1895

Tenging í allt blaðaefni ársins 1895

Þjóðólfur, 11. janúar 1895, 47. árg., 2. tbl., bls. 6:
Efnið í Þjórsárbrúna er nú mestallt komið að brúarstæðinu.

Þjórsárbrúin.
Úr Árnessýslu er Þjóðólfi ritað 6. þ. m.:
"Efnið í Þjórsárbrúna er nú mestallt komið að brúarstæðum vestan megin árinnar. Það hefur tekist mjög vel með aksturinn á því; eru þó sum stykkin allþung í meðförum, t. d. tveir aðaluppihaldsstrengirnir allt að 5000 pd. Leiðinni upp að brúarstæðinu var skipti í tvo áfanga, nfl. frá Eyrarbakka að Önundarholti. Fyrir akstrinum á þeirri leið stóðu: Ólafur Ólafsson söðlasmiður og Jón Jóhannesson á Eyrarbakka, en frá Önundarholti að brúarstæðinu: Sveinbjörn Ólafsson búfræðingur frá Hjálmholti. Mjög gott fylgi sýndu menn við vinnu þessa, því svo mátti segja, að brúarefnið kæmist á 5-6 dögum, enda suma daga allt að 100 manns í vinnu og kaupið 20 aurar um klukkutímann. - Allt brúarefnið sýnist mjög vel vandað og traust, sum stykkin, einkum uppihöld og bitar þeir, sem eiga að vera undir brúnni, eru talsvert gildari en samskonar járn í Ölfusárbrúnni, og þykir hún þó sterk, enda verður Þjórsárbrúin 1 alin breiðari (hin er 4 álnir). Eins og sást í blöðunum var síðastl. sumar lokið við stöpla þá, sem brúin á að liggja á, en verki við akkersstöpla verðu ekki lokið fyr en á næsta sumri. Talið er víst að hlaða þurfi ofan á stöpla þessa, austan megin árinnar, með því að þeir eru 5 fetum lægri þeim megin, enda ekkert það sjáanlegt með brúarefninu, er halla þann, sem af þessu hlýtur að leiða, geti lagað. Kunnugir menn segjast og hafa séð ís á ánni álíka hátt og efri brún áðursagðra stöpla er nú, og af því einu hljóta menn að sjá, hve afar nauðsynlegt er, að stöplarnir verði hækkaðir í tíma".


Austri, 30. janúar 1895, 5. árg., 22. tbl., forsíða:
Hér er “Austurlandsvini” mótmælt en hann hafði lýst þeirri skoðun sinni að fremur ætti að leggja vegi en koma á siglingum á Lagarfljóti.

Skipaferðir um Lagarfljót.
Gufubátsferðir á Austfjörðum.
Í 65. tölubl. Ísafoldar hefir "gamall Héraðsbúi" "fundið sér skylt" að mótmæla fréttagrein í 7. tölubl. Fjallk., er skýrði frá uppsiglingunni í Lagarfljótsós.
Fróðir menn segja að Ísafoldar grein þessi sé eftir sama "Austurlandsvininn", sem mest lagði sig í framkróka að spilla því að Seyðisfjörður fengi bæjarréttindi. Þessi höf. virðist helst vilja reyna að vera Þrándur í götu allra áhugamála vor Austfirðinga, reyna að lýsa framfarviðleitni vorri með sem svörtustum litum og gjöra oss tortryggilega í augum þeirra er ekki þekkja til. Nafn sitt dylur hann, vitanlega í þeim tilgangi að ókunnugir ætli að greinar hans væru frá einhverjum merkum manni, sem öðrum fremur sæi hvað best hagaði oss Austfirðingum. En sem betur fer hafa allir hlutaðeigendur fundið skottulæknisþefinn af þessum greinum hans, séð að þær voru ekki af góðum toga spunnar og virt þær að vettugi. Svo var það í bæjarréttindamáli Seyðisfjarðar, og eins vona ég verði í því máli er hér er um að ræða.
Höf. byrjar grein sína á því, að það muni satt vera að nú hafi tekist að komast að landi í Lagarfljótsós með nokkuð að vörum og timbri, eftir margar atrennur, og með miklum örðugleikum, enda hafi hér verið til mikils að vinna, þar sem ánafnað hafi verið fyrir þetta 7000 kr. úr landsjóði og sýslusjóðum Múlasýsla. Höf byrjar því grein sína á þann hátt að lýsa því yfir að það sem hann ætlar að mótmæla "mun satt vera". En svo bætir hann við frá sjálfum sér dylgjum og ósannindum, um hvernig uppsiglingin hafi gengið. Hið sanna er, að vitni allra sem viðstaddir voru, að herra O. Wathne fór tafarlaust, ekki eftir margar atraunir, inní Ósinn þegar er hann kom að honum, og ekki einungis "að landi" í Ósnum eins og höf. vil gefa í skyn, heldur inn úr Ósnum, og lagði gufubátnum þar að landi í Fljótinu innan við Ósinn og setti þar upp vörurnar í bráð, til þess að flýta fyrir skipinu er vörurnar flutti, svo það gæti komist sem fljótast af stað aftur, að sækja fleiri vörur Þetta gekk bæði fljótt og vel (ekki "með miklum erfiðleikum"), svo herra O. Wathne var talsvert fljótari að koma vörunum úr skipinu og inn fyrir Ósinn, heldur en verið er að skipa upp jafn miklu vörumagni í kaupstöðum. Á þessu sést, að frásögn höf. er öll miður góðgjarnlegar dylgjur til að blekkja ókunnuga. Auk þess sem herra O. W. flutti vörurnar þannig allar inn úr Ósnum, flutti hann líka það af þeim er ekki var þegar tekið, inn Fljótið allt inn á móts við Húsey.
Síðast endar höf. þessa frásögn sína, með því, að segja að fyrir þetta hafi 2000 kr. verið borgaðar úr sýslusjóðum Norður-Múlasýslna. Hið sanna er, að herra O. Wathne voru borgaðar úr sýslusjóði Norður-Múlasýslu kr. 1167,00 og úr sýslusjóði Suður-Múlasýslu kr. 500, eða samtals kr. 1667,00. Þetta má sjá á fundargjörðum sýslunefndanna sem prentaður voru í Austra, svo og á fundargjörðum Amtsráðsins í Austuramtinu (Stjórnart. 1894 B bls. 151.). Hvað haldið þér lesendur góðir að þessi höf. sé vandur að dómum sínum um almenn mál, sem ekki hikar sér við að segja svona ósatt, þvert ofan í það sem hann veit að opinberir reikningar muni sýna.
Því næst kastar höf. fram þeirri órökstuddu fullyrðing, að til þess að grafa skurði fram hjá torfærunum í Fljótinu mundi ekki hrökkva allt það fé sem ætlað sé á fjárlögunum til brúa og vegagjörða á öllu landinu í 2 ár.
Hver hefir komið með þá tillögu að grafa skurð fram hjá fossinum hjá Kirkjubæ? Mér vitanlega hefir enginn gjört það. Hitt munmörgum hafa sýnst ekki mikið þrekvirki, að leggja sporvagnsbraut framhjá fossinum, þegar búið væri að byggja vörugeymsluhús við Fljótið fyrir neðan fossinn. Herra O. Wathne hefir í bréfi til síra Einars Jónssonar á Kirkjubæ, sem er formaður nefndar þeirrar er kosin var af Héraðsbúum til að hafa á hendi framkvæmd þessa máls, boðist til að koma á gufubátaferðum eftir endilöngu Lagarljóti á næstkomandi 2 árum, ef hann fengi til þess 13 til 15 þús. króna styrk, og fengi helminginn af því borgaðan, þegar hann hefði komið á gufubátsferðum upp að Kirkjubæjarfossinum, og byggt þar vörugeymsluhús, en hinn helminginn, þegar hann hefði komið á gufubátsferðum upp í Fljótsdal svo langt sem Fljótið nær. Herra O. W. ætlar því auðsjáanlega að bera sjálfur alla ábyrgð af því hvort hann yfirvinnur torfærurnar við Steinbogann og ekki heimta borgun nema hann geti unnið verkið. Er slíkt drengilega gjört og sýnir óbifanlega trú á gott málefni. Mundi Héraðsbúinn gamli vilja taka að sér allar brúargjörðir og vegabætur sem áformað verður að gjöra á næstkomandi 2 árum fyrir sömu borgun?
Þessi fullyrðing höf. um kostnaðinn er því eins og annað í grein hans órökstuddur sleggjudómur, sem hann kastar fram, til að gjöra málefnið sem tortryggilegast í augum ókunnugra, án þess hann hafi leitað sér nokkurra upplýsinga um efni það er um er að ræða.
Að Fljótið geti orðið grunnt á Einhleypingi og víðar á haustin, þurfti víst hvorki herra O. Wathne eða aðrir Austfirðingar að spyrja höf. um. Það hefir engum formælenda þessa máls dottið í huga að vöruflutningar eftir Fljótinu færu fram á haustin, heldur fyrrihluta sumars, og það vita allir kunnugir, að framundir haust er nóg dýpi í Fljótinu fyrir gufubát, bæði á Einhleypingi og annarstaðar. Það hefir svo oft verið tekið fram bæði í ræðum og ritum, að hentugast væri að vöruflutningar eftir Fljótinu færu fram fyrri hluta sumars, að óþarft var fyrir höf,. að fara að vekja tal um það.
Að farvegur Fljótsins geti breyst í Ósnum, þegar það rífur sig fram á vorin, dettur heldur engum í hug að neita en það mun heldur engum sem til þekkir, sýnast ókleyft að mæla árlega dýpið á nokkur hundruð föðmum yst í Fljótinu. En svo bætir höf. því við "að ár og ár í bili, komi svo miklar grynningar í ósinn, að alls ekki verði komist upp í hann". Hér fer höf. með algjör ósannindi, enda þekkir hann alls ekkert til þess, því mér er víst óhætt að fullyrða það að hann hefir aldrei komið að Lagarfljótsós. Allir sem þekkja vatnsmagnið í Lagarfljóti munu líka geta skilið það, að það hlýtur að rífa sér djúpan farveg, þegar það vex á vorin, og fellur til sjávar gegnum mjóan ós.
Svo kemur nú síðast þessi makalausa tillaga höf.: "Góður akvegur beggja megin Fljótsins, meðfram bæjum mundi verða hentugastur fyrir flestar sveitirnar og kostnaðurinn við það svo sem enginn, í samanburði við skurðina og gufubátana". - Ó hvað landsstjórnin og þingið, má vera makalaust grunnhyggið, ef það lætur hann Sigurð Thoroddsen lengur vera að káka við vegagjörðir hér landi, þó nokkur hundruð krónum væri kostað til að fullkona hann í námi sínu erlendis, en eiga aðra eins perlu af vegfræðingi, eins og þennan "gamla héraðsbúa", sem sprottið hefir upp alveg kostnaðarlaust hér innanlands!! Ég held við Austfirðingar ættum skilið að fá nokkur þúsund krónur úr landsjóði fyrir að hafa framleitt slíkt undra-barn! Að hafa tvo akvegi, eftir endilöngu Fljótsdalshéraði, sinn hvoru megin Fljótsins; og alltaf "meðfram bæjum", það væri svo makalaust praktiskt og ódýrt, einkum af því mjög víða yrði ákaflega erfitt að fá góðan ofaníburð í veginn. Og þessa 2 akvegi ætti að leggja frá Fljótsósnum, sem höf. segir þó að stundum sé ekki hægt að koma vörum uppí í heilt ár. Og þessi grundvallaregla í vegabótum, hún væri svo makalaust praktisk fyrir þjóðfélagið, því eftir sömu reglu ætti eflaust að setja 2 brýr á Ölfusá og Þjórsá og aðrar stór ár landsins og leggja svo sinn veg að hverri brú, "með fram bæjum".
Niðurlagi greinar gamla Héraðsbúans er óþarfi að svara. Það var óþarft ómak fyrir hann, að fara að minna á "flautir" og "ofurmagn heimskunnar", því öllum sem nokkuð þekkja til þess sem greinin ræðir, mun ósjálfrátt hafa dottið þetta hvorttveggja í hug er þeir lásu grein höf, því hún ber það svo ljóslega með sér að hún er eftir ofur grunnhygginn flautaþyril. Það er að eins vegna ókunnugra, að ég hef tekið að mér það leiðindaverk að sýna fram á vitleysur og ósannindi þessa "gamla Héraðsbúa".
Málefnið, um skipaferðir eftir Lagarfljóti, er eflaust langmesta framfaraspursmál vor Héraðsbúa, og það er vonandi, að bæði herra O. Wathne, sem nú er orðinn svo mikið við mál þetta riðinn, og Héraðsbúar, sem eiga hér svo mikið í húfi, svari bæði gamla Héraðsbúanum, og örðum sem vilja spilla máli þessu, með því að hrinda því sem drengilegast og fljótast áfram. Hér er í veði hið gagnsamlegasta fyrirtæki fyrir Héraðsbúum, og sæmd og Orðstýr herra O. W. ef nú er ei haldið sköruglega áfram.
Herra O. Wathne hefir lofað að halda áfram vöruflutningum inní Fljótið eins og næsta sumar, án þess að fá nokkurn styrk. Hann hefir í því skyni skilið eftir flutningspramma sinn við Fljótið, og ráðið vélarstjórann á gufubátnum, til þess að fara á bátnum upp í Lagarfljót næsta sumar. Sýnir þetta hvorttveggja að herra O. W. er full alvara. - Vér Héraðsbúar munum aldrei sjá eftir fé því er lagt var fram af vorri hálfu til að sýna og sanna að það væri hægt að flytja vörur upp í Fljótið. Vér finnum svo vel hvar skórinn kreppir, að því er snertir aðflutningana, kostnaðinn við þá, hve óbærilegur hann er, farartálma þann er þeir valda oss í öllum efnalegum framförum, voða þann er búinn er í hörðum árum, af því að hvergi eru vörubyrgðir innanhéraðs, á jafn stóru og fjölbyggðu héraði, og öll þau skaðlegu áhrif sem þetta hefir á auðsæld og þroska Héraðsins.
Sú tilfinning er nú að vakna hjá þjóðinni, og vonandi hún vakni æ betur, með ári hverju, að almannafé sé til einskis betur varið, en til að bæta samgöngurnar, gjöra verslunina sem hagfelldasta og léttasta, hjálpa þjóðinni áfram til auðs og framfara í atvinnuvegum, gjöra lífskjör einstaklingsins hér á landi sem líkust því sem þau eru í öðrum löngum, að því leyti sem unnt er. Væri þessi tilfinning orðin nógu rótgróin í meðvitund þjóðarinnar á löggjöf vorri og fjármálastefnu, þá mundu framfarirnar fljótt aukast, kjarkurinn vakna hjá þjóðinni og traust hennar á sjálfa sig, trúin á framför lands og lýðs verða sterkari. Þessi trú sem er svo sorglega dauf hjá mörgum af oss enn þá, að fjöldi manna eins og hrekkur upp af svefni með andfælum, ef talað er um að framkvæma eitthvað hér á almennan kostnað sem ekki hefir verið gjört áður, þótt það mundi talið sjálfsagt skylduverk þjóðfélagsins í öllum siðuðum löndum. - Það er þetta trúleysi á allt nýtt sem hefir verið þröskuldur á vegi vorum sem viljað öfum koma fram skipaferðum eftir Lagarfljóti. Nokkurn andbyr hefir og þetta málefni haft hjá Fjarðarbúum sumum, sem ekki hefir getað skilist, að það væri til neinna hagsmuna fyrir sínar sveitir. En slíkt er misskilningur, sem vonandi er að hverfi er þeir hugsa málið nákvæmar, því bæði mundu skipaferðir eftir Lagarfljóti efla mikið viðskipti milli Héraðsbúa og Fjarðabúa, báðum til stórra hagsmuna, þegar fram líða stundir, og svo er þess að gæta, að þegar einhver hluti af stóru sýslufélagi eykst og eflist að mun, þá er það hagur alls sýslufélagsins, og þó Múlasýslurnar séu tvö sýslufélög, þá er hagur þeirra í svo mörgu sameiginlegur, að þær ættu að fylgjast að sem eitt félag í öllum hinum stærri málum.
Nú ráðgjörir herra O. Wathne að koma sér upp gufubát, sem fari með öllum ströndum hér Austanlands. Væntanlega sækir hann um styrk úr landsjóði, til að halda áfram ferðum þessum, þótt hann verði að byrja þær styrklaust þetta árið, og það er ótrúlegt að honum, og oss Austfirðingum verði neitað um þann styrk þar sem samkyns styrkur er veittur Sunnlendingum og Vestfirðingum, en líklega verður það gjört að skilyrði að sýslufélögin leggi til ¼ hluta móts við landssjóðsstyrkinn. Hér væri nú ágætt tækifæri til að sameina krafta sína fyrir Héraðsbúa og Fjarðabúa. Þessar gufubátsferðir mundu eflaust verða til ákaflega mikils hagræðis fyrir Fjarðabúa, og mundu líka styðja mjög að vöruflutningum í Lagarfljótsós, því þessi strandferðabátur herra O. Wathne þyrfti ekki að taka til þeirra flutninga gufuskip sín, sem hann þarf alltaf að hafa í sem hröðustum ferðum milli landa. Þetta mundi gjöra ferðir O.W. miklu hagfeldari til flutninga hér á Austfjörðum heldur en nú er; og miklu reglubundnari, þegar hann hefði sérstakt skip til þerra ferða. - Þetta mál ætti að vera eitt hið mesta áhugamál vor Austfirðinga, og vér ættum að leggja sem mesta alúð við að búa undir alþingi í sumar komandi, væri oss það meiri sæmd að vinna í eindrægni saman að sameiginlegum framfaramálum og vekja úlfúð og hreppríg meðal vor. Það á að líkindum enginn landsfjórðungurinn meiri framtíð fyrir höndum, en Austfirðingafjórðungur, ef oss skortir ei dug og samheldi, því hér fylgjast að víðlendar landkosta sveitir og afbragðs veiðistöðvar. En til þess að oss verði framfara auðið, þeirra sem hægt er, megum vér ekki liggja á liði voru, heldur taka höndum saman, og beita sameiginlega kröftum vorum, til að hrinda þeim málum áfram, sem miða til að efla atvinnuvegi vora og auðsæld. Vér höfum hingað til baukað allt of mikið hver útaf fyrir sig, hér sem annarstaðar á landinu, og ekki skilist það, að til þess að koma af stað miklum og varanlegum framförum, þurfum vér að sameina krafta vora. Sundrungarandinn, þetta rótgróna þjóðarmein vort, þarf að eyðast, en samheldnin að eflast. Allir sem vilja þjóðinni vel þurfa að vinna að því með áhuga og þoli að efla félagsanda, drengskap og atorku umhverfis sig, því fljótar sem þetta þrennt dafnar hjá þjóð vorri, því skemur þarf að bíða eftir að hjá oss spretti upp búsettir kaupmenn, innlendur háskóli og endurbætt stjórnarskrá.


Ísafold, 6. febrúar 1895, 22. árg., 7. tbl., bls. 26:
Hér fjallar greinarhöfundur um sýsluvegina í Árnessýslu og svarar athugasemdum Erlendar Zakaríassonar.

Um sýsluvegina í Árnessýslu.
Um sýsluvegina í Árnessýslu skrifar hr. Erlendur Zakaríasson dálitla grein í Ísafold (XXI. 79) og er auðséð af henni, að honum þykir sýslunefndin hafa leitt hjá sér tillögur hans um vegina.
Það er nú aldrei nema vorkunn, þó honum leiðist að sjá ekki einu sinni á pappírnum vott þess, að tillögum hans hafi verið gaumur gefinn. En væri hann nógu kunnugur, mundi hann sjá, að eftir því sem ástatt er, getur þetta ekki öðruvísi verið.
Það heyrir ekki undir verkahring sýslunefndarinnar, að skýra frá því í blöðunum, hvers vegna hún gjörir eða ekki gjörir það eða það. Getur hr. Erlendur Zakaríasson því ekki átt svars von frá henni. En af því að hann á svar skilið, og af því þörf er að ræða málið, vil ég leyfa mér að fara um það nokkrum orðum til að skýra það, þar eð ég er því kunnugur, þó að ég standi fyrir utan sýslunefndina.
Árnessýsla er víðlent hérað og þar er mikil umferð á mörgum stöðum; þarf því marga sýsluvegi og þeir þurfa mikið viðhald árlega til þess að þeir séu færir, - og það þurfa þeir allsstaðar að vera. Í þetta viðhald, sem ekki verður hjá komist, dreifast allir kraftar sýsluvegasjóðsins, meira að segja: tekjur hans hrykki ekki til þess, ef ekki væri varið sem minnstu, er komast má af með, til viðgerðar á hverjum stað, ekki að tala um að kostað verði til gagngjörðra vegabóta neinstaðar. Jú, það mætti með því að taka lán. Þá liggur fyrir spursmálið: Hvar á að byrja? Og áður en því er svarað, verður að svara öðru spursmáli, sem hreift hefir verið: Er ekki unnt að breyta sýsluvegunum neinstaðar þannig, að það yrði sparnaður og ferðamönnum þó ekki til örðugleika?
Til að fá svar upp á þetta spursmál, var hr. E. Z. fenginn til að ferðast um sýsluna 1892. En hann hafði of nauman tíma og gat við of fáa borið sig saman.
Sýslunefndarfundurinn 1893, sem ræddi álitsgjörð hr. E. Z., komst að þeirri niðurstöðu, að við hliðina á því þyrfti að fá álitsgjörðir allra hreppsnefndamanna ummálið. Svo kaus fundurinn standandi veganefnd, er leggja skyldi fyrir sýslunefndarfund 1894 tillögu um sýsluvegina, gjörða með hliðsjón af álitsgjörðum hr. E. Z. og hreppsnefndanna. En áður en veganefndin bjó til tillögu sína, var alþingi búið að samþykka hin nýju vegalög. Veganefndin gekk út frá því, að þau mundu ná staðfestingu, sem líka varð. Sá hún, að skipun sýsluveganna hlaut mjög að vera undir því komin, hvar flutningabrautin yrði lögð. Lagði hún því til, að sýslunefndin skyldi hér eftir, sem hingað til, halda áfram viðgerðum á sýsluvegum þeim, sem nú eru, þangað til búið væri að fá vissu um legu flutningabrautarinnar (ef lögin næði staðfestingu). Lauslega leyfði veganefndin sér auk þess, að segja álit sitt um það, hvar heppilegast mundi að leggja brautina og sýsluvegina í sambandi þar við. Brautina upp yfir Flóann hugsaði hún sér lagða frá Eyrarbakka að Ölfusárbrúnni, þó ekki alveg beint, heldur í bug austur á móts við Hraunshverfið, því þar er mýrin hærri og brautinni því óhættara fyrir skemmdum af leysingavatni, og þar er líka hægara að ná til hennar með veg frá Stokkseyri, ef það álitist nauðsynlegt á sínum tíma. En þó brautin yrði lögð svo austarlega sem verða mætti, þá blandaðist veganefndinni ekki hugur um það, að þá, er brautin væri gjör, félli Melabrúin jafnskjótt úr sýsluvegatölu, en Ásavegurinn áleit hún að hlyti að verða sýsluvegur eftir sem áður. Sýslunefndin var samdóma öllu þessu, nema hvað henni þótti of fljótt að taka ákvörðun um Ásaveginn fyr en brautin væri að minnsta kosti ákveðin.
Upp eftir frá Ölfusárbrúnni er um tvennt að tefla: Annaðhvort að flutningabrautin liggi upp yfir Flóa og Skeið upp í Hreppa, eða að hún liggi austan undir Ingólfsfjalli og svo yfir Grímsnesið upp í Biskupstungur, sem ýmsir álíta heppilegra. Og því verður ekki neitað að margt mælir með því. Þingvallabrautin gæti þá sameinast við hana fyrir norðan Mosfellsfjalli; Ásavegurinn gæti þá orðið samfelldur frá Loftsstöðum (og Stokkseyri) upp í Hreppa og verið aðal-sýsluvegur; ætti þá að byrja á því, að taka lán til hans. En verði hitt ofan á, að flutningabrautin verði lögð að austanverðu, þá mun þykja einsætt að taka fyrst lán til Grímsnesvegarins. En hvorugt er hægt að gjöra, meðan óvíst er, á hvorum staðnum brautin verður lögð. Og yfir höfuð að tala er ekki hægt að byrja á neinum verulegum umbótum á veginum hér fyr en búið er að ákveða hvar flutningabrautin á að leggjast. Þegar það er búið, veit sýslunefndin fyrst, hvað hún á að gera í þessu efni, enda þótt brautin verði ekki lögð fyr en eftir fleiri ár. Þangað til verður auðvitað að halda Melabrúnni í sýsluvegatölu og hafa hana færa; en eftir það verður hún að eins hreppavegur fyrir nokkra bæi, og kemur því ekki til mála, að verja nú stórfé til hennar.
Oddviti sýslunefndarinnar fór þess á leit við landshöfðingja vorið 1893, að í vegavinnuna yrði tekinn Árnesingur til að læra vegagjörð. En hann kvað annan áður kominn. Hvort sá maður er búinn að ljúka námi sínu, er mér ekki kunnugt. En það eru víst svo margir orðnir æfðir í vegavinnu, að varla yrði torvelt að fá verkstjóra, ef ekkert væri annað til tálmunar. En eins og nú er ástatt, er aðal-tálmunin sú, að óvíst er hvar flutningabrautin verður lögð. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Ríður því mikið á, að lega hennar verði fastákveðin sem allra-fyrst.
Br. J.


Þjóðólfur, 1. mars 1895, 47. árg., 10. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur lýsir skoðun sinni á vegstæði Suðurlandsvegar.

Vanhugsuð vegarlagning.
Um það hvar vegurinn liggur frá Árbæ upp að Hólmi, skal ekki farið mörgum orðum, því að líkindum verður honum aldrei breytt á þeirri leið og virðist þess heldur ekki þörf, jafnvel þó hann hefði þar átt að hafa aðra stefnu frá byrjun, sem sé, fyrir norðan Rauðavatn, en um það er nú ekki mikið að fást. En úr því kemur upp fyrir Hólm; fer að verða skoðunarmál, hvort hann hefur verið lagður á sem bestum stað, eða ekki. Skal hér því stuttlega lýsa landslagi á því svæði og hvernig ár og rásir falla, sem bæði hafa valdið honum stórskemmdum og munu eins hér eftir, jafnvel þó varið hafi verið töluverðu fé honum til viðhalds, sem hefur verið brýn þörf, ætti hann að vera fær. Eins og kunnugt er, liggur vegurinn yfir Hólmsá, skammt fyrir austan Hólm. Hefur þar orðið að brúa hana tvisvar með ærnum kostnaði og óvíst að enn dugi. Þaðan upp að Lækjarbotnum, er sléttlent - Hólmarnir, - sem áin flæðir yfir í leysingum og hefur vegurinn þar umrótast fleirum sinnum og sjálfsagt verður honum þar aldrei óhætt. Á þeirri leið eru tvær brýr, er báðar hafa flotið burt með stöplum, en sú þriðja er nú nýgerð. Fyrir ofan Lækjarbotna, liggur vegurinn um svo kallaða Fossvelli, er áin rennur yfir, og hefur hún þar oft gert usla. Svo liggur hann upp Lakheiði, en þar er ekki annað að óttast en þverrásir, sem stundum hafa orðið nokkuð dýrar. En þegar kemur upp undir Arnaþúfu, fer heldur að versna sagan. Þar liggur vegurinn á parti fram með ánum, fyrir sunnan neðri vötnin - svo er Fóelluvötnum skipt - enda flýtur hann þar burtu árlega, sem þó er enn verra, er kemur upp á Sandskeiðið. Þar má segja, að komi vatn úr hverri átt og það eigi lítið. Renna þar saman allar leysingakvíslir, er koma sunnan með öllum Bláfjöllum og hraunum og heiðum þar í kring, einnig með Vífilfelli að austan og norðan. Verður þá yfir allt Sandskeiðið og Fóelluvötnin einn hafsjór, enda sýndi það sig best, veturinn eftir að vegurinn var þar lagður, því þá gersópaðist hann svo burtu, að eftir voru kafhlaup, þar sem hann var áður. Síðan hefur þar ekki verið vegur lagður og var það hyggilegt. Að vísu er þar allgóður vegur í þurrkatíð um hásumarið, en fram eftir öllu vori er þar oft lítt fært. Fyrir ofan Sandskeiðið taka öldurnar við og er þar ekki slæmt vegstæði í sjálfu sér, en þar er svo mikið aðrennsli, sunnan úr Sauðadölum og fjöllum þar í grennd, að vegurinn hefur orðið þar fyrir miklum áföllum og er nú svo eyðilagður, að víða er hann verri en enginn vegur. En síðast og ekki síst kemur Svínahraun, er staðið hefur eins og "þrándur í götu" fyrir allri vegasmíð á þessari suður-vegsleið, með alla sína lögnu og flóknu vegargerðasögu, er væri nóg í stóra bók, og verður henni því sleppt hér.
Í fáum orðum sagt, virðist vegurinn frá hólmi upp að Kolviðarhól vera lagður um þær verstu torfærur, er voru á þessari leið og er það hrapalegt, um hinn fjölfarnasta veg upp frá sjálfum höfuðstaðnum. Þetta sýnist nú því verra, þar eð fenginn var útlendur vegfræðingur til að leggja veginn, en ætli hann hafi eða verið þá skipað að skoða, hvort ekki væri hentugra vegstæði á öðrum stað, en eitt má telja víst, að hefði vegurinn verið fyrst lagður frá Reykjavík, að þá hefði aldrei verið farið með hann suður fyrir ár, og upp í Fóelluvötn, sem nú er líka dálaglegur krókur.
Hér skal því benda á, hvar vegurinn hefði átt að liggja, eða öllu heldur, hvar hann nú ætti að leggjast, því ótrúlegt er að hann, þar, sem hann nú er líti dagsljós tuttugustu aldarinnar, og það því heldur, sem við nú höfum vegfræðing við hendina, og erum búnir að fá dálitla reynslu í vegasmíði.
Eins og áður hefur verið drepið á í blöðunum, er það nyrðri leiðin, sem af sumum hefur verið álitin betri til vegalagningar, enda er þeim óðum að fjölga, er sannfærast um, að þar hefði hann orðið að mun styttri, ódýrari og varanlegri, því á leiðinni frá Árbæ og upp að Húsmúla, eru bara tvær leysingavatns-rásir og lækurinn milli Vilborgarkost og Elliðakots, er bæði væri hægt að brúa, og eins að fara fyrir upptök hans, ef það þætti betra, en það mætti með því móti að skilja ekki suðurveginn frá Mosfellsheiðarveginum fyr en fyrir ofan Sólheimatjörn. Leysingarásirnar eru, önnur fyrir vestan Lyklafell, sem sjaldan rennur og þá örlítil, en hin fyrir austan fellið og er hún nokkuð meiri, en þó hverfandi á móti öllu því vatni, er kemur úr suðurfjallinu, er nú stendur mest hætta af, hvað veginn áhrærir. Að nyrðri leiðin sé styttri, getur hver meðalgreindur maður séð og þó ekki sé mælingafróður, því frá Árbæ upp í Hellisskarð, er línan hér um bil um Elliðakot, Lyklafell og norðan til á öldunum, en bein lína milli tveggja punkta er þó stysti vegur.
Væri nú ekki ráðlegt, að þingið léti vegfr. Sigurð Thoroddsen rannsaka vegarstæði á nyrðri leiðinni, áður en veitt væri stórfé til viðgerðar suðurveginum enn á ný, því þó gert væri við hann all-rækilega síðastl. sumar á pörtum, þá er þó efri hlutinn í mesta óstandi, helst öldurnar, er ekki mundi veita af nokkrum þúsundum krónum til viðreisnar. Sumum þótti nú kannske nokkuð í ráðist, að hætta nú við suðurveginn, en slíkt er þó varla áhorfsmál, því þó búið sé að verja til hans allmiklu fé, þá er því þó alls ekki á glæ kastað. Fyrst hefur vegurinn verið til mikils hægðarauka og að öðru leyti hefur féð að mestu leyti runnið í hendur landsmanna sjálfra. En úr því við höfum ekki peninga til vegabóta, nema af skornum skammti, ætti þeim helst að vera varið þar, er traustast yrði með framtíðinni, en ekki fleygt út til eins fávíslegrar vegagerðar, eins og suðurvegurinn er, því á þeim stað, sem hann er nú, verður hann fyr eða síðar dæmdur ófær.
E.


Ísafold, 18. maí 1895, 22. árg., 43. tbl., bls. 171:
Erlendur Zakaríasson er farinn með vegagerðarflokk til að ljúka við veginn yfir Hellisheiði.

Vegagerð.
Í gær lagði fyrsti vegagerðarflokkurinn af stað héðan, upp á Hellisheiði, undir forustu Erlends Zakaríassonar. Þeir verða yfir 40 í hóp og eiga að ljúka við það sem eftir er af leiðinni, háheiðina, um 5 rastir, og að því búnu að gera veg frá því skammt fyrir neðan Kamba og austur yfir Varmá, sem mun vera nær 3 röstum. Verði þessari vegagerð, alls 1 mílu vegar, lokið fyrir haustið, eins og til stendur, er loks komin akbraut alla leið frá Reykjavík austur að Ölfusárbrúnni, að fráskildum nokkrum spöl fram með Ingólfsfjalli, þar sem er aðeins reiðvegur, og með því móti að umbættur sé Svínahraunsvegurinn (borið ofan í hann á löngum kafla, að minnsta kosti).


Ísafold, 18. maí 1895, 22. árg., 43. tbl., bls. 170:
Greinarhöfundur er hlynntari Fagradalsvegi en uppsiglingu í Lagarfljótsós.

Uppsigling um Lagarfljóssós m.m.
Í "Austra" hefir herra alþm. Jón Jónsson í Bakkagerði ritað meðal annars um uppsigling Lagarfljótsóss. Þar (í 3. tölubl. þ. á.) gjörir hann sér far um að snúa útúr fyrir "gömlum Héraðsbúa", er hann hyggur muni vera sami maður sem áður hefur ritað um ósmálið eða samgöngumál Héraðsbúa undir nafninu "Austurlandsvinur". Fyrir höfunda þessa, sem mér eru alls ókunnugir, dettur mér ekki í hug að svara, enda munu þeir færir um það sjálfir. En greinar þeirra fara í sömu stefnu sem hugmyndir mínar um samgöngur milli Héraðs og Fjarða; vildi ég því með leyfi yðar, hr. ritstjóri, mega leggja þar orð í belg.
Fyrir 9 árum reit ég grein í gamla "Austra" um Fagradalsveginn ("Dalbúi") að miklu leyti fyrir hvatir cand. phil. Páls heit. Vigfússonar á Hallormsstað; og hefir enginn orðið til að mótmæla henni með ástæðum. Er ég enn sömu skoðunar um nauðsyn þess vegar sem hins eina áreiðanlega í því efni. En um uppsigling Lagarfljótsóss, sem nú lítur út fyrir að sé efst á dagskrá, að minnsta kosti Úthéraðsbúa, er ég á annarri skoðun en hr. Jón í Bakkagerði. Þótt ég sé eigi af eigin sjón kunnugur ósnum, hef ég um hann sagnir kunnugra, greindra og gætinna manna, er ég óhikult trúi. Og þótt ég hafi eigi búið í Héraði, er ég fullvel kunnugur hinum miklu flutninga erfiðleikum, sem Héraðsbúar eiga við að stríða, og hefi löngum fundið sárt til þess, hve brýn þörf þeim er á betri verslunarvegum en þeir nú hafa. En því miður óttast ég, að von sú, er þeir gjöra sér um Lagarfljótsós sem aðalverslunarveg, reynist tálvon. Það sem einkum veldur ótta mínum er brimið og hafísinn.
Sæta verður landátt til að komast að ósnum. Sé hafátt, er oftast brim, og er þá eigi skipum fært að liggja á rúmsjó og afferma þar. En að hleypa inn í ósinn, þegar svo á stendur, mundi engum þykja fýsilegt, enda mundi þá eigi vandalaust að kanna dýpið eða hitta á, hvar állinn er dýpstur, þar sem brimið breytir honum á hverri stundu fram og aftur. En hafátt og brim er altítt á Austfjörðum, og það enda mánuðum saman.
Þá er hafísinn alkunnur vágestur á Austfjörðum. Liggur hann þar þrálega við land fram til sláttartíma og stundum til höfuðdags, sem kunnugt er. Þótt nú ísinn sé smjúgandi, eins og oft er, og komist yrði að ósnum, mundi hann gjöra skipi ómögulegt að liggja efri lagi við ósinn, þar sem hann rekur fram og aftur fyrir straumunum.
Engri átt nær það, að miða við næstliðið sumar, sem var svo einstakt að veðurblíðu og ró á sjó og landi; og því neitar víst enginn, að þegar svo á stendur megi takast að komast um ósinn. En það er því miður svo sjaldgæft, að menn eigi því að fagna. Þó kunna þeir, er yst búa á Héraðinu, að geta haft gott af því að nota slík tækifæri til að ná að sér vörum; en lítið léttir það fyrir Upphéraðsbúum.
Því mun og eigi neitað, að með nógu fé muni kleyft að "yfirvinna torfærurnar við Steinbogann", byggja vöru geymsluhús við fossinn undan Kirkjubæ, leggja sporbraut upp fyrir hann, og hafa gufubátaferðir eftir Fljótinu "svo langt sem það nær"(?)! - en að hverju gagni kemur allt þetta, ef vörunum verðu eigi komið inn í ósinn allt sumarið? og þetta máske sumar eftir sumar.
Ég tel því mikið varasamt fyrir þing eða þjóð að leggja stórfé í svo ískyggilegt fyrirtæki. Síst mundi ég telja úr, að hr. kaupmaður O. Wathne nyti styrks af landsfé, ef hann beitti hinum mikla dugnaði sínum og framkvæmdarsama góða vilja þar að, er viss not gæti að orðið; væri óskandi að vér ættum marga hans líka. En þótt honum tækist að vinna stórvirki, sem svo yrði að litlum eða engum notum, tel ég honum það engan sæmdarauka. Það væri og miður farið, ef hann léti ginnast af vanhugsuðum fortölum einstakra manna, meðan hann er ekki nærri svo kunnugur sem þyrfti harðýðgi náttúrunnar hér við land.
Áður en kostað er fé að mun til að létta samgöngur Héraðsbúa, væri full þörf á, að vegfræðingur (helst Sig. Thoroddsen) skoðaði og kynnti sér allt sem að því efni lýtur, svo nákvæmlega sem unnt er.
Fagridalur er sá eini vegur milli Héraðs og Fjarða sem vafalaust getur orðið að fullum notum. Af því hann er lítið hærri en sveitirnar, sem að honum liggja, er hann oftast fær eins og þær. Hovdenak mun hafa verið honum ókunnugur; hann skoðaði aðeins heiðarnar til Seyðisfjarðar (sjá skýrslu hans í Andvara 1885), en líklega hefir honum lítið verið kunnugt um snjóþyngslin þar. Sé Fjarðarheiði að mestu snjólaus 2-3 mánuði ársins, má gott heita. Akbraut milli Héraðs og Seyðisfjarðar mundi því að litlum notum, en þar á mót yrði akbraut á Fagradal að fyllstu notum, og eigi dýrara að leggja hana þar en um flatlenda sveit. Búðareyri yrði "endastöð Fagradalsbautar" Fjarðarmegin. "Austri" gjörir skop að höfninni þar, vegna þess að gufuskip hafi slitið þar upp í aftakarokinu um árslokin; en hann ber höfninni þó óvart besta vitnisburð um leið botninn hélt eftir öllum akkerum! Hvasst getur einnig orðið á Seyðisfirði og það engu síður en á Reyðarfirði. Ég efi séð skip brjóta upp á Seyðisfirði, en það dró akkerin með sér. Og hvesst hefir á Vestdalseyrarkirkju!
Komi góður vegur um Fagradal að Lagarfljóti, hygg ég að verslunarstaður myndaðist þar, t. d. á Egilsstöðum, sem er hér um bil miðdepill Héraðsins, og mundu Héraðsmenn þá eigi þurfa lengra eftir nauðsynjum sínum að jafnaði. Þá gæti gufubátur á Fljótinu fyrir ofan oss orðið að fullum notum. Þegar svo væri komið, tæki eflaust Fljótsdalshérað öllum héruðum landsin fram að fegurð, auðlegt og fleiri gæðum
Í maí 1895.
Eyjólfur Þorsteinsson
frá Berufirði


Þjóðólfur, 21. júní 1895, 47. árg., 30. tbl., bls. 119:
Jakob Jónsson hefur ákveðnar skoðanir á því vegurinn milli brúnna á Ölfusá og Þjórsá eigi að liggja, en treystir annars Sigurði Thoroddsen verkfræðingi ágætlega.

Vegarlagningin milli brúnna.
Maður heyrir oft þeirri spurningu hreyft nú um stundir, hvar vegurinn frá Ölfusárbrú til hinnar væntanlegur Þjórsárbrúar eigi að liggja. Verða um það allskiptar skoðanir; en enginn er svo djarfur að rita eitt einasta orð um, hvar heppilegast sé að leggja veginn; ættu menn þó að láta sér annt um þetta, og oft má mann reka minni til þess að ferðast frá Þjórsárbrúarstæði til Ölfusárbrúar, þó ekki væri nema næstliðið haust. Það er auðvitað, að segja má, að hr. mannvirkjafræðingur Sigurður Thoroddsen sé einfær að ráða því einn, en ekkert finnst mér á móti því, þótt menn láti skoðanir sínar í ljósi þrátt fyrir það.
Það hefur flogið fyrir, að vegurinn milli brúnna hafi verið mældur af hr. S. Thoroddsen frá brúarstæði á Þjórsá yfir Skálmholtsheiði að Flatholti og svo fyrir utan Hróarsholtslæk, þær sem Flóinn er lægstur. Það er einkum, ef veginn á að leggja yfir heiðina á þessum stað, sem ég er hræddur um að honum verði stór hætta búin af vatnsflóðum á vetrum, þar sem stundum er engri skepnu fært um nema fuglinum fljúgandi. Um annan eins vatnagang er ekki svo gott fyrir ókunnuga að ímynda sér, þegar gengið er um heiðina í þurrkatíð á sumardaginn. Mér er næst að segja, að hr. S. Thoroddsen hafi ekki verið bent á þetta, því fylgdarmaður hans hefur líka verið þessu ókunnur.
Hr. S. Thoroddsen kom til mín í fyrra sumar, þegar hann var að mæla veginn, og fannst mér hann þá í nokkrum vafa um, hvort hann legði veginn fyrir ofan eða framan bæ minn; en ég gat ekki bent honum á þetta, sem ég er nú miklu kunnugri og fróðari um.
Veginn millum brúnna álít ég því betur settan frá Þjórsárbrú að Skotmannshól fyrir framan Hurðarbak og yfir Hróarholtslæk fyrir framan Vola. Ef vegurinn væri þannig lagður væru 2 vegir gerðir undir eins, þjóðvegur og sýsluvegur, frá Þjórsárbrú að Skotmannshól, og þessir vegir væru samferða sjálfsagt fulla mílu vegar. Þessa leið hefur hr. S. Thoroddsen ekki mælt, svo ég viti, en óskandi væri, að hann mældi hana í sumar, svo menn gengu úr skugga um, hvar best væri að leggja veginn, og eftir því sem hr. S. Th. hefur lagt vegi er engin ástæða til að rengja hans fyrirsögn.
Kampholti 29. maí 1895
Jakob Jónsson.


Þjóðólfur, 19. júlí 1895, 47. árg., 86. tbl., bls. 143:
Þjórsárbrúin hefur verið lagfærð.

Þjórsárbrúin.
Úr Árnessýslu er ritað 14. þ.m.; "Eins og minnst var á í Þjóðólfi í vetur var eystri stöpullinn lægri en hinn, vestan megin árinnar. Þennan halla hefur brúarsmiðurinn látið laga að ráði landshöfðingja, er fór þangað austur í því skyni, þá er smíði byrjaði. Sjálfri brúarsmíðinni miðar mjög vel áfram og er talið, að hún verði langt komin um lok þessa mánaðar. Það sem einkum flýtir fyrir verkinu er, að allar súlnagrindur eru skrúfaðar saman, en ekki hnoðaðar, eins og á Ölfusárbrúnni, enda tafði það þar mjög fyrir smíðinni. Þegar verið var að draga einn af uppihaldsstrengjum brúarinnar bilaði krókur, er hélt uppi þyngri hluta strengsins, en við það misstu fleiri taksins af honum, og féll hann við það ofan í gljúfrið. Með því að strengurinn mun vera eitthvað um 5-6000 pd. leist mönnum ekki á blikuna. Allt fór samt vel, því eftir 1 ½ dag var búið að ná honum upp úr alveg óskemmdum, og höfðu verkamenn sýnt við það mikið lag og dugnað. Að fráteknum 1 eða 2 eru verksmenn hinir sömu og við Ölfusárbrúna; 3 Englendingar vinna að smíðinni, en brúarsmiður Vaughan segir fyrir verkum".


Þjóðólfur, 19. júlí 1895, 47. árg., 86. tbl., bls. 143:
Einar Einarsson skrifar um veginn milli brúnna á Ölfusá og Þjórsá.

Fáein orð um veginn millum brúnna.
Í 30. nr. "Þjóðólfs" 21. f. m., stendur grein um vegalagningu millum brúnna á Þjórsá og Ölfusá, og má höfundurinn hafa almennings þakkir fyrir að vekja það mál í blöðunum, því það ætti að vera áhugamál þjóðarinnar. Höf. getur þess, að um veginn séu allskiptar skoðanir, en enginn sé svo djarfur, að rita um hann eitt einasta orð. Það er líka satt, og ber vott um mikla deyfð í jafn mikilsverðu máli. Höf. getur þess, að menn megi reka minni til vegarins millum brúnna næstliðið haust. - Það er líka sannmæli, mig rekur einnig minni til hans, því ég var einn með öðrum fleirum úr ýmsum hreppum og öðrum sýslum, sem urðum að forðast sem mest veginn út yfir Flóann. Við urðum að krækja frá brúnni á Hróarsholtslæk, (sem er fyrir utan Gneistastaði), útyfir Hraungerðisheiði fyrir norðan þinghús Hraungerðisheiði fyrir norðan þinghús Hraungerðishreppsmanna, og þar útyfir og út á "Sorta" svo nefndan. Var það lítt farandi með hesta fyrir for og grjóti, en þó var það betra en vegurinn. Síðan urðum við að fara fyrir utan alla Hraungerðisheiði bak við Bollastaði og Krók. Þá var eftir að komast yfir Krókskeldu, sem var ill yfirferðar; þó tókst okkur það um síðir, án þess að skemma hesta okkar. Á þessum vegi gengu vatnsgusurnar jafnhátt mönnunum á hestunum, skemmdu farangur okkar meira og minna og gerðu okkur sjálfa vota. Um annan veg var ekki að tala. Króksbrúin, sem lögð hafa verið í mörg hundruð krónur, var algerlega ófær; þarna höfðum við þó grasrót víðast hvar og hleyptum ei hestum okkar til muna í. Þetta hef ég mörgum sinnum farið á æfi minni í líkum ófærum og í haust, og rekur mig jafnt minni til þess í haust og áður fyrri. Það er ekki af kjarkleysi eða áhugaleysi mínu, að ég hef ekki ritað umnefndan veg fyr; á ég það höfundinum að þakka, að ég fæ nú framkvæmd til þess, og vil benda á nokkur atriði, sem gr. höf. hefur verið því miður ókunnugur. Ég er því samdóma, að hr. Sigurður Thoroddsen sé einfær að ráð því, hvar veginn skuli leggja, en jafnframt ber ég það traust til hans, að hann veiti eftirtekt bendingum kunnugra og greindra manna, hvar hyggilegast væri að leggja veginn fyrir alda og óborna; finnst mér því áríðandi, að þeir menn hefðu það hugfast, að benda S. Thoroddsen þar á veginn, sem heppilegast væri fyrir land og lýð, án þess að hafa eigin hag í fyrirrúmi, og einkum þegar vegfræðingurinn er hér jafnókunnugur þeim áhrifum, er náttúran kann að haf á vegagerðir hér um pláss, flestar ársins tíðir.
Skal ég þá fyrst tala um veginn frá Þjórsárbrú út fyrir "Flatholt". ER þá fyrst: að frá Skálmholti að Dælarétt liggur laut, sem vegurinn yrði að liggja yfir; á þeim vegi ef engin mishæð utan sú, sem Dælarétt stendur á. Þó ver það tíðum við, að vatnsflóðið, sem kemur báðu megin við Skálmholts-holt, flóir yfir þá mishæð, og þá er Skálmholt hólmi innan í vatninu og lítt fært að bænum á neina hlið.
Svo vildi ég minnast á "Launstig" fyrir utan Flatholt, sem vegurinn myndi verða að liggja yfir. Hann verðu lítt fær eða ófær í snjóflóðum og vatnagangi. Á þessum vegi ímynda ég mér, að þyrfti mjög upphleyptan veg, ef duga ætti, og stórar brýr. Hverjar torfærur eru á veginum frá Launstíg út fyrir Ölversholt, er ég ekki svo kunnugur að lýsa, en það rekur mig minni til á fyrri dögum mínum, að ég reið hvergi nærri í sí Flóanum, en frá Ölversholti og upp að Hjálmholti og var það ekki af hlaupi þá úr Hvítá. Ég ímynda mér eins og gr.höf., að veginum verði á þessum stað hætta búin, þegar Flóinn er upphleyptur af snjó og ísalögum og þar á ofan koma þessi stóru hlaup úr Hvítá, sem bæir standa ekki upp úr nema eins og smáhólar og hvergi fært yfir útflóann nema fuglinum fljúgandi. Þar á ofan sýnist mönnum nokkuð öfug stefna frá Þjórsárbr. vestan til á Hestfjall, í stað þess að stefnan milli brúnna er fyrir framan Ingólfsfjall.
Flestir óska, að vegurinn yrði lagður skammt fyrir utan Urriðafoss, nokkuð fyrir framan Kampholt og Hnaus, framan Hurðarbak og útyfir mynnið á Orustudal, - sem liggur ofan í Hurðarbaksdal - útyfir Hróarholtslæk fyrir ofan Hróarsholt og framan Vola, þaðan nálægt Sölvholtsholti; þar mun útflóinn liggja hæst; er þá farið að drag úr afli hlaupanna. - Nú sjá allir menn, að með þessum vegi eru gerðir 2 vegir undir eins, eins og höf. bendir til. Á þessum vegi þyrfti ekki stórkostlegar brýr nema á Hróarsh.læk og dálitla brú á Fosslæk. Mishæðir eru ekki miklar á þessum vegi 2-3 holt, sem eru lág. Mér finnst vegurinn á þessum stað styttri og kostnaðarminni og eins og ég áður gat um, eru 2 vegir gerðir með sömu krónunni frá Þjórsárbrú útfyrir Orustudal - fyrir norðan Önundarholt. - Einnig er það hugsandi, að hægara verði með áfangastaði á þessum vegi, fremur en hinum. Svo er ég sannfærður um, að þessi vegur yrði miklu varanlegri en sá áður nefndi, því vel get ég hugsað, að hann (efri vegurinn) yrði ófær eftir fá ár, af öflum náttúrunnar, þegar ferðamönnum lægi mest á, eins og þrátt og oft hefur komið fyrir á undanfarandi tíð.
Urriðafossi 5. júlí 1895.
Einar Einarsson.

Ísafold, 31. júlí 1895, 22. árg., 64. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá vígslu Þjórsárbrúarinnar.

Vígð Þjórsárbrúin.
Vígsluathöfnin. Mannfjöldinn. Bilun á brúnni.
Þess var til getið, er vígsludagurinn rann upp heiður og fagur, sunnud. 28. þ.m., að ekki mundu margar drógar kyrrar heima þann dag í sýslunum tveimur, sem að Þjórsá liggja, þær er tamdar ættu að heita. Svo lengi og heitt höfðu íbúar héraða þessara þráð þennan dag. Enda varð og mannfjöldinn við brúna stórum mun meiri en við Ölfusárbrúna fyrir fjórum árum, þótt mikill þætti þá. Hafði samt rignt nokkuð frá morgni í Rangárvallasýslu, svo bjart og blítt sem var vestar, - og líklega margir sest aftur fyrir það. Tók og að rigna við brúna sjálfa nokkrum tíma áður en vígsluathöfnin hófst og stóð fram um miðaftan.
Landslag er mun ófegra við Þjórsárbrúna en hjá Selfossi: bratt holt að ánni austan megin, ekki nema hálfgróið, en vestan megin mosaþúfnapælur með örsmáum graslautum á milli. Rennur áin sjálf þar í alldjúpum farveg. Hálfgerðu gljúfri, í stríðum streng og ægilegri miklu en hjá Selfossi, og er miður að ganga að brúnni beggja vegna um vegleysu, ólíkt því sem var við Ölfusárbrúna, þegar hún var vígð. Sér tilsýndar aðeins á yfirbygging brúarinnar.
Til þess að mannsöfnuðurinn kæmist allur á einn stað, var fólki austan að hleypt vestur yfir brúna fyrir fram, þótt lokuð ætti að heita.
Við Ölfusárbrúna var sjálfgerður ræðupallur ágætur, þar sem var hin mikla vegarhleðsla út af austurenda brúarinnar, 6-7 álna há. En hér fékkst eigi annar hentugri ræðustóll en tóm sementstunna, er stóð á akkerishleininni vestari, sem má heita jöfn jarðveginum í kring. Virðist hefði mátt hafa dálítið myndarlegri umbúnað í því skyni, með eigi miklum tilkostnaði.
Landritarinn, hr. Hannes Hafstein, hóf ræðu sína, þá er hér fer eftir, kl. 4. Að henni lokinni, á tæpri hálfri stundu og eftir að leikin var því næst á sönglúðra Ölfusárbrúardrápan (H. Hafsteins) af hr. Helga Helgasyni og söngflokk hans, gengu þau fyrst út á brúna, landshöfðingjafrúin, landritarinn og brúarsmiðurinn, en frúin klippti um leið í sundur með silfurskærum silkiband, er strengt var yfir brúarendann í slagbrands stað. Eftir það hóf mannþyrpingin göngu út á brúna, eftir því sem hlutaðeigandi lögreglustjórar með aðstoð nokkurra tilkvaddra manna afskömmtuðu strauminn í hlífðarskyni við brúna. Fulla klukkustund stóð á því, að mannfjöldinn kæmist yfir um, og varð þó fjöldi afhangs, sem ekki hirti um það að sinni.
Tala mannfjöldans við brúna reyndist um 2300, að því er þeir komust næst, er töldu bæði yfir brúna og einnig smáhópa þá, er afhlaups urðu. (Við Ölfusárbrúna aðeins 1700). Flest var fólk þetta úr nærsýslunum tveimur, en auk þess eigi allfátt úr Reykjavík og nokkuð austan úr Mýrdal.
Það mun hafa verið þegar fólksstraumurinn hóf rásina vestur yfir aftur og varð þá heldur ör, er þeir, sem stóðu upp á akkerishleininni að austanverðu, lúðrasöngflokkurinn og fleiri fóru að verða varir við eitthvert kvik undir fótum sér. Akkerishleinin, sementssteypustöpull í brekkunni eystri, er vega á salt á móti brúnni og öllu því sem á henni er, var farin að rugga lítið eitt fram og aftur, eftir mismunandi þyngslum á brúnni; reyndist með öðrum orðum heldur létt. Sigið mun brúin og hafa sjálf ofurlítið, eða réttara sagt farið af henni bungan upp á við, sem enn helst á Ölfusárbrúnni, en án þess að þeir sem á brúnni voru staddir yrðu þess varir og því síður að neinn almennur felmtur fylgdi. Þau missmíði sáust og á eystri járnsúlunum, er halda uppi brúarstrengjunum, að loft kom undir stéttina undir þeim, eystri röndina, sem svo svaraði ¾ þuml. - Brúarsmiðurinn mun hafa þegar daginn eftir tekið til að umbæta þetta, með því meðal annars að hlaða ofan á akkerishleinina, til þess að auka þyngsli hennar.
Lýsing brúarinnar.
Þetta er hengibrú, eins og á Ölfusá, úr eintómu járni; lengdin milli brúarstöplanna 256 fet ensk, 4 fetum meiri en aðalhafið er á Ölfusárbrúnni, en þar er enn fremur meira en 100 feta haf á landi, sem brúin nær einnig yfir, og er því Ölfusárbrúin í raun réttri nær þriðjungi lengri. Þjórsárbrúin er breiðari en hin, 10 ½ fet milli handriðanna, sem einnig eru nokkuð hærri, 2 álnir og miklu meira í þau borið, krossslár og bogar af járni. Brúarstrengjunum, 3 hvorum megin, af margþættum járnvír undnum, halda upp 26 feta háar járnsúlnagrindur, er mjókka upp á við, 4 alls, 2 við hvorn brúarsporð, en skammbiti sterkur á milli þeirra hvorra tveggja ofan til frekari styrktar; "Eystri súlurnar standa á 8-9 álna steinstöplum, sementeruðum, en að vestanverðu er sú hleðsla ekki nema 1-2 fet, með því að þar liggur hamar að ánni. Haf er talsvert meira undir brúna frá vatnsfleti en á Ölfusá, á að giska fullar 16 álnir. Trébrú tekur við að austanverðu af járnbrúnni upp að brekkunni fyrir ofan, 10-11 álna löng, á leið upp að akkerishleininni þar. Eins og kunnugt er, þá er jafnan á hengibrúm uppihaldsstrengjum fest í akkeri, sem greypt eru neðst niður í þar til gerða sementssteypustöpla.
Brúin sjálf á Þjórsá er öllu traustari að sjá og verklegri en sú á Ölfusá, en annar umbúnaður hvergi nærri eins mikill né traustlegur, einkum stöplahleðsla mjög lítil hjá því sem þar er. Er þó Þjórsárbrúin talsvert dýrari, svo að brúarsmiðurinn virðist hljóta að hafa grætt vel á verkinu, í stað þess að sá sem hina tók að sér, hr. Tr. Gunnarsson, tapaði til muna á því.
Ræða landritarans.
Hann kvað landshöfðingjann, er eigi hefði getað komið sjálfur vegna annríkis við þingið, hafa falið sér að bera kveðju sína mannfjölda þeim, er hér væri saman kominn í dag til þess að hefja umferð um þessa nýju brú, þetta glæsilega, mikla mannvirki, er nú blasti við augum manna, fullgert fyr en nokkurn varði.
Þess hefði verið óskað, þegar Ölfusárbrúin var vígð fyrir tæpum 4 árum, að sú gersimi hefði líka náttúru og hringurinn Draupnir, ef af drupu átta gullhringar jafnhöfgir níundu hverju nótt. Þetta virtist hafa orðið að áhrínsorðum, þar sem síðan hefðu verið brúaðar eigi allfáar ár og miklar torfærur þessa lands (Hvítá í Borgarfirði á 2 stöðum, Héraðsvötnin eystri, m. m. ), og nú bættist við þetta nýja stórvirki, Þjórsárbrúin, sem enginn mundi telja óhöfgari dýrgripnum hjá Selfossi. Mætti því með sanni segja, að Ölfusárbrúin markaði nýtt tímabil í samgöngu-sögu þessa lands.
Því væri að vísu fjarri, að hugmyndin um brúargerð á Þjórsá væri sprottin upp eða fædd af brúargerðinni á Ölfusá. Þær brýr hefðu báðar lengi átt sameiginlega sögu, meðan þær hefðu aðeins verið hugmynd ein, borin fram af þörf og þrá.
Ræðum. rakti því næst lauslega undirbúningssögu brúnna: vakið máls á þeim á almennum fundi í Rangárvallasýslu 1872, sendiför Vinfeld-Hansens hingað 1873 að rannsaka brúarstæðin, bænarskrá til þingsins 1877 um 168.000 króna fjárveiting úr landssjóði til brúnna beggja, sem þá þótti of mikið í ráðist, samþykkt á þingi 1879 að veita 100.000 kr. lán úr viðlagasjóði til þeirra gegn endurborgun á 40 árum af 4 næstu sýslufélögum og Reykjavík, en lægsta tilboð um verkið, sem þá fékkst varð 192.000 kr.; eftir það hætt við að hafa báðar brýrnar í taki í einu, heldur stungið upp á á þingi 1883 að brúa aðeins aðra ána (Ölfusá) í senn, en láta hina bíða betri tíma, og lauk svo, sem kunnugt er, að brú komst á Ölfusá 1891, eftir mikla erfiðleika og fyrir lofsamlega framgöngu ýmissa góðra manna.
Svo ríkt sem það hefði verið í huga mönnum áður, að þörf væri á brú á þetta þunga og volduga vatnsfall, sem nú stæðum vér hjá, þá hefði það ekki verið síður eftir að Ölfusárbrúin var komin á, og menn reyndu þann ómetanlega hagnað og létti, sem er að slíkri samgöngubót. Hin almenna gleði þjóðarinnar yfir Ölfusárbrúnni og aukið traust á mátt sinn og megin hefði og gert hana fúsari og áræðnari til fleiri stórvirkja. Hér um bil 4 mánuðum eftir að Ölfusárbrúin var komin á hefði ráðgjafinn tilkynnt landshöfðingja, að Ripperda mannvirkjafræðingur, sá er eftirlit hafði við Ölfusárbrúna, meðan hún var í smíðum, og þá átti kost á að heyra, hve mikið áhugamál mönnum var að fá einnig brú á Þjórsá, hefði boðist til að gera uppdrætti og áætlanir um slíka brú, hjá Þjótanda, og þá þegar með vorinu hefði landshöfðingi tekið til að gera ráðstafanir til að kannað væri brúarstæðið, byggingarefni í brúarstöpla o. s. frv. Tilboð voru fengin, og yfir höfuð hið mesta kapp lagt á, af stjórnarinnar hálfu, að hafa málið sem best undirbúið undir næsta alþingi, 1893, er samþykkti síðan tafarlaust frumvarp stjórnarinnar hálfu, að hafa málið sem best undirbúið undir næsta alþingi 1893, er samþykkti síðan tafarlaust frumvarp stjórnarinnar um 75.000 kr. fjárveitingu úr landssjóði til þessa fyrirtækis, - í stað þess að hann greiddi aðeins 2/3 af Ölfusárbrúarkostnaðinum. Frumvarp þetta hlaut staðfesting konungs rúmum hálfum mánuði eftir þinglok, 16. sept. 1893, og síðan bráðlega tekið tilboði því um brúarsmíðið, er best þótti, en það var frá verkvélasmíðafélagsins Vaughan & Dymond í Newcastle, er þegar var orðið góðkunnugt hér á landi fyrir smíði sitt á Ölfusárbrúnni og alla frammistöðu þar. Tók félagði að sér brúarsmíðið að öllu leyti, bæði stál og stein, fyrir umsamið verð og lét í fyrra sumar reisa stöplana undir brúna og samsumars flytja hana sjálfa til Eyrarbakka, en þaðan var hún flutt upp að brúarstæðinu í vetur sem leið. Síðan kom Vaughan mannvirkjafræðingur sjálfur hingað í vor, og hefi stjórnað allri vinnunni við brúna hér í sumar, og rekið hana með þeim dugnaði og atorku, sem allir sá, að brúin er nú fullger til afhendingar og afnota fyrir almenning frekum mánuði en smíðinni þurfti að vera lokið eftir samningnum.
Þannig er þá hugsjón þeirra manna, er fyrir frekum 20 árum hófu upp tillöguna um, að brúa Þjórsá og Ölfusá, og báru mál það fram þing eftir þing, orðin að öflugri smíð úr stáli og steini. Þessar þjóðkunnu systur, þessar þóttafullu og blendnu heimasætur Suðurlandsins hafa loks orðið að brjóta odd af oflæti sínu og taka festum af tignum brúðguma; framfaraanda og framkvæmdaþrótti þessa lands. Önnur samlíking ætti þó betur við. Þær væru, þessar jötunbornu systur, eins og glófestar ótemjur, fjörugar og ferðamiklar, er geystust áfram með flakandi mökkum, fnasandi nösum og háværum jódyn. Nú hefði loks tekist að koma við þær beisli með stengum úr ensku stáli og stríðum strengjum. Nú gæti hvert barn farið ferða sinna fyrir þeim hvort heldur væri sumar eða vetur.
Þessi brú, sem tengir saman tvö mikils háttar héruð, frjósöm og sögufræg, Árnessýslu og Rangárvallasýslu, er eitt hið mesta jökulvatn þessa lands hefir sundur stíað frá alda öðli, hún jartegnar mikinn sigur, sigur yfir fátækt og erfiðleikum, en sérstaklega sigur yfir ýmsum óheillavænlegum og rótgrónum hleypidómum, um vanmátt, örbirgð og uppblástur þessa lands. Hver sigur í líka átt og þessi sýnir, að landið getur gróið upp, er að gróa upp, mun gróa upp og skal gróa upp. Til þess að landið grói upp, þarf aðeins sameinaða kraft, þor, þol og vilja til að verma og græða. Það er ótrúlegt, hverju góður vilji og traust getur til vegar komið, hvern árangur það getu haft, að keppa jafnan áfram og upp á við, þótt ekki sjái fram úr í fyrstu.
Mér kemur til hugar frásaga þjóðsnillingsins norska, Björnstjerne Björnssons, um það, hvernig lyngið og fjalldrapinn fóru að hylja fjallshlíðina, og hvað þau sáu, þegar þau voru komin alla leið upp á brún. - Það var í djúpum dal og eyðilegum. Eftir dalnum rann straumhörð grjótá og köld. Háar fjallshlíðar báðum megin, berar og naktar, urðin tóm. Í litlu rjóðri niður við ána stóðu eftir frá fyrri tímum nokkra tóar af fjalldrapa, eini og björk, og svo ein útlend hrísla, sem hafði verið gróðursett þar í fyrndinni. Þau þorðu varla að líta upp til hlíðarinnar auðu og beru, áttu þaðan feigðar von: að einhver skriðan rifi þau upp eða bældi þau undir sig, eins og systkin þeirra hin eldri. En þá var það einn dag, er sól skein hlýtt á fjalldrapann, að honum kom nokkuð nýtt í hug. Hann vék sér fyrst að útlenda viðinum, sem var álitlegastur til framkvæmdar. "Eigum við ekki að reyna að klæða fjallshlíðina?! sagði hann við útlenda viðinn. En hann hristi höfuðið og kvað það óðs mann æði. Þá sneri hann sér að eininum og bar upp sömu tillöguna við hann. Hann tók þegar vel í það, og björkin eins. Svo fóru þau að reyna að fikra sig upp á við, teygði eina rót ofurlítið upp fyrir sig, upp í melinn, kolsvartur fjalldrapinn fyrst og hinn gróðurinn á eftir. Þau áttu mikla erfiðleika við að stríða. Þegar þau voru komin upp í miðjar hlíðar, varð fjallið vart við eitthvað kvikt á sér og sendi af stað læk til þess að bita, vað um væri að vera. En lækurinn reif upp allan nýgræðinginn og hrakti það niður í dalverpið aftur. Fjalldrapinn lét þó ekki hugfallast, hann skoraði aftur á eininn og björkina að klæða hlíðina, og þau fóru aftur af stað, á sama hátt og fyr, hægt og hægt, með sama áformi og fyr: að komast alla leið upp á brún. Og það tókst að lokum. En þegar þau voru loks komin upp á brún, þá gaf þeim á að líta. Þar var allt eintómur iðgrænn skógur, svo langt sem augað eygði, og sjálf voru þau búin að klæða alla fjallshlíðina, svo að nú var allt eintóm samföst gróðurbreiða. Svona er það að keppa upp og áfram, og láta eigi hugfallast. Hér er margar hlíðar að klæða, mörg flög að græða; en hér er einnig til lyng og fjalldrapi, einir og björk, sem ef til vill komast upp á fjallið, ef þau reyna með þolinmæði og villa ekki fyrir sér að færast stórvirki í fang.
Þau standa föst og óhögguð, orð skáldsins:
--- " Eyjan hvíta
á sér enn vor, ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista,
hlýða réttu, góðs að bíða.
Fagur er dalur og fyllist skógi,
og frjálsir menn, þegar aldir renna."
"Þegar aldir renna". Já, en hversu margar aldir eiga að renna, hversu langur tími á að líða? Það er vitaskuld ekki að öllu undir mönnum komið, en svo mikið er víst, að reyni mennirnir ekki að leita upp á við og áfram, eins og fjalldrapinn, einirinn og björkin, þótt upp á óvissu sé, þá fyllist dalurinn aldrei skógi.
Hver veit nema þess veðri ekki eins langt að bíða og sumir hyggja, að Ísland komist nokkuð inn í framfara- og framkvæmdastraum aldarinnar, eins og önnur lönd. Hver veit nema þess sé ekki ýkja langt að bíða, að vér eins og aðrar þjóðir hugsum jafnvel hærra en það, að komast klakklaust yfir árnar, hugsum til þess að beisla vorar voldugu ótemjur, ár og fossa, til vinnu, til þess erfiða, verma og lýsa. Hver veit nema einhvern tíma takist að hefta uppblástur og eyðing af sandi, - nema dalurinn fyllist skógi.

Ýmsir munu vilja kalla þetta ekki annað en hugarburð, óljósar rótlausar vonir. En svo framarlega sem þjóð vor og land er háð sama framfaramáli og aðrar þjóðir og önnur lönd, verður þetta meira en hugarburður. Von er upphaf alls góðs, þess er mönnum er sjálfrátt. Upp af henni sprettur áhugi, af áhuga vilji, af vilja kraftur. En vonleysi drepur allan kraft og kjark. Jafnframt vonglöðu trausti og trú á æðri vernd og varðveislu þurfum vér aðra trú:
Vér þurfum trú á mátt og megin
á manndóm, framtíð, starfsins guð,
þurfum að hleypa hratt á veginn,
hætta við víl og eymdarsuð.
Þurfum að minnast margra nauða,
svo móður svelli drótt af því,
þurfum að gleyma gömlum dauða
og glæsta framtíð seilast í.
Um leið og ég í umboði landshöfðingja votta brúarsmiðnum, hr. Vaughan, þakkir fyrir framkvæmd hans og óska honum góðrar heimkomu eftir farslælega lokið starf, skal ég að lokum geta þess, að svo er um samið milli hans og landsstjórnarinnar, að áður en brúnni sé veitt viðtaka til fullnustu, skuli reyna hana með jöfnum þunga, er nemi 80 pundum á hvert ferh.fet. og skal þá þungi hvíla á henni í 2 daga. Haggist þá nokkuð um bætir brúarsmiðurinn það á sinn kostnað. En með því að svo atvikaðist, að bæta þurfi ofan á stöpulinn í sumar og sú viðbót er ef til vill ekki búin að ná þeirri hörku sem hún nær síðar, hefir þótt réttara að fresta þeirri prófun um sinn. Reglur fyrir umferð um brúna hefir landshöfðingi sett samhljóma þeim við Ölfusá, og falið sýslumönnum Árnesinga og Rangvellinga fyrir sýslunefndanna hönd, að sjá um gæslu brúarinnar í bráð, þar til er fullnaðarráðstöfun verður gerð um það atriði.
Að svo mæltu lýsi ég því yfir í umboði landshöfðingja, að brúin á Þjórsá hjá Þjótanda er upp frá þessu frjáls til umferðar fyrir almenning, og vona ég að allir viðstaddir séu samhuga í því, að biðja guð að halda verndarhendi sinni yfir þessu mannvirki, blessa framfaratilraunir þjóðarinnar og þetta land, fósturland vort.


Þjóðólfur, 2. ágúst 1895, 47. árg., 88. tbl., bls. 150:
Hér segir frá vígslu Þjórsárbrúarinnar.

Vígsla Þjórsárbrúarinnar.
Næstl. sunnudag 28. júlí var brúin á Þjórsá milli bæjanna Þjótanda og Urriðafoss vígð af Hannesi Hafstein landritara í umboði landshöfðingja, eins og gert var ráð fyrir. Þótti sumum kynlegt, að landshöfðingi sjálfur skyldi ekki fara austur þangað, með því að svo lítið var að gera á þinginu um það skeið. Sjö þingmenn fengu faraleyfi af þingi og voru viðstaddir athöfn þessa, nfl. Einar Jónsson, Guttormur Vigfússon, Jón Jónsson (í Bakkagerði), Jón Þórarinsson, Klemens Jónsson, Sighvatur Árnason og Þórður Guðmundsson. Allmargt fólk úr Reykjavík reið og austur þangað til skemmtunar, en lengst að austan komu menn úr Mýrdal. En auðvitað var allur þorri mannfjöldans úr Árness- og Rangárvallasýslum. Taldist svo til, að um 2500 manna væru samankomnir við brúna, þá er vígslan fór fram (en 1700 voru við vígslu Ölfusárbrúarinnar). Veður var gott fyrri hluta dagsins, en um kl. 2 fór að rigna, og spillti það nokkuð skemmtuninni, en ekki til muna, því að brátt stytti upp og var besta veður um kveldið. Þá er klukkan var 4 steig Hannes Hafstein á ræðupallinn, og hélt snjalla ræðu. Skýrði hann fyrst frá því, að landshöfðingi hefði falið sér á hendur að tala nokkur orð um leið og þetta glæsilega mannvirki væri opnað til umferðar fyrir almenning, og kvaðst eiga að flytja héraðsbúum kveðju landshöfðingja og stjórnarinnar. Sagði, að þess hefði verið óskað, er Ölfusárbrúin var vígð, að hún mætti verða eins og hringurinn Draupnir, er 8 gullhringar jafnhöfgir drupu af níunda hverja nótt, og þessi ósk hefði að nokkru leyti ræst, því að síðan 1891 hefðu verið byggðar margar brýr, þótt ekki væru þær jafn glæsilegar sem Ölfusárbrúin, t.d. brúin á Hvítá í Borgarfirði hjá Kláffossi, brúin á Austur-Héraðsvötnin í Skagafirði o. fl. Bæri þetta vott um, að nýtt tímabil væri að myndast í samgöngumálum landsins. Saga brúanna á Ölfusá og Þjórsá væri sameiginleg, hefði hinn núverandi 1. þingm. Rangvellinga, Sighvatur Árnason, fyrst hreyft því á fundi í Rangárvallasýslu 1872, að þessar ár væru brúaðar. Rakti ræðumaður því næst stuttlega sögu brúamálsins frá þeim tíma, og gat þess, hversu fljótt hefði verið undinn bugur að því, aðkoma brúnni á Þjórsá, þá er brúin á Ölfusá hefði loks verið fengin eftir langa mæðu; kvað yfirsmiðinn Mr. Vaughan hafa sýnt mikinn dugnað við verkið, hefðu að eins 2 aðrir enskir menn unnið að þessu með honum, en hitt væru allt Íslendingar, og væri Vaughan mjög ánægður með þá. Lagði ræðumaður áherslu á, að íslendingar hefðu nú aflað sér allmikillar þekkingar við verk þetta, og væri það harla mikilsvert. Hugsjónin, er vakað hefði fyrir mönnum um nauðsyn þessarar brúar yfir eitthvert hið mesta jökulvatn á landinu væri nú framkvæmd í verki með ramgervu smíð af stáli og steini, er tengdi saman með traustum strengjum 2 sýslur. Kvað hann mega líkja Ölfusá og Þjórsá við tvær heimasætur, er nú hefðu sett upp trúlofunarhringi, er framfarahugur og framtíðartrú Íslendinga hefði smeygt á þær, en það mætti einnig líkja þeim við tvær glæsilegar, glófextar ótemjur, er áður hefðu verið óviðráðanlegar og gert mikið ógagn, en loks hefði þó tekist að koma á þær beisli með stengum úr ensku stáli o.s. frv. Brú þessi táknaði sigur yfir hleypidómum og vantrú mana á framtíð landsins, sýndi það, að þjóðin hefði mikinn þrótt í sér fólginn, væri á framfaraskeiði en alls ekki að fara aftur. Kenningar sumra manna um, að landið væri að blása upp væru á engu byggðar, það væri að gróa upp og dáð og dugur að eflast hjá þjóðinni; að vísu væru framfarirnar nokkuð hægfara, en við öðru væri ekki að búast, með því að við mikla örðugleika væri að berjast. Það þyrfti að sameina kraftana, þá miðaði fyrst áfram. Sagði, að smásaga nokkur eftir norska skáldið Björnstjerne Björnsson ætti vel við þetta land, sagan um fjalldrapann, er í sameiningu við lyngið klæddi hina nöktu fjallshlíð, svo að hún varð loks öll gróðri þakin, þrátt fyrir tilraunir fjallsins til að hrista af sér þetta, sem var að skríða upp eftir því, en þolinmæði fjalldrapans og lyngsins til að fikra sig upp eftir fjallinu allt upp á brún hefði loks unnið sigur. Rakti ræðumaður þá sögu greinilega, sagði, að íslenska þjóðin ætti að fara eins að, ætti að reyna að komast " upp á brúnina", og ekki að láta hugfallast, þótt seint gengi. Þá mundu þeir tímar koma, að öðruvísi væri umhorfs hér á landi, þá mundu orð skáldsins rætast, að "eyjan hvíta á sér enn vor" o. s. frv. "Fagur er dalur og fyllist skógi og frjálsir menn þegar aldir renna". En hversu margar aldir ættu að renna, hversu lengi ætti að bíða eftir þessu? Að vísu vantaði oss menn til að gangast fyrir þessu, en ef vér notuðum ekki lyngið, notuðum ekki þá litlu krafta, sem vér hefðum. þá kæmumst vér aldrei neitt áleiðis upp eftir. Hér væri nóg að starfa, nógar hlíðar að klæða, og vér hefðum nóg lyng, nógan fjalldrapa til þess. Aðalatriðið væri, að hver þjóð hefði trú á mátt sinn og megin, og vér ættum að gleðjast yfir hverju, sem til framfara horfði m. fl.
Að lokum mælti hann nokkrum þakkarorðum til Mr. Vaughan, er ekki hefði verið hræddur við, að ráðast í þessi fyrirtæki hér, þótt þau gæfu honum ef til vill ekki jafn mikinn arð, sem önnur samkynja stærri fyrirtæki annarsstaðar. Sagði hann að reyna ætti brúna með 80 pd. á hvert erh. fet, en því yrði frestað til næsta árs, og þá yrði brúnni að fullu skilað úr ábyrgð yfirsmiðsins. Það hefði ekki þótt tiltækilegt, að gera þessa reynslu nú þegar. Að svo mæltu kvaðst hann afhenda brúna hlutaðeigandi sýslunefndum til gæslu og lýsa því jafnframt yfir, að brúin á Þjórsá hjá Þjótanda væri opnuð til umferðar fyrir almenning, jafnskjótt sem landshöfðingjafrú (Elín Stephensen), er þar var stödd, klippti í sundur silkiband það, er spennt væri yfir þvera brúna.
Þá gekk landshöfðingjafrúin fram og klippti sundur bandið með silfurskærum, er smíðuð höfðu verið til þessa og kostuðu um 90 krónur(?) Hafði félag það á Englandi, er stendur fyrir brúarsmíðinni gefið skærin í þessum tilgangi. Var ekki trútt um, að sumum þætti klipping þessi með silfurskærunum fremur skopleg og hégómleg. Hr. Helgi kaupm. Helgason og söngflokkur hans þeytti á lúðra Ölfusár-brúardrápu H. Hafsteins, með því að ekkert nýtt kvæði hafði ort verið. Að því búnu hóf mannfjöldinn göngu sína austur yfir brúna í allgóðri reglu og með tilsjón viðstaddra lögreglustjóra o. fl. manna, er gættu þess, að of margir ryddust ekki út á brúna í senn. Um það leyti, sem mannfjöldinn tók aftur að fara vestur yfir, urðu menn þess varir, að sementssteypustöpullinn, eða akkerishleinin í brekkunni að austanverðu, aðalmótspyrnan gegn þyngslum brúarinnar og því sem á henni er, tík að rugga dálítið fram og aftur og lyftist upp svo sem svaraði 2 þuml., þeim megin er að brekkunni vissi, jafnframt því sem eystri röndin á stéttinni undir járnsúlum þeim, er halda brúarstrengjunum uppi, lyftist upp svo sem svaraði 1 ½ þuml., þannig að skrúfurnar í umgerðinni losnuðu upp úr múrnum, svo að vel mátti á milli sjá. Þá er þessa varð vart, var tekið að stöðva strauminn yfir brúna, svo að sem fæstir gengju í senn, og tókst það nokkurn veginn einkum fyrir ötula framgöngu sýslumannsins í Rangárvallasýslu, Magnúsar Torfasonar. Þó sló engum verulegum flemtri á fólkið. Þessi athugaverða bilun á brúnni stafaði eflaust ekki af því, að sementið væri ekki orðið nógu hart, heldur blátt áfram af því, að akkerisstöpullinn er of léttur, of veigalítill, og ekki nógu vel frá honum gengið í hallanum, hefði þurft að vera miklu stærri og traustari, enda töluðu ýmsir um það, áður en vígslan fór fram, hversu umbúnaðurinn að austanverðu virtist lítilfjörlegur, og stöplarnir litlir í samanburði við Ölfusárbrúarstöplana. En Mr. Vaughan þykist geta gert við þetta svo traust verði. Betur að satt væri. En deigari verða menn eftir en áður að treysta brúnni, og í öllu falli var bilun þessi harla óheppileg, og mikil mildi að eigi hlaust af voðaslys.
Það má heita líttfært að komast með hesta að brúnni að austanverðu sakir vegleysu, því þar er bratti mikill og blautt mýrarfen, niður að ánni. Það er á sinn hátt svipuð vegleysa eins og þjóðvegurinn yfir Flóann, sem víðast hvar er miklu verri en enginn vegur.
Engum ræðupalli var slegið upp við brúna, og varð landritarinn að standa á tómri sementstunnu, er hann hélt ræðuna. Mun þessi lélegi útbúnaður hafa orðið til þess, að engir fleiri héldu þar ræður, því það mátti heita frágangssök með því fyrirkomulagi og í slíkum manngrúa. Athöfnin varð því nokkru snubbóttari en ella mundi og ekki svo hátíðleg, sem vænta mátti.
Brúin sjálf er öllu fegurri og haglegar gerð að sjá en Ölfusárbrúin, en ekki jafnstórfengleg; að öðru leyti er hún mjög svipuð henni, en hér um bil 1 alin breiðari eða 10 ½ fet millum handriðanna, sem eru hærri en á Ölfusárbrúnni, og öll úr járni með krossslám.
Eftir kl. 7 fóru menn að tínast burtu og um kl. 11 voru allir aðkomumenn farnir. - Þess má geta, að hinn elsti maður, er við þessa athöfn var staddur var séra Benedikt Eiríksson í Saurbæ í Holtum, fyrrum prestur í Efriholtaþingum, og er hann nú hartnær níræður (f. 1806) og annar elsti skólagenginn maður á Íslandi. Er hann frábærlega ern eftir aldri.


Ísafold, 3. ágúst 1895, 22. árg., 65. tbl., bls. 260:
Hér birtist yfirlýsing verkfræðinga um að misfellur á Þjórsárbrúnni hafi nú verið lagfærðar.

Þjórsár-brúin.
Við undirritaðir Ingenieurar við Þjórsárbrúna lýsum því hér með yfir, að hinar litlu misfellur, sem urðu á öðrum akkersstöplinum vígsludaginn og sem orsökuðust af hinum mikla manngrúa, er var á brúnni, er nú lagfærður og stöpullinn mun nú verða miklu sterkari en áður.
Urriðafossi 30. júlí 1895
Wm. Vaughan. Sig. Thoroddsen.


Austri, 10. ágúst 1895, 5. árg., 22. tbl., bls. 86:
Greinarhöfundur telur Norður-Þingeyinga hafa verið afskipta í samgöngumálum.

Hvar liggur samgöngubrautin um Norður-Þingeyjarsýslu?
"Á landi er hún svo smágjörð að engum hefir ennþá lukkast að sjá hana. Á sjó liggur hún nokkuð fyrir utan öll annes, og eru viðkomustaðir strandferðaskipanna ekki enn þá fundnir í sýslunni".
Þessum orðum fara gárungarnir um samgöngubæturnar í Norður-Þingeyjarsýslu. Norður-Þingeyingar mega eiga það, að þeir eru ekki uppástandssamir, en miklu fremur nægjusamir og í besta lagi þolinmóðir þó þeir hafi allt til þessa, algjörlega farið á mis við liðsinni hins opinbera til samgöngubóta af almannafé. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurntíma á prenti séð né heyrt umkvörtun frá Norður-Þingeyingum yfir því að þeir væru hafðir útundan með samgöngubætur á sjó og landi, og ég get fullyrt að þeir ekki hafa séð ofsjónum yfir opinberum kostnaði til samgöngubóta á landinu, en jafnframt búist við því á ári hverju að þing og stjórn hefði tillit til þeirra meir en á pappírnum, sem nokkurs hluta af þjóðinni, og sem aldrei gleymdist á skattheimtutímunum. Ég kvíði því ekki fyrir því að það verði kölluð hreppapólitík þó ég í þessari grein minni sérstaklega bendi til þess hve bráðnauðsynlegt það er, ef Norður-Þingeyingar eiga ekki að verða afllaus limur á þjóðlíkamanum, að þingið nú í sumar í bróðurlegri samvinnu við landstjórnina kom því til leiðar, að strandferðirnar verði í raun og veru, og meir en að nafninu til auknar svo, að skipin hafi að minnsta kosti 2 viðkomustaði í sýslunni, sem sé Þórshöfn og Raufarhöfn og komi tvisvar til þrisvar á hverja þessa höfn, fyrri hluta sumarsins á norðurleið, (austan fyrir land) og seinna, seint í júlí eða snemma í ágúst á austur leið (norðan fyrir land).
Eins og kunnugt er lagði Gránufélagið niður verslun sína á Raufarhöfn nú fyrir 2 árum; í Norður-Þingeyjarsýslu er því enginn fastur verslunarstaður til, versla því sýslubúar eingöngu við lausakaupmenn, og þó nú margt mæli með því, og ég ekki neiti því, að það sé að mörgu leyti hinn hollasti verslunarmáti, að taka þarfir sínar til ársins sem mest út í einu, þá er þó hins að gæta, að verslun þessi sem þá vanalega er rekin snemma á sumrinu, er mjög svo óhentug og stirð fyrir alla þá menn sem hafa sjávarvörn að boga með, eru því eðlilega ekki einu sinni búnir að afla það sem þeir kunna að hafa til innleggs á reikningsárinu, aukheldur að búið sé að verka vöruna. Svo og hitt, að ómögulegt er að geta þörfum sínum svo nærri, með ýmislegt smávegis, að menn ekki þurfi þess á milli að senda í kaupstað hina löngu og ströngu leið, sem verður tilfinnanlega dýrt. Eins og að framan er ávikið finna menn það glöggt að ekki verður af komist, nema hafa dálitla fasta verslun, en til þess að fullnægja þessum óvissu og ófyrirsjáanlegu þörfum manna, dygði að hafa borgara með litla verslun, en eins og nú á stendur er það ekki hugsanlegt, þar sem enginn vegur er til, að fá sér færðan vöruslatta. Eins og það er nú viðurkennt og satt að það er verslunin næst árferðinu, sem skapar til hagi manna, eins víst er það, að framför Norður-Þingeyinga er mest komin undir því að þeir fái strandferðaskipin til að koma við hjá sér.
Það er einkennilegt í þingtíðindum frá 1893, 4. hefti 552. dálki í umræðunum um lagafrumvarp um brúargjörð á Þjórsá, þar sem 1. þ.m. Rangv. Þ. G., svarar 2. þ.m. N.-M. J. J. og segir; "að það sé eigi í fyrsta sinni sem Sunnlendingar fái andmæli frá Norðlendingum gegn samgöngubótum þeirra". Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma opinberlega séð eða heyrt Norðlendinga andmæla samgöngubótum Sunnlendinga, nema ef þingmaðurinn kallar það andmæli, að vér höfum farið fram á að fá brú á Jökulsá í Axarfirði um sama leyti og Sunnlendingar fengu brú á Ölfusi, en sem ekki var þó tekið til greina. Það munnú vera hátt á 200 þúsund krónur úr landsjóði, sem varið hefur verið til brúar og vegagjörðar, og veitt er til þess á Suðurlandi, og eins og ég hefi áður sagt get ég fullyrt að Norðlendingar sjá engum ofjónum yfir þessum samgöngubótum þar, en þar á móti fagna yfir framförunum í landinu; en eftir hinu opinbera áliti á högum landssjóðs´, eða þegar maður hleypur yfir hinar alkunnu bendingar meistara E. Magnússonar í Austra, þá má þó sjálfsagt ætla að landsjóður gæti borið þann kostnað, sem leiddi af því að láta strandferðaskipin koma við í Norðurþingeyjarsýslu og verja dálitlu fé til samgöngubóta á Norðurlandi, þrátt fyrir allar samgöngubætur á Suðurlandi.
Það hefir talsvert verið bæði ritað og rætt um það, að réttast væri að láta aðalpóstleiðirnar á landinu liggja sem mest eftir sveitunum, en síður yfir fjöll og firnindi. ég get ekki betur sé en að þetta sé alveg rétt ályktað. Því skyldi ekki sá vegur sem landssjóður kostar vera þar hentugast niðurkominn, sem þjóðin á tíðastar ferðir um, og öðru lagi þar sem sýsluvegagjald og hreppavegagjald getur á mörgum stöðum fallið til sama vegarins.
Það hafa nú verið gjörðar nokkrar tilraunir til að fá aðalpóstveginn sem liggur milli Akureyrar og Austfjarða yfir fjöll uppi, færðan svo að hann lægi eftir sveitunum í kring, en þetta hefir jafnóðum mislukkast af ýmsum ástæðum, svo sem því að þá hafa eigingjarnir menn orðið til að toga aðalpóstleiðina út í kring öll annes, en það getur auðsjáanlega ekki dugað, og fyr er gylt en valið sé.
Ég vil hér með leyfa mér í 1. lagi að brýna það fyrir þinginu og stjórninni, að jafnvel þó þingi hafi nú tvívegis samþykkt að leggja fram fé til strandferða, er að mestu leyti gátu fullnægt kröfum þjóðarinnar, þá hefur þó ekkert orðið af því í framkvæmdinni. En hvort það er stjórnin sem annarsvegar telur svo til að íslenska þjóðin hafi ekki með meira frelsi að gjöra, sem þó ekki stýrir til framkvæmda þeim strandferðum sem þingið álítur að landið geti kostað, eða það er þingið sem hefir mislukkast að gjöra strandferðirnar aðgengilegar fyrir skipaeigendur, - þá er það þó víst að þetta má ekki svo búið standa, og eins og tilhagar með verslunina í Norður-Þingeyjarsýslu, er það óumflýjanlegt að strandferðaskipin séu látin koma þar.
Í 2. vil ég skora á þingið, að taka nú þegar mál það til yfirvegunar, hvort ekki sé óefað rétt að fá aðalpóstveginn fluttan af fjöllum ofan sveitir í Norður-Þingeyjarsýslu þegar það svo ómetanlega getur stutt að því, að gjöra færan veg yfir Þistilfjörð, part af Langanesi og yfir svonefnda Brekknaheiði sem allt er hálfófær vegur, og verður þegar tímar líða fram hvort sem er að kostast af landsins fé þar sem það aldrei getur orðið greiður og góður vegur af hreppa - og sýslusjóðsframlögum einum saman.
Friðrik Guðmundsson.


Ísafold, 10. ágúst 1895, 22. árg., 67. tbl., bls. 266:
Hér er fjallað um fjárveitingar til samgöngumála.

Alþingi 1895.
XI.
Fjárlögin. Aðal-umræðan um þau, 2. umr. í neðri deild, stóð dagana 6.-8. þ.m., tvo fundi á dag fyrri dagana tvo, og þrjá fundi síðasta daginn, fullar 12 stundir samtals þá - var ekki lokið fyr en kl. rúml. 2 um nóttina. Eins og vant er, urðu mestar og einna snarpastar umræðurnar um samgöngufjárveitingarnar og bitlingana, einkum Skúla-bitlingana alræmdu.
Þriðja umræða í neðri deild í dag, og kemst málið líklega á dagskrá í efri deild fyrstu dagana í næstu viku.
Samgöngufjárveitingar. Þar hafa flest allar tillögur fjárlaganefndarinnar gengið fram t. d. hvort árið 45.000 kr. til flutningsbrauta, 20.000 kr. til þjóðvega, 45.000 kr. til gufuskipsferða frá útlöndum og með ströndum landsins, 32.000 kr. til fjórðungs gufubáta, allt að 6.000 kr. fyrra árið til uppmælingar á innsiglingarleið inn á Hvammsfjörð.


Ísafold, 7. sept. 1895, 22. árg., 75. tbl., bls. 299:
Verið er að laga akkerisstöpla við Þjórsárbrúna.

Þjórsárbrúin.
Það er verið að umbæta akkerisstöplana, og fyrir nokkru lokið við hinn eystri, er sýndi sig svo greinilega of léttan brúarvígsludaginn. Hefir hann verið stækkaður um réttan helming bæði hlaðið ofan á hann og framan við hann, allt sementerað. Þar að auki hefir verið hlaðið ¾ álnar þykkri stétt sementeraðri ofan á stéttina undir járnsúlunum eystri, er vantaði undir dálítið þegar akkerisstöpullinn þeim megin fór að bifast. Loks er nú verið að ljúka við að gera vestari akkerisstöpulinn söm eða lík skil sem hinum eystri. Mun þá mega treysta því, að brúin geti alls eigi bilað á sama hátt og í sumar að minnsta kosti.


Ísafold, 12. okt. 1895, 22. árg., 83. tbl., bls. 330:
Jakob Jónsson er óhress yfir því að verkfræðingur hafi ekki tekið til greina ábendingar hans um vegastæði yfir Flóann.

Um veginn yfir Flóann.
Eftir Jakob Jónsson í Kampholti.
Ég hef áður opinberlega farið nokkrum orðum um væntanlega vegarlagningu milli Þjórsárbrúarinnar og Ölfusárbrúarinnar, og bjóst ég við að vegfræðingur sá, sem annast útmælingu vegar þessa, mundi gera einhverja athugasemd út af því eða taka bendingar mínar til greina. Sömuleiðis hefir Einar Einarsson á Urriðafossi ritað um þetta mál, í líka átt og ég, en það virðist heldur ekki hafa borið neinn ávöxt.
En þó vegfræðingurinn sé nú búinn að ákveða veginn án tillits til bendinga þeirra, sem honum hafa verið gefnar, þá vil ég þó enn fara fáum orðum um þetta þýðingarmikla mál.
Ég hef bent á, að veginn mætti leggja beinan á milli brúnna, sem hefði þá kosti í för með sér, að vegur þessi yrði miklu skemmri en efri leiðin, og nemur það að líkindum milli ¼ og 1/3 mílu, og þá lægi hann á óhultum stað fyrir vatnságangi úr Hvítá, sem hinn fyrirhugaði vegur ekki mun gera. Ef vegurinn væri lagður beinn, þá yrði auðvitað að brúa Hróarholtslæk; en ekki mundi sú brú kosta mikið í samanburði við það, hvað vegurinn yrði lengri, ef hann verður lagður þar sem vegfræðingurinn, vegna ókunnugleika, hefur nú ákveðið hann, og brýr þær, sem þeim vegi hlytu að verða samfara.
Þegar athuguð er stefna hins ný útmælda vegar, upp undir Skálmholtsholt og upp fyrir svo nefnt Flatholt, sem er meiri hlutinn af veginum milli brúnna, þá mætti ætla, að sá vegur stefni upp í Biskupstungur, en alls ekki austur að Þjórsárbrú. Á þessari leið, þar sem vegurinn á að liggja, er tíður vatnságangur úr Hvítá á vetrum af Brúnavallaflötum, sem enginn vegur getur staðið fyrir, og er auðséð, að vegfræðingurinn hefir ekki mælt hann út enn, né lagt trúnað á það, sem honum kunnugri menn hafa bent honum á viðvíkandi þessu atriðið.
Vegfræðingurinn mun treysta á lærdóm sinn, eins og vegfræðingur sá, sem lagði veginn um Sandskeiðið hjá Vífilsfelli, þrátt fyrirkunnugra manna aðvörun. En hvernig fór? Vegurinn varð ónýtur, sem enn sýnir sig.
Vegfræðingurinn munnú halda sínu striki, að leggja veginn þar sem hann hefir ákveðið , hvar sem nákunnugir menn gera til þess að aðvara hann um, að vegurinn geti ekki staðið þar, og hefir hann þá líka ánægjuna af að líta á verk sitt áður en langt um líður, og sannfærast um, hve hyggilega hann hefir þar ráðið.


Ísafold, 23. nóv. 1895, 22. árg., 89. tbl., bls. 354:
Jóhannes Þórðarson póstur óskar að stjórnvöld verji hluta vegafjár til að laga vegi á Vestfjörðum, sem hann telur ekki vanþörf á.

Póstleiðin
milli Ísafjarðar og Hjarðarholts í Dölum.
Það er alþingi hefir í sumar veitt 2.000 kr. styrk til þjóðvega hér á landi, er óskandi að nokkru af fé þessu verði varið til að gjöra við landveginn á póstleiðinni frá Ísafirði til Hjarðarholts. Það mun óhætt að telja póstleið þessa eina hina tafasömustu á landinu með því að hér um bil fjórða hluta allrar leiðarinnar verður að fara sjóveg, eða 6-7 mílur og hann slæman og hættulegan, er illa viðrar. Og þegar á land er komið, tekur við illur fjallvegur, Þorskafjarðarheiði. Hún er að sumrinu torsótt sökum stórgrýtis; ¾ hluta heiðarinnar er ekki hægt að fara greitt, ef ekki á að fara því ómiskunnsamlegar með hesta sína. Aftur á móti er ¼ hluti heiðarinnar góður vegur, sem Jón Magnússon póstur gerði fyrir nokkrum árum. Að vetrinum til tel ég Þorskafjarðarheiði mjög voðalega í slæmri tíð, með því að ekki er nokkur vegvísir (varða) á allri þeirri leið, sem er alfaravegur pósta og annarra, er leið eiga um. Sæluhús er að vísu nýuppbyggt á heiðinni, en á því er stór galli. Að vetrinum rennur í það vatn úr læk, sem er skammt frá húsinu, og þegar vatnið frýs, er ekki hægt að ljúka upp neðra helmingi hurðanna, svo að ekki verður þar komið inn hestum hvað mikið sem á liggur. Menn geta að vísu lokið upp efra helmingi hurðanna, og skriðið inn í húsið á fjórum fótum, og komist upp á loftið í því, en hrossin verða að híma úti hvað sem á dynur. Þetta þarf bráðrar endurbótar.
Af sveitavegum á þessari póstleið er verstur vegur yfir Tindabakka og Svarfhólsbakka í Geirdalshreppi. Tindabakkar eru að sönnu færir þegar miklir þurrkar ganga að sumrinu, en því nær ófærir í vætutíðum. Svarfhólsbakkar alveg ófærir nær sem er að sumrinu, þó að þurrkar séu. Ég hef í sumar orðið að fara selflutning með hesta mína langt fyrir ofan hinn svonefnda veg, til þess að hleypa ekki á kaf í foræðið, sem ekki er neinum hesti fært, þótt farið sé. Að vísu er fleira athugavert við þessa leið en hér er talið, t. d. vegurinn kringum Gilsfjörð, einkanlega að vestanverðu og víðar, en ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það að svo stöddu.
Jóhannes Þórðarson.
(póstur).




Tenging í allt blaðaefni ársins 1895

Þjóðólfur, 11. janúar 1895, 47. árg., 2. tbl., bls. 6:
Efnið í Þjórsárbrúna er nú mestallt komið að brúarstæðinu.

Þjórsárbrúin.
Úr Árnessýslu er Þjóðólfi ritað 6. þ. m.:
"Efnið í Þjórsárbrúna er nú mestallt komið að brúarstæðum vestan megin árinnar. Það hefur tekist mjög vel með aksturinn á því; eru þó sum stykkin allþung í meðförum, t. d. tveir aðaluppihaldsstrengirnir allt að 5000 pd. Leiðinni upp að brúarstæðinu var skipti í tvo áfanga, nfl. frá Eyrarbakka að Önundarholti. Fyrir akstrinum á þeirri leið stóðu: Ólafur Ólafsson söðlasmiður og Jón Jóhannesson á Eyrarbakka, en frá Önundarholti að brúarstæðinu: Sveinbjörn Ólafsson búfræðingur frá Hjálmholti. Mjög gott fylgi sýndu menn við vinnu þessa, því svo mátti segja, að brúarefnið kæmist á 5-6 dögum, enda suma daga allt að 100 manns í vinnu og kaupið 20 aurar um klukkutímann. - Allt brúarefnið sýnist mjög vel vandað og traust, sum stykkin, einkum uppihöld og bitar þeir, sem eiga að vera undir brúnni, eru talsvert gildari en samskonar járn í Ölfusárbrúnni, og þykir hún þó sterk, enda verður Þjórsárbrúin 1 alin breiðari (hin er 4 álnir). Eins og sást í blöðunum var síðastl. sumar lokið við stöpla þá, sem brúin á að liggja á, en verki við akkersstöpla verðu ekki lokið fyr en á næsta sumri. Talið er víst að hlaða þurfi ofan á stöpla þessa, austan megin árinnar, með því að þeir eru 5 fetum lægri þeim megin, enda ekkert það sjáanlegt með brúarefninu, er halla þann, sem af þessu hlýtur að leiða, geti lagað. Kunnugir menn segjast og hafa séð ís á ánni álíka hátt og efri brún áðursagðra stöpla er nú, og af því einu hljóta menn að sjá, hve afar nauðsynlegt er, að stöplarnir verði hækkaðir í tíma".


Austri, 30. janúar 1895, 5. árg., 22. tbl., forsíða:
Hér er “Austurlandsvini” mótmælt en hann hafði lýst þeirri skoðun sinni að fremur ætti að leggja vegi en koma á siglingum á Lagarfljóti.

Skipaferðir um Lagarfljót.
Gufubátsferðir á Austfjörðum.
Í 65. tölubl. Ísafoldar hefir "gamall Héraðsbúi" "fundið sér skylt" að mótmæla fréttagrein í 7. tölubl. Fjallk., er skýrði frá uppsiglingunni í Lagarfljótsós.
Fróðir menn segja að Ísafoldar grein þessi sé eftir sama "Austurlandsvininn", sem mest lagði sig í framkróka að spilla því að Seyðisfjörður fengi bæjarréttindi. Þessi höf. virðist helst vilja reyna að vera Þrándur í götu allra áhugamála vor Austfirðinga, reyna að lýsa framfarviðleitni vorri með sem svörtustum litum og gjöra oss tortryggilega í augum þeirra er ekki þekkja til. Nafn sitt dylur hann, vitanlega í þeim tilgangi að ókunnugir ætli að greinar hans væru frá einhverjum merkum manni, sem öðrum fremur sæi hvað best hagaði oss Austfirðingum. En sem betur fer hafa allir hlutaðeigendur fundið skottulæknisþefinn af þessum greinum hans, séð að þær voru ekki af góðum toga spunnar og virt þær að vettugi. Svo var það í bæjarréttindamáli Seyðisfjarðar, og eins vona ég verði í því máli er hér er um að ræða.
Höf. byrjar grein sína á því, að það muni satt vera að nú hafi tekist að komast að landi í Lagarfljótsós með nokkuð að vörum og timbri, eftir margar atrennur, og með miklum örðugleikum, enda hafi hér verið til mikils að vinna, þar sem ánafnað hafi verið fyrir þetta 7000 kr. úr landsjóði og sýslusjóðum Múlasýsla. Höf byrjar því grein sína á þann hátt að lýsa því yfir að það sem hann ætlar að mótmæla "mun satt vera". En svo bætir hann við frá sjálfum sér dylgjum og ósannindum, um hvernig uppsiglingin hafi gengið. Hið sanna er, að vitni allra sem viðstaddir voru, að herra O. Wathne fór tafarlaust, ekki eftir margar atraunir, inní Ósinn þegar er hann kom að honum, og ekki einungis "að landi" í Ósnum eins og höf. vil gefa í skyn, heldur inn úr Ósnum, og lagði gufubátnum þar að landi í Fljótinu innan við Ósinn og setti þar upp vörurnar í bráð, til þess að flýta fyrir skipinu er vörurnar flutti, svo það gæti komist sem fljótast af stað aftur, að sækja fleiri vörur Þetta gekk bæði fljótt og vel (ekki "með miklum erfiðleikum"), svo herra O. Wathne var talsvert fljótari að koma vörunum úr skipinu og inn fyrir Ósinn, heldur en verið er að skipa upp jafn miklu vörumagni í kaupstöðum. Á þessu sést, að frásögn höf. er öll miður góðgjarnlegar dylgjur til að blekkja ókunnuga. Auk þess sem herra O. W. flutti vörurnar þannig allar inn úr Ósnum, flutti hann líka það af þeim er ekki var þegar tekið, inn Fljótið allt inn á móts við Húsey.
Síðast endar höf. þessa frásögn sína, með því, að segja að fyrir þetta hafi 2000 kr. verið borgaðar úr sýslusjóðum Norður-Múlasýslna. Hið sanna er, að herra O. Wathne voru borgaðar úr sýslusjóði Norður-Múlasýslu kr. 1167,00 og úr sýslusjóði Suður-Múlasýslu kr. 500, eða samtals kr. 1667,00. Þetta má sjá á fundargjörðum sýslunefndanna sem prentaður voru í Austra, svo og á fundargjörðum Amtsráðsins í Austuramtinu (Stjórnart. 1894 B bls. 151.). Hvað haldið þér lesendur góðir að þessi höf. sé vandur að dómum sínum um almenn mál, sem ekki hikar sér við að segja svona ósatt, þvert ofan í það sem hann veit að opinberir reikningar muni sýna.
Því næst kastar höf. fram þeirri órökstuddu fullyrðing, að til þess að grafa skurði fram hjá torfærunum í Fljótinu mundi ekki hrökkva allt það fé sem ætlað sé á fjárlögunum til brúa og vegagjörða á öllu landinu í 2 ár.
Hver hefir komið með þá tillögu að grafa skurð fram hjá fossinum hjá Kirkjubæ? Mér vitanlega hefir enginn gjört það. Hitt munmörgum hafa sýnst ekki mikið þrekvirki, að leggja sporvagnsbraut framhjá fossinum, þegar búið væri að byggja vörugeymsluhús við Fljótið fyrir neðan fossinn. Herra O. Wathne hefir í bréfi til síra Einars Jónssonar á Kirkjubæ, sem er formaður nefndar þeirrar er kosin var af Héraðsbúum til að hafa á hendi framkvæmd þessa máls, boðist til að koma á gufubátaferðum eftir endilöngu Lagarljóti á næstkomandi 2 árum, ef hann fengi til þess 13 til 15 þús. króna styrk, og fengi helminginn af því borgaðan, þegar hann hefði komið á gufubátsferðum upp að Kirkjubæjarfossinum, og byggt þar vörugeymsluhús, en hinn helminginn, þegar hann hefði komið á gufubátsferðum upp í Fljótsdal svo langt sem Fljótið nær. Herra O. W. ætlar því auðsjáanlega að bera sjálfur alla ábyrgð af því hvort hann yfirvinnur torfærurnar við Steinbogann og ekki heimta borgun nema hann geti unnið verkið. Er slíkt drengilega gjört og sýnir óbifanlega trú á gott málefni. Mundi Héraðsbúinn gamli vilja taka að sér allar brúargjörðir og vegabætur sem áformað verður að gjöra á næstkomandi 2 árum fyrir sömu borgun?
Þessi fullyrðing höf. um kostnaðinn er því eins og annað í grein hans órökstuddur sleggjudómur, sem hann kastar fram, til að gjöra málefnið sem tortryggilegast í augum ókunnugra, án þess hann hafi leitað sér nokkurra upplýsinga um efni það er um er að ræða.
Að Fljótið geti orðið grunnt á Einhleypingi og víðar á haustin, þurfti víst hvorki herra O. Wathne eða aðrir Austfirðingar að spyrja höf. um. Það hefir engum formælenda þessa máls dottið í huga að vöruflutningar eftir Fljótinu færu fram á haustin, heldur fyrrihluta sumars, og það vita allir kunnugir, að framundir haust er nóg dýpi í Fljótinu fyrir gufubát, bæði á Einhleypingi og annarstaðar. Það hefir svo oft verið tekið fram bæði í ræðum og ritum, að hentugast væri að vöruflutningar eftir Fljótinu færu fram fyrri hluta sumars, að óþarft var fyrir höf,. að fara að vekja tal um það.
Að farvegur Fljótsins geti breyst í Ósnum, þegar það rífur sig fram á vorin, dettur heldur engum í hug að neita en það mun heldur engum sem til þekkir, sýnast ókleyft að mæla árlega dýpið á nokkur hundruð föðmum yst í Fljótinu. En svo bætir höf. því við "að ár og ár í bili, komi svo miklar grynningar í ósinn, að alls ekki verði komist upp í hann". Hér fer höf. með algjör ósannindi, enda þekkir hann alls ekkert til þess, því mér er víst óhætt að fullyrða það að hann hefir aldrei komið að Lagarfljótsós. Allir sem þekkja vatnsmagnið í Lagarfljóti munu líka geta skilið það, að það hlýtur að rífa sér djúpan farveg, þegar það vex á vorin, og fellur til sjávar gegnum mjóan ós.
Svo kemur nú síðast þessi makalausa tillaga höf.: "Góður akvegur beggja megin Fljótsins, meðfram bæjum mundi verða hentugastur fyrir flestar sveitirnar og kostnaðurinn við það svo sem enginn, í samanburði við skurðina og gufubátana". - Ó hvað landsstjórnin og þingið, má vera makalaust grunnhyggið, ef það lætur hann Sigurð Thoroddsen lengur vera að káka við vegagjörðir hér landi, þó nokkur hundruð krónum væri kostað til að fullkona hann í námi sínu erlendis, en eiga aðra eins perlu af vegfræðingi, eins og þennan "gamla héraðsbúa", sem sprottið hefir upp alveg kostnaðarlaust hér innanlands!! Ég held við Austfirðingar ættum skilið að fá nokkur þúsund krónur úr landsjóði fyrir að hafa framleitt slíkt undra-barn! Að hafa tvo akvegi, eftir endilöngu Fljótsdalshéraði, sinn hvoru megin Fljótsins; og alltaf "meðfram bæjum", það væri svo makalaust praktiskt og ódýrt, einkum af því mjög víða yrði ákaflega erfitt að fá góðan ofaníburð í veginn. Og þessa 2 akvegi ætti að leggja frá Fljótsósnum, sem höf. segir þó að stundum sé ekki hægt að koma vörum uppí í heilt ár. Og þessi grundvallaregla í vegabótum, hún væri svo makalaust praktisk fyrir þjóðfélagið, því eftir sömu reglu ætti eflaust að setja 2 brýr á Ölfusá og Þjórsá og aðrar stór ár landsins og leggja svo sinn veg að hverri brú, "með fram bæjum".
Niðurlagi greinar gamla Héraðsbúans er óþarfi að svara. Það var óþarft ómak fyrir hann, að fara að minna á "flautir" og "ofurmagn heimskunnar", því öllum sem nokkuð þekkja til þess sem greinin ræðir, mun ósjálfrátt hafa dottið þetta hvorttveggja í hug er þeir lásu grein höf, því hún ber það svo ljóslega með sér að hún er eftir ofur grunnhygginn flautaþyril. Það er að eins vegna ókunnugra, að ég hef tekið að mér það leiðindaverk að sýna fram á vitleysur og ósannindi þessa "gamla Héraðsbúa".
Málefnið, um skipaferðir eftir Lagarfljóti, er eflaust langmesta framfaraspursmál vor Héraðsbúa, og það er vonandi, að bæði herra O. Wathne, sem nú er orðinn svo mikið við mál þetta riðinn, og Héraðsbúar, sem eiga hér svo mikið í húfi, svari bæði gamla Héraðsbúanum, og örðum sem vilja spilla máli þessu, með því að hrinda því sem drengilegast og fljótast áfram. Hér er í veði hið gagnsamlegasta fyrirtæki fyrir Héraðsbúum, og sæmd og Orðstýr herra O. W. ef nú er ei haldið sköruglega áfram.
Herra O. Wathne hefir lofað að halda áfram vöruflutningum inní Fljótið eins og næsta sumar, án þess að fá nokkurn styrk. Hann hefir í því skyni skilið eftir flutningspramma sinn við Fljótið, og ráðið vélarstjórann á gufubátnum, til þess að fara á bátnum upp í Lagarfljót næsta sumar. Sýnir þetta hvorttveggja að herra O. W. er full alvara. - Vér Héraðsbúar munum aldrei sjá eftir fé því er lagt var fram af vorri hálfu til að sýna og sanna að það væri hægt að flytja vörur upp í Fljótið. Vér finnum svo vel hvar skórinn kreppir, að því er snertir aðflutningana, kostnaðinn við þá, hve óbærilegur hann er, farartálma þann er þeir valda oss í öllum efnalegum framförum, voða þann er búinn er í hörðum árum, af því að hvergi eru vörubyrgðir innanhéraðs, á jafn stóru og fjölbyggðu héraði, og öll þau skaðlegu áhrif sem þetta hefir á auðsæld og þroska Héraðsins.
Sú tilfinning er nú að vakna hjá þjóðinni, og vonandi hún vakni æ betur, með ári hverju, að almannafé sé til einskis betur varið, en til að bæta samgöngurnar, gjöra verslunina sem hagfelldasta og léttasta, hjálpa þjóðinni áfram til auðs og framfara í atvinnuvegum, gjöra lífskjör einstaklingsins hér á landi sem líkust því sem þau eru í öðrum löngum, að því leyti sem unnt er. Væri þessi tilfinning orðin nógu rótgróin í meðvitund þjóðarinnar á löggjöf vorri og fjármálastefnu, þá mundu framfarirnar fljótt aukast, kjarkurinn vakna hjá þjóðinni og traust hennar á sjálfa sig, trúin á framför lands og lýðs verða sterkari. Þessi trú sem er svo sorglega dauf hjá mörgum af oss enn þá, að fjöldi manna eins og hrekkur upp af svefni með andfælum, ef talað er um að framkvæma eitthvað hér á almennan kostnað sem ekki hefir verið gjört áður, þótt það mundi talið sjálfsagt skylduverk þjóðfélagsins í öllum siðuðum löndum. - Það er þetta trúleysi á allt nýtt sem hefir verið þröskuldur á vegi vorum sem viljað öfum koma fram skipaferðum eftir Lagarfljóti. Nokkurn andbyr hefir og þetta málefni haft hjá Fjarðarbúum sumum, sem ekki hefir getað skilist, að það væri til neinna hagsmuna fyrir sínar sveitir. En slíkt er misskilningur, sem vonandi er að hverfi er þeir hugsa málið nákvæmar, því bæði mundu skipaferðir eftir Lagarfljóti efla mikið viðskipti milli Héraðsbúa og Fjarðabúa, báðum til stórra hagsmuna, þegar fram líða stundir, og svo er þess að gæta, að þegar einhver hluti af stóru sýslufélagi eykst og eflist að mun, þá er það hagur alls sýslufélagsins, og þó Múlasýslurnar séu tvö sýslufélög, þá er hagur þeirra í svo mörgu sameiginlegur, að þær ættu að fylgjast að sem eitt félag í öllum hinum stærri málum.
Nú ráðgjörir herra O. Wathne að koma sér upp gufubát, sem fari með öllum ströndum hér Austanlands. Væntanlega sækir hann um styrk úr landsjóði, til að halda áfram ferðum þessum, þótt hann verði að byrja þær styrklaust þetta árið, og það er ótrúlegt að honum, og oss Austfirðingum verði neitað um þann styrk þar sem samkyns styrkur er veittur Sunnlendingum og Vestfirðingum, en líklega verður það gjört að skilyrði að sýslufélögin leggi til ¼ hluta móts við landssjóðsstyrkinn. Hér væri nú ágætt tækifæri til að sameina krafta sína fyrir Héraðsbúa og Fjarðabúa. Þessar gufubátsferðir mundu eflaust verða til ákaflega mikils hagræðis fyrir Fjarðabúa, og mundu líka styðja mjög að vöruflutningum í Lagarfljótsós, því þessi strandferðabátur herra O. Wathne þyrfti ekki að taka til þeirra flutninga gufuskip sín, sem hann þarf alltaf að hafa í sem hröðustum ferðum milli landa. Þetta mundi gjöra ferðir O.W. miklu hagfeldari til flutninga hér á Austfjörðum heldur en nú er; og miklu reglubundnari, þegar hann hefði sérstakt skip til þerra ferða. - Þetta mál ætti að vera eitt hið mesta áhugamál vor Austfirðinga, og vér ættum að leggja sem mesta alúð við að búa undir alþingi í sumar komandi, væri oss það meiri sæmd að vinna í eindrægni saman að sameiginlegum framfaramálum og vekja úlfúð og hreppríg meðal vor. Það á að líkindum enginn landsfjórðungurinn meiri framtíð fyrir höndum, en Austfirðingafjórðungur, ef oss skortir ei dug og samheldi, því hér fylgjast að víðlendar landkosta sveitir og afbragðs veiðistöðvar. En til þess að oss verði framfara auðið, þeirra sem hægt er, megum vér ekki liggja á liði voru, heldur taka höndum saman, og beita sameiginlega kröftum vorum, til að hrinda þeim málum áfram, sem miða til að efla atvinnuvegi vora og auðsæld. Vér höfum hingað til baukað allt of mikið hver útaf fyrir sig, hér sem annarstaðar á landinu, og ekki skilist það, að til þess að koma af stað miklum og varanlegum framförum, þurfum vér að sameina krafta vora. Sundrungarandinn, þetta rótgróna þjóðarmein vort, þarf að eyðast, en samheldnin að eflast. Allir sem vilja þjóðinni vel þurfa að vinna að því með áhuga og þoli að efla félagsanda, drengskap og atorku umhverfis sig, því fljótar sem þetta þrennt dafnar hjá þjóð vorri, því skemur þarf að bíða eftir að hjá oss spretti upp búsettir kaupmenn, innlendur háskóli og endurbætt stjórnarskrá.


Ísafold, 6. febrúar 1895, 22. árg., 7. tbl., bls. 26:
Hér fjallar greinarhöfundur um sýsluvegina í Árnessýslu og svarar athugasemdum Erlendar Zakaríassonar.

Um sýsluvegina í Árnessýslu.
Um sýsluvegina í Árnessýslu skrifar hr. Erlendur Zakaríasson dálitla grein í Ísafold (XXI. 79) og er auðséð af henni, að honum þykir sýslunefndin hafa leitt hjá sér tillögur hans um vegina.
Það er nú aldrei nema vorkunn, þó honum leiðist að sjá ekki einu sinni á pappírnum vott þess, að tillögum hans hafi verið gaumur gefinn. En væri hann nógu kunnugur, mundi hann sjá, að eftir því sem ástatt er, getur þetta ekki öðruvísi verið.
Það heyrir ekki undir verkahring sýslunefndarinnar, að skýra frá því í blöðunum, hvers vegna hún gjörir eða ekki gjörir það eða það. Getur hr. Erlendur Zakaríasson því ekki átt svars von frá henni. En af því að hann á svar skilið, og af því þörf er að ræða málið, vil ég leyfa mér að fara um það nokkrum orðum til að skýra það, þar eð ég er því kunnugur, þó að ég standi fyrir utan sýslunefndina.
Árnessýsla er víðlent hérað og þar er mikil umferð á mörgum stöðum; þarf því marga sýsluvegi og þeir þurfa mikið viðhald árlega til þess að þeir séu færir, - og það þurfa þeir allsstaðar að vera. Í þetta viðhald, sem ekki verður hjá komist, dreifast allir kraftar sýsluvegasjóðsins, meira að segja: tekjur hans hrykki ekki til þess, ef ekki væri varið sem minnstu, er komast má af með, til viðgerðar á hverjum stað, ekki að tala um að kostað verði til gagngjörðra vegabóta neinstaðar. Jú, það mætti með því að taka lán. Þá liggur fyrir spursmálið: Hvar á að byrja? Og áður en því er svarað, verður að svara öðru spursmáli, sem hreift hefir verið: Er ekki unnt að breyta sýsluvegunum neinstaðar þannig, að það yrði sparnaður og ferðamönnum þó ekki til örðugleika?
Til að fá svar upp á þetta spursmál, var hr. E. Z. fenginn til að ferðast um sýsluna 1892. En hann hafði of nauman tíma og gat við of fáa borið sig saman.
Sýslunefndarfundurinn 1893, sem ræddi álitsgjörð hr. E. Z., komst að þeirri niðurstöðu, að við hliðina á því þyrfti að fá álitsgjörðir allra hreppsnefndamanna ummálið. Svo kaus fundurinn standandi veganefnd, er leggja skyldi fyrir sýslunefndarfund 1894 tillögu um sýsluvegina, gjörða með hliðsjón af álitsgjörðum hr. E. Z. og hreppsnefndanna. En áður en veganefndin bjó til tillögu sína, var alþingi búið að samþykka hin nýju vegalög. Veganefndin gekk út frá því, að þau mundu ná staðfestingu, sem líka varð. Sá hún, að skipun sýsluveganna hlaut mjög að vera undir því komin, hvar flutningabrautin yrði lögð. Lagði hún því til, að sýslunefndin skyldi hér eftir, sem hingað til, halda áfram viðgerðum á sýsluvegum þeim, sem nú eru, þangað til búið væri að fá vissu um legu flutningabrautarinnar (ef lögin næði staðfestingu). Lauslega leyfði veganefndin sér auk þess, að segja álit sitt um það, hvar heppilegast mundi að leggja brautina og sýsluvegina í sambandi þar við. Brautina upp yfir Flóann hugsaði hún sér lagða frá Eyrarbakka að Ölfusárbrúnni, þó ekki alveg beint, heldur í bug austur á móts við Hraunshverfið, því þar er mýrin hærri og brautinni því óhættara fyrir skemmdum af leysingavatni, og þar er líka hægara að ná til hennar með veg frá Stokkseyri, ef það álitist nauðsynlegt á sínum tíma. En þó brautin yrði lögð svo austarlega sem verða mætti, þá blandaðist veganefndinni ekki hugur um það, að þá, er brautin væri gjör, félli Melabrúin jafnskjótt úr sýsluvegatölu, en Ásavegurinn áleit hún að hlyti að verða sýsluvegur eftir sem áður. Sýslunefndin var samdóma öllu þessu, nema hvað henni þótti of fljótt að taka ákvörðun um Ásaveginn fyr en brautin væri að minnsta kosti ákveðin.
Upp eftir frá Ölfusárbrúnni er um tvennt að tefla: Annaðhvort að flutningabrautin liggi upp yfir Flóa og Skeið upp í Hreppa, eða að hún liggi austan undir Ingólfsfjalli og svo yfir Grímsnesið upp í Biskupstungur, sem ýmsir álíta heppilegra. Og því verður ekki neitað að margt mælir með því. Þingvallabrautin gæti þá sameinast við hana fyrir norðan Mosfellsfjalli; Ásavegurinn gæti þá orðið samfelldur frá Loftsstöðum (og Stokkseyri) upp í Hreppa og verið aðal-sýsluvegur; ætti þá að byrja á því, að taka lán til hans. En verði hitt ofan á, að flutningabrautin verði lögð að austanverðu, þá mun þykja einsætt að taka fyrst lán til Grímsnesvegarins. En hvorugt er hægt að gjöra, meðan óvíst er, á hvorum staðnum brautin verður lögð. Og yfir höfuð að tala er ekki hægt að byrja á neinum verulegum umbótum á veginum hér fyr en búið er að ákveða hvar flutningabrautin á að leggjast. Þegar það er búið, veit sýslunefndin fyrst, hvað hún á að gera í þessu efni, enda þótt brautin verði ekki lögð fyr en eftir fleiri ár. Þangað til verður auðvitað að halda Melabrúnni í sýsluvegatölu og hafa hana færa; en eftir það verður hún að eins hreppavegur fyrir nokkra bæi, og kemur því ekki til mála, að verja nú stórfé til hennar.
Oddviti sýslunefndarinnar fór þess á leit við landshöfðingja vorið 1893, að í vegavinnuna yrði tekinn Árnesingur til að læra vegagjörð. En hann kvað annan áður kominn. Hvort sá maður er búinn að ljúka námi sínu, er mér ekki kunnugt. En það eru víst svo margir orðnir æfðir í vegavinnu, að varla yrði torvelt að fá verkstjóra, ef ekkert væri annað til tálmunar. En eins og nú er ástatt, er aðal-tálmunin sú, að óvíst er hvar flutningabrautin verður lögð. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Ríður því mikið á, að lega hennar verði fastákveðin sem allra-fyrst.
Br. J.


Þjóðólfur, 1. mars 1895, 47. árg., 10. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur lýsir skoðun sinni á vegstæði Suðurlandsvegar.

Vanhugsuð vegarlagning.
Um það hvar vegurinn liggur frá Árbæ upp að Hólmi, skal ekki farið mörgum orðum, því að líkindum verður honum aldrei breytt á þeirri leið og virðist þess heldur ekki þörf, jafnvel þó hann hefði þar átt að hafa aðra stefnu frá byrjun, sem sé, fyrir norðan Rauðavatn, en um það er nú ekki mikið að fást. En úr því kemur upp fyrir Hólm; fer að verða skoðunarmál, hvort hann hefur verið lagður á sem bestum stað, eða ekki. Skal hér því stuttlega lýsa landslagi á því svæði og hvernig ár og rásir falla, sem bæði hafa valdið honum stórskemmdum og munu eins hér eftir, jafnvel þó varið hafi verið töluverðu fé honum til viðhalds, sem hefur verið brýn þörf, ætti hann að vera fær. Eins og kunnugt er, liggur vegurinn yfir Hólmsá, skammt fyrir austan Hólm. Hefur þar orðið að brúa hana tvisvar með ærnum kostnaði og óvíst að enn dugi. Þaðan upp að Lækjarbotnum, er sléttlent - Hólmarnir, - sem áin flæðir yfir í leysingum og hefur vegurinn þar umrótast fleirum sinnum og sjálfsagt verður honum þar aldrei óhætt. Á þeirri leið eru tvær brýr, er báðar hafa flotið burt með stöplum, en sú þriðja er nú nýgerð. Fyrir ofan Lækjarbotna, liggur vegurinn um svo kallaða Fossvelli, er áin rennur yfir, og hefur hún þar oft gert usla. Svo liggur hann upp Lakheiði, en þar er ekki annað að óttast en þverrásir, sem stundum hafa orðið nokkuð dýrar. En þegar kemur upp undir Arnaþúfu, fer heldur að versna sagan. Þar liggur vegurinn á parti fram með ánum, fyrir sunnan neðri vötnin - svo er Fóelluvötnum skipt - enda flýtur hann þar burtu árlega, sem þó er enn verra, er kemur upp á Sandskeiðið. Þar má segja, að komi vatn úr hverri átt og það eigi lítið. Renna þar saman allar leysingakvíslir, er koma sunnan með öllum Bláfjöllum og hraunum og heiðum þar í kring, einnig með Vífilfelli að austan og norðan. Verður þá yfir allt Sandskeiðið og Fóelluvötnin einn hafsjór, enda sýndi það sig best, veturinn eftir að vegurinn var þar lagður, því þá gersópaðist hann svo burtu, að eftir voru kafhlaup, þar sem hann var áður. Síðan hefur þar ekki verið vegur lagður og var það hyggilegt. Að vísu er þar allgóður vegur í þurrkatíð um hásumarið, en fram eftir öllu vori er þar oft lítt fært. Fyrir ofan Sandskeiðið taka öldurnar við og er þar ekki slæmt vegstæði í sjálfu sér, en þar er svo mikið aðrennsli, sunnan úr Sauðadölum og fjöllum þar í grennd, að vegurinn hefur orðið þar fyrir miklum áföllum og er nú svo eyðilagður, að víða er hann verri en enginn vegur. En síðast og ekki síst kemur Svínahraun, er staðið hefur eins og "þrándur í götu" fyrir allri vegasmíð á þessari suður-vegsleið, með alla sína lögnu og flóknu vegargerðasögu, er væri nóg í stóra bók, og verður henni því sleppt hér.
Í fáum orðum sagt, virðist vegurinn frá hólmi upp að Kolviðarhól vera lagður um þær verstu torfærur, er voru á þessari leið og er það hrapalegt, um hinn fjölfarnasta veg upp frá sjálfum höfuðstaðnum. Þetta sýnist nú því verra, þar eð fenginn var útlendur vegfræðingur til að leggja veginn, en ætli hann hafi eða verið þá skipað að skoða, hvort ekki væri hentugra vegstæði á öðrum stað, en eitt má telja víst, að hefði vegurinn verið fyrst lagður frá Reykjavík, að þá hefði aldrei verið farið með hann suður fyrir ár, og upp í Fóelluvötn, sem nú er líka dálaglegur krókur.
Hér skal því benda á, hvar vegurinn hefði átt að liggja, eða öllu heldur, hvar hann nú ætti að leggjast, því ótrúlegt er að hann, þar, sem hann nú er líti dagsljós tuttugustu aldarinnar, og það því heldur, sem við nú höfum vegfræðing við hendina, og erum búnir að fá dálitla reynslu í vegasmíði.
Eins og áður hefur verið drepið á í blöðunum, er það nyrðri leiðin, sem af sumum hefur verið álitin betri til vegalagningar, enda er þeim óðum að fjölga, er sannfærast um, að þar hefði hann orðið að mun styttri, ódýrari og varanlegri, því á leiðinni frá Árbæ og upp að Húsmúla, eru bara tvær leysingavatns-rásir og lækurinn milli Vilborgarkost og Elliðakots, er bæði væri hægt að brúa, og eins að fara fyrir upptök hans, ef það þætti betra, en það mætti með því móti að skilja ekki suðurveginn frá Mosfellsheiðarveginum fyr en fyrir ofan Sólheimatjörn. Leysingarásirnar eru, önnur fyrir vestan Lyklafell, sem sjaldan rennur og þá örlítil, en hin fyrir austan fellið og er hún nokkuð meiri, en þó hverfandi á móti öllu því vatni, er kemur úr suðurfjallinu, er nú stendur mest hætta af, hvað veginn áhrærir. Að nyrðri leiðin sé styttri, getur hver meðalgreindur maður séð og þó ekki sé mælingafróður, því frá Árbæ upp í Hellisskarð, er línan hér um bil um Elliðakot, Lyklafell og norðan til á öldunum, en bein lína milli tveggja punkta er þó stysti vegur.
Væri nú ekki ráðlegt, að þingið léti vegfr. Sigurð Thoroddsen rannsaka vegarstæði á nyrðri leiðinni, áður en veitt væri stórfé til viðgerðar suðurveginum enn á ný, því þó gert væri við hann all-rækilega síðastl. sumar á pörtum, þá er þó efri hlutinn í mesta óstandi, helst öldurnar, er ekki mundi veita af nokkrum þúsundum krónum til viðreisnar. Sumum þótti nú kannske nokkuð í ráðist, að hætta nú við suðurveginn, en slíkt er þó varla áhorfsmál, því þó búið sé að verja til hans allmiklu fé, þá er því þó alls ekki á glæ kastað. Fyrst hefur vegurinn verið til mikils hægðarauka og að öðru leyti hefur féð að mestu leyti runnið í hendur landsmanna sjálfra. En úr því við höfum ekki peninga til vegabóta, nema af skornum skammti, ætti þeim helst að vera varið þar, er traustast yrði með framtíðinni, en ekki fleygt út til eins fávíslegrar vegagerðar, eins og suðurvegurinn er, því á þeim stað, sem hann er nú, verður hann fyr eða síðar dæmdur ófær.
E.


Ísafold, 18. maí 1895, 22. árg., 43. tbl., bls. 171:
Erlendur Zakaríasson er farinn með vegagerðarflokk til að ljúka við veginn yfir Hellisheiði.

Vegagerð.
Í gær lagði fyrsti vegagerðarflokkurinn af stað héðan, upp á Hellisheiði, undir forustu Erlends Zakaríassonar. Þeir verða yfir 40 í hóp og eiga að ljúka við það sem eftir er af leiðinni, háheiðina, um 5 rastir, og að því búnu að gera veg frá því skammt fyrir neðan Kamba og austur yfir Varmá, sem mun vera nær 3 röstum. Verði þessari vegagerð, alls 1 mílu vegar, lokið fyrir haustið, eins og til stendur, er loks komin akbraut alla leið frá Reykjavík austur að Ölfusárbrúnni, að fráskildum nokkrum spöl fram með Ingólfsfjalli, þar sem er aðeins reiðvegur, og með því móti að umbættur sé Svínahraunsvegurinn (borið ofan í hann á löngum kafla, að minnsta kosti).


Ísafold, 18. maí 1895, 22. árg., 43. tbl., bls. 170:
Greinarhöfundur er hlynntari Fagradalsvegi en uppsiglingu í Lagarfljótsós.

Uppsigling um Lagarfljóssós m.m.
Í "Austra" hefir herra alþm. Jón Jónsson í Bakkagerði ritað meðal annars um uppsigling Lagarfljótsóss. Þar (í 3. tölubl. þ. á.) gjörir hann sér far um að snúa útúr fyrir "gömlum Héraðsbúa", er hann hyggur muni vera sami maður sem áður hefur ritað um ósmálið eða samgöngumál Héraðsbúa undir nafninu "Austurlandsvinur". Fyrir höfunda þessa, sem mér eru alls ókunnugir, dettur mér ekki í hug að svara, enda munu þeir færir um það sjálfir. En greinar þeirra fara í sömu stefnu sem hugmyndir mínar um samgöngur milli Héraðs og Fjarða; vildi ég því með leyfi yðar, hr. ritstjóri, mega leggja þar orð í belg.
Fyrir 9 árum reit ég grein í gamla "Austra" um Fagradalsveginn ("Dalbúi") að miklu leyti fyrir hvatir cand. phil. Páls heit. Vigfússonar á Hallormsstað; og hefir enginn orðið til að mótmæla henni með ástæðum. Er ég enn sömu skoðunar um nauðsyn þess vegar sem hins eina áreiðanlega í því efni. En um uppsigling Lagarfljótsóss, sem nú lítur út fyrir að sé efst á dagskrá, að minnsta kosti Úthéraðsbúa, er ég á annarri skoðun en hr. Jón í Bakkagerði. Þótt ég sé eigi af eigin sjón kunnugur ósnum, hef ég um hann sagnir kunnugra, greindra og gætinna manna, er ég óhikult trúi. Og þótt ég hafi eigi búið í Héraði, er ég fullvel kunnugur hinum miklu flutninga erfiðleikum, sem Héraðsbúar eiga við að stríða, og hefi löngum fundið sárt til þess, hve brýn þörf þeim er á betri verslunarvegum en þeir nú hafa. En því miður óttast ég, að von sú, er þeir gjöra sér um Lagarfljótsós sem aðalverslunarveg, reynist tálvon. Það sem einkum veldur ótta mínum er brimið og hafísinn.
Sæta verður landátt til að komast að ósnum. Sé hafátt, er oftast brim, og er þá eigi skipum fært að liggja á rúmsjó og afferma þar. En að hleypa inn í ósinn, þegar svo á stendur, mundi engum þykja fýsilegt, enda mundi þá eigi vandalaust að kanna dýpið eða hitta á, hvar állinn er dýpstur, þar sem brimið breytir honum á hverri stundu fram og aftur. En hafátt og brim er altítt á Austfjörðum, og það enda mánuðum saman.
Þá er hafísinn alkunnur vágestur á Austfjörðum. Liggur hann þar þrálega við land fram til sláttartíma og stundum til höfuðdags, sem kunnugt er. Þótt nú ísinn sé smjúgandi, eins og oft er, og komist yrði að ósnum, mundi hann gjöra skipi ómögulegt að liggja efri lagi við ósinn, þar sem hann rekur fram og aftur fyrir straumunum.
Engri átt nær það, að miða við næstliðið sumar, sem var svo einstakt að veðurblíðu og ró á sjó og landi; og því neitar víst enginn, að þegar svo á stendur megi takast að komast um ósinn. En það er því miður svo sjaldgæft, að menn eigi því að fagna. Þó kunna þeir, er yst búa á Héraðinu, að geta haft gott af því að nota slík tækifæri til að ná að sér vörum; en lítið léttir það fyrir Upphéraðsbúum.
Því mun og eigi neitað, að með nógu fé muni kleyft að "yfirvinna torfærurnar við Steinbogann", byggja vöru geymsluhús við fossinn undan Kirkjubæ, leggja sporbraut upp fyrir hann, og hafa gufubátaferðir eftir Fljótinu "svo langt sem það nær"(?)! - en að hverju gagni kemur allt þetta, ef vörunum verðu eigi komið inn í ósinn allt sumarið? og þetta máske sumar eftir sumar.
Ég tel því mikið varasamt fyrir þing eða þjóð að leggja stórfé í svo ískyggilegt fyrirtæki. Síst mundi ég telja úr, að hr. kaupmaður O. Wathne nyti styrks af landsfé, ef hann beitti hinum mikla dugnaði sínum og framkvæmdarsama góða vilja þar að, er viss not gæti að orðið; væri óskandi að vér ættum marga hans líka. En þótt honum tækist að vinna stórvirki, sem svo yrði að litlum eða engum notum, tel ég honum það engan sæmdarauka. Það væri og miður farið, ef hann léti ginnast af vanhugsuðum fortölum einstakra manna, meðan hann er ekki nærri svo kunnugur sem þyrfti harðýðgi náttúrunnar hér við land.
Áður en kostað er fé að mun til að létta samgöngur Héraðsbúa, væri full þörf á, að vegfræðingur (helst Sig. Thoroddsen) skoðaði og kynnti sér allt sem að því efni lýtur, svo nákvæmlega sem unnt er.
Fagridalur er sá eini vegur milli Héraðs og Fjarða sem vafalaust getur orðið að fullum notum. Af því hann er lítið hærri en sveitirnar, sem að honum liggja, er hann oftast fær eins og þær. Hovdenak mun hafa verið honum ókunnugur; hann skoðaði aðeins heiðarnar til Seyðisfjarðar (sjá skýrslu hans í Andvara 1885), en líklega hefir honum lítið verið kunnugt um snjóþyngslin þar. Sé Fjarðarheiði að mestu snjólaus 2-3 mánuði ársins, má gott heita. Akbraut milli Héraðs og Seyðisfjarðar mundi því að litlum notum, en þar á mót yrði akbraut á Fagradal að fyllstu notum, og eigi dýrara að leggja hana þar en um flatlenda sveit. Búðareyri yrði "endastöð Fagradalsbautar" Fjarðarmegin. "Austri" gjörir skop að höfninni þar, vegna þess að gufuskip hafi slitið þar upp í aftakarokinu um árslokin; en hann ber höfninni þó óvart besta vitnisburð um leið botninn hélt eftir öllum akkerum! Hvasst getur einnig orðið á Seyðisfirði og það engu síður en á Reyðarfirði. Ég efi séð skip brjóta upp á Seyðisfirði, en það dró akkerin með sér. Og hvesst hefir á Vestdalseyrarkirkju!
Komi góður vegur um Fagradal að Lagarfljóti, hygg ég að verslunarstaður myndaðist þar, t. d. á Egilsstöðum, sem er hér um bil miðdepill Héraðsins, og mundu Héraðsmenn þá eigi þurfa lengra eftir nauðsynjum sínum að jafnaði. Þá gæti gufubátur á Fljótinu fyrir ofan oss orðið að fullum notum. Þegar svo væri komið, tæki eflaust Fljótsdalshérað öllum héruðum landsin fram að fegurð, auðlegt og fleiri gæðum
Í maí 1895.
Eyjólfur Þorsteinsson
frá Berufirði


Þjóðólfur, 21. júní 1895, 47. árg., 30. tbl., bls. 119:
Jakob Jónsson hefur ákveðnar skoðanir á því vegurinn milli brúnna á Ölfusá og Þjórsá eigi að liggja, en treystir annars Sigurði Thoroddsen verkfræðingi ágætlega.

Vegarlagningin milli brúnna.
Maður heyrir oft þeirri spurningu hreyft nú um stundir, hvar vegurinn frá Ölfusárbrú til hinnar væntanlegur Þjórsárbrúar eigi að liggja. Verða um það allskiptar skoðanir; en enginn er svo djarfur að rita eitt einasta orð um, hvar heppilegast sé að leggja veginn; ættu menn þó að láta sér annt um þetta, og oft má mann reka minni til þess að ferðast frá Þjórsárbrúarstæði til Ölfusárbrúar, þó ekki væri nema næstliðið haust. Það er auðvitað, að segja má, að hr. mannvirkjafræðingur Sigurður Thoroddsen sé einfær að ráða því einn, en ekkert finnst mér á móti því, þótt menn láti skoðanir sínar í ljósi þrátt fyrir það.
Það hefur flogið fyrir, að vegurinn milli brúnna hafi verið mældur af hr. S. Thoroddsen frá brúarstæði á Þjórsá yfir Skálmholtsheiði að Flatholti og svo fyrir utan Hróarsholtslæk, þær sem Flóinn er lægstur. Það er einkum, ef veginn á að leggja yfir heiðina á þessum stað, sem ég er hræddur um að honum verði stór hætta búin af vatnsflóðum á vetrum, þar sem stundum er engri skepnu fært um nema fuglinum fljúgandi. Um annan eins vatnagang er ekki svo gott fyrir ókunnuga að ímynda sér, þegar gengið er um heiðina í þurrkatíð á sumardaginn. Mér er næst að segja, að hr. S. Thoroddsen hafi ekki verið bent á þetta, því fylgdarmaður hans hefur líka verið þessu ókunnur.
Hr. S. Thoroddsen kom til mín í fyrra sumar, þegar hann var að mæla veginn, og fannst mér hann þá í nokkrum vafa um, hvort hann legði veginn fyrir ofan eða framan bæ minn; en ég gat ekki bent honum á þetta, sem ég er nú miklu kunnugri og fróðari um.
Veginn millum brúnna álít ég því betur settan frá Þjórsárbrú að Skotmannshól fyrir framan Hurðarbak og yfir Hróarholtslæk fyrir framan Vola. Ef vegurinn væri þannig lagður væru 2 vegir gerðir undir eins, þjóðvegur og sýsluvegur, frá Þjórsárbrú að Skotmannshól, og þessir vegir væru samferða sjálfsagt fulla mílu vegar. Þessa leið hefur hr. S. Thoroddsen ekki mælt, svo ég viti, en óskandi væri, að hann mældi hana í sumar, svo menn gengu úr skugga um, hvar best væri að leggja veginn, og eftir því sem hr. S. Th. hefur lagt vegi er engin ástæða til að rengja hans fyrirsögn.
Kampholti 29. maí 1895
Jakob Jónsson.


Þjóðólfur, 19. júlí 1895, 47. árg., 86. tbl., bls. 143:
Þjórsárbrúin hefur verið lagfærð.

Þjórsárbrúin.
Úr Árnessýslu er ritað 14. þ.m.; "Eins og minnst var á í Þjóðólfi í vetur var eystri stöpullinn lægri en hinn, vestan megin árinnar. Þennan halla hefur brúarsmiðurinn látið laga að ráði landshöfðingja, er fór þangað austur í því skyni, þá er smíði byrjaði. Sjálfri brúarsmíðinni miðar mjög vel áfram og er talið, að hún verði langt komin um lok þessa mánaðar. Það sem einkum flýtir fyrir verkinu er, að allar súlnagrindur eru skrúfaðar saman, en ekki hnoðaðar, eins og á Ölfusárbrúnni, enda tafði það þar mjög fyrir smíðinni. Þegar verið var að draga einn af uppihaldsstrengjum brúarinnar bilaði krókur, er hélt uppi þyngri hluta strengsins, en við það misstu fleiri taksins af honum, og féll hann við það ofan í gljúfrið. Með því að strengurinn mun vera eitthvað um 5-6000 pd. leist mönnum ekki á blikuna. Allt fór samt vel, því eftir 1 ½ dag var búið að ná honum upp úr alveg óskemmdum, og höfðu verkamenn sýnt við það mikið lag og dugnað. Að fráteknum 1 eða 2 eru verksmenn hinir sömu og við Ölfusárbrúna; 3 Englendingar vinna að smíðinni, en brúarsmiður Vaughan segir fyrir verkum".


Þjóðólfur, 19. júlí 1895, 47. árg., 86. tbl., bls. 143:
Einar Einarsson skrifar um veginn milli brúnna á Ölfusá og Þjórsá.

Fáein orð um veginn millum brúnna.
Í 30. nr. "Þjóðólfs" 21. f. m., stendur grein um vegalagningu millum brúnna á Þjórsá og Ölfusá, og má höfundurinn hafa almennings þakkir fyrir að vekja það mál í blöðunum, því það ætti að vera áhugamál þjóðarinnar. Höf. getur þess, að um veginn séu allskiptar skoðanir, en enginn sé svo djarfur, að rita um hann eitt einasta orð. Það er líka satt, og ber vott um mikla deyfð í jafn mikilsverðu máli. Höf. getur þess, að menn megi reka minni til vegarins millum brúnna næstliðið haust. - Það er líka sannmæli, mig rekur einnig minni til hans, því ég var einn með öðrum fleirum úr ýmsum hreppum og öðrum sýslum, sem urðum að forðast sem mest veginn út yfir Flóann. Við urðum að krækja frá brúnni á Hróarsholtslæk, (sem er fyrir utan Gneistastaði), útyfir Hraungerðisheiði fyrir norðan þinghús Hraungerðisheiði fyrir norðan þinghús Hraungerðishreppsmanna, og þar útyfir og út á "Sorta" svo nefndan. Var það lítt farandi með hesta fyrir for og grjóti, en þó var það betra en vegurinn. Síðan urðum við að fara fyrir utan alla Hraungerðisheiði bak við Bollastaði og Krók. Þá var eftir að komast yfir Krókskeldu, sem var ill yfirferðar; þó tókst okkur það um síðir, án þess að skemma hesta okkar. Á þessum vegi gengu vatnsgusurnar jafnhátt mönnunum á hestunum, skemmdu farangur okkar meira og minna og gerðu okkur sjálfa vota. Um annan veg var ekki að tala. Króksbrúin, sem lögð hafa verið í mörg hundruð krónur, var algerlega ófær; þarna höfðum við þó grasrót víðast hvar og hleyptum ei hestum okkar til muna í. Þetta hef ég mörgum sinnum farið á æfi minni í líkum ófærum og í haust, og rekur mig jafnt minni til þess í haust og áður fyrri. Það er ekki af kjarkleysi eða áhugaleysi mínu, að ég hef ekki ritað umnefndan veg fyr; á ég það höfundinum að þakka, að ég fæ nú framkvæmd til þess, og vil benda á nokkur atriði, sem gr. höf. hefur verið því miður ókunnugur. Ég er því samdóma, að hr. Sigurður Thoroddsen sé einfær að ráð því, hvar veginn skuli leggja, en jafnframt ber ég það traust til hans, að hann veiti eftirtekt bendingum kunnugra og greindra manna, hvar hyggilegast væri að leggja veginn fyrir alda og óborna; finnst mér því áríðandi, að þeir menn hefðu það hugfast, að benda S. Thoroddsen þar á veginn, sem heppilegast væri fyrir land og lýð, án þess að hafa eigin hag í fyrirrúmi, og einkum þegar vegfræðingurinn er hér jafnókunnugur þeim áhrifum, er náttúran kann að haf á vegagerðir hér um pláss, flestar ársins tíðir.
Skal ég þá fyrst tala um veginn frá Þjórsárbrú út fyrir "Flatholt". ER þá fyrst: að frá Skálmholti að Dælarétt liggur laut, sem vegurinn yrði að liggja yfir; á þeim vegi ef engin mishæð utan sú, sem Dælarétt stendur á. Þó ver það tíðum við, að vatnsflóðið, sem kemur báðu megin við Skálmholts-holt, flóir yfir þá mishæð, og þá er Skálmholt hólmi innan í vatninu og lítt fært að bænum á neina hlið.
Svo vildi ég minnast á "Launstig" fyrir utan Flatholt, sem vegurinn myndi verða að liggja yfir. Hann verðu lítt fær eða ófær í snjóflóðum og vatnagangi. Á þessum vegi ímynda ég mér, að þyrfti mjög upphleyptan veg, ef duga ætti, og stórar brýr. Hverjar torfærur eru á veginum frá Launstíg út fyrir Ölversholt, er ég ekki svo kunnugur að lýsa, en það rekur mig minni til á fyrri dögum mínum, að ég reið hvergi nærri í sí Flóanum, en frá Ölversholti og upp að Hjálmholti og var það ekki af hlaupi þá úr Hvítá. Ég ímynda mér eins og gr.höf., að veginum verði á þessum stað hætta búin, þegar Flóinn er upphleyptur af snjó og ísalögum og þar á ofan koma þessi stóru hlaup úr Hvítá, sem bæir standa ekki upp úr nema eins og smáhólar og hvergi fært yfir útflóann nema fuglinum fljúgandi. Þar á ofan sýnist mönnum nokkuð öfug stefna frá Þjórsárbr. vestan til á Hestfjall, í stað þess að stefnan milli brúnna er fyrir framan Ingólfsfjall.
Flestir óska, að vegurinn yrði lagður skammt fyrir utan Urriðafoss, nokkuð fyrir framan Kampholt og Hnaus, framan Hurðarbak og útyfir mynnið á Orustudal, - sem liggur ofan í Hurðarbaksdal - útyfir Hróarholtslæk fyrir ofan Hróarsholt og framan Vola, þaðan nálægt Sölvholtsholti; þar mun útflóinn liggja hæst; er þá farið að drag úr afli hlaupanna. - Nú sjá allir menn, að með þessum vegi eru gerðir 2 vegir undir eins, eins og höf. bendir til. Á þessum vegi þyrfti ekki stórkostlegar brýr nema á Hróarsh.læk og dálitla brú á Fosslæk. Mishæðir eru ekki miklar á þessum vegi 2-3 holt, sem eru lág. Mér finnst vegurinn á þessum stað styttri og kostnaðarminni og eins og ég áður gat um, eru 2 vegir gerðir með sömu krónunni frá Þjórsárbrú útfyrir Orustudal - fyrir norðan Önundarholt. - Einnig er það hugsandi, að hægara verði með áfangastaði á þessum vegi, fremur en hinum. Svo er ég sannfærður um, að þessi vegur yrði miklu varanlegri en sá áður nefndi, því vel get ég hugsað, að hann (efri vegurinn) yrði ófær eftir fá ár, af öflum náttúrunnar, þegar ferðamönnum lægi mest á, eins og þrátt og oft hefur komið fyrir á undanfarandi tíð.
Urriðafossi 5. júlí 1895.
Einar Einarsson.

Ísafold, 31. júlí 1895, 22. árg., 64. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá vígslu Þjórsárbrúarinnar.

Vígð Þjórsárbrúin.
Vígsluathöfnin. Mannfjöldinn. Bilun á brúnni.
Þess var til getið, er vígsludagurinn rann upp heiður og fagur, sunnud. 28. þ.m., að ekki mundu margar drógar kyrrar heima þann dag í sýslunum tveimur, sem að Þjórsá liggja, þær er tamdar ættu að heita. Svo lengi og heitt höfðu íbúar héraða þessara þráð þennan dag. Enda varð og mannfjöldinn við brúna stórum mun meiri en við Ölfusárbrúna fyrir fjórum árum, þótt mikill þætti þá. Hafði samt rignt nokkuð frá morgni í Rangárvallasýslu, svo bjart og blítt sem var vestar, - og líklega margir sest aftur fyrir það. Tók og að rigna við brúna sjálfa nokkrum tíma áður en vígsluathöfnin hófst og stóð fram um miðaftan.
Landslag er mun ófegra við Þjórsárbrúna en hjá Selfossi: bratt holt að ánni austan megin, ekki nema hálfgróið, en vestan megin mosaþúfnapælur með örsmáum graslautum á milli. Rennur áin sjálf þar í alldjúpum farveg. Hálfgerðu gljúfri, í stríðum streng og ægilegri miklu en hjá Selfossi, og er miður að ganga að brúnni beggja vegna um vegleysu, ólíkt því sem var við Ölfusárbrúna, þegar hún var vígð. Sér tilsýndar aðeins á yfirbygging brúarinnar.
Til þess að mannsöfnuðurinn kæmist allur á einn stað, var fólki austan að hleypt vestur yfir brúna fyrir fram, þótt lokuð ætti að heita.
Við Ölfusárbrúna var sjálfgerður ræðupallur ágætur, þar sem var hin mikla vegarhleðsla út af austurenda brúarinnar, 6-7 álna há. En hér fékkst eigi annar hentugri ræðustóll en tóm sementstunna, er stóð á akkerishleininni vestari, sem má heita jöfn jarðveginum í kring. Virðist hefði mátt hafa dálítið myndarlegri umbúnað í því skyni, með eigi miklum tilkostnaði.
Landritarinn, hr. Hannes Hafstein, hóf ræðu sína, þá er hér fer eftir, kl. 4. Að henni lokinni, á tæpri hálfri stundu og eftir að leikin var því næst á sönglúðra Ölfusárbrúardrápan (H. Hafsteins) af hr. Helga Helgasyni og söngflokk hans, gengu þau fyrst út á brúna, landshöfðingjafrúin, landritarinn og brúarsmiðurinn, en frúin klippti um leið í sundur með silfurskærum silkiband, er strengt var yfir brúarendann í slagbrands stað. Eftir það hóf mannþyrpingin göngu út á brúna, eftir því sem hlutaðeigandi lögreglustjórar með aðstoð nokkurra tilkvaddra manna afskömmtuðu strauminn í hlífðarskyni við brúna. Fulla klukkustund stóð á því, að mannfjöldinn kæmist yfir um, og varð þó fjöldi afhangs, sem ekki hirti um það að sinni.
Tala mannfjöldans við brúna reyndist um 2300, að því er þeir komust næst, er töldu bæði yfir brúna og einnig smáhópa þá, er afhlaups urðu. (Við Ölfusárbrúna aðeins 1700). Flest var fólk þetta úr nærsýslunum tveimur, en auk þess eigi allfátt úr Reykjavík og nokkuð austan úr Mýrdal.
Það mun hafa verið þegar fólksstraumurinn hóf rásina vestur yfir aftur og varð þá heldur ör, er þeir, sem stóðu upp á akkerishleininni að austanverðu, lúðrasöngflokkurinn og fleiri fóru að verða varir við eitthvert kvik undir fótum sér. Akkerishleinin, sementssteypustöpull í brekkunni eystri, er vega á salt á móti brúnni og öllu því sem á henni er, var farin að rugga lítið eitt fram og aftur, eftir mismunandi þyngslum á brúnni; reyndist með öðrum orðum heldur létt. Sigið mun brúin og hafa sjálf ofurlítið, eða réttara sagt farið af henni bungan upp á við, sem enn helst á Ölfusárbrúnni, en án þess að þeir sem á brúnni voru staddir yrðu þess varir og því síður að neinn almennur felmtur fylgdi. Þau missmíði sáust og á eystri járnsúlunum, er halda uppi brúarstrengjunum, að loft kom undir stéttina undir þeim, eystri röndina, sem svo svaraði ¾ þuml. - Brúarsmiðurinn mun hafa þegar daginn eftir tekið til að umbæta þetta, með því meðal annars að hlaða ofan á akkerishleinina, til þess að auka þyngsli hennar.
Lýsing brúarinnar.
Þetta er hengibrú, eins og á Ölfusá, úr eintómu járni; lengdin milli brúarstöplanna 256 fet ensk, 4 fetum meiri en aðalhafið er á Ölfusárbrúnni, en þar er enn fremur meira en 100 feta haf á landi, sem brúin nær einnig yfir, og er því Ölfusárbrúin í raun réttri nær þriðjungi lengri. Þjórsárbrúin er breiðari en hin, 10 ½ fet milli handriðanna, sem einnig eru nokkuð hærri, 2 álnir og miklu meira í þau borið, krossslár og bogar af járni. Brúarstrengjunum, 3 hvorum megin, af margþættum járnvír undnum, halda upp 26 feta háar járnsúlnagrindur, er mjókka upp á við, 4 alls, 2 við hvorn brúarsporð, en skammbiti sterkur á milli þeirra hvorra tveggja ofan til frekari styrktar; "Eystri súlurnar standa á 8-9 álna steinstöplum, sementeruðum, en að vestanverðu er sú hleðsla ekki nema 1-2 fet, með því að þar liggur hamar að ánni. Haf er talsvert meira undir brúna frá vatnsfleti en á Ölfusá, á að giska fullar 16 álnir. Trébrú tekur við að austanverðu af járnbrúnni upp að brekkunni fyrir ofan, 10-11 álna löng, á leið upp að akkerishleininni þar. Eins og kunnugt er, þá er jafnan á hengibrúm uppihaldsstrengjum fest í akkeri, sem greypt eru neðst niður í þar til gerða sementssteypustöpla.
Brúin sjálf á Þjórsá er öllu traustari að sjá og verklegri en sú á Ölfusá, en annar umbúnaður hvergi nærri eins mikill né traustlegur, einkum stöplahleðsla mjög lítil hjá því sem þar er. Er þó Þjórsárbrúin talsvert dýrari, svo að brúarsmiðurinn virðist hljóta að hafa grætt vel á verkinu, í stað þess að sá sem hina tók að sér, hr. Tr. Gunnarsson, tapaði til muna á því.
Ræða landritarans.
Hann kvað landshöfðingjann, er eigi hefði getað komið sjálfur vegna annríkis við þingið, hafa falið sér að bera kveðju sína mannfjölda þeim, er hér væri saman kominn í dag til þess að hefja umferð um þessa nýju brú, þetta glæsilega, mikla mannvirki, er nú blasti við augum manna, fullgert fyr en nokkurn varði.
Þess hefði verið óskað, þegar Ölfusárbrúin var vígð fyrir tæpum 4 árum, að sú gersimi hefði líka náttúru og hringurinn Draupnir, ef af drupu átta gullhringar jafnhöfgir níundu hverju nótt. Þetta virtist hafa orðið að áhrínsorðum, þar sem síðan hefðu verið brúaðar eigi allfáar ár og miklar torfærur þessa lands (Hvítá í Borgarfirði á 2 stöðum, Héraðsvötnin eystri, m. m. ), og nú bættist við þetta nýja stórvirki, Þjórsárbrúin, sem enginn mundi telja óhöfgari dýrgripnum hjá Selfossi. Mætti því með sanni segja, að Ölfusárbrúin markaði nýtt tímabil í samgöngu-sögu þessa lands.
Því væri að vísu fjarri, að hugmyndin um brúargerð á Þjórsá væri sprottin upp eða fædd af brúargerðinni á Ölfusá. Þær brýr hefðu báðar lengi átt sameiginlega sögu, meðan þær hefðu aðeins verið hugmynd ein, borin fram af þörf og þrá.
Ræðum. rakti því næst lauslega undirbúningssögu brúnna: vakið máls á þeim á almennum fundi í Rangárvallasýslu 1872, sendiför Vinfeld-Hansens hingað 1873 að rannsaka brúarstæðin, bænarskrá til þingsins 1877 um 168.000 króna fjárveiting úr landssjóði til brúnna beggja, sem þá þótti of mikið í ráðist, samþykkt á þingi 1879 að veita 100.000 kr. lán úr viðlagasjóði til þeirra gegn endurborgun á 40 árum af 4 næstu sýslufélögum og Reykjavík, en lægsta tilboð um verkið, sem þá fékkst varð 192.000 kr.; eftir það hætt við að hafa báðar brýrnar í taki í einu, heldur stungið upp á á þingi 1883 að brúa aðeins aðra ána (Ölfusá) í senn, en láta hina bíða betri tíma, og lauk svo, sem kunnugt er, að brú komst á Ölfusá 1891, eftir mikla erfiðleika og fyrir lofsamlega framgöngu ýmissa góðra manna.
Svo ríkt sem það hefði verið í huga mönnum áður, að þörf væri á brú á þetta þunga og volduga vatnsfall, sem nú stæðum vér hjá, þá hefði það ekki verið síður eftir að Ölfusárbrúin var komin á, og menn reyndu þann ómetanlega hagnað og létti, sem er að slíkri samgöngubót. Hin almenna gleði þjóðarinnar yfir Ölfusárbrúnni og aukið traust á mátt sinn og megin hefði og gert hana fúsari og áræðnari til fleiri stórvirkja. Hér um bil 4 mánuðum eftir að Ölfusárbrúin var komin á hefði ráðgjafinn tilkynnt landshöfðingja, að Ripperda mannvirkjafræðingur, sá er eftirlit hafði við Ölfusárbrúna, meðan hún var í smíðum, og þá átti kost á að heyra, hve mikið áhugamál mönnum var að fá einnig brú á Þjórsá, hefði boðist til að gera uppdrætti og áætlanir um slíka brú, hjá Þjótanda, og þá þegar með vorinu hefði landshöfðingi tekið til að gera ráðstafanir til að kannað væri brúarstæðið, byggingarefni í brúarstöpla o. s. frv. Tilboð voru fengin, og yfir höfuð hið mesta kapp lagt á, af stjórnarinnar hálfu, að hafa málið sem best undirbúið undir næsta alþingi, 1893, er samþykkti síðan tafarlaust frumvarp stjórnarinnar hálfu, að hafa málið sem best undirbúið undir næsta alþingi 1893, er samþykkti síðan tafarlaust frumvarp stjórnarinnar um 75.000 kr. fjárveitingu úr landssjóði til þessa fyrirtækis, - í stað þess að hann greiddi aðeins 2/3 af Ölfusárbrúarkostnaðinum. Frumvarp þetta hlaut staðfesting konungs rúmum hálfum mánuði eftir þinglok, 16. sept. 1893, og síðan bráðlega tekið tilboði því um brúarsmíðið, er best þótti, en það var frá verkvélasmíðafélagsins Vaughan & Dymond í Newcastle, er þegar var orðið góðkunnugt hér á landi fyrir smíði sitt á Ölfusárbrúnni og alla frammistöðu þar. Tók félagði að sér brúarsmíðið að öllu leyti, bæði stál og stein, fyrir umsamið verð og lét í fyrra sumar reisa stöplana undir brúna og samsumars flytja hana sjálfa til Eyrarbakka, en þaðan var hún flutt upp að brúarstæðinu í vetur sem leið. Síðan kom Vaughan mannvirkjafræðingur sjálfur hingað í vor, og hefi stjórnað allri vinnunni við brúna hér í sumar, og rekið hana með þeim dugnaði og atorku, sem allir sá, að brúin er nú fullger til afhendingar og afnota fyrir almenning frekum mánuði en smíðinni þurfti að vera lokið eftir samningnum.
Þannig er þá hugsjón þeirra manna, er fyrir frekum 20 árum hófu upp tillöguna um, að brúa Þjórsá og Ölfusá, og báru mál það fram þing eftir þing, orðin að öflugri smíð úr stáli og steini. Þessar þjóðkunnu systur, þessar þóttafullu og blendnu heimasætur Suðurlandsins hafa loks orðið að brjóta odd af oflæti sínu og taka festum af tignum brúðguma; framfaraanda og framkvæmdaþrótti þessa lands. Önnur samlíking ætti þó betur við. Þær væru, þessar jötunbornu systur, eins og glófestar ótemjur, fjörugar og ferðamiklar, er geystust áfram með flakandi mökkum, fnasandi nösum og háværum jódyn. Nú hefði loks tekist að koma við þær beisli með stengum úr ensku stáli og stríðum strengjum. Nú gæti hvert barn farið ferða sinna fyrir þeim hvort heldur væri sumar eða vetur.
Þessi brú, sem tengir saman tvö mikils háttar héruð, frjósöm og sögufræg, Árnessýslu og Rangárvallasýslu, er eitt hið mesta jökulvatn þessa lands hefir sundur stíað frá alda öðli, hún jartegnar mikinn sigur, sigur yfir fátækt og erfiðleikum, en sérstaklega sigur yfir ýmsum óheillavænlegum og rótgrónum hleypidómum, um vanmátt, örbirgð og uppblástur þessa lands. Hver sigur í líka átt og þessi sýnir, að landið getur gróið upp, er að gróa upp, mun gróa upp og skal gróa upp. Til þess að landið grói upp, þarf aðeins sameinaða kraft, þor, þol og vilja til að verma og græða. Það er ótrúlegt, hverju góður vilji og traust getur til vegar komið, hvern árangur það getu haft, að keppa jafnan áfram og upp á við, þótt ekki sjái fram úr í fyrstu.
Mér kemur til hugar frásaga þjóðsnillingsins norska, Björnstjerne Björnssons, um það, hvernig lyngið og fjalldrapinn fóru að hylja fjallshlíðina, og hvað þau sáu, þegar þau voru komin alla leið upp á brún. - Það var í djúpum dal og eyðilegum. Eftir dalnum rann straumhörð grjótá og köld. Háar fjallshlíðar báðum megin, berar og naktar, urðin tóm. Í litlu rjóðri niður við ána stóðu eftir frá fyrri tímum nokkra tóar af fjalldrapa, eini og björk, og svo ein útlend hrísla, sem hafði verið gróðursett þar í fyrndinni. Þau þorðu varla að líta upp til hlíðarinnar auðu og beru, áttu þaðan feigðar von: að einhver skriðan rifi þau upp eða bældi þau undir sig, eins og systkin þeirra hin eldri. En þá var það einn dag, er sól skein hlýtt á fjalldrapann, að honum kom nokkuð nýtt í hug. Hann vék sér fyrst að útlenda viðinum, sem var álitlegastur til framkvæmdar. "Eigum við ekki að reyna að klæða fjallshlíðina?! sagði hann við útlenda viðinn. En hann hristi höfuðið og kvað það óðs mann æði. Þá sneri hann sér að eininum og bar upp sömu tillöguna við hann. Hann tók þegar vel í það, og björkin eins. Svo fóru þau að reyna að fikra sig upp á við, teygði eina rót ofurlítið upp fyrir sig, upp í melinn, kolsvartur fjalldrapinn fyrst og hinn gróðurinn á eftir. Þau áttu mikla erfiðleika við að stríða. Þegar þau voru komin upp í miðjar hlíðar, varð fjallið vart við eitthvað kvikt á sér og sendi af stað læk til þess að bita, vað um væri að vera. En lækurinn reif upp allan nýgræðinginn og hrakti það niður í dalverpið aftur. Fjalldrapinn lét þó ekki hugfallast, hann skoraði aftur á eininn og björkina að klæða hlíðina, og þau fóru aftur af stað, á sama hátt og fyr, hægt og hægt, með sama áformi og fyr: að komast alla leið upp á brún. Og það tókst að lokum. En þegar þau voru loks komin upp á brún, þá gaf þeim á að líta. Þar var allt eintómur iðgrænn skógur, svo langt sem augað eygði, og sjálf voru þau búin að klæða alla fjallshlíðina, svo að nú var allt eintóm samföst gróðurbreiða. Svona er það að keppa upp og áfram, og láta eigi hugfallast. Hér er margar hlíðar að klæða, mörg flög að græða; en hér er einnig til lyng og fjalldrapi, einir og björk, sem ef til vill komast upp á fjallið, ef þau reyna með þolinmæði og villa ekki fyrir sér að færast stórvirki í fang.
Þau standa föst og óhögguð, orð skáldsins:
--- " Eyjan hvíta
á sér enn vor, ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista,
hlýða réttu, góðs að bíða.
Fagur er dalur og fyllist skógi,
og frjálsir menn, þegar aldir renna."
"Þegar aldir renna". Já, en hversu margar aldir eiga að renna, hversu langur tími á að líða? Það er vitaskuld ekki að öllu undir mönnum komið, en svo mikið er víst, að reyni mennirnir ekki að leita upp á við og áfram, eins og fjalldrapinn, einirinn og björkin, þótt upp á óvissu sé, þá fyllist dalurinn aldrei skógi.
Hver veit nema þess veðri ekki eins langt að bíða og sumir hyggja, að Ísland komist nokkuð inn í framfara- og framkvæmdastraum aldarinnar, eins og önnur lönd. Hver veit nema þess sé ekki ýkja langt að bíða, að vér eins og aðrar þjóðir hugsum jafnvel hærra en það, að komast klakklaust yfir árnar, hugsum til þess að beisla vorar voldugu ótemjur, ár og fossa, til vinnu, til þess erfiða, verma og lýsa. Hver veit nema einhvern tíma takist að hefta uppblástur og eyðing af sandi, - nema dalurinn fyllist skógi.

Ýmsir munu vilja kalla þetta ekki annað en hugarburð, óljósar rótlausar vonir. En svo framarlega sem þjóð vor og land er háð sama framfaramáli og aðrar þjóðir og önnur lönd, verður þetta meira en hugarburður. Von er upphaf alls góðs, þess er mönnum er sjálfrátt. Upp af henni sprettur áhugi, af áhuga vilji, af vilja kraftur. En vonleysi drepur allan kraft og kjark. Jafnframt vonglöðu trausti og trú á æðri vernd og varðveislu þurfum vér aðra trú:
Vér þurfum trú á mátt og megin
á manndóm, framtíð, starfsins guð,
þurfum að hleypa hratt á veginn,
hætta við víl og eymdarsuð.
Þurfum að minnast margra nauða,
svo móður svelli drótt af því,
þurfum að gleyma gömlum dauða
og glæsta framtíð seilast í.
Um leið og ég í umboði landshöfðingja votta brúarsmiðnum, hr. Vaughan, þakkir fyrir framkvæmd hans og óska honum góðrar heimkomu eftir farslælega lokið starf, skal ég að lokum geta þess, að svo er um samið milli hans og landsstjórnarinnar, að áður en brúnni sé veitt viðtaka til fullnustu, skuli reyna hana með jöfnum þunga, er nemi 80 pundum á hvert ferh.fet. og skal þá þungi hvíla á henni í 2 daga. Haggist þá nokkuð um bætir brúarsmiðurinn það á sinn kostnað. En með því að svo atvikaðist, að bæta þurfi ofan á stöpulinn í sumar og sú viðbót er ef til vill ekki búin að ná þeirri hörku sem hún nær síðar, hefir þótt réttara að fresta þeirri prófun um sinn. Reglur fyrir umferð um brúna hefir landshöfðingi sett samhljóma þeim við Ölfusá, og falið sýslumönnum Árnesinga og Rangvellinga fyrir sýslunefndanna hönd, að sjá um gæslu brúarinnar í bráð, þar til er fullnaðarráðstöfun verður gerð um það atriði.
Að svo mæltu lýsi ég því yfir í umboði landshöfðingja, að brúin á Þjórsá hjá Þjótanda er upp frá þessu frjáls til umferðar fyrir almenning, og vona ég að allir viðstaddir séu samhuga í því, að biðja guð að halda verndarhendi sinni yfir þessu mannvirki, blessa framfaratilraunir þjóðarinnar og þetta land, fósturland vort.


Þjóðólfur, 2. ágúst 1895, 47. árg., 88. tbl., bls. 150:
Hér segir frá vígslu Þjórsárbrúarinnar.

Vígsla Þjórsárbrúarinnar.
Næstl. sunnudag 28. júlí var brúin á Þjórsá milli bæjanna Þjótanda og Urriðafoss vígð af Hannesi Hafstein landritara í umboði landshöfðingja, eins og gert var ráð fyrir. Þótti sumum kynlegt, að landshöfðingi sjálfur skyldi ekki fara austur þangað, með því að svo lítið var að gera á þinginu um það skeið. Sjö þingmenn fengu faraleyfi af þingi og voru viðstaddir athöfn þessa, nfl. Einar Jónsson, Guttormur Vigfússon, Jón Jónsson (í Bakkagerði), Jón Þórarinsson, Klemens Jónsson, Sighvatur Árnason og Þórður Guðmundsson. Allmargt fólk úr Reykjavík reið og austur þangað til skemmtunar, en lengst að austan komu menn úr Mýrdal. En auðvitað var allur þorri mannfjöldans úr Árness- og Rangárvallasýslum. Taldist svo til, að um 2500 manna væru samankomnir við brúna, þá er vígslan fór fram (en 1700 voru við vígslu Ölfusárbrúarinnar). Veður var gott fyrri hluta dagsins, en um kl. 2 fór að rigna, og spillti það nokkuð skemmtuninni, en ekki til muna, því að brátt stytti upp og var besta veður um kveldið. Þá er klukkan var 4 steig Hannes Hafstein á ræðupallinn, og hélt snjalla ræðu. Skýrði hann fyrst frá því, að landshöfðingi hefði falið sér á hendur að tala nokkur orð um leið og þetta glæsilega mannvirki væri opnað til umferðar fyrir almenning, og kvaðst eiga að flytja héraðsbúum kveðju landshöfðingja og stjórnarinnar. Sagði, að þess hefði verið óskað, er Ölfusárbrúin var vígð, að hún mætti verða eins og hringurinn Draupnir, er 8 gullhringar jafnhöfgir drupu af níunda hverja nótt, og þessi ósk hefði að nokkru leyti ræst, því að síðan 1891 hefðu verið byggðar margar brýr, þótt ekki væru þær jafn glæsilegar sem Ölfusárbrúin, t.d. brúin á Hvítá í Borgarfirði hjá Kláffossi, brúin á Austur-Héraðsvötnin í Skagafirði o. fl. Bæri þetta vott um, að nýtt tímabil væri að myndast í samgöngumálum landsins. Saga brúanna á Ölfusá og Þjórsá væri sameiginleg, hefði hinn núverandi 1. þingm. Rangvellinga, Sighvatur Árnason, fyrst hreyft því á fundi í Rangárvallasýslu 1872, að þessar ár væru brúaðar. Rakti ræðumaður því næst stuttlega sögu brúamálsins frá þeim tíma, og gat þess, hversu fljótt hefði verið undinn bugur að því, aðkoma brúnni á Þjórsá, þá er brúin á Ölfusá hefði loks verið fengin eftir langa mæðu; kvað yfirsmiðinn Mr. Vaughan hafa sýnt mikinn dugnað við verkið, hefðu að eins 2 aðrir enskir menn unnið að þessu með honum, en hitt væru allt Íslendingar, og væri Vaughan mjög ánægður með þá. Lagði ræðumaður áherslu á, að íslendingar hefðu nú aflað sér allmikillar þekkingar við verk þetta, og væri það harla mikilsvert. Hugsjónin, er vakað hefði fyrir mönnum um nauðsyn þessarar brúar yfir eitthvert hið mesta jökulvatn á landinu væri nú framkvæmd í verki með ramgervu smíð af stáli og steini, er tengdi saman með traustum strengjum 2 sýslur. Kvað hann mega líkja Ölfusá og Þjórsá við tvær heimasætur, er nú hefðu sett upp trúlofunarhringi, er framfarahugur og framtíðartrú Íslendinga hefði smeygt á þær, en það mætti einnig líkja þeim við tvær glæsilegar, glófextar ótemjur, er áður hefðu verið óviðráðanlegar og gert mikið ógagn, en loks hefði þó tekist að koma á þær beisli með stengum úr ensku stáli o.s. frv. Brú þessi táknaði sigur yfir hleypidómum og vantrú mana á framtíð landsins, sýndi það, að þjóðin hefði mikinn þrótt í sér fólginn, væri á framfaraskeiði en alls ekki að fara aftur. Kenningar sumra manna um, að landið væri að blása upp væru á engu byggðar, það væri að gróa upp og dáð og dugur að eflast hjá þjóðinni; að vísu væru framfarirnar nokkuð hægfara, en við öðru væri ekki að búast, með því að við mikla örðugleika væri að berjast. Það þyrfti að sameina kraftana, þá miðaði fyrst áfram. Sagði, að smásaga nokkur eftir norska skáldið Björnstjerne Björnsson ætti vel við þetta land, sagan um fjalldrapann, er í sameiningu við lyngið klæddi hina nöktu fjallshlíð, svo að hún varð loks öll gróðri þakin, þrátt fyrir tilraunir fjallsins til að hrista af sér þetta, sem var að skríða upp eftir því, en þolinmæði fjalldrapans og lyngsins til að fikra sig upp eftir fjallinu allt upp á brún hefði loks unnið sigur. Rakti ræðumaður þá sögu greinilega, sagði, að íslenska þjóðin ætti að fara eins að, ætti að reyna að komast " upp á brúnina", og ekki að láta hugfallast, þótt seint gengi. Þá mundu þeir tímar koma, að öðruvísi væri umhorfs hér á landi, þá mundu orð skáldsins rætast, að "eyjan hvíta á sér enn vor" o. s. frv. "Fagur er dalur og fyllist skógi og frjálsir menn þegar aldir renna". En hversu margar aldir ættu að renna, hversu lengi ætti að bíða eftir þessu? Að vísu vantaði oss menn til að gangast fyrir þessu, en ef vér notuðum ekki lyngið, notuðum ekki þá litlu krafta, sem vér hefðum. þá kæmumst vér aldrei neitt áleiðis upp eftir. Hér væri nóg að starfa, nógar hlíðar að klæða, og vér hefðum nóg lyng, nógan fjalldrapa til þess. Aðalatriðið væri, að hver þjóð hefði trú á mátt sinn og megin, og vér ættum að gleðjast yfir hverju, sem til framfara horfði m. fl.
Að lokum mælti hann nokkrum þakkarorðum til Mr. Vaughan, er ekki hefði verið hræddur við, að ráðast í þessi fyrirtæki hér, þótt þau gæfu honum ef til vill ekki jafn mikinn arð, sem önnur samkynja stærri fyrirtæki annarsstaðar. Sagði hann að reyna ætti brúna með 80 pd. á hvert erh. fet, en því yrði frestað til næsta árs, og þá yrði brúnni að fullu skilað úr ábyrgð yfirsmiðsins. Það hefði ekki þótt tiltækilegt, að gera þessa reynslu nú þegar. Að svo mæltu kvaðst hann afhenda brúna hlutaðeigandi sýslunefndum til gæslu og lýsa því jafnframt yfir, að brúin á Þjórsá hjá Þjótanda væri opnuð til umferðar fyrir almenning, jafnskjótt sem landshöfðingjafrú (Elín Stephensen), er þar var stödd, klippti í sundur silkiband það, er spennt væri yfir þvera brúna.
Þá gekk landshöfðingjafrúin fram og klippti sundur bandið með silfurskærum, er smíðuð höfðu verið til þessa og kostuðu um 90 krónur(?) Hafði félag það á Englandi, er stendur fyrir brúarsmíðinni gefið skærin í þessum tilgangi. Var ekki trútt um, að sumum þætti klipping þessi með silfurskærunum fremur skopleg og hégómleg. Hr. Helgi kaupm. Helgason og söngflokkur hans þeytti á lúðra Ölfusár-brúardrápu H. Hafsteins, með því að ekkert nýtt kvæði hafði ort verið. Að því búnu hóf mannfjöldinn göngu sína austur yfir brúna í allgóðri reglu og með tilsjón viðstaddra lögreglustjóra o. fl. manna, er gættu þess, að of margir ryddust ekki út á brúna í senn. Um það leyti, sem mannfjöldinn tók aftur að fara vestur yfir, urðu menn þess varir, að sementssteypustöpullinn, eða akkerishleinin í brekkunni að austanverðu, aðalmótspyrnan gegn þyngslum brúarinnar og því sem á henni er, tík að rugga dálítið fram og aftur og lyftist upp svo sem svaraði 2 þuml., þeim megin er að brekkunni vissi, jafnframt því sem eystri röndin á stéttinni undir járnsúlum þeim, er halda brúarstrengjunum uppi, lyftist upp svo sem svaraði 1 ½ þuml., þannig að skrúfurnar í umgerðinni losnuðu upp úr múrnum, svo að vel mátti á milli sjá. Þá er þessa varð vart, var tekið að stöðva strauminn yfir brúna, svo að sem fæstir gengju í senn, og tókst það nokkurn veginn einkum fyrir ötula framgöngu sýslumannsins í Rangárvallasýslu, Magnúsar Torfasonar. Þó sló engum verulegum flemtri á fólkið. Þessi athugaverða bilun á brúnni stafaði eflaust ekki af því, að sementið væri ekki orðið nógu hart, heldur blátt áfram af því, að akkerisstöpullinn er of léttur, of veigalítill, og ekki nógu vel frá honum gengið í hallanum, hefði þurft að vera miklu stærri og traustari, enda töluðu ýmsir um það, áður en vígslan fór fram, hversu umbúnaðurinn að austanverðu virtist lítilfjörlegur, og stöplarnir litlir í samanburði við Ölfusárbrúarstöplana. En Mr. Vaughan þykist geta gert við þetta svo traust verði. Betur að satt væri. En deigari verða menn eftir en áður að treysta brúnni, og í öllu falli var bilun þessi harla óheppileg, og mikil mildi að eigi hlaust af voðaslys.
Það má heita líttfært að komast með hesta að brúnni að austanverðu sakir vegleysu, því þar er bratti mikill og blautt mýrarfen, niður að ánni. Það er á sinn hátt svipuð vegleysa eins og þjóðvegurinn yfir Flóann, sem víðast hvar er miklu verri en enginn vegur.
Engum ræðupalli var slegið upp við brúna, og varð landritarinn að standa á tómri sementstunnu, er hann hélt ræðuna. Mun þessi lélegi útbúnaður hafa orðið til þess, að engir fleiri héldu þar ræður, því það mátti heita frágangssök með því fyrirkomulagi og í slíkum manngrúa. Athöfnin varð því nokkru snubbóttari en ella mundi og ekki svo hátíðleg, sem vænta mátti.
Brúin sjálf er öllu fegurri og haglegar gerð að sjá en Ölfusárbrúin, en ekki jafnstórfengleg; að öðru leyti er hún mjög svipuð henni, en hér um bil 1 alin breiðari eða 10 ½ fet millum handriðanna, sem eru hærri en á Ölfusárbrúnni, og öll úr járni með krossslám.
Eftir kl. 7 fóru menn að tínast burtu og um kl. 11 voru allir aðkomumenn farnir. - Þess má geta, að hinn elsti maður, er við þessa athöfn var staddur var séra Benedikt Eiríksson í Saurbæ í Holtum, fyrrum prestur í Efriholtaþingum, og er hann nú hartnær níræður (f. 1806) og annar elsti skólagenginn maður á Íslandi. Er hann frábærlega ern eftir aldri.


Ísafold, 3. ágúst 1895, 22. árg., 65. tbl., bls. 260:
Hér birtist yfirlýsing verkfræðinga um að misfellur á Þjórsárbrúnni hafi nú verið lagfærðar.

Þjórsár-brúin.
Við undirritaðir Ingenieurar við Þjórsárbrúna lýsum því hér með yfir, að hinar litlu misfellur, sem urðu á öðrum akkersstöplinum vígsludaginn og sem orsökuðust af hinum mikla manngrúa, er var á brúnni, er nú lagfærður og stöpullinn mun nú verða miklu sterkari en áður.
Urriðafossi 30. júlí 1895
Wm. Vaughan. Sig. Thoroddsen.


Austri, 10. ágúst 1895, 5. árg., 22. tbl., bls. 86:
Greinarhöfundur telur Norður-Þingeyinga hafa verið afskipta í samgöngumálum.

Hvar liggur samgöngubrautin um Norður-Þingeyjarsýslu?
"Á landi er hún svo smágjörð að engum hefir ennþá lukkast að sjá hana. Á sjó liggur hún nokkuð fyrir utan öll annes, og eru viðkomustaðir strandferðaskipanna ekki enn þá fundnir í sýslunni".
Þessum orðum fara gárungarnir um samgöngubæturnar í Norður-Þingeyjarsýslu. Norður-Þingeyingar mega eiga það, að þeir eru ekki uppástandssamir, en miklu fremur nægjusamir og í besta lagi þolinmóðir þó þeir hafi allt til þessa, algjörlega farið á mis við liðsinni hins opinbera til samgöngubóta af almannafé. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurntíma á prenti séð né heyrt umkvörtun frá Norður-Þingeyingum yfir því að þeir væru hafðir útundan með samgöngubætur á sjó og landi, og ég get fullyrt að þeir ekki hafa séð ofsjónum yfir opinberum kostnaði til samgöngubóta á landinu, en jafnframt búist við því á ári hverju að þing og stjórn hefði tillit til þeirra meir en á pappírnum, sem nokkurs hluta af þjóðinni, og sem aldrei gleymdist á skattheimtutímunum. Ég kvíði því ekki fyrir því að það verði kölluð hreppapólitík þó ég í þessari grein minni sérstaklega bendi til þess hve bráðnauðsynlegt það er, ef Norður-Þingeyingar eiga ekki að verða afllaus limur á þjóðlíkamanum, að þingið nú í sumar í bróðurlegri samvinnu við landstjórnina kom því til leiðar, að strandferðirnar verði í raun og veru, og meir en að nafninu til auknar svo, að skipin hafi að minnsta kosti 2 viðkomustaði í sýslunni, sem sé Þórshöfn og Raufarhöfn og komi tvisvar til þrisvar á hverja þessa höfn, fyrri hluta sumarsins á norðurleið, (austan fyrir land) og seinna, seint í júlí eða snemma í ágúst á austur leið (norðan fyrir land).
Eins og kunnugt er lagði Gránufélagið niður verslun sína á Raufarhöfn nú fyrir 2 árum; í Norður-Þingeyjarsýslu er því enginn fastur verslunarstaður til, versla því sýslubúar eingöngu við lausakaupmenn, og þó nú margt mæli með því, og ég ekki neiti því, að það sé að mörgu leyti hinn hollasti verslunarmáti, að taka þarfir sínar til ársins sem mest út í einu, þá er þó hins að gæta, að verslun þessi sem þá vanalega er rekin snemma á sumrinu, er mjög svo óhentug og stirð fyrir alla þá menn sem hafa sjávarvörn að boga með, eru því eðlilega ekki einu sinni búnir að afla það sem þeir kunna að hafa til innleggs á reikningsárinu, aukheldur að búið sé að verka vöruna. Svo og hitt, að ómögulegt er að geta þörfum sínum svo nærri, með ýmislegt smávegis, að menn ekki þurfi þess á milli að senda í kaupstað hina löngu og ströngu leið, sem verður tilfinnanlega dýrt. Eins og að framan er ávikið finna menn það glöggt að ekki verður af komist, nema hafa dálitla fasta verslun, en til þess að fullnægja þessum óvissu og ófyrirsjáanlegu þörfum manna, dygði að hafa borgara með litla verslun, en eins og nú á stendur er það ekki hugsanlegt, þar sem enginn vegur er til, að fá sér færðan vöruslatta. Eins og það er nú viðurkennt og satt að það er verslunin næst árferðinu, sem skapar til hagi manna, eins víst er það, að framför Norður-Þingeyinga er mest komin undir því að þeir fái strandferðaskipin til að koma við hjá sér.
Það er einkennilegt í þingtíðindum frá 1893, 4. hefti 552. dálki í umræðunum um lagafrumvarp um brúargjörð á Þjórsá, þar sem 1. þ.m. Rangv. Þ. G., svarar 2. þ.m. N.-M. J. J. og segir; "að það sé eigi í fyrsta sinni sem Sunnlendingar fái andmæli frá Norðlendingum gegn samgöngubótum þeirra". Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma opinberlega séð eða heyrt Norðlendinga andmæla samgöngubótum Sunnlendinga, nema ef þingmaðurinn kallar það andmæli, að vér höfum farið fram á að fá brú á Jökulsá í Axarfirði um sama leyti og Sunnlendingar fengu brú á Ölfusi, en sem ekki var þó tekið til greina. Það munnú vera hátt á 200 þúsund krónur úr landsjóði, sem varið hefur verið til brúar og vegagjörðar, og veitt er til þess á Suðurlandi, og eins og ég hefi áður sagt get ég fullyrt að Norðlendingar sjá engum ofjónum yfir þessum samgöngubótum þar, en þar á móti fagna yfir framförunum í landinu; en eftir hinu opinbera áliti á högum landssjóðs´, eða þegar maður hleypur yfir hinar alkunnu bendingar meistara E. Magnússonar í Austra, þá má þó sjálfsagt ætla að landsjóður gæti borið þann kostnað, sem leiddi af því að láta strandferðaskipin koma við í Norðurþingeyjarsýslu og verja dálitlu fé til samgöngubóta á Norðurlandi, þrátt fyrir allar samgöngubætur á Suðurlandi.
Það hefir talsvert verið bæði ritað og rætt um það, að réttast væri að láta aðalpóstleiðirnar á landinu liggja sem mest eftir sveitunum, en síður yfir fjöll og firnindi. ég get ekki betur sé en að þetta sé alveg rétt ályktað. Því skyldi ekki sá vegur sem landssjóður kostar vera þar hentugast niðurkominn, sem þjóðin á tíðastar ferðir um, og öðru lagi þar sem sýsluvegagjald og hreppavegagjald getur á mörgum stöðum fallið til sama vegarins.
Það hafa nú verið gjörðar nokkrar tilraunir til að fá aðalpóstveginn sem liggur milli Akureyrar og Austfjarða yfir fjöll uppi, færðan svo að hann lægi eftir sveitunum í kring, en þetta hefir jafnóðum mislukkast af ýmsum ástæðum, svo sem því að þá hafa eigingjarnir menn orðið til að toga aðalpóstleiðina út í kring öll annes, en það getur auðsjáanlega ekki dugað, og fyr er gylt en valið sé.
Ég vil hér með leyfa mér í 1. lagi að brýna það fyrir þinginu og stjórninni, að jafnvel þó þingi hafi nú tvívegis samþykkt að leggja fram fé til strandferða, er að mestu leyti gátu fullnægt kröfum þjóðarinnar, þá hefur þó ekkert orðið af því í framkvæmdinni. En hvort það er stjórnin sem annarsvegar telur svo til að íslenska þjóðin hafi ekki með meira frelsi að gjöra, sem þó ekki stýrir til framkvæmda þeim strandferðum sem þingið álítur að landið geti kostað, eða það er þingið sem hefir mislukkast að gjöra strandferðirnar aðgengilegar fyrir skipaeigendur, - þá er það þó víst að þetta má ekki svo búið standa, og eins og tilhagar með verslunina í Norður-Þingeyjarsýslu, er það óumflýjanlegt að strandferðaskipin séu látin koma þar.
Í 2. vil ég skora á þingið, að taka nú þegar mál það til yfirvegunar, hvort ekki sé óefað rétt að fá aðalpóstveginn fluttan af fjöllum ofan sveitir í Norður-Þingeyjarsýslu þegar það svo ómetanlega getur stutt að því, að gjöra færan veg yfir Þistilfjörð, part af Langanesi og yfir svonefnda Brekknaheiði sem allt er hálfófær vegur, og verður þegar tímar líða fram hvort sem er að kostast af landsins fé þar sem það aldrei getur orðið greiður og góður vegur af hreppa - og sýslusjóðsframlögum einum saman.
Friðrik Guðmundsson.


Ísafold, 10. ágúst 1895, 22. árg., 67. tbl., bls. 266:
Hér er fjallað um fjárveitingar til samgöngumála.

Alþingi 1895.
XI.
Fjárlögin. Aðal-umræðan um þau, 2. umr. í neðri deild, stóð dagana 6.-8. þ.m., tvo fundi á dag fyrri dagana tvo, og þrjá fundi síðasta daginn, fullar 12 stundir samtals þá - var ekki lokið fyr en kl. rúml. 2 um nóttina. Eins og vant er, urðu mestar og einna snarpastar umræðurnar um samgöngufjárveitingarnar og bitlingana, einkum Skúla-bitlingana alræmdu.
Þriðja umræða í neðri deild í dag, og kemst málið líklega á dagskrá í efri deild fyrstu dagana í næstu viku.
Samgöngufjárveitingar. Þar hafa flest allar tillögur fjárlaganefndarinnar gengið fram t. d. hvort árið 45.000 kr. til flutningsbrauta, 20.000 kr. til þjóðvega, 45.000 kr. til gufuskipsferða frá útlöndum og með ströndum landsins, 32.000 kr. til fjórðungs gufubáta, allt að 6.000 kr. fyrra árið til uppmælingar á innsiglingarleið inn á Hvammsfjörð.


Ísafold, 7. sept. 1895, 22. árg., 75. tbl., bls. 299:
Verið er að laga akkerisstöpla við Þjórsárbrúna.

Þjórsárbrúin.
Það er verið að umbæta akkerisstöplana, og fyrir nokkru lokið við hinn eystri, er sýndi sig svo greinilega of léttan brúarvígsludaginn. Hefir hann verið stækkaður um réttan helming bæði hlaðið ofan á hann og framan við hann, allt sementerað. Þar að auki hefir verið hlaðið ¾ álnar þykkri stétt sementeraðri ofan á stéttina undir járnsúlunum eystri, er vantaði undir dálítið þegar akkerisstöpullinn þeim megin fór að bifast. Loks er nú verið að ljúka við að gera vestari akkerisstöpulinn söm eða lík skil sem hinum eystri. Mun þá mega treysta því, að brúin geti alls eigi bilað á sama hátt og í sumar að minnsta kosti.


Ísafold, 12. okt. 1895, 22. árg., 83. tbl., bls. 330:
Jakob Jónsson er óhress yfir því að verkfræðingur hafi ekki tekið til greina ábendingar hans um vegastæði yfir Flóann.

Um veginn yfir Flóann.
Eftir Jakob Jónsson í Kampholti.
Ég hef áður opinberlega farið nokkrum orðum um væntanlega vegarlagningu milli Þjórsárbrúarinnar og Ölfusárbrúarinnar, og bjóst ég við að vegfræðingur sá, sem annast útmælingu vegar þessa, mundi gera einhverja athugasemd út af því eða taka bendingar mínar til greina. Sömuleiðis hefir Einar Einarsson á Urriðafossi ritað um þetta mál, í líka átt og ég, en það virðist heldur ekki hafa borið neinn ávöxt.
En þó vegfræðingurinn sé nú búinn að ákveða veginn án tillits til bendinga þeirra, sem honum hafa verið gefnar, þá vil ég þó enn fara fáum orðum um þetta þýðingarmikla mál.
Ég hef bent á, að veginn mætti leggja beinan á milli brúnna, sem hefði þá kosti í för með sér, að vegur þessi yrði miklu skemmri en efri leiðin, og nemur það að líkindum milli ¼ og 1/3 mílu, og þá lægi hann á óhultum stað fyrir vatnságangi úr Hvítá, sem hinn fyrirhugaði vegur ekki mun gera. Ef vegurinn væri lagður beinn, þá yrði auðvitað að brúa Hróarholtslæk; en ekki mundi sú brú kosta mikið í samanburði við það, hvað vegurinn yrði lengri, ef hann verður lagður þar sem vegfræðingurinn, vegna ókunnugleika, hefur nú ákveðið hann, og brýr þær, sem þeim vegi hlytu að verða samfara.
Þegar athuguð er stefna hins ný útmælda vegar, upp undir Skálmholtsholt og upp fyrir svo nefnt Flatholt, sem er meiri hlutinn af veginum milli brúnna, þá mætti ætla, að sá vegur stefni upp í Biskupstungur, en alls ekki austur að Þjórsárbrú. Á þessari leið, þar sem vegurinn á að liggja, er tíður vatnságangur úr Hvítá á vetrum af Brúnavallaflötum, sem enginn vegur getur staðið fyrir, og er auðséð, að vegfræðingurinn hefir ekki mælt hann út enn, né lagt trúnað á það, sem honum kunnugri menn hafa bent honum á viðvíkandi þessu atriðið.
Vegfræðingurinn mun treysta á lærdóm sinn, eins og vegfræðingur sá, sem lagði veginn um Sandskeiðið hjá Vífilsfelli, þrátt fyrirkunnugra manna aðvörun. En hvernig fór? Vegurinn varð ónýtur, sem enn sýnir sig.
Vegfræðingurinn munnú halda sínu striki, að leggja veginn þar sem hann hefir ákveðið , hvar sem nákunnugir menn gera til þess að aðvara hann um, að vegurinn geti ekki staðið þar, og hefir hann þá líka ánægjuna af að líta á verk sitt áður en langt um líður, og sannfærast um, hve hyggilega hann hefir þar ráðið.


Ísafold, 23. nóv. 1895, 22. árg., 89. tbl., bls. 354:
Jóhannes Þórðarson póstur óskar að stjórnvöld verji hluta vegafjár til að laga vegi á Vestfjörðum, sem hann telur ekki vanþörf á.

Póstleiðin
milli Ísafjarðar og Hjarðarholts í Dölum.
Það er alþingi hefir í sumar veitt 2.000 kr. styrk til þjóðvega hér á landi, er óskandi að nokkru af fé þessu verði varið til að gjöra við landveginn á póstleiðinni frá Ísafirði til Hjarðarholts. Það mun óhætt að telja póstleið þessa eina hina tafasömustu á landinu með því að hér um bil fjórða hluta allrar leiðarinnar verður að fara sjóveg, eða 6-7 mílur og hann slæman og hættulegan, er illa viðrar. Og þegar á land er komið, tekur við illur fjallvegur, Þorskafjarðarheiði. Hún er að sumrinu torsótt sökum stórgrýtis; ¾ hluta heiðarinnar er ekki hægt að fara greitt, ef ekki á að fara því ómiskunnsamlegar með hesta sína. Aftur á móti er ¼ hluti heiðarinnar góður vegur, sem Jón Magnússon póstur gerði fyrir nokkrum árum. Að vetrinum til tel ég Þorskafjarðarheiði mjög voðalega í slæmri tíð, með því að ekki er nokkur vegvísir (varða) á allri þeirri leið, sem er alfaravegur pósta og annarra, er leið eiga um. Sæluhús er að vísu nýuppbyggt á heiðinni, en á því er stór galli. Að vetrinum rennur í það vatn úr læk, sem er skammt frá húsinu, og þegar vatnið frýs, er ekki hægt að ljúka upp neðra helmingi hurðanna, svo að ekki verður þar komið inn hestum hvað mikið sem á liggur. Menn geta að vísu lokið upp efra helmingi hurðanna, og skriðið inn í húsið á fjórum fótum, og komist upp á loftið í því, en hrossin verða að híma úti hvað sem á dynur. Þetta þarf bráðrar endurbótar.
Af sveitavegum á þessari póstleið er verstur vegur yfir Tindabakka og Svarfhólsbakka í Geirdalshreppi. Tindabakkar eru að sönnu færir þegar miklir þurrkar ganga að sumrinu, en því nær ófærir í vætutíðum. Svarfhólsbakkar alveg ófærir nær sem er að sumrinu, þó að þurrkar séu. Ég hef í sumar orðið að fara selflutning með hesta mína langt fyrir ofan hinn svonefnda veg, til þess að hleypa ekki á kaf í foræðið, sem ekki er neinum hesti fært, þótt farið sé. Að vísu er fleira athugavert við þessa leið en hér er talið, t. d. vegurinn kringum Gilsfjörð, einkanlega að vestanverðu og víðar, en ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það að svo stöddu.
Jóhannes Þórðarson.
(póstur).