1904

Ísafold, 14. júlí 1904, 16.árg., 47. tbl., bls. 187:

Reiðhjólin.
Þau eru orðin furðu algeng hér í bæ, það fullyrða sumir, að þau skipti hundruðum. Ungir og gamlir, karlar og konur fara hér á hjólum nú orðið alveg eins og í stórborgum erlendis. Færra kvenfólk þó að tiltölu en þar gerist, að svo komnu. Og færri rosknir menn sjálfsagt líka. Mest eru það unglingspiltar. Einnig nokkrir smásveinar. Það eru bæði lærðir menn og leikir, stúdentar og kandídatar, þar með einnig stöku embættismenn, og búðarmenn, iðnaðarmenn o. fl.
Hálf tylft kvenna er mælt að eigi sér reiðhjól hér í bæ og að dálítið fleiri kunni þær á þau. Það eru allt ungar stúlkur, heldri stúlkur, sem kallað er. Meira er ekki um að vera þar. Þetta er mjög svo nýlega tilkomið. Það er nú fyrst að verða tíska hér, að kvenfólk fari á hjólum.
Vel væri það gert málsins vegna, að hjólamenn og konur vendu sig af hinum herfilegu dönskuslettu-bögumælum, er hér tíðkast enn um þessa nýung, hjólaferð og allt það sem þar að lýtur.
Sukkull heita reiðhjólin hjá þeim, og að sukla eða fara á hjólum, og hjólamaður suklari.
Fyrr má nú vera óskapnaður.
Fyrr má nú vera misþyrming á tungu vorri.
Það er eins og orðhagur hjólamaður einn hefir bent Ísafold á, að enginn hlutur er einfaldari og jafnframt sjálfsagðari en hvernig þetta á að orða á íslensku allt saman, og það á bestu íslensku, alveg vafningalausri og tilgerðarlausri. Þar getur ekki heitið að þurfi að halda á neinum nýgerving.
Það er mikill kostur, því oft takast þeir misjafnlega.
Hér hafa tíðkaðar verið lengi tvær íþróttir, sem eru bæði mjög skyldar og mjög líkar hjólaferðum. Það er skautaferð og skíðaferð. Galdurinn er þá allur sá, að hafa allt hið sama orðalag um þessa nýju list og hinar, þ.e. að sínu leyti.
Þá verður alveg eins vel viðeigandi og sjálfsagt að segja að fara á hjólum eins og að fara á skautum eða skíðum; hjólamaður eins sjálfsagður og skautamaður eða skíðamaður; reiðhjól eða hjól að eins í fleirtölu, eins vel viðeigandi og skíði eða skautar, sem er haft hvorttveggja eingöngu í fleirtölu, þegar talað er um ferðalag með þeim áhöldum.
Venja sig á að hafa orðið reiðhjól eða hjól ekki í eintölu, heldur í fleirtölu jafnan, er talað er um það ferðatól, er alveg eins og um skíði og skauta. Hjólin (reiðhjólin) eru og tvö, eins og skautar og skíði eru tvö. Það má ekki og á ekki að skipta sér af því, þó að algenga útlenda heitið á reiðhjólunum sé eintölu-orð (Cycle). Engin minnsta nauðsyn að vera að apa það eftir.
Hjólin mín, segir þá hjólamaðurinn, en ekki hjólið mitt, alveg eins og skautamaðurinn segir skautarnir mínir og skíðamaðurinn skíðin mín, en ekki skautinn minn eða skíðið mitt, nema hann eigi beint við annan skautann eða annað skíðið.
Þegar hjólamenn og aðrir eru búnir að venja sig á hin réttu heiti, sem hér hefir verið bent á, kunna þeir allir jafnilla við að segja hjólhestur, (sem margir gera nú og er auðvitað skárra þó en sukkull), eins og t. d. ef tekið væri upp að segja skíðishestur fyrir skíði. Hins þarf ekki að geta, að þá mundi enginn maður fást til að taka sér í munn annað eins afskræmi og sukkull, suklari og að sukla.


Ísafold, 14. júlí 1904, 16.árg., 47. tbl., bls. 187:

Reiðhjólin.
Þau eru orðin furðu algeng hér í bæ, það fullyrða sumir, að þau skipti hundruðum. Ungir og gamlir, karlar og konur fara hér á hjólum nú orðið alveg eins og í stórborgum erlendis. Færra kvenfólk þó að tiltölu en þar gerist, að svo komnu. Og færri rosknir menn sjálfsagt líka. Mest eru það unglingspiltar. Einnig nokkrir smásveinar. Það eru bæði lærðir menn og leikir, stúdentar og kandídatar, þar með einnig stöku embættismenn, og búðarmenn, iðnaðarmenn o. fl.
Hálf tylft kvenna er mælt að eigi sér reiðhjól hér í bæ og að dálítið fleiri kunni þær á þau. Það eru allt ungar stúlkur, heldri stúlkur, sem kallað er. Meira er ekki um að vera þar. Þetta er mjög svo nýlega tilkomið. Það er nú fyrst að verða tíska hér, að kvenfólk fari á hjólum.
Vel væri það gert málsins vegna, að hjólamenn og konur vendu sig af hinum herfilegu dönskuslettu-bögumælum, er hér tíðkast enn um þessa nýung, hjólaferð og allt það sem þar að lýtur.
Sukkull heita reiðhjólin hjá þeim, og að sukla eða fara á hjólum, og hjólamaður suklari.
Fyrr má nú vera óskapnaður.
Fyrr má nú vera misþyrming á tungu vorri.
Það er eins og orðhagur hjólamaður einn hefir bent Ísafold á, að enginn hlutur er einfaldari og jafnframt sjálfsagðari en hvernig þetta á að orða á íslensku allt saman, og það á bestu íslensku, alveg vafningalausri og tilgerðarlausri. Þar getur ekki heitið að þurfi að halda á neinum nýgerving.
Það er mikill kostur, því oft takast þeir misjafnlega.
Hér hafa tíðkaðar verið lengi tvær íþróttir, sem eru bæði mjög skyldar og mjög líkar hjólaferðum. Það er skautaferð og skíðaferð. Galdurinn er þá allur sá, að hafa allt hið sama orðalag um þessa nýju list og hinar, þ.e. að sínu leyti.
Þá verður alveg eins vel viðeigandi og sjálfsagt að segja að fara á hjólum eins og að fara á skautum eða skíðum; hjólamaður eins sjálfsagður og skautamaður eða skíðamaður; reiðhjól eða hjól að eins í fleirtölu, eins vel viðeigandi og skíði eða skautar, sem er haft hvorttveggja eingöngu í fleirtölu, þegar talað er um ferðalag með þeim áhöldum.
Venja sig á að hafa orðið reiðhjól eða hjól ekki í eintölu, heldur í fleirtölu jafnan, er talað er um það ferðatól, er alveg eins og um skíði og skauta. Hjólin (reiðhjólin) eru og tvö, eins og skautar og skíði eru tvö. Það má ekki og á ekki að skipta sér af því, þó að algenga útlenda heitið á reiðhjólunum sé eintölu-orð (Cycle). Engin minnsta nauðsyn að vera að apa það eftir.
Hjólin mín, segir þá hjólamaðurinn, en ekki hjólið mitt, alveg eins og skautamaðurinn segir skautarnir mínir og skíðamaðurinn skíðin mín, en ekki skautinn minn eða skíðið mitt, nema hann eigi beint við annan skautann eða annað skíðið.
Þegar hjólamenn og aðrir eru búnir að venja sig á hin réttu heiti, sem hér hefir verið bent á, kunna þeir allir jafnilla við að segja hjólhestur, (sem margir gera nú og er auðvitað skárra þó en sukkull), eins og t. d. ef tekið væri upp að segja skíðishestur fyrir skíði. Hins þarf ekki að geta, að þá mundi enginn maður fást til að taka sér í munn annað eins afskræmi og sukkull, suklari og að sukla.