1900

Þjóðólfur, 30. júní, 1900, 52. árg., 42. tbl., bls. 166:

Umsjón með vegamálum.
Um fátt mun mönnum tíðræddara sem stendur, að minnsta kosti sumstaðar á landinu, en um agnúa þá, er séu á vegagerðarmálum vorum, sérstaklega á meðferð þess mikla fjár, er til vegabóta er veitt af landsfé.
Tilefnið til þess umtals nú er vitanlega öðru fremur málshöfðunin gegn einum vegabótaverkstjóra landssjóðs, sem nýlega hefur verið dæmdur sekur af undirrétti fyrir eina af yfirsjónum þeim, er hann var sakaður um. En annars verður ekki sagt, að óánægjan með fyrirkomulag og rekstur vegabótamálanna sé með öllu ný bóla.
Yfirskoðunarmenn landsreikningsins gerðu á síðasta ári þá athugasemd við ávísun vegabótafjárins úr jarðabókarsjóði, að hún hafi “farið þannig fram, að það má heita ókleift með öllu að finna samræmi milli sundurliðunar vegakostnaðarins í jarðabókarsjóðsreikningnum og í landsreikingnum, og þó er það alveg nauðsynlegt og að okkar skilningi vel framkvæmanlegt, að jarðabókarsjóðsreikningurinn beri með sér og sé samhljóða landsreikningnum í því, til hvers hverri útborgaðri upphæð hafi verið varið, en það yrði með því, að ávísanir landshöfðingja upp á féð væru ávallt glöggt og rétt orðaðar í þessu tilliti. Við höfum áður í landsreikninga athugasemdum okkar tekið þetta sama fram, en þó er eigi síst ástæða til þess nú við þennan reikning”.
Af svari landshöfðingja má ráða, að hann hefur talið þessa athugasemd eða aðfinnslu á rökum byggða.
Í þingræðum komu og fram í fyrra alvarlegar athugasemdir viðvíkjandi þessu máli. Meðal annars, þótti það ísjárvert, að allmikið fé væri fengi í hendur einstökum mönnum, sem naumast hefðu næga þekkingu, sumir hverjir, til þess að gera góð reikningsskil, enda væru þau óglögg hjá þeim og illt að átta sig á þeim. Verkstjórar sýni ekki næg rök fyrir því, að féð gangi í raun og veru allt til þess, sem ætlað er.
Þá var og kvartað undan því, að kostnaðurinn við vegabótarvinnu mundi vera óþarflega hár. Verkstjórar legðu til alla hestana og fengju fyrir þá 70-80 kr. um sumarið, sem væri of há leiga, þar sem góða vagnhesta mætti fá keypta fyrir 80 kr. Stundum fengju og verkstjórar hesta leigða hjá bændum, en það kæmi hvergi fram, hvort leigan, sem tilfærð væri í landsreikningnum, væri hin sama og leigan, er bændur fengju.
Agnúar þóttu og á ráðningu verkamanna; oft veldust til vegabótavinnunnar slæpingar og flækingar, sem enga vinnu mundu fá hjá bændum, og í þjónustu landstjórnarinnar fengju þeir hærra kaup en bændur annarra gæfu sínum nýtustu mönnum. All mikilsverð árétting þessara hliðar á málinu kemur og fram í dómi þeim sem áður er um getið, þar sem dómarinn kemst svo að orði:
“Það hefur tíðkast allmikið eftir því sem upplýst er, að ýmsir menn hafa ráðið verkamenn til ákærða, ekki aðeins vinnumenn sína, heldur og aðra, sem þeir hafa tekið einungis til þess að koma þeim í vinnuna; hafa menn þessir tekið til sín vegavinnulaunin, en goldið verkamanninum umsamið kaup, og hirt sjálfir mismuninn. Ákærða var kunnugt um, að slíkar mannaráðningar áttu sér stað, enda áleit hann þær leyfilegar, ef verkamönnunum væri eigi greidd hærri daglaun en ætla mætti að þeir ynnu fyrir, og hugði jafnvel að sér væri sjálfum heimilt að ráða verkamenn á þennan hátt fyrir sinn eigin reikning”.
Athugasemdum þeim, sem fram komu í þessu máli á þingbekkjunum, og hér hefur verið frá skýrt, var alls engu svarað af landsstjórnarinnar hálfu, svo vér munum. Enda virtist og gengið að því vísu, að með þessu fyrirkomulagi, sem nú ætti sér stað, mundi landstjórninni um megn að hafa nægilegt eftirlit með þessum málum.
Sjálfsagt er því líka svo farið. Því fer mjög fjarri, að ástæða sé til að ætla annað en að landsstjórnin vilji forða landssjóði frá því, að nokkur eyrir sé ranglega af honum hafður. En sannleikurinn virðist vera sá, að fyrirkomulagið er miðað við það, er fjárveitingar til vegabóta voru margfalt minni en þær eru nú orðnar. Áin þarf vitanlega víðari farveg, þegar vatnsmagnið í henni hefur sjöfaldast eða tífaldast. Vegabæturnar þurfa að sjálfsögðu víðtækari umsjón og eftirlitið verður örðugra, þegar farið er að veita til þeirra 80-90 þúsundum á ári, en meðan menn létu sér nægja svo sem 10 þúsundir, eins og átti sér stað fyrir tiltölulega fáum árum.
Að hinu leytinu liggur í augum uppi, að svo búið má ekki standa. Engin von er til þess, að þjóðin uni því að hún sé féflett árlega og það í þeim efnum, sem hún getur sjálf þreifað á. Margir þeir, sem ekki vilja láta sér skiljast, að stjórn vor sé neitt vítaverð fyrir það að baka oss tjón, sem numið getur og numið hefur hundruðum þúsunda, taka sér það að sjálfsögðu nærri ef sumarleiga sem landssjóður greiðir eftir eina bikkju, er eitthvað of há, eða ef landsmenn hafa landssjóð á einhvern annan hátt að féþúfu. Og síður en ekki er það ámælisvert, að þeir gera sér rellu út af því tjóni, sem þeir láta sér skiljast, þó að hins væri jafnframt óskandi, að skilningur þeirra á landsmálum væri víðtækari.
Vandinn er þá þessi, hvernig við lekanum verður (ólæsilegt orð). Flestir virðast ganga að því vísu, sem vér höfum heyrt á málið minnast, að ekki sé til þess ætlandi af landshöfðingja, að hann geti haft svo nákvæma umsjón með þessum málum, sem þörf er á.
Miklu eðlilegra virðist og fyrir ýmsra hluta sakir, að setja slíka yfirumsjón í sambandi við störf landsverkfræðingsins. Ekkert verulegt virðist því til fyrirstöðu, að haldin sé opin skrifstofa hans hér, þó hann sé sjálfur í ferðalögum. Sá eða þeir, sem þar yrðu skipaðir, ættu þá, undir yfirstjórn hans, að gera tillögur um vegabætur, að því leyti, sem þær eru á landsstjórnarinnar valdi, og hafa umsjón með mannaráðningum, hesta og áhaldaútvegun og fjárgreiðslum öllum. Sjálfsagt væri, að hafa verkstjórana að ýmsu leyti í ráðum með. En á þennan hátt ætti að vera unnt að tryggja landssjóð gegn flestum eða öllum þeim misfellum, sem hingað til hefur verið kvartað undan. Að svo miklu leyti, sem skrifstofa þessi gæti ekki til náð, fjarlægðar vegna, mundi hún leita samvinnu hjá þeim yfirvöldum, sem hentugast væri við að eiga, líkt og póstmeistari gerir.
Auðvitað mundi þessi breyting ekki verða kostnaðarlaus. En öll líkindi eru til þess, að landssjóður hafi þegar orðið fyrir miklu meiri halla en sem kostnaðaraukanum nemur, fyrir illa meðferð á vegabótafénu og of lítið eftirlit. Vel getur og verið, að ráða megi bót á misfellunum á einhvern annan hátt en hér er á minnst. En hætt er við, að það verði aldrei gert til hlítar nema með einhverjum kostnaðarauka.


Þjóðólfur, 30. júní, 1900, 52. árg., 42. tbl., bls. 166:

Umsjón með vegamálum.
Um fátt mun mönnum tíðræddara sem stendur, að minnsta kosti sumstaðar á landinu, en um agnúa þá, er séu á vegagerðarmálum vorum, sérstaklega á meðferð þess mikla fjár, er til vegabóta er veitt af landsfé.
Tilefnið til þess umtals nú er vitanlega öðru fremur málshöfðunin gegn einum vegabótaverkstjóra landssjóðs, sem nýlega hefur verið dæmdur sekur af undirrétti fyrir eina af yfirsjónum þeim, er hann var sakaður um. En annars verður ekki sagt, að óánægjan með fyrirkomulag og rekstur vegabótamálanna sé með öllu ný bóla.
Yfirskoðunarmenn landsreikningsins gerðu á síðasta ári þá athugasemd við ávísun vegabótafjárins úr jarðabókarsjóði, að hún hafi “farið þannig fram, að það má heita ókleift með öllu að finna samræmi milli sundurliðunar vegakostnaðarins í jarðabókarsjóðsreikningnum og í landsreikingnum, og þó er það alveg nauðsynlegt og að okkar skilningi vel framkvæmanlegt, að jarðabókarsjóðsreikningurinn beri með sér og sé samhljóða landsreikningnum í því, til hvers hverri útborgaðri upphæð hafi verið varið, en það yrði með því, að ávísanir landshöfðingja upp á féð væru ávallt glöggt og rétt orðaðar í þessu tilliti. Við höfum áður í landsreikninga athugasemdum okkar tekið þetta sama fram, en þó er eigi síst ástæða til þess nú við þennan reikning”.
Af svari landshöfðingja má ráða, að hann hefur talið þessa athugasemd eða aðfinnslu á rökum byggða.
Í þingræðum komu og fram í fyrra alvarlegar athugasemdir viðvíkjandi þessu máli. Meðal annars, þótti það ísjárvert, að allmikið fé væri fengi í hendur einstökum mönnum, sem naumast hefðu næga þekkingu, sumir hverjir, til þess að gera góð reikningsskil, enda væru þau óglögg hjá þeim og illt að átta sig á þeim. Verkstjórar sýni ekki næg rök fyrir því, að féð gangi í raun og veru allt til þess, sem ætlað er.
Þá var og kvartað undan því, að kostnaðurinn við vegabótarvinnu mundi vera óþarflega hár. Verkstjórar legðu til alla hestana og fengju fyrir þá 70-80 kr. um sumarið, sem væri of há leiga, þar sem góða vagnhesta mætti fá keypta fyrir 80 kr. Stundum fengju og verkstjórar hesta leigða hjá bændum, en það kæmi hvergi fram, hvort leigan, sem tilfærð væri í landsreikningnum, væri hin sama og leigan, er bændur fengju.
Agnúar þóttu og á ráðningu verkamanna; oft veldust til vegabótavinnunnar slæpingar og flækingar, sem enga vinnu mundu fá hjá bændum, og í þjónustu landstjórnarinnar fengju þeir hærra kaup en bændur annarra gæfu sínum nýtustu mönnum. All mikilsverð árétting þessara hliðar á málinu kemur og fram í dómi þeim sem áður er um getið, þar sem dómarinn kemst svo að orði:
“Það hefur tíðkast allmikið eftir því sem upplýst er, að ýmsir menn hafa ráðið verkamenn til ákærða, ekki aðeins vinnumenn sína, heldur og aðra, sem þeir hafa tekið einungis til þess að koma þeim í vinnuna; hafa menn þessir tekið til sín vegavinnulaunin, en goldið verkamanninum umsamið kaup, og hirt sjálfir mismuninn. Ákærða var kunnugt um, að slíkar mannaráðningar áttu sér stað, enda áleit hann þær leyfilegar, ef verkamönnunum væri eigi greidd hærri daglaun en ætla mætti að þeir ynnu fyrir, og hugði jafnvel að sér væri sjálfum heimilt að ráða verkamenn á þennan hátt fyrir sinn eigin reikning”.
Athugasemdum þeim, sem fram komu í þessu máli á þingbekkjunum, og hér hefur verið frá skýrt, var alls engu svarað af landsstjórnarinnar hálfu, svo vér munum. Enda virtist og gengið að því vísu, að með þessu fyrirkomulagi, sem nú ætti sér stað, mundi landstjórninni um megn að hafa nægilegt eftirlit með þessum málum.
Sjálfsagt er því líka svo farið. Því fer mjög fjarri, að ástæða sé til að ætla annað en að landsstjórnin vilji forða landssjóði frá því, að nokkur eyrir sé ranglega af honum hafður. En sannleikurinn virðist vera sá, að fyrirkomulagið er miðað við það, er fjárveitingar til vegabóta voru margfalt minni en þær eru nú orðnar. Áin þarf vitanlega víðari farveg, þegar vatnsmagnið í henni hefur sjöfaldast eða tífaldast. Vegabæturnar þurfa að sjálfsögðu víðtækari umsjón og eftirlitið verður örðugra, þegar farið er að veita til þeirra 80-90 þúsundum á ári, en meðan menn létu sér nægja svo sem 10 þúsundir, eins og átti sér stað fyrir tiltölulega fáum árum.
Að hinu leytinu liggur í augum uppi, að svo búið má ekki standa. Engin von er til þess, að þjóðin uni því að hún sé féflett árlega og það í þeim efnum, sem hún getur sjálf þreifað á. Margir þeir, sem ekki vilja láta sér skiljast, að stjórn vor sé neitt vítaverð fyrir það að baka oss tjón, sem numið getur og numið hefur hundruðum þúsunda, taka sér það að sjálfsögðu nærri ef sumarleiga sem landssjóður greiðir eftir eina bikkju, er eitthvað of há, eða ef landsmenn hafa landssjóð á einhvern annan hátt að féþúfu. Og síður en ekki er það ámælisvert, að þeir gera sér rellu út af því tjóni, sem þeir láta sér skiljast, þó að hins væri jafnframt óskandi, að skilningur þeirra á landsmálum væri víðtækari.
Vandinn er þá þessi, hvernig við lekanum verður (ólæsilegt orð). Flestir virðast ganga að því vísu, sem vér höfum heyrt á málið minnast, að ekki sé til þess ætlandi af landshöfðingja, að hann geti haft svo nákvæma umsjón með þessum málum, sem þörf er á.
Miklu eðlilegra virðist og fyrir ýmsra hluta sakir, að setja slíka yfirumsjón í sambandi við störf landsverkfræðingsins. Ekkert verulegt virðist því til fyrirstöðu, að haldin sé opin skrifstofa hans hér, þó hann sé sjálfur í ferðalögum. Sá eða þeir, sem þar yrðu skipaðir, ættu þá, undir yfirstjórn hans, að gera tillögur um vegabætur, að því leyti, sem þær eru á landsstjórnarinnar valdi, og hafa umsjón með mannaráðningum, hesta og áhaldaútvegun og fjárgreiðslum öllum. Sjálfsagt væri, að hafa verkstjórana að ýmsu leyti í ráðum með. En á þennan hátt ætti að vera unnt að tryggja landssjóð gegn flestum eða öllum þeim misfellum, sem hingað til hefur verið kvartað undan. Að svo miklu leyti, sem skrifstofa þessi gæti ekki til náð, fjarlægðar vegna, mundi hún leita samvinnu hjá þeim yfirvöldum, sem hentugast væri við að eiga, líkt og póstmeistari gerir.
Auðvitað mundi þessi breyting ekki verða kostnaðarlaus. En öll líkindi eru til þess, að landssjóður hafi þegar orðið fyrir miklu meiri halla en sem kostnaðaraukanum nemur, fyrir illa meðferð á vegabótafénu og of lítið eftirlit. Vel getur og verið, að ráða megi bót á misfellunum á einhvern annan hátt en hér er á minnst. En hætt er við, að það verði aldrei gert til hlítar nema með einhverjum kostnaðarauka.