1903

Austri, 17. janúar 1903, 13. árg., 2. tbl., forsíða:

Akbrautin um Fagradal.
Til hennar munu vera lagðar 6.000 kr. á núgildandi fjárlögum, og heyrst hefir, að byrja muni eiga á brautinni á komandi sumri. En þá verður fyrir manni spurningin: Hvar verður byrjað?
Eg lít svo á, að þetta standi alls eigi á sama, og þykist mega fullyrða, að margir fleiri séu á sama máli. Frétst hefir, að byrja mundi eiga á Egilstaðanesinu við syðri sporð Lagarfljótsbrúarinnar væntanlegu. En slíkt eru aðeins lausafregnir, og sennilegast, að ekkert sé afráðið um þetta enn. Vil eg nú láta skoðun mína í ljós á þessu atriði.
Um Egilstaðanes hlýtur að koma vegur, þegar brú er komin á Lagarfljót, því að veg þarf að brúnni. Slíkur vegur er meira að segja póstvegur og tilheyrir tvímælalaust brúnni. Vitaskuld má segja, að þetta þurfi ekki að vera akvegur; en póstvegur yfir marflatt og slétt land er um leið nýtilegur akvegur. Aftur get eg ekki skilið; hvernig akbraut um Egilstaðanes getur kallast akbraut um Fagradal. Í mesta lagi getur hún heitið framhald af akbraut um Fagradal, þegar braut er komin um dalinn. En sé póstvegur kominn áður á Egilstaðanesi sem að líkindum hefði komið þar með brúnni, þó ekki hefði staðið til að leggja akbraut um Fagradal, þá þarf sjálfsagt lítið við hann að gjöra; til þess að hann verði notaður til aksturs.
En auk þessa hefur það allmikla þýðingu, hvort akbrautin er byrjuð á réttum eða öfugum enda, en að mínu áliti snýr óefað rétti endinn að Reyðarfirði. - Ástæður:
Yfir Fagradal allan er miklu greiðgjörðari vegur heldur en eftir að kemur norður fyrir hann, en eftir að kemur norður fyrir hann, ef vegurinn verður lagður um Egilstaðaháls, eins og eg hygg, og yfir Köldukvísl, sem þarf að brúa. Fyrir sömu fjárupphæð verður líklega lagður allt að helmingi, eða máske fullkomlega það – lengri vegarstúfur um Fagradal en um Egilstaðaháls. Þetta gæti nú staðið á sama, ef ekki væri unnt að hafa nein not brautarinnar, fyr en hún væri fullgjör enda á milli. En hér stendur alls eigi svo á. Hún getur þvert á móti komið að mjög miklum notum áður en hún er fullgjör, ef rétt er byrjað. Sé byrjað á Reyðarfirði og brautin lögð norður eftir, þá verður hún þegar til stór-mikils gagns, er hún er lögð yfir dalinn sjálfan. Mætti þá létta svo undir flutninga Héraðsmanna, að flytja upp í Héraðið (Þuríðarstaðadalina) allan þann þunga varning, sem geymst getur úti, svo sem trjávið, kol, járn o. fl. Þetta gætu svo eigendur sótt á sleðum að vetri til eftir hentugleikum. Mundi þetta spara mikinn tíma að sumarlagi og mikla og illa hestabrúkun, einkum hvað trjávið snertir. Kol eru nú alls eigi flutt til Héraðs, en sá tími þarf að koma, heldur fyr en seinna, að eitthvað annað fáist í eldinn, en áburðurinn. – Með jafn smátækum fjárveitingum til akvegar þessa, sem í þetta sinn, mundu líða mörg ár, frá því að brautin kæmist norður yfir Fagradal, og þangað til hún mynntist við Lagarfljótsbrúna. Því að þó Fagridalur sé lengsti hlutinn af leiðinni, þá efast eg um að hann sé meira en helmingur hennar að kostnaðinum til.
Það er tiltölulega lítið vörumagn, sem flutt er frá Héraðinu að sjónum í samanburði við það, sem flutt er til Héraðs, því að kindurnar bera sig sjálfar, sem eru aðalgjaldeyrir bóndans. Það ætti því að liggja öllum í augum uppi, að áríðandi er að haga vegagjörðinni þannig, að sem fyrst megi nota brautina undir flutning til Héraðsins. Verði byrjað á akbrautinni að norðan, kemur hún að engum notum, fyr en hún er komin á enda, út á Búðareyri við Reyðarfjörð. Menn munu þykjast sjá á þessum orðum, að eg gjöri ekki ráð fyrir, að akbrautin verði notuð sem lestavegur. Það hef eg aldrei gjört og gjöri ekki enn. Fagridalur er meistaraverk náttúrunnar sem akvegarstæði, en lestarvegur verður þar aldrei að mun, og gjörir það þó eingöngu vegalengdarmunur.
Eg vildi óska, að fleiri Héraðsmenn létu uppi skoðun sína á þessu máli; en einkum tel eg það mjög áríðandi, að landsstjórnin eða þeir, sem fyrir hennar hönd standa fyrir akvegargjörðinni, athugi þetta vel, áður en byrjað er.
En því vildi eg hreint og beint mótmæla, að þessi sáralitla upphæð sem veitt er til akbrautar um Fagradal, verði varið í póstveg um Egilstaðanes með akbrautarnafni.
Af því að Austri hefir ávallt verið hlynntur þessu nauðsynjamáli voru Héraðsmanna, bið eg hann fyrir línur þessar til birtingar.
Vallanesi, 18. desember 1902.
Magnús Bl. Jónsson.


Austri, 17. janúar 1903, 13. árg., 2. tbl., forsíða:

Akbrautin um Fagradal.
Til hennar munu vera lagðar 6.000 kr. á núgildandi fjárlögum, og heyrst hefir, að byrja muni eiga á brautinni á komandi sumri. En þá verður fyrir manni spurningin: Hvar verður byrjað?
Eg lít svo á, að þetta standi alls eigi á sama, og þykist mega fullyrða, að margir fleiri séu á sama máli. Frétst hefir, að byrja mundi eiga á Egilstaðanesinu við syðri sporð Lagarfljótsbrúarinnar væntanlegu. En slíkt eru aðeins lausafregnir, og sennilegast, að ekkert sé afráðið um þetta enn. Vil eg nú láta skoðun mína í ljós á þessu atriði.
Um Egilstaðanes hlýtur að koma vegur, þegar brú er komin á Lagarfljót, því að veg þarf að brúnni. Slíkur vegur er meira að segja póstvegur og tilheyrir tvímælalaust brúnni. Vitaskuld má segja, að þetta þurfi ekki að vera akvegur; en póstvegur yfir marflatt og slétt land er um leið nýtilegur akvegur. Aftur get eg ekki skilið; hvernig akbraut um Egilstaðanes getur kallast akbraut um Fagradal. Í mesta lagi getur hún heitið framhald af akbraut um Fagradal, þegar braut er komin um dalinn. En sé póstvegur kominn áður á Egilstaðanesi sem að líkindum hefði komið þar með brúnni, þó ekki hefði staðið til að leggja akbraut um Fagradal, þá þarf sjálfsagt lítið við hann að gjöra; til þess að hann verði notaður til aksturs.
En auk þessa hefur það allmikla þýðingu, hvort akbrautin er byrjuð á réttum eða öfugum enda, en að mínu áliti snýr óefað rétti endinn að Reyðarfirði. - Ástæður:
Yfir Fagradal allan er miklu greiðgjörðari vegur heldur en eftir að kemur norður fyrir hann, en eftir að kemur norður fyrir hann, ef vegurinn verður lagður um Egilstaðaháls, eins og eg hygg, og yfir Köldukvísl, sem þarf að brúa. Fyrir sömu fjárupphæð verður líklega lagður allt að helmingi, eða máske fullkomlega það – lengri vegarstúfur um Fagradal en um Egilstaðaháls. Þetta gæti nú staðið á sama, ef ekki væri unnt að hafa nein not brautarinnar, fyr en hún væri fullgjör enda á milli. En hér stendur alls eigi svo á. Hún getur þvert á móti komið að mjög miklum notum áður en hún er fullgjör, ef rétt er byrjað. Sé byrjað á Reyðarfirði og brautin lögð norður eftir, þá verður hún þegar til stór-mikils gagns, er hún er lögð yfir dalinn sjálfan. Mætti þá létta svo undir flutninga Héraðsmanna, að flytja upp í Héraðið (Þuríðarstaðadalina) allan þann þunga varning, sem geymst getur úti, svo sem trjávið, kol, járn o. fl. Þetta gætu svo eigendur sótt á sleðum að vetri til eftir hentugleikum. Mundi þetta spara mikinn tíma að sumarlagi og mikla og illa hestabrúkun, einkum hvað trjávið snertir. Kol eru nú alls eigi flutt til Héraðs, en sá tími þarf að koma, heldur fyr en seinna, að eitthvað annað fáist í eldinn, en áburðurinn. – Með jafn smátækum fjárveitingum til akvegar þessa, sem í þetta sinn, mundu líða mörg ár, frá því að brautin kæmist norður yfir Fagradal, og þangað til hún mynntist við Lagarfljótsbrúna. Því að þó Fagridalur sé lengsti hlutinn af leiðinni, þá efast eg um að hann sé meira en helmingur hennar að kostnaðinum til.
Það er tiltölulega lítið vörumagn, sem flutt er frá Héraðinu að sjónum í samanburði við það, sem flutt er til Héraðs, því að kindurnar bera sig sjálfar, sem eru aðalgjaldeyrir bóndans. Það ætti því að liggja öllum í augum uppi, að áríðandi er að haga vegagjörðinni þannig, að sem fyrst megi nota brautina undir flutning til Héraðsins. Verði byrjað á akbrautinni að norðan, kemur hún að engum notum, fyr en hún er komin á enda, út á Búðareyri við Reyðarfjörð. Menn munu þykjast sjá á þessum orðum, að eg gjöri ekki ráð fyrir, að akbrautin verði notuð sem lestavegur. Það hef eg aldrei gjört og gjöri ekki enn. Fagridalur er meistaraverk náttúrunnar sem akvegarstæði, en lestarvegur verður þar aldrei að mun, og gjörir það þó eingöngu vegalengdarmunur.
Eg vildi óska, að fleiri Héraðsmenn létu uppi skoðun sína á þessu máli; en einkum tel eg það mjög áríðandi, að landsstjórnin eða þeir, sem fyrir hennar hönd standa fyrir akvegargjörðinni, athugi þetta vel, áður en byrjað er.
En því vildi eg hreint og beint mótmæla, að þessi sáralitla upphæð sem veitt er til akbrautar um Fagradal, verði varið í póstveg um Egilstaðanes með akbrautarnafni.
Af því að Austri hefir ávallt verið hlynntur þessu nauðsynjamáli voru Héraðsmanna, bið eg hann fyrir línur þessar til birtingar.
Vallanesi, 18. desember 1902.
Magnús Bl. Jónsson.