1894

Tenging í allt blaðaefni ársins 1894

Austri, 11. janúar 1894, 4. árg., 1. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur hvetur Héraðsbúa til að styðja tilraunir Ottó Wathne til að koma á gufubátsferðum á Lagarfljóti.

Um gufubátsferðir í Lagarfljótsós.
Eins og sjá má af Alþ.tíðindum, veitti síðasta Alþ.. 5.000 kr. til gufubátsferða í Lagarfljótsós.
Það hafa eflaust margir Héraðsbúar glaðst yfir því er þeir sáu, að þessu nauðsynjamáli voru hafði verið talsverður gaumur gefinn á þingi.
En þessum 5.000 kr. styrk fylgdi það skilyrði að hlutaðeigandi héraðsbúar leggðu til það sem ávantaði að þessar 5.000 kr. nægðu til að standast kostnaðinn við gufubátsferðir þessar eða að minnsta kosti ¼ hluta móts við landsjóðsstyrkinn.
Nú hefir herra O. Wathne boðið að gjöra tilraun til að koma á gufubátsferðum um Lagarfljótsós og mun ekki heimta nokkur fjárframlög, hvorki úr landsjóði né frá Héraðsbúum, fyrr en hann er búinn að sýna, með fleiri en einni tilraun, að hægt sé að komast á gufubát upp í Ósinn.
Herra O. Wathne hlýtur því að kosta stórfé til að gjöra tilraun þessa.
Það er vonandi að Austfirðingar láti ekki á sér standa, með að leggja fram sinn hluta af styrknum, og að þeir sýni það í verkinu, að það hafi verið sannmæli sem alþingismenn Austfirðinga sögðu um þetta á síð. Alþ.., að Fljótsdalshéraðsbúar vildu kaupa dýru verði reynsluna í því , hvort ekki sé hægt að sigla upp í Lagarfljótsós (Sbr. Alþt. 1893 B. 9. h. 1216. d. og víðar) ef þingið vildi dálítið létta undir byrðina með oss.
Og nú hefir þingið talsvert létt undir byrðina. Sýslunefndir Múlasýsla ættu því fúslega að leggja fram fé það er með þarf til að hrinda fyrirtækinu áfram, því ekki tjáir að biðja og biðja alltaf um fé úr landsjóði, en vilja sjálfir ekkert láta af hendi rakna.
Að vísu tekur þetta mál mest til þeirra, er á Fljótsdalshéraði búa, en samt er það rétt sem hinn heiðr. ritstj. Austra tók fram í blaði sínu í haust, að Fjarðarmenn gætu á ýmsan hátt haft hag af að gufubátsferðir þessar kæmust á, er því vonandi að sýslunefndunum skiljist, að hér er um eitt af hinum sameiginlegu framfaraspursmálum að ræða, sem varða allt Austurland.
Á Fljótsdalshéraði mun menn ekki greina á um, hvílíkt nauðsynjamál þetta er, og hve mikið framfaraspursmál fyrir Héraðið. Helst eru það ef til vill ýmsir menn á Jökuldal og Skriðdal, sem efast um að þeim sveitum verði hagur að uppsigling í Lagarfljót.
En slíkt er samt misskilningur. Auðvitað er þeim ekki hagur að sækja vörur út að Lagarfljótsós nema þegar heiðar eru ófærar.
En komist reyndin á að hægt sé að flytja vörur upp í Ósinn, þá er enginn efi á því, að með tímanum - og það áður en mörg ár líða - komast á gufubátsferðir upp í Lagarfljótsbotn.
Það er takmarkið sem vér þurfum allir að stefna að í þessu máli. Gufubátsferðir upp í Lagarfljótsós eru aðeins byrjun til gufubátsferða eftir Lagarfljóti.
Einu hindranirnar á leiðinni upp Fljótið, er Steinboginn og fossinn hjá Kirkjubæ.
Það er víst enginn efi á því, ef ekki hagaði féleysi, að gjöra mætti skipaleið yfir Steinbogann, svo gufubáturinn, sem í Ósinn gengi, komist upp að fossi. Slíkt mundi ekki álitið mikið þrekvirki í öðrum löndum.
En þó aldrei yrði í svo stórt ráðist að gjöra skipgengt yfir Steinbogann, þá sýnist það engum efa bundið að fé mætti fá úr landsjóði til að gjöra vagnveg frá Steinboganum og svo á gufubát upp Fljótið frá fossinum allt upp í Fljótsbotn.
Þegar þessu máli er svo langt komið og einhverntíma kemst það svo langt, hvort sem vér, sem nú lifum, berum gæfu til að framkvæma það, þegar reynd er á því orðin að hægt sé að flytja vörur upp í Lagarfljótsós og upp í Fljótsbotn, þá mun enginn á Jökuldal efast um að hægra sé að sækja vörur austur að Fljótinu hjá Ekkjufelli eða Brekku heldur en að sækja þær á Seyðisfjörð.
Og Skriðdælingar munu þá sjá, að þó hægt sé að sækja vörur ofan á Reyðarfjörð, er þó hægra að sækja þær norður að Fljótinu hjá Vallanesi.
Gufubátsferðir í Lagarfljótsós, eru eflaust hagur fyrir alla sem búa milli Héraðsfjalla, allt frá sjó til efstu byggða.
Þær eru hagur fyrir Fjarðarbúa því verslun og viðskipti milli þeirra og Héraðsbúa mundi stórum aukast við það, hvorttveggja til mikils hagnaðar.
Öllum þeim sem þekkja, hvílíkur kostnaður, tímatöf og hrakningur, bæði á mönnum og skepnum, þar er, sem leiðir af hinum löngu og erfiðu kaupstaðarferðum Héraðsbúa, þeim mun ekki blandast hugur um að stórfé sé leggjandi í sölurnar til að létta þessa erfiðleika.
Auk þess standa hinir erfiðu aðflutningar í vegi fyrir svo mörgum framförum í Héraði, ekki síst húsabyggingum.
Auk alls þessa er þess líka að gæta að Lagarfljót er hið eina vatnsfall á landinu, sem líkindi eru til að skipgengt sé.
Það er því sómi þjóðarinnar, ef hægt væri að koma á skipaferðum eftir fljótinu. Það yrði eitt með öðru til þess að reka það dáðleysisorð af oss Ísendingum, að vér álitum ómögulegt sem allar aðrar þjóðir álíta sjálfsagt að gjöra.
Hér er því að ræða um ómetanlegt gagn, eins hins búsælasta hluta landsins, og þar að auki um mál sem væri heiður fyrir þjóðina ef það næði fram að ganga.
Austfirðingar! Látum nú ekki sundrung, deyfð, eða smásálarskap, frá vorri hálfu, eyða þessu máli og hindra ef til vill framgang þess um langan aldur.
Minnumst þess, að "feðranna dáðleysi er barnanna böl, og bölvun í nútíð er framtíðar kvöl"
Héraðsbúi.


Ísafold, 13. jan. 1894, 21. árg., 2. tbl., forsíða:
Í landsreikningi 1892 kemur fram að 32.300 kr. hafi verið varið til vegagerðar á fimm stöðum.

Landsreikningurinn 1892.
Hér eru nokkur fróðlegustu atriðin úr þeim reikningi, er landshöfðingi hefir gert svo vel að gefa kost á að yfirfara í því skyni, þótt ekki sé endurskoðaður.
Af vegabótafénu hefir verið varið nál. 32.300 kr. til vegagerðar á 5 stöðum:
a) Ölfusvegurinn: frá Varmá að Kögunarhól og austur með Ingólfsfjalli kr. 11.622
b) Í Húnavatnssýslu: á Miðfjarðarhálsi, í Vatnsdalshólum og víðar ¿.. kr. 11.480
c) Í Norðurárdal frá Selöxl að Hvammsmúla ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 1.245
d) Milli Akureyrar og Oddeyrar ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 4.000
e) Frá Gilsferju að Vaðlaheiði í Eyjafirði ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿... kr. 4.000
Ísafold, 13. janúar 1894, 21. árg., 2. tbl., bls. 6:
Þorlákur Guðmundsson útskýrir andstöðu sína við brúartoll á Ölfusárbrú og Þjórsárbrú.

Brúarflugan.
Á söguöldinni sendu menn flugumenn til höfuðs óvinum sínum, þegar þeir af einhverjum ástæðum ekki treystust að ganga beint framan að þeim og ráða þannig niðurlögum þeirra.
Samt voru það vanalega ekki mestu menn sinnar tíðar eða bestu, sem það gerðu. Nú senda menn blaðaflugur til höfuðs mönnum. En eins og flugumönnum misheppnaðist að geta unnið á mönnum, þannig fer og fyrir blaðaflugunum. Ein af þessum flugum er brúarflugan, sem send er út í "Þjóðólfi". Sumri hafa getið þess til, að hún væri mér send; um það skal ég engum getum leiða; en það er víst, að hún ekki tollir í hárinu á mér, hvað þá meira. Hitt er nú orðið ljóst, að hún er send til höfuðs Árnesingum í heild sinni, þeim til óvirðingar og vissum framtíðar- og framfaramálum héraðs þess til stórtjóns; að því skal ég leiða rök á öðrum stað og tíma, ef ég endist til.
"Sveitabóndinn" og "Grímsnesingurinn" hafa nú rækilega vængbrotið flugu þessa, og kann ég þeim báðum bestu þakkir fyrir, einkum vegna sóma og gagns Árnesinga.
Samt vil ég nokkrum athugasemdum við það bæta, er þeir hafa sagt. -
"Þjóðólfur" segir, að þessu gæslugjaldi hafi verið dembt á tvö sýslufélög að þeim óvörum.
Þetta er með öllu ranghermt.
Jafnskjótt og frumvarpið um brúargjörð á Ölfusá var samþykkt af þinginu 1887, þá var þetta toll- og gæslumál þar með komið á dagskrá, því að þar stendur: "Um kostnað brúnni til viðhalds skal síðar ákveða með lögum", og í næstu grein á undan: "Þegar brúin væri komin á, þá yrði með lögum fyrirskipað um gæsluna og viðhaldið, en aldrei við að búast, að héruðin mundu með öllu sleppa, og þau hafa sloppið betur en nokkur gat við búist á þeim tíma. Samt tekur enginn til máls af hlutaðeigendum. Það er fyrst að herra Tryggvi Gunnarsson skrifar um þetta og heldur fram tolli og brúarverði, og ég er sá eini, sem þá svara og hefi á móti tolli og brúarverði, en held fram lausagæslu og enginn af hlutaðeigendum leggur orð í belg, með eða mót hvorugum.
Á þinginu 1889 var borið upp frumvarp í neðri deild um, að brúa báðar árnar, og jafnframt að tolla þær, en að nema úr gildi lög um brú á Ölfusá 3. maí s. á. Frumvarp þetta var jafnharðan fellt, og þar með hafði neðri deild Alþingis sagt: Brúartoll vil ég ekki.
Það, sem ég hefi á bent, hefði átt að geta vakið hlutaðeigendur til að taka til máls.
Mál þetta hefir því verið 6 ár á dagskrá. Þetta er því allt saman á eftir tímanum. Þegar ég lýsti því yfir á síðasta kjörþingi Árnessýslu, að ég væri á móti brúartolli, þá var það af þeirri ástæðu, að ég vildi ekki leyna kjósendur því, að ég hefði í engu breytt skoðun minni á þessu máli. Bera mundu menn vopn á mig, ef ég væri hlífarlaus. Það má eins vel segja, að brúnni hafi verið dembt á Ölfusá að sýslufélögum þessum óvörum. Það var eins með það frumvarp og gæslufrumvarpið, að það var samið á sama þinginu og það gekk fram á, og aldrei gengið fyrir hvers manns dyr með það og aldrei borið upp á neinum fundi, enda eru þetta beinar afleiðingar af því, að Ölfusá var brúuð; ef hún væri óbrúuð enn, þá hefði ekki þurft að kveikja þessa flugu og senda hana út. Að segja, að gjald þetta sé héruðunum ofvaxið, er sama sem að segja, að íbúar þessara héraða annað tveggja ekki geti eða vilji neitt af mörkum leggja til þess að fá aðra eins samgöngubót og Ölfusárbrúin er, og ætla ég, að hinum betri mönnum í þessum héruðum þyki sér lítill sómi gjör.
Eins og þetta er á eftir tímanum, eins er það á undan tímanum. Lög þessi eru enn ekki staðfest og því ekki komin til framkvæmda. Verður því ekki sagt, hvað þetta gjald verður hátt. Ég ætla, að því megi treysta, að landshöfðingi geri ekki sýslunum það dýrara en þörf krefur, því hann hefir sýnt lofsverðan áhuga á þessum brúarmálum og vegabótum í heild sinni, og hans ljósu rökfærslu var það með fram að þakka, að tollinum varð afstýrt.
Það er annars sorglegt, þegar menn hafa eftir margra ára stríð fengið annan eins dýrgrip, aðra eins samgöngubót, sem Ölfusárbrúin er, að brúka hana þá til að uppkveikja hreppapólitík til að sá þessu öðru versta illgresi í þjóðakurinn sem gengur næst trúleysi og guðleysi. Þetta gæslugjald ætti að vera það gjald, sem menn greiddu með mestri ánægju, jafnvel sá, sem minnst not hefir af brúnum. Menn vita þó, til hvers því er verið, og að því er ekki fleygt í einhverja bitlingsvömbina. Og það er sannarlegt gleðiefni fyrir Árnesinga og Rangæinga, að geta nú sýnt þá miklu gestrisni, að bjóða öllum, fjáðum sem févana, innlendum og útlendum, að fara toll laust og tafarlaust yfir þessar stórár.
Það er ekki líklegt, að þessi fluga muni vel þrífast í Rangárvallasýslu, enda er nú farið að hreifa því, að það hérað megi vel við una, því að flestir hreppar Rangárvallasýslu noti báðar brýrnar. (Svari þeir því).
Það skyldi þá vera eitt hið mest þarfaverk nú, að vekja upp ríg á milli héraðsmanna út úr þessu gjaldi, sem frá því fyrsta hafa fylgst að í þessu brúarmáli sem ein héraðsheild. Á síðasta þingmálafundi Árnesinga var þess óskað, að Þjórsá yrði brúuð með vægustum kjörum fyrir sýslurnar, og það sýndi, að fundurinn hafði báðar sýslurnar fyrir augum sem eina heild, eins og jafnan hefir verið í þessu máli.
Þeir, sem þessa flugu hafa út sent vita líklega ekki, eða þá vilja ekki á loft halda, að þingið 1893 hafi nett gert fyrir þessi héruð annað en að leggja á þetta hróplega gæslugjald. Það er þó þess vert, að á það sé minnst. Þó að frumvarpið um brú á Þjórsá hefði verið sniðið eftir lögum um brú á Ölfusá, mundi ekki hafa þótt hyggilegt að hafna því. En hvað verður? Stjórnin leggur það til, að landssjóður leggi út 75.000 kr. endurgjaldslaust, og þingið samþykkir það í einu hljóði. Var það ekki meira? Lítið er það. Til að laga Hellisheiði er gert ráð fyrir að þurfa muni 50.000 kr., og mun verða byrjað á því verki á næsta sumri, og líklega lokið við það á öðru sumri (1895). Er þá þar með búið? Nei. Vér eigum von á nýjum vegalögum; eftir þeim á að leggja akbraut austur í Rangárvallasýslu og akbraut af Eyrarbakka upp Árnessýslu, og þess mun ekki verða langt að bíða, að sú braut verði lögð upp að brúnni hjá Selfossi. Skyldi ekki líka þurfa að kvarta undan því, ef landssjóður tekur Melabrúna af vegasjóði Árnessýslu? Og eftir sömu lögum á að lagfæra veginn og gera akfæran til Þingvalla og áleiðis til Geysis.
Það er annars ekki svo þægilegt, að skjóta á einstaka fugla, þó að menn hafi sérstaklega hug á þeim, þegar þeir eru í þéttum hópum; það er óvíst, að hinir sleppi óskemmdir. Það er ekki svo hægt, að ámæla einstökum þingmönnum fyrir sérstök lög svo, að ekki sé gengið inn á þingið allt, þegar lögin eru samþykkt nálega í einu hljóði.
Ég skrifa ekki þessa athugasemd til að verja mig sem þingmann í brúarmálinu, hvorki fyr né síðar.
Um hinn nýja skatt, sem "Þjóðólfur" stingur upp á, hefir þegar verið nóg sagt til að benda þjóðinni á, hvað aðgengilegur hann er. Það er ekki ólíklegt, að sú tillaga lognist út af og verði aldrei á þing borin, en komi hún þar, segir þingsagan frá því, hvaða viðtökur hún fær.
Það er eins og það sé um að gera, að fá einhvern nýjan skatt á þjóðina, til að bæta úr peningaskortinum og verslunarvandræðunum! En landssjóður mun ekki vera í féþurð, svo að neinar brýnar þarfir til bera að íþyngja búnaðinum.
Það dylst engum, að ritstjóri "Þjóðólfs" hefir ýmislegt að athuga við mig fremur en aðra menn. Það er auðséð, að honum hefir ekki verið orðið vel við, þegar hann rak sig á nafn mitt hjá sveitabóndanum, því í stað þess að hrekja "Sveitabóndann" með ástæðum, þá veitir hann sér með sínum alþekkta hógværa og netta rithætti inn á ritstjóra Ísafoldar, og lætur mig svo njóta af góðréttunum. Honum hefði vart orðið meira um þótt það slys hefði til viljað, að hann hefði sest á heitan broddnagla og í sama bili gleypt í sig óafvitandi megnustu ólyfjan, og haft ástæðu til að kenna mér um, að ég hefði með töfrum glapið honum gætni og sýn. Það má annars vera gleðilegt fyrir hans merkilegu kennara við prestaskólann, að lesa eða heyra lesið sumt af því, sem hann prenta lætur úr sínum penna. Hann byrjaði að athuga mig á "almannafriðnum" og endar líklega á almanna-ófriðnum.
Ritað á gamlársdag 1893.
Þorlákur Guðmundsson.


Ísafold, 28. apríl 1894, 21. árg., 22. tbl., bls. 86:
Hér er lögð fram tillaga um það hvernig best sé að flytja efnið í Þjórsárbrúna, en of seint að mati ritstjóra.

Þjórsárbrúin og flutningsvegur þangað.
Ég vildi leyfa mér að bera upp ráð, sem mér hefir hugkvæmst til að greiða fyrir flutningi brúarinnar eða brárefnisins að brúarstæðinu. Eins og alkunnugt er, var efnið í Ölfusárbrúna dregið á sleðum af Eyrarbakka á hjarni. Og svo mun til ætlað, að efnið í Þjórsárbrúna verði flutt á sama hátt, sem líka er ómissandi, að því leyti sem þess er kostur. En hér er þess að gæta, að dragfærið getur ekki náð alla leið að brúarstaðnum, því þar er hraunland, sem varla nokkurn tíma leggur hjarn yfir, og nær það yfir talsverðan spotta af leiðinni. Það kynni raunar að mega ryðja þar braut, er hjarn legði í ef heppilega viðraði, og mætti svo draga eftir henni. En þó það tækist, sem efasamt er, þá yrði það allmikið verk og ærinn aukakostnaður, sem aldrei kæmi aftur að notum. Torvelt, ef ekki ómögulegt, mun líka að nota hesta til að færa brúarefnið yfir þennan spotta. Mun undir hvorugu þessu eigandi.
Til allrar hamingju er hér samt ekki um þau vandræði að ræða, sem ekki sé hægt úr að bæta. Eitt ráð er til þess, sem er ekki einungis óyggjandi, heldur og auðvelt og kostnaðarlaust í sjálfu sér, þar eð það liggur ekki í öðru en því, að gjöra fyr það, sem annars yrði gjört síðar, og þó ekki löngu síðar.
Ráðið er það, að leggja nú í sumar er kemur veginn milli brúanna, að minnsta kosti austurhluta hans, svo langt vestureftir, að hann nái þangað, sem ísalög taka við á vetrum. Þangað má svo draga brúarefnið á sleðum að vetri, en aka því þaðan á vagni eftir veginum að brúarstaðnum.
Það gæti orðið byrjun meiri vagnflutninga.
Vegarkaflann milli brúnna þarf að leggja bráðum hvort sem er, því ekki getur komið til áls, að póstvegurinn liggi annarsstaðar á því svæði. Og ef vegalögin frá síðasta þingi verða staðfest, þá virðist ekki vafamál, að þessi vegarkafli, allur eða mestallur, verði miðkafli flutningabrautarinnar. Hún verður án efa lögð upp að Ölfusárbrú og svo þaðan eftir meginbyggð héraðsins, til Laxár eða Reykjarétta. Þó hún verði þannig ekki bein, er það bæði héraðinu hagnaður og landssjóði sparnaður.
En hér á ekki við að fara út í vegaskipunina í sýslunni. Tilgangurinn er aðeins, að benda á ofantalið ráð, og að sé það tekið, eru gjörð tvö, ef ekki þrjú verk í einu.
Br. J.
---
Ráð þetta virðist vel hugsað, en mun því miður mikils til of seint upp borið. Það hefði þurft að koma með það fyrir þing eða á þingi í fyrra að minnsta kosti. Þingið samþykkti þá nefnilega ákveðið vegagerðaráform fyrir fjárhagstímabilið, hér um bil; að ljúka við akveg bæði fyrir Hellisheiði og yfir Mosfellsheiði. Afganginum af vegabótafénu þ. á. mun að vísu eigi hafa verið ráðstafað með neinni þingsályktun; en skammt hefði hann enst í veginn milli Ölfusár og Þjórsár eða austurkafla hans, sem höf. talar um, auk nauðsynlegs viðhalds á eldri vegum hingað og þangað, og þá hefði líka orðið enn að bíða eftir vegi að Kláffossbrúnni í Borgarfirði, er lögð var í fyrra, og hún þar með hálf-gagnslaus eitt árið enn.
Ritstj.


Austri, 29. maí 1894, 4. árg., 15. tbl., forsíða:
Þingmálafundur Múlasýsla fjallar um samgöngumálið.

Þingmálafundur.
Ár 1894, 16. dag maímánaðar var haldinn almennur þingmálafundur fyrir báðar Múlasýslur að Miðhúsum. Fundinn setti ritstjóri Skapti Jósepsson, samkv. áskorun fundar á Eiðum 14. apríl þ. á. - Fundarstjóri var kosinn með öllum samhljóða atkvæðum ritstjóri Skapti Jósepsson, en síra Einar Þórðarson í Hofteigi skrifari.
Þessi mál komu til umræðu:
2. Samgöngumálið:
a. Fundurinn skorar á alþingi, að veita með fjárlögum (og hina væntanlegu þingmenn að framfylgja því) tiltölulega meira fé úr landsjóði til vega og brúargjörðar í Austuramtinu en í öðrum ömtum landsins, að minnsta kosti um fjárhagstímabilið 1896-97.


Austri, 22. júní 1894, 4. árg., 18. tbl., bls. 70:
Sýslufundur Suður-Múlasýslu fjallar m.a. um samgöngumál.

Sýslufundur Suðurmúlasýslu.
Árið 1894, miðvikudaginn 11. apríl hélt sýslunefnd Suðurmúlasýslu aðalfund sinn á Búðareyri.
Mættir voru allir sýslunefndarmenn, nema úr Geithella-, Beruness, Fáskrúðsfjarðar-, Norðfjarðar- og Mjóafjarðarhreppum.
Var þá rætt um:
5. Var borin fram uppástunga frá síra Einari Jónssyni í Kirkjubæ, fyrir hönd Héraðsmanna, og var farið fram á, að Suðurmúlasýsla legði í ár 500 krónur, og var samþykkt með 3 atkvæðum móti 2 að sýslan legði í ár 500 kr. til siglingar á Lagarfljótsós, þannig, að peningarnir útborguðust fyrst þegar O. Wathne hefir farið þrjár ferðir gegnum ósinn og flutt inn í ósinn upp að Steinboga það, sem þeir þurfa, minnst 3000 Tons.
8. Var borin fram fundargjörð, frá Vallahrepp dags. 7. apríl, þar á meðal það, að Vallahreppur óskar keypta Þuríðarstaði, svo framarlega sem Eiðahreppur vill vera með í því. Sýslunefndarmaður Reyðarfjarðar biður bókað, að þessi umrædda jörð, sé byggð vegna ferðamanna, sem eigi langan og slæman fjallveg fyrir hendi, nl. Eskifjarðarheiði, en langt til byggða, ef jörðin verður lögð í eyði, enda mundi þurfa að leggja aðalpóstleiðina, allt aðra leið, og mál þetta ótímabært, þar sem núverandi ábúandi hafi ekki nema tveggja ára ábúð á jörðinni. - Sýslunefndin vill ekki útkljá um þetta núna, og vill hún að það sé borið upp á sameiginlegum fundi, og skýtur málinu á frest.
14. Var þá lagt fram bréf síra Magnúsar Bl. Jónssonar í Vallanesi til amtsins um mótmæli hans gegn lögferju yfir Lagarfljót undan Vallanesi og var ákveðið að fresta þessu máli þangað til að maður veit, hvar læknirinn sest að, sá er næst fer með embættið.
19. Aukavegareikninga frá 1892 og 93 vantar frá nokkrum hreppum, og er sýslumanni uppálagt að innkalla þá tafarlaust með næsta pósti, að viðlögðum dagsektum og Hans Bekk falið á hendur að endurskoða þá fyrir 10 kr. þóknun.
23. Sýsluvegagjald 1894 er í sjóði ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ kr. 15.00
Árgjald 1894 ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ - 700.00
Áætlaðar vegabætur 1894 til Eiðahrepps ¿¿¿¿¿¿¿. 100.00
til Hallormstaðaása ¿¿¿¿¿ 100.00
til Þórudals ¿¿¿¿¿¿¿¿. 150.00
til Innsveitar ¿¿¿¿¿¿¿... 200.00
til Reyndalsheiðar ¿¿¿¿¿.. 150.00
Alls kr. 700.00
Var sýslumanni og Fr. Möller falið á hendur að sjá um veginn á Innsveit; um Eiðahrepp sýslunefndarmanni Jónasi Eiríkssyni, um Hallormsstaðaása Guttormi Vigfússyni, um Þórudal Jóni Ísleifssyni á Arnhólsstöðum; og Jóni Finnbogasyni um Reyndalsheiði; á að gjöra þessa vegi og úttektir á þeim, fyrir áætlaðar upphæðir.
24. Póstvegagjald 1894 er í sjóði ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. kr. 246.94
Árgjald 1894 ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 700.00
Sýslunefndin samþykkir þessa
Áætlun:
Til Haugatorfa ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 150.00
til Vallahrepps ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.¿¿¿ 400.00
til Breiðdalsheiðar, Víðigrófar og til að koma bjarginu úr Kerlingarskeiðinu ¿ 350.00
til að bæta brýrnar fyrir framan Arnhólsstaði og þar um kring ¿¿¿¿¿¿... 46.94
Á Haugstorfu og fyrir neðan Hallbjarnarstaði framkvæmir Jón Ísleifsson verkið, og á Völlum Guttormur Vigfússon; á Breiðdalsheiði, Víðigróf og til að koma bjarginu burt af Kerlingaskeiðinu, Jón Finnbogason; en Jón Ísleifsson kringum Arnhólsstaði.
Ísafold, 30. júní 1894, 21. árg., 40. tbl., bls. 158:
Þingmálafundur fyrir niðurhluta Borgarfjarðarsýslu áleit að leggja beri væntanlega flutningabraut alla leið niður á hinn fjölmenna Skipaskaga.

Þingmálafundir.
Þingmálafund fyrir niðurhluta Borgarfjarðarsýslu hélt þingmaðurinn, lektor Þórh. Bjarnarson, á Akranesi 25. þ. m., og voru um 80 á fundi. Fundarstjóri var kosinn formaður Sveinn Guðmundsson og skrifari kaupmaður Snæbjörn Þorvaldsson.
Samþykkt var, að taka þau mál ein til umræðu, er eigi höfðu komið til tals á kjörfundinum.
2. Flutningabrautina væntanlegu, um Borgarfjörð, áleit fund. að bæri að leggja alla leið niður á hinn fjölmenna Skipaskaga, er öll sýslan hefir svo mikil og margs konar skipti við, og treysti fund. landstjórninni til, að líta á þá nauðsyn á sínum tíma.


Ísafold, 4. júlí 1894, 21. árg., 41. tbl., forsíða:
Mr. Vaughan frá Newcastle hefur tekið að sér að smíða Þjórsárbrúna fyrir 67.500 kr. en hann smíðaði áður Ölfusárbrúna.

Þjórsárbrúin.
Það meiri háttar mannvirki hefir nú tekið að sér að öllu leyti Englendingur sá, er Ölfusárbrúna smíðaði, Mr. Vaughan frá Newcastle, fyrir 67.500 kr. Er þar í fólgið allt sem þar að lýtur, þar á meðal flutningur á brúarefni, stöplahleðsla m. m. Mr. Vaughan kom hér um daginn (12. f.m.) með Laura og fór austur til þess að gera nánari mæling á brúarstæðinu, undirbúa stöplahleðslu m. m. Ætlar hann að láta brúarsporðana ná nokkuð upp á land beggja vegna, og kemst þannig af með minni stöpla en ella, en lengri verður brúin sjálf og meira hafið jafnvel en á Ölfusárbrúnni. Öll stöplahleðsla á að vera búin 1. sept. í sumar, og brúin á komin og fullger til umferðar 1. sept. að ári, (1895), eftir nýlega gerðum samningi við ráðgjafann. Skip kemur með brúna sjálfa, járnbrú, nú á áliðnu sumri, til þess að veturinn megi nota til að koma henni að brúarstæðinu. Eins og kunnugt er, voru veittar allt að 75.000 kr. og sparast þá 7 ½ þús. kr. af þeirri fjárveitingu, nema ef einhverju þarf að kosta til umsjónar verkfræðings með brúarsmíðinu.


Ísafold, 11. júlí 1894, 21. árg., 42. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur ræðir stöðu samgöngumála og segir að ekki muni veita af hálfri 20. öldinni til að koma þeim í viðunandi horf.

Samgöngur
Enda þótt samgöngumál vor hafi tekið afarmiklum endurbótum á síðari árum, bæði hvað snertir samgöngur við útlönd og þó ekki síst samgöngur innanlands, hlýtur hverjum skynberandi manni að vera það ljóst, að ennþá er svo mikið ógjört til endurbótar í því efni, að ekki mun veita af hálfri 20. öldinni tilvonandi til þess, að þau geti verið komin í viðunanlegt horf. Samgöngur vorar hljóta vegna strjálbyggis eðlilega að verða miklu dýrari að tiltölu, en í öðrum löndum í samanburði við fólksfjöldann, og þegar þar við bætist, að land vort er nú orðið afar langt á eftir öðrum löndum í því efni, sérstaklega hvað samgöngur á landi snertir, má ekki búast við öðru, en að margar aldir líði áður en samgöngur hér eru komnar á sama stig og erlendis, og það þótt vér færumst allir í aukana. Samgöngur á sjó hafa tekið svo miklum endurbótum á síðasta áratug, að um líkt hefði naumast verið dreymt enda í draumórum þjóðhátíðarfagnaðarvímunnar. Má einkum telja til þess strandferðirnar, enda þótt þær hafi ekki þótt fullnægjandi í ýmsum greinum. Hafa tvö hin síðustu þing reynt að bæta úr brestum þeim, er á þeim þykja vera, með því að veita fé til aukinna strandferða, en tilraunir þessar hafa ekki ennþá komið að neinu haldi. Eru sumir þeirrar skoðunar, að landið sjálft ætti að eiga gufuskip, er haldið væri úti til strandferðanna. Væri ekkert á móti því, ef formælendur þess geta gefið tryggingu fyrir, að oss væri nokkru borgnara heldur en að hafa samið við áreiðanlegan skipaeiganda um ferðir þessar. Að minnsta kosti er mjög ísjárvert að binda sig skipkaupum, meðan engin vissa er fyrir, hversu stór skip samsvara flutningsþörfunum. Þarf ekki lengra að fara en minnast á gufubátinn "Elín", sem hefir gengið hér um Faxaflóa frá því í fyrra. Þótti mjög vafasamt í fyrstu að hún hefði nægilegt að starfa, en reynslan mun nú farin að sýna, að hún hefði gjarna mátt vera drjúgum stærri. Mun því hyggilegra að láta skipkaupin bíða þangað til næg reynsla er fengin fyrir, hvers konar skip eru hentugust til strandferðanna. Hingað til hefir mest verið hugsað um að hafa stærri gufuskip, er færi í kringum allt landið og kæmi við á sem flestum höfnum að mögulegt væri. Hætt er við, að þess konar skip reynist nokkuð dýr í samanburði við það gagn, er þau gjöra. Er mjög vafasamt, að heppilegt sé, að strandferðaskip kringum land allt komi miklu víðar en þær Laura og Thyra gjöra nú, því það mundi ærið dýrt fyrir ferðafólk, er færi með því langar leiðir, að koma inn á hverja vík, og skipið yrði að vara afar hraðskreytt, ætti töfin á höfninni að vinnast upp. Að minnsta kosti er augljóst, að reynslan mundi fljótt sýna, að skip, er færi aðeins 7-8 mílur á vökunni, mundi þykja allsendis ófullnægjandi. Hvað gufubátana snertir, hygg ég, að þeim hafi ennþá verið miklu minni gaumur gefinn en skyldi. Mundi ekki mögulegt, að koma þeim þannig í samband hverjum við anna, að þeir mættust á vissum stöðum og tækju svo við fólki og flutningi hver af öðrum? Ætla ég að til þess þurfi að minnsta kosti 8 gufubáta kringum land allt, þannig, að einn gangi austanfjalls, frá Vík til Reykjaness, 2. á Faxaflóa, 3. á Breiðafirði, 4. á Ísafjarðardjúpi, 5. á Húnaflóa og Skagafirði, 6. á Eyjafirði og austur undir Langanes, 7. frá Langanesi til Seyðisfjarðar og hinn 8. þaðan til Papóss. Í sambandi við gufubátana mundi þurfa að fjölga strandferðunum á stærra skipi um 2, að minnsta kosti, fram yfir það, sem nú er, nfl. í ágúst og október og ættu ferðir hinna stærri gufuskipa og gufubátanna að standa í sambandi hver við aðra svo vel sem hægt væri að sumrinu. Hvað samband vort við útlönd snertir er öldungis óviðunandi hvað fára gufuskipaferðir eru hingað um hásumarið. Útlendir ferðamenn, sem gætu verið auðsuppspretta fyrir landið, geta ekki komist hingað nema höppum og glöppum þann stutta tíma, sem ferðafært er fyrir þá hér. Veitir alls ekkert af, að frá því í miðjum júní og fram í miðjan septbr., kæmi gufuskip hingað á hverjum hálfsmánaðar fresti, annaðhvort beint frá Skotlandi eða fastalandi Evrópu um Granton. Í annan stað er óhentugt, að verða fyrir því, að póstferðir farist fyrir um háveturinn vegna þess, að póstskipið sé frosið inni í Eystrasalti, og ber því brýna nauðsyn til, að trygging fáist fyrir því, að gufuskip fari frá Esbjærg á Jótlandi hingað í hvert sinn er póstskipið getur ekki komist frá Kaupmannahöfn í tækan tíma.
Með byggingu Ölfusárbrúarinnar má svo að orði kveða, að nýtt tímabil hefjist í samgöngum vorum innanlands. Þegar hún er loks byggð, er enginn sem neitar því, að mögulegt sé að brúa smámsaman allar þær stórár landsins, er brúandi eru. Jafnvel þótt þröngsýni allmargra hallist enn að því, að héruð þau, er einkum njóta brúnna eigi að bera kostnaðinn að nokkru leyti, en það má telja víst, að eftir því sem fleiri stórár veðri brúaðar á ýmsum stöðum á landinu, fari þinginu að skiljast, að landssjóði ber að sjá um brýr á allar hinar stærri ár, en smáárnar á hlutaðeigandi héruðum ekki að vera ofætlun að ráða við. Hafa Skagfirðingar gefið öðrum héruðum landsins gott eftirdæmi í því efni og má ætlast til að önnur sýslufélög láti ekki sitt eftir liggja, að láta eitthvað verk sjást eftir sig. Er vonandi að Rangæingar hefjist nú handa, er þeir sjá brúna koma á Þjórsá, væntanlega að ári komandi, og kljúfi til þess þrítungan hamarinn, að brúa Rangárnar, einkum Ytri-Rangá, og hið sama má vænta af Árnesingum hvað snertir Laxá og Tungufljót, svo framarlega sem hentug brúarstæði finnast á þeim. Hvað brúargjörð á Soginu snertir, var því máli hreift á sýslufundi Árnesinga fyrir nokkrum árum, en að líkindum þyrfti til þess meira fé, en héraðsbúum væri kleyft að leggja einum fram. Brúin á Brúará er þvílík ómynd, að vér getum naumast án kinnroða látið útlenda ferðamenn, sem koma til landsins, fara hana lengur, án þess hún sé gjörð að nýju. Þannig, að hún nái upp yfir vatnið, hvaða vöxtur sem kemur í ána. Af stórám í öðrum landsfjórðungum er Jökulsá í Axarfirði efst á blaði, þegar er Þjórsá sleppur, og svo framarlega sem á henni finnst hentugt brúarstæði væri æskilegt að vér gætum klykkt öldina út með því að brúa hana. Það væru afarmiklar framfarir að geta brúað 3 stærstu ár landsins á einum áratug.
Hvað hin nýju vegalög snertir, má búast við, að allmörg ár líði áður þeim sé viðunandi fullnægt, sérstaklega er þess er gætt, að viðhaldskostnaður veganna hlýtur að aukast stórum er lagðir vegir lengjast, því til lítils er að leggja vegi án þess að þeim sé haldið sæmilega við. Má búast við ýmsum umkvörtunum yfir því, úr hinum og þessum héruðum, er látin verða sitja á hakanum, að þau þykist afskipt, en til lítils væri að hlaupa þannig eftir ósk allra með því að leggja nokkur hundruð faðma árlega í hverju héraði. Það yrði auðvitað til þess, að aldrei yrði lokið við neitt, og vegagjörðarkostnaðurinn yrði jafnfram miklu meiri að tiltölu heldur en þegar langur kafli er lagður í einu lagi. En svo framarlega sem vér viljum fá endingargóða vegi, verður oss að vera það ljóst, að vagnarnir eru ekki aðeins til sparnaðar hvað hestaþörfina snertir, heldur blátt áfram nauðsynlegir til að bæla niður vegina, festa þá og gjöra endingargóða.
Hjálmar Sigurðarson.


Austri, 13. júlí 1894, 4. árg., 20. tbl., forsíða:
Otto Wathne hefur nú tekist að sigla upp í Lagarfljótsós en hafði áður gert þrjár misheppnaðar tilraunir til þess. Er það fyrirætlun hans að koma fljótlega á gufubátsferðum á efri hluta Lagarfljóts.

Uppsiglingin í Lagarfljótsós.
Uppsiglingin í Lagarfljótsós er nú á komin í góðu lagi fyrir dugnað og úthald Otto Wathne, og einhuga fylgi alþingismanna vorra Múlasýslubúa, bæði á alþingi og heima í héraði.
Otto Wathne hefir nú gjört 3 tilraunir til þess að komast í Lagarfljósós, og kostað til þess miklu fé, því þessi uppsigling hefir verið honum mikið áhugamál frá því er hann fyrst fór að kynnast hinum örðugu vöruflutningum hér neðan úr fjörðunum upp yfir hinar bröttu heiðar.
Árið 1890 reyndi O. W. að komast í Lagarfljótsós með flatbotnaðri skútu, fermdri trjáviði. En hún stóð í Ósnum og varp svo fljótt sandi að henni, að henni varð eigi náð af grynningunum, og tapaði O. W. á þeirri tilraun sinni nálægt 2000 kr.
Árið 1892 keypti O. W. hjólskipið "Njörð", sem hann lét svo gufuskipið "Skude" draga hingað upp. Fór O. W. svo þegar með "Njörð" með ýmsum vörum upp í Lagarfljótsós. En skipið reyndist bæði of djúpskreytt og of langt til þess að snúa því eftir hinum mörgu grynningum sem eru í Fljótinu, og varð eigi hægt að hafa það til siglinga í Ósinn, og lítil nota af því síðan til annarra hluta, svo O. W. mun hafa haft nær 15.000 kr. skaða á þessari annarri tilraun til þess að komast í Ósinn.
Í þessum 2 ferðum kannaði hann nákvæmlega Ósinn og neðri hluta Fljótsins.
Í vetur keypti hann lítinn, en sterkan, grunnskreiðan gufubát, sem svo flutti upp hingað á "barkskipi".
Þann 27. f. m. lagði hann héðan af stað í fyrra skiptið, með "Vaagen", með vörur upp að Ósnum, og dró "Vaagen" gufubátinn og stóran uppskipunarpramma - sem tekur undir þiljum, er O. W. hefir látið byggja yfir hann, um 30 smálestir - upp að Ósnum, eftir litla viðdvöl á Borgarfirði sökum ókyrrs veðurs og sjávar.
Lagði O. W. þegar með hinn nýja gufubát í Ósinn og dró hann hinn stóra flutningspramma, fullan með vörur úr "Vaagen", er lá þar rétt fyrir utan Ósmynnið.
Straumurinn í Ósnum reyndist með útfallinu ákaflega mikill; en til þess að létta undir dráttinn, lét O. W. leggja útí mestu straumhörkuna 4000 faðma langan kaðal, festan við akkeri, er hann svo skipaði nokkrum mönnum í framstafn gufubátsins til að draga sig eftir; létti það mikið ferðina.
9 stórpramma flutti O. W. inn í Ósinn, fermda með allskonar vörum til Héraðsmanna, og flutti svo aftur hingað ull fyrir þá til baka. Hefir O. W. flutt mikið af kaupstaðarvörunni upp að Húsey. En hinum litla gufubát veittist, sem vonlegt var, örðugt að draga þetta mikla bákn, prammann, fermdan á eftir sér á móti straumnum eftir öllum þeim krókum, sem eru á Fljótinu. Mun O. W. hafa í hyggju að láta smíða til næsta árs 2 minni flutningspramma, og þá ætlar hann að uppskipunin muni ganga fullt eins greiðlega við Lagarfljótsós eins og hér niður á Seyðisfirði, því gufubáturinn hefir sýnt sig einkar haganlegur og vikaliðugur í straumnum og bugðunum á Fljótinu.
Það er ætlan Otto Wathnes að koma von bráðar gufubátsferðum á efri hluta Lagarfljóts, alla leið upp að Brekku í Fljótsdal, svo framarlega sem hann fær þar til opinberan styrk.
Hann hefir aðeins tekið 1 kr. fyrir að flytja hestburðinn héðan af Seyðisfirði og innum Lagarfljótsós af matvöru, og hálfu minna fyrir borðvið, t.d. 1 kr. fyrir að flytja 12 borð, og sjá allir, hvílíkur hagnaður þvílíkur flutningur er öllum Úthéraðsmönnum um túnasláttinn, og þá mundi flutningurinn eftir efri hluta Lagarfljótsós alla leið upp í Fljótsdal vera Upphéraðsmönnum engu minna hagræðari sem vonandi er að alþingi styðji (ólæsilegt) framkvæmdum á með hæfilegri fjárveitingu á móts við kringumliggjandi héruð.
Uppsiglingin á Lagarfljótsós er þá á komin, til ánægju fyrir alla þá, er unnið hafa að þessu mikilsverða fyrirtæki, og til stórhagnaðar fyrir helming Fljótsdalshéraðs, sem vonandi er að bráðum megi verða allt aðnjótandi þeirra hagsmuna, sem af henni leiða.
Þess væri og óskandi, að þessi uppsigling í eitthvert stærsta vatnsfall landsins yrði til góðrar fyrirmyndar til þess að reynt væri að koma vörum uppí stórósana á hinum mikla hafnalausa svæði frá Reykjanesskaga austur að Lónsheiði, sem mundi verða til ómetanlegs gagns fyrir þessar blíðviðrasömustu sveitir landsins, en sem eiga svo langsótta aðflutninga, að mikið dregur frá bjargræðistímanum.
Ísafold, 28. júlí 1894, 21. árg., 47. tbl., forsíða:
Höfundur þessa ferðapistils segir margar dagleiðir ógreiðari nú en fyrir 30-40 árum.

Dálítill ferðapistill.
IV.
Það er mikið mein, að það skuli fylgt hafa hinum margítrekuðu vegagerðarréttarbótum um síðasta mannsaldur, að lagst hefir mjög niður að ryðja vegi. Hefir á því tímabili öll áherslan verið lögð á að gera vegi af nýju, svo lítil mynd sem á því hefir þó verið til skamms tíma og er enn víðast þar sem landssjóður kemur ekki nærri, en hætt að hugsa um að halda hinum eldri vegum nokkurn veginn færum með ruðningum. Hefir niðurstaðan orðið sú, að það er mörg dagleið ógreiðari nú og seinfarnari en fyrir 30-40 árum, bæði sakir þess, að hinir gömlu vegir eftir hestafæturna eru nú látnir óruddir, og að við hefir bæst ný torfæra, sem þá var óvíða til að dreifa, en það eru vegabrýr yfir fen og flóa, af þeirri list og kunnáttu gerðar, að brautin sú er, þegar frá líður, versta ófæran þar, og verða ferðamenn að fara á sig krók til að lesa sig áfram yfir mýrina einhversstaðar fjarri veginum; er slíkt býsna algengt, og heldur vitaskuld áfram, meðan sú fásinna viðgengst, að þeir eru látnir vinna að slíku sem ekki kunna. Þarf ekki lengri ferð en þessa til þess að reka sig á nóg dæmi þess. - Vegurinn yfir Svínadal, milli Saurbæjar og Dala, er afleitur fyrir ruðningarleysi; sömuleiðis eftir Bjarnadal og einkum upp á Bröttubrekku að sunnan, meðfram skemmdur þar með vegagerðarkáki "upp á gamla móðinn"; að norðan hefir hann aftur á móti verið mikið vel ruddur í vor, alla leið niður á móts við Breiðabólsstað. Er það líklegast einn hinn fyrsti árangur af vorum allranýjustu vegalögum, er svo mæla fyrir, í 8. gr.:
"Á þjóðveginum skal svo bæta torfærur með vegaruðning og brúargjörð, að þeir séu greiðir yfirferðar."
Ég man ekki eftir ruddum vegarspotta annarsstaðar þar vestra nema við Gilsfjörð sunnanverðan; þeir höfðu rutt þar á sinn kostnað sína hlíða hvor, fyrir utan og innan Ólafsdal, nábúarnir tveir, Torfi í Ólafsdal og Eggert bóndi á Kleifum Jónsson, - alkunnur sæmdarmaður, snyrtimaður í bændaröð, prýðilega greindur og vel að sér, kominn nú hátt á sjötugsaldur. Ég hitti hann í Ólafsdal. Við höfðum eigi sést fram undir 30 ár.


Austri, 2. ágúst 1894, 4. árg., 22. tbl., bls. 86:
Á sýslunefndarfundi Norður-Múlasýslu var m.a.. fjallað um ýmiss samgöngumál.

Útskrift úr gjörðabók sýslunefndar Norður-Múlasýslu.
Ár 1894, föstudaginn hinn 13. apríl, var aðalfundur sýslunefndar Norður-Múlasýslu settur að Rangá.
Á fundinum eru allir sýslunefndarmenn mættir ásamt oddvita, nema sýslunefndarmaður Borgarfjarðarhrepps.
Á fundinum komu þessi mál til umræðu:
3. Formaður lagði fram bréf frá formanni amtsráðs Austuramtsins, dags. 31. ágúst 1893, þar sem hann tilkynnir útdrátt úr fundargjörðum amtsráðsins 22.-23. ágúst f. á. um uppsiglingu í Lagarfljótsós og tjáir amtsráðið sig fúst til á sínum tíma að láta sitt fylgi ekki eftir liggja til að styrkja uppsiglingu í Lagarfljótsós. Jafnframt lagði formaður fram bréf frá formanni í nefnd þeirri, er kosin var á undi í Miðhúsum í Eiðaþinghá 26. oktbr. f.á., til að annast framkvæmd á málinu um uppsigling í Lagarfljótsós, Einari Jónssyni presti á Kirkjubæ, þar sem óskað er eftir 1167 kr. tillagi úr sýslusjóði Norður-Múlasýslu ef sýslunefnd Suður-Múlasýslu, veiti 500 krónur til fyrirtækisins, en annars 1667 kr. - Málið var ýtarlega rætt, og kom það fram undir umræðunum, að sýslunefnd Suður-Múlasýslu hafði á fundi sínum 11. þ.m., veitt 500 kr. til fyrirtækisins, svo eigi var um að ræða annað en 1167 kr. tillag úr sýslusjóði Norður-Múlasýslu. Að umræðunum loknum var samþykkt í einu hljóði, að veita úr sýslusjóði Norður-Múlasýslu 1167 kr. til gufubátsferða um Lagarfljótsós, í von um, að amtsráð Austuramtsins mundi á sínum tíma samþykkja það fjárframlag úr sýslusjóðnum.
8. Héraðslæknirinn á Vopnafirði skoraði á sýslunefndina að breyta sýsluveginum, þar sem hann liggur heim á verslunarstaðinn á Vopnafirði, því eins og hann væri nú lagður, þá væri ómögulegt að hafa þurra og hreinlega vegi milli húsanna í kaupstaðnum og ómögulegt að rækta blett í kringum húsin, vegna þess, hvað vegurinn lægi óreglulega; væri það bæði óþokkalegt að sjá forarræsi sem ekki væri hægt að gjöra við, vegna þess, hvernig sýsluvegurinn lægi, og svo gæti líka í heilbrigðislegu tilliti stafað stór hætta af því, ef stórsóttir kæmu upp, því um sumartíma legði óþolandi ódaun uppúr þessum foraveitum.
Sýslunefndin var þessu samþykk og eftir nokkrar umræður var samþykkt svohljóðandi fundarályktun.
Krókurinn á sýsluveginum í Vopnafjarðarhreppi, þar sem vegurinn liggur heim á kaupstaðinn, skal feldur úr vegatölu, frá klöppinni fyrir sunnan hús Ólafs Jónssonar og niður að stakkastæðunum. En aftur skal liggja sýsluvegur inn frá téðri klöpp norðurá Vesturárdals sýsluveginn hjá veitingahúsinu. Vesturdals sýsluveginn skal leggja frá téðu veitingahúsi niður að verslunarhúsum kauptúnsins. Sýslunefndin skorar einnig á hreppsnefndina í Vopnafjarðarkauptún verði lagðir sem haganlegast og helst sem næst því er uppdrættir þeir sýna er nú liggja fyrir nefndinni. Gerir sýslunefndin samþykki sitt allt að kostnaðurinn við vegalagningu þess verði greiddur úr sýslusjóði, að því leyti sem hann hvílir ekki samkvæmt lögum á hreppavegasjóðnum.
19. Oddviti lagði fram bréf landshöfðingja, dags. 30. sept 1893, þar sem landshöfðingi veitir sýslufélagi Norður-Múlasýslu 4.000 kr. lán úr landssjóði til brúargjörðar á Fjarðará, gegn veði í eignum og tekjum sýslufélagsins þannig, að lánið ávaxtist, og endurborgist með 6% í 28 ár (er greiðist í fyrsta sinn 30. sept 1894). Jafnframt sendir landshöfðingi 2 samrit af skuldabréfum til landsjóðs, er sýslumanni ber að undirskrifa, að þar til fengnu umboði frá meðlimum sýslunefndarinnar. - Sýslunefndin gaf oddvita sínum hið síðastnefnda umboð.
20. Oddviti lagði fram bréf amtmanns, dags. 27. okt. 1893, þar sem hann samþykkir fyrir hönd amtráðsins, að nota megi allt hreppsgjald Jökuldalshrepps til dráttar, sem er á sýsluvegi í þeim hreppi.
21. Oddviti lagði fram bréf frá amtmanni, dags. 4. sept. 1893, þar sem hann áminnir um, að sýsluvegir hafi hina lögboðnu 5 álna breidd og að hver sýslunefndarmaður hafi eftirlit með vegabótum á sýsluvegum í sínum hreppi.
23. Oddviti lagði fram bréf frá hreppsnefndaroddvita Skeggjastaðahrepps, dags. 3. apríl 1894, sem óskar leyfis sýsluefndar, til þess að fá sýsluveg þann, er liggur um Djúpalækjarmýrar, færðan ofan að sjónum, með því að þar sé betri jarðvegur og vegagjörðin kostnaðarminni m. m. Sýslunefndin samþykkti hið umbeðna.
24. Oddviti lagði fram bréf amtmanns, dags. 14. nóvbr. 1893, þar sem hann gjörir athugasemdir við sýsluvegasjóðsreikning Norður-Múlasýslu 1892. Í þessum athugasemdum er meðal annars fundið að því, að sýsluvegarhlutir þeir, er gjörðir hafa verið í Tunguhrepp og Hjaltastaðahrepp hafi eigi hina lögskipuðu 5 álna breidd. Út af þessu vill sýslunefndin geta þess, að hin ónákvæma breidd á greindum vegarspottum er sumsstaðar sprottin af ófullkominni mælingu vegagjörðarstjóra, sem sumsstaðar af því, að koma þurfti veginum yfir vissa lengd, til þess að hann yrði notaður strax eins og þörf var á, en eigi fullbreiðir, og eru að öðru leyti dável af hendi leystir, óskar sýslunefndin að amtsráðið vilji gefa samþykki sitt til þess, að við svo búið megi standa, hvað þessa vegaspotta snertir. Annars munu sýslunefndarmennirnir eftirleiðis hafa gát á, að sýsluvegirnir hafi hina lögskipuðu breidd, og sjá um, að undirbúningskjöl sýsluvegasjóðsreikningsins veðri í tíma komin til oddvita nefndarinnar.
25. Um sýsluvegagjörðir á komandi sumri var það ákveðið, að hver hreppur mætti verja sínu gjaldi til framhalds og viðhalds þeim vegabótum sem þegar er byrjað á.
26. Sýslunefndin felur oddvita sínum á hendur að sækja til landshöfðingja um styrk af fé því, sem veitt er í fjárlögum til póstvega, til vegagjörár á póstveginum frá trébrú á Jökulsá að Lagarfljóti.
28. Lagði oddviti fram bænarskrá frá hreppsnefnd Seyðisfjarðarhrepps um að sýslunefndin veitti samþykki sitt til, að borga mætti úr hreppsjóði nefnds hrepps 1.000 kr. til O. Wathne, í viðbót við þær 4.000 kr., er honum hafa þegar verið greiddar fyrir brúarbyggingu á Fjarðará í Seyðisfirði, og skulu hinar umræddu 1.000 kr. borgast á 4 árum. Sýslunefndin veitti leyfi til þess. Ennfremur bað hreppsnefndin um að sýslunefndin veitti leyfi sitt til þess að verja mætti 200 kr. úr hreppavegasjóði Seyðisfjarðarhrepps til að setja handrið, úr tré eða járni við báða brúarsporðana, og veitti nefndin leyfi til þess. - Beiðni hreppsnefndar Seyðisfjarðarhrepps um að sýslunefndin tæki að sér borgun að einum þriðja hluta af ofangreindum 1.000 kr. var felld að svo stöddu með 7 atkvæðum móti 1.
Einnig óskaði hreppsnefnd Seyðisfjarðarhrepps álits sýslunefndarinnar um það, hver bera ætti hinn árlega kostnað við viðhald og aðgjörðir á brúnni, og lét sýslunefndin í ljósi það álit sitt, að hreppavegasjóði Seyðisfjarðarhrepps bæri að greiða kostnað þennan.
31. Kom þá til umræði vegurinn á Fjarðarheiði, og kom þá í ljós, að styrkur sá, er sýslunefndir Múlasýsla höfðu í fyrstu beðið um til vegagjörðar yfir heiðina, 10.000 kr., mundi eigi hafa verið of hátt áætlaður, þar eð það hefir komið fram á síðastl. vetri að vörðurnar yfir heiðina hafa bæði reynst of strjálar og of lágar, og ná ekki svo langt sem nauðsyn krefur. Auk þess vantar enn þá víða ofaníburð, er eigi varð fengin sökum fjárskorts og fjarlægðar, enda var vegurinn víða til bráðabyrgðar að eins ruddur, þar sem brýna nauðsyn ber til að hækka hann upp. Vantar og enn þá að halda veginum áfram ofan í byggð á báðar hliðar. Sýslunefndin verður því að halda því fram að óumflýjanlega nauðsynlegt sé, að enn þá verði veittar úr landsjóði 5.000 kr., til að fullgjöra veginn, og felur oddvita sínum, að gjöra nauðsynlegar ráðstafanir í því efni.


Ísafold, 4. ágúst 1894, 21. árg., 49. tbl., bls. 195:
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um að veita hlutafélagi einkaleyfi á að leggja járnbraut, m.a. frá Reykjavík og austur í Rangárvallasýslu og aðra norður í Eyjafjörð.

Siglinga- og járnbrautafélag.
Þá eru þeir Jens Pálsson og Jón Þórarinsson flutningsmenn að allmiklu frumvarpi um að veita hlutafélagi (ensku) einkaleyfi til að leggja járnbraut frá Reykjavík austur í Rangárvallasýslu, og aðra frá Reykjavík eða Akranesi norður í land allt til Eyjafarðar, sem og lengri eða styttri greina út frá þessum tveimur aðalbrautum innan sýslna þeirra, er þær liggja um. Félagið byrjar á því, að leggja járnbraut 50 mílur enskar austur frá Reykjavík og lætur eimlestir ganga eftir brautinni 6 sinnum í viku í minnsta lagi frá 15. apríl til 15. nóvember ár hvert, en aðra tíma eins oft og við verður komið sökum snjóa. Fyrir það áskilur félagið sér 50.000 kr. ársstyrk úr landssjóði í 30 ár. Jafnframt því tekur félagið að sér fyrir annan 50.000 kr. styrk á ári í 30 ár gufuskipsferðir bæði milli Englands og Íslands (Faxaflóa) og umhverfis landið. Millilandaskipið á að vera 800 smálestir að stærð og fara 2 ferðir á mánuði í minnsta lagi á sumrum, en 1 á mánuði á vetrum. Strandferðaskipið á að vera sífellt á ferð umhverfis landið frá 15. febrúar til 15.nóvember ár hvert.
Höfuðstóll félagsins sé 6 milljónir (6.000.000) krónur, en má hækka upp í 10 milljónir. Hlutirnir séu 100 kr. hver.
Félagið hefir varnarþing í Reykjavík.

Ísafold, 4. ágúst 1894, 21. árg., 49. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um þau áform sem uppi eru um járnbrautarlagningu hér á landi.

Mikils háttar nýmæli.
Það er járnbrautin íslenska, og hitt annað, er henni fylgir.
Fyrirsögn hefði það þótt fyrir nokkrum árum, meira að segja fyrir nokkrum mánuðum, meira að segja fyrir nokkrum mánuðum, að alþingi 1894 hefði til meðferðar frumvarp um að leggja hér járnbrautir, svo og svo miklar, um helstu byggðir landsins. Enginn hérlendur maður hafði rétt til skamms tíma látið sér verða það á, að hugsa svo hátt. Þeir sem lengst komust og glæsilegastar vonir gerðu sér um framtíð landsins, hugsuðu sér fyrstu tilraunir í þá átt eftir svo sem hálfa öld eða vel það. Vesturheimsblöðin íslensku höfðu að vísu komið með einhverjar þess kyns bollaleggingar fyrir nokkrum árum, um járnbraut frá Reykjavík norður á Akureyrir; en hérna megin hafs mun hver einasta sál hafa skoðað það eins og loftkastala, eins og "vesturheimskan vind" - talið slíkt allsendis óframkvæmanlegt, þótt af alvöru væri hugsað af þeim, sem upp kom með það og af velvildarhug til landsins.
Sumir munu nú ef til vill skoða þessa ráðagerð, sem hér er nú á prjónum og þegar komin á dagskrá Alþingis, eins og framhald af þessum vesturheimska vindi og ekki annað, þar sem frumkvöðull hennar og flutningsmaður við þingið er landi einn frá Vesturheimi og hann nákominn helsta blaðinu þar. Í annan stað mun eigi trútt um, að einhverjir taki ráðagerð þessa alla eins og útflutningsbrellu, með því að áminnstur höfundur hennar og flutningsmaður hér er við riðinn eina vesturflutningalínuna héðan. En hvernig þeir fara að kom því heim, er þó ekki gott að sjá. Það mun þó vera að sjá vofur um hábjartan dag. Því að þó að ráðgjörðar séu í sambandi við járnbrautina fyrirhuguðu tíðar og stöðugar gufuskipsferðir bæði kring um land og til Englands, þá greiðir það ekki mikið fyrir fólksflutningum til Ameríku. Það er skemmstur spottinn af leiðinni. Fyrir þeim greiðir það mest, að regluleg fólksflutningaskip, meginhafsskip, gangi beina leið milli Íslands og Ameríku, manni, sem þar hefir alið mikinn kafla æfi sinnar, um eða yfir 20 ár, og kynnst þar rækilega því sem hér að lýtur eða yfir höfuð mikils háttar fyrirtækjum og framkvæmdum til samgöngubóta, og það í óbyggðu eða hálfbyggðu landi, eins og hér má segja að sé raunar í vissum skilningi. Slíkri þekkingu erum vér gjörsamlega frásneiddir hér á þessari afskektu eyju, nema lítils háttar af bókum, en hún dregur skammt. Það er og kunnugt um landa þennan, hr. Sigtrygg Jónasson, að hann er mikils metinn maður vestur þar, hefir verið talinn einhver hinn helsti og fremsti meðal íslenskra leikmanna þar frá upphafi hinnar íslensku nýlendu í Canada.
Hr. Sigtr. Jónasson hefir nú komið ráðagerð þessari það lengra en bara á pappírinn, að hann hefir fengið enskan auðmann í Liverpool til þess að leggja hug á hana og gefa kost á nægilegu fjárframlagi í því skyni, gegn tilteknum kvöðum af hendi þings og stjórnar hér. Er þeim skilyrðum lauslega lýst í alþingisfréttum í þessu blaði. Því þó að félagið eigi í orði kveðnu að vera hlutafélag, og það með mjög smáum hlutum, svo að jafnvel almenningur hér á landi gæti tekið þátt í því, þá er auðvitað svo sem ekki neitt á því byggt.
Fyrst um sinn er nú ekki meira formað af járnbrautargerð en 50 enskra mílna stúfur eða 10 ½ danskra hér austur á bóginn frá Reykjavík, eitthvað austur eftir Árnessýslu. Er það vitanlega vel til fallið að því leyti til, að hvergi á landinu eru þó fremur líkindi til að járnbraut mundi svara kostnaði einhvern tíma. Árnessýsla er það hérað landsins, er einna mestum búnaðarframförum ætti að geta tekið, og hefir þann kost að auki, að vera mjög nærri höfuðstaðnum.
Flestir munu nú þykjast geta fullyrt, að mesta fjarstæða sé, að járnbraut þangað mundi svara kostnaði að svo stöddu. Mun og illt að rengja það, og sennilegt, að jafnvel frumkvöðlum þessa áforms detti það ekki í hug. Þó má þess geta, að hér munu menn almennt enga hugmynd hafa um það, að járnbrautir eiga varla saman nema nafnið. Þær járnbrautir, er lengst hefir mátt lesa um í bókum og algengastar eru um hinn menntaða heim, kosta frá ½ - 1 milj. króna hver míla dönsk, og jafnvel þaðan af meira. Væri þess konar járnbraut tekin í mál hér, er hægur vandi að fullyrða, að hún mundi aldrei svara kostnaði, þar sem einfaldar rentur af frumkostnaðinum til hennar, 10 mílna stúfs, yrðu allt að 400.000 kr. Nei. Hér er átt við járnbraut, sem ekki á að kosta nema kring um 100.000 kr. mílan dönsk með öllu og öllu; vögnum og öðrum áhöldum, brautarskálum m. m. Eru slíkar brautir vitnalega miklum mun ófullkomnari og að öllu minni háttar en hinar, en eru sagðir vel duga að reynslunnar vitni í strjálbyggðum löndum með fábreytilegum atvinnuvegum.
Þá er og á hitt að líta, að sú spurning, hvort fyrirtækið muni svara kostnaði eða ekki, kemur þeim mest við, er ráðast vilja í það og hætta til þess miklu fé frá sjálfum sér. Hafi þeir þá sannfæringu, byggða vitanlega á marfalt meiri og betri þekkingu í slíkum efnum en vér höfum, hvað er þá um að tala?
Hið eina, sem þing og stjórn virðist þurfa um að hugsa og við sig að ráð í þessu efni, er það, hvort til þess sé leggjandi út í að skuldbinda landið til þessa 50.000 króna árlega framlags úr landssjóði í full 30 ár samfleytt. Hvort svo miklu sé fyrir að gangast, að það sé til vinnandi, og hvort landið sé þess megnugt, svo mörg horn sem það hefir í að líta.
Það er mestur vandinn að leysa úr fyrra atriði spurningarinnar.
Sé eingöngu á það litið, sem nefl. er næst, þá er bersýnilega mikils til of mikið í lagt, að verja 50.000 kr. á ári um heilan mannsaldur til þannig lagaðra samgöngubóta milli höfuðstaðarins og 1-2 sýslna, umfram allt það mikla fé, er þegar hefir varið úr landssjóði til vegabóta og brúa einmitt á því sama svæði og verja verður eftirleiðis til framhalds þeim og viðhalds.
En það er auðvitað ekki hið rétta sjónarmið.
Þetta fyrirtæki er að skoða eins og tilraun er fyrir allt landið með vísi til þeirra samgöngutækja, er aðrar þjóðir hafa lengi haft og notað sér til mikilla hagsbóta. Slíka tilraun verður að gera fyrst á einum stað, og væri heimskulegt að metast um það, þó að eitt hérað eða fáein nytu beinna hagsmuna af því, en hin ekki. Sé það hyggilega og haganlega valið, er ekkert um það að segja frekar. Nú vill svo vel til, að umfram það, er þetta hérað, Árnessýsla, hefir sér til ágætis sem mjög líklegt til mikilsháttar jarðarbóta, þá hefir það, eins og kunnugt er, langmest aðdráttarafl á öllu landinu fyrir útlenda ferðamenn; enda vakir það óefað fyrir frumkvöðlum járnbrautaráforms þessa, að brautin muni verða til þess að margfalda aðstreymi þeirra hingað, einkum er henni fylgja tíðar, stöðugar og reglulegar gufuskipaferðir þaðan, sem mest er von skemmtiferðamanna og er einhver mesti siglingamiðdepill í heimi. --
Gufuskipaferðirnar, sem í boði eru frá sama stað, munu víðar fá góðan byr en járnbrautin. En þær standa að sögn ekki til boða öðru vísi en í sambandi við hana. Það væri óneitanlega veruleg framför frá því sem nú gerist. Að fá gufuskip hingað frá Liverpool aðra hvora viku allt sumarið og á hverjum mánuði á vetrum! Mönnum mundi bregða við það. Og jafnframt strandferðir eins tíðar og reglulegar og tími og verður leyfir, án þeirrar tafar, er krókurinn til útlanda gerir, og hann alla leið til Kaupmannahafnar. En hvorttveggja aðeins lítið eitt dýrara en nú gerist. Mundu að sjálfsögðu hinar dönsku gufuskipaferðir hér milli landa halda áfram eftir sem áður, bæði samkvæmt stöðulögunum og vegna hinna dönsku verslunar, er haldið mundi við hér lengi vel, þó að þessi breyting kæmist á.
Þetta væri í stuttu máli almennilega gerðarlegur framfaraviðleitniskippur, og mun það margur mæla, að slíks sé oss full þörf, til merkis um, að þjóðin ali þó með sér alvarlegan og verulegan viðreisnarhug, og t. d. vesturfarar þurfi ekki að bera það fyrir sig, að hér séu engir viðburðir hafðir til þess að koma landinu eitthvað á framfararekspöl hins menntaða heims.
Því aðeins, að þjóðin vilji svo sem ekkert átak gera til þess að hafa sig upp, því aðeins getur hún sagt sér of vaxin fjárútlát þau, er hér er um að ræða. Hér er ekki um að tefla nema 50-60.000 kr. viðbót við það sem nú þegar er veitt til samgöngumála, og er það ekki neitt ægilegt stökk í rauninni. Ekki að vita einu sinni, að neitt þurfi að auka landssjóði tekjur með nýjum sköttum eða tollum í því skyni.
Þeir sem lesið hafa bók hr. D. Thomsens, hljóta að hafa sannfærst um, hafi þeim eigi verið það ljóst áður, hve mikilsvert mundi fyrir landið að fá beint meginverslunarstraumnum héðan einmitt til Liverpool, einkum og sér í lagi fiskversluninni. Og þá hitt, að geta sent fiskinn héðan smátt og smátt allt árið beint á hinn besta heimsmarkað, í stað þess að ryðja honum öllum þangað í einni þvögu á haustin, sölunni til stórmikils hnekkis. Einnar einustu krónu ábati fyrir landsmenn á hverju skippundi af útfluttum fiski mundi einmitt samsvara öllum ársstyrknum til þessara gufuskipaferða, 50.000 kr. Samkeppnin við dönsku gufuskipin mundu landsmönnum síður en eigi bagaleg, hvorki til vöruflutninga né mannaferða. Fargjald á þeim hefir nú t. d. staðið í stað í meira en 30 ár, og verið alla tíða afar dýrt, við það sem annarsstaðar gerist, og svo mjög sem það hefir lækkað víðast; og hefir það heft menn mjög frá utanferðum, í stað þess að þær hefði oss verið miklu hollara að væru örvaðar sem mest. Fljótar og greiðar samgöngur við önnur lönd haf nú og farið hríðversnandi hin síðari árin að því leyti til, sem viðstaða dönsku gufuskipanna á Færeyjum hefir farið sívaxandi. Hefir það og meðal annars hnekkt mikið ferðum útlendinga hingað. Þeim mundi bregða við hálfu fljótari ferð.-
Það er í stuttu máli æði margt og mikið, sem gerir þetta mikils háttar nýmæli all girnilegt. En vitaskuld er einnig mikið og margt að athuga og íhuga, og síður en eigi flanandi í annað eins stórræði athugunarlaust. Það þarf nákvæmrar og ítarlegrar rannsóknar og íhugunar við áður.


Þjóðólfur, 7. ágúst 1894, 46. árg., 87. tbl., bls. 147:
Enskir auðmenn vilja leggja fé í félag sem standi að járnbrautum og gufuskipaferðum. Lagafrumvarp liggur fyrir Alþingi um löggildingu slíks félags.

Alþingi.
Stórvægilegt nýmæli. Enn er ógetið eins nýmælis, er borið hefur verið upp á þinginu, nýmælis í svo stórum stíl, að þingið hefur ekki fyr haft jafnmikið stórmæli til meðferðar. Það er frumvarp um löggilding félags með takmarkaðri hluthafaábyrgð til að halda uppi siglingum milli Íslands og útlanda og í kringum strendur Íslands og leggja járnbrautir á Íslandi m. fl. Flutningsmenn Jens Pálsson og Jón Þórarinsson. Aðalforgöngumaður þessa máls er hr. Sigtryggur Jónasson útflutningaagent Kanadastjórnar, sem nú er hér staddur. Þykist hann hafa von um fjárframlög til þessa stórfyrirtækis frá enskum auðmönnum eða hlutafélagi, svo framarlega sem landssjóður vilji leggja fram 100.000 kr. á ári í 30 ár til þess, að lögð sé járnbraut 50 mílur enskar austur frá Reykjavík og gufuskip gangi frá Englandi til Reykjavíkur tvisvar í mánuði á sumrum að minnsta kosti og einu sinni í mánuði á vetrum, auk stöðugra gufuskipaferða kringum landið o.s.frv. Höfuðstóll félagsins á að vera 6 milljónir króna, en má hækka upp í 10 milljónir. Rúmsins vegna verður ekki að sinni skýrt nákvæmar frá fyrirkomulagi og verksviði félagsins, enda alllíklegt, að frumv. breytist að einhverju leyti, er þingið tekur það til meðferðar. Hér er um svo stórt stig, um svo mikla nýbreytni að ræða, að þingmenn verða að leggja höfuð sín í bleyti til að íhuga það sem rækilegast, en það er varla tími til þess á þessu þingi, og mundi því langheppilegast, að málið væri látið óútkljáð í þetta skipti, svo að þjóðinni gæfist kostur á að átta sig, þangað til þingið kemur saman næst. Að fella málið beinlínis í þetta sinn er miður heppilegt. Það hefur gott af því að liggja á döfinni dálitla stund enn. Hver veit nema það kunni að opna augu þings og þjóðar fyrir því, að stefna sú, er hingað til hefur verið fylgt í fjármálum sé ekki hin eina rétta: að nurla fé saman í landssjóð en þykjast svo aldrei hafa efni á að gera neitt, sem nokkuð er í varið, og láta því ógert það sem gera þarf, eða gera sárlítið til þess að efla framleiðsluna í landinu sjálfu, sem þá er undirstaða allrar sannrar velmegunar í hverju landi, og skilyrði fyrir því, að tíðar og fjörugar samgöngur á sjó og landi komi að verulegum notum. "Hollt er heima hvað" segir máltækið. Vér erum ekki svo vesælir, að vér getum ekki sjálfir stigið einhver verulega stór spor til framfara, ef ekki skortir vilja og þrek.
Verði þetta járnbrautar og siglingafrumv. til þess að vekja og örva hina íslensku þjóð til að lyfta sér upp yfir smásálarskapinn og taka duglega rögg á sig af eigin rammleik, þá erum vér þakklátir þeim mönnum, er hafa borið þetta nýmæli upp, enda þótt uppástunga þeirra fái ekki framgang. Þeir hafa þegar gert óbeinlínis gagn með því að vekja máls á þessu. Fyrir nokkrum árum hefði þetta verið talin fjarstæða, sem enginn hefði viljað líta við. Nú erum vér þó komnir svo langt, að vér þolum að heyra svona stórar upphæðir nefndar, án þess að bregða uppástungumönnum um flónsku eða fífldirfsku.


Ísafold, 11. ágúst 1894, 21. árg., 51. tbl., bls. 202:
“Austurlandsvinur” blandar sér í þá vinsælu umræðu, hvort leggja eigi veg um Fjarðarheiði eða Fagradal.

Höfuðkauptún á Austfjörðum
Áður en ég fyrir fullt og allt skilst við þetta mál, er ég hefi verið að reyna að skýra fyrir mönnum með hógværum orðum, skal ég leyfa mér að andmæla öllu, er ritstjóri "Austra" segir um þetta mál í 10. tbl. sínu þ.á. Hann hefir ráðist á greinar mínar með mikilli ókurteisi og ómerkum útúrsnúningum.
Umsögn minni um ísalögin, dýpið, hafnirnar og byggingarplássið á Reyðarfirði og Seyðisfirði breyti ég ekki, hvað svo sem ritstjórinn segir um hugsunarreglur mínar. Allt sem hann ber fram fyrir lesendur sína til að svara mér, er svo lagað, að þar kemst engin skynsemi að; eða hverju á að svara manni, sem leyfir sér að bera saman Reyðarfjörð og Skjálfandaflóa sem hafnir? Hingað til hefir á íslensku verið gjörður mismunur á flóa og firði.
Að svo mæltu vil ég fara nokkrum orðum um grein þá, er maðurinn, sem lagði vegina á Fjarðarheiði í fyrra, hefir ritað í 18. tbl. Ísafoldar þ.á. út af sömu umsögn minni og "Austra" um veginn.
Það getur verið, að ég hafi tekið of djúpt í árinni, eða haft of víðtækt orð, nefnilega að segja, að vegurinn hafi verið orðinn illfær eftir fyrstu rigningu; en þetta sagði ég af því, að þá var þetta almannarómur í héraðinu. Ég heyrði marga segja það; en ekki fór ég veginn sjálfur.
Þetta ár er enn ekkert hægt að segja um, hvernig vegurinn hefir staðist. Hann var enn mestmegnis ókominn upp úr snjó um fráfærur, 26. f. mán. Síðan efir verið besta tíð, og vonandi er, að heiðin hafi nú um miðjan þennan mánuð verið að mestu runnin. En hvaða vit er í að kosta miklu fé til þar, sem landslagi er svo háttað, að aldrei verður lagður vegur, sem stenst til langframa? Fjarðarheiði er oftast einungis snjólaus eða máske snjólítil frá miðjum júlí til októbermánaðar; ef illa viðrar, eru þar oft komnar ófærur og snjór löngu fyrir þennan tíma. Árlegt viðhald á Fjarðarheiðarvegi fyrir 4-5000 kr. hefi ég aldrei talið sem sjálfsagt; mín hugsun, ef hún væri rétt skilin, var sú, að vegurinn gæti aldrei staðið nema með miklum árlegum kostnaði, og það munu líka allir skynberandi menn játa; góðan veg verður aldrei hægt að leggja þar, sem er samfara bratti og snjóþyngsli fram á sumar.
Að lokum skal ég enn einu sinni bera það fram, að enginn vegur úr Héraði til Fjarða mun verða jafn góður og kostnaðarlítill og Fagradalsvegurinn til Búðareyrar. Þessu til sönnunar skal ég geta þess, að Fagridalur var runninn tæpum hálfum mánuði fyrir krossmessu. Sama var að segja um Þórdalsheiði og Eskifjarðarheiði; en yfir þær er óhentugra að leggja veg, vegna afstöðunnar við Búðareyri; svo eru þar og bæði gil, klappir og vond vatnsföll yfir að fara. Umfram allt er vonandi að landshöfðingi, amtsráð og sýslunefndir leggist á eitt með að athuga vel framvegis, hvar fjallvegi (sem aðra vegi) skuli leggja um landið með sem minnstum kostnaði, en til afnota fyrir sem flesta. Það fer illa á því, að hver sveitin og kaupstaðurinn keppist við annan um að ná í sem mesta peninga til að laga til hjá sér, en engum dettur í huga að tala um, aðkoma sér saman um með óhlutdrægni, hvað gagnlegast væri fyrir fleiri sveitir og sýslur, en í því tilliti ætti stjórn og þing að koma vitinu fyrir menn, ef unnt er.
Ég vona, herra ritstjóri, að ég þurfi ekki oftar að ónáða yður, ég ætla nú, hvað sem tautar, að hætta að togast á við ritstjóra "Austra" út af þessu máli.
Ritað í júlímánuði 1894.
Austurlandsvinur.


Ísafold, 15. ágúst 1894, 21. árg., 52. tbl., bls. 206:
Sigtryggur Jónasson útskýrði í fyrirlestri áætlanir um járnbrautir og gufuskipaferðir sem eru nú til umfjöllunar á Alþingi.

Fyrirlestur um samgöngumál vor.
(Járnbrautir og gufuskipaferðir)
Það var fjölsóttur fyrirlestur, sá er hr. Sigtryggur Jónasson flutti hér um það mál laugardaginn 11. þ.m.
Hann kvað það hafa verið áhugamál fyrir sér í mörg ár. Hann hefði ritað grein í "Lögberg" um það fyrir 5-6 árum, út af stælunni , sem reis af fyrirlestri síra Jóns Bjarnasonar "Íslands að blása upp" og haldið því fram, þar að vegurinn til að sætta þjóðina viðkjör sín hér væri að rétta við atvinnuvegina og fyrst og fremst að bæta samgöngutækin að siðaðra þjóða dæmi; ættu að rísa upp félög, er tækju það að sér, með styrk af landssjóði, eða að öðrum kosti landsstjórnin sjálf, þó að það vildi víðast reynast miður affarasælt, - kostnaðarsamara o. s. frv. Ferð sín hér í fyrra hefði vakið aftur og glætt fyrir sér þessa hugmynd, og hefði hann hafið máls á því þá, er hann kom til Englands, við nokkru mikils háttar menn þar, að þeir legðu fram fé til slíkra framkvæmda hér og gengjust fyrir þeim. Þeir hefði þá farið að reyna að kynna sér ýmislegt um landið, af bókum og viðtali við menn, er hér hefðu ferðast; þekktu það ekki áður nema að nafni; en gast eigi að, með því ferðamenn rita og tala almennt illa um landið; höfðu sömuleiðis spurnir af verslunarviðskiptum manna hér við enska menn og skoska, en þær oft ekki góðar. Þess vegna mjög örðugt að sannfæra þá um, að landið væri betra en sögur færi af og að það stæði til mikilla bóta, ef því væri sómi sýndur. Hann hefði samt ekki gefist upp, heldur áréttað tilraunir sínar í sömu átt í vetur, er hann kom aftur þangað vestan um haf (til Liverpool), og kom loks málinu það áleiðis, að nokkrir efnamenn í Liverpool hétu til hátíðarbrigða töluverðu fjárframlagi, 50.000 pd. sterl, ef þeir fengju heimildarfélög frá hinu íslenska löggjafar- og fjárveitingarvaldi til járnbrautarlagningar hér m. m. Þannig væri komið undir komið frumvarp það, er nú lægi fyrir þinginu, og hann hefði klambrað saman, samhljóða því er slík lög gerðust í hinum enska heimi, og ætti það því að vera ekki mjög fjarri viti, úr því þar mætti notast við þannig orðuð lög.
Af fyrirtækjum þeim, er frumvarpið hljóðar um, minntist hann fyrst á gufuskipsferðirnar. Sagði hugmyndina vera þá, að hafa skipin miklu hraðskreiðari en póstskipin dönsku, útbúin með tvöföldum gangvélum, tvöföldum skrúfum, til vara, og þannig til hagað, að þau gætu flutt óverkaðan fisk í ís o. s. frv. Það fylgdi og, að félagið þyrfti að gera hafskipabryggju hér í Reykjavík; án hennar væru svo tíðar ferðir ómögulegar, tvisvar í mánuði milli landa. Að þessum tíðu ferðum ætti að geta orðið mikill hagur á ýmsa lund. Meðal annars bættu þær þó nokkuð úr fréttaleysinu, og gæti svo farið, ef Englendingar rækju þetta fyrirtæki til lengdar, að þeir gerðu sig ekki ánægða með minna en fréttaþráð hér milli landa og kæmu þá því máli til framkvæmdar. Þá ætti og landið að hafa gott af samkeppninni við dönsku gufuskipin, sem væri æði dýrseld, enda væri áformið að færa til muna niður fargjald og flutningskaup, er nú væri t. d. 3 aurar á ullarpundinu milli Íslands og Granton, en ekki nema ¼ eyris milli New York og Liverpool (á bómullarpundið). Ekki mundi þá hvað minnstur hagurinn að því, ef algengt yrði að flytja fiskinn nýjan, sem hér aflaðist með skipum þessum beint til Liverpool í ís. Ekki þyrfti nema í eyris hækkun á verðinu fyrir hann nýjan til þess að landið græddi á því ¼ milj. kr. á ári, og það þó að ekki væri seldur nema helmingur aflans á þann hátt, þess er annars væri í kaupstað látinn hér.
Hvað járnbrautarfyrirtækið snertir, þá væri hugmyndin, að hafa þá tegund járnbrauta er nefnist á ensku máli "Light Railways" og mjög væru orðnir tíðkaðar þar sem fremur væri lítið um flutninga, - algengir í Ástralíu, Afríku, á Indlandi og nokkuð í Canada og víðar. Breidd milli brautarteina ekki nema 30 þumlungar; þverbönd 1925 á hverri enskri mílu. Væri ætlast til, að járnbrautinni, þessari fyrirhuguðu, austur í Árnessýslu, fylgdu 20 opnir vagnar, er tækju 6 smálestir (tons) hver, en 10 luktir jafnstórir, enn fremur 6 ferðamannavagnar III. flokks handa 32 farþegum hver, og 2 farangursvagnar. Til dráttarins væru ætlaðar 2 eimreiðir (locomotivers) Gæti hver eimreið dregið 20 vagna fyrrnefnda 25 mílur enskar (meira en 1 þingmannaleið) á klukkustundinni, þar sem hallalaust væri eða því nær, en 10 vagna jafnþunga (6 tons) upp halla eins og 1:25. Ættu þannig löguð flutningstæki að duga hér í mörg ár. Fréttaþráð þyrfti og auðvitað að leggja meðfram brautinni; það væri alstaðar ómissandi. Járnbrautarlagningin mundi veita fjölda manns atvinnu, auk þess sem 70 manns hefðu fasta ársatvinnu við hana eftir að hún væri komin í gagn. Fljótt mundu menn hér komast upp á að nota járnbrautina, komast upp á að færa sér í nyt flýtinn og ódýrleikann að ferðast. Sig hefði í fyrra kostað ferð héðan norður á Akureyri 1 ½ kr. mílan ensk og 9 dagar hefðu farið til ferðarinnar, en venjulegt járnbrautarfargjald væri 15 aurar fyrir míluna enska og á 15 kl.stundum mundi ekið með járnbraut héðan til Akureyrar. Fyrrum hefði verið 8 sólarhringa ferð með póstvagni milli Edinborgar og Lundúna; nú færi hraðlest það á 8 ½ klukkustund. Það væri ómetanlega mikið varið í tímasparnaðinn til ferðalaga; ferðatímanum væri sem á glæ kastað úr æfi manns. Það væri þægilegt, að geta farið hér upp á Þingvöllum á 1 ½ kl.stund, dvalið þar daglangt og komið heim að kveldi aftur alveg óþreyttur.
Aðrar þjóðir verðu eigi þeim ógrynnum fjár til járnbrauta, sem þær gerðu, ef það væri eigi á neinu viti byggt. T. d. væri eitt félag í Lundúnum, er lagði hefði 120 milj. pd. sterling í járnbrautir sínar.
Járnbraut mundi draga að sér hingað mikinn straum útlendra ferðamanna, sem þá færu og að dveljast hér langdvölum, reisa sér sumarbústaði t. d. við Þingvallavatn, eins og þeir gerðu í Skotalands hálendi. Þá kæmu þar og víðar upp gistiskálar. Útlendingar þyrftu margs með hjá landsmönnum og mundu skapast af því mikil viðskipti og arðsöm. Laxár kæmust þá í miklu hærra verð (leigu), vegna samkeppni, sem nú væri engin, með því þeir sem þær reyndu hér og leigðu, bæru þeim illa söguna, er heim kæmi, til þess að fæla aðra frá þeim.
Hvað bændur snertir, þá mundi þeim bregða við að geta komið jafnóðum og í snatri frá sér á góðan markað hvers konar afurðum, er þeir gætu fram leitt á búum sínum, og eins dregið að sér á sama hátt hvaða þungavöru sem væri. Mundi það meðal annars leiða til mikilla húsabúta, en góð húsakynni bættu heilsu þjóðarinnar og efldu fjör hennar. Þar með mundi og skapast hagfelld sundurskipting atvinnuveganna; er reynslan sýndi að hverri þjóð horfði til farsældar.
Járnbrautir væri þjóðvegir þessarar aldar; þær ryddu sér alstaðar til rúms, jafnvel hversu strjálbyggt sem væri og hvað vel sem sjórinn lægi við til flutninga. Til dæmis ætluðu Norðmenn nú að verja 64 milj. kr. til að leggja járnbraut strandlengis milli Kristjaníu og Björgvinjar, svo mikið sem væri þó um gufuskipaferðir þar með ströndum fram. Á Newfoundlandi, hrjóstrugu landi og strjálbyggðu með jöklum og öræfum, eins og hér, væri járnbrautir lagðar víðs vegar um land.
Sumir ímynduðuð sér, að ekki væri hægt að leggja járnbrautir nema á jafnsléttu. En það væri nú löngu sannað með reynslu að mikil fjöll og firnindi stæðu alls eigi fyrir, svo sem Hamrafjöllin í Ameríku og fl. Hér væri ekki nema barnaspil að leggja járnbrautir fyrir því. Fannir þyrfti og eigi að óttast framar hér en svo víða annarsstaðar, og væri mönnum eigi vandara um hér en þar, þó að ferðir tepptust stöku sinnum í bili sakir snjóa.
Er Ísland fært um að bera járnbrautir? Því þá síður en önnur lönd jafnstrjálbyggð? Hér ættu að vera 200 mílur enskar af fulldýrum og kostnaðarsömum járnbrautum, miðað við það sem er í Canada eftir fólksfjölda og landrými, en 400 af hinum. Lægi járnbraut norður í Eyjafjörð, væri það samt ekki nema á 3. hundr. mílur enskar, en til hennar næði meiri hluti lands. Eftir viðhaldskostnaði og gagni mundu vegir (akbrautir) dýrari að lokum en járnbrautir.
Gufufærum hefði verið líkt við lífæðarnar í líkama manns, en fréttaþráðunum við taugarnar. Þau lönd væri því eins og dauðir limir á þjóðlíkama mannkynsins, er vantaði þetta tvennt. En England væri verslunarhjarta heimsins, og væri því mjög svo hentugt, að líffæri þessi hingað hefðu þar upptök sín. Öll þing og allar landstjórnir í heimi legðu langmesta áherslu á, að efla og styrja hin bestu samgöngutæki, og lægi meira fé fólgið í járnbrautum en allir bankar heimsins hefðu að geyma.
Vér hefðum fengið verslunarfrelsi 1854, og stjórnfrelsi 1874. Nú, að liðnum öðrum 20 árum, árið 1894, ætti vel við að stigið væri hið 3. mikils háttar stig á framfarabraut landsins - : afráðinn nýr ferill landinu til viðreisnar, með almennilegum samgöngutækjum. -
Móti þessu áformi eða frumvarpinu fyrir þinginu væri haft meðal annars, að eingin trygging væri fyrir, að neitt yrði af framkvæmd fyrirtækisins, þó að heimildarlögin fyrir því gengi fram. En parlamentið enska hefði margsinnis gefið út þess kyns heimildarlög, er orðið hefðu árangurslaus og væri alþingi líklega ekki vandara um. Englendingar væri stórir upp á sig, og mundu firrtast, ef ætlast væri til, að þeir gengi eftir mönnum hér (þinginu) um að fá að hætta sjálfir fé sínu. Mundi þess langt að bíða, að aðrir byðust til, ef þessir væri gerðir afturreka. Hitt væri sennilegt, að ætlast væri til tryggingar fyrir reglu á gufuskipaferðunum. Að öðru leyti yrðu eignir félagsins hér (bryggja, járnbraut, hús o. fl.) sæmileg trygging fyrir skaðabótum af samningsrofum félagsins. Færi allt með felldu ætti Ísland vissulega að hafa meiri hag af þessu en England. Hitt væri og ekki forsjállegt, ef maður væri ekki fær um eitthvað sjálfur, að meina þá öðrum að gera það fyrir hann.
Kvíðbogi fyrir því, að frumvarp þetta mundi eigi frá konungs staðfestingu, ef til kæmi virtist eigi hafa við neitt að styðjast, þar sem konungur hefði einmitt sjálfur tekið það fram í síðustu auglýsingu sinni til Íslendinga, að hann vildi fúslega styðja öll þau störf þingsins, sem lyti að heill og framförum landsins, - þó að ekki gæti hann aðhyllst stjórnarskrárfrumvarpið.


Ísafold, 22. ágúst 1894, 21. árg., 54. tbl., forsíða:
Mikið er rætt um járnbrautarmálið á Þingi.

Járnbrauta- og siglingamálið
Þriðja umræðan um það mál í gær í neðri deild varð engu ósnaprari en hinar, og ærið lögn, 6-7 stundir. Ýmsar breytingartillögur voru samþ. með 14-15 atkv., ein sú helsta (um gufuskipin) þó aðeins með tólf, að viðhöfðu nafnakalli. Loks var málið í heild sinni, frumvarpið allt í einu lagi, samþykkt til fullnaðar í neðri deild í gærkveldi með 12 atkv. gegn 10, og afgreitt til efri deildar.
Þessir 10, er atkvæði greiddu á móti frv., voru: Guðl. Guðmundsson, Bened. Sveinsson, Björn Sigfússon, Guðjón Guðlaugsson, Jón Jónsson, þm. Austur-Skaptf., Jón Jónson, þm. Eyf., Sighvatur Árnason, Tryggvi Gunnarsson, Þórhallur Bjarnarson og Þorlákur Guðmundsson.
Niðurlagsgreinar frumvarpsins, er hafa inni að halda aðalkjarna þess og mestar urðu umræður um, eru nú þannig látandi, eins og neðri deild hefir frá þeim gengið:
42. gr. Landssjóður Íslands skal greiða "Hinu íslenska siglinga- og járnbrautafélagi":
1. 50.000 kr. með því skilyrði að það byggi stál eða járnbraut frá Reykjavík að minnsta kosti austur að Þjórsá, og láti lestir, er flutt geti farþega og vörur, ganga eftir járnbrautinni að minnsta kosti sex sinnum á viku, á tímabilinu frá 15. apríl til 15. nóvember ár hvert og hina mánuði ársins eins oft og við verður komið sökum snjóa.
Árgjald þetta greiðist þannig:
Jafnskjótt og brautinni er komið austur í byggð í Árnessýslu austanfjalls og lestaferð hafin á henni, skal landsstjórnin greiða félaginu árlega upphæð, er standi í sama hlutafali við nefndar 50.000 kr., sem lengd hinnar lögðu brautar við alla hina fyrirhuguðu brautarlengd allt austur að Þjórsá. En þegar brautin er fullger þangað, greiðist hið tiltekna árgjald. Öll skal brautin fullgjör og ferðir hafnar á henni áður en sjö ár eru liðin frá því lög þessi öðlast gildi, ella hefir félagið fyrgjört réttindum þeim, sem lög þessi heimila því. Sama er, ef reglulegar lestarferðir leggjast niður á brautinni eftir þann tíma.
Ef járnbraut félagsins tekst af á köflum af völdum náttúrunnar eða brýr á henni bila, skal félagið svo fljótt sem unnt er bæta hið skemmda, og skal það einskis í missa af árgjaldi sínu, þó lestir geti eigi gengið reglulega eða teppist um stund fyrir þessar orsakir.


Ísafold, 8. september 1894, 21. árg., 59. tbl., bls. 284:
Stöplarnir eru tilbúnir fyrir Þjórsárbrúna en einhver mistök virðast hafa átt sér stað.

Þjórsárbrúin.
Stöplarnir að henni voru búnir í mánaðarmótin síðustu, eins og um var samið. En þau missmíði eru á þeim, að skilvísra manna sögn, að stöpullinn austanmegin er miklu lægri en sá á vestri bakkanum, jafnvel 2 álnum lægri eða vel það. Og eftir áreiðanlegum manni Ólafi bóna á Króki, og jafnvel fleirum, er jafnframt haft, að hann muni eftir ánni jafnhárri á ís eystri stöplinum, eins og hann er nú. Brúarsmiðurinn enski, Mr. Vaughan, fór aftur heim til sín snemma sumars, er hann hafði mælt brúarstæðið eins og hann ætlaði sér og sagt rækilega fyrir verkum að stöplahleðslunni fengið steinsmíðunum, Brennu-bræðrum uppdrátt af stöplunum, er þeir mættu eigi hót út af bregða. Er þess til getið, að í uppdrætti þeim eða mælingunni, sem hann var eftir gerður, hafi verið einhver slysavilla, er missmíðinni hefir valdið. Nú er mannvirkjafræðingur landsstjórnarinnar, Sigurður Thoroddsen, þar eystra að skoða fráganginn á stöplunum eða taka þá út, og mun geta sagt með rökum, hve mikil skekkjan er; og hlýtur brúarsmiðurinn auðvitað að laga hana hið bráðasta; því 1. septbr. að sumri á brúin að vera komin á ána og fullger að öllu.


Ísafold, 29. september 1894, 21. árg., 65. tbl., forsíða:
Af 550.000 kr. útgjöldum Landssjóðs fóru 60.000 kr. til vegabóta.

Landsreikningurinn 1893
með samanburði við fyrri ár
Með leyfi landshöfðingja birtast hér helstu atriði úr þeim reikningi, óendurskoðuðum, eins og tíðkast hefir að undanförnu.
Aðalyfirlit.
Tekjur landssjóðs voru áætlaðar það ár í fjárlögunum 533.900 kr, en urðu 634.594 kr. Útgjöldin voru áætluð eitthvað nálægt 550.000 kr., en urðu aðeins 506.122 kr. Gróði landssjóðs eða tekjuafgangur áminnst ár varð þannig 127.367 kr. 88 a.
Vegabótafé
Af 60.000 kr. í því skyni veittum bæði ár fjárhagstímabilsins var 2/3 eytt fyrra árið, en aðeins þriðjungnum þetta, hið síðara, eða rúmum 20 þús. kr. Helsti kostnaðurinn var:
Til Kláffossbrúarinnar ( á Hvítá) ¿¿¿¿¿¿¿¿. 5.933 kr.
Til vegagjörðrar á Fjarðarheiði í N.-Múlasýslu ¿¿¿. 4.677 kr.
Til vegfræðings ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 2.627 kr.
Ofaníburður og aðgerð á veginum frá Reykjavík
upp að Svínahrauni ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 2.537 kr.
Til vegagjörðar frá Kláffossbrú vestur eftir Mýrasýslu .. 2.259 kr.
Til áhaldakaupa ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 1.856 kr.
Gæsla, málun og aðgerð á Ölfusárbrúnni ¿¿¿¿¿¿ 919 kr.
Sæluhús á Þorskafjarðarheiði ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 732 kr.


Ísafold, 29. sept. 1894, 21. árg., 65. tbl., bls. 258:
Sumir telja það besta ráð fyrir Héraðsmenn að koma á vöruflutningum um Lagarfljót en aðrir telja vegi betri.

Lagarfljót er skipgengt (!).
Í 32. tbl. "Fjallkonunnar", 7. ágúst þ.á. er dálítil grein með þessari yfirskrift, sem ég finn mér skylt að mótmæla.
Grein þessi byrjar á því, að segja frá, að nú hafi verið komist með vöruflutning í Lagarfljótsós, og mun það vera satt, að loksins eftir margar atrennur hafi tekist að komast þar að landi með nokkuð af vörum og timbri, með miklum örðugleikum; en til nokkurs var að vinna í þetta sinn, þar sem ánafnað var fyrir þetta þrekvirki 7.000 kr. samtals, úr landssjóði og sýslusjóðum Norðurmúla- og Suðurmúlasýslna; svo að auki kostaði hver hestburður, er fluttur var frá Seyðisfirði, 1 krónu. Ættu flutningar til óssins framvegis að verða nokkuð á þessa leið, sjá allir, hvaða vit er í að framhalda þannig lagaðri uppsigling á kostnað landssjóðs; því sýslurnar gætu og vildu aldrei rísa undir þeim kostnaði fyrir 2 eða 3 sveitir, þó kostnaðurinn yrði minni en hann var í ár (hann var af báðum sýslum 2000 kr.).
Um gufubátaferðirnar fyrirhuguðu eftir Lagarfljóti skal ég aðeins drepa á, að þó öllu, sem lagt yrði af landssjóði fyrir allt landið til brúa- og vegagjörða, yrði varið um næstu 2 ár til að kosta skurði fram hjá torfærunum í fljótinu, svo komist yrði með gufubáta upp í fljótsbotn, mundi það lítið hrökkva. Það sem enn fremur, ásamt fyrrnefndu, þyrfti að gæta betur að, er dýpið í fljótinu, þegar upp eftir kemur, t. d. á Einhleypingi við Ekkjufell er dýpið ekki nema svo sem 2 fet, þegar fljótið er lítið, og ef til vill enn minna stundum. Kostnaðurinn við þessa fljótsleið er fyrirsjáanlega svo ógurlegur, að engum manni sem ber dálítið skyn á þess konar verk sem þessa fyrirhuguðu skurði, mundi detta í hug að ætlast til, að landsstjórnin fyrir eitt hérað á landinu legði út í svo mikinn kostnað. Úthald gufubátanna sjálfra mundi heldur ekki verða neitt smáræði. Það mætti gott heita, ef einungis af og til sigling í sjálfan ósinn gæti heppnast framvegis, en það er tvísýnt. Farvegur fljótsins breytist svo árlega, að naumast verður ár eftir ár farin sama leið, jafnvel líka ár og ár í bili svo miklar grynningar í ósnum, að alls ekki yrði komist upp í hann; auk þess verðu fljótsósinn ætíð óaðgengileg höfn, nema í besta verðri um hásumar.
Góður akvegur beggja megin fljótsins meðfram bæjum mundi verða hentugastur fyrir flestar sveitirnar, og kostnaðurinn við hann svo sem enginn í samanburði við skurðina og gufubátana. Látum Upphéraðsmenn, t. d. Fljótsdælinga, útvega vér gufubát, á fljótið að ofanverðu. Þar er nóg dýpi, nokkuð stórt svið yfir að fara, og efstu sveitirnar svo vel efnum farnar, að þeim mundi ef til vill veita hægt að kosta bátinn af eigin rammleik, ef þær endilega upp á mont vilja heldur hafa gufubát til flutninga en góðan akveg.
Blöðin ættu umfram allt, að víkja hverju máli, sem til þerra kemur, á rétta leið. Síst ættu þau að taka þannig lagaðar greinar, eins og þessa "Fj.konu grein", án athugasemda. Það er nóg, að grunnhyggin alþýða oft og tíðum gefur hinum og þessum, sem kallaðir eru þjóðlegir og framfaramenn, tækifæri til að þeyta framfaraflautir okkar Íslendina. Það er vonandi, að alþingi komi þessari Lagarfljótsleið fyrir ætternisstapa, ef einhver yrði til að flytja það ofurmegn heimskunnar á þing næsta ár.
Gamall Héraðsbúi.


Ísafold, 3. okt. 1894, 21. árg., 66. tbl., bls. 262:
Hans Ellefsen gefur skotmannshlut af hval til vegagerðar á Skaganum.

Gjöf til vegagerðar.
Herra Hans Ellefsen á Önundarfirði hefir gefið 167 kr. 85 a., sem er nokkuð af verði fyrir skotmannshlut, er honum bar úr hval þeim, er dauður fannst og róinn var upp í Skagann í fyrra, til verulegrar vagnvegagjörðar á Skaganum, með þeim skilyrðum, að hreppsfélagið legði til þeirrar vegagjörðar 250 kr. og vegur þessi yrði forsvaranlega fullgjörður á næsta ári og skyldi hreppsnefndin í Ytri-Akraneshreppi hafa alla framkvæmd á starfa þessum.
Ég sem hefi fært hreppsnefndinni gjafabréfið og á sínum tíma á að afhenda gjöfina, hefi þá ánægju, að mega færa hinum veglynda gefanda innilegt þakklæti hreppsnefndarinnar fyrir þessa höfðinglegu gjöf, og jafnframt vil ég skýra frá, hvernig hreppsnefndin hefir nú þegar uppfyllt hin tilteknu skilyrði.
Nýr upphleyptur vegur, 120 faðmar á lengd, 6 álnir á breidd að ofan, þráðbeinn og næstum láréttur, er lagður og fullgerður á hentugum stað þvert yfir Skagann; æfður vegaverkstjóri (Sigurgeir Gíslason) hefir ráðið fyrir vinnunni og er frágangur allur á veginum traustur og laglegur, plássprýði og fyrirmynd, enda hefir vegurinn kostað allt að þúsund krónum, að meðreiknuðu landi því, er undir hann varð að kaupa. Sést á því, að hreppsnefndin hefir fyllilega og fúslega uppfyllt hin áðurnefndu skilyrði.
30. sept. 1894.
Hallgr. Jónsson.


Ísafold, 3. nóvember 1894, 21. árg., 72. tbl., forsíða:
Séra Ólafur Ólafsson í Arnarbæli skrifar hér um það óhagræði sem bændur við fjölfarna þjóðvegi búa við.

Ferðalög og fjárrekstrar
eftir síra Ólaf Ólafsson í Arnarbæli
Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að um Ölfussveit og Ölfusafrétt liggur einn hinn fjölfarnasti þjóðvegur landsins; má segja, að á flestum tímum árs slitni umferðin nærfellt aldrei á þeim vegi, þótt mest sé hún vitanlega bæði haust og vor.
Varla þarf heldur að taka það sérstaklega fram, að þeir, sem næstir þjóðbrautinni búa, verða að þola miður góðar búsifjar og margt óhagræði af umferðinni; og mun það sameignlegt böl fyrir alla þá, sem við þjóðbrautir búa um allt. Um það tjáir ekki að tala. Eigi má heldur gjöra þeim ferðirnar of örðugar, eða ýfast við þá að raunalausu; það er eðlilegt þótt þeir beiðist gistingar á nóttum, húsaskjóls fyrir sig og farangur sinn í illviðrum, eða þótt þeir þurfi að láta skepnur, sem þeir eru með, taka niður um stund og hvíla sig.
En það verður og að teljast skylda þeirra, að fara svo um þjóveginn og haga svo ferðalagi sínu, að þeim, sem búa við þjóðveginn, sé ekki gjörður óþarfa skaði, eða sýndur meiri usli og yfirgangur en þörf ber til.
Það er sjálfsagt að játa það, að um þennan veg fara fjöldamargir - ég vil vona flestir -, sem haga ferðum sínum og koma fram sem heiðarlegir menn í alla staði og vilja engum mein eða ágang gjöra; en hitt er líka jafnsatt, að innan um slæðast einstaka "misjafnir sauðir". Ég skal nú taka það fram, að ég hefi ekki heyrt neinn af þeim, sem við þjóðbrautina búa hér í sveit, kvarta undan því, þótt þeir þurfi að hýsa ferðafólk, gefa því mat og kaffi, lofa hestum að taka niður um hæfilegan tíma, eða yfir höfuð þótt þeir verði að sýna ferðamönnum þá greiðasemi, sem gömul íslensk gestrisni heimtar og heiðarlegir menn geta vænst eftir með sanngirni.
En það er annað, sem menn hér almennt kvarta yfir, og það alls ekki ástæðulaust; og það eru vandræði þau, sem árlega fara í vöxt af eftirlitslitlum og eftirlitslausum fjárrekstrum bæði gegnum sjálfa sveitina og um miðjan afrétt sveitarinnar. Því vandræðaástand má það heita, þegar sveitarmenn geta daglega átt von á því frá seint og snemma á slætti og fram yfir veturnætur, að sauðfé sé rekið úr heimahögum eða afréttum, meðan það er þar, og í aðrar sýslur og sveitir. Það má nefna dæmi þess, að kindur hafa verið reknar úr rekstri í sumar úr heimahögum í Ölfusi og suður á Hellisheiði, suður fyrir Hellisheiði, niður í Svínahraun og alla leið niður að Elliðaám, skildar þar úr og látnar þar eftir í algjöru hirðingarleysi. Sömuleiðis hefir fé verið rekið úr afrétti og niður á bæi fyrir sunnan fjall. Það hefir borið við, þó ekki sé í sumar, að sauður frá bónda í Ölfusi með hreinu marki eigandans hefir verið tekinn úr rekstri suður með sjó. Að hann hafðist var alls ekki að þakka skilvísi þess manns, sem tók hann úr afréttinum, heldur því, að markið var víða þekkt, og að markglöggur og skilvís maður sá hann fyrir sunnan og tók hann úr rekstrinum. Og hver vill nú fullyrða, að ekki kunni að koma fyrir stöku sinnum , að einstaka kind slæðist alla leið þangað, sem rekstrarnir eiga að fara, og missist þannig alveg eigandanum?
Það er spá mín og margra annarra fleiri, að fleirum en Ölfusingum mundi þykja þetta, sem hér að framan er talið, heldur ónotagreiði.
Ég held nú, að þetta sé oftast óviljaverk; en hitt er satt, að þau óviljaverk eiga ekki að koma fyrir.
Stundum kemur þetta fyrir af kæruleysi og skeytingarleysi; því er ekki hægt að neita; svo sem þegar rekstrarmenn sleppa stórrekstrum með dimmunni á hauskvöldum í búfjárhaga fulla af fé, liggja í útikofunum um nóttina og smala síðan og reka af stað með skímunni, án þess að hafa tal af neinum; hver veit hvað þeir fara með ásamt sínum kindum? Eða þegar haldið er áfram með rekstra gegnum búfjárhaga eða afrétt eftir að komin er nótt og svarta-myrkur og lítt mögulegt eða jafnvel ómögulegt að sjá, hvort fé fer saman við reksturinn eða ekki.
Það er ekki að orsakalausu, að sagt er um þá menn, sem þannig haga ferðum, að þeim muni ekki leitt að "drýgja svolítið mjaðarskömmina".
Stundum kemur þetta til af því, að rekstrarnir eru óhæfilega illa menntir. Þannig það tvisvar fyrir í sumar, að einn maður fór suður með 50-60 fjár og klyfjahesta að auki. Mér þætti gaman að vita, hvað bændur í upphreppum Árnessýslu eða í Rangárvallasýslu mundu segja, ef slík og þvílík kæruleysis-umferð yrði tekin upp um afrétt þeirra, og þeim jafnframt væri ómögulegt, að hafa nokkurt eftirlit með, hvort fé þeirra slæddist í rekstrana eða ekki. Ég þekki að fornu fari, hvílíkur ófriður er með sauðfé á haustin á þjóðbrautarbæjum í Rangárvallasýslu, og ég hefi oftar en einu sinni heyrt menn þar kvarta sáran; það var heldur ekki ástæðulaust, því þess man ég dæmi, að 2 sauðir voru reknir í rekstri austan úr Holtum og suður í Elliðaárhólma; en ekki mundi þó þykja batna, ef sami ófriðurinn og ófögnuðurinn væri líka kominn á afréttinn. - Það var og er gamalla manna mál, að góður afréttur væri besta eign hverrar sveitar; en - hann er því aðeins góð eign, að skepnur þær, sem þangað eru látnar, eigi þar einhvern rétt og frið á sér.
Á hreppskilaþingi að Kröggólfsstöðum 15. þ.m. (okt) báru margir bændur sig upp, sem harðast höfðu orðið út, bæði með missi á kindum og ýmsan annan usla af þeim, sem um þjóðveginn fara. Var þá ályktað, að leita til hlutaðeigandi stjórnarvalda og reyna að fá einhverjar reglur settar um sauðfjárrekstra um sveitina og einkum um afréttinn. Vona menn nú það tvennt, að yfirvöldin bregðist á sínum tíma vel og skörulega við þessu máli, sem snertir líka fleiri sveitir en þessa; og að allir heiðvirðir menn, hvort sem þeir eru úr austri eða vestri, hagi svo ferðum sínum og manni svo rekstra sína, að sem sjaldnast verði ástæða til að kvarta.


Ísafold, 8. desember 1894, 21. árg., 79. tbl., bls. 314:
Erlendur Zakaríasson skoðar sýsluvegina í Árnessýslu að áskorun sýslumanns og gerir tillögur um úrbætur.

Um sýsluvegina í Árnessýslu.
Haustið 1892 skoðaði ég sýsluvegina í Árnessýslu, eftir áskorun sýslumanns, og átti að segja álit mitt um, hvað gera skyldi til viðreisnar sýsluveginum. Tíminn var af skornum skammti, sem ég hafði til að ferðast um sýsluna, en ég reyndi eftir megni að kynna mér málið, og sendi sýslunefndinni skýrslu um ferðina og hvað mér virtist ráð að gera.
Hið fyrsta, sem ég áleit að gera ætti, var, að fá sér mann, sem vildi læra vegagjörð, helst þar innlendan, og láta hann standa fyrir allri vegavinnu í sýslunni. Annað var það, að skipta sem minnst í sundur sýsluvegapeningunum. Með öðrum orðum: láta vinna á sem fæstum stöðum í einu, en það lítið gjört væri, væri vel af hendi leyst. Þegar maður er fenginn, sem kann að verkinu, þá getur hann vandið menn við vinnuna - það er hægt að fá góða verkamenn í Árnessýslu; þar eru yfirleitt vel duglegir menn - og sagt til, hvaða verkfæri eigi að nota við vinnuna. Það er mikið í það varið, að hafa hin réttu verkfæri. Það er ótrúlegt, hverju það munar.
En ég sé ekki, að sýslunefndin hafi tekið þessar tillögur mínar neitt til greina. Það er síður en svo. Hafi vegavinnunni þar ekki farið aftur síðan, þá hefir henni ekkert farið fram.
Tökum til dæmis Mela- eða Nesbrúna. Sýslunefndarmennirnir í þeim hreppum, sem vegurinn liggur eftir, hafa hver sinn hluta til aðgerðar, hver í sínu umdæmi, og mun enginn geta sagt, að það verk lofi meistarann; það er eitthvað annað. Þó má geta þess, að vorið 1892 gerði Grímur bóndi í Óseyrarnesi við dálítinn spotta af veginum, og var það vonum fremur vel gert.
Í vor fór ég um Nesbrúna og sá þá hvernig verki var framkvæmt. Þar sem kantarnir höfðu aflagast, þá var tekið utan úr þeim og vegurinn mjókkaður. Þetta hefir gengið ár eftir ár, svo nú er hann ekki orðinn á köflum meira en 3½ alin á breidd. Upphaflega var hann 5 álnir. Verði þessari aðferð haldið áfram má hamingjan vita, hvað vegurinn verður mjór á endanum.
Sumir voru að mylja grjót - því annan ofaníburð er varla auðið að fá - og höfðu mjög vond verkfæri, og því verri vinnuaðferð. Meðal annars var verið að flytja grjót að veginum, og var það borið á hestum í krókum. Í haust fór ég eftir veginum og var hann þá hér um bil ófær. Hestarnir óðu moldina og grjótið, oftast í hné. Það máatti svo segja, að hann væri ekki fær nema fuglinum fljúgandi.
Það er vitaskuld, að meira verður að leggja til vegarins heldur en gert hefur verið að undanförnu - 200 eða 300 kr. á ári, - en þá væru peningaútlátin einu sinni fyrir allt. Væri haganlega að farið, mundi ekki kosta meira en 2000-2500 kr. að gera þennan veg góðan. En þá væri hann líka óhultur um langan tíma.
Þessu munu menn svara þannig, að sýslunefndin hafi ekki svo mikið fé til umráða, og í öðru lagi, að það sé ekki vert fyrir sýsluna að fara að leggja svo mikið fé til þessa vegar, því hann verði óþarfur þegar hin fyrirhugaða flutningsbraut komi af Eyrarbakka og yfir Flóann.
Fyrri viðbárunni mætti svara þannig, að betra er að taka lán hjá landssjóði, sem afborgast ætti á 28 árum með vöxtum; það yrði 120-150 kr. útborgun á ári fyrir sýslusjóðinn. Hinu má svar á þá leið, að það er ekki víst hvar flutningbrautin verður látin liggja, þó margt mæli með því að hin liggi frá Ölfusárbrúnni fyrir austan Sandvík, þar beint niður yfir Breiðumýri og lendi skammt fyrir austan Eyrarbakka. Þetta er ekki mögulegt að ákveða fyr en búið er að rannsaka á fleiri stöðum. Í öðru lagi er það, að langt verður þangað til að þessi vegur kemur, að öllum líkindum ekki fyr en eftir aldamót. Fyrst verður vegurinn austur í Rangárvallasýslu lagður, og það er langur vegur austur að Ytri-Rangá.
Hvernig sem fer, þá eru mikil líkindi til, að þessi fyrirhugaða flutningsbraut liggi ekki svo vestarlega yfir Flóann, að ekki verði þörf á að halda Nesbrúnni við eins fyrir það; en vitaskuld er það, að umferðin minnkar; en þá þolir hún líka lengur.
Reykjavík, 3. desember 1894
Erl. Zakaríasson.


Ísafold, 29. desember 1894, 21. árg., 89. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um vegagerðir sem unnið var við á liðnu sumri, aðallega í Borgarfirði, á Mosfellsheiði og á Hellisheiði.

Vegagerð 1894
Það var unnið í sumar að vegagerð á landssjóðs kostnað á 3 stöðum: í Borgarfirði, á Mosfellsheiði og Hellisheiði, auk þess sem talsverð vina fór í viðgerð og viðhald (ofaníburð) á veginum frá Elliðaám upp í Fóelluvötn, - syðri hluta Hellisheiðarvegarins.
Vegavinnunni í Borgarfirði stýrði Árni Zakaríasson. Var þar lagt framhald af aðalpóstveginum, sem gerður var í fyrra, nefnil. 1 röst (km.) fyrir norðan Hvítá, "af Síðumúlahálsi eftir svokölluðu Húsasundi og norður í Kleifar", og fyrir sunnan Hvítá "frá Kláffossbrúnni og suður á Hamramela (upp í Rjúpnalág,)" rétt að segja 4 rastir. Enn fremur vegarspottar frá brúnni á Flóku, um 170 faðma að norðanverðu og 36 faðmar fyrir sunnan brúna. Loks gert við og rutt um 200 faðm., á Hamramelum og fyrir sunnan Flóku. Er þar með fenginn greiður og góður vegur af Varmalækjarmelum og norður í Kleifar, eða að og frá Kláffossbrúnni, sem áður var vegleysa; enda umferðin mjög mikil um brúna.
Vegavinna þessi stóð yfir frá því í miðjum maímán. og framundir septemberlok, með 23-24 verkamönnum lengst af, auk verkstjóra. En þar í felst einnig vinna að stöplahleðslu við brúna yfir Flókadalsá, er lögð var í sumar, um 250 dagsverk. Verkstjóri hafði 4 ½ kr. í kaup á dag, smiður 4 kr., flokkstjórar (2) 3 kr. 25 a., aðrir 2 kr. 85 a. til 3 kr.; sumir lítið eitt minna. Meðalkaup allra 2 kr. 92 a. Auk þess 1 kr. í fæðispeninga á sunnudögum. Kaup verkamanna alls 7.846 kr.; annar kostnaður nær 900 kr., þar af helmingur hestaleiga.
Lögð var jafnframt í sumar brú á Flókadalsá, illt vatnsfall, þótt ekki sé stórá. Það er trébrú, 22 álna löng, eða þriðjungi styttri en Kláffossbrúin, smíðuð með umsjón Helga kaupmanns Helgasonar í Reykjavík. Hún mun hafa kostað að efni og smíði fram undir 1.000 kr., og stöplarnir að henni aðrar 1.000 kr.; þar við bætist flutningur. Brúin liggur 4-55 föðmum ofar en vegurinn gamli yfir ána, efst í gljúfrapetti þar dálitlu.
Vegavinnunni á Mosfellsheiði stýrði í sumar Einar Finnsson, er vanist hefir vegagerð í Noregi í mörg ár. Hann hafði 33 verkamenn, frá því um miðjan maímán. og fram í októberbyrjun. Það var framhald vegarins upp með Seljadal að austan, sem hann lagði að nýju, nær 4 ½ röst, því nær hallalaust. Það kostaði rúml. 9.600 kr. Enn fremur bar hann eða hans lið ofan í talsverðan spotta af kafla þeim, er lagður var í fyrra sumar og þá var eftir ógert; fóru til þess 3 ½ þús. kr.
Er nú mjög skammt eftir að hinum nýja vegi á háheiðinni. Verkalaunin sömu og í Borgarfirði.
Að Hellisheiðarveginum var unnið í tvennu lagi.
Vestan á heiðinni (eða sunnan) stóð Páll Jónsson fyrir verki. Hann lagði af nýju veg frá Svínahrauni nokkuð upp fyrir Reykjafell, sunnan megin við það, þar sem er miklu óbrattara og ósnjóbættara en um Hellisskarð, og komst nær 6 röstum. Hann byrjaði í miðjum maímán. og hélt áfram til 9. okt. Vinnulið hans var um þrjátíu (31), með sömu kjörum og á hinum stöðunum. Kostnaður 12 ½ þús. kr. Talsvert af þeim vegi er "Púkklagt" (sjá síðar). Mestur halli 1:10 á litlum spotta.
Loks hafði Erlendur Zakaríasson undir austurhluta vegarins, aðallega heiðarbrekkuna að austan, hina alræmdu Kamba, og er það langörðugasti vegarkaflinn, er gerður hefir verið hér á suðurlandi. Hann byrjaði við Hengladalsá, uppi á heiðinni austarlega, og komst spölkorn niður fyrir Kamba, hér um bil 4 rastir alls. Vinnuliðið 33-35, frá miðjum maí fram í miðjan október, með sömu kjörum og á hinum stöðunum, og kostnaður við þann vegarkafla rúmar 15.000 kr. Í vinnunni felst enn fremur brúarstöplahleðsla við Varmá í Ölfusi, er kostaði með steinlímsaðflutningi m. m. um 700 kr.
Það er ekki all-lítið mannvirki, hinn nýi Kambavegur. Þrátt fyrir hina miklu brekku þar er vegurinn hvergi brattari en 1:10½ og má skeiðríða hann upp og ofan, enda sléttur eins og fjalagólf nú fyrst í stað og vonandi til frambúðar; svo vandlega hefir verið frá honum gengið. Sem nærri má geta, þurfti ákaflega miklar sneiðingar til þess að fá veginn svona óbrattan, og eru þær á 18 stöðum svo krappar, að geisli bogans er ekki nema 2 ½ - 4 faðmar. Víða varð að grafa í gegnum hryggi og klappir, eða fylla upp í lautir. Hlaða varð og víða allháan grjótvegg undir vegarbrúninni, þar sem hún er nokkuð há, stabbasteinar, með 1 faðms millibili, svo sem til varnar í myrkri. Mestur hluti vegar þessa er "púkklagður", þ. e. gerður úr muldu grjóti, smækkandi eftir því, sem ofar dregur, en smágerður ofaníburður efst. Eru slíkir vegir stórum mun traustari og haldbetri en ella, og svarar það sjálfsagt hinum aukna kostnaði, þar sem leið er fjölfarin. Rúmar 7 kr. hefir faðmurinn kostað upp og niður í þessum vegarkafla öllum, á einum stað í Kömbum kostaði hann 24. kr.
Brúarstöplarnir við Varmá eru 14 álna langir hvor, en 3 álna hár vestri stöpullinn og 4 ½ alin sá eystri. Brúna á Varmá sjálfa, trébrú, 16 álna lagna, smíðaði eða smíða lét Helgi kaupmaður Helgason í Reykjavík, og mun hún hafa kostað 5-600 kr., auk flutnings, sem varð fremur ódýr, - viðinum fleytt upp frá Ölfusá og Varmá. Brúin er spölkorn fyrir neðan þjóðveginn, sem var yfir ána.
Aðalforsögn og eftirlit með vegagerðum þessum hefir mannvirkjafræðingur landsins, hr. Sigurður Thoroddsen, haft, eftir fyrirskipunum landshöfðingja og með hans ráði.
Á sumri komanda mun verða lokið við Hellisheiðarveginn, háheiðina, ásamt dálitlum kafla fyrir neðan heiðina, beggja megin Varmárbrúarinnar, og verður þá kominn akvegur alla leið frá Reykjavík austur að Ölfusárbrú, nema hvað gera þarf samt enn talsvert við Svínahraun til þess, og svo er aðeins reiðvegur spölkorn fram með Ingólfsfjalli.
Tenging í allt blaðaefni ársins 1894

Austri, 11. janúar 1894, 4. árg., 1. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur hvetur Héraðsbúa til að styðja tilraunir Ottó Wathne til að koma á gufubátsferðum á Lagarfljóti.

Um gufubátsferðir í Lagarfljótsós.
Eins og sjá má af Alþ.tíðindum, veitti síðasta Alþ.. 5.000 kr. til gufubátsferða í Lagarfljótsós.
Það hafa eflaust margir Héraðsbúar glaðst yfir því er þeir sáu, að þessu nauðsynjamáli voru hafði verið talsverður gaumur gefinn á þingi.
En þessum 5.000 kr. styrk fylgdi það skilyrði að hlutaðeigandi héraðsbúar leggðu til það sem ávantaði að þessar 5.000 kr. nægðu til að standast kostnaðinn við gufubátsferðir þessar eða að minnsta kosti ¼ hluta móts við landsjóðsstyrkinn.
Nú hefir herra O. Wathne boðið að gjöra tilraun til að koma á gufubátsferðum um Lagarfljótsós og mun ekki heimta nokkur fjárframlög, hvorki úr landsjóði né frá Héraðsbúum, fyrr en hann er búinn að sýna, með fleiri en einni tilraun, að hægt sé að komast á gufubát upp í Ósinn.
Herra O. Wathne hlýtur því að kosta stórfé til að gjöra tilraun þessa.
Það er vonandi að Austfirðingar láti ekki á sér standa, með að leggja fram sinn hluta af styrknum, og að þeir sýni það í verkinu, að það hafi verið sannmæli sem alþingismenn Austfirðinga sögðu um þetta á síð. Alþ.., að Fljótsdalshéraðsbúar vildu kaupa dýru verði reynsluna í því , hvort ekki sé hægt að sigla upp í Lagarfljótsós (Sbr. Alþt. 1893 B. 9. h. 1216. d. og víðar) ef þingið vildi dálítið létta undir byrðina með oss.
Og nú hefir þingið talsvert létt undir byrðina. Sýslunefndir Múlasýsla ættu því fúslega að leggja fram fé það er með þarf til að hrinda fyrirtækinu áfram, því ekki tjáir að biðja og biðja alltaf um fé úr landsjóði, en vilja sjálfir ekkert láta af hendi rakna.
Að vísu tekur þetta mál mest til þeirra, er á Fljótsdalshéraði búa, en samt er það rétt sem hinn heiðr. ritstj. Austra tók fram í blaði sínu í haust, að Fjarðarmenn gætu á ýmsan hátt haft hag af að gufubátsferðir þessar kæmust á, er því vonandi að sýslunefndunum skiljist, að hér er um eitt af hinum sameiginlegu framfaraspursmálum að ræða, sem varða allt Austurland.
Á Fljótsdalshéraði mun menn ekki greina á um, hvílíkt nauðsynjamál þetta er, og hve mikið framfaraspursmál fyrir Héraðið. Helst eru það ef til vill ýmsir menn á Jökuldal og Skriðdal, sem efast um að þeim sveitum verði hagur að uppsigling í Lagarfljót.
En slíkt er samt misskilningur. Auðvitað er þeim ekki hagur að sækja vörur út að Lagarfljótsós nema þegar heiðar eru ófærar.
En komist reyndin á að hægt sé að flytja vörur upp í Ósinn, þá er enginn efi á því, að með tímanum - og það áður en mörg ár líða - komast á gufubátsferðir upp í Lagarfljótsbotn.
Það er takmarkið sem vér þurfum allir að stefna að í þessu máli. Gufubátsferðir upp í Lagarfljótsós eru aðeins byrjun til gufubátsferða eftir Lagarfljóti.
Einu hindranirnar á leiðinni upp Fljótið, er Steinboginn og fossinn hjá Kirkjubæ.
Það er víst enginn efi á því, ef ekki hagaði féleysi, að gjöra mætti skipaleið yfir Steinbogann, svo gufubáturinn, sem í Ósinn gengi, komist upp að fossi. Slíkt mundi ekki álitið mikið þrekvirki í öðrum löndum.
En þó aldrei yrði í svo stórt ráðist að gjöra skipgengt yfir Steinbogann, þá sýnist það engum efa bundið að fé mætti fá úr landsjóði til að gjöra vagnveg frá Steinboganum og svo á gufubát upp Fljótið frá fossinum allt upp í Fljótsbotn.
Þegar þessu máli er svo langt komið og einhverntíma kemst það svo langt, hvort sem vér, sem nú lifum, berum gæfu til að framkvæma það, þegar reynd er á því orðin að hægt sé að flytja vörur upp í Lagarfljótsós og upp í Fljótsbotn, þá mun enginn á Jökuldal efast um að hægra sé að sækja vörur austur að Fljótinu hjá Ekkjufelli eða Brekku heldur en að sækja þær á Seyðisfjörð.
Og Skriðdælingar munu þá sjá, að þó hægt sé að sækja vörur ofan á Reyðarfjörð, er þó hægra að sækja þær norður að Fljótinu hjá Vallanesi.
Gufubátsferðir í Lagarfljótsós, eru eflaust hagur fyrir alla sem búa milli Héraðsfjalla, allt frá sjó til efstu byggða.
Þær eru hagur fyrir Fjarðarbúa því verslun og viðskipti milli þeirra og Héraðsbúa mundi stórum aukast við það, hvorttveggja til mikils hagnaðar.
Öllum þeim sem þekkja, hvílíkur kostnaður, tímatöf og hrakningur, bæði á mönnum og skepnum, þar er, sem leiðir af hinum löngu og erfiðu kaupstaðarferðum Héraðsbúa, þeim mun ekki blandast hugur um að stórfé sé leggjandi í sölurnar til að létta þessa erfiðleika.
Auk þess standa hinir erfiðu aðflutningar í vegi fyrir svo mörgum framförum í Héraði, ekki síst húsabyggingum.
Auk alls þessa er þess líka að gæta að Lagarfljót er hið eina vatnsfall á landinu, sem líkindi eru til að skipgengt sé.
Það er því sómi þjóðarinnar, ef hægt væri að koma á skipaferðum eftir fljótinu. Það yrði eitt með öðru til þess að reka það dáðleysisorð af oss Ísendingum, að vér álitum ómögulegt sem allar aðrar þjóðir álíta sjálfsagt að gjöra.
Hér er því að ræða um ómetanlegt gagn, eins hins búsælasta hluta landsins, og þar að auki um mál sem væri heiður fyrir þjóðina ef það næði fram að ganga.
Austfirðingar! Látum nú ekki sundrung, deyfð, eða smásálarskap, frá vorri hálfu, eyða þessu máli og hindra ef til vill framgang þess um langan aldur.
Minnumst þess, að "feðranna dáðleysi er barnanna böl, og bölvun í nútíð er framtíðar kvöl"
Héraðsbúi.


Ísafold, 13. jan. 1894, 21. árg., 2. tbl., forsíða:
Í landsreikningi 1892 kemur fram að 32.300 kr. hafi verið varið til vegagerðar á fimm stöðum.

Landsreikningurinn 1892.
Hér eru nokkur fróðlegustu atriðin úr þeim reikningi, er landshöfðingi hefir gert svo vel að gefa kost á að yfirfara í því skyni, þótt ekki sé endurskoðaður.
Af vegabótafénu hefir verið varið nál. 32.300 kr. til vegagerðar á 5 stöðum:
a) Ölfusvegurinn: frá Varmá að Kögunarhól og austur með Ingólfsfjalli kr. 11.622
b) Í Húnavatnssýslu: á Miðfjarðarhálsi, í Vatnsdalshólum og víðar ¿.. kr. 11.480
c) Í Norðurárdal frá Selöxl að Hvammsmúla ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 1.245
d) Milli Akureyrar og Oddeyrar ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 4.000
e) Frá Gilsferju að Vaðlaheiði í Eyjafirði ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿... kr. 4.000
Ísafold, 13. janúar 1894, 21. árg., 2. tbl., bls. 6:
Þorlákur Guðmundsson útskýrir andstöðu sína við brúartoll á Ölfusárbrú og Þjórsárbrú.

Brúarflugan.
Á söguöldinni sendu menn flugumenn til höfuðs óvinum sínum, þegar þeir af einhverjum ástæðum ekki treystust að ganga beint framan að þeim og ráða þannig niðurlögum þeirra.
Samt voru það vanalega ekki mestu menn sinnar tíðar eða bestu, sem það gerðu. Nú senda menn blaðaflugur til höfuðs mönnum. En eins og flugumönnum misheppnaðist að geta unnið á mönnum, þannig fer og fyrir blaðaflugunum. Ein af þessum flugum er brúarflugan, sem send er út í "Þjóðólfi". Sumri hafa getið þess til, að hún væri mér send; um það skal ég engum getum leiða; en það er víst, að hún ekki tollir í hárinu á mér, hvað þá meira. Hitt er nú orðið ljóst, að hún er send til höfuðs Árnesingum í heild sinni, þeim til óvirðingar og vissum framtíðar- og framfaramálum héraðs þess til stórtjóns; að því skal ég leiða rök á öðrum stað og tíma, ef ég endist til.
"Sveitabóndinn" og "Grímsnesingurinn" hafa nú rækilega vængbrotið flugu þessa, og kann ég þeim báðum bestu þakkir fyrir, einkum vegna sóma og gagns Árnesinga.
Samt vil ég nokkrum athugasemdum við það bæta, er þeir hafa sagt. -
"Þjóðólfur" segir, að þessu gæslugjaldi hafi verið dembt á tvö sýslufélög að þeim óvörum.
Þetta er með öllu ranghermt.
Jafnskjótt og frumvarpið um brúargjörð á Ölfusá var samþykkt af þinginu 1887, þá var þetta toll- og gæslumál þar með komið á dagskrá, því að þar stendur: "Um kostnað brúnni til viðhalds skal síðar ákveða með lögum", og í næstu grein á undan: "Þegar brúin væri komin á, þá yrði með lögum fyrirskipað um gæsluna og viðhaldið, en aldrei við að búast, að héruðin mundu með öllu sleppa, og þau hafa sloppið betur en nokkur gat við búist á þeim tíma. Samt tekur enginn til máls af hlutaðeigendum. Það er fyrst að herra Tryggvi Gunnarsson skrifar um þetta og heldur fram tolli og brúarverði, og ég er sá eini, sem þá svara og hefi á móti tolli og brúarverði, en held fram lausagæslu og enginn af hlutaðeigendum leggur orð í belg, með eða mót hvorugum.
Á þinginu 1889 var borið upp frumvarp í neðri deild um, að brúa báðar árnar, og jafnframt að tolla þær, en að nema úr gildi lög um brú á Ölfusá 3. maí s. á. Frumvarp þetta var jafnharðan fellt, og þar með hafði neðri deild Alþingis sagt: Brúartoll vil ég ekki.
Það, sem ég hefi á bent, hefði átt að geta vakið hlutaðeigendur til að taka til máls.
Mál þetta hefir því verið 6 ár á dagskrá. Þetta er því allt saman á eftir tímanum. Þegar ég lýsti því yfir á síðasta kjörþingi Árnessýslu, að ég væri á móti brúartolli, þá var það af þeirri ástæðu, að ég vildi ekki leyna kjósendur því, að ég hefði í engu breytt skoðun minni á þessu máli. Bera mundu menn vopn á mig, ef ég væri hlífarlaus. Það má eins vel segja, að brúnni hafi verið dembt á Ölfusá að sýslufélögum þessum óvörum. Það var eins með það frumvarp og gæslufrumvarpið, að það var samið á sama þinginu og það gekk fram á, og aldrei gengið fyrir hvers manns dyr með það og aldrei borið upp á neinum fundi, enda eru þetta beinar afleiðingar af því, að Ölfusá var brúuð; ef hún væri óbrúuð enn, þá hefði ekki þurft að kveikja þessa flugu og senda hana út. Að segja, að gjald þetta sé héruðunum ofvaxið, er sama sem að segja, að íbúar þessara héraða annað tveggja ekki geti eða vilji neitt af mörkum leggja til þess að fá aðra eins samgöngubót og Ölfusárbrúin er, og ætla ég, að hinum betri mönnum í þessum héruðum þyki sér lítill sómi gjör.
Eins og þetta er á eftir tímanum, eins er það á undan tímanum. Lög þessi eru enn ekki staðfest og því ekki komin til framkvæmda. Verður því ekki sagt, hvað þetta gjald verður hátt. Ég ætla, að því megi treysta, að landshöfðingi geri ekki sýslunum það dýrara en þörf krefur, því hann hefir sýnt lofsverðan áhuga á þessum brúarmálum og vegabótum í heild sinni, og hans ljósu rökfærslu var það með fram að þakka, að tollinum varð afstýrt.
Það er annars sorglegt, þegar menn hafa eftir margra ára stríð fengið annan eins dýrgrip, aðra eins samgöngubót, sem Ölfusárbrúin er, að brúka hana þá til að uppkveikja hreppapólitík til að sá þessu öðru versta illgresi í þjóðakurinn sem gengur næst trúleysi og guðleysi. Þetta gæslugjald ætti að vera það gjald, sem menn greiddu með mestri ánægju, jafnvel sá, sem minnst not hefir af brúnum. Menn vita þó, til hvers því er verið, og að því er ekki fleygt í einhverja bitlingsvömbina. Og það er sannarlegt gleðiefni fyrir Árnesinga og Rangæinga, að geta nú sýnt þá miklu gestrisni, að bjóða öllum, fjáðum sem févana, innlendum og útlendum, að fara toll laust og tafarlaust yfir þessar stórár.
Það er ekki líklegt, að þessi fluga muni vel þrífast í Rangárvallasýslu, enda er nú farið að hreifa því, að það hérað megi vel við una, því að flestir hreppar Rangárvallasýslu noti báðar brýrnar. (Svari þeir því).
Það skyldi þá vera eitt hið mest þarfaverk nú, að vekja upp ríg á milli héraðsmanna út úr þessu gjaldi, sem frá því fyrsta hafa fylgst að í þessu brúarmáli sem ein héraðsheild. Á síðasta þingmálafundi Árnesinga var þess óskað, að Þjórsá yrði brúuð með vægustum kjörum fyrir sýslurnar, og það sýndi, að fundurinn hafði báðar sýslurnar fyrir augum sem eina heild, eins og jafnan hefir verið í þessu máli.
Þeir, sem þessa flugu hafa út sent vita líklega ekki, eða þá vilja ekki á loft halda, að þingið 1893 hafi nett gert fyrir þessi héruð annað en að leggja á þetta hróplega gæslugjald. Það er þó þess vert, að á það sé minnst. Þó að frumvarpið um brú á Þjórsá hefði verið sniðið eftir lögum um brú á Ölfusá, mundi ekki hafa þótt hyggilegt að hafna því. En hvað verður? Stjórnin leggur það til, að landssjóður leggi út 75.000 kr. endurgjaldslaust, og þingið samþykkir það í einu hljóði. Var það ekki meira? Lítið er það. Til að laga Hellisheiði er gert ráð fyrir að þurfa muni 50.000 kr., og mun verða byrjað á því verki á næsta sumri, og líklega lokið við það á öðru sumri (1895). Er þá þar með búið? Nei. Vér eigum von á nýjum vegalögum; eftir þeim á að leggja akbraut austur í Rangárvallasýslu og akbraut af Eyrarbakka upp Árnessýslu, og þess mun ekki verða langt að bíða, að sú braut verði lögð upp að brúnni hjá Selfossi. Skyldi ekki líka þurfa að kvarta undan því, ef landssjóður tekur Melabrúna af vegasjóði Árnessýslu? Og eftir sömu lögum á að lagfæra veginn og gera akfæran til Þingvalla og áleiðis til Geysis.
Það er annars ekki svo þægilegt, að skjóta á einstaka fugla, þó að menn hafi sérstaklega hug á þeim, þegar þeir eru í þéttum hópum; það er óvíst, að hinir sleppi óskemmdir. Það er ekki svo hægt, að ámæla einstökum þingmönnum fyrir sérstök lög svo, að ekki sé gengið inn á þingið allt, þegar lögin eru samþykkt nálega í einu hljóði.
Ég skrifa ekki þessa athugasemd til að verja mig sem þingmann í brúarmálinu, hvorki fyr né síðar.
Um hinn nýja skatt, sem "Þjóðólfur" stingur upp á, hefir þegar verið nóg sagt til að benda þjóðinni á, hvað aðgengilegur hann er. Það er ekki ólíklegt, að sú tillaga lognist út af og verði aldrei á þing borin, en komi hún þar, segir þingsagan frá því, hvaða viðtökur hún fær.
Það er eins og það sé um að gera, að fá einhvern nýjan skatt á þjóðina, til að bæta úr peningaskortinum og verslunarvandræðunum! En landssjóður mun ekki vera í féþurð, svo að neinar brýnar þarfir til bera að íþyngja búnaðinum.
Það dylst engum, að ritstjóri "Þjóðólfs" hefir ýmislegt að athuga við mig fremur en aðra menn. Það er auðséð, að honum hefir ekki verið orðið vel við, þegar hann rak sig á nafn mitt hjá sveitabóndanum, því í stað þess að hrekja "Sveitabóndann" með ástæðum, þá veitir hann sér með sínum alþekkta hógværa og netta rithætti inn á ritstjóra Ísafoldar, og lætur mig svo njóta af góðréttunum. Honum hefði vart orðið meira um þótt það slys hefði til viljað, að hann hefði sest á heitan broddnagla og í sama bili gleypt í sig óafvitandi megnustu ólyfjan, og haft ástæðu til að kenna mér um, að ég hefði með töfrum glapið honum gætni og sýn. Það má annars vera gleðilegt fyrir hans merkilegu kennara við prestaskólann, að lesa eða heyra lesið sumt af því, sem hann prenta lætur úr sínum penna. Hann byrjaði að athuga mig á "almannafriðnum" og endar líklega á almanna-ófriðnum.
Ritað á gamlársdag 1893.
Þorlákur Guðmundsson.


Ísafold, 28. apríl 1894, 21. árg., 22. tbl., bls. 86:
Hér er lögð fram tillaga um það hvernig best sé að flytja efnið í Þjórsárbrúna, en of seint að mati ritstjóra.

Þjórsárbrúin og flutningsvegur þangað.
Ég vildi leyfa mér að bera upp ráð, sem mér hefir hugkvæmst til að greiða fyrir flutningi brúarinnar eða brárefnisins að brúarstæðinu. Eins og alkunnugt er, var efnið í Ölfusárbrúna dregið á sleðum af Eyrarbakka á hjarni. Og svo mun til ætlað, að efnið í Þjórsárbrúna verði flutt á sama hátt, sem líka er ómissandi, að því leyti sem þess er kostur. En hér er þess að gæta, að dragfærið getur ekki náð alla leið að brúarstaðnum, því þar er hraunland, sem varla nokkurn tíma leggur hjarn yfir, og nær það yfir talsverðan spotta af leiðinni. Það kynni raunar að mega ryðja þar braut, er hjarn legði í ef heppilega viðraði, og mætti svo draga eftir henni. En þó það tækist, sem efasamt er, þá yrði það allmikið verk og ærinn aukakostnaður, sem aldrei kæmi aftur að notum. Torvelt, ef ekki ómögulegt, mun líka að nota hesta til að færa brúarefnið yfir þennan spotta. Mun undir hvorugu þessu eigandi.
Til allrar hamingju er hér samt ekki um þau vandræði að ræða, sem ekki sé hægt úr að bæta. Eitt ráð er til þess, sem er ekki einungis óyggjandi, heldur og auðvelt og kostnaðarlaust í sjálfu sér, þar eð það liggur ekki í öðru en því, að gjöra fyr það, sem annars yrði gjört síðar, og þó ekki löngu síðar.
Ráðið er það, að leggja nú í sumar er kemur veginn milli brúanna, að minnsta kosti austurhluta hans, svo langt vestureftir, að hann nái þangað, sem ísalög taka við á vetrum. Þangað má svo draga brúarefnið á sleðum að vetri, en aka því þaðan á vagni eftir veginum að brúarstaðnum.
Það gæti orðið byrjun meiri vagnflutninga.
Vegarkaflann milli brúnna þarf að leggja bráðum hvort sem er, því ekki getur komið til áls, að póstvegurinn liggi annarsstaðar á því svæði. Og ef vegalögin frá síðasta þingi verða staðfest, þá virðist ekki vafamál, að þessi vegarkafli, allur eða mestallur, verði miðkafli flutningabrautarinnar. Hún verður án efa lögð upp að Ölfusárbrú og svo þaðan eftir meginbyggð héraðsins, til Laxár eða Reykjarétta. Þó hún verði þannig ekki bein, er það bæði héraðinu hagnaður og landssjóði sparnaður.
En hér á ekki við að fara út í vegaskipunina í sýslunni. Tilgangurinn er aðeins, að benda á ofantalið ráð, og að sé það tekið, eru gjörð tvö, ef ekki þrjú verk í einu.
Br. J.
---
Ráð þetta virðist vel hugsað, en mun því miður mikils til of seint upp borið. Það hefði þurft að koma með það fyrir þing eða á þingi í fyrra að minnsta kosti. Þingið samþykkti þá nefnilega ákveðið vegagerðaráform fyrir fjárhagstímabilið, hér um bil; að ljúka við akveg bæði fyrir Hellisheiði og yfir Mosfellsheiði. Afganginum af vegabótafénu þ. á. mun að vísu eigi hafa verið ráðstafað með neinni þingsályktun; en skammt hefði hann enst í veginn milli Ölfusár og Þjórsár eða austurkafla hans, sem höf. talar um, auk nauðsynlegs viðhalds á eldri vegum hingað og þangað, og þá hefði líka orðið enn að bíða eftir vegi að Kláffossbrúnni í Borgarfirði, er lögð var í fyrra, og hún þar með hálf-gagnslaus eitt árið enn.
Ritstj.


Austri, 29. maí 1894, 4. árg., 15. tbl., forsíða:
Þingmálafundur Múlasýsla fjallar um samgöngumálið.

Þingmálafundur.
Ár 1894, 16. dag maímánaðar var haldinn almennur þingmálafundur fyrir báðar Múlasýslur að Miðhúsum. Fundinn setti ritstjóri Skapti Jósepsson, samkv. áskorun fundar á Eiðum 14. apríl þ. á. - Fundarstjóri var kosinn með öllum samhljóða atkvæðum ritstjóri Skapti Jósepsson, en síra Einar Þórðarson í Hofteigi skrifari.
Þessi mál komu til umræðu:
2. Samgöngumálið:
a. Fundurinn skorar á alþingi, að veita með fjárlögum (og hina væntanlegu þingmenn að framfylgja því) tiltölulega meira fé úr landsjóði til vega og brúargjörðar í Austuramtinu en í öðrum ömtum landsins, að minnsta kosti um fjárhagstímabilið 1896-97.


Austri, 22. júní 1894, 4. árg., 18. tbl., bls. 70:
Sýslufundur Suður-Múlasýslu fjallar m.a. um samgöngumál.

Sýslufundur Suðurmúlasýslu.
Árið 1894, miðvikudaginn 11. apríl hélt sýslunefnd Suðurmúlasýslu aðalfund sinn á Búðareyri.
Mættir voru allir sýslunefndarmenn, nema úr Geithella-, Beruness, Fáskrúðsfjarðar-, Norðfjarðar- og Mjóafjarðarhreppum.
Var þá rætt um:
5. Var borin fram uppástunga frá síra Einari Jónssyni í Kirkjubæ, fyrir hönd Héraðsmanna, og var farið fram á, að Suðurmúlasýsla legði í ár 500 krónur, og var samþykkt með 3 atkvæðum móti 2 að sýslan legði í ár 500 kr. til siglingar á Lagarfljótsós, þannig, að peningarnir útborguðust fyrst þegar O. Wathne hefir farið þrjár ferðir gegnum ósinn og flutt inn í ósinn upp að Steinboga það, sem þeir þurfa, minnst 3000 Tons.
8. Var borin fram fundargjörð, frá Vallahrepp dags. 7. apríl, þar á meðal það, að Vallahreppur óskar keypta Þuríðarstaði, svo framarlega sem Eiðahreppur vill vera með í því. Sýslunefndarmaður Reyðarfjarðar biður bókað, að þessi umrædda jörð, sé byggð vegna ferðamanna, sem eigi langan og slæman fjallveg fyrir hendi, nl. Eskifjarðarheiði, en langt til byggða, ef jörðin verður lögð í eyði, enda mundi þurfa að leggja aðalpóstleiðina, allt aðra leið, og mál þetta ótímabært, þar sem núverandi ábúandi hafi ekki nema tveggja ára ábúð á jörðinni. - Sýslunefndin vill ekki útkljá um þetta núna, og vill hún að það sé borið upp á sameiginlegum fundi, og skýtur málinu á frest.
14. Var þá lagt fram bréf síra Magnúsar Bl. Jónssonar í Vallanesi til amtsins um mótmæli hans gegn lögferju yfir Lagarfljót undan Vallanesi og var ákveðið að fresta þessu máli þangað til að maður veit, hvar læknirinn sest að, sá er næst fer með embættið.
19. Aukavegareikninga frá 1892 og 93 vantar frá nokkrum hreppum, og er sýslumanni uppálagt að innkalla þá tafarlaust með næsta pósti, að viðlögðum dagsektum og Hans Bekk falið á hendur að endurskoða þá fyrir 10 kr. þóknun.
23. Sýsluvegagjald 1894 er í sjóði ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ kr. 15.00
Árgjald 1894 ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ - 700.00
Áætlaðar vegabætur 1894 til Eiðahrepps ¿¿¿¿¿¿¿. 100.00
til Hallormstaðaása ¿¿¿¿¿ 100.00
til Þórudals ¿¿¿¿¿¿¿¿. 150.00
til Innsveitar ¿¿¿¿¿¿¿... 200.00
til Reyndalsheiðar ¿¿¿¿¿.. 150.00
Alls kr. 700.00
Var sýslumanni og Fr. Möller falið á hendur að sjá um veginn á Innsveit; um Eiðahrepp sýslunefndarmanni Jónasi Eiríkssyni, um Hallormsstaðaása Guttormi Vigfússyni, um Þórudal Jóni Ísleifssyni á Arnhólsstöðum; og Jóni Finnbogasyni um Reyndalsheiði; á að gjöra þessa vegi og úttektir á þeim, fyrir áætlaðar upphæðir.
24. Póstvegagjald 1894 er í sjóði ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. kr. 246.94
Árgjald 1894 ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 700.00
Sýslunefndin samþykkir þessa
Áætlun:
Til Haugatorfa ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 150.00
til Vallahrepps ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.¿¿¿ 400.00
til Breiðdalsheiðar, Víðigrófar og til að koma bjarginu úr Kerlingarskeiðinu ¿ 350.00
til að bæta brýrnar fyrir framan Arnhólsstaði og þar um kring ¿¿¿¿¿¿... 46.94
Á Haugstorfu og fyrir neðan Hallbjarnarstaði framkvæmir Jón Ísleifsson verkið, og á Völlum Guttormur Vigfússon; á Breiðdalsheiði, Víðigróf og til að koma bjarginu burt af Kerlingaskeiðinu, Jón Finnbogason; en Jón Ísleifsson kringum Arnhólsstaði.
Ísafold, 30. júní 1894, 21. árg., 40. tbl., bls. 158:
Þingmálafundur fyrir niðurhluta Borgarfjarðarsýslu áleit að leggja beri væntanlega flutningabraut alla leið niður á hinn fjölmenna Skipaskaga.

Þingmálafundir.
Þingmálafund fyrir niðurhluta Borgarfjarðarsýslu hélt þingmaðurinn, lektor Þórh. Bjarnarson, á Akranesi 25. þ. m., og voru um 80 á fundi. Fundarstjóri var kosinn formaður Sveinn Guðmundsson og skrifari kaupmaður Snæbjörn Þorvaldsson.
Samþykkt var, að taka þau mál ein til umræðu, er eigi höfðu komið til tals á kjörfundinum.
2. Flutningabrautina væntanlegu, um Borgarfjörð, áleit fund. að bæri að leggja alla leið niður á hinn fjölmenna Skipaskaga, er öll sýslan hefir svo mikil og margs konar skipti við, og treysti fund. landstjórninni til, að líta á þá nauðsyn á sínum tíma.


Ísafold, 4. júlí 1894, 21. árg., 41. tbl., forsíða:
Mr. Vaughan frá Newcastle hefur tekið að sér að smíða Þjórsárbrúna fyrir 67.500 kr. en hann smíðaði áður Ölfusárbrúna.

Þjórsárbrúin.
Það meiri háttar mannvirki hefir nú tekið að sér að öllu leyti Englendingur sá, er Ölfusárbrúna smíðaði, Mr. Vaughan frá Newcastle, fyrir 67.500 kr. Er þar í fólgið allt sem þar að lýtur, þar á meðal flutningur á brúarefni, stöplahleðsla m. m. Mr. Vaughan kom hér um daginn (12. f.m.) með Laura og fór austur til þess að gera nánari mæling á brúarstæðinu, undirbúa stöplahleðslu m. m. Ætlar hann að láta brúarsporðana ná nokkuð upp á land beggja vegna, og kemst þannig af með minni stöpla en ella, en lengri verður brúin sjálf og meira hafið jafnvel en á Ölfusárbrúnni. Öll stöplahleðsla á að vera búin 1. sept. í sumar, og brúin á komin og fullger til umferðar 1. sept. að ári, (1895), eftir nýlega gerðum samningi við ráðgjafann. Skip kemur með brúna sjálfa, járnbrú, nú á áliðnu sumri, til þess að veturinn megi nota til að koma henni að brúarstæðinu. Eins og kunnugt er, voru veittar allt að 75.000 kr. og sparast þá 7 ½ þús. kr. af þeirri fjárveitingu, nema ef einhverju þarf að kosta til umsjónar verkfræðings með brúarsmíðinu.


Ísafold, 11. júlí 1894, 21. árg., 42. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur ræðir stöðu samgöngumála og segir að ekki muni veita af hálfri 20. öldinni til að koma þeim í viðunandi horf.

Samgöngur
Enda þótt samgöngumál vor hafi tekið afarmiklum endurbótum á síðari árum, bæði hvað snertir samgöngur við útlönd og þó ekki síst samgöngur innanlands, hlýtur hverjum skynberandi manni að vera það ljóst, að ennþá er svo mikið ógjört til endurbótar í því efni, að ekki mun veita af hálfri 20. öldinni tilvonandi til þess, að þau geti verið komin í viðunanlegt horf. Samgöngur vorar hljóta vegna strjálbyggis eðlilega að verða miklu dýrari að tiltölu, en í öðrum löndum í samanburði við fólksfjöldann, og þegar þar við bætist, að land vort er nú orðið afar langt á eftir öðrum löndum í því efni, sérstaklega hvað samgöngur á landi snertir, má ekki búast við öðru, en að margar aldir líði áður en samgöngur hér eru komnar á sama stig og erlendis, og það þótt vér færumst allir í aukana. Samgöngur á sjó hafa tekið svo miklum endurbótum á síðasta áratug, að um líkt hefði naumast verið dreymt enda í draumórum þjóðhátíðarfagnaðarvímunnar. Má einkum telja til þess strandferðirnar, enda þótt þær hafi ekki þótt fullnægjandi í ýmsum greinum. Hafa tvö hin síðustu þing reynt að bæta úr brestum þeim, er á þeim þykja vera, með því að veita fé til aukinna strandferða, en tilraunir þessar hafa ekki ennþá komið að neinu haldi. Eru sumir þeirrar skoðunar, að landið sjálft ætti að eiga gufuskip, er haldið væri úti til strandferðanna. Væri ekkert á móti því, ef formælendur þess geta gefið tryggingu fyrir, að oss væri nokkru borgnara heldur en að hafa samið við áreiðanlegan skipaeiganda um ferðir þessar. Að minnsta kosti er mjög ísjárvert að binda sig skipkaupum, meðan engin vissa er fyrir, hversu stór skip samsvara flutningsþörfunum. Þarf ekki lengra að fara en minnast á gufubátinn "Elín", sem hefir gengið hér um Faxaflóa frá því í fyrra. Þótti mjög vafasamt í fyrstu að hún hefði nægilegt að starfa, en reynslan mun nú farin að sýna, að hún hefði gjarna mátt vera drjúgum stærri. Mun því hyggilegra að láta skipkaupin bíða þangað til næg reynsla er fengin fyrir, hvers konar skip eru hentugust til strandferðanna. Hingað til hefir mest verið hugsað um að hafa stærri gufuskip, er færi í kringum allt landið og kæmi við á sem flestum höfnum að mögulegt væri. Hætt er við, að þess konar skip reynist nokkuð dýr í samanburði við það gagn, er þau gjöra. Er mjög vafasamt, að heppilegt sé, að strandferðaskip kringum land allt komi miklu víðar en þær Laura og Thyra gjöra nú, því það mundi ærið dýrt fyrir ferðafólk, er færi með því langar leiðir, að koma inn á hverja vík, og skipið yrði að vara afar hraðskreytt, ætti töfin á höfninni að vinnast upp. Að minnsta kosti er augljóst, að reynslan mundi fljótt sýna, að skip, er færi aðeins 7-8 mílur á vökunni, mundi þykja allsendis ófullnægjandi. Hvað gufubátana snertir, hygg ég, að þeim hafi ennþá verið miklu minni gaumur gefinn en skyldi. Mundi ekki mögulegt, að koma þeim þannig í samband hverjum við anna, að þeir mættust á vissum stöðum og tækju svo við fólki og flutningi hver af öðrum? Ætla ég að til þess þurfi að minnsta kosti 8 gufubáta kringum land allt, þannig, að einn gangi austanfjalls, frá Vík til Reykjaness, 2. á Faxaflóa, 3. á Breiðafirði, 4. á Ísafjarðardjúpi, 5. á Húnaflóa og Skagafirði, 6. á Eyjafirði og austur undir Langanes, 7. frá Langanesi til Seyðisfjarðar og hinn 8. þaðan til Papóss. Í sambandi við gufubátana mundi þurfa að fjölga strandferðunum á stærra skipi um 2, að minnsta kosti, fram yfir það, sem nú er, nfl. í ágúst og október og ættu ferðir hinna stærri gufuskipa og gufubátanna að standa í sambandi hver við aðra svo vel sem hægt væri að sumrinu. Hvað samband vort við útlönd snertir er öldungis óviðunandi hvað fára gufuskipaferðir eru hingað um hásumarið. Útlendir ferðamenn, sem gætu verið auðsuppspretta fyrir landið, geta ekki komist hingað nema höppum og glöppum þann stutta tíma, sem ferðafært er fyrir þá hér. Veitir alls ekkert af, að frá því í miðjum júní og fram í miðjan septbr., kæmi gufuskip hingað á hverjum hálfsmánaðar fresti, annaðhvort beint frá Skotlandi eða fastalandi Evrópu um Granton. Í annan stað er óhentugt, að verða fyrir því, að póstferðir farist fyrir um háveturinn vegna þess, að póstskipið sé frosið inni í Eystrasalti, og ber því brýna nauðsyn til, að trygging fáist fyrir því, að gufuskip fari frá Esbjærg á Jótlandi hingað í hvert sinn er póstskipið getur ekki komist frá Kaupmannahöfn í tækan tíma.
Með byggingu Ölfusárbrúarinnar má svo að orði kveða, að nýtt tímabil hefjist í samgöngum vorum innanlands. Þegar hún er loks byggð, er enginn sem neitar því, að mögulegt sé að brúa smámsaman allar þær stórár landsins, er brúandi eru. Jafnvel þótt þröngsýni allmargra hallist enn að því, að héruð þau, er einkum njóta brúnna eigi að bera kostnaðinn að nokkru leyti, en það má telja víst, að eftir því sem fleiri stórár veðri brúaðar á ýmsum stöðum á landinu, fari þinginu að skiljast, að landssjóði ber að sjá um brýr á allar hinar stærri ár, en smáárnar á hlutaðeigandi héruðum ekki að vera ofætlun að ráða við. Hafa Skagfirðingar gefið öðrum héruðum landsins gott eftirdæmi í því efni og má ætlast til að önnur sýslufélög láti ekki sitt eftir liggja, að láta eitthvað verk sjást eftir sig. Er vonandi að Rangæingar hefjist nú handa, er þeir sjá brúna koma á Þjórsá, væntanlega að ári komandi, og kljúfi til þess þrítungan hamarinn, að brúa Rangárnar, einkum Ytri-Rangá, og hið sama má vænta af Árnesingum hvað snertir Laxá og Tungufljót, svo framarlega sem hentug brúarstæði finnast á þeim. Hvað brúargjörð á Soginu snertir, var því máli hreift á sýslufundi Árnesinga fyrir nokkrum árum, en að líkindum þyrfti til þess meira fé, en héraðsbúum væri kleyft að leggja einum fram. Brúin á Brúará er þvílík ómynd, að vér getum naumast án kinnroða látið útlenda ferðamenn, sem koma til landsins, fara hana lengur, án þess hún sé gjörð að nýju. Þannig, að hún nái upp yfir vatnið, hvaða vöxtur sem kemur í ána. Af stórám í öðrum landsfjórðungum er Jökulsá í Axarfirði efst á blaði, þegar er Þjórsá sleppur, og svo framarlega sem á henni finnst hentugt brúarstæði væri æskilegt að vér gætum klykkt öldina út með því að brúa hana. Það væru afarmiklar framfarir að geta brúað 3 stærstu ár landsins á einum áratug.
Hvað hin nýju vegalög snertir, má búast við, að allmörg ár líði áður þeim sé viðunandi fullnægt, sérstaklega er þess er gætt, að viðhaldskostnaður veganna hlýtur að aukast stórum er lagðir vegir lengjast, því til lítils er að leggja vegi án þess að þeim sé haldið sæmilega við. Má búast við ýmsum umkvörtunum yfir því, úr hinum og þessum héruðum, er látin verða sitja á hakanum, að þau þykist afskipt, en til lítils væri að hlaupa þannig eftir ósk allra með því að leggja nokkur hundruð faðma árlega í hverju héraði. Það yrði auðvitað til þess, að aldrei yrði lokið við neitt, og vegagjörðarkostnaðurinn yrði jafnfram miklu meiri að tiltölu heldur en þegar langur kafli er lagður í einu lagi. En svo framarlega sem vér viljum fá endingargóða vegi, verður oss að vera það ljóst, að vagnarnir eru ekki aðeins til sparnaðar hvað hestaþörfina snertir, heldur blátt áfram nauðsynlegir til að bæla niður vegina, festa þá og gjöra endingargóða.
Hjálmar Sigurðarson.


Austri, 13. júlí 1894, 4. árg., 20. tbl., forsíða:
Otto Wathne hefur nú tekist að sigla upp í Lagarfljótsós en hafði áður gert þrjár misheppnaðar tilraunir til þess. Er það fyrirætlun hans að koma fljótlega á gufubátsferðum á efri hluta Lagarfljóts.

Uppsiglingin í Lagarfljótsós.
Uppsiglingin í Lagarfljótsós er nú á komin í góðu lagi fyrir dugnað og úthald Otto Wathne, og einhuga fylgi alþingismanna vorra Múlasýslubúa, bæði á alþingi og heima í héraði.
Otto Wathne hefir nú gjört 3 tilraunir til þess að komast í Lagarfljósós, og kostað til þess miklu fé, því þessi uppsigling hefir verið honum mikið áhugamál frá því er hann fyrst fór að kynnast hinum örðugu vöruflutningum hér neðan úr fjörðunum upp yfir hinar bröttu heiðar.
Árið 1890 reyndi O. W. að komast í Lagarfljótsós með flatbotnaðri skútu, fermdri trjáviði. En hún stóð í Ósnum og varp svo fljótt sandi að henni, að henni varð eigi náð af grynningunum, og tapaði O. W. á þeirri tilraun sinni nálægt 2000 kr.
Árið 1892 keypti O. W. hjólskipið "Njörð", sem hann lét svo gufuskipið "Skude" draga hingað upp. Fór O. W. svo þegar með "Njörð" með ýmsum vörum upp í Lagarfljótsós. En skipið reyndist bæði of djúpskreytt og of langt til þess að snúa því eftir hinum mörgu grynningum sem eru í Fljótinu, og varð eigi hægt að hafa það til siglinga í Ósinn, og lítil nota af því síðan til annarra hluta, svo O. W. mun hafa haft nær 15.000 kr. skaða á þessari annarri tilraun til þess að komast í Ósinn.
Í þessum 2 ferðum kannaði hann nákvæmlega Ósinn og neðri hluta Fljótsins.
Í vetur keypti hann lítinn, en sterkan, grunnskreiðan gufubát, sem svo flutti upp hingað á "barkskipi".
Þann 27. f. m. lagði hann héðan af stað í fyrra skiptið, með "Vaagen", með vörur upp að Ósnum, og dró "Vaagen" gufubátinn og stóran uppskipunarpramma - sem tekur undir þiljum, er O. W. hefir látið byggja yfir hann, um 30 smálestir - upp að Ósnum, eftir litla viðdvöl á Borgarfirði sökum ókyrrs veðurs og sjávar.
Lagði O. W. þegar með hinn nýja gufubát í Ósinn og dró hann hinn stóra flutningspramma, fullan með vörur úr "Vaagen", er lá þar rétt fyrir utan Ósmynnið.
Straumurinn í Ósnum reyndist með útfallinu ákaflega mikill; en til þess að létta undir dráttinn, lét O. W. leggja útí mestu straumhörkuna 4000 faðma langan kaðal, festan við akkeri, er hann svo skipaði nokkrum mönnum í framstafn gufubátsins til að draga sig eftir; létti það mikið ferðina.
9 stórpramma flutti O. W. inn í Ósinn, fermda með allskonar vörum til Héraðsmanna, og flutti svo aftur hingað ull fyrir þá til baka. Hefir O. W. flutt mikið af kaupstaðarvörunni upp að Húsey. En hinum litla gufubát veittist, sem vonlegt var, örðugt að draga þetta mikla bákn, prammann, fermdan á eftir sér á móti straumnum eftir öllum þeim krókum, sem eru á Fljótinu. Mun O. W. hafa í hyggju að láta smíða til næsta árs 2 minni flutningspramma, og þá ætlar hann að uppskipunin muni ganga fullt eins greiðlega við Lagarfljótsós eins og hér niður á Seyðisfirði, því gufubáturinn hefir sýnt sig einkar haganlegur og vikaliðugur í straumnum og bugðunum á Fljótinu.
Það er ætlan Otto Wathnes að koma von bráðar gufubátsferðum á efri hluta Lagarfljóts, alla leið upp að Brekku í Fljótsdal, svo framarlega sem hann fær þar til opinberan styrk.
Hann hefir aðeins tekið 1 kr. fyrir að flytja hestburðinn héðan af Seyðisfirði og innum Lagarfljótsós af matvöru, og hálfu minna fyrir borðvið, t.d. 1 kr. fyrir að flytja 12 borð, og sjá allir, hvílíkur hagnaður þvílíkur flutningur er öllum Úthéraðsmönnum um túnasláttinn, og þá mundi flutningurinn eftir efri hluta Lagarfljótsós alla leið upp í Fljótsdal vera Upphéraðsmönnum engu minna hagræðari sem vonandi er að alþingi styðji (ólæsilegt) framkvæmdum á með hæfilegri fjárveitingu á móts við kringumliggjandi héruð.
Uppsiglingin á Lagarfljótsós er þá á komin, til ánægju fyrir alla þá, er unnið hafa að þessu mikilsverða fyrirtæki, og til stórhagnaðar fyrir helming Fljótsdalshéraðs, sem vonandi er að bráðum megi verða allt aðnjótandi þeirra hagsmuna, sem af henni leiða.
Þess væri og óskandi, að þessi uppsigling í eitthvert stærsta vatnsfall landsins yrði til góðrar fyrirmyndar til þess að reynt væri að koma vörum uppí stórósana á hinum mikla hafnalausa svæði frá Reykjanesskaga austur að Lónsheiði, sem mundi verða til ómetanlegs gagns fyrir þessar blíðviðrasömustu sveitir landsins, en sem eiga svo langsótta aðflutninga, að mikið dregur frá bjargræðistímanum.
Ísafold, 28. júlí 1894, 21. árg., 47. tbl., forsíða:
Höfundur þessa ferðapistils segir margar dagleiðir ógreiðari nú en fyrir 30-40 árum.

Dálítill ferðapistill.
IV.
Það er mikið mein, að það skuli fylgt hafa hinum margítrekuðu vegagerðarréttarbótum um síðasta mannsaldur, að lagst hefir mjög niður að ryðja vegi. Hefir á því tímabili öll áherslan verið lögð á að gera vegi af nýju, svo lítil mynd sem á því hefir þó verið til skamms tíma og er enn víðast þar sem landssjóður kemur ekki nærri, en hætt að hugsa um að halda hinum eldri vegum nokkurn veginn færum með ruðningum. Hefir niðurstaðan orðið sú, að það er mörg dagleið ógreiðari nú og seinfarnari en fyrir 30-40 árum, bæði sakir þess, að hinir gömlu vegir eftir hestafæturna eru nú látnir óruddir, og að við hefir bæst ný torfæra, sem þá var óvíða til að dreifa, en það eru vegabrýr yfir fen og flóa, af þeirri list og kunnáttu gerðar, að brautin sú er, þegar frá líður, versta ófæran þar, og verða ferðamenn að fara á sig krók til að lesa sig áfram yfir mýrina einhversstaðar fjarri veginum; er slíkt býsna algengt, og heldur vitaskuld áfram, meðan sú fásinna viðgengst, að þeir eru látnir vinna að slíku sem ekki kunna. Þarf ekki lengri ferð en þessa til þess að reka sig á nóg dæmi þess. - Vegurinn yfir Svínadal, milli Saurbæjar og Dala, er afleitur fyrir ruðningarleysi; sömuleiðis eftir Bjarnadal og einkum upp á Bröttubrekku að sunnan, meðfram skemmdur þar með vegagerðarkáki "upp á gamla móðinn"; að norðan hefir hann aftur á móti verið mikið vel ruddur í vor, alla leið niður á móts við Breiðabólsstað. Er það líklegast einn hinn fyrsti árangur af vorum allranýjustu vegalögum, er svo mæla fyrir, í 8. gr.:
"Á þjóðveginum skal svo bæta torfærur með vegaruðning og brúargjörð, að þeir séu greiðir yfirferðar."
Ég man ekki eftir ruddum vegarspotta annarsstaðar þar vestra nema við Gilsfjörð sunnanverðan; þeir höfðu rutt þar á sinn kostnað sína hlíða hvor, fyrir utan og innan Ólafsdal, nábúarnir tveir, Torfi í Ólafsdal og Eggert bóndi á Kleifum Jónsson, - alkunnur sæmdarmaður, snyrtimaður í bændaröð, prýðilega greindur og vel að sér, kominn nú hátt á sjötugsaldur. Ég hitti hann í Ólafsdal. Við höfðum eigi sést fram undir 30 ár.


Austri, 2. ágúst 1894, 4. árg., 22. tbl., bls. 86:
Á sýslunefndarfundi Norður-Múlasýslu var m.a.. fjallað um ýmiss samgöngumál.

Útskrift úr gjörðabók sýslunefndar Norður-Múlasýslu.
Ár 1894, föstudaginn hinn 13. apríl, var aðalfundur sýslunefndar Norður-Múlasýslu settur að Rangá.
Á fundinum eru allir sýslunefndarmenn mættir ásamt oddvita, nema sýslunefndarmaður Borgarfjarðarhrepps.
Á fundinum komu þessi mál til umræðu:
3. Formaður lagði fram bréf frá formanni amtsráðs Austuramtsins, dags. 31. ágúst 1893, þar sem hann tilkynnir útdrátt úr fundargjörðum amtsráðsins 22.-23. ágúst f. á. um uppsiglingu í Lagarfljótsós og tjáir amtsráðið sig fúst til á sínum tíma að láta sitt fylgi ekki eftir liggja til að styrkja uppsiglingu í Lagarfljótsós. Jafnframt lagði formaður fram bréf frá formanni í nefnd þeirri, er kosin var á undi í Miðhúsum í Eiðaþinghá 26. oktbr. f.á., til að annast framkvæmd á málinu um uppsigling í Lagarfljótsós, Einari Jónssyni presti á Kirkjubæ, þar sem óskað er eftir 1167 kr. tillagi úr sýslusjóði Norður-Múlasýslu ef sýslunefnd Suður-Múlasýslu, veiti 500 krónur til fyrirtækisins, en annars 1667 kr. - Málið var ýtarlega rætt, og kom það fram undir umræðunum, að sýslunefnd Suður-Múlasýslu hafði á fundi sínum 11. þ.m., veitt 500 kr. til fyrirtækisins, svo eigi var um að ræða annað en 1167 kr. tillag úr sýslusjóði Norður-Múlasýslu. Að umræðunum loknum var samþykkt í einu hljóði, að veita úr sýslusjóði Norður-Múlasýslu 1167 kr. til gufubátsferða um Lagarfljótsós, í von um, að amtsráð Austuramtsins mundi á sínum tíma samþykkja það fjárframlag úr sýslusjóðnum.
8. Héraðslæknirinn á Vopnafirði skoraði á sýslunefndina að breyta sýsluveginum, þar sem hann liggur heim á verslunarstaðinn á Vopnafirði, því eins og hann væri nú lagður, þá væri ómögulegt að hafa þurra og hreinlega vegi milli húsanna í kaupstaðnum og ómögulegt að rækta blett í kringum húsin, vegna þess, hvað vegurinn lægi óreglulega; væri það bæði óþokkalegt að sjá forarræsi sem ekki væri hægt að gjöra við, vegna þess, hvernig sýsluvegurinn lægi, og svo gæti líka í heilbrigðislegu tilliti stafað stór hætta af því, ef stórsóttir kæmu upp, því um sumartíma legði óþolandi ódaun uppúr þessum foraveitum.
Sýslunefndin var þessu samþykk og eftir nokkrar umræður var samþykkt svohljóðandi fundarályktun.
Krókurinn á sýsluveginum í Vopnafjarðarhreppi, þar sem vegurinn liggur heim á kaupstaðinn, skal feldur úr vegatölu, frá klöppinni fyrir sunnan hús Ólafs Jónssonar og niður að stakkastæðunum. En aftur skal liggja sýsluvegur inn frá téðri klöpp norðurá Vesturárdals sýsluveginn hjá veitingahúsinu. Vesturdals sýsluveginn skal leggja frá téðu veitingahúsi niður að verslunarhúsum kauptúnsins. Sýslunefndin skorar einnig á hreppsnefndina í Vopnafjarðarkauptún verði lagðir sem haganlegast og helst sem næst því er uppdrættir þeir sýna er nú liggja fyrir nefndinni. Gerir sýslunefndin samþykki sitt allt að kostnaðurinn við vegalagningu þess verði greiddur úr sýslusjóði, að því leyti sem hann hvílir ekki samkvæmt lögum á hreppavegasjóðnum.
19. Oddviti lagði fram bréf landshöfðingja, dags. 30. sept 1893, þar sem landshöfðingi veitir sýslufélagi Norður-Múlasýslu 4.000 kr. lán úr landssjóði til brúargjörðar á Fjarðará, gegn veði í eignum og tekjum sýslufélagsins þannig, að lánið ávaxtist, og endurborgist með 6% í 28 ár (er greiðist í fyrsta sinn 30. sept 1894). Jafnframt sendir landshöfðingi 2 samrit af skuldabréfum til landsjóðs, er sýslumanni ber að undirskrifa, að þar til fengnu umboði frá meðlimum sýslunefndarinnar. - Sýslunefndin gaf oddvita sínum hið síðastnefnda umboð.
20. Oddviti lagði fram bréf amtmanns, dags. 27. okt. 1893, þar sem hann samþykkir fyrir hönd amtráðsins, að nota megi allt hreppsgjald Jökuldalshrepps til dráttar, sem er á sýsluvegi í þeim hreppi.
21. Oddviti lagði fram bréf frá amtmanni, dags. 4. sept. 1893, þar sem hann áminnir um, að sýsluvegir hafi hina lögboðnu 5 álna breidd og að hver sýslunefndarmaður hafi eftirlit með vegabótum á sýsluvegum í sínum hreppi.
23. Oddviti lagði fram bréf frá hreppsnefndaroddvita Skeggjastaðahrepps, dags. 3. apríl 1894, sem óskar leyfis sýsluefndar, til þess að fá sýsluveg þann, er liggur um Djúpalækjarmýrar, færðan ofan að sjónum, með því að þar sé betri jarðvegur og vegagjörðin kostnaðarminni m. m. Sýslunefndin samþykkti hið umbeðna.
24. Oddviti lagði fram bréf amtmanns, dags. 14. nóvbr. 1893, þar sem hann gjörir athugasemdir við sýsluvegasjóðsreikning Norður-Múlasýslu 1892. Í þessum athugasemdum er meðal annars fundið að því, að sýsluvegarhlutir þeir, er gjörðir hafa verið í Tunguhrepp og Hjaltastaðahrepp hafi eigi hina lögskipuðu 5 álna breidd. Út af þessu vill sýslunefndin geta þess, að hin ónákvæma breidd á greindum vegarspottum er sumsstaðar sprottin af ófullkominni mælingu vegagjörðarstjóra, sem sumsstaðar af því, að koma þurfti veginum yfir vissa lengd, til þess að hann yrði notaður strax eins og þörf var á, en eigi fullbreiðir, og eru að öðru leyti dável af hendi leystir, óskar sýslunefndin að amtsráðið vilji gefa samþykki sitt til þess, að við svo búið megi standa, hvað þessa vegaspotta snertir. Annars munu sýslunefndarmennirnir eftirleiðis hafa gát á, að sýsluvegirnir hafi hina lögskipuðu breidd, og sjá um, að undirbúningskjöl sýsluvegasjóðsreikningsins veðri í tíma komin til oddvita nefndarinnar.
25. Um sýsluvegagjörðir á komandi sumri var það ákveðið, að hver hreppur mætti verja sínu gjaldi til framhalds og viðhalds þeim vegabótum sem þegar er byrjað á.
26. Sýslunefndin felur oddvita sínum á hendur að sækja til landshöfðingja um styrk af fé því, sem veitt er í fjárlögum til póstvega, til vegagjörár á póstveginum frá trébrú á Jökulsá að Lagarfljóti.
28. Lagði oddviti fram bænarskrá frá hreppsnefnd Seyðisfjarðarhrepps um að sýslunefndin veitti samþykki sitt til, að borga mætti úr hreppsjóði nefnds hrepps 1.000 kr. til O. Wathne, í viðbót við þær 4.000 kr., er honum hafa þegar verið greiddar fyrir brúarbyggingu á Fjarðará í Seyðisfirði, og skulu hinar umræddu 1.000 kr. borgast á 4 árum. Sýslunefndin veitti leyfi til þess. Ennfremur bað hreppsnefndin um að sýslunefndin veitti leyfi sitt til þess að verja mætti 200 kr. úr hreppavegasjóði Seyðisfjarðarhrepps til að setja handrið, úr tré eða járni við báða brúarsporðana, og veitti nefndin leyfi til þess. - Beiðni hreppsnefndar Seyðisfjarðarhrepps um að sýslunefndin tæki að sér borgun að einum þriðja hluta af ofangreindum 1.000 kr. var felld að svo stöddu með 7 atkvæðum móti 1.
Einnig óskaði hreppsnefnd Seyðisfjarðarhrepps álits sýslunefndarinnar um það, hver bera ætti hinn árlega kostnað við viðhald og aðgjörðir á brúnni, og lét sýslunefndin í ljósi það álit sitt, að hreppavegasjóði Seyðisfjarðarhrepps bæri að greiða kostnað þennan.
31. Kom þá til umræði vegurinn á Fjarðarheiði, og kom þá í ljós, að styrkur sá, er sýslunefndir Múlasýsla höfðu í fyrstu beðið um til vegagjörðar yfir heiðina, 10.000 kr., mundi eigi hafa verið of hátt áætlaður, þar eð það hefir komið fram á síðastl. vetri að vörðurnar yfir heiðina hafa bæði reynst of strjálar og of lágar, og ná ekki svo langt sem nauðsyn krefur. Auk þess vantar enn þá víða ofaníburð, er eigi varð fengin sökum fjárskorts og fjarlægðar, enda var vegurinn víða til bráðabyrgðar að eins ruddur, þar sem brýna nauðsyn ber til að hækka hann upp. Vantar og enn þá að halda veginum áfram ofan í byggð á báðar hliðar. Sýslunefndin verður því að halda því fram að óumflýjanlega nauðsynlegt sé, að enn þá verði veittar úr landsjóði 5.000 kr., til að fullgjöra veginn, og felur oddvita sínum, að gjöra nauðsynlegar ráðstafanir í því efni.


Ísafold, 4. ágúst 1894, 21. árg., 49. tbl., bls. 195:
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um að veita hlutafélagi einkaleyfi á að leggja járnbraut, m.a. frá Reykjavík og austur í Rangárvallasýslu og aðra norður í Eyjafjörð.

Siglinga- og járnbrautafélag.
Þá eru þeir Jens Pálsson og Jón Þórarinsson flutningsmenn að allmiklu frumvarpi um að veita hlutafélagi (ensku) einkaleyfi til að leggja járnbraut frá Reykjavík austur í Rangárvallasýslu, og aðra frá Reykjavík eða Akranesi norður í land allt til Eyjafarðar, sem og lengri eða styttri greina út frá þessum tveimur aðalbrautum innan sýslna þeirra, er þær liggja um. Félagið byrjar á því, að leggja járnbraut 50 mílur enskar austur frá Reykjavík og lætur eimlestir ganga eftir brautinni 6 sinnum í viku í minnsta lagi frá 15. apríl til 15. nóvember ár hvert, en aðra tíma eins oft og við verður komið sökum snjóa. Fyrir það áskilur félagið sér 50.000 kr. ársstyrk úr landssjóði í 30 ár. Jafnframt því tekur félagið að sér fyrir annan 50.000 kr. styrk á ári í 30 ár gufuskipsferðir bæði milli Englands og Íslands (Faxaflóa) og umhverfis landið. Millilandaskipið á að vera 800 smálestir að stærð og fara 2 ferðir á mánuði í minnsta lagi á sumrum, en 1 á mánuði á vetrum. Strandferðaskipið á að vera sífellt á ferð umhverfis landið frá 15. febrúar til 15.nóvember ár hvert.
Höfuðstóll félagsins sé 6 milljónir (6.000.000) krónur, en má hækka upp í 10 milljónir. Hlutirnir séu 100 kr. hver.
Félagið hefir varnarþing í Reykjavík.

Ísafold, 4. ágúst 1894, 21. árg., 49. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um þau áform sem uppi eru um járnbrautarlagningu hér á landi.

Mikils háttar nýmæli.
Það er járnbrautin íslenska, og hitt annað, er henni fylgir.
Fyrirsögn hefði það þótt fyrir nokkrum árum, meira að segja fyrir nokkrum mánuðum, meira að segja fyrir nokkrum mánuðum, að alþingi 1894 hefði til meðferðar frumvarp um að leggja hér járnbrautir, svo og svo miklar, um helstu byggðir landsins. Enginn hérlendur maður hafði rétt til skamms tíma látið sér verða það á, að hugsa svo hátt. Þeir sem lengst komust og glæsilegastar vonir gerðu sér um framtíð landsins, hugsuðu sér fyrstu tilraunir í þá átt eftir svo sem hálfa öld eða vel það. Vesturheimsblöðin íslensku höfðu að vísu komið með einhverjar þess kyns bollaleggingar fyrir nokkrum árum, um járnbraut frá Reykjavík norður á Akureyrir; en hérna megin hafs mun hver einasta sál hafa skoðað það eins og loftkastala, eins og "vesturheimskan vind" - talið slíkt allsendis óframkvæmanlegt, þótt af alvöru væri hugsað af þeim, sem upp kom með það og af velvildarhug til landsins.
Sumir munu nú ef til vill skoða þessa ráðagerð, sem hér er nú á prjónum og þegar komin á dagskrá Alþingis, eins og framhald af þessum vesturheimska vindi og ekki annað, þar sem frumkvöðull hennar og flutningsmaður við þingið er landi einn frá Vesturheimi og hann nákominn helsta blaðinu þar. Í annan stað mun eigi trútt um, að einhverjir taki ráðagerð þessa alla eins og útflutningsbrellu, með því að áminnstur höfundur hennar og flutningsmaður hér er við riðinn eina vesturflutningalínuna héðan. En hvernig þeir fara að kom því heim, er þó ekki gott að sjá. Það mun þó vera að sjá vofur um hábjartan dag. Því að þó að ráðgjörðar séu í sambandi við járnbrautina fyrirhuguðu tíðar og stöðugar gufuskipsferðir bæði kring um land og til Englands, þá greiðir það ekki mikið fyrir fólksflutningum til Ameríku. Það er skemmstur spottinn af leiðinni. Fyrir þeim greiðir það mest, að regluleg fólksflutningaskip, meginhafsskip, gangi beina leið milli Íslands og Ameríku, manni, sem þar hefir alið mikinn kafla æfi sinnar, um eða yfir 20 ár, og kynnst þar rækilega því sem hér að lýtur eða yfir höfuð mikils háttar fyrirtækjum og framkvæmdum til samgöngubóta, og það í óbyggðu eða hálfbyggðu landi, eins og hér má segja að sé raunar í vissum skilningi. Slíkri þekkingu erum vér gjörsamlega frásneiddir hér á þessari afskektu eyju, nema lítils háttar af bókum, en hún dregur skammt. Það er og kunnugt um landa þennan, hr. Sigtrygg Jónasson, að hann er mikils metinn maður vestur þar, hefir verið talinn einhver hinn helsti og fremsti meðal íslenskra leikmanna þar frá upphafi hinnar íslensku nýlendu í Canada.
Hr. Sigtr. Jónasson hefir nú komið ráðagerð þessari það lengra en bara á pappírinn, að hann hefir fengið enskan auðmann í Liverpool til þess að leggja hug á hana og gefa kost á nægilegu fjárframlagi í því skyni, gegn tilteknum kvöðum af hendi þings og stjórnar hér. Er þeim skilyrðum lauslega lýst í alþingisfréttum í þessu blaði. Því þó að félagið eigi í orði kveðnu að vera hlutafélag, og það með mjög smáum hlutum, svo að jafnvel almenningur hér á landi gæti tekið þátt í því, þá er auðvitað svo sem ekki neitt á því byggt.
Fyrst um sinn er nú ekki meira formað af járnbrautargerð en 50 enskra mílna stúfur eða 10 ½ danskra hér austur á bóginn frá Reykjavík, eitthvað austur eftir Árnessýslu. Er það vitanlega vel til fallið að því leyti til, að hvergi á landinu eru þó fremur líkindi til að járnbraut mundi svara kostnaði einhvern tíma. Árnessýsla er það hérað landsins, er einna mestum búnaðarframförum ætti að geta tekið, og hefir þann kost að auki, að vera mjög nærri höfuðstaðnum.
Flestir munu nú þykjast geta fullyrt, að mesta fjarstæða sé, að járnbraut þangað mundi svara kostnaði að svo stöddu. Mun og illt að rengja það, og sennilegt, að jafnvel frumkvöðlum þessa áforms detti það ekki í hug. Þó má þess geta, að hér munu menn almennt enga hugmynd hafa um það, að járnbrautir eiga varla saman nema nafnið. Þær járnbrautir, er lengst hefir mátt lesa um í bókum og algengastar eru um hinn menntaða heim, kosta frá ½ - 1 milj. króna hver míla dönsk, og jafnvel þaðan af meira. Væri þess konar járnbraut tekin í mál hér, er hægur vandi að fullyrða, að hún mundi aldrei svara kostnaði, þar sem einfaldar rentur af frumkostnaðinum til hennar, 10 mílna stúfs, yrðu allt að 400.000 kr. Nei. Hér er átt við járnbraut, sem ekki á að kosta nema kring um 100.000 kr. mílan dönsk með öllu og öllu; vögnum og öðrum áhöldum, brautarskálum m. m. Eru slíkar brautir vitnalega miklum mun ófullkomnari og að öllu minni háttar en hinar, en eru sagðir vel duga að reynslunnar vitni í strjálbyggðum löndum með fábreytilegum atvinnuvegum.
Þá er og á hitt að líta, að sú spurning, hvort fyrirtækið muni svara kostnaði eða ekki, kemur þeim mest við, er ráðast vilja í það og hætta til þess miklu fé frá sjálfum sér. Hafi þeir þá sannfæringu, byggða vitanlega á marfalt meiri og betri þekkingu í slíkum efnum en vér höfum, hvað er þá um að tala?
Hið eina, sem þing og stjórn virðist þurfa um að hugsa og við sig að ráð í þessu efni, er það, hvort til þess sé leggjandi út í að skuldbinda landið til þessa 50.000 króna árlega framlags úr landssjóði í full 30 ár samfleytt. Hvort svo miklu sé fyrir að gangast, að það sé til vinnandi, og hvort landið sé þess megnugt, svo mörg horn sem það hefir í að líta.
Það er mestur vandinn að leysa úr fyrra atriði spurningarinnar.
Sé eingöngu á það litið, sem nefl. er næst, þá er bersýnilega mikils til of mikið í lagt, að verja 50.000 kr. á ári um heilan mannsaldur til þannig lagaðra samgöngubóta milli höfuðstaðarins og 1-2 sýslna, umfram allt það mikla fé, er þegar hefir varið úr landssjóði til vegabóta og brúa einmitt á því sama svæði og verja verður eftirleiðis til framhalds þeim og viðhalds.
En það er auðvitað ekki hið rétta sjónarmið.
Þetta fyrirtæki er að skoða eins og tilraun er fyrir allt landið með vísi til þeirra samgöngutækja, er aðrar þjóðir hafa lengi haft og notað sér til mikilla hagsbóta. Slíka tilraun verður að gera fyrst á einum stað, og væri heimskulegt að metast um það, þó að eitt hérað eða fáein nytu beinna hagsmuna af því, en hin ekki. Sé það hyggilega og haganlega valið, er ekkert um það að segja frekar. Nú vill svo vel til, að umfram það, er þetta hérað, Árnessýsla, hefir sér til ágætis sem mjög líklegt til mikilsháttar jarðarbóta, þá hefir það, eins og kunnugt er, langmest aðdráttarafl á öllu landinu fyrir útlenda ferðamenn; enda vakir það óefað fyrir frumkvöðlum járnbrautaráforms þessa, að brautin muni verða til þess að margfalda aðstreymi þeirra hingað, einkum er henni fylgja tíðar, stöðugar og reglulegar gufuskipaferðir þaðan, sem mest er von skemmtiferðamanna og er einhver mesti siglingamiðdepill í heimi. --
Gufuskipaferðirnar, sem í boði eru frá sama stað, munu víðar fá góðan byr en járnbrautin. En þær standa að sögn ekki til boða öðru vísi en í sambandi við hana. Það væri óneitanlega veruleg framför frá því sem nú gerist. Að fá gufuskip hingað frá Liverpool aðra hvora viku allt sumarið og á hverjum mánuði á vetrum! Mönnum mundi bregða við það. Og jafnframt strandferðir eins tíðar og reglulegar og tími og verður leyfir, án þeirrar tafar, er krókurinn til útlanda gerir, og hann alla leið til Kaupmannahafnar. En hvorttveggja aðeins lítið eitt dýrara en nú gerist. Mundu að sjálfsögðu hinar dönsku gufuskipaferðir hér milli landa halda áfram eftir sem áður, bæði samkvæmt stöðulögunum og vegna hinna dönsku verslunar, er haldið mundi við hér lengi vel, þó að þessi breyting kæmist á.
Þetta væri í stuttu máli almennilega gerðarlegur framfaraviðleitniskippur, og mun það margur mæla, að slíks sé oss full þörf, til merkis um, að þjóðin ali þó með sér alvarlegan og verulegan viðreisnarhug, og t. d. vesturfarar þurfi ekki að bera það fyrir sig, að hér séu engir viðburðir hafðir til þess að koma landinu eitthvað á framfararekspöl hins menntaða heims.
Því aðeins, að þjóðin vilji svo sem ekkert átak gera til þess að hafa sig upp, því aðeins getur hún sagt sér of vaxin fjárútlát þau, er hér er um að ræða. Hér er ekki um að tefla nema 50-60.000 kr. viðbót við það sem nú þegar er veitt til samgöngumála, og er það ekki neitt ægilegt stökk í rauninni. Ekki að vita einu sinni, að neitt þurfi að auka landssjóði tekjur með nýjum sköttum eða tollum í því skyni.
Þeir sem lesið hafa bók hr. D. Thomsens, hljóta að hafa sannfærst um, hafi þeim eigi verið það ljóst áður, hve mikilsvert mundi fyrir landið að fá beint meginverslunarstraumnum héðan einmitt til Liverpool, einkum og sér í lagi fiskversluninni. Og þá hitt, að geta sent fiskinn héðan smátt og smátt allt árið beint á hinn besta heimsmarkað, í stað þess að ryðja honum öllum þangað í einni þvögu á haustin, sölunni til stórmikils hnekkis. Einnar einustu krónu ábati fyrir landsmenn á hverju skippundi af útfluttum fiski mundi einmitt samsvara öllum ársstyrknum til þessara gufuskipaferða, 50.000 kr. Samkeppnin við dönsku gufuskipin mundu landsmönnum síður en eigi bagaleg, hvorki til vöruflutninga né mannaferða. Fargjald á þeim hefir nú t. d. staðið í stað í meira en 30 ár, og verið alla tíða afar dýrt, við það sem annarsstaðar gerist, og svo mjög sem það hefir lækkað víðast; og hefir það heft menn mjög frá utanferðum, í stað þess að þær hefði oss verið miklu hollara að væru örvaðar sem mest. Fljótar og greiðar samgöngur við önnur lönd haf nú og farið hríðversnandi hin síðari árin að því leyti til, sem viðstaða dönsku gufuskipanna á Færeyjum hefir farið sívaxandi. Hefir það og meðal annars hnekkt mikið ferðum útlendinga hingað. Þeim mundi bregða við hálfu fljótari ferð.-
Það er í stuttu máli æði margt og mikið, sem gerir þetta mikils háttar nýmæli all girnilegt. En vitaskuld er einnig mikið og margt að athuga og íhuga, og síður en eigi flanandi í annað eins stórræði athugunarlaust. Það þarf nákvæmrar og ítarlegrar rannsóknar og íhugunar við áður.


Þjóðólfur, 7. ágúst 1894, 46. árg., 87. tbl., bls. 147:
Enskir auðmenn vilja leggja fé í félag sem standi að járnbrautum og gufuskipaferðum. Lagafrumvarp liggur fyrir Alþingi um löggildingu slíks félags.

Alþingi.
Stórvægilegt nýmæli. Enn er ógetið eins nýmælis, er borið hefur verið upp á þinginu, nýmælis í svo stórum stíl, að þingið hefur ekki fyr haft jafnmikið stórmæli til meðferðar. Það er frumvarp um löggilding félags með takmarkaðri hluthafaábyrgð til að halda uppi siglingum milli Íslands og útlanda og í kringum strendur Íslands og leggja járnbrautir á Íslandi m. fl. Flutningsmenn Jens Pálsson og Jón Þórarinsson. Aðalforgöngumaður þessa máls er hr. Sigtryggur Jónasson útflutningaagent Kanadastjórnar, sem nú er hér staddur. Þykist hann hafa von um fjárframlög til þessa stórfyrirtækis frá enskum auðmönnum eða hlutafélagi, svo framarlega sem landssjóður vilji leggja fram 100.000 kr. á ári í 30 ár til þess, að lögð sé járnbraut 50 mílur enskar austur frá Reykjavík og gufuskip gangi frá Englandi til Reykjavíkur tvisvar í mánuði á sumrum að minnsta kosti og einu sinni í mánuði á vetrum, auk stöðugra gufuskipaferða kringum landið o.s.frv. Höfuðstóll félagsins á að vera 6 milljónir króna, en má hækka upp í 10 milljónir. Rúmsins vegna verður ekki að sinni skýrt nákvæmar frá fyrirkomulagi og verksviði félagsins, enda alllíklegt, að frumv. breytist að einhverju leyti, er þingið tekur það til meðferðar. Hér er um svo stórt stig, um svo mikla nýbreytni að ræða, að þingmenn verða að leggja höfuð sín í bleyti til að íhuga það sem rækilegast, en það er varla tími til þess á þessu þingi, og mundi því langheppilegast, að málið væri látið óútkljáð í þetta skipti, svo að þjóðinni gæfist kostur á að átta sig, þangað til þingið kemur saman næst. Að fella málið beinlínis í þetta sinn er miður heppilegt. Það hefur gott af því að liggja á döfinni dálitla stund enn. Hver veit nema það kunni að opna augu þings og þjóðar fyrir því, að stefna sú, er hingað til hefur verið fylgt í fjármálum sé ekki hin eina rétta: að nurla fé saman í landssjóð en þykjast svo aldrei hafa efni á að gera neitt, sem nokkuð er í varið, og láta því ógert það sem gera þarf, eða gera sárlítið til þess að efla framleiðsluna í landinu sjálfu, sem þá er undirstaða allrar sannrar velmegunar í hverju landi, og skilyrði fyrir því, að tíðar og fjörugar samgöngur á sjó og landi komi að verulegum notum. "Hollt er heima hvað" segir máltækið. Vér erum ekki svo vesælir, að vér getum ekki sjálfir stigið einhver verulega stór spor til framfara, ef ekki skortir vilja og þrek.
Verði þetta járnbrautar og siglingafrumv. til þess að vekja og örva hina íslensku þjóð til að lyfta sér upp yfir smásálarskapinn og taka duglega rögg á sig af eigin rammleik, þá erum vér þakklátir þeim mönnum, er hafa borið þetta nýmæli upp, enda þótt uppástunga þeirra fái ekki framgang. Þeir hafa þegar gert óbeinlínis gagn með því að vekja máls á þessu. Fyrir nokkrum árum hefði þetta verið talin fjarstæða, sem enginn hefði viljað líta við. Nú erum vér þó komnir svo langt, að vér þolum að heyra svona stórar upphæðir nefndar, án þess að bregða uppástungumönnum um flónsku eða fífldirfsku.


Ísafold, 11. ágúst 1894, 21. árg., 51. tbl., bls. 202:
“Austurlandsvinur” blandar sér í þá vinsælu umræðu, hvort leggja eigi veg um Fjarðarheiði eða Fagradal.

Höfuðkauptún á Austfjörðum
Áður en ég fyrir fullt og allt skilst við þetta mál, er ég hefi verið að reyna að skýra fyrir mönnum með hógværum orðum, skal ég leyfa mér að andmæla öllu, er ritstjóri "Austra" segir um þetta mál í 10. tbl. sínu þ.á. Hann hefir ráðist á greinar mínar með mikilli ókurteisi og ómerkum útúrsnúningum.
Umsögn minni um ísalögin, dýpið, hafnirnar og byggingarplássið á Reyðarfirði og Seyðisfirði breyti ég ekki, hvað svo sem ritstjórinn segir um hugsunarreglur mínar. Allt sem hann ber fram fyrir lesendur sína til að svara mér, er svo lagað, að þar kemst engin skynsemi að; eða hverju á að svara manni, sem leyfir sér að bera saman Reyðarfjörð og Skjálfandaflóa sem hafnir? Hingað til hefir á íslensku verið gjörður mismunur á flóa og firði.
Að svo mæltu vil ég fara nokkrum orðum um grein þá, er maðurinn, sem lagði vegina á Fjarðarheiði í fyrra, hefir ritað í 18. tbl. Ísafoldar þ.á. út af sömu umsögn minni og "Austra" um veginn.
Það getur verið, að ég hafi tekið of djúpt í árinni, eða haft of víðtækt orð, nefnilega að segja, að vegurinn hafi verið orðinn illfær eftir fyrstu rigningu; en þetta sagði ég af því, að þá var þetta almannarómur í héraðinu. Ég heyrði marga segja það; en ekki fór ég veginn sjálfur.
Þetta ár er enn ekkert hægt að segja um, hvernig vegurinn hefir staðist. Hann var enn mestmegnis ókominn upp úr snjó um fráfærur, 26. f. mán. Síðan efir verið besta tíð, og vonandi er, að heiðin hafi nú um miðjan þennan mánuð verið að mestu runnin. En hvaða vit er í að kosta miklu fé til þar, sem landslagi er svo háttað, að aldrei verður lagður vegur, sem stenst til langframa? Fjarðarheiði er oftast einungis snjólaus eða máske snjólítil frá miðjum júlí til októbermánaðar; ef illa viðrar, eru þar oft komnar ófærur og snjór löngu fyrir þennan tíma. Árlegt viðhald á Fjarðarheiðarvegi fyrir 4-5000 kr. hefi ég aldrei talið sem sjálfsagt; mín hugsun, ef hún væri rétt skilin, var sú, að vegurinn gæti aldrei staðið nema með miklum árlegum kostnaði, og það munu líka allir skynberandi menn játa; góðan veg verður aldrei hægt að leggja þar, sem er samfara bratti og snjóþyngsli fram á sumar.
Að lokum skal ég enn einu sinni bera það fram, að enginn vegur úr Héraði til Fjarða mun verða jafn góður og kostnaðarlítill og Fagradalsvegurinn til Búðareyrar. Þessu til sönnunar skal ég geta þess, að Fagridalur var runninn tæpum hálfum mánuði fyrir krossmessu. Sama var að segja um Þórdalsheiði og Eskifjarðarheiði; en yfir þær er óhentugra að leggja veg, vegna afstöðunnar við Búðareyri; svo eru þar og bæði gil, klappir og vond vatnsföll yfir að fara. Umfram allt er vonandi að landshöfðingi, amtsráð og sýslunefndir leggist á eitt með að athuga vel framvegis, hvar fjallvegi (sem aðra vegi) skuli leggja um landið með sem minnstum kostnaði, en til afnota fyrir sem flesta. Það fer illa á því, að hver sveitin og kaupstaðurinn keppist við annan um að ná í sem mesta peninga til að laga til hjá sér, en engum dettur í huga að tala um, aðkoma sér saman um með óhlutdrægni, hvað gagnlegast væri fyrir fleiri sveitir og sýslur, en í því tilliti ætti stjórn og þing að koma vitinu fyrir menn, ef unnt er.
Ég vona, herra ritstjóri, að ég þurfi ekki oftar að ónáða yður, ég ætla nú, hvað sem tautar, að hætta að togast á við ritstjóra "Austra" út af þessu máli.
Ritað í júlímánuði 1894.
Austurlandsvinur.


Ísafold, 15. ágúst 1894, 21. árg., 52. tbl., bls. 206:
Sigtryggur Jónasson útskýrði í fyrirlestri áætlanir um járnbrautir og gufuskipaferðir sem eru nú til umfjöllunar á Alþingi.

Fyrirlestur um samgöngumál vor.
(Járnbrautir og gufuskipaferðir)
Það var fjölsóttur fyrirlestur, sá er hr. Sigtryggur Jónasson flutti hér um það mál laugardaginn 11. þ.m.
Hann kvað það hafa verið áhugamál fyrir sér í mörg ár. Hann hefði ritað grein í "Lögberg" um það fyrir 5-6 árum, út af stælunni , sem reis af fyrirlestri síra Jóns Bjarnasonar "Íslands að blása upp" og haldið því fram, þar að vegurinn til að sætta þjóðina viðkjör sín hér væri að rétta við atvinnuvegina og fyrst og fremst að bæta samgöngutækin að siðaðra þjóða dæmi; ættu að rísa upp félög, er tækju það að sér, með styrk af landssjóði, eða að öðrum kosti landsstjórnin sjálf, þó að það vildi víðast reynast miður affarasælt, - kostnaðarsamara o. s. frv. Ferð sín hér í fyrra hefði vakið aftur og glætt fyrir sér þessa hugmynd, og hefði hann hafið máls á því þá, er hann kom til Englands, við nokkru mikils háttar menn þar, að þeir legðu fram fé til slíkra framkvæmda hér og gengjust fyrir þeim. Þeir hefði þá farið að reyna að kynna sér ýmislegt um landið, af bókum og viðtali við menn, er hér hefðu ferðast; þekktu það ekki áður nema að nafni; en gast eigi að, með því ferðamenn rita og tala almennt illa um landið; höfðu sömuleiðis spurnir af verslunarviðskiptum manna hér við enska menn og skoska, en þær oft ekki góðar. Þess vegna mjög örðugt að sannfæra þá um, að landið væri betra en sögur færi af og að það stæði til mikilla bóta, ef því væri sómi sýndur. Hann hefði samt ekki gefist upp, heldur áréttað tilraunir sínar í sömu átt í vetur, er hann kom aftur þangað vestan um haf (til Liverpool), og kom loks málinu það áleiðis, að nokkrir efnamenn í Liverpool hétu til hátíðarbrigða töluverðu fjárframlagi, 50.000 pd. sterl, ef þeir fengju heimildarfélög frá hinu íslenska löggjafar- og fjárveitingarvaldi til járnbrautarlagningar hér m. m. Þannig væri komið undir komið frumvarp það, er nú lægi fyrir þinginu, og hann hefði klambrað saman, samhljóða því er slík lög gerðust í hinum enska heimi, og ætti það því að vera ekki mjög fjarri viti, úr því þar mætti notast við þannig orðuð lög.
Af fyrirtækjum þeim, er frumvarpið hljóðar um, minntist hann fyrst á gufuskipsferðirnar. Sagði hugmyndina vera þá, að hafa skipin miklu hraðskreiðari en póstskipin dönsku, útbúin með tvöföldum gangvélum, tvöföldum skrúfum, til vara, og þannig til hagað, að þau gætu flutt óverkaðan fisk í ís o. s. frv. Það fylgdi og, að félagið þyrfti að gera hafskipabryggju hér í Reykjavík; án hennar væru svo tíðar ferðir ómögulegar, tvisvar í mánuði milli landa. Að þessum tíðu ferðum ætti að geta orðið mikill hagur á ýmsa lund. Meðal annars bættu þær þó nokkuð úr fréttaleysinu, og gæti svo farið, ef Englendingar rækju þetta fyrirtæki til lengdar, að þeir gerðu sig ekki ánægða með minna en fréttaþráð hér milli landa og kæmu þá því máli til framkvæmdar. Þá ætti og landið að hafa gott af samkeppninni við dönsku gufuskipin, sem væri æði dýrseld, enda væri áformið að færa til muna niður fargjald og flutningskaup, er nú væri t. d. 3 aurar á ullarpundinu milli Íslands og Granton, en ekki nema ¼ eyris milli New York og Liverpool (á bómullarpundið). Ekki mundi þá hvað minnstur hagurinn að því, ef algengt yrði að flytja fiskinn nýjan, sem hér aflaðist með skipum þessum beint til Liverpool í ís. Ekki þyrfti nema í eyris hækkun á verðinu fyrir hann nýjan til þess að landið græddi á því ¼ milj. kr. á ári, og það þó að ekki væri seldur nema helmingur aflans á þann hátt, þess er annars væri í kaupstað látinn hér.
Hvað járnbrautarfyrirtækið snertir, þá væri hugmyndin, að hafa þá tegund járnbrauta er nefnist á ensku máli "Light Railways" og mjög væru orðnir tíðkaðar þar sem fremur væri lítið um flutninga, - algengir í Ástralíu, Afríku, á Indlandi og nokkuð í Canada og víðar. Breidd milli brautarteina ekki nema 30 þumlungar; þverbönd 1925 á hverri enskri mílu. Væri ætlast til, að járnbrautinni, þessari fyrirhuguðu, austur í Árnessýslu, fylgdu 20 opnir vagnar, er tækju 6 smálestir (tons) hver, en 10 luktir jafnstórir, enn fremur 6 ferðamannavagnar III. flokks handa 32 farþegum hver, og 2 farangursvagnar. Til dráttarins væru ætlaðar 2 eimreiðir (locomotivers) Gæti hver eimreið dregið 20 vagna fyrrnefnda 25 mílur enskar (meira en 1 þingmannaleið) á klukkustundinni, þar sem hallalaust væri eða því nær, en 10 vagna jafnþunga (6 tons) upp halla eins og 1:25. Ættu þannig löguð flutningstæki að duga hér í mörg ár. Fréttaþráð þyrfti og auðvitað að leggja meðfram brautinni; það væri alstaðar ómissandi. Járnbrautarlagningin mundi veita fjölda manns atvinnu, auk þess sem 70 manns hefðu fasta ársatvinnu við hana eftir að hún væri komin í gagn. Fljótt mundu menn hér komast upp á að nota járnbrautina, komast upp á að færa sér í nyt flýtinn og ódýrleikann að ferðast. Sig hefði í fyrra kostað ferð héðan norður á Akureyri 1 ½ kr. mílan ensk og 9 dagar hefðu farið til ferðarinnar, en venjulegt járnbrautarfargjald væri 15 aurar fyrir míluna enska og á 15 kl.stundum mundi ekið með járnbraut héðan til Akureyrar. Fyrrum hefði verið 8 sólarhringa ferð með póstvagni milli Edinborgar og Lundúna; nú færi hraðlest það á 8 ½ klukkustund. Það væri ómetanlega mikið varið í tímasparnaðinn til ferðalaga; ferðatímanum væri sem á glæ kastað úr æfi manns. Það væri þægilegt, að geta farið hér upp á Þingvöllum á 1 ½ kl.stund, dvalið þar daglangt og komið heim að kveldi aftur alveg óþreyttur.
Aðrar þjóðir verðu eigi þeim ógrynnum fjár til járnbrauta, sem þær gerðu, ef það væri eigi á neinu viti byggt. T. d. væri eitt félag í Lundúnum, er lagði hefði 120 milj. pd. sterling í járnbrautir sínar.
Járnbraut mundi draga að sér hingað mikinn straum útlendra ferðamanna, sem þá færu og að dveljast hér langdvölum, reisa sér sumarbústaði t. d. við Þingvallavatn, eins og þeir gerðu í Skotalands hálendi. Þá kæmu þar og víðar upp gistiskálar. Útlendingar þyrftu margs með hjá landsmönnum og mundu skapast af því mikil viðskipti og arðsöm. Laxár kæmust þá í miklu hærra verð (leigu), vegna samkeppni, sem nú væri engin, með því þeir sem þær reyndu hér og leigðu, bæru þeim illa söguna, er heim kæmi, til þess að fæla aðra frá þeim.
Hvað bændur snertir, þá mundi þeim bregða við að geta komið jafnóðum og í snatri frá sér á góðan markað hvers konar afurðum, er þeir gætu fram leitt á búum sínum, og eins dregið að sér á sama hátt hvaða þungavöru sem væri. Mundi það meðal annars leiða til mikilla húsabúta, en góð húsakynni bættu heilsu þjóðarinnar og efldu fjör hennar. Þar með mundi og skapast hagfelld sundurskipting atvinnuveganna; er reynslan sýndi að hverri þjóð horfði til farsældar.
Járnbrautir væri þjóðvegir þessarar aldar; þær ryddu sér alstaðar til rúms, jafnvel hversu strjálbyggt sem væri og hvað vel sem sjórinn lægi við til flutninga. Til dæmis ætluðu Norðmenn nú að verja 64 milj. kr. til að leggja járnbraut strandlengis milli Kristjaníu og Björgvinjar, svo mikið sem væri þó um gufuskipaferðir þar með ströndum fram. Á Newfoundlandi, hrjóstrugu landi og strjálbyggðu með jöklum og öræfum, eins og hér, væri járnbrautir lagðar víðs vegar um land.
Sumir ímynduðuð sér, að ekki væri hægt að leggja járnbrautir nema á jafnsléttu. En það væri nú löngu sannað með reynslu að mikil fjöll og firnindi stæðu alls eigi fyrir, svo sem Hamrafjöllin í Ameríku og fl. Hér væri ekki nema barnaspil að leggja járnbrautir fyrir því. Fannir þyrfti og eigi að óttast framar hér en svo víða annarsstaðar, og væri mönnum eigi vandara um hér en þar, þó að ferðir tepptust stöku sinnum í bili sakir snjóa.
Er Ísland fært um að bera járnbrautir? Því þá síður en önnur lönd jafnstrjálbyggð? Hér ættu að vera 200 mílur enskar af fulldýrum og kostnaðarsömum járnbrautum, miðað við það sem er í Canada eftir fólksfjölda og landrými, en 400 af hinum. Lægi járnbraut norður í Eyjafjörð, væri það samt ekki nema á 3. hundr. mílur enskar, en til hennar næði meiri hluti lands. Eftir viðhaldskostnaði og gagni mundu vegir (akbrautir) dýrari að lokum en járnbrautir.
Gufufærum hefði verið líkt við lífæðarnar í líkama manns, en fréttaþráðunum við taugarnar. Þau lönd væri því eins og dauðir limir á þjóðlíkama mannkynsins, er vantaði þetta tvennt. En England væri verslunarhjarta heimsins, og væri því mjög svo hentugt, að líffæri þessi hingað hefðu þar upptök sín. Öll þing og allar landstjórnir í heimi legðu langmesta áherslu á, að efla og styrja hin bestu samgöngutæki, og lægi meira fé fólgið í járnbrautum en allir bankar heimsins hefðu að geyma.
Vér hefðum fengið verslunarfrelsi 1854, og stjórnfrelsi 1874. Nú, að liðnum öðrum 20 árum, árið 1894, ætti vel við að stigið væri hið 3. mikils háttar stig á framfarabraut landsins - : afráðinn nýr ferill landinu til viðreisnar, með almennilegum samgöngutækjum. -
Móti þessu áformi eða frumvarpinu fyrir þinginu væri haft meðal annars, að eingin trygging væri fyrir, að neitt yrði af framkvæmd fyrirtækisins, þó að heimildarlögin fyrir því gengi fram. En parlamentið enska hefði margsinnis gefið út þess kyns heimildarlög, er orðið hefðu árangurslaus og væri alþingi líklega ekki vandara um. Englendingar væri stórir upp á sig, og mundu firrtast, ef ætlast væri til, að þeir gengi eftir mönnum hér (þinginu) um að fá að hætta sjálfir fé sínu. Mundi þess langt að bíða, að aðrir byðust til, ef þessir væri gerðir afturreka. Hitt væri sennilegt, að ætlast væri til tryggingar fyrir reglu á gufuskipaferðunum. Að öðru leyti yrðu eignir félagsins hér (bryggja, járnbraut, hús o. fl.) sæmileg trygging fyrir skaðabótum af samningsrofum félagsins. Færi allt með felldu ætti Ísland vissulega að hafa meiri hag af þessu en England. Hitt væri og ekki forsjállegt, ef maður væri ekki fær um eitthvað sjálfur, að meina þá öðrum að gera það fyrir hann.
Kvíðbogi fyrir því, að frumvarp þetta mundi eigi frá konungs staðfestingu, ef til kæmi virtist eigi hafa við neitt að styðjast, þar sem konungur hefði einmitt sjálfur tekið það fram í síðustu auglýsingu sinni til Íslendinga, að hann vildi fúslega styðja öll þau störf þingsins, sem lyti að heill og framförum landsins, - þó að ekki gæti hann aðhyllst stjórnarskrárfrumvarpið.


Ísafold, 22. ágúst 1894, 21. árg., 54. tbl., forsíða:
Mikið er rætt um járnbrautarmálið á Þingi.

Járnbrauta- og siglingamálið
Þriðja umræðan um það mál í gær í neðri deild varð engu ósnaprari en hinar, og ærið lögn, 6-7 stundir. Ýmsar breytingartillögur voru samþ. með 14-15 atkv., ein sú helsta (um gufuskipin) þó aðeins með tólf, að viðhöfðu nafnakalli. Loks var málið í heild sinni, frumvarpið allt í einu lagi, samþykkt til fullnaðar í neðri deild í gærkveldi með 12 atkv. gegn 10, og afgreitt til efri deildar.
Þessir 10, er atkvæði greiddu á móti frv., voru: Guðl. Guðmundsson, Bened. Sveinsson, Björn Sigfússon, Guðjón Guðlaugsson, Jón Jónsson, þm. Austur-Skaptf., Jón Jónson, þm. Eyf., Sighvatur Árnason, Tryggvi Gunnarsson, Þórhallur Bjarnarson og Þorlákur Guðmundsson.
Niðurlagsgreinar frumvarpsins, er hafa inni að halda aðalkjarna þess og mestar urðu umræður um, eru nú þannig látandi, eins og neðri deild hefir frá þeim gengið:
42. gr. Landssjóður Íslands skal greiða "Hinu íslenska siglinga- og járnbrautafélagi":
1. 50.000 kr. með því skilyrði að það byggi stál eða járnbraut frá Reykjavík að minnsta kosti austur að Þjórsá, og láti lestir, er flutt geti farþega og vörur, ganga eftir járnbrautinni að minnsta kosti sex sinnum á viku, á tímabilinu frá 15. apríl til 15. nóvember ár hvert og hina mánuði ársins eins oft og við verður komið sökum snjóa.
Árgjald þetta greiðist þannig:
Jafnskjótt og brautinni er komið austur í byggð í Árnessýslu austanfjalls og lestaferð hafin á henni, skal landsstjórnin greiða félaginu árlega upphæð, er standi í sama hlutafali við nefndar 50.000 kr., sem lengd hinnar lögðu brautar við alla hina fyrirhuguðu brautarlengd allt austur að Þjórsá. En þegar brautin er fullger þangað, greiðist hið tiltekna árgjald. Öll skal brautin fullgjör og ferðir hafnar á henni áður en sjö ár eru liðin frá því lög þessi öðlast gildi, ella hefir félagið fyrgjört réttindum þeim, sem lög þessi heimila því. Sama er, ef reglulegar lestarferðir leggjast niður á brautinni eftir þann tíma.
Ef járnbraut félagsins tekst af á köflum af völdum náttúrunnar eða brýr á henni bila, skal félagið svo fljótt sem unnt er bæta hið skemmda, og skal það einskis í missa af árgjaldi sínu, þó lestir geti eigi gengið reglulega eða teppist um stund fyrir þessar orsakir.


Ísafold, 8. september 1894, 21. árg., 59. tbl., bls. 284:
Stöplarnir eru tilbúnir fyrir Þjórsárbrúna en einhver mistök virðast hafa átt sér stað.

Þjórsárbrúin.
Stöplarnir að henni voru búnir í mánaðarmótin síðustu, eins og um var samið. En þau missmíði eru á þeim, að skilvísra manna sögn, að stöpullinn austanmegin er miklu lægri en sá á vestri bakkanum, jafnvel 2 álnum lægri eða vel það. Og eftir áreiðanlegum manni Ólafi bóna á Króki, og jafnvel fleirum, er jafnframt haft, að hann muni eftir ánni jafnhárri á ís eystri stöplinum, eins og hann er nú. Brúarsmiðurinn enski, Mr. Vaughan, fór aftur heim til sín snemma sumars, er hann hafði mælt brúarstæðið eins og hann ætlaði sér og sagt rækilega fyrir verkum að stöplahleðslunni fengið steinsmíðunum, Brennu-bræðrum uppdrátt af stöplunum, er þeir mættu eigi hót út af bregða. Er þess til getið, að í uppdrætti þeim eða mælingunni, sem hann var eftir gerður, hafi verið einhver slysavilla, er missmíðinni hefir valdið. Nú er mannvirkjafræðingur landsstjórnarinnar, Sigurður Thoroddsen, þar eystra að skoða fráganginn á stöplunum eða taka þá út, og mun geta sagt með rökum, hve mikil skekkjan er; og hlýtur brúarsmiðurinn auðvitað að laga hana hið bráðasta; því 1. septbr. að sumri á brúin að vera komin á ána og fullger að öllu.


Ísafold, 29. september 1894, 21. árg., 65. tbl., forsíða:
Af 550.000 kr. útgjöldum Landssjóðs fóru 60.000 kr. til vegabóta.

Landsreikningurinn 1893
með samanburði við fyrri ár
Með leyfi landshöfðingja birtast hér helstu atriði úr þeim reikningi, óendurskoðuðum, eins og tíðkast hefir að undanförnu.
Aðalyfirlit.
Tekjur landssjóðs voru áætlaðar það ár í fjárlögunum 533.900 kr, en urðu 634.594 kr. Útgjöldin voru áætluð eitthvað nálægt 550.000 kr., en urðu aðeins 506.122 kr. Gróði landssjóðs eða tekjuafgangur áminnst ár varð þannig 127.367 kr. 88 a.
Vegabótafé
Af 60.000 kr. í því skyni veittum bæði ár fjárhagstímabilsins var 2/3 eytt fyrra árið, en aðeins þriðjungnum þetta, hið síðara, eða rúmum 20 þús. kr. Helsti kostnaðurinn var:
Til Kláffossbrúarinnar ( á Hvítá) ¿¿¿¿¿¿¿¿. 5.933 kr.
Til vegagjörðrar á Fjarðarheiði í N.-Múlasýslu ¿¿¿. 4.677 kr.
Til vegfræðings ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 2.627 kr.
Ofaníburður og aðgerð á veginum frá Reykjavík
upp að Svínahrauni ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 2.537 kr.
Til vegagjörðar frá Kláffossbrú vestur eftir Mýrasýslu .. 2.259 kr.
Til áhaldakaupa ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 1.856 kr.
Gæsla, málun og aðgerð á Ölfusárbrúnni ¿¿¿¿¿¿ 919 kr.
Sæluhús á Þorskafjarðarheiði ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 732 kr.


Ísafold, 29. sept. 1894, 21. árg., 65. tbl., bls. 258:
Sumir telja það besta ráð fyrir Héraðsmenn að koma á vöruflutningum um Lagarfljót en aðrir telja vegi betri.

Lagarfljót er skipgengt (!).
Í 32. tbl. "Fjallkonunnar", 7. ágúst þ.á. er dálítil grein með þessari yfirskrift, sem ég finn mér skylt að mótmæla.
Grein þessi byrjar á því, að segja frá, að nú hafi verið komist með vöruflutning í Lagarfljótsós, og mun það vera satt, að loksins eftir margar atrennur hafi tekist að komast þar að landi með nokkuð af vörum og timbri, með miklum örðugleikum; en til nokkurs var að vinna í þetta sinn, þar sem ánafnað var fyrir þetta þrekvirki 7.000 kr. samtals, úr landssjóði og sýslusjóðum Norðurmúla- og Suðurmúlasýslna; svo að auki kostaði hver hestburður, er fluttur var frá Seyðisfirði, 1 krónu. Ættu flutningar til óssins framvegis að verða nokkuð á þessa leið, sjá allir, hvaða vit er í að framhalda þannig lagaðri uppsigling á kostnað landssjóðs; því sýslurnar gætu og vildu aldrei rísa undir þeim kostnaði fyrir 2 eða 3 sveitir, þó kostnaðurinn yrði minni en hann var í ár (hann var af báðum sýslum 2000 kr.).
Um gufubátaferðirnar fyrirhuguðu eftir Lagarfljóti skal ég aðeins drepa á, að þó öllu, sem lagt yrði af landssjóði fyrir allt landið til brúa- og vegagjörða, yrði varið um næstu 2 ár til að kosta skurði fram hjá torfærunum í fljótinu, svo komist yrði með gufubáta upp í fljótsbotn, mundi það lítið hrökkva. Það sem enn fremur, ásamt fyrrnefndu, þyrfti að gæta betur að, er dýpið í fljótinu, þegar upp eftir kemur, t. d. á Einhleypingi við Ekkjufell er dýpið ekki nema svo sem 2 fet, þegar fljótið er lítið, og ef til vill enn minna stundum. Kostnaðurinn við þessa fljótsleið er fyrirsjáanlega svo ógurlegur, að engum manni sem ber dálítið skyn á þess konar verk sem þessa fyrirhuguðu skurði, mundi detta í hug að ætlast til, að landsstjórnin fyrir eitt hérað á landinu legði út í svo mikinn kostnað. Úthald gufubátanna sjálfra mundi heldur ekki verða neitt smáræði. Það mætti gott heita, ef einungis af og til sigling í sjálfan ósinn gæti heppnast framvegis, en það er tvísýnt. Farvegur fljótsins breytist svo árlega, að naumast verður ár eftir ár farin sama leið, jafnvel líka ár og ár í bili svo miklar grynningar í ósnum, að alls ekki yrði komist upp í hann; auk þess verðu fljótsósinn ætíð óaðgengileg höfn, nema í besta verðri um hásumar.
Góður akvegur beggja megin fljótsins meðfram bæjum mundi verða hentugastur fyrir flestar sveitirnar, og kostnaðurinn við hann svo sem enginn í samanburði við skurðina og gufubátana. Látum Upphéraðsmenn, t. d. Fljótsdælinga, útvega vér gufubát, á fljótið að ofanverðu. Þar er nóg dýpi, nokkuð stórt svið yfir að fara, og efstu sveitirnar svo vel efnum farnar, að þeim mundi ef til vill veita hægt að kosta bátinn af eigin rammleik, ef þær endilega upp á mont vilja heldur hafa gufubát til flutninga en góðan akveg.
Blöðin ættu umfram allt, að víkja hverju máli, sem til þerra kemur, á rétta leið. Síst ættu þau að taka þannig lagaðar greinar, eins og þessa "Fj.konu grein", án athugasemda. Það er nóg, að grunnhyggin alþýða oft og tíðum gefur hinum og þessum, sem kallaðir eru þjóðlegir og framfaramenn, tækifæri til að þeyta framfaraflautir okkar Íslendina. Það er vonandi, að alþingi komi þessari Lagarfljótsleið fyrir ætternisstapa, ef einhver yrði til að flytja það ofurmegn heimskunnar á þing næsta ár.
Gamall Héraðsbúi.


Ísafold, 3. okt. 1894, 21. árg., 66. tbl., bls. 262:
Hans Ellefsen gefur skotmannshlut af hval til vegagerðar á Skaganum.

Gjöf til vegagerðar.
Herra Hans Ellefsen á Önundarfirði hefir gefið 167 kr. 85 a., sem er nokkuð af verði fyrir skotmannshlut, er honum bar úr hval þeim, er dauður fannst og róinn var upp í Skagann í fyrra, til verulegrar vagnvegagjörðar á Skaganum, með þeim skilyrðum, að hreppsfélagið legði til þeirrar vegagjörðar 250 kr. og vegur þessi yrði forsvaranlega fullgjörður á næsta ári og skyldi hreppsnefndin í Ytri-Akraneshreppi hafa alla framkvæmd á starfa þessum.
Ég sem hefi fært hreppsnefndinni gjafabréfið og á sínum tíma á að afhenda gjöfina, hefi þá ánægju, að mega færa hinum veglynda gefanda innilegt þakklæti hreppsnefndarinnar fyrir þessa höfðinglegu gjöf, og jafnframt vil ég skýra frá, hvernig hreppsnefndin hefir nú þegar uppfyllt hin tilteknu skilyrði.
Nýr upphleyptur vegur, 120 faðmar á lengd, 6 álnir á breidd að ofan, þráðbeinn og næstum láréttur, er lagður og fullgerður á hentugum stað þvert yfir Skagann; æfður vegaverkstjóri (Sigurgeir Gíslason) hefir ráðið fyrir vinnunni og er frágangur allur á veginum traustur og laglegur, plássprýði og fyrirmynd, enda hefir vegurinn kostað allt að þúsund krónum, að meðreiknuðu landi því, er undir hann varð að kaupa. Sést á því, að hreppsnefndin hefir fyllilega og fúslega uppfyllt hin áðurnefndu skilyrði.
30. sept. 1894.
Hallgr. Jónsson.


Ísafold, 3. nóvember 1894, 21. árg., 72. tbl., forsíða:
Séra Ólafur Ólafsson í Arnarbæli skrifar hér um það óhagræði sem bændur við fjölfarna þjóðvegi búa við.

Ferðalög og fjárrekstrar
eftir síra Ólaf Ólafsson í Arnarbæli
Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að um Ölfussveit og Ölfusafrétt liggur einn hinn fjölfarnasti þjóðvegur landsins; má segja, að á flestum tímum árs slitni umferðin nærfellt aldrei á þeim vegi, þótt mest sé hún vitanlega bæði haust og vor.
Varla þarf heldur að taka það sérstaklega fram, að þeir, sem næstir þjóðbrautinni búa, verða að þola miður góðar búsifjar og margt óhagræði af umferðinni; og mun það sameignlegt böl fyrir alla þá, sem við þjóðbrautir búa um allt. Um það tjáir ekki að tala. Eigi má heldur gjöra þeim ferðirnar of örðugar, eða ýfast við þá að raunalausu; það er eðlilegt þótt þeir beiðist gistingar á nóttum, húsaskjóls fyrir sig og farangur sinn í illviðrum, eða þótt þeir þurfi að láta skepnur, sem þeir eru með, taka niður um stund og hvíla sig.
En það verður og að teljast skylda þeirra, að fara svo um þjóveginn og haga svo ferðalagi sínu, að þeim, sem búa við þjóðveginn, sé ekki gjörður óþarfa skaði, eða sýndur meiri usli og yfirgangur en þörf ber til.
Það er sjálfsagt að játa það, að um þennan veg fara fjöldamargir - ég vil vona flestir -, sem haga ferðum sínum og koma fram sem heiðarlegir menn í alla staði og vilja engum mein eða ágang gjöra; en hitt er líka jafnsatt, að innan um slæðast einstaka "misjafnir sauðir". Ég skal nú taka það fram, að ég hefi ekki heyrt neinn af þeim, sem við þjóðbrautina búa hér í sveit, kvarta undan því, þótt þeir þurfi að hýsa ferðafólk, gefa því mat og kaffi, lofa hestum að taka niður um hæfilegan tíma, eða yfir höfuð þótt þeir verði að sýna ferðamönnum þá greiðasemi, sem gömul íslensk gestrisni heimtar og heiðarlegir menn geta vænst eftir með sanngirni.
En það er annað, sem menn hér almennt kvarta yfir, og það alls ekki ástæðulaust; og það eru vandræði þau, sem árlega fara í vöxt af eftirlitslitlum og eftirlitslausum fjárrekstrum bæði gegnum sjálfa sveitina og um miðjan afrétt sveitarinnar. Því vandræðaástand má það heita, þegar sveitarmenn geta daglega átt von á því frá seint og snemma á slætti og fram yfir veturnætur, að sauðfé sé rekið úr heimahögum eða afréttum, meðan það er þar, og í aðrar sýslur og sveitir. Það má nefna dæmi þess, að kindur hafa verið reknar úr rekstri í sumar úr heimahögum í Ölfusi og suður á Hellisheiði, suður fyrir Hellisheiði, niður í Svínahraun og alla leið niður að Elliðaám, skildar þar úr og látnar þar eftir í algjöru hirðingarleysi. Sömuleiðis hefir fé verið rekið úr afrétti og niður á bæi fyrir sunnan fjall. Það hefir borið við, þó ekki sé í sumar, að sauður frá bónda í Ölfusi með hreinu marki eigandans hefir verið tekinn úr rekstri suður með sjó. Að hann hafðist var alls ekki að þakka skilvísi þess manns, sem tók hann úr afréttinum, heldur því, að markið var víða þekkt, og að markglöggur og skilvís maður sá hann fyrir sunnan og tók hann úr rekstrinum. Og hver vill nú fullyrða, að ekki kunni að koma fyrir stöku sinnum , að einstaka kind slæðist alla leið þangað, sem rekstrarnir eiga að fara, og missist þannig alveg eigandanum?
Það er spá mín og margra annarra fleiri, að fleirum en Ölfusingum mundi þykja þetta, sem hér að framan er talið, heldur ónotagreiði.
Ég held nú, að þetta sé oftast óviljaverk; en hitt er satt, að þau óviljaverk eiga ekki að koma fyrir.
Stundum kemur þetta fyrir af kæruleysi og skeytingarleysi; því er ekki hægt að neita; svo sem þegar rekstrarmenn sleppa stórrekstrum með dimmunni á hauskvöldum í búfjárhaga fulla af fé, liggja í útikofunum um nóttina og smala síðan og reka af stað með skímunni, án þess að hafa tal af neinum; hver veit hvað þeir fara með ásamt sínum kindum? Eða þegar haldið er áfram með rekstra gegnum búfjárhaga eða afrétt eftir að komin er nótt og svarta-myrkur og lítt mögulegt eða jafnvel ómögulegt að sjá, hvort fé fer saman við reksturinn eða ekki.
Það er ekki að orsakalausu, að sagt er um þá menn, sem þannig haga ferðum, að þeim muni ekki leitt að "drýgja svolítið mjaðarskömmina".
Stundum kemur þetta til af því, að rekstrarnir eru óhæfilega illa menntir. Þannig það tvisvar fyrir í sumar, að einn maður fór suður með 50-60 fjár og klyfjahesta að auki. Mér þætti gaman að vita, hvað bændur í upphreppum Árnessýslu eða í Rangárvallasýslu mundu segja, ef slík og þvílík kæruleysis-umferð yrði tekin upp um afrétt þeirra, og þeim jafnframt væri ómögulegt, að hafa nokkurt eftirlit með, hvort fé þeirra slæddist í rekstrana eða ekki. Ég þekki að fornu fari, hvílíkur ófriður er með sauðfé á haustin á þjóðbrautarbæjum í Rangárvallasýslu, og ég hefi oftar en einu sinni heyrt menn þar kvarta sáran; það var heldur ekki ástæðulaust, því þess man ég dæmi, að 2 sauðir voru reknir í rekstri austan úr Holtum og suður í Elliðaárhólma; en ekki mundi þó þykja batna, ef sami ófriðurinn og ófögnuðurinn væri líka kominn á afréttinn. - Það var og er gamalla manna mál, að góður afréttur væri besta eign hverrar sveitar; en - hann er því aðeins góð eign, að skepnur þær, sem þangað eru látnar, eigi þar einhvern rétt og frið á sér.
Á hreppskilaþingi að Kröggólfsstöðum 15. þ.m. (okt) báru margir bændur sig upp, sem harðast höfðu orðið út, bæði með missi á kindum og ýmsan annan usla af þeim, sem um þjóðveginn fara. Var þá ályktað, að leita til hlutaðeigandi stjórnarvalda og reyna að fá einhverjar reglur settar um sauðfjárrekstra um sveitina og einkum um afréttinn. Vona menn nú það tvennt, að yfirvöldin bregðist á sínum tíma vel og skörulega við þessu máli, sem snertir líka fleiri sveitir en þessa; og að allir heiðvirðir menn, hvort sem þeir eru úr austri eða vestri, hagi svo ferðum sínum og manni svo rekstra sína, að sem sjaldnast verði ástæða til að kvarta.


Ísafold, 8. desember 1894, 21. árg., 79. tbl., bls. 314:
Erlendur Zakaríasson skoðar sýsluvegina í Árnessýslu að áskorun sýslumanns og gerir tillögur um úrbætur.

Um sýsluvegina í Árnessýslu.
Haustið 1892 skoðaði ég sýsluvegina í Árnessýslu, eftir áskorun sýslumanns, og átti að segja álit mitt um, hvað gera skyldi til viðreisnar sýsluveginum. Tíminn var af skornum skammti, sem ég hafði til að ferðast um sýsluna, en ég reyndi eftir megni að kynna mér málið, og sendi sýslunefndinni skýrslu um ferðina og hvað mér virtist ráð að gera.
Hið fyrsta, sem ég áleit að gera ætti, var, að fá sér mann, sem vildi læra vegagjörð, helst þar innlendan, og láta hann standa fyrir allri vegavinnu í sýslunni. Annað var það, að skipta sem minnst í sundur sýsluvegapeningunum. Með öðrum orðum: láta vinna á sem fæstum stöðum í einu, en það lítið gjört væri, væri vel af hendi leyst. Þegar maður er fenginn, sem kann að verkinu, þá getur hann vandið menn við vinnuna - það er hægt að fá góða verkamenn í Árnessýslu; þar eru yfirleitt vel duglegir menn - og sagt til, hvaða verkfæri eigi að nota við vinnuna. Það er mikið í það varið, að hafa hin réttu verkfæri. Það er ótrúlegt, hverju það munar.
En ég sé ekki, að sýslunefndin hafi tekið þessar tillögur mínar neitt til greina. Það er síður en svo. Hafi vegavinnunni þar ekki farið aftur síðan, þá hefir henni ekkert farið fram.
Tökum til dæmis Mela- eða Nesbrúna. Sýslunefndarmennirnir í þeim hreppum, sem vegurinn liggur eftir, hafa hver sinn hluta til aðgerðar, hver í sínu umdæmi, og mun enginn geta sagt, að það verk lofi meistarann; það er eitthvað annað. Þó má geta þess, að vorið 1892 gerði Grímur bóndi í Óseyrarnesi við dálítinn spotta af veginum, og var það vonum fremur vel gert.
Í vor fór ég um Nesbrúna og sá þá hvernig verki var framkvæmt. Þar sem kantarnir höfðu aflagast, þá var tekið utan úr þeim og vegurinn mjókkaður. Þetta hefir gengið ár eftir ár, svo nú er hann ekki orðinn á köflum meira en 3½ alin á breidd. Upphaflega var hann 5 álnir. Verði þessari aðferð haldið áfram má hamingjan vita, hvað vegurinn verður mjór á endanum.
Sumir voru að mylja grjót - því annan ofaníburð er varla auðið að fá - og höfðu mjög vond verkfæri, og því verri vinnuaðferð. Meðal annars var verið að flytja grjót að veginum, og var það borið á hestum í krókum. Í haust fór ég eftir veginum og var hann þá hér um bil ófær. Hestarnir óðu moldina og grjótið, oftast í hné. Það máatti svo segja, að hann væri ekki fær nema fuglinum fljúgandi.
Það er vitaskuld, að meira verður að leggja til vegarins heldur en gert hefur verið að undanförnu - 200 eða 300 kr. á ári, - en þá væru peningaútlátin einu sinni fyrir allt. Væri haganlega að farið, mundi ekki kosta meira en 2000-2500 kr. að gera þennan veg góðan. En þá væri hann líka óhultur um langan tíma.
Þessu munu menn svara þannig, að sýslunefndin hafi ekki svo mikið fé til umráða, og í öðru lagi, að það sé ekki vert fyrir sýsluna að fara að leggja svo mikið fé til þessa vegar, því hann verði óþarfur þegar hin fyrirhugaða flutningsbraut komi af Eyrarbakka og yfir Flóann.
Fyrri viðbárunni mætti svara þannig, að betra er að taka lán hjá landssjóði, sem afborgast ætti á 28 árum með vöxtum; það yrði 120-150 kr. útborgun á ári fyrir sýslusjóðinn. Hinu má svar á þá leið, að það er ekki víst hvar flutningbrautin verður látin liggja, þó margt mæli með því að hin liggi frá Ölfusárbrúnni fyrir austan Sandvík, þar beint niður yfir Breiðumýri og lendi skammt fyrir austan Eyrarbakka. Þetta er ekki mögulegt að ákveða fyr en búið er að rannsaka á fleiri stöðum. Í öðru lagi er það, að langt verður þangað til að þessi vegur kemur, að öllum líkindum ekki fyr en eftir aldamót. Fyrst verður vegurinn austur í Rangárvallasýslu lagður, og það er langur vegur austur að Ytri-Rangá.
Hvernig sem fer, þá eru mikil líkindi til, að þessi fyrirhugaða flutningsbraut liggi ekki svo vestarlega yfir Flóann, að ekki verði þörf á að halda Nesbrúnni við eins fyrir það; en vitaskuld er það, að umferðin minnkar; en þá þolir hún líka lengur.
Reykjavík, 3. desember 1894
Erl. Zakaríasson.


Ísafold, 29. desember 1894, 21. árg., 89. tbl., forsíða:
Hér er fjallað um vegagerðir sem unnið var við á liðnu sumri, aðallega í Borgarfirði, á Mosfellsheiði og á Hellisheiði.

Vegagerð 1894
Það var unnið í sumar að vegagerð á landssjóðs kostnað á 3 stöðum: í Borgarfirði, á Mosfellsheiði og Hellisheiði, auk þess sem talsverð vina fór í viðgerð og viðhald (ofaníburð) á veginum frá Elliðaám upp í Fóelluvötn, - syðri hluta Hellisheiðarvegarins.
Vegavinnunni í Borgarfirði stýrði Árni Zakaríasson. Var þar lagt framhald af aðalpóstveginum, sem gerður var í fyrra, nefnil. 1 röst (km.) fyrir norðan Hvítá, "af Síðumúlahálsi eftir svokölluðu Húsasundi og norður í Kleifar", og fyrir sunnan Hvítá "frá Kláffossbrúnni og suður á Hamramela (upp í Rjúpnalág,)" rétt að segja 4 rastir. Enn fremur vegarspottar frá brúnni á Flóku, um 170 faðma að norðanverðu og 36 faðmar fyrir sunnan brúna. Loks gert við og rutt um 200 faðm., á Hamramelum og fyrir sunnan Flóku. Er þar með fenginn greiður og góður vegur af Varmalækjarmelum og norður í Kleifar, eða að og frá Kláffossbrúnni, sem áður var vegleysa; enda umferðin mjög mikil um brúna.
Vegavinna þessi stóð yfir frá því í miðjum maímán. og framundir septemberlok, með 23-24 verkamönnum lengst af, auk verkstjóra. En þar í felst einnig vinna að stöplahleðslu við brúna yfir Flókadalsá, er lögð var í sumar, um 250 dagsverk. Verkstjóri hafði 4 ½ kr. í kaup á dag, smiður 4 kr., flokkstjórar (2) 3 kr. 25 a., aðrir 2 kr. 85 a. til 3 kr.; sumir lítið eitt minna. Meðalkaup allra 2 kr. 92 a. Auk þess 1 kr. í fæðispeninga á sunnudögum. Kaup verkamanna alls 7.846 kr.; annar kostnaður nær 900 kr., þar af helmingur hestaleiga.
Lögð var jafnframt í sumar brú á Flókadalsá, illt vatnsfall, þótt ekki sé stórá. Það er trébrú, 22 álna löng, eða þriðjungi styttri en Kláffossbrúin, smíðuð með umsjón Helga kaupmanns Helgasonar í Reykjavík. Hún mun hafa kostað að efni og smíði fram undir 1.000 kr., og stöplarnir að henni aðrar 1.000 kr.; þar við bætist flutningur. Brúin liggur 4-55 föðmum ofar en vegurinn gamli yfir ána, efst í gljúfrapetti þar dálitlu.
Vegavinnunni á Mosfellsheiði stýrði í sumar Einar Finnsson, er vanist hefir vegagerð í Noregi í mörg ár. Hann hafði 33 verkamenn, frá því um miðjan maímán. og fram í októberbyrjun. Það var framhald vegarins upp með Seljadal að austan, sem hann lagði að nýju, nær 4 ½ röst, því nær hallalaust. Það kostaði rúml. 9.600 kr. Enn fremur bar hann eða hans lið ofan í talsverðan spotta af kafla þeim, er lagður var í fyrra sumar og þá var eftir ógert; fóru til þess 3 ½ þús. kr.
Er nú mjög skammt eftir að hinum nýja vegi á háheiðinni. Verkalaunin sömu og í Borgarfirði.
Að Hellisheiðarveginum var unnið í tvennu lagi.
Vestan á heiðinni (eða sunnan) stóð Páll Jónsson fyrir verki. Hann lagði af nýju veg frá Svínahrauni nokkuð upp fyrir Reykjafell, sunnan megin við það, þar sem er miklu óbrattara og ósnjóbættara en um Hellisskarð, og komst nær 6 röstum. Hann byrjaði í miðjum maímán. og hélt áfram til 9. okt. Vinnulið hans var um þrjátíu (31), með sömu kjörum og á hinum stöðunum. Kostnaður 12 ½ þús. kr. Talsvert af þeim vegi er "Púkklagt" (sjá síðar). Mestur halli 1:10 á litlum spotta.
Loks hafði Erlendur Zakaríasson undir austurhluta vegarins, aðallega heiðarbrekkuna að austan, hina alræmdu Kamba, og er það langörðugasti vegarkaflinn, er gerður hefir verið hér á suðurlandi. Hann byrjaði við Hengladalsá, uppi á heiðinni austarlega, og komst spölkorn niður fyrir Kamba, hér um bil 4 rastir alls. Vinnuliðið 33-35, frá miðjum maí fram í miðjan október, með sömu kjörum og á hinum stöðunum, og kostnaður við þann vegarkafla rúmar 15.000 kr. Í vinnunni felst enn fremur brúarstöplahleðsla við Varmá í Ölfusi, er kostaði með steinlímsaðflutningi m. m. um 700 kr.
Það er ekki all-lítið mannvirki, hinn nýi Kambavegur. Þrátt fyrir hina miklu brekku þar er vegurinn hvergi brattari en 1:10½ og má skeiðríða hann upp og ofan, enda sléttur eins og fjalagólf nú fyrst í stað og vonandi til frambúðar; svo vandlega hefir verið frá honum gengið. Sem nærri má geta, þurfti ákaflega miklar sneiðingar til þess að fá veginn svona óbrattan, og eru þær á 18 stöðum svo krappar, að geisli bogans er ekki nema 2 ½ - 4 faðmar. Víða varð að grafa í gegnum hryggi og klappir, eða fylla upp í lautir. Hlaða varð og víða allháan grjótvegg undir vegarbrúninni, þar sem hún er nokkuð há, stabbasteinar, með 1 faðms millibili, svo sem til varnar í myrkri. Mestur hluti vegar þessa er "púkklagður", þ. e. gerður úr muldu grjóti, smækkandi eftir því, sem ofar dregur, en smágerður ofaníburður efst. Eru slíkir vegir stórum mun traustari og haldbetri en ella, og svarar það sjálfsagt hinum aukna kostnaði, þar sem leið er fjölfarin. Rúmar 7 kr. hefir faðmurinn kostað upp og niður í þessum vegarkafla öllum, á einum stað í Kömbum kostaði hann 24. kr.
Brúarstöplarnir við Varmá eru 14 álna langir hvor, en 3 álna hár vestri stöpullinn og 4 ½ alin sá eystri. Brúna á Varmá sjálfa, trébrú, 16 álna lagna, smíðaði eða smíða lét Helgi kaupmaður Helgason í Reykjavík, og mun hún hafa kostað 5-600 kr., auk flutnings, sem varð fremur ódýr, - viðinum fleytt upp frá Ölfusá og Varmá. Brúin er spölkorn fyrir neðan þjóðveginn, sem var yfir ána.
Aðalforsögn og eftirlit með vegagerðum þessum hefir mannvirkjafræðingur landsins, hr. Sigurður Thoroddsen, haft, eftir fyrirskipunum landshöfðingja og með hans ráði.
Á sumri komanda mun verða lokið við Hellisheiðarveginn, háheiðina, ásamt dálitlum kafla fyrir neðan heiðina, beggja megin Varmárbrúarinnar, og verður þá kominn akvegur alla leið frá Reykjavík austur að Ölfusárbrú, nema hvað gera þarf samt enn talsvert við Svínahraun til þess, og svo er aðeins reiðvegur spölkorn fram með Ingólfsfjalli.