1903

Þjóðólfur, 17. júlí 1903, 55. árg., 29. tbl., bls. 115:

Samgöngur í Árnessýslu.
Með þessari fyrirsögn er grein í Fjallkonunni 24. tbl. þ. á. eftir séra Stefán Stephensen í Austurey. Af því hann í nefndri grein gerir Sogsbrúarmálið að aðal umtalsefni, vil eg leyfa mér að fara um hana nokkrum orðum og sýna fram á sannleikann í því máli, sem höfundurinn virðist að miklu leyti hafa sneitt hjá.
Höf. byrjar aðallega á því að tala um Geysisveginn, og telja mönnum trú um, að hann sé aðalkaupstaðarleið meiri hluta Grímsness og Biskupstungna; en það er ekki rétt, að minnsta kosti ekki, að því er Grímsnesið snertir, - hinu er eg minna kunnugur, - því fyrst og fremst er spursmál um, hvort það er meiri hluti þeirra Grímsnesinga, sem versla í Reykjavík, sem fara þá leið, að þeim meðtöldum, sem gera sér stóran krók til að spara sér sund, peningaútlát, bið eftir ferjumanni og fleiri óþægindi og erfiðleika, sem ferjuflutningur hefur í för með sér, og í öðru lagi kemur hann, eins og allir vita, ekki að notum fyrir þá sem versla á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem eru æði margir, og eins og kunnugt er, fer þar viðskiptamagnið sívaxandi, og ber margt til þess, bæði verslunarsamkeppnin, sem gerir það að verkum, að nú á seinni árum hafa menn getað fengið þar allt eins góð kaup og í Reykjavík, og jafnvel betri á ýmsu, svo sem timbri o.fl. Og svo eru kaupfélögin ekkert lítill hluti í viðskiptamagninu eða flutninga- og ferðamagninu til og frá Eyrarbakka og Stokkseyri, þar sem fjöldi af bændum úr þessum sveitum báðum, Grímsnesi og Biskupstungum, panta megnið af nauðsynjum sínum, og telja það eitt af aðalhlunnindum við pöntunarfélögin austan fjalls, að flestir geta farið allt að 2 ferðir niður á Eyrarbakka og Stokkseyri, meðan ein er farin suður; auk þess sem betur hagar til með haga fyrir hesta á þeirri leið. Og enn mundi viðskiptamagnið á Stokkseyri og Eyrarbakka aukast að stórum mun, ef brú kæmi á Sogið og menn þyrftu ekki að sundleggja til og frá í hverri ferð, og þó maður spái engu um framtíðina, geri aðeins ráð fyrir því, sem er, þá munu allir kunnugir, sem unna sannleikanum í þessu máli, viðurkenna að verslanirnar á Stokkseyri, sem ekki voru áður, og pöntunarfélögin á Stokkseyri og Eyrarbakka, vega margfalt á móti blómlegu verslunina, sem höf. segir að hafi verið nýrisin upp í Þorlákshöfn, þegar fyrst var farið fram á að brúa Sogið.
Höf. segir, að Tungnamenn hafi lýst því yfir, að brú á Sogið væri þeim gagnslaus, fengist ekki jafnframt upphleyptur vagnvegur upp Grímsnes, og getur það vel verið, að einhver Tungnamaður hafi talað á þá leið, en hitt mun hægt að sanna, að á síðasta sýslunefndarfundi Árnesinga, er Sogsbrúarmálið kom til umræðu, lýsti sýslunefndarmaður Biskupstungna, sem er mjög merkur maður, því yfir á fundinum, í áheyrn höfundarins, að brú á Sogið kæmi Biskupstungnahreppi að miklum notum. Mér finnst því rangt í þessu tilfelli, að taka prívat umsögn einstakra manna gildari, og færa þær í letur í opinberu blaði, en yfirlýsingu fulltrúans á opinberum stað og í embættissporum. Höf. segir einnig, að það sé aðeins suðurhluti Grímsness, sem brú á Sogið geti komið að verulegum notum, að æði margir á því svæði ekki mundu nota hana til aðdráttar, þar eð hún yrði mikið úr leið, þegar sótt er til Eyrarbakka eða Stokkseyrar. Þetta er sú fjarstæða, sem engu tali tekur, því allir viðurkenna að brúarstæðið hjá Alviðru sé á hentugasta stað, Sem hægt er að hugsa, fyrir allflesta, sem yfir Sogið fara, hvort heldur farið er til Reykjavíkur, Eyrarb. eða Stokkseyrar, því það er einmitt hjá fjölfarnasta ferjustaðnum til allra nærliggjandi kauptúna og verstaða.
Höf. segir, að Hvítá sé opt á ís að vetrarlagi, en ekki býst eg við, að þeir verði margir, sem næstir henni búa og best þekkja hana, sem votta það með honum, því það er ekki nema í einstöku tilfellum, heldur er hún á flestum stöðum oftast ófær fyrir hesta að vetrarlagi, ýmist af vatnavöxtum, skörum, ísskriði eða hrönnum, sem safnast í kringum hana, svo að ekki er hægt að komast að henni með hesta.
Höf. segir einnig, að efri hluti Grímsness hafi viljað sameina flutningaþörf tveggja væntanlegra rjómabúa í Grímsnesi með því að biðja um álmu af póstveginum nál. Hraungerði upp að Hvítá nál. Arnarbælisferjustað, koma þar dragferju á ána, og að öll sveitin lagaði eftir þörfum og megni veginn upp sveitina frá dragferjunni. Um þetta hef eg nú reyndar ekki heyrt nema eina rödd hljóða úr þeirri átt, en hvað um það, þetta hefði vel getað samrýmst, ef ekki vantaði þau skilyrði, sem gætu gert þetta mögulegt, en nú er sá galli á, að nálægt Arnarbælisferjustað er víst ekki hægt að hafa dragferju sökum grynninga í ánni, sem opt er svo grunn þar á blettum, að tómir ferjubátar ganga ekki á henni, og vegurinn frá Arnarbælisferjustað upp sveitina er tómir mýraflákar og til þess að þar gætu gengið um vagnar, þyrfti upphleyptan veg með ofaníburði, sem hvergi er til á því svæði. Því verð eg að álíta það réttara, hyggilegra og hagkvæmara fyrir þarfir og kröfur framtíðarinnar, að bíta sig nú svo fast í brúna, eins og höf. kemst að orði, að hún gangi á undan öllu bráðabirgðarkráki, í samgöngubótum til Grímsness og Biskupstungna, því að það mundi verða varanleg undirstaða til sannra samgöngubóta, og undirstaða, sem eftirmenn vorir gætu verið þekktir fyrir að byggja ofan á.
Höf. virðist færa að sýslunefndinni fyrir brjóstgæði í okkar Grímsnesinga garð, en það er svo fyrir að þakka, að við Árnesingar í heild sinni höfum þar mörgum góðum drengjum á að skipa, sem ekki vilja láta lítilfjörlega eigin hagsmunasemi sitja í fyrirrúmi fyrir nauðsynlegum framfarafyrirtækjum meðbræðra sinna, hvar svo sem þeir búa, innan þess takmarks, sem þeirra verkahringur nær til.
Að endingu vil eg geta þess, að eg er höfundinum mjög þakklátur fyrir, að hann í enda greinar sinnar kemst þó til réttrar viðurkenningar, þar sem hann, eftir að hann hefur gert Sogsbrúarmálið að aðalumtalsefni, segir meðal annars: “Því enginn mun neita því, að málið er afar þýðingarmikið í heild sinni, og óhætt að telja það lífsskilyrði fjölmennustu sýslu landsins, sem einnig mun hafa í sér fólgin fleiri og betri skilyrði til stórkostlegra framfara en nokkurt annað hérað”. Um þetta get eg verið höfundinum að vissu leyti samdóma, en alls ekki, að það sé lítið tjón fyrir héraðið, að Sogsbrúarmálið ná ekki til framkvæmda.
Klausturhólum 1. júlí 1903.
Magnús Jónsson.


Þjóðólfur, 17. júlí 1903, 55. árg., 29. tbl., bls. 115:

Samgöngur í Árnessýslu.
Með þessari fyrirsögn er grein í Fjallkonunni 24. tbl. þ. á. eftir séra Stefán Stephensen í Austurey. Af því hann í nefndri grein gerir Sogsbrúarmálið að aðal umtalsefni, vil eg leyfa mér að fara um hana nokkrum orðum og sýna fram á sannleikann í því máli, sem höfundurinn virðist að miklu leyti hafa sneitt hjá.
Höf. byrjar aðallega á því að tala um Geysisveginn, og telja mönnum trú um, að hann sé aðalkaupstaðarleið meiri hluta Grímsness og Biskupstungna; en það er ekki rétt, að minnsta kosti ekki, að því er Grímsnesið snertir, - hinu er eg minna kunnugur, - því fyrst og fremst er spursmál um, hvort það er meiri hluti þeirra Grímsnesinga, sem versla í Reykjavík, sem fara þá leið, að þeim meðtöldum, sem gera sér stóran krók til að spara sér sund, peningaútlát, bið eftir ferjumanni og fleiri óþægindi og erfiðleika, sem ferjuflutningur hefur í för með sér, og í öðru lagi kemur hann, eins og allir vita, ekki að notum fyrir þá sem versla á Eyrarbakka og Stokkseyri, sem eru æði margir, og eins og kunnugt er, fer þar viðskiptamagnið sívaxandi, og ber margt til þess, bæði verslunarsamkeppnin, sem gerir það að verkum, að nú á seinni árum hafa menn getað fengið þar allt eins góð kaup og í Reykjavík, og jafnvel betri á ýmsu, svo sem timbri o.fl. Og svo eru kaupfélögin ekkert lítill hluti í viðskiptamagninu eða flutninga- og ferðamagninu til og frá Eyrarbakka og Stokkseyri, þar sem fjöldi af bændum úr þessum sveitum báðum, Grímsnesi og Biskupstungum, panta megnið af nauðsynjum sínum, og telja það eitt af aðalhlunnindum við pöntunarfélögin austan fjalls, að flestir geta farið allt að 2 ferðir niður á Eyrarbakka og Stokkseyri, meðan ein er farin suður; auk þess sem betur hagar til með haga fyrir hesta á þeirri leið. Og enn mundi viðskiptamagnið á Stokkseyri og Eyrarbakka aukast að stórum mun, ef brú kæmi á Sogið og menn þyrftu ekki að sundleggja til og frá í hverri ferð, og þó maður spái engu um framtíðina, geri aðeins ráð fyrir því, sem er, þá munu allir kunnugir, sem unna sannleikanum í þessu máli, viðurkenna að verslanirnar á Stokkseyri, sem ekki voru áður, og pöntunarfélögin á Stokkseyri og Eyrarbakka, vega margfalt á móti blómlegu verslunina, sem höf. segir að hafi verið nýrisin upp í Þorlákshöfn, þegar fyrst var farið fram á að brúa Sogið.
Höf. segir, að Tungnamenn hafi lýst því yfir, að brú á Sogið væri þeim gagnslaus, fengist ekki jafnframt upphleyptur vagnvegur upp Grímsnes, og getur það vel verið, að einhver Tungnamaður hafi talað á þá leið, en hitt mun hægt að sanna, að á síðasta sýslunefndarfundi Árnesinga, er Sogsbrúarmálið kom til umræðu, lýsti sýslunefndarmaður Biskupstungna, sem er mjög merkur maður, því yfir á fundinum, í áheyrn höfundarins, að brú á Sogið kæmi Biskupstungnahreppi að miklum notum. Mér finnst því rangt í þessu tilfelli, að taka prívat umsögn einstakra manna gildari, og færa þær í letur í opinberu blaði, en yfirlýsingu fulltrúans á opinberum stað og í embættissporum. Höf. segir einnig, að það sé aðeins suðurhluti Grímsness, sem brú á Sogið geti komið að verulegum notum, að æði margir á því svæði ekki mundu nota hana til aðdráttar, þar eð hún yrði mikið úr leið, þegar sótt er til Eyrarbakka eða Stokkseyrar. Þetta er sú fjarstæða, sem engu tali tekur, því allir viðurkenna að brúarstæðið hjá Alviðru sé á hentugasta stað, Sem hægt er að hugsa, fyrir allflesta, sem yfir Sogið fara, hvort heldur farið er til Reykjavíkur, Eyrarb. eða Stokkseyrar, því það er einmitt hjá fjölfarnasta ferjustaðnum til allra nærliggjandi kauptúna og verstaða.
Höf. segir, að Hvítá sé opt á ís að vetrarlagi, en ekki býst eg við, að þeir verði margir, sem næstir henni búa og best þekkja hana, sem votta það með honum, því það er ekki nema í einstöku tilfellum, heldur er hún á flestum stöðum oftast ófær fyrir hesta að vetrarlagi, ýmist af vatnavöxtum, skörum, ísskriði eða hrönnum, sem safnast í kringum hana, svo að ekki er hægt að komast að henni með hesta.
Höf. segir einnig, að efri hluti Grímsness hafi viljað sameina flutningaþörf tveggja væntanlegra rjómabúa í Grímsnesi með því að biðja um álmu af póstveginum nál. Hraungerði upp að Hvítá nál. Arnarbælisferjustað, koma þar dragferju á ána, og að öll sveitin lagaði eftir þörfum og megni veginn upp sveitina frá dragferjunni. Um þetta hef eg nú reyndar ekki heyrt nema eina rödd hljóða úr þeirri átt, en hvað um það, þetta hefði vel getað samrýmst, ef ekki vantaði þau skilyrði, sem gætu gert þetta mögulegt, en nú er sá galli á, að nálægt Arnarbælisferjustað er víst ekki hægt að hafa dragferju sökum grynninga í ánni, sem opt er svo grunn þar á blettum, að tómir ferjubátar ganga ekki á henni, og vegurinn frá Arnarbælisferjustað upp sveitina er tómir mýraflákar og til þess að þar gætu gengið um vagnar, þyrfti upphleyptan veg með ofaníburði, sem hvergi er til á því svæði. Því verð eg að álíta það réttara, hyggilegra og hagkvæmara fyrir þarfir og kröfur framtíðarinnar, að bíta sig nú svo fast í brúna, eins og höf. kemst að orði, að hún gangi á undan öllu bráðabirgðarkráki, í samgöngubótum til Grímsness og Biskupstungna, því að það mundi verða varanleg undirstaða til sannra samgöngubóta, og undirstaða, sem eftirmenn vorir gætu verið þekktir fyrir að byggja ofan á.
Höf. virðist færa að sýslunefndinni fyrir brjóstgæði í okkar Grímsnesinga garð, en það er svo fyrir að þakka, að við Árnesingar í heild sinni höfum þar mörgum góðum drengjum á að skipa, sem ekki vilja láta lítilfjörlega eigin hagsmunasemi sitja í fyrirrúmi fyrir nauðsynlegum framfarafyrirtækjum meðbræðra sinna, hvar svo sem þeir búa, innan þess takmarks, sem þeirra verkahringur nær til.
Að endingu vil eg geta þess, að eg er höfundinum mjög þakklátur fyrir, að hann í enda greinar sinnar kemst þó til réttrar viðurkenningar, þar sem hann, eftir að hann hefur gert Sogsbrúarmálið að aðalumtalsefni, segir meðal annars: “Því enginn mun neita því, að málið er afar þýðingarmikið í heild sinni, og óhætt að telja það lífsskilyrði fjölmennustu sýslu landsins, sem einnig mun hafa í sér fólgin fleiri og betri skilyrði til stórkostlegra framfara en nokkurt annað hérað”. Um þetta get eg verið höfundinum að vissu leyti samdóma, en alls ekki, að það sé lítið tjón fyrir héraðið, að Sogsbrúarmálið ná ekki til framkvæmda.
Klausturhólum 1. júlí 1903.
Magnús Jónsson.