getur ekki klárskrattinn staðið á bölvuðum bífunum!" - "Mikill helv... vegur er þetta!" Ég hefi því miður verið heyrnarvottur að svona ófögrum ummælum og fleiri líkum óbænum, þegar hestur hefir hnotið um stein í götu, eða legið í einhverri keldunni. Mörgum fantinum þykir ekki nóg að láta slíkt um munn fara, heldur - eins og til frekari áherslu - láta þeir svipuna ríða af alefli einhversstaðar á skrokk vesalings skepnunnar saklausu. Þetta varðar ekki við lög - nema þá ef til vill, ef því meiri brögð eru að, - en gefi maður náunganum "á hann" þótt fyrir ærnar sakir kunni að vera, varðar það fésektum eða fangelsi eftir atvikum. En látum það nú vera þótt vér mennirnir séum ögn rétthærri en klárinn okkar. En hvað býður mannúðarskyldan oss? Það er reiðinnar rammskakki hugsunarháttur og mannvonskufullt skeytingar- og tilfinningaleysi, að skeyta skapi sínu á saklausum málleysingjanum - skynlausri skepnunni sem svo er almennt talin. Skellum heldur skuldinni og skömminni á okkur mennina sjálfa, því þar á það heima að því er þetta snertir. Ég er ekki að telja menn til að bannsyngja sjálfa sig í heyrandi hljóði - enda er fæstum það lagið - þótt söngmenn séu. Vér vinnum hvort sem er ekkert með slíkum stóryrðum hvorki á þá hlið né aðra. Temji menn sér aðeins, að hugsa og starfa með skynsamlegri ályktun og samviskusemi án þess að gefa heimskunni og gáleysinu of slakan taum, munu menn fljótt komast að raun um hvað er í vegi, - hvað það er sem í götunni er. Það þarf ekki skyggnan mann til að sjá það, síst um hábjartan dag: Það er draugur ómennskunnar, vanþekkingarinnar og hirðuleysisins, og hann verður ekki kveðinn niður með neinum kveðskap af líku tagi og ég áður gat um, því þó mínir háttvirtu landar séu margir vel hagmæltir - það verður ekki af þeim skafið, - þá eru þeir eftir því sem ég frekast veit engin kraftaskáld -í vanalegri merkingu þess orðs. Til þess að koma þessum meinvætti - sem nefna mætti Vegleysu - fyrir, þurfa landsmenn að hefjast handa og leggjast á eitt, með allar stjórnarnefndir hreppa og sýsla í broddi fylkingar. Mun þá skjótt til skarar skríða, ef ekki er slælega fram gengið. En ekki mun hún aldauða, ókind þessi, fyr en á síðari helming þessarar aldar - og má þó gott heita - svo er hún mögnuð. Og svo eru enn ein vandræðin við þessar forynjur að fást, sem menn mega ekki gleyma og hverjum manni ætti að vera í fersku minni, sem einu sinni hefir heyrt eða lesið um Þórólf karlinn bægifót og fleiri afturgöngur, að þær geta ekki legið kyrrar, nema því betur sé um hnútana búið. Samt hefir margkunnugum mönnum þótt verst við þá drauga að eiga, sem vaktir hafa verið upp.
Fyrirgefið að ég vakti máls á þessu. Það (ólæsilegur texti)
En er ég farinn að villast, eða hvað? Já, það er von, er það nokkur vegur að tarna! Og þetta kalla menn hreppavegi, sýsluvegi og þjóðvegi! - og til er enn vegur sem heitir embættisvegur, en hann ganga ekki nema sérstakir gáfumenn, sem ætla sér að verða embættismenn og leiðtogar þjóðarinnar. Leikur mikil öfund á þeim vegi, því hann kvað vera vel lagður og með miklum hagleik gjörður. En oft þarf þjóðin að þrífa í vasa sinn, því vegurinn þarf árlegt viðhald. Kalla sum hann Hít - en það eru nú náttúrlega ekki nema sinkir sjálfbyrgingar sem ekki sjá sóma sinn. En það eru aumu vegirnir þessir hreppavegir, þeir eru vissulega allra vega verstir. Það er auðséð að lítil lund er lögð við að bæta þá af þeim sem hlut eiga að máli. Það lítur helst út fyrir að þeir sem eiga að sjá um þá, vilji heldur stingast kollhnýs í sínum eigin hlaðvarpa, eða kafhleypa klárnum rétt við túnfótinn hjá sér, heldur en leggja stakt handarvik eða einu eyri til veganna í hreppunum sínum, svo þeir geti talist færir. Margir hreppar eiga sammerkt í því að slá slöku við í þessu efni og verður ekki ofsögum sagt, þótt sagt sé, að þeir snúi lötu hliðinni að vegunum sínum. Því þó hreppsbúar séu eitthvað að káka við þá endrum og sinnum, þá er það oft slíkt hrákasmíði að engu tali tekur, sem raunar er von, þegar bæði fé það sem til vega er lagt er af skornum skammti og nurlað við fingur eins og hjá "naumustu" húsmóður, og svo er umsjón verksins fengin í hendur einhverjum og einhverjum, rétt af handahófi, manni, sem ef til vill er gjörsneiddur allri hagsýni og þekkingu sem til þess krefst að geta leyst þetta verk vel af hendi. Hann getur svo sem verið vitsmunamaður að öðru leyti maðurinn - já meira að segja mætur maður og meðhjálpari hinn besti - þó hann hafi ekki vit á að láta gjöra góðan veg. Sé stjórn hreppsfélaganna annt um að vegabætur séu sæmilega af hendi leystar og standi lengur en árlangt, þá ætti hún að velja þann mann til að hafa forstöðu þess starfa á hendi, sem álitinn er verkhagastur í því efni, mann sem er starfinu vaxinn og helst því vanur, - þótt ólærður sé á þá vísu og aldrei hafi í neina nefnd komist. - Á lærðum vegfræðingum er ekki ætíð kostur. Verkstjórinn má trauðla hafa fleiri menn til yfirráða, en það, að þeir geti allir unnið í einu lagi; eða þá að það sé svo skammt á milli þeirra, að hann eigi auðvelt með að veita þeim og verkum þeirra nákvæmt eftirlit. Annars er oft mjög hætt við að margt kunni að fara í handaskolum. Þegar gjörðar eru vegabætur í nokkuð stórum stíl, ættu menn aldrei að taka fyrir stærri eða lengri spöl í einu en svo, að hægt sé að gjöra hann svo fullkominn sem þurfa þykir, það er miklum mun meira í það varið heldur en hórfa upp, eða afkasta svo eða svo langri handaskömm sem að litlu er nýt og stöðugt þarf að vera að gjöra við. Á slíkum hroðverkum er enginn hörgull.
Ein hin hægasta og kostnaðarminnsta vegabót, sem ég kann að nefna, er að sneiða úr götubörmum, þar sem djúpar götur eru. Til skamms tíma hafa menn sneitt hjá þeirri vegabót sem er þó - um leið og hún er fljótunnin - afarþörf. Nú loksins er eins og dálítil leiðindi séu komin í menn yfir hinu sífelda hnjaski sem fætur þeirra og tær hafa orðið fyrir af völdum götubarmanna, svo víða er tekið að lækka þá, þó mikils sé enn ávant, svo vel sé.
Áður en ég skilst við þetta mál, vil ég leyfa mér að minnast örlítið á laun verkamanna á vegum hreppanna. Öllum er greitt jafn-hátt kaup: unglingum, gigtveikum gamalmennum og gildum karlmönnum, iðjumönnum og húðarletingjum. Þetta mælir á móti allri réttsýni, það ætti hver heilvita maður að sjá. Ég get ógn vel fellt mig við ýmsar kenningar jafnaðarmanna, en þegar þær færast í þetta horf, getst mér miðlungi vel að þeim. Að gjalda öllum jafnt kaup er góð tilraun (en engan veginn góðra gjalda verð) til þess, að gjöra alla að letingjum sem starfa að vegavinnu. Þar stendur letinginn eins og sönn fyrirmynd! Eða hvað liggur nær? Er nokkur von til þess að þeir menn, sem eru ólatir og iðjumenn að náttúrufari, vilji vinna af kappi og með alúð, þegar þeir vita að ekkert tillit er tekið til þess við kaupgjaldið og að sá sem vinnur með "hangandi hendi" - þótt hraustur sé og hafi fullt starfsþol í samanburði við þá - vinnur eða er látinn vinna fyrir sama kaup. Nei, ég held varla. "Verður er verkamaðurinn launanna", og ætti því ekki að misbjóða honum á þennan hátt. Auk þess, sem það er hin mesta fjarstæða og ósanngirni, að kaupgjaldið sé jafnt fyrir alla, elur það einnig leti og ómennsku. Verkalaunin ættu að vera eins og nokkurskonar einkunn vinnendanna. Mismunandi, eftir því sem hver og einn vinnur til.
Með því dagur er að kvöldi kominn, guða ég á gluggann hjá "Austra", góðkunningja mínum, og bið hann um gistingu.
Gestur af Héraði.