1896

Tenging í allt blaðaefni ársins 1896

Ísafold, 1. feb. 1896, 23. árg., 6. tbl., bls. 22:
Menn deila um hvar leggja eigi veginn yfir Flóann.

Enn um veginn yfir Flóann.
Mínir kæru vinir Einar Einarsson á Urriðafossi og Jakob Jónsson í Kampholti, hafa fundið köllun hjá sér til að rita hvað eftir annað í blöðin um veginn yfir Flóann. Hingað til hefir enginn svarað þeim, og því ætla ég nú að gera það. En þeir mega ekki misvirða, þó ég geti ekki fallist á skoðun þeirra. Ég hefi lengi verið á annarri skoðun; og greinir þeirra hafa einmitt styrkt mig í henni með því, að vekja mig til nákvæmari yfirvegunar á málinu en áður. Það er hér sem oftar að menn mega vera þakklátir hver öðrum fyrir mismun skoðananna. Málin verða þá betur rædd.
Þeir telja sinni vegarstefnu, - er nefna má hina syrðir, - fimm kosti til gildis fram yfir syðri, - fimm kosti til gildis fram yfir hina stefnuna, er vegfræðingurinn valdi, - er nefna má hina nyrðri, nefnilega:
1., að hún sé bein, og því styttri;
2., að hún kosti þess vegna minna;
3., að hún spari kostnað við Ásaveginn, er hún liggi eftir parti af honum;
4., að hún sé hagkvæmari ferðamönnum; og
5., að henni sé alveg óhætt fyrir ár flóðum.
Þessir kostir líta í fljótu bragði glæsilega út. En sjáum nú, hvað úr þeim verður við nákvæmari athugan.
1. Bein er syðri stefnan yfir að líta; það er satt. Því hún á að fylgja sjónhendingunni milli brúanna; en á hinni nyrðri verður bugur til útnorðurs frá Þjórsárbrúnni að Flatholti fyrir ofan Bitru. Sá bugur mundi nema hér um bil ½ kl. tíma lestaferð, ef hann lægi þvert úr beinni stefnu. En nú er enginn efi á því, að frá Flatholti út að Ölfusárbrú er skemmra en bein leið milli brúanna. Krókurinn munar því ekki mílu. Þó væri sjálfsagt að taka tillit til hans að öllu öðru jöfnu. En nú er sá munur á, að nyrðri leiðin er nálega hallalaus, en hin syðri liggur yfir talsverða hæð (Ásana) og verður þar ekki gjörður vagnvegur, nema leggja hann í talsverða króka. Það er því óvíst, að sá vegur verði hóti styttri en hinn í raun og veru. Svo mikið er víst að munurinn verður næsta lítill.
2. Kostnaðarléttirinn getur því eigi orðið teljandi, enda þó jafn-hægt væri að leggja veginn hvora leiðina sem er. En hér er um fleira að ræða. Á nyrðri leiðinni er alstaðar við höndina nóg hraungrjót, sem hægt er að mylja; má því "púkkleggja" þann veg allan, og auk þess er nægð af ágætum ofaníburði rétt við veginn skammt frá Bitru. Á syðri leiðinni er ekki annað grjót að fá en blágrýti, sem ekki er hægt að mylja í veg; og ókunnugt er um, að þar fáist annar nýtilegur ofaníburður. Yrði því að flytja grjót til "púkklagningar" frá báðum endum: austan fyrir Fosslæk og vestan fyrir Hróarsholtslæk. Gerum nú ráð fyrir, að sá kafli sé ekki nema 6000 faðma langur, og ætlum teningsfaðm af grjóti í hverja 6 faðma; gerum og ráð fyrir, að flutningur hvers teningsfaðmsins á sinn stað við veginn kosti ekki nema 15 kr. að meðaltali. Það er þá 15.000 kr. kostnaðarauki, sem syðri leiðin hefir fram yfir hina nyrðri. Mun hér þá heldur lágt til tekið. - Aftur er það satt, að fleiri smábrýr þarf á nyrðri leiðinni; en enga mjög stóra eða dýra. Stærsta brú þarf á Mókelduna fyrir framan Hjálmholt, en þó hvergi nærri eins stóra eins og þarf á Hróarholtslæk á syðri leiðinni, - hún yrðir milli Lækjar og Vola. - En sá er munurinn mestur, að Mókeldubrúna mætti gjöra trygga, því þar er fast berg undir báða stöpla, en Hróarsholtslækjarbrúna efast ég um að unnt væri að gjöra trygga; því lækurinn hefir, á hinu nefnda svæði, að eins blauta mold í vesturbakkanum, og yrði víst dýrt að ganga svo frá, að vatn græfi sig þar ekki kring um stöpulinn, þegar klaka er að leysa á vorin. Enginn nema verkfræðingur getur borið um það, hvað kosta muni að gera við þessu, eða enda hvort það muni takast, svo óhætt sé.
3. Ekki yrði það sparnaður fyrir vegasjóð Árnessýslu, þó syðri leiðin yrði valin og félli saman við Ásaveginn um nokkurn spöl, því þá yrði óhjákvæmilegt að leggja sýsluveg eftir endilöngum Hraungerðishreppi, og það yrði vegasjóðnum, og ofaná allt annað öldungis ofvaxið. Það væri heldur ekki æskilegt, að missa af verulegum hagsmunum vegna Ásavegarins, sem í framtíðinni, þegar vagnflutningar eru komnir á, mun verða margfalt minna notaður en áður. Það gera þá aðeins uppsveitamenn, sem sækja til Baugstaða eða Loftstaða . Rangæingar, sem þangað sækja munu oftast fara Partaveg; vegna þeirra mun verða að halda honum í sýsluvegatölu, þó Parta-búum sjálfum nægi hreppsvegur. Fyrir þá Rangæinga, sem fara um Þjórsárbrú til Eyrarbakka eða Stokkseyrar, sýnist í fljótu áliti Ásavegur liggja beinna við en flutningsbrautin, ef hún verður lögð hjá Ölfusárbrú, sem líklegast er. En þegar þeir komast að raun um, að styttri tíma tekur þó að fara hana, þá er auðvitað, hvaða leið þeir kjósa. Þrátt fyrir þetta er ég ekki á því, að Ásavegur megi bráðum falla úr sýsluvegatölu; en ýmsir halda því fram, og ef það skyldi nú verða ofaná, þá væri lítil bót í, að partur af honum félli saman við þjóðveginn.
4. Hagkvæmari ferðamönnum sýnist mér einmitt nyrðri leiðin. Það er auðvitað, að hvar sem vegur er lagður, getur hann aldrei orðið jafn-hagkvæmur fyrir alla. Og ég skal játa, að fyrir vissa nágrannabæi getur syðri leiðin verið hagkvæmari; þó ekki svo, að þar standi á mílu. En allir Hreppamenn og allflestir Skeiðamenn fara beint fram að Bitru og svo þaðan eftir þjóðveginum til Ölfusárbrúar, þá er þeir ferðast til Reykjavíkur, eða yfir höfðu "suður fyrir fjall". Og sömu leið fara þeir óefað til Eyrarbakka og Stokkseyrar, þegar flutningsbraut er komin þaðan að Ölfusárbrú; - og þess verður ekki svo langt að bíða, að nokkurt vit sé í að taka ekki tillit til þess. Og þá má líka telja marga af Biskupstungnamönnum með, því Eystritunumenn eiga sömu leið og Hreppamenn til Eyrarbakka. Allir þessir uppsveitamenn lifa nú í góðri von um að fá vagnveg frá þjóðveginum hjá Bitru, er liggi upp eftir miðjum Skeiðum, þar sem skemmst er og flestir geta haft hans not. En með því að leggja krók á halann suður eftir Þjórsárbökkum fram að Þjórsárbrú. En það er svo mikill krókur, að hinn áðurtaldi bugur hjá Flatholti er hverfandi í samanburði við hann. Veit ég, að sumir fara þennan krók þegar bleytur eru, af því þar er þurrara; en aldrei samt þeir, sem fara "suður yfir Fjall"; krókurinn er svo stór, að þeim þykir það ekki tilvinnandi. Og varla kemur til mála að leggja vagnveg eftir þeim krók; enda mætti þá tala um kostnaðarauka, bæði vegna vegalengdar og vantandi ofaníburðar. Hann lægi þá á jaðri Skeiðahrepps, svo hann hefði hans svo sem engin not. Og hann yrði fyr eða síðar í hættu fyrir Þjórsá: hún brýtur þar bakka sína á löngum parti og er bágt að segja, hvort vegur getur verið þar eftir nokkra áratugi. - Þó til orða kæmi, að leggja vagnveginn fram hjá Blesastöðum og Skálmholti, þá er þess að gæta - að króknum slepptum - að þar hlyti mikið af veginum að liggja eftir engjum. Og það svæði er einkum fram frá Blesastöðum alsett djúpum dælum, sem fyllast vatni vor og haust. Mér sýnist því syðri leiðin óhagkvæm fyrir fjölda sýslubúa, og fyrir sýsluna í heild sinni.
5. Þá eru árflóðin, sem þeir telja aðalástæðu sína. Þó er nú búið að hlaða fyrir skarðið, sem þau runnu um. Síðan hefur eitt flóð komið; en ekki varð meira af því en svo, að lítil gusa komst uppá bakkann fyrir austan fyrirhleðsluna. Og fyrst það komst svo hátt, þá er auðráðið, að ef skarðið hefði verið opið, þá hefði þetta flóð verið eitt af hinum mestu. Þarf því naumast að óttast árflóð meðan fyrirhleðslan stendur; og enginn skyldi efa, að sér verði um viðhald hennar. En gerum samt ráð fyrir miklum árflóðum. Þau koma þó aldrei nema þegar jörð er frosin og þá vegurinn líka, enda hafa aldrei sakað brýr, þó þau hafi farið yfir þær. Gerum samt ráð fyrir, að árflóð spilli vegi, ef hann verður á leið þess. Á hvorri leiðinni er hættan þá meiri? Gætum að, hvernig mestu árflóðin haga sér: Fyrir ofan Hrygg skiptist flóðið í 3 kvíslar. Hin vestasta fer fyrir vestan Ölvisholt, fram á Sorta, út í Laugardælavatn og svo í Hvítá aftur; er ekkert um hana að segja. Hin austasta fer fram úr Mókeldunni í Hróarsholtslæk. En þar hagar svo vel til, að hægt er að ætla vatninu nóg rúm undir brúnni, án þess það nái henni nokkurn tíma. Miðkvíslin fer fram milli Ölvisholts og Miklaholts, dreifir sér svo út og fer sumt vatnið út í Laugardælavatn, en sumt rennur til Hróarsholdslækjar um Krakalæk og ýms önnur dæladrög; fer það gegn um veginn undir brýr, sem þar verða. Þó má vera, að sumt vatnið renni aldrei gegn um veginn, heldur langs vestur með honum; því þar verður skurður; en vegurinn liggur beint undan hallanum. Sé ég ekki, að af þessu standi nein hætta. Það er nú satt, sem þeir segja, að vestur yfir Ásana er syðri leiðin laus við þetta vatn að öllu leyti. En vegurinn þarf að halda áfram, þó Áunum sleppi. Um Hróarsholtslæk skilur syðri leiðin við Ásana, og liggur þá út yfir lágar mýrar að Uppsalaholti þvert fyrir hallanum. Hér er árflóðið nú komið saman aftur, og er miklu meira en svo, að lækurinn rúmi það. Flæðir það fram yfir mýrarnar, og liggur vegurinn þá þvert fyrir því. Það er einmitt á þessum slóðum, sem ég hygg að vegurinn sé í mestri hættu fyrir árflóði, ef hann er það nokkursstaðar.
Sumt sýnist mér öfgakennt hjá þeim, svo sem um leysinga-vatnið fyrir framan Skálmholt. Að vísu þarf þar að brúa þurar lautir; en þær eru grasivaxnar og hallalausar að kalla, og því alls ólíkar Sandskeiðinu, þar sem leysingavatnið beljar ofan úr háfjöllum niður álausan sandinn. Fleira er það í greinum þeirra, sem ég álít óþarfa að svara. En ég þykist nú hafa sýnt, að þeir hafi aðeins litið á málið frá einni hlið, og ekki hinni þýðingarmestu. Vona ég að þessar athugasemdir bæti nokkuð úr því.
Br. J.


Þjóðólfur, 28. febrúar 1896, 48. árg., 10. tbl., forsíða:
Í pistli af Rangárvöllum er m.a.. fjallað um vegabætur.

Pistill af Rangárvöllum
Mér dettur nú í hug, Þjóðólfur minn, að hripa þér fáeinar línur, þótt fátt beri til titla eða tíðinda.
¿¿..
Þá má telja til framfara vegabætur þær, er unnar hafa verið í sýslunni, helst hin síðari ár. Mun nú lokið brúargerð og vegabótum austast í sýslunni, í Eyjafjallahreppum, sem nú um undanfarin ár hafa að mestu dregið til sín vegapeningana, og Dufþekjubrú, sem liggur í Hvolhreppnum, mun einnig fullger á næsta sumri, auk þess sem þarf að lengja hana að Þverá um 3-400 faðma. Um Rangárvellina er lítið að tala, er að vegabótum lítur, þar eru góðir vegir og þurfa lítillar viðgerðar við. Svo tekur við Holtahreppur, og þær miklu ófærur, er liggur að Þjórsárbrúnni, þeirri brú, er vér Rangæingar höfum þráð um langan tíma. Erum vér því mjög þakklátir þingi og stjórn fyrir þá stóru vegabót, þótt vegleysan og ófærurnar, er að brúnni liggja í Holtunum, sé sá þröskuldur í vegi fyrst um sinn, að hún getur ekki orðið að tilætluðum notum, fyr en búið er að leggja saman hangandi akveg frá brúnni og að Ytri-Rangá, sem vér höfum fyllstu ástæðu til að vona, að þingið veiti fé til árið 1897, því þá fyrst er þingið búið að greiða svo fyrir samgöngum vorum, sem í þess valdi stendur, enda þykjumst vér að minnsta kosti hafa sanngirniskröfu til þess, þá er vér erum á annað borð þau olbogabörn náttúrunnar, að hér er engin höfn og enginn kaupstaður, og verðum því að sækja allar nauðsynjar vorar til annarra sýslna, svo sem Eyrarbakka eða Reykjavíkur, er oss kostar ærið fé, miðað við önnur sýslufélög, er hafa fleiri kauptún innan héraðs.


Þjóðólfur, 13. mars 1896, 48. árg., 12. tbl., bls. 47:
Menn deila um hvar leggja eigi veginn yfir Flóann og er stundum heitt í hamsi.

Vegurinn yfir flóann
Eins og kunnug er hefur hr. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi ritað alllanga grein í "Ísafold" um veginn yfir Flóann. Hefur honum oft tekist betur að rita og láta skoðanir sínar í ljósi. Er það miður drengilegt, að leitast við að gefa sannleikanum olnbogaskot, en koma aftur með gamburmosa í hans stað. Höf. telur okkur telja 5 aðalkosti syðri vegastefnunnar, reiðir þá líka 5 sinnum sér um öx, en athugum nú höggin, hve mikið úr þeim verður.
Buginn frá Þjórsárbrú út fyrir Flatholt telur hann lítinn og hverfandi í samanburði við þann bug, er uppsveitarmann, er "suður yfir Fjall" fara, yrðu að fara niður að Þjórsárbrú, og gerir ráð fyrir, að vagnvegur yrði trauðla lagður þann krók. En við getum frætt greinarhöfund um það, að þessi bugur er nú einmitt sami bugurinn, sem er frá Þjórsárbrú út fyrir Flatholt, og verði það nú tilfellið, að vegurinn liggi þannig frá Þjórsárbrú upp Þjórsárbakka, eða þá fyrir austan Blesastaði, ef hætta þykir fyrir veginn á bökkum, þaðan svo upp að Laxá fyrir framan Sóleyjarbakka, þá munu uppsveitamenn ekki óska sér að fara tvöfaldan krók, með því að fara frá Þjórsárbrúnni út fyrir Flatholt aftur, heldur kjósa sér með ánægju beina línu millum brúnna, hrósandi happi yfir veginum, að hann sé nú styttri, af því leiðandi byrlegri og þægilegri áfangastaður o. fl. Þetta mundi þeir nú hugsa þegar þar er komið.
Því hefur aldrei verið neitað, að ekki sé gott og mikið grjót á nyrðri leiðinni, en það er engin sönnun fyrir því, að ekki sé nægjanlegt grjót á syðri leiðinni, enda er það sannleikur. Þar er nóg grjót í "púkkið". Það er auðvita, að ekki er það eins allstaðar við höndina, en óþarfi virðist að fara austur fyrir Fosslæk eða út fyrir Hróarsholtslæk eftir því, og er þar allt annar steinn en blágrýti. Þá mega þær 15.000 kr. falla burt úr grein hr. B. J., er honum hugkvæmdist að hnýta niður sem kostnaðarauka við syðri veginn. Við könnumst vel við, að duglega brú þarf á Hróarholtslæk, en ekki kemur það til mála, að hún verði eins dýr, eins og allar þær brýr á efri leiðinni. Höfundinum hefur þótt öfgakennt hjá okkur, þegar við minntumst á Skálmholtsheiði; talar hann þar um þurrar, grasivaxnar lautir. Kann að vera, að honum fyndist það, en svo mikið er víst, að hefði hann fyrir skömmu staðið í þeim lautum, sem vegurinn þarf yfir að fara, hefði hann ekki fengið bakraun við að fá sér að drekka; en sleppum nú þessu. Lautin fyrir framan Skálmholt varð mjög mikil í vetur, sem hennar vandi er til, að ekki verður stórkostlegur munur á þeirri brú, ef duga á, og brúnni á Hróarholtslæk.
Þá talar hr. B. J. um "óhjákvæmilegan" sýsluveg eftir endilöngum Hraungerðishrepp, en segir aftur að Ásavegurinn muni falla úr sýsluvegatölu, þegar flutningsbrautin sé komin frá Ölfusárbrú niður á Eyrarbakka. Ekki getum við fallist á þá kenningu. Það munu fæstir uppsveitamenn, er ætla niður á Eyrarbakka og Stokkseyri, leggja þann krók á hala sinn, því ekki er víst að minni verslun verði á Stokkseyri með tímanum en Eyrarbakka. Þá virðist ekki vel heppilegt að leggja niður Ásaveginn. Gerum ráð fyrir, að 2 menn fari með lest jafnt á stað frá Þjórsárbrú niður að Stokkseyri. Annar fer þjóðveginn - neðri leiðina - út að Ölfusárbrú og þaðan niður á Eyrarbakka, þaðan svo austur að Stokkseyri. Hinn fer syðri leiðina, og látum báða hafa jafngóða vegi. Hve langt verður hinn nú síðarnefndi komin náleiðis upp að brú, þegar hinn er kominn að Stokkseyri? Hann verður kominn meir en miðja vega. Sér nú nokkur sanngirni í því, að nyrðri leiðin sé hagkvæmari ferðamönnum? Eða er það sanngirni, að Ásavegurinn sé felldur úr sýsluvegatölu, en í hans stað komi aftur sýsluvegur eftir endilöngum Hraungerðishreppi? Við getum ekki fundið það út, hvers vegna þessi setning kemur hjá höf., ætlum heldur ekki að leiða getur að því.
Þá koma árflóðin, sem hr. B. J. virðist gera heldur smásmuguleg. Hann kallar það að eins "gusu" flóðið síðasta, er kom úr Hvítá eftir það, að hlaðið var í skarðið á Brúnastaðaflötum. Þetta flóð varð nú samt það mikið, að hefði vegurinn verið þá kominn þar sem honum er ætlað að liggja hjá Skeggjastöðum, hefði hann mestallur verið þar í kafi, nema því meir upphleyptur. Að þvílík flóð geti ekki grandað vegum, virðist æði ótrúlegt, og sýnir það glöggvast, að þar, sem vatni er ætlað að renna gegnum þá, eru þeir tíðast bilaðir, og fremur mun það vera á vetrum en hina ársins tíma.
Svo rekur höf. á rembihnútinn og telur veginn (syðri) fyrir utan Hróarholtslæk þar í mestri hættunni fyrir flóðum, ef hann yrði það nokkursstaðar - þar sem hallinn er mjög lítill og allur kraftur úr öllum hlaupum. Manni finnst nú þá fyrst duga smábrýr fyrir vatnið, og eins vera leyfisvert að fara þar undir þær eins og ofar, þar sem hallinn er meiri á landinu.
Við fáum nú ekki betur séð, en syðri stefnan sé hagkvæmari ferðamönnum. Þar má fá góða áfangastaði, vegurinn lagður yfir litlar engjar, en á nyrðri leiðinni þyrfti nálega að kaupa land undir hann allan úr því kemur á móts við Bitru. Einnig má líta til þess, hve langt menn koma að austan, sem ferðast hafa dag eftir dag og viku eftir viku. Þeir mundu þakklátir, ef þeir fengju beinan veginn, og undir eins þakklátir fyrir það, að geta nú farið þennan veg yfir mestu torfærur, hvort heldur þeir ætluðu sér niður á Bakka eða "suður yfir fjall". Það er ekki ónáttúrlegt að þeir séu sárir yfir því, að reka hesta sína óþarfakróka, ef þess gerðist ekki þörf, því sennilegt er, að þeir eigi tilkall til þess, að vegurinn sé lagður haganlega fyrir þá sem aðra, eftir því sem unnt er.
Við viljum minnast þess, að enginn vegfræðingur hefur enn stigið fæti sínum í þá átt, að skoða syðri stefnuna; og til þess að þetta verði ekki tómar málalengingar finnst okur hyggilegast, að landsstjórnin tilnefni óvilhallan vegfræðing til að skoða báðar leiðirnar, nyrðri og syðri, svo fljótt, sem tíð leyfir í vor, með mönnum úr sýslum þeim, er vegarins nota haf. Væri nú betur, ef nyrðri leiðin yrði nú ofan á, og búið að vinna að henni meira eða minna, að ekki ræki að því, að yrði að leita til landshöfðingja líkt og í sumar, þegar hann varð að taka sér ferð á hendur austur að Þjórsárbrú til að fá upplýsingar hjá elstu og kunnugustu mönnum. Leitaði hann þá fyrst upplýsinga hjá Einari á Urriðafossi, sem hafði bæði ritað og rætt um Þjórsárbrúarstæðið mest allra manna, og hans söng vann sigur gagnvart mörgum, er á móti voru.
16. febrúar 1896.
Jakob Jónsson
Kampholti
Einar Einarsson
Urriðafossi
Frekari málalengingar um þetta efni verða ekki teknar í Þjóðólf.


Þjóðólfur, 2. júní 1896, 48. árg., 27. tbl., bls. 106:
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur segist hafa skoðað svonefnda syðri leið í Flóanum og valið vegalínuna eftir þá skoðun.

Vegurinn yfir flóann
Í Þjóðólfi frá 13. mars þ. á. er grein um "veginn yfir Flóann" eftir þá nágrannana Jakob í Kampholti og Einar á Urriðafossi; í þessari grein stendur meðal annars:
"Vér viljum minnast, að enginn vegfræðingur hefur enn stigið fæti sínum í þá átt að skoða syðri stefnuna".
Af því að ég verð að álíta, að ég megi vera inn á meðal hinna svonefndu "vegfræðinga", tek ég þessi orð til mín, og lýsi hér með þá kumpána ósannindamenn að þessum orðum, því að ég hef, sumarið 1894, bæði skoðað, rannsakað og mælt þessa þeirra syðri leið, borið hana saman við nyrðri leiðina og valið vegalínuna þar eftir. - Þeir skuli ekki halda að mér hafi nokkurn tíma dottið í hjartans hug að fara að deila við þá um vegalagninu, eða spyrja þá um, hvað athuga þurfi við vegarannsóknir og mælingar, því að ég þykist hafa eins vel vit á því, vað gera eigi í þess konar tilfellum, eins og þeir. En náttúrlega hef ég útvegað mér allar þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru, hjá kunnugum mönnum, og tekið hæfilegt tillit til þeirra frásagna.
Reykjavík 27. maí 1896.
Sig. Thoroddsen.


Ísafold, 20. júní 1896, 23. árg., 42. tbl., bls. 166:
Unnið er að vegagerð á fjórum stöðum þetta sumar og eru um 70 manns í stærsta vegavinnuflokknum.

Lands-vegagerð.
Að vegagerð á landsjóðs kostnað er unnið í sumar á 4 stöðum, með allmiklu liði. Stærsti flokkurinn, nær 70 manns, hefir byrjað í vor á Flóaveginum, milli brúnna á Þjórsá og Ölfusá. Fyrir honum ræður Erlendur Zakaríasson. Verkið hafið við Ölfusárbrúna hjá Selfossi.
Þá er annar flokkurinn á Mosfellsheiði, nær 40, undir forustu Einars Finnssonar, sem er við 12. mann að afmá hinn alkunna Kárastaðastíg ofan í Almannagjá. Þarf að sprengja mikið af einstiginu niður í gjána og jafnframt hlaða upp veginn til muna eftir gjánni, til þess að fá hallann ekki meiri en lög mæla fyrir. Síðan á vegurinn að liggja austur úr gjánni á sama stað sem nú, og þá austur með brekkunni og yfir ána rétt fyrir neðan fossinn, austur á vellina. Það verður nú 16 álna brú á ánni. - Sumir eru á því, að veginn hefði heldur átt að leggja miklu nær vatninu, Þingvallavatni, þar sem Almannagjá er nær horfin; en þar kvað samt vera til vegarstæði.
Þá vinnur einn flokkur vestur í Geiradal, og fyrir honum Árni Zakaríasson. Þeir munu vera um 30 saman, þar af 20 vanir verkamenn sunnlenskir.
Loks er Páll Jónsson með nokkra menn austur í Múlasýslum.


Ísafold, 1. júlí 1896, 23. árg., 45. tbl., bls. 179:
Þjórsárbrúin var reynd með 100 tonna grjótlagi og stóðst prófið.

Þjórsárbrúin.
Þjórsárbrúin var reynd í vikunni sem leið (23. f. m.) af brúarsmiðnum, Mr. Vaughan frá Newcastle, í viðurvist vegfræðings landsins, hr. Sig. Thoroddsen: borið á hana alla 6 þuml. þykkt grjótlag, er kvað hafa talist til að samsvaraði tilskildum þunga, 80 pd. á ferfeti hverju, sama sem 100 smálestum á allri brúnni. Ekki lét brúin hót undan. Grjótinu síðan rutt í ána.


Þjóðólfur, 12. okt. 1896. 48. árg. 48. tbl. , bls. 192:
Viðgerð er lokið á Ölfusárbrúnni og teptist umferð aðeins 8 daga.

Viðgerðin á Ölfusárbrúnni m. fl.
Þá er nú svo langt komið, að lokið er við aðgerð á Ölfusárbrúnni, og verður ekki annað sagt, en að það hafi vel tekist, eftir því sem hún leit út í fyrstu. Eftir allri grjót og sements-vinnu leit Erl. Zakaríasson, vegabótastjóri. Tr. Gunnarsson bankastjóri brá sér hingað austur og sá um smíði á undirviðum á trébrúnni, og var svo greiðlega unnið að þeirri viðgerð, að umferð með hesta tepptist aðeins 8 daga. Til viðgerðar á Ölfusárbrúnni tók Erl. 12 menn af vinnulið sínu, auk þeirra unnu og 2 smiðir og fleiri, sem að flutningum störfuðu. Allur viðgerðarkostnaður á brúnni fer nálægt 980 kr. Til viðgerðar á múrverki á stöplum fóru um 20 tunnur sement, og talið að meira hefði til þurft, en meira var ekki fáanlegt á Eyrarbakka. Til ísteypu í akkerisstöplana fóru nálægt 12 tn., þó nokkuð eftir ósteypt, sem í vantaði. - Skemmdir á veginum frá Hellisheiði austur að brú hafa ekki orðið neitt stórkostlegar; voru það helst rennur og kampar undir trébrúm, sem hrundu, enda var gert við það allt á mjög stuttum tíma og mun kostnaður við það með kaupi 6 verkamanna, sem að því unnu, um 160 kr. - Á litlum kafla fyrir neðan Ingólfsfjall hefur vegurinn sigið, þar sem mýrin er blautust, en þó vel fær eftir sem áður, og að öðru leyti ekki skemmdur.
Nú eru allir í óða önnum að byggja upp bæi sína, en lítið farið að eiga við fénaðarhús enn. Hér í Sandvíkurhreppi og enda víðar mun helst vanta vinnukraft, því um þessar mundir eru réttir og smalamennska, enda á sumum heimilum ekki nema bóndinn einn, sem að moldarverkum getur unnið, svo teljandi sé. Þessi áður nefndi hreppur var fyrir hrunið einn af bestu hreppum sýslunnar, en er nú efalaust hinn lakasti, þegar litið er til býlafjölda, því við nákvæma skoðun , sem hér fór fram fyrir stuttu, kom það í ljós, að 16 býli eru alveg hrunin, 30 stórskemmd, 5 lítið eða ekki skemmd og er nú allt talið. Víst verðu ekki annað sagt, en að verkamenn þeir, sem ganga milli Sandvíkur- og Hraungerðishreppa og voru léðir úr vegagerðarflokki Erl. Z., geri mikið gagn, en 6 menn geta ekki nærri nægt í 2 hreppa; aðrir 6 menn fóru úr sama flokki í Ölfusið og hafa það eitt til yfirferðar, enda er þörfin fyrir því söm þar. Þrátt fyrir þetta eru sumir hinna efnaðir og atorkusamari búnir að byggja upp meiri hluta af innanbæjarhúsum.
Rétt í því að ég er að enda þessar línur, fer hinn svo nefndi Barnavagn hjá, fullfermdur af börnum fátæklinga og annarra, sem hús sín hafa misst, og var mér sagt, að þetta væri 5. vagninn héðan úr sýslu, er færi með barnafarm til Reykjavíkur. Ég get ekki dulist þess, að ýms orð flugu fyrir í fjölmenni því, er við var, um það, að Eyrbekkingar mundu nú eftir öllum ástæðum hafa átt eins hægt með að taka, þó ekki hefði verið nema 4-5 börn, eins og Seltingingar og aðrir sunnanmenn, eftir öll fiskleysis- og bágindaárin, - eða þá ljá nágrönnum sínum vinnustyrk fyrir sanngjarna borgun, - það kann að verða síðar, en bráða þörfina er mest að meta. - Hins vegar sagt hefur verslunarstjórinn þar, P. Nielsen, hjálpað stórkostlega, lánað út timbur svo þúsundum króna skiptir, sömuleiðis tjalda efni víða um sýsluna o. fl. Vegna alls þessa var hætt við byggingu á stóru og vönduðu íshúsi, sem hlýtur að koma sér mjög bagalega. Sagt er og, að hreppstjóri Guðm. Ísleifsson hafi sent 7-8 verkamenn austur og ábyrgst þeim sanngjarna borgun.
Selfossi 28. sept. 1896.

Símon Jónsson


Ísafold, 1. júlí 1896, 23. árg., 45. tbl., bls. 179:
Íslandsvinurinn P. Feilberg er mjög ánægður með þá breytingar sem hafa orðið á vegamálum frá því hann kom hér fyrir 20 árum.

Álit P. Feilbergs um framfarir landsins.
-----
Brýr og vegir. Járnbrautir.
Hér var minnst í sumar ofurlítið á ferð hins þjóðkunna danska búfræðings og ágæta Íslandsvinar, P. Feilbergs; en ekki verið tími eða rúm til að skýra frá mikið fróðlegu tali, er hann átti við ritstjóra "Ísafoldar", áður en hann fór héðan, og laut að ferðalagi hans hér og því hvernig honum hefði nú litist á sig, 20 árum eftir að hann kom hér í fyrra skiptið.
Hann sagði, að þá 1876, hefði öll búnaðarframfarviðleitni og aðrir viðreisnaratburðir þjóðarinnar verið í byrjun, ekki nema tvö ár liðin frá því er vér fengum stjórnarskrána, sem hefði veitt oss frjálsari hendur til alþjóðlegra framkvæmda en áður hefði verið. Kvað hann furðumikinn mun sýnilegan á mörgu hér, við það, sem þá var, og hann mjög gleðilegan. Vér veittum því ef til veill ekki svo mikla eftirtekt sjálfir, en gests-augað væri glöggvara. Nefndi þar til fyrst og fremst vegina nýju og brýrnar. T. d. hefði þá engin brú verið til í Skagafirði, en nú væri þær orðnar 9. Og svo væri þessar ljómandi fallegu og vönduðu brýr yfir Ölfusá og Þjórsá. Kambaveginn kvað hann og mundu þykja snilldarverk hvar sem væri.
Rétt að leggja sem mest kapp á að bæta vegina. Góðir reiðvegir væri járnbrautir Íslands. Þegar vér hefðum lokið við jafngóðan veg héðan til Akureyrar eins og austur í Flóann, væri að sínu leyti jafnmikið þrekvirki unnið af oss til samgöngubóta, eins og af Bandaríkjunum í Ameríku, er þeir höfðu lokið við Kyrrahafsjárnbrautina fyrstu. Vegna strjálbyggðarinnar og fámennisins á hverjum bæ yrðu akbrautir oss of kostnaðarsamar, hvað þá heldur járnbrautir. Með 100 þús. kr. fjárveiting á ári til vegabóta mætti takast að leggja ágæta reiðvegi um mikinn hluta landsins á ekki mjög löngum tíma; en sama fjárveiting mundi ekki meira en svo hrökkva til viðhalds miklum akvegum, hvað þá heldur til þess að standa straum af járnbrautum.
Spurningunni um, hvort ekki mundi mega bæta svo landið, þar sem það væri best til þess lagað, t.d. á nokkrum hluta Suðurlands-undirlendisins, að afurðir þess gætu skapað járnbrautum nóg að vinna og orðið arðsöm útflutningsvara, svaraði hann svo, að þess væri engin von, vegna samkeppni annarra landa, sem nær lægi heimsmarkaðinum, og miklu betur stæði að vígi að öðru leyti. "Oss Dönum veitir fullt í fangi", sagði hann, "að standa í Hollendingum, ekki einungis vegna þess, að þeirra land liggur nokkuð nær enska markaðinum, heldur eigi hvað síst þess vegna, að þar eru sumardagarnir hundraði fleiri heldur en í Danmörku. Þeir eru í Danmörku 150, en í Hollandi 250. En því færri sem sumardagarnir eru, því lengri verður búpeningsgjafatíminn og fénaðarafurðir þeim munkostnaðarsamari. Svo örðugt sem vér eigum með að keppa við Hollendinga, þá standa Svíar og Norðmenn enn verr að vígi í því efni, og þér Íslendingar svo illa, að það er sama sem frágangssök. Hér fara sumardagarnir varla fram úr 100 að jafnaði, og hvað vel sem t. d. Flóinn væri ræktaður, og þó að þangað væri lögð járnbraut, þá yrði flutningskostnaðurinn á útlendan markað samt sem áður svo mikill, að ekki yrði undir risið. Munur í Ameríku, þar sem sumarhitinn er svo megn, að hvers konar gróður þýtur upp á skömmum tíma; þar geta járnbrautir um strjálbyggð héruð eða ónumin svarað kostnaði".


Ísafold, 14. okt. 1896, 23. árg., 72. tbl., bls. 287:
Ölfusárbrúin skemmdist talsvert í jarðskjálftunum og hefur viðgerðin kostað nálægt 1000 kr.

Viðgerðin á Ölfusárbrúnni.
Viðgerðin á Ölfusárbrúnni eftir landskjálftana hefir kostað nálægt 1000 kr. og um 160 kr. viðgerðin á veginum frá Hellisheiði og austur að brúnni; voru það helst rennur og kampar undir trébrúm, sem bilað höfðu. Í viðgerðarkostnaðinum að Ölfusárbrúnni felast 20 tunnur af steinlími ásamt flutningi þeirra upp að brúarstæðinu; fóru af því 12 tunnur í akkerisstöplana að norðanverðu. Annars var aðalverkið endurhleðslan á vegakampinum undir trébrúnni fyrir austan ána, sem var farin að bila áður hvort sem var og hefði þurft að gera við innan skamms, með því að hann hafði verið lítið sem ekkert steinlímdur í upphafi.


Ísafold, 14. nóv. 1896, 23. árg., 79. tbl., bls. 514:
Nú á að fara að nota nýjar lengdarmælieiningar, rastir og stikur, - eða kílómetra og metra “ef mönnum þykir útlenskan bragðbetri”. Hefur landshöfðingi látið Erlend Zakaríasson stika hinn nýja veg austur í Flóa og hér eru birtar niðurstöður þeirrar mælingar.

Rastamörk.
Vegaleysinu hér á landi hefir eðlilega fylgt vitneskjuleysi um vegalengdir, öðruvísi en eftir ágiskun. Jafnvel eftir að farið var að gera almennilega vegi og mæla þá nákvæmlega, var ekkert hugsað um að afmarka á þeim tilteknar vegalengdir og auðkenna með marksteinum, að dæmi siðaðra þjóða. Má vera, að það hafi verið með fram því að kenna, að vér höfum lengi átt í vændum breytingu á lengdarmáli voru, og því ekki þótt hlýða að leggja kostnað í mílu marksteina, er ónýttust innan skamms vegna þess, að lögleitt yrði tugamálið frakkneska: rastir og stikur, - eða kílómetrar og metrar, ef mönnum þykir útlenskan bragðbetri. Þetta nýja lengdarmál væri að öllum líkindum löngu komið í lög hjá oss, ef það atriðið lægi ekki undir alríkis-löggjafarvaldið, þ. e. ríkisþingið danska með konungi. En, eins og kunnugt er, hafa Danir allt til þessa með engu móti getað hleypt í sig því framfaráræði, að taka upp slíkt nýmæli, þótt löngu sé búið að því á næstu grösum við þá, á Þýskalandi, í Svíþjóð og Noregi o. s. frv.
Af því að það voru Norðmenn, sem hér hófu fyrstir nýtilega vegagjörð, komst sú venja á meðal vegaverkmanna hér, að mæla vegakafla í stikum, en ekki í föðmum eða álnum. Nú hefir landshöfðingi stigið það spor til að löghelga þá venju, og bæta úr hinu leiðinlega og jafnvel bagalega vitneskjuleysi um vegalengdir, að hann hefir nýlega látið stika hinn nýja veg héðan austur í Flóa, í því skyni að afmarka hann með rasta-marksteinum. Hann hefir látið Erlend Zakaríasson, vegaverkstjóra, gera það nú í vikunni sem leið, og mun hann eiga að setja marksteinana í vetur eða vor. Þeir eiga að vera 30-36 þumlungar á hæð, og höggvin á rastatalan, frá Reykjavík austur. En til þess að eyða sem minnstu í þetta á að láta duga að sinni að hafa markstein við 5. hver rastamót (>5 km. frá Rvík< , > 10 km. frá Rvk<, o.s. frv.).
Vegurinn er talinn byrja við lækinn í Reykjavík, neðri endann á Bankastræti, og skulu hér til nefndar ýmsar vegalengdir þaðan eftir þjóðveginum austur, samkvæmt mælingu herra Erlendar (stærri tölurnar rastir, hinar stikur):
að Fúlutjarnarlæk ¿¿¿. 2,330
- Laugavegamótum ¿¿ 2,610
- Markalæk ¿¿¿¿¿ 5,000
- Elliðaám ¿¿¿¿¿.. 5,492
- Árbæjartröðum ¿¿¿ 6,700
- Rauðavatns-viki ¿¿.. 9,800
- Hólmi ¿¿¿¿¿¿.. 12,900
- Mosfellsheiðarvegi ¿. 13,610
- Lækjarbotnum ¿¿¿. 16,400
- Vatna-sæluhúsi ¿¿¿ 20,720
á Sandskeiði efst ¿¿¿.. 22,200
að Svínahrauni ¿¿¿¿. 24,495
upp fyrir Svínahraun ¿¿. 30,155
að Kolviðarhól
(móts við hann) ¿¿¿¿. 31,000
að Hengladalsá á Hellisheiði 40,220
- Varmá í Ölfusi ¿. nál. 47,000
- Kagaðarhól ¿¿¿¿.. 53,100
- Ölfusárbrúarveginum
(upp að Ingólfsfjalli) ¿¿ 56,705
á Ölfusárbrúna miðja ¿¿ 58,705
að Kúhólum ¿¿¿¿¿.. 60,000
hér um bil sama sem 8 mílur danskar; það er sem sé rúmlega 7 ½ röst í hverri danskri mílu. Stikan er rúmlega ½ faðmur (38 ¼ þumlungur), og 1000 stikur í röstinni.
Þessir rastamarksteinar geta orðið eins og dálítið stöfnunarkver almenningi til undirbúnings undir hið franska lengdarmál, sem naumast getur nú verið langt að bíða úr þessu, að lögleitt verði hér beinlínis.
það er nógu fróðlegt að taka eftir því, að með 6 klukkustundar reið austur fyrir Ölfusárbrú, sem þykir hæfilegt með tvo til reiðar, eru farnar 10 rastir á klukkustundunni, eða röstin (531 faðm.) á 6 mínútum, að viðstöðum meðtöldum. - -
Af því að oft er minnst á enskar mílur, á vel við að geta þess um leið, að ensk míla er rúml. 1609 stikur eða nær 855 faðmar. En dönsk míla er, eins og flestir vita, 4000 faðmar. Fyrstu mílnamót frá Reykjavík (læknum) eru rétt fyrir neðan Lækjarbotna, þriðju örskammt fyrir ofan Sandskeiði og fjórðu við efri jaðar Svínahrauns; þingmannaleiðin full (5 mílur) hér um bil á miðri Hellisheiði.


Ísafold, 30. des. 1896, 23. árg., 90. tbl., forsíða:
Hér segir frá vegaframkvæmdum landssjóðs 1896 en mest var unnið að vegagerðinni yfir Flóann.

Landsjóðsvegagerð 1896
Svo sem kunnugt er, þá er nú orðið unnið til muna að því á hverju ári, að gera almennilega vegi um landið, og allmiklu fé til þess varið úr landssjóði. Vitaskuld vinnst þó landið seint með ekki meira áframhaldi, og vonar maður, að það eigi fyrir sér að örvast að mun heldur en hitt; en ólíkt er þetta þó því, er ekkert var aðhafst í þessari grein eða sama sem ekkert: bæði litlu afkastað og það jafnaðarlega ónýtt, er gert var.
Nú í sumar kvað mest að vegagjörðinni yfir Flóann, sem lengi hefir þráð verið, og lokið var nú að fullum helmingi, þótt snemma haustaði að og tæki fyrir vinnu. Var byrjað við Ölfusárbrúna og lagðar fullar 10 rastir, austur fyrir Skeggjastaði í Hraungerðishverfi. Og er ráðgert að ljúka við hinn helminginn að sumri austur að Þjórsárbrú. Það er á þeim kaflanum, sem blaðaþrefið var mest um vegarstefnuna í fyrra. En nú mun þeirri þrætu lokið, eftir að verkstjórinn fyrir Flóann, herra Erlendur Zakaríasson, hefir í sumar rannsakað syðri vegarstefnuna og reynst þar meðal annars ófáanlegur ofaníburður, auk fleiri örðugleika, en vegalengdarmunurinn harla lítill, miklu minni en látið var.
Vegurinn þessi, sem gerður var í sumar, er 12 feta breiður og er lagður í beina stefnu eftir móum og mýrum, og var yfirleitt mjög auðgerður, nema hvað örðugt var að fá ofaníburð. Mestallur var hann gerður af muldu grjóti, og lagið um það 1 fet á þykkt. Grjót var víðast mjög nærri og auðmulið, nema á nokkrum spöl vestur við Ölfusá. Þar hafði verið ekið grjóti veturinn fyrir á hjarni, en sleðafæri verið stopult og daglaun fyrir það orðið útdráttarsöm, þó miklu minni yrði kostnaðurinn heldur en nokkur hafði boðist til að gjöra það með ákvæðiskjörum.
Rúmlega 25.000 kr. hefir vegagerð þessi kostað, að meðtöldum 500 kr., sem fóru til aðgjörðar á Ölfusveginum. Hefir eftir því faðmurinn í veginum kostað nokkuð minna en 5 kr. Að veginum unnu 54 menn fæst og 70 flest allt sumarið hér um bil, í 8 flokkum, og sinn flokksforingi fyrir hverjum. Kaupið var kr. 2,75-2,85 á dag (einn maður 3 kr.) og sunnudagaþóknun 1 kr.; auk þess nokkrir unglingar til að aka með 2-2 ½ kr. kaupi, en sömu sunnudagaþóknun. Þar að auki unni nokkrir verkamenn vor og haust fyrir kr. 2,25 kaup, en án sunnudagaþóknunar. Flokkstjórar höfðu kr. 3,25 í kaup á dag. "Það hefir verið vani að undanförnu", segir herra E.Z., "að greiða 1 kr. fyrir innistöðudaga (vegna illviðris), en ég fékk fólkið til að vinna ¼ klst. fram yfir á dag, til að bæta upp, ef innistaða yrði nokkur, en hún var lítil sem engin. - Vagnhestar við vinnuna voru 18 og kostuðu 60 a. dag, en aukahestar nokkra daga á 1 kr.
Þá vann í annan stað allmikill flokkur, 30-40 manna, að framhaldi Mosfellsheiðar-vegarins frá Móakotsá austur yfir Almannagjá, og bíður greinileg skýrsla um þann veg þess, að hann verði fullger. Þar stjórnaði herra Einar Finnsson verkum.
Enn var nokkuð unni að vegagerð vestur í Geiradal og Saurbæ og sömuleiðis austur í Múlasýslu.


Ísafold, 30. des. 1896, 23. árg., 90. tbl., forsíða:
Erlendur Zakaríasson vegaverkstjóri segir frá viðgerðum á Ölfusárbrúnni eftir landskjálftana.

Aðgerð á Ölfusárbrúnni
Frá viðgerðinni á Ölfusárbrúnni eftir landskjálftana segir hr. Erl. Z. svo: "Vegarendinn, sem syðri endi trébrúarinnar lá á, hrundi, og sömul. hliðarnar á veginum; þær hrundu líka á 13 faðma löngum kafla. Stöpull var hlaðinn undir brúarendann 5 álna að ofan, 7 álna breiður aftan og 4 ½ álnar langur; tengismál stöpulsins var 139 álnir. verkið var framkvæmt þannig, að garður var hlaðinn allt í kring, 2 ½ feta þykkur að jafnaði, steyptur upp með steinlími (sementi) upp úr gegn og 3 álnir af lengd stöpulsins, og svo raðað grjóti innan í.
Kantarnir á veginum voru gjörðir miklu flárri en áður var og hlaðnir að utan úr sniddu og þar utan yfir raðað grjóti.
Enn fremur var gert við akkerisstöplana að norðanverðu við brúna; þeir sprungu allir í sundur, sérstaklega vestari stöpullinn. Það var höggvið úr steinlímið alstaðar, þar sem sprungur sáust, og múrað í aftur; svo var rifið ofan af stöplunum, sem laust var, og hellt ofan í þá þunnu steinlími, meðan það entist; best hefði verið að geta hellt í þá þangað til að þeir tóku ekki við meiru; en steinlím var ekki að fá, hvar sem leitað var.
Ég ímynda mér, að þeir (stöplarnir) þoli nú samt alla vanalega áreynslu. Þeir eru að minni hyggju betri en þeir voru. Það var ekki annað að sjá en að lítið steinlím hefðir verið innan í þeim. Sömuleiðis var gjört við uppihöld og ýmislegt fleira, sem bilaði á brúnni sjálfri.
Það slitnaði hliðarstrengurinn frá stöplinum (járngaddurinn brotnaði niður við stöpulinn) og annar gaddur var settur í stöpulinn og strengurinn festur þar í aftur.
Yfir höfuð var gert allt við brúna, sem þurfa þótti, og sjáanlegt var að aðgerðar þurftir.
Hr. Tryggvi Gunnarsson og Símon brúarvörður sáu um allt, sem að trésmíði laut.
Til þessarar vinnu gengu í vinnulaun kr. 527, 57, til flutnings og fl. kr. 93,40.


Tenging í allt blaðaefni ársins 1896

Ísafold, 1. feb. 1896, 23. árg., 6. tbl., bls. 22:
Menn deila um hvar leggja eigi veginn yfir Flóann.

Enn um veginn yfir Flóann.
Mínir kæru vinir Einar Einarsson á Urriðafossi og Jakob Jónsson í Kampholti, hafa fundið köllun hjá sér til að rita hvað eftir annað í blöðin um veginn yfir Flóann. Hingað til hefir enginn svarað þeim, og því ætla ég nú að gera það. En þeir mega ekki misvirða, þó ég geti ekki fallist á skoðun þeirra. Ég hefi lengi verið á annarri skoðun; og greinir þeirra hafa einmitt styrkt mig í henni með því, að vekja mig til nákvæmari yfirvegunar á málinu en áður. Það er hér sem oftar að menn mega vera þakklátir hver öðrum fyrir mismun skoðananna. Málin verða þá betur rædd.
Þeir telja sinni vegarstefnu, - er nefna má hina syrðir, - fimm kosti til gildis fram yfir syðri, - fimm kosti til gildis fram yfir hina stefnuna, er vegfræðingurinn valdi, - er nefna má hina nyrðri, nefnilega:
1., að hún sé bein, og því styttri;
2., að hún kosti þess vegna minna;
3., að hún spari kostnað við Ásaveginn, er hún liggi eftir parti af honum;
4., að hún sé hagkvæmari ferðamönnum; og
5., að henni sé alveg óhætt fyrir ár flóðum.
Þessir kostir líta í fljótu bragði glæsilega út. En sjáum nú, hvað úr þeim verður við nákvæmari athugan.
1. Bein er syðri stefnan yfir að líta; það er satt. Því hún á að fylgja sjónhendingunni milli brúanna; en á hinni nyrðri verður bugur til útnorðurs frá Þjórsárbrúnni að Flatholti fyrir ofan Bitru. Sá bugur mundi nema hér um bil ½ kl. tíma lestaferð, ef hann lægi þvert úr beinni stefnu. En nú er enginn efi á því, að frá Flatholti út að Ölfusárbrú er skemmra en bein leið milli brúanna. Krókurinn munar því ekki mílu. Þó væri sjálfsagt að taka tillit til hans að öllu öðru jöfnu. En nú er sá munur á, að nyrðri leiðin er nálega hallalaus, en hin syðri liggur yfir talsverða hæð (Ásana) og verður þar ekki gjörður vagnvegur, nema leggja hann í talsverða króka. Það er því óvíst, að sá vegur verði hóti styttri en hinn í raun og veru. Svo mikið er víst að munurinn verður næsta lítill.
2. Kostnaðarléttirinn getur því eigi orðið teljandi, enda þó jafn-hægt væri að leggja veginn hvora leiðina sem er. En hér er um fleira að ræða. Á nyrðri leiðinni er alstaðar við höndina nóg hraungrjót, sem hægt er að mylja; má því "púkkleggja" þann veg allan, og auk þess er nægð af ágætum ofaníburði rétt við veginn skammt frá Bitru. Á syðri leiðinni er ekki annað grjót að fá en blágrýti, sem ekki er hægt að mylja í veg; og ókunnugt er um, að þar fáist annar nýtilegur ofaníburður. Yrði því að flytja grjót til "púkklagningar" frá báðum endum: austan fyrir Fosslæk og vestan fyrir Hróarsholtslæk. Gerum nú ráð fyrir, að sá kafli sé ekki nema 6000 faðma langur, og ætlum teningsfaðm af grjóti í hverja 6 faðma; gerum og ráð fyrir, að flutningur hvers teningsfaðmsins á sinn stað við veginn kosti ekki nema 15 kr. að meðaltali. Það er þá 15.000 kr. kostnaðarauki, sem syðri leiðin hefir fram yfir hina nyrðri. Mun hér þá heldur lágt til tekið. - Aftur er það satt, að fleiri smábrýr þarf á nyrðri leiðinni; en enga mjög stóra eða dýra. Stærsta brú þarf á Mókelduna fyrir framan Hjálmholt, en þó hvergi nærri eins stóra eins og þarf á Hróarholtslæk á syðri leiðinni, - hún yrðir milli Lækjar og Vola. - En sá er munurinn mestur, að Mókeldubrúna mætti gjöra trygga, því þar er fast berg undir báða stöpla, en Hróarsholtslækjarbrúna efast ég um að unnt væri að gjöra trygga; því lækurinn hefir, á hinu nefnda svæði, að eins blauta mold í vesturbakkanum, og yrði víst dýrt að ganga svo frá, að vatn græfi sig þar ekki kring um stöpulinn, þegar klaka er að leysa á vorin. Enginn nema verkfræðingur getur borið um það, hvað kosta muni að gera við þessu, eða enda hvort það muni takast, svo óhætt sé.
3. Ekki yrði það sparnaður fyrir vegasjóð Árnessýslu, þó syðri leiðin yrði valin og félli saman við Ásaveginn um nokkurn spöl, því þá yrði óhjákvæmilegt að leggja sýsluveg eftir endilöngum Hraungerðishreppi, og það yrði vegasjóðnum, og ofaná allt annað öldungis ofvaxið. Það væri heldur ekki æskilegt, að missa af verulegum hagsmunum vegna Ásavegarins, sem í framtíðinni, þegar vagnflutningar eru komnir á, mun verða margfalt minna notaður en áður. Það gera þá aðeins uppsveitamenn, sem sækja til Baugstaða eða Loftstaða . Rangæingar, sem þangað sækja munu oftast fara Partaveg; vegna þeirra mun verða að halda honum í sýsluvegatölu, þó Parta-búum sjálfum nægi hreppsvegur. Fyrir þá Rangæinga, sem fara um Þjórsárbrú til Eyrarbakka eða Stokkseyrar, sýnist í fljótu áliti Ásavegur liggja beinna við en flutningsbrautin, ef hún verður lögð hjá Ölfusárbrú, sem líklegast er. En þegar þeir komast að raun um, að styttri tíma tekur þó að fara hana, þá er auðvitað, hvaða leið þeir kjósa. Þrátt fyrir þetta er ég ekki á því, að Ásavegur megi bráðum falla úr sýsluvegatölu; en ýmsir halda því fram, og ef það skyldi nú verða ofaná, þá væri lítil bót í, að partur af honum félli saman við þjóðveginn.
4. Hagkvæmari ferðamönnum sýnist mér einmitt nyrðri leiðin. Það er auðvitað, að hvar sem vegur er lagður, getur hann aldrei orðið jafn-hagkvæmur fyrir alla. Og ég skal játa, að fyrir vissa nágrannabæi getur syðri leiðin verið hagkvæmari; þó ekki svo, að þar standi á mílu. En allir Hreppamenn og allflestir Skeiðamenn fara beint fram að Bitru og svo þaðan eftir þjóðveginum til Ölfusárbrúar, þá er þeir ferðast til Reykjavíkur, eða yfir höfðu "suður fyrir fjall". Og sömu leið fara þeir óefað til Eyrarbakka og Stokkseyrar, þegar flutningsbraut er komin þaðan að Ölfusárbrú; - og þess verður ekki svo langt að bíða, að nokkurt vit sé í að taka ekki tillit til þess. Og þá má líka telja marga af Biskupstungnamönnum með, því Eystritunumenn eiga sömu leið og Hreppamenn til Eyrarbakka. Allir þessir uppsveitamenn lifa nú í góðri von um að fá vagnveg frá þjóðveginum hjá Bitru, er liggi upp eftir miðjum Skeiðum, þar sem skemmst er og flestir geta haft hans not. En með því að leggja krók á halann suður eftir Þjórsárbökkum fram að Þjórsárbrú. En það er svo mikill krókur, að hinn áðurtaldi bugur hjá Flatholti er hverfandi í samanburði við hann. Veit ég, að sumir fara þennan krók þegar bleytur eru, af því þar er þurrara; en aldrei samt þeir, sem fara "suður yfir Fjall"; krókurinn er svo stór, að þeim þykir það ekki tilvinnandi. Og varla kemur til mála að leggja vagnveg eftir þeim krók; enda mætti þá tala um kostnaðarauka, bæði vegna vegalengdar og vantandi ofaníburðar. Hann lægi þá á jaðri Skeiðahrepps, svo hann hefði hans svo sem engin not. Og hann yrði fyr eða síðar í hættu fyrir Þjórsá: hún brýtur þar bakka sína á löngum parti og er bágt að segja, hvort vegur getur verið þar eftir nokkra áratugi. - Þó til orða kæmi, að leggja vagnveginn fram hjá Blesastöðum og Skálmholti, þá er þess að gæta - að króknum slepptum - að þar hlyti mikið af veginum að liggja eftir engjum. Og það svæði er einkum fram frá Blesastöðum alsett djúpum dælum, sem fyllast vatni vor og haust. Mér sýnist því syðri leiðin óhagkvæm fyrir fjölda sýslubúa, og fyrir sýsluna í heild sinni.
5. Þá eru árflóðin, sem þeir telja aðalástæðu sína. Þó er nú búið að hlaða fyrir skarðið, sem þau runnu um. Síðan hefur eitt flóð komið; en ekki varð meira af því en svo, að lítil gusa komst uppá bakkann fyrir austan fyrirhleðsluna. Og fyrst það komst svo hátt, þá er auðráðið, að ef skarðið hefði verið opið, þá hefði þetta flóð verið eitt af hinum mestu. Þarf því naumast að óttast árflóð meðan fyrirhleðslan stendur; og enginn skyldi efa, að sér verði um viðhald hennar. En gerum samt ráð fyrir miklum árflóðum. Þau koma þó aldrei nema þegar jörð er frosin og þá vegurinn líka, enda hafa aldrei sakað brýr, þó þau hafi farið yfir þær. Gerum samt ráð fyrir, að árflóð spilli vegi, ef hann verður á leið þess. Á hvorri leiðinni er hættan þá meiri? Gætum að, hvernig mestu árflóðin haga sér: Fyrir ofan Hrygg skiptist flóðið í 3 kvíslar. Hin vestasta fer fyrir vestan Ölvisholt, fram á Sorta, út í Laugardælavatn og svo í Hvítá aftur; er ekkert um hana að segja. Hin austasta fer fram úr Mókeldunni í Hróarsholtslæk. En þar hagar svo vel til, að hægt er að ætla vatninu nóg rúm undir brúnni, án þess það nái henni nokkurn tíma. Miðkvíslin fer fram milli Ölvisholts og Miklaholts, dreifir sér svo út og fer sumt vatnið út í Laugardælavatn, en sumt rennur til Hróarsholdslækjar um Krakalæk og ýms önnur dæladrög; fer það gegn um veginn undir brýr, sem þar verða. Þó má vera, að sumt vatnið renni aldrei gegn um veginn, heldur langs vestur með honum; því þar verður skurður; en vegurinn liggur beint undan hallanum. Sé ég ekki, að af þessu standi nein hætta. Það er nú satt, sem þeir segja, að vestur yfir Ásana er syðri leiðin laus við þetta vatn að öllu leyti. En vegurinn þarf að halda áfram, þó Áunum sleppi. Um Hróarsholtslæk skilur syðri leiðin við Ásana, og liggur þá út yfir lágar mýrar að Uppsalaholti þvert fyrir hallanum. Hér er árflóðið nú komið saman aftur, og er miklu meira en svo, að lækurinn rúmi það. Flæðir það fram yfir mýrarnar, og liggur vegurinn þá þvert fyrir því. Það er einmitt á þessum slóðum, sem ég hygg að vegurinn sé í mestri hættu fyrir árflóði, ef hann er það nokkursstaðar.
Sumt sýnist mér öfgakennt hjá þeim, svo sem um leysinga-vatnið fyrir framan Skálmholt. Að vísu þarf þar að brúa þurar lautir; en þær eru grasivaxnar og hallalausar að kalla, og því alls ólíkar Sandskeiðinu, þar sem leysingavatnið beljar ofan úr háfjöllum niður álausan sandinn. Fleira er það í greinum þeirra, sem ég álít óþarfa að svara. En ég þykist nú hafa sýnt, að þeir hafi aðeins litið á málið frá einni hlið, og ekki hinni þýðingarmestu. Vona ég að þessar athugasemdir bæti nokkuð úr því.
Br. J.


Þjóðólfur, 28. febrúar 1896, 48. árg., 10. tbl., forsíða:
Í pistli af Rangárvöllum er m.a.. fjallað um vegabætur.

Pistill af Rangárvöllum
Mér dettur nú í hug, Þjóðólfur minn, að hripa þér fáeinar línur, þótt fátt beri til titla eða tíðinda.
¿¿..
Þá má telja til framfara vegabætur þær, er unnar hafa verið í sýslunni, helst hin síðari ár. Mun nú lokið brúargerð og vegabótum austast í sýslunni, í Eyjafjallahreppum, sem nú um undanfarin ár hafa að mestu dregið til sín vegapeningana, og Dufþekjubrú, sem liggur í Hvolhreppnum, mun einnig fullger á næsta sumri, auk þess sem þarf að lengja hana að Þverá um 3-400 faðma. Um Rangárvellina er lítið að tala, er að vegabótum lítur, þar eru góðir vegir og þurfa lítillar viðgerðar við. Svo tekur við Holtahreppur, og þær miklu ófærur, er liggur að Þjórsárbrúnni, þeirri brú, er vér Rangæingar höfum þráð um langan tíma. Erum vér því mjög þakklátir þingi og stjórn fyrir þá stóru vegabót, þótt vegleysan og ófærurnar, er að brúnni liggja í Holtunum, sé sá þröskuldur í vegi fyrst um sinn, að hún getur ekki orðið að tilætluðum notum, fyr en búið er að leggja saman hangandi akveg frá brúnni og að Ytri-Rangá, sem vér höfum fyllstu ástæðu til að vona, að þingið veiti fé til árið 1897, því þá fyrst er þingið búið að greiða svo fyrir samgöngum vorum, sem í þess valdi stendur, enda þykjumst vér að minnsta kosti hafa sanngirniskröfu til þess, þá er vér erum á annað borð þau olbogabörn náttúrunnar, að hér er engin höfn og enginn kaupstaður, og verðum því að sækja allar nauðsynjar vorar til annarra sýslna, svo sem Eyrarbakka eða Reykjavíkur, er oss kostar ærið fé, miðað við önnur sýslufélög, er hafa fleiri kauptún innan héraðs.


Þjóðólfur, 13. mars 1896, 48. árg., 12. tbl., bls. 47:
Menn deila um hvar leggja eigi veginn yfir Flóann og er stundum heitt í hamsi.

Vegurinn yfir flóann
Eins og kunnug er hefur hr. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi ritað alllanga grein í "Ísafold" um veginn yfir Flóann. Hefur honum oft tekist betur að rita og láta skoðanir sínar í ljósi. Er það miður drengilegt, að leitast við að gefa sannleikanum olnbogaskot, en koma aftur með gamburmosa í hans stað. Höf. telur okkur telja 5 aðalkosti syðri vegastefnunnar, reiðir þá líka 5 sinnum sér um öx, en athugum nú höggin, hve mikið úr þeim verður.
Buginn frá Þjórsárbrú út fyrir Flatholt telur hann lítinn og hverfandi í samanburði við þann bug, er uppsveitarmann, er "suður yfir Fjall" fara, yrðu að fara niður að Þjórsárbrú, og gerir ráð fyrir, að vagnvegur yrði trauðla lagður þann krók. En við getum frætt greinarhöfund um það, að þessi bugur er nú einmitt sami bugurinn, sem er frá Þjórsárbrú út fyrir Flatholt, og verði það nú tilfellið, að vegurinn liggi þannig frá Þjórsárbrú upp Þjórsárbakka, eða þá fyrir austan Blesastaði, ef hætta þykir fyrir veginn á bökkum, þaðan svo upp að Laxá fyrir framan Sóleyjarbakka, þá munu uppsveitamenn ekki óska sér að fara tvöfaldan krók, með því að fara frá Þjórsárbrúnni út fyrir Flatholt aftur, heldur kjósa sér með ánægju beina línu millum brúnna, hrósandi happi yfir veginum, að hann sé nú styttri, af því leiðandi byrlegri og þægilegri áfangastaður o. fl. Þetta mundi þeir nú hugsa þegar þar er komið.
Því hefur aldrei verið neitað, að ekki sé gott og mikið grjót á nyrðri leiðinni, en það er engin sönnun fyrir því, að ekki sé nægjanlegt grjót á syðri leiðinni, enda er það sannleikur. Þar er nóg grjót í "púkkið". Það er auðvita, að ekki er það eins allstaðar við höndina, en óþarfi virðist að fara austur fyrir Fosslæk eða út fyrir Hróarsholtslæk eftir því, og er þar allt annar steinn en blágrýti. Þá mega þær 15.000 kr. falla burt úr grein hr. B. J., er honum hugkvæmdist að hnýta niður sem kostnaðarauka við syðri veginn. Við könnumst vel við, að duglega brú þarf á Hróarholtslæk, en ekki kemur það til mála, að hún verði eins dýr, eins og allar þær brýr á efri leiðinni. Höfundinum hefur þótt öfgakennt hjá okkur, þegar við minntumst á Skálmholtsheiði; talar hann þar um þurrar, grasivaxnar lautir. Kann að vera, að honum fyndist það, en svo mikið er víst, að hefði hann fyrir skömmu staðið í þeim lautum, sem vegurinn þarf yfir að fara, hefði hann ekki fengið bakraun við að fá sér að drekka; en sleppum nú þessu. Lautin fyrir framan Skálmholt varð mjög mikil í vetur, sem hennar vandi er til, að ekki verður stórkostlegur munur á þeirri brú, ef duga á, og brúnni á Hróarholtslæk.
Þá talar hr. B. J. um "óhjákvæmilegan" sýsluveg eftir endilöngum Hraungerðishrepp, en segir aftur að Ásavegurinn muni falla úr sýsluvegatölu, þegar flutningsbrautin sé komin frá Ölfusárbrú niður á Eyrarbakka. Ekki getum við fallist á þá kenningu. Það munu fæstir uppsveitamenn, er ætla niður á Eyrarbakka og Stokkseyri, leggja þann krók á hala sinn, því ekki er víst að minni verslun verði á Stokkseyri með tímanum en Eyrarbakka. Þá virðist ekki vel heppilegt að leggja niður Ásaveginn. Gerum ráð fyrir, að 2 menn fari með lest jafnt á stað frá Þjórsárbrú niður að Stokkseyri. Annar fer þjóðveginn - neðri leiðina - út að Ölfusárbrú og þaðan niður á Eyrarbakka, þaðan svo austur að Stokkseyri. Hinn fer syðri leiðina, og látum báða hafa jafngóða vegi. Hve langt verður hinn nú síðarnefndi komin náleiðis upp að brú, þegar hinn er kominn að Stokkseyri? Hann verður kominn meir en miðja vega. Sér nú nokkur sanngirni í því, að nyrðri leiðin sé hagkvæmari ferðamönnum? Eða er það sanngirni, að Ásavegurinn sé felldur úr sýsluvegatölu, en í hans stað komi aftur sýsluvegur eftir endilöngum Hraungerðishreppi? Við getum ekki fundið það út, hvers vegna þessi setning kemur hjá höf., ætlum heldur ekki að leiða getur að því.
Þá koma árflóðin, sem hr. B. J. virðist gera heldur smásmuguleg. Hann kallar það að eins "gusu" flóðið síðasta, er kom úr Hvítá eftir það, að hlaðið var í skarðið á Brúnastaðaflötum. Þetta flóð varð nú samt það mikið, að hefði vegurinn verið þá kominn þar sem honum er ætlað að liggja hjá Skeggjastöðum, hefði hann mestallur verið þar í kafi, nema því meir upphleyptur. Að þvílík flóð geti ekki grandað vegum, virðist æði ótrúlegt, og sýnir það glöggvast, að þar, sem vatni er ætlað að renna gegnum þá, eru þeir tíðast bilaðir, og fremur mun það vera á vetrum en hina ársins tíma.
Svo rekur höf. á rembihnútinn og telur veginn (syðri) fyrir utan Hróarholtslæk þar í mestri hættunni fyrir flóðum, ef hann yrði það nokkursstaðar - þar sem hallinn er mjög lítill og allur kraftur úr öllum hlaupum. Manni finnst nú þá fyrst duga smábrýr fyrir vatnið, og eins vera leyfisvert að fara þar undir þær eins og ofar, þar sem hallinn er meiri á landinu.
Við fáum nú ekki betur séð, en syðri stefnan sé hagkvæmari ferðamönnum. Þar má fá góða áfangastaði, vegurinn lagður yfir litlar engjar, en á nyrðri leiðinni þyrfti nálega að kaupa land undir hann allan úr því kemur á móts við Bitru. Einnig má líta til þess, hve langt menn koma að austan, sem ferðast hafa dag eftir dag og viku eftir viku. Þeir mundu þakklátir, ef þeir fengju beinan veginn, og undir eins þakklátir fyrir það, að geta nú farið þennan veg yfir mestu torfærur, hvort heldur þeir ætluðu sér niður á Bakka eða "suður yfir fjall". Það er ekki ónáttúrlegt að þeir séu sárir yfir því, að reka hesta sína óþarfakróka, ef þess gerðist ekki þörf, því sennilegt er, að þeir eigi tilkall til þess, að vegurinn sé lagður haganlega fyrir þá sem aðra, eftir því sem unnt er.
Við viljum minnast þess, að enginn vegfræðingur hefur enn stigið fæti sínum í þá átt, að skoða syðri stefnuna; og til þess að þetta verði ekki tómar málalengingar finnst okur hyggilegast, að landsstjórnin tilnefni óvilhallan vegfræðing til að skoða báðar leiðirnar, nyrðri og syðri, svo fljótt, sem tíð leyfir í vor, með mönnum úr sýslum þeim, er vegarins nota haf. Væri nú betur, ef nyrðri leiðin yrði nú ofan á, og búið að vinna að henni meira eða minna, að ekki ræki að því, að yrði að leita til landshöfðingja líkt og í sumar, þegar hann varð að taka sér ferð á hendur austur að Þjórsárbrú til að fá upplýsingar hjá elstu og kunnugustu mönnum. Leitaði hann þá fyrst upplýsinga hjá Einari á Urriðafossi, sem hafði bæði ritað og rætt um Þjórsárbrúarstæðið mest allra manna, og hans söng vann sigur gagnvart mörgum, er á móti voru.
16. febrúar 1896.
Jakob Jónsson
Kampholti
Einar Einarsson
Urriðafossi
Frekari málalengingar um þetta efni verða ekki teknar í Þjóðólf.


Þjóðólfur, 2. júní 1896, 48. árg., 27. tbl., bls. 106:
Sigurður Thoroddsen verkfræðingur segist hafa skoðað svonefnda syðri leið í Flóanum og valið vegalínuna eftir þá skoðun.

Vegurinn yfir flóann
Í Þjóðólfi frá 13. mars þ. á. er grein um "veginn yfir Flóann" eftir þá nágrannana Jakob í Kampholti og Einar á Urriðafossi; í þessari grein stendur meðal annars:
"Vér viljum minnast, að enginn vegfræðingur hefur enn stigið fæti sínum í þá átt að skoða syðri stefnuna".
Af því að ég verð að álíta, að ég megi vera inn á meðal hinna svonefndu "vegfræðinga", tek ég þessi orð til mín, og lýsi hér með þá kumpána ósannindamenn að þessum orðum, því að ég hef, sumarið 1894, bæði skoðað, rannsakað og mælt þessa þeirra syðri leið, borið hana saman við nyrðri leiðina og valið vegalínuna þar eftir. - Þeir skuli ekki halda að mér hafi nokkurn tíma dottið í hjartans hug að fara að deila við þá um vegalagninu, eða spyrja þá um, hvað athuga þurfi við vegarannsóknir og mælingar, því að ég þykist hafa eins vel vit á því, vað gera eigi í þess konar tilfellum, eins og þeir. En náttúrlega hef ég útvegað mér allar þær upplýsingar, sem nauðsynlegar eru, hjá kunnugum mönnum, og tekið hæfilegt tillit til þeirra frásagna.
Reykjavík 27. maí 1896.
Sig. Thoroddsen.


Ísafold, 20. júní 1896, 23. árg., 42. tbl., bls. 166:
Unnið er að vegagerð á fjórum stöðum þetta sumar og eru um 70 manns í stærsta vegavinnuflokknum.

Lands-vegagerð.
Að vegagerð á landsjóðs kostnað er unnið í sumar á 4 stöðum, með allmiklu liði. Stærsti flokkurinn, nær 70 manns, hefir byrjað í vor á Flóaveginum, milli brúnna á Þjórsá og Ölfusá. Fyrir honum ræður Erlendur Zakaríasson. Verkið hafið við Ölfusárbrúna hjá Selfossi.
Þá er annar flokkurinn á Mosfellsheiði, nær 40, undir forustu Einars Finnssonar, sem er við 12. mann að afmá hinn alkunna Kárastaðastíg ofan í Almannagjá. Þarf að sprengja mikið af einstiginu niður í gjána og jafnframt hlaða upp veginn til muna eftir gjánni, til þess að fá hallann ekki meiri en lög mæla fyrir. Síðan á vegurinn að liggja austur úr gjánni á sama stað sem nú, og þá austur með brekkunni og yfir ána rétt fyrir neðan fossinn, austur á vellina. Það verður nú 16 álna brú á ánni. - Sumir eru á því, að veginn hefði heldur átt að leggja miklu nær vatninu, Þingvallavatni, þar sem Almannagjá er nær horfin; en þar kvað samt vera til vegarstæði.
Þá vinnur einn flokkur vestur í Geiradal, og fyrir honum Árni Zakaríasson. Þeir munu vera um 30 saman, þar af 20 vanir verkamenn sunnlenskir.
Loks er Páll Jónsson með nokkra menn austur í Múlasýslum.


Ísafold, 1. júlí 1896, 23. árg., 45. tbl., bls. 179:
Þjórsárbrúin var reynd með 100 tonna grjótlagi og stóðst prófið.

Þjórsárbrúin.
Þjórsárbrúin var reynd í vikunni sem leið (23. f. m.) af brúarsmiðnum, Mr. Vaughan frá Newcastle, í viðurvist vegfræðings landsins, hr. Sig. Thoroddsen: borið á hana alla 6 þuml. þykkt grjótlag, er kvað hafa talist til að samsvaraði tilskildum þunga, 80 pd. á ferfeti hverju, sama sem 100 smálestum á allri brúnni. Ekki lét brúin hót undan. Grjótinu síðan rutt í ána.


Þjóðólfur, 12. okt. 1896. 48. árg. 48. tbl. , bls. 192:
Viðgerð er lokið á Ölfusárbrúnni og teptist umferð aðeins 8 daga.

Viðgerðin á Ölfusárbrúnni m. fl.
Þá er nú svo langt komið, að lokið er við aðgerð á Ölfusárbrúnni, og verður ekki annað sagt, en að það hafi vel tekist, eftir því sem hún leit út í fyrstu. Eftir allri grjót og sements-vinnu leit Erl. Zakaríasson, vegabótastjóri. Tr. Gunnarsson bankastjóri brá sér hingað austur og sá um smíði á undirviðum á trébrúnni, og var svo greiðlega unnið að þeirri viðgerð, að umferð með hesta tepptist aðeins 8 daga. Til viðgerðar á Ölfusárbrúnni tók Erl. 12 menn af vinnulið sínu, auk þeirra unnu og 2 smiðir og fleiri, sem að flutningum störfuðu. Allur viðgerðarkostnaður á brúnni fer nálægt 980 kr. Til viðgerðar á múrverki á stöplum fóru um 20 tunnur sement, og talið að meira hefði til þurft, en meira var ekki fáanlegt á Eyrarbakka. Til ísteypu í akkerisstöplana fóru nálægt 12 tn., þó nokkuð eftir ósteypt, sem í vantaði. - Skemmdir á veginum frá Hellisheiði austur að brú hafa ekki orðið neitt stórkostlegar; voru það helst rennur og kampar undir trébrúm, sem hrundu, enda var gert við það allt á mjög stuttum tíma og mun kostnaður við það með kaupi 6 verkamanna, sem að því unnu, um 160 kr. - Á litlum kafla fyrir neðan Ingólfsfjall hefur vegurinn sigið, þar sem mýrin er blautust, en þó vel fær eftir sem áður, og að öðru leyti ekki skemmdur.
Nú eru allir í óða önnum að byggja upp bæi sína, en lítið farið að eiga við fénaðarhús enn. Hér í Sandvíkurhreppi og enda víðar mun helst vanta vinnukraft, því um þessar mundir eru réttir og smalamennska, enda á sumum heimilum ekki nema bóndinn einn, sem að moldarverkum getur unnið, svo teljandi sé. Þessi áður nefndi hreppur var fyrir hrunið einn af bestu hreppum sýslunnar, en er nú efalaust hinn lakasti, þegar litið er til býlafjölda, því við nákvæma skoðun , sem hér fór fram fyrir stuttu, kom það í ljós, að 16 býli eru alveg hrunin, 30 stórskemmd, 5 lítið eða ekki skemmd og er nú allt talið. Víst verðu ekki annað sagt, en að verkamenn þeir, sem ganga milli Sandvíkur- og Hraungerðishreppa og voru léðir úr vegagerðarflokki Erl. Z., geri mikið gagn, en 6 menn geta ekki nærri nægt í 2 hreppa; aðrir 6 menn fóru úr sama flokki í Ölfusið og hafa það eitt til yfirferðar, enda er þörfin fyrir því söm þar. Þrátt fyrir þetta eru sumir hinna efnaðir og atorkusamari búnir að byggja upp meiri hluta af innanbæjarhúsum.
Rétt í því að ég er að enda þessar línur, fer hinn svo nefndi Barnavagn hjá, fullfermdur af börnum fátæklinga og annarra, sem hús sín hafa misst, og var mér sagt, að þetta væri 5. vagninn héðan úr sýslu, er færi með barnafarm til Reykjavíkur. Ég get ekki dulist þess, að ýms orð flugu fyrir í fjölmenni því, er við var, um það, að Eyrbekkingar mundu nú eftir öllum ástæðum hafa átt eins hægt með að taka, þó ekki hefði verið nema 4-5 börn, eins og Seltingingar og aðrir sunnanmenn, eftir öll fiskleysis- og bágindaárin, - eða þá ljá nágrönnum sínum vinnustyrk fyrir sanngjarna borgun, - það kann að verða síðar, en bráða þörfina er mest að meta. - Hins vegar sagt hefur verslunarstjórinn þar, P. Nielsen, hjálpað stórkostlega, lánað út timbur svo þúsundum króna skiptir, sömuleiðis tjalda efni víða um sýsluna o. fl. Vegna alls þessa var hætt við byggingu á stóru og vönduðu íshúsi, sem hlýtur að koma sér mjög bagalega. Sagt er og, að hreppstjóri Guðm. Ísleifsson hafi sent 7-8 verkamenn austur og ábyrgst þeim sanngjarna borgun.
Selfossi 28. sept. 1896.

Símon Jónsson


Ísafold, 1. júlí 1896, 23. árg., 45. tbl., bls. 179:
Íslandsvinurinn P. Feilberg er mjög ánægður með þá breytingar sem hafa orðið á vegamálum frá því hann kom hér fyrir 20 árum.

Álit P. Feilbergs um framfarir landsins.
-----
Brýr og vegir. Járnbrautir.
Hér var minnst í sumar ofurlítið á ferð hins þjóðkunna danska búfræðings og ágæta Íslandsvinar, P. Feilbergs; en ekki verið tími eða rúm til að skýra frá mikið fróðlegu tali, er hann átti við ritstjóra "Ísafoldar", áður en hann fór héðan, og laut að ferðalagi hans hér og því hvernig honum hefði nú litist á sig, 20 árum eftir að hann kom hér í fyrra skiptið.
Hann sagði, að þá 1876, hefði öll búnaðarframfarviðleitni og aðrir viðreisnaratburðir þjóðarinnar verið í byrjun, ekki nema tvö ár liðin frá því er vér fengum stjórnarskrána, sem hefði veitt oss frjálsari hendur til alþjóðlegra framkvæmda en áður hefði verið. Kvað hann furðumikinn mun sýnilegan á mörgu hér, við það, sem þá var, og hann mjög gleðilegan. Vér veittum því ef til veill ekki svo mikla eftirtekt sjálfir, en gests-augað væri glöggvara. Nefndi þar til fyrst og fremst vegina nýju og brýrnar. T. d. hefði þá engin brú verið til í Skagafirði, en nú væri þær orðnar 9. Og svo væri þessar ljómandi fallegu og vönduðu brýr yfir Ölfusá og Þjórsá. Kambaveginn kvað hann og mundu þykja snilldarverk hvar sem væri.
Rétt að leggja sem mest kapp á að bæta vegina. Góðir reiðvegir væri járnbrautir Íslands. Þegar vér hefðum lokið við jafngóðan veg héðan til Akureyrar eins og austur í Flóann, væri að sínu leyti jafnmikið þrekvirki unnið af oss til samgöngubóta, eins og af Bandaríkjunum í Ameríku, er þeir höfðu lokið við Kyrrahafsjárnbrautina fyrstu. Vegna strjálbyggðarinnar og fámennisins á hverjum bæ yrðu akbrautir oss of kostnaðarsamar, hvað þá heldur járnbrautir. Með 100 þús. kr. fjárveiting á ári til vegabóta mætti takast að leggja ágæta reiðvegi um mikinn hluta landsins á ekki mjög löngum tíma; en sama fjárveiting mundi ekki meira en svo hrökkva til viðhalds miklum akvegum, hvað þá heldur til þess að standa straum af járnbrautum.
Spurningunni um, hvort ekki mundi mega bæta svo landið, þar sem það væri best til þess lagað, t.d. á nokkrum hluta Suðurlands-undirlendisins, að afurðir þess gætu skapað járnbrautum nóg að vinna og orðið arðsöm útflutningsvara, svaraði hann svo, að þess væri engin von, vegna samkeppni annarra landa, sem nær lægi heimsmarkaðinum, og miklu betur stæði að vígi að öðru leyti. "Oss Dönum veitir fullt í fangi", sagði hann, "að standa í Hollendingum, ekki einungis vegna þess, að þeirra land liggur nokkuð nær enska markaðinum, heldur eigi hvað síst þess vegna, að þar eru sumardagarnir hundraði fleiri heldur en í Danmörku. Þeir eru í Danmörku 150, en í Hollandi 250. En því færri sem sumardagarnir eru, því lengri verður búpeningsgjafatíminn og fénaðarafurðir þeim munkostnaðarsamari. Svo örðugt sem vér eigum með að keppa við Hollendinga, þá standa Svíar og Norðmenn enn verr að vígi í því efni, og þér Íslendingar svo illa, að það er sama sem frágangssök. Hér fara sumardagarnir varla fram úr 100 að jafnaði, og hvað vel sem t. d. Flóinn væri ræktaður, og þó að þangað væri lögð járnbraut, þá yrði flutningskostnaðurinn á útlendan markað samt sem áður svo mikill, að ekki yrði undir risið. Munur í Ameríku, þar sem sumarhitinn er svo megn, að hvers konar gróður þýtur upp á skömmum tíma; þar geta járnbrautir um strjálbyggð héruð eða ónumin svarað kostnaði".


Ísafold, 14. okt. 1896, 23. árg., 72. tbl., bls. 287:
Ölfusárbrúin skemmdist talsvert í jarðskjálftunum og hefur viðgerðin kostað nálægt 1000 kr.

Viðgerðin á Ölfusárbrúnni.
Viðgerðin á Ölfusárbrúnni eftir landskjálftana hefir kostað nálægt 1000 kr. og um 160 kr. viðgerðin á veginum frá Hellisheiði og austur að brúnni; voru það helst rennur og kampar undir trébrúm, sem bilað höfðu. Í viðgerðarkostnaðinum að Ölfusárbrúnni felast 20 tunnur af steinlími ásamt flutningi þeirra upp að brúarstæðinu; fóru af því 12 tunnur í akkerisstöplana að norðanverðu. Annars var aðalverkið endurhleðslan á vegakampinum undir trébrúnni fyrir austan ána, sem var farin að bila áður hvort sem var og hefði þurft að gera við innan skamms, með því að hann hafði verið lítið sem ekkert steinlímdur í upphafi.


Ísafold, 14. nóv. 1896, 23. árg., 79. tbl., bls. 514:
Nú á að fara að nota nýjar lengdarmælieiningar, rastir og stikur, - eða kílómetra og metra “ef mönnum þykir útlenskan bragðbetri”. Hefur landshöfðingi látið Erlend Zakaríasson stika hinn nýja veg austur í Flóa og hér eru birtar niðurstöður þeirrar mælingar.

Rastamörk.
Vegaleysinu hér á landi hefir eðlilega fylgt vitneskjuleysi um vegalengdir, öðruvísi en eftir ágiskun. Jafnvel eftir að farið var að gera almennilega vegi og mæla þá nákvæmlega, var ekkert hugsað um að afmarka á þeim tilteknar vegalengdir og auðkenna með marksteinum, að dæmi siðaðra þjóða. Má vera, að það hafi verið með fram því að kenna, að vér höfum lengi átt í vændum breytingu á lengdarmáli voru, og því ekki þótt hlýða að leggja kostnað í mílu marksteina, er ónýttust innan skamms vegna þess, að lögleitt yrði tugamálið frakkneska: rastir og stikur, - eða kílómetrar og metrar, ef mönnum þykir útlenskan bragðbetri. Þetta nýja lengdarmál væri að öllum líkindum löngu komið í lög hjá oss, ef það atriðið lægi ekki undir alríkis-löggjafarvaldið, þ. e. ríkisþingið danska með konungi. En, eins og kunnugt er, hafa Danir allt til þessa með engu móti getað hleypt í sig því framfaráræði, að taka upp slíkt nýmæli, þótt löngu sé búið að því á næstu grösum við þá, á Þýskalandi, í Svíþjóð og Noregi o. s. frv.
Af því að það voru Norðmenn, sem hér hófu fyrstir nýtilega vegagjörð, komst sú venja á meðal vegaverkmanna hér, að mæla vegakafla í stikum, en ekki í föðmum eða álnum. Nú hefir landshöfðingi stigið það spor til að löghelga þá venju, og bæta úr hinu leiðinlega og jafnvel bagalega vitneskjuleysi um vegalengdir, að hann hefir nýlega látið stika hinn nýja veg héðan austur í Flóa, í því skyni að afmarka hann með rasta-marksteinum. Hann hefir látið Erlend Zakaríasson, vegaverkstjóra, gera það nú í vikunni sem leið, og mun hann eiga að setja marksteinana í vetur eða vor. Þeir eiga að vera 30-36 þumlungar á hæð, og höggvin á rastatalan, frá Reykjavík austur. En til þess að eyða sem minnstu í þetta á að láta duga að sinni að hafa markstein við 5. hver rastamót (>5 km. frá Rvík< , > 10 km. frá Rvk<, o.s. frv.).
Vegurinn er talinn byrja við lækinn í Reykjavík, neðri endann á Bankastræti, og skulu hér til nefndar ýmsar vegalengdir þaðan eftir þjóðveginum austur, samkvæmt mælingu herra Erlendar (stærri tölurnar rastir, hinar stikur):
að Fúlutjarnarlæk ¿¿¿. 2,330
- Laugavegamótum ¿¿ 2,610
- Markalæk ¿¿¿¿¿ 5,000
- Elliðaám ¿¿¿¿¿.. 5,492
- Árbæjartröðum ¿¿¿ 6,700
- Rauðavatns-viki ¿¿.. 9,800
- Hólmi ¿¿¿¿¿¿.. 12,900
- Mosfellsheiðarvegi ¿. 13,610
- Lækjarbotnum ¿¿¿. 16,400
- Vatna-sæluhúsi ¿¿¿ 20,720
á Sandskeiði efst ¿¿¿.. 22,200
að Svínahrauni ¿¿¿¿. 24,495
upp fyrir Svínahraun ¿¿. 30,155
að Kolviðarhól
(móts við hann) ¿¿¿¿. 31,000
að Hengladalsá á Hellisheiði 40,220
- Varmá í Ölfusi ¿. nál. 47,000
- Kagaðarhól ¿¿¿¿.. 53,100
- Ölfusárbrúarveginum
(upp að Ingólfsfjalli) ¿¿ 56,705
á Ölfusárbrúna miðja ¿¿ 58,705
að Kúhólum ¿¿¿¿¿.. 60,000
hér um bil sama sem 8 mílur danskar; það er sem sé rúmlega 7 ½ röst í hverri danskri mílu. Stikan er rúmlega ½ faðmur (38 ¼ þumlungur), og 1000 stikur í röstinni.
Þessir rastamarksteinar geta orðið eins og dálítið stöfnunarkver almenningi til undirbúnings undir hið franska lengdarmál, sem naumast getur nú verið langt að bíða úr þessu, að lögleitt verði hér beinlínis.
það er nógu fróðlegt að taka eftir því, að með 6 klukkustundar reið austur fyrir Ölfusárbrú, sem þykir hæfilegt með tvo til reiðar, eru farnar 10 rastir á klukkustundunni, eða röstin (531 faðm.) á 6 mínútum, að viðstöðum meðtöldum. - -
Af því að oft er minnst á enskar mílur, á vel við að geta þess um leið, að ensk míla er rúml. 1609 stikur eða nær 855 faðmar. En dönsk míla er, eins og flestir vita, 4000 faðmar. Fyrstu mílnamót frá Reykjavík (læknum) eru rétt fyrir neðan Lækjarbotna, þriðju örskammt fyrir ofan Sandskeiði og fjórðu við efri jaðar Svínahrauns; þingmannaleiðin full (5 mílur) hér um bil á miðri Hellisheiði.


Ísafold, 30. des. 1896, 23. árg., 90. tbl., forsíða:
Hér segir frá vegaframkvæmdum landssjóðs 1896 en mest var unnið að vegagerðinni yfir Flóann.

Landsjóðsvegagerð 1896
Svo sem kunnugt er, þá er nú orðið unnið til muna að því á hverju ári, að gera almennilega vegi um landið, og allmiklu fé til þess varið úr landssjóði. Vitaskuld vinnst þó landið seint með ekki meira áframhaldi, og vonar maður, að það eigi fyrir sér að örvast að mun heldur en hitt; en ólíkt er þetta þó því, er ekkert var aðhafst í þessari grein eða sama sem ekkert: bæði litlu afkastað og það jafnaðarlega ónýtt, er gert var.
Nú í sumar kvað mest að vegagjörðinni yfir Flóann, sem lengi hefir þráð verið, og lokið var nú að fullum helmingi, þótt snemma haustaði að og tæki fyrir vinnu. Var byrjað við Ölfusárbrúna og lagðar fullar 10 rastir, austur fyrir Skeggjastaði í Hraungerðishverfi. Og er ráðgert að ljúka við hinn helminginn að sumri austur að Þjórsárbrú. Það er á þeim kaflanum, sem blaðaþrefið var mest um vegarstefnuna í fyrra. En nú mun þeirri þrætu lokið, eftir að verkstjórinn fyrir Flóann, herra Erlendur Zakaríasson, hefir í sumar rannsakað syðri vegarstefnuna og reynst þar meðal annars ófáanlegur ofaníburður, auk fleiri örðugleika, en vegalengdarmunurinn harla lítill, miklu minni en látið var.
Vegurinn þessi, sem gerður var í sumar, er 12 feta breiður og er lagður í beina stefnu eftir móum og mýrum, og var yfirleitt mjög auðgerður, nema hvað örðugt var að fá ofaníburð. Mestallur var hann gerður af muldu grjóti, og lagið um það 1 fet á þykkt. Grjót var víðast mjög nærri og auðmulið, nema á nokkrum spöl vestur við Ölfusá. Þar hafði verið ekið grjóti veturinn fyrir á hjarni, en sleðafæri verið stopult og daglaun fyrir það orðið útdráttarsöm, þó miklu minni yrði kostnaðurinn heldur en nokkur hafði boðist til að gjöra það með ákvæðiskjörum.
Rúmlega 25.000 kr. hefir vegagerð þessi kostað, að meðtöldum 500 kr., sem fóru til aðgjörðar á Ölfusveginum. Hefir eftir því faðmurinn í veginum kostað nokkuð minna en 5 kr. Að veginum unnu 54 menn fæst og 70 flest allt sumarið hér um bil, í 8 flokkum, og sinn flokksforingi fyrir hverjum. Kaupið var kr. 2,75-2,85 á dag (einn maður 3 kr.) og sunnudagaþóknun 1 kr.; auk þess nokkrir unglingar til að aka með 2-2 ½ kr. kaupi, en sömu sunnudagaþóknun. Þar að auki unni nokkrir verkamenn vor og haust fyrir kr. 2,25 kaup, en án sunnudagaþóknunar. Flokkstjórar höfðu kr. 3,25 í kaup á dag. "Það hefir verið vani að undanförnu", segir herra E.Z., "að greiða 1 kr. fyrir innistöðudaga (vegna illviðris), en ég fékk fólkið til að vinna ¼ klst. fram yfir á dag, til að bæta upp, ef innistaða yrði nokkur, en hún var lítil sem engin. - Vagnhestar við vinnuna voru 18 og kostuðu 60 a. dag, en aukahestar nokkra daga á 1 kr.
Þá vann í annan stað allmikill flokkur, 30-40 manna, að framhaldi Mosfellsheiðar-vegarins frá Móakotsá austur yfir Almannagjá, og bíður greinileg skýrsla um þann veg þess, að hann verði fullger. Þar stjórnaði herra Einar Finnsson verkum.
Enn var nokkuð unni að vegagerð vestur í Geiradal og Saurbæ og sömuleiðis austur í Múlasýslu.


Ísafold, 30. des. 1896, 23. árg., 90. tbl., forsíða:
Erlendur Zakaríasson vegaverkstjóri segir frá viðgerðum á Ölfusárbrúnni eftir landskjálftana.

Aðgerð á Ölfusárbrúnni
Frá viðgerðinni á Ölfusárbrúnni eftir landskjálftana segir hr. Erl. Z. svo: "Vegarendinn, sem syðri endi trébrúarinnar lá á, hrundi, og sömul. hliðarnar á veginum; þær hrundu líka á 13 faðma löngum kafla. Stöpull var hlaðinn undir brúarendann 5 álna að ofan, 7 álna breiður aftan og 4 ½ álnar langur; tengismál stöpulsins var 139 álnir. verkið var framkvæmt þannig, að garður var hlaðinn allt í kring, 2 ½ feta þykkur að jafnaði, steyptur upp með steinlími (sementi) upp úr gegn og 3 álnir af lengd stöpulsins, og svo raðað grjóti innan í.
Kantarnir á veginum voru gjörðir miklu flárri en áður var og hlaðnir að utan úr sniddu og þar utan yfir raðað grjóti.
Enn fremur var gert við akkerisstöplana að norðanverðu við brúna; þeir sprungu allir í sundur, sérstaklega vestari stöpullinn. Það var höggvið úr steinlímið alstaðar, þar sem sprungur sáust, og múrað í aftur; svo var rifið ofan af stöplunum, sem laust var, og hellt ofan í þá þunnu steinlími, meðan það entist; best hefði verið að geta hellt í þá þangað til að þeir tóku ekki við meiru; en steinlím var ekki að fá, hvar sem leitað var.
Ég ímynda mér, að þeir (stöplarnir) þoli nú samt alla vanalega áreynslu. Þeir eru að minni hyggju betri en þeir voru. Það var ekki annað að sjá en að lítið steinlím hefðir verið innan í þeim. Sömuleiðis var gjört við uppihöld og ýmislegt fleira, sem bilaði á brúnni sjálfri.
Það slitnaði hliðarstrengurinn frá stöplinum (járngaddurinn brotnaði niður við stöpulinn) og annar gaddur var settur í stöpulinn og strengurinn festur þar í aftur.
Yfir höfuð var gert allt við brúna, sem þurfa þótti, og sjáanlegt var að aðgerðar þurftir.
Hr. Tryggvi Gunnarsson og Símon brúarvörður sáu um allt, sem að trésmíði laut.
Til þessarar vinnu gengu í vinnulaun kr. 527, 57, til flutnings og fl. kr. 93,40.