1900

Þjóðólfur, 8. maí, 52. árg, 21. tbl., bls. 82:

Flutningabraut á Austurfjörðum
Þegar Alþingi fyrir 7 árum með vegalögunum (staðf. 13. Apríl ´94) ákvað flutningabraut um Fagradal, og þó þessi braut væri hin síðasta (9) af öllum flutningabrautunum og af því mætti ráða, að hún yrði síðast færð í verk, fögnuðu samt allir, er hlut eiga að máli yfir, að þetta var þó komið á pappírinn – og sættu sig við að vera olnbogabarnið, sem yrði að bíða, þangað til eftirlætisbörnin væru búin að fá sitt. Hver sanngirni var í því, að láta Austfirðingafjórðung vera síðastan í þessu tilliti geta allir séð, sem þekkja nokkuð til hinna landsfjórðunganna, er hafa tiltölulega mjög marga greiða vegi af náttúrunnar hálfu. Þó tekur út yfir allt, að láta Eyjafjarðarhérað í þessu tilliti ganga á undan, sem liggur hér um bil lárétt án nokkurra teljandi mishæða um grænar grundir fram til óbyggða. Þar var komin á stórverslun langt inn í landi (Grund) og lýsir það best þörf þessa héraðs mót við Austurland, og því hvernig Austurland er haft útundan í tilliti til samgöngubóta.
Austurland allt girðir 2-3 þúsunda feta hár fjallgarður, nema á Fagradal og Héraðssandi. Á Héraðssandi er Lagarfljótsós, er Austfirðingar fyrst fengu augastað á sem höfuðkauptúni, en sem er búinn að margsýna sig sem ómögulegan sökum brima og útgrynnis, og sem þau skipti, er hann hefur verið reyndur til flutnings, jafnoft hefur valdið slysum og manndauða, enda má við því búast, að flutningaskip vikum saman gætu legið þar, án þess að viðlit væri að komast í land á lausum báti, hvað þá fermdum vörum. Lagarfljótsós sem verslunarstaður er því eins og fallegur draumur sem aldrei getur ræst, en slíkir loftkastalar eins og Lagarfljótsós, ættu ekki að standa öðrum hentugri vegum fyrir þrifum.
Þá er Vestdalsheiði, hún getur sem fjallvegur verið góðu fyrir Úthérað, þó mundi Borgarfjörður liggja betur við verslan og flutningum.
Þá er Fjarðarheiði, um 2000 fest á hæð með snarbröttum klettastöllum fjarðarmeginn, og mikilum halla héraðsmeginn; yrði ómögurlegt að koma þar á flutningabraut fyrir brekkum báðum megin, og svo, að um aðalbrattan fjarðarmeginn yrði að sprengja brautarstæðið gegnum kletta, í fjöldamörgum sneiðingum, er mundi gera hana að lengsta vegi til Héraðs, og að sjálfsögðu hinum langkostnaðamesta. Heiðin liggur 9 mánuði ársins undir snjó, og er það nóg til þess að hún eigi getur komið til greina sem flutningabraut. – Að vísu eru nú sem stendur mestu verslunarviðskipti héraðsmanna um þessa heiði, en hagsmunir fjölmennra byggðalaga í tilliti til haganlegra aðdrátta, hljóta þó að sitja í fyrirrúmi fyrir hagsmunum einstakra manna á Seyðisfirði.
Lík hinni síðasttöldu heiði er Eskifjarðarheiði, nokkuð lægri og óbrattari, og rennur fyrr, en þó ekki vel löguð fyrir akbraut. Einasta akbrautarstæði frá sjó til Héraðs, er úr Reyðarfjarðarbotni um Fagradal, sem loks brýtur hinn samanhangandi fjallgarð, og sem er svo vel lagaður að náttúrunnar hendi, að hann er sannarlegt gersemi. Dalurinn liggur 1/2 mílu vegar frá botni Reyðarfjarðar í norðvestur 21/2 mílu, þangað til hann sker Eyvindarárdal, sem einnig er mjög greiðfær, og mun þá eftir til Lagarfljóts um 1 1/2 mílu Hæst mun á Fagradal um 900 fet, og er þá allur hallinn frá sjó til Egilsstaða og brúarstæðis á Lagarfljóti 1 á móti 20. Nægilegt efni er allstaðar við hendina í dalnum til vegagerðar. Þrjár smáár þarf að brúa á þessari leið, en hvergi þarf að sneiða veginn, og er það fágætt. Dalurinn verður snjólaus um sömu mundir og sveitirnar í kring, og er það mikill kostur.
Brautin ætti svo að ná að Lagarfljóti við Egilsstaði, sem er miðdepill allrar umferðar um Hérað, og aðalpóstöð frá Suður- og Norðurlandi; mundi þar fljótt rísa upp stærsta sveitarverslun á landinu af því meginhluti Héraðsins mundi sækja þar að, svo að jafnvel löggilda yrði þar kauptún. Fiskföngum ættu héraðsmenn hvergi ódýrar náð að sér en um Fagradal, enda stór hagur Fjarðarmönnum að geta selt nokkru verði, það sem fúnar niður hjá þeim fyrir ekkert, eins og oft hefur verið bæði um ufsa og síld. Margvísleg viðskipti mundu fyrir flutningabraut um Fagradal komasr á, og er brautarlagning um Fagradal lífsspursmál fyrir stóran hluta Héraðsins, og yfir höfuð allt Austurland. Óskiljanlegt er það með öllu, að enn leið svo síðasta þing, að ekki var lögunum frá 13. apríl 1894 í tilliti til Fagradals fullnægja gerð, og ekkert fé á fjárlögunum ætlað til þess, og hafði þingmaður Suður-Múlasýslu þó í höndum umboð til að hreyfa mál þessu á síðasta þingi; á því þingmaður vor eftir að standa okkur kjósendum í þessum tillit reikningsskap sinnar ráðmennsku, en það má fullyrða, að hér eftir nær enginn kosningu fyrir þetta kjördæmi, nema sá, er vita má um með vissu, að fylgi þessu framfaramáli ótrauðlega, þar eð það varðar hinna mestu hagsmuna stórt svæði af (ólæsileg tala) sýslum.
Að síðustu vil ég benda á , hversu allri vegagerð er lítt á leið komið hér austanlands, mót við hina aðra landshluta, og mun þetta liggja í því, að vér höfum eigi haft þá forvígismenn fyrir málum vorum, sem við hefði þurft, því þó margir þeirra hafi verið góðir menn, hafa þeir eflaust ekki haft þrek til að draga taum kjördæmis síns mót við hina fjórðunga landsins, þar sem fullyrða má, að vegagerð hér austanlands er 20 árum á eftir hinum öðrum fjórðungum landsins, en þetta má ekki líðast lengur, og það má ekki hafa Austurland að olnbogabarni; óánægjan með þetta verður æ ríkari, og elur þann kala til þings og stjórnar, sem er sjaldgæfur hjá okkar áhugalitlu þjóð.
Ritað í mars 1900


Þjóðólfur, 8. maí, 52. árg, 21. tbl., bls. 82:

Flutningabraut á Austurfjörðum
Þegar Alþingi fyrir 7 árum með vegalögunum (staðf. 13. Apríl ´94) ákvað flutningabraut um Fagradal, og þó þessi braut væri hin síðasta (9) af öllum flutningabrautunum og af því mætti ráða, að hún yrði síðast færð í verk, fögnuðu samt allir, er hlut eiga að máli yfir, að þetta var þó komið á pappírinn – og sættu sig við að vera olnbogabarnið, sem yrði að bíða, þangað til eftirlætisbörnin væru búin að fá sitt. Hver sanngirni var í því, að láta Austfirðingafjórðung vera síðastan í þessu tilliti geta allir séð, sem þekkja nokkuð til hinna landsfjórðunganna, er hafa tiltölulega mjög marga greiða vegi af náttúrunnar hálfu. Þó tekur út yfir allt, að láta Eyjafjarðarhérað í þessu tilliti ganga á undan, sem liggur hér um bil lárétt án nokkurra teljandi mishæða um grænar grundir fram til óbyggða. Þar var komin á stórverslun langt inn í landi (Grund) og lýsir það best þörf þessa héraðs mót við Austurland, og því hvernig Austurland er haft útundan í tilliti til samgöngubóta.
Austurland allt girðir 2-3 þúsunda feta hár fjallgarður, nema á Fagradal og Héraðssandi. Á Héraðssandi er Lagarfljótsós, er Austfirðingar fyrst fengu augastað á sem höfuðkauptúni, en sem er búinn að margsýna sig sem ómögulegan sökum brima og útgrynnis, og sem þau skipti, er hann hefur verið reyndur til flutnings, jafnoft hefur valdið slysum og manndauða, enda má við því búast, að flutningaskip vikum saman gætu legið þar, án þess að viðlit væri að komast í land á lausum báti, hvað þá fermdum vörum. Lagarfljótsós sem verslunarstaður er því eins og fallegur draumur sem aldrei getur ræst, en slíkir loftkastalar eins og Lagarfljótsós, ættu ekki að standa öðrum hentugri vegum fyrir þrifum.
Þá er Vestdalsheiði, hún getur sem fjallvegur verið góðu fyrir Úthérað, þó mundi Borgarfjörður liggja betur við verslan og flutningum.
Þá er Fjarðarheiði, um 2000 fest á hæð með snarbröttum klettastöllum fjarðarmeginn, og mikilum halla héraðsmeginn; yrði ómögurlegt að koma þar á flutningabraut fyrir brekkum báðum megin, og svo, að um aðalbrattan fjarðarmeginn yrði að sprengja brautarstæðið gegnum kletta, í fjöldamörgum sneiðingum, er mundi gera hana að lengsta vegi til Héraðs, og að sjálfsögðu hinum langkostnaðamesta. Heiðin liggur 9 mánuði ársins undir snjó, og er það nóg til þess að hún eigi getur komið til greina sem flutningabraut. – Að vísu eru nú sem stendur mestu verslunarviðskipti héraðsmanna um þessa heiði, en hagsmunir fjölmennra byggðalaga í tilliti til haganlegra aðdrátta, hljóta þó að sitja í fyrirrúmi fyrir hagsmunum einstakra manna á Seyðisfirði.
Lík hinni síðasttöldu heiði er Eskifjarðarheiði, nokkuð lægri og óbrattari, og rennur fyrr, en þó ekki vel löguð fyrir akbraut. Einasta akbrautarstæði frá sjó til Héraðs, er úr Reyðarfjarðarbotni um Fagradal, sem loks brýtur hinn samanhangandi fjallgarð, og sem er svo vel lagaður að náttúrunnar hendi, að hann er sannarlegt gersemi. Dalurinn liggur 1/2 mílu vegar frá botni Reyðarfjarðar í norðvestur 21/2 mílu, þangað til hann sker Eyvindarárdal, sem einnig er mjög greiðfær, og mun þá eftir til Lagarfljóts um 1 1/2 mílu Hæst mun á Fagradal um 900 fet, og er þá allur hallinn frá sjó til Egilsstaða og brúarstæðis á Lagarfljóti 1 á móti 20. Nægilegt efni er allstaðar við hendina í dalnum til vegagerðar. Þrjár smáár þarf að brúa á þessari leið, en hvergi þarf að sneiða veginn, og er það fágætt. Dalurinn verður snjólaus um sömu mundir og sveitirnar í kring, og er það mikill kostur.
Brautin ætti svo að ná að Lagarfljóti við Egilsstaði, sem er miðdepill allrar umferðar um Hérað, og aðalpóstöð frá Suður- og Norðurlandi; mundi þar fljótt rísa upp stærsta sveitarverslun á landinu af því meginhluti Héraðsins mundi sækja þar að, svo að jafnvel löggilda yrði þar kauptún. Fiskföngum ættu héraðsmenn hvergi ódýrar náð að sér en um Fagradal, enda stór hagur Fjarðarmönnum að geta selt nokkru verði, það sem fúnar niður hjá þeim fyrir ekkert, eins og oft hefur verið bæði um ufsa og síld. Margvísleg viðskipti mundu fyrir flutningabraut um Fagradal komasr á, og er brautarlagning um Fagradal lífsspursmál fyrir stóran hluta Héraðsins, og yfir höfuð allt Austurland. Óskiljanlegt er það með öllu, að enn leið svo síðasta þing, að ekki var lögunum frá 13. apríl 1894 í tilliti til Fagradals fullnægja gerð, og ekkert fé á fjárlögunum ætlað til þess, og hafði þingmaður Suður-Múlasýslu þó í höndum umboð til að hreyfa mál þessu á síðasta þingi; á því þingmaður vor eftir að standa okkur kjósendum í þessum tillit reikningsskap sinnar ráðmennsku, en það má fullyrða, að hér eftir nær enginn kosningu fyrir þetta kjördæmi, nema sá, er vita má um með vissu, að fylgi þessu framfaramáli ótrauðlega, þar eð það varðar hinna mestu hagsmuna stórt svæði af (ólæsileg tala) sýslum.
Að síðustu vil ég benda á , hversu allri vegagerð er lítt á leið komið hér austanlands, mót við hina aðra landshluta, og mun þetta liggja í því, að vér höfum eigi haft þá forvígismenn fyrir málum vorum, sem við hefði þurft, því þó margir þeirra hafi verið góðir menn, hafa þeir eflaust ekki haft þrek til að draga taum kjördæmis síns mót við hina fjórðunga landsins, þar sem fullyrða má, að vegagerð hér austanlands er 20 árum á eftir hinum öðrum fjórðungum landsins, en þetta má ekki líðast lengur, og það má ekki hafa Austurland að olnbogabarni; óánægjan með þetta verður æ ríkari, og elur þann kala til þings og stjórnar, sem er sjaldgæfur hjá okkar áhugalitlu þjóð.
Ritað í mars 1900