1893

Þjóðólfur, 17. júní 1893, 45. árg., 28. tbl., forsíða:

Um póstgöngur í Norður-Þingeyjarsýslu.
(Svar).
Viljið þér, herra ritstjóri, gera svo vel, að taka eftirfarandi grein í blað yðar "Þjóðólf". Hún hefur legið 6 mánuði í salti hjá ritstjóra "Austra" án þess að birtast á prenti, eins og til var ætlast í haust, og flý ég því nú á yðar náðir með hana.
Í tveim blöðum "Austra" hins yngra (I. 13. bls. 49-50 og II, 19. bls. 71-72) eru mjög langorðar greinir tvær um póstgöngur o. s. frv. í norðurhluta hins nýja Austfirðinga-fjórðungs. Fyrri greinin hefur að fyrirsögn: "Bréf af Sléttu", og hin síðari: "Um vegi og samgöngur". Báðar greinir þessar gefa ókunnugum mönnum mjög skakkar skoðanir í flestu á málefnum þeim, sem um er rætt, og mega því ekki ómótmæltar standa, enda því skaðlegri, sem í almæli er, að amtsráðsmaður vor Norður-Þingeyinga sé höfundur beggja greinanna. Höf. þessi, hver svo sem hann er, má ekki með nokkru móti komast upp með það, að bera út í almenning í opinberu blaði það, sem er jafnvillandi frá sannleikanum, eins og þessar tvær greinir eru að mörgu leyti, og af því að enginn hefur orðið til að andmæla, þykir mér ekki þegjandi lengur.
1. Það er þá fyrst II. kafli, "Bréfs af Sléttu", er ég vil snúa mér að. Ég vona, að allir góðir Íslendingar séu ósamdóma höf. að þessum orðum hans, er hann byrjar II. kafla með: "Oss Íslendingum ríður meira á, að fá góðar samgöngur en nýja stjórnarskrá", segir hann, góði maður, gætandi ekki að því, að allar sannar framfarir koma eins og af sjálfu sér í þeim löndum, þar sem sannarlegt stjórnarfrelsi hefur getað náð fótfestu, eins samgöngur sem annað. Verkin sýna merkin hjá öllum mestu framfaraþjóðunum, og raunin er hér sem ætíð ólygnust.
Höf. segir, að "ráðstöfun neðri deildar alþingis (1891), um að láta aðalpóstinn milli Akureyrar og Seyðisfjarðar ganga eftir sveitum, án þess að ganga um Núpasveit og Sléttu og 1 til 2 bæi í utanverðum Þistilfirði, sé í ýmsum greinum mjög óheppileg". Þetta var blaðran, sem sprakk, og þar um vefur höf. ruglvef sinn. Við það, að aðalpósturinn fer beint yfir Axarfjarðarheiði, gæti að vísu verslunarstjórinn á Raufarhöfn ekki svarað einstöku bréfum sínum aftur um hæl með sama pósti, eins og hann gerir nú, með því að fá póstana þvert á móti því, sem þeir mega og er skipað fyrir, að bíða eftir bréfum hans. Það er aðgætandi, að þetta getur enginn brallað, nema verslunarstjórinn á Raufarhöfn, af því að hann er allra manna pennafærastur. - Væri þar á móti aukapóstur, eins og bæði Alþingi og sýslunefnd Norður-Þingeyinga og amtsráðsmennirnir séra Einar í Kirkjubæ og Sigurður á Hafursá vilja, frá Skinnastað út eftir, ætti hann að ganga út Núpasveit og út að Grjótnesi og eftir Sléttunni á Raufarhöfn. Þessa væri fyllilega þörf, því að Sléttungar eru með þessu lagi, sem nú er, mjög útúrskotnir, en bættist alveg úr því, ef aukapósturinn væri látinn ganga á þann hátt, er nú var sagt.
Engin hæfa er í því, sem höf. "Bréfs af Sléttu" segir viðvíkjandi vegalengd o. s. frv. á Hólsstíg og Axarfjarðarheiði. Hólsstígur er oft bráðófær á vetrardag og ekki fjölfarinn hvorki vetur, vor né sumar, síðan uppsigling fékkst til Kópaskers; á honum er slæmur vegur, og mjög villugjarn á vetrum. Hann er jafnlangur (Úr Núpasveit út á Raufarhöfn) Axarfjarðarheiði eftir mælingu lieutenants Borns frá 1817. Axarfjarðarheiði er með betri heiðum hér í Þingeyjarsýslu bæði að því, hve góður vegur er á henni frá náttúrunnar hendi, og að því, hve oft góð færi eru á henni á vetrum, enda nú þegar fyrir nokkru vörðuð góðum vörðum bæja á milli. Hún má heita sem oftast vel fær allan veturinn, og það þó Hólsstígur sé bráð-ófær. Það getur að minnsta kosti á vetrardag munað um eina viku, sem póstur yrði lengur að fara ytri veginn, heldur en Axarfjarðarheiðina. Til þess að ekki sé hægt að fara yfir hana á dag í skammdegi, sé ég ekki neina ástæðu næstum í hverju veðri sem væri, enda veit ég ekki betur, en að enn í dag standi nýlegur kofi á miðri heiðinni (í Hraunshaga, sem er niðurlagt býli fyrir 4 árum), til að setjast að í, ef endilega þarf; en í flestum vetrum mun þó slíkt ekki koma fyrir að þurfi.
Sjálfsagt er, að láta ekki aðalpóstinn fara nema í lengsta lagi út að Þórshöfn á Langanesi, og þaðan yfir Brekknaheiði, sem, eins og höf. "Bréfs af Sléttu" segir, er fjölförnust, enda miklu betri vegur en hinn sjaldfarni Sauðanesháls, sem er ótræði, - eða þá um Hallgilsstaði yfir Helkunduheiði.
Það, sem þá er eftir að minnast á í "Bréfi af Sléttu" (endirinn), er tómt bull, og sé ég því enga ástæðu til að eyða orðum um það og elta ólar við slíkar lokleysur, sem öllum skynberandi mönnum hljóta að liggja í augum uppi.
2. Sama og um endann á "Bréfi af Sléttu" má að mestu leyti segja um flest í "Nokkur orð um vegi og samgöngur (í Austra II. 19.). Hálfur þriðji dálkur (fyrri helmingur) er eintómt lokleysuhjal. Á allt er litið á landi voru gegnum sótsvört gleraugu, og sjá allir heilvita menn, hvílík fjarstæða slíkt er, sem þar er borið á borð. Það er að vísu vitanlegt, að oss Íslendingum er eins og öðrum mönnum ábótavant, enda "fáir smiðir í fyrsta sinn" meðan viðvaningar eru.
Það er eins og annað hjá þessum höf. skrýtin kenning, að ekki neitt gagn sé að póstgöngum nema það, að góður vegur verði lagður. Fyrir hví er þá verið að hafa nokkurn póst, ef þetta væri satt? En það er sem betur fer ósatt hjá höf., eins og ég vona að allir viðurkenni, og þarf ekki annars hraknings, enda er það fífldirfska og öfgar, að gera sýslunefnd Norður-Þingeyinga, sem hefur ábyrgð gerða sinna, slíkar órýmilegar getsakir, sem þessi höf. gerir.
Ég nenni nú ekki í þetta sinn, að vera að setja ofan í við höf. þennan meir en orðið er. Aðeins gleður það mig, að Norður-Mýlingar eru með oss Norður-Þingeyingum yfir höfuð í því, að haga póstgöngunum eins og neðri deild alþingis samþykkti 1891 og sýslunefnd Norður-Þingeyinga hefur aftur og aftur farið fram á og mun enn halda fram, þrátt fyrir mótþróa amtmanns vors og amtsráðsmanns. Það voru einmitt Norður-Mýlingar, er vér Norður-Þingeyingar að upphafi vorum hræddir um, að mundu verða á móti þessu, einkum Seyðfirðingar, af því að þeir fá líklega ofurlítið seinna bréf af Akureyri, ef pósturinn er látinn ganga eftir sveitum, í stað þess sem nú er yfir öræfi.
Mér er óhætt að segja, að vér Norður-Þingeyingar erum þeim, og sérstaklega amtsráðsmönnum þeirra séra Einari og Sigurði að Hafursá, mjög þakklátir fyrir það, að þeir hafa tekið eins og góðir drengir undir þetta áhuga- og velferðarmál vort, er oss finnst vera, og ekki látið villa sig af ranghermi misjafnrar raddar, er, sem betur fer, mun ein uppi standa í öllum Austfirðingafjórðungi.
Skinnastað, 21. sept. 1892.
Þórleifr Jónsson.


Þjóðólfur, 17. júní 1893, 45. árg., 28. tbl., forsíða:

Um póstgöngur í Norður-Þingeyjarsýslu.
(Svar).
Viljið þér, herra ritstjóri, gera svo vel, að taka eftirfarandi grein í blað yðar "Þjóðólf". Hún hefur legið 6 mánuði í salti hjá ritstjóra "Austra" án þess að birtast á prenti, eins og til var ætlast í haust, og flý ég því nú á yðar náðir með hana.
Í tveim blöðum "Austra" hins yngra (I. 13. bls. 49-50 og II, 19. bls. 71-72) eru mjög langorðar greinir tvær um póstgöngur o. s. frv. í norðurhluta hins nýja Austfirðinga-fjórðungs. Fyrri greinin hefur að fyrirsögn: "Bréf af Sléttu", og hin síðari: "Um vegi og samgöngur". Báðar greinir þessar gefa ókunnugum mönnum mjög skakkar skoðanir í flestu á málefnum þeim, sem um er rætt, og mega því ekki ómótmæltar standa, enda því skaðlegri, sem í almæli er, að amtsráðsmaður vor Norður-Þingeyinga sé höfundur beggja greinanna. Höf. þessi, hver svo sem hann er, má ekki með nokkru móti komast upp með það, að bera út í almenning í opinberu blaði það, sem er jafnvillandi frá sannleikanum, eins og þessar tvær greinir eru að mörgu leyti, og af því að enginn hefur orðið til að andmæla, þykir mér ekki þegjandi lengur.
1. Það er þá fyrst II. kafli, "Bréfs af Sléttu", er ég vil snúa mér að. Ég vona, að allir góðir Íslendingar séu ósamdóma höf. að þessum orðum hans, er hann byrjar II. kafla með: "Oss Íslendingum ríður meira á, að fá góðar samgöngur en nýja stjórnarskrá", segir hann, góði maður, gætandi ekki að því, að allar sannar framfarir koma eins og af sjálfu sér í þeim löndum, þar sem sannarlegt stjórnarfrelsi hefur getað náð fótfestu, eins samgöngur sem annað. Verkin sýna merkin hjá öllum mestu framfaraþjóðunum, og raunin er hér sem ætíð ólygnust.
Höf. segir, að "ráðstöfun neðri deildar alþingis (1891), um að láta aðalpóstinn milli Akureyrar og Seyðisfjarðar ganga eftir sveitum, án þess að ganga um Núpasveit og Sléttu og 1 til 2 bæi í utanverðum Þistilfirði, sé í ýmsum greinum mjög óheppileg". Þetta var blaðran, sem sprakk, og þar um vefur höf. ruglvef sinn. Við það, að aðalpósturinn fer beint yfir Axarfjarðarheiði, gæti að vísu verslunarstjórinn á Raufarhöfn ekki svarað einstöku bréfum sínum aftur um hæl með sama pósti, eins og hann gerir nú, með því að fá póstana þvert á móti því, sem þeir mega og er skipað fyrir, að bíða eftir bréfum hans. Það er aðgætandi, að þetta getur enginn brallað, nema verslunarstjórinn á Raufarhöfn, af því að hann er allra manna pennafærastur. - Væri þar á móti aukapóstur, eins og bæði Alþingi og sýslunefnd Norður-Þingeyinga og amtsráðsmennirnir séra Einar í Kirkjubæ og Sigurður á Hafursá vilja, frá Skinnastað út eftir, ætti hann að ganga út Núpasveit og út að Grjótnesi og eftir Sléttunni á Raufarhöfn. Þessa væri fyllilega þörf, því að Sléttungar eru með þessu lagi, sem nú er, mjög útúrskotnir, en bættist alveg úr því, ef aukapósturinn væri látinn ganga á þann hátt, er nú var sagt.
Engin hæfa er í því, sem höf. "Bréfs af Sléttu" segir viðvíkjandi vegalengd o. s. frv. á Hólsstíg og Axarfjarðarheiði. Hólsstígur er oft bráðófær á vetrardag og ekki fjölfarinn hvorki vetur, vor né sumar, síðan uppsigling fékkst til Kópaskers; á honum er slæmur vegur, og mjög villugjarn á vetrum. Hann er jafnlangur (Úr Núpasveit út á Raufarhöfn) Axarfjarðarheiði eftir mælingu lieutenants Borns frá 1817. Axarfjarðarheiði er með betri heiðum hér í Þingeyjarsýslu bæði að því, hve góður vegur er á henni frá náttúrunnar hendi, og að því, hve oft góð færi eru á henni á vetrum, enda nú þegar fyrir nokkru vörðuð góðum vörðum bæja á milli. Hún má heita sem oftast vel fær allan veturinn, og það þó Hólsstígur sé bráð-ófær. Það getur að minnsta kosti á vetrardag munað um eina viku, sem póstur yrði lengur að fara ytri veginn, heldur en Axarfjarðarheiðina. Til þess að ekki sé hægt að fara yfir hana á dag í skammdegi, sé ég ekki neina ástæðu næstum í hverju veðri sem væri, enda veit ég ekki betur, en að enn í dag standi nýlegur kofi á miðri heiðinni (í Hraunshaga, sem er niðurlagt býli fyrir 4 árum), til að setjast að í, ef endilega þarf; en í flestum vetrum mun þó slíkt ekki koma fyrir að þurfi.
Sjálfsagt er, að láta ekki aðalpóstinn fara nema í lengsta lagi út að Þórshöfn á Langanesi, og þaðan yfir Brekknaheiði, sem, eins og höf. "Bréfs af Sléttu" segir, er fjölförnust, enda miklu betri vegur en hinn sjaldfarni Sauðanesháls, sem er ótræði, - eða þá um Hallgilsstaði yfir Helkunduheiði.
Það, sem þá er eftir að minnast á í "Bréfi af Sléttu" (endirinn), er tómt bull, og sé ég því enga ástæðu til að eyða orðum um það og elta ólar við slíkar lokleysur, sem öllum skynberandi mönnum hljóta að liggja í augum uppi.
2. Sama og um endann á "Bréfi af Sléttu" má að mestu leyti segja um flest í "Nokkur orð um vegi og samgöngur (í Austra II. 19.). Hálfur þriðji dálkur (fyrri helmingur) er eintómt lokleysuhjal. Á allt er litið á landi voru gegnum sótsvört gleraugu, og sjá allir heilvita menn, hvílík fjarstæða slíkt er, sem þar er borið á borð. Það er að vísu vitanlegt, að oss Íslendingum er eins og öðrum mönnum ábótavant, enda "fáir smiðir í fyrsta sinn" meðan viðvaningar eru.
Það er eins og annað hjá þessum höf. skrýtin kenning, að ekki neitt gagn sé að póstgöngum nema það, að góður vegur verði lagður. Fyrir hví er þá verið að hafa nokkurn póst, ef þetta væri satt? En það er sem betur fer ósatt hjá höf., eins og ég vona að allir viðurkenni, og þarf ekki annars hraknings, enda er það fífldirfska og öfgar, að gera sýslunefnd Norður-Þingeyinga, sem hefur ábyrgð gerða sinna, slíkar órýmilegar getsakir, sem þessi höf. gerir.
Ég nenni nú ekki í þetta sinn, að vera að setja ofan í við höf. þennan meir en orðið er. Aðeins gleður það mig, að Norður-Mýlingar eru með oss Norður-Þingeyingum yfir höfuð í því, að haga póstgöngunum eins og neðri deild alþingis samþykkti 1891 og sýslunefnd Norður-Þingeyinga hefur aftur og aftur farið fram á og mun enn halda fram, þrátt fyrir mótþróa amtmanns vors og amtsráðsmanns. Það voru einmitt Norður-Mýlingar, er vér Norður-Þingeyingar að upphafi vorum hræddir um, að mundu verða á móti þessu, einkum Seyðfirðingar, af því að þeir fá líklega ofurlítið seinna bréf af Akureyri, ef pósturinn er látinn ganga eftir sveitum, í stað þess sem nú er yfir öræfi.
Mér er óhætt að segja, að vér Norður-Þingeyingar erum þeim, og sérstaklega amtsráðsmönnum þeirra séra Einari og Sigurði að Hafursá, mjög þakklátir fyrir það, að þeir hafa tekið eins og góðir drengir undir þetta áhuga- og velferðarmál vort, er oss finnst vera, og ekki látið villa sig af ranghermi misjafnrar raddar, er, sem betur fer, mun ein uppi standa í öllum Austfirðingafjórðungi.
Skinnastað, 21. sept. 1892.
Þórleifr Jónsson.