1905

Ísafold, 13. sept. 1905, 17.árg., 61. tbl., bls. 242:

Sogsbrúin vígð.
Það var gert laugardag 9. þ. mán. af ráðgjafanum, eins og auglýst hafði verið, í viðurvist allmikils fjölmennis, kringum 1000 manns, úr allranæstu hreppum og 200 úr Reykjavík; því veður var fagurt.
Brú þessi liggur yfir Sogið hjá Alviðru, 60 álna löng hengibrú, gerð mjög svo í líking við Ölfusárbrúna og allsnotur, kostuð að 1/3 af landssjóði - veitt allt að 6000 kr. til hennar á þingi 1903 - en hitt af sýslunni og hrepp þeim, er mest hefir brúarinnar not, en það er Grímsneshreppur. Yfirsmiður hefir verið Halldór Guðmundsson, rafmagnsfræðingur, sá er vatnsveituna gerði og raflýsinguna í Hafnarfirði í fyrra. Brúin kvað hafa kostað lítið eitt yfir 16.000 kr. alls. Það eru Grímsnesingar, sem heiðurinn eiga mestan fyrir að hafa komið brúnni á, og mun Gunnl. hreppstjóri á Kiðjabergi Þorsteinsson hafa verið aðalforgöngumaður fyrirtækisins.
Ræðustól hafði verið klambrað saman úr braki rétt áður en ráðgjafinn kom, við brúarsporðinn eystri, og breitt brekán yfir.
Þar flutti ráðgj. ræðu sína, og þótti segjast stórum miður en margir höfðu við búist. Gerðu fáir að festa sér í minni það er hann hafði fram að flytja, nema ef vera skyldi um mikla vináttu þeirra, hans og Þ.ólfsmannsins, og hlökkun yfir því, að nú væri von bráðar land vort traustum stálstrengjum tengt við umheiminn, þ. e. ritsímanum. Þar við hnýtti hann harmatölum yfir flokkasundrung. Hefir sjálfsagt átt við þá ósvinnu, að þjóðin þegir ekki eins og lamb til slátrunar leitt, þegar verið er að misþyrma henni og ofurselja hana útlendu einokunar- og kúgunarvaldi.
Leikið var á undan ræðunni á lúðra (Reykjavíkursveitin) Eldgamla Ísafold og Ó, guð vors lands.
Ráðgjafinn hafði verið svo forsjáll að hafa með sér héðan einn konungkjörinn skósvein sinn, uppgjafarektor BMÓ, til þess að hrópa bravó! og heyr! þar sem við þætti eiga í ræðunni. Hann gerði það svikalaust, heldur oftar en góðu hófi gengdi, að áheyrendum fannst; þeir brostu mjög að þessu margir; en enginn tók undir nema einn hrossasmali reykvískur. Og er ræðunni var lokið þuldi rektor jafnharðan síðari kafla síns hlutverks, bakvið mannþvöguna næstu, en það voru orðin: lengi lifi ráðgjafinn! og lét fylgja hátt og rámt húrra! En á því tæptu með honum þreföldu sumir segja 7-8, en aðrir allt að 20 af þeim um eða yfir 1000 manns, er þar voru saman komnir. Utarlega í mannþrönginni hafði heyrst: niður með ráðgjafann! húrralaust þó.
Því næst var gengið vestur yfir brúna í smáflokkum, 20-30 í hóp, til að ofreyna ekki brúarstólpana óharðnaða, ráðgjafinn og frú hans í broddi fylkingar; hún klippti sundur bláan þráð, er bundinn var þar yfir um. En leikin á lúðra á meðan brúardrápa H. H.
Eftir það var veitt kampavín í þar til reistu tjaldi ráðgjafanum og fáeinum hans förunautum.
Almenningur skemmti sér um daginn helst við lúðraþyt og af að ganga um skóginn austan við Sogið í Öndverðanesslandi.
En ekkert var talað framar af ræðustóli fyr en undir kveld. Þá sté í stólinn ónefndur prestur, ölvaður nokkuð - hinn eini í sýslunni, er við drykk er dreift - og virðist hafa ætlað að votta þakkir þeim, er mestir hefði verið stuðningsmenn brúarsmíðisins, og nefni þeirra á meðal 1. þm. Árn., Þ.ólfsmanninn.
Þá fóru einhverjir að hlæja.
Ætlið þið að hlæja? Þegið þið! kallaði ræðumaður.
Ég get ekki annað en hlegið, svaraði einhver.
Síðar í ræðustúf þessum tók klerkur til að telja upp aftur stuðningsmenn brúargerðarinnar; var þá búinn að gleyma því, sem hann hafði sagt áður.
Þá grípur einhver fram í og spyr, hvort hann ætli að gleyma honum Þ.ólfi.
Haltu kj.... hrópar klerkur þá; á ég að setja bókina í hausinn á þér?
Það var nótnabók er þar lá á ræðustólnum. Þá var hlegið dátt af mannsöfnuðinum, körlum og konum.
Við það lauk ræðu prests og þaut hann burt og inn í >ráðgjafatjaldið<.


Ísafold, 13. sept. 1905, 17.árg., 61. tbl., bls. 242:

Sogsbrúin vígð.
Það var gert laugardag 9. þ. mán. af ráðgjafanum, eins og auglýst hafði verið, í viðurvist allmikils fjölmennis, kringum 1000 manns, úr allranæstu hreppum og 200 úr Reykjavík; því veður var fagurt.
Brú þessi liggur yfir Sogið hjá Alviðru, 60 álna löng hengibrú, gerð mjög svo í líking við Ölfusárbrúna og allsnotur, kostuð að 1/3 af landssjóði - veitt allt að 6000 kr. til hennar á þingi 1903 - en hitt af sýslunni og hrepp þeim, er mest hefir brúarinnar not, en það er Grímsneshreppur. Yfirsmiður hefir verið Halldór Guðmundsson, rafmagnsfræðingur, sá er vatnsveituna gerði og raflýsinguna í Hafnarfirði í fyrra. Brúin kvað hafa kostað lítið eitt yfir 16.000 kr. alls. Það eru Grímsnesingar, sem heiðurinn eiga mestan fyrir að hafa komið brúnni á, og mun Gunnl. hreppstjóri á Kiðjabergi Þorsteinsson hafa verið aðalforgöngumaður fyrirtækisins.
Ræðustól hafði verið klambrað saman úr braki rétt áður en ráðgjafinn kom, við brúarsporðinn eystri, og breitt brekán yfir.
Þar flutti ráðgj. ræðu sína, og þótti segjast stórum miður en margir höfðu við búist. Gerðu fáir að festa sér í minni það er hann hafði fram að flytja, nema ef vera skyldi um mikla vináttu þeirra, hans og Þ.ólfsmannsins, og hlökkun yfir því, að nú væri von bráðar land vort traustum stálstrengjum tengt við umheiminn, þ. e. ritsímanum. Þar við hnýtti hann harmatölum yfir flokkasundrung. Hefir sjálfsagt átt við þá ósvinnu, að þjóðin þegir ekki eins og lamb til slátrunar leitt, þegar verið er að misþyrma henni og ofurselja hana útlendu einokunar- og kúgunarvaldi.
Leikið var á undan ræðunni á lúðra (Reykjavíkursveitin) Eldgamla Ísafold og Ó, guð vors lands.
Ráðgjafinn hafði verið svo forsjáll að hafa með sér héðan einn konungkjörinn skósvein sinn, uppgjafarektor BMÓ, til þess að hrópa bravó! og heyr! þar sem við þætti eiga í ræðunni. Hann gerði það svikalaust, heldur oftar en góðu hófi gengdi, að áheyrendum fannst; þeir brostu mjög að þessu margir; en enginn tók undir nema einn hrossasmali reykvískur. Og er ræðunni var lokið þuldi rektor jafnharðan síðari kafla síns hlutverks, bakvið mannþvöguna næstu, en það voru orðin: lengi lifi ráðgjafinn! og lét fylgja hátt og rámt húrra! En á því tæptu með honum þreföldu sumir segja 7-8, en aðrir allt að 20 af þeim um eða yfir 1000 manns, er þar voru saman komnir. Utarlega í mannþrönginni hafði heyrst: niður með ráðgjafann! húrralaust þó.
Því næst var gengið vestur yfir brúna í smáflokkum, 20-30 í hóp, til að ofreyna ekki brúarstólpana óharðnaða, ráðgjafinn og frú hans í broddi fylkingar; hún klippti sundur bláan þráð, er bundinn var þar yfir um. En leikin á lúðra á meðan brúardrápa H. H.
Eftir það var veitt kampavín í þar til reistu tjaldi ráðgjafanum og fáeinum hans förunautum.
Almenningur skemmti sér um daginn helst við lúðraþyt og af að ganga um skóginn austan við Sogið í Öndverðanesslandi.
En ekkert var talað framar af ræðustóli fyr en undir kveld. Þá sté í stólinn ónefndur prestur, ölvaður nokkuð - hinn eini í sýslunni, er við drykk er dreift - og virðist hafa ætlað að votta þakkir þeim, er mestir hefði verið stuðningsmenn brúarsmíðisins, og nefni þeirra á meðal 1. þm. Árn., Þ.ólfsmanninn.
Þá fóru einhverjir að hlæja.
Ætlið þið að hlæja? Þegið þið! kallaði ræðumaður.
Ég get ekki annað en hlegið, svaraði einhver.
Síðar í ræðustúf þessum tók klerkur til að telja upp aftur stuðningsmenn brúargerðarinnar; var þá búinn að gleyma því, sem hann hafði sagt áður.
Þá grípur einhver fram í og spyr, hvort hann ætli að gleyma honum Þ.ólfi.
Haltu kj.... hrópar klerkur þá; á ég að setja bókina í hausinn á þér?
Það var nótnabók er þar lá á ræðustólnum. Þá var hlegið dátt af mannsöfnuðinum, körlum og konum.
Við það lauk ræðu prests og þaut hann burt og inn í >ráðgjafatjaldið<.