1905

Austri, 23. október 1905, 15. árg., 36. tbl., bls. 136:

Vígsla Jökulsárbrúarinnar.
Þann 19. f. m. vígði landritari Klemens Jónsson hina nýju brú á Jökulsá í Axarfirði í viðurvist hátt á þriðja hundrað manns. Veður var gott og fór athöfnin vel fram.
Ræðupallur var reistur á eystri brúarsporðinum og flutti landritarinn þaðan ræðu sína og gaf nákvæma lýsingu bæði á tildrögunum og undirbúningi öllum að brúarsmíðinni, sem og á brúnni sjálfri. Brúin sjálf - hengibrúin - er 11 al. á milli stöpla, en auk hennar eru 2 aukabrýr yfir á akkerisstöplana, en þeir eru 11 al. á hæð hver um sig. Brúin kostar 55 þús. kr.
Að endaðri ræðu landritarans var gengið vestur yfir brúna, og er allir voru komnir yfir um tók sýslumaður Þingeyinga, Steingrímur Jónsson til máls og þakkaði öllum sem unnið hefðu að því í orði eða verki að koma brúnni á. Þá hélt Árni próf. Jónsson á Skútustöðum ræðu og minntist þess, hve voðalegur farartálmi Jökulsá hefði verið sem hér væri nú skreytt fögrum mittislinda til ómetanlegs gagns fyrir héraðsbúa. Þá taldi Jón héraðslæknir Jónsson af Vopnafirði fyrir minni Axarfjarðarhéraðs, og var því svarað með þreföldu húrra. Því næst flutti Ari Jochumsen á Húsavík fagra brúardrápu, og loks flutti Jón Guðmundsson búfræðingur í Kollavík í Þistilfirði ættjarðarkvæði, og eru þetta erindi úr því:

Ég veit það, að ég er svo veikur og smár
en viljann mig brestur þó eigi
að blómga þig, Ísland, og bæta þín sár
og berjast að síðasta degi.

Ef gæti ég unnið þér eitthvað til góðs
þá uppfylltist vonanna sjóður
og drjúpa ég léti hvern dropa míns blóðs
að döggva þinn menningargróður.

Þér helga ég ást mína, afl mitt og þor
og allt sem ég hugsa og segi,
þér helga ég feginn hvert framfaraspor
sem fer ég á lífstíðarvegi.

Ó fagurt er, eyjan mín, fjalllendið þitt
þótt fátæktar merki það beri,
þér helga ég síðasta hjartaslag mitt;
þér helga ég allt sem ég geri.


Austri, 23. október 1905, 15. árg., 36. tbl., bls. 136:

Vígsla Jökulsárbrúarinnar.
Þann 19. f. m. vígði landritari Klemens Jónsson hina nýju brú á Jökulsá í Axarfirði í viðurvist hátt á þriðja hundrað manns. Veður var gott og fór athöfnin vel fram.
Ræðupallur var reistur á eystri brúarsporðinum og flutti landritarinn þaðan ræðu sína og gaf nákvæma lýsingu bæði á tildrögunum og undirbúningi öllum að brúarsmíðinni, sem og á brúnni sjálfri. Brúin sjálf - hengibrúin - er 11 al. á milli stöpla, en auk hennar eru 2 aukabrýr yfir á akkerisstöplana, en þeir eru 11 al. á hæð hver um sig. Brúin kostar 55 þús. kr.
Að endaðri ræðu landritarans var gengið vestur yfir brúna, og er allir voru komnir yfir um tók sýslumaður Þingeyinga, Steingrímur Jónsson til máls og þakkaði öllum sem unnið hefðu að því í orði eða verki að koma brúnni á. Þá hélt Árni próf. Jónsson á Skútustöðum ræðu og minntist þess, hve voðalegur farartálmi Jökulsá hefði verið sem hér væri nú skreytt fögrum mittislinda til ómetanlegs gagns fyrir héraðsbúa. Þá taldi Jón héraðslæknir Jónsson af Vopnafirði fyrir minni Axarfjarðarhéraðs, og var því svarað með þreföldu húrra. Því næst flutti Ari Jochumsen á Húsavík fagra brúardrápu, og loks flutti Jón Guðmundsson búfræðingur í Kollavík í Þistilfirði ættjarðarkvæði, og eru þetta erindi úr því:

Ég veit það, að ég er svo veikur og smár
en viljann mig brestur þó eigi
að blómga þig, Ísland, og bæta þín sár
og berjast að síðasta degi.

Ef gæti ég unnið þér eitthvað til góðs
þá uppfylltist vonanna sjóður
og drjúpa ég léti hvern dropa míns blóðs
að döggva þinn menningargróður.

Þér helga ég ást mína, afl mitt og þor
og allt sem ég hugsa og segi,
þér helga ég feginn hvert framfaraspor
sem fer ég á lífstíðarvegi.

Ó fagurt er, eyjan mín, fjalllendið þitt
þótt fátæktar merki það beri,
þér helga ég síðasta hjartaslag mitt;
þér helga ég allt sem ég geri.