1894

Þjóðólfur, 7. ágúst 1894, 46. árg., 87. tbl., bls. 147:

Alþingi.
Stórvægilegt nýmæli. Enn er ógetið eins nýmælis, er borið hefur verið upp á þinginu, nýmælis í svo stórum stíl, að þingið hefur ekki fyr haft jafnmikið stórmæli til meðferðar. Það er frumvarp um löggilding félags með takmarkaðri hluthafaábyrgð til að halda uppi siglingum milli Íslands og útlanda og í kringum strendur Íslands og leggja járnbrautir á Íslandi m. fl. Flutningsmenn Jens Pálsson og Jón Þórarinsson. Aðalforgöngumaður þessa máls er hr. Sigtryggur Jónasson útflutningaagent Kanadastjórnar, sem nú er hér staddur. Þykist hann hafa von um fjárframlög til þessa stórfyrirtækis frá enskum auðmönnum eða hlutafélagi, svo framarlega sem landssjóður vilji leggja fram 100.000 kr. á ári í 30 ár til þess, að lögð sé járnbraut 50 mílur enskar austur frá Reykjavík og gufuskip gangi frá Englandi til Reykjavíkur tvisvar í mánuði á sumrum að minnsta kosti og einu sinni í mánuði á vetrum, auk stöðugra gufuskipaferða kringum landið o.s.frv. Höfuðstóll félagsins á að vera 6 milljónir króna, en má hækka upp í 10 milljónir. Rúmsins vegna verður ekki að sinni skýrt nákvæmar frá fyrirkomulagi og verksviði félagsins, enda alllíklegt, að frumv. breytist að einhverju leyti, er þingið tekur það til meðferðar. Hér er um svo stórt stig, um svo mikla nýbreytni að ræða, að þingmenn verða að leggja höfuð sín í bleyti til að íhuga það sem rækilegast, en það er varla tími til þess á þessu þingi, og mundi því langheppilegast, að málið væri látið óútkljáð í þetta skipti, svo að þjóðinni gæfist kostur á að átta sig, þangað til þingið kemur saman næst. Að fella málið beinlínis í þetta sinn er miður heppilegt. Það hefur gott af því að liggja á döfinni dálitla stund enn. Hver veit nema það kunni að opna augu þings og þjóðar fyrir því, að stefna sú, er hingað til hefur verið fylgt í fjármálum sé ekki hin eina rétta: að nurla fé saman í landssjóð en þykjast svo aldrei hafa efni á að gera neitt, sem nokkuð er í varið, og láta því ógert það sem gera þarf, eða gera sárlítið til þess að efla framleiðsluna í landinu sjálfu, sem þá er undirstaða allrar sannrar velmegunar í hverju landi, og skilyrði fyrir því, að tíðar og fjörugar samgöngur á sjó og landi komi að verulegum notum. "Hollt er heima hvað" segir máltækið. Vér erum ekki svo vesælir, að vér getum ekki sjálfir stigið einhver verulega stór spor til framfara, ef ekki skortir vilja og þrek.
Verði þetta járnbrautar og siglingafrumv. til þess að vekja og örva hina íslensku þjóð til að lyfta sér upp yfir smásálarskapinn og taka duglega rögg á sig af eigin rammleik, þá erum vér þakklátir þeim mönnum, er hafa borið þetta nýmæli upp, enda þótt uppástunga þeirra fái ekki framgang. Þeir hafa þegar gert óbeinlínis gagn með því að vekja máls á þessu. Fyrir nokkrum árum hefði þetta verið talin fjarstæða, sem enginn hefði viljað líta við. Nú erum vér þó komnir svo langt, að vér þolum að heyra svona stórar upphæðir nefndar, án þess að bregða uppástungumönnum um flónsku eða fífldirfsku.


Þjóðólfur, 7. ágúst 1894, 46. árg., 87. tbl., bls. 147:

Alþingi.
Stórvægilegt nýmæli. Enn er ógetið eins nýmælis, er borið hefur verið upp á þinginu, nýmælis í svo stórum stíl, að þingið hefur ekki fyr haft jafnmikið stórmæli til meðferðar. Það er frumvarp um löggilding félags með takmarkaðri hluthafaábyrgð til að halda uppi siglingum milli Íslands og útlanda og í kringum strendur Íslands og leggja járnbrautir á Íslandi m. fl. Flutningsmenn Jens Pálsson og Jón Þórarinsson. Aðalforgöngumaður þessa máls er hr. Sigtryggur Jónasson útflutningaagent Kanadastjórnar, sem nú er hér staddur. Þykist hann hafa von um fjárframlög til þessa stórfyrirtækis frá enskum auðmönnum eða hlutafélagi, svo framarlega sem landssjóður vilji leggja fram 100.000 kr. á ári í 30 ár til þess, að lögð sé járnbraut 50 mílur enskar austur frá Reykjavík og gufuskip gangi frá Englandi til Reykjavíkur tvisvar í mánuði á sumrum að minnsta kosti og einu sinni í mánuði á vetrum, auk stöðugra gufuskipaferða kringum landið o.s.frv. Höfuðstóll félagsins á að vera 6 milljónir króna, en má hækka upp í 10 milljónir. Rúmsins vegna verður ekki að sinni skýrt nákvæmar frá fyrirkomulagi og verksviði félagsins, enda alllíklegt, að frumv. breytist að einhverju leyti, er þingið tekur það til meðferðar. Hér er um svo stórt stig, um svo mikla nýbreytni að ræða, að þingmenn verða að leggja höfuð sín í bleyti til að íhuga það sem rækilegast, en það er varla tími til þess á þessu þingi, og mundi því langheppilegast, að málið væri látið óútkljáð í þetta skipti, svo að þjóðinni gæfist kostur á að átta sig, þangað til þingið kemur saman næst. Að fella málið beinlínis í þetta sinn er miður heppilegt. Það hefur gott af því að liggja á döfinni dálitla stund enn. Hver veit nema það kunni að opna augu þings og þjóðar fyrir því, að stefna sú, er hingað til hefur verið fylgt í fjármálum sé ekki hin eina rétta: að nurla fé saman í landssjóð en þykjast svo aldrei hafa efni á að gera neitt, sem nokkuð er í varið, og láta því ógert það sem gera þarf, eða gera sárlítið til þess að efla framleiðsluna í landinu sjálfu, sem þá er undirstaða allrar sannrar velmegunar í hverju landi, og skilyrði fyrir því, að tíðar og fjörugar samgöngur á sjó og landi komi að verulegum notum. "Hollt er heima hvað" segir máltækið. Vér erum ekki svo vesælir, að vér getum ekki sjálfir stigið einhver verulega stór spor til framfara, ef ekki skortir vilja og þrek.
Verði þetta járnbrautar og siglingafrumv. til þess að vekja og örva hina íslensku þjóð til að lyfta sér upp yfir smásálarskapinn og taka duglega rögg á sig af eigin rammleik, þá erum vér þakklátir þeim mönnum, er hafa borið þetta nýmæli upp, enda þótt uppástunga þeirra fái ekki framgang. Þeir hafa þegar gert óbeinlínis gagn með því að vekja máls á þessu. Fyrir nokkrum árum hefði þetta verið talin fjarstæða, sem enginn hefði viljað líta við. Nú erum vér þó komnir svo langt, að vér þolum að heyra svona stórar upphæðir nefndar, án þess að bregða uppástungumönnum um flónsku eða fífldirfsku.