1900

Tenging í allt blaðaefni ársins 1900

Þjóðólfur, 52. árgangur, smáfréttir úr ýmsum tbl. árið 1900:
Í Þjóðólfi árið 1900, leynast smáfréttir af vegamálum innan um annað. Hér eru slíkar smáfréttir úr Skagafirði, Árnessýslu, Norður-Þingeyjarsýslu, Húnavatnssýslu og Sauðanes- og Svalbarðshreppum.

Smáfréttir úr Þjóðólfi árið 1900.
9. mars, 11. tbl., bls. 43:
Brú á Norðurá í Skagafirði, smíðuð næstl. sumar, hefur fokið og brotnað í spón.

27. apríl, 19. tbl., bls 75:
Sýslufundur Árnesinga. Meðal helstu mála af 60 sem tekin voru fyrir: “Skorað á amtsráð að varðaður sé vegurinn frá Svínahrauni að Lækjarbotnum, sömuleiðis Mosfellsheiði”.

5. júní, 26. tbl., bls. 102:
Á þingmálafundi í Norður-Þingeyjarsýslu voru samgöngumál m.a. á dagskrá: “Brúin á Jökulsá í Axarfirði. Fundinum blandast ekki hugur um, að nauðsynin á brú yfir Jökulsá sé svo afarbrýn að landssjóður sé skyldur, að leggja fram fé til hennar, þegar á næsta þingi, og það því fremur , sem nær ekkert er lagt til samgöngubóta af landsfé í Norður-Þingeyjarsýslu í samanburði við aðrar sýslur landsins.”

15. júní, 28. tbl., bls. 111:
Í frétt úr Húnavatnssýslu er vikið að vegamálum: “Nú kvað vera byrjað að leggja nýjan veg út með Hrútafirði að austan, en margan furðar á, að ekki skyldi heldur vera byrjað á vegagerðinni yfir Hrútafjarðarháls; þar er þó áreiðanlega brýnni þörf á nýrri vegagerð; svo myndi það hafa reynst, ef rækilega hefði verið aðgætt.”

13. júlí, 33. tbl., bls. 130:
Á almennum kjósendafundi fyrir Sauðanes- og Svalbarðshreppa var m.a. samþykkt áskorun: “Að fé verði lagt fram sem fyrst af landssjóði til að brúa Jökulsá í Axarfirði”.


Ísafold, 8. janúar, 27. árg, 1. tbl., bls. 2:
Hér er birt greinargerð um Flutningabrautina upp Flóann, sem formaður þeirrar vegagerðar, Erlendur Zakaríasson, samdi fyrir landshöfðingja. Lýsingin á þessari vegagerð frá Eyrarbakka og Stokkseyri upp að Ölfúsárbrú er bæði ítarleg og fróðleg.

Flutningabrautin upp Flóann.
Það er allmikið mannvirki, brautin sú, frá Eyrarbakka upp að Ölfusárbrú, er unnið hefur verið að tvö sumur undanfarin og lokið var við í haust.
Hefur formaður þeirrar vegagerðar, hr. Erlendur Zakaríasson, samið og sent landshöfðingja ítarlega skýrslu um það verk, er hér birtist nálega orðrétt, með því að þar er ýmislegur fróðleikur, er gæti orðið ýmsum góð bending, bæði þeim, er við þann veg eru riðnir og öðrum.
Byrjað var að leggja veginn frá Eyrarbakka, rétt fyrir framan Hópið (vatn milli Eyrarbakka og mýrarinnar) fyrir austan Steinskrift, og haldið upp og austur hraunið að Litlahraunsstekk, og þaðan í beina stefnu austan til við Sandvíkurnar og upp að Ölfusárbrúnni.
Landið, sem þessi vegur liggur eftir, er fyrst hraun, að Litlahraunsstekk. Þaðan og upp að svonefndum Geirakotsskurði mest blaut mýri, en þaðan og upp að Ölfusárbrú móar og þurrlend mýri.
Landslagið á þessu svæði er mjög slétt, og aðeins dálítill jafn halli upp að Ölfusárbrúnni.
Við Ölfusárbrúna er landið 16 fetum hærra en þar sem byrjað var á Eyrarbakka.
Öll vegalengdin er að kalla réttir 6000 faðmar eða 1 1/2 míla. Eftir þessu er hallinn sem næst því 1:700.
Á þessum vegi eru 23 þverrennur frá 5-12 feta langar.
Það var miklum erfiðleikum bundið að vinna þetta verk, af þeim ástæðum, að allt efni vantaði í yfirbygginguna meira en helming af leiðinni.
Grjóti í yfirbygginguna og þverrennurnar var ekið frá báðum endum að vetrinum til, mest í akkorð vinnu og að nokkru leyti fyrri veturinn í tímavinnu.
Vegalengdin að aka grjótinu 500-1800 faðmar; 8-18 krónur borgaðar fyrir hvern teningsfaðm.
Verkinu var þannig háttað, að hliðveggir vegarins voru hlaðnir úr sníddu og sumstaðar þaktir með torfi og hafður 4 feta breiður bekkur beggja megin við veginn. Skurðirnir fram með veginum 7-10 feta breiðir. Breidd vegarins 12 fet.
Í yfirbygginguna var mulið grjót 10” þykkt alla leið, nema í 450 föðmum efst við Ölfusárbrúna; þar var hafður tómur ofaníburður (möl og leir).
Ofan á mulninginn voru látnar þunnar mýrarflögur, svo ekið stórgerðum sandi þar ofan á (mjög þunnt) upp að miðju. Þeim sandi varð að aka neðan af Eyrarbakka. Lengstur akstur 3 1/2 klukkustund með ferðina.
Frá miðju og upp úr, sem mulningurinn náði, var tekinn leir úr flögum og hafður yfir mulninginn. Það verður dálítil for á veginum fyrsta árið, en ekki djúp því leirinn er þunnur. Sama efni var haft á Hellisheiði austan til og hefur reynst vel.
Þessi vegagerð hefur kostað um 38.000 krónur eða 6,33 kr. faðmurinn upp og ofan.
Á svæðinu frá Litlahraunsstekk og upp að Stekkunum kostaði faðmurinn um 8,75 kr.
Þessi vegur hefur því orðið dýrastur þeirra vegakafla, er hér hafa verið lagðir, fyrir utan Kambaveginn og eru margar ástæður til þess: 1, að efni hefur orðið að sækja langan veg; 2, að veðrið hefur verið óhagstætt bæði sumrin, einlægar rigningar; 3, að kaupa hefur orðið land undir veginn fyrir nokkuð hátt verð, 1.100 kr.
Bæði sumrin hafa unnið að þessu verki 40-60 menn, og 18-22 vagnhestar og 8-10 vagnar.
Kaup verkamanna kr. 2,60-3,00; unglingar kr. 1,60-2,25; menn sem unnið hafa vorið og haustið kr. 2,25-2,35.
Þeim sem áttu landið undir veginn verður fæstum sagt það til hróss, að þeir hafi verið vægir í kröfum með borgun fyrir landið. Það leit svo út um suma, að þeir vildu gera sér það að féþúfu, með því að heimta peninga fyrir hvaðeina, og kenndu vegagerðinni um allt illt, sem fram við þá kom, nærri því um rigninguna, sem var í sumar.
Ég vil leyfa mér að geta þess hér, að það ríður á, að hirða vel um þverrennurnar að vetrinum til á svæðinu frá Litlahraunsstekk upp að Stokkum, að ekki sé klaki í þeim, þegar hláku gerir, svo vatnið geti komist í gegnum þær, en ekki hlaupið fram með veginum að austanverðu og orðið þar af leiðandi of mikið og runnið yfir veginn.
Til bráðabirgða setti ég mann til að gæta þeirra í vetur, með 17 króna borgun yfir tímann.
Ennfremur þarf að líta eftir á haustin á þessu svæði, að stíflur, sem rifnar hafa verið úr af sláttufólki, verði umbættar á haustin.
Ennfremur ætti að banna mönnum að stífla vegaskurðina, eins og þeir gerðu í vor, til að veita á engjar sínar; það skemmir veginn, þegar vatnið stendur langt upp í vegahliðarnar, og þegar annaðhvort fara úr stíflur af of miklum vatnsþunga eða þær eru aldrei teknar úr, fyllast skurðirnir af hnausum og flytja þar af leiðandi minna vatn.
Að lokum vil ég leyfa mér að geta þess, að áríðandi er halda þessum mulningsvegum (púkkvegum) við (eins og öllum vegum) með því að bera þunnt lag af ofaníburði ofan á, þar sem mulningurinn verður ber og fer að losna; ef það er gert verður vegurinn nærri óbifandi.
Frá flutningabrautinni var lagður (ólæsileg tala) álna breiður og rúmlega 760 faðma langur vegur ofan undir Hraunsárbrýrnar, áleiðis til Stokkseyrar.
Þeir sem kostuðu þennan veg voru kaupmennirnir á Stokkseyri, sýslusjóður Árnessýslu og Stokkseyrarhreppur.
Þessi vegur er mjög vel gerður, þeim til sóma sem unnu verkið, og lögðu fram fé til þess.
Sú vegagerð kostaði sem næst 3.000 krónur.
Verkstjóri var þar Ketill Jónasson.
Sömuleiðis var gerður vegur frá neðri enda akbrautarinnar að verslunarhúsum Lefolii. Sú verslun og hreppurinn kostaði það verk.
Ekki verður sagt hið sama um þennan veg og Stokkseyrarveginn, að hann sé vel gerður. Það er öðru nær. En öðru verður ekki um kennt en of miklum sparnaði frá þeirra hálfu, sem kostuðu hann.
Kaupa þurfti land undir veginn frá Stóru Háeyri fyrir nærfellt 800 krónur.


Þjóðólfur, 12. janúar, 1900, 52. árg., 2. tbl., bls. 8:
Sagt er frá rannsókn á miður skjallegri meðferð Einars Finnsonar vegaverkstjóra á landssjóðsfé, en aðalkærandi er Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur.

Rannsókn
hefur verið haldin hér í bænum um hátíðarnar og síðar, gegn Einari Finnssyni vegfræðingi fyrir einhverja miður skjallega meðferð á landssjóðsfé í vegagerðarreikningum þeim, er hann hefur átt að sjá um. Aðalkærandinn mun vera Sigurður Thoroddsen verkfræðingur, sem er umsjónarmaður vegagerðanna og á að hafa eftirlit með reikningunum. Hvort sakamál verður höfðað gegn Einari, er enn óvíst, því að rannsóknum mun ekki enn lokið. Þjóðólfur mun á sínum tíma skýra frá því, hvernig rannsóknum þessum lýkur.


Þjóðólfur, 12. janúar, 1900, 52. árg., 2. tbl., bls. 7:
Í fréttabréfi úr Árnessýslu segir bréfritari m.a. að samgöngumál séu nú óðum að komast í gott horf og ef brú fáist á Sogið við Alviðru, þurfi sýslubúar ekki flytja sig þess vegna.

Úr Árnessýslu.
Samgöngumál eru nú óðum að komast í gott horf hér. Vegurinn frá Ölfusárbrúnni að Eyrabakka og Stokkseyri var fullgerður í sumar og er hann púkklagður og því vandaður og traustur, en um miðkaflann er útlit fyrir að ofaníburðurinn verði blautur og laus, og það svo, að ef það ekki lagast, verður nauðsynlegt að bera ofan í hann, en ofaníburð að sækja í það upp fyrir Ölfusá á brúnni, eða niður á sjávarbakka, og væri ekki í það horfandi, þar sem nú er lagður akvegur frá kaupstöðum sýslunnar all leið til Reykjavíkur. En er þess að geta viðvíkjandi vegi þessum, að um syðri hluta Breiðumýrar liggur hann um gljúpan jarðveg blautan, þurfti því þar að hafa djúpa fráræsluskurði, og sjálfur vegurinn vel hækkaður upp, en eftir því sem nú lítur út fyrir virðist þessa ekki hafa verið nógsamlega gætt og mun það sýna sig betur síðar. Einn vegagerðastjórinn kvað hafa verið að skoða flutningsbrautarstæði frá Flatholti að Húsatóptarholti; komist sú braut á, og brú fáist á Sogið hjá Alviðru, tel ég samgöngum hér komið í gott og viðunanlegt horf, og ég held að sýslubúar þurfi ekki að flytja sig héðan þess vegna.


Fjallkonan, 18. janúar, 1900, 17. árg., 1. tbl., bls. 3:
Sagt er frá því að rannsókn sé hafin af bæjarfógeta gegn Einari Finnsyni vegaverkstjóra.

Rannsókn
hefur verið hafin af bæjarfógeta gegn Einari Finnssyni út af vegagerðarreikningum hans, og hefur að sögn verið kært, að hann hafi ekki borgað jafnmikið út og reikningarnir hljóða upp á. Rannsókn mun ekki vera lokið, svo ekki er víst, hvort sakamál verður höfðað gegn honum, eða málið jafnast hinsegin.


Þjóðólfur, 19. janúar, 1900, 52. árg., 3. tbl., bls. 10:
Leitað er upplýsinga hjá Sigurði Thoroddsen landsverkfræðingi um kæru hans á hendur Einari Finnsyni vegaverkstjóra m.a. fyrir meint fjársvik, en mál þetta á eftir að valda miklum ritdeilum milli Sigurðar og ritstjóra Ísafoldar næstu mánuði.

Hjá verkfræðingnum.
Síðan rannsókn sú var hafin, er getið var um í síðasta blaði !!!!, gegn Einari Finnssyni vegfræðingi, hefur margt um hana verið talað hér í bænum, án þess að menn hafi þó fullkomlega vitað, hvernig kærunni var háttað, eða hver atriði það eru, sem hún einkanlega er byggð á. Til að skýra málefni þetta fyrir almenningi, er varðar hann miklu, og til að koma í veg fyrir ósannar getgátur manna um kæruefnið, höfum vér leitað upplýsinga hjá hr. Sigurði Thoroddsen verkfræðingi, og spurðum hann fyrst um, hvort hann hefði ekki fyrstur kært þetta fyrir bæjarfógeta, og kvað hann það satt vera. Báðum vér hann þá að skýra oss frá tildrögum og gangi máls þessa, er væri svo þýðingarmikið og alvarlegt, og varð hann fúslega við þeim tilmælum.
Hann kvaðst í haust hafa heyrt því fleygt, að það mundi viðgangast hjá einum verkstjóranum, Einari Finnsyni, að hann léti verkamennina kvitta fyrir meira kaupi, en þeir hefðu tekið á móti, og það hefði verið altalað meðal verkamanna fyrir austan, að verkstjóri og 2 aðrir honum nákomnir “gerðu út menn”, þ.e. réðu menn til vegavinnunar fyrir viss daglaun, en létu þá kvitta fyrir hærra kaupi. Einn þessara manna, er þannig var ráðinn, Ólafur Oddsson, hafði verið ráðinn af Högna Finnssyni (bróður Einars) í vegagerð fyrir 2 kr. á dag, en þá er hann um haustið rétt fyrir vegavinnulok tók á móti kaupinu 2 kr. fyrir dag hvern, hefði hann orðið þess var, að á kaupskránni stóð 2 kr. 80 a. fyrir dag hvern og hefði hann orðið að kvitta fyrir þeirri upphæð, en síðar hefði hann farið að hugsa út í, hvernig á þessu stæði og hvort það mundi leyfilegt, og fór svo á landshöfðingjaskrifstofuna til að kvarta undan þessu; eftir nokkra rekistefnu hefði svo E.F. orðið að borga Ólafi það sem á vantaði, en bæði hann og Högni hefðu ávítað Ó. harðlega fyrir að hafa “klagað” undan þessu, og sagt, að Sigurður Ámundason, sem mörg ár hefði verið í vegavinnu hjá Einari, hefði ávallt verð mjög ánægður með að fá 2 kr. á dag (en Sigurður þessi stóð á Kaupskránni með 3 kr. daglaunum). Þóttist E. gagnvart Ólafi hafa fullt leyfi til að taka menn upp á þessa skilmála, og kvað það hafa viðgengist hjá sér um mörg ár.
Hr. Sig. Th. kvaðst hafa heyrt getið um 8-10 menn alls, er hefðu verið “gerðir út” af verkstjóra eða frændum hans, auk Sig. Ám. og 6-7 vinnumanna þeirra frændanna. – Þá gat hr. S.Th. þess, að einn verkamannanna (Guðm. Magnússon), hefði staðið á kaupskránni með 121 dagsverk, en sagðist hafa unnið 92 um sumarið, og fleiri séu þeir af verkamönnunum, er standi með of mörg dagsverk á kaupskránum, einn sé t.d. talinn hafa unnið 41 dagsv. í Svínahrauni, en það hafi sannast, að sá maður hafi ekki unnið einn dag í hrauninu.
Þessir 2 fyrrnefndu vottar (Ólafur og Guðm.) hafa borið, að þeir hefðu heyrt, að maður nokkur (Sig. Daníelsson), er kvittað hafi fyrir 14 hestum, hafi fengið 35 kr. fyrir hvern hest hjá Einari, en eftir reikningunum hefðu það átt að vera 65 kr. fyrir hvern hest. Fyrir rétti hafi Sig. Dan. Kannast við, að hann hefði sagt, að hann fengi 35 kr. fyrir hvern hest, en kvaðst hafa sagt það aðeins til þess, að menn skyldu ekki öfunda sig af því, að fá svona mikið (65 kr.) fyrir hestinn. Jafnframt var borið, að nokkrir af þessum hestum hefðu verið svo magrir og illa útlítandi um vorið, að þeir hafi hvað eftir annað gefist upp undir vögnunum og lagst niður.
Um kaup Sig. Ámundas. hjá Einari ber vitnisburðum manna fyrir réttinum alls ekki saman, að því er S.Th. segir, og hljóti því framburður einhverra að vera boginn. T.d. gat hann þess, að Sig. Ámundason segðist hafa fengið 3 kr. um daginn og sver það, en annar maður ber það, að Sig.Á. hafi sagt sér, að hann fengi aðeins 2 kr. hjá Einari, en S.Á. þykist ekki muna eftir því; tveir aðrir menn bera það og sverja, að Högni Finnsson hafi sagt sér, að S.Á. hefði 2 kr. (en Högni þykist ekki muna það), ennfremur beri einn maður það, að Einar hafi sjálfur sagt við sig, að S.Á. hefði 2 kr., en Einar kveður það ósatt, að hann hafi svo mælt.
Vér spurðum verkfræðinginn, hvort það væru aðeins reikningar frá síðasta sumri, er rannsakaðir hefðu verið, og kvað hann svo vera, og þeir væru ekki fullrannsakaðir enn, því allir verkamennirnir hefðu ekki verið yfirheyrðir enn. Svo væri eftir að rannsaka reikninga frá fyrirfarandi sumrum, og gæti verið, að þar fyndist eitthvað athugavert líka.
Vér spurðum hann loks um, hvort rannsóknardómarinn (bæjarfógetinn) gengi ekki ötullega fram í að leiða sannleikann í ljós í þessu máli, er varðaði svo mjög almenning og hag landssjóðs, því að í bænum væru sumir að flimta um, að það kynni að hafa einhver áhrif, að rannsóknardómarinn og E.F. væru Oddfellóar. S.Th. kvaðst ekki geta eða vilja dæma um það, en það væri þó sannfæring sín, að þessi félagsskapur ætti ekki að geta haft nein áhrif á málið. Þá vorum vér ánægðir, þökkuðum fyrir upplýsingarnar, tókum hatt vorn og kvöddum.


Ísafold, 27. janúar, 27. árg, 5. tbl., bls. 18:
Í fréttabréfi úr Árnessýslu er m.a. rætt um nýja veginn frá Eyrarbakka og Stokkseyri að Ölfusárbrú.

Fréttabréf úr Árnessýslu.
Ísafold flytur fyrir stuttu ítarlega skýrslu um veginn frá Eyrarbakka og Stokkseyri að Ölfusárbrú, er þar víst allt rétt og satt sagt. Vegur þessi er hið mesta þarfaverk að vegabótum til og þykir Árnesingum og Rangæingum hann hin mesta gersemi. Því leiðara verður það, ef sú skyldi verða raunin á, að vegur þessi sé of lágur á fremsta kaflanum og vatnið beri burt hið smágerðasta og besta úr ofaníburðinum. Reyndar eru enn ekki mikil brögð að þessu, en þó vottur, enda eru nú talsverð ísalög á Breiðumýri. Auðvitað mun mega fyrirgirða skemmdir með því að dýpka framræsluskurðina o.fl.


Bjarki, 9. febrúar, 1900, 5. árg., 5. tbl., forsíða:
Guðmundi Hávarðssyni finnst að vegurinn af Fljótsdalshéraði niður á Firði eigi að liggja um Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar en ekki um Fagradal til Reyðarfjarðar. Þá er hann alveg hneykslaður á því að mönnum detti í hug að skipa efninu í Lagarfljótsbrúna á land á Reyðarfirði. Þaðan verði ekki hægt að flytja það landleiðina upp á Hérað.

Akvegur frá Héraði til fjarða.
Á seinni árum hefur sú löngun, eins og eðlileg er, meir og meir rutt sér til rúms hjá Héraðsmönnum, að fá akveg þaðan til fjarða, svo að þeir gætu á vögnum flutt sér nauðsynjar sínar frá kauptúnunum og sjávarsíðunni.
Hér virðist nú einnig sem alvara fylgi máli, þar sem þeir á síðasta sumri fengu lagðan mílulangan akveg eftir héraðinu. Er þá næst að spyrja, hvar heppilegast sé að leggja akveginn frá Héraði til fjarða. Því skal ég svara strax afdráttarlaust og hlutdrægnislaust. Það er yfir Fjarðarheiði, en ekki yfir fagradal, eins og margir hafa þó haldið fram. Fjarðarheiði er, þrátt fyrir hæðina, svo vel löguð fyrir akveg, að ótrúlegt má virðast, og er það einnig álit lærðs mannvirkjafræðings, sem skoðað hefur leiðina. Akvegur yfir hana mun verða miklum mun ódýrari en yfir Fagradal. Vegalengdin er nær helmingi minni, viðhald á veginum yrði miklu kostnaðarminna, og það sem merkilegast er: vegurinn yrði kannski litlu erfiðari eða brattari á Fjarðarheiði en Fagradal. Enn hefur Fjarðarheiði einn kost fram yfir Fagradal og hann er sá, að yfir hana má fara hvenær sem er með hesta og æki, en oft er og verður alltaf tímunum saman ófært yfir Fagradal. Þó merkilegt sé og ótrúlegt þyki, þá eru af náttúrunnar völdum svo margir og miklir erfiðleikar á akvegalagningu eftir Fagradal, að ekki getur verið um hana að ræða, eftir mínu áliti, og síst þar sem Fjarðarheiði er jafn vel löguð fyrir akveg og sýnt hefur verið. Hver ætli sé svo tilgangurinn með að flytja Lagarfljótsbrúarefnið upp á Reyðarfjörð eins og frést hefur að væri í ráði. Kannski það sé gert af þeirri ástæðu, að ódýrara, léttara og fljótlegra sé að aka því yfir Fagradal, en t.d. yfir Fjarðarheiði, eða þá af Héraðssöndum eftir fljótinu. Sé þessi tilgangurinn, þá verð ég að gera öllum, sem hlut eiga að máli, aðvart um að Fagridalur er á vetrum gersamlega ófær til þess konar flutninga, svo ófær, að ég nenni hér ekki upp að telja alla þá galla, sem þar eru á. Fyrir þessu hef ég eigin reynslu, þar sem ég oft, og á öllum tímum árs, hef farið um Fagradal. Ég skora því fastlega á alla þá, sem hlut eiga að máli í flutningi brúarefnisins, að sjá svo um, að það verði á næsta sumri annað hvort flutt upp til Seyðisfjarðar, eða á Héraðssanda, svo strax að vetri yrði hægt að aka því að brúarstæðinu. Sökum þess að ég hef ekið yfir Fjarðarheiði bæði sumar og vetur og sjaldan haft minna í æki en fimm hestburði, þá stæði mér alveg á sama, hvort ég ætti heldur að aka brúarefninu frá Seyðisfirði yfir Fjarðarheiði, eða af Héraðssöndum. Og ekki skil ég í því, að það sé nein ástæða til þess að heimta meiri borgun fyrir að aka því yfir Fjarðarheiði, heldur en utan af söndum. En það er sjálfsagt að flytja brúarefnið á annan hvorn þessara síðastnefndu staða, en ekki til Reyðarfjarðar. Það yrði ekki til annars en auka óþarfa kostnað, þar sem það mundi reynast óumflýjanlegt að flytja það þaðan aftur á skipi, annaðhvort til Seyðisfjarðar, eða á Héraðssanda.
Að endingu er það ósk mín, að allir þeir, sem eiga hlut að máli viðvíkjandi Lagarfljótsbrúnni flýti fyrir öllu þar að lútandi svo að hún komist sem fyrst á fljótið.
Guðmundur Hávarðsson.


Ísafold, 10. febrúar, 27. árg, 8. tbl., forsíðu:
"Ferðamaður" skrifar hér grein um gæslu á Þjórsárbrúnni og vill meina að henni sé mjög ábótavant. Brúarvörðurinn sé t.d. að heiman 2-3 daga í hverjum mánuði og getur þá hver sem vill brotið umferðarreglurnar. Þá sé og vandalaust að sjá mismun á hirðingunni á brúnum á Ölfusá og Þjórsá.

Gæsla á Þjórsárbrúnni.
Ekki virðist með öllu ástæðulaust að fara nokkrum orðum um gæslu Þjórsárbrúarinnar; því ætla má að fáum standi á sama, hvernig svo fullkomið mannvirki endist.
Það er vandalaust, að sjá mismun á hirðingunni á brúnum á Ölfusá og Þjórsá.
Þjórsárbrúin hefur ekki verið “skrúfuð upp” síðan sumarið 1896, og er því ókunnugt um, í hvaða ástandi skrúfurnar eru. Það eitt er víst, að bili skrúfurnar, þá bilar brúin. Strengirnir eru ennþá “óasfalteraðir”, og ætti þó líklega að vera búið að því. Slitgólfið hefur ekki verið tjargað síðan 1898, að einhverju nafni var komið á það.
Þegar frost er til muna, rennur vatnsbuna upp á brúarsporðinn eystri, frýs þar og hækkar, og verður fyrir það mjög varúðarvert að ganga þar um vegna hálku, auk þess sem það hlýtur að skemma brúna. Með aðeins mjög litlu handviki mætti veita vatni þessu á burt; en það hefur brúarvörðurinn ekki álitið í sínum verkahring; ekki virðist hann skipta sér af brúnni nema það sem gert er fyrir sérstaka borgun. Fer ferða sinna, eins og hver annar, er t.d. að heiman 2-3 daga í hverjum mánuði, og 1-4 í senn á vissum tímum; og getur hver sem vill brotið umferðarreglurnar þá dagana, enda er víst að sumir nota sér það. Ég verð nú að álíta, að svona löguð brúargæsla sé ekki aðeins óþörf eða ónýt, heldur beinlínis hættuleg, og þannig verri en ekki neitt.
Ferðamaður.


Ísafold, 24. febrúar, 27. árg, 10. tbl., bls. 38:
Hér birtist athugasemd Þjórsárbrúarvarðar við grein “Ferðamanns” sem birst hafði á forsíðu blaðsins 10. febrúar sama ár. En ritstjóri blaðsins hnýtir síðan við helmingi lengri athugasemd við þá athugasemd.

Gæsla á Þjórsárbrúnni.
Þjórsárbrúarvörðurinn biður fyrir svohljóðandi athugasemd:
Út af grein einni í “Ísafold” 10. þ.m. leyfi ég mér að biðja herra ritstjórann um rúm fyrir eftirfarandi skýringar.
Verkfræðingur landsins, hr. Sigurður Thoroddsen, skoðaði Þjórsárbrúna, er hann var hér á ferð síðastliðið sumar, og fann ekkert að hirðingu á brúnni, og verð ég að trúa honum til að kunna þar eins vel skyn á og “Ferðamaður”. Í sumar átti að bika brúna, en varð eigi af, sakir hinna miklu votviðra; brúin var aldrei þurr.
Nú, síðan frost komu, hefur fyllt skurð þann, sem veita átti aðrennsli frá eystri brúarsporðinum, og hefur vætlað ofan á trébrúna síðan. Áður hefur þetta eigi komið fyrir, og er eigi hægt að gera við því, fyrr en frost er úr jörðu.
Um ferðalög mín skal ég eigi fjölyrða, en læt mér nægja að benda á, að þegar ég hef þurft að fara að heiman, hef ég látið gæta brúarinnar í minn stað, og veit fyrir víst, að sömu reglu hefur brúarvörðurinn við Ölfusárbrúna fylgt hingað til átölulaust.
Brúarhúsi 16. febrúar 1900.
Einar Sigurðsson
Brúarvörður við Þjórsárbrúna
*
Þessi athugasemd brúarvarðarins gerir í raun réttri ekki annað en að staðfesta hér um bil allt, sem “Ferðamaður” ber. Hann ber ekki á móti því neinu, heldur játar allt, ýmist beinlínis eða þá óbeinlínis – með því að ganga þegjandi framhjá því í svari sínu. Hann játar þann veg, að brúin hafi ekki verið “skrúfuð upp” í mörg ár, að hún hafi ekki verið bikuð, að uppganga liggi á eystri brúarsporðinum, og að hann sé heiman að oft og mörgum sinnum og það á vissum tímum. Og eru þá upp talin öll aðfinnsluatriði “Ferðamanns”. Til meira getur hann (Ferðam.) ekki ætlast.

Hitt er annað mál hverjar málsbætur brúarvörður telur sig hafa.
Hann ber þá fyrst fyrir sig mannvirkjafræðing landsins, að hann hafi skoðað brúna í sumar sem leið og ekkert fundið að hirðingu á henni.
Réttara mundi að orða það svo, að hann (hr. S. Th.) hefði farið um brúna einu sinni í sumar og ekki haft orð á neinum annmörkum á hirðingu brúarinnar. Hann mun alls eigi hafa gert neina eiginlega skoðun á henni.
Um árennslið segir hann, að viðgerð á því verði að bíða þangað til frost er úr jörðu. Mun mega skilja það svo, að þá verði það gert og verði það, þá er það vitaskuld betra en ekki, en ekki nærri eins gott og hitt ef gert hefði verið við því áður – með því að gera í tæka tíð skurðinn nógu stóran. Betra að byrgja brunninn áður en eftir að barnið er dottið í hann.
Þá eru ferðalögin. Þau eru meðal annars fólgin í póstferðum, ýmist upp á Land eða austur Landeyjar, eða hvorutveggja. Það eru ferðalög á tilteknum tímum og er brúargæslan á meðan því aðeins nokkurs virði, eða þess virði sem til er ætlast, að jafngildur maður hafi hana þá á hendi, með ráði hluteigandi yfirvalds. Það getur verið einhver liðléttingur, sem ferðamenn bera ekki við að gegna, og auk þess svo fráskotull, að brúin sé alveg gæslulaus.
Það er vitanlega ekki við að búast, að verulega stöðug og óbilug brúargæsla fáist nema fyrir töluvert hærra kaup en nú er goldið. En hitt er vafamál, hvort nokkur fengur er samt í öðruvísi lagaðri brúargæslu, eða hvort ekki væri eins tiltækilegt að hafa þessar brýr á Ölfusá og Þjórsá alveg gæslulausar, eins og aðrar meiriháttar brýr bæði hér á landi og annarsstaðar, að öðru leyti en áreiðanlegu viðhaldseftirliti og lagaaðhaldi fyrir hlýðni við auglýstar umferðarreglur um brýrnar. Almenningi ætti og ekki að vera ofætlun orðið, að bera þá virðingu fyrir eign sinni, eða hafa þær mætur á henni, að hverjum manni væri jafnfjarri skapi að skemma hana eins og að fremja svívirðilegan stórglæp – fjarri skapi að skemma aðra eins eign, annan eins kjörgrip eins og góðar brýr yfir ófær vatnsföll.


Fjallkonan, 9. mars, 1900, 17. árg., 9. tbl., bls. 3:
Brúin á Norðurá í Skagafirði er gersamlega brotin niður og varð þess vart snemma í febrúar.

Brú brotin niður.
Brúin á Norðurá í Skagafirði er gersamlega brotin niður og varð þess vart snemma í febrúar. Hún var byggð í sumar sem leið skammt frá póstleiðinni. Ekki er fullkunnugt, hvort brúin hefur sligast niður undan þunga sjálfrar síns, eða stormar hafa hrist hana út af stöplunum, því þeir höfðu verið mjóir og brúarkjálkarnir tæpir á þeim. Brú þessi var tekin út af smiðnum, þegar hann var búinn að byggja hana, og er sagt að úttektarmenn hafi ekkert verulegt séð út á hana að setja, og þó er sagt, að farið hafi verið þá þegar að bera á því, að hún hafi verið farin að síga lítið eitt öðrum megin. Er því mjög líklegt að það hafi stutt að því að hún brotnaði af. Talið er víst, að brúarsmiðurinn verði laus við alla ábyrgð af brú þessari, bæði fyrir samning þann er hann gerði viðvíkjandi byggingunni, og svo eftir áliti úttektarmannana, því þeir höfðu áliti öllum skilmálum fullnægt, svo líklegt er að landssjóður beri allan skaðann. Brúarsmiðurinn er Snorri Jónsson af Oddeyri, og hafði amtmaðurinn nyrðra haft yfirumsjón verksins, en ekki er oss kunnugt hvort verkfræðingur landsins hefur átt þátt í því. Brúin kostaði um 3000 kr.


Austri, 10. mars, 1900, 10. árg., 8. tbl., forsíða:
Hér er rætt um kosti þess að landa efninu í Lagarfljótsbrúna á Reyðarfirði og flytja það um Fagradal, en sú hugmynd hefur verið gagngrýnd af ritstjóra Bjarka.

Fagridalur og Lagarfljótsbrúin.
Það hefur verið tekið fram í Bjarka, að það mundi tefja fyrir byggingunni á Lagarfljótsbrúnni, ef viðurinn og annað efni til brúarinnar yrði lagt upp í Reyðarfirði, af því aldrei kæmi akfæri á Fagradal á vetrum.
En þetta er hreinasti heilaspuni. Vér höfum átt tal við marga Reyðfirðinga, sem eru Fagradal nákunnugir, og hafa þeir allir fullyrt, að það væri jafnan gott akfæri á Fagradal er út á liði, brattinn lítill upp dalinn og hliðbratti eigi teljandi, nema á stuttum spöl.
Síðast áttum vér tal um þetta við Kjartan Pétursson frá Eskifjarðarseli, sem er Fagradal nákunnugur, og fullyrti hann, að það væri akfæri gott á Fagradal á hverjum vetri er útá liði.
Stórkaupmaður Thor E. Tuliníus, sem sagt er að tekið hafi að sér að flytja upp hingað brúarviðinn, er borinn og barnfæddur á Eskifirði og þar upp alinn, og því Fagradal nákunnugur og hefur sjálfsagt valið að skipa upp brúarviðnum á Reyðarfirði, einmitt af því að honum var kunnugt um akfærið á Fagradal.
Það er því svo langt frá því, að það mundi tefja fyrir því að brúin kæmist á Lagarfljót, að brúarviðurinn yrði lagður upp á Reyðarfirði, að það getur vel flýtt fyrir brúarsmíðinni um heilt ár, því það má vel flytja brúarviðinn upp sama veturinn til Reyðarfjarðar og aka honum þegar yfir Fagradal. T.d. mætti flytja efnisviðinn í Lagarfljótsbrúna núna í marsmánuði upp á Reyðarfjörð og aka honum þaðan jafn harðan upp að brúarstæðinu, og þá yrði hægt að byggja brúna í sumar, en ekki fyrr en að sumri 1901, ef brúarefnið væri flutt upp á Héraðssand – að ótöldum þeim vandræðum, sem geta orðið á því að koma brúarefninu þar í land, og hlyti flutningur þangað því að kosta meira. – En að aka upp Fagradal og upp Fjarðarheiði er ekki samjafnandi sökum bratta og hæðarmunar.


Austri, 10. mars, 1900, 10. árg., 8. tbl., forsíða:
A.V. Tuliníus svarar Guðmundi Hávarðssyni og öðrum sem reyna að spilla fyrir því að akbraut verði lögð gegnum Fagradal til að samtengja Héraðið og Firðina, eins og hann kemst að orði.

Tuliníus skrifar.
Í tilefni af greinum í Bjarka, sem í seinni tíð hafa birst, og sem ganga út á að reyna að spilla fyrir því, að akbraut verði lögð gegnum Fagradal til þess að samtengja Héraðið og Firðina, skal ég leyfa mér að biðja um pláss fyrir fáeinar línur í yðar heiðraða blaði Austra.
Í lögum nr. 8, 13. apríl 1894, 3. gr. stendur, að flutningsbraut skuli vera frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal til Lagarfljóts.
Þessi ákvörðun í lögunum er auðvitað tekin eftir nákvæma athugun þingsins og eftir að kostir og ókostir á Fagradal og öðrum vegum milli Héraðs og Fjarða höfðu verið vigtaðir hver á móti öðrum.
Það hefur því ekki verið álit manna, að frekar þyrfti að ræða um, hvar brautin ætti að liggja, einungis hafa menn beðið eftir fjárveitingu þingsins til vegarins, sem eigi gat orðið fyrr en í fyrsta lagi á síðasta þingi, af því þessi akbraut er sú síðasta í röðinni, sem talin er upp í lögunum.
Á síðasta þingi virðist áskorunin um þessa fjárveitingu hafa komið of seint, svo hún verður að bíða næsta þings og verður maður þá að álíta sjálfsagt að féð verði veitt, ef “ingeniör” sá, sem á að rannsaka dalinn, sem líklegt er, verður á sama máli sem Páll vegfræðingur Jónsson, sem mældi hann í sumar sem leið, nefnilega að Fagridalur sé einasta heppilega akvegarstæðið milli Fjarða og Héraðs á Austurlandi.
Eins og menn því sjá er gengið fram í þessu máli með stillingu og hægð af hendi Alþingis og ber öllum reyndum og skynsömum mönnum, sem eru vinir Austurlandsins og óska að framfaramál þau, sem geta orðið landinu að gagni, eigi að hafa framgang, - saman um, að vegurinn til þess sé, að láta menn sem vit og kunnáttu hafa á þess háttar fjalla um málið, en ofsóknir ókunnugra og ófróðra manna um vegalagningar eins og Guðmundur Hávarðsson hlýtur maður að virða að vettugi, og vona ég að almenningur geri hið sama, svo að annað eins velferðarmál Austurlandsins eins og akbraut milli Héraðs og Fjarða drukkni ekki í “gemeinni” hreppapólitík.
Bíðum því rólegir dóms “ingeniörsins” um hvert hið ofurháa fjall, sem mest allt árið liggur undir snjó sé heppilegra fyrir akbraut en hinn lárétti dalur, sem ætíð er fær vetur sem sumar, sem er styttri en heiðin (Héraðið byrjar þegar út úr dalnum er komið milli Þuríðarstaða og Dalhúsa, en ekki við Miðhús, eins og sumir ókunnugir virðast halda) og sem er svo vel lagaður fyrir akveg, að Páll vegfræðingur í mælingu sinni á Fagradal, sem ég citeraði áðan, skýrir frá, að frá Búðareyri við Reyðarfjörð og á brún á Fagradal Héraðsmeginn verði vegurinn alla leið svo láréttur, að ekki á einum einasta stað þurfi að skáskera hann til þess að taka af bratta og er þó brattinn hvergi meira en heppilegast er, þ.e.a.s. 1 móti 15.
Eskifirði 17. febr. 1900.
Virðingarfyllst
A.V. Tuliníus.


Austri, 19. og 27. mars, 1900, 10. árg., 9. og 10. tbl., forsíða og bls. 36:
Greinarhöfundur færir rök fyrir nauðsyn þess að brú komi á Jökulsá í Axarfirði (á Fjöllum) og gagnrýnir þá skoðun norska verkfræðingsins Barth að þar sé heppilegast að komi svifferja frekar en brú. Alþingi mun hafa fengið þennan Barth til að athuga með brúarstæði yfir helstu ár landsins. Bréf Barths birtist í Bjarka 27. maí, 1899, bls. 82 (sjá eldri greinar).

Ekki er allt gull sem glóir.
Þegar ég hafði lesið bréf herra Barths í 21. tbl. “Bjarka” (27. maí, 1989, bls. 82), varð mér ósjálfrátt að orði: “ekki er allt gull sem glóir”.
Þegar herra Barth var hér á ferðinni í þeim erindagerðum að mæla og ákveða brúarstæði á stórám hér á landi, fullyrti hann, þegar hann var búinn að mæla brúarstæði á Jökulsá í Axarfirði, að enginn vafi væri á því að brú kæmi á hana, enda virtist ekki, eftir því sem þá leit út fyrir, að því væri neitt til fyrirstöðu. Aftur á móti bar hann það fram, að lítil líkindi væru til að brú kæmist á Lagarfljót, sökum þess, að ekki fengist nógu tryggilegur grundvöllur (klöpp) fyrir tréstólpa að standa á, og fór hann mjög skynsömum orðum um það. Svo koma tillögur hans aftur, eins og gamalt máltak segir, sem “skollinn úr sauðarleggnum” manni á óvart, þvert á móti því sem hann talaði sjálfur við menn hér áður en hann fór. “Á Lagarfljóti” segir hann í bréfinu “hef ég lagt það til að brúarstæði yrði valið hjá Egilsstöðum.” Það er nú gott og blessað; en ferju vill hann láta setja á fljótið við Steinsvað, og eftir því sem mér skilst á þessi ferja að vera svifferja, sem straumur á að bera til beggja landa svo menn geti ferjað sig sjálfir; ég skil það ekki vel, enda er ég nokkuð ókunnugur svoleiðis svifferju sem straumur flytji til beggja landa; og í líkingu við svona lagaða svifferju vill herra Barth að menn komi sér upp ferju á Jökulsá í Axarfirði, þegar næg þekking sé komin fyrir því, hvað hinni ferjunni sé ábótavant.
Það er nú dálítið öðru máli að gegna með svifferju á Jökulsá eða Lagarfljóti, því þótt svifferja yrði búin svo vel út á Lagarfljót, að henni væri ekkert ábótavant, þá er alls engin reynsla fengin fyrir því, að svifferja stæði stundinni lengur á Jökulsá í Axarfirði, því Jökulsá og Lagarfljót eru mjög ólík, fyrst hvað straumhraða snertir, annað breyting árinnar og þriðja landtöku. Jökulsá í Axarfirði er mjög straumhörð og þar af leiðandi straumþunginn svo mikill, að hún er óferjandi þegar jökulsvextir eru í henni, það falla á henni stórar holskeflur hvítfossandi líkt og brim við sjávarströnd, svo ferjan er óverjandi hvað góð aðgæsla og stjórn sem höfð er, sömuleiðis er hún svo fljót að breyta sér þegar hún er í vexti, að hún gengur stundum upp mörg fet á einni klukkustund á ferjustaðnum. Landslagið er þannig lagað, að austanverðu árinnar eru klappir og klettaklungur og eru þar aðeins þrjár lendingar og þær næsta knappar, verður því ferjumaður að hafa nákvæmar gætur og sérstaka varúð ef vel á að fara og það þótt áin sé lítil; að vestanverðu er malarkambur með kastmöl og stórgrýti innanum, að vísu er þar fríari lending , en þó mun þurfa þar stakrar varúðar að gæta þegar áin er mikil, flóir hún þá upp um klappirnar og malarkambinn með voðalegu fossfalli og mun þá fáum þykja hún fýsileg til yfirferðar; og þrátt fyrir þetta dettur herra Barth í hug að láta á hana svifferju. Það hlýtur að vera fyrir ókunnugleika, að öðrum kosti mætti álíta það af verkfróðum manni gjörræði; að láta svifferju á Jökulsá, þannig lagaða, að menn ferji sig sjálfir, væri hlægileg fáviska, þar ekki er annað fyrirsjáanlegt, þegar Jökulsá er í vexti, en að annaðhvort mundi strengurinn, sem liggur á milli landa, slitna eða ferjan gangi undir strauminn, nema hún yrði á stærð við dekkbát, og strengurinn að því skapi sterkur, en þá myndi líka vera ofverk eins eða tveggja manna að draga ferjuna landa á milli, hvernig útbúnaður sem væri. En setjum nú svo, að allt þetta lukkaðist, þá væri ekki allt búið fyrir það, því óðar og ferjan nálgaðist austurlandið færi hún í spón á klöppunum þegar áin væri mikil, nema strengurinn væri svo vel strengdur, sem vart mundi verða nema með gufuafli, að hann gæfi alls ekkert eftir, svo ferjan gæti farið beina línu yfir landa á milli, en þá yrði strengurinn líka margar álnir fyrir ofan yfirborð vatnsins þegar áin er lítil, en hvar er þá ferjan!!?
Af þessu má glöggt sjá, að það væri hlægileg fáviska að ætla sér að láta svifferju á Jökulsá, þannig lagaða að menn ferjuðu sig sjálfir. Þeir mundu skilja ferjuna eftir þar sem þá bæri að landi í það skipti, til dæmis þegar áin væri mikil, væri það annað hvort í klöppunum eða á malarkambinum, og væri það gefin sök, að hún væri upp á skraufþurru landi þegar næsti vegfarandi kæmi, ef áin væri að fjara, enda er ég viss um, að engum íslenskum manni með fulla skynsemi mundi hafa dottið slík vitleysa í hug sem tillaga herra Barths í þessu efni, það er að segja ef hann hefði þekkt Jökulsá og séð svifferjur á ám. Ætti nú aftur að vera ákveðinn ferjumaður við svifferju á Jökulsá og hún væri í líkingu við aðrar svifferjur, þá mundi honum naumast detta í hug að hafa hana á ánni meira en tvo mánuði ár hvert í frekasta lagi. Í sumar til dæmis, hefði ekki verið hugsanlegt að láta svifferju á Jökulsá fyrr en undir göngur, svo hefði orðið að vera búið að taka hana af aftur hálfum mánuði fyrir vetur sökum frosta.
Hver er þá vinningurinn? Enginn, ekkert annað en kostnaður að láta ferjuna á og taka hana af aftur. Það er að vísu, að áin er sjaldan geng hér á ferjustaðnum á vetrum, en það safnast að henni svo háar skarir að eigi er hægt að brúka nema lítinn pramma þegar bráð nauðsyn krefur, en samt með því þó að stofna lífi í hættu, því dæmi eru til að skarir hafa orðið níu álna hár og urðu þær þó eigi mældar fyrr en eftir nokkra þýðu; það er því ekki von að nokkur maður sem ekki þekkir Jökulsá geti haft hugmynd um hve voðalegur farartálmi hún er fyrir vegfarendur. Ég hefði sjálfur ekki trúað, hve breytileg hún er og hættuleg yfirferðar, ef ég hefði ekki dvalið í grennd við hana um undanfarinn tíma og fengið allar þær upplýsingar sem hægt var.
Þótt nú herra Barth væri ókunnugur Jökulsá í Axarfirði, hefði hann samt átt að fá dálitla þekkingu á henni, þegar honum var sagt og sýndar breytingar hennar og hann var búinn að mæla hraða vatnsins, þótt aðferð mælinga hans væri að vísu nokkuð hlægileg, en það segir gamall málsháttur, að það sé betra að veifa röngu tré en öngu, og svo mátti segja um verkfæri herra Barths, en samt tókst honum nú aldrei að mæla dýpið, þótt verkfróður væri, var hann það að auki rétt kominn í ána með verkamenn sína af vanhugsaðri fyrirskipan, því slík mælingaraðferð sem hann brúkaði við Jökulsá, hefði verið ófyrirgefanleg af verkfróðum manni.
Ef herra Barth hefði þá með einu orði minnst á svifferju á Jökulsá, þá hefði honum strax verið sýnt fram á ómöguleika þess, en það var öðru máli að gegna, þá hugsaði hann ekki um annað en brú og það helst steinboga eftir því sem hann sagði sjálfur, og það var víst eindregin sannfæring hans, en þá hefur hann náttúrulega ekki verið búinn að athuga nógu vel fólksfjölda uppdráttinn, sem sýnir fram á hve strjálbyggt sé, og þar af leiðandi umferðin svo lítil yfir ána, að brúin yrði alltof íburðarmikil.
Fólksfæðin og umferðarleysi yfir ána virðist nú helst standa í veginum fyrir fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá eftir því sem herra Barth álítur, en þar eð ég er hræddur um að það sé hugmyndasmíði eitt en engin sönnun. Þó virðist mér naumast takandi til greina, þetta hafði þingið voru heldur aldrei dottið í hug að athuga, þótt það notaði flest þau meðul sem komu í bága við brúargerð á Jökulsá, allt þangað til í sumar, þá þagnaði það alveg, líklega af þeirri ástæðu, að það hefur álitið þessa uppgötvun herra Barths með umferðarleysi yfir ána sökum fólksfæðinnar alveg fullgilda, og nú væri umræðum um brúargerð á Jökulsá alveg lokið, en það mun fara á aðra leið; þingmenn vorir munu brátt komast að þeirri niðurstöðu á næsta þingi að sækjendur þessa máls eru eigi fallnir á bak aftur þótt árangur hafi verið lítill að þessu, en nú er fyrst risin almenn óánægja, og er hún í meira lagi, yfir þessari mótspyrnu gagnvart brúnni á Jökulsá, sem öll hefur verið byggð á svo óskiljanlegan hátt, að það er naumast hægt að gera sér grein fyrir hvernig á því stendur, eða það er að minnsta kosti ekki sjáanlegt að hún sé byggð á neinum grundvelli t.d. þar sem haldið er fram öðru brúarstæði á ánni miklu betra, billegra og heppilegra, heldur en því sem ákveðið var, auðvitað tóm ósannindi, bara til að villa mönnum sjónir og tefja fyrir fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá; til þess að ganga nú úr skugga um þetta, ákveður þingið að fá skuli verkfróðan mann frá Noregi til þess að skera úr þessu vandasama máli, þrátt fyrir það þó það hefði nú verkfræðing sem búinn var að mæla og ákveða það eina brúarstæði sem heppilegt var á ánni, þetta er nokkuð eftirtektarvert, en sleppum nú því; nú kemur þessi norski verkfræðingur, herra Barth, hann gerir auðvitað ekkert annað en það sem verkfræðingur landsins var búinn að gera, er alveg á sömu skoðun og finnur enga ástæðu fyrir því að staðið sé á móti fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá, telur hann engan vafa að féð verði veitt á næsta þingi; við þessa ályktun herra Barths urðu menn næsta glaðir og bjuggust við miklum framkvæmdum frá næsta þingi í þessu efni; en svo kemur, eins og ég hef áður tekið fram, þessi nýja uppgötvun herra Barths með umferðarleysi yfir ána og þar af leiðandi þessi kynlegi snúningur í höfðinu á honum, sem gerði menn svo óánægða, að varla þarf að búast við að Norður-Þingeyingar hlífi næsta þingmanni sínum, ef hann ekki heldur fastlega með brúargerð á Jökulsá og starfar kappsamlega í því efni; mun því að öllum líkindum hreinn og beinn óþarfi fyrir þann mann að bjóða sig fram fyrir þingmann hér í sýslu sem eigi hefur sjálfkrafa komist að þeirri niðurstöðu, hve afar nauðsynlegt það sé að greiða samgöngur með því að brúa þetta voðalega vatnsfall, því enginn efi er á því að þetta er ekkert annað en hugarburður hjá herra Barth að umferð sé svo lítil yfir Jökulsá í Axarfirði, eða getur hann gefið nokkra skýrslu yfir það hve margir fara yfir Jökulsá í Axarfirði, að undanskildum þeim sem fara beina leið frá Akureyri til Seyðisfjarðar; enda er umferð yfir Jökulsá í Axarfirði allt árið þegar hún er fær; má því nærri geta hve langferðamönnum er þægilegt að bíða dögum saman við ána þegar hún er ófær, og leggja svo líf sitt og skepna sinna í hættu undireins og hún er slarkandi, mér getur heldur naumast dottið til hugar annað en mönnum hljóti að renna til rifja, þegar þeir sjá hestana koma af sundi úr þessum vatnsföllum, hríðskjálfandi og gaddfrosna á vetrardag, eða örmagna af þreytu, nær því búna að gefa frá sér þrótt á sumardag; hér er því varla hugsanlegt að þing vort hugsi sig um eitt augnablik, að framleggja nægilegt fé til brúargerðar á Jökulsá við fyrsta tækifæri, enda mundi mörgum þykja því mislagðar hendur, þá er það leggur fram stórfé til lítt þarfra akvega t.d. eins og vegarins fram Eyjafjörð, en svo skyldi það þverneita, að veita fé til brúargerðar á eitthvert mesta vatnsfall landsins.
Þótt mikið sé búið að gera í þá áttina að brúa stórár hér á landi, þá er þó talsvert eftir, og dugar því eigi að hætta í hálfu kafi, sannast þá eigi hið fornkveðna “hálfnað er verk þá hafið er”, ef ekki er tafarlaust haldið áfram að brúa allar stórár á landinu jafnótt og fé leyfir, þangað til það er búið. Í þetta skipti ætla ég ekki að fara meira út í þetta efni, en síðar hef ég ásett mér, ef þörf gerist, að sýna fram á, hvort ekki mætti byggja laglega brú fyrir fé það sem veitt hefur verið af þingi voru í ýmsar áttir án þess að landið hafi haft hin minnstu not af.
Ritað í desember 1899.
G.Th.


Ísafold, 21. mars, 27. árg, 14. tbl., bls. 54:
Greinarhöfundur fjallar um vegi og brýr vestan úr Dölum til Reykjavíkur. Hann segir gleðilegt að sjá hvað vegirnir hafa lagast mikið á síðastliðnum áratug og ef svo verði haldið áfram, verði þetta orðinn sæmilegasti reiðvegur eftir önnur tíu ár.

Vegabætur og brúasmíði.
Þegar maður ferðast héðan vestan úr Dölum suður í Reykjavík, er gleðilegt að sjá, hvað vegirnir hafa fengið mikla umbót á síðastliðnum áratug, og ef svona vel verður haldið áfram í önnur tíu ár, verður að líkindum búið að gjöra þennan veg vel viðunanlegan reiðveg, ef þess verður einnig gætt, að halda honum nægilega við.
Þessar vegabætur eru að flestra áliti vel af hendi leysir; og þótt það mætti að þeim finna, að við lagningu þeirra hafi ekki verið gert ráð fyrir, að þeir yrðu nýtilegur vagnvegur, þá er það afsakanlegt, því með því móti hefði vegagerðin orðið miklu dýrari, og þar af leiðandi miðað seinna áfram; en óneitanlega liggur mest á að gera slíkan veg, sem hér um ræðir, sem fyrst reiðfæran.
En æskilegt væri að eftirleiðis yrði aksturinn hafður í huga við lagningu þessara vega, og þar sem þeir eru lagðir um sveitir, ætti að leggja svo mikið kapp á að gera þá akfæra sem framast er unnt.
Þá eru brýrnar, sem lagðar hafa verið á árnar á þessari leið, ekki síður þarfar umbætur, sem allir ferðamenn hljóta að láta sér þykja vænt um, einkum vor og haust, þegar árnar eiga annars að sér að vera lítt færar og oft ófærar.
Það er eins um brýrnar og vegabæturnar, að flestir telja þær vandaðar og vel gerðar, og því ekkert að þeim að finna.
Mig langar samt til með leyfi yðar, herra ritstjóri, að fara nokkrum orðum um þessar brýr, þótt þau hafi að geyma töluverðar aðfinningar við verk mikilsvirtra manna.
Allir hljóta að játa, að það sé nauðsynleg og sjálfsögð regla, að brýr séu gerðar svo traustar og endingargóðar, sem efnið í þeim framast leyfir og aðrar ástæður, og að það sé fyrsta og sjálfsagðasta skyldan, að þess sé gætt.
Það er einnig skoðun mín, að það sé bæði skylda og réttur hvers manns á landinu sem er að benda á, ef mannvirki þau sem kostuð eru af almenningi séu ekki þannig af hendi (ólæsileg 3-4 orð).
Ég kem ekki með þessar (ólæsilegt orð) mínar af því, að ég (ólæsilegt orð), að brýrnar sem gerðar hafa verið á þessari leið á landssjóðs kostnað, séu nægilega traustar til að bera klyfjaðar hestalestir og ríðandi fólk, og muni endast nokkuð lengi, heldur af því að mér virðist vera að ástæðulausu brugðið út af (ólæsileg 4 orð) reglum, sem bæði snerta burðarmagnið og endinguna, og það er því fremur varhugavert, að (ólæsileg 2 orð) sjást á þessum brúm, sem liggja í þjóðbraut, sem þær eru hafðar til fyrirmyndar við þess konar mannvirki á sýslu- og sveitavegum, og getur það orðið því skaðlegra í höndum þeirra manna er ekki þekkja neinar brúarsmíðareglur; sem (ólæsilegt orð) búast má við að efni í þær fáist oft ekki eins vandað og í landssjóðsbrýrnar.
Ég ætla aðeins að minnast á þær brýr , sem hér eru næstar, og það sem sagt verður um þær á auðvitað við um allar brýr með sömu gerð.
Á Haukadalsbrúnni hér í Dölum eru neðri endar á uppihaldssperrunum að norðanverðu aðeins látnir ganga að sléttum stöplinum og ekkert sæti gert fyrir þá í stöpulinn, en festir við brúarmeiðana með járngaddi spottakorn frá brún stöpulsins. Af þessu leiðir, að mikið af þunga brúarinnar liggur á þessum stað á brúarmeiðunum sjálfum, í stað þess að þunginn af miðkafla brúarinnar á með sperrunum allur að flytjast á stöpulinn. Þessu hefði verið hægt að koma við með því að láta vera stall á framhlið brúarstöpulsins fyrir neðri enda sperrukjálkanna. Ég þori að fullyrða, að það er regla bæði við húsasmíði og brúa, þegar hafðar eru sperrur til að halda uppi bita eða brúartré, að láta neðri enda sperrukjálkanna liggja á sjálfri hliðarundirstöðunni, eða sem næst henni að hægt er, hvort sem sú undirstaða er veggur á húsi, brúarstöpull eða eitthvað annað, en láta hann ekki liggja einhvers staðar á eða binda hann einhversstaðar við bitann eða brúarmeiðinn, sem sperran á að halda uppi langt frá hliðarundirstöðunni.
Á Hvítárbrúnni eru neðri endar uppihaldssperranna látnir ganga inn í brúarstöplana, og hlaðið utan um þá. Þetta er óþarft, því nægilegt hefði verið að láta þá liggja á þar til gerðum stalli á brúarstöplunum. Ég þori líka að fullyrða, að það er rétt regla, að hlaða aldrei utan um tré í grjótvegg, nema brýna nauðsyn beri til, og þegar ekki verður hjá því komist, þá að búa til vatnsþétt og rakaþétt lag utan um tréð, til þess að verja það fyrir raka þeim, sem ávallt kemur á steininn, þegar hitabreyting verður. Mér hefur verið sagt að “asphalt” pappi hafi verið hafður utan um sperrutrésendana á Hvítárbrúnni, en þótt svo hafi verið, get ég ekki séð, að með því séu endarnir nægilega tryggðir fyrir vætu, því tréin ganga skáhallt ofan í steinvegginn, svo vatn getur ávallt runnið ofan með trjánum, og sjá þá allir, að það hlýtur að feyja þau með tímanum.
Mér er það alveg óskiljanlegt, að aðrir eins smíðagallar og þessir skulu sjást eftir mann, sem er vanur og reyndar húsasmiður, og annars yfirhöfuð að tala einhver fjölhæfasti og atkvæðamesti smiður á landinu.
Til þess að bæta úr þessum smíðagöllum á brúnum virðist mér besta eða jafnvel eina ráðið við Hvítárbrúna, að höggva hleðsluna utan af sperrukjálkaendunum, og ganga svo frá þeim, að loft geti leikið um þá tálmunarlaust og vatn ekki staðnæmst við þá.
En Haukadalsárbrúin og þær brýr sem eru með sama frágangi og er á norðurenda hennar, er auðvitað best að bæta á þann hátt, ef hægt væri, að festa einhverri nægilega tryggri undirstöðu úr járni eða steini undir sperrukjálkaendana innan í brúarstöpulinn sjálfan. En með því að þessir brúarstöplar munu flestir hlaðnir úr mjög hörðu grjóti, og því örðugt að höggva í þá holur, yrði að líkindum hægara að festa sperruendana upp í brúarmeiðana rétt við stöpulinn með hæfilega gildum járnspöngum. Að þessu gæti að sjálfsögðu orðið mikill styrkur.
Þegar ég hef farið yfir Haukadalsárbrúna, hefur mér dottið í hug, hvað skarpi hryggurinn, sem er á miðri brúnni, líkt og mænir á húsþaki, á að þýða. Þetta húsþakslag mun vera á flestum brúnum á þessari leið, og eftir því, sem mig minnir, er hann mismunandi hár. Mér datt fyrst í hug, að hryggurinn væri til þess hafður, að vatn gæti ekki staðnæmst á brúargólfinu, en þegar ég athugaði þetta nákvæmar, sá ég að þetta gat ekki verið, því beggja vegna við hrygginn eru lægðir í brúna, og þær svo miklar, að lítill halli mun vera á brúargólfinu, þegar komið er miðja vegu frá hryggnum. Ég get því ekki betur séð en að þessi hryggur sé ´óþarfur, og hljóti að vera óþægilegur, ef um brýrnar ætti að aka þungum vagni.
Ég lýk svo þessum línum með þeirri ósk og von, að eftirleiðis verði haft í huga við allar brúarsmíðar á landinu, að þegar fram líða stundir, verði þær hafðar til að aka eftir þeim vögnum.
Hjarðarholti í febrúar 1900.
Guttormur Jónsson


Bjarki, 21. mars, 1900, 5. árg., 11. tbl., bls. 42:
Guðmundur Hávarðsson og A.V. Tuliníus eiga í ritdeilum um hvor leiðin sé betri, frá Héraði niður á Firði, um Fjarðarheiði eða Fagradal. Guðmundur nefnir hér marga kosti Fjarðarheiði og ókosti Fagradals og klykkir út með því að ef Fagridalur yrði fyrir valinu, yrði sá vegur lítið notaður.

Akbrautin fyrirhugaða.
Grein mín í Bjarka 9. f.m. um akveg frá Héraði til fjarða hefur Axel sýslumaður Tulinius á Eskifirði nú svarað í Austra 10. þ.m. Hann segir að grein mín, og annað, sem fram hefur komið í Bjarka um þetta mál, sé skrifað til þess, að spilla fyrir akbrautarlagningu um Fagradal til að samtengja Héraðið og firðina. Eftir því að dæma á mér ekki að hafa gengið annað en illgirnin ein til að rita greinina, en þeirri aðdróttun sýslumannsins verð ég að beina frá mér sem alveg ástæðulausri og ósannri.
Ég áleit, og álít enn, skyldu mína að segja skoðun mína afdráttarlaust á því, hvar heppilegast mundi að leggja þessa umræddu akbraut; þetta gerði ég þá aðeins lauslega en skal nú betur sýna fram á hið sama, og það engu síður fyrir það, þótt sýslumaður þykist virða dóm minn að vettugi. Ég vildi ekki bjóða honum út í því að dæma brotlega trollarakapteina enda þótt slíkt lægi innan míns verkahrings, en í því að dæma um akbrautarlagningu á Fagradal og Fjarðarheiði ætla ég að bjóða honum út og mega óhlutdrægnir menn, sem þekkingu hafa á þeim efnum, skera þar úr málum milli okkar.
Þá mætti svo virðast af grein sýslumanns sem þessi akbrautarlagning um Fagradal væri þegar útkljáð mál. Hann kemst svo að orði: “Í lögum 13. apríl 1894, 3. gr. stendur, að flutningabraut skuli vera frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal til Lagarfljóts”. Og svo bætir hann við, að þessi ákvörðun í lögunum sé auðvitað tekin eftir að kostir og ókostir á Fagradal og öðrum vegum milli Héraðs og fjarða hafi verið vegnir hver á móti öðrum.
En þrátt fyrir þetta langar mig þó til að vega Fagradal og Fjarðarheiði hvort á móti og reyna að sýna mönnum hvor þessara fjallvega ætti að verða þyngri á metaskálunum.
. Sýslumaður hefur það eftir Páli vegfræðingi, að brattinn á Fagradal þurfi hvergi að vera meiri en 1 á móti 15. Ég get aftur á móti sagt eftir lærðum mannvirkjafræðingi, sem ég hef orðið samferða yfir Fjarðarheiði, að brattinn á henni Seyðisfjarðarmegin (og um annan bratta er ekki að tal) þyrfti ekki að vera meiri en 1 á móti 20 þar sem brattast yrði.
. Vegalengdin frá Búðareyri við Reyðarfjörð að brúarstæðinu á Lagarfljóti verður rúmum þriðjungi lengri en af Seyðisfjarðaröldu á sama stað.
. Vegarspottinn af melunum fyrir innan Seljateig og upp á varp á Fagradal mundi verða svo afardýr, að eflaust mætti leggja helmingi lengri veg á Fjarðarheiði fyrir þá fjárupphæð sem til hans gengi, og viðhald vegarins á þessum litla spotta mundi kosta mikið fé árlega, þar sem viðhald vegarins á Fjarðarheiði mundi litlu nema.
. Snjóþyngsli á Fagradal Reyðarfjarðarmegin eru oft svo mikil að undrum gegnir. Til að sjá það og skilja, að snjórinn kreppir þar að frá dölunum umhverfis, þarf ekki hálærða menn. Allt öðruvísi er þessu varið á Fjarðarheiði. Snjó leggur mjög jafnt á hana, og þar sem ég álít að akbrautin yrði lögð ætla ég að hagi svo til, að hún lenti sjaldan undir snjó allan veturinn, að minnsta kosti mjög seint að haustinu og kæmi upp snemma að vorinu.
. Þó hægt verði að aka yfir Fagradal stuttan tíma úr sumrinu, þá er ekki um vetrarakstur að tala eftir honum, því til þessa er hann gjörsamlega ófær. Annað mál er um Fjarðarheiði; yfir hana má aka allan veturinn.
. Þó svo færi, að akbraut kæmist á um Fagradal, mundi hún lítið sem ekkert vera notuð. Héraðsmenn mundu eftir sem áður sækja vörur sínar á Seyðisfjörð á hestum sínum eins og nú. Til þess að koma að fullum notum, verður akbrautin að liggja til höfuðkaupstaðarins.
. Seyðisfjörður hefur þar margt til síns ágætis fram yfir Reyðarfjörð. Þar er óefað sú höfn hér á Austfjörðum, sem flest skip koma við á. Viðvíkjandi innsiglingu á Seyðisfjörð og Reyðarfjörð skal ég nefna tvö dæmi. Veturinn 1884 í mars kom ég frá Noregi með gufuskipinu “Nordkap” frá Bergen til Seyðisfjarðar. Hér um bil 20 mílur undan landi kom þoka á, en skipstjóri kvaðst óhræddur leggja inn til Seyðisfjarðar af því innsiglingin þangað væri svo góð. 1895 í nóvember kom ég einnig frá Noregi með gufuskipinu “Alf”, kaft. Torland, sem mörg ár hafði verið stýrimaður eða kafteinn með skipinu hér við land. Við komum upp undir Reyðarfjörð í glaða tunglskini og besta veðri og sáum Seleyna. En kafteinninn treysti sér ekki til að leggja inn og urðum við að bíða úti fyrir alla nóttina. Það sem hann bar fyrir var hræðsla við svokallaðar “Brökur” og svo straum er kynni að vera. Hvers mætti vænta af ókunnugum kafteini þar sem gagnkunnugur maður þorði ekki annað en að vera svo varasamur?
Hve miklu fé þyrfti líka ekki að kosta til, til viðbótar við vegalagninguna á Fagradal, áður jafngóðar jafn góðar bryggjur væru komnar í Reyðarfirði og nú eru hér á Seyðisfirði?
Og hvers vegna ættu menn svo að velja lengri leiðina í stað hinnar styttri?
Lagarfljótsbrúarefninu sleppi ég að sinni, af því ég hef heyrt, að Thor E. Tulinius sé búinn að takast á hendur að koma því að brúarstæðinu. En líklega verður því veitt eftirtekt, hvort ekki hefði mátt koma því fljótlega aðrar leiðir en um Fagradal og einnig, hvort ekki hefði mátt spara landssjóði nokkrar krónur með því, að auglýsa flutninginn í blöðunum hér og gefa mönnum á þann hátt kost á að vera fleirum um boðið.
Seyðisfirði 14. mars 1900.
Guðmundur Hávarðsson


Austri, 27. mars, 1900, 10. árg., 10. tbl., bls. 37:
Austri fylgist vel með fréttum af Lagarfljótsbrúnni og það eru einnig fréttir að ekkert sé að frétta.

Lagarfljótsbrúin.
Þá síðast fréttist frá Kaupmannahöfn, var ekkert afráðið um það, hver flytti hingað til lands brúarefnið, og því síður, hvar því verður skipað í land.


Þjóðólfur, 27. mars, 1900, 14. tbl., 53. árg., forsíða:
Í 5. kafla greinaflokks um framfærslu á mýrarflóum, segir Sigurður Sigursson að framfærslan hlyti að vera vegabót á mörgum stöðum, en ekki er það útskýrt nánar.

Um framfærslu á mýrarflóum.
..Samfara öðrum kostum framfærslunnar, hlyti hún einnig , að því er Flóann snertir, töluvert að bæta umferðina, eða með örðum orðum vera vegabót þar á mörgum stöðum.


Þjóðólfur, 30. mars, 1900, 52. árg., 15. tbl., bls. 59:
“Ferðamaður” skrifar um nauðsyn þess að reist verði gistihús á Lækjarbotnum og að bóndinn þar fái styrk frá hinu opinbera til að reka það.

Gistihús á Lækjarbotnum.
Eins og flestum er kunnugt, eru brýr og vegir mestu framfarirnar í landinu. Eru nú komnir góðir vegir frá Reykjavík austur á Eyrarbakka yfir þveran Flóann og yfir Holtin og eru því vetrarferðir miklu meiri en áður; en svo er eitt athugavert, að á þeirri leið er óvarðaður vegur upp í Svínahraun og getur slíkt orðið mjög að slysi á vetrardag, sbr. Indriðavilluna í vetur, og svona mætti telja mörg dæmi. Þá teljum við ferðamenn einnig mjög illa farið, að ekki skuli vera gistihús á Lækjarbotnum. Þar eru ónóg hús til gistingar og þó hljóta allir að viðurkenna, að þar þyrfti að vera reglulegt ferðamannahæli. Sannleikurinn er, að við ferðamennirnir yrðum illa staddir, ef ábúandi Lækjarbotna hýsti engan mann, eins og búast mætti við undir svona löguðum kringumstæðum, þar sem ábúandinn þar hefur beiðst styrks, en ekki fengið, en ábúandinn á Kolviðarhóli hefur 150 kr. styrk árlega, leigulausa íbúð í húsinu og ókeypis ljós og má telja það eitt hið þarfasta, er veitt hefur verið af því opinbera, því að ekki væri gott að menn yrðu reknir á dyr inn á fjöllum. Að vísu kunna menn að segja, að Lækjarbotnar séu sveitajörð, en svo mikið er víst, að allir hagar eru þar stórskemmdir sökum umferðarinnar og mikið ónæði og uppistöður þar.
Það er því einhuga vilji og ósk allra þeirra, er um þennan veg fara, að stjórn landsins veiti styrk til þess að reist verði gistihús á Lækjarbotnum og að ábúandi Lækjarbotna fengi styrk sem sæluhúsvörður þar.
Ferðamaður.


Ísafold, 4. apríl, 27. árg, 18. tbl., forsíðu:
Sigurður Pétursson, verkfræðingur, skrifar greinina “Um vegi og brýr á aðalleiðinni frá Reykjavík austur í Holt” og gerir ýmsar athugasemdir við vegi og brýr.

Um vegi og brýr
á aðalleiðinni frá Reykjavík austur í Holt
Fyrri hluta marsmánaðar ferðaðist ég austur um sveitir til þess að skoða húsabyggingar. Eins og mönnum mun kunnugt, er í fjárlögum nú veitt fé til rannsókna á byggingarefnum landsins og leiðbeiningar í húsabyggingum; og hef ég verið valinn til þess að hafa á hendi það starf, sem þessi fjárveiting gerir ráð fyrir.
Þessi ferð var byrjun í þá átt, að fá ljóst og áreiðanlegt yfirlit yfir ásigkomulag húsakynna vorra til sjávar og sveita, eins og það nú er. Ég áleit rétt að fara af stað í þessar leitir um þennan tíma árs, því þá rekur maður áreiðanlega augun í ýmislegt, sem ekki sést að sumrinu til og menn muna þá heldur ekki eftir að kvarta um.
Ég ætla þó ekki að fara að gefa hér skýrslu um athuganir mínar viðvíkjandi húsakynnum; þær munu koma síðar; ég ætla aðeins að geta ýmislegs, er ég veitti eftirtekt viðvíkjandi vegum og brúm á aðalleiðinni austur; um vegina er nefnilega að sínu leyti eins ástatt og húsin, að það sést oft ekki fullkomlega fyrr en á vetrum, að hverju leyti vegarval og öll tilhögun hefur verið hyggileg eða ekki. Að minnsta kosti á sú hliðin ávallt að vera sá reynsluskóli sem byggt er á eftirleiðis. Ég hef þá ástæðu til að birta þessar athuganir, að vér erum of fátækir til þess að láta nokkurt tækifæri ónotað til fræðslu um það, er reynslan sýnir að betur má fara.
Um leiðina upp úr Reykjavík er það að segja, að henni er stórum betur hagað en áður var; þó hefði ávallt legið næst, að halda leiðinni úr miðbænum austur með sjónum. Sú leið var í byrjun eðlilegust og útfærsla bæjarins austur á við (húsin fyrir austan landshöfðingjatún og norðan Laugavegar) krefst þar vegar nú, þó seint sé.
Í haust hefur verið borið ofan í all langan kafla af leiðinni inn að Elliðaánum. Hvers vegna haustið og fyrri hluti vetrar hefur verið valinn til þessa, skilst mér ekki; þó má vera, að það styðjist við einhverja reynslu og megi til sanns vegar færa. Allmikið af þessum ofaníburði hlýtur að berast burtu við leysingar að vetrinum og vorinu; sömuleiðis verður brautin þungfær í fyrstu leysingum.
Á þessum tíma lá allmikið af veginum frá Lækjarbotnum austur yfir Hellisheiði undir fönn og klaka, svo þennan hluta gat ég ekki séð til fulls. Allt það, sem ég sá, bar þess ljósan vott, að viðhaldið er ekki eins gott og æskja mætti; skurðir hafa mjög víða hrunið saman eða fyllst, og víða komin skörð í vegarbrúnir. Þetta fer auðvitað saman við það, að litlu fé mun árlega varið til viðhalds þessari leið.
Á þessum tíma var eingöngu farin gamla leiðin yfir Hellisheiði (upp Hellisskarð). Vörður þar eru margar fallnar, og liggja sumar við falli; og er það illt, með því að þetta er þrautaleið yfir heiðina á vetrum í snjóalögum. Syðri leiðin (nýi vegurinn) var vörðuð í haust, sem leið, og hefur að líkindum farið til þess töluvert fé. Nokkru af þessu fé hefði, að mínu áliti, sjálfsagt átt að verja til þess, að hlaða upp vörður á gömlu leiðinni, því reynslan sýnir, að sú leið verður ávallt styst og fjölförnust á vetrum.
Leiðin niður Kamba og allt þar fyrir austan var snjólaust.
Í Kömbum var vegurinn góður og heldur sér vel, en mjög örðugur vagnvegur verður hann, ef á það á að reyna; hallinn mikill og krókar krappir.
Vegurinn frá Heiðinni að Gljúfurá hefur haldið sér vel; en á þessum kafla er brúm miður hyggilega fyrirkomið og óþarfir krókar á stefnum. Brýr vantar yfir Gljúfurá og Bakkaholtsá. Þegar það kemur til athugunar að brúa þær, sem ekki mundi þurfa að hafa neinn stórvægilegan kostnað í för með sér, þá rekur maður fyrst verulega augun í ósamræmið í vegarstefnum hér, því kaflinn milli ánna liggur þannig, að hann ætti ekkert skylt við aðalleiðina.
Lagði vegurinn yfir Ölfusið endar við Köguðarhól. Ef hugsað verður til þess að halda áfram veginum austur að Ölfusárbrú í sambandi við vagnflutninga, liggur beinast við að taka stefnuna sunnan við Köguðarhól beinustu leið á brúna. Að halda við leiðinni með fram Ingólfsfjalli og þaðan niður að brú, svo að hún verði akfær, hlýtur að hafa töluverðan kostnað í för með sér.
Um Ölfusárbrúna verð ég að geta þess, að mér finnst athugaverð “uppskrúfunin”, eins og hún er nú gerð hvað eftir annað. Brúin er of falleg og dýr til þess, að hún sé skemmd fyrir vangá. Ef brúin heldur ekki nokkurn veginn lagi sínu um stund, verður að aðgæta fleira en uppihaldsstengurnar. Mér finnst að minnsta kosti engin vanþörf að veita þessu frekari eftirtekt, og ætti að láta mannvirkjafræðing landsins einn segja fyrir um, hvenær og hve mikið eigi að hreyfa við skrúfum.
Um Flóaveginn get ég verið stuttorður; hann var góður og greiðfær yfirferðar. Ég get þó ekki bundist orða um það, að á honum eru alveg óþarfir krókar á nokkrum stöðum. Á öllum veginum vottaði fyrir holklaka meira og minna, en við því hefur ekki verið hægt að gera. Á löngum köflum er vegurinn púkklagður, en á púkklagningunni eru miklir gallar. Vegurinn átti að vera 6 álna breiður, en með púkklagningunni verða tæpar 5 álnir færar af breidd hans á æði mörgum stöðum. Mulningurinn (púkkið) heldur sér vel og gerir veginn góðan fyrir lestarferðir og vagnflutninga en harðan fótgangandi mönnum. Ef púkklagið hefði verið rétt lagt, mundi hann hafa fullnægt öllum skilyrðunum þremur. Ennfremur verð ég að geta þess , að við hverja rennu er lægð í veginum. Á kaflanum næst Ölfusá vantar fráræsluskurði. Nálægt Bitru hafa vegarskurðir verið stíflaðir. Víða sést á leiðinni, að uppgröftur úr skurðum hefur ekki gengið til vegarins, heldur verið lagður upp á skurðabakkana að utanverðu og hefur vatnið sumstaðar flutt hann aftur niður í skurðina.
Þjórsárbrú er lagleg og lítur vel út. Veita þarf eftirtekt vestari brúarstöplinum; honum getur fljótt hætta búin af frostum og jakaburði Ennfremur þarf að lengja fráræsluskurðinn Holtamegin vestur og suður fyrir eystri stöpulinn.
Um Holtaveginn er það að segja að vegarstefnan er vel valin, liggur beinustu leið milli Þjórsárbrúar og Rauðalækjabrúar. Vegurinn liggur í heild sinni laglega með löngum, beinum köflum og reglulegum bogum á milli. Vegurinn hefur haldið sér vel þar sem ofaníburður var góður (í öllum vestari kaflanum). Á austari kaflanum varð eingöngu að nota sand til ofaníburðar og hann hefur fokið burt á löngum köflum. Fráræsluskurðir eru margir, en þó þarf slíka skurði á 2-3 stöðum enn, þar sem runnið hefur yfir veginn. Fyrir holklaka vottar aðeins á 2 stöðum.
Ég hef þá farið fljótt yfir einstök atriði þess, sem ég veitti eftirtekt á þessari leið. Sérstaklega rekur maður augun í, hve vegarlagningin yfir Ölfusið er samræmislaust og öll í bútum. Þegar leið þessa á að fullgera, gerir þetta töluverða erfiðleika og aukakostnað.
Ennfremur vil ég geta þess, að það er einkar eftirtektarvert, að allir vegakaflar, sem liggja yfir mýrar, hafa haldið sér best og virðast munu þurfa lítinn viðhaldskostnað.
Þetta er einkar mikilsvert hjá oss, þar sem eftirlit og viðhald er svo ófullkomið. Almennt má segja að vegir þeir sem landssjóður er búinn að leggja, kosti of mikið fé til þess, að láta þá vera eftirlitslausa og viðhaldslitla, enda þekkist það ekki hjá nokkurri annarri þjóð. Vér gætum eins látið stórbrýrnar, sem gerðar hafa verið á síðustu árum, vera umsjónar- og eftirlitslausar. Þetta virðist þing og þjóð þurfa að athuga frekar. Þegar fé er lagt til einhverra nývirkja, þarf ávallt að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að þau gangi ekki úr sér fyrir tímann.
Reykjavík, í marsmánuði 1900.
Sigurður Pétursson
Ingeniör.

Austri, 8. apríl, 1900, 10. árg., 11. tbl., bls. 40:
Hér gagnrýnir Stefán Þórarinsson grein Guðmundar Hávarðssonar, sem birtist í “Bjarka”. Guðmundur hefur greinilega haldið því fram að miklu betra væri að leggja veg af Héraði til Seyðisfjarðar um Fjarðarheiði en til Reyðarfjarðar um Fagradal, en Stefán er því aldeilis ósammála.

Svar til Guðmundar Hávarðssonar.
Ég er einn af þeim mörgu, sem ekki kaupi Bjarka, en fæ þó einatt reykinn af réttum hans að láni. En þetta er nú svo sem ekki með neinni reglu sem hann ranglast hingað, og verður því oft dráttur á að ég sjái stóru stefin hans, þannig fór það þegar nr. 5 þ.á. gekk um kring, það hafði liðið æði tími frá útkomu þess, og því kom G. Hávarðsson og akvegurinn hans svo seint fyrir mínar sjónir.
En með því að þetta átti meðfram að verða dálítið svar til Guðmundar upp á þessa grein í 5. tbl. Bjarka, þá mun best að halda sig við efnið, en ekki láta farast eins og honum, er setur yfir grein sína: “Akvegur frá Héraði til Fjarða”, en helmingur greinarinnar gengur út á að fjasa um brúna á Lagarfljót, hvert henni skuli stefna o.s.frv. Það er tvennt, annað hvar heppilegast er að leggja veginn milli Fjarða og Héraðs, og flutningur á Lagarfljótsbrú. Á fyrirhuguðum akvegi ekur Guðmundur hvorki brúarefni né öðru, enda er mjög sennilegt, að brúin verði fyrr komin á laggirnar en akvegurinn, svo samband þar á milli nær engri átt.
Öllum kemur víst saman um það, beinlínis af reynslunni, að snjó tekur fyrr upp af láglendi en uppi í fjöllum. Og það er eitt af helstu spurgsmálunum, þegar um veg er að ræða, hve lengi hann standi auður. Fjarðarheiði liggur nær helmingi hærra, en Fagridalur, og ef t.d. Fjarðarheiði er undir snjó 2/3 hluta af árinu en Fagridalur ekki nema helming. Hvað segir G. um það, skyldi það engu muna?
Þar sem G. talar um vegalengdina, að hún sé nær helmingi lengri yfir Fagradal, þá fer hann þar skakkt, því Fagridalur er ekki nema rúmum þriðjungi lengri en Fjarðarheiði. Gæta verður G. þess einnig, að þegar allur vegurinn í brekkunum beggja megin þarf að vera sniðvegur, þá fer líklega leiðin að lengjast. Því þó t.d. að þessi akvegur komist nú á, þá verður líklega ekki svo mikið um hann, að þyngdarlögmál hlutanna breytist, nema ef vera kynni að einhver vindur hlypi í G. svo hann treystist til að flytja eftir þeim vegi sem beint lægi upp hverja brekku. Með öðrum orðum: Það þýðir ekkert að halda heiðinni fram fyrir hvað hún sé stutt, ef hún yrði lengst þegar öllu er á botninn hvolft; en þetta er ekki hægt að segja með vissu, því enn er óreynt hve mikið vegalengdin yfir heiðina lengist við sniðveginn.
Það er mjög svo vandalaust að segja þetta eða hitt beint út í loftið. Hvar hefur G. t.d. reynslu fyrir sé í því, að akvegur yfir heiðina verði miklum mun ódýrari eða viðhald vegarins miklu kostnaðarminna, svo og vegalengdin miklu minni en litlu erfiðari en yfir Fagradal.
Þetta er allt saman sem að segja, að best væri að setja niður Þófarafélag Guðmundar uppi á Bjólfstindinum til að þæfa (stampe) fyrir fólk, en á því yrðu nú samt einhverjir gallar trúlega.
Það eru víst margir gallar því til fyrirstöðu að Fjarðarheiði geti kallast “gott akvegarstæði”. Þó G. hlaupi yfir þá alla í sinni grein, þá eru þeir þó engu að síður auðsjáanlegir.
Skyldi kosta svo lítið að sprengja t.d. burt stórgrýtið og klappirnar, sem eru svo afar illar?
Ein fjarstæðan er það hjá G. að yfir Fjarðarheiði megi fara hvenær sem væri. Ég hefði haft gaman af að sjá hann með drógarnar sínar fannarhaustið mikla, þegar 50 manns köfuðu og tróðu hver fyrir öðrum yfir heiðina. Svo mun og mörgum sinnum oftar vera.
Að endingu verð ég að benda á það, að það er Reyðarfjörður sem af náttúrunnar hendi er miðdepill Austurlands, og því eðlilegast að vegurinn lægi þaðan. Eðlilega liggur það í augum uppi, að Reyðarfjörður á framtíð fyrir höndum og innan skamms vænti ég að hann verði vort höfuðból.
Hvað er t.d. Seley annað en ómissandi vitastöð til höfuðstaðar Austurlands, eins og akvegurinn um Fagradal er ómissandi samgöngubót til landsins.
Mýrum, 14. mars 1900.
Stefán Þórarinsson


Austri, 10. apríl, 1900, 10. árg., 12. tbl., bls. 44:
A.V. Tuliníus svarar grein Guðmundar Hávarðssonar í “Bjarka”, en þeir eru ósammála um hvort Hérað skuli komast í vegasamband við Firði frá Seyðisfirði eða Reyðarfirði. Tulinius segir Guðmundi velkomið að byggja loftkastala en mótmælir því að hann setji þá á prent.

Guðmundi Hávarðssyni svarað.
Þótt ég hefði ásett mér ekki að svara neinum fleiri greinum eftir Guðmund Hávarðsson vegna þess, að lýsing hans á Fagradal glögglega sýnir, að hann aldrei hefur í Fagradal komið og því engum kunnugum mönnum gat blandast hugur um, ef hann af einhverri ástæðu hefði sett sig út til að rita um það, sem hann hvorki hefði vit né þekkingu á, þá get ég samt ekki stillt mig um að benda mönnum á öfgar í greininni hans í “Bjarka” 21. f.m., sem jafnvel eru auðsjáanlegir fyrir menn ókunnuga dalnum eða heiðinni.
Guðmundur Hávarðsson, - sem allt í einu gefur sig út fyrir vegfræðing án þess að skiljanlegt sé hvernig hann hefur orðið það, þar hann aldrei mun hafa fengist við þess konar störf, að minnsta kosti hefur honum að því að mér er kunnugt aldrei verið trúað fyrir að standa fyrir vegalagningu hér á landi, og í Noregi þar sem hann mun hafa dvalið eitthvað, var hann eftir því sem hann sjálfur hefur sagt mér við ýmislegt annað en við vegavinnu, svo þar hefur hann varla orðið fullnuma í þeirri íþrótt – byrjar á því, að lýsa því yfir að hann þori að bjóða mér út í þeirri grein.
Ég játa það fúslega, að ég ekki skoða mig sem “authoritet” í þeim sökum, en ég vil þó þrátt fyrir bresti mína þar að lútandi nauðugur láta setja mig í klassa með Guðm. Hávarðssyni, því eins og ég mun sýna, ber umrætt svar hans vott um, að hann vantar einnig annað, sem jafnvel er verra að vanta í þessu máli, en þekkingu sem vegaverkfræðingur.
Hann tekur upp úr svari mínu “citat” mitt úr mælingagerð Páls verkfræðings Jónssonar, þar sem Páll segir, að frá Búðareyri og á Fagradalsbrún Héraðsmegin þurfi hallinn á veginum hvergi að vera meiri en 1 á móti 15, og segir svo að einhver “lærður mannvirkjafræðingur”, sem hann samt varast að nefna hafi sagt sér, að brattinn upp Fjarðarheiði Seyðisfjarðarmegin þyrfti hvergi að vera meiri en 1 á móti 20, en um annan bratta væri ekki að ræða á Fjarðarheiði.
Þessi klausa hans sýnir greinilega hve fáfróður Guðm. Hávarðsson er í þeim sökum, er hann ritar um. Brattinn upp Fjarðarheiði Seyðisfjarðarmegin er ca. 1 á móti 4, sem er afar bratt eins og sjá má á því, að eigi er hægt að aka upp brattari veg en 1 á móti 10. Vegurinn upp Fjarðarheiði, sem er um 2000 fet á hæð, yrði að leggja í einlæga krákustíga, sem gerði hann mikið lengri. En á Fagradal er öðru máli að gegna, þar verður vegurinn lagður krákustígalaust beint frá Búðareyri og gegnum allan dalinn. Þetta er það, sem ég átti við, er ég “citeraði” mælingu Páls, en þetta gat Guðmundur ekki skilið.
Í sambandi við þetta skal ég geta þess, að vegastæðið Seyðisfjarðarmegin á Fjarðarheiði gerir það ef ekki alls ómögulegt að leggja akveg upp heiðina, þá að minnsta kosti nærri ómögulegt, því það er klettur einn, og þyrfti að sprengja út veginn upp fjallið með afar kostnaði; ennfremur álít ég óþarft að svara því, að enginn bratti sé á Fjarðarheiði nema Seyðisfjarðar megin; ef Guðmundur Hávarðsson ekki getur séð bratta Héraðsmegin á Fjarðarheiði, er það óbrigðul sönnun þess að hann aldrei hefur komið í Fagradal, eftir því hefði hann sjálfsagt hlotið að vera í hans augum meira en láréttur, jafnvel hola, og hefði hann þá ekki getað talað um hann öðruvísi.
Hvað umsögn Guðm. Hávarðssonar um vegaspottann fyrir innan Seljateig og upp á varp á Fagradal snertir, þá er hún ósönn frá byrjun til enda. Vegastæðið er ágætt þar, eins og yfir höfuð allstaðar í Fagradal og efni hið besta þar og annars staðar.
Snjóþyngsli eru auðvitað mikið minni en á Fjarðarheiði, sem liggur yfir 1000 fetum hærra en Fagridalur, sem hvað snjólagningu snertir er líkt settur og byggð við sjóinn, t.d. hefur mátt aka í allan vetur gegnum Fagradal og hefði vegurinn alltaf verið upp úr. Á sumrin er dalurinn runninn c. 6 mánuði, Fjarðarheiði c. 3; á heiðinni mundi vegur undir snjó í c. 9 mánuði og á þeim tíma sem enginn vegur væri, en á Fagradal mætti nota veginn svo gott sem ætíð; ef Guðmundur Hávarðsson ætlar að komast hjá þeim galla, verður hann að byggja veginn í loftinu einar 12 álnir fyrir ofan jörðina.
Ég hygg nú annars að það einasta sem Guðmundur verði látinn byggja, verði loftkastalar og er honum það velkomið, en ég “protestera” móti því, að hann setji það á prent.
Þvættingi Guðmundar Hávarðssonar um innsiglinguna á Seyðisfjörð og Reyðarfjörð, sem einungis ber vott um það, að hann er jafn ómögulegur á sjó sem landi, nenni ég ekki að svara, þar það er óviðkomandi þessu máli, einungis mótmæli ég því öllu og sérstaklega finn ég ástæðu til að mótmæla því, að skipstjóri Torland á “Alf”, sem ég þekki persónulega sem duglegan sjómann, sé eins ónýtur sjómaður eins og hann hlyti að vera, ef það væri satt, að hann í glaða tunglskini ekki þyrði að taka Reyðarfjörð, þegar hann sá Seley.
Að endingu vildi ég stinga upp á því við Guðmund frænda minn Hávarðsson, að hann yrði mér samferða einhvern tíma gegnum Fagradal, svo ég gæti gengið úr skugga um, hvort hann virkilega í alvöru vill bera saman Fagradal og Fjarðarheiði, því ég hef hann sterklega grunaðan um að vera að gera “grín” að Fjarðarheiði.
Eskifirði 5. apríl 1900.
A.V. Tuliníus.


Ísafold, 18. apríl, 27. árg, 21. tbl., bls. 84:
Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur svarar hér Sigurði Péturssyni verkfræðingi, sem hafði ýmislegt út á Suðurlandsveginn að setja í grein í 18. tbl. Ísafoldar. S.Th. finnst lítið til gagnrýni S.P. koma, segir hana alveg órökstudda og að þessi nýútskrifaði verkfræðingur hafi ekki vit á íslenskum vegamálum.

“Um vegi og brýr” o.s.frv.
Hinn heiðraði kollega minn; Sigurður Pétursson, hefur fundið köllun hjá sér til þess að fara að segja álit sitt “um vegi og brýr á aðalleiðinni frá Reykjavík austur í Holt”. – Hann birtir þetta álit sitt í þremur dálkum af 18. tölubl. Ísafoldar þ.á. Hann segist hafa þá ástæðu til að birta þessar athugasemdir, að “vér erum of fátækir til þess að láta nokkurt tækifæri ónotað til fræðslu um það, er reynslan sýnir að betur má fara”; og þessa reynslu þykist hann svo hafa höndum tekið með því að fara eftir veginum ríðandi snögga ferð austur í Holt um hávetur. Þar sem aðrir mennskir menn þurfa, jafnvel á sumrum, langan tíma til þess að mæla upp vegi og sjá út, hvar þá eigi að leggja, sér hann með einu augnbragði af hestbaki, hvernig þeir eiga að vera, þarna sé óþarfur krókur, þarna sé óþarflega mikill halli á veginum og þar fram eftir götunum. Þegar svo tekið er tillit til þess, að þessi maður er nýskroppinn frá examensborðinu, hefur ekki fengist neitt við vegagerð verklega, og aðeins – það ég frekast veit – séð vegi á sléttlendi, svo sem í Danmörku, en ekki í fjallalöndum, og hefur svo höfuðið fullt af lærdómi þeim, sem hann nýlega hefur lesið í (ólæsilegt orð) vegagerða kennslubók og sem að mörgu leyti alls ekki á við hér á landi, þá er það hálfbroslegt, að hann skuli koma hingað og fara að fræða menn um vegamál, sem hann hefur ekki kynnt sér betur en með þessu ferðalagi sínu um vetrartíma.
Það er því heldur ekki að búast við, að það sé neitt verulegt að græða á þessari (ólæsilegt orð). Það er aðeins ferðapistill, sem hver greindur og eftirtektarsamur maður hefði geta skrifað eins vel; þessi pistill er fullur af sleggjudómum og órökstuddum staðhæfingum; til dæmis má taka: “á þessum kafla (frá Hellisheiðinni að Gljúfurá) er brúm miður hyggilega fyrir komið og óþarfa krókar á stefnum”, - búið – engin rök; það er enginn meiri vandi að slá þessu fram heldur en að segja : “á þessum kafla er brúm mjög hyggilega fyrir komið og engir óþarfa krókar á stefnunni”. Hvort tveggja eru staðhæfingar, sem geta eins vel staðið, á meðan rök vantar. Flest annað í greininni er þessu líkt. Og þegar maður svo les einn af hinum síðustu sleggjudómunum: “Um Holtaveginn er það að segja að vegarstefnan er vel valin, liggur beinustu leið milli Þjórsárbrúar og Rauðalækjarbrúar” o.s.frv. – svo kemur löng lofrolla um Holtaveginn – þá dettur manni ósjálfrátt í hug: nú það er mágur hans, sem hann er að reyna að hjálpa; eitthvað er það að minnsta kosti undarlegt, að hann skuli ekkert hafa nema aðfinningar að veginum austur að Þjórsá, en þegar kemur austur á Holtaveginn, sem mágur hans hefur lagt, þá er þar allt með himnalagi; en verði ekki hjá því komist að geta einhvers, sem miður hefur farið; þá eru afsakanir strax við hendina (sbr. “á austari kaflanum varð eingöngu að nota sand til ofaníburðar og hann hefur fokið burt á löngum köflum”); og þetta er því undarlegra, sem mörgum öðrum sýnist sá vegur ekki hafa haldið sér vel þennan örstutta tíma sem hann hefur staðið, og virðist það fremur verið hafa hefndargjöf fyrir Holtamenn, að láta þá hafa svo illa gerðan veg.
Það er auðvitað alltaf fallegt að vilja hjálpa bágstöddum mági sínum, en þó því aðeins, að maður halli ekki réttu máli og geri ekki öðrum rangt til. Yfirhöfuð virðist þessi alda vera runnin meira frá máginum – sem var fylgdarmaður S.P. austur og sem líklega þykist eiga mér grátt að gjalda – heldur en frá greinarhöfundinum sjálfum, því annars hefði legið nær fyrir S.P. – fyrst hann endilega vildi fræða okkur um eitthvað – að segja oss dálítið um ásigkomulag húsabygginganna þar austur frá – til þess var ferðin farin – eða var ef til vill ekkert þar að að finna, eða var það ef til vill ekki eins bráðnauðsynlegt og þetta um vegina?
Ég skal svo ekki lengja þetta mál – ég skal svara honum seinna, ef hann kemur með einhverjar rökstuddar aðfinningar – en bæði af því að þetta snertir mig að nokkru leyti, þar sem ég hef mælt upp nokkuð af þessari leið, og svo af því að það var einhverskonar “autoritets” stimpill eða “myndugleika” bragð að þessari grein, og ég gat ímyndað mér, að margir menn kynnu að halda, að það væri sérlega mikið að marka, hvað þessi maður segði, þá vildi ég sýna mönnum fram á, hvað mikið er varið í þessa “autoritet” þegar hún kemur fram eins og hér í þessu máli. Yfirleitt held ég að landið myndi ekki stórtapa við það, þó að hinn heiðraði greinarhöfundur sýndi af sér þá þolinmæði og þá sjálfsafneitun, að láta ekki sitt ljós skína í vegamálum fyrr en hann hefur fengið einhverja verklega æfingu og reynslu í þeim efnum, því að af sleggjudómum höfum við Íslendingar meira en nóg, svo mikið að varla er á það bætandi.
Reykjavík 9. apr. 1900.
Sig. Thoroddsen ingeniör.


Ísafold, 21. apríl, 27. árg, 22. tbl., bls. 87:
Hér svarar Erlendur Zakaríasson vegaverkstjóri gagnrýni Sigurðar Péturssonar verkfræðings varðandi lagningu Suðurlandsvegar frá Reykjavík austur í Holt. E.Z. gefur m.a. skýringu á því hver vegna vegurinn liggur með Ingólfsfjalli í stað þess að taka beina stefnu frá Kömbum að Ölfusárbrú.

Um vegi og brýr austur í Holt.
Hr. Erl. Zakaríasson, er manna mest og best hefur stjórnað vegavinnu á austurbrautinni héðan, eða sérstaklega á háheiðinni (Hellisheiði) og þaðan austur að Þjórsá, hefur sent Ísafold býsna langt svar gegn grein hr. S.P. um þann veg (18. tbl.), of langt fyrir blaðið, en lætur sér lynda heldur en ekki eftirfarandi ágrip af því.
Hann tilnefnir 3 mikilsverðar ástæður fyrir því, að Ölfusvegurinn er ekki alveg beinn; að miða þurfti við vöð á smá ánum þar, með því að ráðgert var þá, þegar vegurinn var lagður, 1892, að hafa þær óbrúaðar, vegna féleysis; að vegurinn liggur nú betur fyrir byggðina heldur en ef hann hefði verið alveg beinn; að miklu erfiðara hefði verið til ofaníburðar með beinni stefnu og viðhald kostnaðarsamara, enda vagnar og áhöld þá ekki til. Annars mikil þörf að brúa árnar, og megi gera það mjög nálægt veginum eins og hann er nú.
Hann segir hafa mátt til vegna fjárskorts að láta sér lynda veg beint upp frá Ölfusárbrú að Ingólfsfjalli; hitt hafi hver maður séð þá þegar, að æskilegra hefði verið að mörgu leyti, að fá hann lagðan beint að Köguðarhól; en dýrt hefði það orðið vegna bleytu og 2 stórra gilja m.m. á leiðinni, auk torfengis ofaníburðar, en vegur með fjallinu sem er ógerður enn – aðeins ruddur – miklu kostnaðarminni, og liggur þar einnig beinna við væntanlegu framhaldi áleiðis upp í Grímsnes og Tungur.
Hann ber á móti því, að vegurinn yfir Flóann sé neitt til muna krókóttur nema á alls einum stað, hjá Flatholti, og var sá krókur heldur kosinn en að hafa engan ofaníburð til á 5 rasta langri leið, yfir Ásana. Fráræsluskurðaskort á Flóaveginum segir hann að reynslan hafi ekki sýnt, nú full 4-5 ár. Holklaka segir hann naumast muni vart, nema þar sem vegurinn er ekki púkklagður. Skaða eða skemmd af ónotuðum uppgrefti úr skurðum segir hann óhugsandi; slíku sé ekki að dreifa nema á 2 stöðum, en á hvorugum þeirra hafi skurðirnir neitt vatn að flytja.
Þá minnist hann á, að þótt hr. S.P. segi mikla galla vera á púkklagningunni, þá nefni hann ekki nema einn; að púkkið sé víða mjórra en vegurinn er; en það sé ekki nema á stuttum köflum milli Bitru og Skeggjastaða, og sé því að kenna, að lítið var þar um grjót og illt að mylja það.
Að öðru leyti lætur hann þess getið, að hann (Erl.Z.) hafi ekki ráðið vegarstefnunni hvorki í Kömbunum né yfir Flóann; en ekkert hafi hann við hana að athuga.
Niðurlag greinarinnar er svo látandi:
“Enginn skyldi ætla, að ég álíti að ekki megi finna eitthvað að þessu verki, sérstaklega af þeim mönnum sem koma nýir af nálinni frá útlöndum og hafa séð sams konar verk þar í fullkomnasta stíl.
Þeim er annars nokkur vorkunn, verkstjórunum hér, þótt einhverju verði ábótavant hjá þeim. Við annað eyra þeirra klingir ávallt barlómsbjallan og sparnaðaráminningar, en við hitt þau ummæli, að betra hefði verið að verkið hefði kostað dálítið meira, en verið betur af hendi leyst; og það er óneitanlega satt: með því að hroða af verkinu sparar maður aurana, en lætur krónurnar fjúka.
Það fer annars ekki að verða nein sérleg heiðursstaða að vera verkstjóri, sbr. t.d. fjárlagaræðu alþingismanns Guðjóns Guðlaugssonar í sumar. Þar eru vegavinnustjórarnir gerðir ef ekki beinlínis þjófar, þá stórkostlegir fjárdráttarmenn, og það datt engum í hug að taka svari þeirra, enda telur nú eitt blaðið okkar það einn af aðalkostum Guðjóns sem þingmanns, hvað hann hafi tekið vel í hnakkann á vegagerðarmönnum.
Hvað sem skríllinn kann að hugsa eða segja, þá þykist ég viss um, að allir hyggnari og betri menn sjái öfgarnar og ósannindin í þessari ræðu, svo hún verði að falla sínum herra.
Rvík 12. apríl 1900. Erl. Zakaríasson.


Ísafold, 21. apríl, 27. árg, 22. tbl., bls. 86:
“Óhlutdrægur” gerir athugasemd við grein Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðingi í 21. tbl. Ísafoldar, þar sem S.Th. var að svara gagnrýni Sigurðar Péturssonar verkfræðings varðandi Suðurlandsveginn. Inn í málið blandast kæra S.Th. á hendur vegaverkstjóra, mági S.P., fyrir fjársvik.

Óviðfelldin brigsl.
Það er leitt að hr. landsverkfræðingur Sig. Thor. skuli hafa styggst svo sem hann hefur gert við grein hr. Sig. Péturssonar í Ísafold um daginn, svo áreitnislaus sem hún virðist þó vera rituð. Það er leitt vegna þess, að hr. S.P. er farinn af landi burt og á því ekki kost á að svara fyrir sig fyrr en eftir margar vikur eða mánuði. Fyrir því neyðist ég til að gera dálitla athugasemd við grein hr. S.Th., en auðvitað án þess að láta mér detta í hug að gera mig að dómara milli þessara einu verkfræðinga vorra að því leyti, er ágreiningur þeirra kemur nærri vísindalegri sérþekkingu.
Það er þá fyrst, að mér virðast brigsl hr. S.Th. til samiðnaðarmanns síns fyrir það, að hann geri sig að dómara um umrædda vegarlagningu nýskroppinn frá examens borðinu, láta miður vel í munni manns, sem fyrir fáum árum stóð í sömu sporum og var þó þá þegar gerður að æðsta dómara um vegamál landsins og tók þá undir eins býsna ómjúkt á því, ef hans dómar þar að lútandi voru eigi haldnir óskeikulir.
Þá getur mér og eigi skilist, að það sé réttmæt aðfinnsla við dóma hr. S.P. um vegarstefnur í Ölfusinu m.m., að þeir séu órökstuddir. Því hvernig á að rökstyðja slíkt til hlítar í stuttri blaðagrein og fyrir alls ókunnugum, svo sem eru sjálfsagt 9/10 af lesendum Ísafoldar? Þeir einir geta nokkuð um slíkt dæmt, sem farið hafa um veginn og kunnugir eru landslaginu. Annað eins er og verður ávallt álitamál; og hví skyldi álit góðs verkfræðings þurfa að vera markleysa, þótt það komi ekki heim við skoðun annars, jafningja hans?
Villandi er það og hjá hr. S.Th., að hann er að tala um ferðalag hins um hávetur, - með því að verið mun hafa alauð jörð, þegar hann var á ferðinni, enda vetur þessi mestallur verið hér sumri líkari en vetri.
Einna óviðfeldnast í grein hr. S.Th. eru brigslin um hlutdrægni af hálfu S.P. í vil mágs hans, eða ummælin um, að hann sé með grein þessari að “hjálpa bágstöddum mági sínum”, því hvaða “hjálp” getur þeim manni (E.F.) verið í því í “bágindum” þeim, er hann á í, kæru og lögsókn fyrir óleyfilegan fjárdrátt úr landssjóði, þótt hann (S.P.) eða aðrir láti vel af frágangi á þeim kafla umrædds vegar, sem hann (E.F.) hefur unnið að? Slík brigsl eru alveg út í hött, því sé maðurinn sekur, þá dregur það eigi hót úr sekt hans, þótt svo reyndist, jafnvel að dómi landsvegafræðingsins, að frágangur hans á vegagerðinni hefði verið snilldarlegur. Og sé hann saklaus, þá er ekki hægt að skerða eitt hár á höfði hans í þessu máli, þótt frágangur hans á veginum reyndist ekki betri en í meðallagi eða jafnvel miklu miður. Slíkt kemur ráðvendni eða óráðvendni ekkert við; það er sitt hvað.
Það sem hr. S.P. segir um Holtaveginn, gerir nafni hans að oflofi hjá honum, “til að hjálpa mági sínum” sem nú hefur sýnt verið fram á, að alls ekki geti verið á neinu viti byggt. Hr. S. Thor. lætur jafnframt að því skapi illa af þessum vegi, telur Holtamönnum hann hefndargjöf. Nú höfum vér fyrir satt, að allur annar sé dómur Holtamanna sjálfra og annarra, er veginn nota. Vera má, að það sé þekkingarskorti þeirra að kenna, og þar komist því eigi að orðshátturinn, að “raunin sé ólygnust”. En hitt er áreiðanlegt og kunnugra en frá þurfi að segja, að hr. S.Th. lagði þungan hug á hr. E.F. fyrir það, að hans tillaga og ýmissa hinna merkustu héraðsmanna um vegarstefnuna yfir Holtin var til greina tekin, en tillögu landsvegafræðingsins hafnað, og mun því flestum virðast engu ósennilegra af tvennu til, að hlutdrægni og hefndargirni ráði nokkuð dómi hans um verk þetta, heldur en nafna hans.
Óhlutdrægur


Fjallkonan, 26. apríl, 1900, 17. árg., 16. tbl., bls. 4:
Hér er sagt frá sýslunefndarfundi Árnesinga, en þó aðeins væru til ráðstöfunar 321,10 kr. til sýsluvega voru mörg vegamál á dagskrá.

Sýslunefndarfundur Árnesinga.
.. Í þetta sinn var vegafé kr. 1.797,22; til skuldlúkninga gengu kr. 1476,12, en aðeins kr. 321,10 til sýsluvega. Var það ráð tekið, að heimila hreppum bráðnauðsynlegar viðgerðir á sýsluvegum mót endurgjaldi að ári. Fjórum hreppum var leyft að verja hreppsvegafé til annarra vega. Veglagningaráætlun Einars Finnssonar upp yfir Skeiðin, nfl. rúml. 27 þús. kr., þótti ókleift, nema með því móti, að hlutaðeigandi hreppar legðu menn til vinnunnar, en sýslusjóður verkstjóra og hesta. Var E.F. beðinn að sundurliða, hve miklu þetta, hvað fyrir sig, mundi nema. Var sýslunefndarmönnum falið að leita vinnuloforða, en gert ráð fyrir, að áhöld og verkfæri muni landssjóður lána ókeypis er til kæmi, sem í ár hlyti að frestast. Beðið um, að Grindaskarðsvegur verði bættur. Beðið um að varðaðir verði þjóðvegir: neðan að Svínahrauni og báðum megin upp á Mosfellsheiði. Og komist ekki nýja brúin á Brúará í sumar, þá að gamla brúin yrði gerð fær í bráð. Og enn að mannvirkjafræðingur skoði brúarstæði á Hvítá og Tungufljóti. Synjað var um styrk til Skollagrófarferju; þótti æskilegra að Hvíta yrði brúuð á Brúarhlöðum, sem þar eru nokkru ofar. Lögferja var sett í Reykjanesi í Grímsnesi. Undanþága var Þjórsárholtsferju veitt frá því að hafa stórgripatækan bát, þó því aðeins, að 2 tilnefndir nágrannar, sinn hvoru megin ár, álíti það óhætt. Ný ferjulög samþykkti nefndin fyrir sitt leyti. Gufubátnum “Reykjavík” var nú enginn styrkur veittur, þar eð reynt þótti, að hér yrði hann eigi að notum. Neitað var að borga skuld fyrir að ná flutningi úr honum hér í fyrra. Óskað álits mannvirkjafræðings um að bæta hafnir hér. Beðið um aukapóst frá Hraungerði að Gaulverjabæ. Mælt með beiðni sæluhúsvarðar á Kolviðarhóli um 150 kr. styrk úr amtssjóði.


Ísafold, 28. apríl, 27. árg, 24. tbl., bls. 94:
Helgi Helgason brúasmiður svarar gagnrýni á gerð brúa á Vesturlandi og útskýrir ýmiss grundvallaratriði í brúagerð.

Vegabætur og brúasmíði.
Af því að ég er sá, sem hef staðið fyrir smíði á brúm þeim, er gerðar eru að umtalsefni í grein með þessari fyrirsögn í 14. tbl. Ísafoldar eftir Guttorm Jónsson í Hjarðarholti, þá finn ég mér skylt að minnast lítils háttar á skoðanir hans, þar eð mér finnst þær geta orðið villandi fyrir þá, sem ekki eru kunnugir, eða fyrir þá sem kynnu að takast á hendur að smíða brýr, en geta ekki aflað sér nægrar þekkingar áður.
Hann telur það galla á brúnni yfir Haukadalsá, að sperrurnar liggi ekki á þrepi, þar sem þær koma að stöplunum, og ráðleggur að tengja endann á þeim með járnum við brúartrén. Þetta er óþarfi, því að flestum mun skiljast það, að allar brýr leiti helst niður um miðjuna, en til að varna því, og til þess að brúin geti borið þunga, eru sperrurnar reistar við hlið brúarinnar, sem spyrnast í efri endann; þar liggja á þeim uppihöld úr sterkum járnstöngum, sem ná niður úr tré, er lagt er þvert undir brúna. Sperrum þessum er fest við aðal brúartrén með mjög sterkum skrúfuðum járnteinum nálægt stöplunum; nú þegar þunginn á brúnni liggur á efri enda sperranna, þá er auðskilið að spyrniaflið verður beint út frá brúnni, af því að þær eru festar nálægt neðri enda við aðal brúartrén, sem liggja ofan á stöplunum; beri svo til, að brúin svigni niður um miðjuna meira en til er ætlast, þá er auðskilið, að neðri endi sperrunnar vill leita út og upp á við, en ekki niður á við. Það er og því til fyrirstöðu, að sperran leiti niður með stöplunum, að þeir hallast frá brúnni um sem svarar 1 á móti 10; er því bilið milli þeirra þeim mun styttra að neðan en ofan.
Þá minnist höf. á brúna yfir Hvítá í Borgarfirði á Kláffossi og telur það galla, að neðri endi á sperrunum nær lítið eitt inn í stöplana.
Orsök þess að ég hafði það svo, var helst sú, að mannvirkjafræðingur Siverson, sem mældi fyrst brúarstæðið á Kláffossi og gerði uppdrætti af stöplum og vatnsopum, er áin átti að fara í genum, vildi láta brýrnar vera 2, aðra styttri sunnan við Kláffoss, sem hefði oftast verið á þurru, nema þegar vöxtur kæmi í ána. Eftir þessum mælingum og uppdráttum bað herra landshöfðinginn mig að gera uppdrætti og áætlanir af brúm. Uppdrættir þeir eru enn til. En rétt áður en ég átti að panta efni í brúna, varð sú breyting á, að afráðið var, að hafa aðeins eina brú, en nokkru lengri heldur en stærri brúin átti að vera eftir áætlun Siversons.
Þegar ég kom svo upp eftir um sumarið með brú þessa (sem ég smíðaði í Reykjavík), hitti ég Bjarna bónda á Hurðarbaki, og sýndi hann mér, hvað áin hefði farið hátt í miklum vatnavöxtum; virtist mér þá´, að fyrirstaðan á vatninu væri orðin mikil, bæði af brúarstöplum og vegarhleðslu að brúnni, þar sem hann sagði að áin hefði farið yfir; réð ég þá af að festa sem best sperrurnar í stöplana, til þess að varna því að brúin skekktist eða færi af, þótt nokkur vatnsþungi legðist á hana. Þessi aðferð var þó ekki ný, því bæði hafði ég séð slíkan útbúnað á brúm erlendis, þar sem ég veitti því eftirtekt, og sömuleiðis á brú, er Hovdenak lét gera hér á landi. Og ég sé ekki eftir því, að ég hafði það svona; því svo fór á öðru ári, eftir að brúin var lögð, að vatnsopið reyndist of lítið. Hvítá óx þá svo, að hún óð yfir báða brúarsporða og ruddi burt vegarhleðslunni einmitt þar, sem hún hafði farið yfir um áður. Hefði ég ekki fest brúnni á þennan hátt, að láta sperruendana ná 4 þumlunga inn í stöplana, - og var svo gætilega frá því gengið, að sperrugötin í stöplunum voru látin flá niður á við, til þess að vatn stæði ekki í þeim við trésendann, og endarnir huldir asfaltpappa, - þá hefði brúin eflaust farið af, þegar svona mikill og straumharður vatnsþungi lagðist á hana, og orðið alveg ónýt.
Ef nú yrði áður en langt um líður lögð brú við syðri enda þessarar brúar, og tekin burt vegarhleðsla sú, er tálmar vatninu að komast þar áfram, þá mætti ef þess er þörf, taka burt þá fáu þumlunga af sperrunum, sem nú standa inn í stöplana, fylla holuna með steini og láta sperrurnar þá ná aðeins að stöplunum.
Reykjavík í aprílm. 1900.
Helgi Helgason


Ísafold, 2. maí, 27. árg, 25. tbl., bls. 98:
Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur svarar athugasemdum “Óhlutdrægs” og má segja að þetta sé millikafli í langvinnum ritdeilum sem hófust með gagnrýni Sigurðar Péturssonar verkfræðings á gerð Suðurlandsvegar frá Reykjavík austur í Holt, en eru nú sífellt meira farnar að snúast um önnur og persónulegri málefni. Í þessari grein beinir S.Th. einnig spjótum sínum að Ísafold og birtist hér einnig svar ritstjórans.

“Óhlutdrægni”.
Einhver “óhlutdrægur” ræðst að mér í seinasta blaði Ísafoldar, út af grein minni gegn Sig. Pétursyni; hann segist “neyðast til að gera dálitla athugasemd við grein mína, vegna þess sérstaklega, að hr. S.P. er farinn af landi burt og á því ekki kost á að svara fyrir sig fyrr en eftir margar vikur eða mánuði”. “Óhlutdrægur” hefur þó líklega ekki ætlast til þess, að ég biði með að svara Sig. P. þangað til hann léti svo lítið að koma hingað til landsins aftur; því að ekki gat ég gert við því, þó að hann stigi á skipsfjöl jafnskjótt og hann hafði afhent Ísafold ritsmíði sitt; hann hefði þá heldur átt að bíða með að birta grein sína, þangað til hann kæmi aftur til landsins, svo að hann hefði getað varið afkvæmi sitt.
Það er annars einstakt dæmi um óhlutdrægni , að maður skuli af tómri óhlutdrægni neyðast til að taka upp þykkjuna fyrir S.P. og sýna svo þessa (ólæsilegt orð) óhlutdrægni með því að ráðast á mig með ósannindum og getsökum. Og ég er svo lánsamur maður, að ekki skuli margir slíkir “óhlutdrægir” menn finnast hér í Reykjavík, því að þá hefði ég ekki við að svara þeim öllum. Þó að ég nú taki mig til og svari þessum “óhlutdræg”, þá er mér samt mjög illa við að eiga nokkuð við slíka nafnlausa höfunda, sem ráðast á nafngreinda menn, því að það er eitthvað svo óhreint við þá; það er eins og þeir hafi vonda samvisku og þori ekki almennilega að koma fram í birtuna; og ég skil það ekki vel með þig, “óhlutdrægur”, hvers vegna þú ert að hylja þína björtu ásjónu; óhlutdrægur maður þarf aldrei að skammast sín fyrir nafn sitt.
“Óhlutdrægur” segir það sitji ekki á mér að finna að því, að S.P. geri sig að dómara um vegarlagningu, nýskroppinn frá examensborðinu – mér, sem fyrir fáum árum hafi staðið í sömu sporum og þá þegar gerður að æðsta dómara um vegamál landsins og þá undir eins tekið býsna ómjúkt á því, ef mínir dómar þar að lútandi eigi voru haldnir óskeikulir. Þetta er ekki óhlutdrægnislega talað af hr. “óhlutdrægum”, ef hann annars þekkir nokkuð til þess, sem hann er að fara með því að
. var ég 2 1/2 árs gamall kandídat, þegar ég kom hingað til landsins (sumarið 1893) og var þá búinn að vera meira en ár við brúa- og vegagerðir í Noregi, en Sig. P. var 1/2 árs gamall kandídat, þegar hann kom hingað í sumar er var, og hafði þó legið veikur í Höfn nokkurn tíma af þessu hálfa ári;
. er það ekki satt, að ég hafi þá þegar tekið býsna ómjúkt á þeim, sem héldu , að mínir dómar um vegagerðir væru eigi óskeikulir, því að ég hef hingað til ávallt haft það fyrir reglu að svara ekki þeim aðfinningum, sem hafa verið gerðar við mínar mælingar og mín verk; það er aðeins í eitt skipti, að ég hef brugðið út af þeirri reglu – og það á líklega “óhlutdrægur” við; - það var þegar tveir bændur úr Flóanum báru mér það á brýn, að ég hefði ekki rannsakað svonefnda syðri leið yfir Ásana, sem þeir héldu fram, að væri besta vegarstefnan, - þá lýsti ég því aðeins yfir með örfáum línum, að þeir færu þar ekki með rétt mál; og þetta var árið 1895, fullum 4 árum eftir að ég varð kandídat. – Samanburðurinn verður þá þessi, að ég fullum 4 árum eftir prófið svaraði mönnum, sem vitanlega ekkert skynbragð báru á vegagerðir, út af vegarstefnu, sem ég hafði rannsakað og mælt; en S.P., 1 árs gamall kandídat, leggur dóm á lagðan veg, sem útmældur hefur verið af verklega æfðum samiðnaðarmanni hans, án þess að hann sjálfur hafi haft nokkra verklega æfingu í vegagerðum, eða hafi nokkuð rannsakað og mælt vegarstefnuna, en aðeins farið þar um snögga ferð í húsabyggingaerindum – um hávetur, get ég gjarnan bætt við – þó að það sé ekki aðalatriðið, - því að það er þó alltaf talið erfiðara að sjá út vegarstefnuna á vetrum en á sumrum, þó aldrei nema það hafi verið nokkurn veginn auð jörð, þegar S.P. fór austur. Og samt segir “óhlutdrægur” að ég hafi fyrir fáum árum staðið í sömu sporum o.s.frv.
Þá fer “óhlutdrægur” að verja órökstudda dóma S.P. um vegarstefnuna m.m., og segir: “hvernig á að rökstyðja slíkt til hlítar í stuttri blaðagrein” o.s.frv. Já, það er hægt, ef hann hefur nokkur rök; greinin verður ef til vill nokkuð lengri; en það er skylda hvers manns, sem vill heita ærlegur drengur, að rökstyðja svo vel sem hann getur þær aðfinningar, sem hann gerir við verk einhvers manns, og sérstaklega var það ástæða til þess í þessu tilfelli, þar sem það var samiðnaðarmaður hans, sem í hlut átti. Ætli það þætti rétt, ef t.d. einhver læknir hér í Reykjavík færi á prenti að finna að lækningastörfum einhvers annars læknis hér, og færði svo engar ástæður eða rök fyrir sínum aðfinningum? Nei, S.P. átti annað hvort að rökstyðja sínar aðfinningar eða skrifa alls ekkert.
Þá er “óhlutdrægur” lengi að berjast við sinn eigin skugga, þar sem hann er að sýna fram á, að vottorð S.P. um ágæti Holtavegarins geti ekki hjálpað E.F. neitt í fjárdráttarmáli hans; því að það hefur (ólæsilegt orð) engum dottið í hug og allra síst (ólæsilegt orð) að vottorð S.P. væri svo máttugt; ég hef aðeins sagt, að hann væri að reyna að hjálpa bágstöddum mági sínum – auðvitað í Holtavegarmálinu – gefa honum vottorð um það, að hann (E.F.) hefði haft rétt fyrir sér í vegarstefnuvalinu, en ekki ég; en slíkt vottorð tel ég lítils virði og getur varla verið hlutdrægnislaust, þar sem honum svo nákominn maður á hlut að máli. Það er ekki svo að skilja, að ég vilji segja, að S.P. sé hlutdrægur með vilja – það vil ég ekki ætla honum, heldur get ég ímyndað mér, að hlutdrægnin sé honum ósjálfráð, þar sem svona stendur á. Allt eins og dómara er vikið úr sæti þegar einhver honum nákominn á hlut að máli, ekki af því að hann sé grunaður um að vilja rjúfa sinn dómaraeið, heldur af því, að skyldleikinn geti ósjálfrátt haft áhrif á hann -, eins átti S.P. að hafa nógu næma tilfinningu fyrir því rétta til þess að skipta sér ekki af þessu Holtavegarmáli, sem snertir mág hans.
Loks leyfir herra “óhlutdrægur” sér að segja, að það sé “áreiðanlegt og kunnugra en frá þurfi að segja, að hr. S.Th. lagði þungan hug á hr. E.F. fyrir það, að hans tillaga var til greina tekin”, en minni tillögu hafnað, og gefur það í skyn, að hlutdrægni og hefndargirni ráði mínum dómum um Holtaveginn. Eitthvað þessu líkt stóð í Ísafold í janúarmán. þ.á. og var sett í samband við kæru mína gegn E.F. og gefið í skyn, að hefndargirni réði mínum gerðum í því máli. Ég skora nú á herra “óhlutdrægan” og Ísafold að koma fram með nokkuð það atvik, þar sem ég hef lagt þungan hug á E.F. eða verið hans megnasti óvildarmaður, eins og Ísafold tók til orða, - sökum þess, að hans tillaga um Holtaveginn var tekin til greina, en ekki mín. Því að það er ekki nóg, til þess að koma fram með slíkar ásakanir gegn mér, að halda að ég beri þungan hug til hans vegna ágreinings míns við hann í vegamálum, eða að slá því fram, að það sé almennt talið svo, þegar ég hef aldrei sýnt það í verkinu, að svo sé. Og það er heldur ekki næg ástæða fyrir ásökunum þessum, að ég hafi kært manninn fyrir fjárdrátt og skjalafölsun, því að það hefði ég gert, hver sem í hlut hefði átt, þar sem ég þóttist sannfærður um, eftir þeim vottorðum, sem mér höfðu borist, að hér var um gífurleg fjársvik að ræða. Og það var beinlínis skylda mín, eins og sérhvers annars manns, sem slík gögn hefði haft í höndum, að stuðla til þess, að það mál yrði ítarlega rannsakað.
Skil ég svo við herra “óhlutdrægan” að svo stöddu.
Rvík 23. apr. 1900. Sig Thoroddsen.
___
Ritsj. Ísafoldar vill ógjarnan láta til sín taka þetta mál, þennan ágreining milli þeirra mannvirkjafræðinganna. En úr því hr. S.Th. beinir að oss afdráttarlausri áskorun um að benda á nokkurt það atriði, þar sem hann hafi lagt þungan hug á hr. E.F. o.s.frv., hlýðir ekki annað en sýna lit á því, og ætlum vér þá nægja að benda á það, sem hann mun naumast treysta sér á móti að bera, að þegar hann (S.Th.) frétti um breytinguna á Holtavegarstefnunni, rauk hann gagngert norðan úr Eyjafirði suður Kjöl og ætlaði að reka E.F. frá vinnu hans – kvað sig mundu hafa gert það, ef hann mætti ráða, og hafði við hann mjög þung orð og hörð. Annað atvik er það, að eftir það, en ekki fyrr, fór hann að finna að hjá (ólæsilegt orð) þeim göllum á reikningsskilum hans – kvittana skorti – er hann hafði ekki fundið að áður og ekki fann heldur að hjá öðrum á eftir. Fleira mætti sjálfsagt til tína, ef vel er leitað. Og er þessa getið til þess að eina, að sýna fram á, að hægt er að finna áminntum og átöldum orðum stað, en ekki hins, að draga neitt úr verðskulduðu lofi um hr. S.Th. fyrir skyldurækni hans að koma upp alvarlegum ávirðingum þeim, er hann tjáir sig (ólæsileg orð) var orðið hjá E.F. sem ráðsmanni yfir vegavinnufé.


Ísafold, 5. maí, 27. árg, 26. tbl., bls. 102:
Hér svarar brúarvörðurinn við Ölfusárbrú gagnrýni Sigurðar Péturssonar verkfræðings varðandi viðhald brúarinnar og segir m.a. frá þeim reglum sem honum voru settar varðandi viðhaldið.

Ölfusárbrúin og viðhald hennar.
Í 18. tbl. Ísafoldar þ.á. er ritgerð eftir Sigurð Pétursson verkfræðing með yfirskriftinni: “Um vegi og brýr” m.m. Af því að mál þetta, sem greinin flytur, snertir að nokkru Ölfusárbrúna og viðhald hennar, og gefur að sumu leyti ekki sem réttastar skýringar, þá vil ég biðja ritstjórn Ísafoldar að gera svo vel að ljá nokkrum línum um þetta mál rúm í blaðinu.
Um Ölfusárbrúna segir verkfræðingurinn meðal annars: “Uppskrúfunin” finnst mér athugaverð eins og hún er nú gerð hvað eftir annað o.fl.
Þá er mér var, 1891, falið eftirlit með umferð um Ölfusárbrúna, viðhald á henni o.fl., setti eftirlitsverkfræðingur Ripperda, sá sem stjórnin í Khöfn hafði hér við brúarsmíðina, mér reglur um, hvernig haga skyldi viðhaldinu á brúnni og kvað mig ekki mega út af þeim bregða. Ég set hér stutt ágrip af reglum þessum, með því að það kemur þessu máli nokkuð við.
. Brúarvörðurinn skal sjá um, að brúin sé máluð undir eins og nokkuð ber á ryði; skafa skal nákvæmlega í kringum all ryðbletti. – Hann bjóst við, að annað hvort sumar þyrfti að mála brúna.
. Á alla strengi, uppihaldsstrengi og hliðarstrengi, skal bera heitt asfalt, og gera það mjög vandlega. - Hann kvað vírinn hafa nuddast í meðförum og galvaníseringin því skemmst á stöku stað, og kynnu að koma þar fram ryðneistar.
. Eftir hvert sumar, eða þegar umferð léttir, þarf brúarvörður að kynna sér skrúfur neðan á uppihaldsstöngum brúarinnar, og bera á þær allar. Þær mega með engu móti ryðga. Þá missti skrúfan burðarafl sitt, og ef stöng brotnaði, yrði mjög torvelt að ná henni úr, ef allt stæði fast, með því að illt væri aðstöðu.
. Hvert sumar skal brúarvörður sjá um, að allt gólf brúarinnar sé tjargað, og velja til þess gott veður. – Bjóst við að timbrið entist þá betur, o.fl.
Allt þetta sem nú hefur verið á minnst, hef ég gert, eftir því, sem tök hafa verið á og brúin hefur þarfnast, og er mér hægt að sanna, að svo hafi verið. Haustið 1896, þegar landskjálftarnir dundu yfir, slitnuðu hliðarstrengirnir úr stöpli þeim, sem heldur þeim, og er að vestanverðu við brúna; við það kipptist hún norður á bóginn, og hefur ekki náð sér aftur. Þá brotnuðu einnig 5 stangir í brúnni, en sem betur fór, tókst mjög greiðlega að setja aðrar nýjar í staðinn. Síðan hafa brotnað 3 stangir, sem líklega hafa lamast í landskjálftunum. Allar þessar stangir hafa verið látnar í af vönum járnsmiði, sem (tvö ólæsileg orð) við samsetningu beggja brúnna og þekkti því vel til verka þessara. Vitanlega hefur orðið að hækka eða lækka brúna á þeim stöðum, sem stangir eru teknar úr, því annars nást þær ekki, og má vera að verkfræðingurinn fái einhvern tíma að reyna það. Þá er hr. bankastjóri Tr. Gunnarsson var hér á ferð í sumar og skoðaði brúna eins og hann er vanur að gera, þegar hann er á ferð um hana, og gerði það þá miklu nákvæmar en verkfræðingurinn í þetta sinn (hann reið bara viðstöðulaust yfir hana), talaði hann (Tr.G.) um við mig, að sér þætti mjög leitt að sjá, að hvilft væri í brúna við norðurlandið, og bað mig um að skrúfa hana þar upp, og lengja skrúf á stöngum, þar sem þess þyrfti með. Þetta gerði ég í haust, og jafnaði þar brúna, og mun hún halda því lagi, meðan ekkert verður að. Sanna mun mega það, að brúin þurfti lögunar við á þessum stað og víðar, því hinn geysi mikli akstur á ofaníburði í Eyrarbakkaveginn í sumar reyndi brúna mjög, og er vegavinnuliði hr. Erl. Zakaríssonar kunnugt um það.
Af því, sem nú hefur verið talið, er mér ekki ljóst, hvað óþarflega oft ég hafi skrúfað brúna upp – enda er það orð talsvert villandi, því það má eins vel skilja svo, að ávallt sé verið að hækka brúna, og ég skil ekki í, hvaðan verkfræðingurinn hefur sagnir um það atriði.
Ennfremur stendur í áðurnefndri grein verkfræðingsins: “Ef brúin heldur ekki lagi sínu um stund, verður að athuga fleira en uppihaldsstangirnar”. Það kann nú að vera að svo sé. Allar súlnagrindur eru vandlega hnoðnegldar og því óhreyfanlegar. Af því ég er talsvert kunnugur samsetningu beggja brúnna, sem gerðar hafa verið að umtalsefni, þá get ég ekki stillt mig um að geta þess um Ölfusárbrúna, að líklega verða það helst eða heldur eingöngu uppihaldsstangir og klemmur þær, sem halda þeim uppi, sem ráða legu brúarinnar. Bili eða slitni uppihaldsstrengur, mun viðgerð á honum ekki geta farið fram með þeim áhöldum, sem hér þekkjast eða til eru; verður því hæpið um aðgerð á þeim.
Ölfusárbrúin er ólík Þjórsárbrúnni að því, að í stormum og mikilli umferð hreyfist hún á tvennan hátt: upp og niður, eða til hliðar, mismikið eftir atvikum. Fyrir það ber stundum við, að klemmur hrapa til eftir strengjunum. Þarf þá óðara að koma þeim í samt lag, en ekki hægt að gera það, nema losa um stöngina að neðan, og hreyfa skrúfu. Þegar nú þar til gerð áhöld eru við hendina, og vanir menn gera það (aðrir geta það ekki), þá er ekki gott að sjá, hvaða hætta geti stafað af þessu.
Það er síður en svo, að ekki sé rétt, að verkfræðingur þessi, eða annar jafnsnjall, sé við, þegar meiri háttar viðgerðir fara fram á dýrum mannvirkjum, og ætti það að vera því hægara, sem mönnum þessum fjölgar í landinu. En líklega yrðu fleiri en ég, sem réðu af, ef stöng bilaði í brúnni eða eitthvað smálegt, að láta stöngina sem fljótast í aftur, undir umsjón góðs smiðs, heldur en að bíða með það eftir verkfræðingi, sem kynni þá að vera í öðrum landsfjórðungi.
Þegar hr. S.P. kom heim til mín ásamt förunauti sínum, Einari Finnsyni vegavinnustjóra, átti ég tal við þá um ýmislegt, helst um húsagerð o.fl. Lét ég þá í ljósi við þá, að mér þætti illt hvað áliðið væri dags, og gæti ég því ekki farið með þeim austur að brúnni, og sýnt þeim hana nákvæmlega. Þeir eyddu því; enda var farið að skyggja, regn á með stormi, og þeir að öðru leyti að keppa til náttstaðar. Er því auðsætt, að ekki gat orðið neitt úr nákvæmri skoðun á brúnni, svona á ferð, og þeir áhaldalausir að öllu leyti.
Ég minntist á, að þörf væri ef til vill á, að hafa tvöfaldar rær undir bitaendum brúarinnar, og á 5 stöðum vantar þær að ofan (þegar brúin var látin á, misstu ensku smiðirnir þær í ána, og má vera að hr. Tr. Gunnarsson muni til þess, að stundum fóru þeir óvarlega með verkefni o.fl.). Vitanlega var aldrei ætlast til, að tvöfaldar rær væru að neðan á Ölfusárbrúnni, þótt svo sé á austurbrúnni. Af því ég heyrði, að verkfræðingurinn áleit nú að svo þyrfti að vera hér, og af því, að engar rær eru til af þeirri stærð, væri líklega rétt fyrir hann eða aðra, sem færir eru um það, að panta þær heldur fyrr en síðar. Eftir því sem fram hefur komið, mun ég ekki ráðast í það.
Það sem segir í grein hr. S.P. um vöntun á fráræsluskurði við austurenda landbrúarinnar er rétt. Þörf á einum fráræsluskurði kom fram í vetur, og stafar það eingöngu af samkomu veganna á þessum stað, sem lokið var við í haust; enda var ráðgert, ef slík þörf sýndi sig í vetur, að grafa hann, þegar klaki færi úr jörðu í vor.
Ég bið velvirðingar á, hvað ég hef orðið langorður um þetta mál, sett hér t.d. ágrip af reglum, sem mér var falið að fara eftir við eftirlitið o.fl. En ég hef gert það til sýna, að skoðunum verkfræðinga þessara virðist ekki bera sem best saman, því eftir umyrðum hr. S.P. um bilunarhættu á Ölfusárbrúnni geta ókunnugir ímyndað sér, að hætta sé fyrir dyrum; en svo er ekki, sem betur fer.
Selfossi 8. apríl 1900.
Símon Jónsson,
brúarvörður við Ölfusárbrúna.


Þjóðólfur, 8. maí, 52. árg, 21. tbl., bls. 82:
Í þessari grein er fjallað um vegamál á Austurlandi en höfundurinn er mjög ósáttur við það hlutskipti Austfirðinga að vera olnbogabarnið sem yrði að bíða þangað til eftirlætisbörnin væru búin að fá sitt.

Flutningabraut á Austurfjörðum
Þegar Alþingi fyrir 7 árum með vegalögunum (staðf. 13. Apríl ´94) ákvað flutningabraut um Fagradal, og þó þessi braut væri hin síðasta (9) af öllum flutningabrautunum og af því mætti ráða, að hún yrði síðast færð í verk, fögnuðu samt allir, er hlut eiga að máli yfir, að þetta var þó komið á pappírinn – og sættu sig við að vera olnbogabarnið, sem yrði að bíða, þangað til eftirlætisbörnin væru búin að fá sitt. Hver sanngirni var í því, að láta Austfirðingafjórðung vera síðastan í þessu tilliti geta allir séð, sem þekkja nokkuð til hinna landsfjórðunganna, er hafa tiltölulega mjög marga greiða vegi af náttúrunnar hálfu. Þó tekur út yfir allt, að láta Eyjafjarðarhérað í þessu tilliti ganga á undan, sem liggur hér um bil lárétt án nokkurra teljandi mishæða um grænar grundir fram til óbyggða. Þar var komin á stórverslun langt inn í landi (Grund) og lýsir það best þörf þessa héraðs mót við Austurland, og því hvernig Austurland er haft útundan í tilliti til samgöngubóta.
Austurland allt girðir 2-3 þúsunda feta hár fjallgarður, nema á Fagradal og Héraðssandi. Á Héraðssandi er Lagarfljótsós, er Austfirðingar fyrst fengu augastað á sem höfuðkauptúni, en sem er búinn að margsýna sig sem ómögulegan sökum brima og útgrynnis, og sem þau skipti, er hann hefur verið reyndur til flutnings, jafnoft hefur valdið slysum og manndauða, enda má við því búast, að flutningaskip vikum saman gætu legið þar, án þess að viðlit væri að komast í land á lausum báti, hvað þá fermdum vörum. Lagarfljótsós sem verslunarstaður er því eins og fallegur draumur sem aldrei getur ræst, en slíkir loftkastalar eins og Lagarfljótsós, ættu ekki að standa öðrum hentugri vegum fyrir þrifum.
Þá er Vestdalsheiði, hún getur sem fjallvegur verið góðu fyrir Úthérað, þó mundi Borgarfjörður liggja betur við verslan og flutningum.
Þá er Fjarðarheiði, um 2000 fest á hæð með snarbröttum klettastöllum fjarðarmeginn, og mikilum halla héraðsmeginn; yrði ómögurlegt að koma þar á flutningabraut fyrir brekkum báðum megin, og svo, að um aðalbrattan fjarðarmeginn yrði að sprengja brautarstæðið gegnum kletta, í fjöldamörgum sneiðingum, er mundi gera hana að lengsta vegi til Héraðs, og að sjálfsögðu hinum langkostnaðamesta. Heiðin liggur 9 mánuði ársins undir snjó, og er það nóg til þess að hún eigi getur komið til greina sem flutningabraut. – Að vísu eru nú sem stendur mestu verslunarviðskipti héraðsmanna um þessa heiði, en hagsmunir fjölmennra byggðalaga í tilliti til haganlegra aðdrátta, hljóta þó að sitja í fyrirrúmi fyrir hagsmunum einstakra manna á Seyðisfirði.
Lík hinni síðasttöldu heiði er Eskifjarðarheiði, nokkuð lægri og óbrattari, og rennur fyrr, en þó ekki vel löguð fyrir akbraut. Einasta akbrautarstæði frá sjó til Héraðs, er úr Reyðarfjarðarbotni um Fagradal, sem loks brýtur hinn samanhangandi fjallgarð, og sem er svo vel lagaður að náttúrunnar hendi, að hann er sannarlegt gersemi. Dalurinn liggur 1/2 mílu vegar frá botni Reyðarfjarðar í norðvestur 21/2 mílu, þangað til hann sker Eyvindarárdal, sem einnig er mjög greiðfær, og mun þá eftir til Lagarfljóts um 1 1/2 mílu Hæst mun á Fagradal um 900 fet, og er þá allur hallinn frá sjó til Egilsstaða og brúarstæðis á Lagarfljóti 1 á móti 20. Nægilegt efni er allstaðar við hendina í dalnum til vegagerðar. Þrjár smáár þarf að brúa á þessari leið, en hvergi þarf að sneiða veginn, og er það fágætt. Dalurinn verður snjólaus um sömu mundir og sveitirnar í kring, og er það mikill kostur.
Brautin ætti svo að ná að Lagarfljóti við Egilsstaði, sem er miðdepill allrar umferðar um Hérað, og aðalpóstöð frá Suður- og Norðurlandi; mundi þar fljótt rísa upp stærsta sveitarverslun á landinu af því meginhluti Héraðsins mundi sækja þar að, svo að jafnvel löggilda yrði þar kauptún. Fiskföngum ættu héraðsmenn hvergi ódýrar náð að sér en um Fagradal, enda stór hagur Fjarðarmönnum að geta selt nokkru verði, það sem fúnar niður hjá þeim fyrir ekkert, eins og oft hefur verið bæði um ufsa og síld. Margvísleg viðskipti mundu fyrir flutningabraut um Fagradal komasr á, og er brautarlagning um Fagradal lífsspursmál fyrir stóran hluta Héraðsins, og yfir höfuð allt Austurland. Óskiljanlegt er það með öllu, að enn leið svo síðasta þing, að ekki var lögunum frá 13. apríl 1894 í tilliti til Fagradals fullnægja gerð, og ekkert fé á fjárlögunum ætlað til þess, og hafði þingmaður Suður-Múlasýslu þó í höndum umboð til að hreyfa mál þessu á síðasta þingi; á því þingmaður vor eftir að standa okkur kjósendum í þessum tillit reikningsskap sinnar ráðmennsku, en það má fullyrða, að hér eftir nær enginn kosningu fyrir þetta kjördæmi, nema sá, er vita má um með vissu, að fylgi þessu framfaramáli ótrauðlega, þar eð það varðar hinna mestu hagsmuna stórt svæði af (ólæsileg tala) sýslum.
Að síðustu vil ég benda á , hversu allri vegagerð er lítt á leið komið hér austanlands, mót við hina aðra landshluta, og mun þetta liggja í því, að vér höfum eigi haft þá forvígismenn fyrir málum vorum, sem við hefði þurft, því þó margir þeirra hafi verið góðir menn, hafa þeir eflaust ekki haft þrek til að draga taum kjördæmis síns mót við hina fjórðunga landsins, þar sem fullyrða má, að vegagerð hér austanlands er 20 árum á eftir hinum öðrum fjórðungum landsins, en þetta má ekki líðast lengur, og það má ekki hafa Austurland að olnbogabarni; óánægjan með þetta verður æ ríkari, og elur þann kala til þings og stjórnar, sem er sjaldgæfur hjá okkar áhugalitlu þjóð.
Ritað í mars 1900


Ísafold, 9. maí, 27. árg, 27. tbl., bls. 106:
Ritdeilur Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings og Ísafoldar snérust í upphafi um Suðarlandsveginn, en eru hér komnar út í allt aðra sálma; hvort Sigurði sé “versti óvildarmaður” tiltekins vegaverkstjóra.

“Óhlutdrægni”.
Herra ritstj. Ísafoldar er í seinasta (25.) tölublaðinu að leitast við að sýna lit á því að verða við þeirri áskorun minni, að benda á nokkurt það atriði, þar sem ég hafi í orði eða verki sýnt, að ég hafi lagt þungan hug á E.F. eða verið hans megnasti óvildarmaður, og bendir á tvö atvik, annað það, að ég hafi, undir eins og ég hafi frétt um breytinguna á Holtavegastefnunni, “rokið gagngert norðan úr Eyjafirði suður Kjöl og ætlað að reka E.F. frá vinnu hans og haft við hann mjög þung orð og hörð”.
Það er satt, að ég brá við og fór suður Kjöl, þegar ég frétti um breytinguna, til þess að reyna að koma í veg fyrir að minni vegarstefnu yrði breytt; en þar sem hann segir, að ég hafi ætlað að reka E.F. frá vinnu, þá þekkir hann þar betur mínar hugrenningar en ég sjálfur, því að það var aldrei mín ætlun og hef heldur ekki látið það í ljós við nokkurn mann. Að ég hafi “haft við E.F. mörg þung orð og hörð”, getur enginn borið um nema E.F. sjálfur, því að við vorum tveir einir, þegar við ræddum það mál; og kannst ég ekki við það, að ég hafi brúkað hörð orð; ég reyndi aðeins að sýna honum fram á, að slíkt framferði gæti ekki gengið – enda þekkti hann það frá Noregi. Að þar þyldist slíkt ekki – að verkstjórarnir settu sig upp á móti yfirmanni sínum – eða þeim, sem að réttu lagi ættu að vera yfirmaður þeirra – og fara að gera breytingar á því, sem hann hefði mælt. Ég reyndi með góðu að fá hann til þess að færa veginn aftur inn á mína vegarstefnu, og þegar ég skildi við hann, lést hann mundu gera það og geta gert það, af því að landshöfðingi hefði ekki skipað sér, heldur aðeins leyft sér að breyta stefnunni eftir sinni vild.
Annað atvikið, sem ritstj. tilfærir, er það, að “eftir það, en ekki fyrr, fór hann að finna að hjá honum þeim göllum á reiknisskilum hans – kvittanaskorti – er hann hafði ekki fundið að áður, og ekki fann heldur að hjá öðrum á eftir”.
Þetta eru hrein og bein ósannindi.
Ég hef alltaf fundið að því, bæði fyrr og síðar, þegar kvittanir hefur vantað fyrir einhverju á reikningum verkstjóranna, hver sem í hlut hefur átt. Ég get bent ritstj. á t.d. seinustu ársreikninga, ef hann vill snúa sér á landshöfðingjaskrifstofuna; þar getur hann séð, að ég hef gert athugasemdir við kvittanaskort hjá öðrum verkstjórum en E.F.
Ritstj. verður að leita betur til þess að finna “áminnstum og átöldum orðum (í janúarbl. Ísafoldar) stað, en ég vil aðeins (ólæsilegar 2-3 línur) um tveimur nefndu atriðum, ef hann vill aðeins fara með það, sem rétt er og satt.
Reykjavík, 3. maí 1900.
Sig. Thoroddsen

“Klipt var það – klipt var það!” segir hr. landsvegfr. enn, og ætlar sér sjálfsagt að halda því áfram í lengstu lög.
Óræka vissu um, hvað þeim E.F. hafi á milli farið um sumarið austur í Holtaveginum, er ekki hægt að fá, úr því ekki voru vottar að samtali þeirra. En hitt er víst. að svo sagði E.F. þá þegar frá því, sem Ísafold heldur fram, áður en nokkur þrætni reis um það, enda verður viðbragðið mikla norðan úr Eyjafirði alla leið suður Kjöl ólíkum mun skiljanlegra með því lagi en hinu. E.F. hefur alltaf sagt svo frá og segist svo enn, að S.Th. hafi sagt berum orðum, að hann mundi hafa rekið hann frá Holtavegargerðinni, ef hann hefði haft vald til þess, og eins hitt, að hann hafi beint skipað sér að hætta við nýju vegarstefnuna, þrátt fyrir úrskurð (ekki aðeins leyfi) landshöfðingja.
Um hitt atriðið mun vörn hr. S.Th. styðjast aðallega við það, að vegareikningar hafi ekki verið yfirleitt lagðir undir hans endurskoðun fyrr en eftir Holtavegarsumarið og því hafi þá fyrst komið til hans kasta að finna að þeim. En ekki mun hann geta á móti því borið, að hann hafi yfirfarið reikninga E.F. árin á undan; og úr því að þá komu ekki fram neinar aðfinnslur að sömu annmörkum á reikningsfærslunni eins og á eftir, virðist bæði E.F. og öðrum full vorkunn, þótt þeir legðu þann skilning í þau viðbrigði, sem hér um ræðir. Og sami annmarki – kvittanaskortur – var áreiðanlega á reikningum annars vegavinnustjóra í haust að minnsta kosti, án þess að sá hinn sami hafi fengið ávítur fyrir.
Annars virðist nú mál til komið að slá botni í þetta þras, og það því fremur, sem mál það, er það er upphaflega út af risið, kæran á hendur E.F., er nú undir dómi og viðfeldnast að láta manninn og mál hans í friði þá stuttu stund, er dóms mun þurfa að bíða úr þessu. Því þess ber vel að gæta, að þrátt fyrir stóryrði hr. S.Th. um sekt hans, er enn ódæmt um það, svo gilt sé, hvort hann er sekur eða saklaus.


Þjóðólfur, 11. maí, 52. árg, 22. tbl., bls. 89:
Allt gott er að frétta frá Vestur-Skaftafellssýslu nema hvað varðar samgöngumál.

Fréttabréf úr Vestur-Skaftafellssýslu (Mýrdal).
Að samgönguleysinu hér við aðrar sveitir landsins þykir mesta mein, og stendur það í vegi fyrir mörgum þægindum og framförum hér, sem annars væru vel hugsanleg til framkvæmda; ekki mundi það mikið kosta, þó “Hólar” hefði hér í Vík ákveðinn viðkomustað í hverri ferð austur og suður um land, en það gæti þó haft mikil þægindi í för með sér fyrir þetta hérað.
Einnig hefur heyrst, að ekki mundi neitt verða úr hinni fyrirhuguðu vegagerð hér í sumar, og þykir það ekki bæta úr samgöngum á landi, því flestir vegir hér eru lítt færir.


Fjallkonan, 13. maí, 1900, 17. árg., 19. tbl., forsíða:
Þórarinn Jóhannesson verkamaður skrifar hér háðsádeilu á Sigurð Thoroddsen landsverkfræðing og nefnir 8 dæmi um hrapaleg mistök Sigurðar við vega og brúarlagningu, sem ómenntuðum verkstjórum hafi stundum tekist að bæta.

Andhæli.
Flest þykir mér nú fara að ganga andhælis, þegar Sigurður P. er farinn að tala um það, sem “kollega” hans, Sigurður T., einn hefur rétt til að vita og þegja um. Það er varúðarvert, að sletta sér inn í verkahring svoleiðis manns, sem var svo vænn að þiggja einar 3000 kr. í árskaup hjá okkur, þegar hann var búinn að sjá hina nafnfrægu víggirðingu Khafnar, mannvirki í Noregi o.m.fl., eftir að hann skrapp frá “examensborðinu”, og hefur síðan fengið nokkurra ára reynslu hér, reynslu sem aðrir hafa öðlast svo mikinn lærdóm af. Það er alkunnugt, að þessi ágætismaður hefur tekið með þögn og þolinmæði flestum móðgunum, sem hann hefur orðið fyrir af ólærðum vegagerðarverkstjórum og almenningi, sem engan einkarétt höfðu til að hafa betur vit á hlutunum en hann, en það er engin ástæða til að gera sér von um, að hann fyrir því ekki styggist við, er “nýskroppinn” “kollega” fer að látast hafa hugmynd um aðgerðir hans. En ef hann er styggður mjög, gæti skeð, að hann sneri við oss bakinu og væri þá illa komið högum vorum.
Já, sannarlega er S.Th. maður sem vér ekki höfum kunnað rétt að meta. Honum hefur verið mörg móðgun sýnd:
. Breytt var frá stefnu þeirri er hann hafði ætlað veginum frá Kolviðarhóli upp á Hellisheiði og farið eftir tillögu óbreytts vegaverkstjóra. Og þótt almenningi er veginn notar, þyki sú stefna í alla staði betri, er það lítið að marka. Hin stefnan var aldrei reynd, og því ekki séð, hve miklu meiri atvinnu það kynni að hafa veitt, að leggja veginn að ráði S.T., og hve miklu minna hann hefði þar orðið fyrir sliti, er hann lengur hefði legið undir jökli.
. Þvert á móti tillögum og vilja S.T. var Öxarárbrúin lögð yfir hamragljúfrið, og hefur landshöfðingja verið gefin dýrðin fyrir það, en S.T. ætlaðist til að hún yrði sett á sandeyrarnar, þar sem byggja hefði þurft marga djúpt niður grafna stöpla og 3-4 trébrýr yfir, og ættu allir að geta séð hve margfalt drýgri atvinna hefði orðið við það og viðhald þess, en þessa einu brú á berggljúfrinu. En þrátt fyrir þessa mótspyrnu gegn ráðum S.T., leiddi þó það gott af framkvæmdum hans í því efni, að brúartrén, sem afgangs urðu af þeim er hann hafði pantað, fengust – að vísu langlegin og farin að skemmast – fyrir ekki nærri hálfvirði á uppboði, til stórhags fyrir kaupendur.
. Allt útmælingastarf hans í Holtunum var að engu haft, en vegurinn lagður eftir tillögum héraðsmanna og mælingu “ólærðra” manna, sem á engan skóla hafa gengið og engin “hervirki” séð erlendis. Verða þó allir að játa, að atvinna hefði orðið miklu drýgri við vegagerð eftir tillögu S.T., þó vegurinn kynni að hafa orðið lítið eitt óhagkvæmari fyrir notendur, sem aldrei verður af reynslunni sannað.
. Menn eru að segja, að Eyjafjarðarvegurinn sé með öllu óþarfur. Á því svæði, sem búið er að eyða í 14.000 kr. hafi verið dágóður náttúrulegur reiðvegur, og til annars verði hann ekki notaður; en þarna hafa nú margir menn haft atvinnu sumarlangt, og Akureyrarbúar notið þeirrar ánægju, að sjá S.T. á Eyrinni á meðan, og væri ósanngjarnt að öfunda höfuðstað Norðlendinga af þessu.
. Brúin á Hörgá hlýtur að hafa verið illa byggð, segja sumir, úr því að áin velti henni af sér. En gætið að því, góðir hálsar, að fjandinn getur farið í ár, eins og svín og sérhvað annað, til að hleypa þeim upp móti góðum mönnum; en því fleiri brýr, því meiri vinna – og peningar – handa okkur.
. Þegar brúin á Blöndu var byggð, fór einhver óbreyttur alþýðumaður að sletta sér fram í að áminna S.T. um, að steinlímið mundi verða of lítið, er hann hafði pantað, og ráða honum til að bæta við það í tíma. Eins og eðlilegt var, sagði S.T., að það kæmi honum ekkert við, og sat við sinn keip. Fyrir það varð ekki lokið við brúna um haustið, og jókst mikið atvinna við það, að ljúka við verkið næsta vor. Ferðirnar urðu fleiri o.s.frv.
. Eins og menn vita, var S.T. fyrir landssjóðs hönd umsjónarmaður með brúarsmíðinni á Þjórsá. Óhlutvandir menn hafa vanþakkað honum þá umsjón og vitna til þess, að brúin hafi fundið eystri akkerisstöpulinn of léttvægan, og því hótað hundruðum manna bráðum bana sjálfan vígsludaginn; geta menn þá ekki munað, að S.T. ásamt sjálfum brúarsmiðnum, vitnaði rétt á eftir, að ekkert væri að óttast út af þessu. Illmálgar tungur segja, að brúin hafi verið sett á vesturklöppina margsprungna, án þess mokað hafi verið ofan af henni moldinni til að skoða hana – fyrr en eftir tvö ár, en þá héngu lausir drangar framan í henni, segja þeir, sem nú eru fallnir. Nú, sé þetta satt, veitir það líklega að minnsta kosti 6-8000 kr. atvinnu, að fáum árum liðnum, að gera við klöppina, og Vaughan þarf ekki að ómaka sig úr því. Það fá Íslendingar – mest verkamenn. Nóg gengur til eftirlauna o.þvíl. samt. S.T. var þar um sumarið og sá um að brúin var svo vel skrúfuð, að ekki kvað hafa þurft að bæta um það síðan.
. Sumum þykir S.T. vinna lítið fyrir kaupinu. Þér heimskingjar! Vitið þér ekki, að hann er mest allt sumarið á milliferðum og við mælingar, stundum jafnvel tímunum saman á dag, ef gott er veður, og allan veturinn er hann hvern góðviðrisdag til sýnis á götum höfuðstaðarins eða tjörninni, en þess á milli (líkl.) í “uppdrætti” og útreikningum, sem geymt gæti ókomnum öldum mikinn fjársjóð, ef safnað væri, - eftir að hann og starfi hans, sem samtíðin ekki kann rétt að meta, fyrir löngu er “fallin í gleymsku og dá”.
Þórarinn Jóhannson
(verkamaður)


Austri, 17. maí, 1900, 10. árg., 18. tbl., forsíða:
Þorgeir í Vík fjallar nokkuð um vegamál í löngum greinaflokki um þjóðmál og er þeirrar skoðunar að of mikið hafi nú þegar verið gert. Bíða eigi með frekari vega og brúarframkvæmdir, enda lítil þörf fyrir flutningabrautir og akvegi.

Ofan úr sveit – utan frá sjó.
.. Að því er snertir samgöngumálin, þá ættum vér að mestu að láta sitja við það sem komið er fyrst um sinn; halda aðeins við þeim vegum og brúm, sem þegar eru lagðar, en hætta oss ekki út á hálan ís með dýra vegi eins og flutningabrautir eða akvegi, á meðan vér hvorki höfum næga þekkingu til slíkra vegalagninga né neitt verulega eftir þeim að flytja; hestahaldið minnkar heldur ekki fyrir það að neinum mun, því eins þurfum vér á hestum að halda eftir sem áður til heyflutninga, sem víða eru all erfiðir, og ýmislegs annars, sem flutningabrautir yrðu eigi notaðar til. Það hefur líka verið haft eftir norska verkfræðingnum, sem skoðaði brúarstæðið á Lagarfljóti, að hann álítur miklu af því fé, sem vér höfum lagt til vegabóta hjá oss, alveg á glæ kastað. Þetta stóð í “Bjarka” einu sinni, hvort sem það er satt eða ekki. En hvað sem nú um það er, þá er vonandi að komandi þing líti í kringum sig áður en þau veita mikið fé til nýrra vegalagninga fyrst um sinn. Vér getum vel rutt okkar gömlu vegi og notað þá enn um langan tíma, ekki síst þar sem allar landsins víkur og vogar eru nú bráðum löggiltar, og verslun komin á flestar löggiltar hafnir, svo að aðdrættirnir eru nú orðnir miklu léttari en áður. Sömuleiðis eru nú samgöngur vorar á sjó orðnar vel viðunanlegar, og hér á Austfjörðum mega þær heita ágætar. Þeir yrðu oss nokkuð dýrir aðrir eins samgöngumálagarpar og síra Jens, ef þingið hlypi eftir hverri flugu, er hann reynir að koma í menn þess í þá átt, og vonandi er að Dalamenn sendi ekki oftar annan eins stórpólitískan físibelg inn á þing.
Ritað á Gvöndardaginn 1900.
Þorgeir í Vík.


Ísafold, 26. maí, 27. árg, 32. tbl., bls. 127:
Með þessari grein Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings og svari ritstjóra, lýkur væntanlega ritdeilum sem tekið hafa mikið pláss í Ísafold síðustu tvo mánuði. Ritdeilurnar hófust með grein Sigurðar Péturssonar verkfræðings, þar sem hann gagnrýndi vegagerðina frá Reykjavík austur í Holt, en snérust fljótlega út í aðra og persónulegri hluti, s.s. kæru gegn tilteknum vegaverkstjóra vegna fjárdráttar.

Fádæma elja.
Það er meira en lítil elja, sem hr. landsvegafræðingnum er gefin við – lítilsvert orðaþras út af þessum manni, sem nú er aðeins ódæmdur eftir kæru hans. Enn vill hann fyrir hvern mun fá að taka til máls um sama efni en það verður nú í allra síðasta skipti í þessu blaði.
“Óhlutdrægni”.
Ritstj. Ísafoldar hefur enn fundið sér skylt að hnýta athugasemdum aftan við svar mitt í 27. tbl. og ber þar E.F. fyrir þeim ummælum sínum, að “ég hafi ætlað að reka hann frá vinnu o.s.frv.”.
Þegar svo er komið, læt ég úttalað um það atriði, því að við E.F. vil ég ekki þrátta – ég legg mig ekki niður við það – það mun sýna sig einhvern tíma, hvor okkar er sannsöglari.
Hvað hitt atriðið snertir, ber ritstjórinn það blákalt fram – eða lætur það að minnsta kosti á sér skilja, að ég hafi ekki fundið að sömu annmörkum á reikningsfærslu E.F. áður en byrjað var á veginum yfir Holtin eins og á eftir. Ég vil þá benda ritstj. á athugasemdir mínar við reikninga E.F. sumarið 1896 – þær getur hann séð á landshöfðingjaskrifstofunni – þar hef ég einmitt fundið að kvittanaskorti á reikningunum.
Svo segir ritstjórinn ennfremur: “Og sami annmarki – kvittanaskortur – var áreiðanlega á reikningum annars vegavinnustjóra í haust að minnsta kosti, án þess að sá sami hafi fengið ávítur fyrir”.
Það er ekki mitt að gefa ávítur fyrir þennan annmarka, úr því ég var ekki skipaður yfirmaður verkstjóranna; ég aðeins gerði mínar athugasemdir á reikninginn og sendi þær á landshöfðingjaskrifstofuna.
Annars skal ég taka það fram, að þessir gallar á reikningsfærslunni hjá verkstjórunum eiga ekkert skylt við það mál, sem hafið hefur verið gegn E.F., því að þó kvittanir vanti á stöku reikninga, þarf það ekki að benda á nein fjársvik; það getur verið og er vanalega aðeins athugaleysi eða hirðuleysi.
Vitneskju um fjárdrátt getur maður fyrst fengið með því að yfirheyra verkamennina um það, hvað þeir hafi tekið á móti af peningum og hvað mörg dagsverk þeir hafi unnið, og það var á þann hátt að þessi sterki grunur hefur fallið á E.F.
Að öðru leyti skal ég vísa til eftirfarandi yfirlýsingar frá landritaranum:
Þér hafið, herra ingeniur, beiðst eftir yfirlýsingar minnar um það, hvort ég hafi orðið þess var, að þér hafið veist meira að herra Einari Finnssyni í athugasemdum yðar við vegareikninga hans eftir að byrjað var á Holtaveginum 1898 en áður, og hvort ég hafi tekið eftir því, að þér hafið hallað fremur á hann í athugasemdum yðar, en aðra forstöðumenn landssjóðsvegagerða.
Báðum þessum spurningum verð ég að svara neitandi. Auðvitað er hér undanskilin kæra sú, er þér hafið sent bæjarfógeta hér, yfir herra Einari Finnsyni, fyrir fals og fjárdrátt, og rannsóknir yðar um það atriði.
Afgreiðslustofu landshöfðingja
Reykjavík 11. maí 1900.
Jón Magnússon
Þá þykist ég hafa komið með næga sönnun fyrir því, að ákærur ritstjóra gegn mér séu á engum rökum byggðar.
Rvík. 11. maí 1900. Sig. Thoroddsen.
* * *
Ójá; það er nú svo. Sönnun er það engin, að hann segir sjálfan sig vera sannorðari en E.F. Ekki er heldur vel hægt fyrir menn út í frá að vita, að hann megi ekki gefa verkstjórum ávítur. Og ætli hann geri það aldrei samt? Fyrir E.F. og öðrum í líkum sporum eru þær einar aðfinnslur til, sem til þeirra sjálfra er beint. Þeir hafa ekkert af því að segja, þótt einhverjar aðfinnslur séu til á landshöfðingjaskrifstofunni, ef þær er t.d. svo lítilsverðar, að ekki þykir takandi því að tjá þær verkstjórunum sjálfum.
Fyrir því virðist minna að græða en hann ætlaðist til á vottorði landritarans, sem oss dettur vitanlega ekki í hug að rengja. Þar með er þá slegið botni í þetta þras.


Ísafold, 9. júní, 1900, 27. árg., 36. tbl., forsíða:
Trúlega hafa margir beðið eftir þessari grein Sigurðar Péturssonar verkfræðings, því fyrri grein hans, sem birtist í Ísafold 4. apríl, hafði vakið upp andsvör margra og harðar ritdeilur milli Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings og ritstjóra Ísafoldar. En Sigurður dvaldi í Kaupmannahöfn á þessum tíma og þetta var það fyrsta sem frá honum heyrðist eftir fyrri greinina.

Um vegi og brýr.
Aðalatriðin í grein minni í 18. tbl. Ísafoldar eru þessi:
. Vér eigum að láta reynsluna kenna oss, hvernig vér eigum að haga vegum vorum eftirleiðis, svo að haldi komi.
. Leiðin upp úr Reykjavík hefði átt að koma austur með sjónum, inn á þverar mýrar, skammt frá laugunum o.s.frv.
. Hafa verður meira eftirlit með ofaníburði í vegi, vanda meira val og leitun að honum, og fastákveða, á hvaða tíma árs eigi að bera ofan í. Ennfremur er það mikilsvert atriði, hvernig ofaníburðinum er komið fyrir.
. Viðhald og eftirlit á vegunum þarf að vera betra en það er.
. Halda þarf við vörðunum á gömlu leiðinni yfir Hellisheiði.
. Ef vagnflutningar eiga að komast á austur um sveitir þarf að leita að annarri hægari leið niður Kamba en nú er.
. Á leiðinni yfir Ölfus eru óþarfakrókar. Gljúfurá og Bakkholtsá má brúa án mikils kostnaðar.
. Framhald vegarins sem, lagður er þarf að koma þannig, að stefnan sé tekin fyrir sunnan Köguðarhól, beinustu leið á Ölfusárbrú. Leiðinni meðfram Ingólfsfjalli og spottanum frá fjallinu niður að brúnni á ekki að halda við sem aðalleið að henni.
. Ölfusárbrúin er svo falleg og dýr, að eftirlit hennar þarf að vera fullkomnum reglum bundið. Ef eitthvað þarf að gera frekar en það sem reglugerðin fyrirskipar, þarf að leita álit verkfræðingsins eins fljótt og auðið er. Alveg sama er að segja um Þjórsárbrúna og aðrar stærri brýr. Sýslumenn eru ekki færir um að semja þessar reglugerðir nema að ráði verkfræðings.
. Á Flóaveginum eru óþarfa krókar. Púkklagningunni er ekki rétt fyrir komið. Með því að þar vottar áþreifanlega fyrir holklaka meira og minna í öllum Flóaveginum, þarf að athuga frekar eðli þess jarðvegs eftirleiðis, sem ber nafnið holklakajörð, og hvað gera megi til þess að varst holklaka. Við hverja rennu er lægð í veginum. Næst Ölfusárbrú vantar fráræsluskurði. Vegaskurðir hafa á einum stað verið stíflaðir. Uppgrefti úr skurðunum hefur verið kastað of nálægt skurðarbörmunum.
. Vestari stöplinum við Þjórsárbrúna þarf að veita eftirtekt. Fráræsluskurðinn Holta-megin þarf að lengja.
. Vegaval Holtamanna og framkvæmdir því samfara eru að mörgu leyti til fyrirmyndar. Þar þarf að gera nýjar tilraunir með sandofaníburð á austari kaflanum.
Yfirlitsatriði:
_ Vegagerð í Ölfusi er í bútum.
_ Vegarkaflar yfir mýrar halda sér vel og þurfa lítinn viðhaldskostnað.
_ Holklakajarðlag í sambandi við vegagerðir þarf frekar að athuga.
Ýmislegt af ofangreindum atriðum hefði ég geta skýrt frekar, t.a.m. hvernig púkklagningu eigi að koma fyrir, hvernig brúa megi Gljúfurá og Bakkarholtsá mið litlum kostnaði, hvar reyna mætti að komast niður Kamba þegar til vagnflutninga kæmi, en ég álít, að það komi mér ekki til fyrst um sinn.
Þegar ég ritaði grein mína, hafði ég enga ákveðna menn í huganum, ég hélt mér aðeins við það, sem fyrir augun bar, án þess að spyrja mig fyrir um, hver hafði ráðið hverju fyrir sig, með því það var og málinu alveg óviðkomandi.
Mér er ómögulegt að skilja það, hvernig grein mín hefur getað komið svo mörgum til að svara. – Ég er mér þess ekki meðvitandi, að hafa talað óvirðulega um nokkurn mann. að var bein skylda allra, að taka bendingum mínum með þökkum og reyna að læra af þeim; íslensk verkfræði stendur sannarlega ekki á svo háu stigi enn.
Að svo stöddu ætla ég ekki að fara að svara neinum sérstaklega; ég skal aðeins geta þessa:
Á austurleiðinni skoðaði ég Ölfusárbrúna nákvæmlega um miðjan dag í björtu veðri. Sunnudaginn næsta skoðaði ég Þjórsárbrú.
Áður en ég varð kandídat var ég tvisvar settur “ingeniör-assistant” í Odense á Fjóni; - 6 mánuði árið 1897 og tvo mánuði 1898 – og var það eftir tilboði og meðmælum frá prófessor A. Lutken, kennara í vega- og brúasmíði við fjöllistaskólann í Kaupmannahöfn. Síðara sumarið hafði ég 200 kr. í laun á mánuði.
Þeir menn, sem hafa svarað grein minni, taka að mörgu leyti af mér ómakið með því, að þeir svara bæði sér sjálfum og öðrum – sbr. fráræsluskurð næst Ölfusárbrú o.fl. – Þótt ég hefði aldrei farið um þessa leið og aldrei skoðað brýrnar, heldur aðeins lesið greinar þessara manna, hefði ég haft ástæðu til að koma með margar af ábendingum mínum (sbr. grein S.J.).
Samiðnaðarmaður minn hefði vel getað verið kurteisari í greinum sínum; leyfi til þess að svara á þann hátt, sem hann gerir, hefur aðeins maður, sem mikil þrekvirki liggja eftir – annaðhvort áður en hann tók próf, eða eftir að hann byrjaði sjálfstætt starf.
Að síðustu þakka ég þeim mönnum, sem hafa tekið svari mínu, mér fjarverandi og óafvitandi.
p.t. Kaupmannahöfn 20. maím. 1900.
Sigurður Pétursson
ingeniör.

Ísafold, 16. júní, 1900, 27. árg., 38. tbl., forsíða:
Þessi frétt fjallar um dóm Héraðsdóms í málinu gegn Einari Finnssyni vegaverkstjóra, en Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur kærði hann í upphafi ársins fyrir fjárdrátt og fleira. Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta mál undanfarna sex mánuði og tengjast því miklar ritdeilur milli Sigurðar og ritstjóra Ísafoldar.

Héraðsdómur í málinu gegn Einari Finnssyni.
Hann var upp kveðinn 13 þ.m. og niðurstaðan sú, að kærði var dæmdur í 14 daga einfalt fangelsi, auk málskostnaðar, skv. 259. gr. hegningarlaganna, fyrir að hafa “með því draga undir sig nokkuð af verklaunum Guðmundar Einarssonar misbeitt stöðu sinni til að afla sér ávinnings á sviksamlegan hátt”. Hann hafði talið Guðmundi þessum hærri verklaun en hann galt honum, og lét mismuninn, 36 kr. 75 a., renna í sinn sjóð; gerðist það með þeim hætti, að hann réð til sín mann þennan fyrir umsamið kaup, en lánaði hann síðan í landssjóðsvinnuna (vegavinnu) fyrir hærri daglaun en hann galt honum, og hugði sér það leyfilegt. Segir svo í dómnum til skýringar: “það hefur tíðkast allmikið, eftir því sem upplýst er, að ýmsir menn hafa ráðið verkamenn til ákærða, ekki aðeins vinnumenn sína, heldur og aðra, sem þeir hafa tekið einungis til að koma þeim í vinnuna; hafa menn þessir tekið til sín vegavinnulaunin, en goldið verkamanninum umsamið kaup, og hirt sjálfir mismuninn. Ákærða var kunnugt um, að slíkar mannaráðningar áttu sér stað, enda áleit hann þær leyfilegar, ef verkamönnunum væri eigi greidd hærri daglaun en ætla mætti að þeir ynnu fyrir, og hugði jafnvel að sér væri sjálfum heimilt að ráða verkamenn á þennan hátt fyrir sin reikning”.
Af öllum hinum ákærunum var hann sýknaður. En þær lutu sumar að skjalafölsun, t.d. breytt eftir á dagsverkatölunni hjá einum verkamanni úr 58 í 88, og látið óviðkomandi mann skrifa á kaupskrá í kvittunarskyni. Tölubreytingin fullyrti kærði að stafaði af misritun, þegar ritað var ofan í tölurnar á kaupskránni eftir á með bleki – þær höfðu fyrst verið ritaðar með blýanti, til þess að eiga hægara með, segir hann, að leiðrétta reikningsvillur, þegar hann gerði upp við verkamenn, án þess að þurfa að ónýta kaupskrána -; og manninn, sem hann lét skrifa fyrir annan kvittun á skrána, áleit hann sér heimilt eftir atvikum að líta svo á, sem væri húsbóndi hins. Virðist því ekki, segir dómarinn, næg ástæða til að skoða umgetna aðferð sem skjalafals eða hlutdeild í því.
Þá hafði ákærði (E.F.) og talið fleiri dagsverk hjá sumum verkamönnunum en þeir höfðu unnið. En ýmist eru sérstök atvik að því, er gera það ósaknæmt, t.d. að hann breytir ákvæðisvinnu í daglaunavinnu, eða þá að hann hefur leitt sennileg rök að því að það hafi orðið af vangá og honum óafvitandi, enda hins vegar vantalin allmörg dagsverk, þótt borguð hafi verið að fullu, en reikningsfærslan öll ófullkomin.
Kærði hefur áfrýjað dómi þessum til yfirréttar.


Fjallkonan, 23. júní, 1900, 17. árg., 24. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá dómi Héraðsdóms í málinu gegn Einari Finnsyni vegaverkstjóra, en landsverkfræðingur kærði hann á sínum tíma fyrir fjárdrátt og fleira. Einar var dæmdur í 14 daga einfalt fangelsi og til greiðslu málskostnaðar.

Héraðsdómur í málinu gegn Einari Finnssyni.
Hann var upp kveðinn 13. þ.m. og niðurstaðan sú, að kærði var dæmdur í 14 daga einfalt fangelsi, auk málskostnaðar, samkv. 259. gr. hegningarlaganna, fyrir að hafa “með því að draga undir sig nokkuð af verkalaunum Guðmundar Einarssonar misbeitt stöðu sinni til að afla sér ávinnings á sviksamlegan hátt”. Hann hafði talið Guðmundi þessum hærri verklaun en hann galt honum, og lét mismuninn, 36 kr. 75 a., renna í sinn sjóð; gerðist það með þeim hætti, að hann réð til sín mann þennan fyrir umsamið kaup, en lánaði hann síðan í landssjóðsvinnuna (vegavinnu) fyrir hærri daglaun en hann galt honum, og hugði sér það leyfilegt. Segir svo í dómnum því til skýringar: “Það hefur tíðkast allmikið, eftir því sem upplýst er, að ýmsir menn hafa ráðið verkamenn til ákærða, ekki aðeins vinnumenn sína, heldur og aðra, sem þeir hafa tekið einungis til að koma þeim í vinnuna; hafa menn þessir tekið til sín vegavinnulaunin, en goldið verkamanninum umsamið kaup og hirt sjálfir mismuninn. Ákærða var kunnugt um, að slíkar mannaráðningar áttu sér stað, enda áleit hann þær leyfilegar, ef verkamönnum væri eigi greidd hærri daglaun en ætla mætti að þeir ynnu fyrir, og hugði jafnvel, að sér væri sjálfum heimilt að ráða verkamenn á þennan hátt fyrir sinn reikning”.
Af öllum hinum kærunum var hann sýknaður. En þær lutu sumar að skjalafölsun, t.d. breytt eftir á dagsverkatölu hjá einum verkamanni úr 58 í 88, og látið óviðkomandi mann skrifa á kaupskrá í kvittunarskyni. Tölubreytingin fullyrti kærði að stafaði af misritun, þegar ritað var ofan í tölurnar á kaupskránni eftir á með bleki – þær höfðu fyrst verið ritaðar með blýanti, til þess að eiga hægara með, segir hann, að leiðrétta reikningsvillur, þegar hann gerði upp kaupið við verkamenn, án þess að þurfa að ónýta kaupskrána; og manninum sem hann lét skrifa fyrir annan kvittun á skrána, áleit hann sér heimilt eftir atvikum að líta svo á, sem væri húsbóndi hins. “Virðist því ekki”, segir dómarinn, “næg ástæða til þess að skoða umgetna aðferð sem skjalafals eða hlutdeild í því”.
Þá hafði ákærði (E.F.) og talið fleiri dagsverk hjá sumum verkamönnum en þeir höfðu unnið. En ýmist eru sérstök atvik að því, er gera það ósaknæmt, t.d. að hann breytir ákvæðisvinnu í daglaunavinnu, eða þá að hann hefur leitt sennileg rök að því, að það hafi orðið af vangá og honum óafvitandi, enda hins vegar vantalin allmörg dagsverk, þótt borguð hafi verið að fullu, en reikningsfærslan öll ófullkomin.
Kærði hefur áfrýjað þessum dómi til yfirréttar.


Austri, 29. júní, 1900, 10. árg., 22. tbl., bls. 80:
Á þingmálafundi í Norður-Múlasýslu var samþykkt tillaga um vegamál.

Þingmálafundur
fyrir Norður-Múlasýslu var haldinn að Rangá 26. þ.m. samkvæmt áður útgefnu fundarboði frá báðum þingmönnum kjördæmisins.
.. Voru þessi mál tekin til umræðu:
.. 7. Málið um akveg milli Héraðs og Fjarða.
Tillaga: Fundurinn lýsir yfir samþykki sínu á áliti sýslunefndarinnar í Norður-Múlasýslu á fundi 17.-20. apríl þ.á. að því er snertir akveg á milli Héraðs og Fjarða, að því viðbættu, að möguleikar til uppsiglingar í Lagarfljótsós séu jafnframt rækilega rannsakaðir.
Samþ. með 9 atkv. gegn 1.


Þjóðólfur, 30. júní, 1900, 52. árg., 42. tbl., bls. 166:
Hér fjallar Þjóðólfur slæm reikningsskil og sóun eða jafnvel stuld á vegafé landssjóðs, en tilefnið er málshöfðun gegn tilteknum vegaverkstjóra fyrir fjárdrátt og fleira. Til þurfa að koma verulega hert eftirlit og er t.d. lagt til að stofnuð verði skrifstofa landsverkfræðings sem hafi yfirstjórn og eftirlit með vegagerð.

Umsjón með vegamálum.
Um fátt mun mönnum tíðræddara sem stendur, að minnsta kosti sumstaðar á landinu, en um agnúa þá, er séu á vegagerðarmálum vorum, sérstaklega á meðferð þess mikla fjár, er til vegabóta er veitt af landsfé.
Tilefnið til þess umtals nú er vitanlega öðru fremur málshöfðunin gegn einum vegabótaverkstjóra landssjóðs, sem nýlega hefur verið dæmdur sekur af undirrétti fyrir eina af yfirsjónum þeim, er hann var sakaður um. En annars verður ekki sagt, að óánægjan með fyrirkomulag og rekstur vegabótamálanna sé með öllu ný bóla.
Yfirskoðunarmenn landsreikningsins gerðu á síðasta ári þá athugasemd við ávísun vegabótafjárins úr jarðabókarsjóði, að hún hafi “farið þannig fram, að það má heita ókleift með öllu að finna samræmi milli sundurliðunar vegakostnaðarins í jarðabókarsjóðsreikningnum og í landsreikingnum, og þó er það alveg nauðsynlegt og að okkar skilningi vel framkvæmanlegt, að jarðabókarsjóðsreikningurinn beri með sér og sé samhljóða landsreikningnum í því, til hvers hverri útborgaðri upphæð hafi verið varið, en það yrði með því, að ávísanir landshöfðingja upp á féð væru ávallt glöggt og rétt orðaðar í þessu tilliti. Við höfum áður í landsreikninga athugasemdum okkar tekið þetta sama fram, en þó er eigi síst ástæða til þess nú við þennan reikning”.
Af svari landshöfðingja má ráða, að hann hefur talið þessa athugasemd eða aðfinnslu á rökum byggða.
Í þingræðum komu og fram í fyrra alvarlegar athugasemdir viðvíkjandi þessu máli. Meðal annars, þótti það ísjárvert, að allmikið fé væri fengi í hendur einstökum mönnum, sem naumast hefðu næga þekkingu, sumir hverjir, til þess að gera góð reikningsskil, enda væru þau óglögg hjá þeim og illt að átta sig á þeim. Verkstjórar sýni ekki næg rök fyrir því, að féð gangi í raun og veru allt til þess, sem ætlað er.
Þá var og kvartað undan því, að kostnaðurinn við vegabótarvinnu mundi vera óþarflega hár. Verkstjórar legðu til alla hestana og fengju fyrir þá 70-80 kr. um sumarið, sem væri of há leiga, þar sem góða vagnhesta mætti fá keypta fyrir 80 kr. Stundum fengju og verkstjórar hesta leigða hjá bændum, en það kæmi hvergi fram, hvort leigan, sem tilfærð væri í landsreikningnum, væri hin sama og leigan, er bændur fengju.
Agnúar þóttu og á ráðningu verkamanna; oft veldust til vegabótavinnunnar slæpingar og flækingar, sem enga vinnu mundu fá hjá bændum, og í þjónustu landstjórnarinnar fengju þeir hærra kaup en bændur annarra gæfu sínum nýtustu mönnum. All mikilsverð árétting þessara hliðar á málinu kemur og fram í dómi þeim sem áður er um getið, þar sem dómarinn kemst svo að orði:
“Það hefur tíðkast allmikið eftir því sem upplýst er, að ýmsir menn hafa ráðið verkamenn til ákærða, ekki aðeins vinnumenn sína, heldur og aðra, sem þeir hafa tekið einungis til þess að koma þeim í vinnuna; hafa menn þessir tekið til sín vegavinnulaunin, en goldið verkamanninum umsamið kaup, og hirt sjálfir mismuninn. Ákærða var kunnugt um, að slíkar mannaráðningar áttu sér stað, enda áleit hann þær leyfilegar, ef verkamönnunum væri eigi greidd hærri daglaun en ætla mætti að þeir ynnu fyrir, og hugði jafnvel að sér væri sjálfum heimilt að ráða verkamenn á þennan hátt fyrir sinn eigin reikning”.
Athugasemdum þeim, sem fram komu í þessu máli á þingbekkjunum, og hér hefur verið frá skýrt, var alls engu svarað af landsstjórnarinnar hálfu, svo vér munum. Enda virtist og gengið að því vísu, að með þessu fyrirkomulagi, sem nú ætti sér stað, mundi landstjórninni um megn að hafa nægilegt eftirlit með þessum málum.
Sjálfsagt er því líka svo farið. Því fer mjög fjarri, að ástæða sé til að ætla annað en að landsstjórnin vilji forða landssjóði frá því, að nokkur eyrir sé ranglega af honum hafður. En sannleikurinn virðist vera sá, að fyrirkomulagið er miðað við það, er fjárveitingar til vegabóta voru margfalt minni en þær eru nú orðnar. Áin þarf vitanlega víðari farveg, þegar vatnsmagnið í henni hefur sjöfaldast eða tífaldast. Vegabæturnar þurfa að sjálfsögðu víðtækari umsjón og eftirlitið verður örðugra, þegar farið er að veita til þeirra 80-90 þúsundum á ári, en meðan menn létu sér nægja svo sem 10 þúsundir, eins og átti sér stað fyrir tiltölulega fáum árum.
Að hinu leytinu liggur í augum uppi, að svo búið má ekki standa. Engin von er til þess, að þjóðin uni því að hún sé féflett árlega og það í þeim efnum, sem hún getur sjálf þreifað á. Margir þeir, sem ekki vilja láta sér skiljast, að stjórn vor sé neitt vítaverð fyrir það að baka oss tjón, sem numið getur og numið hefur hundruðum þúsunda, taka sér það að sjálfsögðu nærri ef sumarleiga sem landssjóður greiðir eftir eina bikkju, er eitthvað of há, eða ef landsmenn hafa landssjóð á einhvern annan hátt að féþúfu. Og síður en ekki er það ámælisvert, að þeir gera sér rellu út af því tjóni, sem þeir láta sér skiljast, þó að hins væri jafnframt óskandi, að skilningur þeirra á landsmálum væri víðtækari.
Vandinn er þá þessi, hvernig við lekanum verður (ólæsilegt orð). Flestir virðast ganga að því vísu, sem vér höfum heyrt á málið minnast, að ekki sé til þess ætlandi af landshöfðingja, að hann geti haft svo nákvæma umsjón með þessum málum, sem þörf er á.
Miklu eðlilegra virðist og fyrir ýmsra hluta sakir, að setja slíka yfirumsjón í sambandi við störf landsverkfræðingsins. Ekkert verulegt virðist því til fyrirstöðu, að haldin sé opin skrifstofa hans hér, þó hann sé sjálfur í ferðalögum. Sá eða þeir, sem þar yrðu skipaðir, ættu þá, undir yfirstjórn hans, að gera tillögur um vegabætur, að því leyti, sem þær eru á landsstjórnarinnar valdi, og hafa umsjón með mannaráðningum, hesta og áhaldaútvegun og fjárgreiðslum öllum. Sjálfsagt væri, að hafa verkstjórana að ýmsu leyti í ráðum með. En á þennan hátt ætti að vera unnt að tryggja landssjóð gegn flestum eða öllum þeim misfellum, sem hingað til hefur verið kvartað undan. Að svo miklu leyti, sem skrifstofa þessi gæti ekki til náð, fjarlægðar vegna, mundi hún leita samvinnu hjá þeim yfirvöldum, sem hentugast væri við að eiga, líkt og póstmeistari gerir.
Auðvitað mundi þessi breyting ekki verða kostnaðarlaus. En öll líkindi eru til þess, að landssjóður hafi þegar orðið fyrir miklu meiri halla en sem kostnaðaraukanum nemur, fyrir illa meðferð á vegabótafénu og of lítið eftirlit. Vel getur og verið, að ráða megi bót á misfellunum á einhvern annan hátt en hér er á minnst. En hætt er við, að það verði aldrei gert til hlítar nema með einhverjum kostnaðarauka.


Ísafold, 7. júlí, 1900, 27. árg., 44. tbl., bls. 174:
Í fréttabréfi að austan segir að efnið í Lagarfljótsbrúna sé nú komið á Eskifjörð.

Lagarfljótsbrúin.
Skrifað er að austan, að efnið í Lagarfljótsbrúna sé komið á Eskifjörð og hefur konsúll C.D. Tulinius tekið að sér flutning á efninu upp á Hérað, um Fagradal; hann ætlar að aka því gegnum dalinn og hefur látið ryðja veg í því skyni, akbraut, eftir honum öllum. Við riðum hann nokkrir 29. maí – segir sá sem þetta skrifar – og var hann þá allur runninn; en ekki sást um það leyti nema á hæstu vörðu á Fjarðarheiði (Seyðisfjarðar), og 16. júní var ekki kominn þar upp nema stöku varða. Hún verður líklegast runnin seint í næsta mánuði (júní), af því að nú er steypirigning dag hvern.


Fjallkonan, 9. júlí, 1900, 17. árg., 26. tbl., bls. 2:
Ferðamaður kvartar undan Flóaveginum milli Þjórsár og Ölfusár og gefur landsverkfræðingi góð ráð.

Flóavegurinn.
Flestir sem um veg þennan fara, sem liggur yfir Flóann milli brúnna (Þjórsár og Ölfusár) dæma ekki öðruvísi um hann en að hann sé lítt fær, hvort heldur sem er fyrir lausa hesta eða klyfjaða, nema þá því aðeins, að snjór sé yfir honum.
Þessi vegur er alveg nýgerður, en gallinn er, að ofaníburður sá, sem í hann var hafður, er svo laus fyrir, að þegar hann þornar hefur hann rokið jafnóðum í burt og af þeim ástæðum hefur “púkkið” jafnskjótt losnað upp; er hann því yfirferðar engu betri en hraungata full af smágrjóti, því að hestar geta hvergi stigið annars staðar en á hnullungssteina frá því skammt fyrir austan Ölfusárbrú og á móts við Hraungerði; úr því eru smákaflar í honum heldur skárri.
Allir þeir ferðamenn, sem ég hef talað við, kvarta sáran yfir því, að geta ekki brúkað svo góðan veg, sem hann í fyrstunni var talinn. – Svo væri vel trúlegt, að hann yrði ógreiður fyrir póstvagninn, ef hann á að fara í viku hverri eftir honum.
Að fá góðan ofaníburð og laga þennan veg eins og með þyrfti mundi kosta æði mikið fé, og líklega ekki hægt sem stendur, því erfitt verður að fá reglulega góðan íburð, en að bæta veginn, svo hann yrði brúklegur, mundi ekki kosta mjög mikið fé. Ætti þá að ryðja öllu grjóti bæði smáu og stóru af honum, sem þar liggur laust, og er algjörlega gagnslaust, nema ferðamönnum og hestum þeirra til tálmunar.
Þetta gæti bætt veginn mikið í bráðina, en ef til vill yrði það ekki til langframa.
Auðvitað væri æskilegast, að vegurinn væri bættur það, sem þörfin krefur, en af tveimur fjárútlátum, sem af því mundu leiða, tók ég hér þau minni.
Allur almenningur, sem veg þennan þarf að nota, að meira eða minna leyti, óskar svo góðs af þeim sem yfir vegum og brúm eiga að ráða hér á landi, að þeir ráði einhverja bót á þessu.
Á Jónsmessudag 1900.
Ferðamaður


Þjóðólfur, 13. júlí, 1900, 52. árg., 33. tbl., bls. 130:
Sigurður Thoroddsen svarar gagnrýni “Þórarins Jóhannsonar” og Tryggva Gunnarssonar bankastjóra, sem hann gefur í skyn að séu jafnvel einn og sami maðurinn. Þá hneykslast hann í lok greinarinnar á því að tillögur verkstjóra séu teknar fram yfir tillögur verkfræðinga.

“Þórarinn Jóhannsson” og Tryggvi Gunnarsson.
Í 19. tölublaði Fjallkonunnar þ.á. er grein eftir “Þórarinn Jóhannson” með fyrirsögninni “Andhæli”, sem ég álít mér skylt að svara nokkrum orðum, ekki vegna þess, að ég sé hræddur um, að nokkur skynsamur maður taki mark á því, sem í Fjallkonunni stendur nafnlaust eða með dularnafni – og Þórarinn Jóhannson (verkamaður) er aðeins dularnafn – heldur vegna þess, að hér kemur fyrst fram opinberlega árangurinn af margra ára rógburði eins manns um mig – Tryggva bankastjóra Gunnarssonar – og ég fæ því tækifæri til þess að sýna fram á bankastjórans sannleiksást og samviskusemi í árásum hans á mig.
Hvaða ástæðu hann hefur haft til þess að vera alltaf að narta í mig, veit ég ekki. Ég veit ekki til, að ég nokkru sinni hafi gert honum nokkurn hlut til miska.
Hvort ég á að njóta bróður míns Skúla, sem honum er illa við – og hann hefur þorað betur til við mig en hann – eða á ég að njóta þess, að ég er ingenieur, en hann þóttist áður – og þykist víst enn – Íslands “pontifex maximus” í þeirri list, er mér ókunnugt um.
En sleppum því með ástæður hans.
Svo mikið er víst, að hann hefur alltaf verið á eftir mér, bæði utan þings og innan, en sérstaklega hefur hann þó verið að rægja mig á þingi við þingmennina, af því hann hefur haldið að þar gætu áhrifin orðið skaðlegust fyrir mig. Þar hefur hann komið með ýmsar ósanninda- og þvaðursögur um mig, sem svo ómerkingurinn í Fjallkonunni hefur tekið upp að miklu leyti, en bætt dálitlu við frá eigin brjósti.
Ein sagan, sem Tryggvi sagði var sú, að það hefði átt að vanta sement við Blöndubrúna, svo að hætta hefði orðið við verkið í miðju kafi. Þetta er bara slúður; það var nægilegt sement til þess að ljúka við það af stöplunum, sem ég ætlaðist til að búið væri það sumar – sumarið 1896 – því að það var ekki hægt né heppilegt að hlaða efstu lögin af stöplunum fyrr en um leið og járnbrúin væri sett á, sem varð næsta sumar (1897). Vinnan hætti sumarið 1896 ekki fyrr en seint í september, þegar næturfrost voru farin að koma og verra að eiga við múrsmíði.
Þá ber Tryggvi það á borð fyrir þingmenn, að það hafi verið allt mér að kenna, að akkerisstöpullinn annar á Þjórsárbrúnni reyndist of léttur á vígsludeginum og hafi “hótað hundruðum manna bráðum bana”, eins og stendur í nefndri Fjallkonu grein.
En þetta mál var þannig vaxið, að íslenska ráðuneytið í Kaupmannahöfn samdi að öllu leyti um brúargerðina við ensku verksmiðjuna Vaughan & Dymond, lét gera í útlöndum undir umsjón teknísks ráðunauts síns (Windfeld-Hansen) teikningar allar og útreikninga. sem það svo samþykkti. Mitt hlutverk var því aðeins að sjá um, að verkið væri gert vel og samviskulega eftir þeim teikningum sem fyrir lágu. Sumarið 1894 voru stöplarnir hlaðnir, en þá hafði ég enn ekki fengið neinar teikningar frá ráðuneytinu. Sumarið 1895, þegar járnbrúna átti að leggja á stöplana fékk ég teikningarnar og gat þá fullvissað mig um, að stöplarnir voru eins og teikningarnar sögðu fyrir, aðeins voru aðalstöplarnir að austanverðu of lágir, og voru þeir strax snemma um sumarið hækkaðir eins og vera átti. Mér datt alls ekki í hug að rengja útreikninga útlendu ingenieuranna, og fann enga ástæðu til að reikna út styrkleika og þyngd stöplanna fremur en hvers smá-járnstykkis, sem í brúnni var. Það var fyrst eftir að annar akkerisstöpullinn, vígsludaginn, lyftist um 1-2 þumlunga upp, að ég fór að athuga og reikna út þunga akkerisstöplanna og fann þá, að þeir voru helst til léttir, til þess að geta staðist þann mesta þunga, sem á brúna gat komið. Ég þykist því enga sök eiga á því, að svo tókst til, heldur var það yfirsjón ráðunauts stjórnarinnar í K.höfn að kenna, sem gerði eða samþykkti teikningarnar.
Þegar jarðskjálftarnir miklu gengu hér á Suðurlandi og Ölfusárbrúin skemmdist; 3-4 uppihaldsstengur hrukku í sundur, stöpull undir trébrúnni austanvert við aðalbrúna hrundi m.m., brá Tryggvi sér austur og kom svo eftir á með þá speki í Ísafold, að klöppin undir vesturstöpli Þjórsárbrúarinnar hefði verið margsprungin, þegar brúin var byggð, af því að hann sá, að klöppin var sprungin nokkuð fyrir framan stöplana eftir jarðskjálftana. Það er lagleg ályktun hjá bankastjóranum, að af því að jarðskjálftarnir hafi sprengt nokkuð framan af klöppinni og eitt stöpulhornið því standi nokkuð tæpt nú, að þá hafi brúin hlotið að standa tæpt, þegar hún var byggð. Nei – klöppin var heilleg og það var 1-2 faðma þrep fyrir framan vesturstöplana sumarið 1895, en bankastjórinn gat þess alls ekki, að hornið á vesturstöpli Ölfusárbrúarinnar stóð og stendur fram af klöppinni, því að það mátti ekki kasta neinum skugga á óskabarnið.
Þá sagði T.G. ennfremur oft á þingi, að ég hefði ekki viljað skoða Bessastaðatjörn í því skyni að gera áætlun um kostnað við þilskipakví. – Þetta er í sjálfu sér ómerkilegt mál, því að það hefði ekki verið svo stórvægileg synd, þótt ég hefði ekki viljað hlaupa eftir því, sem Tryggvi vildi gera láta, því að ég var alls ekki skyldugur til að skipta mér neitt af því. – En það undarlega var, að ég ætlaði að gera þetta fyrir Tryggva og ætlaði að fara með honum suður eftir einhvern tíma við stórstraumsfjöru, því að þá var best að skoða tjörnina.
Einn góðan veðurdag – það var í apríl 1897, rétt fyrir páska að mig minnir – sagði ég við T., að nú skyldi ég koma með honum; en hann var þá eitthvað vant við látinn, og vildi heldur geyma það hálfan mánuð enn – til næstu stórstraumsfjöru. – Þegar hann svo að hálfum mánuði liðnum vildi fara, gat ég ekki farið sökum lasleika, ég hafði fengið “Bronkitis” og læknirinn réð mér frá að fara. – Undireins og ég varð frískur þurfti ég að fara norður til Blöndubrúarbyggingarinnar. – Út úr þessu býr svo Tr. það til, að ég hafi ekki viljað fara, og notar það til að sverta mig í augum þingmanna, og þetta er því lúalegra, þar sem ég var fjarstaddur og gat ekki borið hönd fyrir höfuð mér.
Nokkur fleiri atriði eru nefnd í Fjallkonugreininni, sem Tr. hefur ekki enn komið fram með í þingsalnum, en ég geri ráð fyrir, að þau finnist samt öll – og meira til – í þykku bókinni, sem hann sagðist geta fyllt með mínum ingenieur-syndum.
Þessi atriði eru mestmegnis ekki annað en rangfærslur og ósannindi.
Til dæmis má taka, þar sem sagt er, að breytt hafi verið stefnu þeirri, er ég hafi ætlað veginum frá Kolviðarhóli upp á Hellisheiði. – Það er sá fótur fyrir þessu, að ég breytti sjálfur ofurlitlum spöl á þessum vegarkafla – 2-300 föðmum – eftir að ég hafði fengið aðrar upplýsingar en áður um snjóþyngsli og vatnagang.
Ennfremur er sagt í greininni, að Hörgá hafi “velt brúnni af sér”; það veit ég eigi, hvernig hefur getað átt sér stað, þar sem engin brú hefur ennþá verið lögð yfir ána og ekki einu sinni járnið í hana kom fyrr en í vetur. – Það sem höfundurinn á við, og rangfærir svona, er líklega það, að það gróf í óvanalega miklum vatnavöxtum undan einum af 4 stöplunum, ekki hálfgerðum og nenni ég ekki að taka hér upp aftur það, sem ég skrifaði um það í Stefni í sumar sem leið, en læt mér nægja að vísa til þess.
Þá minnist höfundur Fjallkonugreinarinnar á tillögur mínar viðvíkjandi Öxarárbrúnni og Holtaveginum og finnur mér það til foráttu, að þeim tillögum mínum var ekki fylgt; en fyrst er að sanna það, að hinar tillögurnar, sem fylgt var, hafi verið betri en mínar; það er ekki alltaf réttast það, sem sigrar eða verður ofan á, og þó að verkstjórinn (E.F.) segi t.d., að Öxarárbrúin hafi orðið ódýrari en ég áætlaði, þá veit maður það eftir þeim prófum, sem í hans sakamáli hafa verið haldin, að öll hans reiknisfærsla hefur verið í vitleysu og á ringulreið; það er því ekki óhugsandi, að það hafi komið einhver ruglingur á reikninga hans viðvíkjandi Öxarárbrúnni og vegagerðinni á Mosfellsheiði, sem hann hafði umsjón með um sama leyti, og eitthvað frá Öxarárbrúnni hafi slæðst inn í Mosfellsheiðarreikningana, og þess vegna hafi brúin orðið svona ódýr.
Það, að mínum tillögum var ekki fylgt heldur verkstjórans, sýnir aðeins það, hvað Íslendingar eru skammt komnir áleiðis í því verklega, og hvert ólag er á vegastjórninni, eins og henni er nú fyrir komið.
Það myndi aðeins þykja hlægilegt í öðrum menntuðum löndum, ef einhver héldi því þar fram, að taka ætti fremur til greina tillögur verkstjóranna, ómenntaðra alþýðumanna, en tillögur ingenieuranna.
Og til hvers eru þá Íslendingar að hafa nokkurn lærðan ingeniur? Það væri þá heppilegra að gera einhvern verkstjórann eða alla verkstjórana að ingenieurum, en sleppa hinum “stofulærða” það spöruðust nokkrir skildingar við það; en annað mál er það , hvort Íslendingar ekki með því laginu spöruðu skildinginn en köstuðu burt krónunum, já þúsundunum, sem töpuðust við vitlausa vegalagningu og vitlaust fyrirkomulag á vegamálunum.
Reykjavík 8. júlí 1900.
Sig. Thoroddsen.


Austri, 16. júlí, 1900, 10. árg., 23. tbl., bls. 88:
Hér er fjallað um fund sýslunefndar Suður-Múlasýslu þar sem m.a. var útdeilt fé til framkvæmda við sýsluvegi.

Útskrift úr gjörðarbók sýslunefndar Suður-Múlasýslu.
.. Lagðar fram álitsgerðir um alla sýsluvegi í Suður-Múlasýslu, og kynnti sýslunefndin sér þessar álitsgerðir rækilega og fannst þær allar mjög sanngjarnar utan álitsgerðin úr Breiðdalshreppi, sem sýndi að skoðunarmennirnir höfðu algjörlega misskilið hlutverk sitt. Reikningar yfir þessar álitsgerðir voru framlagðir og samþykktir.
Sýslunefndarmaður Norðfjarðar bar fram uppástungu um að sýsluvegurinn af Oddskarði og niður til Norðfjarðar, sem nær niður að Blóðbrekku, verði framlengdur út að Nesi og var það samþykkt í einu hljóði. Allur vegurinn frá Eskifirði að Nesi í Norðfirði er því hér eftir sýsluvegur.
Sýslunefndarmaður Reyðarfjarðarhrepps varð veikur er hér var komið og vék því af fundi; í hans stað tók setu á fundinum varasýslunefndarmaður þess hrepps.
.. Rætt var á ný um hina fyrirhuguðu akbraut á Fagradal og lét nefndin í ljós eindreginn áhuga á málinu og samþykkti að skrifa landshöfðingja þar að lútandi til þess að koma málinu sem fyrst á rekspöl.
.. Var ráðstafað sýsluvegasjóðsgjaldi þ. árs.
Tekjur.
1/2 sýsluvegasjóðsgjalds kr. 600
Gjöld.
1. Til tjalds 20
2. Til Örnólfsskarðs 350
3. Til vegar frá Rangárferju að Gilsárteigsklifi 50
4. Til vegar innan Hallormstaðarháls 30
5. Til vegar undir Hátúni 60
6. Til vegar frá Hesteyri að Rima 40
7. Til vegar fyrir utan Björg í Reyðarfirði 50
Samtals kr. 600
.. Jóni Ísleifssyni falið á hendur að stjórna vegavinnu í Örnólfsskarði en sýslunefndarmönnum falið að sjá um hinar vegagerðirnar hverjum í sínum hreppi.
Oddvita sýslunefndar veittar 20 krónur fyrir ritföng, afskriftir og fleira.
Borgað fyrir húslán og átroðning við fundarhaldið kr. 75


Ísafold, 21. júlí, 1900, 27. árg., 47. tbl., viðaukablað:
Á sýslufundi Kjósar- og Gullbringusýslu var m.a. tekið á ýmsum vegamálum.

Sýslufundargerðir Kjósar- og Gullbringusýslu.
.. Oddvita falið að annast um, að allar hreppsnefndir í sýslunni sendi reikninga hreppavegasjóðanna fyrir 1899, og framvegis árlega; og var oddvita ennfremur falið að úrskurða reikningana fyrir 1899.
Samþykkt að veita til vegabóta komandi sumar:
Til brúarinnar við Rósuselsvötn kr. 30
Til lagfæringar á veginum á Njarðvíkurfitjum 60
Til lagfæringar veginum um Reiðskarð 45
Til brúarinnar við Latarholt 65
Til vegagerðar frá Hafnarfirði út á Álftanes 800
Var sýslunefndaroddvita ásamt sýslunefndarmönnum Garða og Bessastaðahreppa og hreppsnefndum þeirra falið að koma vegagerðinni á Álftanesi til framkvæmda. Í hinum hreppunum annast sýslunefndarmaður hreppsins vegabótina.
Var samþykkt að sýsluvegakafli sá, er legið hefur frá Selskarði að Brekkuhliði, verði færður þannig, að hann verði lagður frá Selskarði að Bessastaðagranda, og þannig sameinaður hreppavegi þeim er þar liggur að Bessastöðum og á Norðurnesið.
Hreppsnefnd Garðahrepps veitt heimild til að taka allt að 750 kr. lán upp á hreppsvegasjóð hreppsins, gegn ábyrgð sýslunefndarinnar.


Austri, 24. júlí, 1900, 10. árg., 25. tbl., forsíða:
Hér birtist bréf til Austra frá Páli Jónssyni vegaverkstjóra og fjallar það um þann mun sem er á vegagerð Norðmanna og Íslendinga. Páll fór til Noregs til að kynna sér þarlenda vegagerð og vill Páll meina að þar sé góða fyrirmynd að finna.

Bréf frá Páli vegfræðing Jónssyni.
Háttvirti ritstjóri!
Næstliðið haust gat ég þess, að ég vildi fara með farfuglunum, þó ekki lengra en til Noregs, og vita hvers ég yrði vísari í vegagerðum, sem einnig gæti komið hér að liði.
Nú er sumarið komið og farfuglarnir, sem með endurnýjuðum kröftum, hver eftir sínum efnum, syngja um dásemd og dýrð.
Ég er og kominn, vildi feginn geta tekið undir í mínum verkahring og sungið um framför og framfaravon.
Því skal eigi neitað, að ýmislegt bar fyrir augu, sem gaf efni í endurnýjaðan kraft, en sökum mismunandi loftslag með fl., þá verður ekki sungið í sama tón hér og þar (í Noregi). Er ég þó ánægður með för mína og verslun, því fremur hef ég nú von um en áður að ná laginu (verða ekki hjáróma), og vel sé þeim sem leitar sér upplýsinga í sinni eigin grein og framleggur sína krafta, hann hefur von um að ná fram í baráttunni við tilveruna.
Það er enginn efa á að vér ættum að fylgja meginreglum Norðmanna í vegagerðum; það var líka byrjað í þá átt fyrir 15-16 árum, þá var fenginn norskur vegfræðingur með 4 verkamönnum; þeir byggðu eftir þeim lögum, reglum og formum sem tíðkuðust þá í Noregi, allt fór vel og man ég ekki til að neitt hafi verið kvartað undan þessu fyrirkomulagi, enda engin ástæða til þess, þegar hér er jafnað saman vorum eldri vegagerðarreglum; en síðan hefur setið við það sama, ef ekki heldur snúist í gamla horfið. Því skal þó eigi neitað, að þingið hefur sýnt að það vill áfram í þeirri grein, bæði í framkvæmd og stjórn, en því miður hefur viðleitnin ekki borið jafn mikinn ávöxt sem vænta mátti. Þó má ekki eingöngu gefa þinginu það að sök eða stjórn þeirri sem það hefur valið, allt hefur sínar orsakir og skal ég lauslega minnast á þær sem mér virðast helstar.
Þess er áður getið, að Norðmenn byggðu hér eftir sínum lögum og reglum, en hver voru þau? Svo lítur út sem þau séu öllum hulin, og ef svo er, þá er annað auðveldara en að byggja lög og reglur í líkingu við þau sem aldrei hafa heyrst eða sést; svo er og lítil ástæða fyrir þingið að verja kröftum sínum og tíma til að semja lög í þeirri grein, sem ekki er frekar kvartað undan lagaleysi en hér á sér stað.
Í vorum vegagerðarverkahring er ég mínum (sem verkstjóri) kunnugastur, og séu reglur hér bornar saman við þær í Noregi, þá eru þær þar hér um bil á þessa leið: Verkstjóri gefur allar nauðsynlegar reglur um byrjun og framhald vinnunnar, samkvæmar gildandi lögum, samþykktum, formum, höfuðreglum og ákvörðunum frá yfirverkfræðingi. Hér eru ekki slíkar reglur eða form, sem verkstjóri fylgir eða getur rétt sig eftir, og verður því ekki annað sagt en það sé hrópandi vöntun á reglum líkt og Skougaard skrifstofustjóri í vegastjórnardeildinni í Noregi sagði um mótsetningarnar í vegaviðhaldsreglum Norðmanna og Frakka 1895: “Lagaleysi og regluleysi hefur bakað oss mörg þúsund króna tap auk annarra óþæginda”. Hér er þó ekki hægt (og á jafnvel ekki við) að ræða um vegareglur Norðmanna í heild sinni. Vil ég aðeins nefna fá atriði, sem mér virðist að þurfi að ræðast sem allra fyrst, og er þá´:
. Vegstefnan. Um vegstefnuna hjá Norðmönnum stendur meðal annars: Til að fá æskilegt framhald, þá verður að þekkja nákvæmlega hvar vegastefnan er best komin. Á þessu sést að búið á að vera að ræða um það, hvar vegurinn á að liggja áður en verkið er byrjað; en hjá oss hefur ágreiningurinn byrjað með verkinu eða ekki fyrr en það er á enda, þá kemur fyrst upp að vegurinn er á allt öðrum stað en hann átti að vera; allir sjá hver óþægindi þetta eru fyrir hlutaðeigandi og ekki síst fyrir verkstjóra, sem kemur samtímis verkamönnum í óþekkt byggðarlög og verður undir öllum kringumstæðum að byrja verkið án allra rannsókna eða annarra upplýsinga um vegstefuna.
. Þá kemur vegformið. Auðvitað byggir hver eftir sínum hugsunarhætti. Hér skal aðeins minnst á vegbreiddina, sem hefur svo afarmikla þýðingu að vegurinn sé ekki hafður óþarflega breiður, eða sé svo mjór að það komi í bága við vanalega umferð. Í undanfarin ár hef ég haft vegabreiddina 9 fet, þegar vegagerðin er í nokkru samhengi og ekki verður annað álitið en vegurinn verði notaður sem klyfjavegur, þó geta kerrur mæst á þessari breidd. Þegar engin aðalstefna er valin önnur en fylgja gamla veginum, sem upphaflega var myndaður af hestunum, og vegagerðin eða réttara vegabótin er í smá pörtum, þá hef ég haft breiddina aðeins 6 fet, t.d. í Norðurárdal í Skagafirði. Áðurnefnd 9 feta breidd á klyfjaveginum á nú að vera búin að sýna hvort hún er fullnægjandi í þeim byggðarlögum sem hún er, sé hún það, þá sjást ekki ástæður sem mæla á móti því að hún væri samþykkt, þegar aðalvegstefnan er ákvörðuð fyrirfram. Það getur verið að vagnvegir verði að vera breiðari – 4 metra eða 12 fet álít ég þó óþarfa – en þess má geta, að með umferðinni og aldrinum breikkar vegflöturinn.
. Vegbyggingin. Í Noregi er vegurinn byggður með steinaundirlagi (púkki) og hann álitinn því ódýrari sem “púkkið” er sterkara (það er að skilja þegar til viðhaldsins kemur). Það hefur líka verið byggt hér með “púkki” nokkur undanfarin ár hjá einum verkstjóranum, en hvort þar verður áframhald og önnur félög byrja á því er efasamt. Það eru þó allar líkur til að sama reyndin verði hér allstaðar með “púkk”vegi að öðru en því sem minnst er á í Bjarka IV. Nr. 45; það ætti þó ekki að standa í vegi, því ef það virðist ógerningur að fyrirbyggja slíkt, þá er ekki óhugsandi (engin sönnun) að byggja mætti svo að það hefði ekki stórspillandi áhrif, einkum þar sem gott byggingarefni væri við hendina (sjá “Ísafold” XXVII, nr. 1), en telja má það vísast að viðhaldið verði dýrara en ella og vegurinn endingarminni. Því verður ekki neitað að bygging “púkk”vega verður dýrara en malarvega, þó getur það fyrirkomið, á köflum, að “púkk” verði ekki dýrara, þegar efni er við hendina og erfitt með möl, sem oft á sér stað, enda farið að horfa til vandræða með möl til viðhalds á vorum eldri vegum, þó ekki sé langt um liðið. Það er því hugsun mín, að það ætti að minnsta kosti að byggja með “púkki” þar sem efni í það er við hendina og útlit fyrir vöntun á möl til viðhalds í framtíðinni, en auðvitað krefur verkið lengri tíma.
. Vinnureglur. Í Noregi er vegavinnan unnin í “akkorðum” (forsagt Arbeide), og því bækur og blöð stíluð eftir því, en hér er aftur á móti unnið fyrir daglaun. Báðar þessar reglur hafa mikið við að styðjast, og einnig hvor sína skuggahlið. Ég hef álitið, að daglaunavinnan væri sú réttlátasta bæði fyrir vinnuveitendur og vinnumenn, en reynslan er farin að sýna að hún er eigi svo heppileg sem skyldi, og jafnvel engu betri viðfangs en “akkorðs”vinnan, þó eru engar líkur til að breytt verði um vinnureglur fyrst um sinn, því “akkorðs”vinna krefur nákvæmari áætlun um kostnaðinn en vér höfum nú fyrir hendi, og þó skýrslur Norðmanna getið mikið hjálpað í þessari grein, þá eru þær ekki fullnægjandi sökum mismunandi vinnulags m.fl.
. Stjórnin. Samvinna og sambönd milli verkstjóra og yfirverkfræðings þurfa að vera mikil og góð, og án þess verður verkstjórnin meira eða minna ófullkomin, hér ræði ég ekki meira um þetta samband.
Margt væri fleira á að minnast, svo sem viðhald vega, brúargerðir, góða akvegi o.fl., en nú hef ég kvakað á greininni um stund og verð að fljúga burt að sinni; getur verið að ég kvaki aftur ef tími leyfir og ég hef von um að það hafi einhvern árangur.
Þess skal getið við þá, sem vilja ræða um þetta mál og ætla að byggja skoðanir sínar um það á vegareglum Norðmanna, þá hef ég í hyggju, að afhenda þær sem ég hef fengið til landshöfðingja.
Virðingarfyllst
Páll Jónsson


Ísafold, 28. júlí, 1900, 27. árg., 47. tbl., bls. 186:
Amtsráðsfundur í Vesturamtinu tók ákvarðanir um ýmiss vegamál.

Amtsráðsfundur í Vesturamtinu.
.. Ennisdalsvegur í Snæfellssýslu samþykkti amtsráðið að felldur skyldi úr tölu sýsluvega.
Samþykkt var, að Dalasýsla mætti taka 6000 kr. lán upp á sýslusjóðinn til vegabóta og brúagerða í sýslunni.
Til gufubátsferða um Ísafjarðardjúp samþykkti amtsráðið að verja mætti þetta ár 550 kr. af sýsluvegagjaldi Norður-Ísafjarðarsýslu.


Ísafold, 28. júlí, 1900, 27. árg., 47. tbl., bls. 186:
Á amtsráðsfundi í suðuramtinu var talsvert fjallað um vegamál.

Amtsráðsfundur í suðuramtinu.
.. Samþykkt var 2000 kr. lántökuheimild fyrir Borgarfjarðarsýslur til vegagerðar um Leirársveit. Sömuleiðis 300 kr. lántökuleyfi til 5 ára handa sýslusjóði Gullbringu- og Kjósarsýslu til vegagerðar frá Hafnarfirði áleiðis að Görðum.
.. Amtsráðið lagði með málaleitun frá sýslunefnd Árnesinga um, að vegurinn frá Svínahrauni niður að Lækjarbotnum yrði sem fyrst varðaður og sömuleiðis að Mosfellsheiðarvegur yrði allur varðaður milli byggða.
Sama sýslunefnd vildi og fá gert við verstu torfærur yfir Grindaskörð. En amtsráðinu þótti vanta kostnaðaráætlun og beiðni um tiltekinn fjárstyrk.
Guðna Þorbergssyni, sæluhúsverði á Kolviðarhóli, veittur 150 kr. styrkur.
Samþykkt var, að sýsluvegurinn í Landmannahreppi og Holtahreppi skyldi liggja eftirleiðis frá Gömlu-Lækjarbotnum fyrir austan Holtsmúla og Köldukinn suður Marteinstungusnasir hjá Bjálmholti og þaðan beina leið á þjóðveginn vestanvert við Moldartungu; en að gamli sýsluvegurinn frá Lækjarbotnum að Hjallanesi út að Króki legðist niður.


Austri, 20.ágúst, 1900, 10. árg., 28. tbl., bls. 105:
Landshöfðingi með fylgdarliði skoðaði aðstæður í Fagradal og Fjarðarheiði og segir Austri að nú leiki enginn vafi á hvor leiðin verði fyrir valinu fyrir veginn af Héraði niður á Firði.

Fagridalur.
Landshöfðingi skoðaði nú, ásamt Tuliníusi sýslumanni, Thoroddsen verkfræðingi og póstmeistara Sigurði Briem o.fl. leiðina yfir Fagradal og Fjarðarheiði, og mun þeim helst enginn samjöfnuður hafa þótt þar á, svo að héðan af mun enginn efi vera á því, að akvegurinn úr Fljótsdalshéraði til Fjarða mun verða lagður eftir Fagradal að Reyðarfjarðarbotni, sem líka má heita lífspursmál fyrir Héraðsbúa.


Þjóðólfur, 26. október, 52. árg, 50. tbl., bls. 206:
Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur skrifar hér um Eyrarbakkaveginn og er ekki alls kosta ánægður með þessa vegagerð.

Um Eyrarbakkaveginn.
Í fyrravetur skrifuðu einhverjir bréfritarar úr Árnessýslu í bréf sín til “Þjóðólfs” og “Ísafoldar” fáein orð um veg þennan en af því frásögnin var sett innan um annað óviðkomandi, má vera, að því hafi ekki verið veitt eftirtekt. Þykir mér því rétt að biðja “Þjóðólf” fyrir fáeinar línur um það atriði.
Vegur sá, sem hér um ræðir, var fullgerður í fyrrahaust, og verður ekki annað sagt, en hann sé vandaður, þegar litið er til vega yfirhöfuð. Af þeirri stuttu reynslu, sem þegar er fengin, er það komið í ljós , að vegi þessum er þó ekki eins vel fyrir komið og æskilegt væri, og er þetta helst að: Fram á Breiðumýri er hann of lágur og ræsi of mjó og of grunn, en vatnsaðsókn mikil á nokkrum kafla. Fór þar ís yfir veginn í fyrravetur; hafa þó ísalög oft verið miklu meiri. Af þessu leiddi, að ofaníburður skolaðist í burtu á nokkrum stöðum. – Þegar upp að Stekkakeldu kemur, eða upp fyrir hið svonefnda Sandvíkurhús, er vegurinn hærri og ræsi víðari, enda bar þar ekki á offylli í skurðunum. – Eins og kunnugt er um Suðurland, er vegur þessi ákaflega fjölfarinn, bæði með lestir og vagna, hvort heldur er um sumar eða vetur, og án hans er nú ómögulegt að komast til Eyrarbakka eða Stokkseyrar, aðalkaupstaðanna austanfjalls; sjá því allir, að mjög ríður á, að viðhald vegarins sé gott og í tíma sé komið í veg fyrir þær skemmdir, sem vegurinn hlýtur að liggja undir, ef ekki er að gert.
Fyrst af öllu þarf að hreinsa upp úr skurðunum hnausa og rof úr stíflum eða brúm, sem látnar eru á skurðina og velta um, þegar rigningar ganga; hingað til hefur verið mikill brestur á, að þessa hafi verið gætt.
Annað atriðið er, eins og áður er sagt, að vegurinn er of lágur, jarðvegur yfir höfuð gljúpur og vatnsagafullur þar fram á mýrinni; þar hlýtur að mega til að víkka ræsi og dýpka, víkka um 2 fet, dýpka 1 fet og hlaða rofinu fyrir aðrennsli þar sem mest sækir að.
Púkkið í veginum sýnist vera vandlega gert, en það er ekki einhlítt, þegar ofaníburður ofan í það er slæmur, eins og þarna er á löngum kafla, (ofaníburðurinn víða runninn úr að mestu). Fyrir því virðist mesta nauðsyn á, að bera ofan í meiri hluta af vegi þessum að sumri komandi; mun þá ekki annað ráðlegra en sækja ofaníburð upp fyrir Ölfusárbrú eða niður á sjávarbakka. – Vitanlega er sá galli á hvorutveggja þessu, að leiðin er löng. – Samt virðist þetta liggja næst, þegar annarsstaðar á leið þessari fæst ekki nema fínn moldarsandur, er bæði fýkur úr eða rennur burt í leysingum. Í holtunum fyrir ofan Ölfusárbrúna er besti ofaníburður, fastur og haldgóður, og sé hann borinn ofan í vel púkkaðan veg, með nokkrum ofaníburði mun hann duga vel.
Í okt. 1900. S.T.


Ísafold, 3. nóvember, 1900, 27. árg., 67. tbl., bls. 266:
Hér segir frá vegagerð á Mýrum, en byrjað var á Stykkishólmsveginum frá Borgarnesi og stjórnaði Erlendur Zakaríasson verkinu.

Vegagerð á Mýrum.
Hr. Erlendur Zakaríasson er nýlega heim kominn frá sumar-vegasmíð sinni, sem unnin hefur í þetta sinn verið á Mýrum, upphaf Stykkishólmsvegarins fyrirhugaða frá Borgarnesi. Hann hefur komist í þetta sinn vestur að Urriðaá, 11 rastir eða nál. 1 1/2 mílu. Kafli þessi var versta ófæra, fen og foræði, og mikið af keldum; þurfti þar margar rennur, stórar og dýrar. En ofaníburður nógur nærri. Er nú þessi spotti alveg fullgerður, héraðsbúum til mikillar gleði; það eru meira en lítil viðbrigði fyrir þá, eftir ófæruna, sem þar var áður. Undir veginn þurfti að taka slægjuland dálítið frá 4 jörðum, Borg, Litlu-Brekku, Ánabrekku og Langárfossi, og voru eigendur og umráðamenn þeirra mjög vægir í endurgjaldskröfum, ólíkt því sem við hefur brunnið annarsstaðar – fáir staðist freistinguna til að rista sem breiðastan þvenginn af landsjóðshúðinni. Vegurinn var lagður um túnið á Borg, en ekkert tekið fyrir annað en girðing beggja vegna kostuð af landssjóði (200 kr.).
Kostað hefur vegarkafli þessi rúmar 20.000 kr. og er það nokkuð minna þó en áætlað hafði verið. Um sláttinn unnu að honum 40-50 manna, en 50-60 fyrir og eftir, allt að helmingi innanhéraðsmenn, en hitt vanir vegavinnumenn hér sunnan að. Kaupgjald það sama og áður, 2 3/4 – 3 kr. um sláttinn, en að vorinu nokkuð minna; unglingar 2 kr. Hestleiga 60 a. á dag.


Ísafold, 7 nóvember, 1900, 27. árg., 68. tbl., bls. 271:
Sagt er frá rannsóknarferðum Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings sumarið áður og koma þar m.a. við sögu mælingar á Austurlandi fyrir vegi milli Fjarða og Fljótsdalshéraðs, svo og brúargerð í Hörgárdal. Upphafi greinarinnar er sleppt, en þar er fjallað um hafnarmál.

Rannsóknarferðir mannvirkjafræðingsins.
Mannvirkjafræðingur landsins, hr. Sigurður Thoroddsen, hefur mikið ferðast í sumar og er nú nýkominn heim til fulls og alls fyrir veturinn.
.. En skömmu síðar, í áliðnum júní, fór hann austur í Vestur-Skaftafellssýslu út af ágreiningi þar eystra um vegarstefnu (ólæsileg tvö orð) verið veitt af landssjóði til póstleiðar milli Víkur og Steigarháls, og út af þeirri vegarlagningu skiftust héraðsmenn í tvo flokka. Annar hélt fram “nyrðri leiðinni”, sem svo er nefnd, upp Víkurdal; - hinum leist best á “syðri leiðina”, beint yfir Reynisfjall frá Vík. Erlendur Zakaríasson hafði farið austur, skoðað vegarstæðin fyrirhuguðu og litist betur á nyrðri leiðina. En héraðsbúar vildu ekki hlíta hans dómi og fóru þess á leit við landshöfðingja, að mannvirkjafræðingurinn væri látinn skera úr deilunni. Hann varð E.Z. sammála; syðri leiðin meðal annars brött og vegur dýr eftir henni. Að þeirri skoðun lokinni kom hann aftur til Reykjavíkur.
Svo lagði hann af stað 12. júlí norður og austur um land. Í Hörgárdal þurfti hann að koma við til þess að undirbúa þar starf við brúarlagningu, er fram átti að fara síðar á sumrinu, og hafði þar ofurlitla viðdvöl.
Þaðan hélt hann austur í Múlasýslur, til þess að rannsaka, samkvæmt ályktun Alþingis, vegarstæði milli Fjarða og Fljótsdalshéraðs, sérstaklega hvort hentugra mundi að leggja veginn um Fjarðarheiði eða Fagradal. Hann mældi þær leiðir báðar. En ekki vill hann að svo stöddu láta uppi, hvora leiðina hann leggi til að vegurinn yrði lagður. Fjarðarheiði er brattari og snjóþyngri, en jafnframt styttri.
Auk þess hafði þingið lagt svo fyrir, að hann skyldi skoða, hvort unnt væri að bæta innsiglingu í Lagarfljótsós. En til þess vannst honum eigi tími, með því að hann varð að vera kominn aftur í Hörgárdalinn á ákveðnum tíma. En eftir öllum þeim fregnum, sem hann fékk af ósnum, duldist honum ekki, að því aðeins yrði við hann gert, að stórfé væri til hans kostað. Ekki virtist honum heldur mikið á slíkri viðgerð að græða, með því að þar fyrir ofan eru miklir tálmar á flutningum eftir fljótinu, steinboginn og Kirkjubæjarfoss, og þyrfti mikinn kostnað nýjan til að gera fyrir þeim, annað hvort með vegalagningum eða flóðgáttum. Eðlilegast þótti honum, að góð akbraut yrði lögð milli Fjarðanna og Lagarfljótsbrúarinnar við Egilsstaði, og frá brúnni fari svo fram flutningar, bæði ofan eftir fljótinu að Kirkjubæjarfossi og upp eftir því. Af þeim flutningum hefði allt Héraðið gagn.
Úr Múlasýslum fór hann til Akureyrar með Ceres í miðjum ágúst. Þá var ákveðið, að halda áfram starfinu við Hörgárbrúarlagninguna. Aðal verkið þar var að hlaða stöpul á eyri einni í ánni, og var þar sérstök nauðsyn á vandaðri undirstöðu, 30 staurar reknir þar niður, 8 álna langir, pallur lagður þar ofan á og múrstöpull upp af honum. Áður höfðu þrír stöplar að miklu leyti verið fullhlaðnir. En verkið sóttist ógreiðlega í spetembermánuði vegna óvenjulegra rigninga og vatnavaxta. Í október var því haldið áfram, en ekki tókst að ljúka því, eitthvað mánaðarvinna eftir, og verður tekið til hennar svo snemma að vorinu, sem því verður við komið. Brúin er að hálfu leyti kostuð af landssjóði, en að hálfu leyti af sýslunni, og verður járnhengibrú með líkri gerð og Þjórsárbrúin og Örnólfsdalsbrúin. Járnið er komið á staðinn, og brúin verður lögð þegar hleðslunni er lokið.


Ísafold, 7. nóvember, 1900, 27. árg., 68. tbl., bls. 270:
Hér er sagt frá dómi yfirréttar í sakamálinu gegn Einari Finnssyni vegaverkstjóra en hann var ákærður fyrir fjárdrátt o.fl.

Sakamálið
gegn Einari Finnssyni vegfræðing var dæmt í yfirrétti í fyrradag og staðfestur héraðsdómurinn að öllu leyti, að viðbættum málskostnaði við yfirréttinn. – Hegning var 14 daga einf. fangelsi, auk málskostnaðar.


Fjallkonan, 10. nóvember, 1900, 17. árg., 44. tbl., bls. 2:
Hér er sagt frá vegagerðum s.l. sumar í Mýrasýslu, Borgarfjarðarsýslu og Norður-Múlasýslu.

Vegagerðir.
Í sumar hafa farið fram ýmsar vegagerðir á kostnað landssjóðs, og mun þeirra verða getið í þessu blaði.
Árni Zakaríusson vegagerðarmeistari stóð fyrir vegagerð í Mýrasýslu ofanverðri og Borgarfjarðarsýslu. Hann byrjaði 17. maí og hætti 4. okt. Helsta vegagerðin var á Grjóthálsi milli Þverrárhlíðar og Norðurárdals. Hefur þar áður verið grýttur og seinfarinn vegur. Þar var byrjað á hálsinum sem hætt var 1899. Hálsinn er áa á milli 6500 m. Vegur var gerður á 4190 m; þverrennur 23; ruddir 380 m. Gerður var vegur fyrir neðan Dýrastaði hjá Sandhólum og brú yfir læk milli Dýrastaða og Hreimstaða og víðar voru gerðir talsverðir vegabútar í Norðurárdalnum. Gert var við veg í Reykholtsdal, og loks gerður 660 metra vegur á Draganum. Stöplar á Örnólfsdalsá “kústaðir upp” og brúin skrúfuð upp eftir fyrirsögn Sig. Thoroddsen landsverkfræðings.
Verkamenn voru flestir 33.
Meðal dagkaup var kr. 2,83 1/2. Alls mun hafa verið eytt til þessara vegastarfa nær 10.000 kr.
Erlendur Zakaríusson vegameist. stóð fyrir vegagerð frá Borgarnesi vestur Mýrarnar, hinum fyrirhugaða Stykkishólsmvegi. Hann byrjaði 16. maí og hætti 17, okt. Byrjað var við Borgarnes og vegurinn lagður um Borg Laugárfoss að Urriðá; það eru 10 3/4 kílómetrar. Á honum eru 3 brýr, frá 8-14 álna langar og um 30 þverrennur, flestar stórar, 6-7 fet og allt að 11 fetum. Vegarstæðið var mjög blautt og hefur orðið að hafa veginn mjög háan vegna (ólæsileg lína) er svo gljúpur; víða alófært kviksyndi.
Ofaníburður var nógur og góður.
Bændur, sem land áttu að veginum, sýndu verkinu velvild og tilhliðrun.
Vegaslitur hafa verið á þessu svæði, ófær að kalla; mun vera óhætt að fullyrða, að meiri vegleysa muni hvergi í byggð hér á landi eins og frá Borgarnesi að Hítará.
Af veginum eru ógerðir 13-15 kílómetrar vestur að Hítará, sem bráðnauðsynlegt er að gera.
Verkamenn voru í vor og haust 50-60, en um sláttinn milli 40-50. Vagnhestar 22 (66 au. um daginn, eins og víðast mun vera); vagnar 11.
Kostnaðurinn við þessa vegagerð er um 21 þús. krónur.
Magnús Vigfússon vegameist. stóð fyrir vegbótum í Norður-Múlasýslu, á Smjörvatnsheiði og í Hróarstungu.
Á Smjörvatnsheiði hefur engin vegabót verið gerð í 60 ár. Vegarlengdin er 3 3/4 míl; var þar ruddur vegur og hlaðnar vörður.
Í Hróarstungu vann hann að vegi, sem Páll Jónsson hefur lagt; var borið ofan í hann og hlaðinn vegarspotti við Jökulsá.
Verkamenn 12 lengst af og daglaun frá kr. 2,50-3,25.
Öll þessi vegagerð kostaði tæplega hálft fjórða þús. kr.


Fjallkonan, 10. nóvember, 1900, 17. árg., 44. tbl., bls. 4:
Sagt er frá dómi Landsyfirdóms í sakamálinu gegn Einari Finnssyni vegaverkstjóra. Héraðsdómurinn var staðfestur.

Landsyfirdómurinn
hefur kveðið upp dóm í sakamálinu gegn Einari Finnssyni vegfræðingi. Héraðsdómurinn er staðfestur, að viðbættum málskostnaði við yfirdóm. Hegningin 14 daga einfalt fangelsi auk málskostnaðar.
Yfirdómurinn tók það fram, að málið þætti eigi nógu rækilega upplýst, en áleit þó að það mundi árangurslaust að vísa því heim aftur.


Þjóðólfur, 16. nóvember, 52. árg, 53. tbl., bls. 206:
Í þessari athyglisverðu grein um póstvagnaferðirnar sumarið 1900 er aðeins komið inn á ástand vega “austan fjalla”, en fyrir fróðleiks sakir birtist greinin hér í heild.

Póstvagnferðirnar sumarið 1900
Ég hafði búist við því, að einhver yrði til þess á undan mér að taka til máls um fyrirtæki það, sem ég skal nú leyfa mér að gera að umtalsefni, nefnilega póstvagnferðinar milli Reykjavíkur og Ægissíðu.
En mér vitanlega hefur enginn rödd látið hið minnsta til sín heyra í blöðunum eða annarsstaðar um framkvæmdir og fyrirkomulag á nefndum vagnferðum síðastliðið sumar og er slíkt næstum einsdæmi á landi hér, þar sem um nýtt og næstum því óþekkt fyrirtæki er að ræða.
Menn eiga því sannarlega ekki að venjast, að verk þeirra eða framkvæmdir séu ekki lögð á metin eða strangur dómur kveðinn upp yfir þeim; – hinu eru menn vanari, að sjá vilhalla dóma og sannleikann fyrir borð borinn og þeim sem einhverju nauðsynja fyrirtæki vill ýta áfram gefin olnbogaskot að óþörfu.
Þegar vagnferðirnar hófust laust eftir miðjan júní næstliðið vor, hugsuðu margir illa til þeirra og gutu ólundar hornauga til okkar, er við lögum af stað í hina fyrstu ferð. – Menn höfðu litla trú á því, að fyrirtæki þetta mætti heppnast líklega einkum af því, að það var að mestu leyti óþekkt áður hér á landi. – Aftur voru nokkrir, einkum austan fjalla, sem gjarnan vildu hafa þetta fyrirkomulag, ef þeir gætu fengið allar sínar nauðsynjavörur, er þeir til Reykjavíkur þyrftu að sækja, með vagninum heim til sín eða því sem næst. Þannig ætluðust þeir til, að hægt yrði að flytja hvaltunnur og tros, brennivínskvartil og kolapoka innan um póstflutninginn og farþegana. – Allt átti þetta að rúmast á póstvagninum.
Jafnvel sljórskyggnum manni var það bersýnilegt, að ómögulegt var að flytja allt þetta á einum og sama vagni.
Fyrir því var aftekið með öllu, að flytja nokkra þungavöru, heldur einungis smáar sendingar og böggla, sem ekki gátu skemmt það, sem með þeim var í vagninum. Öllum betri mönnum fannst þetta eðlilegt og sjálfsagt, en aðrir töldu það vítavert.
Og ég skal taka það fram, að sumir voru svo grunnhyggnir, að þeir kváðu það beinlínis skyldu vagnstjórans, að taka til flutnings á vagninn hverja vöru sem væri, svo framarlega sem þess væri óskað. – En það er hraparlegur misskilningur.
Samkvæmt samningi þeim sem hr. Þorsteinn Davíðsson hefur í höndum frá póststjórninni, er honum því aðeins heimilt að flytja fólk og farangur fyrir eigin reikning, að það ekki komi í bága við flutning á póstinum sjálfum. Svona er þessu varið og engan veginn öðruvísi; vagnstjóri hefur heimild til að neita þeim flutningi sem honum sýnist.
Til þess að gefa mönnum nokkra hugmynd um hvernig vagnferðirnar hafa heppnast, skal ég geta þess að auk vagnstjóra og verslunarerindreka frá Thomsenverslun hér í bænum, sem jafnan var með í hverri ferð, flutti póstvagninn 115 farþegar og flutningur með honum auk pósts, var samtal nálega 12,000 pund. – Voru það 475 stykki, og geta menn nokkurn veginn ráðið af þeirri tölu að jafnan hafi verið full þröngt, þó að hvaltunnum, trosi og kolapokum væri ekki demt þar ofan á.
Kvartað hefur verið yfir því, að sami vagninn var brúkaður til að flytja bæði fólk og farangur. – Og því skal ekki neitað, að æskilegra hefði verið að hafa sérstakan vagn, sem flytti fólk, en því varð ekki við komið. – Og meðan enginn reynsla var fengin fyrir því, að almenningur vildi nota þessar ferðir, hefði það mátt heita óðsmanns æði að leggja út í svo afar mikinn kostnað, og eiga svo jafnvel enga borgun vísa fyrir allmikil peningaútlát og fyrirhöfn. Þetta hlýtur hver maður að viðurkenna.
Varla var hugsandi að almenningur notaði vagninn öllu meira en gert var. – Fyrst framan af var aðsóknin að honum fremur lítil, en jókst stöðugt, eftir því, sem fyrirtækið var þekktara og síðustu ferðirnar varð að neita flutningi sakir þrengsla. – Finnst mér þetta næg sönnun fyrir því að fyrirtækið geti þrifist, og er vonandi að næsta þing veiti svo ríflegan fjárstyrk til nefndra póstvagnferða, að sá sem þá veitir þeim forstöðu geti séð sér fært að framkvæma þar í nokkuð stórum stíl. – Þó að Íslendingar séu jafnaðarlega fremur seinir að átta sig á því, sem þeim má að gagni verða, er þó vonandi, að þeim skiljist það smá saman að hér er um mjög þarflegt fyrirtæki að ræða. – En því miður eru þeir menn til, sem bæla vilja hverja framfaraöldu og raka glóðinni frá köku náungans og þykja engir kostagripir. Það er því einkar eðlilegt, að óhollt sé fyrir nýborið fyrirtæki, sem stendur á óstyrkum fótum að vera á vegi slíkra manna. Þannig hafa ýmsir orðið til þess, að hreyta skattyrðum að póstvagnferðum og forstöðumanni þeirra, þótt þeir ekki hafi látið prenta slíkt, svo ég viti til.
Væri fullkomin vissa fyrir því gengin, að næsta þing taki vel í þetta nauðsynjamál vort, sýnist það engum efa bundið, að sjálfsagt væri að fjölga vögnum þegar á komandi sumri, – en undir öllum kringumstæðum finnst mér fásinna að auka þær svo nokkru nemi næsta ár. –Aftaki þingið fjárstyrkinn er auðsætt, að vagnferðinar eru um leið undir lok liðnar og að ekki er til neins að halda þeim áfram úr því, – því það yrði helbert tjón.
Að endingu skal ég geta þess, að víða á vagnleiðinni er vegurinn all illur. Undir Ingólfsfjalli er vegurinn of mjór fyrir vagn og ennfremur afar grýttur. – Flosavegurinn var lítt fær mestan hluta sumarsins; – ofaníburðurinn náði aldrei að þorna og var því til lítilla bóta. Holtavegurinn var gersamlega ófær með vagn síðustu ferðirnar, sakir bleytu; mátti heita, að lausir hestar lægju fastir í honum á nokkrum stöðum, og má af því ráða, hve greiðfær hann var.
Virðist mér öldungis óumflýjanlegt, að bæta verði þann veg, strax á komandi sumri, ella eyðileggst hann alveg.
Að svo mæltu læt ég staðar nema að sinni með þeirri einlægu ósk, að þessar margnefndu póstvagnferðir megi haldast og verða almenningi að slíku gagni og þær geta orðið, sé rétt með farið. Og ég vona fastlega að það verði.
Páll Steingrímsson


Þjóðólfur, 16. nóvember, 1900, 52. árg., 53. tbl., bls. 207:
Hér segir Þjóðólfur frá dómi yfirréttar í málinu sem höfðað var gegn Einari Finnssyni vegaverkstjóra fyrir fjárdrátt og fleira.

Sakamálið
gegn Einari Finnssyni vegfræðingi er nú dæmt í yfirrétti. Undirréttardómurinn staðfestur (14 daga einfalt fangelsi og málskostnaður). Undirréttardómarinn (Halld. Daníelsson bæjarfógeti) fær ónotalega athugasemd í dómnum hjá yfirrétti, því að í dómsástæðum segir meðal annars svo: “Málið hefur í héraði verið rekið með nægilegum hraða, en það athugast að það þykir ekki í ýmsum atriðum hafa verið upplýst af undirdómaranum, svo rækilega sem skyldi, og hefur yfirdóminum þó eigi fundist ástæða til að fyrirskipa ítarlegri rannsókn í því, með því að ætlað verður að hún yrði eins og málinu er komið árangurslaus”.


Fjallkonan, 19. nóvember, 1900, 17. árg., 45. tbl., bls. 4:
Sagt er frá vegaframkvæmdum í Fóelluvötnum (á Hellisheiðarveginum) og í Flóanum s.l. sumar.

Vegagerðir.
Tómas Petersen vegameistari vann að aðgerð á Flóaveginum og stóð fyrir vegabót á Hellisheiðarveginum í Fóelluvötnum. Hann byrjaði 28. maí í Fóelluvötnum. Þar var hlaðinn upp vegur á kafla, sem var algjörlega orðinn ónýtur; vegur þessi var hlaðinn fyrir um það bil 12 árum undir forstöðu Hovdenaks, og hefur aldrei verið gert við hann neitt að mun á þeim kafla. Við þessa vegagerð voru 10 manns og 8 vagnhestar, kaup verkamanna kr. 2,50-3,30, og hestaleiga 60 au. um daginn.
Þessi vegagerð kostaði 1.175 kr.
Eftir það vegabótinni var lokið í Fóelluvötnum, sem hætta varð við, af því bráða nauðsyn var til að gera við Flóaveginn, fór Tómas Petersen austur þangað til þess að bera ofan í hann. Var byrjað á því verki 9. júlí, og hætt 3. okt. Borið var ofan í veginn, og allt lausagrjót sem stóð upp úr veginum mulið sundur á 10n kílómetra kafla, eða frá skammt austan við Ölfusárbrú og austur fyrir Skeggjastaði (skammt fyrir austan Hraungerði). Ofaníburður hefur ekki fengist þar góður, en vegagerðarmenn álitu, að þeir hefðu fundið allgóðan ofaníburð austan við Skeggjastaði, sem fannst þó svo seint, að hann varð ekki notaður nema í nokkuð af veginum. Við (ólæsileg 5-7 orð) vagnhestar 10. Kaup og hestaleiga eins og í Fóelluvötnum.
Kostnaðurinn við þessa vegabót var rúmlega 4 1/2 þúsund.


Austri, 10. desember, 1900, 10. árg., 48. tbl., bls. 156:
Austri skýrir frá því að nú sé efnið í Lagarfljótsbrúna farið að berast að brúarstæðinu.

Lagarfljótsbrúin.
Sumt af viðunum hefur nú þegar verið flutt upp að brúarstæðinu, og hinu þyngsta af efninu verður svo ekið upp Fagradal, er hentugir sleðar koma nú í þ.m. með gufuskipunum frá útlöndum.
En grjót mun enn óupptekið í brúarsporðana o.fl.; og er það óheppilegt, að landshöfðingi og vegfræðingur landsins skyldu eigi hafa þá fyrirhyggju, að semja um upptöku grjótsins í haust við þá bændur, er næstir búa brúarstæðinu, því hætt er við, að héðan af verði dýrara að taka grjótið upp eins og það nú er allt gaddað niður og ólosað um það. Er vonandi, að það verði eigi lengi dregið, að fá einhverja áreiðanlega menn til þess sem fyrst að taka grjótið upp og aka því að brúarstæðinu í tæka tíð. Og viljum vér í því efni leyfa oss að benda á þá Jón Bergsson á Egilsstöðum og Kristján Kristjánsson á Ekkjufelli, til þess að sjá um grjótið til brúarinnar, sinn hvoru megin Lagarfljóts.
Tenging í allt blaðaefni ársins 1900

Þjóðólfur, 52. árgangur, smáfréttir úr ýmsum tbl. árið 1900:
Í Þjóðólfi árið 1900, leynast smáfréttir af vegamálum innan um annað. Hér eru slíkar smáfréttir úr Skagafirði, Árnessýslu, Norður-Þingeyjarsýslu, Húnavatnssýslu og Sauðanes- og Svalbarðshreppum.

Smáfréttir úr Þjóðólfi árið 1900.
9. mars, 11. tbl., bls. 43:
Brú á Norðurá í Skagafirði, smíðuð næstl. sumar, hefur fokið og brotnað í spón.

27. apríl, 19. tbl., bls 75:
Sýslufundur Árnesinga. Meðal helstu mála af 60 sem tekin voru fyrir: “Skorað á amtsráð að varðaður sé vegurinn frá Svínahrauni að Lækjarbotnum, sömuleiðis Mosfellsheiði”.

5. júní, 26. tbl., bls. 102:
Á þingmálafundi í Norður-Þingeyjarsýslu voru samgöngumál m.a. á dagskrá: “Brúin á Jökulsá í Axarfirði. Fundinum blandast ekki hugur um, að nauðsynin á brú yfir Jökulsá sé svo afarbrýn að landssjóður sé skyldur, að leggja fram fé til hennar, þegar á næsta þingi, og það því fremur , sem nær ekkert er lagt til samgöngubóta af landsfé í Norður-Þingeyjarsýslu í samanburði við aðrar sýslur landsins.”

15. júní, 28. tbl., bls. 111:
Í frétt úr Húnavatnssýslu er vikið að vegamálum: “Nú kvað vera byrjað að leggja nýjan veg út með Hrútafirði að austan, en margan furðar á, að ekki skyldi heldur vera byrjað á vegagerðinni yfir Hrútafjarðarháls; þar er þó áreiðanlega brýnni þörf á nýrri vegagerð; svo myndi það hafa reynst, ef rækilega hefði verið aðgætt.”

13. júlí, 33. tbl., bls. 130:
Á almennum kjósendafundi fyrir Sauðanes- og Svalbarðshreppa var m.a. samþykkt áskorun: “Að fé verði lagt fram sem fyrst af landssjóði til að brúa Jökulsá í Axarfirði”.


Ísafold, 8. janúar, 27. árg, 1. tbl., bls. 2:
Hér er birt greinargerð um Flutningabrautina upp Flóann, sem formaður þeirrar vegagerðar, Erlendur Zakaríasson, samdi fyrir landshöfðingja. Lýsingin á þessari vegagerð frá Eyrarbakka og Stokkseyri upp að Ölfúsárbrú er bæði ítarleg og fróðleg.

Flutningabrautin upp Flóann.
Það er allmikið mannvirki, brautin sú, frá Eyrarbakka upp að Ölfusárbrú, er unnið hefur verið að tvö sumur undanfarin og lokið var við í haust.
Hefur formaður þeirrar vegagerðar, hr. Erlendur Zakaríasson, samið og sent landshöfðingja ítarlega skýrslu um það verk, er hér birtist nálega orðrétt, með því að þar er ýmislegur fróðleikur, er gæti orðið ýmsum góð bending, bæði þeim, er við þann veg eru riðnir og öðrum.
Byrjað var að leggja veginn frá Eyrarbakka, rétt fyrir framan Hópið (vatn milli Eyrarbakka og mýrarinnar) fyrir austan Steinskrift, og haldið upp og austur hraunið að Litlahraunsstekk, og þaðan í beina stefnu austan til við Sandvíkurnar og upp að Ölfusárbrúnni.
Landið, sem þessi vegur liggur eftir, er fyrst hraun, að Litlahraunsstekk. Þaðan og upp að svonefndum Geirakotsskurði mest blaut mýri, en þaðan og upp að Ölfusárbrú móar og þurrlend mýri.
Landslagið á þessu svæði er mjög slétt, og aðeins dálítill jafn halli upp að Ölfusárbrúnni.
Við Ölfusárbrúna er landið 16 fetum hærra en þar sem byrjað var á Eyrarbakka.
Öll vegalengdin er að kalla réttir 6000 faðmar eða 1 1/2 míla. Eftir þessu er hallinn sem næst því 1:700.
Á þessum vegi eru 23 þverrennur frá 5-12 feta langar.
Það var miklum erfiðleikum bundið að vinna þetta verk, af þeim ástæðum, að allt efni vantaði í yfirbygginguna meira en helming af leiðinni.
Grjóti í yfirbygginguna og þverrennurnar var ekið frá báðum endum að vetrinum til, mest í akkorð vinnu og að nokkru leyti fyrri veturinn í tímavinnu.
Vegalengdin að aka grjótinu 500-1800 faðmar; 8-18 krónur borgaðar fyrir hvern teningsfaðm.
Verkinu var þannig háttað, að hliðveggir vegarins voru hlaðnir úr sníddu og sumstaðar þaktir með torfi og hafður 4 feta breiður bekkur beggja megin við veginn. Skurðirnir fram með veginum 7-10 feta breiðir. Breidd vegarins 12 fet.
Í yfirbygginguna var mulið grjót 10” þykkt alla leið, nema í 450 föðmum efst við Ölfusárbrúna; þar var hafður tómur ofaníburður (möl og leir).
Ofan á mulninginn voru látnar þunnar mýrarflögur, svo ekið stórgerðum sandi þar ofan á (mjög þunnt) upp að miðju. Þeim sandi varð að aka neðan af Eyrarbakka. Lengstur akstur 3 1/2 klukkustund með ferðina.
Frá miðju og upp úr, sem mulningurinn náði, var tekinn leir úr flögum og hafður yfir mulninginn. Það verður dálítil for á veginum fyrsta árið, en ekki djúp því leirinn er þunnur. Sama efni var haft á Hellisheiði austan til og hefur reynst vel.
Þessi vegagerð hefur kostað um 38.000 krónur eða 6,33 kr. faðmurinn upp og ofan.
Á svæðinu frá Litlahraunsstekk og upp að Stekkunum kostaði faðmurinn um 8,75 kr.
Þessi vegur hefur því orðið dýrastur þeirra vegakafla, er hér hafa verið lagðir, fyrir utan Kambaveginn og eru margar ástæður til þess: 1, að efni hefur orðið að sækja langan veg; 2, að veðrið hefur verið óhagstætt bæði sumrin, einlægar rigningar; 3, að kaupa hefur orðið land undir veginn fyrir nokkuð hátt verð, 1.100 kr.
Bæði sumrin hafa unnið að þessu verki 40-60 menn, og 18-22 vagnhestar og 8-10 vagnar.
Kaup verkamanna kr. 2,60-3,00; unglingar kr. 1,60-2,25; menn sem unnið hafa vorið og haustið kr. 2,25-2,35.
Þeim sem áttu landið undir veginn verður fæstum sagt það til hróss, að þeir hafi verið vægir í kröfum með borgun fyrir landið. Það leit svo út um suma, að þeir vildu gera sér það að féþúfu, með því að heimta peninga fyrir hvaðeina, og kenndu vegagerðinni um allt illt, sem fram við þá kom, nærri því um rigninguna, sem var í sumar.
Ég vil leyfa mér að geta þess hér, að það ríður á, að hirða vel um þverrennurnar að vetrinum til á svæðinu frá Litlahraunsstekk upp að Stokkum, að ekki sé klaki í þeim, þegar hláku gerir, svo vatnið geti komist í gegnum þær, en ekki hlaupið fram með veginum að austanverðu og orðið þar af leiðandi of mikið og runnið yfir veginn.
Til bráðabirgða setti ég mann til að gæta þeirra í vetur, með 17 króna borgun yfir tímann.
Ennfremur þarf að líta eftir á haustin á þessu svæði, að stíflur, sem rifnar hafa verið úr af sláttufólki, verði umbættar á haustin.
Ennfremur ætti að banna mönnum að stífla vegaskurðina, eins og þeir gerðu í vor, til að veita á engjar sínar; það skemmir veginn, þegar vatnið stendur langt upp í vegahliðarnar, og þegar annaðhvort fara úr stíflur af of miklum vatnsþunga eða þær eru aldrei teknar úr, fyllast skurðirnir af hnausum og flytja þar af leiðandi minna vatn.
Að lokum vil ég leyfa mér að geta þess, að áríðandi er halda þessum mulningsvegum (púkkvegum) við (eins og öllum vegum) með því að bera þunnt lag af ofaníburði ofan á, þar sem mulningurinn verður ber og fer að losna; ef það er gert verður vegurinn nærri óbifandi.
Frá flutningabrautinni var lagður (ólæsileg tala) álna breiður og rúmlega 760 faðma langur vegur ofan undir Hraunsárbrýrnar, áleiðis til Stokkseyrar.
Þeir sem kostuðu þennan veg voru kaupmennirnir á Stokkseyri, sýslusjóður Árnessýslu og Stokkseyrarhreppur.
Þessi vegur er mjög vel gerður, þeim til sóma sem unnu verkið, og lögðu fram fé til þess.
Sú vegagerð kostaði sem næst 3.000 krónur.
Verkstjóri var þar Ketill Jónasson.
Sömuleiðis var gerður vegur frá neðri enda akbrautarinnar að verslunarhúsum Lefolii. Sú verslun og hreppurinn kostaði það verk.
Ekki verður sagt hið sama um þennan veg og Stokkseyrarveginn, að hann sé vel gerður. Það er öðru nær. En öðru verður ekki um kennt en of miklum sparnaði frá þeirra hálfu, sem kostuðu hann.
Kaupa þurfti land undir veginn frá Stóru Háeyri fyrir nærfellt 800 krónur.


Þjóðólfur, 12. janúar, 1900, 52. árg., 2. tbl., bls. 8:
Sagt er frá rannsókn á miður skjallegri meðferð Einars Finnsonar vegaverkstjóra á landssjóðsfé, en aðalkærandi er Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur.

Rannsókn
hefur verið haldin hér í bænum um hátíðarnar og síðar, gegn Einari Finnssyni vegfræðingi fyrir einhverja miður skjallega meðferð á landssjóðsfé í vegagerðarreikningum þeim, er hann hefur átt að sjá um. Aðalkærandinn mun vera Sigurður Thoroddsen verkfræðingur, sem er umsjónarmaður vegagerðanna og á að hafa eftirlit með reikningunum. Hvort sakamál verður höfðað gegn Einari, er enn óvíst, því að rannsóknum mun ekki enn lokið. Þjóðólfur mun á sínum tíma skýra frá því, hvernig rannsóknum þessum lýkur.


Þjóðólfur, 12. janúar, 1900, 52. árg., 2. tbl., bls. 7:
Í fréttabréfi úr Árnessýslu segir bréfritari m.a. að samgöngumál séu nú óðum að komast í gott horf og ef brú fáist á Sogið við Alviðru, þurfi sýslubúar ekki flytja sig þess vegna.

Úr Árnessýslu.
Samgöngumál eru nú óðum að komast í gott horf hér. Vegurinn frá Ölfusárbrúnni að Eyrabakka og Stokkseyri var fullgerður í sumar og er hann púkklagður og því vandaður og traustur, en um miðkaflann er útlit fyrir að ofaníburðurinn verði blautur og laus, og það svo, að ef það ekki lagast, verður nauðsynlegt að bera ofan í hann, en ofaníburð að sækja í það upp fyrir Ölfusá á brúnni, eða niður á sjávarbakka, og væri ekki í það horfandi, þar sem nú er lagður akvegur frá kaupstöðum sýslunnar all leið til Reykjavíkur. En er þess að geta viðvíkjandi vegi þessum, að um syðri hluta Breiðumýrar liggur hann um gljúpan jarðveg blautan, þurfti því þar að hafa djúpa fráræsluskurði, og sjálfur vegurinn vel hækkaður upp, en eftir því sem nú lítur út fyrir virðist þessa ekki hafa verið nógsamlega gætt og mun það sýna sig betur síðar. Einn vegagerðastjórinn kvað hafa verið að skoða flutningsbrautarstæði frá Flatholti að Húsatóptarholti; komist sú braut á, og brú fáist á Sogið hjá Alviðru, tel ég samgöngum hér komið í gott og viðunanlegt horf, og ég held að sýslubúar þurfi ekki að flytja sig héðan þess vegna.


Fjallkonan, 18. janúar, 1900, 17. árg., 1. tbl., bls. 3:
Sagt er frá því að rannsókn sé hafin af bæjarfógeta gegn Einari Finnsyni vegaverkstjóra.

Rannsókn
hefur verið hafin af bæjarfógeta gegn Einari Finnssyni út af vegagerðarreikningum hans, og hefur að sögn verið kært, að hann hafi ekki borgað jafnmikið út og reikningarnir hljóða upp á. Rannsókn mun ekki vera lokið, svo ekki er víst, hvort sakamál verður höfðað gegn honum, eða málið jafnast hinsegin.


Þjóðólfur, 19. janúar, 1900, 52. árg., 3. tbl., bls. 10:
Leitað er upplýsinga hjá Sigurði Thoroddsen landsverkfræðingi um kæru hans á hendur Einari Finnsyni vegaverkstjóra m.a. fyrir meint fjársvik, en mál þetta á eftir að valda miklum ritdeilum milli Sigurðar og ritstjóra Ísafoldar næstu mánuði.

Hjá verkfræðingnum.
Síðan rannsókn sú var hafin, er getið var um í síðasta blaði !!!!, gegn Einari Finnssyni vegfræðingi, hefur margt um hana verið talað hér í bænum, án þess að menn hafi þó fullkomlega vitað, hvernig kærunni var háttað, eða hver atriði það eru, sem hún einkanlega er byggð á. Til að skýra málefni þetta fyrir almenningi, er varðar hann miklu, og til að koma í veg fyrir ósannar getgátur manna um kæruefnið, höfum vér leitað upplýsinga hjá hr. Sigurði Thoroddsen verkfræðingi, og spurðum hann fyrst um, hvort hann hefði ekki fyrstur kært þetta fyrir bæjarfógeta, og kvað hann það satt vera. Báðum vér hann þá að skýra oss frá tildrögum og gangi máls þessa, er væri svo þýðingarmikið og alvarlegt, og varð hann fúslega við þeim tilmælum.
Hann kvaðst í haust hafa heyrt því fleygt, að það mundi viðgangast hjá einum verkstjóranum, Einari Finnsyni, að hann léti verkamennina kvitta fyrir meira kaupi, en þeir hefðu tekið á móti, og það hefði verið altalað meðal verkamanna fyrir austan, að verkstjóri og 2 aðrir honum nákomnir “gerðu út menn”, þ.e. réðu menn til vegavinnunar fyrir viss daglaun, en létu þá kvitta fyrir hærra kaupi. Einn þessara manna, er þannig var ráðinn, Ólafur Oddsson, hafði verið ráðinn af Högna Finnssyni (bróður Einars) í vegagerð fyrir 2 kr. á dag, en þá er hann um haustið rétt fyrir vegavinnulok tók á móti kaupinu 2 kr. fyrir dag hvern, hefði hann orðið þess var, að á kaupskránni stóð 2 kr. 80 a. fyrir dag hvern og hefði hann orðið að kvitta fyrir þeirri upphæð, en síðar hefði hann farið að hugsa út í, hvernig á þessu stæði og hvort það mundi leyfilegt, og fór svo á landshöfðingjaskrifstofuna til að kvarta undan þessu; eftir nokkra rekistefnu hefði svo E.F. orðið að borga Ólafi það sem á vantaði, en bæði hann og Högni hefðu ávítað Ó. harðlega fyrir að hafa “klagað” undan þessu, og sagt, að Sigurður Ámundason, sem mörg ár hefði verið í vegavinnu hjá Einari, hefði ávallt verð mjög ánægður með að fá 2 kr. á dag (en Sigurður þessi stóð á Kaupskránni með 3 kr. daglaunum). Þóttist E. gagnvart Ólafi hafa fullt leyfi til að taka menn upp á þessa skilmála, og kvað það hafa viðgengist hjá sér um mörg ár.
Hr. Sig. Th. kvaðst hafa heyrt getið um 8-10 menn alls, er hefðu verið “gerðir út” af verkstjóra eða frændum hans, auk Sig. Ám. og 6-7 vinnumanna þeirra frændanna. – Þá gat hr. S.Th. þess, að einn verkamannanna (Guðm. Magnússon), hefði staðið á kaupskránni með 121 dagsverk, en sagðist hafa unnið 92 um sumarið, og fleiri séu þeir af verkamönnunum, er standi með of mörg dagsverk á kaupskránum, einn sé t.d. talinn hafa unnið 41 dagsv. í Svínahrauni, en það hafi sannast, að sá maður hafi ekki unnið einn dag í hrauninu.
Þessir 2 fyrrnefndu vottar (Ólafur og Guðm.) hafa borið, að þeir hefðu heyrt, að maður nokkur (Sig. Daníelsson), er kvittað hafi fyrir 14 hestum, hafi fengið 35 kr. fyrir hvern hest hjá Einari, en eftir reikningunum hefðu það átt að vera 65 kr. fyrir hvern hest. Fyrir rétti hafi Sig. Dan. Kannast við, að hann hefði sagt, að hann fengi 35 kr. fyrir hvern hest, en kvaðst hafa sagt það aðeins til þess, að menn skyldu ekki öfunda sig af því, að fá svona mikið (65 kr.) fyrir hestinn. Jafnframt var borið, að nokkrir af þessum hestum hefðu verið svo magrir og illa útlítandi um vorið, að þeir hafi hvað eftir annað gefist upp undir vögnunum og lagst niður.
Um kaup Sig. Ámundas. hjá Einari ber vitnisburðum manna fyrir réttinum alls ekki saman, að því er S.Th. segir, og hljóti því framburður einhverra að vera boginn. T.d. gat hann þess, að Sig. Ámundason segðist hafa fengið 3 kr. um daginn og sver það, en annar maður ber það, að Sig.Á. hafi sagt sér, að hann fengi aðeins 2 kr. hjá Einari, en S.Á. þykist ekki muna eftir því; tveir aðrir menn bera það og sverja, að Högni Finnsson hafi sagt sér, að S.Á. hefði 2 kr. (en Högni þykist ekki muna það), ennfremur beri einn maður það, að Einar hafi sjálfur sagt við sig, að S.Á. hefði 2 kr., en Einar kveður það ósatt, að hann hafi svo mælt.
Vér spurðum verkfræðinginn, hvort það væru aðeins reikningar frá síðasta sumri, er rannsakaðir hefðu verið, og kvað hann svo vera, og þeir væru ekki fullrannsakaðir enn, því allir verkamennirnir hefðu ekki verið yfirheyrðir enn. Svo væri eftir að rannsaka reikninga frá fyrirfarandi sumrum, og gæti verið, að þar fyndist eitthvað athugavert líka.
Vér spurðum hann loks um, hvort rannsóknardómarinn (bæjarfógetinn) gengi ekki ötullega fram í að leiða sannleikann í ljós í þessu máli, er varðaði svo mjög almenning og hag landssjóðs, því að í bænum væru sumir að flimta um, að það kynni að hafa einhver áhrif, að rannsóknardómarinn og E.F. væru Oddfellóar. S.Th. kvaðst ekki geta eða vilja dæma um það, en það væri þó sannfæring sín, að þessi félagsskapur ætti ekki að geta haft nein áhrif á málið. Þá vorum vér ánægðir, þökkuðum fyrir upplýsingarnar, tókum hatt vorn og kvöddum.


Ísafold, 27. janúar, 27. árg, 5. tbl., bls. 18:
Í fréttabréfi úr Árnessýslu er m.a. rætt um nýja veginn frá Eyrarbakka og Stokkseyri að Ölfusárbrú.

Fréttabréf úr Árnessýslu.
Ísafold flytur fyrir stuttu ítarlega skýrslu um veginn frá Eyrarbakka og Stokkseyri að Ölfusárbrú, er þar víst allt rétt og satt sagt. Vegur þessi er hið mesta þarfaverk að vegabótum til og þykir Árnesingum og Rangæingum hann hin mesta gersemi. Því leiðara verður það, ef sú skyldi verða raunin á, að vegur þessi sé of lágur á fremsta kaflanum og vatnið beri burt hið smágerðasta og besta úr ofaníburðinum. Reyndar eru enn ekki mikil brögð að þessu, en þó vottur, enda eru nú talsverð ísalög á Breiðumýri. Auðvitað mun mega fyrirgirða skemmdir með því að dýpka framræsluskurðina o.fl.


Bjarki, 9. febrúar, 1900, 5. árg., 5. tbl., forsíða:
Guðmundi Hávarðssyni finnst að vegurinn af Fljótsdalshéraði niður á Firði eigi að liggja um Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar en ekki um Fagradal til Reyðarfjarðar. Þá er hann alveg hneykslaður á því að mönnum detti í hug að skipa efninu í Lagarfljótsbrúna á land á Reyðarfirði. Þaðan verði ekki hægt að flytja það landleiðina upp á Hérað.

Akvegur frá Héraði til fjarða.
Á seinni árum hefur sú löngun, eins og eðlileg er, meir og meir rutt sér til rúms hjá Héraðsmönnum, að fá akveg þaðan til fjarða, svo að þeir gætu á vögnum flutt sér nauðsynjar sínar frá kauptúnunum og sjávarsíðunni.
Hér virðist nú einnig sem alvara fylgi máli, þar sem þeir á síðasta sumri fengu lagðan mílulangan akveg eftir héraðinu. Er þá næst að spyrja, hvar heppilegast sé að leggja akveginn frá Héraði til fjarða. Því skal ég svara strax afdráttarlaust og hlutdrægnislaust. Það er yfir Fjarðarheiði, en ekki yfir fagradal, eins og margir hafa þó haldið fram. Fjarðarheiði er, þrátt fyrir hæðina, svo vel löguð fyrir akveg, að ótrúlegt má virðast, og er það einnig álit lærðs mannvirkjafræðings, sem skoðað hefur leiðina. Akvegur yfir hana mun verða miklum mun ódýrari en yfir Fagradal. Vegalengdin er nær helmingi minni, viðhald á veginum yrði miklu kostnaðarminna, og það sem merkilegast er: vegurinn yrði kannski litlu erfiðari eða brattari á Fjarðarheiði en Fagradal. Enn hefur Fjarðarheiði einn kost fram yfir Fagradal og hann er sá, að yfir hana má fara hvenær sem er með hesta og æki, en oft er og verður alltaf tímunum saman ófært yfir Fagradal. Þó merkilegt sé og ótrúlegt þyki, þá eru af náttúrunnar völdum svo margir og miklir erfiðleikar á akvegalagningu eftir Fagradal, að ekki getur verið um hana að ræða, eftir mínu áliti, og síst þar sem Fjarðarheiði er jafn vel löguð fyrir akveg og sýnt hefur verið. Hver ætli sé svo tilgangurinn með að flytja Lagarfljótsbrúarefnið upp á Reyðarfjörð eins og frést hefur að væri í ráði. Kannski það sé gert af þeirri ástæðu, að ódýrara, léttara og fljótlegra sé að aka því yfir Fagradal, en t.d. yfir Fjarðarheiði, eða þá af Héraðssöndum eftir fljótinu. Sé þessi tilgangurinn, þá verð ég að gera öllum, sem hlut eiga að máli, aðvart um að Fagridalur er á vetrum gersamlega ófær til þess konar flutninga, svo ófær, að ég nenni hér ekki upp að telja alla þá galla, sem þar eru á. Fyrir þessu hef ég eigin reynslu, þar sem ég oft, og á öllum tímum árs, hef farið um Fagradal. Ég skora því fastlega á alla þá, sem hlut eiga að máli í flutningi brúarefnisins, að sjá svo um, að það verði á næsta sumri annað hvort flutt upp til Seyðisfjarðar, eða á Héraðssanda, svo strax að vetri yrði hægt að aka því að brúarstæðinu. Sökum þess að ég hef ekið yfir Fjarðarheiði bæði sumar og vetur og sjaldan haft minna í æki en fimm hestburði, þá stæði mér alveg á sama, hvort ég ætti heldur að aka brúarefninu frá Seyðisfirði yfir Fjarðarheiði, eða af Héraðssöndum. Og ekki skil ég í því, að það sé nein ástæða til þess að heimta meiri borgun fyrir að aka því yfir Fjarðarheiði, heldur en utan af söndum. En það er sjálfsagt að flytja brúarefnið á annan hvorn þessara síðastnefndu staða, en ekki til Reyðarfjarðar. Það yrði ekki til annars en auka óþarfa kostnað, þar sem það mundi reynast óumflýjanlegt að flytja það þaðan aftur á skipi, annaðhvort til Seyðisfjarðar, eða á Héraðssanda.
Að endingu er það ósk mín, að allir þeir, sem eiga hlut að máli viðvíkjandi Lagarfljótsbrúnni flýti fyrir öllu þar að lútandi svo að hún komist sem fyrst á fljótið.
Guðmundur Hávarðsson.


Ísafold, 10. febrúar, 27. árg, 8. tbl., forsíðu:
"Ferðamaður" skrifar hér grein um gæslu á Þjórsárbrúnni og vill meina að henni sé mjög ábótavant. Brúarvörðurinn sé t.d. að heiman 2-3 daga í hverjum mánuði og getur þá hver sem vill brotið umferðarreglurnar. Þá sé og vandalaust að sjá mismun á hirðingunni á brúnum á Ölfusá og Þjórsá.

Gæsla á Þjórsárbrúnni.
Ekki virðist með öllu ástæðulaust að fara nokkrum orðum um gæslu Þjórsárbrúarinnar; því ætla má að fáum standi á sama, hvernig svo fullkomið mannvirki endist.
Það er vandalaust, að sjá mismun á hirðingunni á brúnum á Ölfusá og Þjórsá.
Þjórsárbrúin hefur ekki verið “skrúfuð upp” síðan sumarið 1896, og er því ókunnugt um, í hvaða ástandi skrúfurnar eru. Það eitt er víst, að bili skrúfurnar, þá bilar brúin. Strengirnir eru ennþá “óasfalteraðir”, og ætti þó líklega að vera búið að því. Slitgólfið hefur ekki verið tjargað síðan 1898, að einhverju nafni var komið á það.
Þegar frost er til muna, rennur vatnsbuna upp á brúarsporðinn eystri, frýs þar og hækkar, og verður fyrir það mjög varúðarvert að ganga þar um vegna hálku, auk þess sem það hlýtur að skemma brúna. Með aðeins mjög litlu handviki mætti veita vatni þessu á burt; en það hefur brúarvörðurinn ekki álitið í sínum verkahring; ekki virðist hann skipta sér af brúnni nema það sem gert er fyrir sérstaka borgun. Fer ferða sinna, eins og hver annar, er t.d. að heiman 2-3 daga í hverjum mánuði, og 1-4 í senn á vissum tímum; og getur hver sem vill brotið umferðarreglurnar þá dagana, enda er víst að sumir nota sér það. Ég verð nú að álíta, að svona löguð brúargæsla sé ekki aðeins óþörf eða ónýt, heldur beinlínis hættuleg, og þannig verri en ekki neitt.
Ferðamaður.


Ísafold, 24. febrúar, 27. árg, 10. tbl., bls. 38:
Hér birtist athugasemd Þjórsárbrúarvarðar við grein “Ferðamanns” sem birst hafði á forsíðu blaðsins 10. febrúar sama ár. En ritstjóri blaðsins hnýtir síðan við helmingi lengri athugasemd við þá athugasemd.

Gæsla á Þjórsárbrúnni.
Þjórsárbrúarvörðurinn biður fyrir svohljóðandi athugasemd:
Út af grein einni í “Ísafold” 10. þ.m. leyfi ég mér að biðja herra ritstjórann um rúm fyrir eftirfarandi skýringar.
Verkfræðingur landsins, hr. Sigurður Thoroddsen, skoðaði Þjórsárbrúna, er hann var hér á ferð síðastliðið sumar, og fann ekkert að hirðingu á brúnni, og verð ég að trúa honum til að kunna þar eins vel skyn á og “Ferðamaður”. Í sumar átti að bika brúna, en varð eigi af, sakir hinna miklu votviðra; brúin var aldrei þurr.
Nú, síðan frost komu, hefur fyllt skurð þann, sem veita átti aðrennsli frá eystri brúarsporðinum, og hefur vætlað ofan á trébrúna síðan. Áður hefur þetta eigi komið fyrir, og er eigi hægt að gera við því, fyrr en frost er úr jörðu.
Um ferðalög mín skal ég eigi fjölyrða, en læt mér nægja að benda á, að þegar ég hef þurft að fara að heiman, hef ég látið gæta brúarinnar í minn stað, og veit fyrir víst, að sömu reglu hefur brúarvörðurinn við Ölfusárbrúna fylgt hingað til átölulaust.
Brúarhúsi 16. febrúar 1900.
Einar Sigurðsson
Brúarvörður við Þjórsárbrúna
*
Þessi athugasemd brúarvarðarins gerir í raun réttri ekki annað en að staðfesta hér um bil allt, sem “Ferðamaður” ber. Hann ber ekki á móti því neinu, heldur játar allt, ýmist beinlínis eða þá óbeinlínis – með því að ganga þegjandi framhjá því í svari sínu. Hann játar þann veg, að brúin hafi ekki verið “skrúfuð upp” í mörg ár, að hún hafi ekki verið bikuð, að uppganga liggi á eystri brúarsporðinum, og að hann sé heiman að oft og mörgum sinnum og það á vissum tímum. Og eru þá upp talin öll aðfinnsluatriði “Ferðamanns”. Til meira getur hann (Ferðam.) ekki ætlast.

Hitt er annað mál hverjar málsbætur brúarvörður telur sig hafa.
Hann ber þá fyrst fyrir sig mannvirkjafræðing landsins, að hann hafi skoðað brúna í sumar sem leið og ekkert fundið að hirðingu á henni.
Réttara mundi að orða það svo, að hann (hr. S. Th.) hefði farið um brúna einu sinni í sumar og ekki haft orð á neinum annmörkum á hirðingu brúarinnar. Hann mun alls eigi hafa gert neina eiginlega skoðun á henni.
Um árennslið segir hann, að viðgerð á því verði að bíða þangað til frost er úr jörðu. Mun mega skilja það svo, að þá verði það gert og verði það, þá er það vitaskuld betra en ekki, en ekki nærri eins gott og hitt ef gert hefði verið við því áður – með því að gera í tæka tíð skurðinn nógu stóran. Betra að byrgja brunninn áður en eftir að barnið er dottið í hann.
Þá eru ferðalögin. Þau eru meðal annars fólgin í póstferðum, ýmist upp á Land eða austur Landeyjar, eða hvorutveggja. Það eru ferðalög á tilteknum tímum og er brúargæslan á meðan því aðeins nokkurs virði, eða þess virði sem til er ætlast, að jafngildur maður hafi hana þá á hendi, með ráði hluteigandi yfirvalds. Það getur verið einhver liðléttingur, sem ferðamenn bera ekki við að gegna, og auk þess svo fráskotull, að brúin sé alveg gæslulaus.
Það er vitanlega ekki við að búast, að verulega stöðug og óbilug brúargæsla fáist nema fyrir töluvert hærra kaup en nú er goldið. En hitt er vafamál, hvort nokkur fengur er samt í öðruvísi lagaðri brúargæslu, eða hvort ekki væri eins tiltækilegt að hafa þessar brýr á Ölfusá og Þjórsá alveg gæslulausar, eins og aðrar meiriháttar brýr bæði hér á landi og annarsstaðar, að öðru leyti en áreiðanlegu viðhaldseftirliti og lagaaðhaldi fyrir hlýðni við auglýstar umferðarreglur um brýrnar. Almenningi ætti og ekki að vera ofætlun orðið, að bera þá virðingu fyrir eign sinni, eða hafa þær mætur á henni, að hverjum manni væri jafnfjarri skapi að skemma hana eins og að fremja svívirðilegan stórglæp – fjarri skapi að skemma aðra eins eign, annan eins kjörgrip eins og góðar brýr yfir ófær vatnsföll.


Fjallkonan, 9. mars, 1900, 17. árg., 9. tbl., bls. 3:
Brúin á Norðurá í Skagafirði er gersamlega brotin niður og varð þess vart snemma í febrúar.

Brú brotin niður.
Brúin á Norðurá í Skagafirði er gersamlega brotin niður og varð þess vart snemma í febrúar. Hún var byggð í sumar sem leið skammt frá póstleiðinni. Ekki er fullkunnugt, hvort brúin hefur sligast niður undan þunga sjálfrar síns, eða stormar hafa hrist hana út af stöplunum, því þeir höfðu verið mjóir og brúarkjálkarnir tæpir á þeim. Brú þessi var tekin út af smiðnum, þegar hann var búinn að byggja hana, og er sagt að úttektarmenn hafi ekkert verulegt séð út á hana að setja, og þó er sagt, að farið hafi verið þá þegar að bera á því, að hún hafi verið farin að síga lítið eitt öðrum megin. Er því mjög líklegt að það hafi stutt að því að hún brotnaði af. Talið er víst, að brúarsmiðurinn verði laus við alla ábyrgð af brú þessari, bæði fyrir samning þann er hann gerði viðvíkjandi byggingunni, og svo eftir áliti úttektarmannana, því þeir höfðu áliti öllum skilmálum fullnægt, svo líklegt er að landssjóður beri allan skaðann. Brúarsmiðurinn er Snorri Jónsson af Oddeyri, og hafði amtmaðurinn nyrðra haft yfirumsjón verksins, en ekki er oss kunnugt hvort verkfræðingur landsins hefur átt þátt í því. Brúin kostaði um 3000 kr.


Austri, 10. mars, 1900, 10. árg., 8. tbl., forsíða:
Hér er rætt um kosti þess að landa efninu í Lagarfljótsbrúna á Reyðarfirði og flytja það um Fagradal, en sú hugmynd hefur verið gagngrýnd af ritstjóra Bjarka.

Fagridalur og Lagarfljótsbrúin.
Það hefur verið tekið fram í Bjarka, að það mundi tefja fyrir byggingunni á Lagarfljótsbrúnni, ef viðurinn og annað efni til brúarinnar yrði lagt upp í Reyðarfirði, af því aldrei kæmi akfæri á Fagradal á vetrum.
En þetta er hreinasti heilaspuni. Vér höfum átt tal við marga Reyðfirðinga, sem eru Fagradal nákunnugir, og hafa þeir allir fullyrt, að það væri jafnan gott akfæri á Fagradal er út á liði, brattinn lítill upp dalinn og hliðbratti eigi teljandi, nema á stuttum spöl.
Síðast áttum vér tal um þetta við Kjartan Pétursson frá Eskifjarðarseli, sem er Fagradal nákunnugur, og fullyrti hann, að það væri akfæri gott á Fagradal á hverjum vetri er útá liði.
Stórkaupmaður Thor E. Tuliníus, sem sagt er að tekið hafi að sér að flytja upp hingað brúarviðinn, er borinn og barnfæddur á Eskifirði og þar upp alinn, og því Fagradal nákunnugur og hefur sjálfsagt valið að skipa upp brúarviðnum á Reyðarfirði, einmitt af því að honum var kunnugt um akfærið á Fagradal.
Það er því svo langt frá því, að það mundi tefja fyrir því að brúin kæmist á Lagarfljót, að brúarviðurinn yrði lagður upp á Reyðarfirði, að það getur vel flýtt fyrir brúarsmíðinni um heilt ár, því það má vel flytja brúarviðinn upp sama veturinn til Reyðarfjarðar og aka honum þegar yfir Fagradal. T.d. mætti flytja efnisviðinn í Lagarfljótsbrúna núna í marsmánuði upp á Reyðarfjörð og aka honum þaðan jafn harðan upp að brúarstæðinu, og þá yrði hægt að byggja brúna í sumar, en ekki fyrr en að sumri 1901, ef brúarefnið væri flutt upp á Héraðssand – að ótöldum þeim vandræðum, sem geta orðið á því að koma brúarefninu þar í land, og hlyti flutningur þangað því að kosta meira. – En að aka upp Fagradal og upp Fjarðarheiði er ekki samjafnandi sökum bratta og hæðarmunar.


Austri, 10. mars, 1900, 10. árg., 8. tbl., forsíða:
A.V. Tuliníus svarar Guðmundi Hávarðssyni og öðrum sem reyna að spilla fyrir því að akbraut verði lögð gegnum Fagradal til að samtengja Héraðið og Firðina, eins og hann kemst að orði.

Tuliníus skrifar.
Í tilefni af greinum í Bjarka, sem í seinni tíð hafa birst, og sem ganga út á að reyna að spilla fyrir því, að akbraut verði lögð gegnum Fagradal til þess að samtengja Héraðið og Firðina, skal ég leyfa mér að biðja um pláss fyrir fáeinar línur í yðar heiðraða blaði Austra.
Í lögum nr. 8, 13. apríl 1894, 3. gr. stendur, að flutningsbraut skuli vera frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal til Lagarfljóts.
Þessi ákvörðun í lögunum er auðvitað tekin eftir nákvæma athugun þingsins og eftir að kostir og ókostir á Fagradal og öðrum vegum milli Héraðs og Fjarða höfðu verið vigtaðir hver á móti öðrum.
Það hefur því ekki verið álit manna, að frekar þyrfti að ræða um, hvar brautin ætti að liggja, einungis hafa menn beðið eftir fjárveitingu þingsins til vegarins, sem eigi gat orðið fyrr en í fyrsta lagi á síðasta þingi, af því þessi akbraut er sú síðasta í röðinni, sem talin er upp í lögunum.
Á síðasta þingi virðist áskorunin um þessa fjárveitingu hafa komið of seint, svo hún verður að bíða næsta þings og verður maður þá að álíta sjálfsagt að féð verði veitt, ef “ingeniör” sá, sem á að rannsaka dalinn, sem líklegt er, verður á sama máli sem Páll vegfræðingur Jónsson, sem mældi hann í sumar sem leið, nefnilega að Fagridalur sé einasta heppilega akvegarstæðið milli Fjarða og Héraðs á Austurlandi.
Eins og menn því sjá er gengið fram í þessu máli með stillingu og hægð af hendi Alþingis og ber öllum reyndum og skynsömum mönnum, sem eru vinir Austurlandsins og óska að framfaramál þau, sem geta orðið landinu að gagni, eigi að hafa framgang, - saman um, að vegurinn til þess sé, að láta menn sem vit og kunnáttu hafa á þess háttar fjalla um málið, en ofsóknir ókunnugra og ófróðra manna um vegalagningar eins og Guðmundur Hávarðsson hlýtur maður að virða að vettugi, og vona ég að almenningur geri hið sama, svo að annað eins velferðarmál Austurlandsins eins og akbraut milli Héraðs og Fjarða drukkni ekki í “gemeinni” hreppapólitík.
Bíðum því rólegir dóms “ingeniörsins” um hvert hið ofurháa fjall, sem mest allt árið liggur undir snjó sé heppilegra fyrir akbraut en hinn lárétti dalur, sem ætíð er fær vetur sem sumar, sem er styttri en heiðin (Héraðið byrjar þegar út úr dalnum er komið milli Þuríðarstaða og Dalhúsa, en ekki við Miðhús, eins og sumir ókunnugir virðast halda) og sem er svo vel lagaður fyrir akveg, að Páll vegfræðingur í mælingu sinni á Fagradal, sem ég citeraði áðan, skýrir frá, að frá Búðareyri við Reyðarfjörð og á brún á Fagradal Héraðsmeginn verði vegurinn alla leið svo láréttur, að ekki á einum einasta stað þurfi að skáskera hann til þess að taka af bratta og er þó brattinn hvergi meira en heppilegast er, þ.e.a.s. 1 móti 15.
Eskifirði 17. febr. 1900.
Virðingarfyllst
A.V. Tuliníus.


Austri, 19. og 27. mars, 1900, 10. árg., 9. og 10. tbl., forsíða og bls. 36:
Greinarhöfundur færir rök fyrir nauðsyn þess að brú komi á Jökulsá í Axarfirði (á Fjöllum) og gagnrýnir þá skoðun norska verkfræðingsins Barth að þar sé heppilegast að komi svifferja frekar en brú. Alþingi mun hafa fengið þennan Barth til að athuga með brúarstæði yfir helstu ár landsins. Bréf Barths birtist í Bjarka 27. maí, 1899, bls. 82 (sjá eldri greinar).

Ekki er allt gull sem glóir.
Þegar ég hafði lesið bréf herra Barths í 21. tbl. “Bjarka” (27. maí, 1989, bls. 82), varð mér ósjálfrátt að orði: “ekki er allt gull sem glóir”.
Þegar herra Barth var hér á ferðinni í þeim erindagerðum að mæla og ákveða brúarstæði á stórám hér á landi, fullyrti hann, þegar hann var búinn að mæla brúarstæði á Jökulsá í Axarfirði, að enginn vafi væri á því að brú kæmi á hana, enda virtist ekki, eftir því sem þá leit út fyrir, að því væri neitt til fyrirstöðu. Aftur á móti bar hann það fram, að lítil líkindi væru til að brú kæmist á Lagarfljót, sökum þess, að ekki fengist nógu tryggilegur grundvöllur (klöpp) fyrir tréstólpa að standa á, og fór hann mjög skynsömum orðum um það. Svo koma tillögur hans aftur, eins og gamalt máltak segir, sem “skollinn úr sauðarleggnum” manni á óvart, þvert á móti því sem hann talaði sjálfur við menn hér áður en hann fór. “Á Lagarfljóti” segir hann í bréfinu “hef ég lagt það til að brúarstæði yrði valið hjá Egilsstöðum.” Það er nú gott og blessað; en ferju vill hann láta setja á fljótið við Steinsvað, og eftir því sem mér skilst á þessi ferja að vera svifferja, sem straumur á að bera til beggja landa svo menn geti ferjað sig sjálfir; ég skil það ekki vel, enda er ég nokkuð ókunnugur svoleiðis svifferju sem straumur flytji til beggja landa; og í líkingu við svona lagaða svifferju vill herra Barth að menn komi sér upp ferju á Jökulsá í Axarfirði, þegar næg þekking sé komin fyrir því, hvað hinni ferjunni sé ábótavant.
Það er nú dálítið öðru máli að gegna með svifferju á Jökulsá eða Lagarfljóti, því þótt svifferja yrði búin svo vel út á Lagarfljót, að henni væri ekkert ábótavant, þá er alls engin reynsla fengin fyrir því, að svifferja stæði stundinni lengur á Jökulsá í Axarfirði, því Jökulsá og Lagarfljót eru mjög ólík, fyrst hvað straumhraða snertir, annað breyting árinnar og þriðja landtöku. Jökulsá í Axarfirði er mjög straumhörð og þar af leiðandi straumþunginn svo mikill, að hún er óferjandi þegar jökulsvextir eru í henni, það falla á henni stórar holskeflur hvítfossandi líkt og brim við sjávarströnd, svo ferjan er óverjandi hvað góð aðgæsla og stjórn sem höfð er, sömuleiðis er hún svo fljót að breyta sér þegar hún er í vexti, að hún gengur stundum upp mörg fet á einni klukkustund á ferjustaðnum. Landslagið er þannig lagað, að austanverðu árinnar eru klappir og klettaklungur og eru þar aðeins þrjár lendingar og þær næsta knappar, verður því ferjumaður að hafa nákvæmar gætur og sérstaka varúð ef vel á að fara og það þótt áin sé lítil; að vestanverðu er malarkambur með kastmöl og stórgrýti innanum, að vísu er þar fríari lending , en þó mun þurfa þar stakrar varúðar að gæta þegar áin er mikil, flóir hún þá upp um klappirnar og malarkambinn með voðalegu fossfalli og mun þá fáum þykja hún fýsileg til yfirferðar; og þrátt fyrir þetta dettur herra Barth í hug að láta á hana svifferju. Það hlýtur að vera fyrir ókunnugleika, að öðrum kosti mætti álíta það af verkfróðum manni gjörræði; að láta svifferju á Jökulsá, þannig lagaða, að menn ferji sig sjálfir, væri hlægileg fáviska, þar ekki er annað fyrirsjáanlegt, þegar Jökulsá er í vexti, en að annaðhvort mundi strengurinn, sem liggur á milli landa, slitna eða ferjan gangi undir strauminn, nema hún yrði á stærð við dekkbát, og strengurinn að því skapi sterkur, en þá myndi líka vera ofverk eins eða tveggja manna að draga ferjuna landa á milli, hvernig útbúnaður sem væri. En setjum nú svo, að allt þetta lukkaðist, þá væri ekki allt búið fyrir það, því óðar og ferjan nálgaðist austurlandið færi hún í spón á klöppunum þegar áin væri mikil, nema strengurinn væri svo vel strengdur, sem vart mundi verða nema með gufuafli, að hann gæfi alls ekkert eftir, svo ferjan gæti farið beina línu yfir landa á milli, en þá yrði strengurinn líka margar álnir fyrir ofan yfirborð vatnsins þegar áin er lítil, en hvar er þá ferjan!!?
Af þessu má glöggt sjá, að það væri hlægileg fáviska að ætla sér að láta svifferju á Jökulsá, þannig lagaða að menn ferjuðu sig sjálfir. Þeir mundu skilja ferjuna eftir þar sem þá bæri að landi í það skipti, til dæmis þegar áin væri mikil, væri það annað hvort í klöppunum eða á malarkambinum, og væri það gefin sök, að hún væri upp á skraufþurru landi þegar næsti vegfarandi kæmi, ef áin væri að fjara, enda er ég viss um, að engum íslenskum manni með fulla skynsemi mundi hafa dottið slík vitleysa í hug sem tillaga herra Barths í þessu efni, það er að segja ef hann hefði þekkt Jökulsá og séð svifferjur á ám. Ætti nú aftur að vera ákveðinn ferjumaður við svifferju á Jökulsá og hún væri í líkingu við aðrar svifferjur, þá mundi honum naumast detta í hug að hafa hana á ánni meira en tvo mánuði ár hvert í frekasta lagi. Í sumar til dæmis, hefði ekki verið hugsanlegt að láta svifferju á Jökulsá fyrr en undir göngur, svo hefði orðið að vera búið að taka hana af aftur hálfum mánuði fyrir vetur sökum frosta.
Hver er þá vinningurinn? Enginn, ekkert annað en kostnaður að láta ferjuna á og taka hana af aftur. Það er að vísu, að áin er sjaldan geng hér á ferjustaðnum á vetrum, en það safnast að henni svo háar skarir að eigi er hægt að brúka nema lítinn pramma þegar bráð nauðsyn krefur, en samt með því þó að stofna lífi í hættu, því dæmi eru til að skarir hafa orðið níu álna hár og urðu þær þó eigi mældar fyrr en eftir nokkra þýðu; það er því ekki von að nokkur maður sem ekki þekkir Jökulsá geti haft hugmynd um hve voðalegur farartálmi hún er fyrir vegfarendur. Ég hefði sjálfur ekki trúað, hve breytileg hún er og hættuleg yfirferðar, ef ég hefði ekki dvalið í grennd við hana um undanfarinn tíma og fengið allar þær upplýsingar sem hægt var.
Þótt nú herra Barth væri ókunnugur Jökulsá í Axarfirði, hefði hann samt átt að fá dálitla þekkingu á henni, þegar honum var sagt og sýndar breytingar hennar og hann var búinn að mæla hraða vatnsins, þótt aðferð mælinga hans væri að vísu nokkuð hlægileg, en það segir gamall málsháttur, að það sé betra að veifa röngu tré en öngu, og svo mátti segja um verkfæri herra Barths, en samt tókst honum nú aldrei að mæla dýpið, þótt verkfróður væri, var hann það að auki rétt kominn í ána með verkamenn sína af vanhugsaðri fyrirskipan, því slík mælingaraðferð sem hann brúkaði við Jökulsá, hefði verið ófyrirgefanleg af verkfróðum manni.
Ef herra Barth hefði þá með einu orði minnst á svifferju á Jökulsá, þá hefði honum strax verið sýnt fram á ómöguleika þess, en það var öðru máli að gegna, þá hugsaði hann ekki um annað en brú og það helst steinboga eftir því sem hann sagði sjálfur, og það var víst eindregin sannfæring hans, en þá hefur hann náttúrulega ekki verið búinn að athuga nógu vel fólksfjölda uppdráttinn, sem sýnir fram á hve strjálbyggt sé, og þar af leiðandi umferðin svo lítil yfir ána, að brúin yrði alltof íburðarmikil.
Fólksfæðin og umferðarleysi yfir ána virðist nú helst standa í veginum fyrir fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá eftir því sem herra Barth álítur, en þar eð ég er hræddur um að það sé hugmyndasmíði eitt en engin sönnun. Þó virðist mér naumast takandi til greina, þetta hafði þingið voru heldur aldrei dottið í hug að athuga, þótt það notaði flest þau meðul sem komu í bága við brúargerð á Jökulsá, allt þangað til í sumar, þá þagnaði það alveg, líklega af þeirri ástæðu, að það hefur álitið þessa uppgötvun herra Barths með umferðarleysi yfir ána sökum fólksfæðinnar alveg fullgilda, og nú væri umræðum um brúargerð á Jökulsá alveg lokið, en það mun fara á aðra leið; þingmenn vorir munu brátt komast að þeirri niðurstöðu á næsta þingi að sækjendur þessa máls eru eigi fallnir á bak aftur þótt árangur hafi verið lítill að þessu, en nú er fyrst risin almenn óánægja, og er hún í meira lagi, yfir þessari mótspyrnu gagnvart brúnni á Jökulsá, sem öll hefur verið byggð á svo óskiljanlegan hátt, að það er naumast hægt að gera sér grein fyrir hvernig á því stendur, eða það er að minnsta kosti ekki sjáanlegt að hún sé byggð á neinum grundvelli t.d. þar sem haldið er fram öðru brúarstæði á ánni miklu betra, billegra og heppilegra, heldur en því sem ákveðið var, auðvitað tóm ósannindi, bara til að villa mönnum sjónir og tefja fyrir fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá; til þess að ganga nú úr skugga um þetta, ákveður þingið að fá skuli verkfróðan mann frá Noregi til þess að skera úr þessu vandasama máli, þrátt fyrir það þó það hefði nú verkfræðing sem búinn var að mæla og ákveða það eina brúarstæði sem heppilegt var á ánni, þetta er nokkuð eftirtektarvert, en sleppum nú því; nú kemur þessi norski verkfræðingur, herra Barth, hann gerir auðvitað ekkert annað en það sem verkfræðingur landsins var búinn að gera, er alveg á sömu skoðun og finnur enga ástæðu fyrir því að staðið sé á móti fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá, telur hann engan vafa að féð verði veitt á næsta þingi; við þessa ályktun herra Barths urðu menn næsta glaðir og bjuggust við miklum framkvæmdum frá næsta þingi í þessu efni; en svo kemur, eins og ég hef áður tekið fram, þessi nýja uppgötvun herra Barths með umferðarleysi yfir ána og þar af leiðandi þessi kynlegi snúningur í höfðinu á honum, sem gerði menn svo óánægða, að varla þarf að búast við að Norður-Þingeyingar hlífi næsta þingmanni sínum, ef hann ekki heldur fastlega með brúargerð á Jökulsá og starfar kappsamlega í því efni; mun því að öllum líkindum hreinn og beinn óþarfi fyrir þann mann að bjóða sig fram fyrir þingmann hér í sýslu sem eigi hefur sjálfkrafa komist að þeirri niðurstöðu, hve afar nauðsynlegt það sé að greiða samgöngur með því að brúa þetta voðalega vatnsfall, því enginn efi er á því að þetta er ekkert annað en hugarburður hjá herra Barth að umferð sé svo lítil yfir Jökulsá í Axarfirði, eða getur hann gefið nokkra skýrslu yfir það hve margir fara yfir Jökulsá í Axarfirði, að undanskildum þeim sem fara beina leið frá Akureyri til Seyðisfjarðar; enda er umferð yfir Jökulsá í Axarfirði allt árið þegar hún er fær; má því nærri geta hve langferðamönnum er þægilegt að bíða dögum saman við ána þegar hún er ófær, og leggja svo líf sitt og skepna sinna í hættu undireins og hún er slarkandi, mér getur heldur naumast dottið til hugar annað en mönnum hljóti að renna til rifja, þegar þeir sjá hestana koma af sundi úr þessum vatnsföllum, hríðskjálfandi og gaddfrosna á vetrardag, eða örmagna af þreytu, nær því búna að gefa frá sér þrótt á sumardag; hér er því varla hugsanlegt að þing vort hugsi sig um eitt augnablik, að framleggja nægilegt fé til brúargerðar á Jökulsá við fyrsta tækifæri, enda mundi mörgum þykja því mislagðar hendur, þá er það leggur fram stórfé til lítt þarfra akvega t.d. eins og vegarins fram Eyjafjörð, en svo skyldi það þverneita, að veita fé til brúargerðar á eitthvert mesta vatnsfall landsins.
Þótt mikið sé búið að gera í þá áttina að brúa stórár hér á landi, þá er þó talsvert eftir, og dugar því eigi að hætta í hálfu kafi, sannast þá eigi hið fornkveðna “hálfnað er verk þá hafið er”, ef ekki er tafarlaust haldið áfram að brúa allar stórár á landinu jafnótt og fé leyfir, þangað til það er búið. Í þetta skipti ætla ég ekki að fara meira út í þetta efni, en síðar hef ég ásett mér, ef þörf gerist, að sýna fram á, hvort ekki mætti byggja laglega brú fyrir fé það sem veitt hefur verið af þingi voru í ýmsar áttir án þess að landið hafi haft hin minnstu not af.
Ritað í desember 1899.
G.Th.


Ísafold, 21. mars, 27. árg, 14. tbl., bls. 54:
Greinarhöfundur fjallar um vegi og brýr vestan úr Dölum til Reykjavíkur. Hann segir gleðilegt að sjá hvað vegirnir hafa lagast mikið á síðastliðnum áratug og ef svo verði haldið áfram, verði þetta orðinn sæmilegasti reiðvegur eftir önnur tíu ár.

Vegabætur og brúasmíði.
Þegar maður ferðast héðan vestan úr Dölum suður í Reykjavík, er gleðilegt að sjá, hvað vegirnir hafa fengið mikla umbót á síðastliðnum áratug, og ef svona vel verður haldið áfram í önnur tíu ár, verður að líkindum búið að gjöra þennan veg vel viðunanlegan reiðveg, ef þess verður einnig gætt, að halda honum nægilega við.
Þessar vegabætur eru að flestra áliti vel af hendi leysir; og þótt það mætti að þeim finna, að við lagningu þeirra hafi ekki verið gert ráð fyrir, að þeir yrðu nýtilegur vagnvegur, þá er það afsakanlegt, því með því móti hefði vegagerðin orðið miklu dýrari, og þar af leiðandi miðað seinna áfram; en óneitanlega liggur mest á að gera slíkan veg, sem hér um ræðir, sem fyrst reiðfæran.
En æskilegt væri að eftirleiðis yrði aksturinn hafður í huga við lagningu þessara vega, og þar sem þeir eru lagðir um sveitir, ætti að leggja svo mikið kapp á að gera þá akfæra sem framast er unnt.
Þá eru brýrnar, sem lagðar hafa verið á árnar á þessari leið, ekki síður þarfar umbætur, sem allir ferðamenn hljóta að láta sér þykja vænt um, einkum vor og haust, þegar árnar eiga annars að sér að vera lítt færar og oft ófærar.
Það er eins um brýrnar og vegabæturnar, að flestir telja þær vandaðar og vel gerðar, og því ekkert að þeim að finna.
Mig langar samt til með leyfi yðar, herra ritstjóri, að fara nokkrum orðum um þessar brýr, þótt þau hafi að geyma töluverðar aðfinningar við verk mikilsvirtra manna.
Allir hljóta að játa, að það sé nauðsynleg og sjálfsögð regla, að brýr séu gerðar svo traustar og endingargóðar, sem efnið í þeim framast leyfir og aðrar ástæður, og að það sé fyrsta og sjálfsagðasta skyldan, að þess sé gætt.
Það er einnig skoðun mín, að það sé bæði skylda og réttur hvers manns á landinu sem er að benda á, ef mannvirki þau sem kostuð eru af almenningi séu ekki þannig af hendi (ólæsileg 3-4 orð).
Ég kem ekki með þessar (ólæsilegt orð) mínar af því, að ég (ólæsilegt orð), að brýrnar sem gerðar hafa verið á þessari leið á landssjóðs kostnað, séu nægilega traustar til að bera klyfjaðar hestalestir og ríðandi fólk, og muni endast nokkuð lengi, heldur af því að mér virðist vera að ástæðulausu brugðið út af (ólæsileg 4 orð) reglum, sem bæði snerta burðarmagnið og endinguna, og það er því fremur varhugavert, að (ólæsileg 2 orð) sjást á þessum brúm, sem liggja í þjóðbraut, sem þær eru hafðar til fyrirmyndar við þess konar mannvirki á sýslu- og sveitavegum, og getur það orðið því skaðlegra í höndum þeirra manna er ekki þekkja neinar brúarsmíðareglur; sem (ólæsilegt orð) búast má við að efni í þær fáist oft ekki eins vandað og í landssjóðsbrýrnar.
Ég ætla aðeins að minnast á þær brýr , sem hér eru næstar, og það sem sagt verður um þær á auðvitað við um allar brýr með sömu gerð.
Á Haukadalsbrúnni hér í Dölum eru neðri endar á uppihaldssperrunum að norðanverðu aðeins látnir ganga að sléttum stöplinum og ekkert sæti gert fyrir þá í stöpulinn, en festir við brúarmeiðana með járngaddi spottakorn frá brún stöpulsins. Af þessu leiðir, að mikið af þunga brúarinnar liggur á þessum stað á brúarmeiðunum sjálfum, í stað þess að þunginn af miðkafla brúarinnar á með sperrunum allur að flytjast á stöpulinn. Þessu hefði verið hægt að koma við með því að láta vera stall á framhlið brúarstöpulsins fyrir neðri enda sperrukjálkanna. Ég þori að fullyrða, að það er regla bæði við húsasmíði og brúa, þegar hafðar eru sperrur til að halda uppi bita eða brúartré, að láta neðri enda sperrukjálkanna liggja á sjálfri hliðarundirstöðunni, eða sem næst henni að hægt er, hvort sem sú undirstaða er veggur á húsi, brúarstöpull eða eitthvað annað, en láta hann ekki liggja einhvers staðar á eða binda hann einhversstaðar við bitann eða brúarmeiðinn, sem sperran á að halda uppi langt frá hliðarundirstöðunni.
Á Hvítárbrúnni eru neðri endar uppihaldssperranna látnir ganga inn í brúarstöplana, og hlaðið utan um þá. Þetta er óþarft, því nægilegt hefði verið að láta þá liggja á þar til gerðum stalli á brúarstöplunum. Ég þori líka að fullyrða, að það er rétt regla, að hlaða aldrei utan um tré í grjótvegg, nema brýna nauðsyn beri til, og þegar ekki verður hjá því komist, þá að búa til vatnsþétt og rakaþétt lag utan um tréð, til þess að verja það fyrir raka þeim, sem ávallt kemur á steininn, þegar hitabreyting verður. Mér hefur verið sagt að “asphalt” pappi hafi verið hafður utan um sperrutrésendana á Hvítárbrúnni, en þótt svo hafi verið, get ég ekki séð, að með því séu endarnir nægilega tryggðir fyrir vætu, því tréin ganga skáhallt ofan í steinvegginn, svo vatn getur ávallt runnið ofan með trjánum, og sjá þá allir, að það hlýtur að feyja þau með tímanum.
Mér er það alveg óskiljanlegt, að aðrir eins smíðagallar og þessir skulu sjást eftir mann, sem er vanur og reyndar húsasmiður, og annars yfirhöfuð að tala einhver fjölhæfasti og atkvæðamesti smiður á landinu.
Til þess að bæta úr þessum smíðagöllum á brúnum virðist mér besta eða jafnvel eina ráðið við Hvítárbrúna, að höggva hleðsluna utan af sperrukjálkaendunum, og ganga svo frá þeim, að loft geti leikið um þá tálmunarlaust og vatn ekki staðnæmst við þá.
En Haukadalsárbrúin og þær brýr sem eru með sama frágangi og er á norðurenda hennar, er auðvitað best að bæta á þann hátt, ef hægt væri, að festa einhverri nægilega tryggri undirstöðu úr járni eða steini undir sperrukjálkaendana innan í brúarstöpulinn sjálfan. En með því að þessir brúarstöplar munu flestir hlaðnir úr mjög hörðu grjóti, og því örðugt að höggva í þá holur, yrði að líkindum hægara að festa sperruendana upp í brúarmeiðana rétt við stöpulinn með hæfilega gildum járnspöngum. Að þessu gæti að sjálfsögðu orðið mikill styrkur.
Þegar ég hef farið yfir Haukadalsárbrúna, hefur mér dottið í hug, hvað skarpi hryggurinn, sem er á miðri brúnni, líkt og mænir á húsþaki, á að þýða. Þetta húsþakslag mun vera á flestum brúnum á þessari leið, og eftir því, sem mig minnir, er hann mismunandi hár. Mér datt fyrst í hug, að hryggurinn væri til þess hafður, að vatn gæti ekki staðnæmst á brúargólfinu, en þegar ég athugaði þetta nákvæmar, sá ég að þetta gat ekki verið, því beggja vegna við hrygginn eru lægðir í brúna, og þær svo miklar, að lítill halli mun vera á brúargólfinu, þegar komið er miðja vegu frá hryggnum. Ég get því ekki betur séð en að þessi hryggur sé ´óþarfur, og hljóti að vera óþægilegur, ef um brýrnar ætti að aka þungum vagni.
Ég lýk svo þessum línum með þeirri ósk og von, að eftirleiðis verði haft í huga við allar brúarsmíðar á landinu, að þegar fram líða stundir, verði þær hafðar til að aka eftir þeim vögnum.
Hjarðarholti í febrúar 1900.
Guttormur Jónsson


Bjarki, 21. mars, 1900, 5. árg., 11. tbl., bls. 42:
Guðmundur Hávarðsson og A.V. Tuliníus eiga í ritdeilum um hvor leiðin sé betri, frá Héraði niður á Firði, um Fjarðarheiði eða Fagradal. Guðmundur nefnir hér marga kosti Fjarðarheiði og ókosti Fagradals og klykkir út með því að ef Fagridalur yrði fyrir valinu, yrði sá vegur lítið notaður.

Akbrautin fyrirhugaða.
Grein mín í Bjarka 9. f.m. um akveg frá Héraði til fjarða hefur Axel sýslumaður Tulinius á Eskifirði nú svarað í Austra 10. þ.m. Hann segir að grein mín, og annað, sem fram hefur komið í Bjarka um þetta mál, sé skrifað til þess, að spilla fyrir akbrautarlagningu um Fagradal til að samtengja Héraðið og firðina. Eftir því að dæma á mér ekki að hafa gengið annað en illgirnin ein til að rita greinina, en þeirri aðdróttun sýslumannsins verð ég að beina frá mér sem alveg ástæðulausri og ósannri.
Ég áleit, og álít enn, skyldu mína að segja skoðun mína afdráttarlaust á því, hvar heppilegast mundi að leggja þessa umræddu akbraut; þetta gerði ég þá aðeins lauslega en skal nú betur sýna fram á hið sama, og það engu síður fyrir það, þótt sýslumaður þykist virða dóm minn að vettugi. Ég vildi ekki bjóða honum út í því að dæma brotlega trollarakapteina enda þótt slíkt lægi innan míns verkahrings, en í því að dæma um akbrautarlagningu á Fagradal og Fjarðarheiði ætla ég að bjóða honum út og mega óhlutdrægnir menn, sem þekkingu hafa á þeim efnum, skera þar úr málum milli okkar.
Þá mætti svo virðast af grein sýslumanns sem þessi akbrautarlagning um Fagradal væri þegar útkljáð mál. Hann kemst svo að orði: “Í lögum 13. apríl 1894, 3. gr. stendur, að flutningabraut skuli vera frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal til Lagarfljóts”. Og svo bætir hann við, að þessi ákvörðun í lögunum sé auðvitað tekin eftir að kostir og ókostir á Fagradal og öðrum vegum milli Héraðs og fjarða hafi verið vegnir hver á móti öðrum.
En þrátt fyrir þetta langar mig þó til að vega Fagradal og Fjarðarheiði hvort á móti og reyna að sýna mönnum hvor þessara fjallvega ætti að verða þyngri á metaskálunum.
. Sýslumaður hefur það eftir Páli vegfræðingi, að brattinn á Fagradal þurfi hvergi að vera meiri en 1 á móti 15. Ég get aftur á móti sagt eftir lærðum mannvirkjafræðingi, sem ég hef orðið samferða yfir Fjarðarheiði, að brattinn á henni Seyðisfjarðarmegin (og um annan bratta er ekki að tal) þyrfti ekki að vera meiri en 1 á móti 20 þar sem brattast yrði.
. Vegalengdin frá Búðareyri við Reyðarfjörð að brúarstæðinu á Lagarfljóti verður rúmum þriðjungi lengri en af Seyðisfjarðaröldu á sama stað.
. Vegarspottinn af melunum fyrir innan Seljateig og upp á varp á Fagradal mundi verða svo afardýr, að eflaust mætti leggja helmingi lengri veg á Fjarðarheiði fyrir þá fjárupphæð sem til hans gengi, og viðhald vegarins á þessum litla spotta mundi kosta mikið fé árlega, þar sem viðhald vegarins á Fjarðarheiði mundi litlu nema.
. Snjóþyngsli á Fagradal Reyðarfjarðarmegin eru oft svo mikil að undrum gegnir. Til að sjá það og skilja, að snjórinn kreppir þar að frá dölunum umhverfis, þarf ekki hálærða menn. Allt öðruvísi er þessu varið á Fjarðarheiði. Snjó leggur mjög jafnt á hana, og þar sem ég álít að akbrautin yrði lögð ætla ég að hagi svo til, að hún lenti sjaldan undir snjó allan veturinn, að minnsta kosti mjög seint að haustinu og kæmi upp snemma að vorinu.
. Þó hægt verði að aka yfir Fagradal stuttan tíma úr sumrinu, þá er ekki um vetrarakstur að tala eftir honum, því til þessa er hann gjörsamlega ófær. Annað mál er um Fjarðarheiði; yfir hana má aka allan veturinn.
. Þó svo færi, að akbraut kæmist á um Fagradal, mundi hún lítið sem ekkert vera notuð. Héraðsmenn mundu eftir sem áður sækja vörur sínar á Seyðisfjörð á hestum sínum eins og nú. Til þess að koma að fullum notum, verður akbrautin að liggja til höfuðkaupstaðarins.
. Seyðisfjörður hefur þar margt til síns ágætis fram yfir Reyðarfjörð. Þar er óefað sú höfn hér á Austfjörðum, sem flest skip koma við á. Viðvíkjandi innsiglingu á Seyðisfjörð og Reyðarfjörð skal ég nefna tvö dæmi. Veturinn 1884 í mars kom ég frá Noregi með gufuskipinu “Nordkap” frá Bergen til Seyðisfjarðar. Hér um bil 20 mílur undan landi kom þoka á, en skipstjóri kvaðst óhræddur leggja inn til Seyðisfjarðar af því innsiglingin þangað væri svo góð. 1895 í nóvember kom ég einnig frá Noregi með gufuskipinu “Alf”, kaft. Torland, sem mörg ár hafði verið stýrimaður eða kafteinn með skipinu hér við land. Við komum upp undir Reyðarfjörð í glaða tunglskini og besta veðri og sáum Seleyna. En kafteinninn treysti sér ekki til að leggja inn og urðum við að bíða úti fyrir alla nóttina. Það sem hann bar fyrir var hræðsla við svokallaðar “Brökur” og svo straum er kynni að vera. Hvers mætti vænta af ókunnugum kafteini þar sem gagnkunnugur maður þorði ekki annað en að vera svo varasamur?
Hve miklu fé þyrfti líka ekki að kosta til, til viðbótar við vegalagninguna á Fagradal, áður jafngóðar jafn góðar bryggjur væru komnar í Reyðarfirði og nú eru hér á Seyðisfirði?
Og hvers vegna ættu menn svo að velja lengri leiðina í stað hinnar styttri?
Lagarfljótsbrúarefninu sleppi ég að sinni, af því ég hef heyrt, að Thor E. Tulinius sé búinn að takast á hendur að koma því að brúarstæðinu. En líklega verður því veitt eftirtekt, hvort ekki hefði mátt koma því fljótlega aðrar leiðir en um Fagradal og einnig, hvort ekki hefði mátt spara landssjóði nokkrar krónur með því, að auglýsa flutninginn í blöðunum hér og gefa mönnum á þann hátt kost á að vera fleirum um boðið.
Seyðisfirði 14. mars 1900.
Guðmundur Hávarðsson


Austri, 27. mars, 1900, 10. árg., 10. tbl., bls. 37:
Austri fylgist vel með fréttum af Lagarfljótsbrúnni og það eru einnig fréttir að ekkert sé að frétta.

Lagarfljótsbrúin.
Þá síðast fréttist frá Kaupmannahöfn, var ekkert afráðið um það, hver flytti hingað til lands brúarefnið, og því síður, hvar því verður skipað í land.


Þjóðólfur, 27. mars, 1900, 14. tbl., 53. árg., forsíða:
Í 5. kafla greinaflokks um framfærslu á mýrarflóum, segir Sigurður Sigursson að framfærslan hlyti að vera vegabót á mörgum stöðum, en ekki er það útskýrt nánar.

Um framfærslu á mýrarflóum.
..Samfara öðrum kostum framfærslunnar, hlyti hún einnig , að því er Flóann snertir, töluvert að bæta umferðina, eða með örðum orðum vera vegabót þar á mörgum stöðum.


Þjóðólfur, 30. mars, 1900, 52. árg., 15. tbl., bls. 59:
“Ferðamaður” skrifar um nauðsyn þess að reist verði gistihús á Lækjarbotnum og að bóndinn þar fái styrk frá hinu opinbera til að reka það.

Gistihús á Lækjarbotnum.
Eins og flestum er kunnugt, eru brýr og vegir mestu framfarirnar í landinu. Eru nú komnir góðir vegir frá Reykjavík austur á Eyrarbakka yfir þveran Flóann og yfir Holtin og eru því vetrarferðir miklu meiri en áður; en svo er eitt athugavert, að á þeirri leið er óvarðaður vegur upp í Svínahraun og getur slíkt orðið mjög að slysi á vetrardag, sbr. Indriðavilluna í vetur, og svona mætti telja mörg dæmi. Þá teljum við ferðamenn einnig mjög illa farið, að ekki skuli vera gistihús á Lækjarbotnum. Þar eru ónóg hús til gistingar og þó hljóta allir að viðurkenna, að þar þyrfti að vera reglulegt ferðamannahæli. Sannleikurinn er, að við ferðamennirnir yrðum illa staddir, ef ábúandi Lækjarbotna hýsti engan mann, eins og búast mætti við undir svona löguðum kringumstæðum, þar sem ábúandinn þar hefur beiðst styrks, en ekki fengið, en ábúandinn á Kolviðarhóli hefur 150 kr. styrk árlega, leigulausa íbúð í húsinu og ókeypis ljós og má telja það eitt hið þarfasta, er veitt hefur verið af því opinbera, því að ekki væri gott að menn yrðu reknir á dyr inn á fjöllum. Að vísu kunna menn að segja, að Lækjarbotnar séu sveitajörð, en svo mikið er víst, að allir hagar eru þar stórskemmdir sökum umferðarinnar og mikið ónæði og uppistöður þar.
Það er því einhuga vilji og ósk allra þeirra, er um þennan veg fara, að stjórn landsins veiti styrk til þess að reist verði gistihús á Lækjarbotnum og að ábúandi Lækjarbotna fengi styrk sem sæluhúsvörður þar.
Ferðamaður.


Ísafold, 4. apríl, 27. árg, 18. tbl., forsíðu:
Sigurður Pétursson, verkfræðingur, skrifar greinina “Um vegi og brýr á aðalleiðinni frá Reykjavík austur í Holt” og gerir ýmsar athugasemdir við vegi og brýr.

Um vegi og brýr
á aðalleiðinni frá Reykjavík austur í Holt
Fyrri hluta marsmánaðar ferðaðist ég austur um sveitir til þess að skoða húsabyggingar. Eins og mönnum mun kunnugt, er í fjárlögum nú veitt fé til rannsókna á byggingarefnum landsins og leiðbeiningar í húsabyggingum; og hef ég verið valinn til þess að hafa á hendi það starf, sem þessi fjárveiting gerir ráð fyrir.
Þessi ferð var byrjun í þá átt, að fá ljóst og áreiðanlegt yfirlit yfir ásigkomulag húsakynna vorra til sjávar og sveita, eins og það nú er. Ég áleit rétt að fara af stað í þessar leitir um þennan tíma árs, því þá rekur maður áreiðanlega augun í ýmislegt, sem ekki sést að sumrinu til og menn muna þá heldur ekki eftir að kvarta um.
Ég ætla þó ekki að fara að gefa hér skýrslu um athuganir mínar viðvíkjandi húsakynnum; þær munu koma síðar; ég ætla aðeins að geta ýmislegs, er ég veitti eftirtekt viðvíkjandi vegum og brúm á aðalleiðinni austur; um vegina er nefnilega að sínu leyti eins ástatt og húsin, að það sést oft ekki fullkomlega fyrr en á vetrum, að hverju leyti vegarval og öll tilhögun hefur verið hyggileg eða ekki. Að minnsta kosti á sú hliðin ávallt að vera sá reynsluskóli sem byggt er á eftirleiðis. Ég hef þá ástæðu til að birta þessar athuganir, að vér erum of fátækir til þess að láta nokkurt tækifæri ónotað til fræðslu um það, er reynslan sýnir að betur má fara.
Um leiðina upp úr Reykjavík er það að segja, að henni er stórum betur hagað en áður var; þó hefði ávallt legið næst, að halda leiðinni úr miðbænum austur með sjónum. Sú leið var í byrjun eðlilegust og útfærsla bæjarins austur á við (húsin fyrir austan landshöfðingjatún og norðan Laugavegar) krefst þar vegar nú, þó seint sé.
Í haust hefur verið borið ofan í all langan kafla af leiðinni inn að Elliðaánum. Hvers vegna haustið og fyrri hluti vetrar hefur verið valinn til þessa, skilst mér ekki; þó má vera, að það styðjist við einhverja reynslu og megi til sanns vegar færa. Allmikið af þessum ofaníburði hlýtur að berast burtu við leysingar að vetrinum og vorinu; sömuleiðis verður brautin þungfær í fyrstu leysingum.
Á þessum tíma lá allmikið af veginum frá Lækjarbotnum austur yfir Hellisheiði undir fönn og klaka, svo þennan hluta gat ég ekki séð til fulls. Allt það, sem ég sá, bar þess ljósan vott, að viðhaldið er ekki eins gott og æskja mætti; skurðir hafa mjög víða hrunið saman eða fyllst, og víða komin skörð í vegarbrúnir. Þetta fer auðvitað saman við það, að litlu fé mun árlega varið til viðhalds þessari leið.
Á þessum tíma var eingöngu farin gamla leiðin yfir Hellisheiði (upp Hellisskarð). Vörður þar eru margar fallnar, og liggja sumar við falli; og er það illt, með því að þetta er þrautaleið yfir heiðina á vetrum í snjóalögum. Syðri leiðin (nýi vegurinn) var vörðuð í haust, sem leið, og hefur að líkindum farið til þess töluvert fé. Nokkru af þessu fé hefði, að mínu áliti, sjálfsagt átt að verja til þess, að hlaða upp vörður á gömlu leiðinni, því reynslan sýnir, að sú leið verður ávallt styst og fjölförnust á vetrum.
Leiðin niður Kamba og allt þar fyrir austan var snjólaust.
Í Kömbum var vegurinn góður og heldur sér vel, en mjög örðugur vagnvegur verður hann, ef á það á að reyna; hallinn mikill og krókar krappir.
Vegurinn frá Heiðinni að Gljúfurá hefur haldið sér vel; en á þessum kafla er brúm miður hyggilega fyrirkomið og óþarfir krókar á stefnum. Brýr vantar yfir Gljúfurá og Bakkaholtsá. Þegar það kemur til athugunar að brúa þær, sem ekki mundi þurfa að hafa neinn stórvægilegan kostnað í för með sér, þá rekur maður fyrst verulega augun í ósamræmið í vegarstefnum hér, því kaflinn milli ánna liggur þannig, að hann ætti ekkert skylt við aðalleiðina.
Lagði vegurinn yfir Ölfusið endar við Köguðarhól. Ef hugsað verður til þess að halda áfram veginum austur að Ölfusárbrú í sambandi við vagnflutninga, liggur beinast við að taka stefnuna sunnan við Köguðarhól beinustu leið á brúna. Að halda við leiðinni með fram Ingólfsfjalli og þaðan niður að brú, svo að hún verði akfær, hlýtur að hafa töluverðan kostnað í för með sér.
Um Ölfusárbrúna verð ég að geta þess, að mér finnst athugaverð “uppskrúfunin”, eins og hún er nú gerð hvað eftir annað. Brúin er of falleg og dýr til þess, að hún sé skemmd fyrir vangá. Ef brúin heldur ekki nokkurn veginn lagi sínu um stund, verður að aðgæta fleira en uppihaldsstengurnar. Mér finnst að minnsta kosti engin vanþörf að veita þessu frekari eftirtekt, og ætti að láta mannvirkjafræðing landsins einn segja fyrir um, hvenær og hve mikið eigi að hreyfa við skrúfum.
Um Flóaveginn get ég verið stuttorður; hann var góður og greiðfær yfirferðar. Ég get þó ekki bundist orða um það, að á honum eru alveg óþarfir krókar á nokkrum stöðum. Á öllum veginum vottaði fyrir holklaka meira og minna, en við því hefur ekki verið hægt að gera. Á löngum köflum er vegurinn púkklagður, en á púkklagningunni eru miklir gallar. Vegurinn átti að vera 6 álna breiður, en með púkklagningunni verða tæpar 5 álnir færar af breidd hans á æði mörgum stöðum. Mulningurinn (púkkið) heldur sér vel og gerir veginn góðan fyrir lestarferðir og vagnflutninga en harðan fótgangandi mönnum. Ef púkklagið hefði verið rétt lagt, mundi hann hafa fullnægt öllum skilyrðunum þremur. Ennfremur verð ég að geta þess , að við hverja rennu er lægð í veginum. Á kaflanum næst Ölfusá vantar fráræsluskurði. Nálægt Bitru hafa vegarskurðir verið stíflaðir. Víða sést á leiðinni, að uppgröftur úr skurðum hefur ekki gengið til vegarins, heldur verið lagður upp á skurðabakkana að utanverðu og hefur vatnið sumstaðar flutt hann aftur niður í skurðina.
Þjórsárbrú er lagleg og lítur vel út. Veita þarf eftirtekt vestari brúarstöplinum; honum getur fljótt hætta búin af frostum og jakaburði Ennfremur þarf að lengja fráræsluskurðinn Holtamegin vestur og suður fyrir eystri stöpulinn.
Um Holtaveginn er það að segja að vegarstefnan er vel valin, liggur beinustu leið milli Þjórsárbrúar og Rauðalækjabrúar. Vegurinn liggur í heild sinni laglega með löngum, beinum köflum og reglulegum bogum á milli. Vegurinn hefur haldið sér vel þar sem ofaníburður var góður (í öllum vestari kaflanum). Á austari kaflanum varð eingöngu að nota sand til ofaníburðar og hann hefur fokið burt á löngum köflum. Fráræsluskurðir eru margir, en þó þarf slíka skurði á 2-3 stöðum enn, þar sem runnið hefur yfir veginn. Fyrir holklaka vottar aðeins á 2 stöðum.
Ég hef þá farið fljótt yfir einstök atriði þess, sem ég veitti eftirtekt á þessari leið. Sérstaklega rekur maður augun í, hve vegarlagningin yfir Ölfusið er samræmislaust og öll í bútum. Þegar leið þessa á að fullgera, gerir þetta töluverða erfiðleika og aukakostnað.
Ennfremur vil ég geta þess, að það er einkar eftirtektarvert, að allir vegakaflar, sem liggja yfir mýrar, hafa haldið sér best og virðast munu þurfa lítinn viðhaldskostnað.
Þetta er einkar mikilsvert hjá oss, þar sem eftirlit og viðhald er svo ófullkomið. Almennt má segja að vegir þeir sem landssjóður er búinn að leggja, kosti of mikið fé til þess, að láta þá vera eftirlitslausa og viðhaldslitla, enda þekkist það ekki hjá nokkurri annarri þjóð. Vér gætum eins látið stórbrýrnar, sem gerðar hafa verið á síðustu árum, vera umsjónar- og eftirlitslausar. Þetta virðist þing og þjóð þurfa að athuga frekar. Þegar fé er lagt til einhverra nývirkja, þarf ávallt að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að þau gangi ekki úr sér fyrir tímann.
Reykjavík, í marsmánuði 1900.
Sigurður Pétursson
Ingeniör.

Austri, 8. apríl, 1900, 10. árg., 11. tbl., bls. 40:
Hér gagnrýnir Stefán Þórarinsson grein Guðmundar Hávarðssonar, sem birtist í “Bjarka”. Guðmundur hefur greinilega haldið því fram að miklu betra væri að leggja veg af Héraði til Seyðisfjarðar um Fjarðarheiði en til Reyðarfjarðar um Fagradal, en Stefán er því aldeilis ósammála.

Svar til Guðmundar Hávarðssonar.
Ég er einn af þeim mörgu, sem ekki kaupi Bjarka, en fæ þó einatt reykinn af réttum hans að láni. En þetta er nú svo sem ekki með neinni reglu sem hann ranglast hingað, og verður því oft dráttur á að ég sjái stóru stefin hans, þannig fór það þegar nr. 5 þ.á. gekk um kring, það hafði liðið æði tími frá útkomu þess, og því kom G. Hávarðsson og akvegurinn hans svo seint fyrir mínar sjónir.
En með því að þetta átti meðfram að verða dálítið svar til Guðmundar upp á þessa grein í 5. tbl. Bjarka, þá mun best að halda sig við efnið, en ekki láta farast eins og honum, er setur yfir grein sína: “Akvegur frá Héraði til Fjarða”, en helmingur greinarinnar gengur út á að fjasa um brúna á Lagarfljót, hvert henni skuli stefna o.s.frv. Það er tvennt, annað hvar heppilegast er að leggja veginn milli Fjarða og Héraðs, og flutningur á Lagarfljótsbrú. Á fyrirhuguðum akvegi ekur Guðmundur hvorki brúarefni né öðru, enda er mjög sennilegt, að brúin verði fyrr komin á laggirnar en akvegurinn, svo samband þar á milli nær engri átt.
Öllum kemur víst saman um það, beinlínis af reynslunni, að snjó tekur fyrr upp af láglendi en uppi í fjöllum. Og það er eitt af helstu spurgsmálunum, þegar um veg er að ræða, hve lengi hann standi auður. Fjarðarheiði liggur nær helmingi hærra, en Fagridalur, og ef t.d. Fjarðarheiði er undir snjó 2/3 hluta af árinu en Fagridalur ekki nema helming. Hvað segir G. um það, skyldi það engu muna?
Þar sem G. talar um vegalengdina, að hún sé nær helmingi lengri yfir Fagradal, þá fer hann þar skakkt, því Fagridalur er ekki nema rúmum þriðjungi lengri en Fjarðarheiði. Gæta verður G. þess einnig, að þegar allur vegurinn í brekkunum beggja megin þarf að vera sniðvegur, þá fer líklega leiðin að lengjast. Því þó t.d. að þessi akvegur komist nú á, þá verður líklega ekki svo mikið um hann, að þyngdarlögmál hlutanna breytist, nema ef vera kynni að einhver vindur hlypi í G. svo hann treystist til að flytja eftir þeim vegi sem beint lægi upp hverja brekku. Með öðrum orðum: Það þýðir ekkert að halda heiðinni fram fyrir hvað hún sé stutt, ef hún yrði lengst þegar öllu er á botninn hvolft; en þetta er ekki hægt að segja með vissu, því enn er óreynt hve mikið vegalengdin yfir heiðina lengist við sniðveginn.
Það er mjög svo vandalaust að segja þetta eða hitt beint út í loftið. Hvar hefur G. t.d. reynslu fyrir sé í því, að akvegur yfir heiðina verði miklum mun ódýrari eða viðhald vegarins miklu kostnaðarminna, svo og vegalengdin miklu minni en litlu erfiðari en yfir Fagradal.
Þetta er allt saman sem að segja, að best væri að setja niður Þófarafélag Guðmundar uppi á Bjólfstindinum til að þæfa (stampe) fyrir fólk, en á því yrðu nú samt einhverjir gallar trúlega.
Það eru víst margir gallar því til fyrirstöðu að Fjarðarheiði geti kallast “gott akvegarstæði”. Þó G. hlaupi yfir þá alla í sinni grein, þá eru þeir þó engu að síður auðsjáanlegir.
Skyldi kosta svo lítið að sprengja t.d. burt stórgrýtið og klappirnar, sem eru svo afar illar?
Ein fjarstæðan er það hjá G. að yfir Fjarðarheiði megi fara hvenær sem væri. Ég hefði haft gaman af að sjá hann með drógarnar sínar fannarhaustið mikla, þegar 50 manns köfuðu og tróðu hver fyrir öðrum yfir heiðina. Svo mun og mörgum sinnum oftar vera.
Að endingu verð ég að benda á það, að það er Reyðarfjörður sem af náttúrunnar hendi er miðdepill Austurlands, og því eðlilegast að vegurinn lægi þaðan. Eðlilega liggur það í augum uppi, að Reyðarfjörður á framtíð fyrir höndum og innan skamms vænti ég að hann verði vort höfuðból.
Hvað er t.d. Seley annað en ómissandi vitastöð til höfuðstaðar Austurlands, eins og akvegurinn um Fagradal er ómissandi samgöngubót til landsins.
Mýrum, 14. mars 1900.
Stefán Þórarinsson


Austri, 10. apríl, 1900, 10. árg., 12. tbl., bls. 44:
A.V. Tuliníus svarar grein Guðmundar Hávarðssonar í “Bjarka”, en þeir eru ósammála um hvort Hérað skuli komast í vegasamband við Firði frá Seyðisfirði eða Reyðarfirði. Tulinius segir Guðmundi velkomið að byggja loftkastala en mótmælir því að hann setji þá á prent.

Guðmundi Hávarðssyni svarað.
Þótt ég hefði ásett mér ekki að svara neinum fleiri greinum eftir Guðmund Hávarðsson vegna þess, að lýsing hans á Fagradal glögglega sýnir, að hann aldrei hefur í Fagradal komið og því engum kunnugum mönnum gat blandast hugur um, ef hann af einhverri ástæðu hefði sett sig út til að rita um það, sem hann hvorki hefði vit né þekkingu á, þá get ég samt ekki stillt mig um að benda mönnum á öfgar í greininni hans í “Bjarka” 21. f.m., sem jafnvel eru auðsjáanlegir fyrir menn ókunnuga dalnum eða heiðinni.
Guðmundur Hávarðsson, - sem allt í einu gefur sig út fyrir vegfræðing án þess að skiljanlegt sé hvernig hann hefur orðið það, þar hann aldrei mun hafa fengist við þess konar störf, að minnsta kosti hefur honum að því að mér er kunnugt aldrei verið trúað fyrir að standa fyrir vegalagningu hér á landi, og í Noregi þar sem hann mun hafa dvalið eitthvað, var hann eftir því sem hann sjálfur hefur sagt mér við ýmislegt annað en við vegavinnu, svo þar hefur hann varla orðið fullnuma í þeirri íþrótt – byrjar á því, að lýsa því yfir að hann þori að bjóða mér út í þeirri grein.
Ég játa það fúslega, að ég ekki skoða mig sem “authoritet” í þeim sökum, en ég vil þó þrátt fyrir bresti mína þar að lútandi nauðugur láta setja mig í klassa með Guðm. Hávarðssyni, því eins og ég mun sýna, ber umrætt svar hans vott um, að hann vantar einnig annað, sem jafnvel er verra að vanta í þessu máli, en þekkingu sem vegaverkfræðingur.
Hann tekur upp úr svari mínu “citat” mitt úr mælingagerð Páls verkfræðings Jónssonar, þar sem Páll segir, að frá Búðareyri og á Fagradalsbrún Héraðsmegin þurfi hallinn á veginum hvergi að vera meiri en 1 á móti 15, og segir svo að einhver “lærður mannvirkjafræðingur”, sem hann samt varast að nefna hafi sagt sér, að brattinn upp Fjarðarheiði Seyðisfjarðarmegin þyrfti hvergi að vera meiri en 1 á móti 20, en um annan bratta væri ekki að ræða á Fjarðarheiði.
Þessi klausa hans sýnir greinilega hve fáfróður Guðm. Hávarðsson er í þeim sökum, er hann ritar um. Brattinn upp Fjarðarheiði Seyðisfjarðarmegin er ca. 1 á móti 4, sem er afar bratt eins og sjá má á því, að eigi er hægt að aka upp brattari veg en 1 á móti 10. Vegurinn upp Fjarðarheiði, sem er um 2000 fet á hæð, yrði að leggja í einlæga krákustíga, sem gerði hann mikið lengri. En á Fagradal er öðru máli að gegna, þar verður vegurinn lagður krákustígalaust beint frá Búðareyri og gegnum allan dalinn. Þetta er það, sem ég átti við, er ég “citeraði” mælingu Páls, en þetta gat Guðmundur ekki skilið.
Í sambandi við þetta skal ég geta þess, að vegastæðið Seyðisfjarðarmegin á Fjarðarheiði gerir það ef ekki alls ómögulegt að leggja akveg upp heiðina, þá að minnsta kosti nærri ómögulegt, því það er klettur einn, og þyrfti að sprengja út veginn upp fjallið með afar kostnaði; ennfremur álít ég óþarft að svara því, að enginn bratti sé á Fjarðarheiði nema Seyðisfjarðar megin; ef Guðmundur Hávarðsson ekki getur séð bratta Héraðsmegin á Fjarðarheiði, er það óbrigðul sönnun þess að hann aldrei hefur komið í Fagradal, eftir því hefði hann sjálfsagt hlotið að vera í hans augum meira en láréttur, jafnvel hola, og hefði hann þá ekki getað talað um hann öðruvísi.
Hvað umsögn Guðm. Hávarðssonar um vegaspottann fyrir innan Seljateig og upp á varp á Fagradal snertir, þá er hún ósönn frá byrjun til enda. Vegastæðið er ágætt þar, eins og yfir höfuð allstaðar í Fagradal og efni hið besta þar og annars staðar.
Snjóþyngsli eru auðvitað mikið minni en á Fjarðarheiði, sem liggur yfir 1000 fetum hærra en Fagridalur, sem hvað snjólagningu snertir er líkt settur og byggð við sjóinn, t.d. hefur mátt aka í allan vetur gegnum Fagradal og hefði vegurinn alltaf verið upp úr. Á sumrin er dalurinn runninn c. 6 mánuði, Fjarðarheiði c. 3; á heiðinni mundi vegur undir snjó í c. 9 mánuði og á þeim tíma sem enginn vegur væri, en á Fagradal mætti nota veginn svo gott sem ætíð; ef Guðmundur Hávarðsson ætlar að komast hjá þeim galla, verður hann að byggja veginn í loftinu einar 12 álnir fyrir ofan jörðina.
Ég hygg nú annars að það einasta sem Guðmundur verði látinn byggja, verði loftkastalar og er honum það velkomið, en ég “protestera” móti því, að hann setji það á prent.
Þvættingi Guðmundar Hávarðssonar um innsiglinguna á Seyðisfjörð og Reyðarfjörð, sem einungis ber vott um það, að hann er jafn ómögulegur á sjó sem landi, nenni ég ekki að svara, þar það er óviðkomandi þessu máli, einungis mótmæli ég því öllu og sérstaklega finn ég ástæðu til að mótmæla því, að skipstjóri Torland á “Alf”, sem ég þekki persónulega sem duglegan sjómann, sé eins ónýtur sjómaður eins og hann hlyti að vera, ef það væri satt, að hann í glaða tunglskini ekki þyrði að taka Reyðarfjörð, þegar hann sá Seley.
Að endingu vildi ég stinga upp á því við Guðmund frænda minn Hávarðsson, að hann yrði mér samferða einhvern tíma gegnum Fagradal, svo ég gæti gengið úr skugga um, hvort hann virkilega í alvöru vill bera saman Fagradal og Fjarðarheiði, því ég hef hann sterklega grunaðan um að vera að gera “grín” að Fjarðarheiði.
Eskifirði 5. apríl 1900.
A.V. Tuliníus.


Ísafold, 18. apríl, 27. árg, 21. tbl., bls. 84:
Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur svarar hér Sigurði Péturssyni verkfræðingi, sem hafði ýmislegt út á Suðurlandsveginn að setja í grein í 18. tbl. Ísafoldar. S.Th. finnst lítið til gagnrýni S.P. koma, segir hana alveg órökstudda og að þessi nýútskrifaði verkfræðingur hafi ekki vit á íslenskum vegamálum.

“Um vegi og brýr” o.s.frv.
Hinn heiðraði kollega minn; Sigurður Pétursson, hefur fundið köllun hjá sér til þess að fara að segja álit sitt “um vegi og brýr á aðalleiðinni frá Reykjavík austur í Holt”. – Hann birtir þetta álit sitt í þremur dálkum af 18. tölubl. Ísafoldar þ.á. Hann segist hafa þá ástæðu til að birta þessar athugasemdir, að “vér erum of fátækir til þess að láta nokkurt tækifæri ónotað til fræðslu um það, er reynslan sýnir að betur má fara”; og þessa reynslu þykist hann svo hafa höndum tekið með því að fara eftir veginum ríðandi snögga ferð austur í Holt um hávetur. Þar sem aðrir mennskir menn þurfa, jafnvel á sumrum, langan tíma til þess að mæla upp vegi og sjá út, hvar þá eigi að leggja, sér hann með einu augnbragði af hestbaki, hvernig þeir eiga að vera, þarna sé óþarfur krókur, þarna sé óþarflega mikill halli á veginum og þar fram eftir götunum. Þegar svo tekið er tillit til þess, að þessi maður er nýskroppinn frá examensborðinu, hefur ekki fengist neitt við vegagerð verklega, og aðeins – það ég frekast veit – séð vegi á sléttlendi, svo sem í Danmörku, en ekki í fjallalöndum, og hefur svo höfuðið fullt af lærdómi þeim, sem hann nýlega hefur lesið í (ólæsilegt orð) vegagerða kennslubók og sem að mörgu leyti alls ekki á við hér á landi, þá er það hálfbroslegt, að hann skuli koma hingað og fara að fræða menn um vegamál, sem hann hefur ekki kynnt sér betur en með þessu ferðalagi sínu um vetrartíma.
Það er því heldur ekki að búast við, að það sé neitt verulegt að græða á þessari (ólæsilegt orð). Það er aðeins ferðapistill, sem hver greindur og eftirtektarsamur maður hefði geta skrifað eins vel; þessi pistill er fullur af sleggjudómum og órökstuddum staðhæfingum; til dæmis má taka: “á þessum kafla (frá Hellisheiðinni að Gljúfurá) er brúm miður hyggilega fyrir komið og óþarfa krókar á stefnum”, - búið – engin rök; það er enginn meiri vandi að slá þessu fram heldur en að segja : “á þessum kafla er brúm mjög hyggilega fyrir komið og engir óþarfa krókar á stefnunni”. Hvort tveggja eru staðhæfingar, sem geta eins vel staðið, á meðan rök vantar. Flest annað í greininni er þessu líkt. Og þegar maður svo les einn af hinum síðustu sleggjudómunum: “Um Holtaveginn er það að segja að vegarstefnan er vel valin, liggur beinustu leið milli Þjórsárbrúar og Rauðalækjarbrúar” o.s.frv. – svo kemur löng lofrolla um Holtaveginn – þá dettur manni ósjálfrátt í hug: nú það er mágur hans, sem hann er að reyna að hjálpa; eitthvað er það að minnsta kosti undarlegt, að hann skuli ekkert hafa nema aðfinningar að veginum austur að Þjórsá, en þegar kemur austur á Holtaveginn, sem mágur hans hefur lagt, þá er þar allt með himnalagi; en verði ekki hjá því komist að geta einhvers, sem miður hefur farið; þá eru afsakanir strax við hendina (sbr. “á austari kaflanum varð eingöngu að nota sand til ofaníburðar og hann hefur fokið burt á löngum köflum”); og þetta er því undarlegra, sem mörgum öðrum sýnist sá vegur ekki hafa haldið sér vel þennan örstutta tíma sem hann hefur staðið, og virðist það fremur verið hafa hefndargjöf fyrir Holtamenn, að láta þá hafa svo illa gerðan veg.
Það er auðvitað alltaf fallegt að vilja hjálpa bágstöddum mági sínum, en þó því aðeins, að maður halli ekki réttu máli og geri ekki öðrum rangt til. Yfirhöfuð virðist þessi alda vera runnin meira frá máginum – sem var fylgdarmaður S.P. austur og sem líklega þykist eiga mér grátt að gjalda – heldur en frá greinarhöfundinum sjálfum, því annars hefði legið nær fyrir S.P. – fyrst hann endilega vildi fræða okkur um eitthvað – að segja oss dálítið um ásigkomulag húsabygginganna þar austur frá – til þess var ferðin farin – eða var ef til vill ekkert þar að að finna, eða var það ef til vill ekki eins bráðnauðsynlegt og þetta um vegina?
Ég skal svo ekki lengja þetta mál – ég skal svara honum seinna, ef hann kemur með einhverjar rökstuddar aðfinningar – en bæði af því að þetta snertir mig að nokkru leyti, þar sem ég hef mælt upp nokkuð af þessari leið, og svo af því að það var einhverskonar “autoritets” stimpill eða “myndugleika” bragð að þessari grein, og ég gat ímyndað mér, að margir menn kynnu að halda, að það væri sérlega mikið að marka, hvað þessi maður segði, þá vildi ég sýna mönnum fram á, hvað mikið er varið í þessa “autoritet” þegar hún kemur fram eins og hér í þessu máli. Yfirleitt held ég að landið myndi ekki stórtapa við það, þó að hinn heiðraði greinarhöfundur sýndi af sér þá þolinmæði og þá sjálfsafneitun, að láta ekki sitt ljós skína í vegamálum fyrr en hann hefur fengið einhverja verklega æfingu og reynslu í þeim efnum, því að af sleggjudómum höfum við Íslendingar meira en nóg, svo mikið að varla er á það bætandi.
Reykjavík 9. apr. 1900.
Sig. Thoroddsen ingeniör.


Ísafold, 21. apríl, 27. árg, 22. tbl., bls. 87:
Hér svarar Erlendur Zakaríasson vegaverkstjóri gagnrýni Sigurðar Péturssonar verkfræðings varðandi lagningu Suðurlandsvegar frá Reykjavík austur í Holt. E.Z. gefur m.a. skýringu á því hver vegna vegurinn liggur með Ingólfsfjalli í stað þess að taka beina stefnu frá Kömbum að Ölfusárbrú.

Um vegi og brýr austur í Holt.
Hr. Erl. Zakaríasson, er manna mest og best hefur stjórnað vegavinnu á austurbrautinni héðan, eða sérstaklega á háheiðinni (Hellisheiði) og þaðan austur að Þjórsá, hefur sent Ísafold býsna langt svar gegn grein hr. S.P. um þann veg (18. tbl.), of langt fyrir blaðið, en lætur sér lynda heldur en ekki eftirfarandi ágrip af því.
Hann tilnefnir 3 mikilsverðar ástæður fyrir því, að Ölfusvegurinn er ekki alveg beinn; að miða þurfti við vöð á smá ánum þar, með því að ráðgert var þá, þegar vegurinn var lagður, 1892, að hafa þær óbrúaðar, vegna féleysis; að vegurinn liggur nú betur fyrir byggðina heldur en ef hann hefði verið alveg beinn; að miklu erfiðara hefði verið til ofaníburðar með beinni stefnu og viðhald kostnaðarsamara, enda vagnar og áhöld þá ekki til. Annars mikil þörf að brúa árnar, og megi gera það mjög nálægt veginum eins og hann er nú.
Hann segir hafa mátt til vegna fjárskorts að láta sér lynda veg beint upp frá Ölfusárbrú að Ingólfsfjalli; hitt hafi hver maður séð þá þegar, að æskilegra hefði verið að mörgu leyti, að fá hann lagðan beint að Köguðarhól; en dýrt hefði það orðið vegna bleytu og 2 stórra gilja m.m. á leiðinni, auk torfengis ofaníburðar, en vegur með fjallinu sem er ógerður enn – aðeins ruddur – miklu kostnaðarminni, og liggur þar einnig beinna við væntanlegu framhaldi áleiðis upp í Grímsnes og Tungur.
Hann ber á móti því, að vegurinn yfir Flóann sé neitt til muna krókóttur nema á alls einum stað, hjá Flatholti, og var sá krókur heldur kosinn en að hafa engan ofaníburð til á 5 rasta langri leið, yfir Ásana. Fráræsluskurðaskort á Flóaveginum segir hann að reynslan hafi ekki sýnt, nú full 4-5 ár. Holklaka segir hann naumast muni vart, nema þar sem vegurinn er ekki púkklagður. Skaða eða skemmd af ónotuðum uppgrefti úr skurðum segir hann óhugsandi; slíku sé ekki að dreifa nema á 2 stöðum, en á hvorugum þeirra hafi skurðirnir neitt vatn að flytja.
Þá minnist hann á, að þótt hr. S.P. segi mikla galla vera á púkklagningunni, þá nefni hann ekki nema einn; að púkkið sé víða mjórra en vegurinn er; en það sé ekki nema á stuttum köflum milli Bitru og Skeggjastaða, og sé því að kenna, að lítið var þar um grjót og illt að mylja það.
Að öðru leyti lætur hann þess getið, að hann (Erl.Z.) hafi ekki ráðið vegarstefnunni hvorki í Kömbunum né yfir Flóann; en ekkert hafi hann við hana að athuga.
Niðurlag greinarinnar er svo látandi:
“Enginn skyldi ætla, að ég álíti að ekki megi finna eitthvað að þessu verki, sérstaklega af þeim mönnum sem koma nýir af nálinni frá útlöndum og hafa séð sams konar verk þar í fullkomnasta stíl.
Þeim er annars nokkur vorkunn, verkstjórunum hér, þótt einhverju verði ábótavant hjá þeim. Við annað eyra þeirra klingir ávallt barlómsbjallan og sparnaðaráminningar, en við hitt þau ummæli, að betra hefði verið að verkið hefði kostað dálítið meira, en verið betur af hendi leyst; og það er óneitanlega satt: með því að hroða af verkinu sparar maður aurana, en lætur krónurnar fjúka.
Það fer annars ekki að verða nein sérleg heiðursstaða að vera verkstjóri, sbr. t.d. fjárlagaræðu alþingismanns Guðjóns Guðlaugssonar í sumar. Þar eru vegavinnustjórarnir gerðir ef ekki beinlínis þjófar, þá stórkostlegir fjárdráttarmenn, og það datt engum í hug að taka svari þeirra, enda telur nú eitt blaðið okkar það einn af aðalkostum Guðjóns sem þingmanns, hvað hann hafi tekið vel í hnakkann á vegagerðarmönnum.
Hvað sem skríllinn kann að hugsa eða segja, þá þykist ég viss um, að allir hyggnari og betri menn sjái öfgarnar og ósannindin í þessari ræðu, svo hún verði að falla sínum herra.
Rvík 12. apríl 1900. Erl. Zakaríasson.


Ísafold, 21. apríl, 27. árg, 22. tbl., bls. 86:
“Óhlutdrægur” gerir athugasemd við grein Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðingi í 21. tbl. Ísafoldar, þar sem S.Th. var að svara gagnrýni Sigurðar Péturssonar verkfræðings varðandi Suðurlandsveginn. Inn í málið blandast kæra S.Th. á hendur vegaverkstjóra, mági S.P., fyrir fjársvik.

Óviðfelldin brigsl.
Það er leitt að hr. landsverkfræðingur Sig. Thor. skuli hafa styggst svo sem hann hefur gert við grein hr. Sig. Péturssonar í Ísafold um daginn, svo áreitnislaus sem hún virðist þó vera rituð. Það er leitt vegna þess, að hr. S.P. er farinn af landi burt og á því ekki kost á að svara fyrir sig fyrr en eftir margar vikur eða mánuði. Fyrir því neyðist ég til að gera dálitla athugasemd við grein hr. S.Th., en auðvitað án þess að láta mér detta í hug að gera mig að dómara milli þessara einu verkfræðinga vorra að því leyti, er ágreiningur þeirra kemur nærri vísindalegri sérþekkingu.
Það er þá fyrst, að mér virðast brigsl hr. S.Th. til samiðnaðarmanns síns fyrir það, að hann geri sig að dómara um umrædda vegarlagningu nýskroppinn frá examens borðinu, láta miður vel í munni manns, sem fyrir fáum árum stóð í sömu sporum og var þó þá þegar gerður að æðsta dómara um vegamál landsins og tók þá undir eins býsna ómjúkt á því, ef hans dómar þar að lútandi voru eigi haldnir óskeikulir.
Þá getur mér og eigi skilist, að það sé réttmæt aðfinnsla við dóma hr. S.P. um vegarstefnur í Ölfusinu m.m., að þeir séu órökstuddir. Því hvernig á að rökstyðja slíkt til hlítar í stuttri blaðagrein og fyrir alls ókunnugum, svo sem eru sjálfsagt 9/10 af lesendum Ísafoldar? Þeir einir geta nokkuð um slíkt dæmt, sem farið hafa um veginn og kunnugir eru landslaginu. Annað eins er og verður ávallt álitamál; og hví skyldi álit góðs verkfræðings þurfa að vera markleysa, þótt það komi ekki heim við skoðun annars, jafningja hans?
Villandi er það og hjá hr. S.Th., að hann er að tala um ferðalag hins um hávetur, - með því að verið mun hafa alauð jörð, þegar hann var á ferðinni, enda vetur þessi mestallur verið hér sumri líkari en vetri.
Einna óviðfeldnast í grein hr. S.Th. eru brigslin um hlutdrægni af hálfu S.P. í vil mágs hans, eða ummælin um, að hann sé með grein þessari að “hjálpa bágstöddum mági sínum”, því hvaða “hjálp” getur þeim manni (E.F.) verið í því í “bágindum” þeim, er hann á í, kæru og lögsókn fyrir óleyfilegan fjárdrátt úr landssjóði, þótt hann (S.P.) eða aðrir láti vel af frágangi á þeim kafla umrædds vegar, sem hann (E.F.) hefur unnið að? Slík brigsl eru alveg út í hött, því sé maðurinn sekur, þá dregur það eigi hót úr sekt hans, þótt svo reyndist, jafnvel að dómi landsvegafræðingsins, að frágangur hans á vegagerðinni hefði verið snilldarlegur. Og sé hann saklaus, þá er ekki hægt að skerða eitt hár á höfði hans í þessu máli, þótt frágangur hans á veginum reyndist ekki betri en í meðallagi eða jafnvel miklu miður. Slíkt kemur ráðvendni eða óráðvendni ekkert við; það er sitt hvað.
Það sem hr. S.P. segir um Holtaveginn, gerir nafni hans að oflofi hjá honum, “til að hjálpa mági sínum” sem nú hefur sýnt verið fram á, að alls ekki geti verið á neinu viti byggt. Hr. S. Thor. lætur jafnframt að því skapi illa af þessum vegi, telur Holtamönnum hann hefndargjöf. Nú höfum vér fyrir satt, að allur annar sé dómur Holtamanna sjálfra og annarra, er veginn nota. Vera má, að það sé þekkingarskorti þeirra að kenna, og þar komist því eigi að orðshátturinn, að “raunin sé ólygnust”. En hitt er áreiðanlegt og kunnugra en frá þurfi að segja, að hr. S.Th. lagði þungan hug á hr. E.F. fyrir það, að hans tillaga og ýmissa hinna merkustu héraðsmanna um vegarstefnuna yfir Holtin var til greina tekin, en tillögu landsvegafræðingsins hafnað, og mun því flestum virðast engu ósennilegra af tvennu til, að hlutdrægni og hefndargirni ráði nokkuð dómi hans um verk þetta, heldur en nafna hans.
Óhlutdrægur


Fjallkonan, 26. apríl, 1900, 17. árg., 16. tbl., bls. 4:
Hér er sagt frá sýslunefndarfundi Árnesinga, en þó aðeins væru til ráðstöfunar 321,10 kr. til sýsluvega voru mörg vegamál á dagskrá.

Sýslunefndarfundur Árnesinga.
.. Í þetta sinn var vegafé kr. 1.797,22; til skuldlúkninga gengu kr. 1476,12, en aðeins kr. 321,10 til sýsluvega. Var það ráð tekið, að heimila hreppum bráðnauðsynlegar viðgerðir á sýsluvegum mót endurgjaldi að ári. Fjórum hreppum var leyft að verja hreppsvegafé til annarra vega. Veglagningaráætlun Einars Finnssonar upp yfir Skeiðin, nfl. rúml. 27 þús. kr., þótti ókleift, nema með því móti, að hlutaðeigandi hreppar legðu menn til vinnunnar, en sýslusjóður verkstjóra og hesta. Var E.F. beðinn að sundurliða, hve miklu þetta, hvað fyrir sig, mundi nema. Var sýslunefndarmönnum falið að leita vinnuloforða, en gert ráð fyrir, að áhöld og verkfæri muni landssjóður lána ókeypis er til kæmi, sem í ár hlyti að frestast. Beðið um, að Grindaskarðsvegur verði bættur. Beðið um að varðaðir verði þjóðvegir: neðan að Svínahrauni og báðum megin upp á Mosfellsheiði. Og komist ekki nýja brúin á Brúará í sumar, þá að gamla brúin yrði gerð fær í bráð. Og enn að mannvirkjafræðingur skoði brúarstæði á Hvítá og Tungufljóti. Synjað var um styrk til Skollagrófarferju; þótti æskilegra að Hvíta yrði brúuð á Brúarhlöðum, sem þar eru nokkru ofar. Lögferja var sett í Reykjanesi í Grímsnesi. Undanþága var Þjórsárholtsferju veitt frá því að hafa stórgripatækan bát, þó því aðeins, að 2 tilnefndir nágrannar, sinn hvoru megin ár, álíti það óhætt. Ný ferjulög samþykkti nefndin fyrir sitt leyti. Gufubátnum “Reykjavík” var nú enginn styrkur veittur, þar eð reynt þótti, að hér yrði hann eigi að notum. Neitað var að borga skuld fyrir að ná flutningi úr honum hér í fyrra. Óskað álits mannvirkjafræðings um að bæta hafnir hér. Beðið um aukapóst frá Hraungerði að Gaulverjabæ. Mælt með beiðni sæluhúsvarðar á Kolviðarhóli um 150 kr. styrk úr amtssjóði.


Ísafold, 28. apríl, 27. árg, 24. tbl., bls. 94:
Helgi Helgason brúasmiður svarar gagnrýni á gerð brúa á Vesturlandi og útskýrir ýmiss grundvallaratriði í brúagerð.

Vegabætur og brúasmíði.
Af því að ég er sá, sem hef staðið fyrir smíði á brúm þeim, er gerðar eru að umtalsefni í grein með þessari fyrirsögn í 14. tbl. Ísafoldar eftir Guttorm Jónsson í Hjarðarholti, þá finn ég mér skylt að minnast lítils háttar á skoðanir hans, þar eð mér finnst þær geta orðið villandi fyrir þá, sem ekki eru kunnugir, eða fyrir þá sem kynnu að takast á hendur að smíða brýr, en geta ekki aflað sér nægrar þekkingar áður.
Hann telur það galla á brúnni yfir Haukadalsá, að sperrurnar liggi ekki á þrepi, þar sem þær koma að stöplunum, og ráðleggur að tengja endann á þeim með járnum við brúartrén. Þetta er óþarfi, því að flestum mun skiljast það, að allar brýr leiti helst niður um miðjuna, en til að varna því, og til þess að brúin geti borið þunga, eru sperrurnar reistar við hlið brúarinnar, sem spyrnast í efri endann; þar liggja á þeim uppihöld úr sterkum járnstöngum, sem ná niður úr tré, er lagt er þvert undir brúna. Sperrum þessum er fest við aðal brúartrén með mjög sterkum skrúfuðum járnteinum nálægt stöplunum; nú þegar þunginn á brúnni liggur á efri enda sperranna, þá er auðskilið að spyrniaflið verður beint út frá brúnni, af því að þær eru festar nálægt neðri enda við aðal brúartrén, sem liggja ofan á stöplunum; beri svo til, að brúin svigni niður um miðjuna meira en til er ætlast, þá er auðskilið, að neðri endi sperrunnar vill leita út og upp á við, en ekki niður á við. Það er og því til fyrirstöðu, að sperran leiti niður með stöplunum, að þeir hallast frá brúnni um sem svarar 1 á móti 10; er því bilið milli þeirra þeim mun styttra að neðan en ofan.
Þá minnist höf. á brúna yfir Hvítá í Borgarfirði á Kláffossi og telur það galla, að neðri endi á sperrunum nær lítið eitt inn í stöplana.
Orsök þess að ég hafði það svo, var helst sú, að mannvirkjafræðingur Siverson, sem mældi fyrst brúarstæðið á Kláffossi og gerði uppdrætti af stöplum og vatnsopum, er áin átti að fara í genum, vildi láta brýrnar vera 2, aðra styttri sunnan við Kláffoss, sem hefði oftast verið á þurru, nema þegar vöxtur kæmi í ána. Eftir þessum mælingum og uppdráttum bað herra landshöfðinginn mig að gera uppdrætti og áætlanir af brúm. Uppdrættir þeir eru enn til. En rétt áður en ég átti að panta efni í brúna, varð sú breyting á, að afráðið var, að hafa aðeins eina brú, en nokkru lengri heldur en stærri brúin átti að vera eftir áætlun Siversons.
Þegar ég kom svo upp eftir um sumarið með brú þessa (sem ég smíðaði í Reykjavík), hitti ég Bjarna bónda á Hurðarbaki, og sýndi hann mér, hvað áin hefði farið hátt í miklum vatnavöxtum; virtist mér þá´, að fyrirstaðan á vatninu væri orðin mikil, bæði af brúarstöplum og vegarhleðslu að brúnni, þar sem hann sagði að áin hefði farið yfir; réð ég þá af að festa sem best sperrurnar í stöplana, til þess að varna því að brúin skekktist eða færi af, þótt nokkur vatnsþungi legðist á hana. Þessi aðferð var þó ekki ný, því bæði hafði ég séð slíkan útbúnað á brúm erlendis, þar sem ég veitti því eftirtekt, og sömuleiðis á brú, er Hovdenak lét gera hér á landi. Og ég sé ekki eftir því, að ég hafði það svona; því svo fór á öðru ári, eftir að brúin var lögð, að vatnsopið reyndist of lítið. Hvítá óx þá svo, að hún óð yfir báða brúarsporða og ruddi burt vegarhleðslunni einmitt þar, sem hún hafði farið yfir um áður. Hefði ég ekki fest brúnni á þennan hátt, að láta sperruendana ná 4 þumlunga inn í stöplana, - og var svo gætilega frá því gengið, að sperrugötin í stöplunum voru látin flá niður á við, til þess að vatn stæði ekki í þeim við trésendann, og endarnir huldir asfaltpappa, - þá hefði brúin eflaust farið af, þegar svona mikill og straumharður vatnsþungi lagðist á hana, og orðið alveg ónýt.
Ef nú yrði áður en langt um líður lögð brú við syðri enda þessarar brúar, og tekin burt vegarhleðsla sú, er tálmar vatninu að komast þar áfram, þá mætti ef þess er þörf, taka burt þá fáu þumlunga af sperrunum, sem nú standa inn í stöplana, fylla holuna með steini og láta sperrurnar þá ná aðeins að stöplunum.
Reykjavík í aprílm. 1900.
Helgi Helgason


Ísafold, 2. maí, 27. árg, 25. tbl., bls. 98:
Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur svarar athugasemdum “Óhlutdrægs” og má segja að þetta sé millikafli í langvinnum ritdeilum sem hófust með gagnrýni Sigurðar Péturssonar verkfræðings á gerð Suðurlandsvegar frá Reykjavík austur í Holt, en eru nú sífellt meira farnar að snúast um önnur og persónulegri málefni. Í þessari grein beinir S.Th. einnig spjótum sínum að Ísafold og birtist hér einnig svar ritstjórans.

“Óhlutdrægni”.
Einhver “óhlutdrægur” ræðst að mér í seinasta blaði Ísafoldar, út af grein minni gegn Sig. Pétursyni; hann segist “neyðast til að gera dálitla athugasemd við grein mína, vegna þess sérstaklega, að hr. S.P. er farinn af landi burt og á því ekki kost á að svara fyrir sig fyrr en eftir margar vikur eða mánuði”. “Óhlutdrægur” hefur þó líklega ekki ætlast til þess, að ég biði með að svara Sig. P. þangað til hann léti svo lítið að koma hingað til landsins aftur; því að ekki gat ég gert við því, þó að hann stigi á skipsfjöl jafnskjótt og hann hafði afhent Ísafold ritsmíði sitt; hann hefði þá heldur átt að bíða með að birta grein sína, þangað til hann kæmi aftur til landsins, svo að hann hefði getað varið afkvæmi sitt.
Það er annars einstakt dæmi um óhlutdrægni , að maður skuli af tómri óhlutdrægni neyðast til að taka upp þykkjuna fyrir S.P. og sýna svo þessa (ólæsilegt orð) óhlutdrægni með því að ráðast á mig með ósannindum og getsökum. Og ég er svo lánsamur maður, að ekki skuli margir slíkir “óhlutdrægir” menn finnast hér í Reykjavík, því að þá hefði ég ekki við að svara þeim öllum. Þó að ég nú taki mig til og svari þessum “óhlutdræg”, þá er mér samt mjög illa við að eiga nokkuð við slíka nafnlausa höfunda, sem ráðast á nafngreinda menn, því að það er eitthvað svo óhreint við þá; það er eins og þeir hafi vonda samvisku og þori ekki almennilega að koma fram í birtuna; og ég skil það ekki vel með þig, “óhlutdrægur”, hvers vegna þú ert að hylja þína björtu ásjónu; óhlutdrægur maður þarf aldrei að skammast sín fyrir nafn sitt.
“Óhlutdrægur” segir það sitji ekki á mér að finna að því, að S.P. geri sig að dómara um vegarlagningu, nýskroppinn frá examensborðinu – mér, sem fyrir fáum árum hafi staðið í sömu sporum og þá þegar gerður að æðsta dómara um vegamál landsins og þá undir eins tekið býsna ómjúkt á því, ef mínir dómar þar að lútandi eigi voru haldnir óskeikulir. Þetta er ekki óhlutdrægnislega talað af hr. “óhlutdrægum”, ef hann annars þekkir nokkuð til þess, sem hann er að fara með því að
. var ég 2 1/2 árs gamall kandídat, þegar ég kom hingað til landsins (sumarið 1893) og var þá búinn að vera meira en ár við brúa- og vegagerðir í Noregi, en Sig. P. var 1/2 árs gamall kandídat, þegar hann kom hingað í sumar er var, og hafði þó legið veikur í Höfn nokkurn tíma af þessu hálfa ári;
. er það ekki satt, að ég hafi þá þegar tekið býsna ómjúkt á þeim, sem héldu , að mínir dómar um vegagerðir væru eigi óskeikulir, því að ég hef hingað til ávallt haft það fyrir reglu að svara ekki þeim aðfinningum, sem hafa verið gerðar við mínar mælingar og mín verk; það er aðeins í eitt skipti, að ég hef brugðið út af þeirri reglu – og það á líklega “óhlutdrægur” við; - það var þegar tveir bændur úr Flóanum báru mér það á brýn, að ég hefði ekki rannsakað svonefnda syðri leið yfir Ásana, sem þeir héldu fram, að væri besta vegarstefnan, - þá lýsti ég því aðeins yfir með örfáum línum, að þeir færu þar ekki með rétt mál; og þetta var árið 1895, fullum 4 árum eftir að ég varð kandídat. – Samanburðurinn verður þá þessi, að ég fullum 4 árum eftir prófið svaraði mönnum, sem vitanlega ekkert skynbragð báru á vegagerðir, út af vegarstefnu, sem ég hafði rannsakað og mælt; en S.P., 1 árs gamall kandídat, leggur dóm á lagðan veg, sem útmældur hefur verið af verklega æfðum samiðnaðarmanni hans, án þess að hann sjálfur hafi haft nokkra verklega æfingu í vegagerðum, eða hafi nokkuð rannsakað og mælt vegarstefnuna, en aðeins farið þar um snögga ferð í húsabyggingaerindum – um hávetur, get ég gjarnan bætt við – þó að það sé ekki aðalatriðið, - því að það er þó alltaf talið erfiðara að sjá út vegarstefnuna á vetrum en á sumrum, þó aldrei nema það hafi verið nokkurn veginn auð jörð, þegar S.P. fór austur. Og samt segir “óhlutdrægur” að ég hafi fyrir fáum árum staðið í sömu sporum o.s.frv.
Þá fer “óhlutdrægur” að verja órökstudda dóma S.P. um vegarstefnuna m.m., og segir: “hvernig á að rökstyðja slíkt til hlítar í stuttri blaðagrein” o.s.frv. Já, það er hægt, ef hann hefur nokkur rök; greinin verður ef til vill nokkuð lengri; en það er skylda hvers manns, sem vill heita ærlegur drengur, að rökstyðja svo vel sem hann getur þær aðfinningar, sem hann gerir við verk einhvers manns, og sérstaklega var það ástæða til þess í þessu tilfelli, þar sem það var samiðnaðarmaður hans, sem í hlut átti. Ætli það þætti rétt, ef t.d. einhver læknir hér í Reykjavík færi á prenti að finna að lækningastörfum einhvers annars læknis hér, og færði svo engar ástæður eða rök fyrir sínum aðfinningum? Nei, S.P. átti annað hvort að rökstyðja sínar aðfinningar eða skrifa alls ekkert.
Þá er “óhlutdrægur” lengi að berjast við sinn eigin skugga, þar sem hann er að sýna fram á, að vottorð S.P. um ágæti Holtavegarins geti ekki hjálpað E.F. neitt í fjárdráttarmáli hans; því að það hefur (ólæsilegt orð) engum dottið í hug og allra síst (ólæsilegt orð) að vottorð S.P. væri svo máttugt; ég hef aðeins sagt, að hann væri að reyna að hjálpa bágstöddum mági sínum – auðvitað í Holtavegarmálinu – gefa honum vottorð um það, að hann (E.F.) hefði haft rétt fyrir sér í vegarstefnuvalinu, en ekki ég; en slíkt vottorð tel ég lítils virði og getur varla verið hlutdrægnislaust, þar sem honum svo nákominn maður á hlut að máli. Það er ekki svo að skilja, að ég vilji segja, að S.P. sé hlutdrægur með vilja – það vil ég ekki ætla honum, heldur get ég ímyndað mér, að hlutdrægnin sé honum ósjálfráð, þar sem svona stendur á. Allt eins og dómara er vikið úr sæti þegar einhver honum nákominn á hlut að máli, ekki af því að hann sé grunaður um að vilja rjúfa sinn dómaraeið, heldur af því, að skyldleikinn geti ósjálfrátt haft áhrif á hann -, eins átti S.P. að hafa nógu næma tilfinningu fyrir því rétta til þess að skipta sér ekki af þessu Holtavegarmáli, sem snertir mág hans.
Loks leyfir herra “óhlutdrægur” sér að segja, að það sé “áreiðanlegt og kunnugra en frá þurfi að segja, að hr. S.Th. lagði þungan hug á hr. E.F. fyrir það, að hans tillaga var til greina tekin”, en minni tillögu hafnað, og gefur það í skyn, að hlutdrægni og hefndargirni ráði mínum dómum um Holtaveginn. Eitthvað þessu líkt stóð í Ísafold í janúarmán. þ.á. og var sett í samband við kæru mína gegn E.F. og gefið í skyn, að hefndargirni réði mínum gerðum í því máli. Ég skora nú á herra “óhlutdrægan” og Ísafold að koma fram með nokkuð það atvik, þar sem ég hef lagt þungan hug á E.F. eða verið hans megnasti óvildarmaður, eins og Ísafold tók til orða, - sökum þess, að hans tillaga um Holtaveginn var tekin til greina, en ekki mín. Því að það er ekki nóg, til þess að koma fram með slíkar ásakanir gegn mér, að halda að ég beri þungan hug til hans vegna ágreinings míns við hann í vegamálum, eða að slá því fram, að það sé almennt talið svo, þegar ég hef aldrei sýnt það í verkinu, að svo sé. Og það er heldur ekki næg ástæða fyrir ásökunum þessum, að ég hafi kært manninn fyrir fjárdrátt og skjalafölsun, því að það hefði ég gert, hver sem í hlut hefði átt, þar sem ég þóttist sannfærður um, eftir þeim vottorðum, sem mér höfðu borist, að hér var um gífurleg fjársvik að ræða. Og það var beinlínis skylda mín, eins og sérhvers annars manns, sem slík gögn hefði haft í höndum, að stuðla til þess, að það mál yrði ítarlega rannsakað.
Skil ég svo við herra “óhlutdrægan” að svo stöddu.
Rvík 23. apr. 1900. Sig Thoroddsen.
___
Ritsj. Ísafoldar vill ógjarnan láta til sín taka þetta mál, þennan ágreining milli þeirra mannvirkjafræðinganna. En úr því hr. S.Th. beinir að oss afdráttarlausri áskorun um að benda á nokkurt það atriði, þar sem hann hafi lagt þungan hug á hr. E.F. o.s.frv., hlýðir ekki annað en sýna lit á því, og ætlum vér þá nægja að benda á það, sem hann mun naumast treysta sér á móti að bera, að þegar hann (S.Th.) frétti um breytinguna á Holtavegarstefnunni, rauk hann gagngert norðan úr Eyjafirði suður Kjöl og ætlaði að reka E.F. frá vinnu hans – kvað sig mundu hafa gert það, ef hann mætti ráða, og hafði við hann mjög þung orð og hörð. Annað atvik er það, að eftir það, en ekki fyrr, fór hann að finna að hjá (ólæsilegt orð) þeim göllum á reikningsskilum hans – kvittana skorti – er hann hafði ekki fundið að áður og ekki fann heldur að hjá öðrum á eftir. Fleira mætti sjálfsagt til tína, ef vel er leitað. Og er þessa getið til þess að eina, að sýna fram á, að hægt er að finna áminntum og átöldum orðum stað, en ekki hins, að draga neitt úr verðskulduðu lofi um hr. S.Th. fyrir skyldurækni hans að koma upp alvarlegum ávirðingum þeim, er hann tjáir sig (ólæsileg orð) var orðið hjá E.F. sem ráðsmanni yfir vegavinnufé.


Ísafold, 5. maí, 27. árg, 26. tbl., bls. 102:
Hér svarar brúarvörðurinn við Ölfusárbrú gagnrýni Sigurðar Péturssonar verkfræðings varðandi viðhald brúarinnar og segir m.a. frá þeim reglum sem honum voru settar varðandi viðhaldið.

Ölfusárbrúin og viðhald hennar.
Í 18. tbl. Ísafoldar þ.á. er ritgerð eftir Sigurð Pétursson verkfræðing með yfirskriftinni: “Um vegi og brýr” m.m. Af því að mál þetta, sem greinin flytur, snertir að nokkru Ölfusárbrúna og viðhald hennar, og gefur að sumu leyti ekki sem réttastar skýringar, þá vil ég biðja ritstjórn Ísafoldar að gera svo vel að ljá nokkrum línum um þetta mál rúm í blaðinu.
Um Ölfusárbrúna segir verkfræðingurinn meðal annars: “Uppskrúfunin” finnst mér athugaverð eins og hún er nú gerð hvað eftir annað o.fl.
Þá er mér var, 1891, falið eftirlit með umferð um Ölfusárbrúna, viðhald á henni o.fl., setti eftirlitsverkfræðingur Ripperda, sá sem stjórnin í Khöfn hafði hér við brúarsmíðina, mér reglur um, hvernig haga skyldi viðhaldinu á brúnni og kvað mig ekki mega út af þeim bregða. Ég set hér stutt ágrip af reglum þessum, með því að það kemur þessu máli nokkuð við.
. Brúarvörðurinn skal sjá um, að brúin sé máluð undir eins og nokkuð ber á ryði; skafa skal nákvæmlega í kringum all ryðbletti. – Hann bjóst við, að annað hvort sumar þyrfti að mála brúna.
. Á alla strengi, uppihaldsstrengi og hliðarstrengi, skal bera heitt asfalt, og gera það mjög vandlega. - Hann kvað vírinn hafa nuddast í meðförum og galvaníseringin því skemmst á stöku stað, og kynnu að koma þar fram ryðneistar.
. Eftir hvert sumar, eða þegar umferð léttir, þarf brúarvörður að kynna sér skrúfur neðan á uppihaldsstöngum brúarinnar, og bera á þær allar. Þær mega með engu móti ryðga. Þá missti skrúfan burðarafl sitt, og ef stöng brotnaði, yrði mjög torvelt að ná henni úr, ef allt stæði fast, með því að illt væri aðstöðu.
. Hvert sumar skal brúarvörður sjá um, að allt gólf brúarinnar sé tjargað, og velja til þess gott veður. – Bjóst við að timbrið entist þá betur, o.fl.
Allt þetta sem nú hefur verið á minnst, hef ég gert, eftir því, sem tök hafa verið á og brúin hefur þarfnast, og er mér hægt að sanna, að svo hafi verið. Haustið 1896, þegar landskjálftarnir dundu yfir, slitnuðu hliðarstrengirnir úr stöpli þeim, sem heldur þeim, og er að vestanverðu við brúna; við það kipptist hún norður á bóginn, og hefur ekki náð sér aftur. Þá brotnuðu einnig 5 stangir í brúnni, en sem betur fór, tókst mjög greiðlega að setja aðrar nýjar í staðinn. Síðan hafa brotnað 3 stangir, sem líklega hafa lamast í landskjálftunum. Allar þessar stangir hafa verið látnar í af vönum járnsmiði, sem (tvö ólæsileg orð) við samsetningu beggja brúnna og þekkti því vel til verka þessara. Vitanlega hefur orðið að hækka eða lækka brúna á þeim stöðum, sem stangir eru teknar úr, því annars nást þær ekki, og má vera að verkfræðingurinn fái einhvern tíma að reyna það. Þá er hr. bankastjóri Tr. Gunnarsson var hér á ferð í sumar og skoðaði brúna eins og hann er vanur að gera, þegar hann er á ferð um hana, og gerði það þá miklu nákvæmar en verkfræðingurinn í þetta sinn (hann reið bara viðstöðulaust yfir hana), talaði hann (Tr.G.) um við mig, að sér þætti mjög leitt að sjá, að hvilft væri í brúna við norðurlandið, og bað mig um að skrúfa hana þar upp, og lengja skrúf á stöngum, þar sem þess þyrfti með. Þetta gerði ég í haust, og jafnaði þar brúna, og mun hún halda því lagi, meðan ekkert verður að. Sanna mun mega það, að brúin þurfti lögunar við á þessum stað og víðar, því hinn geysi mikli akstur á ofaníburði í Eyrarbakkaveginn í sumar reyndi brúna mjög, og er vegavinnuliði hr. Erl. Zakaríssonar kunnugt um það.
Af því, sem nú hefur verið talið, er mér ekki ljóst, hvað óþarflega oft ég hafi skrúfað brúna upp – enda er það orð talsvert villandi, því það má eins vel skilja svo, að ávallt sé verið að hækka brúna, og ég skil ekki í, hvaðan verkfræðingurinn hefur sagnir um það atriði.
Ennfremur stendur í áðurnefndri grein verkfræðingsins: “Ef brúin heldur ekki lagi sínu um stund, verður að athuga fleira en uppihaldsstangirnar”. Það kann nú að vera að svo sé. Allar súlnagrindur eru vandlega hnoðnegldar og því óhreyfanlegar. Af því ég er talsvert kunnugur samsetningu beggja brúnna, sem gerðar hafa verið að umtalsefni, þá get ég ekki stillt mig um að geta þess um Ölfusárbrúna, að líklega verða það helst eða heldur eingöngu uppihaldsstangir og klemmur þær, sem halda þeim uppi, sem ráða legu brúarinnar. Bili eða slitni uppihaldsstrengur, mun viðgerð á honum ekki geta farið fram með þeim áhöldum, sem hér þekkjast eða til eru; verður því hæpið um aðgerð á þeim.
Ölfusárbrúin er ólík Þjórsárbrúnni að því, að í stormum og mikilli umferð hreyfist hún á tvennan hátt: upp og niður, eða til hliðar, mismikið eftir atvikum. Fyrir það ber stundum við, að klemmur hrapa til eftir strengjunum. Þarf þá óðara að koma þeim í samt lag, en ekki hægt að gera það, nema losa um stöngina að neðan, og hreyfa skrúfu. Þegar nú þar til gerð áhöld eru við hendina, og vanir menn gera það (aðrir geta það ekki), þá er ekki gott að sjá, hvaða hætta geti stafað af þessu.
Það er síður en svo, að ekki sé rétt, að verkfræðingur þessi, eða annar jafnsnjall, sé við, þegar meiri háttar viðgerðir fara fram á dýrum mannvirkjum, og ætti það að vera því hægara, sem mönnum þessum fjölgar í landinu. En líklega yrðu fleiri en ég, sem réðu af, ef stöng bilaði í brúnni eða eitthvað smálegt, að láta stöngina sem fljótast í aftur, undir umsjón góðs smiðs, heldur en að bíða með það eftir verkfræðingi, sem kynni þá að vera í öðrum landsfjórðungi.
Þegar hr. S.P. kom heim til mín ásamt förunauti sínum, Einari Finnsyni vegavinnustjóra, átti ég tal við þá um ýmislegt, helst um húsagerð o.fl. Lét ég þá í ljósi við þá, að mér þætti illt hvað áliðið væri dags, og gæti ég því ekki farið með þeim austur að brúnni, og sýnt þeim hana nákvæmlega. Þeir eyddu því; enda var farið að skyggja, regn á með stormi, og þeir að öðru leyti að keppa til náttstaðar. Er því auðsætt, að ekki gat orðið neitt úr nákvæmri skoðun á brúnni, svona á ferð, og þeir áhaldalausir að öllu leyti.
Ég minntist á, að þörf væri ef til vill á, að hafa tvöfaldar rær undir bitaendum brúarinnar, og á 5 stöðum vantar þær að ofan (þegar brúin var látin á, misstu ensku smiðirnir þær í ána, og má vera að hr. Tr. Gunnarsson muni til þess, að stundum fóru þeir óvarlega með verkefni o.fl.). Vitanlega var aldrei ætlast til, að tvöfaldar rær væru að neðan á Ölfusárbrúnni, þótt svo sé á austurbrúnni. Af því ég heyrði, að verkfræðingurinn áleit nú að svo þyrfti að vera hér, og af því, að engar rær eru til af þeirri stærð, væri líklega rétt fyrir hann eða aðra, sem færir eru um það, að panta þær heldur fyrr en síðar. Eftir því sem fram hefur komið, mun ég ekki ráðast í það.
Það sem segir í grein hr. S.P. um vöntun á fráræsluskurði við austurenda landbrúarinnar er rétt. Þörf á einum fráræsluskurði kom fram í vetur, og stafar það eingöngu af samkomu veganna á þessum stað, sem lokið var við í haust; enda var ráðgert, ef slík þörf sýndi sig í vetur, að grafa hann, þegar klaki færi úr jörðu í vor.
Ég bið velvirðingar á, hvað ég hef orðið langorður um þetta mál, sett hér t.d. ágrip af reglum, sem mér var falið að fara eftir við eftirlitið o.fl. En ég hef gert það til sýna, að skoðunum verkfræðinga þessara virðist ekki bera sem best saman, því eftir umyrðum hr. S.P. um bilunarhættu á Ölfusárbrúnni geta ókunnugir ímyndað sér, að hætta sé fyrir dyrum; en svo er ekki, sem betur fer.
Selfossi 8. apríl 1900.
Símon Jónsson,
brúarvörður við Ölfusárbrúna.


Þjóðólfur, 8. maí, 52. árg, 21. tbl., bls. 82:
Í þessari grein er fjallað um vegamál á Austurlandi en höfundurinn er mjög ósáttur við það hlutskipti Austfirðinga að vera olnbogabarnið sem yrði að bíða þangað til eftirlætisbörnin væru búin að fá sitt.

Flutningabraut á Austurfjörðum
Þegar Alþingi fyrir 7 árum með vegalögunum (staðf. 13. Apríl ´94) ákvað flutningabraut um Fagradal, og þó þessi braut væri hin síðasta (9) af öllum flutningabrautunum og af því mætti ráða, að hún yrði síðast færð í verk, fögnuðu samt allir, er hlut eiga að máli yfir, að þetta var þó komið á pappírinn – og sættu sig við að vera olnbogabarnið, sem yrði að bíða, þangað til eftirlætisbörnin væru búin að fá sitt. Hver sanngirni var í því, að láta Austfirðingafjórðung vera síðastan í þessu tilliti geta allir séð, sem þekkja nokkuð til hinna landsfjórðunganna, er hafa tiltölulega mjög marga greiða vegi af náttúrunnar hálfu. Þó tekur út yfir allt, að láta Eyjafjarðarhérað í þessu tilliti ganga á undan, sem liggur hér um bil lárétt án nokkurra teljandi mishæða um grænar grundir fram til óbyggða. Þar var komin á stórverslun langt inn í landi (Grund) og lýsir það best þörf þessa héraðs mót við Austurland, og því hvernig Austurland er haft útundan í tilliti til samgöngubóta.
Austurland allt girðir 2-3 þúsunda feta hár fjallgarður, nema á Fagradal og Héraðssandi. Á Héraðssandi er Lagarfljótsós, er Austfirðingar fyrst fengu augastað á sem höfuðkauptúni, en sem er búinn að margsýna sig sem ómögulegan sökum brima og útgrynnis, og sem þau skipti, er hann hefur verið reyndur til flutnings, jafnoft hefur valdið slysum og manndauða, enda má við því búast, að flutningaskip vikum saman gætu legið þar, án þess að viðlit væri að komast í land á lausum báti, hvað þá fermdum vörum. Lagarfljótsós sem verslunarstaður er því eins og fallegur draumur sem aldrei getur ræst, en slíkir loftkastalar eins og Lagarfljótsós, ættu ekki að standa öðrum hentugri vegum fyrir þrifum.
Þá er Vestdalsheiði, hún getur sem fjallvegur verið góðu fyrir Úthérað, þó mundi Borgarfjörður liggja betur við verslan og flutningum.
Þá er Fjarðarheiði, um 2000 fest á hæð með snarbröttum klettastöllum fjarðarmeginn, og mikilum halla héraðsmeginn; yrði ómögurlegt að koma þar á flutningabraut fyrir brekkum báðum megin, og svo, að um aðalbrattan fjarðarmeginn yrði að sprengja brautarstæðið gegnum kletta, í fjöldamörgum sneiðingum, er mundi gera hana að lengsta vegi til Héraðs, og að sjálfsögðu hinum langkostnaðamesta. Heiðin liggur 9 mánuði ársins undir snjó, og er það nóg til þess að hún eigi getur komið til greina sem flutningabraut. – Að vísu eru nú sem stendur mestu verslunarviðskipti héraðsmanna um þessa heiði, en hagsmunir fjölmennra byggðalaga í tilliti til haganlegra aðdrátta, hljóta þó að sitja í fyrirrúmi fyrir hagsmunum einstakra manna á Seyðisfirði.
Lík hinni síðasttöldu heiði er Eskifjarðarheiði, nokkuð lægri og óbrattari, og rennur fyrr, en þó ekki vel löguð fyrir akbraut. Einasta akbrautarstæði frá sjó til Héraðs, er úr Reyðarfjarðarbotni um Fagradal, sem loks brýtur hinn samanhangandi fjallgarð, og sem er svo vel lagaður að náttúrunnar hendi, að hann er sannarlegt gersemi. Dalurinn liggur 1/2 mílu vegar frá botni Reyðarfjarðar í norðvestur 21/2 mílu, þangað til hann sker Eyvindarárdal, sem einnig er mjög greiðfær, og mun þá eftir til Lagarfljóts um 1 1/2 mílu Hæst mun á Fagradal um 900 fet, og er þá allur hallinn frá sjó til Egilsstaða og brúarstæðis á Lagarfljóti 1 á móti 20. Nægilegt efni er allstaðar við hendina í dalnum til vegagerðar. Þrjár smáár þarf að brúa á þessari leið, en hvergi þarf að sneiða veginn, og er það fágætt. Dalurinn verður snjólaus um sömu mundir og sveitirnar í kring, og er það mikill kostur.
Brautin ætti svo að ná að Lagarfljóti við Egilsstaði, sem er miðdepill allrar umferðar um Hérað, og aðalpóstöð frá Suður- og Norðurlandi; mundi þar fljótt rísa upp stærsta sveitarverslun á landinu af því meginhluti Héraðsins mundi sækja þar að, svo að jafnvel löggilda yrði þar kauptún. Fiskföngum ættu héraðsmenn hvergi ódýrar náð að sér en um Fagradal, enda stór hagur Fjarðarmönnum að geta selt nokkru verði, það sem fúnar niður hjá þeim fyrir ekkert, eins og oft hefur verið bæði um ufsa og síld. Margvísleg viðskipti mundu fyrir flutningabraut um Fagradal komasr á, og er brautarlagning um Fagradal lífsspursmál fyrir stóran hluta Héraðsins, og yfir höfuð allt Austurland. Óskiljanlegt er það með öllu, að enn leið svo síðasta þing, að ekki var lögunum frá 13. apríl 1894 í tilliti til Fagradals fullnægja gerð, og ekkert fé á fjárlögunum ætlað til þess, og hafði þingmaður Suður-Múlasýslu þó í höndum umboð til að hreyfa mál þessu á síðasta þingi; á því þingmaður vor eftir að standa okkur kjósendum í þessum tillit reikningsskap sinnar ráðmennsku, en það má fullyrða, að hér eftir nær enginn kosningu fyrir þetta kjördæmi, nema sá, er vita má um með vissu, að fylgi þessu framfaramáli ótrauðlega, þar eð það varðar hinna mestu hagsmuna stórt svæði af (ólæsileg tala) sýslum.
Að síðustu vil ég benda á , hversu allri vegagerð er lítt á leið komið hér austanlands, mót við hina aðra landshluta, og mun þetta liggja í því, að vér höfum eigi haft þá forvígismenn fyrir málum vorum, sem við hefði þurft, því þó margir þeirra hafi verið góðir menn, hafa þeir eflaust ekki haft þrek til að draga taum kjördæmis síns mót við hina fjórðunga landsins, þar sem fullyrða má, að vegagerð hér austanlands er 20 árum á eftir hinum öðrum fjórðungum landsins, en þetta má ekki líðast lengur, og það má ekki hafa Austurland að olnbogabarni; óánægjan með þetta verður æ ríkari, og elur þann kala til þings og stjórnar, sem er sjaldgæfur hjá okkar áhugalitlu þjóð.
Ritað í mars 1900


Ísafold, 9. maí, 27. árg, 27. tbl., bls. 106:
Ritdeilur Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings og Ísafoldar snérust í upphafi um Suðarlandsveginn, en eru hér komnar út í allt aðra sálma; hvort Sigurði sé “versti óvildarmaður” tiltekins vegaverkstjóra.

“Óhlutdrægni”.
Herra ritstj. Ísafoldar er í seinasta (25.) tölublaðinu að leitast við að sýna lit á því að verða við þeirri áskorun minni, að benda á nokkurt það atriði, þar sem ég hafi í orði eða verki sýnt, að ég hafi lagt þungan hug á E.F. eða verið hans megnasti óvildarmaður, og bendir á tvö atvik, annað það, að ég hafi, undir eins og ég hafi frétt um breytinguna á Holtavegastefnunni, “rokið gagngert norðan úr Eyjafirði suður Kjöl og ætlað að reka E.F. frá vinnu hans og haft við hann mjög þung orð og hörð”.
Það er satt, að ég brá við og fór suður Kjöl, þegar ég frétti um breytinguna, til þess að reyna að koma í veg fyrir að minni vegarstefnu yrði breytt; en þar sem hann segir, að ég hafi ætlað að reka E.F. frá vinnu, þá þekkir hann þar betur mínar hugrenningar en ég sjálfur, því að það var aldrei mín ætlun og hef heldur ekki látið það í ljós við nokkurn mann. Að ég hafi “haft við E.F. mörg þung orð og hörð”, getur enginn borið um nema E.F. sjálfur, því að við vorum tveir einir, þegar við ræddum það mál; og kannst ég ekki við það, að ég hafi brúkað hörð orð; ég reyndi aðeins að sýna honum fram á, að slíkt framferði gæti ekki gengið – enda þekkti hann það frá Noregi. Að þar þyldist slíkt ekki – að verkstjórarnir settu sig upp á móti yfirmanni sínum – eða þeim, sem að réttu lagi ættu að vera yfirmaður þeirra – og fara að gera breytingar á því, sem hann hefði mælt. Ég reyndi með góðu að fá hann til þess að færa veginn aftur inn á mína vegarstefnu, og þegar ég skildi við hann, lést hann mundu gera það og geta gert það, af því að landshöfðingi hefði ekki skipað sér, heldur aðeins leyft sér að breyta stefnunni eftir sinni vild.
Annað atvikið, sem ritstj. tilfærir, er það, að “eftir það, en ekki fyrr, fór hann að finna að hjá honum þeim göllum á reiknisskilum hans – kvittanaskorti – er hann hafði ekki fundið að áður, og ekki fann heldur að hjá öðrum á eftir”.
Þetta eru hrein og bein ósannindi.
Ég hef alltaf fundið að því, bæði fyrr og síðar, þegar kvittanir hefur vantað fyrir einhverju á reikningum verkstjóranna, hver sem í hlut hefur átt. Ég get bent ritstj. á t.d. seinustu ársreikninga, ef hann vill snúa sér á landshöfðingjaskrifstofuna; þar getur hann séð, að ég hef gert athugasemdir við kvittanaskort hjá öðrum verkstjórum en E.F.
Ritstj. verður að leita betur til þess að finna “áminnstum og átöldum orðum (í janúarbl. Ísafoldar) stað, en ég vil aðeins (ólæsilegar 2-3 línur) um tveimur nefndu atriðum, ef hann vill aðeins fara með það, sem rétt er og satt.
Reykjavík, 3. maí 1900.
Sig. Thoroddsen

“Klipt var það – klipt var það!” segir hr. landsvegfr. enn, og ætlar sér sjálfsagt að halda því áfram í lengstu lög.
Óræka vissu um, hvað þeim E.F. hafi á milli farið um sumarið austur í Holtaveginum, er ekki hægt að fá, úr því ekki voru vottar að samtali þeirra. En hitt er víst. að svo sagði E.F. þá þegar frá því, sem Ísafold heldur fram, áður en nokkur þrætni reis um það, enda verður viðbragðið mikla norðan úr Eyjafirði alla leið suður Kjöl ólíkum mun skiljanlegra með því lagi en hinu. E.F. hefur alltaf sagt svo frá og segist svo enn, að S.Th. hafi sagt berum orðum, að hann mundi hafa rekið hann frá Holtavegargerðinni, ef hann hefði haft vald til þess, og eins hitt, að hann hafi beint skipað sér að hætta við nýju vegarstefnuna, þrátt fyrir úrskurð (ekki aðeins leyfi) landshöfðingja.
Um hitt atriðið mun vörn hr. S.Th. styðjast aðallega við það, að vegareikningar hafi ekki verið yfirleitt lagðir undir hans endurskoðun fyrr en eftir Holtavegarsumarið og því hafi þá fyrst komið til hans kasta að finna að þeim. En ekki mun hann geta á móti því borið, að hann hafi yfirfarið reikninga E.F. árin á undan; og úr því að þá komu ekki fram neinar aðfinnslur að sömu annmörkum á reikningsfærslunni eins og á eftir, virðist bæði E.F. og öðrum full vorkunn, þótt þeir legðu þann skilning í þau viðbrigði, sem hér um ræðir. Og sami annmarki – kvittanaskortur – var áreiðanlega á reikningum annars vegavinnustjóra í haust að minnsta kosti, án þess að sá hinn sami hafi fengið ávítur fyrir.
Annars virðist nú mál til komið að slá botni í þetta þras, og það því fremur, sem mál það, er það er upphaflega út af risið, kæran á hendur E.F., er nú undir dómi og viðfeldnast að láta manninn og mál hans í friði þá stuttu stund, er dóms mun þurfa að bíða úr þessu. Því þess ber vel að gæta, að þrátt fyrir stóryrði hr. S.Th. um sekt hans, er enn ódæmt um það, svo gilt sé, hvort hann er sekur eða saklaus.


Þjóðólfur, 11. maí, 52. árg, 22. tbl., bls. 89:
Allt gott er að frétta frá Vestur-Skaftafellssýslu nema hvað varðar samgöngumál.

Fréttabréf úr Vestur-Skaftafellssýslu (Mýrdal).
Að samgönguleysinu hér við aðrar sveitir landsins þykir mesta mein, og stendur það í vegi fyrir mörgum þægindum og framförum hér, sem annars væru vel hugsanleg til framkvæmda; ekki mundi það mikið kosta, þó “Hólar” hefði hér í Vík ákveðinn viðkomustað í hverri ferð austur og suður um land, en það gæti þó haft mikil þægindi í för með sér fyrir þetta hérað.
Einnig hefur heyrst, að ekki mundi neitt verða úr hinni fyrirhuguðu vegagerð hér í sumar, og þykir það ekki bæta úr samgöngum á landi, því flestir vegir hér eru lítt færir.


Fjallkonan, 13. maí, 1900, 17. árg., 19. tbl., forsíða:
Þórarinn Jóhannesson verkamaður skrifar hér háðsádeilu á Sigurð Thoroddsen landsverkfræðing og nefnir 8 dæmi um hrapaleg mistök Sigurðar við vega og brúarlagningu, sem ómenntuðum verkstjórum hafi stundum tekist að bæta.

Andhæli.
Flest þykir mér nú fara að ganga andhælis, þegar Sigurður P. er farinn að tala um það, sem “kollega” hans, Sigurður T., einn hefur rétt til að vita og þegja um. Það er varúðarvert, að sletta sér inn í verkahring svoleiðis manns, sem var svo vænn að þiggja einar 3000 kr. í árskaup hjá okkur, þegar hann var búinn að sjá hina nafnfrægu víggirðingu Khafnar, mannvirki í Noregi o.m.fl., eftir að hann skrapp frá “examensborðinu”, og hefur síðan fengið nokkurra ára reynslu hér, reynslu sem aðrir hafa öðlast svo mikinn lærdóm af. Það er alkunnugt, að þessi ágætismaður hefur tekið með þögn og þolinmæði flestum móðgunum, sem hann hefur orðið fyrir af ólærðum vegagerðarverkstjórum og almenningi, sem engan einkarétt höfðu til að hafa betur vit á hlutunum en hann, en það er engin ástæða til að gera sér von um, að hann fyrir því ekki styggist við, er “nýskroppinn” “kollega” fer að látast hafa hugmynd um aðgerðir hans. En ef hann er styggður mjög, gæti skeð, að hann sneri við oss bakinu og væri þá illa komið högum vorum.
Já, sannarlega er S.Th. maður sem vér ekki höfum kunnað rétt að meta. Honum hefur verið mörg móðgun sýnd:
. Breytt var frá stefnu þeirri er hann hafði ætlað veginum frá Kolviðarhóli upp á Hellisheiði og farið eftir tillögu óbreytts vegaverkstjóra. Og þótt almenningi er veginn notar, þyki sú stefna í alla staði betri, er það lítið að marka. Hin stefnan var aldrei reynd, og því ekki séð, hve miklu meiri atvinnu það kynni að hafa veitt, að leggja veginn að ráði S.T., og hve miklu minna hann hefði þar orðið fyrir sliti, er hann lengur hefði legið undir jökli.
. Þvert á móti tillögum og vilja S.T. var Öxarárbrúin lögð yfir hamragljúfrið, og hefur landshöfðingja verið gefin dýrðin fyrir það, en S.T. ætlaðist til að hún yrði sett á sandeyrarnar, þar sem byggja hefði þurft marga djúpt niður grafna stöpla og 3-4 trébrýr yfir, og ættu allir að geta séð hve margfalt drýgri atvinna hefði orðið við það og viðhald þess, en þessa einu brú á berggljúfrinu. En þrátt fyrir þessa mótspyrnu gegn ráðum S.T., leiddi þó það gott af framkvæmdum hans í því efni, að brúartrén, sem afgangs urðu af þeim er hann hafði pantað, fengust – að vísu langlegin og farin að skemmast – fyrir ekki nærri hálfvirði á uppboði, til stórhags fyrir kaupendur.
. Allt útmælingastarf hans í Holtunum var að engu haft, en vegurinn lagður eftir tillögum héraðsmanna og mælingu “ólærðra” manna, sem á engan skóla hafa gengið og engin “hervirki” séð erlendis. Verða þó allir að játa, að atvinna hefði orðið miklu drýgri við vegagerð eftir tillögu S.T., þó vegurinn kynni að hafa orðið lítið eitt óhagkvæmari fyrir notendur, sem aldrei verður af reynslunni sannað.
. Menn eru að segja, að Eyjafjarðarvegurinn sé með öllu óþarfur. Á því svæði, sem búið er að eyða í 14.000 kr. hafi verið dágóður náttúrulegur reiðvegur, og til annars verði hann ekki notaður; en þarna hafa nú margir menn haft atvinnu sumarlangt, og Akureyrarbúar notið þeirrar ánægju, að sjá S.T. á Eyrinni á meðan, og væri ósanngjarnt að öfunda höfuðstað Norðlendinga af þessu.
. Brúin á Hörgá hlýtur að hafa verið illa byggð, segja sumir, úr því að áin velti henni af sér. En gætið að því, góðir hálsar, að fjandinn getur farið í ár, eins og svín og sérhvað annað, til að hleypa þeim upp móti góðum mönnum; en því fleiri brýr, því meiri vinna – og peningar – handa okkur.
. Þegar brúin á Blöndu var byggð, fór einhver óbreyttur alþýðumaður að sletta sér fram í að áminna S.T. um, að steinlímið mundi verða of lítið, er hann hafði pantað, og ráða honum til að bæta við það í tíma. Eins og eðlilegt var, sagði S.T., að það kæmi honum ekkert við, og sat við sinn keip. Fyrir það varð ekki lokið við brúna um haustið, og jókst mikið atvinna við það, að ljúka við verkið næsta vor. Ferðirnar urðu fleiri o.s.frv.
. Eins og menn vita, var S.T. fyrir landssjóðs hönd umsjónarmaður með brúarsmíðinni á Þjórsá. Óhlutvandir menn hafa vanþakkað honum þá umsjón og vitna til þess, að brúin hafi fundið eystri akkerisstöpulinn of léttvægan, og því hótað hundruðum manna bráðum bana sjálfan vígsludaginn; geta menn þá ekki munað, að S.T. ásamt sjálfum brúarsmiðnum, vitnaði rétt á eftir, að ekkert væri að óttast út af þessu. Illmálgar tungur segja, að brúin hafi verið sett á vesturklöppina margsprungna, án þess mokað hafi verið ofan af henni moldinni til að skoða hana – fyrr en eftir tvö ár, en þá héngu lausir drangar framan í henni, segja þeir, sem nú eru fallnir. Nú, sé þetta satt, veitir það líklega að minnsta kosti 6-8000 kr. atvinnu, að fáum árum liðnum, að gera við klöppina, og Vaughan þarf ekki að ómaka sig úr því. Það fá Íslendingar – mest verkamenn. Nóg gengur til eftirlauna o.þvíl. samt. S.T. var þar um sumarið og sá um að brúin var svo vel skrúfuð, að ekki kvað hafa þurft að bæta um það síðan.
. Sumum þykir S.T. vinna lítið fyrir kaupinu. Þér heimskingjar! Vitið þér ekki, að hann er mest allt sumarið á milliferðum og við mælingar, stundum jafnvel tímunum saman á dag, ef gott er veður, og allan veturinn er hann hvern góðviðrisdag til sýnis á götum höfuðstaðarins eða tjörninni, en þess á milli (líkl.) í “uppdrætti” og útreikningum, sem geymt gæti ókomnum öldum mikinn fjársjóð, ef safnað væri, - eftir að hann og starfi hans, sem samtíðin ekki kann rétt að meta, fyrir löngu er “fallin í gleymsku og dá”.
Þórarinn Jóhannson
(verkamaður)


Austri, 17. maí, 1900, 10. árg., 18. tbl., forsíða:
Þorgeir í Vík fjallar nokkuð um vegamál í löngum greinaflokki um þjóðmál og er þeirrar skoðunar að of mikið hafi nú þegar verið gert. Bíða eigi með frekari vega og brúarframkvæmdir, enda lítil þörf fyrir flutningabrautir og akvegi.

Ofan úr sveit – utan frá sjó.
.. Að því er snertir samgöngumálin, þá ættum vér að mestu að láta sitja við það sem komið er fyrst um sinn; halda aðeins við þeim vegum og brúm, sem þegar eru lagðar, en hætta oss ekki út á hálan ís með dýra vegi eins og flutningabrautir eða akvegi, á meðan vér hvorki höfum næga þekkingu til slíkra vegalagninga né neitt verulega eftir þeim að flytja; hestahaldið minnkar heldur ekki fyrir það að neinum mun, því eins þurfum vér á hestum að halda eftir sem áður til heyflutninga, sem víða eru all erfiðir, og ýmislegs annars, sem flutningabrautir yrðu eigi notaðar til. Það hefur líka verið haft eftir norska verkfræðingnum, sem skoðaði brúarstæðið á Lagarfljóti, að hann álítur miklu af því fé, sem vér höfum lagt til vegabóta hjá oss, alveg á glæ kastað. Þetta stóð í “Bjarka” einu sinni, hvort sem það er satt eða ekki. En hvað sem nú um það er, þá er vonandi að komandi þing líti í kringum sig áður en þau veita mikið fé til nýrra vegalagninga fyrst um sinn. Vér getum vel rutt okkar gömlu vegi og notað þá enn um langan tíma, ekki síst þar sem allar landsins víkur og vogar eru nú bráðum löggiltar, og verslun komin á flestar löggiltar hafnir, svo að aðdrættirnir eru nú orðnir miklu léttari en áður. Sömuleiðis eru nú samgöngur vorar á sjó orðnar vel viðunanlegar, og hér á Austfjörðum mega þær heita ágætar. Þeir yrðu oss nokkuð dýrir aðrir eins samgöngumálagarpar og síra Jens, ef þingið hlypi eftir hverri flugu, er hann reynir að koma í menn þess í þá átt, og vonandi er að Dalamenn sendi ekki oftar annan eins stórpólitískan físibelg inn á þing.
Ritað á Gvöndardaginn 1900.
Þorgeir í Vík.


Ísafold, 26. maí, 27. árg, 32. tbl., bls. 127:
Með þessari grein Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings og svari ritstjóra, lýkur væntanlega ritdeilum sem tekið hafa mikið pláss í Ísafold síðustu tvo mánuði. Ritdeilurnar hófust með grein Sigurðar Péturssonar verkfræðings, þar sem hann gagnrýndi vegagerðina frá Reykjavík austur í Holt, en snérust fljótlega út í aðra og persónulegri hluti, s.s. kæru gegn tilteknum vegaverkstjóra vegna fjárdráttar.

Fádæma elja.
Það er meira en lítil elja, sem hr. landsvegafræðingnum er gefin við – lítilsvert orðaþras út af þessum manni, sem nú er aðeins ódæmdur eftir kæru hans. Enn vill hann fyrir hvern mun fá að taka til máls um sama efni en það verður nú í allra síðasta skipti í þessu blaði.
“Óhlutdrægni”.
Ritstj. Ísafoldar hefur enn fundið sér skylt að hnýta athugasemdum aftan við svar mitt í 27. tbl. og ber þar E.F. fyrir þeim ummælum sínum, að “ég hafi ætlað að reka hann frá vinnu o.s.frv.”.
Þegar svo er komið, læt ég úttalað um það atriði, því að við E.F. vil ég ekki þrátta – ég legg mig ekki niður við það – það mun sýna sig einhvern tíma, hvor okkar er sannsöglari.
Hvað hitt atriðið snertir, ber ritstjórinn það blákalt fram – eða lætur það að minnsta kosti á sér skilja, að ég hafi ekki fundið að sömu annmörkum á reikningsfærslu E.F. áður en byrjað var á veginum yfir Holtin eins og á eftir. Ég vil þá benda ritstj. á athugasemdir mínar við reikninga E.F. sumarið 1896 – þær getur hann séð á landshöfðingjaskrifstofunni – þar hef ég einmitt fundið að kvittanaskorti á reikningunum.
Svo segir ritstjórinn ennfremur: “Og sami annmarki – kvittanaskortur – var áreiðanlega á reikningum annars vegavinnustjóra í haust að minnsta kosti, án þess að sá sami hafi fengið ávítur fyrir”.
Það er ekki mitt að gefa ávítur fyrir þennan annmarka, úr því ég var ekki skipaður yfirmaður verkstjóranna; ég aðeins gerði mínar athugasemdir á reikninginn og sendi þær á landshöfðingjaskrifstofuna.
Annars skal ég taka það fram, að þessir gallar á reikningsfærslunni hjá verkstjórunum eiga ekkert skylt við það mál, sem hafið hefur verið gegn E.F., því að þó kvittanir vanti á stöku reikninga, þarf það ekki að benda á nein fjársvik; það getur verið og er vanalega aðeins athugaleysi eða hirðuleysi.
Vitneskju um fjárdrátt getur maður fyrst fengið með því að yfirheyra verkamennina um það, hvað þeir hafi tekið á móti af peningum og hvað mörg dagsverk þeir hafi unnið, og það var á þann hátt að þessi sterki grunur hefur fallið á E.F.
Að öðru leyti skal ég vísa til eftirfarandi yfirlýsingar frá landritaranum:
Þér hafið, herra ingeniur, beiðst eftir yfirlýsingar minnar um það, hvort ég hafi orðið þess var, að þér hafið veist meira að herra Einari Finnssyni í athugasemdum yðar við vegareikninga hans eftir að byrjað var á Holtaveginum 1898 en áður, og hvort ég hafi tekið eftir því, að þér hafið hallað fremur á hann í athugasemdum yðar, en aðra forstöðumenn landssjóðsvegagerða.
Báðum þessum spurningum verð ég að svara neitandi. Auðvitað er hér undanskilin kæra sú, er þér hafið sent bæjarfógeta hér, yfir herra Einari Finnsyni, fyrir fals og fjárdrátt, og rannsóknir yðar um það atriði.
Afgreiðslustofu landshöfðingja
Reykjavík 11. maí 1900.
Jón Magnússon
Þá þykist ég hafa komið með næga sönnun fyrir því, að ákærur ritstjóra gegn mér séu á engum rökum byggðar.
Rvík. 11. maí 1900. Sig. Thoroddsen.
* * *
Ójá; það er nú svo. Sönnun er það engin, að hann segir sjálfan sig vera sannorðari en E.F. Ekki er heldur vel hægt fyrir menn út í frá að vita, að hann megi ekki gefa verkstjórum ávítur. Og ætli hann geri það aldrei samt? Fyrir E.F. og öðrum í líkum sporum eru þær einar aðfinnslur til, sem til þeirra sjálfra er beint. Þeir hafa ekkert af því að segja, þótt einhverjar aðfinnslur séu til á landshöfðingjaskrifstofunni, ef þær er t.d. svo lítilsverðar, að ekki þykir takandi því að tjá þær verkstjórunum sjálfum.
Fyrir því virðist minna að græða en hann ætlaðist til á vottorði landritarans, sem oss dettur vitanlega ekki í hug að rengja. Þar með er þá slegið botni í þetta þras.


Ísafold, 9. júní, 1900, 27. árg., 36. tbl., forsíða:
Trúlega hafa margir beðið eftir þessari grein Sigurðar Péturssonar verkfræðings, því fyrri grein hans, sem birtist í Ísafold 4. apríl, hafði vakið upp andsvör margra og harðar ritdeilur milli Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings og ritstjóra Ísafoldar. En Sigurður dvaldi í Kaupmannahöfn á þessum tíma og þetta var það fyrsta sem frá honum heyrðist eftir fyrri greinina.

Um vegi og brýr.
Aðalatriðin í grein minni í 18. tbl. Ísafoldar eru þessi:
. Vér eigum að láta reynsluna kenna oss, hvernig vér eigum að haga vegum vorum eftirleiðis, svo að haldi komi.
. Leiðin upp úr Reykjavík hefði átt að koma austur með sjónum, inn á þverar mýrar, skammt frá laugunum o.s.frv.
. Hafa verður meira eftirlit með ofaníburði í vegi, vanda meira val og leitun að honum, og fastákveða, á hvaða tíma árs eigi að bera ofan í. Ennfremur er það mikilsvert atriði, hvernig ofaníburðinum er komið fyrir.
. Viðhald og eftirlit á vegunum þarf að vera betra en það er.
. Halda þarf við vörðunum á gömlu leiðinni yfir Hellisheiði.
. Ef vagnflutningar eiga að komast á austur um sveitir þarf að leita að annarri hægari leið niður Kamba en nú er.
. Á leiðinni yfir Ölfus eru óþarfakrókar. Gljúfurá og Bakkholtsá má brúa án mikils kostnaðar.
. Framhald vegarins sem, lagður er þarf að koma þannig, að stefnan sé tekin fyrir sunnan Köguðarhól, beinustu leið á Ölfusárbrú. Leiðinni meðfram Ingólfsfjalli og spottanum frá fjallinu niður að brúnni á ekki að halda við sem aðalleið að henni.
. Ölfusárbrúin er svo falleg og dýr, að eftirlit hennar þarf að vera fullkomnum reglum bundið. Ef eitthvað þarf að gera frekar en það sem reglugerðin fyrirskipar, þarf að leita álit verkfræðingsins eins fljótt og auðið er. Alveg sama er að segja um Þjórsárbrúna og aðrar stærri brýr. Sýslumenn eru ekki færir um að semja þessar reglugerðir nema að ráði verkfræðings.
. Á Flóaveginum eru óþarfa krókar. Púkklagningunni er ekki rétt fyrir komið. Með því að þar vottar áþreifanlega fyrir holklaka meira og minna í öllum Flóaveginum, þarf að athuga frekar eðli þess jarðvegs eftirleiðis, sem ber nafnið holklakajörð, og hvað gera megi til þess að varst holklaka. Við hverja rennu er lægð í veginum. Næst Ölfusárbrú vantar fráræsluskurði. Vegaskurðir hafa á einum stað verið stíflaðir. Uppgrefti úr skurðunum hefur verið kastað of nálægt skurðarbörmunum.
. Vestari stöplinum við Þjórsárbrúna þarf að veita eftirtekt. Fráræsluskurðinn Holta-megin þarf að lengja.
. Vegaval Holtamanna og framkvæmdir því samfara eru að mörgu leyti til fyrirmyndar. Þar þarf að gera nýjar tilraunir með sandofaníburð á austari kaflanum.
Yfirlitsatriði:
_ Vegagerð í Ölfusi er í bútum.
_ Vegarkaflar yfir mýrar halda sér vel og þurfa lítinn viðhaldskostnað.
_ Holklakajarðlag í sambandi við vegagerðir þarf frekar að athuga.
Ýmislegt af ofangreindum atriðum hefði ég geta skýrt frekar, t.a.m. hvernig púkklagningu eigi að koma fyrir, hvernig brúa megi Gljúfurá og Bakkarholtsá mið litlum kostnaði, hvar reyna mætti að komast niður Kamba þegar til vagnflutninga kæmi, en ég álít, að það komi mér ekki til fyrst um sinn.
Þegar ég ritaði grein mína, hafði ég enga ákveðna menn í huganum, ég hélt mér aðeins við það, sem fyrir augun bar, án þess að spyrja mig fyrir um, hver hafði ráðið hverju fyrir sig, með því það var og málinu alveg óviðkomandi.
Mér er ómögulegt að skilja það, hvernig grein mín hefur getað komið svo mörgum til að svara. – Ég er mér þess ekki meðvitandi, að hafa talað óvirðulega um nokkurn mann. að var bein skylda allra, að taka bendingum mínum með þökkum og reyna að læra af þeim; íslensk verkfræði stendur sannarlega ekki á svo háu stigi enn.
Að svo stöddu ætla ég ekki að fara að svara neinum sérstaklega; ég skal aðeins geta þessa:
Á austurleiðinni skoðaði ég Ölfusárbrúna nákvæmlega um miðjan dag í björtu veðri. Sunnudaginn næsta skoðaði ég Þjórsárbrú.
Áður en ég varð kandídat var ég tvisvar settur “ingeniör-assistant” í Odense á Fjóni; - 6 mánuði árið 1897 og tvo mánuði 1898 – og var það eftir tilboði og meðmælum frá prófessor A. Lutken, kennara í vega- og brúasmíði við fjöllistaskólann í Kaupmannahöfn. Síðara sumarið hafði ég 200 kr. í laun á mánuði.
Þeir menn, sem hafa svarað grein minni, taka að mörgu leyti af mér ómakið með því, að þeir svara bæði sér sjálfum og öðrum – sbr. fráræsluskurð næst Ölfusárbrú o.fl. – Þótt ég hefði aldrei farið um þessa leið og aldrei skoðað brýrnar, heldur aðeins lesið greinar þessara manna, hefði ég haft ástæðu til að koma með margar af ábendingum mínum (sbr. grein S.J.).
Samiðnaðarmaður minn hefði vel getað verið kurteisari í greinum sínum; leyfi til þess að svara á þann hátt, sem hann gerir, hefur aðeins maður, sem mikil þrekvirki liggja eftir – annaðhvort áður en hann tók próf, eða eftir að hann byrjaði sjálfstætt starf.
Að síðustu þakka ég þeim mönnum, sem hafa tekið svari mínu, mér fjarverandi og óafvitandi.
p.t. Kaupmannahöfn 20. maím. 1900.
Sigurður Pétursson
ingeniör.

Ísafold, 16. júní, 1900, 27. árg., 38. tbl., forsíða:
Þessi frétt fjallar um dóm Héraðsdóms í málinu gegn Einari Finnssyni vegaverkstjóra, en Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur kærði hann í upphafi ársins fyrir fjárdrátt og fleira. Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta mál undanfarna sex mánuði og tengjast því miklar ritdeilur milli Sigurðar og ritstjóra Ísafoldar.

Héraðsdómur í málinu gegn Einari Finnssyni.
Hann var upp kveðinn 13 þ.m. og niðurstaðan sú, að kærði var dæmdur í 14 daga einfalt fangelsi, auk málskostnaðar, skv. 259. gr. hegningarlaganna, fyrir að hafa “með því draga undir sig nokkuð af verklaunum Guðmundar Einarssonar misbeitt stöðu sinni til að afla sér ávinnings á sviksamlegan hátt”. Hann hafði talið Guðmundi þessum hærri verklaun en hann galt honum, og lét mismuninn, 36 kr. 75 a., renna í sinn sjóð; gerðist það með þeim hætti, að hann réð til sín mann þennan fyrir umsamið kaup, en lánaði hann síðan í landssjóðsvinnuna (vegavinnu) fyrir hærri daglaun en hann galt honum, og hugði sér það leyfilegt. Segir svo í dómnum til skýringar: “það hefur tíðkast allmikið, eftir því sem upplýst er, að ýmsir menn hafa ráðið verkamenn til ákærða, ekki aðeins vinnumenn sína, heldur og aðra, sem þeir hafa tekið einungis til að koma þeim í vinnuna; hafa menn þessir tekið til sín vegavinnulaunin, en goldið verkamanninum umsamið kaup, og hirt sjálfir mismuninn. Ákærða var kunnugt um, að slíkar mannaráðningar áttu sér stað, enda áleit hann þær leyfilegar, ef verkamönnunum væri eigi greidd hærri daglaun en ætla mætti að þeir ynnu fyrir, og hugði jafnvel að sér væri sjálfum heimilt að ráða verkamenn á þennan hátt fyrir sin reikning”.
Af öllum hinum ákærunum var hann sýknaður. En þær lutu sumar að skjalafölsun, t.d. breytt eftir á dagsverkatölunni hjá einum verkamanni úr 58 í 88, og látið óviðkomandi mann skrifa á kaupskrá í kvittunarskyni. Tölubreytingin fullyrti kærði að stafaði af misritun, þegar ritað var ofan í tölurnar á kaupskránni eftir á með bleki – þær höfðu fyrst verið ritaðar með blýanti, til þess að eiga hægara með, segir hann, að leiðrétta reikningsvillur, þegar hann gerði upp við verkamenn, án þess að þurfa að ónýta kaupskrána -; og manninn, sem hann lét skrifa fyrir annan kvittun á skrána, áleit hann sér heimilt eftir atvikum að líta svo á, sem væri húsbóndi hins. Virðist því ekki, segir dómarinn, næg ástæða til að skoða umgetna aðferð sem skjalafals eða hlutdeild í því.
Þá hafði ákærði (E.F.) og talið fleiri dagsverk hjá sumum verkamönnunum en þeir höfðu unnið. En ýmist eru sérstök atvik að því, er gera það ósaknæmt, t.d. að hann breytir ákvæðisvinnu í daglaunavinnu, eða þá að hann hefur leitt sennileg rök að því að það hafi orðið af vangá og honum óafvitandi, enda hins vegar vantalin allmörg dagsverk, þótt borguð hafi verið að fullu, en reikningsfærslan öll ófullkomin.
Kærði hefur áfrýjað dómi þessum til yfirréttar.


Fjallkonan, 23. júní, 1900, 17. árg., 24. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá dómi Héraðsdóms í málinu gegn Einari Finnsyni vegaverkstjóra, en landsverkfræðingur kærði hann á sínum tíma fyrir fjárdrátt og fleira. Einar var dæmdur í 14 daga einfalt fangelsi og til greiðslu málskostnaðar.

Héraðsdómur í málinu gegn Einari Finnssyni.
Hann var upp kveðinn 13. þ.m. og niðurstaðan sú, að kærði var dæmdur í 14 daga einfalt fangelsi, auk málskostnaðar, samkv. 259. gr. hegningarlaganna, fyrir að hafa “með því að draga undir sig nokkuð af verkalaunum Guðmundar Einarssonar misbeitt stöðu sinni til að afla sér ávinnings á sviksamlegan hátt”. Hann hafði talið Guðmundi þessum hærri verklaun en hann galt honum, og lét mismuninn, 36 kr. 75 a., renna í sinn sjóð; gerðist það með þeim hætti, að hann réð til sín mann þennan fyrir umsamið kaup, en lánaði hann síðan í landssjóðsvinnuna (vegavinnu) fyrir hærri daglaun en hann galt honum, og hugði sér það leyfilegt. Segir svo í dómnum því til skýringar: “Það hefur tíðkast allmikið, eftir því sem upplýst er, að ýmsir menn hafa ráðið verkamenn til ákærða, ekki aðeins vinnumenn sína, heldur og aðra, sem þeir hafa tekið einungis til að koma þeim í vinnuna; hafa menn þessir tekið til sín vegavinnulaunin, en goldið verkamanninum umsamið kaup og hirt sjálfir mismuninn. Ákærða var kunnugt um, að slíkar mannaráðningar áttu sér stað, enda áleit hann þær leyfilegar, ef verkamönnum væri eigi greidd hærri daglaun en ætla mætti að þeir ynnu fyrir, og hugði jafnvel, að sér væri sjálfum heimilt að ráða verkamenn á þennan hátt fyrir sinn reikning”.
Af öllum hinum kærunum var hann sýknaður. En þær lutu sumar að skjalafölsun, t.d. breytt eftir á dagsverkatölu hjá einum verkamanni úr 58 í 88, og látið óviðkomandi mann skrifa á kaupskrá í kvittunarskyni. Tölubreytingin fullyrti kærði að stafaði af misritun, þegar ritað var ofan í tölurnar á kaupskránni eftir á með bleki – þær höfðu fyrst verið ritaðar með blýanti, til þess að eiga hægara með, segir hann, að leiðrétta reikningsvillur, þegar hann gerði upp kaupið við verkamenn, án þess að þurfa að ónýta kaupskrána; og manninum sem hann lét skrifa fyrir annan kvittun á skrána, áleit hann sér heimilt eftir atvikum að líta svo á, sem væri húsbóndi hins. “Virðist því ekki”, segir dómarinn, “næg ástæða til þess að skoða umgetna aðferð sem skjalafals eða hlutdeild í því”.
Þá hafði ákærði (E.F.) og talið fleiri dagsverk hjá sumum verkamönnum en þeir höfðu unnið. En ýmist eru sérstök atvik að því, er gera það ósaknæmt, t.d. að hann breytir ákvæðisvinnu í daglaunavinnu, eða þá að hann hefur leitt sennileg rök að því, að það hafi orðið af vangá og honum óafvitandi, enda hins vegar vantalin allmörg dagsverk, þótt borguð hafi verið að fullu, en reikningsfærslan öll ófullkomin.
Kærði hefur áfrýjað þessum dómi til yfirréttar.


Austri, 29. júní, 1900, 10. árg., 22. tbl., bls. 80:
Á þingmálafundi í Norður-Múlasýslu var samþykkt tillaga um vegamál.

Þingmálafundur
fyrir Norður-Múlasýslu var haldinn að Rangá 26. þ.m. samkvæmt áður útgefnu fundarboði frá báðum þingmönnum kjördæmisins.
.. Voru þessi mál tekin til umræðu:
.. 7. Málið um akveg milli Héraðs og Fjarða.
Tillaga: Fundurinn lýsir yfir samþykki sínu á áliti sýslunefndarinnar í Norður-Múlasýslu á fundi 17.-20. apríl þ.á. að því er snertir akveg á milli Héraðs og Fjarða, að því viðbættu, að möguleikar til uppsiglingar í Lagarfljótsós séu jafnframt rækilega rannsakaðir.
Samþ. með 9 atkv. gegn 1.


Þjóðólfur, 30. júní, 1900, 52. árg., 42. tbl., bls. 166:
Hér fjallar Þjóðólfur slæm reikningsskil og sóun eða jafnvel stuld á vegafé landssjóðs, en tilefnið er málshöfðun gegn tilteknum vegaverkstjóra fyrir fjárdrátt og fleira. Til þurfa að koma verulega hert eftirlit og er t.d. lagt til að stofnuð verði skrifstofa landsverkfræðings sem hafi yfirstjórn og eftirlit með vegagerð.

Umsjón með vegamálum.
Um fátt mun mönnum tíðræddara sem stendur, að minnsta kosti sumstaðar á landinu, en um agnúa þá, er séu á vegagerðarmálum vorum, sérstaklega á meðferð þess mikla fjár, er til vegabóta er veitt af landsfé.
Tilefnið til þess umtals nú er vitanlega öðru fremur málshöfðunin gegn einum vegabótaverkstjóra landssjóðs, sem nýlega hefur verið dæmdur sekur af undirrétti fyrir eina af yfirsjónum þeim, er hann var sakaður um. En annars verður ekki sagt, að óánægjan með fyrirkomulag og rekstur vegabótamálanna sé með öllu ný bóla.
Yfirskoðunarmenn landsreikningsins gerðu á síðasta ári þá athugasemd við ávísun vegabótafjárins úr jarðabókarsjóði, að hún hafi “farið þannig fram, að það má heita ókleift með öllu að finna samræmi milli sundurliðunar vegakostnaðarins í jarðabókarsjóðsreikningnum og í landsreikingnum, og þó er það alveg nauðsynlegt og að okkar skilningi vel framkvæmanlegt, að jarðabókarsjóðsreikningurinn beri með sér og sé samhljóða landsreikningnum í því, til hvers hverri útborgaðri upphæð hafi verið varið, en það yrði með því, að ávísanir landshöfðingja upp á féð væru ávallt glöggt og rétt orðaðar í þessu tilliti. Við höfum áður í landsreikninga athugasemdum okkar tekið þetta sama fram, en þó er eigi síst ástæða til þess nú við þennan reikning”.
Af svari landshöfðingja má ráða, að hann hefur talið þessa athugasemd eða aðfinnslu á rökum byggða.
Í þingræðum komu og fram í fyrra alvarlegar athugasemdir viðvíkjandi þessu máli. Meðal annars, þótti það ísjárvert, að allmikið fé væri fengi í hendur einstökum mönnum, sem naumast hefðu næga þekkingu, sumir hverjir, til þess að gera góð reikningsskil, enda væru þau óglögg hjá þeim og illt að átta sig á þeim. Verkstjórar sýni ekki næg rök fyrir því, að féð gangi í raun og veru allt til þess, sem ætlað er.
Þá var og kvartað undan því, að kostnaðurinn við vegabótarvinnu mundi vera óþarflega hár. Verkstjórar legðu til alla hestana og fengju fyrir þá 70-80 kr. um sumarið, sem væri of há leiga, þar sem góða vagnhesta mætti fá keypta fyrir 80 kr. Stundum fengju og verkstjórar hesta leigða hjá bændum, en það kæmi hvergi fram, hvort leigan, sem tilfærð væri í landsreikningnum, væri hin sama og leigan, er bændur fengju.
Agnúar þóttu og á ráðningu verkamanna; oft veldust til vegabótavinnunnar slæpingar og flækingar, sem enga vinnu mundu fá hjá bændum, og í þjónustu landstjórnarinnar fengju þeir hærra kaup en bændur annarra gæfu sínum nýtustu mönnum. All mikilsverð árétting þessara hliðar á málinu kemur og fram í dómi þeim sem áður er um getið, þar sem dómarinn kemst svo að orði:
“Það hefur tíðkast allmikið eftir því sem upplýst er, að ýmsir menn hafa ráðið verkamenn til ákærða, ekki aðeins vinnumenn sína, heldur og aðra, sem þeir hafa tekið einungis til þess að koma þeim í vinnuna; hafa menn þessir tekið til sín vegavinnulaunin, en goldið verkamanninum umsamið kaup, og hirt sjálfir mismuninn. Ákærða var kunnugt um, að slíkar mannaráðningar áttu sér stað, enda áleit hann þær leyfilegar, ef verkamönnunum væri eigi greidd hærri daglaun en ætla mætti að þeir ynnu fyrir, og hugði jafnvel að sér væri sjálfum heimilt að ráða verkamenn á þennan hátt fyrir sinn eigin reikning”.
Athugasemdum þeim, sem fram komu í þessu máli á þingbekkjunum, og hér hefur verið frá skýrt, var alls engu svarað af landsstjórnarinnar hálfu, svo vér munum. Enda virtist og gengið að því vísu, að með þessu fyrirkomulagi, sem nú ætti sér stað, mundi landstjórninni um megn að hafa nægilegt eftirlit með þessum málum.
Sjálfsagt er því líka svo farið. Því fer mjög fjarri, að ástæða sé til að ætla annað en að landsstjórnin vilji forða landssjóði frá því, að nokkur eyrir sé ranglega af honum hafður. En sannleikurinn virðist vera sá, að fyrirkomulagið er miðað við það, er fjárveitingar til vegabóta voru margfalt minni en þær eru nú orðnar. Áin þarf vitanlega víðari farveg, þegar vatnsmagnið í henni hefur sjöfaldast eða tífaldast. Vegabæturnar þurfa að sjálfsögðu víðtækari umsjón og eftirlitið verður örðugra, þegar farið er að veita til þeirra 80-90 þúsundum á ári, en meðan menn létu sér nægja svo sem 10 þúsundir, eins og átti sér stað fyrir tiltölulega fáum árum.
Að hinu leytinu liggur í augum uppi, að svo búið má ekki standa. Engin von er til þess, að þjóðin uni því að hún sé féflett árlega og það í þeim efnum, sem hún getur sjálf þreifað á. Margir þeir, sem ekki vilja láta sér skiljast, að stjórn vor sé neitt vítaverð fyrir það að baka oss tjón, sem numið getur og numið hefur hundruðum þúsunda, taka sér það að sjálfsögðu nærri ef sumarleiga sem landssjóður greiðir eftir eina bikkju, er eitthvað of há, eða ef landsmenn hafa landssjóð á einhvern annan hátt að féþúfu. Og síður en ekki er það ámælisvert, að þeir gera sér rellu út af því tjóni, sem þeir láta sér skiljast, þó að hins væri jafnframt óskandi, að skilningur þeirra á landsmálum væri víðtækari.
Vandinn er þá þessi, hvernig við lekanum verður (ólæsilegt orð). Flestir virðast ganga að því vísu, sem vér höfum heyrt á málið minnast, að ekki sé til þess ætlandi af landshöfðingja, að hann geti haft svo nákvæma umsjón með þessum málum, sem þörf er á.
Miklu eðlilegra virðist og fyrir ýmsra hluta sakir, að setja slíka yfirumsjón í sambandi við störf landsverkfræðingsins. Ekkert verulegt virðist því til fyrirstöðu, að haldin sé opin skrifstofa hans hér, þó hann sé sjálfur í ferðalögum. Sá eða þeir, sem þar yrðu skipaðir, ættu þá, undir yfirstjórn hans, að gera tillögur um vegabætur, að því leyti, sem þær eru á landsstjórnarinnar valdi, og hafa umsjón með mannaráðningum, hesta og áhaldaútvegun og fjárgreiðslum öllum. Sjálfsagt væri, að hafa verkstjórana að ýmsu leyti í ráðum með. En á þennan hátt ætti að vera unnt að tryggja landssjóð gegn flestum eða öllum þeim misfellum, sem hingað til hefur verið kvartað undan. Að svo miklu leyti, sem skrifstofa þessi gæti ekki til náð, fjarlægðar vegna, mundi hún leita samvinnu hjá þeim yfirvöldum, sem hentugast væri við að eiga, líkt og póstmeistari gerir.
Auðvitað mundi þessi breyting ekki verða kostnaðarlaus. En öll líkindi eru til þess, að landssjóður hafi þegar orðið fyrir miklu meiri halla en sem kostnaðaraukanum nemur, fyrir illa meðferð á vegabótafénu og of lítið eftirlit. Vel getur og verið, að ráða megi bót á misfellunum á einhvern annan hátt en hér er á minnst. En hætt er við, að það verði aldrei gert til hlítar nema með einhverjum kostnaðarauka.


Ísafold, 7. júlí, 1900, 27. árg., 44. tbl., bls. 174:
Í fréttabréfi að austan segir að efnið í Lagarfljótsbrúna sé nú komið á Eskifjörð.

Lagarfljótsbrúin.
Skrifað er að austan, að efnið í Lagarfljótsbrúna sé komið á Eskifjörð og hefur konsúll C.D. Tulinius tekið að sér flutning á efninu upp á Hérað, um Fagradal; hann ætlar að aka því gegnum dalinn og hefur látið ryðja veg í því skyni, akbraut, eftir honum öllum. Við riðum hann nokkrir 29. maí – segir sá sem þetta skrifar – og var hann þá allur runninn; en ekki sást um það leyti nema á hæstu vörðu á Fjarðarheiði (Seyðisfjarðar), og 16. júní var ekki kominn þar upp nema stöku varða. Hún verður líklegast runnin seint í næsta mánuði (júní), af því að nú er steypirigning dag hvern.


Fjallkonan, 9. júlí, 1900, 17. árg., 26. tbl., bls. 2:
Ferðamaður kvartar undan Flóaveginum milli Þjórsár og Ölfusár og gefur landsverkfræðingi góð ráð.

Flóavegurinn.
Flestir sem um veg þennan fara, sem liggur yfir Flóann milli brúnna (Þjórsár og Ölfusár) dæma ekki öðruvísi um hann en að hann sé lítt fær, hvort heldur sem er fyrir lausa hesta eða klyfjaða, nema þá því aðeins, að snjór sé yfir honum.
Þessi vegur er alveg nýgerður, en gallinn er, að ofaníburður sá, sem í hann var hafður, er svo laus fyrir, að þegar hann þornar hefur hann rokið jafnóðum í burt og af þeim ástæðum hefur “púkkið” jafnskjótt losnað upp; er hann því yfirferðar engu betri en hraungata full af smágrjóti, því að hestar geta hvergi stigið annars staðar en á hnullungssteina frá því skammt fyrir austan Ölfusárbrú og á móts við Hraungerði; úr því eru smákaflar í honum heldur skárri.
Allir þeir ferðamenn, sem ég hef talað við, kvarta sáran yfir því, að geta ekki brúkað svo góðan veg, sem hann í fyrstunni var talinn. – Svo væri vel trúlegt, að hann yrði ógreiður fyrir póstvagninn, ef hann á að fara í viku hverri eftir honum.
Að fá góðan ofaníburð og laga þennan veg eins og með þyrfti mundi kosta æði mikið fé, og líklega ekki hægt sem stendur, því erfitt verður að fá reglulega góðan íburð, en að bæta veginn, svo hann yrði brúklegur, mundi ekki kosta mjög mikið fé. Ætti þá að ryðja öllu grjóti bæði smáu og stóru af honum, sem þar liggur laust, og er algjörlega gagnslaust, nema ferðamönnum og hestum þeirra til tálmunar.
Þetta gæti bætt veginn mikið í bráðina, en ef til vill yrði það ekki til langframa.
Auðvitað væri æskilegast, að vegurinn væri bættur það, sem þörfin krefur, en af tveimur fjárútlátum, sem af því mundu leiða, tók ég hér þau minni.
Allur almenningur, sem veg þennan þarf að nota, að meira eða minna leyti, óskar svo góðs af þeim sem yfir vegum og brúm eiga að ráða hér á landi, að þeir ráði einhverja bót á þessu.
Á Jónsmessudag 1900.
Ferðamaður


Þjóðólfur, 13. júlí, 1900, 52. árg., 33. tbl., bls. 130:
Sigurður Thoroddsen svarar gagnrýni “Þórarins Jóhannsonar” og Tryggva Gunnarssonar bankastjóra, sem hann gefur í skyn að séu jafnvel einn og sami maðurinn. Þá hneykslast hann í lok greinarinnar á því að tillögur verkstjóra séu teknar fram yfir tillögur verkfræðinga.

“Þórarinn Jóhannsson” og Tryggvi Gunnarsson.
Í 19. tölublaði Fjallkonunnar þ.á. er grein eftir “Þórarinn Jóhannson” með fyrirsögninni “Andhæli”, sem ég álít mér skylt að svara nokkrum orðum, ekki vegna þess, að ég sé hræddur um, að nokkur skynsamur maður taki mark á því, sem í Fjallkonunni stendur nafnlaust eða með dularnafni – og Þórarinn Jóhannson (verkamaður) er aðeins dularnafn – heldur vegna þess, að hér kemur fyrst fram opinberlega árangurinn af margra ára rógburði eins manns um mig – Tryggva bankastjóra Gunnarssonar – og ég fæ því tækifæri til þess að sýna fram á bankastjórans sannleiksást og samviskusemi í árásum hans á mig.
Hvaða ástæðu hann hefur haft til þess að vera alltaf að narta í mig, veit ég ekki. Ég veit ekki til, að ég nokkru sinni hafi gert honum nokkurn hlut til miska.
Hvort ég á að njóta bróður míns Skúla, sem honum er illa við – og hann hefur þorað betur til við mig en hann – eða á ég að njóta þess, að ég er ingenieur, en hann þóttist áður – og þykist víst enn – Íslands “pontifex maximus” í þeirri list, er mér ókunnugt um.
En sleppum því með ástæður hans.
Svo mikið er víst, að hann hefur alltaf verið á eftir mér, bæði utan þings og innan, en sérstaklega hefur hann þó verið að rægja mig á þingi við þingmennina, af því hann hefur haldið að þar gætu áhrifin orðið skaðlegust fyrir mig. Þar hefur hann komið með ýmsar ósanninda- og þvaðursögur um mig, sem svo ómerkingurinn í Fjallkonunni hefur tekið upp að miklu leyti, en bætt dálitlu við frá eigin brjósti.
Ein sagan, sem Tryggvi sagði var sú, að það hefði átt að vanta sement við Blöndubrúna, svo að hætta hefði orðið við verkið í miðju kafi. Þetta er bara slúður; það var nægilegt sement til þess að ljúka við það af stöplunum, sem ég ætlaðist til að búið væri það sumar – sumarið 1896 – því að það var ekki hægt né heppilegt að hlaða efstu lögin af stöplunum fyrr en um leið og járnbrúin væri sett á, sem varð næsta sumar (1897). Vinnan hætti sumarið 1896 ekki fyrr en seint í september, þegar næturfrost voru farin að koma og verra að eiga við múrsmíði.
Þá ber Tryggvi það á borð fyrir þingmenn, að það hafi verið allt mér að kenna, að akkerisstöpullinn annar á Þjórsárbrúnni reyndist of léttur á vígsludeginum og hafi “hótað hundruðum manna bráðum bana”, eins og stendur í nefndri Fjallkonu grein.
En þetta mál var þannig vaxið, að íslenska ráðuneytið í Kaupmannahöfn samdi að öllu leyti um brúargerðina við ensku verksmiðjuna Vaughan & Dymond, lét gera í útlöndum undir umsjón teknísks ráðunauts síns (Windfeld-Hansen) teikningar allar og útreikninga. sem það svo samþykkti. Mitt hlutverk var því aðeins að sjá um, að verkið væri gert vel og samviskulega eftir þeim teikningum sem fyrir lágu. Sumarið 1894 voru stöplarnir hlaðnir, en þá hafði ég enn ekki fengið neinar teikningar frá ráðuneytinu. Sumarið 1895, þegar járnbrúna átti að leggja á stöplana fékk ég teikningarnar og gat þá fullvissað mig um, að stöplarnir voru eins og teikningarnar sögðu fyrir, aðeins voru aðalstöplarnir að austanverðu of lágir, og voru þeir strax snemma um sumarið hækkaðir eins og vera átti. Mér datt alls ekki í hug að rengja útreikninga útlendu ingenieuranna, og fann enga ástæðu til að reikna út styrkleika og þyngd stöplanna fremur en hvers smá-járnstykkis, sem í brúnni var. Það var fyrst eftir að annar akkerisstöpullinn, vígsludaginn, lyftist um 1-2 þumlunga upp, að ég fór að athuga og reikna út þunga akkerisstöplanna og fann þá, að þeir voru helst til léttir, til þess að geta staðist þann mesta þunga, sem á brúna gat komið. Ég þykist því enga sök eiga á því, að svo tókst til, heldur var það yfirsjón ráðunauts stjórnarinnar í K.höfn að kenna, sem gerði eða samþykkti teikningarnar.
Þegar jarðskjálftarnir miklu gengu hér á Suðurlandi og Ölfusárbrúin skemmdist; 3-4 uppihaldsstengur hrukku í sundur, stöpull undir trébrúnni austanvert við aðalbrúna hrundi m.m., brá Tryggvi sér austur og kom svo eftir á með þá speki í Ísafold, að klöppin undir vesturstöpli Þjórsárbrúarinnar hefði verið margsprungin, þegar brúin var byggð, af því að hann sá, að klöppin var sprungin nokkuð fyrir framan stöplana eftir jarðskjálftana. Það er lagleg ályktun hjá bankastjóranum, að af því að jarðskjálftarnir hafi sprengt nokkuð framan af klöppinni og eitt stöpulhornið því standi nokkuð tæpt nú, að þá hafi brúin hlotið að standa tæpt, þegar hún var byggð. Nei – klöppin var heilleg og það var 1-2 faðma þrep fyrir framan vesturstöplana sumarið 1895, en bankastjórinn gat þess alls ekki, að hornið á vesturstöpli Ölfusárbrúarinnar stóð og stendur fram af klöppinni, því að það mátti ekki kasta neinum skugga á óskabarnið.
Þá sagði T.G. ennfremur oft á þingi, að ég hefði ekki viljað skoða Bessastaðatjörn í því skyni að gera áætlun um kostnað við þilskipakví. – Þetta er í sjálfu sér ómerkilegt mál, því að það hefði ekki verið svo stórvægileg synd, þótt ég hefði ekki viljað hlaupa eftir því, sem Tryggvi vildi gera láta, því að ég var alls ekki skyldugur til að skipta mér neitt af því. – En það undarlega var, að ég ætlaði að gera þetta fyrir Tryggva og ætlaði að fara með honum suður eftir einhvern tíma við stórstraumsfjöru, því að þá var best að skoða tjörnina.
Einn góðan veðurdag – það var í apríl 1897, rétt fyrir páska að mig minnir – sagði ég við T., að nú skyldi ég koma með honum; en hann var þá eitthvað vant við látinn, og vildi heldur geyma það hálfan mánuð enn – til næstu stórstraumsfjöru. – Þegar hann svo að hálfum mánuði liðnum vildi fara, gat ég ekki farið sökum lasleika, ég hafði fengið “Bronkitis” og læknirinn réð mér frá að fara. – Undireins og ég varð frískur þurfti ég að fara norður til Blöndubrúarbyggingarinnar. – Út úr þessu býr svo Tr. það til, að ég hafi ekki viljað fara, og notar það til að sverta mig í augum þingmanna, og þetta er því lúalegra, þar sem ég var fjarstaddur og gat ekki borið hönd fyrir höfuð mér.
Nokkur fleiri atriði eru nefnd í Fjallkonugreininni, sem Tr. hefur ekki enn komið fram með í þingsalnum, en ég geri ráð fyrir, að þau finnist samt öll – og meira til – í þykku bókinni, sem hann sagðist geta fyllt með mínum ingenieur-syndum.
Þessi atriði eru mestmegnis ekki annað en rangfærslur og ósannindi.
Til dæmis má taka, þar sem sagt er, að breytt hafi verið stefnu þeirri, er ég hafi ætlað veginum frá Kolviðarhóli upp á Hellisheiði. – Það er sá fótur fyrir þessu, að ég breytti sjálfur ofurlitlum spöl á þessum vegarkafla – 2-300 föðmum – eftir að ég hafði fengið aðrar upplýsingar en áður um snjóþyngsli og vatnagang.
Ennfremur er sagt í greininni, að Hörgá hafi “velt brúnni af sér”; það veit ég eigi, hvernig hefur getað átt sér stað, þar sem engin brú hefur ennþá verið lögð yfir ána og ekki einu sinni járnið í hana kom fyrr en í vetur. – Það sem höfundurinn á við, og rangfærir svona, er líklega það, að það gróf í óvanalega miklum vatnavöxtum undan einum af 4 stöplunum, ekki hálfgerðum og nenni ég ekki að taka hér upp aftur það, sem ég skrifaði um það í Stefni í sumar sem leið, en læt mér nægja að vísa til þess.
Þá minnist höfundur Fjallkonugreinarinnar á tillögur mínar viðvíkjandi Öxarárbrúnni og Holtaveginum og finnur mér það til foráttu, að þeim tillögum mínum var ekki fylgt; en fyrst er að sanna það, að hinar tillögurnar, sem fylgt var, hafi verið betri en mínar; það er ekki alltaf réttast það, sem sigrar eða verður ofan á, og þó að verkstjórinn (E.F.) segi t.d., að Öxarárbrúin hafi orðið ódýrari en ég áætlaði, þá veit maður það eftir þeim prófum, sem í hans sakamáli hafa verið haldin, að öll hans reiknisfærsla hefur verið í vitleysu og á ringulreið; það er því ekki óhugsandi, að það hafi komið einhver ruglingur á reikninga hans viðvíkjandi Öxarárbrúnni og vegagerðinni á Mosfellsheiði, sem hann hafði umsjón með um sama leyti, og eitthvað frá Öxarárbrúnni hafi slæðst inn í Mosfellsheiðarreikningana, og þess vegna hafi brúin orðið svona ódýr.
Það, að mínum tillögum var ekki fylgt heldur verkstjórans, sýnir aðeins það, hvað Íslendingar eru skammt komnir áleiðis í því verklega, og hvert ólag er á vegastjórninni, eins og henni er nú fyrir komið.
Það myndi aðeins þykja hlægilegt í öðrum menntuðum löndum, ef einhver héldi því þar fram, að taka ætti fremur til greina tillögur verkstjóranna, ómenntaðra alþýðumanna, en tillögur ingenieuranna.
Og til hvers eru þá Íslendingar að hafa nokkurn lærðan ingeniur? Það væri þá heppilegra að gera einhvern verkstjórann eða alla verkstjórana að ingenieurum, en sleppa hinum “stofulærða” það spöruðust nokkrir skildingar við það; en annað mál er það , hvort Íslendingar ekki með því laginu spöruðu skildinginn en köstuðu burt krónunum, já þúsundunum, sem töpuðust við vitlausa vegalagningu og vitlaust fyrirkomulag á vegamálunum.
Reykjavík 8. júlí 1900.
Sig. Thoroddsen.


Austri, 16. júlí, 1900, 10. árg., 23. tbl., bls. 88:
Hér er fjallað um fund sýslunefndar Suður-Múlasýslu þar sem m.a. var útdeilt fé til framkvæmda við sýsluvegi.

Útskrift úr gjörðarbók sýslunefndar Suður-Múlasýslu.
.. Lagðar fram álitsgerðir um alla sýsluvegi í Suður-Múlasýslu, og kynnti sýslunefndin sér þessar álitsgerðir rækilega og fannst þær allar mjög sanngjarnar utan álitsgerðin úr Breiðdalshreppi, sem sýndi að skoðunarmennirnir höfðu algjörlega misskilið hlutverk sitt. Reikningar yfir þessar álitsgerðir voru framlagðir og samþykktir.
Sýslunefndarmaður Norðfjarðar bar fram uppástungu um að sýsluvegurinn af Oddskarði og niður til Norðfjarðar, sem nær niður að Blóðbrekku, verði framlengdur út að Nesi og var það samþykkt í einu hljóði. Allur vegurinn frá Eskifirði að Nesi í Norðfirði er því hér eftir sýsluvegur.
Sýslunefndarmaður Reyðarfjarðarhrepps varð veikur er hér var komið og vék því af fundi; í hans stað tók setu á fundinum varasýslunefndarmaður þess hrepps.
.. Rætt var á ný um hina fyrirhuguðu akbraut á Fagradal og lét nefndin í ljós eindreginn áhuga á málinu og samþykkti að skrifa landshöfðingja þar að lútandi til þess að koma málinu sem fyrst á rekspöl.
.. Var ráðstafað sýsluvegasjóðsgjaldi þ. árs.
Tekjur.
1/2 sýsluvegasjóðsgjalds kr. 600
Gjöld.
1. Til tjalds 20
2. Til Örnólfsskarðs 350
3. Til vegar frá Rangárferju að Gilsárteigsklifi 50
4. Til vegar innan Hallormstaðarháls 30
5. Til vegar undir Hátúni 60
6. Til vegar frá Hesteyri að Rima 40
7. Til vegar fyrir utan Björg í Reyðarfirði 50
Samtals kr. 600
.. Jóni Ísleifssyni falið á hendur að stjórna vegavinnu í Örnólfsskarði en sýslunefndarmönnum falið að sjá um hinar vegagerðirnar hverjum í sínum hreppi.
Oddvita sýslunefndar veittar 20 krónur fyrir ritföng, afskriftir og fleira.
Borgað fyrir húslán og átroðning við fundarhaldið kr. 75


Ísafold, 21. júlí, 1900, 27. árg., 47. tbl., viðaukablað:
Á sýslufundi Kjósar- og Gullbringusýslu var m.a. tekið á ýmsum vegamálum.

Sýslufundargerðir Kjósar- og Gullbringusýslu.
.. Oddvita falið að annast um, að allar hreppsnefndir í sýslunni sendi reikninga hreppavegasjóðanna fyrir 1899, og framvegis árlega; og var oddvita ennfremur falið að úrskurða reikningana fyrir 1899.
Samþykkt að veita til vegabóta komandi sumar:
Til brúarinnar við Rósuselsvötn kr. 30
Til lagfæringar á veginum á Njarðvíkurfitjum 60
Til lagfæringar veginum um Reiðskarð 45
Til brúarinnar við Latarholt 65
Til vegagerðar frá Hafnarfirði út á Álftanes 800
Var sýslunefndaroddvita ásamt sýslunefndarmönnum Garða og Bessastaðahreppa og hreppsnefndum þeirra falið að koma vegagerðinni á Álftanesi til framkvæmda. Í hinum hreppunum annast sýslunefndarmaður hreppsins vegabótina.
Var samþykkt að sýsluvegakafli sá, er legið hefur frá Selskarði að Brekkuhliði, verði færður þannig, að hann verði lagður frá Selskarði að Bessastaðagranda, og þannig sameinaður hreppavegi þeim er þar liggur að Bessastöðum og á Norðurnesið.
Hreppsnefnd Garðahrepps veitt heimild til að taka allt að 750 kr. lán upp á hreppsvegasjóð hreppsins, gegn ábyrgð sýslunefndarinnar.


Austri, 24. júlí, 1900, 10. árg., 25. tbl., forsíða:
Hér birtist bréf til Austra frá Páli Jónssyni vegaverkstjóra og fjallar það um þann mun sem er á vegagerð Norðmanna og Íslendinga. Páll fór til Noregs til að kynna sér þarlenda vegagerð og vill Páll meina að þar sé góða fyrirmynd að finna.

Bréf frá Páli vegfræðing Jónssyni.
Háttvirti ritstjóri!
Næstliðið haust gat ég þess, að ég vildi fara með farfuglunum, þó ekki lengra en til Noregs, og vita hvers ég yrði vísari í vegagerðum, sem einnig gæti komið hér að liði.
Nú er sumarið komið og farfuglarnir, sem með endurnýjuðum kröftum, hver eftir sínum efnum, syngja um dásemd og dýrð.
Ég er og kominn, vildi feginn geta tekið undir í mínum verkahring og sungið um framför og framfaravon.
Því skal eigi neitað, að ýmislegt bar fyrir augu, sem gaf efni í endurnýjaðan kraft, en sökum mismunandi loftslag með fl., þá verður ekki sungið í sama tón hér og þar (í Noregi). Er ég þó ánægður með för mína og verslun, því fremur hef ég nú von um en áður að ná laginu (verða ekki hjáróma), og vel sé þeim sem leitar sér upplýsinga í sinni eigin grein og framleggur sína krafta, hann hefur von um að ná fram í baráttunni við tilveruna.
Það er enginn efa á að vér ættum að fylgja meginreglum Norðmanna í vegagerðum; það var líka byrjað í þá átt fyrir 15-16 árum, þá var fenginn norskur vegfræðingur með 4 verkamönnum; þeir byggðu eftir þeim lögum, reglum og formum sem tíðkuðust þá í Noregi, allt fór vel og man ég ekki til að neitt hafi verið kvartað undan þessu fyrirkomulagi, enda engin ástæða til þess, þegar hér er jafnað saman vorum eldri vegagerðarreglum; en síðan hefur setið við það sama, ef ekki heldur snúist í gamla horfið. Því skal þó eigi neitað, að þingið hefur sýnt að það vill áfram í þeirri grein, bæði í framkvæmd og stjórn, en því miður hefur viðleitnin ekki borið jafn mikinn ávöxt sem vænta mátti. Þó má ekki eingöngu gefa þinginu það að sök eða stjórn þeirri sem það hefur valið, allt hefur sínar orsakir og skal ég lauslega minnast á þær sem mér virðast helstar.
Þess er áður getið, að Norðmenn byggðu hér eftir sínum lögum og reglum, en hver voru þau? Svo lítur út sem þau séu öllum hulin, og ef svo er, þá er annað auðveldara en að byggja lög og reglur í líkingu við þau sem aldrei hafa heyrst eða sést; svo er og lítil ástæða fyrir þingið að verja kröftum sínum og tíma til að semja lög í þeirri grein, sem ekki er frekar kvartað undan lagaleysi en hér á sér stað.
Í vorum vegagerðarverkahring er ég mínum (sem verkstjóri) kunnugastur, og séu reglur hér bornar saman við þær í Noregi, þá eru þær þar hér um bil á þessa leið: Verkstjóri gefur allar nauðsynlegar reglur um byrjun og framhald vinnunnar, samkvæmar gildandi lögum, samþykktum, formum, höfuðreglum og ákvörðunum frá yfirverkfræðingi. Hér eru ekki slíkar reglur eða form, sem verkstjóri fylgir eða getur rétt sig eftir, og verður því ekki annað sagt en það sé hrópandi vöntun á reglum líkt og Skougaard skrifstofustjóri í vegastjórnardeildinni í Noregi sagði um mótsetningarnar í vegaviðhaldsreglum Norðmanna og Frakka 1895: “Lagaleysi og regluleysi hefur bakað oss mörg þúsund króna tap auk annarra óþæginda”. Hér er þó ekki hægt (og á jafnvel ekki við) að ræða um vegareglur Norðmanna í heild sinni. Vil ég aðeins nefna fá atriði, sem mér virðist að þurfi að ræðast sem allra fyrst, og er þá´:
. Vegstefnan. Um vegstefnuna hjá Norðmönnum stendur meðal annars: Til að fá æskilegt framhald, þá verður að þekkja nákvæmlega hvar vegastefnan er best komin. Á þessu sést að búið á að vera að ræða um það, hvar vegurinn á að liggja áður en verkið er byrjað; en hjá oss hefur ágreiningurinn byrjað með verkinu eða ekki fyrr en það er á enda, þá kemur fyrst upp að vegurinn er á allt öðrum stað en hann átti að vera; allir sjá hver óþægindi þetta eru fyrir hlutaðeigandi og ekki síst fyrir verkstjóra, sem kemur samtímis verkamönnum í óþekkt byggðarlög og verður undir öllum kringumstæðum að byrja verkið án allra rannsókna eða annarra upplýsinga um vegstefuna.
. Þá kemur vegformið. Auðvitað byggir hver eftir sínum hugsunarhætti. Hér skal aðeins minnst á vegbreiddina, sem hefur svo afarmikla þýðingu að vegurinn sé ekki hafður óþarflega breiður, eða sé svo mjór að það komi í bága við vanalega umferð. Í undanfarin ár hef ég haft vegabreiddina 9 fet, þegar vegagerðin er í nokkru samhengi og ekki verður annað álitið en vegurinn verði notaður sem klyfjavegur, þó geta kerrur mæst á þessari breidd. Þegar engin aðalstefna er valin önnur en fylgja gamla veginum, sem upphaflega var myndaður af hestunum, og vegagerðin eða réttara vegabótin er í smá pörtum, þá hef ég haft breiddina aðeins 6 fet, t.d. í Norðurárdal í Skagafirði. Áðurnefnd 9 feta breidd á klyfjaveginum á nú að vera búin að sýna hvort hún er fullnægjandi í þeim byggðarlögum sem hún er, sé hún það, þá sjást ekki ástæður sem mæla á móti því að hún væri samþykkt, þegar aðalvegstefnan er ákvörðuð fyrirfram. Það getur verið að vagnvegir verði að vera breiðari – 4 metra eða 12 fet álít ég þó óþarfa – en þess má geta, að með umferðinni og aldrinum breikkar vegflöturinn.
. Vegbyggingin. Í Noregi er vegurinn byggður með steinaundirlagi (púkki) og hann álitinn því ódýrari sem “púkkið” er sterkara (það er að skilja þegar til viðhaldsins kemur). Það hefur líka verið byggt hér með “púkki” nokkur undanfarin ár hjá einum verkstjóranum, en hvort þar verður áframhald og önnur félög byrja á því er efasamt. Það eru þó allar líkur til að sama reyndin verði hér allstaðar með “púkk”vegi að öðru en því sem minnst er á í Bjarka IV. Nr. 45; það ætti þó ekki að standa í vegi, því ef það virðist ógerningur að fyrirbyggja slíkt, þá er ekki óhugsandi (engin sönnun) að byggja mætti svo að það hefði ekki stórspillandi áhrif, einkum þar sem gott byggingarefni væri við hendina (sjá “Ísafold” XXVII, nr. 1), en telja má það vísast að viðhaldið verði dýrara en ella og vegurinn endingarminni. Því verður ekki neitað að bygging “púkk”vega verður dýrara en malarvega, þó getur það fyrirkomið, á köflum, að “púkk” verði ekki dýrara, þegar efni er við hendina og erfitt með möl, sem oft á sér stað, enda farið að horfa til vandræða með möl til viðhalds á vorum eldri vegum, þó ekki sé langt um liðið. Það er því hugsun mín, að það ætti að minnsta kosti að byggja með “púkki” þar sem efni í það er við hendina og útlit fyrir vöntun á möl til viðhalds í framtíðinni, en auðvitað krefur verkið lengri tíma.
. Vinnureglur. Í Noregi er vegavinnan unnin í “akkorðum” (forsagt Arbeide), og því bækur og blöð stíluð eftir því, en hér er aftur á móti unnið fyrir daglaun. Báðar þessar reglur hafa mikið við að styðjast, og einnig hvor sína skuggahlið. Ég hef álitið, að daglaunavinnan væri sú réttlátasta bæði fyrir vinnuveitendur og vinnumenn, en reynslan er farin að sýna að hún er eigi svo heppileg sem skyldi, og jafnvel engu betri viðfangs en “akkorðs”vinnan, þó eru engar líkur til að breytt verði um vinnureglur fyrst um sinn, því “akkorðs”vinna krefur nákvæmari áætlun um kostnaðinn en vér höfum nú fyrir hendi, og þó skýrslur Norðmanna getið mikið hjálpað í þessari grein, þá eru þær ekki fullnægjandi sökum mismunandi vinnulags m.fl.
. Stjórnin. Samvinna og sambönd milli verkstjóra og yfirverkfræðings þurfa að vera mikil og góð, og án þess verður verkstjórnin meira eða minna ófullkomin, hér ræði ég ekki meira um þetta samband.
Margt væri fleira á að minnast, svo sem viðhald vega, brúargerðir, góða akvegi o.fl., en nú hef ég kvakað á greininni um stund og verð að fljúga burt að sinni; getur verið að ég kvaki aftur ef tími leyfir og ég hef von um að það hafi einhvern árangur.
Þess skal getið við þá, sem vilja ræða um þetta mál og ætla að byggja skoðanir sínar um það á vegareglum Norðmanna, þá hef ég í hyggju, að afhenda þær sem ég hef fengið til landshöfðingja.
Virðingarfyllst
Páll Jónsson


Ísafold, 28. júlí, 1900, 27. árg., 47. tbl., bls. 186:
Amtsráðsfundur í Vesturamtinu tók ákvarðanir um ýmiss vegamál.

Amtsráðsfundur í Vesturamtinu.
.. Ennisdalsvegur í Snæfellssýslu samþykkti amtsráðið að felldur skyldi úr tölu sýsluvega.
Samþykkt var, að Dalasýsla mætti taka 6000 kr. lán upp á sýslusjóðinn til vegabóta og brúagerða í sýslunni.
Til gufubátsferða um Ísafjarðardjúp samþykkti amtsráðið að verja mætti þetta ár 550 kr. af sýsluvegagjaldi Norður-Ísafjarðarsýslu.


Ísafold, 28. júlí, 1900, 27. árg., 47. tbl., bls. 186:
Á amtsráðsfundi í suðuramtinu var talsvert fjallað um vegamál.

Amtsráðsfundur í suðuramtinu.
.. Samþykkt var 2000 kr. lántökuheimild fyrir Borgarfjarðarsýslur til vegagerðar um Leirársveit. Sömuleiðis 300 kr. lántökuleyfi til 5 ára handa sýslusjóði Gullbringu- og Kjósarsýslu til vegagerðar frá Hafnarfirði áleiðis að Görðum.
.. Amtsráðið lagði með málaleitun frá sýslunefnd Árnesinga um, að vegurinn frá Svínahrauni niður að Lækjarbotnum yrði sem fyrst varðaður og sömuleiðis að Mosfellsheiðarvegur yrði allur varðaður milli byggða.
Sama sýslunefnd vildi og fá gert við verstu torfærur yfir Grindaskörð. En amtsráðinu þótti vanta kostnaðaráætlun og beiðni um tiltekinn fjárstyrk.
Guðna Þorbergssyni, sæluhúsverði á Kolviðarhóli, veittur 150 kr. styrkur.
Samþykkt var, að sýsluvegurinn í Landmannahreppi og Holtahreppi skyldi liggja eftirleiðis frá Gömlu-Lækjarbotnum fyrir austan Holtsmúla og Köldukinn suður Marteinstungusnasir hjá Bjálmholti og þaðan beina leið á þjóðveginn vestanvert við Moldartungu; en að gamli sýsluvegurinn frá Lækjarbotnum að Hjallanesi út að Króki legðist niður.


Austri, 20.ágúst, 1900, 10. árg., 28. tbl., bls. 105:
Landshöfðingi með fylgdarliði skoðaði aðstæður í Fagradal og Fjarðarheiði og segir Austri að nú leiki enginn vafi á hvor leiðin verði fyrir valinu fyrir veginn af Héraði niður á Firði.

Fagridalur.
Landshöfðingi skoðaði nú, ásamt Tuliníusi sýslumanni, Thoroddsen verkfræðingi og póstmeistara Sigurði Briem o.fl. leiðina yfir Fagradal og Fjarðarheiði, og mun þeim helst enginn samjöfnuður hafa þótt þar á, svo að héðan af mun enginn efi vera á því, að akvegurinn úr Fljótsdalshéraði til Fjarða mun verða lagður eftir Fagradal að Reyðarfjarðarbotni, sem líka má heita lífspursmál fyrir Héraðsbúa.


Þjóðólfur, 26. október, 52. árg, 50. tbl., bls. 206:
Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur skrifar hér um Eyrarbakkaveginn og er ekki alls kosta ánægður með þessa vegagerð.

Um Eyrarbakkaveginn.
Í fyrravetur skrifuðu einhverjir bréfritarar úr Árnessýslu í bréf sín til “Þjóðólfs” og “Ísafoldar” fáein orð um veg þennan en af því frásögnin var sett innan um annað óviðkomandi, má vera, að því hafi ekki verið veitt eftirtekt. Þykir mér því rétt að biðja “Þjóðólf” fyrir fáeinar línur um það atriði.
Vegur sá, sem hér um ræðir, var fullgerður í fyrrahaust, og verður ekki annað sagt, en hann sé vandaður, þegar litið er til vega yfirhöfuð. Af þeirri stuttu reynslu, sem þegar er fengin, er það komið í ljós , að vegi þessum er þó ekki eins vel fyrir komið og æskilegt væri, og er þetta helst að: Fram á Breiðumýri er hann of lágur og ræsi of mjó og of grunn, en vatnsaðsókn mikil á nokkrum kafla. Fór þar ís yfir veginn í fyrravetur; hafa þó ísalög oft verið miklu meiri. Af þessu leiddi, að ofaníburður skolaðist í burtu á nokkrum stöðum. – Þegar upp að Stekkakeldu kemur, eða upp fyrir hið svonefnda Sandvíkurhús, er vegurinn hærri og ræsi víðari, enda bar þar ekki á offylli í skurðunum. – Eins og kunnugt er um Suðurland, er vegur þessi ákaflega fjölfarinn, bæði með lestir og vagna, hvort heldur er um sumar eða vetur, og án hans er nú ómögulegt að komast til Eyrarbakka eða Stokkseyrar, aðalkaupstaðanna austanfjalls; sjá því allir, að mjög ríður á, að viðhald vegarins sé gott og í tíma sé komið í veg fyrir þær skemmdir, sem vegurinn hlýtur að liggja undir, ef ekki er að gert.
Fyrst af öllu þarf að hreinsa upp úr skurðunum hnausa og rof úr stíflum eða brúm, sem látnar eru á skurðina og velta um, þegar rigningar ganga; hingað til hefur verið mikill brestur á, að þessa hafi verið gætt.
Annað atriðið er, eins og áður er sagt, að vegurinn er of lágur, jarðvegur yfir höfuð gljúpur og vatnsagafullur þar fram á mýrinni; þar hlýtur að mega til að víkka ræsi og dýpka, víkka um 2 fet, dýpka 1 fet og hlaða rofinu fyrir aðrennsli þar sem mest sækir að.
Púkkið í veginum sýnist vera vandlega gert, en það er ekki einhlítt, þegar ofaníburður ofan í það er slæmur, eins og þarna er á löngum kafla, (ofaníburðurinn víða runninn úr að mestu). Fyrir því virðist mesta nauðsyn á, að bera ofan í meiri hluta af vegi þessum að sumri komandi; mun þá ekki annað ráðlegra en sækja ofaníburð upp fyrir Ölfusárbrú eða niður á sjávarbakka. – Vitanlega er sá galli á hvorutveggja þessu, að leiðin er löng. – Samt virðist þetta liggja næst, þegar annarsstaðar á leið þessari fæst ekki nema fínn moldarsandur, er bæði fýkur úr eða rennur burt í leysingum. Í holtunum fyrir ofan Ölfusárbrúna er besti ofaníburður, fastur og haldgóður, og sé hann borinn ofan í vel púkkaðan veg, með nokkrum ofaníburði mun hann duga vel.
Í okt. 1900. S.T.


Ísafold, 3. nóvember, 1900, 27. árg., 67. tbl., bls. 266:
Hér segir frá vegagerð á Mýrum, en byrjað var á Stykkishólmsveginum frá Borgarnesi og stjórnaði Erlendur Zakaríasson verkinu.

Vegagerð á Mýrum.
Hr. Erlendur Zakaríasson er nýlega heim kominn frá sumar-vegasmíð sinni, sem unnin hefur í þetta sinn verið á Mýrum, upphaf Stykkishólmsvegarins fyrirhugaða frá Borgarnesi. Hann hefur komist í þetta sinn vestur að Urriðaá, 11 rastir eða nál. 1 1/2 mílu. Kafli þessi var versta ófæra, fen og foræði, og mikið af keldum; þurfti þar margar rennur, stórar og dýrar. En ofaníburður nógur nærri. Er nú þessi spotti alveg fullgerður, héraðsbúum til mikillar gleði; það eru meira en lítil viðbrigði fyrir þá, eftir ófæruna, sem þar var áður. Undir veginn þurfti að taka slægjuland dálítið frá 4 jörðum, Borg, Litlu-Brekku, Ánabrekku og Langárfossi, og voru eigendur og umráðamenn þeirra mjög vægir í endurgjaldskröfum, ólíkt því sem við hefur brunnið annarsstaðar – fáir staðist freistinguna til að rista sem breiðastan þvenginn af landsjóðshúðinni. Vegurinn var lagður um túnið á Borg, en ekkert tekið fyrir annað en girðing beggja vegna kostuð af landssjóði (200 kr.).
Kostað hefur vegarkafli þessi rúmar 20.000 kr. og er það nokkuð minna þó en áætlað hafði verið. Um sláttinn unnu að honum 40-50 manna, en 50-60 fyrir og eftir, allt að helmingi innanhéraðsmenn, en hitt vanir vegavinnumenn hér sunnan að. Kaupgjald það sama og áður, 2 3/4 – 3 kr. um sláttinn, en að vorinu nokkuð minna; unglingar 2 kr. Hestleiga 60 a. á dag.


Ísafold, 7 nóvember, 1900, 27. árg., 68. tbl., bls. 271:
Sagt er frá rannsóknarferðum Sigurðar Thoroddsen landsverkfræðings sumarið áður og koma þar m.a. við sögu mælingar á Austurlandi fyrir vegi milli Fjarða og Fljótsdalshéraðs, svo og brúargerð í Hörgárdal. Upphafi greinarinnar er sleppt, en þar er fjallað um hafnarmál.

Rannsóknarferðir mannvirkjafræðingsins.
Mannvirkjafræðingur landsins, hr. Sigurður Thoroddsen, hefur mikið ferðast í sumar og er nú nýkominn heim til fulls og alls fyrir veturinn.
.. En skömmu síðar, í áliðnum júní, fór hann austur í Vestur-Skaftafellssýslu út af ágreiningi þar eystra um vegarstefnu (ólæsileg tvö orð) verið veitt af landssjóði til póstleiðar milli Víkur og Steigarháls, og út af þeirri vegarlagningu skiftust héraðsmenn í tvo flokka. Annar hélt fram “nyrðri leiðinni”, sem svo er nefnd, upp Víkurdal; - hinum leist best á “syðri leiðina”, beint yfir Reynisfjall frá Vík. Erlendur Zakaríasson hafði farið austur, skoðað vegarstæðin fyrirhuguðu og litist betur á nyrðri leiðina. En héraðsbúar vildu ekki hlíta hans dómi og fóru þess á leit við landshöfðingja, að mannvirkjafræðingurinn væri látinn skera úr deilunni. Hann varð E.Z. sammála; syðri leiðin meðal annars brött og vegur dýr eftir henni. Að þeirri skoðun lokinni kom hann aftur til Reykjavíkur.
Svo lagði hann af stað 12. júlí norður og austur um land. Í Hörgárdal þurfti hann að koma við til þess að undirbúa þar starf við brúarlagningu, er fram átti að fara síðar á sumrinu, og hafði þar ofurlitla viðdvöl.
Þaðan hélt hann austur í Múlasýslur, til þess að rannsaka, samkvæmt ályktun Alþingis, vegarstæði milli Fjarða og Fljótsdalshéraðs, sérstaklega hvort hentugra mundi að leggja veginn um Fjarðarheiði eða Fagradal. Hann mældi þær leiðir báðar. En ekki vill hann að svo stöddu láta uppi, hvora leiðina hann leggi til að vegurinn yrði lagður. Fjarðarheiði er brattari og snjóþyngri, en jafnframt styttri.
Auk þess hafði þingið lagt svo fyrir, að hann skyldi skoða, hvort unnt væri að bæta innsiglingu í Lagarfljótsós. En til þess vannst honum eigi tími, með því að hann varð að vera kominn aftur í Hörgárdalinn á ákveðnum tíma. En eftir öllum þeim fregnum, sem hann fékk af ósnum, duldist honum ekki, að því aðeins yrði við hann gert, að stórfé væri til hans kostað. Ekki virtist honum heldur mikið á slíkri viðgerð að græða, með því að þar fyrir ofan eru miklir tálmar á flutningum eftir fljótinu, steinboginn og Kirkjubæjarfoss, og þyrfti mikinn kostnað nýjan til að gera fyrir þeim, annað hvort með vegalagningum eða flóðgáttum. Eðlilegast þótti honum, að góð akbraut yrði lögð milli Fjarðanna og Lagarfljótsbrúarinnar við Egilsstaði, og frá brúnni fari svo fram flutningar, bæði ofan eftir fljótinu að Kirkjubæjarfossi og upp eftir því. Af þeim flutningum hefði allt Héraðið gagn.
Úr Múlasýslum fór hann til Akureyrar með Ceres í miðjum ágúst. Þá var ákveðið, að halda áfram starfinu við Hörgárbrúarlagninguna. Aðal verkið þar var að hlaða stöpul á eyri einni í ánni, og var þar sérstök nauðsyn á vandaðri undirstöðu, 30 staurar reknir þar niður, 8 álna langir, pallur lagður þar ofan á og múrstöpull upp af honum. Áður höfðu þrír stöplar að miklu leyti verið fullhlaðnir. En verkið sóttist ógreiðlega í spetembermánuði vegna óvenjulegra rigninga og vatnavaxta. Í október var því haldið áfram, en ekki tókst að ljúka því, eitthvað mánaðarvinna eftir, og verður tekið til hennar svo snemma að vorinu, sem því verður við komið. Brúin er að hálfu leyti kostuð af landssjóði, en að hálfu leyti af sýslunni, og verður járnhengibrú með líkri gerð og Þjórsárbrúin og Örnólfsdalsbrúin. Járnið er komið á staðinn, og brúin verður lögð þegar hleðslunni er lokið.


Ísafold, 7. nóvember, 1900, 27. árg., 68. tbl., bls. 270:
Hér er sagt frá dómi yfirréttar í sakamálinu gegn Einari Finnssyni vegaverkstjóra en hann var ákærður fyrir fjárdrátt o.fl.

Sakamálið
gegn Einari Finnssyni vegfræðing var dæmt í yfirrétti í fyrradag og staðfestur héraðsdómurinn að öllu leyti, að viðbættum málskostnaði við yfirréttinn. – Hegning var 14 daga einf. fangelsi, auk málskostnaðar.


Fjallkonan, 10. nóvember, 1900, 17. árg., 44. tbl., bls. 2:
Hér er sagt frá vegagerðum s.l. sumar í Mýrasýslu, Borgarfjarðarsýslu og Norður-Múlasýslu.

Vegagerðir.
Í sumar hafa farið fram ýmsar vegagerðir á kostnað landssjóðs, og mun þeirra verða getið í þessu blaði.
Árni Zakaríusson vegagerðarmeistari stóð fyrir vegagerð í Mýrasýslu ofanverðri og Borgarfjarðarsýslu. Hann byrjaði 17. maí og hætti 4. okt. Helsta vegagerðin var á Grjóthálsi milli Þverrárhlíðar og Norðurárdals. Hefur þar áður verið grýttur og seinfarinn vegur. Þar var byrjað á hálsinum sem hætt var 1899. Hálsinn er áa á milli 6500 m. Vegur var gerður á 4190 m; þverrennur 23; ruddir 380 m. Gerður var vegur fyrir neðan Dýrastaði hjá Sandhólum og brú yfir læk milli Dýrastaða og Hreimstaða og víðar voru gerðir talsverðir vegabútar í Norðurárdalnum. Gert var við veg í Reykholtsdal, og loks gerður 660 metra vegur á Draganum. Stöplar á Örnólfsdalsá “kústaðir upp” og brúin skrúfuð upp eftir fyrirsögn Sig. Thoroddsen landsverkfræðings.
Verkamenn voru flestir 33.
Meðal dagkaup var kr. 2,83 1/2. Alls mun hafa verið eytt til þessara vegastarfa nær 10.000 kr.
Erlendur Zakaríusson vegameist. stóð fyrir vegagerð frá Borgarnesi vestur Mýrarnar, hinum fyrirhugaða Stykkishólsmvegi. Hann byrjaði 16. maí og hætti 17, okt. Byrjað var við Borgarnes og vegurinn lagður um Borg Laugárfoss að Urriðá; það eru 10 3/4 kílómetrar. Á honum eru 3 brýr, frá 8-14 álna langar og um 30 þverrennur, flestar stórar, 6-7 fet og allt að 11 fetum. Vegarstæðið var mjög blautt og hefur orðið að hafa veginn mjög háan vegna (ólæsileg lína) er svo gljúpur; víða alófært kviksyndi.
Ofaníburður var nógur og góður.
Bændur, sem land áttu að veginum, sýndu verkinu velvild og tilhliðrun.
Vegaslitur hafa verið á þessu svæði, ófær að kalla; mun vera óhætt að fullyrða, að meiri vegleysa muni hvergi í byggð hér á landi eins og frá Borgarnesi að Hítará.
Af veginum eru ógerðir 13-15 kílómetrar vestur að Hítará, sem bráðnauðsynlegt er að gera.
Verkamenn voru í vor og haust 50-60, en um sláttinn milli 40-50. Vagnhestar 22 (66 au. um daginn, eins og víðast mun vera); vagnar 11.
Kostnaðurinn við þessa vegagerð er um 21 þús. krónur.
Magnús Vigfússon vegameist. stóð fyrir vegbótum í Norður-Múlasýslu, á Smjörvatnsheiði og í Hróarstungu.
Á Smjörvatnsheiði hefur engin vegabót verið gerð í 60 ár. Vegarlengdin er 3 3/4 míl; var þar ruddur vegur og hlaðnar vörður.
Í Hróarstungu vann hann að vegi, sem Páll Jónsson hefur lagt; var borið ofan í hann og hlaðinn vegarspotti við Jökulsá.
Verkamenn 12 lengst af og daglaun frá kr. 2,50-3,25.
Öll þessi vegagerð kostaði tæplega hálft fjórða þús. kr.


Fjallkonan, 10. nóvember, 1900, 17. árg., 44. tbl., bls. 4:
Sagt er frá dómi Landsyfirdóms í sakamálinu gegn Einari Finnssyni vegaverkstjóra. Héraðsdómurinn var staðfestur.

Landsyfirdómurinn
hefur kveðið upp dóm í sakamálinu gegn Einari Finnssyni vegfræðingi. Héraðsdómurinn er staðfestur, að viðbættum málskostnaði við yfirdóm. Hegningin 14 daga einfalt fangelsi auk málskostnaðar.
Yfirdómurinn tók það fram, að málið þætti eigi nógu rækilega upplýst, en áleit þó að það mundi árangurslaust að vísa því heim aftur.


Þjóðólfur, 16. nóvember, 52. árg, 53. tbl., bls. 206:
Í þessari athyglisverðu grein um póstvagnaferðirnar sumarið 1900 er aðeins komið inn á ástand vega “austan fjalla”, en fyrir fróðleiks sakir birtist greinin hér í heild.

Póstvagnferðirnar sumarið 1900
Ég hafði búist við því, að einhver yrði til þess á undan mér að taka til máls um fyrirtæki það, sem ég skal nú leyfa mér að gera að umtalsefni, nefnilega póstvagnferðinar milli Reykjavíkur og Ægissíðu.
En mér vitanlega hefur enginn rödd látið hið minnsta til sín heyra í blöðunum eða annarsstaðar um framkvæmdir og fyrirkomulag á nefndum vagnferðum síðastliðið sumar og er slíkt næstum einsdæmi á landi hér, þar sem um nýtt og næstum því óþekkt fyrirtæki er að ræða.
Menn eiga því sannarlega ekki að venjast, að verk þeirra eða framkvæmdir séu ekki lögð á metin eða strangur dómur kveðinn upp yfir þeim; – hinu eru menn vanari, að sjá vilhalla dóma og sannleikann fyrir borð borinn og þeim sem einhverju nauðsynja fyrirtæki vill ýta áfram gefin olnbogaskot að óþörfu.
Þegar vagnferðirnar hófust laust eftir miðjan júní næstliðið vor, hugsuðu margir illa til þeirra og gutu ólundar hornauga til okkar, er við lögum af stað í hina fyrstu ferð. – Menn höfðu litla trú á því, að fyrirtæki þetta mætti heppnast líklega einkum af því, að það var að mestu leyti óþekkt áður hér á landi. – Aftur voru nokkrir, einkum austan fjalla, sem gjarnan vildu hafa þetta fyrirkomulag, ef þeir gætu fengið allar sínar nauðsynjavörur, er þeir til Reykjavíkur þyrftu að sækja, með vagninum heim til sín eða því sem næst. Þannig ætluðust þeir til, að hægt yrði að flytja hvaltunnur og tros, brennivínskvartil og kolapoka innan um póstflutninginn og farþegana. – Allt átti þetta að rúmast á póstvagninum.
Jafnvel sljórskyggnum manni var það bersýnilegt, að ómögulegt var að flytja allt þetta á einum og sama vagni.
Fyrir því var aftekið með öllu, að flytja nokkra þungavöru, heldur einungis smáar sendingar og böggla, sem ekki gátu skemmt það, sem með þeim var í vagninum. Öllum betri mönnum fannst þetta eðlilegt og sjálfsagt, en aðrir töldu það vítavert.
Og ég skal taka það fram, að sumir voru svo grunnhyggnir, að þeir kváðu það beinlínis skyldu vagnstjórans, að taka til flutnings á vagninn hverja vöru sem væri, svo framarlega sem þess væri óskað. – En það er hraparlegur misskilningur.
Samkvæmt samningi þeim sem hr. Þorsteinn Davíðsson hefur í höndum frá póststjórninni, er honum því aðeins heimilt að flytja fólk og farangur fyrir eigin reikning, að það ekki komi í bága við flutning á póstinum sjálfum. Svona er þessu varið og engan veginn öðruvísi; vagnstjóri hefur heimild til að neita þeim flutningi sem honum sýnist.
Til þess að gefa mönnum nokkra hugmynd um hvernig vagnferðirnar hafa heppnast, skal ég geta þess að auk vagnstjóra og verslunarerindreka frá Thomsenverslun hér í bænum, sem jafnan var með í hverri ferð, flutti póstvagninn 115 farþegar og flutningur með honum auk pósts, var samtal nálega 12,000 pund. – Voru það 475 stykki, og geta menn nokkurn veginn ráðið af þeirri tölu að jafnan hafi verið full þröngt, þó að hvaltunnum, trosi og kolapokum væri ekki demt þar ofan á.
Kvartað hefur verið yfir því, að sami vagninn var brúkaður til að flytja bæði fólk og farangur. – Og því skal ekki neitað, að æskilegra hefði verið að hafa sérstakan vagn, sem flytti fólk, en því varð ekki við komið. – Og meðan enginn reynsla var fengin fyrir því, að almenningur vildi nota þessar ferðir, hefði það mátt heita óðsmanns æði að leggja út í svo afar mikinn kostnað, og eiga svo jafnvel enga borgun vísa fyrir allmikil peningaútlát og fyrirhöfn. Þetta hlýtur hver maður að viðurkenna.
Varla var hugsandi að almenningur notaði vagninn öllu meira en gert var. – Fyrst framan af var aðsóknin að honum fremur lítil, en jókst stöðugt, eftir því, sem fyrirtækið var þekktara og síðustu ferðirnar varð að neita flutningi sakir þrengsla. – Finnst mér þetta næg sönnun fyrir því að fyrirtækið geti þrifist, og er vonandi að næsta þing veiti svo ríflegan fjárstyrk til nefndra póstvagnferða, að sá sem þá veitir þeim forstöðu geti séð sér fært að framkvæma þar í nokkuð stórum stíl. – Þó að Íslendingar séu jafnaðarlega fremur seinir að átta sig á því, sem þeim má að gagni verða, er þó vonandi, að þeim skiljist það smá saman að hér er um mjög þarflegt fyrirtæki að ræða. – En því miður eru þeir menn til, sem bæla vilja hverja framfaraöldu og raka glóðinni frá köku náungans og þykja engir kostagripir. Það er því einkar eðlilegt, að óhollt sé fyrir nýborið fyrirtæki, sem stendur á óstyrkum fótum að vera á vegi slíkra manna. Þannig hafa ýmsir orðið til þess, að hreyta skattyrðum að póstvagnferðum og forstöðumanni þeirra, þótt þeir ekki hafi látið prenta slíkt, svo ég viti til.
Væri fullkomin vissa fyrir því gengin, að næsta þing taki vel í þetta nauðsynjamál vort, sýnist það engum efa bundið, að sjálfsagt væri að fjölga vögnum þegar á komandi sumri, – en undir öllum kringumstæðum finnst mér fásinna að auka þær svo nokkru nemi næsta ár. –Aftaki þingið fjárstyrkinn er auðsætt, að vagnferðinar eru um leið undir lok liðnar og að ekki er til neins að halda þeim áfram úr því, – því það yrði helbert tjón.
Að endingu skal ég geta þess, að víða á vagnleiðinni er vegurinn all illur. Undir Ingólfsfjalli er vegurinn of mjór fyrir vagn og ennfremur afar grýttur. – Flosavegurinn var lítt fær mestan hluta sumarsins; – ofaníburðurinn náði aldrei að þorna og var því til lítilla bóta. Holtavegurinn var gersamlega ófær með vagn síðustu ferðirnar, sakir bleytu; mátti heita, að lausir hestar lægju fastir í honum á nokkrum stöðum, og má af því ráða, hve greiðfær hann var.
Virðist mér öldungis óumflýjanlegt, að bæta verði þann veg, strax á komandi sumri, ella eyðileggst hann alveg.
Að svo mæltu læt ég staðar nema að sinni með þeirri einlægu ósk, að þessar margnefndu póstvagnferðir megi haldast og verða almenningi að slíku gagni og þær geta orðið, sé rétt með farið. Og ég vona fastlega að það verði.
Páll Steingrímsson


Þjóðólfur, 16. nóvember, 1900, 52. árg., 53. tbl., bls. 207:
Hér segir Þjóðólfur frá dómi yfirréttar í málinu sem höfðað var gegn Einari Finnssyni vegaverkstjóra fyrir fjárdrátt og fleira.

Sakamálið
gegn Einari Finnssyni vegfræðingi er nú dæmt í yfirrétti. Undirréttardómurinn staðfestur (14 daga einfalt fangelsi og málskostnaður). Undirréttardómarinn (Halld. Daníelsson bæjarfógeti) fær ónotalega athugasemd í dómnum hjá yfirrétti, því að í dómsástæðum segir meðal annars svo: “Málið hefur í héraði verið rekið með nægilegum hraða, en það athugast að það þykir ekki í ýmsum atriðum hafa verið upplýst af undirdómaranum, svo rækilega sem skyldi, og hefur yfirdóminum þó eigi fundist ástæða til að fyrirskipa ítarlegri rannsókn í því, með því að ætlað verður að hún yrði eins og málinu er komið árangurslaus”.


Fjallkonan, 19. nóvember, 1900, 17. árg., 45. tbl., bls. 4:
Sagt er frá vegaframkvæmdum í Fóelluvötnum (á Hellisheiðarveginum) og í Flóanum s.l. sumar.

Vegagerðir.
Tómas Petersen vegameistari vann að aðgerð á Flóaveginum og stóð fyrir vegabót á Hellisheiðarveginum í Fóelluvötnum. Hann byrjaði 28. maí í Fóelluvötnum. Þar var hlaðinn upp vegur á kafla, sem var algjörlega orðinn ónýtur; vegur þessi var hlaðinn fyrir um það bil 12 árum undir forstöðu Hovdenaks, og hefur aldrei verið gert við hann neitt að mun á þeim kafla. Við þessa vegagerð voru 10 manns og 8 vagnhestar, kaup verkamanna kr. 2,50-3,30, og hestaleiga 60 au. um daginn.
Þessi vegagerð kostaði 1.175 kr.
Eftir það vegabótinni var lokið í Fóelluvötnum, sem hætta varð við, af því bráða nauðsyn var til að gera við Flóaveginn, fór Tómas Petersen austur þangað til þess að bera ofan í hann. Var byrjað á því verki 9. júlí, og hætt 3. okt. Borið var ofan í veginn, og allt lausagrjót sem stóð upp úr veginum mulið sundur á 10n kílómetra kafla, eða frá skammt austan við Ölfusárbrú og austur fyrir Skeggjastaði (skammt fyrir austan Hraungerði). Ofaníburður hefur ekki fengist þar góður, en vegagerðarmenn álitu, að þeir hefðu fundið allgóðan ofaníburð austan við Skeggjastaði, sem fannst þó svo seint, að hann varð ekki notaður nema í nokkuð af veginum. Við (ólæsileg 5-7 orð) vagnhestar 10. Kaup og hestaleiga eins og í Fóelluvötnum.
Kostnaðurinn við þessa vegabót var rúmlega 4 1/2 þúsund.


Austri, 10. desember, 1900, 10. árg., 48. tbl., bls. 156:
Austri skýrir frá því að nú sé efnið í Lagarfljótsbrúna farið að berast að brúarstæðinu.

Lagarfljótsbrúin.
Sumt af viðunum hefur nú þegar verið flutt upp að brúarstæðinu, og hinu þyngsta af efninu verður svo ekið upp Fagradal, er hentugir sleðar koma nú í þ.m. með gufuskipunum frá útlöndum.
En grjót mun enn óupptekið í brúarsporðana o.fl.; og er það óheppilegt, að landshöfðingi og vegfræðingur landsins skyldu eigi hafa þá fyrirhyggju, að semja um upptöku grjótsins í haust við þá bændur, er næstir búa brúarstæðinu, því hætt er við, að héðan af verði dýrara að taka grjótið upp eins og það nú er allt gaddað niður og ólosað um það. Er vonandi, að það verði eigi lengi dregið, að fá einhverja áreiðanlega menn til þess sem fyrst að taka grjótið upp og aka því að brúarstæðinu í tæka tíð. Og viljum vér í því efni leyfa oss að benda á þá Jón Bergsson á Egilsstöðum og Kristján Kristjánsson á Ekkjufelli, til þess að sjá um grjótið til brúarinnar, sinn hvoru megin Lagarfljóts.