1893

Þjóðólfur, 25. nóvember 1893, 45. árg., 55. tbl., forsíða:

Brúamál. - "Ísafold" nötrar.
Hann er auðþekktur á eyrunum höf. greinarinnar í síðustu "Ísafold" með undirskriftinni "Sveitabóndi". Það leynir sér nfl. ekki á rithættinum, að aðalhöf. er ekki neinn "sveitabóndi", heldur persónan alþekkta með gömlu halarófuna sína, þ. e., meiningarlausa axarskaftasetningar hnýttar saman í eina bendu. Það er auðvelt að þekkja þennan kumpán, hvar sem hann er á ferðinni með trossuna sína, og þótt hann nefni sig ýmsum dularnöfnum, eins og flugumenn, er sendir voru til höfuðs mönnum til forna, þá tjáir það ekki. Alstaðar gægjast eyrun út undan dularhúðinni.
Efni greinarinnar, ef efni skyldi kalla, er svo lélegt, að það er naumast nokkurra svara vert, enda er ójafnt á komið og óþarft í sjálfu sér að rita með röksemdum gegn öllum heimskulegum þvætting og nafnlausum púkagreinum, er ritstj. "Ísafoldar" annaðhvort ritar sjálfur eða pantar frá fylgifiskum sínum til að rægja "Þjóðólf", af því að hann hefur leyft sér að segja "Ísaf." til syndanna og hirta hana dálítið endrum og sinnum fyrir einhvern óþokkaskapinn. Það er auðvitað langréttast að skipta sér ekkert af slíku, sem allir vita af hverjum toga er spunnið, en af því að ritstj. "Ísaf." fólskast af hverju einu í "Þjóðólfi", sem eitthvað snertir hann eða málgagn hans, þá getum vér ekki stillt oss um að senda honum einnig orðsendingu við og við, án þess að skríða í felur bak við dularnöfn.
Eins og hver óvitlaus maður hefur getað séð, var greinin í Þjóðólfi "Fljóthugsuð lagasmíð" aðeins lausleg uppástunga til frekari hugleiðinga, uppástunga um hvort, ekki mundi tiltækilegt að stofna almennan brúarsjóð, alveg sérstakan og fráskilinn landssjóði, bæði til þess, að synt yrði fyrir þau sker, að landssjóður þyrfti eingöngu að kosta brýrnar - er hann mun trauðla gera - og til þess jafnframt að létta of þungri byrði af einstökum sýslufélögum. Þessu gæti hæglega orðið framgengt, hvað sem "Ísafoldar" höf. segir. Hann þykist ekki sjá, að það sé neinn munur á, hvort þetta fé er tekið beint úr landssjóði, eða það er tekið úr sérstökum brúarsjóði. Hér er þó sá mikli munur, að landsmenn greiða þetta gjald - brúargjald - alveg sérstakt í vissu augnamiði, til að bera vissan kostnað, en ekki út í loftið eitthvað óákveðið og ekki í neinar vissar þarfir. Þeir vita, að þetta er fé, sem beinlínis er notað í þessum tilgangi og til einskis annars, og að ekki þarf að knýja á hurðir landssjóðs í hvert skipti, sem byggja þarf brýr eða gera við þær. Þetta er fé, sem landsmenn eiga heimtingu á, að þeir fái að njóta góðs af, en þeir geta ekki gert slíkar kröfur til landssjóðs svo framarlega, sem hann tekur ekki brýr landsins algerlega á sína arma. Það væri mjög gott, ef landssjóður vildi taka þetta að sér, en það eru ekki svo miklar líkur til þess. Hinn eðlilegasti og langstærsti mælikvarði, er almennt brúargjald hlýtur að miðast við, er einmitt tala lausafjárhundraða og jarðarhundraða, án þess aðrir gjaldstofnar séu útilokaðir, hversu sem þokuvælirinn í "Ísafold" hrópar hátt í eyru bændanna, að embættismennirnir eigi að vera lausir við það (!). Það ber allmikinn vott um bjálfaskap eða óráðvendnisskrílshátt, að hanga eins og rakki í snærisspotta á því, þótt eitthvert atriðið sé ekki beinlínis tekið fram í fyrstu, þá er uppástunga er gerð, alveg eins og það megi eða eigi alls ekki að koma til greina.
Í Þjóðólfs-greininni komu heldur engin bein andmæli fram gegn brúartolli. Nei, þvert á móti. Vér gátum þess einmitt, að hann væri miklu heppilegri en þetta brúargæslugjald, er dembt var á tvö sýslufélög í sumar að þeim óvörum. Að það gjald sé mjög óheppilegt og komi afarhart niður á hlutaðeigendur, mun víst engum blandast hugur um, hvernig sem á brúamál er litið, og hverja leiðina, sem menn vilja fara til að hrinda þessu í æskilegra horf. Um það má lengi þrátta, hvað affarabest muni vera í því efni.
Það er auðséð á öllu, að aðaltilgangur "Ísaf."-greinarinnar er ekki að andæfa "Þjóðólfs"-greininni í sjálfu sér - enda tekst höf. það mjög óhönduglega, sem von er - heldur hitt, að lauma því fram, að hún hafi verið rituð í því skyni, að bola Þorlák í Fífuhvammi frá þingkosningu í Árnessýslu og koma þar að einhverjum öðrum "Þjóðólfi" nákomnari. Þarna sprakk á kýlinu! Ritstj. "Ísaf." hefur auðsjáanlega orðið allmjög skelkaður við greinina fyrir Þorláks hönd, já, meira að segja lafhræddur við, að "Ísafold" kynni að missa dyggan fylgismann á næsta þingi, því að þau voru ekki svo mörg atkvæði hennar á síðasta þingi, að þau megi við því að fækka úr þessu. Mikil vandræði! Vesalings ritstj. hefur líklega þótt heldur snemmt að hefja nú þegar krossferð austur í Árnessýslu til að predika þar sinn vísdóm fyrir kjósendunum, og því ekki séð annað tiltækilegra til bráðabyrgða, en að smella í málgagn sitt einhverri þvættings-lokleysu gegn þessari háskalegu(!) "Þjóðólfs"-grein, til þess að varna því, að hún steypti vini hans af stóli. Ó, þú virðulega einfeldni! Er maðurinn farinn að ganga svo í barndómi, að hann viti ekki, að það verður einmitt til að fella hvern mann við þingkosningar, ef hann mælir alvarlega með honum, og síst af öllu mun hann hafa nokkur áhrif í þá átt á Árnesinga, því að þeir þekkja piltinn, ekki aðeins af afspurn, heldur hafa þeir séð hann augliti til auglitis á þingkosninga-krossferðum þar eystra, og gast miðlungi vel að öllu saman. Það lýsir því hlægilegu oftrausti á sjálfum sér, ef hann hyggur nú, að hann geti vafið Árnesingum um fingur sér og látið þá kjósa þann eða þá, sem finna náð fyrir hans kolsvörtu pólitísku sálarskjáum, því að vita má hann það, að Árnesingar eru engin sauðarhöfuð, sem hann getur látið dansa eftir sinni pípu. Þeir eru sjálfstæðir hugsandi menn, miklu skynsamari margir hverjir, en sjálfur Ísafoldar-furstinn.
Að lokum viljum vér gefa honum það heilræði, að spilla ekki fyrir vinum sínum til þingkosninga með því að mæla með þeim, heldur að mæla fremur á móti þeim, ef hann vill, að þeir komist að, eða þá að steinþegja, sem líklega mundi snjallast.


Þjóðólfur, 25. nóvember 1893, 45. árg., 55. tbl., forsíða:

Brúamál. - "Ísafold" nötrar.
Hann er auðþekktur á eyrunum höf. greinarinnar í síðustu "Ísafold" með undirskriftinni "Sveitabóndi". Það leynir sér nfl. ekki á rithættinum, að aðalhöf. er ekki neinn "sveitabóndi", heldur persónan alþekkta með gömlu halarófuna sína, þ. e., meiningarlausa axarskaftasetningar hnýttar saman í eina bendu. Það er auðvelt að þekkja þennan kumpán, hvar sem hann er á ferðinni með trossuna sína, og þótt hann nefni sig ýmsum dularnöfnum, eins og flugumenn, er sendir voru til höfuðs mönnum til forna, þá tjáir það ekki. Alstaðar gægjast eyrun út undan dularhúðinni.
Efni greinarinnar, ef efni skyldi kalla, er svo lélegt, að það er naumast nokkurra svara vert, enda er ójafnt á komið og óþarft í sjálfu sér að rita með röksemdum gegn öllum heimskulegum þvætting og nafnlausum púkagreinum, er ritstj. "Ísafoldar" annaðhvort ritar sjálfur eða pantar frá fylgifiskum sínum til að rægja "Þjóðólf", af því að hann hefur leyft sér að segja "Ísaf." til syndanna og hirta hana dálítið endrum og sinnum fyrir einhvern óþokkaskapinn. Það er auðvitað langréttast að skipta sér ekkert af slíku, sem allir vita af hverjum toga er spunnið, en af því að ritstj. "Ísaf." fólskast af hverju einu í "Þjóðólfi", sem eitthvað snertir hann eða málgagn hans, þá getum vér ekki stillt oss um að senda honum einnig orðsendingu við og við, án þess að skríða í felur bak við dularnöfn.
Eins og hver óvitlaus maður hefur getað séð, var greinin í Þjóðólfi "Fljóthugsuð lagasmíð" aðeins lausleg uppástunga til frekari hugleiðinga, uppástunga um hvort, ekki mundi tiltækilegt að stofna almennan brúarsjóð, alveg sérstakan og fráskilinn landssjóði, bæði til þess, að synt yrði fyrir þau sker, að landssjóður þyrfti eingöngu að kosta brýrnar - er hann mun trauðla gera - og til þess jafnframt að létta of þungri byrði af einstökum sýslufélögum. Þessu gæti hæglega orðið framgengt, hvað sem "Ísafoldar" höf. segir. Hann þykist ekki sjá, að það sé neinn munur á, hvort þetta fé er tekið beint úr landssjóði, eða það er tekið úr sérstökum brúarsjóði. Hér er þó sá mikli munur, að landsmenn greiða þetta gjald - brúargjald - alveg sérstakt í vissu augnamiði, til að bera vissan kostnað, en ekki út í loftið eitthvað óákveðið og ekki í neinar vissar þarfir. Þeir vita, að þetta er fé, sem beinlínis er notað í þessum tilgangi og til einskis annars, og að ekki þarf að knýja á hurðir landssjóðs í hvert skipti, sem byggja þarf brýr eða gera við þær. Þetta er fé, sem landsmenn eiga heimtingu á, að þeir fái að njóta góðs af, en þeir geta ekki gert slíkar kröfur til landssjóðs svo framarlega, sem hann tekur ekki brýr landsins algerlega á sína arma. Það væri mjög gott, ef landssjóður vildi taka þetta að sér, en það eru ekki svo miklar líkur til þess. Hinn eðlilegasti og langstærsti mælikvarði, er almennt brúargjald hlýtur að miðast við, er einmitt tala lausafjárhundraða og jarðarhundraða, án þess aðrir gjaldstofnar séu útilokaðir, hversu sem þokuvælirinn í "Ísafold" hrópar hátt í eyru bændanna, að embættismennirnir eigi að vera lausir við það (!). Það ber allmikinn vott um bjálfaskap eða óráðvendnisskrílshátt, að hanga eins og rakki í snærisspotta á því, þótt eitthvert atriðið sé ekki beinlínis tekið fram í fyrstu, þá er uppástunga er gerð, alveg eins og það megi eða eigi alls ekki að koma til greina.
Í Þjóðólfs-greininni komu heldur engin bein andmæli fram gegn brúartolli. Nei, þvert á móti. Vér gátum þess einmitt, að hann væri miklu heppilegri en þetta brúargæslugjald, er dembt var á tvö sýslufélög í sumar að þeim óvörum. Að það gjald sé mjög óheppilegt og komi afarhart niður á hlutaðeigendur, mun víst engum blandast hugur um, hvernig sem á brúamál er litið, og hverja leiðina, sem menn vilja fara til að hrinda þessu í æskilegra horf. Um það má lengi þrátta, hvað affarabest muni vera í því efni.
Það er auðséð á öllu, að aðaltilgangur "Ísaf."-greinarinnar er ekki að andæfa "Þjóðólfs"-greininni í sjálfu sér - enda tekst höf. það mjög óhönduglega, sem von er - heldur hitt, að lauma því fram, að hún hafi verið rituð í því skyni, að bola Þorlák í Fífuhvammi frá þingkosningu í Árnessýslu og koma þar að einhverjum öðrum "Þjóðólfi" nákomnari. Þarna sprakk á kýlinu! Ritstj. "Ísaf." hefur auðsjáanlega orðið allmjög skelkaður við greinina fyrir Þorláks hönd, já, meira að segja lafhræddur við, að "Ísafold" kynni að missa dyggan fylgismann á næsta þingi, því að þau voru ekki svo mörg atkvæði hennar á síðasta þingi, að þau megi við því að fækka úr þessu. Mikil vandræði! Vesalings ritstj. hefur líklega þótt heldur snemmt að hefja nú þegar krossferð austur í Árnessýslu til að predika þar sinn vísdóm fyrir kjósendunum, og því ekki séð annað tiltækilegra til bráðabyrgða, en að smella í málgagn sitt einhverri þvættings-lokleysu gegn þessari háskalegu(!) "Þjóðólfs"-grein, til þess að varna því, að hún steypti vini hans af stóli. Ó, þú virðulega einfeldni! Er maðurinn farinn að ganga svo í barndómi, að hann viti ekki, að það verður einmitt til að fella hvern mann við þingkosningar, ef hann mælir alvarlega með honum, og síst af öllu mun hann hafa nokkur áhrif í þá átt á Árnesinga, því að þeir þekkja piltinn, ekki aðeins af afspurn, heldur hafa þeir séð hann augliti til auglitis á þingkosninga-krossferðum þar eystra, og gast miðlungi vel að öllu saman. Það lýsir því hlægilegu oftrausti á sjálfum sér, ef hann hyggur nú, að hann geti vafið Árnesingum um fingur sér og látið þá kjósa þann eða þá, sem finna náð fyrir hans kolsvörtu pólitísku sálarskjáum, því að vita má hann það, að Árnesingar eru engin sauðarhöfuð, sem hann getur látið dansa eftir sinni pípu. Þeir eru sjálfstæðir hugsandi menn, miklu skynsamari margir hverjir, en sjálfur Ísafoldar-furstinn.
Að lokum viljum vér gefa honum það heilræði, að spilla ekki fyrir vinum sínum til þingkosninga með því að mæla með þeim, heldur að mæla fremur á móti þeim, ef hann vill, að þeir komist að, eða þá að steinþegja, sem líklega mundi snjallast.