1893

Tenging í allt blaðaefni ársins 1893

Þjóðólfur, 20. jan. 1893, 45. árg., 3. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur telur mikilvægt að bæta veginn frá Reykjavík til Geysis vegna erlendra ferðamanna, en hann er allt annað en góður, að undantekinni Mosfellsheiði.

Um veginn frá Reykjavík til Geysis.
Blöðin hafa lítilsháttar drepið á, hve gott væri að geta hænt útlenda ferðamenn hingað, og það er víst, að þeir flytja mikla peninga inn í landið, en það þarf að gera eitthvað í þá átt, að þeir vilji koma hingað, og álít ég þá hið fyrsta: að þeir geti átt kost á að ferðast á góðum vegum, því að væru þeir góðir, væri fremur vegur að reisa gistihús með fram þeim.
Sá vegur, sem ég helst ætla að tala um og fjölfarnastur er af útlendingum, er Geysisvegurinn (frá Rvík til Geysis). Hann er allt annað en góður, að undantekinni Mosfellsheiði. Yfir hana er lagður vegur en mjög er ofaníburðurinn grýttur austantil á henni, því það væri mesta þörf á að ryðja hann, en að öðru leyti er vegurinn ágætur. Frá Mosfellsheiði er allgóður vegur austur að Skálabrekkuás, en frá honum og austur á Laugarvatnsvelli er að heita má ófær vegur, einkum þegar bleytur eru. Vegurinn liggur yfir hraun með einlægum klifum og dældum á milli, sem standa fullar af vatni eftir hverja skúr, og þar að auki eru þær mjög holóttar. Ég ímynda mér, að útlendingum þyki ekki mjög fallegt að sjá, þegar aumingja hestarnir eru að festa fæturna í þeim, svo að liggur við slysum, því Íslendingum, sem er þó ekki hrósað fyrir of góða meðferð á hestum, þykir það æði ljótt.
Gjábakkastíg getur enginn talið færan veg, þó það verði að nota hann, og miklu gæti hann verið hægari, ef vegurinn væri lagður á snið upp í hann, en ekki beint upp, eins og hann er nú. Af Laugarvatnsvöllum og austur að Skillandsá í Laugardal er allgóður vegur, að minnsta kosti þá er þurrkar eru; en frá Skillandsá og austur að Brúará, en mjög leiður vegur. Það er brú á Brúará, en mjög ófullkomin, því það liggur víst nærri, að hún sé landinu til ósóma. Þar sem brúin er, er áin breið, og fellur bæði fram af björgum, og einnig að miðjunni ofan í gjá, og brúin er einungis yfir gjána. Út að gjánni eða brúnni er vatnið á milli knés og kviðar, og mjög straumhart og ef nokkur vöxtur er í henni þá er hún ófær. Brúarstæði er gott á henni litlu neðar og hefur vegfræðingur Erl. Zakkaríasson skoðað það, og ætlað á, að brú þar mundi kosta kring um 1.200 kr. Frá Brúará og til Geysis er dágóður vegur.
Ef þessi vegur (frá Rvík til Geysis) væri gerður góður, þá fyrst væri hugsandi að reisa gistihús við Geysi og væri það til, þá mundu færri útlendingar fara áður en þeir sæju Geysi gjósa, og engir fyr en þeir væru búnir að sjá Strokk gjósa, sem þeir hafa þó gert; en mjög spillir það líklega fyrir áliti þessara merkilegu hvera, þegar útlendingarnir koma heim til sín og segjast alls ekki hafa séð Strokk gjósa; þeir hefðu ekki getað beðið eftir gosi úr honum, af því ekkert gistihús væri við hann.
En hvaðan eiga peningar að koma til að gera þennan veg góðan og til að brúa Brúará, sem alls ekki má dragast, því flaki sá, sem er á henni er farinn að verða fúinn. Sýslan, munu sumir segja, á að kosta þennan veg, því hann er sýsluvegur, en það er sama sem að segja: hann á aldrei að verða góður, því hún leggur ekki fram meiri peninga en að eins til að kasta steinum úr götunni við og við.
Ætli þessi vegur fengist ekki gerður að þjóðvegi með aukalögum við þau vegalög sem nú eru, eða þá með því að endurskoða þau frá rótum? Meðan hann er sýsluvegur, verður hann aldrei gerður góður.

1/1 1893.
Vér erum hinum háttv. höf. samdóma um, að nauðsyn beri til, að veita útlendingum, sem hingað koma, meiri þægindi en verið hefur. Auðvitað getum vér ekki lagt jafnmikið í sölurnar fyrir þá, eins og Norðmenn hafa gert á síðari árum, er hafa reist fjölda gistihúsa hingað og þangað eingöngu í þarfir ferðamanna. En vegina er oss ekki vorkunn á að bæta svo, að þeir verði þolanlegir, og ekki mundi það heldur frágangssök, að stofna gistihús við Geysi. Það mundi auka allmjög aðsóknina þangað, og ferðamenn mundu þá dvelja lengur við hverina en ella. Þetta málefni er þess vert, að því sé gaumur gefinn, enda mun því verða hreyft rækilegar áður en langt um líður.
- Að því er snertir brúna á Brúará, getur verið umtalsmál, hvort ekki væri haganlegra að hafa hana neðar á ánni, og leggja veginn til Geysis austur Hellisheiði og Grímsnes. Á það verður nánar minnst í næsta blaði.
Ritstj.


Þjóðólfur, 27. jan. 1893, 45. árg., 4. tbl., bls. 14:
Árnesingar eru nú mikið að hugsa um vega- og brúargerð, eins og fram kemur í þessu fréttabréfi. Erlendur Zakaríasson vegagerðarmaður skoðaði brúarstæði á Brúará og taldi kostnaðinn við að brúa hana ekki nema um 1200 kr.

Árnessýslu (Biskupstungum) 10. janúar
"Um nýjar framfarir í héraði þessu er fátt að segja, og er það vorkunn nú fremur en að undanförnu, því að þetta ár kreppir að mönnum í fleiru en einu tilliti og dregur úr framkvæmdum.
¿¿..
Vegabætur og samgöngur eru nú einnig að verða meir og meir umhugsunarefni almennings; vegir hér innansveitar eru illir, og þó að allmiklu fé sé kostað til þeirra á hverju vori, sér þess litla staði; veldur því bæði kunnáttuleysi í vegagerð og svo hitt, að svo víða þarf viðgerðar, að hvergi verður á einum stað gert neitt verulegt. Til þess að bæta nokkuð úr hinu fyrra, hefur nú hreppsnefndin beðið landshöfðingja að veita 1-2 mönnum héðan úr sveit atvinnu við vegagerð (á þjóðvegum) næsta sumar, í því skyni, að þeir verði á eftir hæfari til að leggja vegi innanhrepps. Talsverður áhugi er vaknaður á því að koma brú á Brúará í stað ómyndarinnar, sem nú er; Erlendur Zakaríasson, vegagerðarmaður, skoðaði í haust brúarstæði á henni og taldi kostnað við að brúa hana eigi nema um 1.200 kr., ef hún væri brúuð rétt fyrir neðan brúna, sem nú er. En jafnframt sló hann því fram til íhugunar, hvort eigi mundi heppilegra að hugsa um dragferju á Brúará neðan til, og leggja svo leiðina út Grímsnes, brúa Sogið nálægt Alviðru og koma svo á þjóðveginn sunnan undir Ingólfsfjalli. Sú leið hefur þann mikla kost, að hún væri um leið beinasti vegur niður á Eyrarbakka, sem vonandi er að verði með tímanum aðalkaupstaður Sunnlendinga. Vér bíðum nú með forvitni og eftirvæntingu glöggrar skýrslu um dragferjuna á Héraðsvötnum, því að, ef það sýnist, að hægt sé að koma dragferju á Brúará neðan til, þá munu margir það heldur kjósa, en brú þar efra. Hvort sem væri mundu Tungnamenn verða að leggja fé til að nokkrum hluta, þó að á sýsluvegi sé, því að vegasjóður Árnesinga hefur í svo mörg horn að líta, að hann mundi eigi gjöra það einn.


Austri, 4. mars 1893, 3. árg., 6. tbl., forsíða:
Jón Jónsson alþingismaður ræðir hér vegamál og nýtt frumvarp séra Jens Pálssonar, sem gekk út á það að vegabótafé yrði að mestu varið til að gera akvegi á mestu flutningaleiðunum.

Smápistlar um landsmál
eftir Jón Jónsson alþm. á Sleðabrjót.
III.
Vegabótamálið.
Á síð. alþ. bar síra Jens Pálsson þm. Dalamanna fram frv. um strandferðir og vegi (Alþt. 1891 C. bls. 133). Um strandferðirnar hefir nú áður verið rætt nokkuð í Austra og því hleyp ég yfir þær. Það er aðeins síð. kafli frv. um vegina, sem ég vildi verja athygli á, því allir munu vera samdóma um það, að það sé eitt hið helsta lífsskilyrði vor Ísl. eins og allra annarra þjóða, að vegirnir batni og samgöngurnar léttist.
Eins og sést á þessu frv. sr. J. P. var aðalbreytingin á gildandi lögum, sem þar var farið fram á sú, að vegabótakostnaðinum yrði mest varið eftirleiðis til að gjöra akfæra vegi um þá staði, þar sem mest vörumagn þyrfti að flytja frá verslunarstöðum. Eins og kunnugt er hafa póstleiðirnar hingað til verið látnar sitja í fyrirrúmi, án nokkurs tillits til, hvort flutningsvegir lægju saman við þá eða ei. Af þessari tilhögun hefir það leitt, að alþýða manna hefir nær aldrei unnið með vakandi áhuga að því að bæta vegina, og slíkt er mjög eðlilegt, þegar vegabótafénu er allvíða varið til þess að sækja lífsnauðsynjar sínar, þá er eðlilegt þó þeim finnist þá oft að vegabæturnar ekki vera gjörðar beinlínis fyrir sig. Og meðan sú tilfinning vaknar ekki í sveitunum, hjá búendum, sveitarstjórnum, og sýslustjórnum, aðeins nauðsynlegt sé að bæta vegina og halda þeim við, eins og fjárhúsunum, og bæjarhúsunum, á meðan er ekki neinna verulegra framfara von í vegabótunum, því það er í þessu, eins og svo mörgu öðru, að hugsunarhátturinn þarf að breytast til þess að framfarirnar komist á.
Til þess að auka áhugann á vegabótunum er eflaust þessi breyting, sem farið er fram á í frv. sr. J. P. hin heppilegasta, því þegar bændur færu að finna það að þeim sjálfum væri verulegur léttir að því að unnið væri að vegabótum sem mest og best, þá mundi áhuginn hjá þeim aukast og koma fram í verkinu.
Þessu frv. sr. J. P. hefir hvarvetna verið tekið vel af þjóðinni, og það verður eflaust borið fram aftur á næsta alþ., það fær því nú ef til vill betri byr þar, því vonandi er, að efri deild þingsins verði ekki annað eins dauðadýki framfaramála þjóðarinnar á næsta alþ. eins og hún var á hinu síðastliðna alþ.
Með þessari stefnu, sem fylgt hefir verið í vegabótunum hingað til, hlýtur öllum að vera það ljóst, að verulegar framfarir eru ómögulegar, því til þess að gjöra alla aðalpóstvegi landsins að rennisléttum vegum þarf svo mikið fé, og svo langan tíma, að flesta mun sundla við, sem hafa fyrir augum sér heill þjóðarinnar í heild sinni. Væru brúaðar stórár, og gjört við verstu faratálma á póstleiðunum mundi vel mega við það sæma, en það er ei framfara von fyrir þjóðina, að kasta út stórfé til þess að gjöra rennisléttar brautir upp á fjöllum, "þar sem hrafnar og tófur eiga mest ferð um", eins og B. Sveinsson sagði einu sinni, en láta allt vera kviksyndi og hraungrýti á sveitavegunum, þar sem mestur hluti þjóðarinnar á ferð um. Að vísu hefir nú í seinni tíð verið varið talsvert meiru fé til aðalpóstveganna í byggðum, en því fé hefir mestu verið varið umhverfis Reykjavík. Vér sem búum á útkjálkum landsins megum skrölta um sömu grjótgöturnar og áður. Til þess að bæta vegina hjá oss, vantar oftast fé þegar um það er beðið.
Það er að mínu áliti og margra annarra, einn stórgalli á þessu frv. sr. Jens, og hann er sá, að þar var eigi gjört ráð fyrir neinni breyting á hreppavegavinnunni, eða neinum auknum fjártillögum til hreppaveganna, það átti að sitja við þetta gamla hálfa dagsverk til þeirra, sem ákveðið er í núgildandi lögum, og sem hver maður átti að mega vinna af sér, það liggur þó ljóst fyrir öllum sem gefa gætur að hreppavegabótunum eins og þær eru nú, að ef nokkur framför á að verða í þeim, þá verður bæði að leggja til þeirra meira fé, og vinna þær vegabætur á sama hátt og aðrar, þ. e. kaupa menn til að vinna þær fyrir fullkomin laun. Að týna saman þessi hálfu dagsverk hefir margt illt í för með sér. Margir húsbændur láta lélegasta manninn sem þeir hafa í vinnuna, bara það sleppi, þá er nóg. Vinnunni er með þessu lagi dreift til og frá um allan hreppinn, því hver vill fá að láta vinna sem næst sér, til þess að þurfa sem skemmst að senda manninn. Afleiðingarnar af þessu eru, að nær hvergi sjást samanhangandi vegagjörðir á hreppavegi, heldur allt einir stefnulausir illa gjörðir vegaspottar, sem unnið er að kunnáttulaust og eftirlitslaust, því fjöldi bænda lætur vinna að þessum vegabótum til þess að leysa sig undan gjaldinu, með því að vinna eitthvað að nafninu, en alls ekki með þeirri hugsun að koma sem mestu í verk af þarflegum og góðum vegabótum í sveitinni. Væru keyptir menn til þessara vegabóta og þeim sæmilega launað, mundu miklu fremur bjóða sig fram menn til að vinna þær ár eftir ár, sem gætu þá með tímanum öðlast bæði æfingu og þekkingu í vegagjörðum.
1. þ. m. Skagfirðinga, (Ól. Br.) bar upp þá breytingartill. við frv. sr. J. P. á síð. alþ. að borgaðar væru úr sveitarsjóði til hreppavegabóta 2 kr. fyrir hvern verkfæran mann í hreppnum. Það komu þegar fram í neðri deild alþ. háværar raddir gegn þessari tillögu og töldu slíkt illþolandi gjaldabyrði fyrir almenning. En slíkt virðist mér vera byggt á stórum misskilningi, því fyrst er það nú hrein og bein mótsögn að biðja alltaf, og það með réttum rökum, um meira fé, úr landssjóði til þeirra vega, sem hann á að kosta, en vilja ekki leggja neitt meira fé til þeirra vega, sem sveitasjóðirnir eiga að kosta, þar sem allir skynberandi menn hljóta þó að sjá að til þeirra vega þarf engu síður að kosta fé - þeir eru alls ekki í betra lagi en þeir vegir sem úr landssjóði eru kostaðir og það er engu minna framfaraspursmál að hreppavegirnir batni heldur en aðrir vegir.
Svo er líka þess að gæta þó lagt sé á gjaldendur nokkuð hærra gjald til þessara vegagjörða, þá geta þeir sjálfir ráðið hvernig því er varið, og það rennur aftur í þeirra eigin vasa, ef þeir hafa dug til að vinna að vegagjörðunum. Af þeim fjárframlögum sem þannig er varið til almenningsþarfa leiðir tvennt gott, það eykur atvinnu í sveitunum og með því er hægt að koma í verk nauðsynlegri framför. Ég hygg það sé engum efa bundið að það væri oft heppilegra fyrir sveitastjórnirnar að hafa til vegabótavinnu með sæmilegum launum handa snauðum mönnum sem lifa á sveitarstyrk, heldur en að leggja þeim alltaf úr sveitarsjóði, og láta þá oft vera iðjulitla haust og vor, eða vinna að illa borgaðri kaupstaðarvinnu.
Það væri vert fyrir kjósendur að athuga vel þessa nýju stefnu, sem kom fram í vegabótamálinu á síð. alþ., og það er vonandi að þeir sannfærist um að aðalatriðið í þeirri stefnu, að leggja mesta áherslu á að bæta flutningavegina, er miklu líklegra til þjóðheilla og framfara en sú stefna í vegagjörðum sem nú er fylgt, en gæta verður þess um leið og aukin eru fjárframlög til vegagjörða úr landssjóði að glæða ekki með lögunum þann hugsunarhátt hjá alþýðu, að rétt sé að koma sér sem mest undan gjöldum til sveitaveganna. Löggjöfin verður að miða til þess að leiða fram hina bestu krafta þjóðarinnar í þessu sem örðu, en forðast allt sem elur upp eigingirnina og smásálarskapinn.


Þjóðólfur, 24. mars 1893, 45. árg., 14. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur segir veginn um Eyrarbakka hafa orðið mjög útundan í vegabótum síðustu ára og sé það undarlegt í ljósi þess að hann er ekki síður fjölfarinn en vegurinn til Reykjavíkur.

Vegurinn um Eyrabakka.
Þó að samgöngu- og vegamálið hafi verið eitt hið mesta áhugamál þjóðarinnar nú í nokkur ár, og mikið hafi verið gert til að endurbæta gamla vegi og leggja nýja, þá hefur vegurinn um Eyrarbakka orðið mjög út undan í því efni, því þegar farinn er vegurinn frá Baugstöðum út á Eyrarbakka og jafnvel að Óseyrarnesi, getur manni komið til hugar, að maður sé fyrir 20 árum að ferðast um einhvern útkjálka landsins, en ekki um annan hinn fjölfarnasta veg á Suðurlandi. Á öllum þessum vegi hefur ekki verið kastað steini úr götu nú í mörg ár, og þó á vegi þessum séu allgóðir kaflar, þá er hann mestallur mjög vondur yfirferðar og má heita, að skepnur geti víðast ekki stigið svo fæti, að þær rekist ekki á lausagrjót, og þar af leiðandi fengið meiðsli á fótum, þegar þær eru að dragast með þungar klyfjar aftur og fram, enda má oft sjá hestafætur hróflaðar af grjótinu, að ég ekki tali um þann háska, sem mönnum er búinn, sem verður það á að ríða hart, sem æði oft kemur þó fyrir, sem náttúrlegt er, því vegur þessi lítur út fyrir að vera greiðfær yfir að líta. Verður því mönnum, sem ekki eru honum kunnugir oft á, að hleypa hestum sínum, og hef ég verið sjónarvottur að voðalegustu byltu, þar sem hestur datt um stein og maðurinn féll af baki og lenti á steini, og var öll ástæða til, þótt maður þessi hefði rotast, enda meiddist hann stórkostlega.
Þetta skeytingarleysi með viðhald á vegi þessum er næsta undarlegt, fyrst og fremst af því, að hann er, eins og ég hef áður tekið fram mjög fjölfarinn, jafnvel engu síður en vegurinn til Reykjavíkur, og svo vegna þess, að Eyrarbakki er mesta framfara og menningarbyggðarlag. Hér er heldur ekki að ræða um stóran kostnað, sem þyrfti til að endurbæta veginn, því ekki þarf að sprengja upp grjót eða leggja nýjan veg, heldur aðeins kasta úr gamla veginum lausagrjóti, sem sjórinn færir upp í hann í stórflóðum og sjávargangi. Ennfremur má geta þess, að í sýslunefnd Árnesinga ætla ég að hafi verið til þessa einn kaupmaðurinn á Eyrarbakka, og ætti engum að vera meira áhugamál en kaupmönnunum þar, að vegurinn að og frá kaupstaðnum geti verið góður. Vegur þessi hygg ég að vera muni sýsluvegur, og er því vonandi, að hin háttvirta sýslunefnd Árnessýslu láti ekki lengur dragast að gera umbætur á því, sem ég hef nú tekið fram að ábótavant sé. Um mál þetta hefur verið kvartað af sýslunefnd Rangárvallasýslu fyrir nokkrum árum, en því ekki verið sinnt af þeim, sem hlut eiga að máli.
Ég hygg, að enginn geti með sanni sagt, að hér sé kvartað um að þetta að óþörfu, því að ef ekki verður bráðlega að gert, má búast við að slys hljótist af, og ætti hið nýafstaðna sorglega atvik á Hellisheiðarveginum, að vera knýjandi hvöt til, að menn gættu sem best að því, að hafa vegi sem greiðasta og hættuminnsta, þar sem það er mögulegt.
Hala, í janúar 1893.
Þ. Guðmundsson.


Ísa-fold, 12. apríl 1893, 20. árg., 19. tbl., forsíða:
Hér er að finna nákvæma lýsingu á dragferjunni á Héraðsvötnum eftir höfuðsmiðinn, Einar B. Guðmundsson.

Dragferjur.
Þó að lýst væri stuttlega dragferjunni á Héraðsvötnunum vestari í vetur, mun hinni ýtarlegu lýsingu, er hér fer á eftir, eftir höfuðsmiðinn, hr. Einar B. Guðmundsson á Hraunum, engan veginn of aukið. Hún er svo nákvæm og skilmerkileg, að meðalgreindum mönnum og sæmilega högum er naumast ofætlun að gera dragferjur eftir henni hér um bil hvar sem er, og getur það komið í góðar þarfir víða þar, sem annaðhvort er óbrúandi eða svo kostnaðarsamt, að ókleyft verður í bráð eða lengd.
Þrátt fyrir mikinn áhuga á brúargerð hér á landi nú orðið og sæmilegt örlæti á fjárframlögum til þess af þingsins hálfu, verður þess æðilangt að bíða, að brýr fáist á þau vatnsföll hér á landi, er brýna nauðsyn ber til. En fyr er gilt en valið sé, og virðist engin frágangssök að bjargast við dragferjur eða svifferjur hingað og þangað til bráðabirgða, á þau vatnsföll, er fyrirsjáanlegt er, að ekki muni verða brúuð fyrst um sinn. Verði dragferjan enn nýtileg, er sá tími kemur, að brú fæst á ána, þarf eigi annað en færa hana þá á annað vatnsfall þar nærri, ef við verður komið, eða á annan stað á sömu ánni, og nota hana þannig áfram meðan endist. Dragferjusmíðikostnaðurinn er eigi nema lítið brot af því sem brú kostar, og þó að miklu minna sé gagn að dragferju en brú, þá er samt enn meiri munur á því, hvað dragferjan tekur fram einfaldri ferju. Ókostirnir á dragferjunni eru, að taka verður hana af ánni að haustinu, undir eins og nokkurt ísrek til muna kemur í ána, og verða þá hestarnir að synda eftir sem áður, og það einmitt þegar síst skyldi, að viðhald á þeim er fremur kostnaðarsamt, og að maður verður að fylgja dragferjunni, eins og algengri ferju. En kostirnir eru líka miklir: að þurfa ekki annað, hvort heldur verið er með fé eða hesta eða aðra gripi, en að reka það eða teyma út í ferjuna eins og í rétt og upp úr henni aftur, er að kemur að hinu landinu. Að vetrinum brúar og frostið flestar ár hér á landi vikum og mánuðum saman, en miklum lestaferðum og fjárflutningi að minnsta kosti má sneiða að meiru leyti hjá bæði í leysingum á vorin og eins eftir að ísrek hefst að haustinu. Mjög vænt kvað og Skagfirðingum þykja um þessa dragferju sína; en hún er nú raunar þar, sem alls eigi er hægt að brúa hvort sem er.
Þá kemur hér lýsingin á nefndri dragferju.
Dragferjan á vestri Héraðsvatnaósnum í Skagafirði er 12 ál. lengd að ofan og tæpar 6 ál. á breidd; stefni í báðum endum með nokkrum lotum. Botninn, 10 ál. á lengd og hér um bil 3½ á breidd um miðjuna, er "stokkbyggður" úr 1½ þuml. borðum og "kalfatrað" neðan í allar fellingar með stálbiki yfir (botninn náttúrlega marflatur). Ofan í botninum eru böndin úr 2 þuml. plönkum með fullri breidd. Utan á botninn er svo súðbyrt úr 1¼ þuml. borðum neðst og 1. þuml. borðum að ofan, 7 umför, en töluverð kringing eða áhlaup er á þeim öllum, af því þau eru undin frá báðum endum til að fá útlagið (skábyrðing) sem mest um miðjuna, svo að ferjan yrði skerstöðug; dýptin á sjálfum ferjuskrokknum, þegar lögð er þverslá yfir hann, er þannig ekki meira en nálægt 20 þuml. Böndin í hliðunum eru úr 3 þml. plönkum og ganga allstaðar niður í botnborðin við hlið botnplankanna. Ofan á byrðinginn kemur skjólborð. 3 borðbreiddir eru flettu, og ganga stytturnar innan í því niður í byrðinginn eins og á þilskipum. Skjólborð þetta stendur mikið til lóðrétt upp og eru í báðum hliðum um miðjuna dyr í gegn um það með vel sterkum stuðlum (fullkomin plankabreidd) til beggja hliða, er ná nokkuð upp fyrir skjólborðið, og eru í dyr þessar gerðir hlerar, tæpar 2 ál. á hæð, sem leika á þreföldum, mjög sterkum járnhjörum að neðan. Þegar hlerum þessum er hleypt niður, mynda þeir bryggju til að fara á upp í ferjuna og út úr henni við bæði löndin, en meðan yfrum er dregið, er þeim krókað upp að dyrastuðlunum. Nálægt endanum á hlerum þessum er lítið hjól í annarri röðinni, er trássa leikur í, svo léttara sé fyrir ferjumanninn, að draga hlerann upp og hleypa honum niður. Í framstafni ferjunnar er vinda og 1 sveif á afturenda hennar, sem snúið er til beggja hliða, eftir því, hvort farið er austur eða vestur yfir ósinn. Vinda þessi er upphækkandi til beggja enda, með 2 brögðum utan um sig af dráttarfærinu, og hlaupa brögðin jafnhraðan að miðjunni þegar snúið er, en dráttarfærið leikur í hjólum ofan á keipnum báðum megin við, eða réttara sagt milli tveggja hjóla hvoru megin, sem liggja lárétt á keipnum og snúa röðunum saman innan í hlýranum, svo þó ferjan dragist hálf-skakkt yfir - sem að öðru leyti horfir beint í strauminn þegar hún liggur kyrr - þá liggja þó brögðin beint frá vindunni út á keipinn. Á báðum löndum eru 3 ál. háir trébúkkar og í þá er dráttarfærið fest; aftur af þessum búkkum, sem þá að öðru leyti eru fylltir með grjóti, eru 2 stagir úr járnþráðakaðli, 5 faðma langir hvorum megin, er liggja á ská, svo þeir halda á móti átakinu af dráttarkaðlinum, hvort sem það kemur ofan frá eða neðan frá (það kemur nefnilega oft mikill innstraumur í ósinn), en endarnir á þessum vírstögum eru þannig festir í sandinum, að grafin eru niður þvertré, sem þeir standa í gegnum, og borið grjót á þau að ofan. Stagir þessir mega ekki vera úr hampkaðli, af því væta og þurrkur hefur svo mikil áhrif á, að gera hann slakan og stirðan. Dálítið fram í vötnin er lagt akkeri með hlekkjum og kaðli við; kaðlinum er haldið ofan á vatninu með duflum, og er sá kaðall ætíð fastur í ferjunni, þegar hún ekki er brúkuð, til að varna því, að hún fari út úr ósnum, ef dráttarfærið kynni að bila, og fleira er gert til tryggingar, t.d. að ræði eru á ferjunni og árar til taks að bjarga sér að landi með, ef dráttarfærið kynni að bila, meðan verið er að ferja. - Dráttarfærið er 2 þuml. kaðall, og var áformið upphaflega að það yrði tvöfalt, þannig, að endarnir væru festir í stefnið á ferjunni frá báðum hliðum og það léki svo í blökkum á búkkunum, en straumþunginn lagðist þá svo mikið í kaðalinn, að erfitt var að snúa sig yfir með vindunni, enda þykir það nú helsti ókosturinn, að nokkuð er þungt að snúa sig yfir með vindunni, þó að dráttarkaðallinn sé að eins einfaldur, og er því búið að fá spilhjól með "drífara", er verður sett í ferjuna á næsta vori. - Í afturendanum er dálítið upphækkað innra fóðrið og þar eru bekkir settir til að sitja á, en allur miðpartur ferjunnar er ætlaður fyrir hestana, og voru þeir hafðir þar 8 í einu, þegar mikið var að flytja, enda var það sögn ferjumannanna, að umferðin hefði verið þar fullum helmingi meiri yfir ósinn næstliðið sumar en nokkurn tíma hefði áður verið. Allt járn í ferjunni og umbúnaðinum er galvaníserað.
Hraunum 23. febr. 1893.
E. B. Guðmundsson.


Austri, 27. apríl 1893, 3. árg., 11. tbl., bls. 42:
Í fréttabréfi úr Austur-Skaftafellssýslu segir m.a. að samgöngumálið hljóti að verða aðalmál næsta þings.

Austur-Skaftafellssýsla
(Lóni) 8. apríl 1893.
¿¿¿
Samgöngumálið hlýtur að vera aðalmál næsta þings, og er líklegt, að stefna síra Jens Pálssonar verði ofaná í aðalatriðum, einkum ætti að leggja áhersluna á þá grein, að "sjórinn er aðalflutningabraut landsins", og það ætti að sitja fyrir öllu öðru, að leitast við að hrinda samgöngunum á sjó í betra horf, en vagnvegir frá kaupstöðunum upp til sveitanna verða víst fyrst um sinn að mæta afgangi, sökum hins afarmikla kostnaðar, er þeim hlýtur að vera samfara. Póstvegi þá, er fáir nota til flutninga, og aðra vegi, sem líkt er háttað, mætti víst nægja að ryðja, svo að þeir yrðu færir fyrir hesta. Eigi sýnist óyggjandi, að það væri allstaðar æskilegt, að lögleiða 2 kr. gjald á hvern verkfæran mann í stað hreppavegavinnu, þótt það gæti sumsstaðar átt vel við, og kynni að mega gefa sýslunefndum vald til að breyta hreppavegavinnunni í peningagjald, í þeim sýslum, þar sem slíkt þætti hentugra.
¿¿.


Austri, 20. maí 1893, 3. árg., 13. tbl., bls. 50:
Hér er sagt frá sýslunefndarfundi Suður-Múlasýslu en þar var fjallað nokkuð um samgöngumál.

Ágrip
af sýslunefndarfundi Suðurmúlasýslu 11. og 12. apríl 1893.
Fundurinn var haldinn að Búðareyri í Reyðarfirði. Allir sýslunefndarmenn á fundi nema úr Geithella-, Beruness-, Mjóafjarðar og Norðfjarðarhreppum.
12. Að sýsluvegum skyldi vinna þetta ár: á Hólmahálsi (300 kr.), í Eyðaþinghá (100), á Reyndalsheiði (150), á Þórudal (50) á Áreyjadal (60), á Hallormstaðaásum (100) og á Hallormstaðahálsi (100).
13. Sýslunefndin stingur upp á, að til póstvega sé varið á Austurvöllum 450 kr., á Berufjarðarskaði 100 kr., á Breiðdalsheiði 100 kr., til Slenjubrúar 200 kr., til Haugatorfubrúar 30 kr. og til Eyvindarárbrúar 30 kr.
14. Sýslunefndin ákveður ferjustaði á Egilsstöðum, Hvammi og Vallanesi; skuli hlutaðeigandi bændur skyldir til að halda þessar lögferjur. Samþykkt voru og ferjulög fyrir þessa 3 staði, er þurfa að staðfestast af amtsráði og verða auglýst í "Austra".


Ísa-fold, 17. júní 1893, 20. árg., 38. tbl., viðaukablað, forsíða:
Á sýslunefndarfundi í Gullbringu- og Kjósarsýslu var m.a. ákveðið að fá vegfróðan mann til að skoða vegastæði milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Sýslufundargjörðir í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Skýrsla um fund nefndarinnar 1. maí 1893.
Ár 1893, hinn 26. maí, átti sýslunefndin í Kjósar- og Gullbringusýslu fund í þinghúsinu í Hafnarfirði. Fundinum stýrði oddviti nefndarinnar, sýslumaður Franz Siemsen. Allir nefndarmenn voru á fundi nema sýslunefndarmennirnir fyrir Mosfells, Vatnsleysu-strandar, Njarðvíkur og Rosmhvalaness hreppa; af þeim höfðu sýslunefndarmennirnir fyrir Njarðvíkur og Vatnsleysustrandarhreppa engin forföll tilkynnt. Þessi mál voru tekin til meðferðar.
8. Var rætt um gufubátaferðir á Faxaflóa og ákvað nefndin að ganga að boði kaupmanns W. Fischers og taka tiltölulegan þátt í kostnaðinum, en lýsti jafnframt óánægju yfir ferðaáætlun þeirri, sem lá fyrir, þar sem báturinn á millistöðvunum eigi kemur við á leiðinni til baka, svo hlutaðeigandi pláss fyrir þá sök geta eigi haft full not af ferðinni; krafðist nefndin, að þetta væri þegar lagað. Ennfremur áleit sýslunefndin, að tími sá, sem bátnum er ætlaður á ferðum, sérstaklega syðri hluta Gullbringusýslu, sé allt of naumur. - Að því er snertir kostnað þann, sem að tiltölu kemur á sýslufélagið þ. á., ákvað sýslunefndin, að greiða skyldi helminginn af sýslusjóðsgjaldi, en hinn helminginn af sýsluvegagjaldi upp á væntanlegt samþykki amtsráðsins, og fól nefndin oddvita, að útvega samþykkið.
9. Var rætt um vegagjörðir í sýslunni á yfirstandandi sumri og var ákveðið að verja til sýsluvega 1.100 kr. þannig:
Í Kjósarhr. til að gjöra við veginn norðan í Svínaskarði ¿¿¿¿¿¿. 50. kr.
Seltj.n.hr. til að gjöra við veginn frá Kópavogslæk ofan í Fossvog ¿¿ 75 kr.
Garðahr.:
a. til aðgjörðar á veginum frá Hafnarfjarðahrauni að Kópavogslæk, bera
ofan í brýr og ryðja ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 150 kr.
b. til vegarins yfir hraunið fram á Álftanes ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 200 kr.
c. til vegarins frá Hafnarf. suður að hreppamótum ¿¿¿¿¿¿¿¿. 100 kr.
350 kr.
Njarðvíkurhr. til framhalds vegi frá Ytra-Hverfi í Keflavík ¿¿¿¿¿ 100 kr.
Rosmhvalanesshr. til að laga veginn frá Keflavík út í Garð ¿¿¿¿¿ 100 kr.
Hafnarhr. til að laga veginn frá Ásabotnum ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 75 kr.
Grindavíkurhr. til að bæta veginn frá Drápshlíð til sýslumarka ¿¿¿.. 350 kr.
1.100 kr.
10. Sýslunefndin fól oddvita að útvega á næsta hausti vegfróðan mann til þess að skoða vegstæði milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og gera áætlun um, hve mikið sú vegagjörð mundi kosta. Var jafnframt ákveðið, að skora á bæjarstjórn Reykjavíkur að skoða og ákveða vegstæði til Hafnarfjarðar í Reykjavíkurlandi.


Þjóðólfur, 17. júní 1893, 45. árg., 28. tbl., forsíða:
Þórleifur Jónsson er ósammála þeim skoðunum sem komið hafa fram í Austra um póstsamgöngur í norðurhluta Austfirðingafjórðungs.

Um póstgöngur í Norður-Þingeyjarsýslu.
(Svar).
Viljið þér, herra ritstjóri, gera svo vel, að taka eftirfarandi grein í blað yðar "Þjóðólf". Hún hefur legið 6 mánuði í salti hjá ritstjóra "Austra" án þess að birtast á prenti, eins og til var ætlast í haust, og flý ég því nú á yðar náðir með hana.
Í tveim blöðum "Austra" hins yngra (I. 13. bls. 49-50 og II, 19. bls. 71-72) eru mjög langorðar greinir tvær um póstgöngur o. s. frv. í norðurhluta hins nýja Austfirðinga-fjórðungs. Fyrri greinin hefur að fyrirsögn: "Bréf af Sléttu", og hin síðari: "Um vegi og samgöngur". Báðar greinir þessar gefa ókunnugum mönnum mjög skakkar skoðanir í flestu á málefnum þeim, sem um er rætt, og mega því ekki ómótmæltar standa, enda því skaðlegri, sem í almæli er, að amtsráðsmaður vor Norður-Þingeyinga sé höfundur beggja greinanna. Höf. þessi, hver svo sem hann er, má ekki með nokkru móti komast upp með það, að bera út í almenning í opinberu blaði það, sem er jafnvillandi frá sannleikanum, eins og þessar tvær greinir eru að mörgu leyti, og af því að enginn hefur orðið til að andmæla, þykir mér ekki þegjandi lengur.
1. Það er þá fyrst II. kafli, "Bréfs af Sléttu", er ég vil snúa mér að. Ég vona, að allir góðir Íslendingar séu ósamdóma höf. að þessum orðum hans, er hann byrjar II. kafla með: "Oss Íslendingum ríður meira á, að fá góðar samgöngur en nýja stjórnarskrá", segir hann, góði maður, gætandi ekki að því, að allar sannar framfarir koma eins og af sjálfu sér í þeim löndum, þar sem sannarlegt stjórnarfrelsi hefur getað náð fótfestu, eins samgöngur sem annað. Verkin sýna merkin hjá öllum mestu framfaraþjóðunum, og raunin er hér sem ætíð ólygnust.
Höf. segir, að "ráðstöfun neðri deildar alþingis (1891), um að láta aðalpóstinn milli Akureyrar og Seyðisfjarðar ganga eftir sveitum, án þess að ganga um Núpasveit og Sléttu og 1 til 2 bæi í utanverðum Þistilfirði, sé í ýmsum greinum mjög óheppileg". Þetta var blaðran, sem sprakk, og þar um vefur höf. ruglvef sinn. Við það, að aðalpósturinn fer beint yfir Axarfjarðarheiði, gæti að vísu verslunarstjórinn á Raufarhöfn ekki svarað einstöku bréfum sínum aftur um hæl með sama pósti, eins og hann gerir nú, með því að fá póstana þvert á móti því, sem þeir mega og er skipað fyrir, að bíða eftir bréfum hans. Það er aðgætandi, að þetta getur enginn brallað, nema verslunarstjórinn á Raufarhöfn, af því að hann er allra manna pennafærastur. - Væri þar á móti aukapóstur, eins og bæði Alþingi og sýslunefnd Norður-Þingeyinga og amtsráðsmennirnir séra Einar í Kirkjubæ og Sigurður á Hafursá vilja, frá Skinnastað út eftir, ætti hann að ganga út Núpasveit og út að Grjótnesi og eftir Sléttunni á Raufarhöfn. Þessa væri fyllilega þörf, því að Sléttungar eru með þessu lagi, sem nú er, mjög útúrskotnir, en bættist alveg úr því, ef aukapósturinn væri látinn ganga á þann hátt, er nú var sagt.
Engin hæfa er í því, sem höf. "Bréfs af Sléttu" segir viðvíkjandi vegalengd o. s. frv. á Hólsstíg og Axarfjarðarheiði. Hólsstígur er oft bráðófær á vetrardag og ekki fjölfarinn hvorki vetur, vor né sumar, síðan uppsigling fékkst til Kópaskers; á honum er slæmur vegur, og mjög villugjarn á vetrum. Hann er jafnlangur (Úr Núpasveit út á Raufarhöfn) Axarfjarðarheiði eftir mælingu lieutenants Borns frá 1817. Axarfjarðarheiði er með betri heiðum hér í Þingeyjarsýslu bæði að því, hve góður vegur er á henni frá náttúrunnar hendi, og að því, hve oft góð færi eru á henni á vetrum, enda nú þegar fyrir nokkru vörðuð góðum vörðum bæja á milli. Hún má heita sem oftast vel fær allan veturinn, og það þó Hólsstígur sé bráð-ófær. Það getur að minnsta kosti á vetrardag munað um eina viku, sem póstur yrði lengur að fara ytri veginn, heldur en Axarfjarðarheiðina. Til þess að ekki sé hægt að fara yfir hana á dag í skammdegi, sé ég ekki neina ástæðu næstum í hverju veðri sem væri, enda veit ég ekki betur, en að enn í dag standi nýlegur kofi á miðri heiðinni (í Hraunshaga, sem er niðurlagt býli fyrir 4 árum), til að setjast að í, ef endilega þarf; en í flestum vetrum mun þó slíkt ekki koma fyrir að þurfi.
Sjálfsagt er, að láta ekki aðalpóstinn fara nema í lengsta lagi út að Þórshöfn á Langanesi, og þaðan yfir Brekknaheiði, sem, eins og höf. "Bréfs af Sléttu" segir, er fjölförnust, enda miklu betri vegur en hinn sjaldfarni Sauðanesháls, sem er ótræði, - eða þá um Hallgilsstaði yfir Helkunduheiði.
Það, sem þá er eftir að minnast á í "Bréfi af Sléttu" (endirinn), er tómt bull, og sé ég því enga ástæðu til að eyða orðum um það og elta ólar við slíkar lokleysur, sem öllum skynberandi mönnum hljóta að liggja í augum uppi.
2. Sama og um endann á "Bréfi af Sléttu" má að mestu leyti segja um flest í "Nokkur orð um vegi og samgöngur (í Austra II. 19.). Hálfur þriðji dálkur (fyrri helmingur) er eintómt lokleysuhjal. Á allt er litið á landi voru gegnum sótsvört gleraugu, og sjá allir heilvita menn, hvílík fjarstæða slíkt er, sem þar er borið á borð. Það er að vísu vitanlegt, að oss Íslendingum er eins og öðrum mönnum ábótavant, enda "fáir smiðir í fyrsta sinn" meðan viðvaningar eru.
Það er eins og annað hjá þessum höf. skrýtin kenning, að ekki neitt gagn sé að póstgöngum nema það, að góður vegur verði lagður. Fyrir hví er þá verið að hafa nokkurn póst, ef þetta væri satt? En það er sem betur fer ósatt hjá höf., eins og ég vona að allir viðurkenni, og þarf ekki annars hraknings, enda er það fífldirfska og öfgar, að gera sýslunefnd Norður-Þingeyinga, sem hefur ábyrgð gerða sinna, slíkar órýmilegar getsakir, sem þessi höf. gerir.
Ég nenni nú ekki í þetta sinn, að vera að setja ofan í við höf. þennan meir en orðið er. Aðeins gleður það mig, að Norður-Mýlingar eru með oss Norður-Þingeyingum yfir höfuð í því, að haga póstgöngunum eins og neðri deild alþingis samþykkti 1891 og sýslunefnd Norður-Þingeyinga hefur aftur og aftur farið fram á og mun enn halda fram, þrátt fyrir mótþróa amtmanns vors og amtsráðsmanns. Það voru einmitt Norður-Mýlingar, er vér Norður-Þingeyingar að upphafi vorum hræddir um, að mundu verða á móti þessu, einkum Seyðfirðingar, af því að þeir fá líklega ofurlítið seinna bréf af Akureyri, ef pósturinn er látinn ganga eftir sveitum, í stað þess sem nú er yfir öræfi.
Mér er óhætt að segja, að vér Norður-Þingeyingar erum þeim, og sérstaklega amtsráðsmönnum þeirra séra Einari og Sigurði að Hafursá, mjög þakklátir fyrir það, að þeir hafa tekið eins og góðir drengir undir þetta áhuga- og velferðarmál vort, er oss finnst vera, og ekki látið villa sig af ranghermi misjafnrar raddar, er, sem betur fer, mun ein uppi standa í öllum Austfirðingafjórðungi.
Skinnastað, 21. sept. 1892.
Þórleifr Jónsson.


Ísa-fold, 21. júní 1893, 20. árg., 39. tbl., bls. 155:
Verið er að leggja nýjan veg upp á Mosfellsheiði og vinna að þessu 34-35 verkamenn undir stjórn Erlendar Zakaríassonar.

Vegagerð.
Fjórðungur mílu er fullger af hinum nýja vegi upp á Mosfellsheiði, út úr Hellisheiðarveginum hérna megin við Hólmsárbrúna, skammt fyrir ofan Hólm. Vegarstæðið er ágætt og greiðunnið það sem af er, nærri því upp á móts við Miðdal; en bráðum taka við hjallar, upp á heiðarbrúnina; þegar þagnað kemur, er aftur mikið greiðfært. Að vegagerð þessari vinna nú 34-35 verkamenn, undir forustu Erlendar Zakaríassonar. Það hefir viðrað illa fyrir þá til þessa: stórrigningar og rosar, en allt af hafa þeir samt haldið áfram.
Að leggja niður Reynisvatns- og Seljadalsveginn upp á Mosfellsheiði og nota í þess stað austurveginn upp fyrir Hólm sparar landssjóði á að giska 20-30.000 kr. (sbr. Ísafold 21. jan. 1891) að upphafi, en miklu meira, er viðhaldið er athugað, sem hefði orðið margfalt kostnaðarsamara á gömlu vegarstefnunni, vegna árennslis og vatnagangs. - Vitanlega hefði sparnaðurinn orðið helmingi meiri og fram yfir það, ef það snjallræði hefði verið tekið í upphafi, að hafa sameiginlegan veg til Þingvalla og Ölfuss frá Rvík upp fyrir Lyklafell og sneiða þar með alveg hjá Svínahrauni meðal annars.


Ísa-fold, 21. júní 1893, 20. árg., 39. tbl., bls. 155:
Fyrsti íslenski verkfræðingurinn, Sigurður Thoroddsen, er kominn til landsins og hefur verið ráðinn af landshöfðingja m.a. til að rannsaka og afmarka vegastæði á Hellisheiði.

Íslenskur verkfræðingur.
Hinn fyrsti lærður verkfræðingur íslenskur, cand. polytechn. Sigurður Thoroddsen, er hingað kominn alfarinn með síðasta póstskipi, hefir dvalið árlangt í Noregi, og fengist þar að mun við vegagerð og brúa, og kynnt sér þar ýms mannvirki í sinni vísindagrein. Hingað er hann ráðinn af landshöfðingja samkvæmt fjárveiting síðasta alþingis. Hið fyrsta verk hans hér mun eiga að verða að rannsaka og afmarka vegarstæði á Hellisheiði, því hinu illa hafti, er enn ólagður yfir vagnvegur af leiðinni héðan austur að Ölfusárbrú; hún er meira að segja vegleysa orðin, þrátt fyrir kostnaðarsama vegabót(?) þar fyrir eigi mörgum árum, eftir Eirík í Grjóta og þá félaga.
Líklegt væri, að Alþingi léti nú verða af því að gera vegfræðingsstöðuna hér að föstu embætti, í stað þess að láta sér duga að fá mann í bili við og við, sinn í hvert skipti, svo að verk þeirra verða öll í molum, og samkvæmnin þá eftir því, að hætt er við, eins og eðlilegt er.


Ísa-fold, 24. júní 1893, 20. árg., 40. tbl., bls. 158:
Meðal nýmæla í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar er talsverð hækkun á vegabótafé og eru 3.000 kr. ári ætlaðar Sigurði Thoroddsen verkfræðingi.

Fjárlaganýmæli.
Ætlað er á 1.140.000 króna tekjur til handa landssjóði á fjárlagatímabilinu 1894 - 1895, og að 44.000 kr. verði afgangs að því loknu.
Meðal nýmæla í frumvarpi stjórnarinnar er helst nefnandi talsverð hækkun á vegabótafénu, upp í 68.000 kr. alls hvort árið. Þar af eru 3.000 ætluð verkfræðing (Sig. Thor.) 50.000 til vegabóta á aðalpóstleiðum og 15.000 til fjallvega. Helmingnum af 50.000 hvort árið á að verja til Hellisheiðarvegarins, sem er rúml. 2½ míla og áætlað að kosta muni framundir 5 kr. faðmurinn eða alls um 50.000 kr., þannig gerður, að nota megi hann sem akveg. Hinum helmingnum af aðalpóstleiðafénu hugsar stjórnin sér að verja til að leggja veg yfir Borgarfjörð að Kláffossbrúnni beggja vegna; ennfremur til að ljúka við veginn yfir Húnavatnssýslu til Blönduóss, er unnið hefir verið að 2 sumur undanfarin, og loks um norðurhluta Suður-Múlasýslu frá Reyðarfirði upp að Lagarfljóti.
Af 15.000 til fjallvega hvort árið er ráðgert að 12.000 fari til þess að ljúka við akveg yfir Mosfellsheiði til Þingvalla. "Eru það einkum skemmtiferðir útlendra ferðamanna, sem hafðar eru í huga, þegar um þessa vegagerð er að ræða; hvar sem litið er, fara þess konar skemmtiferðir í vöxt, og mundi mega gjöra ráð fyrir, að aðsókn ferðamanna til Íslands yrði meiri, ef gjört yrði meira til þess, að ferðalagið yrði þeim þægilegast, en af því mundi í aðra hönd leiða ekki lítinn hagnað fyrir landið, eins og reynsla annarra landa sýnir". Því sem þá er eftir af fjallavegafénu er helst hugsað til að verja til vegabóta á Kaldadal og Grímstungna heiði.
¿¿¿

Ísafold, 24. júní 1893, 20. árg., 40. tbl., bls. 158:
Þjórsárbúar æskja þess að vegur verði lagður yfir Flóann milli brúnna, jafnvel á undan brúarsmíðinu, til léttis og sparnaðar við aðflutning á brúarefninu.

Þingmálafundir.
Árnesingar. Fundur að Hraungerði 21. þ.m.; 23 á fundi; fundarstj. alþm. Þorl. Guðm.; skrif. síra V. Briem.
¿
Þjórsárbúar æskt sem fyrst og með bestum kjörum fyrir héraðið, og að vegur yrði lagður yfir Flóann milli brúnna jafnvel á undan brúarsmíðinu, til léttis og sparnaðar við aðflutning á brúarefninu. Landssjóður skyldi beðinn um 2/3 af kostnaðinum til að brúa Sogið. Ennfr. æskilegt, að Mosfellsheiðarvegur yrði lengdur austur að Geysi, og að landssjóður keypti Strokk og Geysi og reisti þar gistiskála.


Ísafold, 24. júní 1893, 20. árg., 40. tbl., bls. 159:
Ripperda verkfræðingur, sem rannsakaði brúarstæði á Þjórsá sumarið 1891, leggur til að byggð verði fastabrú.

Þjórsárbrúin.
Ripperda verkfræðingur, sem rannsakaði brúarstæði á Þjórsá sumarið 1891, eftir undirlagi landshöfðingja, ræður eindregið til, að hafa þar fastabrú (en ekki hengibrú, eins og á Ölfusá), nálægt bænum Þjótanda. Eftir lægsta tilboði kostar brúin sjálf úr járni 36.000 kr.; brúarstöplarnir (án steinlíms) nær 13.000 kr.; steinlím flutt að brúarstæðinu, 4.000 kr. (200 tunnur); flutningur á brúnni til Eyrarbakka rúm 2.000; timburhús og lausabrú til notkunar við brúargerðina 3.000; flutningur á því frá Khöfn til Eyrarbakka 1.600; fyrir að leggja brúargólfið 5; flutningur á öllu járn- og viðarefni, timburhúsi og flotabrú frá Eyrarbakka til brúarstæðisins 5.710 kr.; umsjón og óviss útgjöld 5.000. Þetta verða samtals um 71.000 kr. Þar við er í fjárveitingunni bætt 4.000 kr. fyrir ófyrirséðum erfiðleikum, verðhækkun á efni o. fl.


Ísafold, 1. júlí 1893, 20. árg., 42. tbl., forsíða:
Talið er að samgöngumálið muni hafa mikinn byr á þingi.

Þingið.
Það er jafnan illt í þingbyrjun að spá fyrir því, hvernig því muni reiða af og hvað það muni helst afreka; en aldrei er það örðugra en þegar þingið er að miklu leyti skipað nýjum mönnum, óreyndum við svo mikils háttar afskipti af landsins gagni og nauðsynjum. Hér eru eigi til fastir þingflokkar, er menn skipi sér í þegar við kosningar til þingsins, með ákveðinni stefnu og ákveðnu ætlunarverki, svo sem algengt er meðal þroskaðri þjóða. Yfirlýsingar og ályktanir þingmálafunda er og nauðalítið að marka yfirleitt, með því að þeir eru svo margir sóttir með hangandi hendi og mikilli deyfð. Það er helst eitthvað á því að byggja, hafi þingmaðurinn eða þingmennirnir sjálfir látið uppi ákveðnar skoðanir á þingmálafundi og fundarmenn aðhyllist þær. En það er hvergi nærri ætíð því að heilsa.
¿¿..
Að öðrum málum mun samgöngumálið hafa mestan byr á þessu þingi. Þjórsárbrúin verður sjálfsagt lögleidd, og vegabótafé að líkindum aukið að mun. Gufubátastyrkur sömuleiðis heldur aukinn en hitt, og strandferðir færðar aftur í sama horf og á undan þessu fjárhagstímabili, nokkuð umbætt þó.


Ísafold, 15. júlí 1893, 20. árg., 46. tbl., fylgiblað:
Á sýslufundi Árnessýslu var m.a. fjallað um samgöngumál.

Sýslufundargjörðir í Árnessýslu.
Ágrip af sýslufundargjörðum í Árnessýslu
á aðalfundi 25.-27. apríl 1893.
Á fundinum mættu auk oddvita sýslunefndarmenn úr öllum hreppum sýslunnar. Þessi mál veru tekin til meðferðar:
7. Tilkynnt samþykki amtsráðsins til þess að vegurinn frá Þorlákshöfn út í Selvog verði sýsluvegur.
21. Bornar saman skýrslur hreppstjóra og presta um tölu verkfærra manna í hverjum hrepp. Eftir þessum skýrslum og upplýsingum kunnugra nefndarmanna ákvað nefndin tölu verkfærra manna í hverjum hreppi þannig:
Í Selvogshrepp ¿¿¿¿ 30 verkfærir
- Ölfushrepp ¿¿¿¿¿ 143 verkfærir
- Grafningshrepp ¿¿¿. 25 verkfærir
- Þingvallahrepp ¿¿¿.. 35 verkfærir
- Grímsneshrepp ¿¿¿.. 154½ verkfærir
- Biskupstungnahrepp ¿. 132 verkfærir
- Hrunamannahrepp ¿¿. 106 verkfærir
- Gnúpverjahrepp ¿¿¿. 67 verkfærir
- Skeiðahrepp ¿¿¿¿¿ 64 verkfærir
- Villingaholtshrepp ¿¿.. 81½ verkfærir
- Gaulverjabæjarhrepp ¿.. 91 verkfærir
- Hraungerðishrepp ¿¿... 72 verkfærir
- Sandvíkurhrepp ¿¿¿.. 73 verkfærir
- Sokkseyrarhrepp ¿¿¿ 328½ verkfærir
Alls 1.402½ verkfærir.
Þá verða dagsverkin 701¼, hvert á 2 kr. 50 a. Þá verður vegagjald sýslunnar þ. á. 1.753 kr. 13 a.
27. Lögð fram skýrsla Erlendar Zakaríassonar um vegaskoðun hans í sýslunni, samkvæmt tillögum síðasta sýslunefndarfundar. Eftir nokkrar umræður um vegmál sýslunnar í heild sinni varð það niðurstaðan, að kjósa nefnd til að íhuga málið og koma fram með ákveðnar tillögur um það fyrir næsta sýslunefndarfund. Jafnframt var oddvita falið að senda skýrslu Erlendar í hverja sveit sýslunnar, til að fá álit hreppsbúa í öllum hreppum. Þetta álit hreppsbúa skyldu allar hreppsnefndir hafa sent til sýslumanns fyrir næsta nýjár, en hann svo afhenda það nefnd þeirri, er átti að undirbúa málið. Í nefndina voru kosnir nefndarmaður Grímsnesshrepps, nefndarmaður Hrunamannahrepps og Brynjólfur Jónsson frá Minnanúpi.
28. Frá Grímsneshrepp kom bæn til nefndarinnar um að fá styrk til að brúa Sogið, og jafnframt um meðmæli nefndarinnar til alþingis, um að leggja fram aðalkostnaðinn við brúargjörðina. Nefndin vildi lofa að leggja fram 1/6 af kostnaðinum, ef alþingi legði fram 2/3, en hlutaðeigandi sveitir, Grímsnes og Biskupstungur, 1/6. Hin umbeðnu meðmæli veitti nefndin fúslega.
29. Oddvita var falið, að fara þess á leit, að reyna að koma fyrir manni hjá Erlendi Zakaríassyni til að læra vegagjörð, í því skyni að geta staðið fyrir vegagjörðum innansýslu og lofaði, að sjá slíkum manni fyrir vinnu eftirleiðis, ef hann reyndist fær til þessa starfa. Oddvita falið að ráða manninn. Bónarbréf um það skyldu komin til oddvita fyrir miðjan maí.
30. Krafa Jóns Árnasonar í Alviðru um 3 kr. endurgjald fyrir tilhjálp við bátfærslu á Soginu upp að hinu fyrirhugaða brúarstæði færð niður um helming.
31. Eftir ósk oddvita í Ölfushrepp leyft að nema úr sveitarreikningi þess hrepps gamlar eftirstöðvar af kostnaði við vegabót á sýsluvegi, að upphæð 24 kr. 81 e.
32. Samþykkt að greiða 22 kr. 5 a. fyrir bráðabirgða-aðgerð á brúnni yfir Baugstaðaá.
33. Samþykkt svolátandi áætlun um tekjur og gjöld sýsluvegasjóðsins 1893:
Tekjur:
1. Eftirstöðvar frá f. á. ¿¿¿¿¿¿¿¿.¿¿¿ kr. 182,73
2. Sýsluvegagjaldið 1893 ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ 1.753,13
3. Tveggja ára vextir af skuld Jóns Magnússonar .. 36,00
Samtals kr. 1.971,86


Þjóðólfur, 19. júlí 1893, 45. árg., 34. tbl., bls. 184:
Á Alþingi er lagt fram frumvarp um brúartoll á Ölfusárbrú.

Alþingi.
IV.
Brúartollar. Jón Þórarinsson og þm. Skaftfellinga bera fram frumvarp um brúartoll á Ölfusá og Þjórsá minnst 20 au. fyrir lausríðandi mann, 10 au. fyrir klyfjahest, gangandi mann, lausan hest og nautgrip en 5 au. fyrir hverja sauðkind. Tollheimtan af Ölfusár-brúnni á að byrja 1. jan. 1894 og af hinni jafnskjótt sem hún er fullger. Aftur á móti á landssjóður að gefa upp 20.000 kr. lán sýslnanna og jafnaðarsjóðs til Ölfusárbrúarinnar.


Ísafold, 26. júlí 1893, 20. árg., 49. tbl., bls. 194:
Á Alþingi eru menn ekki sammála um brúartolla.

Alþingi.
Lög frá Alþingi. Lokið við frá því síðast:
¿¿¿..
Þjórsárbrúin. Frv. um hana búið í neðri deild; samþ. óbreytt (75.000 kr.)
¿
Brúartollar. Nefndin í því máli klofin. Meiri hlutinn, þingmenn Rangæinga og 1. þm. Árnesinga, vilja engan brúartoll hafa, en láta sýslusjóðina (Árness og Rangárvalla) kosta gæslu Ölfusárbrúarinnar, en landssjóð kosta viðhaldið og gefa þar að auki upp helming lánsins til brúarinnar. Þjórsárbrúna vilja þeir ekki láta hugsa neitt um fyr en hún er komin á.
Minni hlutinn, þeir Guðl. Guðmundsson og Jón Þórarinsson, halda fast við brúartoll á báðum brúnum, en hafa fært hann niður nokkuð: 15 aur. fyrir lausríðandi mann, 10 a. fyrir klyfjahest, gangandi mann, lausan hest og nautgrip, og 3 aura fyrir sauðkind hverja.


Ísafold, 26. júlí 1893, 20. árg., 49. tbl., bls. 194:
Brúin yfir Hvítá í Borgarfirði hjá Kláffossi er nú tilbúin og er vel látið af henni.

Kláffossbrúin.
Brúin yfir Hvítá í Borgarfirði hjá Kláffossi var fullger laugardag 22. þ.m. Er vel af látið bæði brúnni sjálfri og stöplunum undir henni. Er nú tekið til að leggja veg að henni yfir mýrina fyrir norðan ána; það er skilyrðið fyrir, að brúin verði almennilega notuð.


Þjóðólfur, 4. ágúst 1893, 45. árg., 37. tbl., forsíða:
Í frétt frá Alþingi segir m.a. að nefnd um brúartolla hafi ekki geta komið sér saman um málið.

Alþingi.
VII.
Brúartollur. Nefnd sú, er skipuð var til að íhuga frumv. um tollgreiðslu af brúnum yfir Ölfusá og Þjórsá, hefur ekki komið saman. Minni hlutinn (Guðl. Guðm. og Jón Þórarinsson) heldur tollinum eindregið fram, en vill hafa hann nokkru lægri, en upphaflega var farið fram á. Meiri hlutinn (þingmenn Rangvellinga og 1. þm. Árnesinga) vill engan toll hafa, og hefur komið fram með nýtt frumvarp þess efnis, að landshöfðingi hafi yfirumsjón með brúnum, að kostnaðinn við gæslu þeirra skuli greiða úr sýslusjóðum Árness- og Rangárvallasýslu, en allan kostnað, er viðhald þeirra útheimtir, úr landssjóði. Við 1. umr. þessa máls í Nd. mælti landsh. með þessu nýja frumv. og í gær var það samþykkt í deildinni við 2. umr. Tollfrumv. þar með fallið.
Lög afgreidd frá alþingi eru nú orðin alls 14. Fjögur hafa áður verið nefnd hér í blaðinu. Hin eru:
12. Lög um brúargjörð á Þjórsá (75.000 kr. fjárframlag úr landssjóði til brúar á Þjórsá hjá Þjótanda).


Ísafold, 5. ágúst 1893, 20. árg., 52. tbl., forsíða:
Brúartollar voru felldir í neðri deild Alþingis eftir miklar umræður.

Brúartollar.
Felldir voru þeir í neðri deild, með mjög litlum atkvæðamun, en samþykkt í þess stað, að landshöfðingi hafi yfirumsjón með brúnum báðum (á Þjórsá og Ölfusá), kveði á um meðferð þeirra og gæslu og leggi sektir við brotum allt að 100 kr. Gæslukostnaðinn greiði sýslusjóður Árness- og Rangárvallasýslna, en landssjóður viðhaldskostnað.


Þjóðólfur, 18. ágúst 1893, 45. árg., 39. tbl., bls. 155:
Verið er að byggja brú yfir Fjarðará í Seyðisfirði.

Norður-Múlasýslu
22. júlí:
¿¿¿
Brú er nú verið að byggja yfir Fjarðará í Seyðisfirði; var fengið 4.000 kr. lán úr landssjóði til þess að koma henni upp fyrir. Tók kaupmaður Otto Wathne að sér brúargjörðina og sendi hann brúarviðina með "Uller"; er smíðinu bráðum lokið.
¿¿¿


Ísafold, 30. ágúst 1893, 20. árg., 59. tbl., forsíða:
Samgöngumálum var sinnt af miklum áhuga á Alþingi þetta árið og var t.d. fjárveiting til vegabóta nær tvöfölduð.

Afrek þingsins.
Mikið lík eru þau því, sem Ísafold spáði í þingbyrjun.
¿¿¿
Skattamál voru látin alveg óhreyfð, en samgöngumálum sinnt af talsverðum áhuga. Þingið samþykkti ekki einungis fyrirstöðulaust hið stóra stökk, er stjórnin hafði gert í fjárlagafrumvarpi sínu að því er snertir fjárveiting til vegabóta, upp í 68.000 á ári úr 35.000-36.000., heldur færði einnig upp um þriðjung fjárveitinguna til strandferða, þannig, að nú er von á hér um bil þrefalt fleiri strandferðum en áður, eða 15 alls, og með allt að helmingi fleiri viðkomustöðum í mörgum þeirra.
Áhuginn á að efla og bæta samgöngur lýsti sér enn fremur í eindrægni þingsins í ríflegri fjárveiting til að brúa Þjórsá, 75.000., svo mikilli mótspyrnu sem það fyrirtæki mætti þó áður, og loks í því, að nú gengu fram ný vegalög, - eftir margar atrennur á undanfarandi þingum -, sem vera mun talsverð umbót að.
Alþingi
XVIII.
Fjárveitingar. Hér skal talið í einu lagi það sem helst er fréttnæmt úr fjárlögunum 1894 og 1895, eins og þingið skildi við þau, svo sem afbrigði frá því sem áður hefir verið eða það sem almenningi mundu forvitni að vita.
Vegabótafé. Það verður nú 141.000 kr. á fjárhagstímabilinu, og skiptist þannig: 3.000 kr. hvort árið handa vegfræðing til að standa fyrir vegagjörðum, 50.000 kr. hvort árið til að bæta vegi á aðalpóstleiðum, og 15.000 kr. hvort árið til fjallvega. Enn fremur 5.000 kr. fyrra árið til brúargjörðar á Héraðsvötnum, með því skilyrði, að sýslunefnd Skagfirðinga leggi fram það er á vantar til að fullgera brúna, og setji landssjóði að kostnaðarlausu svifferju á aðalpóstleiðinni yfir Héraðsvötnin.


Ísafold, 30. ágúst 1893, 20. árg., 59. tbl., bls. 235:
Ný vegalög hafa verið samþykkt á Alþingi.

Lög frá Alþingi.
Hér birtist enn nokkuð af lögum þeim, er afgreiddust frá þinginu:
XXXIV. Lög um vegi.
I. kafli
Um skipting á vegum.
1. gr. Vegir á Íslandi eru: flutningabrautir, þjóðvegir, fjallvegir, sýsluvegir og hreppsvegir.
2. gr. Flutningabrautir eru þeir vegir, sem aðalvörumagn helstu héraða er flutt um. Þjóðvegir eru þeir vegir, sem aðalpóstleiðir liggja um. Fjallvegir eru þeir vegir yfir fjöll og heiðar, sem eigi teljast til neins annars vegaflokks. Sýsluvegir eru þeir vegir, sem liggja sýslna á milli og um hverja sýslu, þar sem mest er þjóðbraut, svo sem í kauptún og almenn fiskiver, enda séu það eigi flutningabrautir eða þjóðvegir. Hreppsvegir eru vegir hreppa á milli og um hreppa, sem hvorki eru flutningabrautir, þjóðvegir né sýsluvegir.
3. gr. Flutningabrautir skulu fyrst um sinn vera í þessum héruðum:
1. Frá Reykjavík austur í Rangárvallarsýslu.
2. Frá Reykjavík austur að Geysi.
3. Frá Eyrarbakka upp Árnessýslu.
4. Upp Borgarfjörð.
5. Frá Blönduósi vestur Húnavatnssýslu.
6. Frá Sauðárkrók inn Skagafjörð.
7. Frá Akureyri inn Eyjafjörð.
8. Frá Húsavík inn Reykjadal.
9. Frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal til Lagarfljóts.
4. gr. Landshöfðingi ákveður eftir tillögum sýslunefnda, amtsráða og vegfræðings, hvar leggja skuli flutningabrautir um héruðin.
5. gr. Þjóðvegir eru: 1. frá Reykjavík til Ísafjarðar, 2. frá Reykjavík til Akureyrar, 3. frá Akureyri til Seyðisfjarðar, 4. frá Reykjavík til Prestsbakka, 5. frá Prestsbakka til Eskifjarðar. Liggja skulu vegir þessir um aðalbyggðir landsins, svo beint sem verða má milli endastöðvanna eftir staðháttum.
II. kafli.
Um flutningabrautir, þjóðvegi og fjallvegi.
6. gr. Flutningabrautir, þjóðvegir og fjallvegir eru undir yfirumsjón landshöfðingja, og greiðist kostnaður til þeirra yfir höfuð úr landssjóði. Ef þjóðvegur liggur um sýslu endilanga, skal allt að helmingi sýsluvegargjalds í þeirri sýslu ganga til póstvegarins.
Það fé, sem gengur til þessara þriggja vegaflokka, skal veita í fjárlögum hvers fjárhagstímabils, og skal hverjum flokki fyrir sig ákveðin viss upphæð.
7. gr. Svo skal vegi gjöra á flutningabrautum, að vel séu akfærir hlöðnum vögnum á sumrum; vegagjörðinni skal landshöfðingi ráðstafa eftir tillögu vegfróðs manns eða verkfræðings landsins, ef slíkur verður skipaður.
8. gr. Á þjóðvegum skal svo bæta torfærur með vegaruðning og brúargjörð, að þeir séu greiðir yfirreiðar. Skal það vera aðalregla, að fyrst séu bættar þær torfærur, sem mestan farartálma gjöra. Að öðru jöfnu skal fyrir bæta farartálma á fjölförnustu vegum.
9. gr. Rétt er, að fjallvegir séu reiðfærir gjörðir og varðaðir, svo sem nauðsyn ber til.
III. kafli.
Um sýsluvegi.
10. gr. Sýslunefndir semja tillögur um, hverjir skuli vera sýsluvegir í sýslu hverri, en amtsráðið leggur á það samþykki sitt.
11. gr. Kostnaður við sýsluvegi greiðist úr sýsluvegasjóði. Í sýsluvegasjóð greiðir hvert hreppsfélag 1 kr. 25 a. fyrir hvern verkfæran mann í hreppnum 20-60 ára, í hverri stöðu sem er.
Hreppstjórar skulu á hverju ári fyrir lok marsmánaðar senda sýslumanni nafnaskrár yfir alla verkfæra menn 20-60 ára, sem heimili hafa í hreppum. Eftir skrám þessum ákveður sýslumaður sýsluvegagjald hvers hrepps. Gjaldið skal borgað úr sveitarsjóði og greiðist sýslumanni á manntalsþingi.
12. gr. Fela má sýslunefnd hlutaðeigandi sýslunefndarmanni eða hreppsnefnd umsjón með sýsluvegagjörð, hverjum í sínum hrepp, og ber þeim, sem umsjón er falin, að ráða þann verkstjóra, sem hæfur er til þess starfa.
13. gr. Sýsluvegir þeir, sem liggja út frá flutningabrautum eða eru framhald af þeim, skulu gjörast akfærir þar sem því verður við komið. Um vegabætur á sýsluvegum að öðru leyti skipar sýslunefnd fyrir, og gilda um þær sömu reglur, sem um umbætur á þjóðvegum og fjallvegum.
14. gr. Oddviti sýslunefndar skal ár hvert senda amtsráði reikning yfir tekjur og gjöld sýsluvegasjóðsins.
15. gr. Heimilt er sýslunefnd með samþykki amtsráðs að verja sýsluvegagjaldi til að styrkja gufubátsferðir í sýslunni.
IV. kafli.
Um hreppavegi.
16. gr. Hreppsnefnd semur tillögur um, hvar hreppsvegi skuli leggja í hreppi hverjum, og hvernig þeir skuli vera að breidd og ásigkomulagi, og leggur tillögur sínar undir samþykki hlutaðeigandi sýslunefndar.
17. gr. Á vorhreppaskilaþingi skal greiða til kostnaðar við hreppsvegi 1 kr. 25 a. fyrir hvern verkfæran mann í hreppnum 20-60 ára. Gjald þetta greiðir hver húsbóndi fyrir heimilismenn sína. Ef gjald þetta er eigi unnið upp árlega, leggst afgangurinn í vegasjóð, er hreppsnefndin geymir og hefir ábyrgð á.
18. gr. Nú er lítið að vinna að hreppsvegum, í hreppi: má sýslunefnd þá ákveða, að allt að helmingi hreppsvegagjalds greiðist í peningum í sýsluvegasjóð. Sé aftur á móti hreppsvegavinna mikil í einhverjum hreppi, af því að þar eru engar flutningabrautir. Þjóðvegir né sýsluvegir, en vegir um hreppinn langir og torfærir, má sýslunefndin ákveða, að helmingur á móts við hreppsvegagjald hreppsins greiðist úr sýsluvegasjóði.
19. gr. Hreppsnefndin hefir umsjón um vinnu og aðgjörð á hreppsvegum, og skal hún skipa umsjónarmann, einn eða fleiri, til að sjá um vinnuna, svo og ráða smið, er brýr skal gjöra.
20. gr. Oddviti hreppsnefndar skal á ári hverju senda sýslunefnd reikning yfir tekjur og gjöld hreppsvegasjóðsins.
XXIV. Lög um vegi.
V. kafli.
Almenn ákvæði.
21. gr. Brýr skal gjöra á ár og læki, þar sem þörf er á, þegar efni og ástæður leyfa. Rétt er að reisa sæluhús af vegabótafé, þar sem mikil umferð er á vetrum.
22. gr. Hver landeigandi er skyldur að leyfa, að vegur sé gjörður um land hans, og efni tekið þar sem næst er, án endurgjalds, ef eigi er skemmt tún, engi, yrkt land eða umgirt land. Sé vegur lagður um tún, engi, yrkt land eða umgirt land, svo og ef vegarefni er tekið landeiganda til skaða, skulu fullar bætur fyrir koma, eftir mati dómkvaddra manna. Skaðabætur greiðast úr landssjóði, sé vegurinn flutningabraut eða þjóðvegur, úr sýslusjóði, ef vegurinn er sýsluvegur, og úr hreppsvegasjóði, sé hann hreppsvegur.
23. gr. Hver sem af ásettu ráði skemmir vegi, brýr, vörður, ferjur eða sæluhús, skal sæta hegningu samkvæmt 296. gr. alm. hegningarlaga 25. júní 1869.
24. gr. Brot gegn lögum þessum eru lög nr. 25, 10. nóv. 1887, og lög nr. 11, 7. febr. 1890, úr gildi numin.
XXXIX.
Lög um gæslu og viðhald á brúm yfir Ölfusá og Þjórsá.
1. gr. Landshöfðingi hefir yfirumsjón með brúnni á Ölfusá hjá Selfossi og brúnni á Þjórsá hjá Þjótanda, þegar hún er komin á, kveður á um meðferð þeirra og gæslu og leggur sektir allt að 100 kr. við brotum.
2. gr. Kostnað við gæslu brúnna skal greiða úr sýslusjóðum Árness- og Rangárvallasýslu, og skiptist hann á nefnd sýslufélög eftir hlutfallinu milli samanlagðrar tölu lausafjárhundraða og jarðarhundraða í þeim ár hvert.
3. gr. Allan kostnað, sem viðhald brúnna útheimtir, skal greiða úr landssjóði.


Ísafold, 13. sept. 1893, 20. árg., 62. tbl., forsíða:
Hér birtist athyglisverð grein um héraðavegi, en svo nefnir blaðið sýsluvegi og hreppavegi einu nafni, en blaðið telur vegagerð hafa almennt tekið miklum framförum síðan landsstjórnin vitkaðist loks til að útlenda vegfræðinga til gera hér vegi og kenna innlendum mönnum vegagerðarlist.

Héraða-vegabætur.
Það er rænulaus maður eða harla tilfinningasljór um hagi landsins, er eigi gleðst yfir þeirri miklu breytingu, þeim snöggu umskiptum til batnaðar, sem orðið hafa á lands-vegagerð hér á landi á um síðasta áratug. Það er eigi svo að skilja, að miklu sé af lokið af því stórkostlega verkefni, að leggja góða vegi eða siðaðri þjóð samboðna um land allt. Slíks er engin von á jafnskömmum tíma og liðinn er síðan er farið var að gera hér vegi af viti og kunnáttu. Framförin er í því fólgin, að nú er lið í því, sem gert er. Það er ekki nýtt kák, eins og áður, margoft innan skamms verra en það sem eftir hestafæturna lá, meðan þeir einir fengust við að leggja vegi um landið. Þeir bera í stuttu máli eins og gull af eyri, þessir vegakaflar, er gerðir hafa verið á landssjóðs kostnað síðan landsstjórnin vitkaðist loks svo, að hún fór að fá útlenda vegfræðinga og vegavinnumenn til þess að gera hér vegi og kenna innlendum mönnum vegagerðarlist.
Vitanlega eru vegir þessir samt sem áður engan veginn svo fullkomnir, sem verða má eða gott þykir í öðrum löndum, þar sem mikið er með vegi að gera. Vegna fátæktar vorrar og þess annars, að umferð er hér víðast fremur lítil, þá er höfð hér hin kostnaðar- eða íburðarminnsta vegagerð, er við þykir mega hlíta meðal menntaþjóðanna, og því eigi nærri því svo ramgjör og endingargóð sem ákjósanlegast væri, þó að harla ólíku sé saman að jafna því sem áður gerðist hér. Viðhald á henni verður því kostnaðarsamara en ella mundi. En hvað sem því líður, þá er umbótin í þessu efni stórmikil, einhver hinn álitlegasti framfaravottur, er vér höfum af að segja.
Þetta sjá nú og skilja flestir þeir, er einhver kynni hafa af hinni nýju vegagerð. Það var öðruvísi fyrst þegar hún hófst. Það voru eigi einungis ófróðir almúgamenn, sem hristu höfuðið yfir annarri eins vitleysu og að vera að hauga upp moldarbing og kalla það veg, heldur mátti heyra hámenntað þingmannsefni fárast út af því á þingmálafundi um þær mundir, að vera að panta vegagerðarmenn frá útlöndum, í stað þess að láta landsmenn njóta þeirrar vinnu. Jafnvel fyrir honum og hans nótum vakti þá enn sú hugsun, að vegavinna væri svona hér um bil niðursetuvinna.
En víða um land hafa menn enn lítil sem engin kynni af hinni nýju vegagerð, þó að sýnishorn sé raunar komið af henni í alla landsfjórðunga. Því bar það til nú á þessu sumri, að maður tók til að beita hinni nýju kunnáttu eða nýju aðferð í afskekktu héraði, en fékk óðara það vottorð almenningsálitsins þar, að hann hefði "auðsjáanlega" ekkert vit á, hvernig vegi ætti að leggja: þeir sáu hann sem sé meðal annars sveigja veginn fyrir litla brekku, í stað þess að halda þverbeint upp hana, svo sem áður þótti sjálfsagt.
En þó að menn sjái annars almennt yfirburði hinnar nýju vegagerðar og viðurkenni þá í orði, þá eru þeir samt engan veginn svo rótfastir orðnir í meðvitund manna sem skyldi. Þegar til framkvæmdanna kemur er ýmist sem þeim þyki þó ekki neitt leggjandi í sölurnar fyrir þessa yfirburði, eða þá að þeir hugsa að eigi þurfi nema að hafa séð almennilega gerðan veg til þess að geta gert slíkan sjálfur.
Þetta sést greinilega á héraða-vegunum, en svo eru hér nefndir einu nafni fyrir stuttleika sakir sýsluvegir og hreppavegir.
Það er hraparlegt að sjá þar enn dafna víðast sama vankunnáttu-kákið og áður var algengt um alla vegagerð hér á landi. Þarf eigi að lýsa, hvernig það er lagað. Einkennið er það, að áður langt um líður kjósa menn og skepnur af illu til heldur að fara utan hjá veginum en eftir honum, sé þess nokkur kostur. Það er sjálfsagt, að frá þessu eru nokkrar undantekningar; en það er þá oft líkara tilviljun en kunnáttu og fyrirhyggju.
Ráðið til að koma þessu af er það, að hafa við hverja vegagerð að minnsta kosti verkstjóra, sem kann hina nýju aðferð, hefir numið hana verklega. Hefði verið ráð í tíma tekið og sendir einn eða tveir menn úr hverri sýslu í vinnu við landssjóðsvegagerð þegar er lag komst á hana, þá væri nú ekki svo mikill hörgull á slíkum verkstjórum. En þó að það hafi verið vanrækt, þá eru samt nú orðið til svo margir, sem vinnu þessa kunna, að vel mætti fá slíka menn í öll héruð landsins, ef það væri fast sótt. Hér nærlendis við Reykjavík að minnsta kosti ætti ekki að þurfa að leggja svo nokkurn vegarspotta jafnvel ekki á hreppavegum, að fyrir vinnunni stæði ekki maður, sem kann hina réttu aðferð að því. Það er að segja sjálfa vegavinnuna. Hitt, að afmarka vegarstefnu og mæla út vegarstæði svo vel sé hvað halla snertir og annað, það er auðvitað ekki nema á fárra manna færi hér að svo stöddu; en með því að það má gera löngu fyrir fram, á ýmsum tímum, mætti einnig fá sæmilega aðstoð til þess víða.
Hvað hreppavega snertir er þetta sleifarlag mikið því að kenna, að lög gera ráð fyrir að hreppsmenn vinni að þeim sjálfir í dagsverkum. En ókleyft ætti ekki að vera fyrir það, að ráða utanhreppsmann fyrir verkstjóra, ef kunnáttu vantar innan hrepps. Einhver ráð mundi mega finna til þess. Hér er meira um að tefla en margur hyggur. Það er eytt á að giska um 20.000 kr. í hreppavegavinnu á ári hverju; og þó að ekki væri nema helming af því sama sem fleygt í sjóinn sakir kunnáttuleysis, þá er það ærinn skattur á fátæka þjóð; hann er óþolandi og óhafandi.
Til sýsluvegavinnu eru lagðir eintómir peningar; eða að minnsta kosti á sýsluvegagjaldið að greiðast í peningum. Þar er því eigi dagsverkavinnan til neinnar fyrirstöðu því, að ráða til verksins þá sem kunna eða til verkstjórnar að minnsta kosti. En það mun tíðkast enn í flestum sýslunefndum, að sýslunefndarmanni hvers hrepps sé falið á hendur að sjá um sýsluvegavinnuna í sínum hreppi og að sá hinn sami láti annaðhvort orðalaust vinna hana "upp á gamla móðinn", eða þá, ætli hann að fara að stæla nýja lagið, þá kunni hann einnig að gera slíka.
Þetta er raunar hin mesta ósvinna, hrapaleg vanbrúkun á fé, sem lagt er til almennings-þarfa, um 20.000 kr. ári, eins og til hreppaveganna. Það ætti engin sýslunefnd nú orðið að vera við annað en að láta vinna alla sína vegavinnu undir verkstjórn manns, sem kann verkið, - nema rétt einfalda vegaruðning, þar sem hún er látin duga. Hitt er að ausa í botnlausa hít. Með því lagi verða sýslurnar jafnilla staddar með vegi eftir 20, 30 eða 50 ár eins og nú; þar vinnst ekkert áfram; allt verður ónýtt jafnóðum.
Svo er annað. Það mun nú siður í mörgum ef eigi flestum sýslunefndum, að smábita niður sýsluvegaféð í alla hreppana á hverju ári, sitt lítið í hvern. Hver nefndarmaður skarar eld að sinni köku. Það lætur og vel í eyrum og sanngjarnlega, að hver hreppur fái að njóta síns sýsluvegagjalds. En slík stefna er mesta skaðræði. Fyrir það verður hálfu minna úr framkvæmdum en ella mundi; takmarkið næst hálfu seinna: það, að fá góða vegi um sýsluna. Hitt er rétt, að hafa ekki undir nema einn veg í einu, þar fyrst, sem mest er þörfin og mest umferðin, og ljúka við hann áður en tekið er til annarsstaðar, nema hvað hyggilegt getur verið að verja einhverju lítilræði til ruðninga, þar sem þess er mest þörf, eða til þess að gera fært yfir lítils háttar torfærur, auk viðhalds á fullgerðum vegarköflum, er síst má vanrækja.
Þó að hér sé talað um sama frágang á héraðavegum og landsvegum, þá er það eigi svo að skilja, að þeir þurfi endilega að vera jafn-íburðarmiklir eða kostnaðarsamir, heldur að eins hitt, að unnið sé að þeim á réttan hátt, svo að fullum notum komi hvað endingu snertir og annað. Með öðrum orðum, að það, sem gert er af nýjum sýslu- eða hreppavegum, séu réttnefndir vegir, en ekki vegleysa. Eða þá reynt að bjargast við einfalda vegaruðning, þar sem það er takandi í mál. En ekki verið með gagnslaust kák, sem nefnd er vegasmíð, en er margsinnis verra en ógert. Sömuleiðis ríður á, að hafa hæfileg tól og tæki til vegavinnunnar. Ónýt áhöld eða ónóg gera hana að verkleysu.
Með svofelldri lögun eða því um líkri á héraða-vegabótum mundi brátt sjást votta fyrir mikilli framför í því efni, miklum stakkaskiptum frá því sem nú er, þó að ekki sé meira fé til þeirra lagt.


Þjóðólfur, 29. sept. 1893, 45. árg., 46. tbl., bls. 179:
Jakob Gunnlögsson vill leiðrétta misskilning varðandi póstgöngur í Norður-Þingeyjarsýslu.

Um póstgöngur í Norður-Þingeyjarsýslu.
(Svar).
Herra ritstjóri! Út af grein eftir séra Þorleif Jónsson á Skinnastað, sem er prentuð í "Þjóðólfi" nr. 28. þ. á., vil ég hér með leyfa mér að biðja yður svo vel gera, að ljá rúm í hinu heiðraða blaði yðar eftirfylgjandi leiðréttingum.
Ég er ekki höfundur greinarinnar, sem stóð í "Austra" fyrir ári síðan, með fyrirsögn: "Um vegi og samgöngur", eins og séra Þorleifur gefur í skyn í grein sinni.
Séra Þorleifur þykist tilfæra orðrétt eftir mig setningu úr "Bréfi af Sléttu", en sú setning, sem hann tilfærir, stendur hvergi í téðu bréfi. Hún verður því að álítast prestsins eigin "ruglvefur".
Að ég fái "póstana þvert á móti því sem þeir mega og er skipað fyrir, (til) að bíða eftir bréfum" mínum, meðan ég svara bréfum um hæl með sama pósti, er alveg tilhæfulaust. Ekki er það heldur rétt, að sýslunefnd Norður-Þingeyinga hafi ætíð álitið, að póstleiðin um Norður-Þingeyjarsýslu ætti að liggja yfir Axarfjarðarheiði. Það sýnir, meðal annars, eftirfylgjandi "útdráttur úr fundargerðum sýslunefndarinnar í Norður-Þingeyjarsýslu 28. og 29. febrúar 1888".
¿¿¿"12. Oddviti framlagði og las upp bréf amtsins, dags. 5. f. m., um að því verði sendar í byrjun næstkomandi aprílmán. tillögur sýslunefndarinnar um það, hvar aðal-póstleið skuli liggja, og um það, hverjir vegir skuli vera sýsluvegir.
Nefndin íhugaði og ræddi mál þetta ítarlega og komst að þeirri niðurstöðu, að yfirgnæf-andi ástæður mæltu með þeirri tillögu1, að aðalpóstleiðin yrði lögð frá Húsavík norður yfir Tunguheiði, eftir Kelduhverfi að lögferjunni yfir Jökulsá hjá Ferjubakka að Skinna-stöðum, þaðan eftir Axarfirði í Núpasveit, yfir Hólsstíg að Raufarhöfn1 þaðan að Sval-barði í Þistilfirði og eftir honum út á Þórshöfn (Syðralón). Tók nefndin fram, að þetta væri aðalsamgönguleið allra þessara byggðarlaga og jafnframt þrautaleið, sem fara yrði þegar nokkuð væri að vegum og veðri"1¿¿
Þetta var nú samhuga álit sýslunefndarinnar 1888. Vegalengdirnar eru alveg hinar sömu nú eins og þá, en einmitt Hólsstígur hefur batnað mikið síðan, því næstliðin ár hefur verið kostað 100 kr. árlega til vörðuhleðslu á honum.
Ég álít óþarft, að gefa frekari gaum grein prestsins. Hún mun sjálf bera með sér, að hún hafi meira inni að halda af fljótfærnislega hugsuðum, órökstuddum fullyrðingum, en skyn--samlegri röksemdarfærslu, enda mun höfundinum láta betur að fást við forn rit, en að rita blaðagreinar.
Raufarhöfn 14. ágúst 1893.
Jakob Gunnlögsson.


Austri, 12. okt. 1893, 3. árg., 27. tbl., bls. 107:
Ritstjóra Austra þykir Páll Jónsson vegabótastjóri hafa unnið gott verk við vegagerð á Fjarðarheiði s.l. sumar. Vegurinn er alls 10.610 faðma langur og hlaðnar voru 44 vörður að nýju en 30 endurbættar til muna.

Fjarðarheiði
Fjarðarheiði er nú algjör byggða í milli hvað vegabót þá snertir, er landssjóður lét vegabótastjóra Pál Jónsson gjöra þar í sumar við tólfta mann, og er það allmikið verk á ekki lengri tíma og eftir ekki fleiri menn. Sýnir það verkhyggni og dugnað vegabótastjórans og verkamannanna, enda mun áframhaldið við verkið hafa verið hið besta og verkið yfir höfuð prýðilega af hendi leyst á svo löngum vegi: 10.610 faðmar öll leiðin og þar af nær 900 upphleyptur og brúaður vegur með hliðarræsum og löngum brúm með ofaníburði, er víða þurfti að sækja all-langt að. Svo hafa verið hlaðnar í sumar á veginum 44 vörður að nýju, en 30 endurbættar til muna, og er það allt mikið verk og vel af hendi leyst, og þó er nú hver varða töluvert ódýrari en hinar fyrri voru, enda er auðvitað, að mönnum smámsaman lærist betur öll vörðuhleðsla, eins og allt annað er til vegabótavinnu heyrir, og því hefðum vér óskað þess, að Austlendingar hefðu unnið meir að þessari vegabót, heldur en varð nú að þessu sinni, því þeir mundu margt hafa getað lært af svo duglegum og æfðum verkstjóra sem Páll Jónsson er; og svo er og eðlilegast, að það fé, er landssjóður leggur til vegagjörða hingað og þangað um landið lendi að miklu leyti í þeim héruðum er vinnan er unnin í, og hér mundi og hafa verið gott rúm fyrir meiri hluta tillagsins úr landssjóði.
En oss er kunnugt um, að hér er hvorki sýslumanni eða vegabótastjóra um að kenna, því verkmenn héðan að austan höfðu ekki gefið sig fram í tíma.
Vér höfum eigi viljað undanfella að geta þessa, þó það eigi komi sjálfri vegabótinni við, - til þess Austfirðingar gæti þess í tíma að verða eigi af vinnunni í vegabót þeirri, er ráðgjörð er milli Jökulsár og Lagarfljóts yfir Hróarstungu á næsta sumri, bæði vegna lærdóms, og svo líka fyrir forþénustu sakir.
Þó vegurinn yfir Fjarðarheiði sé að mestu leyti aðeins ruddur, þá er að honum mesti fararléttir, svo nú má fara heiðina á sumardag á nær þriðjungi styttri tíma en áður. Þó hefði verið mjög æskilegt, að fé og tími hefði leyft að gjöra lengri og íburðarbetri einar 2-4 brýr norðan til á heiðinni. En aftur má heita snilldarverk á veginum á sumum stöðum, t. d. í svo nefndu Miðhúsaklifi, sem er svo vel sprengt og upphlaðið, að þess verður nú ekki vart, og svo aftur fyrir neðan svonefnda Mýrarbrekku hérna megin, þar sem vegurinn er lagður yfir all-djúpt gil, er hlaðinn hefir verið grjótveggur, allt að 7 álna hár, sem er mjög vandað verk.


Þjóðólfur, 20. október 1893, 45. árg., 50. tbl., forsíða:
Ritstjóri Þjóðólfs ræðir hér um þau lög sem sett voru um gæslu og viðhald brúnna á Ölfusá og Þjórsá, eftir miklar umræður síðasta árið.

Fljóthugsuð lagasmíð
Það hefur flogið fyrir, að Árnesingar og Rangvellingar séu lítt ánægðir með lagafrumvarp það, er þingið í sumar samþykkti, um gæslu og viðhald brúnna yfir Ölfusá og Þjórsá (þegar hún er komin á), og verður það ekki varið, að sú óánægja er á allmiklum rökum byggð, enda tóku sumir þingmenn það berlega fram, að gjald það, er lagt væri á hlutaðeigandi sýslufélög með frumvarpi þessu, væri bæði harla ósanngjarnt og of þungt, og töldu því brúartoll heppilegri, en allir voru einhuga um það, að velta að einhverju leyti byrðinni af landssjóði, að því er snerti gæslu og viðhald brúnna. Það verður heldur ekki annað sagt, en að frumvarpið um brúartollinn með breytingum þeim, er flutningsmenn gerðu á því síðar, væri allaðgengilegt, þá er landssjóður átti að gefa upp 20.000 króna lán, er veitt var sýslusjóðum Árnes- og Rangárvallasýslu og jafnaðarsjóði suðuramtsins til byggingar Ölfusárbrúarinnar. Vér hyggjum, að hlutaðeigandi sýslufélög hefðu einnig orðið miklu ánægðari, ef það frumv. hefði fengið framgang, heldur en þetta, er nú var samþykkt af þinginu. Að vísu munu ýmsir héraðsbúar hafa haft allmikinn ýmugust á brúartolli og sjálfsagt viljað helst vera lausir við hann, en mundu þó ekki hafa kveinkað sér við að greiða hann, þá er hann hefði verið kominn á. En kostnaður við gæslu brúnna, er þessi sýslufélög eiga að greiða, verður miklu tilfinnanlegri og kemur ranglega niður, því að þá er þeir einir greiða brúartoll, sem yfir brýrnar fara, leggst hitt gjaldið á alla sýslubúa undantekningarlaust, hvort sem þeir hafa nokkur bein not af brúnum eða ekki. Vér skulum taka t. d. Biskupstungur, Grímsnes, Laugardal, Þingvallasveit, Grafning, Selvog og að nokkru leyti Ölfusið. Allar þessar sveitir í Árnessýslu hafa mjög lítil eða engin bein afnot af Ölfusárbrúnni, og er því eðlilegt þótt íbúum þessara sveita þyki hart, að greiða afarþungt gjald að jöfnu við aðrar sveitir sýslunnar, er brúna nota. Sumir kunna að segja, að það beri vott um heldur mikla hreppapólitík, að vega á vogir það gagn, er hver einstakur hreppur hafi af einhverju mikilsháttar fyrirtæki innansýslu, og að enginn matningur um jafna hluttöku í kostnaðinum ætti að eiga sér stað, og má vel vera, að þeir hafi nokkuð til síns máls, en hins vegar verður Árnesingum varla láð, þótt þeim þyki skattur þessi allþungur og koma ójafnt niður. Það er eðlilegt, að Árnessýsla í heild sinni verði að bera mestan kostnað af Ölfusárbrúnni, en það er ekki sanngjarnt að leggja á hana svo þunga byrði, sem henni ef til vill er um megn að bera. Ennfremur ber þess að gæta, að Árnesingar verða miklu harðar úti en Rangvellingar, samkvæmt þessu frumvarpi, þar eð nærfellt allir Rangvellingar hafa bein not af báðum brúnum, en þurfa ekki að annast nema gæslu á annarri þeirra, en meiri hluti Árnessýslu hefur hins vegar engin bein not af þessari einu brú, er öllu sýslufélaginu er þó gert að skyldu að kosta að jöfnu.
Með því að það er viðurkennt, að brúabyggingar, eins og önnur stórfyrirtæki, miði öllu landinu til framfara, virðist oss sanngjarnt, að það í heild sinni beri tiltölulegan hluta af kostnaðinum. Að vísu mun því verða svarað, að landssjóður hafi sómasamlega leyst hendur sínar með því að leggja fram fé til byggingar brúnna og með því að taka að sér viðhald þeirra, samkvæmt hinu nýja frumvarpi, og meira verði því ekki af honum heimtað. Þetta er að vísu satt, en mundi ekki vera heppilegra að koma því svo fyrir, að landssjóður þyrfti ekki beinlínis að kosta viðhaldið og hlutaðeigandi sýslufélög heldur ekki gæslukostnaðinn, án þess þó, að nokkur brúartollur ætti sér stað? Þetta gæti t. d. orðið á þann hátt, að stofnaður væri sérstakur almennur brúarsjóður, ekki aðeins fyrir brýrnar á Ölfusá og Þjórsá, heldur einnig fyrir aðrar brýr á stórám hér á landi, bæði þær, sem nú þegar eru komnar og framvegis verða byggðar, en þar af leiddi þá að sjálfsögðu, að allar stórbrýr á landinu yrðu háðar eftirliti landsstjórnarinnar, en allur gæslu- og viðhaldskostnaður skyldi greiddur úr þessum almenna brúarsjóði.
Til þess að koma sjóð þessum á fót yrði að leggja sérstakt gjald - brúargjald - t. á. á hvert lausafjárhundrað eða jarðarhundrað á öllu landinu, og gæti það verið mismunandi hátt í hinum ýmsu sýslum, t. d. að þær sýslur, er hefðu stórbrýr innanhéraðs, greiddu hærra brúargjald, ef til vill tvöfalt hærra, en aðrar, er engar brýr hefðu, eða engin not af þeim. Á þann hátt hyggjum vér, að hægast yrði að samrýma þetta tvennt: að létta byrðinni af landssjóðnum sjálfum og leggja jafnframt ekki of þungt gjald á einstök sýslufélög.
Helsti gallinn við reglulegan brúartoll er sá, að með honum einum safnast mjög seint sjóður, er nokkru nemi. Aðalmótbáran gegn honum á þinginu var einnig sú, að kostnaðurinn við innheimtu hans yrði svo mikill, að meiri hluti tollsins gengi til þess, og mun nokkuð hæft í því. Mál þetta er allmikið vandamál, enda hafa verið mjög deildar skoðanir manna um það. Menn hafa ekki getað komið sér saman um, hvor aðferðin væri heppilegri, að tolla brýrnar eða tolla þær ekki. Það eru allmiklir annmarkar á hvorutveggju, en einkum virðist oss sá vegur, er þingið tók í þessu máli, mjög óheppilegur, og mun það sannast, að ekki líður á löngu áður en almennar óskir koma til þingsins frá sýslufélögum Árness- og Rangárvallasýslu, að fella aftur úr gildi lagafrumvarp það, er þingið í sumar samþykkti. Það má nefnil. ganga að því vísu, að það öðlist staðfestingu konungs, því að landshöfðingi var því mjög meðmæltur, og það mun nægja.
Það er annars mjög leiðinlegt, að þingið skuli samþykkja lög, sem ef til vill er nauðsyn á að breyta eða jafnvel fella úr gildi jafnharðan. Það veikir traust manna á þinginu og kemur óorði á löggjafarstarf þess. Einkum er mjög varhugavert að samþykkja allt, er íþyngir um of einstökum landshlutum, án þess hlutaðeigendum hefi gefist kostur á að láta í ljósi álit þeirra um það.
Vér sjáum nú sem stendur, engan annan heppilegri veg til að leysa hnút þennan, svo að allir megi vel við una, heldur en þann, að stofna almennan brúasjóð eða varasjóð til að bera kostnaðinn af brúm landsins á þann hátt, er áður var tekið fram. Gjald þetta yrði hverjum einstökum lítt tilfinnanlegt, og menn mundu fúslega greiða það af hendi, enda kæmi það að því leyti réttlátlega niður, að þau sýslufélög, sem hefur mest og best not af brúm, legðu mest í sjóð þennan. En með því að þingið hefur nú tekið aðra stefnu í þessu máli og samþykkt frv. það, sem hér er um að ræða, mun mjög torvelt að kippa því í liðinn aftur. Það er hægra að færa úr lagi en í lag aftur. Það er ekki hlaupið að því að fá felld úr gildi spánný lög eða jafnvel fá þeim breytt eitthvað verulega. Það má ennfremur búast við, að ýmsir verði mótfallnir því, að brýr, er héruðin hafa kostað hingað til t. d. á Norðurlandi, séu lagðar undir umsjón landssjóðs, og ákveðnu brúargjaldi jafnað niður á allar sýslur landsins, en þó er þetta að voru áliti hið langeðlilegasta fyrirkomulag, auk þess sem brúm landsins mun verða best borgið á þann hátt, er fram líða stundir.


Ísafold, 21. okt. 1893, 20. árg., 70. tbl., bls. 278:
Landsvegavinnu hefur nú verið hætt þetta árið en unnið hefur verið á Mosfellsheiði, við Hvítárbrúna og á Austfjörðum.

Vegagerð.
Nú er hætt landsvegavinnu að þessu sinni fyrir nokkru, - í vikunni sem leið síðast á Mosfellsheiði. Vegurinn, sem þar hefir verið lagður, frá Hólmsbrú langt upp á móts við Seljadali, er rúmar 10 rastir (kilom.), en þó eftir að bera ofan í 2 ½ röst; en eftir rúmar 5 rastir þar til kemur saman við Mosfellsheiðarveginn við Borgarhólamel. Það er með öðrum orðum rétt míla eða 7 ½ röst, sem fullger hefir verið af vegi þessum í sumar, og mikið vel gert að sjá, af Erlendi Zakaríassyni með þremur tylftum verkmanna á rúmum 20 vikum, auk 2 ½ rastar, sem aðeins vantar í ofaníburð. Við Hvítárbrúna nýju hefir og verið lagður góður vegarspotti í sumar, rúm 2 ½ röst, yfir mýrina að norðanverðu, af Árna Zakaríassyni. Loks hefir verið talsvert unnið á Austfjörðum, af Páli Jónssyni, sem síðar mun frá skýrt.


Ísafold, 4. nóv. 1893, 20. árg., 72. tbl., forsíða:
Tilraun var gerð með gufubátsferðir um Faxaflóa s.l. sumar og þótti takast vel.

Gufubátsferðirnar um Faxaflóa.
Þessi fyrsta almennilega tilraun með gufubátsferðir hér um flóann, er gerð var á bátnum Elínu í sumar, hefir lánast miklu, miklu betur en jafnvel formælendur slíks nytsemdar-fyrirtækis höfðu gert sér í hugarlund, hvað þá heldur hinir, er töldu öll tormerki á, að það gæti þrifist, og vildu jafnvel gera úr því eintóman loftkastala, er því var fyrst hreyft í Ísafold fyrir nokkrum árum. En þægindin að slíkum ferðum fá menn seint fullrómað, í samanburði við hitt, að hrekjast á opnum bátum og slíta sér út við árina, og láta sér þar á ofan legast oft marga daga í senn.
Fleiri ferðum en 12 á sumrinu var eigi ráð fyrir gert né farið jafnvel fram á af réttum hlutaðeigendum í fyrra vetur. En þær urðu 2-3 falt fleiri. Þær urðu 34 norður á bóginn, til Borgarfjarðar, og 28 á suðurkjálkann; auk 3-4 skemmtiferða til Hvalfjarðar m. m. Báturinn fór 26 ferðir alla leið til Borgarness. Hann kom 65 sinnum við á Akranesi, 40 sinnum í Keflavík, 25 sinnum í Vogum og á Vatnsleysuströnd, fór 15 ferðir suður í Garð, kom 14 sinnum á Straumfjörð og 12 sinnum á Hafnarfjörð.
Tala farþega með bátnum varð alls 2716. Þar af fóru langflestir milli Reykjavíkur og Borgarness, eða 910 alls. Milli Akraness og Reykjavíkur 617, milli Reykjavíkur og Keflavíkur 395, milli Reykjavíkur og Straumfjarðar 145, og milli Reykjavíkur og Garðs 123. Annars nær talan hvergi 100; mest 99, milli Borgarness og Akraness. Milli sumra viðkomustaðanna (eingöngu) hefir jafnvel eigi farið nema 1 hræða alls, svo sem Akraness og Búða, Akraness og Maríuhafnar, Reykjavíkur og Vatnsleysu, Njarðvíkur og Kaflavíkur og milli Keflavíkur og Garðs; milli Rvíkur og Grindavíkur enginn.
Viðlíka mikla vinnu að tekjum til hefir báturinn haft við vöruflutning eins og mannflutning, að meðtöldum flutningum fyrir verslun útgerðarmannsins sjálfs, er nemur nálægt ¼. Er og leiðin milli Reykjavíkur og Borgarness þar lang-efst á blaði, en þá leiðin milli Reykjavíkur og Akraness.
Varla þarf að efa, að með svona mikilli notkun bátsins hafi ferðir hans í sumar borgað sig. Hitt er annað mál, að útgerðarmaður gæti auðvitað skaðast samt á fyrirtækinu, ef selja þyrfti bátinn bráðlega öðruvísi en með fullu verði.
Eftir samningnum við bæjarstjórn og sýslunefndir þarf báturinn eigi að fara nema 12 ferðir að sumri, - aldrei farið fram á meira. En færri en í sumar verða þær fráleitt hafðar, eftir þá reynslu sem nú er fengin, með því líka að þær verða sjálfsagt látnar byrja talsvert fyr. Ákjósanlegast væri, að þær væru enn tíðari, og umfram allt sem reglubundnastar, ekki vegna þess, að flutningaþörfin heimti kannske meira en í sumar er var, heldur af því, að tíðar, reglubundnar og fyrirfram fastákveðnar ferðir eru skilyrði fyrir því, að samgöngur um þetta svæði taki þeim stakkaskiptum, sem vera ætti, sem sé: að ferðalög á opnum bátum legðust hér um bil alveg niður á ferðasvæði gufubátsins þann tíma árs, sem hann er á ferðinni, en það ætti í rauninni að vera sem mestur hluti ársins. Vitanlega yrði lítið að gera þá í sumum ferðunum, og stundum jafnvel ekkert. En það mundi sannast, að afnot bátsins yrði samt sem áður ekki einungis notasælli fyrir almenning með því lagi, heldur jafnvel drýgri fyrir pyngju útgerðarmannsins, er fram liðu stundir.
Til þess að ná þessum tilgangi þyrfti báturinn að fara tvisvar í viku milli Borgarness og Reykjavíkur, sömu vissu vikudagana, en um heyannir ekki nema annaðhvort einu sinni í viku eða öllu heldur tvívegis aðra hvora viku. Þetta mundi nóg að sinni, en minna ekki nóg. Meðal annars mundu þá t. d. langferðamenn norðan úr landi og vestan eigi bera við að fara landveg lengra en í Bogarfjörð, en sjóveg þaðan til Reykjavíkur, sér til mikils hægðarauka, flýtis og hestasparnaðar.


Þjóðólfur, 25. nóvember 1893, 45. árg., 55. tbl., forsíða:
Ritstjórar Þjóðólfs og Ísafoldar eru ekki sammála um “brúartollinn” frekar en önnur mál.

Brúamál. - "Ísafold" nötrar.
Hann er auðþekktur á eyrunum höf. greinarinnar í síðustu "Ísafold" með undirskriftinni "Sveitabóndi". Það leynir sér nfl. ekki á rithættinum, að aðalhöf. er ekki neinn "sveitabóndi", heldur persónan alþekkta með gömlu halarófuna sína, þ. e., meiningarlausa axarskaftasetningar hnýttar saman í eina bendu. Það er auðvelt að þekkja þennan kumpán, hvar sem hann er á ferðinni með trossuna sína, og þótt hann nefni sig ýmsum dularnöfnum, eins og flugumenn, er sendir voru til höfuðs mönnum til forna, þá tjáir það ekki. Alstaðar gægjast eyrun út undan dularhúðinni.
Efni greinarinnar, ef efni skyldi kalla, er svo lélegt, að það er naumast nokkurra svara vert, enda er ójafnt á komið og óþarft í sjálfu sér að rita með röksemdum gegn öllum heimskulegum þvætting og nafnlausum púkagreinum, er ritstj. "Ísafoldar" annaðhvort ritar sjálfur eða pantar frá fylgifiskum sínum til að rægja "Þjóðólf", af því að hann hefur leyft sér að segja "Ísaf." til syndanna og hirta hana dálítið endrum og sinnum fyrir einhvern óþokkaskapinn. Það er auðvitað langréttast að skipta sér ekkert af slíku, sem allir vita af hverjum toga er spunnið, en af því að ritstj. "Ísaf." fólskast af hverju einu í "Þjóðólfi", sem eitthvað snertir hann eða málgagn hans, þá getum vér ekki stillt oss um að senda honum einnig orðsendingu við og við, án þess að skríða í felur bak við dularnöfn.
Eins og hver óvitlaus maður hefur getað séð, var greinin í Þjóðólfi "Fljóthugsuð lagasmíð" aðeins lausleg uppástunga til frekari hugleiðinga, uppástunga um hvort, ekki mundi tiltækilegt að stofna almennan brúarsjóð, alveg sérstakan og fráskilinn landssjóði, bæði til þess, að synt yrði fyrir þau sker, að landssjóður þyrfti eingöngu að kosta brýrnar - er hann mun trauðla gera - og til þess jafnframt að létta of þungri byrði af einstökum sýslufélögum. Þessu gæti hæglega orðið framgengt, hvað sem "Ísafoldar" höf. segir. Hann þykist ekki sjá, að það sé neinn munur á, hvort þetta fé er tekið beint úr landssjóði, eða það er tekið úr sérstökum brúarsjóði. Hér er þó sá mikli munur, að landsmenn greiða þetta gjald - brúargjald - alveg sérstakt í vissu augnamiði, til að bera vissan kostnað, en ekki út í loftið eitthvað óákveðið og ekki í neinar vissar þarfir. Þeir vita, að þetta er fé, sem beinlínis er notað í þessum tilgangi og til einskis annars, og að ekki þarf að knýja á hurðir landssjóðs í hvert skipti, sem byggja þarf brýr eða gera við þær. Þetta er fé, sem landsmenn eiga heimtingu á, að þeir fái að njóta góðs af, en þeir geta ekki gert slíkar kröfur til landssjóðs svo framarlega, sem hann tekur ekki brýr landsins algerlega á sína arma. Það væri mjög gott, ef landssjóður vildi taka þetta að sér, en það eru ekki svo miklar líkur til þess. Hinn eðlilegasti og langstærsti mælikvarði, er almennt brúargjald hlýtur að miðast við, er einmitt tala lausafjárhundraða og jarðarhundraða, án þess aðrir gjaldstofnar séu útilokaðir, hversu sem þokuvælirinn í "Ísafold" hrópar hátt í eyru bændanna, að embættismennirnir eigi að vera lausir við það (!). Það ber allmikinn vott um bjálfaskap eða óráðvendnisskrílshátt, að hanga eins og rakki í snærisspotta á því, þótt eitthvert atriðið sé ekki beinlínis tekið fram í fyrstu, þá er uppástunga er gerð, alveg eins og það megi eða eigi alls ekki að koma til greina.
Í Þjóðólfs-greininni komu heldur engin bein andmæli fram gegn brúartolli. Nei, þvert á móti. Vér gátum þess einmitt, að hann væri miklu heppilegri en þetta brúargæslugjald, er dembt var á tvö sýslufélög í sumar að þeim óvörum. Að það gjald sé mjög óheppilegt og komi afarhart niður á hlutaðeigendur, mun víst engum blandast hugur um, hvernig sem á brúamál er litið, og hverja leiðina, sem menn vilja fara til að hrinda þessu í æskilegra horf. Um það má lengi þrátta, hvað affarabest muni vera í því efni.
Það er auðséð á öllu, að aðaltilgangur "Ísaf."-greinarinnar er ekki að andæfa "Þjóðólfs"-greininni í sjálfu sér - enda tekst höf. það mjög óhönduglega, sem von er - heldur hitt, að lauma því fram, að hún hafi verið rituð í því skyni, að bola Þorlák í Fífuhvammi frá þingkosningu í Árnessýslu og koma þar að einhverjum öðrum "Þjóðólfi" nákomnari. Þarna sprakk á kýlinu! Ritstj. "Ísaf." hefur auðsjáanlega orðið allmjög skelkaður við greinina fyrir Þorláks hönd, já, meira að segja lafhræddur við, að "Ísafold" kynni að missa dyggan fylgismann á næsta þingi, því að þau voru ekki svo mörg atkvæði hennar á síðasta þingi, að þau megi við því að fækka úr þessu. Mikil vandræði! Vesalings ritstj. hefur líklega þótt heldur snemmt að hefja nú þegar krossferð austur í Árnessýslu til að predika þar sinn vísdóm fyrir kjósendunum, og því ekki séð annað tiltækilegra til bráðabyrgða, en að smella í málgagn sitt einhverri þvættings-lokleysu gegn þessari háskalegu(!) "Þjóðólfs"-grein, til þess að varna því, að hún steypti vini hans af stóli. Ó, þú virðulega einfeldni! Er maðurinn farinn að ganga svo í barndómi, að hann viti ekki, að það verður einmitt til að fella hvern mann við þingkosningar, ef hann mælir alvarlega með honum, og síst af öllu mun hann hafa nokkur áhrif í þá átt á Árnesinga, því að þeir þekkja piltinn, ekki aðeins af afspurn, heldur hafa þeir séð hann augliti til auglitis á þingkosninga-krossferðum þar eystra, og gast miðlungi vel að öllu saman. Það lýsir því hlægilegu oftrausti á sjálfum sér, ef hann hyggur nú, að hann geti vafið Árnesingum um fingur sér og látið þá kjósa þann eða þá, sem finna náð fyrir hans kolsvörtu pólitísku sálarskjáum, því að vita má hann það, að Árnesingar eru engin sauðarhöfuð, sem hann getur látið dansa eftir sinni pípu. Þeir eru sjálfstæðir hugsandi menn, miklu skynsamari margir hverjir, en sjálfur Ísafoldar-furstinn.
Að lokum viljum vér gefa honum það heilræði, að spilla ekki fyrir vinum sínum til þingkosninga með því að mæla með þeim, heldur að mæla fremur á móti þeim, ef hann vill, að þeir komist að, eða þá að steinþegja, sem líklega mundi snjallast.


Austri, 29. nóv. 1893, 3. árg., 33. tbl., bls. 131:
Páll vegfræðingur Jónsson og félagar hans eru sagðir hafa gert góðar vegabætur á Fjarðarheiði í sumar.

Fjarðarheiði
Í 27. tbl. "Austra" þ. á. er grein um vegagjörðina á Fjarðarheiði næstliðið sumar og er í henni ekkert ofhól um Pál vegfræðing Jónsson og þá félaga hans, heldur hreinn og beinn sannleiki, að þeir unnu verk sitt með trú og dyggð o. s. frv.
Í greininni er skýrt frá vegabótinni í heild sinni, að mestu leyti. - Vegi og vörðum - og hvað væri ábótavant við veginn norðan til á heiðinni, en höf. hefir ekki getið um, hvað vörðunum er ábótavant, og er það sjálfsagt af ókunnugleik, vil ég því leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum.
Allir kunnugir vita að vörðurnar ná nú orðið yfir alla heiðina brúna á milli; (af norðurbrún og á austurbrún á Felli) og sýnist í fljótu bragði að það munu duga: en samt sem áður virðist ekki einhlítt að vörðurnar nái ekki yfir lengra svæði en þær gjöra. Að norðan (Héraðsmegin) þyrftu þær að ná ofan að hinum svokallaða Fardagafossi, að minnsta kosti, og að austan (Seyðisfjarðar megin) ofan á hinn svo nefnda Neðri-Staf og mundu vörðurnar verða að samanlögðu - austan og norðan - á að giska 20-25. Það eru mörg dæmi til þess að menn hafa villst mikið afvega á þessari leið (ofan beggja vegna), þó þeir hafi komist óvilltir af sjálfri heiðinni; auðvitað mun fleirum hafa orðið villuhættara Seyðisfjarðar megin, enda er mjög villugjarnt milli Efra-Stafs og Neðra-Stafs, þegar slétt er orðið með fönn af hverri brekku og hæð og ekkert er við að styðjast. Það má óhætt trúa því, að nú munu menn verða óragari að leggja til heiðarinnar en áður, þó dimmt sé veður, þegar vörðurnar eru yfir sjálfa heiðina, en hvað dugar það ef þeir ná þeim aldrei? Og þó þeir næðu þeim, þá eiga þeir það á hættu, hvernig þeim muni reiða af ofan hinu megin.
Af því margir fara á vetrum yfir heiði þessa, ættu nú Norður- og Suðurmúlasýslurnar, að leggja fé fram á næsta sumri til varðanna, svo þær komist þá strax upp, en bíða ekki eftir því í óvissu, hvort þingið lætur nokkuð af hendi rakna til þessarar heiðar framvegis eða ekki.
Fjarðarseli. Ritað í Október 1893.
Vigfús Ólafsson.


Þjóðólfur, 15. des. 1893, 45. árg., 58. tbl., forsíða:
Árnesingur skrifar langa grein um “brúartollinn” en hann hefur mikið verið til umræðu síðustu mánuði.

Rödd úr Árnessýslu.
um "fljóthugsuðu lagasmíðina".
Það er enginn vafi á því, að "Ísafold" er greinilega farin að "stálma" undir væntanlegar alþingiskosningar í Árnessýslu að vori, svo að það má gera ráð fyrir reglulegum fæðingarhríðum innan skamms, er sjálfsagt verða harðari og harðari eftir því, sem nær dregur kjördegi. Enn sem komið er hefur "stálminn" lýst sér í því, að ritstj. "Ísaf." hefur gefið Árnesingum ofurlítinn "forsmekk" þess, hvað hann vill, að þeir skuli gera, sérstaklega með greininni í 74. tbl., er á að vera eftir einhvern "Sveitabónda" einhverstaðar í þokunni. Í sömu átt stefnir og greinin í síðasta blaði frá einhverjum "helsta og merkilegasta" manni í Grímsnesinu, slitin sundur með innskots-fleygum, og stöguð aftur saman með rembihnútum af ritst. "Ísaf." sjálfum.
Til samanburðar við þessar greinar og hinar fávíslegu staðhæfingar þeirra, látum vér oss nægja að birta hér í blaðinu grein, er oss barst fyrir stuttu, frá öðrum Árnesingi, vafalaust fullt eins merkum, sem Ísafoldarmanninum. Hún er rituð gegn grein "Sveitabóndans" og lítur dálítið öðruvísi á þetta mál, en hann og Grímsnesingurinn. Rúmsins vegna birtist aðeins helmingur greinarinnar í þetta skipti. Vér látum höf. sjálfan tala, enda höfum vér aldrei fylgt þeirri reglu að limlesta það, er aðrir rita, eða snúa því við eftir eigin geðþekkni. Greinin er svo látandi:
Í 74. tölubl. "Ísafoldar" þ.á. er grein með yfirskriftinni "Fljóthugsuð lagasmíð" eftir einhvern, er nefnir sig "Sveitabónda", og fjargviðrast persóna þessi mikillega út af grein í "Þjóðólfi" í haust með sömu yfirskrift, áhrærandi lagafrumvarp það frá síðasta þingi, sem ákveður, að gæslukostnaður á brúnum yfir Ölfusá og Þjórsá skuli greiddur úr sýslusjóðum Árnes- og Rangárvallasýslna. Þó að þessi Ísafoldar-grein máske eigi að vera vörn fyrir formælendur þessa máls á þingi, eða einkum fyrir herra Þorlák í Fífuhvammi, og þótt hún kunni að vera hlutdrægnislaust rituð, þá virðist hún samt frá hlið Árnesinga vera sumsstaðar nokkuð fljóthugsuð, eins og lagafrumvarp það, sem hér er um að ræða. Ég skal því leyfa mér, eins og "Sveitabóndinn" kemst að orði, "að leggja orð í belg" um þetta mál.
Hvað lagafrumvarpinu viðvíkur, þá get ég ekki annað álitið, en að Rangvellingar séu eftir því allvel íhaldnir með sinn hluta af gæslukostnaðinum, (þó það hljóti samt að verða æði-hár skattur, þegar Þjórsárbrúin er komin á), þar sem allir hreppar sýslunnar nota sjálfsagt báðar brýrnar að miklu leyti; en með Árnesinga er öðru máli að gegna, því fyrst og fremst nota ekki Ölfusárbrúna nema hrepparnir austan Hvítár og Ölfusár, svo teljandi sé, en Þjórsárbrúna munu Árnesingar aldrei nota svo teljandi sé, eða fremur en önnur héruð, en eftir fumvarpinu eiga Árnesingar fyrir það, að nál. helmingur þeirra notar aðeins aðra brúna, að borga - segi og skrifa - hálfan gæslukostnað á báðum brúnum, eða máske meira. Þó það sé nú sanngjarnt, að þeir, sem nota brýrnar á einhvern hátt, borgi gæsluna, þá get ég ekki annað álitið, en að þetta sé nokkuð ósanngjarn skattur á sýslusjóð Árnessýslu, og verður Árnesingum æði tilfinnanlegur, þegar þess er gætt, að sýslusjóðurinn hefur í mjög mörg horn að líta, hvað vega- eða samgöngumál snertir. Þannig hefur til dæmis verið lagt til vegamála, samkvæmt áætlun og tillögum sýslunefndarinnar, á yfirstandandi ári, 1.811 kr. 14 au., og munu þó sýsluvegirnir vera víða ennþá lítt færir yfirferðar nema í þurrkatíð um hásumarið, og verða svo eflaust í mörg ár enn, þó lögð væri til þeirra sama fjárupphæð árlega; og til þess að geta staðist þetta og önnur óumflýjanleg útgjöld sýslusjóðsins hefur verið jafnað niður á hreppana 1.200 kr., því vegagjaldið var aðeins eftir áætlun 1.753 kr. 13 a.; nú má gera ráð fyrir, að frumv. þetta auki útgjöld sýslusjóðsins um 400-500 kr. að minnsta kosti, svo nú verður sýslunefndin að gera annaðhvort framvegis, að láta ógert eitthvað, sem er til nytsemdar og bráðnauðsynlegt fyrir sýsluna í heild sinni eða einstakar sveitir, eða þá að jafna gæslukostnaðinum niður á hreppana, og verð ég að álíta, að þær sveitir að minnsta kosti, sem hvoruga brúna nota, hafi fullgilda ástæðu til að una þeim málalokum illa, og ég segi fyrir mig, að mér þykir hvorugt gott. Úr því nú að útlit er fyrir, að þingmenn okkar Árnesinga hafi ekki fundið neinn heppilegan veg til að ráða þessu brúargæslumáli til lykta, þá verð ég að álíta, að þeir hefðu gert réttara í því, að láta tollfrumvarpið hlutlítið, nema máske reyna til að hafa einhver breytingar-áhrif á það til bóta, heldur en að gerast formælendur þessa fljóthugsaða lagafrumvarps. Ég skal samt geta þess, að ég er enginn vinur brúatollanna, nei, þvert á móti, ég hygg að þeir næðu aldrei tilgangi sínum, heldur mundi tollgæslan, sem hlyti að verða afardýr, gleypa allan brúartollinn og jafnvel meira, eins og ljóslega hefur verið tekið fram á þinginu í sumar, þegar þetta mál var til umræðu; en það er gamalt máltæki: "Af tvennu illu, þá tak ei hið lakara", en frá sanngirninnar "sjónarmiði" er frumvarp þetta miklu verra fyrir Árnessýslu í heild sinni, en tollfrumvarpið með öllum sínum annmörkum.
Ég verð yfir höfuð að álíta, að eftir þessu frumvarpi verði Árnessýsla miklu harðar úti en önnur héruð, þar sem brýr væntanlega verða byggðar, því fylgi þingið sömu stefnu og það hefur gert í sumar, þá verða brýr framvegis byggðar á landssjóðs kostnað, enda er ekkert líklegra og eðlilegra, en þó héruðum verður ef til vill gert að skyldu að kosta gæsluna, þá verða samt Árnesingar að borga sinn hluta af láninu til Ölfusárbrúarinnar, sem önnur héruð verða laus við (að borga nokkuð af byggingarkostnaði sinna brúa), og verður því á einhvern hátt að leggjast skattur á þá, sem ég sé ekki, að verði lagður á annað en landbúnaðinn (að miklu leyti) eftir núgildandi lögum, og því held ég, að "Sveitabóndinn" hefði mátt láta ógert að hrópa hátt til okkar Árnesinga, til að vekja okkur til meðvitundar um, hvílíka ósvinnu "Þjóðólfur" fari fram á, þar sem hann vilji, eins og "Sveitabóndinn" að orði kemst, "velta þessari byrði á þá eina, sem landbúnað stunda, en sleppa öllum öðrum", því ég get ekki annað séð, en að við einir, sem höfum einhvern landbúnað, verðum, eftir því sem nú er uppi á teningnum, að borga "ballið". En að landssjóður geti bæði byggt brýr, eins og landið þarfnast og kostað gæslu á þeim í framtíðinni eða þegar þær fjölga, er óhugsandi, eða þá að þingið yrði að sjá að sér í einhverju tilliti, og vera sparara á "bitlingum" til einstakra manna, en það stundum hefur verið, og álít ég það að vísu engan skaða fyrir landið. Ég verð því eindregið að hallast að þeirri aðalstefnu, sem fram kom í áminnstri "Þjóðólfs" grein í haust, þeirri, að stofna einn sameiginlegan brúasjóð fyrir land allt, sem standi í sambandi við landssjóð, ef því yrði svo fyrir komið, að skattur þessi yrði lagður á eitthvað fleira eða annað en eingöngu landbúnað, og álít þá stefnu miklu betri en allt annað, sem komið hefur fram í þessu máli og mér er kunnugt um. Að skatturinn væri misjafnlega hár á héruðunum, og ef til vill sumsstaðar enginn, þar sem víst væri, að engar brýr væru byggðar nokkurn tíma, það væri ekki nema sjálfsögð sanngirni, og væri að minnsta kosti ekki orsök til annarrar eins óánægju, eins og þessi fljóthugsaða lagasmíð frá síðasta þingi er fyrir hlutaðeigendur. - Um það, í hvaða tilgangi "Þjóðólfs"-greinin í haust mun hafa verið skrifuð,. skal ég ekkert segja, og skiptir í rauninni engu. Þó að Þorlákur í Fífuhvammi hafi lýst því yfir á kjörþinginu í fyrra, að hann væri móti brúartolli, þá var það síður en ekki ástæða fyrir Árnesinga til að hafna honum, heldur þvert á móti, en þá var ekki um annað en brúartoll að ræða; þetta lagafrumv. mun alls ekki hafa verið komið í huga hans þá, því hefði mönnum verið kunnugt, að svo væri, þá efast ég um, að hann hefði fengið öll þau atkvæði, sem hann fékk, og þó Árnesingar yfirhöfuð hafi ávallt borið gott traust til hans, sem þingmanns, þá efast ég um, að hann fái nú við næstu kosningar öll þau atkvæði, sem hann fékk síðast.
Ég þykist nú hafa leitt rök að því, að einn af þeim þremur vegum, sem "Sveitabóndinn" talar um, að séu sanngjarnir, þegar um gæslu á stórbrúm er að ræða, verði eftir lagafrumvarpinu oftnefnda mjög ósanngjarn, hvað Árnessýslu snertir að minnsta kosti, og skal ég í sambandi við það geta þess, að ég þykist hafa skoðað þetta mál hlutdrægnislaust, því ég á heima sunnanmegin við Ölfusá og þarf því oft að brúka brúna á henni.
Árnesingur.
Vér ætlum nú að lofa ritst. Ísafoldar að hugga sína sárþjáðu sál með þessum ofanrituðu línum, enda mun það ærin hugraun fyrir hann, að Árnesingar skuli yfirhöfuð ekki hafa jafn einhliða og takmarkaðar þrákálfaskoðanir, eins og hann sjálfur hefur, bæði í þessu máli og fleirum.
Ritstj.
Tenging í allt blaðaefni ársins 1893

Þjóðólfur, 20. jan. 1893, 45. árg., 3. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur telur mikilvægt að bæta veginn frá Reykjavík til Geysis vegna erlendra ferðamanna, en hann er allt annað en góður, að undantekinni Mosfellsheiði.

Um veginn frá Reykjavík til Geysis.
Blöðin hafa lítilsháttar drepið á, hve gott væri að geta hænt útlenda ferðamenn hingað, og það er víst, að þeir flytja mikla peninga inn í landið, en það þarf að gera eitthvað í þá átt, að þeir vilji koma hingað, og álít ég þá hið fyrsta: að þeir geti átt kost á að ferðast á góðum vegum, því að væru þeir góðir, væri fremur vegur að reisa gistihús með fram þeim.
Sá vegur, sem ég helst ætla að tala um og fjölfarnastur er af útlendingum, er Geysisvegurinn (frá Rvík til Geysis). Hann er allt annað en góður, að undantekinni Mosfellsheiði. Yfir hana er lagður vegur en mjög er ofaníburðurinn grýttur austantil á henni, því það væri mesta þörf á að ryðja hann, en að öðru leyti er vegurinn ágætur. Frá Mosfellsheiði er allgóður vegur austur að Skálabrekkuás, en frá honum og austur á Laugarvatnsvelli er að heita má ófær vegur, einkum þegar bleytur eru. Vegurinn liggur yfir hraun með einlægum klifum og dældum á milli, sem standa fullar af vatni eftir hverja skúr, og þar að auki eru þær mjög holóttar. Ég ímynda mér, að útlendingum þyki ekki mjög fallegt að sjá, þegar aumingja hestarnir eru að festa fæturna í þeim, svo að liggur við slysum, því Íslendingum, sem er þó ekki hrósað fyrir of góða meðferð á hestum, þykir það æði ljótt.
Gjábakkastíg getur enginn talið færan veg, þó það verði að nota hann, og miklu gæti hann verið hægari, ef vegurinn væri lagður á snið upp í hann, en ekki beint upp, eins og hann er nú. Af Laugarvatnsvöllum og austur að Skillandsá í Laugardal er allgóður vegur, að minnsta kosti þá er þurrkar eru; en frá Skillandsá og austur að Brúará, en mjög leiður vegur. Það er brú á Brúará, en mjög ófullkomin, því það liggur víst nærri, að hún sé landinu til ósóma. Þar sem brúin er, er áin breið, og fellur bæði fram af björgum, og einnig að miðjunni ofan í gjá, og brúin er einungis yfir gjána. Út að gjánni eða brúnni er vatnið á milli knés og kviðar, og mjög straumhart og ef nokkur vöxtur er í henni þá er hún ófær. Brúarstæði er gott á henni litlu neðar og hefur vegfræðingur Erl. Zakkaríasson skoðað það, og ætlað á, að brú þar mundi kosta kring um 1.200 kr. Frá Brúará og til Geysis er dágóður vegur.
Ef þessi vegur (frá Rvík til Geysis) væri gerður góður, þá fyrst væri hugsandi að reisa gistihús við Geysi og væri það til, þá mundu færri útlendingar fara áður en þeir sæju Geysi gjósa, og engir fyr en þeir væru búnir að sjá Strokk gjósa, sem þeir hafa þó gert; en mjög spillir það líklega fyrir áliti þessara merkilegu hvera, þegar útlendingarnir koma heim til sín og segjast alls ekki hafa séð Strokk gjósa; þeir hefðu ekki getað beðið eftir gosi úr honum, af því ekkert gistihús væri við hann.
En hvaðan eiga peningar að koma til að gera þennan veg góðan og til að brúa Brúará, sem alls ekki má dragast, því flaki sá, sem er á henni er farinn að verða fúinn. Sýslan, munu sumir segja, á að kosta þennan veg, því hann er sýsluvegur, en það er sama sem að segja: hann á aldrei að verða góður, því hún leggur ekki fram meiri peninga en að eins til að kasta steinum úr götunni við og við.
Ætli þessi vegur fengist ekki gerður að þjóðvegi með aukalögum við þau vegalög sem nú eru, eða þá með því að endurskoða þau frá rótum? Meðan hann er sýsluvegur, verður hann aldrei gerður góður.

1/1 1893.
Vér erum hinum háttv. höf. samdóma um, að nauðsyn beri til, að veita útlendingum, sem hingað koma, meiri þægindi en verið hefur. Auðvitað getum vér ekki lagt jafnmikið í sölurnar fyrir þá, eins og Norðmenn hafa gert á síðari árum, er hafa reist fjölda gistihúsa hingað og þangað eingöngu í þarfir ferðamanna. En vegina er oss ekki vorkunn á að bæta svo, að þeir verði þolanlegir, og ekki mundi það heldur frágangssök, að stofna gistihús við Geysi. Það mundi auka allmjög aðsóknina þangað, og ferðamenn mundu þá dvelja lengur við hverina en ella. Þetta málefni er þess vert, að því sé gaumur gefinn, enda mun því verða hreyft rækilegar áður en langt um líður.
- Að því er snertir brúna á Brúará, getur verið umtalsmál, hvort ekki væri haganlegra að hafa hana neðar á ánni, og leggja veginn til Geysis austur Hellisheiði og Grímsnes. Á það verður nánar minnst í næsta blaði.
Ritstj.


Þjóðólfur, 27. jan. 1893, 45. árg., 4. tbl., bls. 14:
Árnesingar eru nú mikið að hugsa um vega- og brúargerð, eins og fram kemur í þessu fréttabréfi. Erlendur Zakaríasson vegagerðarmaður skoðaði brúarstæði á Brúará og taldi kostnaðinn við að brúa hana ekki nema um 1200 kr.

Árnessýslu (Biskupstungum) 10. janúar
"Um nýjar framfarir í héraði þessu er fátt að segja, og er það vorkunn nú fremur en að undanförnu, því að þetta ár kreppir að mönnum í fleiru en einu tilliti og dregur úr framkvæmdum.
¿¿..
Vegabætur og samgöngur eru nú einnig að verða meir og meir umhugsunarefni almennings; vegir hér innansveitar eru illir, og þó að allmiklu fé sé kostað til þeirra á hverju vori, sér þess litla staði; veldur því bæði kunnáttuleysi í vegagerð og svo hitt, að svo víða þarf viðgerðar, að hvergi verður á einum stað gert neitt verulegt. Til þess að bæta nokkuð úr hinu fyrra, hefur nú hreppsnefndin beðið landshöfðingja að veita 1-2 mönnum héðan úr sveit atvinnu við vegagerð (á þjóðvegum) næsta sumar, í því skyni, að þeir verði á eftir hæfari til að leggja vegi innanhrepps. Talsverður áhugi er vaknaður á því að koma brú á Brúará í stað ómyndarinnar, sem nú er; Erlendur Zakaríasson, vegagerðarmaður, skoðaði í haust brúarstæði á henni og taldi kostnað við að brúa hana eigi nema um 1.200 kr., ef hún væri brúuð rétt fyrir neðan brúna, sem nú er. En jafnframt sló hann því fram til íhugunar, hvort eigi mundi heppilegra að hugsa um dragferju á Brúará neðan til, og leggja svo leiðina út Grímsnes, brúa Sogið nálægt Alviðru og koma svo á þjóðveginn sunnan undir Ingólfsfjalli. Sú leið hefur þann mikla kost, að hún væri um leið beinasti vegur niður á Eyrarbakka, sem vonandi er að verði með tímanum aðalkaupstaður Sunnlendinga. Vér bíðum nú með forvitni og eftirvæntingu glöggrar skýrslu um dragferjuna á Héraðsvötnum, því að, ef það sýnist, að hægt sé að koma dragferju á Brúará neðan til, þá munu margir það heldur kjósa, en brú þar efra. Hvort sem væri mundu Tungnamenn verða að leggja fé til að nokkrum hluta, þó að á sýsluvegi sé, því að vegasjóður Árnesinga hefur í svo mörg horn að líta, að hann mundi eigi gjöra það einn.


Austri, 4. mars 1893, 3. árg., 6. tbl., forsíða:
Jón Jónsson alþingismaður ræðir hér vegamál og nýtt frumvarp séra Jens Pálssonar, sem gekk út á það að vegabótafé yrði að mestu varið til að gera akvegi á mestu flutningaleiðunum.

Smápistlar um landsmál
eftir Jón Jónsson alþm. á Sleðabrjót.
III.
Vegabótamálið.
Á síð. alþ. bar síra Jens Pálsson þm. Dalamanna fram frv. um strandferðir og vegi (Alþt. 1891 C. bls. 133). Um strandferðirnar hefir nú áður verið rætt nokkuð í Austra og því hleyp ég yfir þær. Það er aðeins síð. kafli frv. um vegina, sem ég vildi verja athygli á, því allir munu vera samdóma um það, að það sé eitt hið helsta lífsskilyrði vor Ísl. eins og allra annarra þjóða, að vegirnir batni og samgöngurnar léttist.
Eins og sést á þessu frv. sr. J. P. var aðalbreytingin á gildandi lögum, sem þar var farið fram á sú, að vegabótakostnaðinum yrði mest varið eftirleiðis til að gjöra akfæra vegi um þá staði, þar sem mest vörumagn þyrfti að flytja frá verslunarstöðum. Eins og kunnugt er hafa póstleiðirnar hingað til verið látnar sitja í fyrirrúmi, án nokkurs tillits til, hvort flutningsvegir lægju saman við þá eða ei. Af þessari tilhögun hefir það leitt, að alþýða manna hefir nær aldrei unnið með vakandi áhuga að því að bæta vegina, og slíkt er mjög eðlilegt, þegar vegabótafénu er allvíða varið til þess að sækja lífsnauðsynjar sínar, þá er eðlilegt þó þeim finnist þá oft að vegabæturnar ekki vera gjörðar beinlínis fyrir sig. Og meðan sú tilfinning vaknar ekki í sveitunum, hjá búendum, sveitarstjórnum, og sýslustjórnum, aðeins nauðsynlegt sé að bæta vegina og halda þeim við, eins og fjárhúsunum, og bæjarhúsunum, á meðan er ekki neinna verulegra framfara von í vegabótunum, því það er í þessu, eins og svo mörgu öðru, að hugsunarhátturinn þarf að breytast til þess að framfarirnar komist á.
Til þess að auka áhugann á vegabótunum er eflaust þessi breyting, sem farið er fram á í frv. sr. J. P. hin heppilegasta, því þegar bændur færu að finna það að þeim sjálfum væri verulegur léttir að því að unnið væri að vegabótum sem mest og best, þá mundi áhuginn hjá þeim aukast og koma fram í verkinu.
Þessu frv. sr. J. P. hefir hvarvetna verið tekið vel af þjóðinni, og það verður eflaust borið fram aftur á næsta alþ., það fær því nú ef til vill betri byr þar, því vonandi er, að efri deild þingsins verði ekki annað eins dauðadýki framfaramála þjóðarinnar á næsta alþ. eins og hún var á hinu síðastliðna alþ.
Með þessari stefnu, sem fylgt hefir verið í vegabótunum hingað til, hlýtur öllum að vera það ljóst, að verulegar framfarir eru ómögulegar, því til þess að gjöra alla aðalpóstvegi landsins að rennisléttum vegum þarf svo mikið fé, og svo langan tíma, að flesta mun sundla við, sem hafa fyrir augum sér heill þjóðarinnar í heild sinni. Væru brúaðar stórár, og gjört við verstu faratálma á póstleiðunum mundi vel mega við það sæma, en það er ei framfara von fyrir þjóðina, að kasta út stórfé til þess að gjöra rennisléttar brautir upp á fjöllum, "þar sem hrafnar og tófur eiga mest ferð um", eins og B. Sveinsson sagði einu sinni, en láta allt vera kviksyndi og hraungrýti á sveitavegunum, þar sem mestur hluti þjóðarinnar á ferð um. Að vísu hefir nú í seinni tíð verið varið talsvert meiru fé til aðalpóstveganna í byggðum, en því fé hefir mestu verið varið umhverfis Reykjavík. Vér sem búum á útkjálkum landsins megum skrölta um sömu grjótgöturnar og áður. Til þess að bæta vegina hjá oss, vantar oftast fé þegar um það er beðið.
Það er að mínu áliti og margra annarra, einn stórgalli á þessu frv. sr. Jens, og hann er sá, að þar var eigi gjört ráð fyrir neinni breyting á hreppavegavinnunni, eða neinum auknum fjártillögum til hreppaveganna, það átti að sitja við þetta gamla hálfa dagsverk til þeirra, sem ákveðið er í núgildandi lögum, og sem hver maður átti að mega vinna af sér, það liggur þó ljóst fyrir öllum sem gefa gætur að hreppavegabótunum eins og þær eru nú, að ef nokkur framför á að verða í þeim, þá verður bæði að leggja til þeirra meira fé, og vinna þær vegabætur á sama hátt og aðrar, þ. e. kaupa menn til að vinna þær fyrir fullkomin laun. Að týna saman þessi hálfu dagsverk hefir margt illt í för með sér. Margir húsbændur láta lélegasta manninn sem þeir hafa í vinnuna, bara það sleppi, þá er nóg. Vinnunni er með þessu lagi dreift til og frá um allan hreppinn, því hver vill fá að láta vinna sem næst sér, til þess að þurfa sem skemmst að senda manninn. Afleiðingarnar af þessu eru, að nær hvergi sjást samanhangandi vegagjörðir á hreppavegi, heldur allt einir stefnulausir illa gjörðir vegaspottar, sem unnið er að kunnáttulaust og eftirlitslaust, því fjöldi bænda lætur vinna að þessum vegabótum til þess að leysa sig undan gjaldinu, með því að vinna eitthvað að nafninu, en alls ekki með þeirri hugsun að koma sem mestu í verk af þarflegum og góðum vegabótum í sveitinni. Væru keyptir menn til þessara vegabóta og þeim sæmilega launað, mundu miklu fremur bjóða sig fram menn til að vinna þær ár eftir ár, sem gætu þá með tímanum öðlast bæði æfingu og þekkingu í vegagjörðum.
1. þ. m. Skagfirðinga, (Ól. Br.) bar upp þá breytingartill. við frv. sr. J. P. á síð. alþ. að borgaðar væru úr sveitarsjóði til hreppavegabóta 2 kr. fyrir hvern verkfæran mann í hreppnum. Það komu þegar fram í neðri deild alþ. háværar raddir gegn þessari tillögu og töldu slíkt illþolandi gjaldabyrði fyrir almenning. En slíkt virðist mér vera byggt á stórum misskilningi, því fyrst er það nú hrein og bein mótsögn að biðja alltaf, og það með réttum rökum, um meira fé, úr landssjóði til þeirra vega, sem hann á að kosta, en vilja ekki leggja neitt meira fé til þeirra vega, sem sveitasjóðirnir eiga að kosta, þar sem allir skynberandi menn hljóta þó að sjá að til þeirra vega þarf engu síður að kosta fé - þeir eru alls ekki í betra lagi en þeir vegir sem úr landssjóði eru kostaðir og það er engu minna framfaraspursmál að hreppavegirnir batni heldur en aðrir vegir.
Svo er líka þess að gæta þó lagt sé á gjaldendur nokkuð hærra gjald til þessara vegagjörða, þá geta þeir sjálfir ráðið hvernig því er varið, og það rennur aftur í þeirra eigin vasa, ef þeir hafa dug til að vinna að vegagjörðunum. Af þeim fjárframlögum sem þannig er varið til almenningsþarfa leiðir tvennt gott, það eykur atvinnu í sveitunum og með því er hægt að koma í verk nauðsynlegri framför. Ég hygg það sé engum efa bundið að það væri oft heppilegra fyrir sveitastjórnirnar að hafa til vegabótavinnu með sæmilegum launum handa snauðum mönnum sem lifa á sveitarstyrk, heldur en að leggja þeim alltaf úr sveitarsjóði, og láta þá oft vera iðjulitla haust og vor, eða vinna að illa borgaðri kaupstaðarvinnu.
Það væri vert fyrir kjósendur að athuga vel þessa nýju stefnu, sem kom fram í vegabótamálinu á síð. alþ., og það er vonandi að þeir sannfærist um að aðalatriðið í þeirri stefnu, að leggja mesta áherslu á að bæta flutningavegina, er miklu líklegra til þjóðheilla og framfara en sú stefna í vegagjörðum sem nú er fylgt, en gæta verður þess um leið og aukin eru fjárframlög til vegagjörða úr landssjóði að glæða ekki með lögunum þann hugsunarhátt hjá alþýðu, að rétt sé að koma sér sem mest undan gjöldum til sveitaveganna. Löggjöfin verður að miða til þess að leiða fram hina bestu krafta þjóðarinnar í þessu sem örðu, en forðast allt sem elur upp eigingirnina og smásálarskapinn.


Þjóðólfur, 24. mars 1893, 45. árg., 14. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur segir veginn um Eyrarbakka hafa orðið mjög útundan í vegabótum síðustu ára og sé það undarlegt í ljósi þess að hann er ekki síður fjölfarinn en vegurinn til Reykjavíkur.

Vegurinn um Eyrabakka.
Þó að samgöngu- og vegamálið hafi verið eitt hið mesta áhugamál þjóðarinnar nú í nokkur ár, og mikið hafi verið gert til að endurbæta gamla vegi og leggja nýja, þá hefur vegurinn um Eyrarbakka orðið mjög út undan í því efni, því þegar farinn er vegurinn frá Baugstöðum út á Eyrarbakka og jafnvel að Óseyrarnesi, getur manni komið til hugar, að maður sé fyrir 20 árum að ferðast um einhvern útkjálka landsins, en ekki um annan hinn fjölfarnasta veg á Suðurlandi. Á öllum þessum vegi hefur ekki verið kastað steini úr götu nú í mörg ár, og þó á vegi þessum séu allgóðir kaflar, þá er hann mestallur mjög vondur yfirferðar og má heita, að skepnur geti víðast ekki stigið svo fæti, að þær rekist ekki á lausagrjót, og þar af leiðandi fengið meiðsli á fótum, þegar þær eru að dragast með þungar klyfjar aftur og fram, enda má oft sjá hestafætur hróflaðar af grjótinu, að ég ekki tali um þann háska, sem mönnum er búinn, sem verður það á að ríða hart, sem æði oft kemur þó fyrir, sem náttúrlegt er, því vegur þessi lítur út fyrir að vera greiðfær yfir að líta. Verður því mönnum, sem ekki eru honum kunnugir oft á, að hleypa hestum sínum, og hef ég verið sjónarvottur að voðalegustu byltu, þar sem hestur datt um stein og maðurinn féll af baki og lenti á steini, og var öll ástæða til, þótt maður þessi hefði rotast, enda meiddist hann stórkostlega.
Þetta skeytingarleysi með viðhald á vegi þessum er næsta undarlegt, fyrst og fremst af því, að hann er, eins og ég hef áður tekið fram mjög fjölfarinn, jafnvel engu síður en vegurinn til Reykjavíkur, og svo vegna þess, að Eyrarbakki er mesta framfara og menningarbyggðarlag. Hér er heldur ekki að ræða um stóran kostnað, sem þyrfti til að endurbæta veginn, því ekki þarf að sprengja upp grjót eða leggja nýjan veg, heldur aðeins kasta úr gamla veginum lausagrjóti, sem sjórinn færir upp í hann í stórflóðum og sjávargangi. Ennfremur má geta þess, að í sýslunefnd Árnesinga ætla ég að hafi verið til þessa einn kaupmaðurinn á Eyrarbakka, og ætti engum að vera meira áhugamál en kaupmönnunum þar, að vegurinn að og frá kaupstaðnum geti verið góður. Vegur þessi hygg ég að vera muni sýsluvegur, og er því vonandi, að hin háttvirta sýslunefnd Árnessýslu láti ekki lengur dragast að gera umbætur á því, sem ég hef nú tekið fram að ábótavant sé. Um mál þetta hefur verið kvartað af sýslunefnd Rangárvallasýslu fyrir nokkrum árum, en því ekki verið sinnt af þeim, sem hlut eiga að máli.
Ég hygg, að enginn geti með sanni sagt, að hér sé kvartað um að þetta að óþörfu, því að ef ekki verður bráðlega að gert, má búast við að slys hljótist af, og ætti hið nýafstaðna sorglega atvik á Hellisheiðarveginum, að vera knýjandi hvöt til, að menn gættu sem best að því, að hafa vegi sem greiðasta og hættuminnsta, þar sem það er mögulegt.
Hala, í janúar 1893.
Þ. Guðmundsson.


Ísa-fold, 12. apríl 1893, 20. árg., 19. tbl., forsíða:
Hér er að finna nákvæma lýsingu á dragferjunni á Héraðsvötnum eftir höfuðsmiðinn, Einar B. Guðmundsson.

Dragferjur.
Þó að lýst væri stuttlega dragferjunni á Héraðsvötnunum vestari í vetur, mun hinni ýtarlegu lýsingu, er hér fer á eftir, eftir höfuðsmiðinn, hr. Einar B. Guðmundsson á Hraunum, engan veginn of aukið. Hún er svo nákvæm og skilmerkileg, að meðalgreindum mönnum og sæmilega högum er naumast ofætlun að gera dragferjur eftir henni hér um bil hvar sem er, og getur það komið í góðar þarfir víða þar, sem annaðhvort er óbrúandi eða svo kostnaðarsamt, að ókleyft verður í bráð eða lengd.
Þrátt fyrir mikinn áhuga á brúargerð hér á landi nú orðið og sæmilegt örlæti á fjárframlögum til þess af þingsins hálfu, verður þess æðilangt að bíða, að brýr fáist á þau vatnsföll hér á landi, er brýna nauðsyn ber til. En fyr er gilt en valið sé, og virðist engin frágangssök að bjargast við dragferjur eða svifferjur hingað og þangað til bráðabirgða, á þau vatnsföll, er fyrirsjáanlegt er, að ekki muni verða brúuð fyrst um sinn. Verði dragferjan enn nýtileg, er sá tími kemur, að brú fæst á ána, þarf eigi annað en færa hana þá á annað vatnsfall þar nærri, ef við verður komið, eða á annan stað á sömu ánni, og nota hana þannig áfram meðan endist. Dragferjusmíðikostnaðurinn er eigi nema lítið brot af því sem brú kostar, og þó að miklu minna sé gagn að dragferju en brú, þá er samt enn meiri munur á því, hvað dragferjan tekur fram einfaldri ferju. Ókostirnir á dragferjunni eru, að taka verður hana af ánni að haustinu, undir eins og nokkurt ísrek til muna kemur í ána, og verða þá hestarnir að synda eftir sem áður, og það einmitt þegar síst skyldi, að viðhald á þeim er fremur kostnaðarsamt, og að maður verður að fylgja dragferjunni, eins og algengri ferju. En kostirnir eru líka miklir: að þurfa ekki annað, hvort heldur verið er með fé eða hesta eða aðra gripi, en að reka það eða teyma út í ferjuna eins og í rétt og upp úr henni aftur, er að kemur að hinu landinu. Að vetrinum brúar og frostið flestar ár hér á landi vikum og mánuðum saman, en miklum lestaferðum og fjárflutningi að minnsta kosti má sneiða að meiru leyti hjá bæði í leysingum á vorin og eins eftir að ísrek hefst að haustinu. Mjög vænt kvað og Skagfirðingum þykja um þessa dragferju sína; en hún er nú raunar þar, sem alls eigi er hægt að brúa hvort sem er.
Þá kemur hér lýsingin á nefndri dragferju.
Dragferjan á vestri Héraðsvatnaósnum í Skagafirði er 12 ál. lengd að ofan og tæpar 6 ál. á breidd; stefni í báðum endum með nokkrum lotum. Botninn, 10 ál. á lengd og hér um bil 3½ á breidd um miðjuna, er "stokkbyggður" úr 1½ þuml. borðum og "kalfatrað" neðan í allar fellingar með stálbiki yfir (botninn náttúrlega marflatur). Ofan í botninum eru böndin úr 2 þuml. plönkum með fullri breidd. Utan á botninn er svo súðbyrt úr 1¼ þuml. borðum neðst og 1. þuml. borðum að ofan, 7 umför, en töluverð kringing eða áhlaup er á þeim öllum, af því þau eru undin frá báðum endum til að fá útlagið (skábyrðing) sem mest um miðjuna, svo að ferjan yrði skerstöðug; dýptin á sjálfum ferjuskrokknum, þegar lögð er þverslá yfir hann, er þannig ekki meira en nálægt 20 þuml. Böndin í hliðunum eru úr 3 þml. plönkum og ganga allstaðar niður í botnborðin við hlið botnplankanna. Ofan á byrðinginn kemur skjólborð. 3 borðbreiddir eru flettu, og ganga stytturnar innan í því niður í byrðinginn eins og á þilskipum. Skjólborð þetta stendur mikið til lóðrétt upp og eru í báðum hliðum um miðjuna dyr í gegn um það með vel sterkum stuðlum (fullkomin plankabreidd) til beggja hliða, er ná nokkuð upp fyrir skjólborðið, og eru í dyr þessar gerðir hlerar, tæpar 2 ál. á hæð, sem leika á þreföldum, mjög sterkum járnhjörum að neðan. Þegar hlerum þessum er hleypt niður, mynda þeir bryggju til að fara á upp í ferjuna og út úr henni við bæði löndin, en meðan yfrum er dregið, er þeim krókað upp að dyrastuðlunum. Nálægt endanum á hlerum þessum er lítið hjól í annarri röðinni, er trássa leikur í, svo léttara sé fyrir ferjumanninn, að draga hlerann upp og hleypa honum niður. Í framstafni ferjunnar er vinda og 1 sveif á afturenda hennar, sem snúið er til beggja hliða, eftir því, hvort farið er austur eða vestur yfir ósinn. Vinda þessi er upphækkandi til beggja enda, með 2 brögðum utan um sig af dráttarfærinu, og hlaupa brögðin jafnhraðan að miðjunni þegar snúið er, en dráttarfærið leikur í hjólum ofan á keipnum báðum megin við, eða réttara sagt milli tveggja hjóla hvoru megin, sem liggja lárétt á keipnum og snúa röðunum saman innan í hlýranum, svo þó ferjan dragist hálf-skakkt yfir - sem að öðru leyti horfir beint í strauminn þegar hún liggur kyrr - þá liggja þó brögðin beint frá vindunni út á keipinn. Á báðum löndum eru 3 ál. háir trébúkkar og í þá er dráttarfærið fest; aftur af þessum búkkum, sem þá að öðru leyti eru fylltir með grjóti, eru 2 stagir úr járnþráðakaðli, 5 faðma langir hvorum megin, er liggja á ská, svo þeir halda á móti átakinu af dráttarkaðlinum, hvort sem það kemur ofan frá eða neðan frá (það kemur nefnilega oft mikill innstraumur í ósinn), en endarnir á þessum vírstögum eru þannig festir í sandinum, að grafin eru niður þvertré, sem þeir standa í gegnum, og borið grjót á þau að ofan. Stagir þessir mega ekki vera úr hampkaðli, af því væta og þurrkur hefur svo mikil áhrif á, að gera hann slakan og stirðan. Dálítið fram í vötnin er lagt akkeri með hlekkjum og kaðli við; kaðlinum er haldið ofan á vatninu með duflum, og er sá kaðall ætíð fastur í ferjunni, þegar hún ekki er brúkuð, til að varna því, að hún fari út úr ósnum, ef dráttarfærið kynni að bila, og fleira er gert til tryggingar, t.d. að ræði eru á ferjunni og árar til taks að bjarga sér að landi með, ef dráttarfærið kynni að bila, meðan verið er að ferja. - Dráttarfærið er 2 þuml. kaðall, og var áformið upphaflega að það yrði tvöfalt, þannig, að endarnir væru festir í stefnið á ferjunni frá báðum hliðum og það léki svo í blökkum á búkkunum, en straumþunginn lagðist þá svo mikið í kaðalinn, að erfitt var að snúa sig yfir með vindunni, enda þykir það nú helsti ókosturinn, að nokkuð er þungt að snúa sig yfir með vindunni, þó að dráttarkaðallinn sé að eins einfaldur, og er því búið að fá spilhjól með "drífara", er verður sett í ferjuna á næsta vori. - Í afturendanum er dálítið upphækkað innra fóðrið og þar eru bekkir settir til að sitja á, en allur miðpartur ferjunnar er ætlaður fyrir hestana, og voru þeir hafðir þar 8 í einu, þegar mikið var að flytja, enda var það sögn ferjumannanna, að umferðin hefði verið þar fullum helmingi meiri yfir ósinn næstliðið sumar en nokkurn tíma hefði áður verið. Allt járn í ferjunni og umbúnaðinum er galvaníserað.
Hraunum 23. febr. 1893.
E. B. Guðmundsson.


Austri, 27. apríl 1893, 3. árg., 11. tbl., bls. 42:
Í fréttabréfi úr Austur-Skaftafellssýslu segir m.a. að samgöngumálið hljóti að verða aðalmál næsta þings.

Austur-Skaftafellssýsla
(Lóni) 8. apríl 1893.
¿¿¿
Samgöngumálið hlýtur að vera aðalmál næsta þings, og er líklegt, að stefna síra Jens Pálssonar verði ofaná í aðalatriðum, einkum ætti að leggja áhersluna á þá grein, að "sjórinn er aðalflutningabraut landsins", og það ætti að sitja fyrir öllu öðru, að leitast við að hrinda samgöngunum á sjó í betra horf, en vagnvegir frá kaupstöðunum upp til sveitanna verða víst fyrst um sinn að mæta afgangi, sökum hins afarmikla kostnaðar, er þeim hlýtur að vera samfara. Póstvegi þá, er fáir nota til flutninga, og aðra vegi, sem líkt er háttað, mætti víst nægja að ryðja, svo að þeir yrðu færir fyrir hesta. Eigi sýnist óyggjandi, að það væri allstaðar æskilegt, að lögleiða 2 kr. gjald á hvern verkfæran mann í stað hreppavegavinnu, þótt það gæti sumsstaðar átt vel við, og kynni að mega gefa sýslunefndum vald til að breyta hreppavegavinnunni í peningagjald, í þeim sýslum, þar sem slíkt þætti hentugra.
¿¿.


Austri, 20. maí 1893, 3. árg., 13. tbl., bls. 50:
Hér er sagt frá sýslunefndarfundi Suður-Múlasýslu en þar var fjallað nokkuð um samgöngumál.

Ágrip
af sýslunefndarfundi Suðurmúlasýslu 11. og 12. apríl 1893.
Fundurinn var haldinn að Búðareyri í Reyðarfirði. Allir sýslunefndarmenn á fundi nema úr Geithella-, Beruness-, Mjóafjarðar og Norðfjarðarhreppum.
12. Að sýsluvegum skyldi vinna þetta ár: á Hólmahálsi (300 kr.), í Eyðaþinghá (100), á Reyndalsheiði (150), á Þórudal (50) á Áreyjadal (60), á Hallormstaðaásum (100) og á Hallormstaðahálsi (100).
13. Sýslunefndin stingur upp á, að til póstvega sé varið á Austurvöllum 450 kr., á Berufjarðarskaði 100 kr., á Breiðdalsheiði 100 kr., til Slenjubrúar 200 kr., til Haugatorfubrúar 30 kr. og til Eyvindarárbrúar 30 kr.
14. Sýslunefndin ákveður ferjustaði á Egilsstöðum, Hvammi og Vallanesi; skuli hlutaðeigandi bændur skyldir til að halda þessar lögferjur. Samþykkt voru og ferjulög fyrir þessa 3 staði, er þurfa að staðfestast af amtsráði og verða auglýst í "Austra".


Ísa-fold, 17. júní 1893, 20. árg., 38. tbl., viðaukablað, forsíða:
Á sýslunefndarfundi í Gullbringu- og Kjósarsýslu var m.a. ákveðið að fá vegfróðan mann til að skoða vegastæði milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Sýslufundargjörðir í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Skýrsla um fund nefndarinnar 1. maí 1893.
Ár 1893, hinn 26. maí, átti sýslunefndin í Kjósar- og Gullbringusýslu fund í þinghúsinu í Hafnarfirði. Fundinum stýrði oddviti nefndarinnar, sýslumaður Franz Siemsen. Allir nefndarmenn voru á fundi nema sýslunefndarmennirnir fyrir Mosfells, Vatnsleysu-strandar, Njarðvíkur og Rosmhvalaness hreppa; af þeim höfðu sýslunefndarmennirnir fyrir Njarðvíkur og Vatnsleysustrandarhreppa engin forföll tilkynnt. Þessi mál voru tekin til meðferðar.
8. Var rætt um gufubátaferðir á Faxaflóa og ákvað nefndin að ganga að boði kaupmanns W. Fischers og taka tiltölulegan þátt í kostnaðinum, en lýsti jafnframt óánægju yfir ferðaáætlun þeirri, sem lá fyrir, þar sem báturinn á millistöðvunum eigi kemur við á leiðinni til baka, svo hlutaðeigandi pláss fyrir þá sök geta eigi haft full not af ferðinni; krafðist nefndin, að þetta væri þegar lagað. Ennfremur áleit sýslunefndin, að tími sá, sem bátnum er ætlaður á ferðum, sérstaklega syðri hluta Gullbringusýslu, sé allt of naumur. - Að því er snertir kostnað þann, sem að tiltölu kemur á sýslufélagið þ. á., ákvað sýslunefndin, að greiða skyldi helminginn af sýslusjóðsgjaldi, en hinn helminginn af sýsluvegagjaldi upp á væntanlegt samþykki amtsráðsins, og fól nefndin oddvita, að útvega samþykkið.
9. Var rætt um vegagjörðir í sýslunni á yfirstandandi sumri og var ákveðið að verja til sýsluvega 1.100 kr. þannig:
Í Kjósarhr. til að gjöra við veginn norðan í Svínaskarði ¿¿¿¿¿¿. 50. kr.
Seltj.n.hr. til að gjöra við veginn frá Kópavogslæk ofan í Fossvog ¿¿ 75 kr.
Garðahr.:
a. til aðgjörðar á veginum frá Hafnarfjarðahrauni að Kópavogslæk, bera
ofan í brýr og ryðja ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. 150 kr.
b. til vegarins yfir hraunið fram á Álftanes ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 200 kr.
c. til vegarins frá Hafnarf. suður að hreppamótum ¿¿¿¿¿¿¿¿. 100 kr.
350 kr.
Njarðvíkurhr. til framhalds vegi frá Ytra-Hverfi í Keflavík ¿¿¿¿¿ 100 kr.
Rosmhvalanesshr. til að laga veginn frá Keflavík út í Garð ¿¿¿¿¿ 100 kr.
Hafnarhr. til að laga veginn frá Ásabotnum ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. 75 kr.
Grindavíkurhr. til að bæta veginn frá Drápshlíð til sýslumarka ¿¿¿.. 350 kr.
1.100 kr.
10. Sýslunefndin fól oddvita að útvega á næsta hausti vegfróðan mann til þess að skoða vegstæði milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og gera áætlun um, hve mikið sú vegagjörð mundi kosta. Var jafnframt ákveðið, að skora á bæjarstjórn Reykjavíkur að skoða og ákveða vegstæði til Hafnarfjarðar í Reykjavíkurlandi.


Þjóðólfur, 17. júní 1893, 45. árg., 28. tbl., forsíða:
Þórleifur Jónsson er ósammála þeim skoðunum sem komið hafa fram í Austra um póstsamgöngur í norðurhluta Austfirðingafjórðungs.

Um póstgöngur í Norður-Þingeyjarsýslu.
(Svar).
Viljið þér, herra ritstjóri, gera svo vel, að taka eftirfarandi grein í blað yðar "Þjóðólf". Hún hefur legið 6 mánuði í salti hjá ritstjóra "Austra" án þess að birtast á prenti, eins og til var ætlast í haust, og flý ég því nú á yðar náðir með hana.
Í tveim blöðum "Austra" hins yngra (I. 13. bls. 49-50 og II, 19. bls. 71-72) eru mjög langorðar greinir tvær um póstgöngur o. s. frv. í norðurhluta hins nýja Austfirðinga-fjórðungs. Fyrri greinin hefur að fyrirsögn: "Bréf af Sléttu", og hin síðari: "Um vegi og samgöngur". Báðar greinir þessar gefa ókunnugum mönnum mjög skakkar skoðanir í flestu á málefnum þeim, sem um er rætt, og mega því ekki ómótmæltar standa, enda því skaðlegri, sem í almæli er, að amtsráðsmaður vor Norður-Þingeyinga sé höfundur beggja greinanna. Höf. þessi, hver svo sem hann er, má ekki með nokkru móti komast upp með það, að bera út í almenning í opinberu blaði það, sem er jafnvillandi frá sannleikanum, eins og þessar tvær greinir eru að mörgu leyti, og af því að enginn hefur orðið til að andmæla, þykir mér ekki þegjandi lengur.
1. Það er þá fyrst II. kafli, "Bréfs af Sléttu", er ég vil snúa mér að. Ég vona, að allir góðir Íslendingar séu ósamdóma höf. að þessum orðum hans, er hann byrjar II. kafla með: "Oss Íslendingum ríður meira á, að fá góðar samgöngur en nýja stjórnarskrá", segir hann, góði maður, gætandi ekki að því, að allar sannar framfarir koma eins og af sjálfu sér í þeim löndum, þar sem sannarlegt stjórnarfrelsi hefur getað náð fótfestu, eins samgöngur sem annað. Verkin sýna merkin hjá öllum mestu framfaraþjóðunum, og raunin er hér sem ætíð ólygnust.
Höf. segir, að "ráðstöfun neðri deildar alþingis (1891), um að láta aðalpóstinn milli Akureyrar og Seyðisfjarðar ganga eftir sveitum, án þess að ganga um Núpasveit og Sléttu og 1 til 2 bæi í utanverðum Þistilfirði, sé í ýmsum greinum mjög óheppileg". Þetta var blaðran, sem sprakk, og þar um vefur höf. ruglvef sinn. Við það, að aðalpósturinn fer beint yfir Axarfjarðarheiði, gæti að vísu verslunarstjórinn á Raufarhöfn ekki svarað einstöku bréfum sínum aftur um hæl með sama pósti, eins og hann gerir nú, með því að fá póstana þvert á móti því, sem þeir mega og er skipað fyrir, að bíða eftir bréfum hans. Það er aðgætandi, að þetta getur enginn brallað, nema verslunarstjórinn á Raufarhöfn, af því að hann er allra manna pennafærastur. - Væri þar á móti aukapóstur, eins og bæði Alþingi og sýslunefnd Norður-Þingeyinga og amtsráðsmennirnir séra Einar í Kirkjubæ og Sigurður á Hafursá vilja, frá Skinnastað út eftir, ætti hann að ganga út Núpasveit og út að Grjótnesi og eftir Sléttunni á Raufarhöfn. Þessa væri fyllilega þörf, því að Sléttungar eru með þessu lagi, sem nú er, mjög útúrskotnir, en bættist alveg úr því, ef aukapósturinn væri látinn ganga á þann hátt, er nú var sagt.
Engin hæfa er í því, sem höf. "Bréfs af Sléttu" segir viðvíkjandi vegalengd o. s. frv. á Hólsstíg og Axarfjarðarheiði. Hólsstígur er oft bráðófær á vetrardag og ekki fjölfarinn hvorki vetur, vor né sumar, síðan uppsigling fékkst til Kópaskers; á honum er slæmur vegur, og mjög villugjarn á vetrum. Hann er jafnlangur (Úr Núpasveit út á Raufarhöfn) Axarfjarðarheiði eftir mælingu lieutenants Borns frá 1817. Axarfjarðarheiði er með betri heiðum hér í Þingeyjarsýslu bæði að því, hve góður vegur er á henni frá náttúrunnar hendi, og að því, hve oft góð færi eru á henni á vetrum, enda nú þegar fyrir nokkru vörðuð góðum vörðum bæja á milli. Hún má heita sem oftast vel fær allan veturinn, og það þó Hólsstígur sé bráð-ófær. Það getur að minnsta kosti á vetrardag munað um eina viku, sem póstur yrði lengur að fara ytri veginn, heldur en Axarfjarðarheiðina. Til þess að ekki sé hægt að fara yfir hana á dag í skammdegi, sé ég ekki neina ástæðu næstum í hverju veðri sem væri, enda veit ég ekki betur, en að enn í dag standi nýlegur kofi á miðri heiðinni (í Hraunshaga, sem er niðurlagt býli fyrir 4 árum), til að setjast að í, ef endilega þarf; en í flestum vetrum mun þó slíkt ekki koma fyrir að þurfi.
Sjálfsagt er, að láta ekki aðalpóstinn fara nema í lengsta lagi út að Þórshöfn á Langanesi, og þaðan yfir Brekknaheiði, sem, eins og höf. "Bréfs af Sléttu" segir, er fjölförnust, enda miklu betri vegur en hinn sjaldfarni Sauðanesháls, sem er ótræði, - eða þá um Hallgilsstaði yfir Helkunduheiði.
Það, sem þá er eftir að minnast á í "Bréfi af Sléttu" (endirinn), er tómt bull, og sé ég því enga ástæðu til að eyða orðum um það og elta ólar við slíkar lokleysur, sem öllum skynberandi mönnum hljóta að liggja í augum uppi.
2. Sama og um endann á "Bréfi af Sléttu" má að mestu leyti segja um flest í "Nokkur orð um vegi og samgöngur (í Austra II. 19.). Hálfur þriðji dálkur (fyrri helmingur) er eintómt lokleysuhjal. Á allt er litið á landi voru gegnum sótsvört gleraugu, og sjá allir heilvita menn, hvílík fjarstæða slíkt er, sem þar er borið á borð. Það er að vísu vitanlegt, að oss Íslendingum er eins og öðrum mönnum ábótavant, enda "fáir smiðir í fyrsta sinn" meðan viðvaningar eru.
Það er eins og annað hjá þessum höf. skrýtin kenning, að ekki neitt gagn sé að póstgöngum nema það, að góður vegur verði lagður. Fyrir hví er þá verið að hafa nokkurn póst, ef þetta væri satt? En það er sem betur fer ósatt hjá höf., eins og ég vona að allir viðurkenni, og þarf ekki annars hraknings, enda er það fífldirfska og öfgar, að gera sýslunefnd Norður-Þingeyinga, sem hefur ábyrgð gerða sinna, slíkar órýmilegar getsakir, sem þessi höf. gerir.
Ég nenni nú ekki í þetta sinn, að vera að setja ofan í við höf. þennan meir en orðið er. Aðeins gleður það mig, að Norður-Mýlingar eru með oss Norður-Þingeyingum yfir höfuð í því, að haga póstgöngunum eins og neðri deild alþingis samþykkti 1891 og sýslunefnd Norður-Þingeyinga hefur aftur og aftur farið fram á og mun enn halda fram, þrátt fyrir mótþróa amtmanns vors og amtsráðsmanns. Það voru einmitt Norður-Mýlingar, er vér Norður-Þingeyingar að upphafi vorum hræddir um, að mundu verða á móti þessu, einkum Seyðfirðingar, af því að þeir fá líklega ofurlítið seinna bréf af Akureyri, ef pósturinn er látinn ganga eftir sveitum, í stað þess sem nú er yfir öræfi.
Mér er óhætt að segja, að vér Norður-Þingeyingar erum þeim, og sérstaklega amtsráðsmönnum þeirra séra Einari og Sigurði að Hafursá, mjög þakklátir fyrir það, að þeir hafa tekið eins og góðir drengir undir þetta áhuga- og velferðarmál vort, er oss finnst vera, og ekki látið villa sig af ranghermi misjafnrar raddar, er, sem betur fer, mun ein uppi standa í öllum Austfirðingafjórðungi.
Skinnastað, 21. sept. 1892.
Þórleifr Jónsson.


Ísa-fold, 21. júní 1893, 20. árg., 39. tbl., bls. 155:
Verið er að leggja nýjan veg upp á Mosfellsheiði og vinna að þessu 34-35 verkamenn undir stjórn Erlendar Zakaríassonar.

Vegagerð.
Fjórðungur mílu er fullger af hinum nýja vegi upp á Mosfellsheiði, út úr Hellisheiðarveginum hérna megin við Hólmsárbrúna, skammt fyrir ofan Hólm. Vegarstæðið er ágætt og greiðunnið það sem af er, nærri því upp á móts við Miðdal; en bráðum taka við hjallar, upp á heiðarbrúnina; þegar þagnað kemur, er aftur mikið greiðfært. Að vegagerð þessari vinna nú 34-35 verkamenn, undir forustu Erlendar Zakaríassonar. Það hefir viðrað illa fyrir þá til þessa: stórrigningar og rosar, en allt af hafa þeir samt haldið áfram.
Að leggja niður Reynisvatns- og Seljadalsveginn upp á Mosfellsheiði og nota í þess stað austurveginn upp fyrir Hólm sparar landssjóði á að giska 20-30.000 kr. (sbr. Ísafold 21. jan. 1891) að upphafi, en miklu meira, er viðhaldið er athugað, sem hefði orðið margfalt kostnaðarsamara á gömlu vegarstefnunni, vegna árennslis og vatnagangs. - Vitanlega hefði sparnaðurinn orðið helmingi meiri og fram yfir það, ef það snjallræði hefði verið tekið í upphafi, að hafa sameiginlegan veg til Þingvalla og Ölfuss frá Rvík upp fyrir Lyklafell og sneiða þar með alveg hjá Svínahrauni meðal annars.


Ísa-fold, 21. júní 1893, 20. árg., 39. tbl., bls. 155:
Fyrsti íslenski verkfræðingurinn, Sigurður Thoroddsen, er kominn til landsins og hefur verið ráðinn af landshöfðingja m.a. til að rannsaka og afmarka vegastæði á Hellisheiði.

Íslenskur verkfræðingur.
Hinn fyrsti lærður verkfræðingur íslenskur, cand. polytechn. Sigurður Thoroddsen, er hingað kominn alfarinn með síðasta póstskipi, hefir dvalið árlangt í Noregi, og fengist þar að mun við vegagerð og brúa, og kynnt sér þar ýms mannvirki í sinni vísindagrein. Hingað er hann ráðinn af landshöfðingja samkvæmt fjárveiting síðasta alþingis. Hið fyrsta verk hans hér mun eiga að verða að rannsaka og afmarka vegarstæði á Hellisheiði, því hinu illa hafti, er enn ólagður yfir vagnvegur af leiðinni héðan austur að Ölfusárbrú; hún er meira að segja vegleysa orðin, þrátt fyrir kostnaðarsama vegabót(?) þar fyrir eigi mörgum árum, eftir Eirík í Grjóta og þá félaga.
Líklegt væri, að Alþingi léti nú verða af því að gera vegfræðingsstöðuna hér að föstu embætti, í stað þess að láta sér duga að fá mann í bili við og við, sinn í hvert skipti, svo að verk þeirra verða öll í molum, og samkvæmnin þá eftir því, að hætt er við, eins og eðlilegt er.


Ísa-fold, 24. júní 1893, 20. árg., 40. tbl., bls. 158:
Meðal nýmæla í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar er talsverð hækkun á vegabótafé og eru 3.000 kr. ári ætlaðar Sigurði Thoroddsen verkfræðingi.

Fjárlaganýmæli.
Ætlað er á 1.140.000 króna tekjur til handa landssjóði á fjárlagatímabilinu 1894 - 1895, og að 44.000 kr. verði afgangs að því loknu.
Meðal nýmæla í frumvarpi stjórnarinnar er helst nefnandi talsverð hækkun á vegabótafénu, upp í 68.000 kr. alls hvort árið. Þar af eru 3.000 ætluð verkfræðing (Sig. Thor.) 50.000 til vegabóta á aðalpóstleiðum og 15.000 til fjallvega. Helmingnum af 50.000 hvort árið á að verja til Hellisheiðarvegarins, sem er rúml. 2½ míla og áætlað að kosta muni framundir 5 kr. faðmurinn eða alls um 50.000 kr., þannig gerður, að nota megi hann sem akveg. Hinum helmingnum af aðalpóstleiðafénu hugsar stjórnin sér að verja til að leggja veg yfir Borgarfjörð að Kláffossbrúnni beggja vegna; ennfremur til að ljúka við veginn yfir Húnavatnssýslu til Blönduóss, er unnið hefir verið að 2 sumur undanfarin, og loks um norðurhluta Suður-Múlasýslu frá Reyðarfirði upp að Lagarfljóti.
Af 15.000 til fjallvega hvort árið er ráðgert að 12.000 fari til þess að ljúka við akveg yfir Mosfellsheiði til Þingvalla. "Eru það einkum skemmtiferðir útlendra ferðamanna, sem hafðar eru í huga, þegar um þessa vegagerð er að ræða; hvar sem litið er, fara þess konar skemmtiferðir í vöxt, og mundi mega gjöra ráð fyrir, að aðsókn ferðamanna til Íslands yrði meiri, ef gjört yrði meira til þess, að ferðalagið yrði þeim þægilegast, en af því mundi í aðra hönd leiða ekki lítinn hagnað fyrir landið, eins og reynsla annarra landa sýnir". Því sem þá er eftir af fjallavegafénu er helst hugsað til að verja til vegabóta á Kaldadal og Grímstungna heiði.
¿¿¿

Ísafold, 24. júní 1893, 20. árg., 40. tbl., bls. 158:
Þjórsárbúar æskja þess að vegur verði lagður yfir Flóann milli brúnna, jafnvel á undan brúarsmíðinu, til léttis og sparnaðar við aðflutning á brúarefninu.

Þingmálafundir.
Árnesingar. Fundur að Hraungerði 21. þ.m.; 23 á fundi; fundarstj. alþm. Þorl. Guðm.; skrif. síra V. Briem.
¿
Þjórsárbúar æskt sem fyrst og með bestum kjörum fyrir héraðið, og að vegur yrði lagður yfir Flóann milli brúnna jafnvel á undan brúarsmíðinu, til léttis og sparnaðar við aðflutning á brúarefninu. Landssjóður skyldi beðinn um 2/3 af kostnaðinum til að brúa Sogið. Ennfr. æskilegt, að Mosfellsheiðarvegur yrði lengdur austur að Geysi, og að landssjóður keypti Strokk og Geysi og reisti þar gistiskála.


Ísafold, 24. júní 1893, 20. árg., 40. tbl., bls. 159:
Ripperda verkfræðingur, sem rannsakaði brúarstæði á Þjórsá sumarið 1891, leggur til að byggð verði fastabrú.

Þjórsárbrúin.
Ripperda verkfræðingur, sem rannsakaði brúarstæði á Þjórsá sumarið 1891, eftir undirlagi landshöfðingja, ræður eindregið til, að hafa þar fastabrú (en ekki hengibrú, eins og á Ölfusá), nálægt bænum Þjótanda. Eftir lægsta tilboði kostar brúin sjálf úr járni 36.000 kr.; brúarstöplarnir (án steinlíms) nær 13.000 kr.; steinlím flutt að brúarstæðinu, 4.000 kr. (200 tunnur); flutningur á brúnni til Eyrarbakka rúm 2.000; timburhús og lausabrú til notkunar við brúargerðina 3.000; flutningur á því frá Khöfn til Eyrarbakka 1.600; fyrir að leggja brúargólfið 5; flutningur á öllu járn- og viðarefni, timburhúsi og flotabrú frá Eyrarbakka til brúarstæðisins 5.710 kr.; umsjón og óviss útgjöld 5.000. Þetta verða samtals um 71.000 kr. Þar við er í fjárveitingunni bætt 4.000 kr. fyrir ófyrirséðum erfiðleikum, verðhækkun á efni o. fl.


Ísafold, 1. júlí 1893, 20. árg., 42. tbl., forsíða:
Talið er að samgöngumálið muni hafa mikinn byr á þingi.

Þingið.
Það er jafnan illt í þingbyrjun að spá fyrir því, hvernig því muni reiða af og hvað það muni helst afreka; en aldrei er það örðugra en þegar þingið er að miklu leyti skipað nýjum mönnum, óreyndum við svo mikils háttar afskipti af landsins gagni og nauðsynjum. Hér eru eigi til fastir þingflokkar, er menn skipi sér í þegar við kosningar til þingsins, með ákveðinni stefnu og ákveðnu ætlunarverki, svo sem algengt er meðal þroskaðri þjóða. Yfirlýsingar og ályktanir þingmálafunda er og nauðalítið að marka yfirleitt, með því að þeir eru svo margir sóttir með hangandi hendi og mikilli deyfð. Það er helst eitthvað á því að byggja, hafi þingmaðurinn eða þingmennirnir sjálfir látið uppi ákveðnar skoðanir á þingmálafundi og fundarmenn aðhyllist þær. En það er hvergi nærri ætíð því að heilsa.
¿¿..
Að öðrum málum mun samgöngumálið hafa mestan byr á þessu þingi. Þjórsárbrúin verður sjálfsagt lögleidd, og vegabótafé að líkindum aukið að mun. Gufubátastyrkur sömuleiðis heldur aukinn en hitt, og strandferðir færðar aftur í sama horf og á undan þessu fjárhagstímabili, nokkuð umbætt þó.


Ísafold, 15. júlí 1893, 20. árg., 46. tbl., fylgiblað:
Á sýslufundi Árnessýslu var m.a. fjallað um samgöngumál.

Sýslufundargjörðir í Árnessýslu.
Ágrip af sýslufundargjörðum í Árnessýslu
á aðalfundi 25.-27. apríl 1893.
Á fundinum mættu auk oddvita sýslunefndarmenn úr öllum hreppum sýslunnar. Þessi mál veru tekin til meðferðar:
7. Tilkynnt samþykki amtsráðsins til þess að vegurinn frá Þorlákshöfn út í Selvog verði sýsluvegur.
21. Bornar saman skýrslur hreppstjóra og presta um tölu verkfærra manna í hverjum hrepp. Eftir þessum skýrslum og upplýsingum kunnugra nefndarmanna ákvað nefndin tölu verkfærra manna í hverjum hreppi þannig:
Í Selvogshrepp ¿¿¿¿ 30 verkfærir
- Ölfushrepp ¿¿¿¿¿ 143 verkfærir
- Grafningshrepp ¿¿¿. 25 verkfærir
- Þingvallahrepp ¿¿¿.. 35 verkfærir
- Grímsneshrepp ¿¿¿.. 154½ verkfærir
- Biskupstungnahrepp ¿. 132 verkfærir
- Hrunamannahrepp ¿¿. 106 verkfærir
- Gnúpverjahrepp ¿¿¿. 67 verkfærir
- Skeiðahrepp ¿¿¿¿¿ 64 verkfærir
- Villingaholtshrepp ¿¿.. 81½ verkfærir
- Gaulverjabæjarhrepp ¿.. 91 verkfærir
- Hraungerðishrepp ¿¿... 72 verkfærir
- Sandvíkurhrepp ¿¿¿.. 73 verkfærir
- Sokkseyrarhrepp ¿¿¿ 328½ verkfærir
Alls 1.402½ verkfærir.
Þá verða dagsverkin 701¼, hvert á 2 kr. 50 a. Þá verður vegagjald sýslunnar þ. á. 1.753 kr. 13 a.
27. Lögð fram skýrsla Erlendar Zakaríassonar um vegaskoðun hans í sýslunni, samkvæmt tillögum síðasta sýslunefndarfundar. Eftir nokkrar umræður um vegmál sýslunnar í heild sinni varð það niðurstaðan, að kjósa nefnd til að íhuga málið og koma fram með ákveðnar tillögur um það fyrir næsta sýslunefndarfund. Jafnframt var oddvita falið að senda skýrslu Erlendar í hverja sveit sýslunnar, til að fá álit hreppsbúa í öllum hreppum. Þetta álit hreppsbúa skyldu allar hreppsnefndir hafa sent til sýslumanns fyrir næsta nýjár, en hann svo afhenda það nefnd þeirri, er átti að undirbúa málið. Í nefndina voru kosnir nefndarmaður Grímsnesshrepps, nefndarmaður Hrunamannahrepps og Brynjólfur Jónsson frá Minnanúpi.
28. Frá Grímsneshrepp kom bæn til nefndarinnar um að fá styrk til að brúa Sogið, og jafnframt um meðmæli nefndarinnar til alþingis, um að leggja fram aðalkostnaðinn við brúargjörðina. Nefndin vildi lofa að leggja fram 1/6 af kostnaðinum, ef alþingi legði fram 2/3, en hlutaðeigandi sveitir, Grímsnes og Biskupstungur, 1/6. Hin umbeðnu meðmæli veitti nefndin fúslega.
29. Oddvita var falið, að fara þess á leit, að reyna að koma fyrir manni hjá Erlendi Zakaríassyni til að læra vegagjörð, í því skyni að geta staðið fyrir vegagjörðum innansýslu og lofaði, að sjá slíkum manni fyrir vinnu eftirleiðis, ef hann reyndist fær til þessa starfa. Oddvita falið að ráða manninn. Bónarbréf um það skyldu komin til oddvita fyrir miðjan maí.
30. Krafa Jóns Árnasonar í Alviðru um 3 kr. endurgjald fyrir tilhjálp við bátfærslu á Soginu upp að hinu fyrirhugaða brúarstæði færð niður um helming.
31. Eftir ósk oddvita í Ölfushrepp leyft að nema úr sveitarreikningi þess hrepps gamlar eftirstöðvar af kostnaði við vegabót á sýsluvegi, að upphæð 24 kr. 81 e.
32. Samþykkt að greiða 22 kr. 5 a. fyrir bráðabirgða-aðgerð á brúnni yfir Baugstaðaá.
33. Samþykkt svolátandi áætlun um tekjur og gjöld sýsluvegasjóðsins 1893:
Tekjur:
1. Eftirstöðvar frá f. á. ¿¿¿¿¿¿¿¿.¿¿¿ kr. 182,73
2. Sýsluvegagjaldið 1893 ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ 1.753,13
3. Tveggja ára vextir af skuld Jóns Magnússonar .. 36,00
Samtals kr. 1.971,86


Þjóðólfur, 19. júlí 1893, 45. árg., 34. tbl., bls. 184:
Á Alþingi er lagt fram frumvarp um brúartoll á Ölfusárbrú.

Alþingi.
IV.
Brúartollar. Jón Þórarinsson og þm. Skaftfellinga bera fram frumvarp um brúartoll á Ölfusá og Þjórsá minnst 20 au. fyrir lausríðandi mann, 10 au. fyrir klyfjahest, gangandi mann, lausan hest og nautgrip en 5 au. fyrir hverja sauðkind. Tollheimtan af Ölfusár-brúnni á að byrja 1. jan. 1894 og af hinni jafnskjótt sem hún er fullger. Aftur á móti á landssjóður að gefa upp 20.000 kr. lán sýslnanna og jafnaðarsjóðs til Ölfusárbrúarinnar.


Ísafold, 26. júlí 1893, 20. árg., 49. tbl., bls. 194:
Á Alþingi eru menn ekki sammála um brúartolla.

Alþingi.
Lög frá Alþingi. Lokið við frá því síðast:
¿¿¿..
Þjórsárbrúin. Frv. um hana búið í neðri deild; samþ. óbreytt (75.000 kr.)
¿
Brúartollar. Nefndin í því máli klofin. Meiri hlutinn, þingmenn Rangæinga og 1. þm. Árnesinga, vilja engan brúartoll hafa, en láta sýslusjóðina (Árness og Rangárvalla) kosta gæslu Ölfusárbrúarinnar, en landssjóð kosta viðhaldið og gefa þar að auki upp helming lánsins til brúarinnar. Þjórsárbrúna vilja þeir ekki láta hugsa neitt um fyr en hún er komin á.
Minni hlutinn, þeir Guðl. Guðmundsson og Jón Þórarinsson, halda fast við brúartoll á báðum brúnum, en hafa fært hann niður nokkuð: 15 aur. fyrir lausríðandi mann, 10 a. fyrir klyfjahest, gangandi mann, lausan hest og nautgrip, og 3 aura fyrir sauðkind hverja.


Ísafold, 26. júlí 1893, 20. árg., 49. tbl., bls. 194:
Brúin yfir Hvítá í Borgarfirði hjá Kláffossi er nú tilbúin og er vel látið af henni.

Kláffossbrúin.
Brúin yfir Hvítá í Borgarfirði hjá Kláffossi var fullger laugardag 22. þ.m. Er vel af látið bæði brúnni sjálfri og stöplunum undir henni. Er nú tekið til að leggja veg að henni yfir mýrina fyrir norðan ána; það er skilyrðið fyrir, að brúin verði almennilega notuð.


Þjóðólfur, 4. ágúst 1893, 45. árg., 37. tbl., forsíða:
Í frétt frá Alþingi segir m.a. að nefnd um brúartolla hafi ekki geta komið sér saman um málið.

Alþingi.
VII.
Brúartollur. Nefnd sú, er skipuð var til að íhuga frumv. um tollgreiðslu af brúnum yfir Ölfusá og Þjórsá, hefur ekki komið saman. Minni hlutinn (Guðl. Guðm. og Jón Þórarinsson) heldur tollinum eindregið fram, en vill hafa hann nokkru lægri, en upphaflega var farið fram á. Meiri hlutinn (þingmenn Rangvellinga og 1. þm. Árnesinga) vill engan toll hafa, og hefur komið fram með nýtt frumvarp þess efnis, að landshöfðingi hafi yfirumsjón með brúnum, að kostnaðinn við gæslu þeirra skuli greiða úr sýslusjóðum Árness- og Rangárvallasýslu, en allan kostnað, er viðhald þeirra útheimtir, úr landssjóði. Við 1. umr. þessa máls í Nd. mælti landsh. með þessu nýja frumv. og í gær var það samþykkt í deildinni við 2. umr. Tollfrumv. þar með fallið.
Lög afgreidd frá alþingi eru nú orðin alls 14. Fjögur hafa áður verið nefnd hér í blaðinu. Hin eru:
12. Lög um brúargjörð á Þjórsá (75.000 kr. fjárframlag úr landssjóði til brúar á Þjórsá hjá Þjótanda).


Ísafold, 5. ágúst 1893, 20. árg., 52. tbl., forsíða:
Brúartollar voru felldir í neðri deild Alþingis eftir miklar umræður.

Brúartollar.
Felldir voru þeir í neðri deild, með mjög litlum atkvæðamun, en samþykkt í þess stað, að landshöfðingi hafi yfirumsjón með brúnum báðum (á Þjórsá og Ölfusá), kveði á um meðferð þeirra og gæslu og leggi sektir við brotum allt að 100 kr. Gæslukostnaðinn greiði sýslusjóður Árness- og Rangárvallasýslna, en landssjóður viðhaldskostnað.


Þjóðólfur, 18. ágúst 1893, 45. árg., 39. tbl., bls. 155:
Verið er að byggja brú yfir Fjarðará í Seyðisfirði.

Norður-Múlasýslu
22. júlí:
¿¿¿
Brú er nú verið að byggja yfir Fjarðará í Seyðisfirði; var fengið 4.000 kr. lán úr landssjóði til þess að koma henni upp fyrir. Tók kaupmaður Otto Wathne að sér brúargjörðina og sendi hann brúarviðina með "Uller"; er smíðinu bráðum lokið.
¿¿¿


Ísafold, 30. ágúst 1893, 20. árg., 59. tbl., forsíða:
Samgöngumálum var sinnt af miklum áhuga á Alþingi þetta árið og var t.d. fjárveiting til vegabóta nær tvöfölduð.

Afrek þingsins.
Mikið lík eru þau því, sem Ísafold spáði í þingbyrjun.
¿¿¿
Skattamál voru látin alveg óhreyfð, en samgöngumálum sinnt af talsverðum áhuga. Þingið samþykkti ekki einungis fyrirstöðulaust hið stóra stökk, er stjórnin hafði gert í fjárlagafrumvarpi sínu að því er snertir fjárveiting til vegabóta, upp í 68.000 á ári úr 35.000-36.000., heldur færði einnig upp um þriðjung fjárveitinguna til strandferða, þannig, að nú er von á hér um bil þrefalt fleiri strandferðum en áður, eða 15 alls, og með allt að helmingi fleiri viðkomustöðum í mörgum þeirra.
Áhuginn á að efla og bæta samgöngur lýsti sér enn fremur í eindrægni þingsins í ríflegri fjárveiting til að brúa Þjórsá, 75.000., svo mikilli mótspyrnu sem það fyrirtæki mætti þó áður, og loks í því, að nú gengu fram ný vegalög, - eftir margar atrennur á undanfarandi þingum -, sem vera mun talsverð umbót að.
Alþingi
XVIII.
Fjárveitingar. Hér skal talið í einu lagi það sem helst er fréttnæmt úr fjárlögunum 1894 og 1895, eins og þingið skildi við þau, svo sem afbrigði frá því sem áður hefir verið eða það sem almenningi mundu forvitni að vita.
Vegabótafé. Það verður nú 141.000 kr. á fjárhagstímabilinu, og skiptist þannig: 3.000 kr. hvort árið handa vegfræðing til að standa fyrir vegagjörðum, 50.000 kr. hvort árið til að bæta vegi á aðalpóstleiðum, og 15.000 kr. hvort árið til fjallvega. Enn fremur 5.000 kr. fyrra árið til brúargjörðar á Héraðsvötnum, með því skilyrði, að sýslunefnd Skagfirðinga leggi fram það er á vantar til að fullgera brúna, og setji landssjóði að kostnaðarlausu svifferju á aðalpóstleiðinni yfir Héraðsvötnin.


Ísafold, 30. ágúst 1893, 20. árg., 59. tbl., bls. 235:
Ný vegalög hafa verið samþykkt á Alþingi.

Lög frá Alþingi.
Hér birtist enn nokkuð af lögum þeim, er afgreiddust frá þinginu:
XXXIV. Lög um vegi.
I. kafli
Um skipting á vegum.
1. gr. Vegir á Íslandi eru: flutningabrautir, þjóðvegir, fjallvegir, sýsluvegir og hreppsvegir.
2. gr. Flutningabrautir eru þeir vegir, sem aðalvörumagn helstu héraða er flutt um. Þjóðvegir eru þeir vegir, sem aðalpóstleiðir liggja um. Fjallvegir eru þeir vegir yfir fjöll og heiðar, sem eigi teljast til neins annars vegaflokks. Sýsluvegir eru þeir vegir, sem liggja sýslna á milli og um hverja sýslu, þar sem mest er þjóðbraut, svo sem í kauptún og almenn fiskiver, enda séu það eigi flutningabrautir eða þjóðvegir. Hreppsvegir eru vegir hreppa á milli og um hreppa, sem hvorki eru flutningabrautir, þjóðvegir né sýsluvegir.
3. gr. Flutningabrautir skulu fyrst um sinn vera í þessum héruðum:
1. Frá Reykjavík austur í Rangárvallarsýslu.
2. Frá Reykjavík austur að Geysi.
3. Frá Eyrarbakka upp Árnessýslu.
4. Upp Borgarfjörð.
5. Frá Blönduósi vestur Húnavatnssýslu.
6. Frá Sauðárkrók inn Skagafjörð.
7. Frá Akureyri inn Eyjafjörð.
8. Frá Húsavík inn Reykjadal.
9. Frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal til Lagarfljóts.
4. gr. Landshöfðingi ákveður eftir tillögum sýslunefnda, amtsráða og vegfræðings, hvar leggja skuli flutningabrautir um héruðin.
5. gr. Þjóðvegir eru: 1. frá Reykjavík til Ísafjarðar, 2. frá Reykjavík til Akureyrar, 3. frá Akureyri til Seyðisfjarðar, 4. frá Reykjavík til Prestsbakka, 5. frá Prestsbakka til Eskifjarðar. Liggja skulu vegir þessir um aðalbyggðir landsins, svo beint sem verða má milli endastöðvanna eftir staðháttum.
II. kafli.
Um flutningabrautir, þjóðvegi og fjallvegi.
6. gr. Flutningabrautir, þjóðvegir og fjallvegir eru undir yfirumsjón landshöfðingja, og greiðist kostnaður til þeirra yfir höfuð úr landssjóði. Ef þjóðvegur liggur um sýslu endilanga, skal allt að helmingi sýsluvegargjalds í þeirri sýslu ganga til póstvegarins.
Það fé, sem gengur til þessara þriggja vegaflokka, skal veita í fjárlögum hvers fjárhagstímabils, og skal hverjum flokki fyrir sig ákveðin viss upphæð.
7. gr. Svo skal vegi gjöra á flutningabrautum, að vel séu akfærir hlöðnum vögnum á sumrum; vegagjörðinni skal landshöfðingi ráðstafa eftir tillögu vegfróðs manns eða verkfræðings landsins, ef slíkur verður skipaður.
8. gr. Á þjóðvegum skal svo bæta torfærur með vegaruðning og brúargjörð, að þeir séu greiðir yfirreiðar. Skal það vera aðalregla, að fyrst séu bættar þær torfærur, sem mestan farartálma gjöra. Að öðru jöfnu skal fyrir bæta farartálma á fjölförnustu vegum.
9. gr. Rétt er, að fjallvegir séu reiðfærir gjörðir og varðaðir, svo sem nauðsyn ber til.
III. kafli.
Um sýsluvegi.
10. gr. Sýslunefndir semja tillögur um, hverjir skuli vera sýsluvegir í sýslu hverri, en amtsráðið leggur á það samþykki sitt.
11. gr. Kostnaður við sýsluvegi greiðist úr sýsluvegasjóði. Í sýsluvegasjóð greiðir hvert hreppsfélag 1 kr. 25 a. fyrir hvern verkfæran mann í hreppnum 20-60 ára, í hverri stöðu sem er.
Hreppstjórar skulu á hverju ári fyrir lok marsmánaðar senda sýslumanni nafnaskrár yfir alla verkfæra menn 20-60 ára, sem heimili hafa í hreppum. Eftir skrám þessum ákveður sýslumaður sýsluvegagjald hvers hrepps. Gjaldið skal borgað úr sveitarsjóði og greiðist sýslumanni á manntalsþingi.
12. gr. Fela má sýslunefnd hlutaðeigandi sýslunefndarmanni eða hreppsnefnd umsjón með sýsluvegagjörð, hverjum í sínum hrepp, og ber þeim, sem umsjón er falin, að ráða þann verkstjóra, sem hæfur er til þess starfa.
13. gr. Sýsluvegir þeir, sem liggja út frá flutningabrautum eða eru framhald af þeim, skulu gjörast akfærir þar sem því verður við komið. Um vegabætur á sýsluvegum að öðru leyti skipar sýslunefnd fyrir, og gilda um þær sömu reglur, sem um umbætur á þjóðvegum og fjallvegum.
14. gr. Oddviti sýslunefndar skal ár hvert senda amtsráði reikning yfir tekjur og gjöld sýsluvegasjóðsins.
15. gr. Heimilt er sýslunefnd með samþykki amtsráðs að verja sýsluvegagjaldi til að styrkja gufubátsferðir í sýslunni.
IV. kafli.
Um hreppavegi.
16. gr. Hreppsnefnd semur tillögur um, hvar hreppsvegi skuli leggja í hreppi hverjum, og hvernig þeir skuli vera að breidd og ásigkomulagi, og leggur tillögur sínar undir samþykki hlutaðeigandi sýslunefndar.
17. gr. Á vorhreppaskilaþingi skal greiða til kostnaðar við hreppsvegi 1 kr. 25 a. fyrir hvern verkfæran mann í hreppnum 20-60 ára. Gjald þetta greiðir hver húsbóndi fyrir heimilismenn sína. Ef gjald þetta er eigi unnið upp árlega, leggst afgangurinn í vegasjóð, er hreppsnefndin geymir og hefir ábyrgð á.
18. gr. Nú er lítið að vinna að hreppsvegum, í hreppi: má sýslunefnd þá ákveða, að allt að helmingi hreppsvegagjalds greiðist í peningum í sýsluvegasjóð. Sé aftur á móti hreppsvegavinna mikil í einhverjum hreppi, af því að þar eru engar flutningabrautir. Þjóðvegir né sýsluvegir, en vegir um hreppinn langir og torfærir, má sýslunefndin ákveða, að helmingur á móts við hreppsvegagjald hreppsins greiðist úr sýsluvegasjóði.
19. gr. Hreppsnefndin hefir umsjón um vinnu og aðgjörð á hreppsvegum, og skal hún skipa umsjónarmann, einn eða fleiri, til að sjá um vinnuna, svo og ráða smið, er brýr skal gjöra.
20. gr. Oddviti hreppsnefndar skal á ári hverju senda sýslunefnd reikning yfir tekjur og gjöld hreppsvegasjóðsins.
XXIV. Lög um vegi.
V. kafli.
Almenn ákvæði.
21. gr. Brýr skal gjöra á ár og læki, þar sem þörf er á, þegar efni og ástæður leyfa. Rétt er að reisa sæluhús af vegabótafé, þar sem mikil umferð er á vetrum.
22. gr. Hver landeigandi er skyldur að leyfa, að vegur sé gjörður um land hans, og efni tekið þar sem næst er, án endurgjalds, ef eigi er skemmt tún, engi, yrkt land eða umgirt land. Sé vegur lagður um tún, engi, yrkt land eða umgirt land, svo og ef vegarefni er tekið landeiganda til skaða, skulu fullar bætur fyrir koma, eftir mati dómkvaddra manna. Skaðabætur greiðast úr landssjóði, sé vegurinn flutningabraut eða þjóðvegur, úr sýslusjóði, ef vegurinn er sýsluvegur, og úr hreppsvegasjóði, sé hann hreppsvegur.
23. gr. Hver sem af ásettu ráði skemmir vegi, brýr, vörður, ferjur eða sæluhús, skal sæta hegningu samkvæmt 296. gr. alm. hegningarlaga 25. júní 1869.
24. gr. Brot gegn lögum þessum eru lög nr. 25, 10. nóv. 1887, og lög nr. 11, 7. febr. 1890, úr gildi numin.
XXXIX.
Lög um gæslu og viðhald á brúm yfir Ölfusá og Þjórsá.
1. gr. Landshöfðingi hefir yfirumsjón með brúnni á Ölfusá hjá Selfossi og brúnni á Þjórsá hjá Þjótanda, þegar hún er komin á, kveður á um meðferð þeirra og gæslu og leggur sektir allt að 100 kr. við brotum.
2. gr. Kostnað við gæslu brúnna skal greiða úr sýslusjóðum Árness- og Rangárvallasýslu, og skiptist hann á nefnd sýslufélög eftir hlutfallinu milli samanlagðrar tölu lausafjárhundraða og jarðarhundraða í þeim ár hvert.
3. gr. Allan kostnað, sem viðhald brúnna útheimtir, skal greiða úr landssjóði.


Ísafold, 13. sept. 1893, 20. árg., 62. tbl., forsíða:
Hér birtist athyglisverð grein um héraðavegi, en svo nefnir blaðið sýsluvegi og hreppavegi einu nafni, en blaðið telur vegagerð hafa almennt tekið miklum framförum síðan landsstjórnin vitkaðist loks til að útlenda vegfræðinga til gera hér vegi og kenna innlendum mönnum vegagerðarlist.

Héraða-vegabætur.
Það er rænulaus maður eða harla tilfinningasljór um hagi landsins, er eigi gleðst yfir þeirri miklu breytingu, þeim snöggu umskiptum til batnaðar, sem orðið hafa á lands-vegagerð hér á landi á um síðasta áratug. Það er eigi svo að skilja, að miklu sé af lokið af því stórkostlega verkefni, að leggja góða vegi eða siðaðri þjóð samboðna um land allt. Slíks er engin von á jafnskömmum tíma og liðinn er síðan er farið var að gera hér vegi af viti og kunnáttu. Framförin er í því fólgin, að nú er lið í því, sem gert er. Það er ekki nýtt kák, eins og áður, margoft innan skamms verra en það sem eftir hestafæturna lá, meðan þeir einir fengust við að leggja vegi um landið. Þeir bera í stuttu máli eins og gull af eyri, þessir vegakaflar, er gerðir hafa verið á landssjóðs kostnað síðan landsstjórnin vitkaðist loks svo, að hún fór að fá útlenda vegfræðinga og vegavinnumenn til þess að gera hér vegi og kenna innlendum mönnum vegagerðarlist.
Vitanlega eru vegir þessir samt sem áður engan veginn svo fullkomnir, sem verða má eða gott þykir í öðrum löndum, þar sem mikið er með vegi að gera. Vegna fátæktar vorrar og þess annars, að umferð er hér víðast fremur lítil, þá er höfð hér hin kostnaðar- eða íburðarminnsta vegagerð, er við þykir mega hlíta meðal menntaþjóðanna, og því eigi nærri því svo ramgjör og endingargóð sem ákjósanlegast væri, þó að harla ólíku sé saman að jafna því sem áður gerðist hér. Viðhald á henni verður því kostnaðarsamara en ella mundi. En hvað sem því líður, þá er umbótin í þessu efni stórmikil, einhver hinn álitlegasti framfaravottur, er vér höfum af að segja.
Þetta sjá nú og skilja flestir þeir, er einhver kynni hafa af hinni nýju vegagerð. Það var öðruvísi fyrst þegar hún hófst. Það voru eigi einungis ófróðir almúgamenn, sem hristu höfuðið yfir annarri eins vitleysu og að vera að hauga upp moldarbing og kalla það veg, heldur mátti heyra hámenntað þingmannsefni fárast út af því á þingmálafundi um þær mundir, að vera að panta vegagerðarmenn frá útlöndum, í stað þess að láta landsmenn njóta þeirrar vinnu. Jafnvel fyrir honum og hans nótum vakti þá enn sú hugsun, að vegavinna væri svona hér um bil niðursetuvinna.
En víða um land hafa menn enn lítil sem engin kynni af hinni nýju vegagerð, þó að sýnishorn sé raunar komið af henni í alla landsfjórðunga. Því bar það til nú á þessu sumri, að maður tók til að beita hinni nýju kunnáttu eða nýju aðferð í afskekktu héraði, en fékk óðara það vottorð almenningsálitsins þar, að hann hefði "auðsjáanlega" ekkert vit á, hvernig vegi ætti að leggja: þeir sáu hann sem sé meðal annars sveigja veginn fyrir litla brekku, í stað þess að halda þverbeint upp hana, svo sem áður þótti sjálfsagt.
En þó að menn sjái annars almennt yfirburði hinnar nýju vegagerðar og viðurkenni þá í orði, þá eru þeir samt engan veginn svo rótfastir orðnir í meðvitund manna sem skyldi. Þegar til framkvæmdanna kemur er ýmist sem þeim þyki þó ekki neitt leggjandi í sölurnar fyrir þessa yfirburði, eða þá að þeir hugsa að eigi þurfi nema að hafa séð almennilega gerðan veg til þess að geta gert slíkan sjálfur.
Þetta sést greinilega á héraða-vegunum, en svo eru hér nefndir einu nafni fyrir stuttleika sakir sýsluvegir og hreppavegir.
Það er hraparlegt að sjá þar enn dafna víðast sama vankunnáttu-kákið og áður var algengt um alla vegagerð hér á landi. Þarf eigi að lýsa, hvernig það er lagað. Einkennið er það, að áður langt um líður kjósa menn og skepnur af illu til heldur að fara utan hjá veginum en eftir honum, sé þess nokkur kostur. Það er sjálfsagt, að frá þessu eru nokkrar undantekningar; en það er þá oft líkara tilviljun en kunnáttu og fyrirhyggju.
Ráðið til að koma þessu af er það, að hafa við hverja vegagerð að minnsta kosti verkstjóra, sem kann hina nýju aðferð, hefir numið hana verklega. Hefði verið ráð í tíma tekið og sendir einn eða tveir menn úr hverri sýslu í vinnu við landssjóðsvegagerð þegar er lag komst á hana, þá væri nú ekki svo mikill hörgull á slíkum verkstjórum. En þó að það hafi verið vanrækt, þá eru samt nú orðið til svo margir, sem vinnu þessa kunna, að vel mætti fá slíka menn í öll héruð landsins, ef það væri fast sótt. Hér nærlendis við Reykjavík að minnsta kosti ætti ekki að þurfa að leggja svo nokkurn vegarspotta jafnvel ekki á hreppavegum, að fyrir vinnunni stæði ekki maður, sem kann hina réttu aðferð að því. Það er að segja sjálfa vegavinnuna. Hitt, að afmarka vegarstefnu og mæla út vegarstæði svo vel sé hvað halla snertir og annað, það er auðvitað ekki nema á fárra manna færi hér að svo stöddu; en með því að það má gera löngu fyrir fram, á ýmsum tímum, mætti einnig fá sæmilega aðstoð til þess víða.
Hvað hreppavega snertir er þetta sleifarlag mikið því að kenna, að lög gera ráð fyrir að hreppsmenn vinni að þeim sjálfir í dagsverkum. En ókleyft ætti ekki að vera fyrir það, að ráða utanhreppsmann fyrir verkstjóra, ef kunnáttu vantar innan hrepps. Einhver ráð mundi mega finna til þess. Hér er meira um að tefla en margur hyggur. Það er eytt á að giska um 20.000 kr. í hreppavegavinnu á ári hverju; og þó að ekki væri nema helming af því sama sem fleygt í sjóinn sakir kunnáttuleysis, þá er það ærinn skattur á fátæka þjóð; hann er óþolandi og óhafandi.
Til sýsluvegavinnu eru lagðir eintómir peningar; eða að minnsta kosti á sýsluvegagjaldið að greiðast í peningum. Þar er því eigi dagsverkavinnan til neinnar fyrirstöðu því, að ráða til verksins þá sem kunna eða til verkstjórnar að minnsta kosti. En það mun tíðkast enn í flestum sýslunefndum, að sýslunefndarmanni hvers hrepps sé falið á hendur að sjá um sýsluvegavinnuna í sínum hreppi og að sá hinn sami láti annaðhvort orðalaust vinna hana "upp á gamla móðinn", eða þá, ætli hann að fara að stæla nýja lagið, þá kunni hann einnig að gera slíka.
Þetta er raunar hin mesta ósvinna, hrapaleg vanbrúkun á fé, sem lagt er til almennings-þarfa, um 20.000 kr. ári, eins og til hreppaveganna. Það ætti engin sýslunefnd nú orðið að vera við annað en að láta vinna alla sína vegavinnu undir verkstjórn manns, sem kann verkið, - nema rétt einfalda vegaruðning, þar sem hún er látin duga. Hitt er að ausa í botnlausa hít. Með því lagi verða sýslurnar jafnilla staddar með vegi eftir 20, 30 eða 50 ár eins og nú; þar vinnst ekkert áfram; allt verður ónýtt jafnóðum.
Svo er annað. Það mun nú siður í mörgum ef eigi flestum sýslunefndum, að smábita niður sýsluvegaféð í alla hreppana á hverju ári, sitt lítið í hvern. Hver nefndarmaður skarar eld að sinni köku. Það lætur og vel í eyrum og sanngjarnlega, að hver hreppur fái að njóta síns sýsluvegagjalds. En slík stefna er mesta skaðræði. Fyrir það verður hálfu minna úr framkvæmdum en ella mundi; takmarkið næst hálfu seinna: það, að fá góða vegi um sýsluna. Hitt er rétt, að hafa ekki undir nema einn veg í einu, þar fyrst, sem mest er þörfin og mest umferðin, og ljúka við hann áður en tekið er til annarsstaðar, nema hvað hyggilegt getur verið að verja einhverju lítilræði til ruðninga, þar sem þess er mest þörf, eða til þess að gera fært yfir lítils háttar torfærur, auk viðhalds á fullgerðum vegarköflum, er síst má vanrækja.
Þó að hér sé talað um sama frágang á héraðavegum og landsvegum, þá er það eigi svo að skilja, að þeir þurfi endilega að vera jafn-íburðarmiklir eða kostnaðarsamir, heldur að eins hitt, að unnið sé að þeim á réttan hátt, svo að fullum notum komi hvað endingu snertir og annað. Með öðrum orðum, að það, sem gert er af nýjum sýslu- eða hreppavegum, séu réttnefndir vegir, en ekki vegleysa. Eða þá reynt að bjargast við einfalda vegaruðning, þar sem það er takandi í mál. En ekki verið með gagnslaust kák, sem nefnd er vegasmíð, en er margsinnis verra en ógert. Sömuleiðis ríður á, að hafa hæfileg tól og tæki til vegavinnunnar. Ónýt áhöld eða ónóg gera hana að verkleysu.
Með svofelldri lögun eða því um líkri á héraða-vegabótum mundi brátt sjást votta fyrir mikilli framför í því efni, miklum stakkaskiptum frá því sem nú er, þó að ekki sé meira fé til þeirra lagt.


Þjóðólfur, 29. sept. 1893, 45. árg., 46. tbl., bls. 179:
Jakob Gunnlögsson vill leiðrétta misskilning varðandi póstgöngur í Norður-Þingeyjarsýslu.

Um póstgöngur í Norður-Þingeyjarsýslu.
(Svar).
Herra ritstjóri! Út af grein eftir séra Þorleif Jónsson á Skinnastað, sem er prentuð í "Þjóðólfi" nr. 28. þ. á., vil ég hér með leyfa mér að biðja yður svo vel gera, að ljá rúm í hinu heiðraða blaði yðar eftirfylgjandi leiðréttingum.
Ég er ekki höfundur greinarinnar, sem stóð í "Austra" fyrir ári síðan, með fyrirsögn: "Um vegi og samgöngur", eins og séra Þorleifur gefur í skyn í grein sinni.
Séra Þorleifur þykist tilfæra orðrétt eftir mig setningu úr "Bréfi af Sléttu", en sú setning, sem hann tilfærir, stendur hvergi í téðu bréfi. Hún verður því að álítast prestsins eigin "ruglvefur".
Að ég fái "póstana þvert á móti því sem þeir mega og er skipað fyrir, (til) að bíða eftir bréfum" mínum, meðan ég svara bréfum um hæl með sama pósti, er alveg tilhæfulaust. Ekki er það heldur rétt, að sýslunefnd Norður-Þingeyinga hafi ætíð álitið, að póstleiðin um Norður-Þingeyjarsýslu ætti að liggja yfir Axarfjarðarheiði. Það sýnir, meðal annars, eftirfylgjandi "útdráttur úr fundargerðum sýslunefndarinnar í Norður-Þingeyjarsýslu 28. og 29. febrúar 1888".
¿¿¿"12. Oddviti framlagði og las upp bréf amtsins, dags. 5. f. m., um að því verði sendar í byrjun næstkomandi aprílmán. tillögur sýslunefndarinnar um það, hvar aðal-póstleið skuli liggja, og um það, hverjir vegir skuli vera sýsluvegir.
Nefndin íhugaði og ræddi mál þetta ítarlega og komst að þeirri niðurstöðu, að yfirgnæf-andi ástæður mæltu með þeirri tillögu1, að aðalpóstleiðin yrði lögð frá Húsavík norður yfir Tunguheiði, eftir Kelduhverfi að lögferjunni yfir Jökulsá hjá Ferjubakka að Skinna-stöðum, þaðan eftir Axarfirði í Núpasveit, yfir Hólsstíg að Raufarhöfn1 þaðan að Sval-barði í Þistilfirði og eftir honum út á Þórshöfn (Syðralón). Tók nefndin fram, að þetta væri aðalsamgönguleið allra þessara byggðarlaga og jafnframt þrautaleið, sem fara yrði þegar nokkuð væri að vegum og veðri"1¿¿
Þetta var nú samhuga álit sýslunefndarinnar 1888. Vegalengdirnar eru alveg hinar sömu nú eins og þá, en einmitt Hólsstígur hefur batnað mikið síðan, því næstliðin ár hefur verið kostað 100 kr. árlega til vörðuhleðslu á honum.
Ég álít óþarft, að gefa frekari gaum grein prestsins. Hún mun sjálf bera með sér, að hún hafi meira inni að halda af fljótfærnislega hugsuðum, órökstuddum fullyrðingum, en skyn--samlegri röksemdarfærslu, enda mun höfundinum láta betur að fást við forn rit, en að rita blaðagreinar.
Raufarhöfn 14. ágúst 1893.
Jakob Gunnlögsson.


Austri, 12. okt. 1893, 3. árg., 27. tbl., bls. 107:
Ritstjóra Austra þykir Páll Jónsson vegabótastjóri hafa unnið gott verk við vegagerð á Fjarðarheiði s.l. sumar. Vegurinn er alls 10.610 faðma langur og hlaðnar voru 44 vörður að nýju en 30 endurbættar til muna.

Fjarðarheiði
Fjarðarheiði er nú algjör byggða í milli hvað vegabót þá snertir, er landssjóður lét vegabótastjóra Pál Jónsson gjöra þar í sumar við tólfta mann, og er það allmikið verk á ekki lengri tíma og eftir ekki fleiri menn. Sýnir það verkhyggni og dugnað vegabótastjórans og verkamannanna, enda mun áframhaldið við verkið hafa verið hið besta og verkið yfir höfuð prýðilega af hendi leyst á svo löngum vegi: 10.610 faðmar öll leiðin og þar af nær 900 upphleyptur og brúaður vegur með hliðarræsum og löngum brúm með ofaníburði, er víða þurfti að sækja all-langt að. Svo hafa verið hlaðnar í sumar á veginum 44 vörður að nýju, en 30 endurbættar til muna, og er það allt mikið verk og vel af hendi leyst, og þó er nú hver varða töluvert ódýrari en hinar fyrri voru, enda er auðvitað, að mönnum smámsaman lærist betur öll vörðuhleðsla, eins og allt annað er til vegabótavinnu heyrir, og því hefðum vér óskað þess, að Austlendingar hefðu unnið meir að þessari vegabót, heldur en varð nú að þessu sinni, því þeir mundu margt hafa getað lært af svo duglegum og æfðum verkstjóra sem Páll Jónsson er; og svo er og eðlilegast, að það fé, er landssjóður leggur til vegagjörða hingað og þangað um landið lendi að miklu leyti í þeim héruðum er vinnan er unnin í, og hér mundi og hafa verið gott rúm fyrir meiri hluta tillagsins úr landssjóði.
En oss er kunnugt um, að hér er hvorki sýslumanni eða vegabótastjóra um að kenna, því verkmenn héðan að austan höfðu ekki gefið sig fram í tíma.
Vér höfum eigi viljað undanfella að geta þessa, þó það eigi komi sjálfri vegabótinni við, - til þess Austfirðingar gæti þess í tíma að verða eigi af vinnunni í vegabót þeirri, er ráðgjörð er milli Jökulsár og Lagarfljóts yfir Hróarstungu á næsta sumri, bæði vegna lærdóms, og svo líka fyrir forþénustu sakir.
Þó vegurinn yfir Fjarðarheiði sé að mestu leyti aðeins ruddur, þá er að honum mesti fararléttir, svo nú má fara heiðina á sumardag á nær þriðjungi styttri tíma en áður. Þó hefði verið mjög æskilegt, að fé og tími hefði leyft að gjöra lengri og íburðarbetri einar 2-4 brýr norðan til á heiðinni. En aftur má heita snilldarverk á veginum á sumum stöðum, t. d. í svo nefndu Miðhúsaklifi, sem er svo vel sprengt og upphlaðið, að þess verður nú ekki vart, og svo aftur fyrir neðan svonefnda Mýrarbrekku hérna megin, þar sem vegurinn er lagður yfir all-djúpt gil, er hlaðinn hefir verið grjótveggur, allt að 7 álna hár, sem er mjög vandað verk.


Þjóðólfur, 20. október 1893, 45. árg., 50. tbl., forsíða:
Ritstjóri Þjóðólfs ræðir hér um þau lög sem sett voru um gæslu og viðhald brúnna á Ölfusá og Þjórsá, eftir miklar umræður síðasta árið.

Fljóthugsuð lagasmíð
Það hefur flogið fyrir, að Árnesingar og Rangvellingar séu lítt ánægðir með lagafrumvarp það, er þingið í sumar samþykkti, um gæslu og viðhald brúnna yfir Ölfusá og Þjórsá (þegar hún er komin á), og verður það ekki varið, að sú óánægja er á allmiklum rökum byggð, enda tóku sumir þingmenn það berlega fram, að gjald það, er lagt væri á hlutaðeigandi sýslufélög með frumvarpi þessu, væri bæði harla ósanngjarnt og of þungt, og töldu því brúartoll heppilegri, en allir voru einhuga um það, að velta að einhverju leyti byrðinni af landssjóði, að því er snerti gæslu og viðhald brúnna. Það verður heldur ekki annað sagt, en að frumvarpið um brúartollinn með breytingum þeim, er flutningsmenn gerðu á því síðar, væri allaðgengilegt, þá er landssjóður átti að gefa upp 20.000 króna lán, er veitt var sýslusjóðum Árnes- og Rangárvallasýslu og jafnaðarsjóði suðuramtsins til byggingar Ölfusárbrúarinnar. Vér hyggjum, að hlutaðeigandi sýslufélög hefðu einnig orðið miklu ánægðari, ef það frumv. hefði fengið framgang, heldur en þetta, er nú var samþykkt af þinginu. Að vísu munu ýmsir héraðsbúar hafa haft allmikinn ýmugust á brúartolli og sjálfsagt viljað helst vera lausir við hann, en mundu þó ekki hafa kveinkað sér við að greiða hann, þá er hann hefði verið kominn á. En kostnaður við gæslu brúnna, er þessi sýslufélög eiga að greiða, verður miklu tilfinnanlegri og kemur ranglega niður, því að þá er þeir einir greiða brúartoll, sem yfir brýrnar fara, leggst hitt gjaldið á alla sýslubúa undantekningarlaust, hvort sem þeir hafa nokkur bein not af brúnum eða ekki. Vér skulum taka t. d. Biskupstungur, Grímsnes, Laugardal, Þingvallasveit, Grafning, Selvog og að nokkru leyti Ölfusið. Allar þessar sveitir í Árnessýslu hafa mjög lítil eða engin bein afnot af Ölfusárbrúnni, og er því eðlilegt þótt íbúum þessara sveita þyki hart, að greiða afarþungt gjald að jöfnu við aðrar sveitir sýslunnar, er brúna nota. Sumir kunna að segja, að það beri vott um heldur mikla hreppapólitík, að vega á vogir það gagn, er hver einstakur hreppur hafi af einhverju mikilsháttar fyrirtæki innansýslu, og að enginn matningur um jafna hluttöku í kostnaðinum ætti að eiga sér stað, og má vel vera, að þeir hafi nokkuð til síns máls, en hins vegar verður Árnesingum varla láð, þótt þeim þyki skattur þessi allþungur og koma ójafnt niður. Það er eðlilegt, að Árnessýsla í heild sinni verði að bera mestan kostnað af Ölfusárbrúnni, en það er ekki sanngjarnt að leggja á hana svo þunga byrði, sem henni ef til vill er um megn að bera. Ennfremur ber þess að gæta, að Árnesingar verða miklu harðar úti en Rangvellingar, samkvæmt þessu frumvarpi, þar eð nærfellt allir Rangvellingar hafa bein not af báðum brúnum, en þurfa ekki að annast nema gæslu á annarri þeirra, en meiri hluti Árnessýslu hefur hins vegar engin bein not af þessari einu brú, er öllu sýslufélaginu er þó gert að skyldu að kosta að jöfnu.
Með því að það er viðurkennt, að brúabyggingar, eins og önnur stórfyrirtæki, miði öllu landinu til framfara, virðist oss sanngjarnt, að það í heild sinni beri tiltölulegan hluta af kostnaðinum. Að vísu mun því verða svarað, að landssjóður hafi sómasamlega leyst hendur sínar með því að leggja fram fé til byggingar brúnna og með því að taka að sér viðhald þeirra, samkvæmt hinu nýja frumvarpi, og meira verði því ekki af honum heimtað. Þetta er að vísu satt, en mundi ekki vera heppilegra að koma því svo fyrir, að landssjóður þyrfti ekki beinlínis að kosta viðhaldið og hlutaðeigandi sýslufélög heldur ekki gæslukostnaðinn, án þess þó, að nokkur brúartollur ætti sér stað? Þetta gæti t. d. orðið á þann hátt, að stofnaður væri sérstakur almennur brúarsjóður, ekki aðeins fyrir brýrnar á Ölfusá og Þjórsá, heldur einnig fyrir aðrar brýr á stórám hér á landi, bæði þær, sem nú þegar eru komnar og framvegis verða byggðar, en þar af leiddi þá að sjálfsögðu, að allar stórbrýr á landinu yrðu háðar eftirliti landsstjórnarinnar, en allur gæslu- og viðhaldskostnaður skyldi greiddur úr þessum almenna brúarsjóði.
Til þess að koma sjóð þessum á fót yrði að leggja sérstakt gjald - brúargjald - t. á. á hvert lausafjárhundrað eða jarðarhundrað á öllu landinu, og gæti það verið mismunandi hátt í hinum ýmsu sýslum, t. d. að þær sýslur, er hefðu stórbrýr innanhéraðs, greiddu hærra brúargjald, ef til vill tvöfalt hærra, en aðrar, er engar brýr hefðu, eða engin not af þeim. Á þann hátt hyggjum vér, að hægast yrði að samrýma þetta tvennt: að létta byrðinni af landssjóðnum sjálfum og leggja jafnframt ekki of þungt gjald á einstök sýslufélög.
Helsti gallinn við reglulegan brúartoll er sá, að með honum einum safnast mjög seint sjóður, er nokkru nemi. Aðalmótbáran gegn honum á þinginu var einnig sú, að kostnaðurinn við innheimtu hans yrði svo mikill, að meiri hluti tollsins gengi til þess, og mun nokkuð hæft í því. Mál þetta er allmikið vandamál, enda hafa verið mjög deildar skoðanir manna um það. Menn hafa ekki getað komið sér saman um, hvor aðferðin væri heppilegri, að tolla brýrnar eða tolla þær ekki. Það eru allmiklir annmarkar á hvorutveggju, en einkum virðist oss sá vegur, er þingið tók í þessu máli, mjög óheppilegur, og mun það sannast, að ekki líður á löngu áður en almennar óskir koma til þingsins frá sýslufélögum Árness- og Rangárvallasýslu, að fella aftur úr gildi lagafrumvarp það, er þingið í sumar samþykkti. Það má nefnil. ganga að því vísu, að það öðlist staðfestingu konungs, því að landshöfðingi var því mjög meðmæltur, og það mun nægja.
Það er annars mjög leiðinlegt, að þingið skuli samþykkja lög, sem ef til vill er nauðsyn á að breyta eða jafnvel fella úr gildi jafnharðan. Það veikir traust manna á þinginu og kemur óorði á löggjafarstarf þess. Einkum er mjög varhugavert að samþykkja allt, er íþyngir um of einstökum landshlutum, án þess hlutaðeigendum hefi gefist kostur á að láta í ljósi álit þeirra um það.
Vér sjáum nú sem stendur, engan annan heppilegri veg til að leysa hnút þennan, svo að allir megi vel við una, heldur en þann, að stofna almennan brúasjóð eða varasjóð til að bera kostnaðinn af brúm landsins á þann hátt, er áður var tekið fram. Gjald þetta yrði hverjum einstökum lítt tilfinnanlegt, og menn mundu fúslega greiða það af hendi, enda kæmi það að því leyti réttlátlega niður, að þau sýslufélög, sem hefur mest og best not af brúm, legðu mest í sjóð þennan. En með því að þingið hefur nú tekið aðra stefnu í þessu máli og samþykkt frv. það, sem hér er um að ræða, mun mjög torvelt að kippa því í liðinn aftur. Það er hægra að færa úr lagi en í lag aftur. Það er ekki hlaupið að því að fá felld úr gildi spánný lög eða jafnvel fá þeim breytt eitthvað verulega. Það má ennfremur búast við, að ýmsir verði mótfallnir því, að brýr, er héruðin hafa kostað hingað til t. d. á Norðurlandi, séu lagðar undir umsjón landssjóðs, og ákveðnu brúargjaldi jafnað niður á allar sýslur landsins, en þó er þetta að voru áliti hið langeðlilegasta fyrirkomulag, auk þess sem brúm landsins mun verða best borgið á þann hátt, er fram líða stundir.


Ísafold, 21. okt. 1893, 20. árg., 70. tbl., bls. 278:
Landsvegavinnu hefur nú verið hætt þetta árið en unnið hefur verið á Mosfellsheiði, við Hvítárbrúna og á Austfjörðum.

Vegagerð.
Nú er hætt landsvegavinnu að þessu sinni fyrir nokkru, - í vikunni sem leið síðast á Mosfellsheiði. Vegurinn, sem þar hefir verið lagður, frá Hólmsbrú langt upp á móts við Seljadali, er rúmar 10 rastir (kilom.), en þó eftir að bera ofan í 2 ½ röst; en eftir rúmar 5 rastir þar til kemur saman við Mosfellsheiðarveginn við Borgarhólamel. Það er með öðrum orðum rétt míla eða 7 ½ röst, sem fullger hefir verið af vegi þessum í sumar, og mikið vel gert að sjá, af Erlendi Zakaríassyni með þremur tylftum verkmanna á rúmum 20 vikum, auk 2 ½ rastar, sem aðeins vantar í ofaníburð. Við Hvítárbrúna nýju hefir og verið lagður góður vegarspotti í sumar, rúm 2 ½ röst, yfir mýrina að norðanverðu, af Árna Zakaríassyni. Loks hefir verið talsvert unnið á Austfjörðum, af Páli Jónssyni, sem síðar mun frá skýrt.


Ísafold, 4. nóv. 1893, 20. árg., 72. tbl., forsíða:
Tilraun var gerð með gufubátsferðir um Faxaflóa s.l. sumar og þótti takast vel.

Gufubátsferðirnar um Faxaflóa.
Þessi fyrsta almennilega tilraun með gufubátsferðir hér um flóann, er gerð var á bátnum Elínu í sumar, hefir lánast miklu, miklu betur en jafnvel formælendur slíks nytsemdar-fyrirtækis höfðu gert sér í hugarlund, hvað þá heldur hinir, er töldu öll tormerki á, að það gæti þrifist, og vildu jafnvel gera úr því eintóman loftkastala, er því var fyrst hreyft í Ísafold fyrir nokkrum árum. En þægindin að slíkum ferðum fá menn seint fullrómað, í samanburði við hitt, að hrekjast á opnum bátum og slíta sér út við árina, og láta sér þar á ofan legast oft marga daga í senn.
Fleiri ferðum en 12 á sumrinu var eigi ráð fyrir gert né farið jafnvel fram á af réttum hlutaðeigendum í fyrra vetur. En þær urðu 2-3 falt fleiri. Þær urðu 34 norður á bóginn, til Borgarfjarðar, og 28 á suðurkjálkann; auk 3-4 skemmtiferða til Hvalfjarðar m. m. Báturinn fór 26 ferðir alla leið til Borgarness. Hann kom 65 sinnum við á Akranesi, 40 sinnum í Keflavík, 25 sinnum í Vogum og á Vatnsleysuströnd, fór 15 ferðir suður í Garð, kom 14 sinnum á Straumfjörð og 12 sinnum á Hafnarfjörð.
Tala farþega með bátnum varð alls 2716. Þar af fóru langflestir milli Reykjavíkur og Borgarness, eða 910 alls. Milli Akraness og Reykjavíkur 617, milli Reykjavíkur og Keflavíkur 395, milli Reykjavíkur og Straumfjarðar 145, og milli Reykjavíkur og Garðs 123. Annars nær talan hvergi 100; mest 99, milli Borgarness og Akraness. Milli sumra viðkomustaðanna (eingöngu) hefir jafnvel eigi farið nema 1 hræða alls, svo sem Akraness og Búða, Akraness og Maríuhafnar, Reykjavíkur og Vatnsleysu, Njarðvíkur og Kaflavíkur og milli Keflavíkur og Garðs; milli Rvíkur og Grindavíkur enginn.
Viðlíka mikla vinnu að tekjum til hefir báturinn haft við vöruflutning eins og mannflutning, að meðtöldum flutningum fyrir verslun útgerðarmannsins sjálfs, er nemur nálægt ¼. Er og leiðin milli Reykjavíkur og Borgarness þar lang-efst á blaði, en þá leiðin milli Reykjavíkur og Akraness.
Varla þarf að efa, að með svona mikilli notkun bátsins hafi ferðir hans í sumar borgað sig. Hitt er annað mál, að útgerðarmaður gæti auðvitað skaðast samt á fyrirtækinu, ef selja þyrfti bátinn bráðlega öðruvísi en með fullu verði.
Eftir samningnum við bæjarstjórn og sýslunefndir þarf báturinn eigi að fara nema 12 ferðir að sumri, - aldrei farið fram á meira. En færri en í sumar verða þær fráleitt hafðar, eftir þá reynslu sem nú er fengin, með því líka að þær verða sjálfsagt látnar byrja talsvert fyr. Ákjósanlegast væri, að þær væru enn tíðari, og umfram allt sem reglubundnastar, ekki vegna þess, að flutningaþörfin heimti kannske meira en í sumar er var, heldur af því, að tíðar, reglubundnar og fyrirfram fastákveðnar ferðir eru skilyrði fyrir því, að samgöngur um þetta svæði taki þeim stakkaskiptum, sem vera ætti, sem sé: að ferðalög á opnum bátum legðust hér um bil alveg niður á ferðasvæði gufubátsins þann tíma árs, sem hann er á ferðinni, en það ætti í rauninni að vera sem mestur hluti ársins. Vitanlega yrði lítið að gera þá í sumum ferðunum, og stundum jafnvel ekkert. En það mundi sannast, að afnot bátsins yrði samt sem áður ekki einungis notasælli fyrir almenning með því lagi, heldur jafnvel drýgri fyrir pyngju útgerðarmannsins, er fram liðu stundir.
Til þess að ná þessum tilgangi þyrfti báturinn að fara tvisvar í viku milli Borgarness og Reykjavíkur, sömu vissu vikudagana, en um heyannir ekki nema annaðhvort einu sinni í viku eða öllu heldur tvívegis aðra hvora viku. Þetta mundi nóg að sinni, en minna ekki nóg. Meðal annars mundu þá t. d. langferðamenn norðan úr landi og vestan eigi bera við að fara landveg lengra en í Bogarfjörð, en sjóveg þaðan til Reykjavíkur, sér til mikils hægðarauka, flýtis og hestasparnaðar.


Þjóðólfur, 25. nóvember 1893, 45. árg., 55. tbl., forsíða:
Ritstjórar Þjóðólfs og Ísafoldar eru ekki sammála um “brúartollinn” frekar en önnur mál.

Brúamál. - "Ísafold" nötrar.
Hann er auðþekktur á eyrunum höf. greinarinnar í síðustu "Ísafold" með undirskriftinni "Sveitabóndi". Það leynir sér nfl. ekki á rithættinum, að aðalhöf. er ekki neinn "sveitabóndi", heldur persónan alþekkta með gömlu halarófuna sína, þ. e., meiningarlausa axarskaftasetningar hnýttar saman í eina bendu. Það er auðvelt að þekkja þennan kumpán, hvar sem hann er á ferðinni með trossuna sína, og þótt hann nefni sig ýmsum dularnöfnum, eins og flugumenn, er sendir voru til höfuðs mönnum til forna, þá tjáir það ekki. Alstaðar gægjast eyrun út undan dularhúðinni.
Efni greinarinnar, ef efni skyldi kalla, er svo lélegt, að það er naumast nokkurra svara vert, enda er ójafnt á komið og óþarft í sjálfu sér að rita með röksemdum gegn öllum heimskulegum þvætting og nafnlausum púkagreinum, er ritstj. "Ísafoldar" annaðhvort ritar sjálfur eða pantar frá fylgifiskum sínum til að rægja "Þjóðólf", af því að hann hefur leyft sér að segja "Ísaf." til syndanna og hirta hana dálítið endrum og sinnum fyrir einhvern óþokkaskapinn. Það er auðvitað langréttast að skipta sér ekkert af slíku, sem allir vita af hverjum toga er spunnið, en af því að ritstj. "Ísaf." fólskast af hverju einu í "Þjóðólfi", sem eitthvað snertir hann eða málgagn hans, þá getum vér ekki stillt oss um að senda honum einnig orðsendingu við og við, án þess að skríða í felur bak við dularnöfn.
Eins og hver óvitlaus maður hefur getað séð, var greinin í Þjóðólfi "Fljóthugsuð lagasmíð" aðeins lausleg uppástunga til frekari hugleiðinga, uppástunga um hvort, ekki mundi tiltækilegt að stofna almennan brúarsjóð, alveg sérstakan og fráskilinn landssjóði, bæði til þess, að synt yrði fyrir þau sker, að landssjóður þyrfti eingöngu að kosta brýrnar - er hann mun trauðla gera - og til þess jafnframt að létta of þungri byrði af einstökum sýslufélögum. Þessu gæti hæglega orðið framgengt, hvað sem "Ísafoldar" höf. segir. Hann þykist ekki sjá, að það sé neinn munur á, hvort þetta fé er tekið beint úr landssjóði, eða það er tekið úr sérstökum brúarsjóði. Hér er þó sá mikli munur, að landsmenn greiða þetta gjald - brúargjald - alveg sérstakt í vissu augnamiði, til að bera vissan kostnað, en ekki út í loftið eitthvað óákveðið og ekki í neinar vissar þarfir. Þeir vita, að þetta er fé, sem beinlínis er notað í þessum tilgangi og til einskis annars, og að ekki þarf að knýja á hurðir landssjóðs í hvert skipti, sem byggja þarf brýr eða gera við þær. Þetta er fé, sem landsmenn eiga heimtingu á, að þeir fái að njóta góðs af, en þeir geta ekki gert slíkar kröfur til landssjóðs svo framarlega, sem hann tekur ekki brýr landsins algerlega á sína arma. Það væri mjög gott, ef landssjóður vildi taka þetta að sér, en það eru ekki svo miklar líkur til þess. Hinn eðlilegasti og langstærsti mælikvarði, er almennt brúargjald hlýtur að miðast við, er einmitt tala lausafjárhundraða og jarðarhundraða, án þess aðrir gjaldstofnar séu útilokaðir, hversu sem þokuvælirinn í "Ísafold" hrópar hátt í eyru bændanna, að embættismennirnir eigi að vera lausir við það (!). Það ber allmikinn vott um bjálfaskap eða óráðvendnisskrílshátt, að hanga eins og rakki í snærisspotta á því, þótt eitthvert atriðið sé ekki beinlínis tekið fram í fyrstu, þá er uppástunga er gerð, alveg eins og það megi eða eigi alls ekki að koma til greina.
Í Þjóðólfs-greininni komu heldur engin bein andmæli fram gegn brúartolli. Nei, þvert á móti. Vér gátum þess einmitt, að hann væri miklu heppilegri en þetta brúargæslugjald, er dembt var á tvö sýslufélög í sumar að þeim óvörum. Að það gjald sé mjög óheppilegt og komi afarhart niður á hlutaðeigendur, mun víst engum blandast hugur um, hvernig sem á brúamál er litið, og hverja leiðina, sem menn vilja fara til að hrinda þessu í æskilegra horf. Um það má lengi þrátta, hvað affarabest muni vera í því efni.
Það er auðséð á öllu, að aðaltilgangur "Ísaf."-greinarinnar er ekki að andæfa "Þjóðólfs"-greininni í sjálfu sér - enda tekst höf. það mjög óhönduglega, sem von er - heldur hitt, að lauma því fram, að hún hafi verið rituð í því skyni, að bola Þorlák í Fífuhvammi frá þingkosningu í Árnessýslu og koma þar að einhverjum öðrum "Þjóðólfi" nákomnari. Þarna sprakk á kýlinu! Ritstj. "Ísaf." hefur auðsjáanlega orðið allmjög skelkaður við greinina fyrir Þorláks hönd, já, meira að segja lafhræddur við, að "Ísafold" kynni að missa dyggan fylgismann á næsta þingi, því að þau voru ekki svo mörg atkvæði hennar á síðasta þingi, að þau megi við því að fækka úr þessu. Mikil vandræði! Vesalings ritstj. hefur líklega þótt heldur snemmt að hefja nú þegar krossferð austur í Árnessýslu til að predika þar sinn vísdóm fyrir kjósendunum, og því ekki séð annað tiltækilegra til bráðabyrgða, en að smella í málgagn sitt einhverri þvættings-lokleysu gegn þessari háskalegu(!) "Þjóðólfs"-grein, til þess að varna því, að hún steypti vini hans af stóli. Ó, þú virðulega einfeldni! Er maðurinn farinn að ganga svo í barndómi, að hann viti ekki, að það verður einmitt til að fella hvern mann við þingkosningar, ef hann mælir alvarlega með honum, og síst af öllu mun hann hafa nokkur áhrif í þá átt á Árnesinga, því að þeir þekkja piltinn, ekki aðeins af afspurn, heldur hafa þeir séð hann augliti til auglitis á þingkosninga-krossferðum þar eystra, og gast miðlungi vel að öllu saman. Það lýsir því hlægilegu oftrausti á sjálfum sér, ef hann hyggur nú, að hann geti vafið Árnesingum um fingur sér og látið þá kjósa þann eða þá, sem finna náð fyrir hans kolsvörtu pólitísku sálarskjáum, því að vita má hann það, að Árnesingar eru engin sauðarhöfuð, sem hann getur látið dansa eftir sinni pípu. Þeir eru sjálfstæðir hugsandi menn, miklu skynsamari margir hverjir, en sjálfur Ísafoldar-furstinn.
Að lokum viljum vér gefa honum það heilræði, að spilla ekki fyrir vinum sínum til þingkosninga með því að mæla með þeim, heldur að mæla fremur á móti þeim, ef hann vill, að þeir komist að, eða þá að steinþegja, sem líklega mundi snjallast.


Austri, 29. nóv. 1893, 3. árg., 33. tbl., bls. 131:
Páll vegfræðingur Jónsson og félagar hans eru sagðir hafa gert góðar vegabætur á Fjarðarheiði í sumar.

Fjarðarheiði
Í 27. tbl. "Austra" þ. á. er grein um vegagjörðina á Fjarðarheiði næstliðið sumar og er í henni ekkert ofhól um Pál vegfræðing Jónsson og þá félaga hans, heldur hreinn og beinn sannleiki, að þeir unnu verk sitt með trú og dyggð o. s. frv.
Í greininni er skýrt frá vegabótinni í heild sinni, að mestu leyti. - Vegi og vörðum - og hvað væri ábótavant við veginn norðan til á heiðinni, en höf. hefir ekki getið um, hvað vörðunum er ábótavant, og er það sjálfsagt af ókunnugleik, vil ég því leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum.
Allir kunnugir vita að vörðurnar ná nú orðið yfir alla heiðina brúna á milli; (af norðurbrún og á austurbrún á Felli) og sýnist í fljótu bragði að það munu duga: en samt sem áður virðist ekki einhlítt að vörðurnar nái ekki yfir lengra svæði en þær gjöra. Að norðan (Héraðsmegin) þyrftu þær að ná ofan að hinum svokallaða Fardagafossi, að minnsta kosti, og að austan (Seyðisfjarðar megin) ofan á hinn svo nefnda Neðri-Staf og mundu vörðurnar verða að samanlögðu - austan og norðan - á að giska 20-25. Það eru mörg dæmi til þess að menn hafa villst mikið afvega á þessari leið (ofan beggja vegna), þó þeir hafi komist óvilltir af sjálfri heiðinni; auðvitað mun fleirum hafa orðið villuhættara Seyðisfjarðar megin, enda er mjög villugjarnt milli Efra-Stafs og Neðra-Stafs, þegar slétt er orðið með fönn af hverri brekku og hæð og ekkert er við að styðjast. Það má óhætt trúa því, að nú munu menn verða óragari að leggja til heiðarinnar en áður, þó dimmt sé veður, þegar vörðurnar eru yfir sjálfa heiðina, en hvað dugar það ef þeir ná þeim aldrei? Og þó þeir næðu þeim, þá eiga þeir það á hættu, hvernig þeim muni reiða af ofan hinu megin.
Af því margir fara á vetrum yfir heiði þessa, ættu nú Norður- og Suðurmúlasýslurnar, að leggja fé fram á næsta sumri til varðanna, svo þær komist þá strax upp, en bíða ekki eftir því í óvissu, hvort þingið lætur nokkuð af hendi rakna til þessarar heiðar framvegis eða ekki.
Fjarðarseli. Ritað í Október 1893.
Vigfús Ólafsson.


Þjóðólfur, 15. des. 1893, 45. árg., 58. tbl., forsíða:
Árnesingur skrifar langa grein um “brúartollinn” en hann hefur mikið verið til umræðu síðustu mánuði.

Rödd úr Árnessýslu.
um "fljóthugsuðu lagasmíðina".
Það er enginn vafi á því, að "Ísafold" er greinilega farin að "stálma" undir væntanlegar alþingiskosningar í Árnessýslu að vori, svo að það má gera ráð fyrir reglulegum fæðingarhríðum innan skamms, er sjálfsagt verða harðari og harðari eftir því, sem nær dregur kjördegi. Enn sem komið er hefur "stálminn" lýst sér í því, að ritstj. "Ísaf." hefur gefið Árnesingum ofurlítinn "forsmekk" þess, hvað hann vill, að þeir skuli gera, sérstaklega með greininni í 74. tbl., er á að vera eftir einhvern "Sveitabónda" einhverstaðar í þokunni. Í sömu átt stefnir og greinin í síðasta blaði frá einhverjum "helsta og merkilegasta" manni í Grímsnesinu, slitin sundur með innskots-fleygum, og stöguð aftur saman með rembihnútum af ritst. "Ísaf." sjálfum.
Til samanburðar við þessar greinar og hinar fávíslegu staðhæfingar þeirra, látum vér oss nægja að birta hér í blaðinu grein, er oss barst fyrir stuttu, frá öðrum Árnesingi, vafalaust fullt eins merkum, sem Ísafoldarmanninum. Hún er rituð gegn grein "Sveitabóndans" og lítur dálítið öðruvísi á þetta mál, en hann og Grímsnesingurinn. Rúmsins vegna birtist aðeins helmingur greinarinnar í þetta skipti. Vér látum höf. sjálfan tala, enda höfum vér aldrei fylgt þeirri reglu að limlesta það, er aðrir rita, eða snúa því við eftir eigin geðþekkni. Greinin er svo látandi:
Í 74. tölubl. "Ísafoldar" þ.á. er grein með yfirskriftinni "Fljóthugsuð lagasmíð" eftir einhvern, er nefnir sig "Sveitabónda", og fjargviðrast persóna þessi mikillega út af grein í "Þjóðólfi" í haust með sömu yfirskrift, áhrærandi lagafrumvarp það frá síðasta þingi, sem ákveður, að gæslukostnaður á brúnum yfir Ölfusá og Þjórsá skuli greiddur úr sýslusjóðum Árnes- og Rangárvallasýslna. Þó að þessi Ísafoldar-grein máske eigi að vera vörn fyrir formælendur þessa máls á þingi, eða einkum fyrir herra Þorlák í Fífuhvammi, og þótt hún kunni að vera hlutdrægnislaust rituð, þá virðist hún samt frá hlið Árnesinga vera sumsstaðar nokkuð fljóthugsuð, eins og lagafrumvarp það, sem hér er um að ræða. Ég skal því leyfa mér, eins og "Sveitabóndinn" kemst að orði, "að leggja orð í belg" um þetta mál.
Hvað lagafrumvarpinu viðvíkur, þá get ég ekki annað álitið, en að Rangvellingar séu eftir því allvel íhaldnir með sinn hluta af gæslukostnaðinum, (þó það hljóti samt að verða æði-hár skattur, þegar Þjórsárbrúin er komin á), þar sem allir hreppar sýslunnar nota sjálfsagt báðar brýrnar að miklu leyti; en með Árnesinga er öðru máli að gegna, því fyrst og fremst nota ekki Ölfusárbrúna nema hrepparnir austan Hvítár og Ölfusár, svo teljandi sé, en Þjórsárbrúna munu Árnesingar aldrei nota svo teljandi sé, eða fremur en önnur héruð, en eftir fumvarpinu eiga Árnesingar fyrir það, að nál. helmingur þeirra notar aðeins aðra brúna, að borga - segi og skrifa - hálfan gæslukostnað á báðum brúnum, eða máske meira. Þó það sé nú sanngjarnt, að þeir, sem nota brýrnar á einhvern hátt, borgi gæsluna, þá get ég ekki annað álitið, en að þetta sé nokkuð ósanngjarn skattur á sýslusjóð Árnessýslu, og verður Árnesingum æði tilfinnanlegur, þegar þess er gætt, að sýslusjóðurinn hefur í mjög mörg horn að líta, hvað vega- eða samgöngumál snertir. Þannig hefur til dæmis verið lagt til vegamála, samkvæmt áætlun og tillögum sýslunefndarinnar, á yfirstandandi ári, 1.811 kr. 14 au., og munu þó sýsluvegirnir vera víða ennþá lítt færir yfirferðar nema í þurrkatíð um hásumarið, og verða svo eflaust í mörg ár enn, þó lögð væri til þeirra sama fjárupphæð árlega; og til þess að geta staðist þetta og önnur óumflýjanleg útgjöld sýslusjóðsins hefur verið jafnað niður á hreppana 1.200 kr., því vegagjaldið var aðeins eftir áætlun 1.753 kr. 13 a.; nú má gera ráð fyrir, að frumv. þetta auki útgjöld sýslusjóðsins um 400-500 kr. að minnsta kosti, svo nú verður sýslunefndin að gera annaðhvort framvegis, að láta ógert eitthvað, sem er til nytsemdar og bráðnauðsynlegt fyrir sýsluna í heild sinni eða einstakar sveitir, eða þá að jafna gæslukostnaðinum niður á hreppana, og verð ég að álíta, að þær sveitir að minnsta kosti, sem hvoruga brúna nota, hafi fullgilda ástæðu til að una þeim málalokum illa, og ég segi fyrir mig, að mér þykir hvorugt gott. Úr því nú að útlit er fyrir, að þingmenn okkar Árnesinga hafi ekki fundið neinn heppilegan veg til að ráða þessu brúargæslumáli til lykta, þá verð ég að álíta, að þeir hefðu gert réttara í því, að láta tollfrumvarpið hlutlítið, nema máske reyna til að hafa einhver breytingar-áhrif á það til bóta, heldur en að gerast formælendur þessa fljóthugsaða lagafrumvarps. Ég skal samt geta þess, að ég er enginn vinur brúatollanna, nei, þvert á móti, ég hygg að þeir næðu aldrei tilgangi sínum, heldur mundi tollgæslan, sem hlyti að verða afardýr, gleypa allan brúartollinn og jafnvel meira, eins og ljóslega hefur verið tekið fram á þinginu í sumar, þegar þetta mál var til umræðu; en það er gamalt máltæki: "Af tvennu illu, þá tak ei hið lakara", en frá sanngirninnar "sjónarmiði" er frumvarp þetta miklu verra fyrir Árnessýslu í heild sinni, en tollfrumvarpið með öllum sínum annmörkum.
Ég verð yfir höfuð að álíta, að eftir þessu frumvarpi verði Árnessýsla miklu harðar úti en önnur héruð, þar sem brýr væntanlega verða byggðar, því fylgi þingið sömu stefnu og það hefur gert í sumar, þá verða brýr framvegis byggðar á landssjóðs kostnað, enda er ekkert líklegra og eðlilegra, en þó héruðum verður ef til vill gert að skyldu að kosta gæsluna, þá verða samt Árnesingar að borga sinn hluta af láninu til Ölfusárbrúarinnar, sem önnur héruð verða laus við (að borga nokkuð af byggingarkostnaði sinna brúa), og verður því á einhvern hátt að leggjast skattur á þá, sem ég sé ekki, að verði lagður á annað en landbúnaðinn (að miklu leyti) eftir núgildandi lögum, og því held ég, að "Sveitabóndinn" hefði mátt láta ógert að hrópa hátt til okkar Árnesinga, til að vekja okkur til meðvitundar um, hvílíka ósvinnu "Þjóðólfur" fari fram á, þar sem hann vilji, eins og "Sveitabóndinn" að orði kemst, "velta þessari byrði á þá eina, sem landbúnað stunda, en sleppa öllum öðrum", því ég get ekki annað séð, en að við einir, sem höfum einhvern landbúnað, verðum, eftir því sem nú er uppi á teningnum, að borga "ballið". En að landssjóður geti bæði byggt brýr, eins og landið þarfnast og kostað gæslu á þeim í framtíðinni eða þegar þær fjölga, er óhugsandi, eða þá að þingið yrði að sjá að sér í einhverju tilliti, og vera sparara á "bitlingum" til einstakra manna, en það stundum hefur verið, og álít ég það að vísu engan skaða fyrir landið. Ég verð því eindregið að hallast að þeirri aðalstefnu, sem fram kom í áminnstri "Þjóðólfs" grein í haust, þeirri, að stofna einn sameiginlegan brúasjóð fyrir land allt, sem standi í sambandi við landssjóð, ef því yrði svo fyrir komið, að skattur þessi yrði lagður á eitthvað fleira eða annað en eingöngu landbúnað, og álít þá stefnu miklu betri en allt annað, sem komið hefur fram í þessu máli og mér er kunnugt um. Að skatturinn væri misjafnlega hár á héruðunum, og ef til vill sumsstaðar enginn, þar sem víst væri, að engar brýr væru byggðar nokkurn tíma, það væri ekki nema sjálfsögð sanngirni, og væri að minnsta kosti ekki orsök til annarrar eins óánægju, eins og þessi fljóthugsaða lagasmíð frá síðasta þingi er fyrir hlutaðeigendur. - Um það, í hvaða tilgangi "Þjóðólfs"-greinin í haust mun hafa verið skrifuð,. skal ég ekkert segja, og skiptir í rauninni engu. Þó að Þorlákur í Fífuhvammi hafi lýst því yfir á kjörþinginu í fyrra, að hann væri móti brúartolli, þá var það síður en ekki ástæða fyrir Árnesinga til að hafna honum, heldur þvert á móti, en þá var ekki um annað en brúartoll að ræða; þetta lagafrumv. mun alls ekki hafa verið komið í huga hans þá, því hefði mönnum verið kunnugt, að svo væri, þá efast ég um, að hann hefði fengið öll þau atkvæði, sem hann fékk, og þó Árnesingar yfirhöfuð hafi ávallt borið gott traust til hans, sem þingmanns, þá efast ég um, að hann fái nú við næstu kosningar öll þau atkvæði, sem hann fékk síðast.
Ég þykist nú hafa leitt rök að því, að einn af þeim þremur vegum, sem "Sveitabóndinn" talar um, að séu sanngjarnir, þegar um gæslu á stórbrúm er að ræða, verði eftir lagafrumvarpinu oftnefnda mjög ósanngjarn, hvað Árnessýslu snertir að minnsta kosti, og skal ég í sambandi við það geta þess, að ég þykist hafa skoðað þetta mál hlutdrægnislaust, því ég á heima sunnanmegin við Ölfusá og þarf því oft að brúka brúna á henni.
Árnesingur.
Vér ætlum nú að lofa ritst. Ísafoldar að hugga sína sárþjáðu sál með þessum ofanrituðu línum, enda mun það ærin hugraun fyrir hann, að Árnesingar skuli yfirhöfuð ekki hafa jafn einhliða og takmarkaðar þrákálfaskoðanir, eins og hann sjálfur hefur, bæði í þessu máli og fleirum.
Ritstj.