1895

Ísafold, 31. júlí 1895, 22. árg., 64. tbl., forsíða:

Vígð Þjórsárbrúin.
Vígsluathöfnin. Mannfjöldinn. Bilun á brúnni.
Þess var til getið, er vígsludagurinn rann upp heiður og fagur, sunnud. 28. þ.m., að ekki mundu margar drógar kyrrar heima þann dag í sýslunum tveimur, sem að Þjórsá liggja, þær er tamdar ættu að heita. Svo lengi og heitt höfðu íbúar héraða þessara þráð þennan dag. Enda varð og mannfjöldinn við brúna stórum mun meiri en við Ölfusárbrúna fyrir fjórum árum, þótt mikill þætti þá. Hafði samt rignt nokkuð frá morgni í Rangárvallasýslu, svo bjart og blítt sem var vestar, - og líklega margir sest aftur fyrir það. Tók og að rigna við brúna sjálfa nokkrum tíma áður en vígsluathöfnin hófst og stóð fram um miðaftan.
Landslag er mun ófegra við Þjórsárbrúna en hjá Selfossi: bratt holt að ánni austan megin, ekki nema hálfgróið, en vestan megin mosaþúfnapælur með örsmáum graslautum á milli. Rennur áin sjálf þar í alldjúpum farveg. Hálfgerðu gljúfri, í stríðum streng og ægilegri miklu en hjá Selfossi, og er miður að ganga að brúnni beggja vegna um vegleysu, ólíkt því sem var við Ölfusárbrúna, þegar hún var vígð. Sér tilsýndar aðeins á yfirbygging brúarinnar.
Til þess að mannsöfnuðurinn kæmist allur á einn stað, var fólki austan að hleypt vestur yfir brúna fyrir fram, þótt lokuð ætti að heita.
Við Ölfusárbrúna var sjálfgerður ræðupallur ágætur, þar sem var hin mikla vegarhleðsla út af austurenda brúarinnar, 6-7 álna há. En hér fékkst eigi annar hentugri ræðustóll en tóm sementstunna, er stóð á akkerishleininni vestari, sem má heita jöfn jarðveginum í kring. Virðist hefði mátt hafa dálítið myndarlegri umbúnað í því skyni, með eigi miklum tilkostnaði.
Landritarinn, hr. Hannes Hafstein, hóf ræðu sína, þá er hér fer eftir, kl. 4. Að henni lokinni, á tæpri hálfri stundu og eftir að leikin var því næst á sönglúðra Ölfusárbrúardrápan (H. Hafsteins) af hr. Helga Helgasyni og söngflokk hans, gengu þau fyrst út á brúna, landshöfðingjafrúin, landritarinn og brúarsmiðurinn, en frúin klippti um leið í sundur með silfurskærum silkiband, er strengt var yfir brúarendann í slagbrands stað. Eftir það hóf mannþyrpingin göngu út á brúna, eftir því sem hlutaðeigandi lögreglustjórar með aðstoð nokkurra tilkvaddra manna afskömmtuðu strauminn í hlífðarskyni við brúna. Fulla klukkustund stóð á því, að mannfjöldinn kæmist yfir um, og varð þó fjöldi afhangs, sem ekki hirti um það að sinni.
Tala mannfjöldans við brúna reyndist um 2300, að því er þeir komust næst, er töldu bæði yfir brúna og einnig smáhópa þá, er afhlaups urðu. (Við Ölfusárbrúna aðeins 1700). Flest var fólk þetta úr nærsýslunum tveimur, en auk þess eigi allfátt úr Reykjavík og nokkuð austan úr Mýrdal.
Það mun hafa verið þegar fólksstraumurinn hóf rásina vestur yfir aftur og varð þá heldur ör, er þeir, sem stóðu upp á akkerishleininni að austanverðu, lúðrasöngflokkurinn og fleiri fóru að verða varir við eitthvert kvik undir fótum sér. Akkerishleinin, sementssteypustöpull í brekkunni eystri, er vega á salt á móti brúnni og öllu því sem á henni er, var farin að rugga lítið eitt fram og aftur, eftir mismunandi þyngslum á brúnni; reyndist með öðrum orðum heldur létt. Sigið mun brúin og hafa sjálf ofurlítið, eða réttara sagt farið af henni bungan upp á við, sem enn helst á Ölfusárbrúnni, en án þess að þeir sem á brúnni voru staddir yrðu þess varir og því síður að neinn almennur felmtur fylgdi. Þau missmíði sáust og á eystri járnsúlunum, er halda uppi brúarstrengjunum, að loft kom undir stéttina undir þeim, eystri röndina, sem svo svaraði ¾ þuml. - Brúarsmiðurinn mun hafa þegar daginn eftir tekið til að umbæta þetta, með því meðal annars að hlaða ofan á akkerishleinina, til þess að auka þyngsli hennar.
Lýsing brúarinnar.
Þetta er hengibrú, eins og á Ölfusá, úr eintómu járni; lengdin milli brúarstöplanna 256 fet ensk, 4 fetum meiri en aðalhafið er á Ölfusárbrúnni, en þar er enn fremur meira en 100 feta haf á landi, sem brúin nær einnig yfir, og er því Ölfusárbrúin í raun réttri nær þriðjungi lengri. Þjórsárbrúin er breiðari en hin, 10 ½ fet milli handriðanna, sem einnig eru nokkuð hærri, 2 álnir og miklu meira í þau borið, krossslár og bogar af járni. Brúarstrengjunum, 3 hvorum megin, af margþættum járnvír undnum, halda upp 26 feta háar járnsúlnagrindur, er mjókka upp á við, 4 alls, 2 við hvorn brúarsporð, en skammbiti sterkur á milli þeirra hvorra tveggja ofan til frekari styrktar; "Eystri súlurnar standa á 8-9 álna steinstöplum, sementeruðum, en að vestanverðu er sú hleðsla ekki nema 1-2 fet, með því að þar liggur hamar að ánni. Haf er talsvert meira undir brúna frá vatnsfleti en á Ölfusá, á að giska fullar 16 álnir. Trébrú tekur við að austanverðu af járnbrúnni upp að brekkunni fyrir ofan, 10-11 álna löng, á leið upp að akkerishleininni þar. Eins og kunnugt er, þá er jafnan á hengibrúm uppihaldsstrengjum fest í akkeri, sem greypt eru neðst niður í þar til gerða sementssteypustöpla.
Brúin sjálf á Þjórsá er öllu traustari að sjá og verklegri en sú á Ölfusá, en annar umbúnaður hvergi nærri eins mikill né traustlegur, einkum stöplahleðsla mjög lítil hjá því sem þar er. Er þó Þjórsárbrúin talsvert dýrari, svo að brúarsmiðurinn virðist hljóta að hafa grætt vel á verkinu, í stað þess að sá sem hina tók að sér, hr. Tr. Gunnarsson, tapaði til muna á því.
Ræða landritarans.
Hann kvað landshöfðingjann, er eigi hefði getað komið sjálfur vegna annríkis við þingið, hafa falið sér að bera kveðju sína mannfjölda þeim, er hér væri saman kominn í dag til þess að hefja umferð um þessa nýju brú, þetta glæsilega, mikla mannvirki, er nú blasti við augum manna, fullgert fyr en nokkurn varði.
Þess hefði verið óskað, þegar Ölfusárbrúin var vígð fyrir tæpum 4 árum, að sú gersimi hefði líka náttúru og hringurinn Draupnir, ef af drupu átta gullhringar jafnhöfgir níundu hverju nótt. Þetta virtist hafa orðið að áhrínsorðum, þar sem síðan hefðu verið brúaðar eigi allfáar ár og miklar torfærur þessa lands (Hvítá í Borgarfirði á 2 stöðum, Héraðsvötnin eystri, m. m. ), og nú bættist við þetta nýja stórvirki, Þjórsárbrúin, sem enginn mundi telja óhöfgari dýrgripnum hjá Selfossi. Mætti því með sanni segja, að Ölfusárbrúin markaði nýtt tímabil í samgöngu-sögu þessa lands.
Því væri að vísu fjarri, að hugmyndin um brúargerð á Þjórsá væri sprottin upp eða fædd af brúargerðinni á Ölfusá. Þær brýr hefðu báðar lengi átt sameiginlega sögu, meðan þær hefðu aðeins verið hugmynd ein, borin fram af þörf og þrá.
Ræðum. rakti því næst lauslega undirbúningssögu brúnna: vakið máls á þeim á almennum fundi í Rangárvallasýslu 1872, sendiför Vinfeld-Hansens hingað 1873 að rannsaka brúarstæðin, bænarskrá til þingsins 1877 um 168.000 króna fjárveiting úr landssjóði til brúnna beggja, sem þá þótti of mikið í ráðist, samþykkt á þingi 1879 að veita 100.000 kr. lán úr viðlagasjóði til þeirra gegn endurborgun á 40 árum af 4 næstu sýslufélögum og Reykjavík, en lægsta tilboð um verkið, sem þá fékkst varð 192.000 kr.; eftir það hætt við að hafa báðar brýrnar í taki í einu, heldur stungið upp á á þingi 1883 að brúa aðeins aðra ána (Ölfusá) í senn, en láta hina bíða betri tíma, og lauk svo, sem kunnugt er, að brú komst á Ölfusá 1891, eftir mikla erfiðleika og fyrir lofsamlega framgöngu ýmissa góðra manna.
Svo ríkt sem það hefði verið í huga mönnum áður, að þörf væri á brú á þetta þunga og volduga vatnsfall, sem nú stæðum vér hjá, þá hefði það ekki verið síður eftir að Ölfusárbrúin var komin á, og menn reyndu þann ómetanlega hagnað og létti, sem er að slíkri samgöngubót. Hin almenna gleði þjóðarinnar yfir Ölfusárbrúnni og aukið traust á mátt sinn og megin hefði og gert hana fúsari og áræðnari til fleiri stórvirkja. Hér um bil 4 mánuðum eftir að Ölfusárbrúin var komin á hefði ráðgjafinn tilkynnt landshöfðingja, að Ripperda mannvirkjafræðingur, sá er eftirlit hafði við Ölfusárbrúna, meðan hún var í smíðum, og þá átti kost á að heyra, hve mikið áhugamál mönnum var að fá einnig brú á Þjórsá, hefði boðist til að gera uppdrætti og áætlanir um slíka brú, hjá Þjótanda, og þá þegar með vorinu hefði landshöfðingi tekið til að gera ráðstafanir til að kannað væri brúarstæðið, byggingarefni í brúarstöpla o. s. frv. Tilboð voru fengin, og yfir höfuð hið mesta kapp lagt á, af stjórnarinnar hálfu, að hafa málið sem best undirbúið undir næsta alþingi, 1893, er samþykkti síðan tafarlaust frumvarp stjórnarinnar hálfu, að hafa málið sem best undirbúið undir næsta alþingi 1893, er samþykkti síðan tafarlaust frumvarp stjórnarinnar um 75.000 kr. fjárveitingu úr landssjóði til þessa fyrirtækis, - í stað þess að hann greiddi aðeins 2/3 af Ölfusárbrúarkostnaðinum. Frumvarp þetta hlaut staðfesting konungs rúmum hálfum mánuði eftir þinglok, 16. sept. 1893, og síðan bráðlega tekið tilboði því um brúarsmíðið, er best þótti, en það var frá verkvélasmíðafélagsins Vaughan & Dymond í Newcastle, er þegar var orðið góðkunnugt hér á landi fyrir smíði sitt á Ölfusárbrúnni og alla frammistöðu þar. Tók félagði að sér brúarsmíðið að öllu leyti, bæði stál og stein, fyrir umsamið verð og lét í fyrra sumar reisa stöplana undir brúna og samsumars flytja hana sjálfa til Eyrarbakka, en þaðan var hún flutt upp að brúarstæðinu í vetur sem leið. Síðan kom Vaughan mannvirkjafræðingur sjálfur hingað í vor, og hefi stjórnað allri vinnunni við brúna hér í sumar, og rekið hana með þeim dugnaði og atorku, sem allir sá, að brúin er nú fullger til afhendingar og afnota fyrir almenning frekum mánuði en smíðinni þurfti að vera lokið eftir samningnum.
Þannig er þá hugsjón þeirra manna, er fyrir frekum 20 árum hófu upp tillöguna um, að brúa Þjórsá og Ölfusá, og báru mál það fram þing eftir þing, orðin að öflugri smíð úr stáli og steini. Þessar þjóðkunnu systur, þessar þóttafullu og blendnu heimasætur Suðurlandsins hafa loks orðið að brjóta odd af oflæti sínu og taka festum af tignum brúðguma; framfaraanda og framkvæmdaþrótti þessa lands. Önnur samlíking ætti þó betur við. Þær væru, þessar jötunbornu systur, eins og glófestar ótemjur, fjörugar og ferðamiklar, er geystust áfram með flakandi mökkum, fnasandi nösum og háværum jódyn. Nú hefði loks tekist að koma við þær beisli með stengum úr ensku stáli og stríðum strengjum. Nú gæti hvert barn farið ferða sinna fyrir þeim hvort heldur væri sumar eða vetur.
Þessi brú, sem tengir saman tvö mikils háttar héruð, frjósöm og sögufræg, Árnessýslu og Rangárvallasýslu, er eitt hið mesta jökulvatn þessa lands hefir sundur stíað frá alda öðli, hún jartegnar mikinn sigur, sigur yfir fátækt og erfiðleikum, en sérstaklega sigur yfir ýmsum óheillavænlegum og rótgrónum hleypidómum, um vanmátt, örbirgð og uppblástur þessa lands. Hver sigur í líka átt og þessi sýnir, að landið getur gróið upp, er að gróa upp, mun gróa upp og skal gróa upp. Til þess að landið grói upp, þarf aðeins sameinaða kraft, þor, þol og vilja til að verma og græða. Það er ótrúlegt, hverju góður vilji og traust getur til vegar komið, hvern árangur það getu haft, að keppa jafnan áfram og upp á við, þótt ekki sjái fram úr í fyrstu.
Mér kemur til hugar frásaga þjóðsnillingsins norska, Björnstjerne Björnssons, um það, hvernig lyngið og fjalldrapinn fóru að hylja fjallshlíðina, og hvað þau sáu, þegar þau voru komin alla leið upp á brún. - Það var í djúpum dal og eyðilegum. Eftir dalnum rann straumhörð grjótá og köld. Háar fjallshlíðar báðum megin, berar og naktar, urðin tóm. Í litlu rjóðri niður við ána stóðu eftir frá fyrri tímum nokkra tóar af fjalldrapa, eini og björk, og svo ein útlend hrísla, sem hafði verið gróðursett þar í fyrndinni. Þau þorðu varla að líta upp til hlíðarinnar auðu og beru, áttu þaðan feigðar von: að einhver skriðan rifi þau upp eða bældi þau undir sig, eins og systkin þeirra hin eldri. En þá var það einn dag, er sól skein hlýtt á fjalldrapann, að honum kom nokkuð nýtt í hug. Hann vék sér fyrst að útlenda viðinum, sem var álitlegastur til framkvæmdar. "Eigum við ekki að reyna að klæða fjallshlíðina?! sagði hann við útlenda viðinn. En hann hristi höfuðið og kvað það óðs mann æði. Þá sneri hann sér að eininum og bar upp sömu tillöguna við hann. Hann tók þegar vel í það, og björkin eins. Svo fóru þau að reyna að fikra sig upp á við, teygði eina rót ofurlítið upp fyrir sig, upp í melinn, kolsvartur fjalldrapinn fyrst og hinn gróðurinn á eftir. Þau áttu mikla erfiðleika við að stríða. Þegar þau voru komin upp í miðjar hlíðar, varð fjallið vart við eitthvað kvikt á sér og sendi af stað læk til þess að bita, vað um væri að vera. En lækurinn reif upp allan nýgræðinginn og hrakti það niður í dalverpið aftur. Fjalldrapinn lét þó ekki hugfallast, hann skoraði aftur á eininn og björkina að klæða hlíðina, og þau fóru aftur af stað, á sama hátt og fyr, hægt og hægt, með sama áformi og fyr: að komast alla leið upp á brún. Og það tókst að lokum. En þegar þau voru loks komin upp á brún, þá gaf þeim á að líta. Þar var allt eintómur iðgrænn skógur, svo langt sem augað eygði, og sjálf voru þau búin að klæða alla fjallshlíðina, svo að nú var allt eintóm samföst gróðurbreiða. Svona er það að keppa upp og áfram, og láta eigi hugfallast. Hér er margar hlíðar að klæða, mörg flög að græða; en hér er einnig til lyng og fjalldrapi, einir og björk, sem ef til vill komast upp á fjallið, ef þau reyna með þolinmæði og villa ekki fyrir sér að færast stórvirki í fang.
Þau standa föst og óhögguð, orð skáldsins:
--- " Eyjan hvíta
á sér enn vor, ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista,
hlýða réttu, góðs að bíða.
Fagur er dalur og fyllist skógi,
og frjálsir menn, þegar aldir renna."
"Þegar aldir renna". Já, en hversu margar aldir eiga að renna, hversu langur tími á að líða? Það er vitaskuld ekki að öllu undir mönnum komið, en svo mikið er víst, að reyni mennirnir ekki að leita upp á við og áfram, eins og fjalldrapinn, einirinn og björkin, þótt upp á óvissu sé, þá fyllist dalurinn aldrei skógi.
Hver veit nema þess veðri ekki eins langt að bíða og sumir hyggja, að Ísland komist nokkuð inn í framfara- og framkvæmdastraum aldarinnar, eins og önnur lönd. Hver veit nema þess sé ekki ýkja langt að bíða, að vér eins og aðrar þjóðir hugsum jafnvel hærra en það, að komast klakklaust yfir árnar, hugsum til þess að beisla vorar voldugu ótemjur, ár og fossa, til vinnu, til þess erfiða, verma og lýsa. Hver veit nema einhvern tíma takist að hefta uppblástur og eyðing af sandi, - nema dalurinn fyllist skógi.

Ýmsir munu vilja kalla þetta ekki annað en hugarburð, óljósar rótlausar vonir. En svo framarlega sem þjóð vor og land er háð sama framfaramáli og aðrar þjóðir og önnur lönd, verður þetta meira en hugarburður. Von er upphaf alls góðs, þess er mönnum er sjálfrátt. Upp af henni sprettur áhugi, af áhuga vilji, af vilja kraftur. En vonleysi drepur allan kraft og kjark. Jafnframt vonglöðu trausti og trú á æðri vernd og varðveislu þurfum vér aðra trú:
Vér þurfum trú á mátt og megin
á manndóm, framtíð, starfsins guð,
þurfum að hleypa hratt á veginn,
hætta við víl og eymdarsuð.
Þurfum að minnast margra nauða,
svo móður svelli drótt af því,
þurfum að gleyma gömlum dauða
og glæsta framtíð seilast í.
Um leið og ég í umboði landshöfðingja votta brúarsmiðnum, hr. Vaughan, þakkir fyrir framkvæmd hans og óska honum góðrar heimkomu eftir farslælega lokið starf, skal ég að lokum geta þess, að svo er um samið milli hans og landsstjórnarinnar, að áður en brúnni sé veitt viðtaka til fullnustu, skuli reyna hana með jöfnum þunga, er nemi 80 pundum á hvert ferh.fet. og skal þá þungi hvíla á henni í 2 daga. Haggist þá nokkuð um bætir brúarsmiðurinn það á sinn kostnað. En með því að svo atvikaðist, að bæta þurfi ofan á stöpulinn í sumar og sú viðbót er ef til vill ekki búin að ná þeirri hörku sem hún nær síðar, hefir þótt réttara að fresta þeirri prófun um sinn. Reglur fyrir umferð um brúna hefir landshöfðingi sett samhljóma þeim við Ölfusá, og falið sýslumönnum Árnesinga og Rangvellinga fyrir sýslunefndanna hönd, að sjá um gæslu brúarinnar í bráð, þar til er fullnaðarráðstöfun verður gerð um það atriði.
Að svo mæltu lýsi ég því yfir í umboði landshöfðingja, að brúin á Þjórsá hjá Þjótanda er upp frá þessu frjáls til umferðar fyrir almenning, og vona ég að allir viðstaddir séu samhuga í því, að biðja guð að halda verndarhendi sinni yfir þessu mannvirki, blessa framfaratilraunir þjóðarinnar og þetta land, fósturland vort.


Ísafold, 31. júlí 1895, 22. árg., 64. tbl., forsíða:

Vígð Þjórsárbrúin.
Vígsluathöfnin. Mannfjöldinn. Bilun á brúnni.
Þess var til getið, er vígsludagurinn rann upp heiður og fagur, sunnud. 28. þ.m., að ekki mundu margar drógar kyrrar heima þann dag í sýslunum tveimur, sem að Þjórsá liggja, þær er tamdar ættu að heita. Svo lengi og heitt höfðu íbúar héraða þessara þráð þennan dag. Enda varð og mannfjöldinn við brúna stórum mun meiri en við Ölfusárbrúna fyrir fjórum árum, þótt mikill þætti þá. Hafði samt rignt nokkuð frá morgni í Rangárvallasýslu, svo bjart og blítt sem var vestar, - og líklega margir sest aftur fyrir það. Tók og að rigna við brúna sjálfa nokkrum tíma áður en vígsluathöfnin hófst og stóð fram um miðaftan.
Landslag er mun ófegra við Þjórsárbrúna en hjá Selfossi: bratt holt að ánni austan megin, ekki nema hálfgróið, en vestan megin mosaþúfnapælur með örsmáum graslautum á milli. Rennur áin sjálf þar í alldjúpum farveg. Hálfgerðu gljúfri, í stríðum streng og ægilegri miklu en hjá Selfossi, og er miður að ganga að brúnni beggja vegna um vegleysu, ólíkt því sem var við Ölfusárbrúna, þegar hún var vígð. Sér tilsýndar aðeins á yfirbygging brúarinnar.
Til þess að mannsöfnuðurinn kæmist allur á einn stað, var fólki austan að hleypt vestur yfir brúna fyrir fram, þótt lokuð ætti að heita.
Við Ölfusárbrúna var sjálfgerður ræðupallur ágætur, þar sem var hin mikla vegarhleðsla út af austurenda brúarinnar, 6-7 álna há. En hér fékkst eigi annar hentugri ræðustóll en tóm sementstunna, er stóð á akkerishleininni vestari, sem má heita jöfn jarðveginum í kring. Virðist hefði mátt hafa dálítið myndarlegri umbúnað í því skyni, með eigi miklum tilkostnaði.
Landritarinn, hr. Hannes Hafstein, hóf ræðu sína, þá er hér fer eftir, kl. 4. Að henni lokinni, á tæpri hálfri stundu og eftir að leikin var því næst á sönglúðra Ölfusárbrúardrápan (H. Hafsteins) af hr. Helga Helgasyni og söngflokk hans, gengu þau fyrst út á brúna, landshöfðingjafrúin, landritarinn og brúarsmiðurinn, en frúin klippti um leið í sundur með silfurskærum silkiband, er strengt var yfir brúarendann í slagbrands stað. Eftir það hóf mannþyrpingin göngu út á brúna, eftir því sem hlutaðeigandi lögreglustjórar með aðstoð nokkurra tilkvaddra manna afskömmtuðu strauminn í hlífðarskyni við brúna. Fulla klukkustund stóð á því, að mannfjöldinn kæmist yfir um, og varð þó fjöldi afhangs, sem ekki hirti um það að sinni.
Tala mannfjöldans við brúna reyndist um 2300, að því er þeir komust næst, er töldu bæði yfir brúna og einnig smáhópa þá, er afhlaups urðu. (Við Ölfusárbrúna aðeins 1700). Flest var fólk þetta úr nærsýslunum tveimur, en auk þess eigi allfátt úr Reykjavík og nokkuð austan úr Mýrdal.
Það mun hafa verið þegar fólksstraumurinn hóf rásina vestur yfir aftur og varð þá heldur ör, er þeir, sem stóðu upp á akkerishleininni að austanverðu, lúðrasöngflokkurinn og fleiri fóru að verða varir við eitthvert kvik undir fótum sér. Akkerishleinin, sementssteypustöpull í brekkunni eystri, er vega á salt á móti brúnni og öllu því sem á henni er, var farin að rugga lítið eitt fram og aftur, eftir mismunandi þyngslum á brúnni; reyndist með öðrum orðum heldur létt. Sigið mun brúin og hafa sjálf ofurlítið, eða réttara sagt farið af henni bungan upp á við, sem enn helst á Ölfusárbrúnni, en án þess að þeir sem á brúnni voru staddir yrðu þess varir og því síður að neinn almennur felmtur fylgdi. Þau missmíði sáust og á eystri járnsúlunum, er halda uppi brúarstrengjunum, að loft kom undir stéttina undir þeim, eystri röndina, sem svo svaraði ¾ þuml. - Brúarsmiðurinn mun hafa þegar daginn eftir tekið til að umbæta þetta, með því meðal annars að hlaða ofan á akkerishleinina, til þess að auka þyngsli hennar.
Lýsing brúarinnar.
Þetta er hengibrú, eins og á Ölfusá, úr eintómu járni; lengdin milli brúarstöplanna 256 fet ensk, 4 fetum meiri en aðalhafið er á Ölfusárbrúnni, en þar er enn fremur meira en 100 feta haf á landi, sem brúin nær einnig yfir, og er því Ölfusárbrúin í raun réttri nær þriðjungi lengri. Þjórsárbrúin er breiðari en hin, 10 ½ fet milli handriðanna, sem einnig eru nokkuð hærri, 2 álnir og miklu meira í þau borið, krossslár og bogar af járni. Brúarstrengjunum, 3 hvorum megin, af margþættum járnvír undnum, halda upp 26 feta háar járnsúlnagrindur, er mjókka upp á við, 4 alls, 2 við hvorn brúarsporð, en skammbiti sterkur á milli þeirra hvorra tveggja ofan til frekari styrktar; "Eystri súlurnar standa á 8-9 álna steinstöplum, sementeruðum, en að vestanverðu er sú hleðsla ekki nema 1-2 fet, með því að þar liggur hamar að ánni. Haf er talsvert meira undir brúna frá vatnsfleti en á Ölfusá, á að giska fullar 16 álnir. Trébrú tekur við að austanverðu af járnbrúnni upp að brekkunni fyrir ofan, 10-11 álna löng, á leið upp að akkerishleininni þar. Eins og kunnugt er, þá er jafnan á hengibrúm uppihaldsstrengjum fest í akkeri, sem greypt eru neðst niður í þar til gerða sementssteypustöpla.
Brúin sjálf á Þjórsá er öllu traustari að sjá og verklegri en sú á Ölfusá, en annar umbúnaður hvergi nærri eins mikill né traustlegur, einkum stöplahleðsla mjög lítil hjá því sem þar er. Er þó Þjórsárbrúin talsvert dýrari, svo að brúarsmiðurinn virðist hljóta að hafa grætt vel á verkinu, í stað þess að sá sem hina tók að sér, hr. Tr. Gunnarsson, tapaði til muna á því.
Ræða landritarans.
Hann kvað landshöfðingjann, er eigi hefði getað komið sjálfur vegna annríkis við þingið, hafa falið sér að bera kveðju sína mannfjölda þeim, er hér væri saman kominn í dag til þess að hefja umferð um þessa nýju brú, þetta glæsilega, mikla mannvirki, er nú blasti við augum manna, fullgert fyr en nokkurn varði.
Þess hefði verið óskað, þegar Ölfusárbrúin var vígð fyrir tæpum 4 árum, að sú gersimi hefði líka náttúru og hringurinn Draupnir, ef af drupu átta gullhringar jafnhöfgir níundu hverju nótt. Þetta virtist hafa orðið að áhrínsorðum, þar sem síðan hefðu verið brúaðar eigi allfáar ár og miklar torfærur þessa lands (Hvítá í Borgarfirði á 2 stöðum, Héraðsvötnin eystri, m. m. ), og nú bættist við þetta nýja stórvirki, Þjórsárbrúin, sem enginn mundi telja óhöfgari dýrgripnum hjá Selfossi. Mætti því með sanni segja, að Ölfusárbrúin markaði nýtt tímabil í samgöngu-sögu þessa lands.
Því væri að vísu fjarri, að hugmyndin um brúargerð á Þjórsá væri sprottin upp eða fædd af brúargerðinni á Ölfusá. Þær brýr hefðu báðar lengi átt sameiginlega sögu, meðan þær hefðu aðeins verið hugmynd ein, borin fram af þörf og þrá.
Ræðum. rakti því næst lauslega undirbúningssögu brúnna: vakið máls á þeim á almennum fundi í Rangárvallasýslu 1872, sendiför Vinfeld-Hansens hingað 1873 að rannsaka brúarstæðin, bænarskrá til þingsins 1877 um 168.000 króna fjárveiting úr landssjóði til brúnna beggja, sem þá þótti of mikið í ráðist, samþykkt á þingi 1879 að veita 100.000 kr. lán úr viðlagasjóði til þeirra gegn endurborgun á 40 árum af 4 næstu sýslufélögum og Reykjavík, en lægsta tilboð um verkið, sem þá fékkst varð 192.000 kr.; eftir það hætt við að hafa báðar brýrnar í taki í einu, heldur stungið upp á á þingi 1883 að brúa aðeins aðra ána (Ölfusá) í senn, en láta hina bíða betri tíma, og lauk svo, sem kunnugt er, að brú komst á Ölfusá 1891, eftir mikla erfiðleika og fyrir lofsamlega framgöngu ýmissa góðra manna.
Svo ríkt sem það hefði verið í huga mönnum áður, að þörf væri á brú á þetta þunga og volduga vatnsfall, sem nú stæðum vér hjá, þá hefði það ekki verið síður eftir að Ölfusárbrúin var komin á, og menn reyndu þann ómetanlega hagnað og létti, sem er að slíkri samgöngubót. Hin almenna gleði þjóðarinnar yfir Ölfusárbrúnni og aukið traust á mátt sinn og megin hefði og gert hana fúsari og áræðnari til fleiri stórvirkja. Hér um bil 4 mánuðum eftir að Ölfusárbrúin var komin á hefði ráðgjafinn tilkynnt landshöfðingja, að Ripperda mannvirkjafræðingur, sá er eftirlit hafði við Ölfusárbrúna, meðan hún var í smíðum, og þá átti kost á að heyra, hve mikið áhugamál mönnum var að fá einnig brú á Þjórsá, hefði boðist til að gera uppdrætti og áætlanir um slíka brú, hjá Þjótanda, og þá þegar með vorinu hefði landshöfðingi tekið til að gera ráðstafanir til að kannað væri brúarstæðið, byggingarefni í brúarstöpla o. s. frv. Tilboð voru fengin, og yfir höfuð hið mesta kapp lagt á, af stjórnarinnar hálfu, að hafa málið sem best undirbúið undir næsta alþingi, 1893, er samþykkti síðan tafarlaust frumvarp stjórnarinnar hálfu, að hafa málið sem best undirbúið undir næsta alþingi 1893, er samþykkti síðan tafarlaust frumvarp stjórnarinnar um 75.000 kr. fjárveitingu úr landssjóði til þessa fyrirtækis, - í stað þess að hann greiddi aðeins 2/3 af Ölfusárbrúarkostnaðinum. Frumvarp þetta hlaut staðfesting konungs rúmum hálfum mánuði eftir þinglok, 16. sept. 1893, og síðan bráðlega tekið tilboði því um brúarsmíðið, er best þótti, en það var frá verkvélasmíðafélagsins Vaughan & Dymond í Newcastle, er þegar var orðið góðkunnugt hér á landi fyrir smíði sitt á Ölfusárbrúnni og alla frammistöðu þar. Tók félagði að sér brúarsmíðið að öllu leyti, bæði stál og stein, fyrir umsamið verð og lét í fyrra sumar reisa stöplana undir brúna og samsumars flytja hana sjálfa til Eyrarbakka, en þaðan var hún flutt upp að brúarstæðinu í vetur sem leið. Síðan kom Vaughan mannvirkjafræðingur sjálfur hingað í vor, og hefi stjórnað allri vinnunni við brúna hér í sumar, og rekið hana með þeim dugnaði og atorku, sem allir sá, að brúin er nú fullger til afhendingar og afnota fyrir almenning frekum mánuði en smíðinni þurfti að vera lokið eftir samningnum.
Þannig er þá hugsjón þeirra manna, er fyrir frekum 20 árum hófu upp tillöguna um, að brúa Þjórsá og Ölfusá, og báru mál það fram þing eftir þing, orðin að öflugri smíð úr stáli og steini. Þessar þjóðkunnu systur, þessar þóttafullu og blendnu heimasætur Suðurlandsins hafa loks orðið að brjóta odd af oflæti sínu og taka festum af tignum brúðguma; framfaraanda og framkvæmdaþrótti þessa lands. Önnur samlíking ætti þó betur við. Þær væru, þessar jötunbornu systur, eins og glófestar ótemjur, fjörugar og ferðamiklar, er geystust áfram með flakandi mökkum, fnasandi nösum og háværum jódyn. Nú hefði loks tekist að koma við þær beisli með stengum úr ensku stáli og stríðum strengjum. Nú gæti hvert barn farið ferða sinna fyrir þeim hvort heldur væri sumar eða vetur.
Þessi brú, sem tengir saman tvö mikils háttar héruð, frjósöm og sögufræg, Árnessýslu og Rangárvallasýslu, er eitt hið mesta jökulvatn þessa lands hefir sundur stíað frá alda öðli, hún jartegnar mikinn sigur, sigur yfir fátækt og erfiðleikum, en sérstaklega sigur yfir ýmsum óheillavænlegum og rótgrónum hleypidómum, um vanmátt, örbirgð og uppblástur þessa lands. Hver sigur í líka átt og þessi sýnir, að landið getur gróið upp, er að gróa upp, mun gróa upp og skal gróa upp. Til þess að landið grói upp, þarf aðeins sameinaða kraft, þor, þol og vilja til að verma og græða. Það er ótrúlegt, hverju góður vilji og traust getur til vegar komið, hvern árangur það getu haft, að keppa jafnan áfram og upp á við, þótt ekki sjái fram úr í fyrstu.
Mér kemur til hugar frásaga þjóðsnillingsins norska, Björnstjerne Björnssons, um það, hvernig lyngið og fjalldrapinn fóru að hylja fjallshlíðina, og hvað þau sáu, þegar þau voru komin alla leið upp á brún. - Það var í djúpum dal og eyðilegum. Eftir dalnum rann straumhörð grjótá og köld. Háar fjallshlíðar báðum megin, berar og naktar, urðin tóm. Í litlu rjóðri niður við ána stóðu eftir frá fyrri tímum nokkra tóar af fjalldrapa, eini og björk, og svo ein útlend hrísla, sem hafði verið gróðursett þar í fyrndinni. Þau þorðu varla að líta upp til hlíðarinnar auðu og beru, áttu þaðan feigðar von: að einhver skriðan rifi þau upp eða bældi þau undir sig, eins og systkin þeirra hin eldri. En þá var það einn dag, er sól skein hlýtt á fjalldrapann, að honum kom nokkuð nýtt í hug. Hann vék sér fyrst að útlenda viðinum, sem var álitlegastur til framkvæmdar. "Eigum við ekki að reyna að klæða fjallshlíðina?! sagði hann við útlenda viðinn. En hann hristi höfuðið og kvað það óðs mann æði. Þá sneri hann sér að eininum og bar upp sömu tillöguna við hann. Hann tók þegar vel í það, og björkin eins. Svo fóru þau að reyna að fikra sig upp á við, teygði eina rót ofurlítið upp fyrir sig, upp í melinn, kolsvartur fjalldrapinn fyrst og hinn gróðurinn á eftir. Þau áttu mikla erfiðleika við að stríða. Þegar þau voru komin upp í miðjar hlíðar, varð fjallið vart við eitthvað kvikt á sér og sendi af stað læk til þess að bita, vað um væri að vera. En lækurinn reif upp allan nýgræðinginn og hrakti það niður í dalverpið aftur. Fjalldrapinn lét þó ekki hugfallast, hann skoraði aftur á eininn og björkina að klæða hlíðina, og þau fóru aftur af stað, á sama hátt og fyr, hægt og hægt, með sama áformi og fyr: að komast alla leið upp á brún. Og það tókst að lokum. En þegar þau voru loks komin upp á brún, þá gaf þeim á að líta. Þar var allt eintómur iðgrænn skógur, svo langt sem augað eygði, og sjálf voru þau búin að klæða alla fjallshlíðina, svo að nú var allt eintóm samföst gróðurbreiða. Svona er það að keppa upp og áfram, og láta eigi hugfallast. Hér er margar hlíðar að klæða, mörg flög að græða; en hér er einnig til lyng og fjalldrapi, einir og björk, sem ef til vill komast upp á fjallið, ef þau reyna með þolinmæði og villa ekki fyrir sér að færast stórvirki í fang.
Þau standa föst og óhögguð, orð skáldsins:
--- " Eyjan hvíta
á sér enn vor, ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista,
hlýða réttu, góðs að bíða.
Fagur er dalur og fyllist skógi,
og frjálsir menn, þegar aldir renna."
"Þegar aldir renna". Já, en hversu margar aldir eiga að renna, hversu langur tími á að líða? Það er vitaskuld ekki að öllu undir mönnum komið, en svo mikið er víst, að reyni mennirnir ekki að leita upp á við og áfram, eins og fjalldrapinn, einirinn og björkin, þótt upp á óvissu sé, þá fyllist dalurinn aldrei skógi.
Hver veit nema þess veðri ekki eins langt að bíða og sumir hyggja, að Ísland komist nokkuð inn í framfara- og framkvæmdastraum aldarinnar, eins og önnur lönd. Hver veit nema þess sé ekki ýkja langt að bíða, að vér eins og aðrar þjóðir hugsum jafnvel hærra en það, að komast klakklaust yfir árnar, hugsum til þess að beisla vorar voldugu ótemjur, ár og fossa, til vinnu, til þess erfiða, verma og lýsa. Hver veit nema einhvern tíma takist að hefta uppblástur og eyðing af sandi, - nema dalurinn fyllist skógi.

Ýmsir munu vilja kalla þetta ekki annað en hugarburð, óljósar rótlausar vonir. En svo framarlega sem þjóð vor og land er háð sama framfaramáli og aðrar þjóðir og önnur lönd, verður þetta meira en hugarburður. Von er upphaf alls góðs, þess er mönnum er sjálfrátt. Upp af henni sprettur áhugi, af áhuga vilji, af vilja kraftur. En vonleysi drepur allan kraft og kjark. Jafnframt vonglöðu trausti og trú á æðri vernd og varðveislu þurfum vér aðra trú:
Vér þurfum trú á mátt og megin
á manndóm, framtíð, starfsins guð,
þurfum að hleypa hratt á veginn,
hætta við víl og eymdarsuð.
Þurfum að minnast margra nauða,
svo móður svelli drótt af því,
þurfum að gleyma gömlum dauða
og glæsta framtíð seilast í.
Um leið og ég í umboði landshöfðingja votta brúarsmiðnum, hr. Vaughan, þakkir fyrir framkvæmd hans og óska honum góðrar heimkomu eftir farslælega lokið starf, skal ég að lokum geta þess, að svo er um samið milli hans og landsstjórnarinnar, að áður en brúnni sé veitt viðtaka til fullnustu, skuli reyna hana með jöfnum þunga, er nemi 80 pundum á hvert ferh.fet. og skal þá þungi hvíla á henni í 2 daga. Haggist þá nokkuð um bætir brúarsmiðurinn það á sinn kostnað. En með því að svo atvikaðist, að bæta þurfi ofan á stöpulinn í sumar og sú viðbót er ef til vill ekki búin að ná þeirri hörku sem hún nær síðar, hefir þótt réttara að fresta þeirri prófun um sinn. Reglur fyrir umferð um brúna hefir landshöfðingi sett samhljóma þeim við Ölfusá, og falið sýslumönnum Árnesinga og Rangvellinga fyrir sýslunefndanna hönd, að sjá um gæslu brúarinnar í bráð, þar til er fullnaðarráðstöfun verður gerð um það atriði.
Að svo mæltu lýsi ég því yfir í umboði landshöfðingja, að brúin á Þjórsá hjá Þjótanda er upp frá þessu frjáls til umferðar fyrir almenning, og vona ég að allir viðstaddir séu samhuga í því, að biðja guð að halda verndarhendi sinni yfir þessu mannvirki, blessa framfaratilraunir þjóðarinnar og þetta land, fósturland vort.