1900

Þjóðólfur, 13. júlí, 1900, 52. árg., 33. tbl., bls. 130:

“Þórarinn Jóhannsson” og Tryggvi Gunnarsson.
Í 19. tölublaði Fjallkonunnar þ.á. er grein eftir “Þórarinn Jóhannson” með fyrirsögninni “Andhæli”, sem ég álít mér skylt að svara nokkrum orðum, ekki vegna þess, að ég sé hræddur um, að nokkur skynsamur maður taki mark á því, sem í Fjallkonunni stendur nafnlaust eða með dularnafni – og Þórarinn Jóhannson (verkamaður) er aðeins dularnafn – heldur vegna þess, að hér kemur fyrst fram opinberlega árangurinn af margra ára rógburði eins manns um mig – Tryggva bankastjóra Gunnarssonar – og ég fæ því tækifæri til þess að sýna fram á bankastjórans sannleiksást og samviskusemi í árásum hans á mig.
Hvaða ástæðu hann hefur haft til þess að vera alltaf að narta í mig, veit ég ekki. Ég veit ekki til, að ég nokkru sinni hafi gert honum nokkurn hlut til miska.
Hvort ég á að njóta bróður míns Skúla, sem honum er illa við – og hann hefur þorað betur til við mig en hann – eða á ég að njóta þess, að ég er ingenieur, en hann þóttist áður – og þykist víst enn – Íslands “pontifex maximus” í þeirri list, er mér ókunnugt um.
En sleppum því með ástæður hans.
Svo mikið er víst, að hann hefur alltaf verið á eftir mér, bæði utan þings og innan, en sérstaklega hefur hann þó verið að rægja mig á þingi við þingmennina, af því hann hefur haldið að þar gætu áhrifin orðið skaðlegust fyrir mig. Þar hefur hann komið með ýmsar ósanninda- og þvaðursögur um mig, sem svo ómerkingurinn í Fjallkonunni hefur tekið upp að miklu leyti, en bætt dálitlu við frá eigin brjósti.
Ein sagan, sem Tryggvi sagði var sú, að það hefði átt að vanta sement við Blöndubrúna, svo að hætta hefði orðið við verkið í miðju kafi. Þetta er bara slúður; það var nægilegt sement til þess að ljúka við það af stöplunum, sem ég ætlaðist til að búið væri það sumar – sumarið 1896 – því að það var ekki hægt né heppilegt að hlaða efstu lögin af stöplunum fyrr en um leið og járnbrúin væri sett á, sem varð næsta sumar (1897). Vinnan hætti sumarið 1896 ekki fyrr en seint í september, þegar næturfrost voru farin að koma og verra að eiga við múrsmíði.
Þá ber Tryggvi það á borð fyrir þingmenn, að það hafi verið allt mér að kenna, að akkerisstöpullinn annar á Þjórsárbrúnni reyndist of léttur á vígsludeginum og hafi “hótað hundruðum manna bráðum bana”, eins og stendur í nefndri Fjallkonu grein.
En þetta mál var þannig vaxið, að íslenska ráðuneytið í Kaupmannahöfn samdi að öllu leyti um brúargerðina við ensku verksmiðjuna Vaughan & Dymond, lét gera í útlöndum undir umsjón teknísks ráðunauts síns (Windfeld-Hansen) teikningar allar og útreikninga. sem það svo samþykkti. Mitt hlutverk var því aðeins að sjá um, að verkið væri gert vel og samviskulega eftir þeim teikningum sem fyrir lágu. Sumarið 1894 voru stöplarnir hlaðnir, en þá hafði ég enn ekki fengið neinar teikningar frá ráðuneytinu. Sumarið 1895, þegar járnbrúna átti að leggja á stöplana fékk ég teikningarnar og gat þá fullvissað mig um, að stöplarnir voru eins og teikningarnar sögðu fyrir, aðeins voru aðalstöplarnir að austanverðu of lágir, og voru þeir strax snemma um sumarið hækkaðir eins og vera átti. Mér datt alls ekki í hug að rengja útreikninga útlendu ingenieuranna, og fann enga ástæðu til að reikna út styrkleika og þyngd stöplanna fremur en hvers smá-járnstykkis, sem í brúnni var. Það var fyrst eftir að annar akkerisstöpullinn, vígsludaginn, lyftist um 1-2 þumlunga upp, að ég fór að athuga og reikna út þunga akkerisstöplanna og fann þá, að þeir voru helst til léttir, til þess að geta staðist þann mesta þunga, sem á brúna gat komið. Ég þykist því enga sök eiga á því, að svo tókst til, heldur var það yfirsjón ráðunauts stjórnarinnar í K.höfn að kenna, sem gerði eða samþykkti teikningarnar.
Þegar jarðskjálftarnir miklu gengu hér á Suðurlandi og Ölfusárbrúin skemmdist; 3-4 uppihaldsstengur hrukku í sundur, stöpull undir trébrúnni austanvert við aðalbrúna hrundi m.m., brá Tryggvi sér austur og kom svo eftir á með þá speki í Ísafold, að klöppin undir vesturstöpli Þjórsárbrúarinnar hefði verið margsprungin, þegar brúin var byggð, af því að hann sá, að klöppin var sprungin nokkuð fyrir framan stöplana eftir jarðskjálftana. Það er lagleg ályktun hjá bankastjóranum, að af því að jarðskjálftarnir hafi sprengt nokkuð framan af klöppinni og eitt stöpulhornið því standi nokkuð tæpt nú, að þá hafi brúin hlotið að standa tæpt, þegar hún var byggð. Nei – klöppin var heilleg og það var 1-2 faðma þrep fyrir framan vesturstöplana sumarið 1895, en bankastjórinn gat þess alls ekki, að hornið á vesturstöpli Ölfusárbrúarinnar stóð og stendur fram af klöppinni, því að það mátti ekki kasta neinum skugga á óskabarnið.
Þá sagði T.G. ennfremur oft á þingi, að ég hefði ekki viljað skoða Bessastaðatjörn í því skyni að gera áætlun um kostnað við þilskipakví. – Þetta er í sjálfu sér ómerkilegt mál, því að það hefði ekki verið svo stórvægileg synd, þótt ég hefði ekki viljað hlaupa eftir því, sem Tryggvi vildi gera láta, því að ég var alls ekki skyldugur til að skipta mér neitt af því. – En það undarlega var, að ég ætlaði að gera þetta fyrir Tryggva og ætlaði að fara með honum suður eftir einhvern tíma við stórstraumsfjöru, því að þá var best að skoða tjörnina.
Einn góðan veðurdag – það var í apríl 1897, rétt fyrir páska að mig minnir – sagði ég við T., að nú skyldi ég koma með honum; en hann var þá eitthvað vant við látinn, og vildi heldur geyma það hálfan mánuð enn – til næstu stórstraumsfjöru. – Þegar hann svo að hálfum mánuði liðnum vildi fara, gat ég ekki farið sökum lasleika, ég hafði fengið “Bronkitis” og læknirinn réð mér frá að fara. – Undireins og ég varð frískur þurfti ég að fara norður til Blöndubrúarbyggingarinnar. – Út úr þessu býr svo Tr. það til, að ég hafi ekki viljað fara, og notar það til að sverta mig í augum þingmanna, og þetta er því lúalegra, þar sem ég var fjarstaddur og gat ekki borið hönd fyrir höfuð mér.
Nokkur fleiri atriði eru nefnd í Fjallkonugreininni, sem Tr. hefur ekki enn komið fram með í þingsalnum, en ég geri ráð fyrir, að þau finnist samt öll – og meira til – í þykku bókinni, sem hann sagðist geta fyllt með mínum ingenieur-syndum.
Þessi atriði eru mestmegnis ekki annað en rangfærslur og ósannindi.
Til dæmis má taka, þar sem sagt er, að breytt hafi verið stefnu þeirri, er ég hafi ætlað veginum frá Kolviðarhóli upp á Hellisheiði. – Það er sá fótur fyrir þessu, að ég breytti sjálfur ofurlitlum spöl á þessum vegarkafla – 2-300 föðmum – eftir að ég hafði fengið aðrar upplýsingar en áður um snjóþyngsli og vatnagang.
Ennfremur er sagt í greininni, að Hörgá hafi “velt brúnni af sér”; það veit ég eigi, hvernig hefur getað átt sér stað, þar sem engin brú hefur ennþá verið lögð yfir ána og ekki einu sinni járnið í hana kom fyrr en í vetur. – Það sem höfundurinn á við, og rangfærir svona, er líklega það, að það gróf í óvanalega miklum vatnavöxtum undan einum af 4 stöplunum, ekki hálfgerðum og nenni ég ekki að taka hér upp aftur það, sem ég skrifaði um það í Stefni í sumar sem leið, en læt mér nægja að vísa til þess.
Þá minnist höfundur Fjallkonugreinarinnar á tillögur mínar viðvíkjandi Öxarárbrúnni og Holtaveginum og finnur mér það til foráttu, að þeim tillögum mínum var ekki fylgt; en fyrst er að sanna það, að hinar tillögurnar, sem fylgt var, hafi verið betri en mínar; það er ekki alltaf réttast það, sem sigrar eða verður ofan á, og þó að verkstjórinn (E.F.) segi t.d., að Öxarárbrúin hafi orðið ódýrari en ég áætlaði, þá veit maður það eftir þeim prófum, sem í hans sakamáli hafa verið haldin, að öll hans reiknisfærsla hefur verið í vitleysu og á ringulreið; það er því ekki óhugsandi, að það hafi komið einhver ruglingur á reikninga hans viðvíkjandi Öxarárbrúnni og vegagerðinni á Mosfellsheiði, sem hann hafði umsjón með um sama leyti, og eitthvað frá Öxarárbrúnni hafi slæðst inn í Mosfellsheiðarreikningana, og þess vegna hafi brúin orðið svona ódýr.
Það, að mínum tillögum var ekki fylgt heldur verkstjórans, sýnir aðeins það, hvað Íslendingar eru skammt komnir áleiðis í því verklega, og hvert ólag er á vegastjórninni, eins og henni er nú fyrir komið.
Það myndi aðeins þykja hlægilegt í öðrum menntuðum löndum, ef einhver héldi því þar fram, að taka ætti fremur til greina tillögur verkstjóranna, ómenntaðra alþýðumanna, en tillögur ingenieuranna.
Og til hvers eru þá Íslendingar að hafa nokkurn lærðan ingeniur? Það væri þá heppilegra að gera einhvern verkstjórann eða alla verkstjórana að ingenieurum, en sleppa hinum “stofulærða” það spöruðust nokkrir skildingar við það; en annað mál er það , hvort Íslendingar ekki með því laginu spöruðu skildinginn en köstuðu burt krónunum, já þúsundunum, sem töpuðust við vitlausa vegalagningu og vitlaust fyrirkomulag á vegamálunum.
Reykjavík 8. júlí 1900.
Sig. Thoroddsen.


Þjóðólfur, 13. júlí, 1900, 52. árg., 33. tbl., bls. 130:

“Þórarinn Jóhannsson” og Tryggvi Gunnarsson.
Í 19. tölublaði Fjallkonunnar þ.á. er grein eftir “Þórarinn Jóhannson” með fyrirsögninni “Andhæli”, sem ég álít mér skylt að svara nokkrum orðum, ekki vegna þess, að ég sé hræddur um, að nokkur skynsamur maður taki mark á því, sem í Fjallkonunni stendur nafnlaust eða með dularnafni – og Þórarinn Jóhannson (verkamaður) er aðeins dularnafn – heldur vegna þess, að hér kemur fyrst fram opinberlega árangurinn af margra ára rógburði eins manns um mig – Tryggva bankastjóra Gunnarssonar – og ég fæ því tækifæri til þess að sýna fram á bankastjórans sannleiksást og samviskusemi í árásum hans á mig.
Hvaða ástæðu hann hefur haft til þess að vera alltaf að narta í mig, veit ég ekki. Ég veit ekki til, að ég nokkru sinni hafi gert honum nokkurn hlut til miska.
Hvort ég á að njóta bróður míns Skúla, sem honum er illa við – og hann hefur þorað betur til við mig en hann – eða á ég að njóta þess, að ég er ingenieur, en hann þóttist áður – og þykist víst enn – Íslands “pontifex maximus” í þeirri list, er mér ókunnugt um.
En sleppum því með ástæður hans.
Svo mikið er víst, að hann hefur alltaf verið á eftir mér, bæði utan þings og innan, en sérstaklega hefur hann þó verið að rægja mig á þingi við þingmennina, af því hann hefur haldið að þar gætu áhrifin orðið skaðlegust fyrir mig. Þar hefur hann komið með ýmsar ósanninda- og þvaðursögur um mig, sem svo ómerkingurinn í Fjallkonunni hefur tekið upp að miklu leyti, en bætt dálitlu við frá eigin brjósti.
Ein sagan, sem Tryggvi sagði var sú, að það hefði átt að vanta sement við Blöndubrúna, svo að hætta hefði orðið við verkið í miðju kafi. Þetta er bara slúður; það var nægilegt sement til þess að ljúka við það af stöplunum, sem ég ætlaðist til að búið væri það sumar – sumarið 1896 – því að það var ekki hægt né heppilegt að hlaða efstu lögin af stöplunum fyrr en um leið og járnbrúin væri sett á, sem varð næsta sumar (1897). Vinnan hætti sumarið 1896 ekki fyrr en seint í september, þegar næturfrost voru farin að koma og verra að eiga við múrsmíði.
Þá ber Tryggvi það á borð fyrir þingmenn, að það hafi verið allt mér að kenna, að akkerisstöpullinn annar á Þjórsárbrúnni reyndist of léttur á vígsludeginum og hafi “hótað hundruðum manna bráðum bana”, eins og stendur í nefndri Fjallkonu grein.
En þetta mál var þannig vaxið, að íslenska ráðuneytið í Kaupmannahöfn samdi að öllu leyti um brúargerðina við ensku verksmiðjuna Vaughan & Dymond, lét gera í útlöndum undir umsjón teknísks ráðunauts síns (Windfeld-Hansen) teikningar allar og útreikninga. sem það svo samþykkti. Mitt hlutverk var því aðeins að sjá um, að verkið væri gert vel og samviskulega eftir þeim teikningum sem fyrir lágu. Sumarið 1894 voru stöplarnir hlaðnir, en þá hafði ég enn ekki fengið neinar teikningar frá ráðuneytinu. Sumarið 1895, þegar járnbrúna átti að leggja á stöplana fékk ég teikningarnar og gat þá fullvissað mig um, að stöplarnir voru eins og teikningarnar sögðu fyrir, aðeins voru aðalstöplarnir að austanverðu of lágir, og voru þeir strax snemma um sumarið hækkaðir eins og vera átti. Mér datt alls ekki í hug að rengja útreikninga útlendu ingenieuranna, og fann enga ástæðu til að reikna út styrkleika og þyngd stöplanna fremur en hvers smá-járnstykkis, sem í brúnni var. Það var fyrst eftir að annar akkerisstöpullinn, vígsludaginn, lyftist um 1-2 þumlunga upp, að ég fór að athuga og reikna út þunga akkerisstöplanna og fann þá, að þeir voru helst til léttir, til þess að geta staðist þann mesta þunga, sem á brúna gat komið. Ég þykist því enga sök eiga á því, að svo tókst til, heldur var það yfirsjón ráðunauts stjórnarinnar í K.höfn að kenna, sem gerði eða samþykkti teikningarnar.
Þegar jarðskjálftarnir miklu gengu hér á Suðurlandi og Ölfusárbrúin skemmdist; 3-4 uppihaldsstengur hrukku í sundur, stöpull undir trébrúnni austanvert við aðalbrúna hrundi m.m., brá Tryggvi sér austur og kom svo eftir á með þá speki í Ísafold, að klöppin undir vesturstöpli Þjórsárbrúarinnar hefði verið margsprungin, þegar brúin var byggð, af því að hann sá, að klöppin var sprungin nokkuð fyrir framan stöplana eftir jarðskjálftana. Það er lagleg ályktun hjá bankastjóranum, að af því að jarðskjálftarnir hafi sprengt nokkuð framan af klöppinni og eitt stöpulhornið því standi nokkuð tæpt nú, að þá hafi brúin hlotið að standa tæpt, þegar hún var byggð. Nei – klöppin var heilleg og það var 1-2 faðma þrep fyrir framan vesturstöplana sumarið 1895, en bankastjórinn gat þess alls ekki, að hornið á vesturstöpli Ölfusárbrúarinnar stóð og stendur fram af klöppinni, því að það mátti ekki kasta neinum skugga á óskabarnið.
Þá sagði T.G. ennfremur oft á þingi, að ég hefði ekki viljað skoða Bessastaðatjörn í því skyni að gera áætlun um kostnað við þilskipakví. – Þetta er í sjálfu sér ómerkilegt mál, því að það hefði ekki verið svo stórvægileg synd, þótt ég hefði ekki viljað hlaupa eftir því, sem Tryggvi vildi gera láta, því að ég var alls ekki skyldugur til að skipta mér neitt af því. – En það undarlega var, að ég ætlaði að gera þetta fyrir Tryggva og ætlaði að fara með honum suður eftir einhvern tíma við stórstraumsfjöru, því að þá var best að skoða tjörnina.
Einn góðan veðurdag – það var í apríl 1897, rétt fyrir páska að mig minnir – sagði ég við T., að nú skyldi ég koma með honum; en hann var þá eitthvað vant við látinn, og vildi heldur geyma það hálfan mánuð enn – til næstu stórstraumsfjöru. – Þegar hann svo að hálfum mánuði liðnum vildi fara, gat ég ekki farið sökum lasleika, ég hafði fengið “Bronkitis” og læknirinn réð mér frá að fara. – Undireins og ég varð frískur þurfti ég að fara norður til Blöndubrúarbyggingarinnar. – Út úr þessu býr svo Tr. það til, að ég hafi ekki viljað fara, og notar það til að sverta mig í augum þingmanna, og þetta er því lúalegra, þar sem ég var fjarstaddur og gat ekki borið hönd fyrir höfuð mér.
Nokkur fleiri atriði eru nefnd í Fjallkonugreininni, sem Tr. hefur ekki enn komið fram með í þingsalnum, en ég geri ráð fyrir, að þau finnist samt öll – og meira til – í þykku bókinni, sem hann sagðist geta fyllt með mínum ingenieur-syndum.
Þessi atriði eru mestmegnis ekki annað en rangfærslur og ósannindi.
Til dæmis má taka, þar sem sagt er, að breytt hafi verið stefnu þeirri, er ég hafi ætlað veginum frá Kolviðarhóli upp á Hellisheiði. – Það er sá fótur fyrir þessu, að ég breytti sjálfur ofurlitlum spöl á þessum vegarkafla – 2-300 föðmum – eftir að ég hafði fengið aðrar upplýsingar en áður um snjóþyngsli og vatnagang.
Ennfremur er sagt í greininni, að Hörgá hafi “velt brúnni af sér”; það veit ég eigi, hvernig hefur getað átt sér stað, þar sem engin brú hefur ennþá verið lögð yfir ána og ekki einu sinni járnið í hana kom fyrr en í vetur. – Það sem höfundurinn á við, og rangfærir svona, er líklega það, að það gróf í óvanalega miklum vatnavöxtum undan einum af 4 stöplunum, ekki hálfgerðum og nenni ég ekki að taka hér upp aftur það, sem ég skrifaði um það í Stefni í sumar sem leið, en læt mér nægja að vísa til þess.
Þá minnist höfundur Fjallkonugreinarinnar á tillögur mínar viðvíkjandi Öxarárbrúnni og Holtaveginum og finnur mér það til foráttu, að þeim tillögum mínum var ekki fylgt; en fyrst er að sanna það, að hinar tillögurnar, sem fylgt var, hafi verið betri en mínar; það er ekki alltaf réttast það, sem sigrar eða verður ofan á, og þó að verkstjórinn (E.F.) segi t.d., að Öxarárbrúin hafi orðið ódýrari en ég áætlaði, þá veit maður það eftir þeim prófum, sem í hans sakamáli hafa verið haldin, að öll hans reiknisfærsla hefur verið í vitleysu og á ringulreið; það er því ekki óhugsandi, að það hafi komið einhver ruglingur á reikninga hans viðvíkjandi Öxarárbrúnni og vegagerðinni á Mosfellsheiði, sem hann hafði umsjón með um sama leyti, og eitthvað frá Öxarárbrúnni hafi slæðst inn í Mosfellsheiðarreikningana, og þess vegna hafi brúin orðið svona ódýr.
Það, að mínum tillögum var ekki fylgt heldur verkstjórans, sýnir aðeins það, hvað Íslendingar eru skammt komnir áleiðis í því verklega, og hvert ólag er á vegastjórninni, eins og henni er nú fyrir komið.
Það myndi aðeins þykja hlægilegt í öðrum menntuðum löndum, ef einhver héldi því þar fram, að taka ætti fremur til greina tillögur verkstjóranna, ómenntaðra alþýðumanna, en tillögur ingenieuranna.
Og til hvers eru þá Íslendingar að hafa nokkurn lærðan ingeniur? Það væri þá heppilegra að gera einhvern verkstjórann eða alla verkstjórana að ingenieurum, en sleppa hinum “stofulærða” það spöruðust nokkrir skildingar við það; en annað mál er það , hvort Íslendingar ekki með því laginu spöruðu skildinginn en köstuðu burt krónunum, já þúsundunum, sem töpuðust við vitlausa vegalagningu og vitlaust fyrirkomulag á vegamálunum.
Reykjavík 8. júlí 1900.
Sig. Thoroddsen.