1903

Tenging í allt blaðaefni ársins 1903

Ísafold, 10. janúar 1903, 30. árg., 2. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá vegabótum sumarið 1902 og hefur þó nokkuð verið gert.

Landsvegabætur 1902.
Að þeim hefur unnið verið í sumar er leið á 5 stöðum, eða af 5 vinnusveitum, sem hér segir:
1. Að Stykkishólmsveginum frá Borgarnesi. Þar var byrjað, sem síðast var hætt, við Urriðaá, og fullgerður nýr vegur þaðan vestur að Grunnuvötnum, fyrir neðan Fíflholt, rúmar 2 mílur, en þar af eru 1750 faðm. melar, sem ekki þurfti annað en að ryðja; hitt, 6.672 faðm., fullkominn vegur, gerður alveg að nýju, og yfir mikil fen og foræði, sem voru þó óvenju vatnslítil, sakir hinna miklu þurrka. Brú var og gerð á Álftá, 22 álna löng og 11 álna stöplar undir; hún kostaði á 19. hundr. kr.
Fullgerð var áður af vegi þessum 10½ röst rúm, frá Borgarnesi, utan lítill kafli rétt hjá því kauptúni, í brattlendi; hann var nú gerður í haust, nær 200 faðm., og kostaði á 6. kr. faðmurinn.
Af kaflanum milli Borgarness og Hítár eru nú eftir 1.750 faðm. vestast, næst ánni.
Þessari vegavinnu á Mýrum stýrði nú sem að undanförnu Erlendur Zakaríasson, og hafði nál. 60 verkmanna vor og haust, en fram undir 40 um sláttinn; og 23 vagnhesta. Kaupið var 2,75-3,00, nema unglingar 2 kr., og flokksstjórar og smiðir 3,40. Hestaleiga lægri en áður, 45 a. í stað 60; suma hestana átti landssjóður, keypti þá fyrir um 80 kr., og kemur þeim í fóður að vetrinum fyrir 30-35 kr.
Meðalkostnaður á faðm af fullgerða veginum varð 2.53, að fráskildum kaflanum hjá Borgarnesi og að ótöldum brúm og ruðningum. Það er óvenju-lítið, sem er að þakka hinum dæmafáu þurrviðrum; alls engin vinnutöf að kalla fyrir veðurs sakir. Vinnutíminn frá því snemma í maí og fram í miðjan október.
Kostnaður allur um 9.000 kr.
2. Að vegi yfir Laxárdalsheiði í Dölum m.m. Lagðir 1.730 faðm. af nýjum vegi á heiðinni. Auk þess rutt og lagað bæði þar og í Hrútafirði, og smákaflar gerðir af nýju hingað og þangað.
Þessari vegagerð stýrði Sigurgeir Gíslason, frá Hafnarfirði. Verkalið hans kringum 30. Kaup líkt og á Mýrum. Byrjað snemma í júním. og endað seint í septbr. Kostnaður alls um 7.000 kr.
3. Að veginum yfir Hrútafjarðarháls m. m. Vesturkafli hálsins áður full vegaður. Nú lagður kaflinn frá Sveðjustöðum niður að Miðfjarðará, nál. 3370 faðm. Auk þess lögð brú á Sveðjustaðalæk, 12½ alin.
Fyrir þessari vegagerð stóð Árni Zakaríasson, með 32-40 verkamenn, er höfðu sama kaup hér um bil eins og goldið var á hinum stöðunum. Sá hópur gerði og nokkuð við veginn á Miðfjarðarhálsi.
Byrjað var í miðjum júní og haldið áfram til 17. okt., nema brúin á Sveðjustaðalæk þó gerð síðar. Kostnaður allur nær 10.000 kr.
4. Unnið í Múlasýslum að viðgerð á vegum og vegaruðningi: í Hróarstungu, á Jökuldal, í Skriðdal og á Berufjarðarskarði.
Því verki stýrði Magnús Vigfússon frá Reykjavík og hafði 20-30 verkamanna, frá því snemma í júní og þangað til seint í septbr. Kostnaður nær 8.000., þar í brú á Sauðá, er kostaði nokkur hundr. kr.
5. Loks var varið um 10.000 kr. til viðgerðar á Eyrarbakkavegi, milli Selfoss og Eyrarbakka, og Hellisheiðarvegi. Borið ofan í allan Eyrarbakkaveginn og gert við rennur fram með honum m. m. Ofaníburð varð að sækja út yfir Ölfusá annars vegar og niður í Hraunsás hjá Stokkseyri hins vegar; ófáanlegur góður nær. Sú vinna stóð frá 1. júlí til 6. okt. með 26 mönnum, 16 vögnum og 32 hestum og kostaði rúm 6.700 kr. Verkstjóri Tómas Petersen.
Hann og hans lið vann bæði áður og eftir eða frá 5. maí til 30. júní og 10. til 25. okt. að viðgerð á veginum frá Reykjavík austur um Hellisheiði, byrjaði fyrir neðan Elliðaár og hélt austur í Kamba, gerði af nýju 860 faðm., er ónýtt var orðið, mest hjá Rauðavatni og Hólmi – 14 ár síðan sá vegur var lagður-, en bar ofan í 1.960 faðma. Svínahraunsvegur meðal annars lagaður svo, að hann er vagnfær. Þetta kostaði nær 3.400 kr.
Að því rekur sýnilega áður en langt um líður, að landsvegaféð, þótt allmikið sé orðið, 70-80 þús um árið, gerir naumast meir en að hrökkva til viðhalds þegar lögðum vegum.
Þá verður um þessa kosti að velja, og engan góðan; að auka til muna vegafjárveitinguna, að láta staðar numið um nýja vegagerð, að láta vegina sem fullgerðir eru, ganga úr sér og ónýtast gersamlega með tímanum, eða loks að leggja viðhaldið að meira eða minna leyti á héruðin sem vegirnir liggja um.
Engum þarf að koma á óvart, þótt viðhaldið sé dýrt. Og fráleitt er vit í að eigna það verra landslagi eða óhagstæðara loftslagi (veðráttu) en gerist annarsstaðar. Það er þar upp og niður hvorttveggja, sumstaðar betra, sumstaðar miklu verra.
Danir vörðu ógrynni fjár til að leggja ágæta vegi um land sitt, byrjuðu á því á ofanverðri 18. öld og héldu því áfram öldina sem leið, eftir ófriðar- og eymdarárin framan af henni, bæði áður en járnbrautir komu þar til sögunnar (1817) og eftir það. Nú hafa þeir komið sér upp járnbrautum um landið þvert og endilangt, 300 mílum alls, og mun þá margur ímynda sér litla þörf orðna á vegum og því fé mjög á glæ kastað, er til þeirra hefir verið varið. En þeir segja þeirra litlu eða engu minni þörf og not fyrir það; fólksfjöldinn hefur aukist það og viðskiptalífið örvast í enn meira mæli. Þeir verja því 4 millj.. kr. um árið til viðhalds vegum hjá sér, og telja því fé vel varið. Og þó er, eins og kunnugt er, Danmörk ekki stærri en sem svarar einum þriðjung af Íslandi auk þess fjallalaus.


Austri, 17. janúar 1903, 13. árg., 2. tbl., forsíða:
Magnús Bl. Jónsson skrifar um Fagradalsveginn og er eindregið þeirrar skoðunar að vegagerðin eigi að hefjast Reyðarfjarðarmegin.

Akbrautin um Fagradal.
Til hennar munu vera lagðar 6.000 kr. á núgildandi fjárlögum, og heyrst hefir, að byrja muni eiga á brautinni á komandi sumri. En þá verður fyrir manni spurningin: Hvar verður byrjað?
Eg lít svo á, að þetta standi alls eigi á sama, og þykist mega fullyrða, að margir fleiri séu á sama máli. Frétst hefir, að byrja mundi eiga á Egilstaðanesinu við syðri sporð Lagarfljótsbrúarinnar væntanlegu. En slíkt eru aðeins lausafregnir, og sennilegast, að ekkert sé afráðið um þetta enn. Vil eg nú láta skoðun mína í ljós á þessu atriði.
Um Egilstaðanes hlýtur að koma vegur, þegar brú er komin á Lagarfljót, því að veg þarf að brúnni. Slíkur vegur er meira að segja póstvegur og tilheyrir tvímælalaust brúnni. Vitaskuld má segja, að þetta þurfi ekki að vera akvegur; en póstvegur yfir marflatt og slétt land er um leið nýtilegur akvegur. Aftur get eg ekki skilið; hvernig akbraut um Egilstaðanes getur kallast akbraut um Fagradal. Í mesta lagi getur hún heitið framhald af akbraut um Fagradal, þegar braut er komin um dalinn. En sé póstvegur kominn áður á Egilstaðanesi sem að líkindum hefði komið þar með brúnni, þó ekki hefði staðið til að leggja akbraut um Fagradal, þá þarf sjálfsagt lítið við hann að gjöra; til þess að hann verði notaður til aksturs.
En auk þessa hefur það allmikla þýðingu, hvort akbrautin er byrjuð á réttum eða öfugum enda, en að mínu áliti snýr óefað rétti endinn að Reyðarfirði. - Ástæður:
Yfir Fagradal allan er miklu greiðgjörðari vegur heldur en eftir að kemur norður fyrir hann, en eftir að kemur norður fyrir hann, ef vegurinn verður lagður um Egilstaðaháls, eins og eg hygg, og yfir Köldukvísl, sem þarf að brúa. Fyrir sömu fjárupphæð verður líklega lagður allt að helmingi, eða máske fullkomlega það – lengri vegarstúfur um Fagradal en um Egilstaðaháls. Þetta gæti nú staðið á sama, ef ekki væri unnt að hafa nein not brautarinnar, fyr en hún væri fullgjör enda á milli. En hér stendur alls eigi svo á. Hún getur þvert á móti komið að mjög miklum notum áður en hún er fullgjör, ef rétt er byrjað. Sé byrjað á Reyðarfirði og brautin lögð norður eftir, þá verður hún þegar til stór-mikils gagns, er hún er lögð yfir dalinn sjálfan. Mætti þá létta svo undir flutninga Héraðsmanna, að flytja upp í Héraðið (Þuríðarstaðadalina) allan þann þunga varning, sem geymst getur úti, svo sem trjávið, kol, járn o. fl. Þetta gætu svo eigendur sótt á sleðum að vetri til eftir hentugleikum. Mundi þetta spara mikinn tíma að sumarlagi og mikla og illa hestabrúkun, einkum hvað trjávið snertir. Kol eru nú alls eigi flutt til Héraðs, en sá tími þarf að koma, heldur fyr en seinna, að eitthvað annað fáist í eldinn, en áburðurinn. – Með jafn smátækum fjárveitingum til akvegar þessa, sem í þetta sinn, mundu líða mörg ár, frá því að brautin kæmist norður yfir Fagradal, og þangað til hún mynntist við Lagarfljótsbrúna. Því að þó Fagridalur sé lengsti hlutinn af leiðinni, þá efast eg um að hann sé meira en helmingur hennar að kostnaðinum til.
Það er tiltölulega lítið vörumagn, sem flutt er frá Héraðinu að sjónum í samanburði við það, sem flutt er til Héraðs, því að kindurnar bera sig sjálfar, sem eru aðalgjaldeyrir bóndans. Það ætti því að liggja öllum í augum uppi, að áríðandi er að haga vegagjörðinni þannig, að sem fyrst megi nota brautina undir flutning til Héraðsins. Verði byrjað á akbrautinni að norðan, kemur hún að engum notum, fyr en hún er komin á enda, út á Búðareyri við Reyðarfjörð. Menn munu þykjast sjá á þessum orðum, að eg gjöri ekki ráð fyrir, að akbrautin verði notuð sem lestavegur. Það hef eg aldrei gjört og gjöri ekki enn. Fagridalur er meistaraverk náttúrunnar sem akvegarstæði, en lestarvegur verður þar aldrei að mun, og gjörir það þó eingöngu vegalengdarmunur.
Eg vildi óska, að fleiri Héraðsmenn létu uppi skoðun sína á þessu máli; en einkum tel eg það mjög áríðandi, að landsstjórnin eða þeir, sem fyrir hennar hönd standa fyrir akvegargjörðinni, athugi þetta vel, áður en byrjað er.
En því vildi eg hreint og beint mótmæla, að þessi sáralitla upphæð sem veitt er til akbrautar um Fagradal, verði varið í póstveg um Egilstaðanes með akbrautarnafni.
Af því að Austri hefir ávallt verið hlynntur þessu nauðsynjamáli voru Héraðsmanna, bið eg hann fyrir línur þessar til birtingar.
Vallanesi, 18. desember 1902.
Magnús Bl. Jónsson.


Þjóðólfur, 13. febrúar 1903, 55. árg., 7. tbl., bls. 26:
Sveitabóndi skrifar hér um vegavinnu og telur betra að slíkt sé unnið í akkorði.

Um vegavinnu.
Það er orðið ekki svo lítið sem unnið er að vegagerð árlega hér á landi, og að líkindum fer það fremur í vöxt.
Enn sem komið er mun öll vegagerð hér vera framkvæmd með daglaunavinnu, eða að minnsta kosti hef eg aldrei orðið þess var, að samningsvinna (akkorð) hafi verið reynd hér við vegagerð.
Menn, sem eru fróðari en eg, og þeir, sem komið hafa > út fyrir pollinn <, hafa sagt mér, að í útlöndum sé venjulegast að framkvæma slíka vinnu sem >akkorð<, eða láta vegagerðarflokkana gera undirboð í þá vegakafla, er gera skal, og fáist vinnan mikið ódýrari með því móti. Ætlunarverk verkfræðinga og umsjónarmanna stjórnarinnar er þá að ákveða vegina, semja um akkorðin og sjá um, að verkið sé gert eins og á að vera.
Mér skilst svo, að þetta gæti átt við hér, eins og annarsstaðar, nema ef svo skyldi vera, að landssjóður Íslands væri svo stöndugur, að það, sem unnið er fyrir hann, þurfi endilega að vera sem dýrast, til að koma honum í lóg! Og þó veit eg, að við sumir gjaldendurnir gætum Þegið, að einhverju væri á okkur létt, í stað þess, að brúka fé landssjóðs að nauðsynjalausu eða til óþarfa, til að létta hann.
Sumum virðist kaupgjald vegavinnumanna ekki heldur numið við neglur sér, þó hvíldirnar séu nægar, enda vilja nú allir piltar, sem geta girt sig hjálparlaust annaðhvort komast í vegavinnu eða > vera til sjós <; landbúskaparvinna þykir nú flestum óaðgengileg.
Sumt ráðlag vegavinnustjórnarinnar sýnist okkur bændamyndunum ekki sem hyggilegast, og skal eg nefna nýjasta dæmið, sem eg þekki.
Nú í haustskammdeginu hefur flokkur vegavinnumanna úr Rvík verið nokkrar vikur að gera við veginn frá Elliðaám fram að Sogum, sama kaflann, sem gert var við fyrir skömmu, (hálfu öðru ári að mig minnir), og sem stóð sig best af öllum þeim vegi, þó að rennurnar utan við veginn væru horfnar í 3 stuttum melskörðum, sem ekkert vatnsrennsli var um. Mennirnir hafa nú gert rennur í skörðin, og mokað því, sem upp úr þeim kom, upp á melabrúnirnar, svo nú setjast skaflar enn hærra í skörðin, en áður, vegna þess, að brúnirnar eru hærri. Auk þess hefur verið rjóðrað sandi á veginn, þar sem síst þurfti, á þessum kafla.
Því má eigi gleyma að sami flokkur setti rið á Elliðaárbrúarstöplana, og tel eg það eitt þarft af þessari vinnu hans. Það var búið að dragast óforsvaranlega lengi. Lítið eitt ofar á sama vegi (Hellisheiðarveginum), eru margir kaflar enn óviðgerðir, sem verða ófærir, þegar leysir á vorin, fyrir rennu- og íburðarleysi, og hefði sýnst þarfara að gera við þá, úr því farið var að nota svartasta skammdegið og óveðratíð, þá ódrýgst verður úr verki, til vegagerðarvinnu.
Nú verður þó ekki tvískipting valdsins um ólagið kennt, þar sem landsingeniörinn hefur einn öll völdin – eða er ekki svo?
Í des. 1902.
Sveitabóndi.


Þjóðólfur, 20. febrúar 1903, 55.árg., 8. tbl., bls. 31:
Í frétt úr Dalasýslu segir að nú sé brúin tilbúin á Laxá.

Dalasýslu 2. febr.
Brúin á Laxá komst á stöpla í byrjun desember, og er svo fullgerð, að hún verður farin bæði gangandi og ríðandi. Hún virðist vera mjög sterk í allri gerð, og nú eru stöplarnir svo háir, að ótrúlegt í fyllsta máta er, að jakar geti nokkru sinni náð brúnni. Þessi brú er langnauðsynlegasta vegabót í þessu héraði.


Þjóðólfur, 20. mars 1903, 55. árg., aukablað nr. 2, forsíða:
Hér er rætt um þörfina á gistihúsi á Lækjarbotnum, að það sé mikið öryggisatriði að hafa gistihús á leiðinni frá Reykjavík að Kolviðarhól.

Gistihús á Lækjarbotnum.
Fyrir alla ferðamenn, er Hellisheiðarveginn fara suður og sunnan – en það mun vera langfjölfarnasti vegur á landinu – er Kolviðarhóll nauðsynlegur áfanga- og gististaður, eins og allir vita. Án gistihúss þar, væri illfært eða ófært á vetrardag þessa leið, og þótt ekki sé nema 10-20 ár síðan viðunanlegur gististaður varð á Hólnum, og menn yrðu áður að sætta sig við lítinn, ónýtan og óbyggðan sæluhúskofa, þá var það í sjálfu sér óhæfilegt fyrirkomulag. En þá voru það mest lausgangandi menn, er þennan veg fóru á vetrum, því að vetrarferðir með áburðarhesta, voru þá mjög fátíðar, en nú mjög almennar síðan gistihús kom á Hólinn. Og þess má einnig geta, að ferðamenn láta mjög vel yfir öllum viðtökum hjá ábúandanum hr. Guðna Þorbergssyni, sem hefur áunnið sér almenna hylli og með miklum ötulleik og dugnaði staðið mæta vel í hinni erfiðu og ónæðissömu stöðu sinni, því að það er ekki á allra færi, að veita gistihúsinu þar forstöðu, jafnmikið umstang sem því er samfara, jafnhliða því að fullnægja öllum sanngjörnum kröfum ferðamanna. En með því að vetrarferðir með hesta austan yfir fjall hingað suður eru svo mjög farnar að aukast, hafa menn fundið til þess betur og betur, að brýn þörf væri á öðru gistihúsi nær Reykjavík, en Kolviðarhóll er, því að vegalengdin milli þessara staða er um 30-40 kílómetrar eða 6-8 kl.tíma ferð með lest á sumardag, og á vetrardag að jafnaði miklu meira, en hvergi á þeirri leið neinn gistingarstaður fyrir ferðamenn, nema lítilsháttar í Árbæ rétt fyrir ofan Elliðaárnar, og má þó geta nærri, að bóndinn þar getur ekki nema af mjög skornum skammti veitt ferðamönnum þann greiða, er þeir þarfnast, allra síst að því er húsrúm eða húsaskjól snertir fyrir menn og skepnur, enda liggur engin skylda á honum til þess. Á Lækjarbotnum, hér um bil miðja vegu millum Kolviðarhóls og Reykjavíkur, hafa nokkrir ferðamenn reyndar getað fengið gistingu, en húsrúm er þar bæði lítið, illt og óþægilegt, svo að bóndinn þar getur ekki, hversu feginn sem hann vildi, fullnægt neinum þeim kröfum, er til gistihúss verður að gera. Kvartanir ferðamanna um vöntun gistihúss milli Kolviðarhóls og Reykjavíkur verða því dag frá degi háværari. Það virðist því bera brýna nauðsyn til, að á þessu verði bót ráðin sem allra fyrst, með því að reisa allviðunanlegt gistihús á Lækjarbotnum eða öllu heldur við Hólmsá nálægt brúnni, svo að þeir sem Mosfellsheiði fara gætu einnig haft not þess, er þeir gætu síður haft, ef það væri heima á Lækjarbotnum, með því að það væri of mikið úr leið fyrir þá. Gistihús þetta ætti landsjóður að reisa með einhverjum styrk sýslujóðanna í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum. Þykir sennilegt, að sýslunefndir þessar hreyfi málinu til undirbúnings undir næsta alþingi, því að eftir undirtektum og tillögum sýslunefndanna fer það mikið, hvernig þingið mundi taka í það. Þetta er nauðsynjamál, sem fyrnefnd sýslufélög ættu að hrinda áleiðis, því að taki þau vel í málið er ólíklegt, að þingið snerist illa við jafn sanngjarnri og réttmætri beiðni. Það er varið fé úr landsjóði til ýmiskonar meiri óþarfa en þess, að veita hlýindi, hvíld og þægindi köldum og þreyttum ferðamönnum, er í ófærð og vetrarhörkum verða að brjótast sér til bjargar langa, erfiða og hættulega leið yfir fjöll og firnindi.


Austri, 28. mars 1903, 13. árg., 7 tbl., forsíða:
Jón Bergsson skrifar um akbrautina yfir Fagradal.

Akbraut yfir Fagradal.
Í öðru tölublaði "Austra" þ. á. skrifar síra Magnús Bl. Jónsson í Vallanesi grein um akbraut yrir Fagradal. Skýrir hann það frá skoðun sinni á því hvar byrja eigi á hinni fyrirhuguðu akbrautarlagningu, og óskar jafnframt að fleiri Héraðsmenn láti álit sitt í ljós í þessu máli. Þareð ég er alveg á sömu skoðun, þá er mér því ljúfara að verða við þessari ósk hans, úr því enginn annar hefir látið til sín heyra í því máli. Ef það kæmi fyrir, eins og heyrzt hefir, að byrjaeigi á brautarlagningunni yfir Fagradal við Lagarfljótsbrúna fyrirhuguðu, þá verð eg að álíta slíkt mjög misráðið og mun það samhuga áliti flestra eða allra Héraðsbúa. Eg get heldur ekki álitið, að sá vegur eigi beinlínis skylt við akbraut yfir Fagradal, því eptir mínum skilningi tel eg akbrautarveginn yfir Fagardal fyrst einungis frá Búðareyri við Reyðarfjörð niður að brúnni að Eyvindará, nefnilega þar til hann kemur saman við póstveginn þar, og svo þarf maður að ganga út frá því, að brautin liggi niður að Lagarfjóti, en ekki að Lagarfljótsbrúnni, ef maður skoðaði akbrautina í sambandi við gufubát á Lagarfljóti. Hún ætti þá að liggja þangað sem hægt væri að hafa höfn fyrir bát og upplagsstað fyrir vörur og um það atriði þyrftu Héraðsbúar að koma sér saman, áður en vegurinn yrði langður. Vegur yfir Egilsstaðarnes er póstvegur, sem ekkert kemur akbraut yfir Fagradal við, ekki fremur en vér teldum brú yfir Lagarfljót akbraut yfir Fagradal, því litla fé, sem búið er að veita til akbrautarinnar held eg að engin heimild sé til að verja til annara vega. Ef þessum 6.000 kr., sem veittar eru til Fagradalsbrautarinnar, væri nú varið til vegagjörðar á Egilsstaðarnesi og upp að Eyvindarárbrúnni, þá væri það í reyndinni svo að á póstleiðinni frá Lagarfljóti til Seyðisfjarðar væri varið 12.000 kr., nefnilega þeim 6.000 kr. sem veittar eru til Fjarðarheiðar; en ekki einni einustu krónu til akbrautar yfir Fagradal. Okkur væri lofað sykurmola en stungið upp í okkur salti. Þó gengið væri út frá því, sem eg alls ekki gjöri, að brautin ætti að teljast alla leið niður til hinnar fyrirhuguðu Lagarfljótsbrúar, þá dylst engum manni, að réttara og praktiskara væri að byrja að leggja veginn frá sjónum eiða verzlunarstaðnum, þaðan sem flutningurinn byrjar, heldur en að byrja á hinum endanum og flytja öll áhöld og efni, sem til vegarins þurfa, yfir óruddan veg á hestum. Aptur á móti, ef byrjað bæri að neðan, mætti flytja allt efni og áhöld til vegagjörðarinnar t.d. efni í brýr yfir ár og læki eptir brautinni sjálfri, jafnframt og hún er lögð. Mundi vegurinn með því fyrirkomulagi verða bæði ódýrari og að öllu leyti greiðara að vinna að honum. Eg get búizt við því svari, að oss komi það ekki við hvar byrjað verði, eða hvernig unnið verði að veginum. En eg álít það blátt áfram skyldu vora að benda á það, sem betur gæti farið, og láta það ekki afskiptalaust eða óátalið, sem miður fer. Hér er tvennt, sem þar að hafa fyrir augum, hag þeirra, sem eiga að nota og njóta brautarinnar, og sparnað með því að byrja neðan frá sjónum, er þessu hvorutveggja fullnægt. Því eins og síra Magnús hefir tekið fram, eru mikil líkindi til að menn mundu geta haft mikið gagn af brautinni áður en hún yrði fullgjör, ef hún byrjaði að neðan, því það eru aðflutningar, sem öllum erfiðleikum valda; en ekki teljandi enn það sem menn þurfa að flytja frá sér. Að vísu verður lítið gjört með þessari litlu upphæð, sem þegar hefir verið veitt til akbrautarinnar. Það yrði aðeins lítill stúfur sem gjörður yrði fyrir þessar 6.000 kr, svo að því leyti væri minnst um að gjörn hvar byrjað væri, að öðru en því, að það er svo hætt við því og má ganga út frá því sem sjálfsögðu, að frá hvorum endanum, sem byrjað verður, að þaðan verði framhaldið, svo þess vegnaliggur það í augum uppi, að miklu réttara væri að byrja að neðan og meira að segja sjálfsagt, nema því aðeins, að vér séum þeim óhappa örlögum háðir að allt þurfi að fæðast á apturfótum hjá oss. Verði nú fjárveitingar til Fagradalsbrautarinnar framvegis sniðar eptir sama mælikvarða og þessi fyrsta, þá verður þessi margþráði vegur aðeins draumur fyrir okkur, sem nú eru farnir að eldast, og nærri því til þess að stinga okkur svefnþorni, því eg veit ekki hvað það er, sem frekar getur haft svæfandi og deyfandi áhrif á menn, en það að sjá byrjað á einhverju fyrirtæki, sem ekkert gengur. Eg tel það sama, sem það gangi ekkert með þetta mál, ef á hverju þingi væru veittar jafnar fjárveitingar þessari fyrstu til akbrautarinnar og það gengju ein 20 - 30 ár að koma henni upp. Þegar um svona fyrirtæki er að ræða, er annaðhvort að eiga ekkert við þau eða þá að drífa þau af í einu. Veita á fjárlögum í einu þá upphæð, semtil fyrirtækisins er áætlað, og láta svo verkið gana eptir því, sem föng eru á. Að veita smá upphæðir í einu til vega hingað og þangað út um landið, verður aldrei nema kák, sem ekkert eða lítið gegn verður að. Ef landi voru er nokkur framavon, þá þurfum vér að gjöra eitthvað, sem að verulegu gagni getur komið, eða sem vér álíutm að geti orðið til verulegara framfara. Atvinnuvegir vorir þurfa alvarlegra lækininga við, það duga engar homöopatha eða smáskamtalækningar, þær eru bara til þess að halda oss við þá trú að ekkert sé hægt að gjöra og bezt sé að móka í hálfgjörðu aðgjörðaleysi. Það má ekki sjá útí neinn skynsamlegar kostnað til að lækna meinsemdirnar. Fyrsta skilyrðið er að greiða samgöngur á sjó og landi eptir því sem kostur er á, þær hafa hingað til verið taldar lífæð framfaranna. Fyrir þetta hérað hef eg það trú að bættar samgöngur gætu haft sérlega mikla þýðingu. Akbraut yfir Fagradal og gufubátur eptir Lagarfljóti mundi með tímanum hafa meiri áhrif á landbúndaðinn í Fljótsdalshéraði, en menn almennt gjöra sér hugmynd um. Það eru mikil skilyrði fyrir að landbúnaðurinn í Fljótsdalshéraði gæti tekið stórkostlega miklum umbótum, ef að honum væri hlúð. Aðflutningur Héraðsbúa er einhver sá versti þröskuldur á vegi fyrir öllum framförum þess. Samlagsmjólkurbúum mundi mjög erfitt að koma hér á, eins og nú hagar til fyrir strjálbygðina, en ef gufubátsferðir kæmust á eptir Lagarfljóti mundi máske hvergi á landinu eins auðvelt að drífa samlagsmjólkurbú í stórum stíl, þar sem svo margir bæir liggja rétt meðfram Lagarfljóti. Víða hagar svo til á Héraðinu, að enginn svörður er til, og ekkert er til að brenna nema sauðatað og því víða mestu eða öllu brennt, allstaðar einhverju af því meira eða minna. Hvernig á grasrækt að vera í góðu lagi með þessu fyrirkomulagi. En hverju á að brenna öðru? Allir hafa fullt í fangi að flytja að sér þessar vanalegu nauðsynjar, og er því ekki að tala um að flytja kol til eldsneytis. Að líkindum myndi sá tími koma, ef greiðari væru aðflutningar að mönnum skildist að bezti áburðurinn væri eftir allt of dýr til eldsneytis. Þannig mætti máske lengi telja upp að mörgu mætti breyta og mörgu þyrfti að breyta emð greiðari aðflutningum. Það er ótalinn allur sá tími og allur sá kostnaður, sem gengur í vora núverandi flutninga; það eru peningar, sem vér gjörum oss alltof litla hugmund um, ef vér göngum út frá því, að tíminn sé peningar. Ef vér höfum trú á framtíð landsins, þurfum vér eitthvaðað gjöra til þess að bæta atvinnuvegi þess. Búskapur, á nær óræktuðu landi, með lítilli kunnáttu og litlum sem engum verkfærum, getur ekki borið sig. Það er ómuglegt aðnnað að segja, en það vér lifum á nær óræktuðu landi, þó vér höfum einhvern dálítinn þúfnareit kringum bæi vora, sem vér berum áburuð á. Gætum vér varið öllum tíma og öllu því verki og öllum öðrum kostnaði, sem nú gengur til vorra erfiðu aðflutninga, til jarðabóta, mætti mikið gjöra, og gætum vér sparað helminginn eða meira af því fóðri, sem vér þurfum nú handa vorum útþrælkuðu illa meðförnu hestum, mætti mörgu fé framfleyta á því í öllu Fljótsdalshéraði. Mættum vér nú meða vorum vonaraugum líta fram í tímann og hugsa oss akbraut fyrir Fagardal með motorvögnum, fram og til baka milli Reyðarfjarðar og Lagarfljóts, sem færðu oss allar vorar nauðþruftir, og svo gufubát eptir Lagarfljóti, sem gengi upp í fljótsbotn og út að fossinum við Kirkjubæ, og hver gæti svo tekið sinn varning við Lagarfljót, þar sem skemmst væri fr´æa bæjum, mundi oss ekki þá þykja munur á þægindunum. Þar hefðum vér flutningsveg c. 14 - 15 mílur, þar af kostaði landið 1/3 og náttúran 2/3 partana, sem aldrei þyrfti viðhald og ekkert uppá að kosta. Hvar á landinu væri hægt að fá ódýrari veg til flutninga yfir hverjar 15 mílur? Lagarfljót hefir hingað til verið talið Fljótsdalshéraði hið mesta óhagræði, og er það meðan það er ekkert notað, en sannarlega hefir það mikla blessun og hagræði í sér fólgið, ef vér vildum nota það. Öld eptir öld hefir það verið Fljótdalshéraði til bölvunar og erfiðisauka, af því menn hafa ekki skilið þýðingu þess og ætlunarverk. Nú sjáum vér að það hefir í sér flólgið tugi þúsunda króna sem flutningavegur; eptir að vér fáum akbraut frá sjónum. Höfum vér ráð á því að láta svona flutningsbætur lengur ónotaðar – Fagradal og Langadal -, sem af náttúrunnar hendi blasa við oss til þess að létta undir erfiði lífsins? Þetta er svo alvarlegt málefni fyrir Fljótsdalshérað að það ætti enginn hugsandi maður að láta sér það óviðkomandi, eða að liggja á liði sínu að styðja það á allan hátt. Undir því er framtíð - framfarir og blómgun - Fljótsdalshéraðs algjörlega komin.
Ritað í marz 1903
Jón Bergsson.

Ísafold, 25. apríl 1903, 30. árg., 21. tbl., bls. 82:
Hér segir frá sýslunefndarfundi Árnesinga.

Af sýslunefndarfundi Árnesinga.
Hann var haldinn 14.-18. þ.m. og skal hér getið helstu málanna:
Eitthvert mesta vandamál fundarins var að bjarga rjómabúunum úr hættu, en á þeim byggist mjög svo framtíðarvon landbúnaðarins. Hættan er sú, að smjörið seljist illa eða ekki, nema því að eins, að það sé í svo stórum kvartilum, að eigi sé fært að flytja þau á hestum nema stutta leið, einkum þar sem þetta er svo mikill flutningur. Virðist því bráðnauðsynlegt, að þau eigi sem allra skemmst til dráttar að vagnvegi. Til þess þyrfti að lengja flutningabrautina frá Eyrarbakka þann veg, að hún taki sig upp aftur frá þjóðveginum fyrir ofan Bitru og sé lögð þaðan upp að Laxá fyrst. Svo þyrfti álmu frá henni að Iðu, vegna Biskupstungnabúsins, og aðra frá Ölfusveginum að Alviðru, vegna Grímsness. Sýslunefndin sá eigi annan veg færan en að biðja alþingi að koma þessu áleiðis á næsta fjárhagstímabili, en hét þar á móti að taka að sér, í sambandi við Grímsnesinga, að brúa Sogið án landssjóðstillags; og mun það fullerfitt.
Þá var óskað, að sýslu- og hreppsnefndum yrði leyft, er þörf krefur, að hækka vegagjaldsmælikvarðann, þar eð verkfærir menn fækka, en vegir þurfa sins við fyrir því.
Beðið var um að losna við brúagæslukostnaðinn.
Og enn var beðið um, að hafnir hér verði gerðar að strandferðaviðkomustöðum að sumrinu.
Öllu þessu eiga nýju þingmennirnir okkar að reyna sig á að koma fram, og þó ýmsu fleiru, t.d. að fjölga vörðum með Mosfellsheiðarvegi, fá Geysisbrautina lengda o.fl.
Nýmæli var, að veittar voru 550 kr. til dragferju á Iðu. Spóastaðalögferju var lagt til að afnema, en Óseyrarnessferja, þótti eigi mega missast.
Í stað ferðamannaskýlis á Lækjarbotnum, var lagt til að styrkja gistihús nálægt Hólmsbrú, ef þess yrði óskað.


Þjóðólfur, 1. maí 1903, 55. árg., 18 tbl., forsíða:
Hér er frásögn af sýslufundi Árnesinga en þar voru m.a. tekin fyrir ýmiss merk samgöngumál.

Sýslufundur Árnesinga
Var haldinn á Eyrarbakka dagana 14.-18. f. m. Voru þar mjög mörg mál á dagskrá, og verður hér að eins fátt eitt talið, er helst þykir máli skipta.
Um samgöngumál var lengi rætt og skorað á tilvonandi alþingismenn sýslunnar, að gangast fyrir því á næsta þingi, að flutningabrautin milli ánna verði lengd frá Flatholti (nál. Bitru) upp að Laxá og að lögð verði álma út úr henni að Iðu, einnig að álma verði lögð út úr brautinni utan Ölfusár að Alviðru. Er þetta einkum gert vegna rjómabúanna. Gangi þetta fram lofar sýslunefndin að taka að sér að gera brú á Sogið í sameiningu við Grímsneshrepp og án fjárframlaga úr landsjóði. – Skorað var og á þingmennina að reyna að fá því framgengt, að brúargæslu verði létt af sýslusjóði, að útvegaðar verði upplýsingar um, hvort koma megi á >motor<-vagnferðum, og að sýslu- og hreppsnefndum verði leyft, ef nauðsyn þykir, að hækka allt að helmingi mælikvarða vegagjalds. – Til dragferju á Hvítá hjá Iðu voru veittar 550 kr. Lagt til að aftaka lögferju á Spóastöðum, en Óseyrarnessferju vildu menn ekki missa. Mælst var til, að Stokkseyri og Eyrarbakki (eða Þorlákshöfn) væri tekin í strandferðaáætlanir frá maíbyrjun til septemberloka. Mælt með 200 kr. veitingu úr amtsjóði til Guðna á Kolviðarhóli, í viðurkenningarskyni og einnig með styrkveitingu úr landsjóði til gistihússtofnunar nálægt Hólmsbrú (sbr. uppást. Í Þjóðólfi 20. mars).


Norðurland, 2. maí, 1903, 2. árg., 32. tbl., bls. 127:
Sýslufundur Skagfirðinga.

Haldinn á Sauðárkróki 10.-13. mars 1903. Ágrip:
Kláfdráttur.
Veittur 50 kr. styrkur til að koma á kláfdrætti á Kökulsá eystri, en jökulhlaup í ánni í vetur hafði tekið kláfinn.
Flutningabraut.
Skorað á þingmenn sýslunnar að sjá um að bráðlega verði undið að því að leggja hina lögákveðnu flutningabraut fram Skagafjörð.
Sýsluvegamál.
Veitt allt að 600 kr. til vegagerðar milli Framnes og Brekkna í Akrahreppi. Veitt allt að 400 kr. til að gera við veginn frá Kolkuósi að Hólum svo hann verði fær með kerrur; til þessarar vegagerðar hefur Flóvent Jóhannson á Hólum boðið að leggja fram 100 kr. og hreppsnefnd Hólahrepps allt hreppsvegagjaldið þetta ár.
Hallgrímur Þorsteinsson ráðinn verkstjóri við sýsluvegavinnu næsta vor.
Skorað á þingmenn sýslunnar að útvega 2.000 kr. styrk úr landsjóði til vegagerðar frá Hofsós fram að Stóru-Ökrum gegn jaf miklu framlagi frá sýslunni.
Brúarsjóðsgjald.
Samþykkt að leggja 20 aura brúarsjóðsgjald á hvert lausafjárhundrað og hvern verkfæran mann þ.á.


Þjóðólfur, 8. maí 1903, 55. árg., 4 tbl., forsíða:
Ýmiss samgöngumál voru rædd á sýslufundi Árnesinga.

Skýrsla frá sýslufundi Árnesinga. (Ágrip).
Sýslunefndin gekk á fund 14. apríl; stóð hann fram yfir miðjan dag 18. s.m. Um 70 málefni komust til umræðu, og tel eg hér nokkur þeirra:
2. Lagt til, að landsjóður kosti báta við Hvítárvatn til flutninga yfir Hvítá. Ferðamenn, sem Kjalveg fara, þurfa þeirra mjög opt. Fengjust bátarnir, var gert ráð fyrir, að Biskupstungur sæju um viðhaldið.
4. Sýslunefnd Rangárvallasýslu sendi á fundinn áskorun til þingmanna sýslnanna, um að létta brúargæslugjaldinu af sýslusjóðunum, og flytja frumvarp til laga um þetta á þingi í líka átt og fyr. Samþykkt.
7. Þingið beðið um að rannsaka, hvort “motor” vagnar geti ekki komið að notum á hinum nýlögðu vegum. Talsverður áhugi vaknaður á því máli hér eystra.
17. Vegamál nefnd. Samþykkt í einu hljóði að skora á þingmenn sýslunnar, að fá því framgengt sem fyrst, að flutningabrautin verði ákveðin upp sýsluna, og þá helst mælt með vegi frá Flatholti hjá Bitru, að Reykjum á Skeiðum, eða Laxá með vegaálmu að Iðu, og svo sem nr. 1, veg frá hinum svonefnda Hrísmýrarkletti fyrir utan Helli í Ölfusi, að Alviðruferjustað, og sé þessi síðasttalda brautarstöð mæld sem allra fyrst, svo unnt verði í næstu fjárlögum að leggja fé til hennar. Einnig var beðið um framhald af Geysisveginum að Gjábakka. Fáist þetta, einkum vegurinn til Sogsbrúarinnar, lofar sýslan að kosta ein brúna með Grímsnesingum. Um þann kostnað lá fyrir sundurliðuð áætlun frá verkfræðingi Sig. Thoroddsen.
18. Samþykkt að leggja til dragferju á Iðu í þetta sinn 550 kr.
23. Samþykkt að skora á þingmennina fyrir sýsluna að fá heimildarlög fyrir sýslunefndir og hreppsnefndir, að hækka hreppavegagjald og sýslusjóðsgjald fyrir hvern verkfæran allt að helmingi. Þessi þörf stafar af því, að tala verkfærra manna fer lækkandi í sýslunum, en vegaþörfin vaxandi víða.
28. Eftir langar umræður var samþykkt, að biðja þingið um að styrkja með fjárframlagi til þess, að sem fyrst verði byggt gistihús á Lækjarbotnum eða Hólmi, skammt frá Hólmsárbrú, (fleiri voru með að hafa húsið hjá Hólmsárbrúnni, því þar eru not af því fyrir þá, sem fara Mosfellsheiðarveginn). Sýslan lofar að leggja eitthvað til, og vonar hins sama af Rangvellingum.
32. Amtsráð beðið um að hlutast til um, að Mosfellsheiðarvegur verði varðaður til byggða; þar háski að vörðuleysi.
36. Vegafé sýslunnar í þetta sinn alls kr. 1,559,70
Vextir og afborganir til landssjóðs kr. 720,00
Til dragferj. Á Iðu - 550,00
Til ýmsra viðgerða á sýsluvegum - 286,91
Eftirstöðvar af vegafé - 2,79 – 1,559,70

Í sýslusjóði eftirstöðvar frá f. á. - 748,80
Niðurjöfnun - 4, 000,00 – 4,748,00
Gjöld:
Jafnaðarsjóðsgjald - 1,891,76
Yfirsetukonur - 1,150,00
Brúarskuld - 250,00
Sóttvarnir - 100,00
Brúargæsla - 400,00
Útdráttur skjala og prentun - 50,00
Annar kostnaður, hreppstjóra-
ritföng o. fl. - 508,00
Eftirstöðvar nú - 399,04 – 4,748,00
S


Ísafold, 23. maí 1903, 30. árg., 29. tbl., bls. 115:
Á sýslufundi Rangæinga var m.a. skorað á þingið að leggja fé til mótorvagnferða frá Reykjavík austur að Ytri-Rangá.

Sýslufundur Rangæinga.
Aðalsýslufundur Rangárvallasýslu var haldinn að Stórólfshvoli dagana 6., 7. og 8. apríl. Auk venjulegra mála, svo sem samþykkta á hreppa- og sýslureikningum m. m., voru þessi mál tekin til umræðu á fundinum:
8. Skorað á alþingismenn sýslunnar, að halda því fram á næsta þingi, að brúargæslukostnaðinum yrði létt af sýslusjóði.
15. Fundurinn skoraði á þingið að leggja fé til mótorvagnferða frá Reykjavík austur að Ytri-Rangá.
17. Til sýsluvegabóta var veitt í Austur-Eyjafjallahreppi 100 kr., Vestur-Eyjafjallahr. 150 kr., Austur-Landeyjahr. 75 kr., Vestur-Landeyjahr. 15 kr., Hvolshreppi 60 kr., Rangárvallahr. 25 kr., Landmannahr. 275 kr. og Holtahr. 100 kr.
18. Ákveðið að skora á þingmenn sýslunnar, að halda því fram á næsta þingi, að fá brú á Ytri-Rangá hjá Árbæ.
Tekjur:
Niðurjöfnunargjald ¿¿¿¿¿ 3800 kr.
Vegagjald ¿¿¿¿¿¿¿¿. 1000 –
Endurgreiðsla á jarðskjálftaláni. 800 –
Óvissar tekjur ¿¿¿¿¿¿¿. 150 –
Alls 5750 kr.
Gjöld:
1. skuld til oddvita ¿¿¿¿¿¿.. 180 kr.
2. kostnaður við sýslunefndina ¿¿ 300 –
3. þóknun hreppstjóra fyrir ritföng . 50 –
4. Laun yfirsetukvenna ¿¿¿¿¿ 760 –
5. Jafnaðarsjóðsgjald ¿¿¿¿¿... 1500 –
6. Hundalækningar ¿¿¿¿¿¿.. 30 –
7. Til gæslu Þjórsárbrúarinnar ¿¿ 300 –
8. Til afborgunar af láni til Ölfusárbrúarinnar ¿¿¿¿¿¿ 230 –
9. Afborgun af láni sýslusjóðs frá 1896 ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ 800 –
10. til vegabóta ¿¿¿¿¿¿¿¿.. 1050 –
11. óviss útgjöld ¿¿¿¿¿¿¿¿. 550 –
Alls 5750 kr.
Alls voru rædd 44 mál á fundinum.


Norðurland, 20. júní, 1903, 2. árg., 49. tbl., bls. 155:
Farið var fram á samgöngubætur á þingmálafundum Skagfirðinga.

Þingmálafundir Skagfirðinga.
Samgöngubætur. Farið var fram á allmiklar samgöngubætur innanhéraðs á fundum þessum. Fyrst var það, er samþykkt var á Stóru Ökrum: landssjóðsstyrkur til sýsluvegar austan Héraðsvatna, akbraut fram héraðið vestan vatna, gufuskip, er komi á Skagafjörð vetrarmánuðinn og brú yfir Héraðsvötn á póstleiðinni.


Norðurland, 20. júní, 1903, 2. árg., 49. tbl., bls. 154:
Fundur Norðuramtsráðsins tók fyrir tvö mál sem snerta vegagerð.

Fundur Norðuramtsráðsins
var haldinn hér á Akureyri dagan 9.-13. júní. Amtsráðsmenn allir viðstaddir. Hér á eftir fer ágrip af fundargerðinni:
Breyting á sýsluvegi. Samþykkt málaleitan frá sýslunefnd Húnvetninga um, að sýsluveginum í Engihlíðarhreppi verði breytt þannig, að hann liggi frá Blöndubrú fram hjá kvennaskólahúsinu um Klauf, eftir Neðribyggð Refasveitar hjá Sölfabakka, að brú á Laxá.
Brúargerðarlán. Sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu leyft að taka 800 kr. lán til brúargerða, með því skilyrði, að lánið endurborgist með jöfnum afborgunum á 10 árum.


Þjóðólfur, 26. júní 1903, 55. árg., 26. tbl., bls. 102:
Á þingmálafundi Árnesinga eru gerðar nokkrar samþykkir varðandi vegamál.

Þingmálafundur Árnesinga.
Árið 1903, 20. dag júnímánaðar, var þingmálafundur haldinn að Selfossi. Voru þar komnir báðir þingmenn sýslunnar. Fundarstjóri var Eggert Benediktsson í Laugardælum, en fundarskrifari séra Ólafur Helgason á Stóra-Hrauni.
Þessi mál komu til umræðu:
14. Vegamál.
Fundurinn skorar á alþingi:
a. að framlenging flutningabrautarinnar frá Eyrarbakka upp Árnessýslu verði ákveðin þannig, að hún leggist frá þjóðveginum fyrir ofan Bitru upp yfir Skeiðin að Laxá fyrst um sinn og að fé verði veitt til þess á næsta fjárhagstímabili, og að lögð verði einnig á næsta fjárhagstímabili vegarálma frá þjóðveginum í Ölfusi að Alviðruferjustað við Sog og önnur álma af hinni fyrirhuguðu flutningabraut upp yfir Skeiðin frá Reykjum að Iðuferjustað við Hvítá;
b. að flutningabrautin frá Rvk. austur að Geysi verði framlengd frá Þingvöllum að Gjábakka og fé veitt til þess í næstu fjárlögum;
c. að flutningabrautin frá Rvk. til Geysis, samkvæmt vegalögunum 1894, verði ekki lögð austur Laugardal, heldur um hina fyrirhuguðu Sogsbrú og upp mitt Grímsnes og Biskupstungur.
d. Fundurinn óskar þess, að þingið hlutist til um, að rannsakað verði, hvort mótorvagnar muni geta komið hér að notum á þeim vegum, sem hér eru nú.


Norðurland, 27. júní, 1903, 2. árg., 40. tbl., bls. 158:
Brú á Fnjóská er á óskalista Suður-Þingeyinga.

Þingmálafundur Suður-Þingeyinga.
Á fundinum gerðist þetta:
6. Samgöngumál. Samþykkt var:
c. Fundurinn skorar á þingmanninn að fylgja því af alefli fram, að á næsta fjárhagstímabili verði veitt fé til að byrja á akbraut frá Húsavík fram í Reykjadal.
d. Fundurinn skorar á þingmanninn að vinna að því af ítrasta megni að Alþingi leggi fram fé, á yfirstandandi kjörtímabili, til brúar yfir Fnjóská, á þjóðveginum.


Þjóðólfur, 3. júlí 1903, 55. árg., 27. tbl., bls. 107:
Á þingmálafundi Snæfellinga var samþykkt áskorun á þingið varðandi veginn úr Stykkishólmi til Borgarness.

Þingmálafundur Snæfellinga í Stykkishólmi 6.júní 1903.
Ár 1903, laugardaginn 6. júní, var þingmálafundur Snæfellinga settur og haldinn í Stykkishólmi og var þingmaður sýslunnar, Lárus sýslumaður H. Bjarnason kosinn fundarstjóri, en skrifari Kjartan kaupmaður Þorkelsson.
Eftirfarandi mál komu til umræðu:
8. Héraðssamgöngur. – Fundurinn skoraði í einu hljóði á þingið að leggja nú sem mest fé fram til vegarins úr Stykkishólmi til Borgarness og að brúa sem fyrst Haffjarðará og Hítará.


Þjóðólfur, 17. júlí 1903, 55. árg., 29. tbl., bls. 115:
Magnús Jónsson svarar grein séra Stefáns Stephensen varðandi brú yfir Sogið og vill meina að hún muni gagnast Biskupstungum ekki síður en Grímsnesi.

Samgöngur í Árnessýslu.
Með þessari fyrirsögn er grein í Fjallkonunni 24. tbl. þ. á. eftir séra Stefán Stephensen í Austurey. Af því hann í nefndri grein gerir Sogsbrúarmálið að aðal umtalsefni, vil eg leyfa mér að fara um hana nokkrum orðum og sýna fram á sannleikann í því máli, sem höfundurinn virðist að miklu leyti hafa sneitt hjá.
Höf. byrjar aðallega á því að tala um Geysisveginn, og telja mönnum trú um, að hann sé aðalkaupstaðarleið meiri hluta Grímsness og Biskupstungna; en það er ekki rétt, að minnsta kosti ekki, að því er Grímsnesið snertir, - hinu er eg minna kunnugur, - því fyrst og fremst er spursmál um, hvort það er meiri hluti þeirra Grímsnesinga, sem versla í Reykjavík, sem fara þá leið, að þeim meðtöldum, sem gera sér stóran krók til að spara sér sund, peningaútlát, bið eftir ferjumanni og fleiri óþægindi og erfiðleika, sem ferjuflutningur hefur í för með sér, og í öðru lagi kemur hann, eins og allir vita, ekki að notum fyrir þá sem versla á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem eru æði margir, og eins og kunnugt er, fer þar viðskiptamagnið sívaxandi, og ber margt til þess, bæði verslunarsamkeppnin, sem gerir það að verkum, að nú á seinni árum hafa menn getað fengið þar allt eins góð kaup og í Reykjavík, og jafnvel betri á ýmsu, svo sem timbri o.fl. Og svo eru kaupfélögin ekkert lítill hluti í viðskiptamagninu eða flutninga- og ferðamagninu til og frá Eyrarbakka og Stokkseyri, þar sem fjöldi af bændum úr þessum sveitum báðum, Grímsnesi og Biskupstungum, panta megnið af nauðsynjum sínum, og telja það eitt af aðalhlunnindum við pöntunarfélögin austan fjalls, að flestir geta farið allt að 2 ferðir niður á Eyrarbakka og Stokkseyri, meðan ein er farin suður; auk þess sem betur hagar til með haga fyrir hesta á þeirri leið. Og enn mundi viðskiptamagnið á Stokkseyri og Eyrarbakka aukast að stórum mun, ef brú kæmi á Sogið og menn þyrftu ekki að sundleggja til og frá í hverri ferð, og þó maður spái engu um framtíðina, geri aðeins ráð fyrir því, sem er, þá munu allir kunnugir, sem unna sannleikanum í þessu máli, viðurkenna að verslanirnar á Stokkseyri, sem ekki voru áður, og pöntunarfélögin á Stokkseyri og Eyrarbakka, vega margfalt á móti blómlegu verslunina, sem höf. segir að hafi verið nýrisin upp í Þorlákshöfn, þegar fyrst var farið fram á að brúa Sogið.
Höf. segir, að Tungnamenn hafi lýst því yfir, að brú á Sogið væri þeim gagnslaus, fengist ekki jafnframt upphleyptur vagnvegur upp Grímsnes, og getur það vel verið, að einhver Tungnamaður hafi talað á þá leið, en hitt mun hægt að sanna, að á síðasta sýslunefndarfundi Árnesinga, er Sogsbrúarmálið kom til umræðu, lýsti sýslunefndarmaður Biskupstungna, sem er mjög merkur maður, því yfir á fundinum, í áheyrn höfundarins, að brú á Sogið kæmi Biskupstungnahreppi að miklum notum. Mér finnst því rangt í þessu tilfelli, að taka prívat umsögn einstakra manna gildari, og færa þær í letur í opinberu blaði, en yfirlýsingu fulltrúans á opinberum stað og í embættissporum. Höf. segir einnig, að það sé aðeins suðurhluti Grímsness, sem brú á Sogið geti komið að verulegum notum, að æði margir á því svæði ekki mundu nota hana til aðdráttar, þar eð hún yrði mikið úr leið, þegar sótt er til Eyrarbakka eða Stokkseyrar. Þetta er sú fjarstæða, sem engu tali tekur, því allir viðurkenna að brúarstæðið hjá Alviðru sé á hentugasta stað, Sem hægt er að hugsa, fyrir allflesta, sem yfir Sogið fara, hvort heldur farið er til Reykjavíkur, Eyrarb. eða Stokkseyrar, því það er einmitt hjá fjölfarnasta ferjustaðnum til allra nærliggjandi kauptúna og verstaða.
Höf. segir, að Hvítá sé opt á ís að vetrarlagi, en ekki býst eg við, að þeir verði margir, sem næstir henni búa og best þekkja hana, sem votta það með honum, því það er ekki nema í einstöku tilfellum, heldur er hún á flestum stöðum oftast ófær fyrir hesta að vetrarlagi, ýmist af vatnavöxtum, skörum, ísskriði eða hrönnum, sem safnast í kringum hana, svo að ekki er hægt að komast að henni með hesta.
Höf. segir einnig, að efri hluti Grímsness hafi viljað sameina flutningaþörf tveggja væntanlegra rjómabúa í Grímsnesi með því að biðja um álmu af póstveginum nál. Hraungerði upp að Hvítá nál. Arnarbælisferjustað, koma þar dragferju á ána, og að öll sveitin lagaði eftir þörfum og megni veginn upp sveitina frá dragferjunni. Um þetta hef eg nú reyndar ekki heyrt nema eina rödd hljóða úr þeirri átt, en hvað um það, þetta hefði vel getað samrýmst, ef ekki vantaði þau skilyrði, sem gætu gert þetta mögulegt, en nú er sá galli á, að nálægt Arnarbælisferjustað er víst ekki hægt að hafa dragferju sökum grynninga í ánni, sem opt er svo grunn þar á blettum, að tómir ferjubátar ganga ekki á henni, og vegurinn frá Arnarbælisferjustað upp sveitina er tómir mýraflákar og til þess að þar gætu gengið um vagnar, þyrfti upphleyptan veg með ofaníburði, sem hvergi er til á því svæði. Því verð eg að álíta það réttara, hyggilegra og hagkvæmara fyrir þarfir og kröfur framtíðarinnar, að bíta sig nú svo fast í brúna, eins og höf. kemst að orði, að hún gangi á undan öllu bráðabirgðarkráki, í samgöngubótum til Grímsness og Biskupstungna, því að það mundi verða varanleg undirstaða til sannra samgöngubóta, og undirstaða, sem eftirmenn vorir gætu verið þekktir fyrir að byggja ofan á.
Höf. virðist færa að sýslunefndinni fyrir brjóstgæði í okkar Grímsnesinga garð, en það er svo fyrir að þakka, að við Árnesingar í heild sinni höfum þar mörgum góðum drengjum á að skipa, sem ekki vilja láta lítilfjörlega eigin hagsmunasemi sitja í fyrirrúmi fyrir nauðsynlegum framfarafyrirtækjum meðbræðra sinna, hvar svo sem þeir búa, innan þess takmarks, sem þeirra verkahringur nær til.
Að endingu vil eg geta þess, að eg er höfundinum mjög þakklátur fyrir, að hann í enda greinar sinnar kemst þó til réttrar viðurkenningar, þar sem hann, eftir að hann hefur gert Sogsbrúarmálið að aðalumtalsefni, segir meðal annars: “Því enginn mun neita því, að málið er afar þýðingarmikið í heild sinni, og óhætt að telja það lífsskilyrði fjölmennustu sýslu landsins, sem einnig mun hafa í sér fólgin fleiri og betri skilyrði til stórkostlegra framfara en nokkurt annað hérað”. Um þetta get eg verið höfundinum að vissu leyti samdóma, en alls ekki, að það sé lítið tjón fyrir héraðið, að Sogsbrúarmálið ná ekki til framkvæmda.
Klausturhólum 1. júlí 1903.
Magnús Jónsson.


Þjóðólfur, 24. júlí 1903, 55. árg., 30. tbl., bls. 119:
Fjárlaganefnd neðri deildar leggur fram frumvarp þess efnis að sýslusjóðir skuli greiða viðhald flutningabrauta í byggð.

Alþingi.
Vegamál. Fjárlaganefnd n.d. ber fram frv. um, að viðhald flutningabrautarinnar frá Reykjavík austur að Geysi, skuli hvíla á landsjóði að öllu leyti, svo og viðhald annara flutningabrauta að svo miklu leyti, sem þær liggja um fjöll og óbyggðir; en viðhaldskostnað flutningabrauta, sem í byggð liggja, skuli greiða úr sýslusjóði eða sýsluvegasjóði þerrar sýslu, sem sá hluti, er gert er við, liggur í.

Þjóðólfur, 31. júlí 1903, 55. árg., 31. tbl., bls. 122:
Hér er sagt frá afgreiðslu Vegafrumvarps frá neðri deild Alþingis og áliti Fjárlaganefndar.

Alþingi.
Vegir. Vegafrv. Er nú samþykkt af n.d. með töluverðum breytingum. Nú hljóðar það svo:
1. gr. Viðhald flutningabrautarinnar frá Reykjavík austur að Geysi hvílir á landsjóði að öllu leyti, svo og viðhald annara flutningabrauta, að svo miklu leyti, sem þær liggja um fjöll eða óbyggðir. Viðhaldskostnað flutningabrauta, sem í byggð liggja, skal greiða að hálfu leyti úr landsjóði, en að hálfu leyti úr sýslusjóði eða sýsluvegasjóði þeirrar sýslu, sem sá hluti flutningabrautarinnar, sem gert er við, liggur í.
2. gr. Flutningabrautir þær, sem sýslusjóðir að sýsluvegasjóðir eiga að kosta viðhald á til móts við landsjóð, skulu, áður en sú breyting, er ræðir um í 1. gr., kemst á, vera skoðaðar af verkfróðum manni, er landstjórnin tilnefnir, og tveim mönnum kosnum af hlutaðeigandi sýslunefnd, og teljist brautirnar ekki í gildu standi, skal gera að þeim, sem þarf, á kostnað landssjóðs.
Fjárlögin. Fjárlaganefnd n.d. hefur nú komið fram með álit sitt. Hér skulu nefndar nokkrar breytingar, sem hún vill gera á frv. stjórnarinnar.
Þá leggur nefndin til að taka upp í frv. ýmsar nýjar fjárveitingar:
50 þús. kr. til brúargerðar á Jökulsá í Öxarfirði.
Ennfremur leggur nefndin til, að hækka og lækka ýmsa liði í frv. Meðal annars leggur hún til, að lækka þessar fjárveitingar: Viðhaldskostnað við flutningabrautir síðara árið úr 12.000 niður í 7.000.
Þessar fjárveitingar leggur nefndin meðal annars til að hækka: Veitinguna til flutningabrauta um 5.000 kr. og því einungis skipt í tvo staði, til flutningabrautar upp frá Borgarnesi (15 þús.) og á Fagradal (30 þús.), til þjóðvega um 2.000 kr.


Ísafold, 1. ágúst 1903, 30. árg., 49. tbl., bls. 194:
Hér segir Ísafold frá fjárlaganefndaráliti neðri deildar Alþingis og er m.a. lagt til að Thomson verði veittur styrkur til að flytja inn mótorvagn til reynslu.

Fjárlaganefndarálit (neðri deildar)
Fjárlaganefndin hefir nýlega lokið við álit sitt.
Breytingarnar eru flestar við útgjaldakaflann, svo sem venja er til.
Vegabótafénu vill nefndin láta verja þannig, að til flutningabrautarinnar á Fagradal sé kostað 30,000 kr., til flutningabrautar í Borgarfirði 15,000 kr. og til viðhalds 12.000 kr. fyrra árið og 700 hið síðara. Fjárveitingu stjórnarinnar til flutningabrauta í Húnavatnssýslu og Skagafirði hefir hún felt burt.
Þjóðvegafénu hefir nefndin skipt þannig milli landsfjórðunganna, að Norðuramtið fái 30 þús. kr., Vesturamtið 20, Austuramtið 12 og Suðuramtið 8 þúsund kr.
Til sýsluvegarins frá Hafnarfirði að Keflavík eru ætlaðar 300 kr. hvort árið, gegn jafnmiklu tillagi annarsstaðar frá, og til brúargerðar á Jökulsá í Öxarfirði 50 þús. kr., samkvæmt lögum frá síðasta þingi.
Nefndin vill veita allt að 14,200 kr. til gufubátsferða í Sunnlendingafjórðungi og á Faxaflóa, með því skilyrði, að haldið sé uppi ferðum allt árið milli Reykjavíkur og Borgarness, og ætlast þá til, að landpóstarnir norður og vestur taki sig upp í Borgarnesi.
Nýjar fjárveitingar eru þessar eftir tillögum nefndarinnar, auk þeirra sem þegar eru taldar:
Til Konsúls D. Thomsens í Reykjavík til þess að útvega frá útlöndum mótorvagn og reyna hann á akvegunum hér 2000 kr. fyrra árið.
Til dráttarbrautar í Reykjavík 10.000 kr. fyrra árið.


Ísafold, 12. ágúst 1903, 30. árg., 52. tbl., bls. 208:
Vegamálanefnd efri deildar Alþingis flytur frumvarp um að landsstjórnin geti krafist þess að sýslusjóðir kosti að hálfu viðhald flutningabrauta.

Frá Alþingi. Þingmannafrumvörp.
63. Um viðauka við lög nr. 6, 12. jan. 1900 um fjölgun og viðhald þjóðvega. Vegamálanefndin í efri deild flytur frumv. um það, að landsstjórnin megi krefjast þess, að sýslusjóðir kosti að hálfu viðhald flutningabrauta, sem verða lagðar hér eftir, ef brautin er aðallega lögð í þarfir sýslufélagsins, og það er álitið hafa efni og ástæður til að bera kostnaðinn.
Fallin frumvörp.
12. Um breyting á 6. gr. Laga um vegi 13. apríl 1894 (ed.).


Þjóðólfur, 14. ágúst 1903, 55. árg., 33. tbl., bls. 130:
Hér er sagt frá störfum Alþingis, m.a. fjárlagafrumvarpinu.

Alþingi.
Vegir. Frv. um viðhald vega (að það skyldi að hálfu kostað af sýslunum) var fellt í e.d. samkvæmt till. nefndarinnar í því máli (J. Havst., Guðj. Guðl., Kr. J.). Aftur á móti hefur hún borið fram frv. um, að heimild sú, sem veitt er með lögum 12. jan. 1900 til að krefjast, að vegum, er hér leptir verði lagðir á kostnað landsjóðs, verði haldið við allt að helmingi á kostnað sýslusjóða, skuli einnig ná til flutningabrauta, svo framarlega, sem brautin aðallega er lögð í þarfir sýslufélagsins og það álítzt hafa efni og ástæður til að bera kostnaðinn.
Felld frumvörp og þingsályktunartillögur, auk þeirra, er áður er getið:
Frv. um brúargerð á Héraðsvötn.
Uppgjöf Ölfusárbrúarlánsins, þess helmings, sem eftir er, var samþykkt í n.d. í gær með 12 atkv. gegn 4. Talið er víst, að mál þetta fái góðar viðtökur í efri deild.
Fjárlagafrv. var afgreitt frá n.d. á mánudaginn (10. þ. m.). Voru allmiklar breytingar gerðar á því frá því sem það kom frá stjórninni, og skal hér getið hinna helstu:
Útgjöldin til þjóðvega eru hækkuð um 2.000 kr.; ennfremur er bætt við 50 þús., kr. f. ár. til brúargerðar á Jökulsá í Öxarfirði, allt að 6.000 kr. f. á. til brúargerðar á Sogið hjá Alviðru (gegn því, að tvöfalt fé verði lagt fram annarsstaðar frá), allt að 40 þús. kr. f. á. til þess samkv. lögum 9. febr. 1900 að fullgera brú á Lagarfljóti hjá Egilsstöðum, og setja ferju á Steinsvaði, 1.000 kr. hv. á. til sýsluvegarins frá Laxárdalsheiði að Höskuldsstöðum í Laxárdalshreppi í Dalasýslu, og sömu upphæð til sýsluvegarins frá Hofsós að Ökrum í Skagafirði (tillög þessi eru því skilyrði bundin, að samtímis sé jafnmiklu fé varið til veganna annarsstaðar frá, og það sé eigi tekið af lögákveðnu sýsluvegagjaldi), 300 kr. hv. á. til dragferjuhalds á Héraðsvötnum í Skagafirði og 2.800 kr. hv. á. til aukapóstvegarins frá Hafnarfirði að Vogastapa (gegn því að jafnmiklu fé verði varið annarsstaðar frá).


Norðurland, 15. ágúst, 1903, 2. árg., 47. tbl., bls. 186:
Sagt er frá áliti fjárlaganefndar og vill hún m.a. veita Konsúl D. Thomsen 2.000 kr. styrk til þess að fá mótorvagn frá útlöndum.

Frá Alþingi. Fjárlaganefndin.
Álit fjárlaganefndarinnar kom með Vestu nú í vikunni. Það fer eindregið í framfaraátt. Hér skal getið nokkurra helstu atriðanna.
Til flutningabrauta vill nefndin veita 45 þús kr. á næsta fjárhagstímabili og skipta þeirri upphæð í tvennt aðeins: til brautar upp frá Borgarnesi 15 þús. kr. og á Fagradal 30 þús. kr. “Nefndin er á því máli, að samband milli Norðurlands og Reykjavíkur eigi aðallega, og sem fyrst, að verða gegnum Borgarnes, þannig að stöðugar bátsferðir árið í kring verði frá Reykjavík til Borgarness, og þaðan sem greiðastur vegur til Norðurlands. Samkvæmt því verður flutningabrautin upp frá Borgarnesi með þeim efstu á dagskrá, en þjóðvegurinn frá Reykjavík til Boragarfjarðar að bíða. Viðvíkjandi Fagradalsbrautinni er það hugsun nefndarinnar, að hún verði fullgerð á 2 næstu fjárhagstímabilum, úr því snúist er að henni, enda er nefndin á því að þar sé hin mesta flutningsþörf.”
Til þjóðvega ætlar nefndin 8.000 krónur í Suðuramtinu, 20.000 kr. í Vesturamtinu, 30.000 kr. í Norðuramtinu og 12.000 kr. í Austuramtinu.
Til brúargerðar á Jökulsá í Axarfirði 50.000 kr., samkv. lögum Alþingis 1902.
Konsúl D. Thomsen í Reykjavík vill nefndin veita 2.000 kr. styrk til þess að fá mótorvagn frá útlöndum og gera með honum tilraunir á vegunum frá Reykjavík.


Austri, 15. ágúst 1903, 13. árg., 27 tbl., bls. 98:
Með fréttum af nýjum lagasetningum kemur fjárlagafrumvarp neðri deildar, en þar eiga útgjöld til vegamála stóran sess.

Lög frá Alþingi. Ágrip af fjárlagafrumvarpi n.d.
Útgjöldin eru hin helstu þessi:
Til akbrautar á Fagradal 30.000 kr., í Borgarfirði 15.000, til viðhalds 12.000 fyrra árið 7.000 hið síðarar.
Af þjóðvegafénu fær Norðuramtið 30.000 kr., Vesturamtið 20.000, Austuramtið 12.000 og Suðuramtið 12.000.
Til brúar á Jökulsá í Axarfirði 50.000 kr., til sýsluvegar frá Hafnarfirði í keflavík 3.000 hvort árið mót jafnmiklu framlagi annarstaðar frá.

Ísafold, 19. ágúst 1903, 30. árg., 54. tbl., bls. 213:
Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur svarar hér Tryggva Gunnarssyni sem hélt því fram í þingræðu að óþarft hefði verið að stöðva framkvæmdir við Lagarfljótsbrúna eins og Sigurður gerði.

Lagarfljótsbrúin.
Af því að hugsanlegt er, að einhver, sem ekki þekkir til, kynni að leggja trúnað á orð Tryggva Gunnarssonar, þau er hann bar fram á þingi nýlega, er rætt var um Lagarfljótsbrúna, álít eg réttara að svara þeim nokkru.
Hann sagði meðal annars, að það hefði alls ekki þurft að hætta við brúarsmíðina sumarið 1901, það hefði mátt halda áfram með því efni, sem til var, og skeyta staurana saman, svo að þeir hefðu orðið nógu langir. Það er undarlegt, að maðurinn skuli hafa þrek og dirfsku til þess að halda slíku fram, þegar hvað eftir annað er búið að sýna honum fram á, að slíkt var ómögulegt og margbúið að reka ofan í hann þessa hans staðhæfingu; það virðist vera meira af vilja en mætti gert af bankastjóranum, þeim einlæga vilja, að reyna til þess að gera mig tortryggilegan í augum þingmanna og almennings, hugsandi sem svo, að einhverjir trúi þó, ef bara er staglast nógu oft á því sama.
Eg skrifaði þinginu í fyrra um Lagarfljótsbrúarmálið, og sýndi fram á, að ómögulegt var annað en láta hætta vinnunni sumarið 1901; Það þurfti – sökum þess, hve fljótsbotninn var blautur og mjúkur – að reka staurana miklu lengra niður en hinn norski ingeniör hafði gert ráð fyrir, þess vegna þurftu staurarnir annaðhvort að vera miklu lengri eða það þurfti að skeyta þá saman, svo að þeir yrði nógu langir, en til þessa þurfti að nota heilmikið af galvaníseruðum járnplötum og boltum, af vissri þykkt og lengd, en það var auðvitað ekki til á staðnum, því að menn höfðu ekki búist við að skeyta þyrfti saman staurana. Slíkar plötur hefðu aðeins getað fengist frá útlöndum og eigi getað komið að brúarstæðinu fyr en undir haust í fyrsta lagi.
Þingið í fyrra féllst og á það, að óhjákvæmilegt hefði verið að stöðva verkið þegar svona stóð á, svo að Tryggvi stendur sjálfsagt einn upp með það af þingmönnum, að hægt hefði verið að halda áfram verkinu, eins og hann líka stendur einn uppi með það, að heppilegra sé að hafa brúna á Steinsvaði en Einhleypingi, enda heldur hann hvorttveggja fram einungis af ástæðum, sem þeir, er þekkja hugarþel hans til mín, munu ráða í.
Eins og mörgum nú orðið mun kunnugt, liggur aðalorsökin til þess að svo skrykkjótt hefir gengið með Lagarfljótsbrúna, í undirbúningi málsins, rannsókn brúarstæðisins; hinn norski ingeniör gerði ráð fyrir að botninn væri fastari en hann reyndist vera, og hann hélt að fljótið yrði ekki svo mikið í vöxtum, eins og það í raun og veru gat orðið, - þess vegna var í fyrra, eftir uppástungu minni, ákveðið að reka staurana mikið lengra niður í botninn, ennfremur að hækka brúna talsvert og lengja hana um c. 80 álnir.
Að öðru leyti vil eg benda þeim, er vildu kynna sér þetta mál, á þingskjölin frá í fyrra, og sérstaklega á bréf mitt til Alþingi dags. 15. ág. 1902 (sjá alþingistíðindi 1902, þingskjöl 3. hefti, þingskjal nr. 161).
Reykjavík 17. ág. 1903.
Sig. Thoroddsen.


Norðurland, 29. ágúst, 1903, 2. árg., 49. tbl., forsíða:
Hér er kvartað yfir því að ekki sé nógu vel gengið frá nýlögðum vegum og menn freistist heldur til að leggja vegina “kippnum lengra”.

Vond vegagerð.
Þrátt fyrir þá stórvægilegu umbót, sem orðin er á vegagerð hér á landi á síðari árum, getur engum dulist það, sem ferðast um þetta land, að vegir eru sumstaðar so illa gerðir, að því er ekki bót mælandi.
Einkum er mein að skorti á góðum ofaníburði. Menn freistast þar til að leggja heldur brautina kippnum lengra, en að leggja stund á hitt, að frá því, sem lokið er við, sé gengið svo vel, að það geti enst.
Afleiðingin verður svo sú, að brautin treðst upp og stórskemmist á örstuttum tíma, eða verður jafnvel bráðlega ófær.
Sumstaðar er ekki séð nærri því nógu vel fyrir framrás vatns, og svo skemmir það brautirnar innan skamms.
Mjög nýlegir vegir eru sumstaðar afar hættulegir – holur hér og þar, sem menn grunar síst, og mesta furða, að ekki skuli oftar hljótast slys af því en frá er greint.
Þessir vegir eru lagðir fyrir fé almennings. Oss virðist, að mönnum ætti alls ekki að vera heimilt að leggja slíka vegi.
Eftirlit er verið að myndast við að hafa hér á landi með því, hvernig fé almennings er varið. Stundum verður svo og svo mikil rekistefna út af fáeinum krónum, sem hreppsnefndir eða sýslunefndir hafa varið á annan hátt en lög mæla fyrir. Og ekki ber að finna að því.
En allir hljóta að sjá hvílíkt smáræði það er í samanburði við það, ef lagðir eru vegir, sem eftur skamma stund koma að litlu eða engu haldi. Þar eru ekki hverjar 100 krónurnar lengi að fara til ónýtis.
Nú vitum vér Íslendingar vel, hvað til þess þarf, að vegur verði haldgóður. Eða að minnsta kosti ætti oss ekki að vera nein vorkunn að fá að vita það – engum þeim, sem eitthvað eru við slíkt starf riðnir.
Hver vegna þá ekki að leyfa því aðeins að nota fé almennings til vegagerðar, að svo vel sé gengið frá verkinu, að það komi að tilætluðum notum og endist sæmilega vel?
Oss virðist enginn vafi geta á því leikið, að löggjöf þarf um þetta efni, og svo eftirlit með því, að þeim lögum sé hlýtt.
Hitt er ekki auðsætt, hvers vegna vér eigum að vera að eyða fé í það, sem allir eiga að geta séð fyrirfram, að kemur að nauðalitlu haldi.


Ísafold, 29. ágúst 1903, 30. árg., 57. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um fjárlögin 1903 og er rúmlega 700 þús. kr. varið til samgöngumála.

Fjárlögin nýju.
Til samgöngumála 701,937 kr.
Þar í laun póstmeistara, póstafgreiðslumanna og bréfhirðingamanna 44.600 kr.; til póstflutnings 82.000 kr.; til flutningabrauta: á Fagradal 30.000, í Borgarfirði 15.000; til viðhalds flutningabrautum 19.000; til þjóðvega í Suðuramtinu 8,000; í Vesturamtinu 20.000; í Norðuramtinu 80.000; í Austuramtinu 15.000; til fjallvega 10.000; til áhalda og viðhalds 8.000; til sýsluvegarins frá Laxárdalsheiði að Höskuldsstöðum 2.000 kr.; til sýsluvegarins frá Hofsós að Ökrum 2.000 kr.; til sýsluvegarins frá Hafnarfirði að Vogastapa 5.600 kr.; til hins sameinaða gufuskipafélags 150.000 kr.; til gufubátsferða í Sunnlendingafjórðungi og á Faxaflóa 10.300 kr. og 5.000 kr. að auki, ef haldið er uppi stöðugum ferðum milli Reykjavíkur og Borgarness árið um kring; til gufubátsferða um Ísafjarðardjúp 3.500 kr.; til gufubátsferða á Breiðaflóða seinna árið 10.000 kr.; til ritsíma milli Íslands og útlanda 70.000 kr.; til vita 21.237 kr., allt bæði árin. Enn fremur fyrra árið: til að fullgera brú á Lagarfljóti 40.000 kr.; til brúargerðar á Jökulsá í Öxarfirði 50.000 kr., og til brúargerðar á Sogið hjá Alviðru allt að 6.000 kr.


Þjóðólfur, 4. september 1903, 55. árg., 36. tbl., forsíða:
Þingið 1903 tók af skarið með það vandræðamál sem Lagarfljótsbrúin var orðin, en ákveðin var aukafjárveiting til að fullgera hana. Hér er einnig rætt um þá stefnu að fullgera fyrst þá vegi sem byrjað hefur verið á, í stað þess að dreifa takmörkuðu fjármagni um allt land.

Þingið 1903. Endurlit og hugleiðingar.
Hinir tveir stóru útgjaldaliðir, er ekki voru í frumvarpi stjórnarinnar eru þær rúmar 90,000 kr. sem ætlaðar eru til brúargerðar á Jökulsá í Axarfirði og á Lagarfljóti. Um Jökulsárbrúna voru samþykkt lög frá þinginu 1902, svo að skyldan hvíldi á landsjóði. Þar hefði því komið að skuldadögunum, enda þótt brúargerðinni hefði verið frestað þetta fjárhagstímabil, sem að vísu hefði mátt, en um Lagarfljótsbrúna er það að segja, að þingið þóttist ekki geta látið það mál niður falla, og varpað þannig alveg á glæ fé því, er varið hefur verið til kaupa á brúarefninu m. fl., er varið hefur verið til undirbúnings þessarar brúargerðar. En fullkomið vandræðamál var þetta viðurkennt af flestum, en naumast unnt að ráða betur fram úr því eftir atvikum, en þingið nú gerði.
Í samgöngumálum tók þetta þing þá stefnu, að fullgera fyrst þá vegi, sem þegar er byrjað á, en dreifa ekki fénu sitt á hvern stað, og má vel vera, að það sé heppilega ráðið. Þau héruð, sem látin eru sitja á hakanum með vegagerðir í þetta sinn verða auðvitað óánægð yfir því, allir vilja hafa forgangsréttinn, en um það tjáir ekki að tala. Sýslur þær, sem þegar hafa allmikla vegi mega þakka fyrir, að þingið smellti ekki nú þegar á þær öllu eða mestöllu viðhaldi á vegum þeim, er landsjóður hefur lagt. Frv. um það var borið upp af fjárlaganefndinni í n.d., en átti þar allerfitt uppdráttar og lagaðist mikið, en dó í e.d. En það er enginn efi á, að það mál rís upp aftur á næsta þingi. Engum brúarmálum vildi e.d. að minnsta kosti sinna á þessu þingi, en ekki fékk hún því að öllu ráðið, að steindrepa öll slík mál.


Norðurland, 12. september, 1903, 2. árg., 51. tbl., bls. 202:
Hér birtist ágrip af fjárlögunum fyrir 1904-5. Heildargjöld eru áætluð 2.069 þús. og þar af til samgöngumála 702 þús. kr.

Frá Alþingi. Ágrip af fjárlögunum.
Tekjur landssjóðs á fjárhagstímabilinu (árunum 1904-1905) eru áætlaðar alls 1.668.570 kr.
Gjöldin eru áætluð samtals bæði árin 2.069.120 kr. 41 a.
Til samgöngumála 701.937 kr.
Þar í laun póstmeistara, póstafgreiðslumanna og bréfhirðingamanna 44.600 kr.; til póstflutnings 82.000 kr.; til flutningabrauta: á Fagradal 30.000, í Borgarfirði 15.000; til viðhalds flutningabrautum 19.000; til þjóðvega í Suðuramtinu 8.000; í Vesturamtinu 20.000; í Norðuramtinu 30.000 kr.; í Austuramtinu 15.000; til fjallvega 10.000; til áhalda og viðhalds 8.000; til sýsluvegarins frá Laxárdalsheiði að Höskuldsstöðum 2.000 kr.; til sýsluvegarins frá Laxárdalsheiði að Höskuldsstöðum 2.000 kr.; til sýsluvegarins frá Hofsós að Ökrum 2.000 kr.; til sýsluvegarins frá Hafnarfirði að Vogastapa 5.600 kr.; til hins sameinaða gufuskipafélags 150.000 kr.; til gufubátsferða í Sunnlendingafjórðungi og á Faxaflóa 10.300 kr. og 5.000 kr. að auki ef haldið er uppi stöðugum ferðum milli Reykjavíkur og Borgarness árið um kring; til gufubátsferða um Ísafjarðardjúp 3.500 kr.; til ´gufubátsferða á Breiðaflóa seinna árið 10.000 kr.; til ritsíma milli Íslands og útlanda 70.000 kr.; til vita 21.237 kr., allt bæði árin. Enn fremur fyrra árið: til að fullgera brú á Lagarfljóti 40.000 kr.; til brúargerða á Kökulsá í Öxarfirði 50.000 kr., og til brúargerðar á Sogið hjá Alviðru allt að 6.000 kr.


Þjóðólfur, 16. október 1903, 55. árg., 42. tbl., bls. 166:
Erlendur Zakaríasson var verkstjóri við vegagerðina á Mýrum 1903 og gefur hann hér skýrslu um vegagerðina.

Vegavinnan á Mýrunum 1903.
Hr. Erlendur Zakaríasson vegfræðingur hefur í sumar staðið fyrir vegagerðinni vestur á Mýrum, og er nú nýkominn heim. Hefur hann látið oss í té eftirfarandi skýrslu um þessa vegagerð:
Byrjað var að vinna 15. maí skammt fyrir neðan Fíflholt og komið að Hítará hjá Brúarfossi, þar er brúarstæði á ánni, en áin var ekki brúuð í þetta sinn. Þessi vegalengd er 1.486 faðmar.
Ennfremur var lagður vegur frá Hítará vestur eftir, og endað á Brúarhraunsás við Garðamela. Þessi vegalengd er 1.227 faðmar. Öll vegalengdin, sem lögð var, er 2.713 faðmar. 424 faðma langur vegur var ruddur vestur á melana. Vinnunni við þennan veg frá Fíflholti var lokið 6. ágúst.
Á þessu svæði var heldur gott að leggja veg, miklum mun þurrlendara en áður hefur verið á þessum vegi, það gerði mikið til, hvað tíðin var góð. Á þessum vegi eru 17 þverrennur og ein lítil brú 7 1/2 alin löng. Ofaníburður var heldur góður, og víðast ekki mjög langt að aka honum.
Að þessu verki unnu flest 39 menn og fæst 24, 15 vagnhestar (með 7 vögnum), þar af 7 eign landsjóðs og 8 leiguhestar. Borgun fyrir þá á dag kr. 0,45-0,50. Kaup verkamanna kr. 2,50-3,00, unglingar kr. 2,10, flokkstjórar kr. 3,40.
Breidd vegarins er 10 fet. Allur kostnaður við þessa vegagerð er kr. 6.244,49. Hver hlaðinn faðmur í veginum, af því sem er lagður vegur hefur kostað kr. 2,28, og 11 aura faðmurinn í því sem rutt var.
Öll vegalengdin úr Borgarnesi vestur að Garðamelum eru rúmir 16 þúsund faðmar. Þessi mæling er ekki nákvæm, það þyrfti að mæla allan veginn upp og setja vegalengdarsteina við hverja 5 kílóm. Það hefur mikla þýðingu, ekki síst ef menn villast og koma að merkjasteini, þá eru menn vissir að rata úr því, fyrir utan hvað það er ánægjulegra, að vita upp á víst, hvað búið er að fara og hvað eftir er. Það er furða að ekki er búið að setja þá á veginn að Þingvöllum. Útlendingar sakna þess að minnsta kosti mikið.
Á veginum upp Borgarhreppinn var byrjað 7. ágúst, og hætt 9. október við Borgarnesveginn, þar sem hann beygist vestur á Mýrarnar, og haldið upp Kárastaðamýri yfir Grímúlfskeldu fyrir vestan Hamar, yfir Hamarslæk og hann brúaður. Brúin 9 álna löng, stöplarnir steinlímdir, hæð þeirra 7 1/2 fet, breidd stöplanna að ofan 13 fet, að neðan 11 1/2 fet; svo var endað í miðjum flóanum milli Hamarslæks og Bjarnhólalæks. Þessi vegalengd er 1758 faðmar. Vegurinn er 6 álna breiður. Ofaníburður er heldur góður, en nokkuð langt að aka honum, minnsta kosti sumstaðar. Vegarstæðið er mýri þurrlend og mjög gott vegarstæði. Á þessum vegi eru 7 þverrennur.
Að þessu verki unnu 24 menn, seinast um 2 vikur rúmir 30 menn, 15 vagnhestar og 7 vagnar. Kaup sama og við hina vegagerðina. Þessi vegagerð hefur kostað rúm 5 þúsund krónur. Brúin á Hamarslæk hefur kostað 4-5 hundruð krónur. Eftir því hefur hver faðmur í veginum kostað kr. 2,60.
Hvað kostnaðinn snertir, getur þessi skýrsla ekki verið vel nákvæm. Það er ekki búið að fullgera reikningana, en miklu munar það ekki.




Tenging í allt blaðaefni ársins 1903

Ísafold, 10. janúar 1903, 30. árg., 2. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá vegabótum sumarið 1902 og hefur þó nokkuð verið gert.

Landsvegabætur 1902.
Að þeim hefur unnið verið í sumar er leið á 5 stöðum, eða af 5 vinnusveitum, sem hér segir:
1. Að Stykkishólmsveginum frá Borgarnesi. Þar var byrjað, sem síðast var hætt, við Urriðaá, og fullgerður nýr vegur þaðan vestur að Grunnuvötnum, fyrir neðan Fíflholt, rúmar 2 mílur, en þar af eru 1750 faðm. melar, sem ekki þurfti annað en að ryðja; hitt, 6.672 faðm., fullkominn vegur, gerður alveg að nýju, og yfir mikil fen og foræði, sem voru þó óvenju vatnslítil, sakir hinna miklu þurrka. Brú var og gerð á Álftá, 22 álna löng og 11 álna stöplar undir; hún kostaði á 19. hundr. kr.
Fullgerð var áður af vegi þessum 10½ röst rúm, frá Borgarnesi, utan lítill kafli rétt hjá því kauptúni, í brattlendi; hann var nú gerður í haust, nær 200 faðm., og kostaði á 6. kr. faðmurinn.
Af kaflanum milli Borgarness og Hítár eru nú eftir 1.750 faðm. vestast, næst ánni.
Þessari vegavinnu á Mýrum stýrði nú sem að undanförnu Erlendur Zakaríasson, og hafði nál. 60 verkmanna vor og haust, en fram undir 40 um sláttinn; og 23 vagnhesta. Kaupið var 2,75-3,00, nema unglingar 2 kr., og flokksstjórar og smiðir 3,40. Hestaleiga lægri en áður, 45 a. í stað 60; suma hestana átti landssjóður, keypti þá fyrir um 80 kr., og kemur þeim í fóður að vetrinum fyrir 30-35 kr.
Meðalkostnaður á faðm af fullgerða veginum varð 2.53, að fráskildum kaflanum hjá Borgarnesi og að ótöldum brúm og ruðningum. Það er óvenju-lítið, sem er að þakka hinum dæmafáu þurrviðrum; alls engin vinnutöf að kalla fyrir veðurs sakir. Vinnutíminn frá því snemma í maí og fram í miðjan október.
Kostnaður allur um 9.000 kr.
2. Að vegi yfir Laxárdalsheiði í Dölum m.m. Lagðir 1.730 faðm. af nýjum vegi á heiðinni. Auk þess rutt og lagað bæði þar og í Hrútafirði, og smákaflar gerðir af nýju hingað og þangað.
Þessari vegagerð stýrði Sigurgeir Gíslason, frá Hafnarfirði. Verkalið hans kringum 30. Kaup líkt og á Mýrum. Byrjað snemma í júním. og endað seint í septbr. Kostnaður alls um 7.000 kr.
3. Að veginum yfir Hrútafjarðarháls m. m. Vesturkafli hálsins áður full vegaður. Nú lagður kaflinn frá Sveðjustöðum niður að Miðfjarðará, nál. 3370 faðm. Auk þess lögð brú á Sveðjustaðalæk, 12½ alin.
Fyrir þessari vegagerð stóð Árni Zakaríasson, með 32-40 verkamenn, er höfðu sama kaup hér um bil eins og goldið var á hinum stöðunum. Sá hópur gerði og nokkuð við veginn á Miðfjarðarhálsi.
Byrjað var í miðjum júní og haldið áfram til 17. okt., nema brúin á Sveðjustaðalæk þó gerð síðar. Kostnaður allur nær 10.000 kr.
4. Unnið í Múlasýslum að viðgerð á vegum og vegaruðningi: í Hróarstungu, á Jökuldal, í Skriðdal og á Berufjarðarskarði.
Því verki stýrði Magnús Vigfússon frá Reykjavík og hafði 20-30 verkamanna, frá því snemma í júní og þangað til seint í septbr. Kostnaður nær 8.000., þar í brú á Sauðá, er kostaði nokkur hundr. kr.
5. Loks var varið um 10.000 kr. til viðgerðar á Eyrarbakkavegi, milli Selfoss og Eyrarbakka, og Hellisheiðarvegi. Borið ofan í allan Eyrarbakkaveginn og gert við rennur fram með honum m. m. Ofaníburð varð að sækja út yfir Ölfusá annars vegar og niður í Hraunsás hjá Stokkseyri hins vegar; ófáanlegur góður nær. Sú vinna stóð frá 1. júlí til 6. okt. með 26 mönnum, 16 vögnum og 32 hestum og kostaði rúm 6.700 kr. Verkstjóri Tómas Petersen.
Hann og hans lið vann bæði áður og eftir eða frá 5. maí til 30. júní og 10. til 25. okt. að viðgerð á veginum frá Reykjavík austur um Hellisheiði, byrjaði fyrir neðan Elliðaár og hélt austur í Kamba, gerði af nýju 860 faðm., er ónýtt var orðið, mest hjá Rauðavatni og Hólmi – 14 ár síðan sá vegur var lagður-, en bar ofan í 1.960 faðma. Svínahraunsvegur meðal annars lagaður svo, að hann er vagnfær. Þetta kostaði nær 3.400 kr.
Að því rekur sýnilega áður en langt um líður, að landsvegaféð, þótt allmikið sé orðið, 70-80 þús um árið, gerir naumast meir en að hrökkva til viðhalds þegar lögðum vegum.
Þá verður um þessa kosti að velja, og engan góðan; að auka til muna vegafjárveitinguna, að láta staðar numið um nýja vegagerð, að láta vegina sem fullgerðir eru, ganga úr sér og ónýtast gersamlega með tímanum, eða loks að leggja viðhaldið að meira eða minna leyti á héruðin sem vegirnir liggja um.
Engum þarf að koma á óvart, þótt viðhaldið sé dýrt. Og fráleitt er vit í að eigna það verra landslagi eða óhagstæðara loftslagi (veðráttu) en gerist annarsstaðar. Það er þar upp og niður hvorttveggja, sumstaðar betra, sumstaðar miklu verra.
Danir vörðu ógrynni fjár til að leggja ágæta vegi um land sitt, byrjuðu á því á ofanverðri 18. öld og héldu því áfram öldina sem leið, eftir ófriðar- og eymdarárin framan af henni, bæði áður en járnbrautir komu þar til sögunnar (1817) og eftir það. Nú hafa þeir komið sér upp járnbrautum um landið þvert og endilangt, 300 mílum alls, og mun þá margur ímynda sér litla þörf orðna á vegum og því fé mjög á glæ kastað, er til þeirra hefir verið varið. En þeir segja þeirra litlu eða engu minni þörf og not fyrir það; fólksfjöldinn hefur aukist það og viðskiptalífið örvast í enn meira mæli. Þeir verja því 4 millj.. kr. um árið til viðhalds vegum hjá sér, og telja því fé vel varið. Og þó er, eins og kunnugt er, Danmörk ekki stærri en sem svarar einum þriðjung af Íslandi auk þess fjallalaus.


Austri, 17. janúar 1903, 13. árg., 2. tbl., forsíða:
Magnús Bl. Jónsson skrifar um Fagradalsveginn og er eindregið þeirrar skoðunar að vegagerðin eigi að hefjast Reyðarfjarðarmegin.

Akbrautin um Fagradal.
Til hennar munu vera lagðar 6.000 kr. á núgildandi fjárlögum, og heyrst hefir, að byrja muni eiga á brautinni á komandi sumri. En þá verður fyrir manni spurningin: Hvar verður byrjað?
Eg lít svo á, að þetta standi alls eigi á sama, og þykist mega fullyrða, að margir fleiri séu á sama máli. Frétst hefir, að byrja mundi eiga á Egilstaðanesinu við syðri sporð Lagarfljótsbrúarinnar væntanlegu. En slíkt eru aðeins lausafregnir, og sennilegast, að ekkert sé afráðið um þetta enn. Vil eg nú láta skoðun mína í ljós á þessu atriði.
Um Egilstaðanes hlýtur að koma vegur, þegar brú er komin á Lagarfljót, því að veg þarf að brúnni. Slíkur vegur er meira að segja póstvegur og tilheyrir tvímælalaust brúnni. Vitaskuld má segja, að þetta þurfi ekki að vera akvegur; en póstvegur yfir marflatt og slétt land er um leið nýtilegur akvegur. Aftur get eg ekki skilið; hvernig akbraut um Egilstaðanes getur kallast akbraut um Fagradal. Í mesta lagi getur hún heitið framhald af akbraut um Fagradal, þegar braut er komin um dalinn. En sé póstvegur kominn áður á Egilstaðanesi sem að líkindum hefði komið þar með brúnni, þó ekki hefði staðið til að leggja akbraut um Fagradal, þá þarf sjálfsagt lítið við hann að gjöra; til þess að hann verði notaður til aksturs.
En auk þessa hefur það allmikla þýðingu, hvort akbrautin er byrjuð á réttum eða öfugum enda, en að mínu áliti snýr óefað rétti endinn að Reyðarfirði. - Ástæður:
Yfir Fagradal allan er miklu greiðgjörðari vegur heldur en eftir að kemur norður fyrir hann, en eftir að kemur norður fyrir hann, ef vegurinn verður lagður um Egilstaðaháls, eins og eg hygg, og yfir Köldukvísl, sem þarf að brúa. Fyrir sömu fjárupphæð verður líklega lagður allt að helmingi, eða máske fullkomlega það – lengri vegarstúfur um Fagradal en um Egilstaðaháls. Þetta gæti nú staðið á sama, ef ekki væri unnt að hafa nein not brautarinnar, fyr en hún væri fullgjör enda á milli. En hér stendur alls eigi svo á. Hún getur þvert á móti komið að mjög miklum notum áður en hún er fullgjör, ef rétt er byrjað. Sé byrjað á Reyðarfirði og brautin lögð norður eftir, þá verður hún þegar til stór-mikils gagns, er hún er lögð yfir dalinn sjálfan. Mætti þá létta svo undir flutninga Héraðsmanna, að flytja upp í Héraðið (Þuríðarstaðadalina) allan þann þunga varning, sem geymst getur úti, svo sem trjávið, kol, járn o. fl. Þetta gætu svo eigendur sótt á sleðum að vetri til eftir hentugleikum. Mundi þetta spara mikinn tíma að sumarlagi og mikla og illa hestabrúkun, einkum hvað trjávið snertir. Kol eru nú alls eigi flutt til Héraðs, en sá tími þarf að koma, heldur fyr en seinna, að eitthvað annað fáist í eldinn, en áburðurinn. – Með jafn smátækum fjárveitingum til akvegar þessa, sem í þetta sinn, mundu líða mörg ár, frá því að brautin kæmist norður yfir Fagradal, og þangað til hún mynntist við Lagarfljótsbrúna. Því að þó Fagridalur sé lengsti hlutinn af leiðinni, þá efast eg um að hann sé meira en helmingur hennar að kostnaðinum til.
Það er tiltölulega lítið vörumagn, sem flutt er frá Héraðinu að sjónum í samanburði við það, sem flutt er til Héraðs, því að kindurnar bera sig sjálfar, sem eru aðalgjaldeyrir bóndans. Það ætti því að liggja öllum í augum uppi, að áríðandi er að haga vegagjörðinni þannig, að sem fyrst megi nota brautina undir flutning til Héraðsins. Verði byrjað á akbrautinni að norðan, kemur hún að engum notum, fyr en hún er komin á enda, út á Búðareyri við Reyðarfjörð. Menn munu þykjast sjá á þessum orðum, að eg gjöri ekki ráð fyrir, að akbrautin verði notuð sem lestavegur. Það hef eg aldrei gjört og gjöri ekki enn. Fagridalur er meistaraverk náttúrunnar sem akvegarstæði, en lestarvegur verður þar aldrei að mun, og gjörir það þó eingöngu vegalengdarmunur.
Eg vildi óska, að fleiri Héraðsmenn létu uppi skoðun sína á þessu máli; en einkum tel eg það mjög áríðandi, að landsstjórnin eða þeir, sem fyrir hennar hönd standa fyrir akvegargjörðinni, athugi þetta vel, áður en byrjað er.
En því vildi eg hreint og beint mótmæla, að þessi sáralitla upphæð sem veitt er til akbrautar um Fagradal, verði varið í póstveg um Egilstaðanes með akbrautarnafni.
Af því að Austri hefir ávallt verið hlynntur þessu nauðsynjamáli voru Héraðsmanna, bið eg hann fyrir línur þessar til birtingar.
Vallanesi, 18. desember 1902.
Magnús Bl. Jónsson.


Þjóðólfur, 13. febrúar 1903, 55. árg., 7. tbl., bls. 26:
Sveitabóndi skrifar hér um vegavinnu og telur betra að slíkt sé unnið í akkorði.

Um vegavinnu.
Það er orðið ekki svo lítið sem unnið er að vegagerð árlega hér á landi, og að líkindum fer það fremur í vöxt.
Enn sem komið er mun öll vegagerð hér vera framkvæmd með daglaunavinnu, eða að minnsta kosti hef eg aldrei orðið þess var, að samningsvinna (akkorð) hafi verið reynd hér við vegagerð.
Menn, sem eru fróðari en eg, og þeir, sem komið hafa > út fyrir pollinn <, hafa sagt mér, að í útlöndum sé venjulegast að framkvæma slíka vinnu sem >akkorð<, eða láta vegagerðarflokkana gera undirboð í þá vegakafla, er gera skal, og fáist vinnan mikið ódýrari með því móti. Ætlunarverk verkfræðinga og umsjónarmanna stjórnarinnar er þá að ákveða vegina, semja um akkorðin og sjá um, að verkið sé gert eins og á að vera.
Mér skilst svo, að þetta gæti átt við hér, eins og annarsstaðar, nema ef svo skyldi vera, að landssjóður Íslands væri svo stöndugur, að það, sem unnið er fyrir hann, þurfi endilega að vera sem dýrast, til að koma honum í lóg! Og þó veit eg, að við sumir gjaldendurnir gætum Þegið, að einhverju væri á okkur létt, í stað þess, að brúka fé landssjóðs að nauðsynjalausu eða til óþarfa, til að létta hann.
Sumum virðist kaupgjald vegavinnumanna ekki heldur numið við neglur sér, þó hvíldirnar séu nægar, enda vilja nú allir piltar, sem geta girt sig hjálparlaust annaðhvort komast í vegavinnu eða > vera til sjós <; landbúskaparvinna þykir nú flestum óaðgengileg.
Sumt ráðlag vegavinnustjórnarinnar sýnist okkur bændamyndunum ekki sem hyggilegast, og skal eg nefna nýjasta dæmið, sem eg þekki.
Nú í haustskammdeginu hefur flokkur vegavinnumanna úr Rvík verið nokkrar vikur að gera við veginn frá Elliðaám fram að Sogum, sama kaflann, sem gert var við fyrir skömmu, (hálfu öðru ári að mig minnir), og sem stóð sig best af öllum þeim vegi, þó að rennurnar utan við veginn væru horfnar í 3 stuttum melskörðum, sem ekkert vatnsrennsli var um. Mennirnir hafa nú gert rennur í skörðin, og mokað því, sem upp úr þeim kom, upp á melabrúnirnar, svo nú setjast skaflar enn hærra í skörðin, en áður, vegna þess, að brúnirnar eru hærri. Auk þess hefur verið rjóðrað sandi á veginn, þar sem síst þurfti, á þessum kafla.
Því má eigi gleyma að sami flokkur setti rið á Elliðaárbrúarstöplana, og tel eg það eitt þarft af þessari vinnu hans. Það var búið að dragast óforsvaranlega lengi. Lítið eitt ofar á sama vegi (Hellisheiðarveginum), eru margir kaflar enn óviðgerðir, sem verða ófærir, þegar leysir á vorin, fyrir rennu- og íburðarleysi, og hefði sýnst þarfara að gera við þá, úr því farið var að nota svartasta skammdegið og óveðratíð, þá ódrýgst verður úr verki, til vegagerðarvinnu.
Nú verður þó ekki tvískipting valdsins um ólagið kennt, þar sem landsingeniörinn hefur einn öll völdin – eða er ekki svo?
Í des. 1902.
Sveitabóndi.


Þjóðólfur, 20. febrúar 1903, 55.árg., 8. tbl., bls. 31:
Í frétt úr Dalasýslu segir að nú sé brúin tilbúin á Laxá.

Dalasýslu 2. febr.
Brúin á Laxá komst á stöpla í byrjun desember, og er svo fullgerð, að hún verður farin bæði gangandi og ríðandi. Hún virðist vera mjög sterk í allri gerð, og nú eru stöplarnir svo háir, að ótrúlegt í fyllsta máta er, að jakar geti nokkru sinni náð brúnni. Þessi brú er langnauðsynlegasta vegabót í þessu héraði.


Þjóðólfur, 20. mars 1903, 55. árg., aukablað nr. 2, forsíða:
Hér er rætt um þörfina á gistihúsi á Lækjarbotnum, að það sé mikið öryggisatriði að hafa gistihús á leiðinni frá Reykjavík að Kolviðarhól.

Gistihús á Lækjarbotnum.
Fyrir alla ferðamenn, er Hellisheiðarveginn fara suður og sunnan – en það mun vera langfjölfarnasti vegur á landinu – er Kolviðarhóll nauðsynlegur áfanga- og gististaður, eins og allir vita. Án gistihúss þar, væri illfært eða ófært á vetrardag þessa leið, og þótt ekki sé nema 10-20 ár síðan viðunanlegur gististaður varð á Hólnum, og menn yrðu áður að sætta sig við lítinn, ónýtan og óbyggðan sæluhúskofa, þá var það í sjálfu sér óhæfilegt fyrirkomulag. En þá voru það mest lausgangandi menn, er þennan veg fóru á vetrum, því að vetrarferðir með áburðarhesta, voru þá mjög fátíðar, en nú mjög almennar síðan gistihús kom á Hólinn. Og þess má einnig geta, að ferðamenn láta mjög vel yfir öllum viðtökum hjá ábúandanum hr. Guðna Þorbergssyni, sem hefur áunnið sér almenna hylli og með miklum ötulleik og dugnaði staðið mæta vel í hinni erfiðu og ónæðissömu stöðu sinni, því að það er ekki á allra færi, að veita gistihúsinu þar forstöðu, jafnmikið umstang sem því er samfara, jafnhliða því að fullnægja öllum sanngjörnum kröfum ferðamanna. En með því að vetrarferðir með hesta austan yfir fjall hingað suður eru svo mjög farnar að aukast, hafa menn fundið til þess betur og betur, að brýn þörf væri á öðru gistihúsi nær Reykjavík, en Kolviðarhóll er, því að vegalengdin milli þessara staða er um 30-40 kílómetrar eða 6-8 kl.tíma ferð með lest á sumardag, og á vetrardag að jafnaði miklu meira, en hvergi á þeirri leið neinn gistingarstaður fyrir ferðamenn, nema lítilsháttar í Árbæ rétt fyrir ofan Elliðaárnar, og má þó geta nærri, að bóndinn þar getur ekki nema af mjög skornum skammti veitt ferðamönnum þann greiða, er þeir þarfnast, allra síst að því er húsrúm eða húsaskjól snertir fyrir menn og skepnur, enda liggur engin skylda á honum til þess. Á Lækjarbotnum, hér um bil miðja vegu millum Kolviðarhóls og Reykjavíkur, hafa nokkrir ferðamenn reyndar getað fengið gistingu, en húsrúm er þar bæði lítið, illt og óþægilegt, svo að bóndinn þar getur ekki, hversu feginn sem hann vildi, fullnægt neinum þeim kröfum, er til gistihúss verður að gera. Kvartanir ferðamanna um vöntun gistihúss milli Kolviðarhóls og Reykjavíkur verða því dag frá degi háværari. Það virðist því bera brýna nauðsyn til, að á þessu verði bót ráðin sem allra fyrst, með því að reisa allviðunanlegt gistihús á Lækjarbotnum eða öllu heldur við Hólmsá nálægt brúnni, svo að þeir sem Mosfellsheiði fara gætu einnig haft not þess, er þeir gætu síður haft, ef það væri heima á Lækjarbotnum, með því að það væri of mikið úr leið fyrir þá. Gistihús þetta ætti landsjóður að reisa með einhverjum styrk sýslujóðanna í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum. Þykir sennilegt, að sýslunefndir þessar hreyfi málinu til undirbúnings undir næsta alþingi, því að eftir undirtektum og tillögum sýslunefndanna fer það mikið, hvernig þingið mundi taka í það. Þetta er nauðsynjamál, sem fyrnefnd sýslufélög ættu að hrinda áleiðis, því að taki þau vel í málið er ólíklegt, að þingið snerist illa við jafn sanngjarnri og réttmætri beiðni. Það er varið fé úr landsjóði til ýmiskonar meiri óþarfa en þess, að veita hlýindi, hvíld og þægindi köldum og þreyttum ferðamönnum, er í ófærð og vetrarhörkum verða að brjótast sér til bjargar langa, erfiða og hættulega leið yfir fjöll og firnindi.


Austri, 28. mars 1903, 13. árg., 7 tbl., forsíða:
Jón Bergsson skrifar um akbrautina yfir Fagradal.

Akbraut yfir Fagradal.
Í öðru tölublaði "Austra" þ. á. skrifar síra Magnús Bl. Jónsson í Vallanesi grein um akbraut yrir Fagradal. Skýrir hann það frá skoðun sinni á því hvar byrja eigi á hinni fyrirhuguðu akbrautarlagningu, og óskar jafnframt að fleiri Héraðsmenn láti álit sitt í ljós í þessu máli. Þareð ég er alveg á sömu skoðun, þá er mér því ljúfara að verða við þessari ósk hans, úr því enginn annar hefir látið til sín heyra í því máli. Ef það kæmi fyrir, eins og heyrzt hefir, að byrjaeigi á brautarlagningunni yfir Fagradal við Lagarfljótsbrúna fyrirhuguðu, þá verð eg að álíta slíkt mjög misráðið og mun það samhuga áliti flestra eða allra Héraðsbúa. Eg get heldur ekki álitið, að sá vegur eigi beinlínis skylt við akbraut yfir Fagradal, því eptir mínum skilningi tel eg akbrautarveginn yfir Fagardal fyrst einungis frá Búðareyri við Reyðarfjörð niður að brúnni að Eyvindará, nefnilega þar til hann kemur saman við póstveginn þar, og svo þarf maður að ganga út frá því, að brautin liggi niður að Lagarfjóti, en ekki að Lagarfljótsbrúnni, ef maður skoðaði akbrautina í sambandi við gufubát á Lagarfljóti. Hún ætti þá að liggja þangað sem hægt væri að hafa höfn fyrir bát og upplagsstað fyrir vörur og um það atriði þyrftu Héraðsbúar að koma sér saman, áður en vegurinn yrði langður. Vegur yfir Egilsstaðarnes er póstvegur, sem ekkert kemur akbraut yfir Fagradal við, ekki fremur en vér teldum brú yfir Lagarfljót akbraut yfir Fagradal, því litla fé, sem búið er að veita til akbrautarinnar held eg að engin heimild sé til að verja til annara vega. Ef þessum 6.000 kr., sem veittar eru til Fagradalsbrautarinnar, væri nú varið til vegagjörðar á Egilsstaðarnesi og upp að Eyvindarárbrúnni, þá væri það í reyndinni svo að á póstleiðinni frá Lagarfljóti til Seyðisfjarðar væri varið 12.000 kr., nefnilega þeim 6.000 kr. sem veittar eru til Fjarðarheiðar; en ekki einni einustu krónu til akbrautar yfir Fagradal. Okkur væri lofað sykurmola en stungið upp í okkur salti. Þó gengið væri út frá því, sem eg alls ekki gjöri, að brautin ætti að teljast alla leið niður til hinnar fyrirhuguðu Lagarfljótsbrúar, þá dylst engum manni, að réttara og praktiskara væri að byrja að leggja veginn frá sjónum eiða verzlunarstaðnum, þaðan sem flutningurinn byrjar, heldur en að byrja á hinum endanum og flytja öll áhöld og efni, sem til vegarins þurfa, yfir óruddan veg á hestum. Aptur á móti, ef byrjað bæri að neðan, mætti flytja allt efni og áhöld til vegagjörðarinnar t.d. efni í brýr yfir ár og læki eptir brautinni sjálfri, jafnframt og hún er lögð. Mundi vegurinn með því fyrirkomulagi verða bæði ódýrari og að öllu leyti greiðara að vinna að honum. Eg get búizt við því svari, að oss komi það ekki við hvar byrjað verði, eða hvernig unnið verði að veginum. En eg álít það blátt áfram skyldu vora að benda á það, sem betur gæti farið, og láta það ekki afskiptalaust eða óátalið, sem miður fer. Hér er tvennt, sem þar að hafa fyrir augum, hag þeirra, sem eiga að nota og njóta brautarinnar, og sparnað með því að byrja neðan frá sjónum, er þessu hvorutveggja fullnægt. Því eins og síra Magnús hefir tekið fram, eru mikil líkindi til að menn mundu geta haft mikið gagn af brautinni áður en hún yrði fullgjör, ef hún byrjaði að neðan, því það eru aðflutningar, sem öllum erfiðleikum valda; en ekki teljandi enn það sem menn þurfa að flytja frá sér. Að vísu verður lítið gjört með þessari litlu upphæð, sem þegar hefir verið veitt til akbrautarinnar. Það yrði aðeins lítill stúfur sem gjörður yrði fyrir þessar 6.000 kr, svo að því leyti væri minnst um að gjörn hvar byrjað væri, að öðru en því, að það er svo hætt við því og má ganga út frá því sem sjálfsögðu, að frá hvorum endanum, sem byrjað verður, að þaðan verði framhaldið, svo þess vegnaliggur það í augum uppi, að miklu réttara væri að byrja að neðan og meira að segja sjálfsagt, nema því aðeins, að vér séum þeim óhappa örlögum háðir að allt þurfi að fæðast á apturfótum hjá oss. Verði nú fjárveitingar til Fagradalsbrautarinnar framvegis sniðar eptir sama mælikvarða og þessi fyrsta, þá verður þessi margþráði vegur aðeins draumur fyrir okkur, sem nú eru farnir að eldast, og nærri því til þess að stinga okkur svefnþorni, því eg veit ekki hvað það er, sem frekar getur haft svæfandi og deyfandi áhrif á menn, en það að sjá byrjað á einhverju fyrirtæki, sem ekkert gengur. Eg tel það sama, sem það gangi ekkert með þetta mál, ef á hverju þingi væru veittar jafnar fjárveitingar þessari fyrstu til akbrautarinnar og það gengju ein 20 - 30 ár að koma henni upp. Þegar um svona fyrirtæki er að ræða, er annaðhvort að eiga ekkert við þau eða þá að drífa þau af í einu. Veita á fjárlögum í einu þá upphæð, semtil fyrirtækisins er áætlað, og láta svo verkið gana eptir því, sem föng eru á. Að veita smá upphæðir í einu til vega hingað og þangað út um landið, verður aldrei nema kák, sem ekkert eða lítið gegn verður að. Ef landi voru er nokkur framavon, þá þurfum vér að gjöra eitthvað, sem að verulegu gagni getur komið, eða sem vér álíutm að geti orðið til verulegara framfara. Atvinnuvegir vorir þurfa alvarlegra lækininga við, það duga engar homöopatha eða smáskamtalækningar, þær eru bara til þess að halda oss við þá trú að ekkert sé hægt að gjöra og bezt sé að móka í hálfgjörðu aðgjörðaleysi. Það má ekki sjá útí neinn skynsamlegar kostnað til að lækna meinsemdirnar. Fyrsta skilyrðið er að greiða samgöngur á sjó og landi eptir því sem kostur er á, þær hafa hingað til verið taldar lífæð framfaranna. Fyrir þetta hérað hef eg það trú að bættar samgöngur gætu haft sérlega mikla þýðingu. Akbraut yfir Fagradal og gufubátur eptir Lagarfljóti mundi með tímanum hafa meiri áhrif á landbúndaðinn í Fljótsdalshéraði, en menn almennt gjöra sér hugmynd um. Það eru mikil skilyrði fyrir að landbúnaðurinn í Fljótsdalshéraði gæti tekið stórkostlega miklum umbótum, ef að honum væri hlúð. Aðflutningur Héraðsbúa er einhver sá versti þröskuldur á vegi fyrir öllum framförum þess. Samlagsmjólkurbúum mundi mjög erfitt að koma hér á, eins og nú hagar til fyrir strjálbygðina, en ef gufubátsferðir kæmust á eptir Lagarfljóti mundi máske hvergi á landinu eins auðvelt að drífa samlagsmjólkurbú í stórum stíl, þar sem svo margir bæir liggja rétt meðfram Lagarfljóti. Víða hagar svo til á Héraðinu, að enginn svörður er til, og ekkert er til að brenna nema sauðatað og því víða mestu eða öllu brennt, allstaðar einhverju af því meira eða minna. Hvernig á grasrækt að vera í góðu lagi með þessu fyrirkomulagi. En hverju á að brenna öðru? Allir hafa fullt í fangi að flytja að sér þessar vanalegu nauðsynjar, og er því ekki að tala um að flytja kol til eldsneytis. Að líkindum myndi sá tími koma, ef greiðari væru aðflutningar að mönnum skildist að bezti áburðurinn væri eftir allt of dýr til eldsneytis. Þannig mætti máske lengi telja upp að mörgu mætti breyta og mörgu þyrfti að breyta emð greiðari aðflutningum. Það er ótalinn allur sá tími og allur sá kostnaður, sem gengur í vora núverandi flutninga; það eru peningar, sem vér gjörum oss alltof litla hugmund um, ef vér göngum út frá því, að tíminn sé peningar. Ef vér höfum trú á framtíð landsins, þurfum vér eitthvaðað gjöra til þess að bæta atvinnuvegi þess. Búskapur, á nær óræktuðu landi, með lítilli kunnáttu og litlum sem engum verkfærum, getur ekki borið sig. Það er ómuglegt aðnnað að segja, en það vér lifum á nær óræktuðu landi, þó vér höfum einhvern dálítinn þúfnareit kringum bæi vora, sem vér berum áburuð á. Gætum vér varið öllum tíma og öllu því verki og öllum öðrum kostnaði, sem nú gengur til vorra erfiðu aðflutninga, til jarðabóta, mætti mikið gjöra, og gætum vér sparað helminginn eða meira af því fóðri, sem vér þurfum nú handa vorum útþrælkuðu illa meðförnu hestum, mætti mörgu fé framfleyta á því í öllu Fljótsdalshéraði. Mættum vér nú meða vorum vonaraugum líta fram í tímann og hugsa oss akbraut fyrir Fagardal með motorvögnum, fram og til baka milli Reyðarfjarðar og Lagarfljóts, sem færðu oss allar vorar nauðþruftir, og svo gufubát eptir Lagarfljóti, sem gengi upp í fljótsbotn og út að fossinum við Kirkjubæ, og hver gæti svo tekið sinn varning við Lagarfljót, þar sem skemmst væri fr´æa bæjum, mundi oss ekki þá þykja munur á þægindunum. Þar hefðum vér flutningsveg c. 14 - 15 mílur, þar af kostaði landið 1/3 og náttúran 2/3 partana, sem aldrei þyrfti viðhald og ekkert uppá að kosta. Hvar á landinu væri hægt að fá ódýrari veg til flutninga yfir hverjar 15 mílur? Lagarfljót hefir hingað til verið talið Fljótsdalshéraði hið mesta óhagræði, og er það meðan það er ekkert notað, en sannarlega hefir það mikla blessun og hagræði í sér fólgið, ef vér vildum nota það. Öld eptir öld hefir það verið Fljótdalshéraði til bölvunar og erfiðisauka, af því menn hafa ekki skilið þýðingu þess og ætlunarverk. Nú sjáum vér að það hefir í sér flólgið tugi þúsunda króna sem flutningavegur; eptir að vér fáum akbraut frá sjónum. Höfum vér ráð á því að láta svona flutningsbætur lengur ónotaðar – Fagradal og Langadal -, sem af náttúrunnar hendi blasa við oss til þess að létta undir erfiði lífsins? Þetta er svo alvarlegt málefni fyrir Fljótsdalshérað að það ætti enginn hugsandi maður að láta sér það óviðkomandi, eða að liggja á liði sínu að styðja það á allan hátt. Undir því er framtíð - framfarir og blómgun - Fljótsdalshéraðs algjörlega komin.
Ritað í marz 1903
Jón Bergsson.

Ísafold, 25. apríl 1903, 30. árg., 21. tbl., bls. 82:
Hér segir frá sýslunefndarfundi Árnesinga.

Af sýslunefndarfundi Árnesinga.
Hann var haldinn 14.-18. þ.m. og skal hér getið helstu málanna:
Eitthvert mesta vandamál fundarins var að bjarga rjómabúunum úr hættu, en á þeim byggist mjög svo framtíðarvon landbúnaðarins. Hættan er sú, að smjörið seljist illa eða ekki, nema því að eins, að það sé í svo stórum kvartilum, að eigi sé fært að flytja þau á hestum nema stutta leið, einkum þar sem þetta er svo mikill flutningur. Virðist því bráðnauðsynlegt, að þau eigi sem allra skemmst til dráttar að vagnvegi. Til þess þyrfti að lengja flutningabrautina frá Eyrarbakka þann veg, að hún taki sig upp aftur frá þjóðveginum fyrir ofan Bitru og sé lögð þaðan upp að Laxá fyrst. Svo þyrfti álmu frá henni að Iðu, vegna Biskupstungnabúsins, og aðra frá Ölfusveginum að Alviðru, vegna Grímsness. Sýslunefndin sá eigi annan veg færan en að biðja alþingi að koma þessu áleiðis á næsta fjárhagstímabili, en hét þar á móti að taka að sér, í sambandi við Grímsnesinga, að brúa Sogið án landssjóðstillags; og mun það fullerfitt.
Þá var óskað, að sýslu- og hreppsnefndum yrði leyft, er þörf krefur, að hækka vegagjaldsmælikvarðann, þar eð verkfærir menn fækka, en vegir þurfa sins við fyrir því.
Beðið var um að losna við brúagæslukostnaðinn.
Og enn var beðið um, að hafnir hér verði gerðar að strandferðaviðkomustöðum að sumrinu.
Öllu þessu eiga nýju þingmennirnir okkar að reyna sig á að koma fram, og þó ýmsu fleiru, t.d. að fjölga vörðum með Mosfellsheiðarvegi, fá Geysisbrautina lengda o.fl.
Nýmæli var, að veittar voru 550 kr. til dragferju á Iðu. Spóastaðalögferju var lagt til að afnema, en Óseyrarnessferja, þótti eigi mega missast.
Í stað ferðamannaskýlis á Lækjarbotnum, var lagt til að styrkja gistihús nálægt Hólmsbrú, ef þess yrði óskað.


Þjóðólfur, 1. maí 1903, 55. árg., 18 tbl., forsíða:
Hér er frásögn af sýslufundi Árnesinga en þar voru m.a. tekin fyrir ýmiss merk samgöngumál.

Sýslufundur Árnesinga
Var haldinn á Eyrarbakka dagana 14.-18. f. m. Voru þar mjög mörg mál á dagskrá, og verður hér að eins fátt eitt talið, er helst þykir máli skipta.
Um samgöngumál var lengi rætt og skorað á tilvonandi alþingismenn sýslunnar, að gangast fyrir því á næsta þingi, að flutningabrautin milli ánna verði lengd frá Flatholti (nál. Bitru) upp að Laxá og að lögð verði álma út úr henni að Iðu, einnig að álma verði lögð út úr brautinni utan Ölfusár að Alviðru. Er þetta einkum gert vegna rjómabúanna. Gangi þetta fram lofar sýslunefndin að taka að sér að gera brú á Sogið í sameiningu við Grímsneshrepp og án fjárframlaga úr landsjóði. – Skorað var og á þingmennina að reyna að fá því framgengt, að brúargæslu verði létt af sýslusjóði, að útvegaðar verði upplýsingar um, hvort koma megi á >motor<-vagnferðum, og að sýslu- og hreppsnefndum verði leyft, ef nauðsyn þykir, að hækka allt að helmingi mælikvarða vegagjalds. – Til dragferju á Hvítá hjá Iðu voru veittar 550 kr. Lagt til að aftaka lögferju á Spóastöðum, en Óseyrarnessferju vildu menn ekki missa. Mælst var til, að Stokkseyri og Eyrarbakki (eða Þorlákshöfn) væri tekin í strandferðaáætlanir frá maíbyrjun til septemberloka. Mælt með 200 kr. veitingu úr amtsjóði til Guðna á Kolviðarhóli, í viðurkenningarskyni og einnig með styrkveitingu úr landsjóði til gistihússtofnunar nálægt Hólmsbrú (sbr. uppást. Í Þjóðólfi 20. mars).


Norðurland, 2. maí, 1903, 2. árg., 32. tbl., bls. 127:
Sýslufundur Skagfirðinga.

Haldinn á Sauðárkróki 10.-13. mars 1903. Ágrip:
Kláfdráttur.
Veittur 50 kr. styrkur til að koma á kláfdrætti á Kökulsá eystri, en jökulhlaup í ánni í vetur hafði tekið kláfinn.
Flutningabraut.
Skorað á þingmenn sýslunnar að sjá um að bráðlega verði undið að því að leggja hina lögákveðnu flutningabraut fram Skagafjörð.
Sýsluvegamál.
Veitt allt að 600 kr. til vegagerðar milli Framnes og Brekkna í Akrahreppi. Veitt allt að 400 kr. til að gera við veginn frá Kolkuósi að Hólum svo hann verði fær með kerrur; til þessarar vegagerðar hefur Flóvent Jóhannson á Hólum boðið að leggja fram 100 kr. og hreppsnefnd Hólahrepps allt hreppsvegagjaldið þetta ár.
Hallgrímur Þorsteinsson ráðinn verkstjóri við sýsluvegavinnu næsta vor.
Skorað á þingmenn sýslunnar að útvega 2.000 kr. styrk úr landsjóði til vegagerðar frá Hofsós fram að Stóru-Ökrum gegn jaf miklu framlagi frá sýslunni.
Brúarsjóðsgjald.
Samþykkt að leggja 20 aura brúarsjóðsgjald á hvert lausafjárhundrað og hvern verkfæran mann þ.á.


Þjóðólfur, 8. maí 1903, 55. árg., 4 tbl., forsíða:
Ýmiss samgöngumál voru rædd á sýslufundi Árnesinga.

Skýrsla frá sýslufundi Árnesinga. (Ágrip).
Sýslunefndin gekk á fund 14. apríl; stóð hann fram yfir miðjan dag 18. s.m. Um 70 málefni komust til umræðu, og tel eg hér nokkur þeirra:
2. Lagt til, að landsjóður kosti báta við Hvítárvatn til flutninga yfir Hvítá. Ferðamenn, sem Kjalveg fara, þurfa þeirra mjög opt. Fengjust bátarnir, var gert ráð fyrir, að Biskupstungur sæju um viðhaldið.
4. Sýslunefnd Rangárvallasýslu sendi á fundinn áskorun til þingmanna sýslnanna, um að létta brúargæslugjaldinu af sýslusjóðunum, og flytja frumvarp til laga um þetta á þingi í líka átt og fyr. Samþykkt.
7. Þingið beðið um að rannsaka, hvort “motor” vagnar geti ekki komið að notum á hinum nýlögðu vegum. Talsverður áhugi vaknaður á því máli hér eystra.
17. Vegamál nefnd. Samþykkt í einu hljóði að skora á þingmenn sýslunnar, að fá því framgengt sem fyrst, að flutningabrautin verði ákveðin upp sýsluna, og þá helst mælt með vegi frá Flatholti hjá Bitru, að Reykjum á Skeiðum, eða Laxá með vegaálmu að Iðu, og svo sem nr. 1, veg frá hinum svonefnda Hrísmýrarkletti fyrir utan Helli í Ölfusi, að Alviðruferjustað, og sé þessi síðasttalda brautarstöð mæld sem allra fyrst, svo unnt verði í næstu fjárlögum að leggja fé til hennar. Einnig var beðið um framhald af Geysisveginum að Gjábakka. Fáist þetta, einkum vegurinn til Sogsbrúarinnar, lofar sýslan að kosta ein brúna með Grímsnesingum. Um þann kostnað lá fyrir sundurliðuð áætlun frá verkfræðingi Sig. Thoroddsen.
18. Samþykkt að leggja til dragferju á Iðu í þetta sinn 550 kr.
23. Samþykkt að skora á þingmennina fyrir sýsluna að fá heimildarlög fyrir sýslunefndir og hreppsnefndir, að hækka hreppavegagjald og sýslusjóðsgjald fyrir hvern verkfæran allt að helmingi. Þessi þörf stafar af því, að tala verkfærra manna fer lækkandi í sýslunum, en vegaþörfin vaxandi víða.
28. Eftir langar umræður var samþykkt, að biðja þingið um að styrkja með fjárframlagi til þess, að sem fyrst verði byggt gistihús á Lækjarbotnum eða Hólmi, skammt frá Hólmsárbrú, (fleiri voru með að hafa húsið hjá Hólmsárbrúnni, því þar eru not af því fyrir þá, sem fara Mosfellsheiðarveginn). Sýslan lofar að leggja eitthvað til, og vonar hins sama af Rangvellingum.
32. Amtsráð beðið um að hlutast til um, að Mosfellsheiðarvegur verði varðaður til byggða; þar háski að vörðuleysi.
36. Vegafé sýslunnar í þetta sinn alls kr. 1,559,70
Vextir og afborganir til landssjóðs kr. 720,00
Til dragferj. Á Iðu - 550,00
Til ýmsra viðgerða á sýsluvegum - 286,91
Eftirstöðvar af vegafé - 2,79 – 1,559,70

Í sýslusjóði eftirstöðvar frá f. á. - 748,80
Niðurjöfnun - 4, 000,00 – 4,748,00
Gjöld:
Jafnaðarsjóðsgjald - 1,891,76
Yfirsetukonur - 1,150,00
Brúarskuld - 250,00
Sóttvarnir - 100,00
Brúargæsla - 400,00
Útdráttur skjala og prentun - 50,00
Annar kostnaður, hreppstjóra-
ritföng o. fl. - 508,00
Eftirstöðvar nú - 399,04 – 4,748,00
S


Ísafold, 23. maí 1903, 30. árg., 29. tbl., bls. 115:
Á sýslufundi Rangæinga var m.a. skorað á þingið að leggja fé til mótorvagnferða frá Reykjavík austur að Ytri-Rangá.

Sýslufundur Rangæinga.
Aðalsýslufundur Rangárvallasýslu var haldinn að Stórólfshvoli dagana 6., 7. og 8. apríl. Auk venjulegra mála, svo sem samþykkta á hreppa- og sýslureikningum m. m., voru þessi mál tekin til umræðu á fundinum:
8. Skorað á alþingismenn sýslunnar, að halda því fram á næsta þingi, að brúargæslukostnaðinum yrði létt af sýslusjóði.
15. Fundurinn skoraði á þingið að leggja fé til mótorvagnferða frá Reykjavík austur að Ytri-Rangá.
17. Til sýsluvegabóta var veitt í Austur-Eyjafjallahreppi 100 kr., Vestur-Eyjafjallahr. 150 kr., Austur-Landeyjahr. 75 kr., Vestur-Landeyjahr. 15 kr., Hvolshreppi 60 kr., Rangárvallahr. 25 kr., Landmannahr. 275 kr. og Holtahr. 100 kr.
18. Ákveðið að skora á þingmenn sýslunnar, að halda því fram á næsta þingi, að fá brú á Ytri-Rangá hjá Árbæ.
Tekjur:
Niðurjöfnunargjald ¿¿¿¿¿ 3800 kr.
Vegagjald ¿¿¿¿¿¿¿¿. 1000 –
Endurgreiðsla á jarðskjálftaláni. 800 –
Óvissar tekjur ¿¿¿¿¿¿¿. 150 –
Alls 5750 kr.
Gjöld:
1. skuld til oddvita ¿¿¿¿¿¿.. 180 kr.
2. kostnaður við sýslunefndina ¿¿ 300 –
3. þóknun hreppstjóra fyrir ritföng . 50 –
4. Laun yfirsetukvenna ¿¿¿¿¿ 760 –
5. Jafnaðarsjóðsgjald ¿¿¿¿¿... 1500 –
6. Hundalækningar ¿¿¿¿¿¿.. 30 –
7. Til gæslu Þjórsárbrúarinnar ¿¿ 300 –
8. Til afborgunar af láni til Ölfusárbrúarinnar ¿¿¿¿¿¿ 230 –
9. Afborgun af láni sýslusjóðs frá 1896 ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ 800 –
10. til vegabóta ¿¿¿¿¿¿¿¿.. 1050 –
11. óviss útgjöld ¿¿¿¿¿¿¿¿. 550 –
Alls 5750 kr.
Alls voru rædd 44 mál á fundinum.


Norðurland, 20. júní, 1903, 2. árg., 49. tbl., bls. 155:
Farið var fram á samgöngubætur á þingmálafundum Skagfirðinga.

Þingmálafundir Skagfirðinga.
Samgöngubætur. Farið var fram á allmiklar samgöngubætur innanhéraðs á fundum þessum. Fyrst var það, er samþykkt var á Stóru Ökrum: landssjóðsstyrkur til sýsluvegar austan Héraðsvatna, akbraut fram héraðið vestan vatna, gufuskip, er komi á Skagafjörð vetrarmánuðinn og brú yfir Héraðsvötn á póstleiðinni.


Norðurland, 20. júní, 1903, 2. árg., 49. tbl., bls. 154:
Fundur Norðuramtsráðsins tók fyrir tvö mál sem snerta vegagerð.

Fundur Norðuramtsráðsins
var haldinn hér á Akureyri dagan 9.-13. júní. Amtsráðsmenn allir viðstaddir. Hér á eftir fer ágrip af fundargerðinni:
Breyting á sýsluvegi. Samþykkt málaleitan frá sýslunefnd Húnvetninga um, að sýsluveginum í Engihlíðarhreppi verði breytt þannig, að hann liggi frá Blöndubrú fram hjá kvennaskólahúsinu um Klauf, eftir Neðribyggð Refasveitar hjá Sölfabakka, að brú á Laxá.
Brúargerðarlán. Sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu leyft að taka 800 kr. lán til brúargerða, með því skilyrði, að lánið endurborgist með jöfnum afborgunum á 10 árum.


Þjóðólfur, 26. júní 1903, 55. árg., 26. tbl., bls. 102:
Á þingmálafundi Árnesinga eru gerðar nokkrar samþykkir varðandi vegamál.

Þingmálafundur Árnesinga.
Árið 1903, 20. dag júnímánaðar, var þingmálafundur haldinn að Selfossi. Voru þar komnir báðir þingmenn sýslunnar. Fundarstjóri var Eggert Benediktsson í Laugardælum, en fundarskrifari séra Ólafur Helgason á Stóra-Hrauni.
Þessi mál komu til umræðu:
14. Vegamál.
Fundurinn skorar á alþingi:
a. að framlenging flutningabrautarinnar frá Eyrarbakka upp Árnessýslu verði ákveðin þannig, að hún leggist frá þjóðveginum fyrir ofan Bitru upp yfir Skeiðin að Laxá fyrst um sinn og að fé verði veitt til þess á næsta fjárhagstímabili, og að lögð verði einnig á næsta fjárhagstímabili vegarálma frá þjóðveginum í Ölfusi að Alviðruferjustað við Sog og önnur álma af hinni fyrirhuguðu flutningabraut upp yfir Skeiðin frá Reykjum að Iðuferjustað við Hvítá;
b. að flutningabrautin frá Rvk. austur að Geysi verði framlengd frá Þingvöllum að Gjábakka og fé veitt til þess í næstu fjárlögum;
c. að flutningabrautin frá Rvk. til Geysis, samkvæmt vegalögunum 1894, verði ekki lögð austur Laugardal, heldur um hina fyrirhuguðu Sogsbrú og upp mitt Grímsnes og Biskupstungur.
d. Fundurinn óskar þess, að þingið hlutist til um, að rannsakað verði, hvort mótorvagnar muni geta komið hér að notum á þeim vegum, sem hér eru nú.


Norðurland, 27. júní, 1903, 2. árg., 40. tbl., bls. 158:
Brú á Fnjóská er á óskalista Suður-Þingeyinga.

Þingmálafundur Suður-Þingeyinga.
Á fundinum gerðist þetta:
6. Samgöngumál. Samþykkt var:
c. Fundurinn skorar á þingmanninn að fylgja því af alefli fram, að á næsta fjárhagstímabili verði veitt fé til að byrja á akbraut frá Húsavík fram í Reykjadal.
d. Fundurinn skorar á þingmanninn að vinna að því af ítrasta megni að Alþingi leggi fram fé, á yfirstandandi kjörtímabili, til brúar yfir Fnjóská, á þjóðveginum.


Þjóðólfur, 3. júlí 1903, 55. árg., 27. tbl., bls. 107:
Á þingmálafundi Snæfellinga var samþykkt áskorun á þingið varðandi veginn úr Stykkishólmi til Borgarness.

Þingmálafundur Snæfellinga í Stykkishólmi 6.júní 1903.
Ár 1903, laugardaginn 6. júní, var þingmálafundur Snæfellinga settur og haldinn í Stykkishólmi og var þingmaður sýslunnar, Lárus sýslumaður H. Bjarnason kosinn fundarstjóri, en skrifari Kjartan kaupmaður Þorkelsson.
Eftirfarandi mál komu til umræðu:
8. Héraðssamgöngur. – Fundurinn skoraði í einu hljóði á þingið að leggja nú sem mest fé fram til vegarins úr Stykkishólmi til Borgarness og að brúa sem fyrst Haffjarðará og Hítará.


Þjóðólfur, 17. júlí 1903, 55. árg., 29. tbl., bls. 115:
Magnús Jónsson svarar grein séra Stefáns Stephensen varðandi brú yfir Sogið og vill meina að hún muni gagnast Biskupstungum ekki síður en Grímsnesi.

Samgöngur í Árnessýslu.
Með þessari fyrirsögn er grein í Fjallkonunni 24. tbl. þ. á. eftir séra Stefán Stephensen í Austurey. Af því hann í nefndri grein gerir Sogsbrúarmálið að aðal umtalsefni, vil eg leyfa mér að fara um hana nokkrum orðum og sýna fram á sannleikann í því máli, sem höfundurinn virðist að miklu leyti hafa sneitt hjá.
Höf. byrjar aðallega á því að tala um Geysisveginn, og telja mönnum trú um, að hann sé aðalkaupstaðarleið meiri hluta Grímsness og Biskupstungna; en það er ekki rétt, að minnsta kosti ekki, að því er Grímsnesið snertir, - hinu er eg minna kunnugur, - því fyrst og fremst er spursmál um, hvort það er meiri hluti þeirra Grímsnesinga, sem versla í Reykjavík, sem fara þá leið, að þeim meðtöldum, sem gera sér stóran krók til að spara sér sund, peningaútlát, bið eftir ferjumanni og fleiri óþægindi og erfiðleika, sem ferjuflutningur hefur í för með sér, og í öðru lagi kemur hann, eins og allir vita, ekki að notum fyrir þá sem versla á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem eru æði margir, og eins og kunnugt er, fer þar viðskiptamagnið sívaxandi, og ber margt til þess, bæði verslunarsamkeppnin, sem gerir það að verkum, að nú á seinni árum hafa menn getað fengið þar allt eins góð kaup og í Reykjavík, og jafnvel betri á ýmsu, svo sem timbri o.fl. Og svo eru kaupfélögin ekkert lítill hluti í viðskiptamagninu eða flutninga- og ferðamagninu til og frá Eyrarbakka og Stokkseyri, þar sem fjöldi af bændum úr þessum sveitum báðum, Grímsnesi og Biskupstungum, panta megnið af nauðsynjum sínum, og telja það eitt af aðalhlunnindum við pöntunarfélögin austan fjalls, að flestir geta farið allt að 2 ferðir niður á Eyrarbakka og Stokkseyri, meðan ein er farin suður; auk þess sem betur hagar til með haga fyrir hesta á þeirri leið. Og enn mundi viðskiptamagnið á Stokkseyri og Eyrarbakka aukast að stórum mun, ef brú kæmi á Sogið og menn þyrftu ekki að sundleggja til og frá í hverri ferð, og þó maður spái engu um framtíðina, geri aðeins ráð fyrir því, sem er, þá munu allir kunnugir, sem unna sannleikanum í þessu máli, viðurkenna að verslanirnar á Stokkseyri, sem ekki voru áður, og pöntunarfélögin á Stokkseyri og Eyrarbakka, vega margfalt á móti blómlegu verslunina, sem höf. segir að hafi verið nýrisin upp í Þorlákshöfn, þegar fyrst var farið fram á að brúa Sogið.
Höf. segir, að Tungnamenn hafi lýst því yfir, að brú á Sogið væri þeim gagnslaus, fengist ekki jafnframt upphleyptur vagnvegur upp Grímsnes, og getur það vel verið, að einhver Tungnamaður hafi talað á þá leið, en hitt mun hægt að sanna, að á síðasta sýslunefndarfundi Árnesinga, er Sogsbrúarmálið kom til umræðu, lýsti sýslunefndarmaður Biskupstungna, sem er mjög merkur maður, því yfir á fundinum, í áheyrn höfundarins, að brú á Sogið kæmi Biskupstungnahreppi að miklum notum. Mér finnst því rangt í þessu tilfelli, að taka prívat umsögn einstakra manna gildari, og færa þær í letur í opinberu blaði, en yfirlýsingu fulltrúans á opinberum stað og í embættissporum. Höf. segir einnig, að það sé aðeins suðurhluti Grímsness, sem brú á Sogið geti komið að verulegum notum, að æði margir á því svæði ekki mundu nota hana til aðdráttar, þar eð hún yrði mikið úr leið, þegar sótt er til Eyrarbakka eða Stokkseyrar. Þetta er sú fjarstæða, sem engu tali tekur, því allir viðurkenna að brúarstæðið hjá Alviðru sé á hentugasta stað, Sem hægt er að hugsa, fyrir allflesta, sem yfir Sogið fara, hvort heldur farið er til Reykjavíkur, Eyrarb. eða Stokkseyrar, því það er einmitt hjá fjölfarnasta ferjustaðnum til allra nærliggjandi kauptúna og verstaða.
Höf. segir, að Hvítá sé opt á ís að vetrarlagi, en ekki býst eg við, að þeir verði margir, sem næstir henni búa og best þekkja hana, sem votta það með honum, því það er ekki nema í einstöku tilfellum, heldur er hún á flestum stöðum oftast ófær fyrir hesta að vetrarlagi, ýmist af vatnavöxtum, skörum, ísskriði eða hrönnum, sem safnast í kringum hana, svo að ekki er hægt að komast að henni með hesta.
Höf. segir einnig, að efri hluti Grímsness hafi viljað sameina flutningaþörf tveggja væntanlegra rjómabúa í Grímsnesi með því að biðja um álmu af póstveginum nál. Hraungerði upp að Hvítá nál. Arnarbælisferjustað, koma þar dragferju á ána, og að öll sveitin lagaði eftir þörfum og megni veginn upp sveitina frá dragferjunni. Um þetta hef eg nú reyndar ekki heyrt nema eina rödd hljóða úr þeirri átt, en hvað um það, þetta hefði vel getað samrýmst, ef ekki vantaði þau skilyrði, sem gætu gert þetta mögulegt, en nú er sá galli á, að nálægt Arnarbælisferjustað er víst ekki hægt að hafa dragferju sökum grynninga í ánni, sem opt er svo grunn þar á blettum, að tómir ferjubátar ganga ekki á henni, og vegurinn frá Arnarbælisferjustað upp sveitina er tómir mýraflákar og til þess að þar gætu gengið um vagnar, þyrfti upphleyptan veg með ofaníburði, sem hvergi er til á því svæði. Því verð eg að álíta það réttara, hyggilegra og hagkvæmara fyrir þarfir og kröfur framtíðarinnar, að bíta sig nú svo fast í brúna, eins og höf. kemst að orði, að hún gangi á undan öllu bráðabirgðarkráki, í samgöngubótum til Grímsness og Biskupstungna, því að það mundi verða varanleg undirstaða til sannra samgöngubóta, og undirstaða, sem eftirmenn vorir gætu verið þekktir fyrir að byggja ofan á.
Höf. virðist færa að sýslunefndinni fyrir brjóstgæði í okkar Grímsnesinga garð, en það er svo fyrir að þakka, að við Árnesingar í heild sinni höfum þar mörgum góðum drengjum á að skipa, sem ekki vilja láta lítilfjörlega eigin hagsmunasemi sitja í fyrirrúmi fyrir nauðsynlegum framfarafyrirtækjum meðbræðra sinna, hvar svo sem þeir búa, innan þess takmarks, sem þeirra verkahringur nær til.
Að endingu vil eg geta þess, að eg er höfundinum mjög þakklátur fyrir, að hann í enda greinar sinnar kemst þó til réttrar viðurkenningar, þar sem hann, eftir að hann hefur gert Sogsbrúarmálið að aðalumtalsefni, segir meðal annars: “Því enginn mun neita því, að málið er afar þýðingarmikið í heild sinni, og óhætt að telja það lífsskilyrði fjölmennustu sýslu landsins, sem einnig mun hafa í sér fólgin fleiri og betri skilyrði til stórkostlegra framfara en nokkurt annað hérað”. Um þetta get eg verið höfundinum að vissu leyti samdóma, en alls ekki, að það sé lítið tjón fyrir héraðið, að Sogsbrúarmálið ná ekki til framkvæmda.
Klausturhólum 1. júlí 1903.
Magnús Jónsson.


Þjóðólfur, 24. júlí 1903, 55. árg., 30. tbl., bls. 119:
Fjárlaganefnd neðri deildar leggur fram frumvarp þess efnis að sýslusjóðir skuli greiða viðhald flutningabrauta í byggð.

Alþingi.
Vegamál. Fjárlaganefnd n.d. ber fram frv. um, að viðhald flutningabrautarinnar frá Reykjavík austur að Geysi, skuli hvíla á landsjóði að öllu leyti, svo og viðhald annara flutningabrauta að svo miklu leyti, sem þær liggja um fjöll og óbyggðir; en viðhaldskostnað flutningabrauta, sem í byggð liggja, skuli greiða úr sýslusjóði eða sýsluvegasjóði þerrar sýslu, sem sá hluti, er gert er við, liggur í.

Þjóðólfur, 31. júlí 1903, 55. árg., 31. tbl., bls. 122:
Hér er sagt frá afgreiðslu Vegafrumvarps frá neðri deild Alþingis og áliti Fjárlaganefndar.

Alþingi.
Vegir. Vegafrv. Er nú samþykkt af n.d. með töluverðum breytingum. Nú hljóðar það svo:
1. gr. Viðhald flutningabrautarinnar frá Reykjavík austur að Geysi hvílir á landsjóði að öllu leyti, svo og viðhald annara flutningabrauta, að svo miklu leyti, sem þær liggja um fjöll eða óbyggðir. Viðhaldskostnað flutningabrauta, sem í byggð liggja, skal greiða að hálfu leyti úr landsjóði, en að hálfu leyti úr sýslusjóði eða sýsluvegasjóði þeirrar sýslu, sem sá hluti flutningabrautarinnar, sem gert er við, liggur í.
2. gr. Flutningabrautir þær, sem sýslusjóðir að sýsluvegasjóðir eiga að kosta viðhald á til móts við landsjóð, skulu, áður en sú breyting, er ræðir um í 1. gr., kemst á, vera skoðaðar af verkfróðum manni, er landstjórnin tilnefnir, og tveim mönnum kosnum af hlutaðeigandi sýslunefnd, og teljist brautirnar ekki í gildu standi, skal gera að þeim, sem þarf, á kostnað landssjóðs.
Fjárlögin. Fjárlaganefnd n.d. hefur nú komið fram með álit sitt. Hér skulu nefndar nokkrar breytingar, sem hún vill gera á frv. stjórnarinnar.
Þá leggur nefndin til að taka upp í frv. ýmsar nýjar fjárveitingar:
50 þús. kr. til brúargerðar á Jökulsá í Öxarfirði.
Ennfremur leggur nefndin til, að hækka og lækka ýmsa liði í frv. Meðal annars leggur hún til, að lækka þessar fjárveitingar: Viðhaldskostnað við flutningabrautir síðara árið úr 12.000 niður í 7.000.
Þessar fjárveitingar leggur nefndin meðal annars til að hækka: Veitinguna til flutningabrauta um 5.000 kr. og því einungis skipt í tvo staði, til flutningabrautar upp frá Borgarnesi (15 þús.) og á Fagradal (30 þús.), til þjóðvega um 2.000 kr.


Ísafold, 1. ágúst 1903, 30. árg., 49. tbl., bls. 194:
Hér segir Ísafold frá fjárlaganefndaráliti neðri deildar Alþingis og er m.a. lagt til að Thomson verði veittur styrkur til að flytja inn mótorvagn til reynslu.

Fjárlaganefndarálit (neðri deildar)
Fjárlaganefndin hefir nýlega lokið við álit sitt.
Breytingarnar eru flestar við útgjaldakaflann, svo sem venja er til.
Vegabótafénu vill nefndin láta verja þannig, að til flutningabrautarinnar á Fagradal sé kostað 30,000 kr., til flutningabrautar í Borgarfirði 15,000 kr. og til viðhalds 12.000 kr. fyrra árið og 700 hið síðara. Fjárveitingu stjórnarinnar til flutningabrauta í Húnavatnssýslu og Skagafirði hefir hún felt burt.
Þjóðvegafénu hefir nefndin skipt þannig milli landsfjórðunganna, að Norðuramtið fái 30 þús. kr., Vesturamtið 20, Austuramtið 12 og Suðuramtið 8 þúsund kr.
Til sýsluvegarins frá Hafnarfirði að Keflavík eru ætlaðar 300 kr. hvort árið, gegn jafnmiklu tillagi annarsstaðar frá, og til brúargerðar á Jökulsá í Öxarfirði 50 þús. kr., samkvæmt lögum frá síðasta þingi.
Nefndin vill veita allt að 14,200 kr. til gufubátsferða í Sunnlendingafjórðungi og á Faxaflóa, með því skilyrði, að haldið sé uppi ferðum allt árið milli Reykjavíkur og Borgarness, og ætlast þá til, að landpóstarnir norður og vestur taki sig upp í Borgarnesi.
Nýjar fjárveitingar eru þessar eftir tillögum nefndarinnar, auk þeirra sem þegar eru taldar:
Til Konsúls D. Thomsens í Reykjavík til þess að útvega frá útlöndum mótorvagn og reyna hann á akvegunum hér 2000 kr. fyrra árið.
Til dráttarbrautar í Reykjavík 10.000 kr. fyrra árið.


Ísafold, 12. ágúst 1903, 30. árg., 52. tbl., bls. 208:
Vegamálanefnd efri deildar Alþingis flytur frumvarp um að landsstjórnin geti krafist þess að sýslusjóðir kosti að hálfu viðhald flutningabrauta.

Frá Alþingi. Þingmannafrumvörp.
63. Um viðauka við lög nr. 6, 12. jan. 1900 um fjölgun og viðhald þjóðvega. Vegamálanefndin í efri deild flytur frumv. um það, að landsstjórnin megi krefjast þess, að sýslusjóðir kosti að hálfu viðhald flutningabrauta, sem verða lagðar hér eftir, ef brautin er aðallega lögð í þarfir sýslufélagsins, og það er álitið hafa efni og ástæður til að bera kostnaðinn.
Fallin frumvörp.
12. Um breyting á 6. gr. Laga um vegi 13. apríl 1894 (ed.).


Þjóðólfur, 14. ágúst 1903, 55. árg., 33. tbl., bls. 130:
Hér er sagt frá störfum Alþingis, m.a. fjárlagafrumvarpinu.

Alþingi.
Vegir. Frv. um viðhald vega (að það skyldi að hálfu kostað af sýslunum) var fellt í e.d. samkvæmt till. nefndarinnar í því máli (J. Havst., Guðj. Guðl., Kr. J.). Aftur á móti hefur hún borið fram frv. um, að heimild sú, sem veitt er með lögum 12. jan. 1900 til að krefjast, að vegum, er hér leptir verði lagðir á kostnað landsjóðs, verði haldið við allt að helmingi á kostnað sýslusjóða, skuli einnig ná til flutningabrauta, svo framarlega, sem brautin aðallega er lögð í þarfir sýslufélagsins og það álítzt hafa efni og ástæður til að bera kostnaðinn.
Felld frumvörp og þingsályktunartillögur, auk þeirra, er áður er getið:
Frv. um brúargerð á Héraðsvötn.
Uppgjöf Ölfusárbrúarlánsins, þess helmings, sem eftir er, var samþykkt í n.d. í gær með 12 atkv. gegn 4. Talið er víst, að mál þetta fái góðar viðtökur í efri deild.
Fjárlagafrv. var afgreitt frá n.d. á mánudaginn (10. þ. m.). Voru allmiklar breytingar gerðar á því frá því sem það kom frá stjórninni, og skal hér getið hinna helstu:
Útgjöldin til þjóðvega eru hækkuð um 2.000 kr.; ennfremur er bætt við 50 þús., kr. f. ár. til brúargerðar á Jökulsá í Öxarfirði, allt að 6.000 kr. f. á. til brúargerðar á Sogið hjá Alviðru (gegn því, að tvöfalt fé verði lagt fram annarsstaðar frá), allt að 40 þús. kr. f. á. til þess samkv. lögum 9. febr. 1900 að fullgera brú á Lagarfljóti hjá Egilsstöðum, og setja ferju á Steinsvaði, 1.000 kr. hv. á. til sýsluvegarins frá Laxárdalsheiði að Höskuldsstöðum í Laxárdalshreppi í Dalasýslu, og sömu upphæð til sýsluvegarins frá Hofsós að Ökrum í Skagafirði (tillög þessi eru því skilyrði bundin, að samtímis sé jafnmiklu fé varið til veganna annarsstaðar frá, og það sé eigi tekið af lögákveðnu sýsluvegagjaldi), 300 kr. hv. á. til dragferjuhalds á Héraðsvötnum í Skagafirði og 2.800 kr. hv. á. til aukapóstvegarins frá Hafnarfirði að Vogastapa (gegn því að jafnmiklu fé verði varið annarsstaðar frá).


Norðurland, 15. ágúst, 1903, 2. árg., 47. tbl., bls. 186:
Sagt er frá áliti fjárlaganefndar og vill hún m.a. veita Konsúl D. Thomsen 2.000 kr. styrk til þess að fá mótorvagn frá útlöndum.

Frá Alþingi. Fjárlaganefndin.
Álit fjárlaganefndarinnar kom með Vestu nú í vikunni. Það fer eindregið í framfaraátt. Hér skal getið nokkurra helstu atriðanna.
Til flutningabrauta vill nefndin veita 45 þús kr. á næsta fjárhagstímabili og skipta þeirri upphæð í tvennt aðeins: til brautar upp frá Borgarnesi 15 þús. kr. og á Fagradal 30 þús. kr. “Nefndin er á því máli, að samband milli Norðurlands og Reykjavíkur eigi aðallega, og sem fyrst, að verða gegnum Borgarnes, þannig að stöðugar bátsferðir árið í kring verði frá Reykjavík til Borgarness, og þaðan sem greiðastur vegur til Norðurlands. Samkvæmt því verður flutningabrautin upp frá Borgarnesi með þeim efstu á dagskrá, en þjóðvegurinn frá Reykjavík til Boragarfjarðar að bíða. Viðvíkjandi Fagradalsbrautinni er það hugsun nefndarinnar, að hún verði fullgerð á 2 næstu fjárhagstímabilum, úr því snúist er að henni, enda er nefndin á því að þar sé hin mesta flutningsþörf.”
Til þjóðvega ætlar nefndin 8.000 krónur í Suðuramtinu, 20.000 kr. í Vesturamtinu, 30.000 kr. í Norðuramtinu og 12.000 kr. í Austuramtinu.
Til brúargerðar á Jökulsá í Axarfirði 50.000 kr., samkv. lögum Alþingis 1902.
Konsúl D. Thomsen í Reykjavík vill nefndin veita 2.000 kr. styrk til þess að fá mótorvagn frá útlöndum og gera með honum tilraunir á vegunum frá Reykjavík.


Austri, 15. ágúst 1903, 13. árg., 27 tbl., bls. 98:
Með fréttum af nýjum lagasetningum kemur fjárlagafrumvarp neðri deildar, en þar eiga útgjöld til vegamála stóran sess.

Lög frá Alþingi. Ágrip af fjárlagafrumvarpi n.d.
Útgjöldin eru hin helstu þessi:
Til akbrautar á Fagradal 30.000 kr., í Borgarfirði 15.000, til viðhalds 12.000 fyrra árið 7.000 hið síðarar.
Af þjóðvegafénu fær Norðuramtið 30.000 kr., Vesturamtið 20.000, Austuramtið 12.000 og Suðuramtið 12.000.
Til brúar á Jökulsá í Axarfirði 50.000 kr., til sýsluvegar frá Hafnarfirði í keflavík 3.000 hvort árið mót jafnmiklu framlagi annarstaðar frá.

Ísafold, 19. ágúst 1903, 30. árg., 54. tbl., bls. 213:
Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur svarar hér Tryggva Gunnarssyni sem hélt því fram í þingræðu að óþarft hefði verið að stöðva framkvæmdir við Lagarfljótsbrúna eins og Sigurður gerði.

Lagarfljótsbrúin.
Af því að hugsanlegt er, að einhver, sem ekki þekkir til, kynni að leggja trúnað á orð Tryggva Gunnarssonar, þau er hann bar fram á þingi nýlega, er rætt var um Lagarfljótsbrúna, álít eg réttara að svara þeim nokkru.
Hann sagði meðal annars, að það hefði alls ekki þurft að hætta við brúarsmíðina sumarið 1901, það hefði mátt halda áfram með því efni, sem til var, og skeyta staurana saman, svo að þeir hefðu orðið nógu langir. Það er undarlegt, að maðurinn skuli hafa þrek og dirfsku til þess að halda slíku fram, þegar hvað eftir annað er búið að sýna honum fram á, að slíkt var ómögulegt og margbúið að reka ofan í hann þessa hans staðhæfingu; það virðist vera meira af vilja en mætti gert af bankastjóranum, þeim einlæga vilja, að reyna til þess að gera mig tortryggilegan í augum þingmanna og almennings, hugsandi sem svo, að einhverjir trúi þó, ef bara er staglast nógu oft á því sama.
Eg skrifaði þinginu í fyrra um Lagarfljótsbrúarmálið, og sýndi fram á, að ómögulegt var annað en láta hætta vinnunni sumarið 1901; Það þurfti – sökum þess, hve fljótsbotninn var blautur og mjúkur – að reka staurana miklu lengra niður en hinn norski ingeniör hafði gert ráð fyrir, þess vegna þurftu staurarnir annaðhvort að vera miklu lengri eða það þurfti að skeyta þá saman, svo að þeir yrði nógu langir, en til þessa þurfti að nota heilmikið af galvaníseruðum járnplötum og boltum, af vissri þykkt og lengd, en það var auðvitað ekki til á staðnum, því að menn höfðu ekki búist við að skeyta þyrfti saman staurana. Slíkar plötur hefðu aðeins getað fengist frá útlöndum og eigi getað komið að brúarstæðinu fyr en undir haust í fyrsta lagi.
Þingið í fyrra féllst og á það, að óhjákvæmilegt hefði verið að stöðva verkið þegar svona stóð á, svo að Tryggvi stendur sjálfsagt einn upp með það af þingmönnum, að hægt hefði verið að halda áfram verkinu, eins og hann líka stendur einn uppi með það, að heppilegra sé að hafa brúna á Steinsvaði en Einhleypingi, enda heldur hann hvorttveggja fram einungis af ástæðum, sem þeir, er þekkja hugarþel hans til mín, munu ráða í.
Eins og mörgum nú orðið mun kunnugt, liggur aðalorsökin til þess að svo skrykkjótt hefir gengið með Lagarfljótsbrúna, í undirbúningi málsins, rannsókn brúarstæðisins; hinn norski ingeniör gerði ráð fyrir að botninn væri fastari en hann reyndist vera, og hann hélt að fljótið yrði ekki svo mikið í vöxtum, eins og það í raun og veru gat orðið, - þess vegna var í fyrra, eftir uppástungu minni, ákveðið að reka staurana mikið lengra niður í botninn, ennfremur að hækka brúna talsvert og lengja hana um c. 80 álnir.
Að öðru leyti vil eg benda þeim, er vildu kynna sér þetta mál, á þingskjölin frá í fyrra, og sérstaklega á bréf mitt til Alþingi dags. 15. ág. 1902 (sjá alþingistíðindi 1902, þingskjöl 3. hefti, þingskjal nr. 161).
Reykjavík 17. ág. 1903.
Sig. Thoroddsen.


Norðurland, 29. ágúst, 1903, 2. árg., 49. tbl., forsíða:
Hér er kvartað yfir því að ekki sé nógu vel gengið frá nýlögðum vegum og menn freistist heldur til að leggja vegina “kippnum lengra”.

Vond vegagerð.
Þrátt fyrir þá stórvægilegu umbót, sem orðin er á vegagerð hér á landi á síðari árum, getur engum dulist það, sem ferðast um þetta land, að vegir eru sumstaðar so illa gerðir, að því er ekki bót mælandi.
Einkum er mein að skorti á góðum ofaníburði. Menn freistast þar til að leggja heldur brautina kippnum lengra, en að leggja stund á hitt, að frá því, sem lokið er við, sé gengið svo vel, að það geti enst.
Afleiðingin verður svo sú, að brautin treðst upp og stórskemmist á örstuttum tíma, eða verður jafnvel bráðlega ófær.
Sumstaðar er ekki séð nærri því nógu vel fyrir framrás vatns, og svo skemmir það brautirnar innan skamms.
Mjög nýlegir vegir eru sumstaðar afar hættulegir – holur hér og þar, sem menn grunar síst, og mesta furða, að ekki skuli oftar hljótast slys af því en frá er greint.
Þessir vegir eru lagðir fyrir fé almennings. Oss virðist, að mönnum ætti alls ekki að vera heimilt að leggja slíka vegi.
Eftirlit er verið að myndast við að hafa hér á landi með því, hvernig fé almennings er varið. Stundum verður svo og svo mikil rekistefna út af fáeinum krónum, sem hreppsnefndir eða sýslunefndir hafa varið á annan hátt en lög mæla fyrir. Og ekki ber að finna að því.
En allir hljóta að sjá hvílíkt smáræði það er í samanburði við það, ef lagðir eru vegir, sem eftur skamma stund koma að litlu eða engu haldi. Þar eru ekki hverjar 100 krónurnar lengi að fara til ónýtis.
Nú vitum vér Íslendingar vel, hvað til þess þarf, að vegur verði haldgóður. Eða að minnsta kosti ætti oss ekki að vera nein vorkunn að fá að vita það – engum þeim, sem eitthvað eru við slíkt starf riðnir.
Hver vegna þá ekki að leyfa því aðeins að nota fé almennings til vegagerðar, að svo vel sé gengið frá verkinu, að það komi að tilætluðum notum og endist sæmilega vel?
Oss virðist enginn vafi geta á því leikið, að löggjöf þarf um þetta efni, og svo eftirlit með því, að þeim lögum sé hlýtt.
Hitt er ekki auðsætt, hvers vegna vér eigum að vera að eyða fé í það, sem allir eiga að geta séð fyrirfram, að kemur að nauðalitlu haldi.


Ísafold, 29. ágúst 1903, 30. árg., 57. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um fjárlögin 1903 og er rúmlega 700 þús. kr. varið til samgöngumála.

Fjárlögin nýju.
Til samgöngumála 701,937 kr.
Þar í laun póstmeistara, póstafgreiðslumanna og bréfhirðingamanna 44.600 kr.; til póstflutnings 82.000 kr.; til flutningabrauta: á Fagradal 30.000, í Borgarfirði 15.000; til viðhalds flutningabrautum 19.000; til þjóðvega í Suðuramtinu 8,000; í Vesturamtinu 20.000; í Norðuramtinu 80.000; í Austuramtinu 15.000; til fjallvega 10.000; til áhalda og viðhalds 8.000; til sýsluvegarins frá Laxárdalsheiði að Höskuldsstöðum 2.000 kr.; til sýsluvegarins frá Hofsós að Ökrum 2.000 kr.; til sýsluvegarins frá Hafnarfirði að Vogastapa 5.600 kr.; til hins sameinaða gufuskipafélags 150.000 kr.; til gufubátsferða í Sunnlendingafjórðungi og á Faxaflóa 10.300 kr. og 5.000 kr. að auki, ef haldið er uppi stöðugum ferðum milli Reykjavíkur og Borgarness árið um kring; til gufubátsferða um Ísafjarðardjúp 3.500 kr.; til gufubátsferða á Breiðaflóða seinna árið 10.000 kr.; til ritsíma milli Íslands og útlanda 70.000 kr.; til vita 21.237 kr., allt bæði árin. Enn fremur fyrra árið: til að fullgera brú á Lagarfljóti 40.000 kr.; til brúargerðar á Jökulsá í Öxarfirði 50.000 kr., og til brúargerðar á Sogið hjá Alviðru allt að 6.000 kr.


Þjóðólfur, 4. september 1903, 55. árg., 36. tbl., forsíða:
Þingið 1903 tók af skarið með það vandræðamál sem Lagarfljótsbrúin var orðin, en ákveðin var aukafjárveiting til að fullgera hana. Hér er einnig rætt um þá stefnu að fullgera fyrst þá vegi sem byrjað hefur verið á, í stað þess að dreifa takmörkuðu fjármagni um allt land.

Þingið 1903. Endurlit og hugleiðingar.
Hinir tveir stóru útgjaldaliðir, er ekki voru í frumvarpi stjórnarinnar eru þær rúmar 90,000 kr. sem ætlaðar eru til brúargerðar á Jökulsá í Axarfirði og á Lagarfljóti. Um Jökulsárbrúna voru samþykkt lög frá þinginu 1902, svo að skyldan hvíldi á landsjóði. Þar hefði því komið að skuldadögunum, enda þótt brúargerðinni hefði verið frestað þetta fjárhagstímabil, sem að vísu hefði mátt, en um Lagarfljótsbrúna er það að segja, að þingið þóttist ekki geta látið það mál niður falla, og varpað þannig alveg á glæ fé því, er varið hefur verið til kaupa á brúarefninu m. fl., er varið hefur verið til undirbúnings þessarar brúargerðar. En fullkomið vandræðamál var þetta viðurkennt af flestum, en naumast unnt að ráða betur fram úr því eftir atvikum, en þingið nú gerði.
Í samgöngumálum tók þetta þing þá stefnu, að fullgera fyrst þá vegi, sem þegar er byrjað á, en dreifa ekki fénu sitt á hvern stað, og má vel vera, að það sé heppilega ráðið. Þau héruð, sem látin eru sitja á hakanum með vegagerðir í þetta sinn verða auðvitað óánægð yfir því, allir vilja hafa forgangsréttinn, en um það tjáir ekki að tala. Sýslur þær, sem þegar hafa allmikla vegi mega þakka fyrir, að þingið smellti ekki nú þegar á þær öllu eða mestöllu viðhaldi á vegum þeim, er landsjóður hefur lagt. Frv. um það var borið upp af fjárlaganefndinni í n.d., en átti þar allerfitt uppdráttar og lagaðist mikið, en dó í e.d. En það er enginn efi á, að það mál rís upp aftur á næsta þingi. Engum brúarmálum vildi e.d. að minnsta kosti sinna á þessu þingi, en ekki fékk hún því að öllu ráðið, að steindrepa öll slík mál.


Norðurland, 12. september, 1903, 2. árg., 51. tbl., bls. 202:
Hér birtist ágrip af fjárlögunum fyrir 1904-5. Heildargjöld eru áætluð 2.069 þús. og þar af til samgöngumála 702 þús. kr.

Frá Alþingi. Ágrip af fjárlögunum.
Tekjur landssjóðs á fjárhagstímabilinu (árunum 1904-1905) eru áætlaðar alls 1.668.570 kr.
Gjöldin eru áætluð samtals bæði árin 2.069.120 kr. 41 a.
Til samgöngumála 701.937 kr.
Þar í laun póstmeistara, póstafgreiðslumanna og bréfhirðingamanna 44.600 kr.; til póstflutnings 82.000 kr.; til flutningabrauta: á Fagradal 30.000, í Borgarfirði 15.000; til viðhalds flutningabrautum 19.000; til þjóðvega í Suðuramtinu 8.000; í Vesturamtinu 20.000; í Norðuramtinu 30.000 kr.; í Austuramtinu 15.000; til fjallvega 10.000; til áhalda og viðhalds 8.000; til sýsluvegarins frá Laxárdalsheiði að Höskuldsstöðum 2.000 kr.; til sýsluvegarins frá Laxárdalsheiði að Höskuldsstöðum 2.000 kr.; til sýsluvegarins frá Hofsós að Ökrum 2.000 kr.; til sýsluvegarins frá Hafnarfirði að Vogastapa 5.600 kr.; til hins sameinaða gufuskipafélags 150.000 kr.; til gufubátsferða í Sunnlendingafjórðungi og á Faxaflóa 10.300 kr. og 5.000 kr. að auki ef haldið er uppi stöðugum ferðum milli Reykjavíkur og Borgarness árið um kring; til gufubátsferða um Ísafjarðardjúp 3.500 kr.; til ´gufubátsferða á Breiðaflóa seinna árið 10.000 kr.; til ritsíma milli Íslands og útlanda 70.000 kr.; til vita 21.237 kr., allt bæði árin. Enn fremur fyrra árið: til að fullgera brú á Lagarfljóti 40.000 kr.; til brúargerða á Kökulsá í Öxarfirði 50.000 kr., og til brúargerðar á Sogið hjá Alviðru allt að 6.000 kr.


Þjóðólfur, 16. október 1903, 55. árg., 42. tbl., bls. 166:
Erlendur Zakaríasson var verkstjóri við vegagerðina á Mýrum 1903 og gefur hann hér skýrslu um vegagerðina.

Vegavinnan á Mýrunum 1903.
Hr. Erlendur Zakaríasson vegfræðingur hefur í sumar staðið fyrir vegagerðinni vestur á Mýrum, og er nú nýkominn heim. Hefur hann látið oss í té eftirfarandi skýrslu um þessa vegagerð:
Byrjað var að vinna 15. maí skammt fyrir neðan Fíflholt og komið að Hítará hjá Brúarfossi, þar er brúarstæði á ánni, en áin var ekki brúuð í þetta sinn. Þessi vegalengd er 1.486 faðmar.
Ennfremur var lagður vegur frá Hítará vestur eftir, og endað á Brúarhraunsás við Garðamela. Þessi vegalengd er 1.227 faðmar. Öll vegalengdin, sem lögð var, er 2.713 faðmar. 424 faðma langur vegur var ruddur vestur á melana. Vinnunni við þennan veg frá Fíflholti var lokið 6. ágúst.
Á þessu svæði var heldur gott að leggja veg, miklum mun þurrlendara en áður hefur verið á þessum vegi, það gerði mikið til, hvað tíðin var góð. Á þessum vegi eru 17 þverrennur og ein lítil brú 7 1/2 alin löng. Ofaníburður var heldur góður, og víðast ekki mjög langt að aka honum.
Að þessu verki unnu flest 39 menn og fæst 24, 15 vagnhestar (með 7 vögnum), þar af 7 eign landsjóðs og 8 leiguhestar. Borgun fyrir þá á dag kr. 0,45-0,50. Kaup verkamanna kr. 2,50-3,00, unglingar kr. 2,10, flokkstjórar kr. 3,40.
Breidd vegarins er 10 fet. Allur kostnaður við þessa vegagerð er kr. 6.244,49. Hver hlaðinn faðmur í veginum, af því sem er lagður vegur hefur kostað kr. 2,28, og 11 aura faðmurinn í því sem rutt var.
Öll vegalengdin úr Borgarnesi vestur að Garðamelum eru rúmir 16 þúsund faðmar. Þessi mæling er ekki nákvæm, það þyrfti að mæla allan veginn upp og setja vegalengdarsteina við hverja 5 kílóm. Það hefur mikla þýðingu, ekki síst ef menn villast og koma að merkjasteini, þá eru menn vissir að rata úr því, fyrir utan hvað það er ánægjulegra, að vita upp á víst, hvað búið er að fara og hvað eftir er. Það er furða að ekki er búið að setja þá á veginn að Þingvöllum. Útlendingar sakna þess að minnsta kosti mikið.
Á veginum upp Borgarhreppinn var byrjað 7. ágúst, og hætt 9. október við Borgarnesveginn, þar sem hann beygist vestur á Mýrarnar, og haldið upp Kárastaðamýri yfir Grímúlfskeldu fyrir vestan Hamar, yfir Hamarslæk og hann brúaður. Brúin 9 álna löng, stöplarnir steinlímdir, hæð þeirra 7 1/2 fet, breidd stöplanna að ofan 13 fet, að neðan 11 1/2 fet; svo var endað í miðjum flóanum milli Hamarslæks og Bjarnhólalæks. Þessi vegalengd er 1758 faðmar. Vegurinn er 6 álna breiður. Ofaníburður er heldur góður, en nokkuð langt að aka honum, minnsta kosti sumstaðar. Vegarstæðið er mýri þurrlend og mjög gott vegarstæði. Á þessum vegi eru 7 þverrennur.
Að þessu verki unnu 24 menn, seinast um 2 vikur rúmir 30 menn, 15 vagnhestar og 7 vagnar. Kaup sama og við hina vegagerðina. Þessi vegagerð hefur kostað rúm 5 þúsund krónur. Brúin á Hamarslæk hefur kostað 4-5 hundruð krónur. Eftir því hefur hver faðmur í veginum kostað kr. 2,60.
Hvað kostnaðinn snertir, getur þessi skýrsla ekki verið vel nákvæm. Það er ekki búið að fullgera reikningana, en miklu munar það ekki.