1893

Ísafold, 13. sept. 1893, 20. árg., 62. tbl., forsíða:

Héraða-vegabætur.
Það er rænulaus maður eða harla tilfinningasljór um hagi landsins, er eigi gleðst yfir þeirri miklu breytingu, þeim snöggu umskiptum til batnaðar, sem orðið hafa á lands-vegagerð hér á landi á um síðasta áratug. Það er eigi svo að skilja, að miklu sé af lokið af því stórkostlega verkefni, að leggja góða vegi eða siðaðri þjóð samboðna um land allt. Slíks er engin von á jafnskömmum tíma og liðinn er síðan er farið var að gera hér vegi af viti og kunnáttu. Framförin er í því fólgin, að nú er lið í því, sem gert er. Það er ekki nýtt kák, eins og áður, margoft innan skamms verra en það sem eftir hestafæturna lá, meðan þeir einir fengust við að leggja vegi um landið. Þeir bera í stuttu máli eins og gull af eyri, þessir vegakaflar, er gerðir hafa verið á landssjóðs kostnað síðan landsstjórnin vitkaðist loks svo, að hún fór að fá útlenda vegfræðinga og vegavinnumenn til þess að gera hér vegi og kenna innlendum mönnum vegagerðarlist.
Vitanlega eru vegir þessir samt sem áður engan veginn svo fullkomnir, sem verða má eða gott þykir í öðrum löndum, þar sem mikið er með vegi að gera. Vegna fátæktar vorrar og þess annars, að umferð er hér víðast fremur lítil, þá er höfð hér hin kostnaðar- eða íburðarminnsta vegagerð, er við þykir mega hlíta meðal menntaþjóðanna, og því eigi nærri því svo ramgjör og endingargóð sem ákjósanlegast væri, þó að harla ólíku sé saman að jafna því sem áður gerðist hér. Viðhald á henni verður því kostnaðarsamara en ella mundi. En hvað sem því líður, þá er umbótin í þessu efni stórmikil, einhver hinn álitlegasti framfaravottur, er vér höfum af að segja.
Þetta sjá nú og skilja flestir þeir, er einhver kynni hafa af hinni nýju vegagerð. Það var öðruvísi fyrst þegar hún hófst. Það voru eigi einungis ófróðir almúgamenn, sem hristu höfuðið yfir annarri eins vitleysu og að vera að hauga upp moldarbing og kalla það veg, heldur mátti heyra hámenntað þingmannsefni fárast út af því á þingmálafundi um þær mundir, að vera að panta vegagerðarmenn frá útlöndum, í stað þess að láta landsmenn njóta þeirrar vinnu. Jafnvel fyrir honum og hans nótum vakti þá enn sú hugsun, að vegavinna væri svona hér um bil niðursetuvinna.
En víða um land hafa menn enn lítil sem engin kynni af hinni nýju vegagerð, þó að sýnishorn sé raunar komið af henni í alla landsfjórðunga. Því bar það til nú á þessu sumri, að maður tók til að beita hinni nýju kunnáttu eða nýju aðferð í afskekktu héraði, en fékk óðara það vottorð almenningsálitsins þar, að hann hefði "auðsjáanlega" ekkert vit á, hvernig vegi ætti að leggja: þeir sáu hann sem sé meðal annars sveigja veginn fyrir litla brekku, í stað þess að halda þverbeint upp hana, svo sem áður þótti sjálfsagt.
En þó að menn sjái annars almennt yfirburði hinnar nýju vegagerðar og viðurkenni þá í orði, þá eru þeir samt engan veginn svo rótfastir orðnir í meðvitund manna sem skyldi. Þegar til framkvæmdanna kemur er ýmist sem þeim þyki þó ekki neitt leggjandi í sölurnar fyrir þessa yfirburði, eða þá að þeir hugsa að eigi þurfi nema að hafa séð almennilega gerðan veg til þess að geta gert slíkan sjálfur.
Þetta sést greinilega á héraða-vegunum, en svo eru hér nefndir einu nafni fyrir stuttleika sakir sýsluvegir og hreppavegir.
Það er hraparlegt að sjá þar enn dafna víðast sama vankunnáttu-kákið og áður var algengt um alla vegagerð hér á landi. Þarf eigi að lýsa, hvernig það er lagað. Einkennið er það, að áður langt um líður kjósa menn og skepnur af illu til heldur að fara utan hjá veginum en eftir honum, sé þess nokkur kostur. Það er sjálfsagt, að frá þessu eru nokkrar undantekningar; en það er þá oft líkara tilviljun en kunnáttu og fyrirhyggju.
Ráðið til að koma þessu af er það, að hafa við hverja vegagerð að minnsta kosti verkstjóra, sem kann hina nýju aðferð, hefir numið hana verklega. Hefði verið ráð í tíma tekið og sendir einn eða tveir menn úr hverri sýslu í vinnu við landssjóðsvegagerð þegar er lag komst á hana, þá væri nú ekki svo mikill hörgull á slíkum verkstjórum. En þó að það hafi verið vanrækt, þá eru samt nú orðið til svo margir, sem vinnu þessa kunna, að vel mætti fá slíka menn í öll héruð landsins, ef það væri fast sótt. Hér nærlendis við Reykjavík að minnsta kosti ætti ekki að þurfa að leggja svo nokkurn vegarspotta jafnvel ekki á hreppavegum, að fyrir vinnunni stæði ekki maður, sem kann hina réttu aðferð að því. Það er að segja sjálfa vegavinnuna. Hitt, að afmarka vegarstefnu og mæla út vegarstæði svo vel sé hvað halla snertir og annað, það er auðvitað ekki nema á fárra manna færi hér að svo stöddu; en með því að það má gera löngu fyrir fram, á ýmsum tímum, mætti einnig fá sæmilega aðstoð til þess víða.
Hvað hreppavega snertir er þetta sleifarlag mikið því að kenna, að lög gera ráð fyrir að hreppsmenn vinni að þeim sjálfir í dagsverkum. En ókleyft ætti ekki að vera fyrir það, að ráða utanhreppsmann fyrir verkstjóra, ef kunnáttu vantar innan hrepps. Einhver ráð mundi mega finna til þess. Hér er meira um að tefla en margur hyggur. Það er eytt á að giska um 20.000 kr. í hreppavegavinnu á ári hverju; og þó að ekki væri nema helming af því sama sem fleygt í sjóinn sakir kunnáttuleysis, þá er það ærinn skattur á fátæka þjóð; hann er óþolandi og óhafandi.
Til sýsluvegavinnu eru lagðir eintómir peningar; eða að minnsta kosti á sýsluvegagjaldið að greiðast í peningum. Þar er því eigi dagsverkavinnan til neinnar fyrirstöðu því, að ráða til verksins þá sem kunna eða til verkstjórnar að minnsta kosti. En það mun tíðkast enn í flestum sýslunefndum, að sýslunefndarmanni hvers hrepps sé falið á hendur að sjá um sýsluvegavinnuna í sínum hreppi og að sá hinn sami láti annaðhvort orðalaust vinna hana "upp á gamla móðinn", eða þá, ætli hann að fara að stæla nýja lagið, þá kunni hann einnig að gera slíka.
Þetta er raunar hin mesta ósvinna, hrapaleg vanbrúkun á fé, sem lagt er til almennings-þarfa, um 20.000 kr. ári, eins og til hreppaveganna. Það ætti engin sýslunefnd nú orðið að vera við annað en að láta vinna alla sína vegavinnu undir verkstjórn manns, sem kann verkið, - nema rétt einfalda vegaruðning, þar sem hún er látin duga. Hitt er að ausa í botnlausa hít. Með því lagi verða sýslurnar jafnilla staddar með vegi eftir 20, 30 eða 50 ár eins og nú; þar vinnst ekkert áfram; allt verður ónýtt jafnóðum.
Svo er annað. Það mun nú siður í mörgum ef eigi flestum sýslunefndum, að smábita niður sýsluvegaféð í alla hreppana á hverju ári, sitt lítið í hvern. Hver nefndarmaður skarar eld að sinni köku. Það lætur og vel í eyrum og sanngjarnlega, að hver hreppur fái að njóta síns sýsluvegagjalds. En slík stefna er mesta skaðræði. Fyrir það verður hálfu minna úr framkvæmdum en ella mundi; takmarkið næst hálfu seinna: það, að fá góða vegi um sýsluna. Hitt er rétt, að hafa ekki undir nema einn veg í einu, þar fyrst, sem mest er þörfin og mest umferðin, og ljúka við hann áður en tekið er til annarsstaðar, nema hvað hyggilegt getur verið að verja einhverju lítilræði til ruðninga, þar sem þess er mest þörf, eða til þess að gera fært yfir lítils háttar torfærur, auk viðhalds á fullgerðum vegarköflum, er síst má vanrækja.
Þó að hér sé talað um sama frágang á héraðavegum og landsvegum, þá er það eigi svo að skilja, að þeir þurfi endilega að vera jafn-íburðarmiklir eða kostnaðarsamir, heldur að eins hitt, að unnið sé að þeim á réttan hátt, svo að fullum notum komi hvað endingu snertir og annað. Með öðrum orðum, að það, sem gert er af nýjum sýslu- eða hreppavegum, séu réttnefndir vegir, en ekki vegleysa. Eða þá reynt að bjargast við einfalda vegaruðning, þar sem það er takandi í mál. En ekki verið með gagnslaust kák, sem nefnd er vegasmíð, en er margsinnis verra en ógert. Sömuleiðis ríður á, að hafa hæfileg tól og tæki til vegavinnunnar. Ónýt áhöld eða ónóg gera hana að verkleysu.
Með svofelldri lögun eða því um líkri á héraða-vegabótum mundi brátt sjást votta fyrir mikilli framför í því efni, miklum stakkaskiptum frá því sem nú er, þó að ekki sé meira fé til þeirra lagt.


Ísafold, 13. sept. 1893, 20. árg., 62. tbl., forsíða:

Héraða-vegabætur.
Það er rænulaus maður eða harla tilfinningasljór um hagi landsins, er eigi gleðst yfir þeirri miklu breytingu, þeim snöggu umskiptum til batnaðar, sem orðið hafa á lands-vegagerð hér á landi á um síðasta áratug. Það er eigi svo að skilja, að miklu sé af lokið af því stórkostlega verkefni, að leggja góða vegi eða siðaðri þjóð samboðna um land allt. Slíks er engin von á jafnskömmum tíma og liðinn er síðan er farið var að gera hér vegi af viti og kunnáttu. Framförin er í því fólgin, að nú er lið í því, sem gert er. Það er ekki nýtt kák, eins og áður, margoft innan skamms verra en það sem eftir hestafæturna lá, meðan þeir einir fengust við að leggja vegi um landið. Þeir bera í stuttu máli eins og gull af eyri, þessir vegakaflar, er gerðir hafa verið á landssjóðs kostnað síðan landsstjórnin vitkaðist loks svo, að hún fór að fá útlenda vegfræðinga og vegavinnumenn til þess að gera hér vegi og kenna innlendum mönnum vegagerðarlist.
Vitanlega eru vegir þessir samt sem áður engan veginn svo fullkomnir, sem verða má eða gott þykir í öðrum löndum, þar sem mikið er með vegi að gera. Vegna fátæktar vorrar og þess annars, að umferð er hér víðast fremur lítil, þá er höfð hér hin kostnaðar- eða íburðarminnsta vegagerð, er við þykir mega hlíta meðal menntaþjóðanna, og því eigi nærri því svo ramgjör og endingargóð sem ákjósanlegast væri, þó að harla ólíku sé saman að jafna því sem áður gerðist hér. Viðhald á henni verður því kostnaðarsamara en ella mundi. En hvað sem því líður, þá er umbótin í þessu efni stórmikil, einhver hinn álitlegasti framfaravottur, er vér höfum af að segja.
Þetta sjá nú og skilja flestir þeir, er einhver kynni hafa af hinni nýju vegagerð. Það var öðruvísi fyrst þegar hún hófst. Það voru eigi einungis ófróðir almúgamenn, sem hristu höfuðið yfir annarri eins vitleysu og að vera að hauga upp moldarbing og kalla það veg, heldur mátti heyra hámenntað þingmannsefni fárast út af því á þingmálafundi um þær mundir, að vera að panta vegagerðarmenn frá útlöndum, í stað þess að láta landsmenn njóta þeirrar vinnu. Jafnvel fyrir honum og hans nótum vakti þá enn sú hugsun, að vegavinna væri svona hér um bil niðursetuvinna.
En víða um land hafa menn enn lítil sem engin kynni af hinni nýju vegagerð, þó að sýnishorn sé raunar komið af henni í alla landsfjórðunga. Því bar það til nú á þessu sumri, að maður tók til að beita hinni nýju kunnáttu eða nýju aðferð í afskekktu héraði, en fékk óðara það vottorð almenningsálitsins þar, að hann hefði "auðsjáanlega" ekkert vit á, hvernig vegi ætti að leggja: þeir sáu hann sem sé meðal annars sveigja veginn fyrir litla brekku, í stað þess að halda þverbeint upp hana, svo sem áður þótti sjálfsagt.
En þó að menn sjái annars almennt yfirburði hinnar nýju vegagerðar og viðurkenni þá í orði, þá eru þeir samt engan veginn svo rótfastir orðnir í meðvitund manna sem skyldi. Þegar til framkvæmdanna kemur er ýmist sem þeim þyki þó ekki neitt leggjandi í sölurnar fyrir þessa yfirburði, eða þá að þeir hugsa að eigi þurfi nema að hafa séð almennilega gerðan veg til þess að geta gert slíkan sjálfur.
Þetta sést greinilega á héraða-vegunum, en svo eru hér nefndir einu nafni fyrir stuttleika sakir sýsluvegir og hreppavegir.
Það er hraparlegt að sjá þar enn dafna víðast sama vankunnáttu-kákið og áður var algengt um alla vegagerð hér á landi. Þarf eigi að lýsa, hvernig það er lagað. Einkennið er það, að áður langt um líður kjósa menn og skepnur af illu til heldur að fara utan hjá veginum en eftir honum, sé þess nokkur kostur. Það er sjálfsagt, að frá þessu eru nokkrar undantekningar; en það er þá oft líkara tilviljun en kunnáttu og fyrirhyggju.
Ráðið til að koma þessu af er það, að hafa við hverja vegagerð að minnsta kosti verkstjóra, sem kann hina nýju aðferð, hefir numið hana verklega. Hefði verið ráð í tíma tekið og sendir einn eða tveir menn úr hverri sýslu í vinnu við landssjóðsvegagerð þegar er lag komst á hana, þá væri nú ekki svo mikill hörgull á slíkum verkstjórum. En þó að það hafi verið vanrækt, þá eru samt nú orðið til svo margir, sem vinnu þessa kunna, að vel mætti fá slíka menn í öll héruð landsins, ef það væri fast sótt. Hér nærlendis við Reykjavík að minnsta kosti ætti ekki að þurfa að leggja svo nokkurn vegarspotta jafnvel ekki á hreppavegum, að fyrir vinnunni stæði ekki maður, sem kann hina réttu aðferð að því. Það er að segja sjálfa vegavinnuna. Hitt, að afmarka vegarstefnu og mæla út vegarstæði svo vel sé hvað halla snertir og annað, það er auðvitað ekki nema á fárra manna færi hér að svo stöddu; en með því að það má gera löngu fyrir fram, á ýmsum tímum, mætti einnig fá sæmilega aðstoð til þess víða.
Hvað hreppavega snertir er þetta sleifarlag mikið því að kenna, að lög gera ráð fyrir að hreppsmenn vinni að þeim sjálfir í dagsverkum. En ókleyft ætti ekki að vera fyrir það, að ráða utanhreppsmann fyrir verkstjóra, ef kunnáttu vantar innan hrepps. Einhver ráð mundi mega finna til þess. Hér er meira um að tefla en margur hyggur. Það er eytt á að giska um 20.000 kr. í hreppavegavinnu á ári hverju; og þó að ekki væri nema helming af því sama sem fleygt í sjóinn sakir kunnáttuleysis, þá er það ærinn skattur á fátæka þjóð; hann er óþolandi og óhafandi.
Til sýsluvegavinnu eru lagðir eintómir peningar; eða að minnsta kosti á sýsluvegagjaldið að greiðast í peningum. Þar er því eigi dagsverkavinnan til neinnar fyrirstöðu því, að ráða til verksins þá sem kunna eða til verkstjórnar að minnsta kosti. En það mun tíðkast enn í flestum sýslunefndum, að sýslunefndarmanni hvers hrepps sé falið á hendur að sjá um sýsluvegavinnuna í sínum hreppi og að sá hinn sami láti annaðhvort orðalaust vinna hana "upp á gamla móðinn", eða þá, ætli hann að fara að stæla nýja lagið, þá kunni hann einnig að gera slíka.
Þetta er raunar hin mesta ósvinna, hrapaleg vanbrúkun á fé, sem lagt er til almennings-þarfa, um 20.000 kr. ári, eins og til hreppaveganna. Það ætti engin sýslunefnd nú orðið að vera við annað en að láta vinna alla sína vegavinnu undir verkstjórn manns, sem kann verkið, - nema rétt einfalda vegaruðning, þar sem hún er látin duga. Hitt er að ausa í botnlausa hít. Með því lagi verða sýslurnar jafnilla staddar með vegi eftir 20, 30 eða 50 ár eins og nú; þar vinnst ekkert áfram; allt verður ónýtt jafnóðum.
Svo er annað. Það mun nú siður í mörgum ef eigi flestum sýslunefndum, að smábita niður sýsluvegaféð í alla hreppana á hverju ári, sitt lítið í hvern. Hver nefndarmaður skarar eld að sinni köku. Það lætur og vel í eyrum og sanngjarnlega, að hver hreppur fái að njóta síns sýsluvegagjalds. En slík stefna er mesta skaðræði. Fyrir það verður hálfu minna úr framkvæmdum en ella mundi; takmarkið næst hálfu seinna: það, að fá góða vegi um sýsluna. Hitt er rétt, að hafa ekki undir nema einn veg í einu, þar fyrst, sem mest er þörfin og mest umferðin, og ljúka við hann áður en tekið er til annarsstaðar, nema hvað hyggilegt getur verið að verja einhverju lítilræði til ruðninga, þar sem þess er mest þörf, eða til þess að gera fært yfir lítils háttar torfærur, auk viðhalds á fullgerðum vegarköflum, er síst má vanrækja.
Þó að hér sé talað um sama frágang á héraðavegum og landsvegum, þá er það eigi svo að skilja, að þeir þurfi endilega að vera jafn-íburðarmiklir eða kostnaðarsamir, heldur að eins hitt, að unnið sé að þeim á réttan hátt, svo að fullum notum komi hvað endingu snertir og annað. Með öðrum orðum, að það, sem gert er af nýjum sýslu- eða hreppavegum, séu réttnefndir vegir, en ekki vegleysa. Eða þá reynt að bjargast við einfalda vegaruðning, þar sem það er takandi í mál. En ekki verið með gagnslaust kák, sem nefnd er vegasmíð, en er margsinnis verra en ógert. Sömuleiðis ríður á, að hafa hæfileg tól og tæki til vegavinnunnar. Ónýt áhöld eða ónóg gera hana að verkleysu.
Með svofelldri lögun eða því um líkri á héraða-vegabótum mundi brátt sjást votta fyrir mikilli framför í því efni, miklum stakkaskiptum frá því sem nú er, þó að ekki sé meira fé til þeirra lagt.