1899

Tenging í allt blaðaefni ársins 1899

Ísafold, 11. feb. 1899, 26. árg., 8. tbl., bls. 30:
Til stendur að varða Kjalveg í sumar.

Kjalveg
á að varða í sumar, úr Mælifellsdal vestan hnúks suður fyrir Kjalfell, hlaða þar um 500 vörður 3 álna háar, með 100 faðma millibili. Það gerir Magnús Vigfússon úr Reykjavík, við 7. mann, 3 skagfirska. Kostnaður áætlaður 3.000 kr. og greiðist af vegafé úr landssjóði. Kapt. Dan. Bruun er frumkvöðull þessa fyrirtækis og lét kanna leiðina í fyrra, tiltók vörðustæðin.


Þjóðólfur, 7. apríl 1899, 51. árg., 16. tbl., forsíða:
Sr. Jóhannes L. L. Jóhannsson segir að menn vanti gersamlega kunnáttu í mörgum sýslum til að búa til vegi.

Athugasemdir
Við heyásetning, böðun og vegagerðir
Eftir séra Jóhannes L. L. Jóhannsson
¿¿ Þá er það ein sorgleg fjáreyðsla, sem á sér stað í landinu með vegabótaféð.
Sýsluvegagjald og hreppsvegagjald er lagt á sveitasjóði og einstaka menn, án þess nokkurt verulegt gagn verði að því. Þeim peningum er víða hvar sama sem fleygt í sjóinn. Menn vantar gersamlega kunnáttu í mörgum sýslum til að búa til vegi og afleiðingin verður svo, að verkið er ónýtt á eftir og allt jafnófært sem áður. Hinn dýri mannafli er mest notaður við vinnuna, en mjög lítið hestar og vagnar sem er ódýr vinnukraftur. Nú er það ofaníburðurinn, sem mest og best gerir vegina góða og varanlega, en að flytja hann að svo nógur sé, er ómögulegt nema með hestum og vögnum. Hversu fráleitt sé að nota vagnhesta eigi við vegagerð sést á því, að 6 hestar kosta eigi meira um daginn en 1 maður, og svo er verkið á eftir miklu verra, ef það er unnið án hesta og vagna. Það er nú mestmegnis sýslunefndum og hreppsnefndum sjálfum að kenna, hversu lítið gagn verður að vegabótafénu, en svo er þetta fé langt of lítið til að vinna nokkuð verulegt með í þeim héruðum, sem víða þarf við vegi að gera og í þessu máli, sem sannarlega er þarflegt og eigi ætti að spara fjárframlög til, er löggjöfin einmitt svo úr garði gerð, að féð hlýtur alltaf að vera allsendis ónógt. Réttast væri náttúrlega að afnema alveg gjald það til sýsluvega og hreppavega, sem lagt er á verkfæra menn í vegalögunum, en í þess stað ættu sýslunefndir og hreppsnefndir að vera skyldar til að leggja fé úr sýslusjóði og hreppssjóði, nokkurn veginn eftir þörfum til að bæta vegina. Meðan það fyrirkomulag, sem er nú, lendir ávallt við það, að þetta litla vegagjald, sem fellur til, er látið duga, þótt það hvergi nærri nægi til þarfanna, enda verður allur árangurinn tómt einskisvert kák, sem eigi er til annars en eyða fé, sem þótt lítið sé, gæti komið að svo miklum notum með nokkurri viðbót og væri því skynsamlega ráðstafað.


Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103:
Sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu lét leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur

Vagnvegur
Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50x100 cm., utan ein úr timbri 3x2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð, því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.


Þjóðólfur, 2. maí 1899, 51. árg., 21. tbl., forsíða:
Sýslufundur Árnesinga samþykkti m.a. að öll vinna að hreppavegum og sýsluvegum verði framvegis unnin með venjulegum vegabótaáhöldum og undir umsjón manns, sem verið hefði við vegagerð með Erl. Zakaríassyni eða öðrum hans nótum.

Sýslufundur Árnesinga
Um fund þennan er Þjóðólfi skrifað 20. f. m.
Sýslunefnd Árnesinga hélt aðalfund sinn á Eyrarbakka 12. apríl. Stóð hann yfir 4 daga. Til umræðu komu 67 málefni og verður hér minnst á það helsta.
Samþykkt var, að sýslan tæki 5.000 kr. lán til brúargerðar á Soginu hjá Alvirðu, gegn því að Grímsneshreppur leggi fram 2.500 kr., hitt landssjóður og þetta sé komið í framkvæmd fyrir 1903.
Farið fram á og samþykkt, að öll vinna að hreppavegum og sýsluvegum verði framvegis unnin með venjulegum vegabótaáhöldum og undir umsjón manns, sem verið hefði við vegagerð með Erl. Zakaríassyni eða öðrum hans nótum. –
Af vegafé sýslunnar, var lagt til vegaálmunnar að Stokkseyri 827 kr. 25 a. Hitt var bútað í smá búta milli ýmsra hreppa, og sleppi ég að minnast á það frekar. –
Gjöld sýslusjóðs áætluð 4.062 kr. 48 a. eftirstöðvar 162 kr., 48 a. niðurjöfnun 3.900 kr.
Samþykkt var að biðja um, að vegurinn frá Svínahrauni að Lækjarbotnum yrði varðaður hið bráðasta, helst á næsta sumri. –


Ísafold, 5. júlí 1899, 26. árg., 54. tbl., bls. 178:
Um samgöngubætur eru fern lög fyrirhuguð, m.a. um brú og ferju á Lagarfljóti.

Frá Alþingi
Um samgöngubætur eru fern lög fyrirhuguð: um brú og ferju á Lagarfljóti, staurabrú hjá Egilsstöðum fyrir 45.000 kr. og ferju hjá Egilsstöðum fyrir 45.000 kr. og ferju hjá Steinsvaði fyrir 3.000 kr.; um þjóðveg frá Borgarnesi til Stykkishólms; um að skylt sé að láta af hendi gegn hæfilegu endurgjaldi lóð undir vita og íveruhús vitamanna og jarðnæði fyrir þá m. m.; og um dag- og næturbendingar á ísl. skipum í sjávarháska og um ráðstafanir er skip rekast á.


Ísafold, 26. ágúst 1899, 26. árg., 58. tbl., bls. 231:
Í fréttum af fjárlögum er sagt frá úrslitum nokkurra helstu ágreiningsatriða.

Frá Alþingi
Þingslit í dag.
Fjárlögum lokið í gær, með einni umr. í efri deild, sem aðhylltist þau óbreytt eins og neðri deild hafði frá þeim gengið í síðara skiptið og á þakkir skilið fyrir að forða frumvarpinu frá að komast í sameinað þing, með þeim hvalfjöruaðgangi, sem þar tíðkast, um bitlingana.
Tekjuhallinn þó ekki nema 99 þús., í stað 140 þús. áður.
Hér skal aðeins skýrt frá úrslitum nokkurra helstu ágreiningsatriða í frumvarpinu.
Til póstvagnverða í viku hverri frá Rvík austur að Ægissíðu eða Odda veittar 600 kr. hvort árið.
Til vegar yfir Breiðdalsheiði veittar 2.500 kr. fyrra árið og 2.400 til vegar frá Skipaskaga að Blautós gegn öðru eins frá sýslubúum; og 1.700 kr. til brúar á Laxá í Dölum, þriðjungur kostnaðar. Sömul. 400 kr. til að bæta lending í Þorlákshöfn, gegn jafnmiklu frá sýslunefnd.


Ísafold, 30. ágúst 1899, 26. árg., 59. tbl., bls. 234:
Verkfræðingur landsins, Sigurður Thoroddsen, sendir Alþingi athugasemdir við áætlun Barths verkfræðings varðandi Lagarfljótsbrú.

Brúin á Lagarfljóti

Viðvíkjandi Lagarfljótsbrúnni fyrirhuguðu sendi verkfræðingur landsins, hr. Sigurður Thoroddsen, Alþingi eftirfarandi skýringar og hefir mælst til að þær væru prentaðar hér í blaðinu:
Með því að ég að undanförnu hefi verið á sífelldu ferðalagi – kom hingað til bæjarins í gærkveldi – og með því að ég fyrst nú fyrir fáum dögum hefi fengið áætlun herra ingenieur Barths um brúna á Lagarfljóti hjá Egilsstöðum, hefi ég eðlilega ekki fyr en nú getað sent hinu hæstvirta alþingi athugasemdir mínar við áætlun þessa, sem mér að ýmsu leyti þykir athugaverð, einkum hvað flutningskostnað snertir, svo að það eru engin líkindi til, að verkið verði unnið fyrir það fé, sem áætlað er.
Herra Barth gerir ráð fyrir, að flutningskostnaður á efninu (sem verður c. 200 tons) frá Noregi verði 10.000 kr., nefnilega 50 kr. fyrir hvert tonn, en það er ætlun mín, að þessi upphæð verði allt of lítil, og varla meri en til þess að koma efninu á Héraðssand, því að flytja svo stór stykki yfir heiðarnar frá Seyðisfirði mun alveg ókleift eða að minnsta kosti miklu kostnaðarsamara. – Frá Danmörku mun flutningskostnaður á brúarefni – upp og niður – vera tæpar 40 kr. pr. Tonn og frá Noregi mundi það verða líkt; en nú þarf sérstakan skipsflutning á Héraðssand og landflutning þar, og er hvorttveggja örðugt, og yrði sá aukakostnaður að mínu áliti minnst 10 kr. pr. tonn; samtals eru þá komnar ca. 50 kr. pr. tonn; en nú er eftir að flytja allt efnið 6-7 mílur upp í land (að Einhleypingi hjá Egilsstöðum), og þó að maður geri ráð fyrir, að oftast sé að vetrarlagi gott akfæri upp eftir fljótinu, þá verður þó að beygja fyrir Kirkjubæjarfoss og gera vetrarbraut kringum hann, og ef til vill þarf að gera víðar við veg á leiðinni. Þetta allt yrði æði mikill kostnaðarauki, líklega allt að 40-50 kr. pr. tonn, ef allt gengur vel. Það er því ætlun mín, að flutningskostnaðurinn frá útlöndum að brúarstæðinu verði 90-100 kr. pr. tonn og áætlun herra Barhs sé í þessu eina atriði 8-10.000 kr. of lág.
Þá er ýmislegt fleira athugavert. Staurarekstur (Pæleramning) reiknar herra Barth 2 kr. pr. meter, eins og tíðkast í Noregi, en gáir ekki að því að slíkt er miklu dýrara hér á landi, þar sem menn eru óvanir slíku verki og auk þess þarf að kaupa sérstök verkfæri til vinnunnar, af því að hér er um óvana langa staura að ræða og má því ætla að hver meter yrði hér 1 kr. dýrari; þessi liður verður því 500 kr. of lágur.
Reikningur herra Barths á járnbjálkum og verki því, er þar að lýtur, er einnig allt of lágur, hann reiknar 20 aura pr. kgr. (10 aura pr. pd.). Járnið og vinna á því er nú í útlöndum sífellt að hækka (sökum verkfalls og annars) og þegar seinast var pantað járn í Hörgárbrúna, þá kostaði járnið í Kaupmannahöfn 32 aura pr. kgr. (16 a. pr. pd.) en auk þess leggst á kostnaður við samsetning járnbjálkanna, hnoðun á nöglum, málning o. fl. – Í Blöndubrúnni kostaði járnið með hnoðun og samsetningu á staðnum (en þó án málningar) 36 ½ aur. Pr. kgr. (18,25 a. pr. pd.) og þá var þó verðið á járni lægra en nú. Auðvitað verður hér (við Lagarfljótsbrúna) einfaldari samsetning bjálkanna, en yrði þó líklega um 30 a. pr. kgr. (15 a. pr. pd.) – Til samanburðar má geta þess að óvandaðasta járn, t.d. skeifnajárn eða því um líkt, kostar hér í Reykjavík 16 a. pd. (32 a. kgr.). – Þessi liður ætti því að vera 5.355 kr. hærri (53.550 kgr. Með 10 aura viðbót). –
Þá er ennfremur múrverkið alltof lágt reiknað, þótt litlu nemi á svo stórri áætlun, þar sem málverkið er svo lítið. – Herra Barth reiknar t.d. kostnaðinn á velhlöðnum framúr 14-15 kr. per. Kubikmeter: í hvern kúbikmeter má reikna að gangi ein tunna af sementi, sem kostar á Seyðisfirði 11-12 kr. (og sementið er að stíga í verði eins og fleira), og flutningurinn að brúarstæðinu 4-5 kr. minnst, þá kostar sementið eitt í kubikmeter af steinvegg 16-17 krónur, en þá er eftir að afla grjótsins, flytja það a, laga það og hlaða m. m.: þessi áætlun nær því ekki neinni átt. –
Ýmislegt fleira mætti til finna sem er of lágt reiknað, en í þessum atriðum, sem nefnd hafa verið og ég strax hefi rekið augun í að eins við fljótlegt álit, verður hinn aukni kostnaður hér um bil þessi:
Flutningskostnaður ¿c. 9.000 kr.
Staurakostnaður c ¿¿. 500 kr
Járnverk c. ¿¿¿¿¿. 5.300 kr
Múrverk c. ¿¿¿¿¿. 300 kr
= 15.100 kr.
Hin einasta upphæð, sem mér finnst of há hjá herra Barth, er upphæðin fyrir “Administation” (umsón og verkstjórn m.m.) 5.800 kr; það er reiknað efit útlendum mælikvarða, því að í útlöndum eru ingenieurar hátt launaðir og fá auk þess háa dagpeninga og ferðapeninga, þegar þeir fara eitthvað frá heimili sínu.
Það er skoðun mín, að Lagarfljótsbrúin, eftir því fyrirkomulagi, sem herra Barth hefir stungið uppá, muni kosta 60 þúsundir krónur eða þar yfir í stað 45.000 kr., sem Barth áætlar.
Það er engin von, að útlendingar, þótt ágætir ingenieurar séu, en enga reynslu hafa hér á landi og ekki þekkja landshætti, geti gert fullnægjandi áætlun um kostnað stórvirkja hér á landi, þar sem öllu hagar allt öðruvísi en í útlöndum, einkum með flutning og ferðalög. Slíkt lærist fyrst smátt og smátt með reynslunni. Til dæmis má taka, að Hovdenak, sem hefir talsvert orð á sér sem góður ingenieur, gerði áætlun um fasta járnbrú á Fnjóská c. 75 alna langa, að hún mundi kosta c. 17.000 kr.: en Blöndubrúin, sem er aðeins 60 álnir, kostaði rúmar 23 þúsundir, og er þar þó margfalt hægri aðflutningur og góð undirstaða (klöpp) undir stöplunum, en aðeins möl og sandur við Fnjóská, svo að þar þyrfti að reka niður langa staura; þar er ég því sannfærður um, að 75 álna brú mundi kosta 30-40 þúsund krónur.
Það er mikið mein, að ingenieur landsins sakir sífelldra ferðalaga landshorna á milli ekki getur á þingsumrum leiðbeint þingmönnum, þegar um slík efni er að ræða; þá gæti margt skýrst fyrir mönnum og margur misskilningur fallið burtu.
Reykjavík, þ. 9. dag ágústmán. 1899.
Virðingarfyllst,
Sig. Thoroddsen.


Þjóðólfur, 1. september 1899, 51. árg., 44. tbl., forsíða:
Þjóðólfur segir þingið 1899 varla hafa stigið neitt verulegt nýtt spor í samgöngumálum

Afrek þingsins 1899
eru nú orðin lýðum ljós af lagafrumvörpum þeim, er það hefur afgreitt, og getið hefur verið að nokkru. Eru sum þeirra allstórfelld og baka landssjóði afar mikinn kostnað, enda er tekjuhallinn á fjárlögum áætlaður nálega 100.000 kr., og verður eflaust í reyndinni meiri. Verður þess skammt að bíða, að viðlagasjóður verði þurrausinn, ef haldið verður áfram í sömu átt nokkra hríð enn.
¿¿.
Í samgöngumálum hefur þingið ekki stigið neitt verulegt nýtt spor, nema ef telja skyldi veitingu 600 kr. hvort árið til póstvagnferða í hverri viku frá 15. júní – 1. okt., frá Reykjavík austur að Ægissíðu eða Odda, en hætt er við, að sú veiting komi að harla litlu gagni. Veitingin til Lagarfljótsbrúarinnar telst og til samgöngumála.


Ísafold, 21. okt. 1899, 26. árg., 68. tbl., bls. 269:
“Hver veit nema þetta lagist alltsaman einhverntíma á næstu öld!” segir greinarhöfundur um slæmt ástand á Hafnarfjarðarvegi.

Vondur vegur
Brot úr ferðasögu
---- Þegar ég var kominn upp á Hvaleyrarholt, hlakkaði ég til. Nú byrjar “Civilisationin”, hugsaði ég, nú er greiðfært úr þessu. Klárinn fór með mig á hýru spori niður holtið, þangað til ég kom niður í Sandskörðin. Nei, vað er þetta? Sjór yfir öllum veginum! Ég mundi ekki eftir að það var stórstraums-flóð, og gekk sjórinn alveg upp í bakkana, langt upp fyrir götuna. Ekki var annað fært, ef ég ekki vildi bíða þess að út félli, en ég klöngrast upp sjálfa bakkana, og kaus ég þann kost, fremur en að tefjast þar í hálfan klukkutíma, eða lengur. Ég komst þetta með illan leik, og fékk mér nú góðan skeiðsprett inn undir Ásbúð. En þegar ég kem þar, sé ég að kækurinn flóir yfir allan veginn, og ætlaði ég að ríða upp með honum, fram með Ásbúðar túngarði. En hvernig fer? Áður en mig varir, sekkur hesturinn í fen, og lá við sjálft, að hann yrði þar eftir, þó brölti hann með mig þangað til hann fékk fasta fold undir fætur sér, og komst ég svo með illan leik fram hjá Flensborgar túngarði, og á veginn. “Er það sýsluvegur, póstvegurinn, skrattinn þessi”, hugsaði ég. Reið ég nú í grandaleysi norður mölina milli Flensborgar og Hamarsins, en allt í einu nemur klárinn staðar. Ég fer að gæta að, hvað til komi. Hafði hann þá sér fyrir fótum trébrú, sem lá yfir skurð, brotna og skakka, svo að hann af sínu hestaviti sá, að ekki var hættulaust að fara hana. Ég hitti þar Hafnfirðing, og spurði hann hví brúin væri svona. “Það veit ég ekki” sagði hann, “hún er búin að vera svona í allt sumar”. “Heiður og háleit æra”, hugsaði ég og reið niður fyrir brúna. Svo gekk nú allt skaplega gegnum borgina Hafnarfjörð. Ég ætlaði út á Álftanes, á Norðurnesið, og þaðan inn í Reykjavík. Ég komst á hinn nýja veg gegnum hraunið, sem lagður var í vor. “Þetta eru framfarir”, hugsaði ég; vegurinn ágætur og hraunið tilbreytilegt og fagurt beggja vegna við hann. Skjóni varð svo hrifinn af honum, að hann fór á kostum lengi vel, þangað til allt í einu – það er langur kippur af veginum vestast, sem ekki er búið að bera ofan í, og hætti úr því skeiðspretturinn. Í stað hins góða íburðar, sem annars er í veginum, kom nú hið niðanglegasta eggjagrjót, svo að Skjóni kveinkaði sér í hverju spori. Samt klöngraðist hann gegnum þetta slysalaust; gekk nú vel yfir Dysjabrú, upp að Garðaholti. Þá fór af gamanið. Er vegurinn þar upp eftir í stuttu máli líkastur hinni frægu svo nefndu “Vatnsleysubrú”, eins og hún er búin að vera nú í mörg ár, og er fyrir löngu hætt að fara hana. “Þessi ófæra nær þó vonandi ekki lengra en upp á móts við Garða”, hugsaði ég; svo byrjar ennexíuvegur prestsins; góður er hann án efa! En – nei; hann batnar ekkert, sama ófæran yfir allt holtið, niður á Álamýrarbrúna. Sú brú var torfærulaus, það sem af henni stendur, en víða er brotið úr börmum hennar. Gekk nú slysalaust, þangað til ég kom á Selskarðsbrúna, þá – eins og er hérna, er það satt – í miðjum september, lá við að bráðófært væri á löngum spotta. Ég mætti þar Álftnesing ríðandi, sem var að fara inn í Hafnarfjörð. Við vorum þarna að brjótast um, sinn í hvora áttina, og vorum við lengi að komast hvor fram hjá öðrum. Spurði ég hann þá, hvernig þeir fari að því, að una slíkum vegum, og því þeir löguðu ekki þetta. En hann svaraði mér rólega, og með hvíldum, eftir því sem bröltið í merinni hans leyfði honum að mæla: “Og það kemst – upp í vana, það --- er búið að – vera svona ---- í allt sumar --- nema svolítið --- skárra fáeina daga um Jóns ---- messuna.” Nálægt Selskarði náði ég aftur föstu landi, og gekk nú vel vestur fyrir Selskarð; kemur maður þar á mjóa brú, yfirferðarlíka Garðaholti, en þó mátti ríða þar með aðgæslu. Þegar henni sleppti, varð að fara yfir lítinn spotta, sem líktist móa, til þess að komast á aðra búr, sem liggur að Bessastöðum og norður á Nesið. En þessi mói var allur ein veita, sem naumast var ríðandi, og datt mér í hug, að sú mundi vera góð haust og vor, og þó blöskraði mér mest að hugsa um, að þetta væri annexíuvegur Garðaprestsins, eflaust hinn stysti annexíuvegur á landinu, en þó svona! Ég hafði heyrt, að Álftnesingar hefðu lagt mikið af dagsverkum sínum í brú yfir mýrina norður á nesið; komst ég nú á hana, og hugði gott til glóðarinnar, hélt að nú væru torfærurnar búnar. Ég fann brúna, og var hún allgóð, þangað til ég kom að breiðum skurði á henni, og lá yfir hana mjór planki. Maður nokkur var að feta sig eftir honum með báða handleggina teygða út frá sér í stað jafnvægisstangar. Nauðugur viljugur varð ég að nema þarna staðar, og beið ég þess að maðurinn kæmist yfir. Ég spurði hann, hví skurðurinn væri ekki brúaður. “Og það er nú til svona”, svaraði hann, “það hafa aldrei verið samtök til þess.” “Er þá skurðurinn búinn að vera lengi svona?” “Já, í 7 eða 8 ár, síðan brúin var lögð. Hann Jón á -stöðum var búinn að leggja til 2 borð, en svo flutti hann inn í Reykjavík í fyrra, og þá tók hann borðin með sér, og svo hefir hann E. á –stöðum léð þennan planka til að leggja yfir skurðinn”. Kemst ég þá ekki norður á Nesið?” “Jú, með því að snúa aftur, og ríða upp hjá Sviðholti og norður bakkana”.
Jú, ég fylgdi ráðum hans, reið upp að Sviðholti, norður bakkana, og komst án frekari tafa norður á Nesið, þangað sem ég ætlaði; mátti sá vegur heita greiðfær og torfærulaus, enda var hann mestallur gjör af hestafótum, en ekki mannahöndum, nema lítill spotti fyrir austan túngarðinn í Háholti; á honum sá ég mannaverk, enda var hann lítt fær. En ég var nú hættur að kippa mér upp við smámuni. En ekki langaði mig þó til að fara þennan veg aftur, kom ég mér í sjóvegsferð norður yfir Skerjafjörð, en keypti dreng til að stimpast með hestinn inn í Reykjavík.
Hver veit nema þetta lagist alltsaman einhverntíma á næstu öld!


Þjóðólfur, 17. nóvember 1899, 51. árg., 55. tbl., bls. 219:
Ferðamenn kvarta undan þeim stórgalla á Hellisheiðarveginum frá Selfossi, að tvær ár í Ölfusinu skuli enn vera óbrúaðar.

Ferðamenn
Ferðamenn sem komið hafa hingað þessa dagana Hellisheiðarveginn frá Selfossi, kvarta mjög undan þeim stórgalla á veginum, að tvær ár í Ölfusinu (Gljúfurholtsá og Bakkarholtsá) skuli enn vera óbrúaðar, því að þær séu nær ófærar gangandi mönnum, þá er haustar að og frost og snjóar koma og illfærar með hesta. Telja þeir hina brýnustu nauðsyn á að brúa ár þessar, að minnsta kosti fyrir gangandi menn, og þyrfti það ekki að kosta mikið. Virðist það og hafa verið töluverð yfirsjón, þá er vegurinn var lagður í fyrstu, að leggja hann ekki þar sem ár þessar verða brúaðar, því að brúkleg brúarstæði munu þó vera á ársprænum þessum, eigi langt úr leið. En meðan ár þessar eru óbrúaðar kemur vegurinn ekki að fullum notum sem akvegur nema um hásumartímann, og getur verið fullillt þá í rigningum og vatnavöxtum, að svamla með hlaðna vagna yfir þær. Ætti landsstjórnin að ráða bót á þessum farartálma sem allra fyrst.


Tenging í allt blaðaefni ársins 1899

Ísafold, 11. feb. 1899, 26. árg., 8. tbl., bls. 30:
Til stendur að varða Kjalveg í sumar.

Kjalveg
á að varða í sumar, úr Mælifellsdal vestan hnúks suður fyrir Kjalfell, hlaða þar um 500 vörður 3 álna háar, með 100 faðma millibili. Það gerir Magnús Vigfússon úr Reykjavík, við 7. mann, 3 skagfirska. Kostnaður áætlaður 3.000 kr. og greiðist af vegafé úr landssjóði. Kapt. Dan. Bruun er frumkvöðull þessa fyrirtækis og lét kanna leiðina í fyrra, tiltók vörðustæðin.


Þjóðólfur, 7. apríl 1899, 51. árg., 16. tbl., forsíða:
Sr. Jóhannes L. L. Jóhannsson segir að menn vanti gersamlega kunnáttu í mörgum sýslum til að búa til vegi.

Athugasemdir
Við heyásetning, böðun og vegagerðir
Eftir séra Jóhannes L. L. Jóhannsson
¿¿ Þá er það ein sorgleg fjáreyðsla, sem á sér stað í landinu með vegabótaféð.
Sýsluvegagjald og hreppsvegagjald er lagt á sveitasjóði og einstaka menn, án þess nokkurt verulegt gagn verði að því. Þeim peningum er víða hvar sama sem fleygt í sjóinn. Menn vantar gersamlega kunnáttu í mörgum sýslum til að búa til vegi og afleiðingin verður svo, að verkið er ónýtt á eftir og allt jafnófært sem áður. Hinn dýri mannafli er mest notaður við vinnuna, en mjög lítið hestar og vagnar sem er ódýr vinnukraftur. Nú er það ofaníburðurinn, sem mest og best gerir vegina góða og varanlega, en að flytja hann að svo nógur sé, er ómögulegt nema með hestum og vögnum. Hversu fráleitt sé að nota vagnhesta eigi við vegagerð sést á því, að 6 hestar kosta eigi meira um daginn en 1 maður, og svo er verkið á eftir miklu verra, ef það er unnið án hesta og vagna. Það er nú mestmegnis sýslunefndum og hreppsnefndum sjálfum að kenna, hversu lítið gagn verður að vegabótafénu, en svo er þetta fé langt of lítið til að vinna nokkuð verulegt með í þeim héruðum, sem víða þarf við vegi að gera og í þessu máli, sem sannarlega er þarflegt og eigi ætti að spara fjárframlög til, er löggjöfin einmitt svo úr garði gerð, að féð hlýtur alltaf að vera allsendis ónógt. Réttast væri náttúrlega að afnema alveg gjald það til sýsluvega og hreppavega, sem lagt er á verkfæra menn í vegalögunum, en í þess stað ættu sýslunefndir og hreppsnefndir að vera skyldar til að leggja fé úr sýslusjóði og hreppssjóði, nokkurn veginn eftir þörfum til að bæta vegina. Meðan það fyrirkomulag, sem er nú, lendir ávallt við það, að þetta litla vegagjald, sem fellur til, er látið duga, þótt það hvergi nærri nægi til þarfanna, enda verður allur árangurinn tómt einskisvert kák, sem eigi er til annars en eyða fé, sem þótt lítið sé, gæti komið að svo miklum notum með nokkurri viðbót og væri því skynsamlega ráðstafað.


Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103:
Sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu lét leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur

Vagnvegur
Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50x100 cm., utan ein úr timbri 3x2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð, því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.


Þjóðólfur, 2. maí 1899, 51. árg., 21. tbl., forsíða:
Sýslufundur Árnesinga samþykkti m.a. að öll vinna að hreppavegum og sýsluvegum verði framvegis unnin með venjulegum vegabótaáhöldum og undir umsjón manns, sem verið hefði við vegagerð með Erl. Zakaríassyni eða öðrum hans nótum.

Sýslufundur Árnesinga
Um fund þennan er Þjóðólfi skrifað 20. f. m.
Sýslunefnd Árnesinga hélt aðalfund sinn á Eyrarbakka 12. apríl. Stóð hann yfir 4 daga. Til umræðu komu 67 málefni og verður hér minnst á það helsta.
Samþykkt var, að sýslan tæki 5.000 kr. lán til brúargerðar á Soginu hjá Alvirðu, gegn því að Grímsneshreppur leggi fram 2.500 kr., hitt landssjóður og þetta sé komið í framkvæmd fyrir 1903.
Farið fram á og samþykkt, að öll vinna að hreppavegum og sýsluvegum verði framvegis unnin með venjulegum vegabótaáhöldum og undir umsjón manns, sem verið hefði við vegagerð með Erl. Zakaríassyni eða öðrum hans nótum. –
Af vegafé sýslunnar, var lagt til vegaálmunnar að Stokkseyri 827 kr. 25 a. Hitt var bútað í smá búta milli ýmsra hreppa, og sleppi ég að minnast á það frekar. –
Gjöld sýslusjóðs áætluð 4.062 kr. 48 a. eftirstöðvar 162 kr., 48 a. niðurjöfnun 3.900 kr.
Samþykkt var að biðja um, að vegurinn frá Svínahrauni að Lækjarbotnum yrði varðaður hið bráðasta, helst á næsta sumri. –


Ísafold, 5. júlí 1899, 26. árg., 54. tbl., bls. 178:
Um samgöngubætur eru fern lög fyrirhuguð, m.a. um brú og ferju á Lagarfljóti.

Frá Alþingi
Um samgöngubætur eru fern lög fyrirhuguð: um brú og ferju á Lagarfljóti, staurabrú hjá Egilsstöðum fyrir 45.000 kr. og ferju hjá Egilsstöðum fyrir 45.000 kr. og ferju hjá Steinsvaði fyrir 3.000 kr.; um þjóðveg frá Borgarnesi til Stykkishólms; um að skylt sé að láta af hendi gegn hæfilegu endurgjaldi lóð undir vita og íveruhús vitamanna og jarðnæði fyrir þá m. m.; og um dag- og næturbendingar á ísl. skipum í sjávarháska og um ráðstafanir er skip rekast á.


Ísafold, 26. ágúst 1899, 26. árg., 58. tbl., bls. 231:
Í fréttum af fjárlögum er sagt frá úrslitum nokkurra helstu ágreiningsatriða.

Frá Alþingi
Þingslit í dag.
Fjárlögum lokið í gær, með einni umr. í efri deild, sem aðhylltist þau óbreytt eins og neðri deild hafði frá þeim gengið í síðara skiptið og á þakkir skilið fyrir að forða frumvarpinu frá að komast í sameinað þing, með þeim hvalfjöruaðgangi, sem þar tíðkast, um bitlingana.
Tekjuhallinn þó ekki nema 99 þús., í stað 140 þús. áður.
Hér skal aðeins skýrt frá úrslitum nokkurra helstu ágreiningsatriða í frumvarpinu.
Til póstvagnverða í viku hverri frá Rvík austur að Ægissíðu eða Odda veittar 600 kr. hvort árið.
Til vegar yfir Breiðdalsheiði veittar 2.500 kr. fyrra árið og 2.400 til vegar frá Skipaskaga að Blautós gegn öðru eins frá sýslubúum; og 1.700 kr. til brúar á Laxá í Dölum, þriðjungur kostnaðar. Sömul. 400 kr. til að bæta lending í Þorlákshöfn, gegn jafnmiklu frá sýslunefnd.


Ísafold, 30. ágúst 1899, 26. árg., 59. tbl., bls. 234:
Verkfræðingur landsins, Sigurður Thoroddsen, sendir Alþingi athugasemdir við áætlun Barths verkfræðings varðandi Lagarfljótsbrú.

Brúin á Lagarfljóti

Viðvíkjandi Lagarfljótsbrúnni fyrirhuguðu sendi verkfræðingur landsins, hr. Sigurður Thoroddsen, Alþingi eftirfarandi skýringar og hefir mælst til að þær væru prentaðar hér í blaðinu:
Með því að ég að undanförnu hefi verið á sífelldu ferðalagi – kom hingað til bæjarins í gærkveldi – og með því að ég fyrst nú fyrir fáum dögum hefi fengið áætlun herra ingenieur Barths um brúna á Lagarfljóti hjá Egilsstöðum, hefi ég eðlilega ekki fyr en nú getað sent hinu hæstvirta alþingi athugasemdir mínar við áætlun þessa, sem mér að ýmsu leyti þykir athugaverð, einkum hvað flutningskostnað snertir, svo að það eru engin líkindi til, að verkið verði unnið fyrir það fé, sem áætlað er.
Herra Barth gerir ráð fyrir, að flutningskostnaður á efninu (sem verður c. 200 tons) frá Noregi verði 10.000 kr., nefnilega 50 kr. fyrir hvert tonn, en það er ætlun mín, að þessi upphæð verði allt of lítil, og varla meri en til þess að koma efninu á Héraðssand, því að flytja svo stór stykki yfir heiðarnar frá Seyðisfirði mun alveg ókleift eða að minnsta kosti miklu kostnaðarsamara. – Frá Danmörku mun flutningskostnaður á brúarefni – upp og niður – vera tæpar 40 kr. pr. Tonn og frá Noregi mundi það verða líkt; en nú þarf sérstakan skipsflutning á Héraðssand og landflutning þar, og er hvorttveggja örðugt, og yrði sá aukakostnaður að mínu áliti minnst 10 kr. pr. tonn; samtals eru þá komnar ca. 50 kr. pr. tonn; en nú er eftir að flytja allt efnið 6-7 mílur upp í land (að Einhleypingi hjá Egilsstöðum), og þó að maður geri ráð fyrir, að oftast sé að vetrarlagi gott akfæri upp eftir fljótinu, þá verður þó að beygja fyrir Kirkjubæjarfoss og gera vetrarbraut kringum hann, og ef til vill þarf að gera víðar við veg á leiðinni. Þetta allt yrði æði mikill kostnaðarauki, líklega allt að 40-50 kr. pr. tonn, ef allt gengur vel. Það er því ætlun mín, að flutningskostnaðurinn frá útlöndum að brúarstæðinu verði 90-100 kr. pr. tonn og áætlun herra Barhs sé í þessu eina atriði 8-10.000 kr. of lág.
Þá er ýmislegt fleira athugavert. Staurarekstur (Pæleramning) reiknar herra Barth 2 kr. pr. meter, eins og tíðkast í Noregi, en gáir ekki að því að slíkt er miklu dýrara hér á landi, þar sem menn eru óvanir slíku verki og auk þess þarf að kaupa sérstök verkfæri til vinnunnar, af því að hér er um óvana langa staura að ræða og má því ætla að hver meter yrði hér 1 kr. dýrari; þessi liður verður því 500 kr. of lágur.
Reikningur herra Barths á járnbjálkum og verki því, er þar að lýtur, er einnig allt of lágur, hann reiknar 20 aura pr. kgr. (10 aura pr. pd.). Járnið og vinna á því er nú í útlöndum sífellt að hækka (sökum verkfalls og annars) og þegar seinast var pantað járn í Hörgárbrúna, þá kostaði járnið í Kaupmannahöfn 32 aura pr. kgr. (16 a. pr. pd.) en auk þess leggst á kostnaður við samsetning járnbjálkanna, hnoðun á nöglum, málning o. fl. – Í Blöndubrúnni kostaði járnið með hnoðun og samsetningu á staðnum (en þó án málningar) 36 ½ aur. Pr. kgr. (18,25 a. pr. pd.) og þá var þó verðið á járni lægra en nú. Auðvitað verður hér (við Lagarfljótsbrúna) einfaldari samsetning bjálkanna, en yrði þó líklega um 30 a. pr. kgr. (15 a. pr. pd.) – Til samanburðar má geta þess að óvandaðasta járn, t.d. skeifnajárn eða því um líkt, kostar hér í Reykjavík 16 a. pd. (32 a. kgr.). – Þessi liður ætti því að vera 5.355 kr. hærri (53.550 kgr. Með 10 aura viðbót). –
Þá er ennfremur múrverkið alltof lágt reiknað, þótt litlu nemi á svo stórri áætlun, þar sem málverkið er svo lítið. – Herra Barth reiknar t.d. kostnaðinn á velhlöðnum framúr 14-15 kr. per. Kubikmeter: í hvern kúbikmeter má reikna að gangi ein tunna af sementi, sem kostar á Seyðisfirði 11-12 kr. (og sementið er að stíga í verði eins og fleira), og flutningurinn að brúarstæðinu 4-5 kr. minnst, þá kostar sementið eitt í kubikmeter af steinvegg 16-17 krónur, en þá er eftir að afla grjótsins, flytja það a, laga það og hlaða m. m.: þessi áætlun nær því ekki neinni átt. –
Ýmislegt fleira mætti til finna sem er of lágt reiknað, en í þessum atriðum, sem nefnd hafa verið og ég strax hefi rekið augun í að eins við fljótlegt álit, verður hinn aukni kostnaður hér um bil þessi:
Flutningskostnaður ¿c. 9.000 kr.
Staurakostnaður c ¿¿. 500 kr
Járnverk c. ¿¿¿¿¿. 5.300 kr
Múrverk c. ¿¿¿¿¿. 300 kr
= 15.100 kr.
Hin einasta upphæð, sem mér finnst of há hjá herra Barth, er upphæðin fyrir “Administation” (umsón og verkstjórn m.m.) 5.800 kr; það er reiknað efit útlendum mælikvarða, því að í útlöndum eru ingenieurar hátt launaðir og fá auk þess háa dagpeninga og ferðapeninga, þegar þeir fara eitthvað frá heimili sínu.
Það er skoðun mín, að Lagarfljótsbrúin, eftir því fyrirkomulagi, sem herra Barth hefir stungið uppá, muni kosta 60 þúsundir krónur eða þar yfir í stað 45.000 kr., sem Barth áætlar.
Það er engin von, að útlendingar, þótt ágætir ingenieurar séu, en enga reynslu hafa hér á landi og ekki þekkja landshætti, geti gert fullnægjandi áætlun um kostnað stórvirkja hér á landi, þar sem öllu hagar allt öðruvísi en í útlöndum, einkum með flutning og ferðalög. Slíkt lærist fyrst smátt og smátt með reynslunni. Til dæmis má taka, að Hovdenak, sem hefir talsvert orð á sér sem góður ingenieur, gerði áætlun um fasta járnbrú á Fnjóská c. 75 alna langa, að hún mundi kosta c. 17.000 kr.: en Blöndubrúin, sem er aðeins 60 álnir, kostaði rúmar 23 þúsundir, og er þar þó margfalt hægri aðflutningur og góð undirstaða (klöpp) undir stöplunum, en aðeins möl og sandur við Fnjóská, svo að þar þyrfti að reka niður langa staura; þar er ég því sannfærður um, að 75 álna brú mundi kosta 30-40 þúsund krónur.
Það er mikið mein, að ingenieur landsins sakir sífelldra ferðalaga landshorna á milli ekki getur á þingsumrum leiðbeint þingmönnum, þegar um slík efni er að ræða; þá gæti margt skýrst fyrir mönnum og margur misskilningur fallið burtu.
Reykjavík, þ. 9. dag ágústmán. 1899.
Virðingarfyllst,
Sig. Thoroddsen.


Þjóðólfur, 1. september 1899, 51. árg., 44. tbl., forsíða:
Þjóðólfur segir þingið 1899 varla hafa stigið neitt verulegt nýtt spor í samgöngumálum

Afrek þingsins 1899
eru nú orðin lýðum ljós af lagafrumvörpum þeim, er það hefur afgreitt, og getið hefur verið að nokkru. Eru sum þeirra allstórfelld og baka landssjóði afar mikinn kostnað, enda er tekjuhallinn á fjárlögum áætlaður nálega 100.000 kr., og verður eflaust í reyndinni meiri. Verður þess skammt að bíða, að viðlagasjóður verði þurrausinn, ef haldið verður áfram í sömu átt nokkra hríð enn.
¿¿.
Í samgöngumálum hefur þingið ekki stigið neitt verulegt nýtt spor, nema ef telja skyldi veitingu 600 kr. hvort árið til póstvagnferða í hverri viku frá 15. júní – 1. okt., frá Reykjavík austur að Ægissíðu eða Odda, en hætt er við, að sú veiting komi að harla litlu gagni. Veitingin til Lagarfljótsbrúarinnar telst og til samgöngumála.


Ísafold, 21. okt. 1899, 26. árg., 68. tbl., bls. 269:
“Hver veit nema þetta lagist alltsaman einhverntíma á næstu öld!” segir greinarhöfundur um slæmt ástand á Hafnarfjarðarvegi.

Vondur vegur
Brot úr ferðasögu
---- Þegar ég var kominn upp á Hvaleyrarholt, hlakkaði ég til. Nú byrjar “Civilisationin”, hugsaði ég, nú er greiðfært úr þessu. Klárinn fór með mig á hýru spori niður holtið, þangað til ég kom niður í Sandskörðin. Nei, vað er þetta? Sjór yfir öllum veginum! Ég mundi ekki eftir að það var stórstraums-flóð, og gekk sjórinn alveg upp í bakkana, langt upp fyrir götuna. Ekki var annað fært, ef ég ekki vildi bíða þess að út félli, en ég klöngrast upp sjálfa bakkana, og kaus ég þann kost, fremur en að tefjast þar í hálfan klukkutíma, eða lengur. Ég komst þetta með illan leik, og fékk mér nú góðan skeiðsprett inn undir Ásbúð. En þegar ég kem þar, sé ég að kækurinn flóir yfir allan veginn, og ætlaði ég að ríða upp með honum, fram með Ásbúðar túngarði. En hvernig fer? Áður en mig varir, sekkur hesturinn í fen, og lá við sjálft, að hann yrði þar eftir, þó brölti hann með mig þangað til hann fékk fasta fold undir fætur sér, og komst ég svo með illan leik fram hjá Flensborgar túngarði, og á veginn. “Er það sýsluvegur, póstvegurinn, skrattinn þessi”, hugsaði ég. Reið ég nú í grandaleysi norður mölina milli Flensborgar og Hamarsins, en allt í einu nemur klárinn staðar. Ég fer að gæta að, hvað til komi. Hafði hann þá sér fyrir fótum trébrú, sem lá yfir skurð, brotna og skakka, svo að hann af sínu hestaviti sá, að ekki var hættulaust að fara hana. Ég hitti þar Hafnfirðing, og spurði hann hví brúin væri svona. “Það veit ég ekki” sagði hann, “hún er búin að vera svona í allt sumar”. “Heiður og háleit æra”, hugsaði ég og reið niður fyrir brúna. Svo gekk nú allt skaplega gegnum borgina Hafnarfjörð. Ég ætlaði út á Álftanes, á Norðurnesið, og þaðan inn í Reykjavík. Ég komst á hinn nýja veg gegnum hraunið, sem lagður var í vor. “Þetta eru framfarir”, hugsaði ég; vegurinn ágætur og hraunið tilbreytilegt og fagurt beggja vegna við hann. Skjóni varð svo hrifinn af honum, að hann fór á kostum lengi vel, þangað til allt í einu – það er langur kippur af veginum vestast, sem ekki er búið að bera ofan í, og hætti úr því skeiðspretturinn. Í stað hins góða íburðar, sem annars er í veginum, kom nú hið niðanglegasta eggjagrjót, svo að Skjóni kveinkaði sér í hverju spori. Samt klöngraðist hann gegnum þetta slysalaust; gekk nú vel yfir Dysjabrú, upp að Garðaholti. Þá fór af gamanið. Er vegurinn þar upp eftir í stuttu máli líkastur hinni frægu svo nefndu “Vatnsleysubrú”, eins og hún er búin að vera nú í mörg ár, og er fyrir löngu hætt að fara hana. “Þessi ófæra nær þó vonandi ekki lengra en upp á móts við Garða”, hugsaði ég; svo byrjar ennexíuvegur prestsins; góður er hann án efa! En – nei; hann batnar ekkert, sama ófæran yfir allt holtið, niður á Álamýrarbrúna. Sú brú var torfærulaus, það sem af henni stendur, en víða er brotið úr börmum hennar. Gekk nú slysalaust, þangað til ég kom á Selskarðsbrúna, þá – eins og er hérna, er það satt – í miðjum september, lá við að bráðófært væri á löngum spotta. Ég mætti þar Álftnesing ríðandi, sem var að fara inn í Hafnarfjörð. Við vorum þarna að brjótast um, sinn í hvora áttina, og vorum við lengi að komast hvor fram hjá öðrum. Spurði ég hann þá, hvernig þeir fari að því, að una slíkum vegum, og því þeir löguðu ekki þetta. En hann svaraði mér rólega, og með hvíldum, eftir því sem bröltið í merinni hans leyfði honum að mæla: “Og það kemst – upp í vana, það --- er búið að – vera svona ---- í allt sumar --- nema svolítið --- skárra fáeina daga um Jóns ---- messuna.” Nálægt Selskarði náði ég aftur föstu landi, og gekk nú vel vestur fyrir Selskarð; kemur maður þar á mjóa brú, yfirferðarlíka Garðaholti, en þó mátti ríða þar með aðgæslu. Þegar henni sleppti, varð að fara yfir lítinn spotta, sem líktist móa, til þess að komast á aðra búr, sem liggur að Bessastöðum og norður á Nesið. En þessi mói var allur ein veita, sem naumast var ríðandi, og datt mér í hug, að sú mundi vera góð haust og vor, og þó blöskraði mér mest að hugsa um, að þetta væri annexíuvegur Garðaprestsins, eflaust hinn stysti annexíuvegur á landinu, en þó svona! Ég hafði heyrt, að Álftnesingar hefðu lagt mikið af dagsverkum sínum í brú yfir mýrina norður á nesið; komst ég nú á hana, og hugði gott til glóðarinnar, hélt að nú væru torfærurnar búnar. Ég fann brúna, og var hún allgóð, þangað til ég kom að breiðum skurði á henni, og lá yfir hana mjór planki. Maður nokkur var að feta sig eftir honum með báða handleggina teygða út frá sér í stað jafnvægisstangar. Nauðugur viljugur varð ég að nema þarna staðar, og beið ég þess að maðurinn kæmist yfir. Ég spurði hann, hví skurðurinn væri ekki brúaður. “Og það er nú til svona”, svaraði hann, “það hafa aldrei verið samtök til þess.” “Er þá skurðurinn búinn að vera lengi svona?” “Já, í 7 eða 8 ár, síðan brúin var lögð. Hann Jón á -stöðum var búinn að leggja til 2 borð, en svo flutti hann inn í Reykjavík í fyrra, og þá tók hann borðin með sér, og svo hefir hann E. á –stöðum léð þennan planka til að leggja yfir skurðinn”. Kemst ég þá ekki norður á Nesið?” “Jú, með því að snúa aftur, og ríða upp hjá Sviðholti og norður bakkana”.
Jú, ég fylgdi ráðum hans, reið upp að Sviðholti, norður bakkana, og komst án frekari tafa norður á Nesið, þangað sem ég ætlaði; mátti sá vegur heita greiðfær og torfærulaus, enda var hann mestallur gjör af hestafótum, en ekki mannahöndum, nema lítill spotti fyrir austan túngarðinn í Háholti; á honum sá ég mannaverk, enda var hann lítt fær. En ég var nú hættur að kippa mér upp við smámuni. En ekki langaði mig þó til að fara þennan veg aftur, kom ég mér í sjóvegsferð norður yfir Skerjafjörð, en keypti dreng til að stimpast með hestinn inn í Reykjavík.
Hver veit nema þetta lagist alltsaman einhverntíma á næstu öld!


Þjóðólfur, 17. nóvember 1899, 51. árg., 55. tbl., bls. 219:
Ferðamenn kvarta undan þeim stórgalla á Hellisheiðarveginum frá Selfossi, að tvær ár í Ölfusinu skuli enn vera óbrúaðar.

Ferðamenn
Ferðamenn sem komið hafa hingað þessa dagana Hellisheiðarveginn frá Selfossi, kvarta mjög undan þeim stórgalla á veginum, að tvær ár í Ölfusinu (Gljúfurholtsá og Bakkarholtsá) skuli enn vera óbrúaðar, því að þær séu nær ófærar gangandi mönnum, þá er haustar að og frost og snjóar koma og illfærar með hesta. Telja þeir hina brýnustu nauðsyn á að brúa ár þessar, að minnsta kosti fyrir gangandi menn, og þyrfti það ekki að kosta mikið. Virðist það og hafa verið töluverð yfirsjón, þá er vegurinn var lagður í fyrstu, að leggja hann ekki þar sem ár þessar verða brúaðar, því að brúkleg brúarstæði munu þó vera á ársprænum þessum, eigi langt úr leið. En meðan ár þessar eru óbrúaðar kemur vegurinn ekki að fullum notum sem akvegur nema um hásumartímann, og getur verið fullillt þá í rigningum og vatnavöxtum, að svamla með hlaðna vagna yfir þær. Ætti landsstjórnin að ráða bót á þessum farartálma sem allra fyrst.