1893

Austri, 4. mars 1893, 3. árg., 6. tbl., forsíða:

Smápistlar um landsmál
eftir Jón Jónsson alþm. á Sleðabrjót.
III.
Vegabótamálið.
Á síð. alþ. bar síra Jens Pálsson þm. Dalamanna fram frv. um strandferðir og vegi (Alþt. 1891 C. bls. 133). Um strandferðirnar hefir nú áður verið rætt nokkuð í Austra og því hleyp ég yfir þær. Það er aðeins síð. kafli frv. um vegina, sem ég vildi verja athygli á, því allir munu vera samdóma um það, að það sé eitt hið helsta lífsskilyrði vor Ísl. eins og allra annarra þjóða, að vegirnir batni og samgöngurnar léttist.
Eins og sést á þessu frv. sr. J. P. var aðalbreytingin á gildandi lögum, sem þar var farið fram á sú, að vegabótakostnaðinum yrði mest varið eftirleiðis til að gjöra akfæra vegi um þá staði, þar sem mest vörumagn þyrfti að flytja frá verslunarstöðum. Eins og kunnugt er hafa póstleiðirnar hingað til verið látnar sitja í fyrirrúmi, án nokkurs tillits til, hvort flutningsvegir lægju saman við þá eða ei. Af þessari tilhögun hefir það leitt, að alþýða manna hefir nær aldrei unnið með vakandi áhuga að því að bæta vegina, og slíkt er mjög eðlilegt, þegar vegabótafénu er allvíða varið til þess að sækja lífsnauðsynjar sínar, þá er eðlilegt þó þeim finnist þá oft að vegabæturnar ekki vera gjörðar beinlínis fyrir sig. Og meðan sú tilfinning vaknar ekki í sveitunum, hjá búendum, sveitarstjórnum, og sýslustjórnum, aðeins nauðsynlegt sé að bæta vegina og halda þeim við, eins og fjárhúsunum, og bæjarhúsunum, á meðan er ekki neinna verulegra framfara von í vegabótunum, því það er í þessu, eins og svo mörgu öðru, að hugsunarhátturinn þarf að breytast til þess að framfarirnar komist á.
Til þess að auka áhugann á vegabótunum er eflaust þessi breyting, sem farið er fram á í frv. sr. J. P. hin heppilegasta, því þegar bændur færu að finna það að þeim sjálfum væri verulegur léttir að því að unnið væri að vegabótum sem mest og best, þá mundi áhuginn hjá þeim aukast og koma fram í verkinu.
Þessu frv. sr. J. P. hefir hvarvetna verið tekið vel af þjóðinni, og það verður eflaust borið fram aftur á næsta alþ., það fær því nú ef til vill betri byr þar, því vonandi er, að efri deild þingsins verði ekki annað eins dauðadýki framfaramála þjóðarinnar á næsta alþ. eins og hún var á hinu síðastliðna alþ.
Með þessari stefnu, sem fylgt hefir verið í vegabótunum hingað til, hlýtur öllum að vera það ljóst, að verulegar framfarir eru ómögulegar, því til þess að gjöra alla aðalpóstvegi landsins að rennisléttum vegum þarf svo mikið fé, og svo langan tíma, að flesta mun sundla við, sem hafa fyrir augum sér heill þjóðarinnar í heild sinni. Væru brúaðar stórár, og gjört við verstu faratálma á póstleiðunum mundi vel mega við það sæma, en það er ei framfara von fyrir þjóðina, að kasta út stórfé til þess að gjöra rennisléttar brautir upp á fjöllum, "þar sem hrafnar og tófur eiga mest ferð um", eins og B. Sveinsson sagði einu sinni, en láta allt vera kviksyndi og hraungrýti á sveitavegunum, þar sem mestur hluti þjóðarinnar á ferð um. Að vísu hefir nú í seinni tíð verið varið talsvert meiru fé til aðalpóstveganna í byggðum, en því fé hefir mestu verið varið umhverfis Reykjavík. Vér sem búum á útkjálkum landsins megum skrölta um sömu grjótgöturnar og áður. Til þess að bæta vegina hjá oss, vantar oftast fé þegar um það er beðið.
Það er að mínu áliti og margra annarra, einn stórgalli á þessu frv. sr. Jens, og hann er sá, að þar var eigi gjört ráð fyrir neinni breyting á hreppavegavinnunni, eða neinum auknum fjártillögum til hreppaveganna, það átti að sitja við þetta gamla hálfa dagsverk til þeirra, sem ákveðið er í núgildandi lögum, og sem hver maður átti að mega vinna af sér, það liggur þó ljóst fyrir öllum sem gefa gætur að hreppavegabótunum eins og þær eru nú, að ef nokkur framför á að verða í þeim, þá verður bæði að leggja til þeirra meira fé, og vinna þær vegabætur á sama hátt og aðrar, þ. e. kaupa menn til að vinna þær fyrir fullkomin laun. Að týna saman þessi hálfu dagsverk hefir margt illt í för með sér. Margir húsbændur láta lélegasta manninn sem þeir hafa í vinnuna, bara það sleppi, þá er nóg. Vinnunni er með þessu lagi dreift til og frá um allan hreppinn, því hver vill fá að láta vinna sem næst sér, til þess að þurfa sem skemmst að senda manninn. Afleiðingarnar af þessu eru, að nær hvergi sjást samanhangandi vegagjörðir á hreppavegi, heldur allt einir stefnulausir illa gjörðir vegaspottar, sem unnið er að kunnáttulaust og eftirlitslaust, því fjöldi bænda lætur vinna að þessum vegabótum til þess að leysa sig undan gjaldinu, með því að vinna eitthvað að nafninu, en alls ekki með þeirri hugsun að koma sem mestu í verk af þarflegum og góðum vegabótum í sveitinni. Væru keyptir menn til þessara vegabóta og þeim sæmilega launað, mundu miklu fremur bjóða sig fram menn til að vinna þær ár eftir ár, sem gætu þá með tímanum öðlast bæði æfingu og þekkingu í vegagjörðum.
1. þ. m. Skagfirðinga, (Ól. Br.) bar upp þá breytingartill. við frv. sr. J. P. á síð. alþ. að borgaðar væru úr sveitarsjóði til hreppavegabóta 2 kr. fyrir hvern verkfæran mann í hreppnum. Það komu þegar fram í neðri deild alþ. háværar raddir gegn þessari tillögu og töldu slíkt illþolandi gjaldabyrði fyrir almenning. En slíkt virðist mér vera byggt á stórum misskilningi, því fyrst er það nú hrein og bein mótsögn að biðja alltaf, og það með réttum rökum, um meira fé, úr landssjóði til þeirra vega, sem hann á að kosta, en vilja ekki leggja neitt meira fé til þeirra vega, sem sveitasjóðirnir eiga að kosta, þar sem allir skynberandi menn hljóta þó að sjá að til þeirra vega þarf engu síður að kosta fé - þeir eru alls ekki í betra lagi en þeir vegir sem úr landssjóði eru kostaðir og það er engu minna framfaraspursmál að hreppavegirnir batni heldur en aðrir vegir.
Svo er líka þess að gæta þó lagt sé á gjaldendur nokkuð hærra gjald til þessara vegagjörða, þá geta þeir sjálfir ráðið hvernig því er varið, og það rennur aftur í þeirra eigin vasa, ef þeir hafa dug til að vinna að vegagjörðunum. Af þeim fjárframlögum sem þannig er varið til almenningsþarfa leiðir tvennt gott, það eykur atvinnu í sveitunum og með því er hægt að koma í verk nauðsynlegri framför. Ég hygg það sé engum efa bundið að það væri oft heppilegra fyrir sveitastjórnirnar að hafa til vegabótavinnu með sæmilegum launum handa snauðum mönnum sem lifa á sveitarstyrk, heldur en að leggja þeim alltaf úr sveitarsjóði, og láta þá oft vera iðjulitla haust og vor, eða vinna að illa borgaðri kaupstaðarvinnu.
Það væri vert fyrir kjósendur að athuga vel þessa nýju stefnu, sem kom fram í vegabótamálinu á síð. alþ., og það er vonandi að þeir sannfærist um að aðalatriðið í þeirri stefnu, að leggja mesta áherslu á að bæta flutningavegina, er miklu líklegra til þjóðheilla og framfara en sú stefna í vegagjörðum sem nú er fylgt, en gæta verður þess um leið og aukin eru fjárframlög til vegagjörða úr landssjóði að glæða ekki með lögunum þann hugsunarhátt hjá alþýðu, að rétt sé að koma sér sem mest undan gjöldum til sveitaveganna. Löggjöfin verður að miða til þess að leiða fram hina bestu krafta þjóðarinnar í þessu sem örðu, en forðast allt sem elur upp eigingirnina og smásálarskapinn.


Austri, 4. mars 1893, 3. árg., 6. tbl., forsíða:

Smápistlar um landsmál
eftir Jón Jónsson alþm. á Sleðabrjót.
III.
Vegabótamálið.
Á síð. alþ. bar síra Jens Pálsson þm. Dalamanna fram frv. um strandferðir og vegi (Alþt. 1891 C. bls. 133). Um strandferðirnar hefir nú áður verið rætt nokkuð í Austra og því hleyp ég yfir þær. Það er aðeins síð. kafli frv. um vegina, sem ég vildi verja athygli á, því allir munu vera samdóma um það, að það sé eitt hið helsta lífsskilyrði vor Ísl. eins og allra annarra þjóða, að vegirnir batni og samgöngurnar léttist.
Eins og sést á þessu frv. sr. J. P. var aðalbreytingin á gildandi lögum, sem þar var farið fram á sú, að vegabótakostnaðinum yrði mest varið eftirleiðis til að gjöra akfæra vegi um þá staði, þar sem mest vörumagn þyrfti að flytja frá verslunarstöðum. Eins og kunnugt er hafa póstleiðirnar hingað til verið látnar sitja í fyrirrúmi, án nokkurs tillits til, hvort flutningsvegir lægju saman við þá eða ei. Af þessari tilhögun hefir það leitt, að alþýða manna hefir nær aldrei unnið með vakandi áhuga að því að bæta vegina, og slíkt er mjög eðlilegt, þegar vegabótafénu er allvíða varið til þess að sækja lífsnauðsynjar sínar, þá er eðlilegt þó þeim finnist þá oft að vegabæturnar ekki vera gjörðar beinlínis fyrir sig. Og meðan sú tilfinning vaknar ekki í sveitunum, hjá búendum, sveitarstjórnum, og sýslustjórnum, aðeins nauðsynlegt sé að bæta vegina og halda þeim við, eins og fjárhúsunum, og bæjarhúsunum, á meðan er ekki neinna verulegra framfara von í vegabótunum, því það er í þessu, eins og svo mörgu öðru, að hugsunarhátturinn þarf að breytast til þess að framfarirnar komist á.
Til þess að auka áhugann á vegabótunum er eflaust þessi breyting, sem farið er fram á í frv. sr. J. P. hin heppilegasta, því þegar bændur færu að finna það að þeim sjálfum væri verulegur léttir að því að unnið væri að vegabótum sem mest og best, þá mundi áhuginn hjá þeim aukast og koma fram í verkinu.
Þessu frv. sr. J. P. hefir hvarvetna verið tekið vel af þjóðinni, og það verður eflaust borið fram aftur á næsta alþ., það fær því nú ef til vill betri byr þar, því vonandi er, að efri deild þingsins verði ekki annað eins dauðadýki framfaramála þjóðarinnar á næsta alþ. eins og hún var á hinu síðastliðna alþ.
Með þessari stefnu, sem fylgt hefir verið í vegabótunum hingað til, hlýtur öllum að vera það ljóst, að verulegar framfarir eru ómögulegar, því til þess að gjöra alla aðalpóstvegi landsins að rennisléttum vegum þarf svo mikið fé, og svo langan tíma, að flesta mun sundla við, sem hafa fyrir augum sér heill þjóðarinnar í heild sinni. Væru brúaðar stórár, og gjört við verstu faratálma á póstleiðunum mundi vel mega við það sæma, en það er ei framfara von fyrir þjóðina, að kasta út stórfé til þess að gjöra rennisléttar brautir upp á fjöllum, "þar sem hrafnar og tófur eiga mest ferð um", eins og B. Sveinsson sagði einu sinni, en láta allt vera kviksyndi og hraungrýti á sveitavegunum, þar sem mestur hluti þjóðarinnar á ferð um. Að vísu hefir nú í seinni tíð verið varið talsvert meiru fé til aðalpóstveganna í byggðum, en því fé hefir mestu verið varið umhverfis Reykjavík. Vér sem búum á útkjálkum landsins megum skrölta um sömu grjótgöturnar og áður. Til þess að bæta vegina hjá oss, vantar oftast fé þegar um það er beðið.
Það er að mínu áliti og margra annarra, einn stórgalli á þessu frv. sr. Jens, og hann er sá, að þar var eigi gjört ráð fyrir neinni breyting á hreppavegavinnunni, eða neinum auknum fjártillögum til hreppaveganna, það átti að sitja við þetta gamla hálfa dagsverk til þeirra, sem ákveðið er í núgildandi lögum, og sem hver maður átti að mega vinna af sér, það liggur þó ljóst fyrir öllum sem gefa gætur að hreppavegabótunum eins og þær eru nú, að ef nokkur framför á að verða í þeim, þá verður bæði að leggja til þeirra meira fé, og vinna þær vegabætur á sama hátt og aðrar, þ. e. kaupa menn til að vinna þær fyrir fullkomin laun. Að týna saman þessi hálfu dagsverk hefir margt illt í för með sér. Margir húsbændur láta lélegasta manninn sem þeir hafa í vinnuna, bara það sleppi, þá er nóg. Vinnunni er með þessu lagi dreift til og frá um allan hreppinn, því hver vill fá að láta vinna sem næst sér, til þess að þurfa sem skemmst að senda manninn. Afleiðingarnar af þessu eru, að nær hvergi sjást samanhangandi vegagjörðir á hreppavegi, heldur allt einir stefnulausir illa gjörðir vegaspottar, sem unnið er að kunnáttulaust og eftirlitslaust, því fjöldi bænda lætur vinna að þessum vegabótum til þess að leysa sig undan gjaldinu, með því að vinna eitthvað að nafninu, en alls ekki með þeirri hugsun að koma sem mestu í verk af þarflegum og góðum vegabótum í sveitinni. Væru keyptir menn til þessara vegabóta og þeim sæmilega launað, mundu miklu fremur bjóða sig fram menn til að vinna þær ár eftir ár, sem gætu þá með tímanum öðlast bæði æfingu og þekkingu í vegagjörðum.
1. þ. m. Skagfirðinga, (Ól. Br.) bar upp þá breytingartill. við frv. sr. J. P. á síð. alþ. að borgaðar væru úr sveitarsjóði til hreppavegabóta 2 kr. fyrir hvern verkfæran mann í hreppnum. Það komu þegar fram í neðri deild alþ. háværar raddir gegn þessari tillögu og töldu slíkt illþolandi gjaldabyrði fyrir almenning. En slíkt virðist mér vera byggt á stórum misskilningi, því fyrst er það nú hrein og bein mótsögn að biðja alltaf, og það með réttum rökum, um meira fé, úr landssjóði til þeirra vega, sem hann á að kosta, en vilja ekki leggja neitt meira fé til þeirra vega, sem sveitasjóðirnir eiga að kosta, þar sem allir skynberandi menn hljóta þó að sjá að til þeirra vega þarf engu síður að kosta fé - þeir eru alls ekki í betra lagi en þeir vegir sem úr landssjóði eru kostaðir og það er engu minna framfaraspursmál að hreppavegirnir batni heldur en aðrir vegir.
Svo er líka þess að gæta þó lagt sé á gjaldendur nokkuð hærra gjald til þessara vegagjörða, þá geta þeir sjálfir ráðið hvernig því er varið, og það rennur aftur í þeirra eigin vasa, ef þeir hafa dug til að vinna að vegagjörðunum. Af þeim fjárframlögum sem þannig er varið til almenningsþarfa leiðir tvennt gott, það eykur atvinnu í sveitunum og með því er hægt að koma í verk nauðsynlegri framför. Ég hygg það sé engum efa bundið að það væri oft heppilegra fyrir sveitastjórnirnar að hafa til vegabótavinnu með sæmilegum launum handa snauðum mönnum sem lifa á sveitarstyrk, heldur en að leggja þeim alltaf úr sveitarsjóði, og láta þá oft vera iðjulitla haust og vor, eða vinna að illa borgaðri kaupstaðarvinnu.
Það væri vert fyrir kjósendur að athuga vel þessa nýju stefnu, sem kom fram í vegabótamálinu á síð. alþ., og það er vonandi að þeir sannfærist um að aðalatriðið í þeirri stefnu, að leggja mesta áherslu á að bæta flutningavegina, er miklu líklegra til þjóðheilla og framfara en sú stefna í vegagjörðum sem nú er fylgt, en gæta verður þess um leið og aukin eru fjárframlög til vegagjörða úr landssjóði að glæða ekki með lögunum þann hugsunarhátt hjá alþýðu, að rétt sé að koma sér sem mest undan gjöldum til sveitaveganna. Löggjöfin verður að miða til þess að leiða fram hina bestu krafta þjóðarinnar í þessu sem örðu, en forðast allt sem elur upp eigingirnina og smásálarskapinn.