1900

Ísafold, 9. maí, 27. árg, 27. tbl., bls. 106:

“Óhlutdrægni”.
Herra ritstj. Ísafoldar er í seinasta (25.) tölublaðinu að leitast við að sýna lit á því að verða við þeirri áskorun minni, að benda á nokkurt það atriði, þar sem ég hafi í orði eða verki sýnt, að ég hafi lagt þungan hug á E.F. eða verið hans megnasti óvildarmaður, og bendir á tvö atvik, annað það, að ég hafi, undir eins og ég hafi frétt um breytinguna á Holtavegastefnunni, “rokið gagngert norðan úr Eyjafirði suður Kjöl og ætlað að reka E.F. frá vinnu hans og haft við hann mjög þung orð og hörð”.
Það er satt, að ég brá við og fór suður Kjöl, þegar ég frétti um breytinguna, til þess að reyna að koma í veg fyrir að minni vegarstefnu yrði breytt; en þar sem hann segir, að ég hafi ætlað að reka E.F. frá vinnu, þá þekkir hann þar betur mínar hugrenningar en ég sjálfur, því að það var aldrei mín ætlun og hef heldur ekki látið það í ljós við nokkurn mann. Að ég hafi “haft við E.F. mörg þung orð og hörð”, getur enginn borið um nema E.F. sjálfur, því að við vorum tveir einir, þegar við ræddum það mál; og kannst ég ekki við það, að ég hafi brúkað hörð orð; ég reyndi aðeins að sýna honum fram á, að slíkt framferði gæti ekki gengið – enda þekkti hann það frá Noregi. Að þar þyldist slíkt ekki – að verkstjórarnir settu sig upp á móti yfirmanni sínum – eða þeim, sem að réttu lagi ættu að vera yfirmaður þeirra – og fara að gera breytingar á því, sem hann hefði mælt. Ég reyndi með góðu að fá hann til þess að færa veginn aftur inn á mína vegarstefnu, og þegar ég skildi við hann, lést hann mundu gera það og geta gert það, af því að landshöfðingi hefði ekki skipað sér, heldur aðeins leyft sér að breyta stefnunni eftir sinni vild.
Annað atvikið, sem ritstj. tilfærir, er það, að “eftir það, en ekki fyrr, fór hann að finna að hjá honum þeim göllum á reiknisskilum hans – kvittanaskorti – er hann hafði ekki fundið að áður, og ekki fann heldur að hjá öðrum á eftir”.
Þetta eru hrein og bein ósannindi.
Ég hef alltaf fundið að því, bæði fyrr og síðar, þegar kvittanir hefur vantað fyrir einhverju á reikningum verkstjóranna, hver sem í hlut hefur átt. Ég get bent ritstj. á t.d. seinustu ársreikninga, ef hann vill snúa sér á landshöfðingjaskrifstofuna; þar getur hann séð, að ég hef gert athugasemdir við kvittanaskort hjá öðrum verkstjórum en E.F.
Ritstj. verður að leita betur til þess að finna “áminnstum og átöldum orðum (í janúarbl. Ísafoldar) stað, en ég vil aðeins (ólæsilegar 2-3 línur) um tveimur nefndu atriðum, ef hann vill aðeins fara með það, sem rétt er og satt.
Reykjavík, 3. maí 1900.
Sig. Thoroddsen

“Klipt var það – klipt var það!” segir hr. landsvegfr. enn, og ætlar sér sjálfsagt að halda því áfram í lengstu lög.
Óræka vissu um, hvað þeim E.F. hafi á milli farið um sumarið austur í Holtaveginum, er ekki hægt að fá, úr því ekki voru vottar að samtali þeirra. En hitt er víst. að svo sagði E.F. þá þegar frá því, sem Ísafold heldur fram, áður en nokkur þrætni reis um það, enda verður viðbragðið mikla norðan úr Eyjafirði alla leið suður Kjöl ólíkum mun skiljanlegra með því lagi en hinu. E.F. hefur alltaf sagt svo frá og segist svo enn, að S.Th. hafi sagt berum orðum, að hann mundi hafa rekið hann frá Holtavegargerðinni, ef hann hefði haft vald til þess, og eins hitt, að hann hafi beint skipað sér að hætta við nýju vegarstefnuna, þrátt fyrir úrskurð (ekki aðeins leyfi) landshöfðingja.
Um hitt atriðið mun vörn hr. S.Th. styðjast aðallega við það, að vegareikningar hafi ekki verið yfirleitt lagðir undir hans endurskoðun fyrr en eftir Holtavegarsumarið og því hafi þá fyrst komið til hans kasta að finna að þeim. En ekki mun hann geta á móti því borið, að hann hafi yfirfarið reikninga E.F. árin á undan; og úr því að þá komu ekki fram neinar aðfinnslur að sömu annmörkum á reikningsfærslunni eins og á eftir, virðist bæði E.F. og öðrum full vorkunn, þótt þeir legðu þann skilning í þau viðbrigði, sem hér um ræðir. Og sami annmarki – kvittanaskortur – var áreiðanlega á reikningum annars vegavinnustjóra í haust að minnsta kosti, án þess að sá hinn sami hafi fengið ávítur fyrir.
Annars virðist nú mál til komið að slá botni í þetta þras, og það því fremur, sem mál það, er það er upphaflega út af risið, kæran á hendur E.F., er nú undir dómi og viðfeldnast að láta manninn og mál hans í friði þá stuttu stund, er dóms mun þurfa að bíða úr þessu. Því þess ber vel að gæta, að þrátt fyrir stóryrði hr. S.Th. um sekt hans, er enn ódæmt um það, svo gilt sé, hvort hann er sekur eða saklaus.


Ísafold, 9. maí, 27. árg, 27. tbl., bls. 106:

“Óhlutdrægni”.
Herra ritstj. Ísafoldar er í seinasta (25.) tölublaðinu að leitast við að sýna lit á því að verða við þeirri áskorun minni, að benda á nokkurt það atriði, þar sem ég hafi í orði eða verki sýnt, að ég hafi lagt þungan hug á E.F. eða verið hans megnasti óvildarmaður, og bendir á tvö atvik, annað það, að ég hafi, undir eins og ég hafi frétt um breytinguna á Holtavegastefnunni, “rokið gagngert norðan úr Eyjafirði suður Kjöl og ætlað að reka E.F. frá vinnu hans og haft við hann mjög þung orð og hörð”.
Það er satt, að ég brá við og fór suður Kjöl, þegar ég frétti um breytinguna, til þess að reyna að koma í veg fyrir að minni vegarstefnu yrði breytt; en þar sem hann segir, að ég hafi ætlað að reka E.F. frá vinnu, þá þekkir hann þar betur mínar hugrenningar en ég sjálfur, því að það var aldrei mín ætlun og hef heldur ekki látið það í ljós við nokkurn mann. Að ég hafi “haft við E.F. mörg þung orð og hörð”, getur enginn borið um nema E.F. sjálfur, því að við vorum tveir einir, þegar við ræddum það mál; og kannst ég ekki við það, að ég hafi brúkað hörð orð; ég reyndi aðeins að sýna honum fram á, að slíkt framferði gæti ekki gengið – enda þekkti hann það frá Noregi. Að þar þyldist slíkt ekki – að verkstjórarnir settu sig upp á móti yfirmanni sínum – eða þeim, sem að réttu lagi ættu að vera yfirmaður þeirra – og fara að gera breytingar á því, sem hann hefði mælt. Ég reyndi með góðu að fá hann til þess að færa veginn aftur inn á mína vegarstefnu, og þegar ég skildi við hann, lést hann mundu gera það og geta gert það, af því að landshöfðingi hefði ekki skipað sér, heldur aðeins leyft sér að breyta stefnunni eftir sinni vild.
Annað atvikið, sem ritstj. tilfærir, er það, að “eftir það, en ekki fyrr, fór hann að finna að hjá honum þeim göllum á reiknisskilum hans – kvittanaskorti – er hann hafði ekki fundið að áður, og ekki fann heldur að hjá öðrum á eftir”.
Þetta eru hrein og bein ósannindi.
Ég hef alltaf fundið að því, bæði fyrr og síðar, þegar kvittanir hefur vantað fyrir einhverju á reikningum verkstjóranna, hver sem í hlut hefur átt. Ég get bent ritstj. á t.d. seinustu ársreikninga, ef hann vill snúa sér á landshöfðingjaskrifstofuna; þar getur hann séð, að ég hef gert athugasemdir við kvittanaskort hjá öðrum verkstjórum en E.F.
Ritstj. verður að leita betur til þess að finna “áminnstum og átöldum orðum (í janúarbl. Ísafoldar) stað, en ég vil aðeins (ólæsilegar 2-3 línur) um tveimur nefndu atriðum, ef hann vill aðeins fara með það, sem rétt er og satt.
Reykjavík, 3. maí 1900.
Sig. Thoroddsen

“Klipt var það – klipt var það!” segir hr. landsvegfr. enn, og ætlar sér sjálfsagt að halda því áfram í lengstu lög.
Óræka vissu um, hvað þeim E.F. hafi á milli farið um sumarið austur í Holtaveginum, er ekki hægt að fá, úr því ekki voru vottar að samtali þeirra. En hitt er víst. að svo sagði E.F. þá þegar frá því, sem Ísafold heldur fram, áður en nokkur þrætni reis um það, enda verður viðbragðið mikla norðan úr Eyjafirði alla leið suður Kjöl ólíkum mun skiljanlegra með því lagi en hinu. E.F. hefur alltaf sagt svo frá og segist svo enn, að S.Th. hafi sagt berum orðum, að hann mundi hafa rekið hann frá Holtavegargerðinni, ef hann hefði haft vald til þess, og eins hitt, að hann hafi beint skipað sér að hætta við nýju vegarstefnuna, þrátt fyrir úrskurð (ekki aðeins leyfi) landshöfðingja.
Um hitt atriðið mun vörn hr. S.Th. styðjast aðallega við það, að vegareikningar hafi ekki verið yfirleitt lagðir undir hans endurskoðun fyrr en eftir Holtavegarsumarið og því hafi þá fyrst komið til hans kasta að finna að þeim. En ekki mun hann geta á móti því borið, að hann hafi yfirfarið reikninga E.F. árin á undan; og úr því að þá komu ekki fram neinar aðfinnslur að sömu annmörkum á reikningsfærslunni eins og á eftir, virðist bæði E.F. og öðrum full vorkunn, þótt þeir legðu þann skilning í þau viðbrigði, sem hér um ræðir. Og sami annmarki – kvittanaskortur – var áreiðanlega á reikningum annars vegavinnustjóra í haust að minnsta kosti, án þess að sá hinn sami hafi fengið ávítur fyrir.
Annars virðist nú mál til komið að slá botni í þetta þras, og það því fremur, sem mál það, er það er upphaflega út af risið, kæran á hendur E.F., er nú undir dómi og viðfeldnast að láta manninn og mál hans í friði þá stuttu stund, er dóms mun þurfa að bíða úr þessu. Því þess ber vel að gæta, að þrátt fyrir stóryrði hr. S.Th. um sekt hans, er enn ódæmt um það, svo gilt sé, hvort hann er sekur eða saklaus.