1905

Þjóðólfur, 15. september 1905, 57. árg., 39. tbl., bls. 168:

Undirbúningur málsins og brúargerðin.
Það eru full 20 ár síðan fyrst var farið að hreyfa því, að koma á brú yfir Sogið hjá Alviðru, austan undir Ingólfsfjalli í Ölfusi, en Sogið rennur eins og kunnugt er úr Þingvallavatni millum Grímsness að austan og Grafnings að vestan, og fellur í Hvítá móts við Tannastaði í Ölfusi. Sogið er mjög vatnsmikið og hvergi reitt nú orðið, þótt slarkað hafi verið stundum yfir það á vaði eða réttara sagt vaðleysu, er "Álftavatn" nefnist undan Torfastöðum í Grafningi. Er Sogið þar afarbreitt, svo að hálftíma ferð er þar yfir það, og djúpt mjög, enda er vað þetta nú nær ófært orðið, og sjaldan eða aldrei farið, síst með klyfjar. Sogið var því hinn versti farartálmi fyrir Grímsnes allt, en að því lykja Brúará að austan og Hvítá að austan og sunnan, hvorttveggja ferjuvötn, svo að sveitin er vötnum lukt á alla vegu nema til fjalls. Af Sogsbrúnni hafa og fleiri not en Grímsnesingar einir t.d. Laugdælir í Eyrarbakkaferðum og Biskupstungnamenn, ekki síst á vetrardag, þá er nyrðri leiðin, Mosfellsheiðarvegurinn, er ófær. Svo mun og tilætlað, að hin fyrirhugaða Geysisbraut liggi um Sogsbrúna upp Grímsnes og Biskupstungur til Geysis og verður það þráðbein stefna suður á aðalakbrautina frá Selfossi. Verða þá not Sogsbrúarinnar vitanlega margfalt meiri en nú er, meðan enginn vegur liggur frá henni upp sýsluna.
Þrátt fyrir þessa mjög nauðsynlegu samgöngubót, sem margir viðurkenndu að brú á Sogið mundi verða, átti málið mjög lengi erfitt uppdráttar, vegna mótspyrnu einstakra manna, er síst mátti ætla, að snerust gegn því, og tafði það mjög fyrir. Loks fékkst þó brúarstæðið skoðað og áætlun gerð. Var svo leitað til þingsins 1901 um helmingsstyrk til brúargerðarinnar úr landssjóði eða 7500 kr. gegn jafnmiklu tillagi frá sýslunni og Grímsneshreppi. En þeirri málaleitan var þá hrundið, og var enda svo mikið kapp í sumum efrideildarmönnum (eftir undirrjóðri mótstöðumanna brúarinnar þar eystra), að þeir þorðu ekki að hleypa fjárlögunum í sameinað þing af ótta við, að þessi óhæfilega (!) fjárveiting kæmist þá að. En á þinginu 1903 hafðist það þó fram (í sameinuðu þingi), að landssjóður veitti allt að 6000 kr. til brúargerðarinnar, gegn því að tvöfalt meiri upphæð yrði lögð fram annarsstaðar frá. Hafði Grímsneshreppur einn lofað 5000 kr. tillagi, og svo hafðist það fram, að sýslan lofaði öðrum 5000 kr. Nú var loks unnt að fara að byrja á verkinu. Næstl. haust kom efnið í brúna hingað til lands og gekk stjórnarráðið vel fram í því að koma verkinu sem fyrst áleiðis. En miklir erfiðleikar voru á flutningum, því að efnið varð að flytja landveg austur alla leið úr Reykjavík, því að ekki tókst að skipa því upp á Eyrarbakka. En þrátt fyrir alla þessa erfiðleika varð þó byrjað á verkinu næstl., vor, og brúin fullger fyrir 8. þ.m. Stóð mest fyrir þessum framkvæmdum Magnús óðalsbóndi Jónsson í Klausturhólum, er hreppsnefndin í Grímsneshreppi valdi til þess starfs, og leysti hann það bæði vel og rösklega af hendi, með aðstoð nokkurra sveitunga sinna, sérstaklega Gunnlaugs hreppstjóra Þorsteinssonar á Kiðabergi, er varð einna fyrstur manna þar í sveit til að hreyfa þessari brúargerð fyrir mörgum árum. - Yfirsmiður við brúna var Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðingur, ættaður úr Mýrdal, og fórst það starf ágætlega úr hendi, þótt hann væri óvanur brúargerð. Var gert orð á því þar eystra, hversu verkið hefði gengið greiðlega og liðlega undir forustu hans. Fyrir stöplahleðslunni (steinsmíðinu) stóð í fyrstu Sæmundur Steindórsson steinsmiður (tengdafaðir Símonar snikkara á Selfossi), en hann varð fyrir því slysi snemma í sumar, að steinflís hraut í auga honum, og varð hann að hætta vinnu úr því og er ekki jafngóður enn. Er þetta hið eina óhapp, sem komið hefur fyrir við brúargerð þessa. Síðar stóð fyrir steinsmíðinu Sigurður Gíslason af Eyrarbakka. - Brúin sjálf er hengibrú, 60 álnir á lengd og 4 álna breið með tveimur uppihaldsstrengjum sínum hvoru megin, öll úr járni og hin vandaðasta að allri gerð, og mjög snotur að útliti, svipuð Þjórsárbrúnni þótt minni sé. Hefur Sigurður Thoroddsen verkfræðingur gert teikninguna að henni. Er talið að brúin muni kosta alls 16,000 kr. og fer það furðu nærri áætlun er gerði hana 15,000.
Það eru samtök og þrautsegja Grímsnessinga, sem komið hefur þessu mannvirki á þrátt fyrir megnan andróður úr ýmsum áttum: og hafa þeir með því reist sér prýðilegan minnisvarða, er seint mun fyrnast og ætti að verða öðrum héruðum til eftirbreytni. Þá mundi margt skipast öðruvísi á landi voru. Það mátti og með sanni segja, að vígsludagurinn var hátíðis- og fagnaðardagur, sérstaklega fyrir Grímsnessinga. Og mundu margir hafa kosið að vera í þeirra sporum þar.


Þjóðólfur, 15. september 1905, 57. árg., 39. tbl., bls. 168:

Undirbúningur málsins og brúargerðin.
Það eru full 20 ár síðan fyrst var farið að hreyfa því, að koma á brú yfir Sogið hjá Alviðru, austan undir Ingólfsfjalli í Ölfusi, en Sogið rennur eins og kunnugt er úr Þingvallavatni millum Grímsness að austan og Grafnings að vestan, og fellur í Hvítá móts við Tannastaði í Ölfusi. Sogið er mjög vatnsmikið og hvergi reitt nú orðið, þótt slarkað hafi verið stundum yfir það á vaði eða réttara sagt vaðleysu, er "Álftavatn" nefnist undan Torfastöðum í Grafningi. Er Sogið þar afarbreitt, svo að hálftíma ferð er þar yfir það, og djúpt mjög, enda er vað þetta nú nær ófært orðið, og sjaldan eða aldrei farið, síst með klyfjar. Sogið var því hinn versti farartálmi fyrir Grímsnes allt, en að því lykja Brúará að austan og Hvítá að austan og sunnan, hvorttveggja ferjuvötn, svo að sveitin er vötnum lukt á alla vegu nema til fjalls. Af Sogsbrúnni hafa og fleiri not en Grímsnesingar einir t.d. Laugdælir í Eyrarbakkaferðum og Biskupstungnamenn, ekki síst á vetrardag, þá er nyrðri leiðin, Mosfellsheiðarvegurinn, er ófær. Svo mun og tilætlað, að hin fyrirhugaða Geysisbraut liggi um Sogsbrúna upp Grímsnes og Biskupstungur til Geysis og verður það þráðbein stefna suður á aðalakbrautina frá Selfossi. Verða þá not Sogsbrúarinnar vitanlega margfalt meiri en nú er, meðan enginn vegur liggur frá henni upp sýsluna.
Þrátt fyrir þessa mjög nauðsynlegu samgöngubót, sem margir viðurkenndu að brú á Sogið mundi verða, átti málið mjög lengi erfitt uppdráttar, vegna mótspyrnu einstakra manna, er síst mátti ætla, að snerust gegn því, og tafði það mjög fyrir. Loks fékkst þó brúarstæðið skoðað og áætlun gerð. Var svo leitað til þingsins 1901 um helmingsstyrk til brúargerðarinnar úr landssjóði eða 7500 kr. gegn jafnmiklu tillagi frá sýslunni og Grímsneshreppi. En þeirri málaleitan var þá hrundið, og var enda svo mikið kapp í sumum efrideildarmönnum (eftir undirrjóðri mótstöðumanna brúarinnar þar eystra), að þeir þorðu ekki að hleypa fjárlögunum í sameinað þing af ótta við, að þessi óhæfilega (!) fjárveiting kæmist þá að. En á þinginu 1903 hafðist það þó fram (í sameinuðu þingi), að landssjóður veitti allt að 6000 kr. til brúargerðarinnar, gegn því að tvöfalt meiri upphæð yrði lögð fram annarsstaðar frá. Hafði Grímsneshreppur einn lofað 5000 kr. tillagi, og svo hafðist það fram, að sýslan lofaði öðrum 5000 kr. Nú var loks unnt að fara að byrja á verkinu. Næstl. haust kom efnið í brúna hingað til lands og gekk stjórnarráðið vel fram í því að koma verkinu sem fyrst áleiðis. En miklir erfiðleikar voru á flutningum, því að efnið varð að flytja landveg austur alla leið úr Reykjavík, því að ekki tókst að skipa því upp á Eyrarbakka. En þrátt fyrir alla þessa erfiðleika varð þó byrjað á verkinu næstl., vor, og brúin fullger fyrir 8. þ.m. Stóð mest fyrir þessum framkvæmdum Magnús óðalsbóndi Jónsson í Klausturhólum, er hreppsnefndin í Grímsneshreppi valdi til þess starfs, og leysti hann það bæði vel og rösklega af hendi, með aðstoð nokkurra sveitunga sinna, sérstaklega Gunnlaugs hreppstjóra Þorsteinssonar á Kiðabergi, er varð einna fyrstur manna þar í sveit til að hreyfa þessari brúargerð fyrir mörgum árum. - Yfirsmiður við brúna var Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðingur, ættaður úr Mýrdal, og fórst það starf ágætlega úr hendi, þótt hann væri óvanur brúargerð. Var gert orð á því þar eystra, hversu verkið hefði gengið greiðlega og liðlega undir forustu hans. Fyrir stöplahleðslunni (steinsmíðinu) stóð í fyrstu Sæmundur Steindórsson steinsmiður (tengdafaðir Símonar snikkara á Selfossi), en hann varð fyrir því slysi snemma í sumar, að steinflís hraut í auga honum, og varð hann að hætta vinnu úr því og er ekki jafngóður enn. Er þetta hið eina óhapp, sem komið hefur fyrir við brúargerð þessa. Síðar stóð fyrir steinsmíðinu Sigurður Gíslason af Eyrarbakka. - Brúin sjálf er hengibrú, 60 álnir á lengd og 4 álna breið með tveimur uppihaldsstrengjum sínum hvoru megin, öll úr járni og hin vandaðasta að allri gerð, og mjög snotur að útliti, svipuð Þjórsárbrúnni þótt minni sé. Hefur Sigurður Thoroddsen verkfræðingur gert teikninguna að henni. Er talið að brúin muni kosta alls 16,000 kr. og fer það furðu nærri áætlun er gerði hana 15,000.
Það eru samtök og þrautsegja Grímsnessinga, sem komið hefur þessu mannvirki á þrátt fyrir megnan andróður úr ýmsum áttum: og hafa þeir með því reist sér prýðilegan minnisvarða, er seint mun fyrnast og ætti að verða öðrum héruðum til eftirbreytni. Þá mundi margt skipast öðruvísi á landi voru. Það mátti og með sanni segja, að vígsludagurinn var hátíðis- og fagnaðardagur, sérstaklega fyrir Grímsnessinga. Og mundu margir hafa kosið að vera í þeirra sporum þar.