1893

Þjóðólfur, 20. október 1893, 45. árg., 50. tbl., forsíða:

Fljóthugsuð lagasmíð
Það hefur flogið fyrir, að Árnesingar og Rangvellingar séu lítt ánægðir með lagafrumvarp það, er þingið í sumar samþykkti, um gæslu og viðhald brúnna yfir Ölfusá og Þjórsá (þegar hún er komin á), og verður það ekki varið, að sú óánægja er á allmiklum rökum byggð, enda tóku sumir þingmenn það berlega fram, að gjald það, er lagt væri á hlutaðeigandi sýslufélög með frumvarpi þessu, væri bæði harla ósanngjarnt og of þungt, og töldu því brúartoll heppilegri, en allir voru einhuga um það, að velta að einhverju leyti byrðinni af landssjóði, að því er snerti gæslu og viðhald brúnna. Það verður heldur ekki annað sagt, en að frumvarpið um brúartollinn með breytingum þeim, er flutningsmenn gerðu á því síðar, væri allaðgengilegt, þá er landssjóður átti að gefa upp 20.000 króna lán, er veitt var sýslusjóðum Árnes- og Rangárvallasýslu og jafnaðarsjóði suðuramtsins til byggingar Ölfusárbrúarinnar. Vér hyggjum, að hlutaðeigandi sýslufélög hefðu einnig orðið miklu ánægðari, ef það frumv. hefði fengið framgang, heldur en þetta, er nú var samþykkt af þinginu. Að vísu munu ýmsir héraðsbúar hafa haft allmikinn ýmugust á brúartolli og sjálfsagt viljað helst vera lausir við hann, en mundu þó ekki hafa kveinkað sér við að greiða hann, þá er hann hefði verið kominn á. En kostnaður við gæslu brúnna, er þessi sýslufélög eiga að greiða, verður miklu tilfinnanlegri og kemur ranglega niður, því að þá er þeir einir greiða brúartoll, sem yfir brýrnar fara, leggst hitt gjaldið á alla sýslubúa undantekningarlaust, hvort sem þeir hafa nokkur bein not af brúnum eða ekki. Vér skulum taka t. d. Biskupstungur, Grímsnes, Laugardal, Þingvallasveit, Grafning, Selvog og að nokkru leyti Ölfusið. Allar þessar sveitir í Árnessýslu hafa mjög lítil eða engin bein afnot af Ölfusárbrúnni, og er því eðlilegt þótt íbúum þessara sveita þyki hart, að greiða afarþungt gjald að jöfnu við aðrar sveitir sýslunnar, er brúna nota. Sumir kunna að segja, að það beri vott um heldur mikla hreppapólitík, að vega á vogir það gagn, er hver einstakur hreppur hafi af einhverju mikilsháttar fyrirtæki innansýslu, og að enginn matningur um jafna hluttöku í kostnaðinum ætti að eiga sér stað, og má vel vera, að þeir hafi nokkuð til síns máls, en hins vegar verður Árnesingum varla láð, þótt þeim þyki skattur þessi allþungur og koma ójafnt niður. Það er eðlilegt, að Árnessýsla í heild sinni verði að bera mestan kostnað af Ölfusárbrúnni, en það er ekki sanngjarnt að leggja á hana svo þunga byrði, sem henni ef til vill er um megn að bera. Ennfremur ber þess að gæta, að Árnesingar verða miklu harðar úti en Rangvellingar, samkvæmt þessu frumvarpi, þar eð nærfellt allir Rangvellingar hafa bein not af báðum brúnum, en þurfa ekki að annast nema gæslu á annarri þeirra, en meiri hluti Árnessýslu hefur hins vegar engin bein not af þessari einu brú, er öllu sýslufélaginu er þó gert að skyldu að kosta að jöfnu.
Með því að það er viðurkennt, að brúabyggingar, eins og önnur stórfyrirtæki, miði öllu landinu til framfara, virðist oss sanngjarnt, að það í heild sinni beri tiltölulegan hluta af kostnaðinum. Að vísu mun því verða svarað, að landssjóður hafi sómasamlega leyst hendur sínar með því að leggja fram fé til byggingar brúnna og með því að taka að sér viðhald þeirra, samkvæmt hinu nýja frumvarpi, og meira verði því ekki af honum heimtað. Þetta er að vísu satt, en mundi ekki vera heppilegra að koma því svo fyrir, að landssjóður þyrfti ekki beinlínis að kosta viðhaldið og hlutaðeigandi sýslufélög heldur ekki gæslukostnaðinn, án þess þó, að nokkur brúartollur ætti sér stað? Þetta gæti t. d. orðið á þann hátt, að stofnaður væri sérstakur almennur brúarsjóður, ekki aðeins fyrir brýrnar á Ölfusá og Þjórsá, heldur einnig fyrir aðrar brýr á stórám hér á landi, bæði þær, sem nú þegar eru komnar og framvegis verða byggðar, en þar af leiddi þá að sjálfsögðu, að allar stórbrýr á landinu yrðu háðar eftirliti landsstjórnarinnar, en allur gæslu- og viðhaldskostnaður skyldi greiddur úr þessum almenna brúarsjóði.
Til þess að koma sjóð þessum á fót yrði að leggja sérstakt gjald - brúargjald - t. á. á hvert lausafjárhundrað eða jarðarhundrað á öllu landinu, og gæti það verið mismunandi hátt í hinum ýmsu sýslum, t. d. að þær sýslur, er hefðu stórbrýr innanhéraðs, greiddu hærra brúargjald, ef til vill tvöfalt hærra, en aðrar, er engar brýr hefðu, eða engin not af þeim. Á þann hátt hyggjum vér, að hægast yrði að samrýma þetta tvennt: að létta byrðinni af landssjóðnum sjálfum og leggja jafnframt ekki of þungt gjald á einstök sýslufélög.
Helsti gallinn við reglulegan brúartoll er sá, að með honum einum safnast mjög seint sjóður, er nokkru nemi. Aðalmótbáran gegn honum á þinginu var einnig sú, að kostnaðurinn við innheimtu hans yrði svo mikill, að meiri hluti tollsins gengi til þess, og mun nokkuð hæft í því. Mál þetta er allmikið vandamál, enda hafa verið mjög deildar skoðanir manna um það. Menn hafa ekki getað komið sér saman um, hvor aðferðin væri heppilegri, að tolla brýrnar eða tolla þær ekki. Það eru allmiklir annmarkar á hvorutveggju, en einkum virðist oss sá vegur, er þingið tók í þessu máli, mjög óheppilegur, og mun það sannast, að ekki líður á löngu áður en almennar óskir koma til þingsins frá sýslufélögum Árness- og Rangárvallasýslu, að fella aftur úr gildi lagafrumvarp það, er þingið í sumar samþykkti. Það má nefnil. ganga að því vísu, að það öðlist staðfestingu konungs, því að landshöfðingi var því mjög meðmæltur, og það mun nægja.
Það er annars mjög leiðinlegt, að þingið skuli samþykkja lög, sem ef til vill er nauðsyn á að breyta eða jafnvel fella úr gildi jafnharðan. Það veikir traust manna á þinginu og kemur óorði á löggjafarstarf þess. Einkum er mjög varhugavert að samþykkja allt, er íþyngir um of einstökum landshlutum, án þess hlutaðeigendum hefi gefist kostur á að láta í ljósi álit þeirra um það.
Vér sjáum nú sem stendur, engan annan heppilegri veg til að leysa hnút þennan, svo að allir megi vel við una, heldur en þann, að stofna almennan brúasjóð eða varasjóð til að bera kostnaðinn af brúm landsins á þann hátt, er áður var tekið fram. Gjald þetta yrði hverjum einstökum lítt tilfinnanlegt, og menn mundu fúslega greiða það af hendi, enda kæmi það að því leyti réttlátlega niður, að þau sýslufélög, sem hefur mest og best not af brúm, legðu mest í sjóð þennan. En með því að þingið hefur nú tekið aðra stefnu í þessu máli og samþykkt frv. það, sem hér er um að ræða, mun mjög torvelt að kippa því í liðinn aftur. Það er hægra að færa úr lagi en í lag aftur. Það er ekki hlaupið að því að fá felld úr gildi spánný lög eða jafnvel fá þeim breytt eitthvað verulega. Það má ennfremur búast við, að ýmsir verði mótfallnir því, að brýr, er héruðin hafa kostað hingað til t. d. á Norðurlandi, séu lagðar undir umsjón landssjóðs, og ákveðnu brúargjaldi jafnað niður á allar sýslur landsins, en þó er þetta að voru áliti hið langeðlilegasta fyrirkomulag, auk þess sem brúm landsins mun verða best borgið á þann hátt, er fram líða stundir.


Þjóðólfur, 20. október 1893, 45. árg., 50. tbl., forsíða:

Fljóthugsuð lagasmíð
Það hefur flogið fyrir, að Árnesingar og Rangvellingar séu lítt ánægðir með lagafrumvarp það, er þingið í sumar samþykkti, um gæslu og viðhald brúnna yfir Ölfusá og Þjórsá (þegar hún er komin á), og verður það ekki varið, að sú óánægja er á allmiklum rökum byggð, enda tóku sumir þingmenn það berlega fram, að gjald það, er lagt væri á hlutaðeigandi sýslufélög með frumvarpi þessu, væri bæði harla ósanngjarnt og of þungt, og töldu því brúartoll heppilegri, en allir voru einhuga um það, að velta að einhverju leyti byrðinni af landssjóði, að því er snerti gæslu og viðhald brúnna. Það verður heldur ekki annað sagt, en að frumvarpið um brúartollinn með breytingum þeim, er flutningsmenn gerðu á því síðar, væri allaðgengilegt, þá er landssjóður átti að gefa upp 20.000 króna lán, er veitt var sýslusjóðum Árnes- og Rangárvallasýslu og jafnaðarsjóði suðuramtsins til byggingar Ölfusárbrúarinnar. Vér hyggjum, að hlutaðeigandi sýslufélög hefðu einnig orðið miklu ánægðari, ef það frumv. hefði fengið framgang, heldur en þetta, er nú var samþykkt af þinginu. Að vísu munu ýmsir héraðsbúar hafa haft allmikinn ýmugust á brúartolli og sjálfsagt viljað helst vera lausir við hann, en mundu þó ekki hafa kveinkað sér við að greiða hann, þá er hann hefði verið kominn á. En kostnaður við gæslu brúnna, er þessi sýslufélög eiga að greiða, verður miklu tilfinnanlegri og kemur ranglega niður, því að þá er þeir einir greiða brúartoll, sem yfir brýrnar fara, leggst hitt gjaldið á alla sýslubúa undantekningarlaust, hvort sem þeir hafa nokkur bein not af brúnum eða ekki. Vér skulum taka t. d. Biskupstungur, Grímsnes, Laugardal, Þingvallasveit, Grafning, Selvog og að nokkru leyti Ölfusið. Allar þessar sveitir í Árnessýslu hafa mjög lítil eða engin bein afnot af Ölfusárbrúnni, og er því eðlilegt þótt íbúum þessara sveita þyki hart, að greiða afarþungt gjald að jöfnu við aðrar sveitir sýslunnar, er brúna nota. Sumir kunna að segja, að það beri vott um heldur mikla hreppapólitík, að vega á vogir það gagn, er hver einstakur hreppur hafi af einhverju mikilsháttar fyrirtæki innansýslu, og að enginn matningur um jafna hluttöku í kostnaðinum ætti að eiga sér stað, og má vel vera, að þeir hafi nokkuð til síns máls, en hins vegar verður Árnesingum varla láð, þótt þeim þyki skattur þessi allþungur og koma ójafnt niður. Það er eðlilegt, að Árnessýsla í heild sinni verði að bera mestan kostnað af Ölfusárbrúnni, en það er ekki sanngjarnt að leggja á hana svo þunga byrði, sem henni ef til vill er um megn að bera. Ennfremur ber þess að gæta, að Árnesingar verða miklu harðar úti en Rangvellingar, samkvæmt þessu frumvarpi, þar eð nærfellt allir Rangvellingar hafa bein not af báðum brúnum, en þurfa ekki að annast nema gæslu á annarri þeirra, en meiri hluti Árnessýslu hefur hins vegar engin bein not af þessari einu brú, er öllu sýslufélaginu er þó gert að skyldu að kosta að jöfnu.
Með því að það er viðurkennt, að brúabyggingar, eins og önnur stórfyrirtæki, miði öllu landinu til framfara, virðist oss sanngjarnt, að það í heild sinni beri tiltölulegan hluta af kostnaðinum. Að vísu mun því verða svarað, að landssjóður hafi sómasamlega leyst hendur sínar með því að leggja fram fé til byggingar brúnna og með því að taka að sér viðhald þeirra, samkvæmt hinu nýja frumvarpi, og meira verði því ekki af honum heimtað. Þetta er að vísu satt, en mundi ekki vera heppilegra að koma því svo fyrir, að landssjóður þyrfti ekki beinlínis að kosta viðhaldið og hlutaðeigandi sýslufélög heldur ekki gæslukostnaðinn, án þess þó, að nokkur brúartollur ætti sér stað? Þetta gæti t. d. orðið á þann hátt, að stofnaður væri sérstakur almennur brúarsjóður, ekki aðeins fyrir brýrnar á Ölfusá og Þjórsá, heldur einnig fyrir aðrar brýr á stórám hér á landi, bæði þær, sem nú þegar eru komnar og framvegis verða byggðar, en þar af leiddi þá að sjálfsögðu, að allar stórbrýr á landinu yrðu háðar eftirliti landsstjórnarinnar, en allur gæslu- og viðhaldskostnaður skyldi greiddur úr þessum almenna brúarsjóði.
Til þess að koma sjóð þessum á fót yrði að leggja sérstakt gjald - brúargjald - t. á. á hvert lausafjárhundrað eða jarðarhundrað á öllu landinu, og gæti það verið mismunandi hátt í hinum ýmsu sýslum, t. d. að þær sýslur, er hefðu stórbrýr innanhéraðs, greiddu hærra brúargjald, ef til vill tvöfalt hærra, en aðrar, er engar brýr hefðu, eða engin not af þeim. Á þann hátt hyggjum vér, að hægast yrði að samrýma þetta tvennt: að létta byrðinni af landssjóðnum sjálfum og leggja jafnframt ekki of þungt gjald á einstök sýslufélög.
Helsti gallinn við reglulegan brúartoll er sá, að með honum einum safnast mjög seint sjóður, er nokkru nemi. Aðalmótbáran gegn honum á þinginu var einnig sú, að kostnaðurinn við innheimtu hans yrði svo mikill, að meiri hluti tollsins gengi til þess, og mun nokkuð hæft í því. Mál þetta er allmikið vandamál, enda hafa verið mjög deildar skoðanir manna um það. Menn hafa ekki getað komið sér saman um, hvor aðferðin væri heppilegri, að tolla brýrnar eða tolla þær ekki. Það eru allmiklir annmarkar á hvorutveggju, en einkum virðist oss sá vegur, er þingið tók í þessu máli, mjög óheppilegur, og mun það sannast, að ekki líður á löngu áður en almennar óskir koma til þingsins frá sýslufélögum Árness- og Rangárvallasýslu, að fella aftur úr gildi lagafrumvarp það, er þingið í sumar samþykkti. Það má nefnil. ganga að því vísu, að það öðlist staðfestingu konungs, því að landshöfðingi var því mjög meðmæltur, og það mun nægja.
Það er annars mjög leiðinlegt, að þingið skuli samþykkja lög, sem ef til vill er nauðsyn á að breyta eða jafnvel fella úr gildi jafnharðan. Það veikir traust manna á þinginu og kemur óorði á löggjafarstarf þess. Einkum er mjög varhugavert að samþykkja allt, er íþyngir um of einstökum landshlutum, án þess hlutaðeigendum hefi gefist kostur á að láta í ljósi álit þeirra um það.
Vér sjáum nú sem stendur, engan annan heppilegri veg til að leysa hnút þennan, svo að allir megi vel við una, heldur en þann, að stofna almennan brúasjóð eða varasjóð til að bera kostnaðinn af brúm landsins á þann hátt, er áður var tekið fram. Gjald þetta yrði hverjum einstökum lítt tilfinnanlegt, og menn mundu fúslega greiða það af hendi, enda kæmi það að því leyti réttlátlega niður, að þau sýslufélög, sem hefur mest og best not af brúm, legðu mest í sjóð þennan. En með því að þingið hefur nú tekið aðra stefnu í þessu máli og samþykkt frv. það, sem hér er um að ræða, mun mjög torvelt að kippa því í liðinn aftur. Það er hægra að færa úr lagi en í lag aftur. Það er ekki hlaupið að því að fá felld úr gildi spánný lög eða jafnvel fá þeim breytt eitthvað verulega. Það má ennfremur búast við, að ýmsir verði mótfallnir því, að brýr, er héruðin hafa kostað hingað til t. d. á Norðurlandi, séu lagðar undir umsjón landssjóðs, og ákveðnu brúargjaldi jafnað niður á allar sýslur landsins, en þó er þetta að voru áliti hið langeðlilegasta fyrirkomulag, auk þess sem brúm landsins mun verða best borgið á þann hátt, er fram líða stundir.