1905

Þjóðólfur, 13. janúar 1905, 57. árg., 3. tbl., bls. 10:

Um brúargerð í Ölfusi.
Það er mikið fé, sem lagt hefur verið til vegalagninga og viðhalds á vegum víðsvegar um land á seinustu áratugum. Sömuleiðis hefur verið lagt fram talsvert af peningum úr landsjóði og sýslusjóðum til brúargerða á ám og lækjum, en þó virðist hugmyndin um nauðsyn á brúargerð á hinum smærri ám og lækjum ekki enn vera farin að ryðja sér til rúms, eins og æskilegt væri. Það er tilgangur minn með línum þessum, að vekja athygli manna á því , hve brýna nauðsyn beri til að gefa þessu máli alvarlegri gaum en hingað til hefur verið gert. Það eru sérstaklega tvær smáár, sem eg vil benda á, sem eru: Bakkakotsá og Gljúfurholtsá í Ölfusi. Þessar smáár, sem að mestu leyti verða þurrar á sumrum, geta orðið hættulegur farartálmi fyrir gangandi menn á veturna, þegar þær eru stíflaðar af frosti og krapa, en halda þó ekki. Það er ekki álitlegt fyrir gangandi menn að verða að vaða þær og stundum djúpt, halda síðan áfram suður yfir fjall eða eitthvað, sem leið þeirra liggur. Eg ætla að eins að setja hér eitt dæmi af mörgum upp á það, hve hættulegar þær geta verið.
Eg fór yfir fyrnefndar ár með fleiri mönnum nálægt kl. 4 um dag í bærilegu veðri, en árnar voru upphlaupnar en héldu ekki, svo við urðum að vaða þær rúmlega í mitt læri; svo héldum við áfram út á Kamba. Þegar þangað kom datt á okkur ofankafald með miklu frosti; eftir 5½ kl. tíma ferð á fjallinu komumst við mjög illa til reika niður á Kolviðarhól, einmitt af því við urðum að vaða árnar. Það urðu svo stokkfreðin á okkur fötin, að við áttum mjög erfitt með gang. Það er viðurkennt af öllum siðuðum þjóðum, að heilsan sé sá dýrmætasti gimsteinn, sem nokkur maður getur átt í eigu sinni. Ekkert getur verið hættulegra fyrir þennan dýrmæta fjársjóð – heilsuna – en svona löguð ferðalög um jafn athugaverða vegi og hér er um að ræða, enda verður ekki sagt, að vegirnir komi fyllilega að tilætluðum notum, meðan ár og lækir renna hindrunarlaust gegnum þvera vegina – það er að segja, án þess að ár og lækir séu brúuð.
Eg veit það vel, að þessar ár verða ekki brúaðar nema með talsverðu fjárframlagi, því ef þær yrðu brúaðar til almennra nota, fyrir vagna og hesta, yrði auðvitað að leggja vegspotta báðumegin brúnna á aðalveginn, því ekki er hægt að leggja brýrnar, þar sem vegurinn nú liggur yfir árnar. Við aðdrátt á timbri og grjóti mætti mikið spara peninga með því, að afla þess um vetrartímann. Það mundi verða hægt að fá menn í skammdeginu fyrir lágt kaup, þegar almenningur hefur minnst að gera. Eg leyfi mér hér með að skora á alla velhugsandi menn, að taka þetta mál til athugunar og styðja það af ítrasta mætti í orði og verki, svo það geti sem fyrst komist í framkvæmd.
3/1 – “05 Árnesingur.
**
Hinn háttvirti greinarhöf. hefur alveg rétt fyrir sér í því, að þessar tvær smáár á höfuðflutningabraut landsins ættu að vera brúaðar fyrir löngu. Það hefði átt að gera það undireins og vegurinn var lagður, því að þótt ár þessar séu ekki til farartálma fyrir vagna um sumartímann, þá eru þær illfærar með vagna haust og vor, og opt alófærar að vetrinum, ekki að eins fyrir vagna, heldur stundum fyrir gangandi menn, eins og greinarhöf. skýrir frá. Með því að ár þessar eru á flutningabraut, er landsjóður hefur kostað að öllu leyti, á hann að réttu lagi að kosta brúargerð þessa, því að vegurinn getur ekki talist fullger eða komið að fullum notum, meðan þær eru óbrúaðar. Það hefði upphaflega átt að haga vegastefnunni í Ölfusinu þannig, að hentug brúarstæði á ánum lentu í þeirri stefnu, sem nú er ekki. En nú verður að leggja stutta aukavegi af aðalveginum að brúarstæðunum, og er það auðvitað ekki mikill kostnaður, en hefði algerlega getað sparast, ef brýrnar hefðu verið byggðar undir eins og flutningabrautin var lögð, eins og sjálfsagt var. Það hirðuleysi er naumast afsakanlegt, og þessvegna skylda landstjórnarinnar að bæta úr því sem allra fyrst, sem hin gamla stjórn hefur vanrækt í þessu.
Ritstj.


Þjóðólfur, 13. janúar 1905, 57. árg., 3. tbl., bls. 10:

Um brúargerð í Ölfusi.
Það er mikið fé, sem lagt hefur verið til vegalagninga og viðhalds á vegum víðsvegar um land á seinustu áratugum. Sömuleiðis hefur verið lagt fram talsvert af peningum úr landsjóði og sýslusjóðum til brúargerða á ám og lækjum, en þó virðist hugmyndin um nauðsyn á brúargerð á hinum smærri ám og lækjum ekki enn vera farin að ryðja sér til rúms, eins og æskilegt væri. Það er tilgangur minn með línum þessum, að vekja athygli manna á því , hve brýna nauðsyn beri til að gefa þessu máli alvarlegri gaum en hingað til hefur verið gert. Það eru sérstaklega tvær smáár, sem eg vil benda á, sem eru: Bakkakotsá og Gljúfurholtsá í Ölfusi. Þessar smáár, sem að mestu leyti verða þurrar á sumrum, geta orðið hættulegur farartálmi fyrir gangandi menn á veturna, þegar þær eru stíflaðar af frosti og krapa, en halda þó ekki. Það er ekki álitlegt fyrir gangandi menn að verða að vaða þær og stundum djúpt, halda síðan áfram suður yfir fjall eða eitthvað, sem leið þeirra liggur. Eg ætla að eins að setja hér eitt dæmi af mörgum upp á það, hve hættulegar þær geta verið.
Eg fór yfir fyrnefndar ár með fleiri mönnum nálægt kl. 4 um dag í bærilegu veðri, en árnar voru upphlaupnar en héldu ekki, svo við urðum að vaða þær rúmlega í mitt læri; svo héldum við áfram út á Kamba. Þegar þangað kom datt á okkur ofankafald með miklu frosti; eftir 5½ kl. tíma ferð á fjallinu komumst við mjög illa til reika niður á Kolviðarhól, einmitt af því við urðum að vaða árnar. Það urðu svo stokkfreðin á okkur fötin, að við áttum mjög erfitt með gang. Það er viðurkennt af öllum siðuðum þjóðum, að heilsan sé sá dýrmætasti gimsteinn, sem nokkur maður getur átt í eigu sinni. Ekkert getur verið hættulegra fyrir þennan dýrmæta fjársjóð – heilsuna – en svona löguð ferðalög um jafn athugaverða vegi og hér er um að ræða, enda verður ekki sagt, að vegirnir komi fyllilega að tilætluðum notum, meðan ár og lækir renna hindrunarlaust gegnum þvera vegina – það er að segja, án þess að ár og lækir séu brúuð.
Eg veit það vel, að þessar ár verða ekki brúaðar nema með talsverðu fjárframlagi, því ef þær yrðu brúaðar til almennra nota, fyrir vagna og hesta, yrði auðvitað að leggja vegspotta báðumegin brúnna á aðalveginn, því ekki er hægt að leggja brýrnar, þar sem vegurinn nú liggur yfir árnar. Við aðdrátt á timbri og grjóti mætti mikið spara peninga með því, að afla þess um vetrartímann. Það mundi verða hægt að fá menn í skammdeginu fyrir lágt kaup, þegar almenningur hefur minnst að gera. Eg leyfi mér hér með að skora á alla velhugsandi menn, að taka þetta mál til athugunar og styðja það af ítrasta mætti í orði og verki, svo það geti sem fyrst komist í framkvæmd.
3/1 – “05 Árnesingur.
**
Hinn háttvirti greinarhöf. hefur alveg rétt fyrir sér í því, að þessar tvær smáár á höfuðflutningabraut landsins ættu að vera brúaðar fyrir löngu. Það hefði átt að gera það undireins og vegurinn var lagður, því að þótt ár þessar séu ekki til farartálma fyrir vagna um sumartímann, þá eru þær illfærar með vagna haust og vor, og opt alófærar að vetrinum, ekki að eins fyrir vagna, heldur stundum fyrir gangandi menn, eins og greinarhöf. skýrir frá. Með því að ár þessar eru á flutningabraut, er landsjóður hefur kostað að öllu leyti, á hann að réttu lagi að kosta brúargerð þessa, því að vegurinn getur ekki talist fullger eða komið að fullum notum, meðan þær eru óbrúaðar. Það hefði upphaflega átt að haga vegastefnunni í Ölfusinu þannig, að hentug brúarstæði á ánum lentu í þeirri stefnu, sem nú er ekki. En nú verður að leggja stutta aukavegi af aðalveginum að brúarstæðunum, og er það auðvitað ekki mikill kostnaður, en hefði algerlega getað sparast, ef brýrnar hefðu verið byggðar undir eins og flutningabrautin var lögð, eins og sjálfsagt var. Það hirðuleysi er naumast afsakanlegt, og þessvegna skylda landstjórnarinnar að bæta úr því sem allra fyrst, sem hin gamla stjórn hefur vanrækt í þessu.
Ritstj.