1892

Tenging í allt blaðaefni ársins 1892

Þjóðólfur, 1. jan. 1892, 44. árg., 1. tbl., bls. 2:
Árið 1891 var hagsældar- og framfaraár og er fyrst og fremst að geta þess að Ölfusárbrú var fullgerð.

Árið 1891,
sem nú er um garð gengið, hefur að mörgu leyti verið hagsældarár fyrir land vort, einkum fyrir sveitabændur, þar eð veðuráttan var einhver hin hagstæðasta allt árið, veturinn ómunalega góður og skepnuhöld því almennt ágæt; þó gjörði bráðapest allmikið tjón á sumum stöðum, einkum um efri hluta Árnessýslu. Sumarveðuráttan var einkar hagstæð og grasvöxtur óvenjulega góður. Varð því heyskapur mjög mikill víðast hvar um land allt.
¿
Árið sem leið hefur ennfremur verið allmikið framfaraár. Er fyrst og fremst að geta þess, að Ölfusárbrúin, hin fyrsta hengibrú, er gjörð hefur verið hér á landi, var smíðuð og fullgjör næstliðið sumar, og opnuð til almennrar umferðar 8. september. Þessi brú er hið stórkostlegasta samgöngumannvirki, er hingað til hefur verið unnið hér á landi og er vonandi, að mörg slík fari þar á eftir, enda verður allt auðveldara, þegar fyrsta sporið er stigið bæði í þessu sem öðru. Innan skamms verður eflaust Þjórsá brúuð og sjálfsagt fleiri stórár þegar fram líða stundir. Ölfusárbrúin mun jafnan halda uppi minningu ársins 1891 ekki aðeins sem merkisárs í sögu þjóðar vorrar yfir höfuð, heldur og sem merkisárs fyrir nýtt tímabil verklegra framfara á landi voru.


Ísafold, 2. jan. 1892, 19. árg., 1. tbl., bls. 2:
Kostnaðurinn við Ölfúsárbrúarveginn fór langt fram úr áætlun og kostaði vegurinn meira en 7 kr. faðmurinn!

Ölfusárbrúarvegurinn.
Ölfusárbrúarvegurinn, sem mest hefir orðið tilrætt um í Ísafold, hefir, eftir því sem lesa má í síðustu Stjórnartíð., kostað 10.294 kr., ef öll kurl eru þá komin til grafar. Áætlunin var 5.000! Þótt menn vildu draga frá jafnvel 1.000 kr. af þessu fé sem óeytt í nýjum verkfærum og áhöldum, þá kostar samt hver faðmur í vegarspotta þessum meira en 7 kr.! Hann er sem sé 1322 faðmar alls.


Austri, 12. jan. 1892, 2. árg., 1. tbl., forsíða:
Í nýársávarpi ritstjóra Austra er komið talsvert inn á samgöngumál og finnst honum að Austfirðingafjórðungur hafi orðið útundan í þeim efnum.

Ávarp.
frá ritstjóranum til kaupendanna.
Kæru kaupendur!
Um leið og Austri byrjar annan árgang sinn þykir oss vel við eiga, að ávarpa yður með nokkrum orðum.
¿¿.
Annað eitthvert mesta velferðarmál vor Íslendinga er samgöngumálið. Það er víst að enginn landsfjórðunganna hefir orðið eins illa útundan með greiðar samgöngur á landi og umbætur á alförnustu þjóðvegum sem Austfirðingafjórðungurinn. Allt frá Reykja- og Tunguheiði á Tjörnesi og alla leið austur hingað má ekki heita að hafi verið tekinn steinn úr götu eða brúuð á. Engir fjallvegir ruddir og fáir varðaðir að nokkru gagni. En aðalpóstleiðin lögð um fjöll og firnindi, en ekki um byggðir landsins. En á sjó fer öll Norður-Þingeyjarsýsla hjá hagsmunum þeim, er hún gæti haft af strandferðaskipunum. Þetta er hróplegt ranglæti, að láta þennan hluta landsins, (sem víst mun þó leggja ríflega í landssjóð að sínum hluta) verða svo herfilega útundan, er um helstu umbætur er að ræða í samgöngum á sjó og landi. Alþingi gleymir alveg Norður-Þingeyingum í strandferða-málinu, og landstjórnin gjörir engar umbætur á póstgöngunum, þrátt fyrir tillögur Alþingis. Að umbætur fáist á samgöngum vorum á sjó og landi á vegum vorum, vill Austri styðja af fremsta megni.
¿


Ísafold, 16. jan. 1892, 19. árg., 5. tbl., forsíða:
Hér kemur fram að áætlað hafi verið að verja samtals 100.000 kr. til samgöngumála á árinu sem skiptist á milli strandsiglinga, vegabóta, póstferða og gufubátaferða.

Landsbúskapurinn 1892.
II. (síðari kafli.)
Um daginn var gjörð grein fyrir, hvað landssjóður býst við að hafa í tekjur á þessu ári. Getur sumt af því auðvitað orðið minna en við er búist, en sumt getur líka orðið meira, og er þing og stjórn nú orðin svo vön við að gjöra sínar búskaparáætlanir, eftir nær 20 ára hokur, að allt kemur að jafnaði nokkurn veginn heim. Það var harðærið og bindindis-hreyfingin, sem olli stórkostlegu hruni í brennivínstollinum fyrir nokkrum árum, - en hann var áður sterkasta reipið, - er mestan hallann hefir gert.
Þá er nú að virða fyrir sér útgjöldin, sem landssjóður verður að hafa eða býst við að hafa á þessu ári. Þau nema alls hér um bil réttri ½ milljón króna, og skal nú gerð nokkur frekari grein fyrir þeim.
¿.
Þar af stendur til, eða stóð til, að varið yrði til samgöngumála framt að 100.000; en sparist þær 21.000, er veittar voru til strandferða, verður sá kostnaður ekki nema nál. 76.000.
Stærsti liðurinn í þeirri upphæð, eða nær helmingur hennar, er vegabótafé, um 36.000 alls. Og næstur honum póstferðakostnaðurinn, er nemur 28.000, að frádregnum væntanlegum tekjum af póstferðunum. Hitt, 12.000 kr., er ætlað til gufubátsferða, og verður fráleitt notað nema nokkuð af því.
¿


Austri, 20. jan. 1892, 2. árg., 2. tbl., forsíða:
Á þessum árum töldu margir að höfn í Lagarfljótsós og gufubátaferðir á Lagarfljóti væru bestu lausnirnar á samgöngumálum Héraðsbúa. Hér skrifar Jón Jónsson alþingismaður m.a. um þetta mál.

Um strandferðirnar og gufubátsmál Austfirðinga.
Eftir alþm. Jón Jónsson frá Sleðbrjót.
¿¿
Ekki tekur herra O. Wathne vægara á þegar hann fer í 10. tbl. Austra að ámæla sýslufundinum á Egilsstöðum og Héraðsbúum fyrir meðferðina á styrk þeim er veittur var á fjárlögunum 1892-1893 til gufubátsferða á Austfjörðum. Honum finnst það ganga glæpum næst, að veita þessa upphæð sveitarfélögunum í Fljótsdalshéraði til þess að koma á gufubátsferðum í Lagarfljótsós.
Hér er herra O. Wathne auðsjáanlega "fornærmaður" yfir því að aðrir en hann skuli vilja gjöra tilraun til að koma á skipaferðum í Lagarfljótsós.
"Det er godt til at skræmme andre" sagði herra O. Wathne hlæjandi við Lagarfljótsós í fyrra sumar, þegar hann horfði á skipskrokk sinn liðast þar sundur á sandrifinu norðan við Ósinn. Mér þykir það ekki ólíklegt að hr. O. Wathne hafi hugsað eitthvað svipað er hann sendi frá sér þessa ritgjörð sína, því bæði er það að ritgjörðin minnir ósjálfrátt á skip sem farið er að gliðna sundur, og svo er hún auðsjáanlega skrifuð til að "skræmme andre" skrifuð til þess að gjöra skipaleið í Lagarfljótsós sem ægilegasta í augum þeirra sem ekki þekkja til, til þess, að gjöra aðgjörðir okkar Héraðsbúa, okkar þingmanna úr Múlasýslum, og sýslunefndar í þessu gufubátsmáli, skrifuð til þess að innræta landstjórninni, og öllum sem greinina lesa, þá trú að allir sem einhvern hluta hafa átt að þessu gufubátsmáli hafi gjört allt í blindni og af vanþekking og vilji reyna að sökkva fé landsins í "einhvern straumharðasta árós Íslands".
¿¿..
Vér Héraðsbúar höfum lengi fundið til þess hve mikill atvinnuhnekkir það er oss að þurfa að flytja allar þær nauðsynjar er vér þurfum að kaupa yfir jafn snjósæla og bratta fjallgarða eins og þeir fjallgarðar eru sem vér eigum yfir að sækja til verslunarstaðanna á Vopnaf., Sðfj., og Eskifj. Torfærurnar og vegalengdin gjörir timburflutninga til Héraðsins nær ókleyfa, nema fyrir efnuðustu bændur, og dregur það mjög úr bændum að vanda húsabyggingar sem skyldi. Oft gengur mikill tími af hinum dýrmæta heyskapartíma til kaupstaðarferða, þegar snjósöm vor eru og heiðar renna ei fyr en komið er að slætti. Hestahald verður margfalt dýrara fyrir þessa erfiðu aðflutninga, og þess vegna er ekki hægt að hafa hér eins margt sauðfé eins og annars hefði verið hægt. Auk þess gengur mjög mikill vinnukraftur, og ýmislegur annar kostnaður til kaupstaðarferðanna. Margir fara þess á mis að kaupa ýms áhöld sem þeir annars hefðu keypt, og getað notað sér til mikils gagns af því þeir hliðra sér til hjá flutningum, því fjöldanum veitist fullerfitt að flytja það sem til fæðis þarf yfir árið. Því ætíð verður að verja þeim tíma til aðflutninga sem dýrastur er nfl. sumartímanum þar sem hægt væri að flytja allan veturinn ef vörur væru til innanhéraðs. Þó stundum séu farnar kaupstaðarferðir hér á vetrum þá vita allir sem til þekkja hve hættulegar þær eru og hve oft hefir af þeim leitt hrakninga og manntjón. Vér Héraðsbúar fögnuðum því mjög er herra Tr. Gunnarsson ráðgjörði að láta Gránufélagið koma upp verslun við Lagarfljótsós, en það fórst fyrir líklega fyrir efnaskort félagsins. Svo kom herra O. Wathne og sagðist "skyldi upp í Ósinn", en þar við hefur að mestu leyti setið fyrir honum, því hin fyrirhyggjulitla ferð hans upp í Ósinn á fúnu og ónýtu seglskipi er varla teljandi.
¿¿.


Ísafold, 3. febrúar 1892, 19. árg., 10. tbl., forsíða:
Einar B. Guðmundsson brúarsmiður skrifar hér langa grein um brýr og ræðir hvernig best sé að standa að brúargerð.

Nokkur orð enn um brýr.
Eftir Einar B. Guðmundsson.
I.
Þegar ég næstliðið sumar var suður í Borgarfirði að gera brúna á Barnafossi yfir Hvítá, þá heyrði ég svo mikið talað um, hve stutt væri á milli klappa og þægilegt að brúa téða á niður á svo kölluðum Kláffossi, að mig langaði til að sjá það og gerði mér þann krók þangað ofan eftir um leið og ég fór heim. Og með því að ritstjóri "Ísafoldar" lætur blað sitt (94. tbl.) flytja herhvöt um að brúa þar sem allra fyrst og merkur maður borgfirskur, er ásamt fleirum kom með mér að Kláffossi, orðaði það við mig, að ég léti í ljósi álit mitt um brúarstæðið í blaðagrein -, þá finn ég hvöt hjá mér til að skrifa um þetta efni nokkrar línur, ef ritstjóri "Ísaf." vildi ljá þeim rúm í blaði sínu.
Það er reyndar ekki rétt að nefna foss í ánni á þessum stað. Þar hanga klappir út í hana frá báðum hliðum, þráðbeint hver á móti annarri, sem gera dálitla stíflu í ánni, og flýtur þar af, að yfirborð hennar er lítið eitt lægra fyrir neðan, og að hún brýst með töluverðum straumkrafti í gegn um hliðið milli klappanna, en er að öðru leyti engin mishæð á landinu. Ég vissi þá ekki um mælingu hins sænska vegfræðings Siwersons, og gerði tilraun til að mæla á milli klappanna með "snúru", er mér virtist vera nálægt 16 ál., en þar eð talsverður stormur var og enginn maður hinum megin árinnar til að halda í þráðinn á móti mér, þá varð sú mæling ekki nákvæm, og getur máske munað einni alin til eða frá.
Það munu flestir, sem koma að Kláffossi verða hissa yfir því, að ekki er búið að brúa Hvítá á þessum stað, jafnmikið heljarvatnsfall sem hún er og vaðafá, eða jafnvel vaðalaus, að Langholtsvaði undanskildu (það er ekki að telja, þó menn með talsverðri lífshættu hleypi yfir hana í stöku stað, þegar hún er sem minnst), ekki síst þegar maður hugleiðir legu hennar frá fjalli að fjöru milli Suðurlands á aðra hliðina og Norður- og Vesturlands á hina, eins og drepið er á í nefndri "Ísafoldar"-grein, hinar fjölbyggðu og auðugu sveitir, er að henni liggja báðumegin, og ennfremur það, hve sjaldgæft er að leggi á hana fulltraustan ís til yfirferðar á vetrum, eftir því sem mér var skýrt frá. Þar hefir þó náttúran gert svo úr garði, að ekkert er erfiðara að brúa Hvítá en marga smásprænu, sem maður getur kallað svo í samanburði við hana, þegar þess er gætt, að nú geta menn búið til klappir og kletta (sementssteypu), er staðið geta á móti hvers konar afli og áreynslu, er getur að komið og gjöra má ráð fyrir í þess konar sökum.
Mig furðar á því, að hinn sænski vegfræðingur skyldi gera ráð fyrir 27 ál. langri bú yfir Kláffoss, þar sem þó lengdin á milli klappanna mældist honum aðeins 14 al. Mér virtust þó klappirnar eins góðar undir stöpla að framanverðu - eða framarlega -, og það áleit ég, þegar ég var þar, að aðalbrúin þyrfti alls ekki að vera lengri en 22 ál.; en það datt mér í hug, að hagfeldara mundi verða að hafa sporða úr tré frá báðum endum, svo vatnið gæti komist leiðar sinnar þeim megin við stöpulinn, ef yfir færi klappirnar í afskaplegum vatnavöxtum. Klappirnar eru því ver of lágar, eins og hinn sænski vegfræðingur hefur tekið fram, en mjög eru þær fastar í sér og heillegar, og að öðru leyti vel lagaðar undir sementssteypustöpla, lægri að ofan, sem veitir viðspyrnu, með holum og hrufum o. s. frv.
Að mínu áliti væri ekki mál takandi að hlaða stöplana undir brúna, nema þeir væru þá því betur límdir með steinlími. Af því klappagirðingin liggur þvert fyrir í ánni og myndar stíflu í henni, þá verður vatnsþunginn ógurlega mikill í vatnavöxtum, og auk þess má gera ráð fyrir, að þó ána ekki leggi á vetrum þar fyrir ofan, svo að óttast þurfi verulegan ísruðning (graslendið sem liggur fast að ánni báðumegin við Kláffoss sýnir það líka), þá má þó gera ráð fyrir, að ís-spengur myndist við bæði löndin hingað og þangað í frostum, er straumurinn losi og beri niður eftir, þegar veðuráttu og vatnagangi hagar svo, og sem þá hljóta að reka sig á klappagirðinguna. Stöplarnir þurfa því að vera traustir mjög, og finnst mér sjálfsagt að þeir væru hafðir úr steinsteypu, sporöskjulagaðir, eða þó máske enn meira oddmyndaðir að ofan, svo þeir kljúfi betur strauminn og ísfleka, er kynnu að berast á þá. Stærðina áliti ég nægilega, að þeir (stöpl.) væru 5 ál. á lengd og 2 ál. á br., en hæðin mætti alls ekki minni vera en vegfræðingurinn gerir ráð fyrir, því ef íshroði getur á annað borð nokkuð hrönglast þar upp, þá er hæðin undir brúna, sem hann tilnefnir, sú minnsta, sem vera má.
Hvort brú á Kláffossi ætti að vera úr tré eða járni, þá liggur næst að svara því svo, að ef menn hefðu nægilegt fé til alls þess, er gera þyrfti og í allar þarfir að öðru leyti, eða með öðrum orðum, endalaust auðmagn til hvers sem vera skyldi, þá væri líkl. besta ráðið að hafa hana úr járni, þar eð hún yrði þá að líkindum endingarbetri. En eins og á stendur hjá oss hvað féföngin snertir, og hve margar ár þyrfti að brúa, auk annars, þá ætti þessi brú vafalaust að vera úr tré, af því hún yrði margfalt kostnaðarminni en úr járni, því þarna er alls engin þörf á öðru. - Brúin sjálf, úr tré, sams konar og hin á Barnafossi, hér um bil 22. ál. á lengd, eins og ég hef ráðgert hana hér að framan, nægilega traust fyrir hvað þunga lest sem væri, mundi ekki kosta meira enn 1.000 - 1.200 kr. (efni, aðflutningur og smíðalaun), þó aflviðir væru hafðir nokkuð gildari en í brúnni á Barnafossi; en þar eð sporðarnir báðumegin þyrftu nokkuð langir - líklega 8 - 10 ál. hvor, - þá tækju þeir upp nokkurt fé, þó alls ekki mera en 300-400 kr., jafnvel þó höfð væri á þeim yfirbygging með burðarafli af hornsperrum (ekki kálfasperrum), sem ákjósanlegast væri.
Hvað steinsteypu-stöplarnir mundu kosta, læt ég öðrum eftir að gjöra áætlun um, en því fé, sem til þeirra er varið, fær hvorki "mölur né ryð" grandað, ef þeir á annað borð eru nógu traustir, og niðjarnir eiga það óeytt að næstu þúsund árum liðnum. (Ef forfeðurnir hefðu þekkt sementið og steinsteypu þá, sem úr því má gjöra, þá hefðu þeir eflaust haft stöpla úr því undir brú sína, og þá hefði brú á Kláffossi að líkindum verið við lýði enn). En allur sá kostnaður yrði "hverfandi stærð" við það gagn, er brú yfir Hvítá gjörði á þessum stað.
Um landslagið sunnan við ána hjá Kláffossi er mér ekki kunnugt, þar eð ég fór þar ekki um og spurði mig ekkert fyrir um það, en að norðanverðu er mýrlendi alllangan kipp út holtarana þann, sem gengur niður frá Hlíðafjalli, en allt var það rótgott og keldulaust - ágætt yfirferðar þegar ég fór þar um - nema svo sem 60 faðma breið mýri út við holtin, er sjálfsagt þyrfti að brúa þegar, ef vegur væri lagður þar um.
Að öðru leyti ætti það alls ekki að hefta framkvæmd á brúargjörðinni, þó akvegur ekki verði jafnframt lagður að henni. Þess verður langt að bíða, að póstarnir milli Reykjavíkur og Norður- og Vesturlandsins flytji töskurnar sínar á vagni alla leið; það þarf nokkur þúsund kr. að verja í brýr og vegagjörð áður!; og gerir þá lítið til, að þessi vegarkafli bíði eftir því ásamt öðrum. Það er að minnsta kosti næst ánni að sunnanverðu graslendi - máske mýrlent -, svo það yrði áreiðanlega gott að brúnni og frá henni að vetrinum, þegar frostið búar fyrir mann, enda er ekki ólíklegt, að brúarleysið á Hvítá sé tilfinnanlegast um þann tíma ársins. Að öllum líkindum ekur pósturinn fyrst á sleða að vetrinum milli Suðurlands og hinna landsfjórðunganna, áður en hann getur notað hjólvagn alla leið þar á milli, og verða þá ekki mýrarnar út frá Kláffossi óþægri við hann en sumir aðrir kaflar vegarins.
II.
Af því að Hvítá er löng og brúin á Barnafossi svo ofarlega, að hún getur alls ekki komið til skoðunar sem aðalsamgöngubraut yfir ána; af því að áin er mikið og vont vatnsfall, sem vegur svo margra manna þarf að liggja; og af því að hana má brúa á Kláffossi (sem liggur haganlega, líklega hér um bil á miðri leið frá því Geitlandsárnar og Norðlingafljót koma saman) með tiltölulega litlum kostnaði, þá hljóta allir góðir drengir að taka undir með "herhvöt" Ísafoldar, að gera það sem allra fyrst.
Mér finnst fyrir mitt leyti sjálfsagt, að láta hinar stóru og hættulegu ár sitja fyrir hinum, hvar svo sem þær eru, þegar þær verða brúaðar með litlum kostnaði, og það jafnvel þó yfirferðin sé tiltölulega minni yfir þær.
Enginn rígur eða metnaður má komast þar að.
En eins og það er eðlilegt, að þeir sem næst búa hafi mest gagn af brúnum, eins ættu þeir að leggja meira fé til þeirra en aðrir, og ætti það því að verða að fastri reglu, að sveitirnar, sem að liggja, leggi sérstaklega nokkurn skerf til brúnna, og jafnvel þó á póstleið sé. Þá getur landssjóður meiru komið í verk, og þá er síður að gera ráð fyrir, að menn metist um, hvað af ánum, sem að öðru leyti standa jafnt að vígi, skuli brúa fyrst. Það væri í því tilliti vel tilfallið, að hafa nokkurs konar yfirboðsþing og láta þær ár ganga á undan, þar sem sveitirnar vilja leggja mest fé til. Auðvitað yrði þetta hvergi skyldugjald; en ég gjöri ráð fyrir því sem vissu, að menn vilji allsstaðar leggja nokkuð fram af frjálsum vilja, til að fá sem fyrst brýr yfir árnar í grennd við sig.
Óskandi væri, að víða á landinu kæmi fram annað eins fjör til framkvæmdar, samheldni og félagsskapar, eins og hjá íbúunum í Reykholtsdals- og Hálsasveit. Það var drengilega gert af þeim - eitthvað 40 búendum? - að snara fyrst út 3.000 kr. fyrir afréttarland, er þeir keyptu á Arnarvatnsheiði af Stefáni bónda í Kalmannstungu, og svo þegar á eftir að brúa Hvítá til að gera fjárrekstrana auðvelda og hættulausa til og frá. Þetta verk hlaut þó að "vaxa í augum", með fram fyrir hina afar-löngu leið, sem þeir þurftu að flytja stórviði og annað efni til brúarinnar. (Það er munur á, hvað flutningurinn er styttri að Kláffossi, og, eftir því sem mér var sagt, mætti líklega fleyta öllum efniviðnum þangað eftir ánni, er yrði miklum mun óerfiðara og kostnaðarminna). Þriggja manna nefnd (síra Guðmundur prófastur í Reykholti, Þorsteinn bóndi á Hofstöðum og Einar bóndi á Steindórsstöðum) stóðu fyrir framkvæmdunum, og að öðru leyti var þar hver höndin annarri liðsinnandi, að því leyti er með þurfti. Ég gerði það fyrir ítrekuð tilmæli síra Guðmundar í Reykholti - sem ég hafði haft mjög góð kynni af áður -, að fara þangað suður, þó ég væri bæði landslagi og öllu öðru ókunnugur þar, og jafnframt því, að ég ber mikla virðingu fyrir þessum skörungsskap þeirra, þá votta ég þeim hér með opinberlega þakklæti mitt fyrir það, hve ótrauðir þeir voru að útvega allt, er hafa þurfti, ekkert horfandi í kostnað og fyrirhöfn, sem ætíð gerir auðveldara að leysa verkið - hvaða verk sem er - viðunanlega af hendi, sem og alla meðferð á mér og viðurgjörning að öðru leyti. - Blöðin ættu að flytja greinilegar skýrslur um allar þesskonar félagslegar framkvæmdir, þeim til verðugs heiðurs, sem sameina þannig kraftana, og að öðrum út í frá til uppörvunar og eftirbreytni.
Efnin eru lítil hjá hverjum einstökum, en svo er þó fyrir þakkandi, að margir menn og mörg sveitarfélög hér á landi gætu dálitlu miðlað til félagslegra framkvæmda - auk skylduskattanna -, ef viljann ekki vantaði, án þess að vita nokkuð af því í efnalega tilliti, en "safnast þegar saman kemur"; og gætum vér Íslendingar töluverðu í verk komið, ef ekki vantaði samtökin. Öll mannvirki, sem eru til gagns og sóma fyrir mannfélagið, er besti arfur fyrir niðjana, og hefur hitt enga þýðingu, þó að gemlingi yrði færra fyrir það þegar búinu væri skipt.
III.
Það er svo mikið verkefni fyrir höndum hjá oss Íslendingum að brúa ár, að engin vanþörf er á að tala saman í blöðunum um það, og ættu sem flestir að láta í ljósi skoðanir sínar á hinu og þessu, er þar að lýtur. Við höfum fengið brú yfir Ölfusá, sem eflaust er hið mesta stórvirki á landinu, og fáum að líkindum áður en langt um líður brú á Þjórsá; og þó það sé nú óumflýjanlegt, að við þurfum að vera upp á útlenda komnir þegar um þess konar verk er að ræða, eins og yfir höfuð þegar leggja þarf nokkuð langar brýr, þá ættum við þó að geta gert allar hinar styttri sjálfir - allt að 40 ál. að minnsta kosti -, ef engir sérstakir örðugleikar eru til að hamla því.
Ætíð, þegar brúuð er á, þarf það að vera á svo haganlegum stað fyrir samgöngurnar, sem unnt er. Það vill nú vel til, þegar maður hefur þar til kletta eða klappir til að byggja á, því undirstaðan undir brúnum þarf að vera vel traust og góð; varanlegleiki þeirra er mikið undir því kominn. En þegar maður velur sér brúarstæði, þarf líka að taka tillit til landslagsins í kring, og tel ég ógjörning að leggja brýr niðri í djúpum giljum, þar sem snjóskafla getur lagt og svellbunka, svo ófært sé að nota brúna þegar hennar þarf helst með. Líka getur bergið í klettagljúfrum verið svo sprungið og óheillegt í sér, að illt sé að hlaða ofan á það, því vatnið finnur glufurnar, og þegar það frýs í þeim, þá hefur það í sér fólgið afl til að hrinda frá. En vanalega er þá breitt sundið á milli þess konar klappa því smátt og smátt hefur hrunið úr undanfarna tíma. Þar á móti eru klappirnar ætíð heillegri í sér og haldbetri þar sem gljúfur eru þröng, ef nokkurt vatnsmagn á annað borð er í ánni. Því þar hefur ekki hrunið úr börmunum á rennu þeirri, er hún (áin) hefur búið sér til. Ef landslagið þannig gerir tálmanir, verður maður að færa sig úr stað og hlaða þá heldur stöpla undir endana að meira eða minna leyti, og ef ísruðning er að óttast, þá þarf að velja þá staði, er ætla má, að hann geri sem minnst mein. Þar sem bugða er á ánni, þar verður aflið að ísreki mest neðan við krikann, en tekur þá aftur frákast þaðan, og er undir straumstefnunni komið og landslaginu hinumegin, hvar þetta frákast hefur mest afl þeim megin. Jakarnir geta auðvitað ýst upp á löndin báðu megin hvar sem er, en það hlýtur að vera mikill munur á, hvaða afl því fylgir, og oftast nær verða víst deplar báðu megin við ána, þar sem bugða er á henni, er stöplunum verður minni hætta búin en annarsstaðar. Árnar eru vanalega breiðari þar sem farvegur þeirra er þráðbeinn, nema klappir séu báðumegin til að halda við, en þar er þó stöplum eflaust minni hætta búin, ef þeir ekki þurfa að ganga út í ána, því þá fer ísrekið beint niður eftir straumnum og þrýstingaraflið verður meira framan á stöpulinn en á hliðina á honum.
Það væri nú auðvitað best, að hafa alla stöpla undir brúm úr sementsteypu, þar sem þarf að búa þá til; en með því að þeir kosta ærið fé, verður allvíðast einn kostur nauðugur að hlaða þá úr grjóti. Ef grjótið er gott og laglega hlaðið, geta þeir verið varanlegir, sé undirstaðan góð, ef ísruðningur eða önnur eyðandi öfl eigi ná að granda þeim. - Þannig hlaðnir stöplar eiga að stefna undan straumnum - liggja á ská við hann að ofan - og hornið, er í strauminn veit, vera vel kringlótt og sem sléttast að unnt er. Verður þá stöpullinn eðlilega talsvert breiðari þeim megin, sem að landinu veit. Ísinn er háll og skriðnar auðveldlega af skáfleti, ef ekki eru stallar eða horn, sem veita honum viðnám; er því vitanlega ágætt, ef efni eru til, að setja sementshúð yfir hliðina að ofan og framflötinn, sér í lagi efra hornið, svo að það verði sem sléttast og hrufuminnst.
Þar sem ekki fæst annað en malarsorfið grjót eða hnullungar, má auðveldlega búa til stöpul undir brúarenda með "trébúkka" eða með öðrum orðum: trégrind úr sterkum viðum og rambyggilega neglda saman með galvaníseruðum saum (hnoðgöddum), sem grjótinu væri hlaðið innan í. Trégrindin heldur þá við stöpulinn að utan, svo hann getur aldrei raskast, fyr en tréð grotnar í sundur af fúa, og þá er líka brúin sjálf búin að "út enda sína tíð". Þannig tilbúnir stöplar geta eflaust staðið af sér allan straumbeljanda og grjótrið, sem honum væri samfara, en þar sem ísruðning er að óttast, verða þeir óhentugri, af því ísjakarnir geta marið í sundur tréð og gert grindina ónýta, enda þarf þá ætíð að vera hærra undir brúna og yrði þá þannig lagaður stöpull nokkuð dýr. Auðvitað þyrftu þess konar stöplar að vera þeim mun stærri og fyrirferðarmeiri, því meiri áreynslu er þeir þurfa að mæta, og þannig lagaðir, að þeir hrindi aflinu sem best af sér. Hugsanlegt er, að fóðra þá með járni á móti ísreki, þar sem mest væri hættan, og líka mætti verja þá með grjóti að utan, þar sem það væri við hendina, er hlífði grindinni við mari og skemmdum utan frá.
IV.
Hvað byggingarform menn hafa á brúnum verður undir álitum komið, en trauðla verður annað sterkara og áreiðanlegra - tiltölulega við kostnaðinn - en yfirbygging með sperrum á brúartrénu, þar sem því verður komið við. Það er lýsing á fyrstu brúnni, sem ég smíðaði með því lagi (yfir Grafará), í Ísafold 4. sept. 1889 (bls. 282), svo ekki er vert að endurtaka það hér. En þar eð brúarkjálkana þarf að smíða á landi (eins og húsgrind) og negla alveg saman, þá þarf að renna brúnni yfir ána í heilu lagi, eða að minnsta kosti hverjum kjálkanum um sig, og til þess útheimtist góður útbúnaður í festum báðumegin, köðlum, blökkum o. fl.
Annað byggingarform er það - sem mest tíðkast í Noregi á trébrúm - að hafa skakkstífur (Stræbere) neðan undir trjánum, er setja endana framan í klettinn eða stöpulinn, er brúin stendur á, og ganga hinir endarnir upp undir brúartrén hér um bil þriðjung leiðar frá stöplinum, og verða þannig eins og sperrur eða skakkstoðir undir brúnni. En þetta fyrirkomulag útheimtir, að maður hafi háa kletta eða stöpla til að byggja brúna á, og aflviðir þurfa að vera miklum mun sterkari en með yfirbyggingunni, ef báðar brýrnar eru jafnlangar.
Einnig getur maður búið til burðarafl á brýr með því að hafa járnstagi neðan undir brúartrjánum, er gangi fyrir endann á þeim og festist vel ofan í þá með járnkengjum. Standa svo stoðir á járntaugum þessum uppundir brúartrén, svo nánar, er þurfa þykir, og geta þá ekki brúartrén bognað, ef járnstagirnir ekki láta til.
Enn fremur má búa til burðarafl á brýr, eða að minnsta kosti auka það, með krossum og skakkslám, sem greypt séu eða negld saman ofan á brúartrjánum, en trauðla verður það samt áreiðanlegt þegar um mikil þyngsli er að ræða á brúnni. Að brúa á trjám, sem ekkert eru styrkt, ætti alls ekki að gjöra, nema brúin sé þá örstutt og trén vel sterk.
Það er nú ekki lítilsvert, að brýr, ekki síður en aðrar byggingar, geti orðið sem endingarbestar. Það vill of mikið brenna við, að til okkar Íslendinga sé fluttur slæmur viður og að við þá hagnýtum hann eins og hann kemur fyrir, í stað þess að útlendir ryðja "geit" og annan óhroða utan af trjánum og hafa aðeins hjarnann í það, sem þeir vilja vanda. Geitin í furuvið er mjög gljúp og drekkur óðara í sig vatn og allan raka; hún grautfúnar á fáum árum (ég hef séð saumför í byrðingi á bátum vera orðin fúin og ónýt að 6 og 7 árum liðnum, þegar geit hefir verið í borðaröndunum), þegar skilyrðin eru fyrir hendi til þess, en þar sem hún er í einlægum þurrk, t. d. í þiljum innan um hús, þar getur hún enst vel, má ske undir það eins og annar viður; líka þolir hún nokkuð úti, þar sem loft getur leikið um hana á allar hliðar; að minnsta kosti hef ég séð nokkuð gömul geitartré, er verið hafa undir beru lofti og lítið eða ekki borið á fúa í.
Það ætti helst ekki að smíða brýr úr júffertuvið þeim, sem vanalega er fluttur til okkar, heldur úr þeim spýtum, sem sagað er utan af á allar hliðar, eins og þær eru undirbúnar erlendis, þegar söguð eru úr þeim "fjórskorin" borð og plankar; þá verður þó ekki geit í þeim til muna nema í röndunum, og má ske í þeim endanum, er mjórri var í trénu, og þá fær maður þau bein og jafngild í báða enda. Þau tré eru vitanlega dýrari; en mikið af viðarverðinu hjá oss liggur í flutningskostnaðinum frá útlöndum, svo innkaupsverðið hefir minna að þýða fyrir það. Auðvitað getum vér sjálfir sagað geitina utan af trjánum, en þá þyrfti að fá þau þeim mun gildari og flutningur og öll meðferð á hinum digru trjám er tiltölulega miklu dýrari og erfiðari.
Allur saumur í brýr (hnoðgaddar og reksaumur) ætti að vera galvaníseraður; þá endist hann "von úr viti" og ryðgar ekki; en þegar járn fer að ryðga í tré, þá brennir það út frá sér og styttist mjög í trénu allt í kring.
Allt þess konar getur maður pantað frá útlöndum í þeirri stærð og gildleika, er maður vill hafa, og rær á hnoðgaddana eftir gildleika járnteinsins. Er þá höggvinn af naglinn eftir því sem hann þarf langan til, höfð sín ró á hvorum enda og hnoðað báðumegin, svo ekki þurfi að eldbera járnið.
Hvaða áburð á að hafa á brýr, sem ver þær fúa og gerir þær endingarbetri?
Þessi spurning hefur verið lögð fyrir mig; en ég get ekki svarað henni.
Það er nú vanalegt, að bera á tré annaðhvort einhvers konar olíufarfa eða þá tjöru og er það eflaust mikil vörn, ef tréð er vel þurrt undir, því það setur húð utan á tréð og heldur vætu frá að smjúga í það. En sé tréð blautt, getur húð þessi líklega varnað vatnsefninu að gufa burtu og þeim sýrum eða vökvum, sem menn vita að eru í trénu og framleiða rotnunina í því, þegar þær hafa vatnsvökva við að styðjast. Og víst er um það, að ég hef séð tré grautfúið undir þykkri bæði farfa- og tjöruhúð, sem ekki var þó mjög gamalt. Þó að borin sé á fernisolía eintóm, þá þurrkar loftið hana og gerir húð utan á trénu, þó hún að öðru leyti smjúgi í tréð, og bindi sig við það.
Það er tíðkað af mörgum, að maka báta og önnur för að innan með grotnaðri þorskalifur eða þorskalýsi, og er reynsla fyrir því, að þau för endast vel; og víst er um það, að sá áburður gerir viðinn seigari (óbrothættari), sem og ekki er óeðlilegt. Ég held því að besti áburður á brýr sé einmitt lýsi (og þá helst þorskalýsi, sem er ódýrara og máske betra en annað lýsi), þó það ekki í sjálfu sér ef til vill sé verulegt varnarmeðal á móti fúa. Feitin smýgur vel í tréð og varnar rifum, en gerir enga húð utan á og teppir því ekki útgufunina. Þó lýsið sé léttara í sér en vatn, þá hrindir það þó vætu frá sér þegar það á annað borð er búið að líma sig við tréð, ef það ekki beinlínis þarf að liggja í vatni, og með því að áreiðanlega ver tréð rifum og einnig sest í þau hólf, er vatn getur í smogið, þá ver það að einhverju leyti vætu úr loftinu að komast inn í það.
Þó loftið sé má ske dálítið rakafyllra yfir ám, sér í lagi þar sem rjúkandi foss er undir eða í námunda, þá endast trébrýr að líkindum ekki miklum mun lakara fyrir það, ef þess er vandlega gætt, að svo sé búið um brúarendana á stöplunum, að enginn vatnsagi eða leirrennsli komist þar að endunum á brúartrjánum. Séu brýr smíðaðar úr góðum viðum, þá ættu þær að endast að minnsta kosti í 40-50 ár.
Að tjara ver fúa eða rotnun yfir höfuð að tala, á eiginlega að stafa af "karbólsýru" sem í henni er, og með því að hennar verkun (karbólsýrunnar) er eiginlega sú, að deyða hinar lifandi loftagnir (bakteríur), sem framleiða rotnun (sbr. verkun hennar á mannholdið), þá er ekki ólíklegt, að hún væri góð til blöndunar í lýsi til að bera á tré. Fyrir nokkrum árum síðan auglýsti Thomsen kaupmaður í Reykjavík, að hann hefði í verslun sinni ágætt smyrsli á tré til að verja það fúa, er hann nefndi "karbolineum". Ég hef ekkert heyrt um það síðan, og væri fróðlegt að fá að vita eitthvað meira um það, jafnvel þó engin veruleg reynsla geti verið orðin um það hér á landi enn. Nafnið er fallegt, ef efnið "ber það með rentu".


Austri, 10. feb. 1892, 2. árg., 4. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur segir að það muni reynast erfitt að gera veg milli Seyðisfjarðar og Héraðs og því best að gera höfn í Lagarfljótsós.

Sigling í Lagarfljótsós.
Eftir Einar prest Jónsson á Kirkjubæ.
¿¿
Það segir sig sjálft, að ef þetta mikla hérað hefði hentuga höfn við Héraðsflóa með öflugum verslunarstað, þá væri það sjálfkjörið, til að bera ægishjálm yfir öllum Austfirðingafjórðungi. En þetta er því miður ekki svo. Það er eins og kunnugt er, engin hentug höfn til við flóann, þess vegna verða Héraðsbúar að flytja allar þessar vörur, 5.000 hestburði, á hestum yfir fjallgarða þá er liggja beggja megin Héraðsins ofan frá jöklum og út í sjó, til Vopnafjarðar, Seyðisfjarðar, og Eskifjarðar. En eftir því sem sveitum hagar í Héraði, versla Héraðsbúar langmest á Seyðisfirði, og aðeins lítill hluti á Vopnafirði og Eskifirði.
Það verður nú eigi annað sagt, en að Seyðisfjörður liggi fremur vel fyrir verslun Héraðsins í heild sinni, og best allra Austfjarða, ef ekki hindraði fjallgarður sá, er liggur þar á milli. Þó liggur hann ekki nærri eins vel fyrir verslun Héraðsins eins og Héraðsflói sjálfur, ef höfn væri fyrir honum miðjum, því að þó að komin væri jafnslétta milli Héraðsins og Seyðisfjarðar, þá væru þó vötnin Lagarfljót og Jökulsá, til mikillar hindrunar fyrir meiri hluta Héraðsins. En enn þá meiri verða erfiðleikar við að nota Seyðisfjörð fyrir verslunarstað, þegar þess er gætt, að mjög torvelt er að leggja góða vegi yfir fjöllin til Seyðisfjarðar, bæði fyrir Fjarðarheiði og Vestdalsheiði, bæði sökum bratta og einkum þess, að mjög illt er að sniðleggja þar vegi til muna, sökum kletta. Þannig eru 11 brattar brekkur ofan í Vestdalsheiði Seyðisfjarðar megin og sumar þeirra ósneiðandi til nokkurra muna, sökum kletta, nema með ærnum kostnaði. Þess vegna verður varla búist við, að vagnvegir komist á á þeim heiðum á næstu mannsöldrum. Það hindrar enn fremur flutninga um fjallvega þessa, að þeir eru mjög snjósælir, og verða snemma ófærir með hesta á haustum og seint færir á vorum. Þess vegna verða flutningar manna að fara mest fram á þeim tíma, er síst má skerða frá landbúnaðinum. Margir hafa því tekið það óyndisúrræði, að flytja að sér talsvert á útmánuðum, þegar færi kemur á fjöllin og er það þó auðvitað hættulegt og kostnaðarsamt.


Ísafold, 20. febrúar 1892, 19. árg., 15. tbl., bls. 58:
Dr. J. Jónassen tekur undir skrif Jóns Þórarinssonar um nauðsyn samgöngubóta í Fossvogi. Fossvogslækurinn er vondur farartálmi en gilin þrjú í Fossvogi engu betri.

Fossvogslækur og Kópavogsbrú.
Það gladdi mig, og sjálfsagt fleiri, er ég sá að skólastjóri Jón Þórarinsson vakti um daginn athygli hlutaðeigenda á Fossvogslæknum og Kópavogsbrúnni. Ég var búinn að rita grein um sama efni, sem ég ætlaði að biðja yður, herra ritstjóri, fyrir, en sleppi henni nú, en vil þó gjöra ofurlitla athugasemd við grein Jóns. Hann telur Fossvogslækinn verstan farartálma á leiðinni; ég skal fúslega játa, að hann er oft ákaflega vondur yfirferðar og margoft rétt ómögulegt yfir hann að komast, og hefir það komið fyrir mig í lífsnauðsyn, að ég komst eigi leiðar minnar sakir hans. En mér virðist gilin í Fossvogi (þau eru 3) engu betri, ef eigi verri en lækurinn, og ber hin brýnasta nauðsyn til, að vegur sé lagður fyrir ofan gilin, sem virðist hægðarleikur og getur eigi kostað mikið, þar sem hin ágætasti ofaníburður er rétt við hendina. Fyrir skömmu síðan var ég sóttur suður í Hafnarfjörð, og hefði það eigi verið um bjartan dag, hefði ég orðið að snúa heim við svo búið, því í fyrsta gilinu var ég rétt búinn að tapa hestinum því hann fór þar á kaf í krapinu, og þakka ég það eingöngu manni, sem með mér var, að hesturinn náðist upp úr. Sé læknir sóttur á næturþeli til konu í barnsnauð og þurfi þá að flýta sér, en gilin full af snjó og krapi, svo ómögulegt er að komast yfir þau, þá er hörmulegt til þess að vita, að komast eigi áfram leiðar sinnar sakir þessa farartálma. Það er hverju orði sannara, sem Jón segir um Kópavogsbrúna; það má með engu móti dragast, að gjört sé við hana. Eins og margir vita, voru oft og tíðum mestu vandræði að komast yfir Kópavogslækinn og hefir brúin bætt ágætlega úr; en hún hefir frá fyrstu gerð verið of veik, og er nú farin að fúna, svo hætta er að ríða hana, og gæti voðalegt slys orðið, ef hún brotnaði niður og þá væri of seint að kveina.
Umferðin um veg þann, sem hér ræðir um, er mjög mikil, og ég vona að sýslunefndin láti það verða eitt sitt fyrsta verk, að því er vegabætur snertir, að bæta úr þessu, sem minnst hefir verið á, og sem sannarlega er bráð-nauðsynlegt; þótt Eskihlíðarvegurinn, Kópavogshálsinn og vegurinn víðar sé ógreiðfær, þá má þó ávallt komast hann, en hitt er oft ómögulegt að komast yfir, og slíkt er óþolandi.
30/1 "92
Dr. J. Jónassen.


Austri, 29. feb. 1892, 2. árg., 6 tbl., forsíða:
Í þessari athyglisverðu grein um samgöngumál tekur höfundur undir orð prófessors Willard Fiske að Íslendingum ríði meira á að fá bættar samgöngur en að fá sjálfu stjórnarskrármálinu framgengt.

Samgöngur og gufubátsmál Austuramtsins.
Fyrir nokkrum árum skrifaði hinn mikli Íslandsvinur, prófessor Willard Fiske, oss til á þá leið, að honum virtist oss Íslendingum ríða miklu meira á að fá greiða vegi, ár brúaðar og hagkvæmar samgöngur á sjó, heldur en að fá jafnvel sjálfu stjórnarskrármálinu framgengt, því bættar samgöngur á sjó og landi væru vor mestu velferðarmál, og í endurbót á þeim lægi framtíð landsins og framfarir þess.
Þetta er álit hins praktíska ameríkanska vinar vors Íslendinga, og honum munu vera hér um allir þeir samdóma sem sjá, að eigi mega mestu nauðsynjamál landsins bíða eftir því, að við fáum endurbót á stjórnarskránni. Margföld aldareynsla sýnir það, að þær þjóðir eru auðþekktar úr að auði, menntun og allri farsæld, er mestar og besta hafa samgöngur bæði innanlands og við önnur lönd. Svo er um Englendinga, Frakka, Þjóðverja, Skandinava o. fl. - Það var ein af aðalástæðunum til hinna aðdáanlegu framfara Forn-Grikkja, að Grikkland er svo vogskorið, að samgöngurnar á sjó urðu fljótt svo miklar og bein sjávarleið var til annarra landa á þrjá vegu. Aftur hafa hinir sömu að mörgu leyti vel gefnu Kínverjar, einhver elsta menntaþjóð heimsins, staðið að heita má í stað, svo þúsundum ára hefir skipt, af því þeir vilja helst engar samgöngur hafa við aðrar þjóðir. Norðmenn, sem allra þjóða eru oss Íslendingum næstir að frændsemi, voru árið 1814, er þeir skyldu félagsskapinn við Dani, engu betur á veg komnir við samgöngur innanlands og við önnur lönd heldur en vér Íslendingar 1874, er hinn ástsæli konungur vor, Kristian hinn 9., gaf oss þá stjórnarskrá er vér höfum enn þá, og sem engan veginn bannar oss að bæta samgöngur bæði innanlands og við aðrar þjóðir, og leggja til þeirra svo mikið fé, sem fjárhagur landsins frekast leyfir, sem helsta og bráðasta velferðarmáls Íslands.
Fáar eða engar þjóðir hafa á þessari öld tekið meiri framförum í menntun og öllum þjóðþrifum en Norðmenn, og mátti þó heita að flest lægi hjá þeim í kaldakoli 1814 eftir félagsbú þeirra við Dani, og engin þjóð mun hafa á þessu tímabili lagt að sínu leyti meira fé til að efla og hægja allar samgöngur innanlands og utan en þeir, af því þeir með réttu álitu, að þær væru einna helsti hyrningarsteinninn undir framförum landsins. Norðmenn eru ekki einungis allra þjóða náskyldastir oss, en þar er og landslag alllíkt og hér, örðugt yfirferðar, en sjórinn aftur greiðasti, ódýrasti og haldbesti samgönguvegurinn.
Í Noregi stendur líkt og hjá oss með það, að lega landsins á jarðarhnettinum og óblíða náttúrunnar leggur óyfirstíganleg takmörk fyrir landbúnaðinn, en "gullnáma" landsins liggur í sjónum og á honum, og því hafa Norðmenn keppst svo mjög við að bæta allan sjávarútveg sinn og auka skipastólinn, svo hann muni þriðji mestur í heimi hvað seglskip snertir, sem er aðdáanlegt hjá svo fámennri þjóð.
Það er oss sönn ánægja að játa það, að Alþingi vort Íslendinga hefir þegar frá byrjun löggjafartímabils þess séð, hve bráðnauðsynlegt væri að efla samgöngur í landinu og við útlönd, og því hefir það fjárframlag farið stórum vaxandi á hverju þingi, er ætlað hefir verið til þess að bæta samgöngurnar. En aftur er það töluverðum vafa bundið, hvort aðferð Alþingis til að bæta úr samgönguleysinu hefir verið hin heppilegasta.
Þingið hefir ákveðið að leggja skuli póstvegi út frá höfuðstað landsins svo beiða, að aka megi á þeim, og er svo til ætlast, að þeir á endanum akist svo smámsaman út um land allt. En miklum örðugleikum er það bundið að leggja þá svo, að þeir komi að verulegum notum, þar sem þeir þurfa að liggja yfir fjöll og firnindi og svo háar heiðar, að þeir eru mestan hluta árs undir snjó. Er það að minnsta kosti stórt spursmál um hvort eigi hefði verið haganlegra, að láta sér nægja, svona fyrst um sinn, að ryðja vel póstleiðina og setja nauðsynlegustu brýr á árnar, en leggja akvegi eftir hinum byggðu héruðum frá kauptúnum þeirra upp í sveitirnar, þar sem þær óefað hefðu komið að meiri notum en á póstleiðinni. Hvað sérstaklega viðvíkur oss Austfirðingum, þá eru engar líkur til, að þessi fyrirhugaði póstvegur nái til vor á þessari öld, svo langt á hann í land hingað austur frá Reykjavík sunnan og norðan um land, og hefir þó enginn hluti landsins meiri þörf eða augljósari réttarkröfu til vegabóta en Austuramtið, því í samanburði við víðlendi þess, má ekki heita að hér hafi verið tekinn steinn úr götu frá ómunatíð. - Í sambandi við þessar langsóttu vegabótavonir vor Austfirðinga viljum vér leyfa oss að spyrja, á hverju hinn oft á minnsti sýslufundur á Egilsstöðum 8. okt. f. á. byggði hina glæsilegu von sína um mörg þúsund króna vegabótafé úr landssjóði til Fjarðarheiðar á næsta vori, þar eð ekkert er ætlað á fjárlögum til Alþingis til aðgjörða á fjallvegum hér austanlands?
Það virðist því eiga nokkuð langt í land með, að samgönguvegur hér í Austuramtinu taki miklum framförum svo framarlega sem næstu Alþingi halda áfram sömu stefnu í vegagjörð landsins sem hingað til hefir átt sér stað. En því bráðnauðsynlegra er það fyrir amtsbúa að leggja allt kapp á að bæta samgöngur sínar á sjó, og reyna til að verða sem best samtaka í því máli, sem má heita lífsspursmál fyrir þennan hluta landsins.
¿¿¿
Vér tókum það fram í hinu síðasta tbl. Austra, hve langt það mundi að öllum líkindum eiga í land að póstleið og aðrir höfuðvegir mundu verða endurbættir hér austanlands, þegar vegabæturnar eiga að ganga flestar út frá Reykjavík, því þær mega að norðan ekki heita að vera komnar nema að Skjálfandafljóti, og að sunnan að Þjórsá, svo það á æði langt í land; að þær komist hingað austur; en framfarir þessa landsfjórðungs þola ómögulega að bíða eftir því, að Alþingi og landsstjórn líti náðarsamlegast til okkar í þessu efni eftir nokkra tugi ár. Og þá að vegagjörðin komist loks hingað þá er landslag hér víðast svo lagað á Austfjörðum að greiðar samgöngur og góðir vegir komast varla fjarða í milli á landi, fyr en fjárhagur landsins er orðinn allur annar og miklu betri en nú, því Austfirðir eru annar sæbrattasti hluti landsins og hér víða svo torsóttir fjallvegir milli fjarðanna að naumast eru færir með hesta, þó um hásumar sé, en firðirnir sjálfir langir og djúpir og víða góðar hafnir á þeim. Svo náttúran sjálf virðist að benda oss á sjóinn sem hinn hagfelldasta samgönguveg fyrir þennan landsfjórðung. En af hinum dönsku gufuskipum hafa einir tveir til þrír firðir á öllu því mikla og vogskorna svæði frá eystra Horni og alla leið að Tjörnesi, haft nokkurt gagn, og gefur víst öllum að skilja, hversu með öllu ónógt það er fyrir samgöngur, viðskipti og félagslíf allt í þessum landsfjórðungi. Og þó að þessar strandferðir hinna erlendu gufuskipa yrðu miklu betri en þær hafa verið og viðkomustaðirnir margfalt fleiri, sem engin von er um, þá gætu þær ferðir aldrei komið amtsbúum að líkt því þeim notum, sem hæfilega stórt gufuskip er gengi að mestu leyti um firðina í þessu amti. Það eitt gæti bætt verslunina, upphafið einokunina, eflt stórkostlega atvinnuvegina og greitt fyrir öllum viðskiptum manna, langt um betur og hagfeldara, en skip sem á að fara norðanum land til Reykjavíkur og kemur ekki aftur fyr en að mánuði liðnum. Með þvílíku amtsgufuskipi ættu bændur af útkjálkunum og úr hinum afskekktari sveitum hægt með að senda verslunarvöru sína þangað, sem best er gefið fyrir hana og fá þaðan aftur útlenda vöru með betra verði en við nauðungarverslanir þær, er þeir hafa hingað til neyðst til að versla við. Með þessu móti yrðu alveg óþarfar hinar mannfreku kaupstaðarferðir um hásláttinn og besta aflatíma ársins, og er eigi unnt að verðleggja þann mikla hag, er bæði land og sjávarbóndinn mundu hafa af því.
¿


Þjóðólfur, 25. mars 1892, 44. árg., 15. tbl., bls. 59:
Hér er sagt frá skipun landshöfðingja um hvar aðalpóstleiðin skuli liggja um Húnavatnssýslu.

Aðalpóstleið
um Húnavatnssýslu skal framvegis samkvæmt skipun landshöfðingja 3. þ. m. liggja frá Stóru-Giljá um Blönduós og síðan fram Langadal að Bólstaðarhlíð, fram Svartárdal og norður Vatnsskarðsveg að sýslumótum. Hinni snörpu deilu nokkurra sýslubúa um þessa póstleið er því hér með lokið, en illa munu Svíndælingar una þeim úrslitum að vonum, enda þótt þeir fái aukapóstferð að Auðkúlu.


Ísafold, 26. mars 1892, 19. árg., 25. tbl., bls. 99:
Landshöfðingi hefir nú bundið enda á deilur um hvar leggja skuli aðalpóstleiðina í Húnavatnssýslu.

Aðalpóstleið í Húnavatnssýslu.
Sú langvinna og þráteflda þræta er nú á enda kljáð með úrskurði landshöfðingja 3. þ.m., samkvæmt vegalögunum frá 1887, þess efnis, að aðalpóstleið þessi skuli "frá Stóru-Giljá liggja um Blönduós og síðan fram Langadal að Bólstaðarhlíð, fram Svartárdal og norður Vatnsskarðsveg að sýslumótum Húnavatns og Skagafjarðar sýslna".


Austri, 30. mars. 1892, 2. árg., 9. tbl., bls. 34:
Ari Brynjólfsson skrifar hér langa grein um samgöngumálið og bendir m.a. á að vegalögin 1875 og 1887 hafi verið slæm og óhafandi hvað það verðar að allir nýir vegir á aðalpóstleiðum skulu lagðir 6 álna breiðir.

Um samgöngumálið.
Eftir Ara Brynjólfsson á Heyklifi.
I.
Allar þær þjóðir sem lengst eru komnar í frelsi framförum og allri fullkomnun í andlegum og líkamlegum efnum, hafa látið, og láta sig mestu skipa, að efla samgöngur sínar bæði til lands og sjávar, þær leggja á ári hverju stórfé til járnbrautalagninga, sem þandar eru eins og net út yfir löndin, og gufuskipin þjóta um höfin, inn á hverja vík og vog; þær sjá og hafa reynt það, að greiðar og hagkvæmar samgöngur eru eins nauðsynlegar fyrir þjóðfélagið, sem blóðrásin fyrir líkama mannsins, því eins og hann ekki getur þrifist nema blóðrásin sé í lagi, eins getur heldur ekki þjóðlíkaminn þrifist nema samgöngurnar séu greiðar og fjörugar. En hvað sjáum vér Íslendingar í þessu efni? Vér höfum sofið sætt og vært á kodda andvaraleysisins. Það er aðeins fyrir fáum árum, að vér erum farnir að rumskast, og ögn að hugsa um samgöngur vorar, en sú hugsun hefir enn ekki komið að þeim notum, sem krafa tímans og þörf þjóðarinnar heimtar.
Það sætir furðu hve sáralítið hefir verið ritað um þetta mikilvæga málefni, það eina verulega, sem ritað hefir verið um það í dagblöðum, eru hinar ágætu ritgjörðir í "Ísafold" 1890, eftir Jens prest Pálsson; í þeim sýnir hann fram á, að hið eina sem bætt geti úr erfiðum aðdráttum, sé, að lagðar verði akbrautir upp fjölbyggðustu héruð landsins; það er líka vafalaust hið helsta, sem létt getur ofurlítið af oss flutningsfarginu, en þá verður að breyta lögunum um vegi.
Síðan Alþingi fékk löggjafarvaldið, hefir það samið tvenn lög um vegi hér á landi, þau fyrri 1875, hin síðari 1887; eftir þeim skulu allir aðalpóstvegir gjörðir akfærir með 6 álna breiðum vegi; þetta sýnir viðleitni þingsins á að bæta samgöngur vorar, en þessi lög eru óhafandi og þurfa því að breytast til batnaðar. Það hljóta allir að sjá og viðurkenna, að vér erum ekki að svo stöddu því vaxnir að leggja 6 álna breiða akvegi á öllum aðalpóstleiðum, að vér með engu móti getum beðið eftir slíkum vegi, þótt hann kynni einhvern tíma að komast á, sem ég efa stórlega, og loks að vér alls ekki viljum láta þennan aðalpóstveg sitja í fyrirrúmi fyrir öðru lífsnauðsynlegu, slíkt væri til að láta eftirkomendurna hlæja að heimsku vorri. Enda verður því ekki neitað, að það er næsta hlægilegt, ef vér látum leggja hér um 200 mílna langan og 6 álna breiðan akveg, aðeins fyrir póstinn nokkrum sinnum á ári og stöku ferðamenn, en horfum á mikinn part þjóðarinnar flytja alla þungavöru sína sitt hvorumegin hesthryggjar. Hitt virðist liggja nær, að á landssjóðskostnað verði lagðar akbrautir frá kaupstöðum og kauptúnum upp fjölbyggð héruð, slíkt mundi gera ómetanlegt gagn fyrir alda og óborna. Það er vonandi og óskandi að þingið breyti sem fyrst veglögunum í þessa átt, en láti ekki póstveginn gleypa fleiri þúsundir króna á ári hverju, þjóðinni til lítils gagns og sóma.
Auk þeirra 60.000 kr. sem þingið veitti í sumar til að bæta aðalpóstleiðirnar, hefir þessi vegur á næstl. 14 árum upp etið um 250.000 kr., en nál. 300.000 kr. með því sem veitt var til Ölfusárbrúarinnar. Hefði miklu af þessu fé verið varið til að gjöra akvegi upp fjölbyggðustu héruð landsins, mundi nú öðruvísi á að líta; í stað hestanna með kveljandi klyfjar, mætti sjá vagnarunur með hestum fyrir, fulla af fólki og flutningi; þá spöruðust hestar og þá sparaðist tími, sem hvorutveggja eru peningar. Allir vita, hve dýrt er að hafa marga hesta á heyjum og í högum; allir vita, hve erfitt og kveljandi það er fyrir vesalings hestana að bera á fimmta hundrað pund langar leiðir yfir feni og forræði, og allir vita, hve leitt og erfitt það er fyrir mann sjálfan að dragast með marga áburðarhesta oft í misjafnri tíð og færð. En þrátt fyrir alla þá erfiðismuni sem allir aðdrættir hafa í för með sér, og þrátt fyrir það þótt öllum ætti að liggja í augum uppi, að ákvæði vegalaganna 1887 um aðalpóstvegina sé óhafandi, og þrátt fyrir það þó landsmenn stynji undir vegleysis farginu og líti vonaraugum til löggjafarvaldsins, þóknaðist þó þinginu í sumar, að fella frumvarp það um vegi, er séra Jens Pálsson kom fram með, sem í öllum aðalatriðum var mjög heppilegt og sem hafði þann aðalkost, að eftir því áttu akbrautir að leggjast upp fjölbyggð héruð, í stað þess sem aðalpóstleiðin liggur víðast þvert yfir þau, fáum að liði. Í stað þess að samþykkja nefnt frumvarp, veitti þingið á næsta fjárhagstímabili 60.000 kr. til að halda fram vegagjörð á 6 álna breiða póstveginum. Þetta er svo mikið fé, að nægja mundi til að kaupa lítið gufuskip fyrir, landsmönnum til meiri hagnaðar en 6 álna breiður póstvegur; má vera að einhverju af þessu fé verði varið til brúagerða yfir stór ár, en sé það ekki, þá eru þetta of þungar útgjaldatölur. Aðalpóstleiðirnar ættu aðeins að riðjast, svo vel yrðu hestfærar. Meira megum vér ekki hugsa að svo stöddu, en leggja alla áhersluna á áðurnefndar flutningsbrautir, líka nauðsynlegt að gjöra fjölfarna fjallvegi hestfæra enda þótt ekki sé póstleið.
Það þarf að leggja meiri áherslu en hingað til hefur verið, á að bæta hreppavegina, það er hörmung að komast ekki til kirkju eða bæja í milli, nema með því að láta hestana vaða milli hnés og kviðar, feni og forræði, eða láta þá klöngrast yfir stórgrýtis hraun og steinkatla; sem með þeim vinnukrafti sem nú er lagður í vegi þessa, verða þeir víða aldrei nema ófærir.
Til að bæta úr þessu er naumast annar vegur en sá, að unnið sé heilt dagsverk fyrir hvern verkfæran mann á landinu. Þetta er ekki tilfinnanlegt fyrir þá sem þessu verki eiga að ljúka, og bændum ætti að vera ljúft að eyða einu dagsverki af 365 til að bæta ögn vegina er þeir brúka sjálfir og sem er kveljandi fyrir vesalings hestana þeirra að fara um. Í þeim hreppum sem vegir eru vondir ætti eitthvað af sýslusjóðsgjaldinu að leggjast til hreppaveganna.
Ekki fæ ég séð hvað sýsluvegir hafa að þýða; í stað þeirra ættu fjallvegirnir að vera undir umsjón sýslunefndanna og kostast af sýslusjóðum, líkt og nú er með sýsluvegina. Komist það á, að upp verði teknar að framan áminnstar akbrautir, virðist vegadeilingin nægileg þó sýsluveganafnið hverfi; eins og þegar er sagt, ætti sýsluvegasjóðsgjaldið bæði að ganga til fjallvega og hreppavega; en nóg fyrir landssjóð að taka að sér aðflutningsbrautir og póstveginn, ásamt öllum þeim ám, er brúa þarf.
II.
Það er sorgleg saga en sönn, að ekki erum vér betur komnir með samgöngurnar á sjónum en landi. Þrátt fyrir það þótt vér Íslendingar sjálfir og útlendar þjóðir sjái og viðurkenni, að sjórinn í kringum Ísland er sú aðal samgöngu- og flutningsbraut, sem vér ættum að nota, og þrátt fyrir það, þó vér á ári hverju horfum á gufuskip erlendra þjóða, þjóta fram og aftur kringum strendur landsins, og þræða hverja vík og vog eftir sem þurfa þykir, þá hefir þó löggjafar og fjárveitingarvaldið sáralítið gjört til að bæta úr samgönguleysinu á sjónum. Aðeins með þessum ónógu og óvinsælu strandferðum dönsku gufuskipanna; ekki að tala um því hafi komið til hugar, eða nokkur hafi opinberlega vogað að hreyfa því, að landssjóður eignaðist eitt einasta gufuskip, rétt eins og sú uppástunga væri "óalandi, óferjandi öllum bjargráðum." Það hefir verið og er mín lifandi sannfæring, að hið rétta sem Alþingi hefði gjört strax þá það fékk fjárforræðið, það var að kaupa eitt eða tvö gufuskip, bæði til strandferða og til að fara landa á milli. Hefði þetta verið gjört fyrir 24 árum síðan, mundi landssjóður nú vera búinn að græða eins mikið á skipum sínum, sem hann á sama tíma hefir tapað á strandferðunum, auk þess sem landsmenn hefðu þá fengið greiðari og hagkvæmari strandferðir en verið hafa hingað til.
Á næstliðnum 14 árum er þingið búið að kasta út fyrir strandferðir dönsku gufuskipanna 228.000 kr. og auk þess með fjáraukalögum - ef mig minnir rétt - rúmum 20.000 kr. Fyrir þetta fé hefði mátt kaupa tvö stór gufuskip, sem vafalaust hefði verið búmannlegra, en láta peningahít danskra gufuskipafélagsins gleypa þetta fé; það var viðkunnanlegra að vita þessa peninga í gufuskipum er landið hefði átt, og sjá þau skrautbúin skríða með landi fram. Það er ekki gott að geta sér til, hvað því hefir valdið, að þingið hefir aldrei hreyft því að kaupa gufuskip; fátækt landssjóðs verður ekki um kennt, og þörfina á að fá greiðar og hagkvæmar strandferðir þekkja allir; að slíkt fyrirtæki ekki borgi sig, hefir ef til vill verið sú grýla er þingið hefir óttast, en það mundi naumast verða tilfellið, því ef skipin væru tvö og færu á víxl til útlanda mundu þau fá nóg að flytja, sem er aðalskilyrði fyrir, að slík fyrirtæki borgi sig. Ég get með engu móti fellt mig við þá kenningu er sumir halda fram, að gufuskip ekki geti eins borgað tilkostnaðinn við Ísland sem önnur lönd, og að dönsku strandferðaskipin hafi tapað á ferðum sínum hér við land, en gufuskipafélagið hafi af einberum mannkærleika við Íslendinga haldið hér uppi strandferðum. Sama má segja um norska og enska dampa, sem hér eru stöðugt á ferð, þeir mundu ekki halda þeim ferðum fram ef það væri einbert tap.
Setjum svo, að landsjóður keypti 2 gufuskip á svipaðri stærð sem "Laura" og útgerðarkostnaður beggja á ári yrði 120.000 kr.- meiri er hann naumast - en innvinningur aðeins 90.000 kr.; yrði tapið 30.000 kr., þá er það þó 6.000 kr. minna en það sem þingið veitti í sumar til gufuskipa og gufubátsferða á þessu ári, og jafnt því fé sem það veitti til aðgjörðar á aðalpóstleiðum, svo hér er ekki um neitt óttalegt tap að ræða þó allt færi verr en maður vonar; með því líka það þing sem sér sér fært, að veita fé svo tugum þúsunda skiptir í miður heppilegum smábitlingum, ætti ekki að láta sér í augum vaxa að eignast gufuskip. Vér Íslendingar sem viljum í ýmsum atriðum taka oss snið eftir erlendum þjóðum, sem er ofur eðlilegt, þar þær eru langt á undan oss í öllu, því skyldum vér ekki vilja það í þessu efni, er oss varðar svo miklu.
Ég geng að því sem gefnu, að of umsvifamikið þyki fyrir landsstjórnina, að annast gufuskipaúthald og hún sé ekki inn í því sem þyrfti, en þá er henni eða þinginu innan handar, að fá einhvern sem slíku er vaxinn í félag, t. d. Zölner, O. Wathne eða íslenskt gufuskipafélag er ég tel víst að myndast mundi ef von væri á töluverðu fé í því augnamiði. Orsökin, að slík félög ekki komast á fót, er bæði peningaleysi, og þröngsýni þeirra manna að kenna sem kraftinn hafa.
III.
Eins og því verður ekki neitað að Alþingi hefir að undanförnu sáralítið gjört til að bæta samgöngur með ströndum landsins, eins verður því og ekki neitað að það hefir í sumar er leið, látið sér einkar annt um að bæta úr þessari miklu þörf þjóðarinnar, en hér fór sem oft vill verða, að "sínum augum lítur hver á silfrið", þingmenn gátu hér ekki orðið á eitt sáttir, og varð því ályktun þingsins í þá átt ekki svo heppileg sem skyldi; að vísu veitti það í þetta sinn á fjárhagstímabilinu 1892 og 93 til gufuskipa og gufubátaferða 72.000 kr.; þetta er töluvert fé, svo ætla mætti, vér fengjum nú góðar og hagkvæmar strandferðir, enda er áætlun sú sem þingið samdi stór endurbót frá því er verið hefir; en "sá galli er á gjöf Njarðar" að enginn treystist að taka ferðirnar að sér, sem líklega kemur meir til af því, að sumir þeir staðir sem nefndir eru í áætlun þingsins þykja óviðfeldnir viðkomustaðir, en hinn, að féð sem til ferðanna er veitt sé of lítið. Hefði landið sjálft átt gufuskip, þá var fyrst vissa fengin fyrir því, að fjárveitingin yrði að til ætluðum notum og áætlun þingsins fylgt. Enn sem fyrr staðfestir reynslan þann sannleik, að svo lengi sem vér ekki höfum ráð á gufuskipum, svo lengi verðum vér að sætta oss við óhagkvæmar og ónógar strandferðir. Á hinn bóginn virðist það mjög óheppilega ráðið af þinginu að hafna tilboði O. Wathne, því ferðir hans mundu hafa orðið landsmönnum einkar hagkvæmar, og af þeirri einföldu ástæðu þeim 10.000 kr. sem hann óskaði sér veittar, vel farið.
Fjárveiting þingsins til gufubátaferða, mætir misjöfnum dómum eins og flest sem gjört er. Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að jafn litlir bátar, sem hér er um að ræða, gjöri lítið gagn og svari ekki kostnaði. Ég skal ekki neita því, að stórir bátar á stærra svæði borgi sig betur, en þegar þess er gætt, á hve marga viðkomustaði strandferðaskipin eiga að koma eftir áætlun þingsins, þá fæ ég ekki séð hvað stórir gufubátar hafa að þýða, þar allt hið verulega mátti fá flutt með strandferðaskipunum. Þingið hefir að mínu áliti gjört sitt besta til í þessu efni, aðeins ætlast til að bátarnir væru látnir skríða með landi fram fjarða á milli, með beitu o. s. frv. sem gæti orðið einkar hagkvæmt og þægilegt fyrir alla þá er búa með ströndum fram og fleiri. Það er vonandi að sýslunefndirnar, sem eiga að sjá um, að bátarnir fáist, láti hvorki eigingirni né annað verra drepa þennan litla framfara neista, sem með tíð og tíma - ef vel er áhaldið - gæti orðið að fögru frelsisljósi fyrir framtíðina.

Ísafold, 9. apríl 1892, 19. árg., 29. tbl., forsíða:
Hér birtist grein eftir “tvo vegagjörðarmenn” sem hafa verið við vegagerð í nokkur ár, síðan vegagerðaraðferðir Norðmanna voru innleiddar, og eru þeir ekki alveg sáttir við þær aðferðir.

Hin nýja vegagjörð.
Eftir tvo vegagjörðarmenn.
Það er eflaust mjög langt síðan, að menn fóru að kvarta yfir því, hve samgöngum vorum væri ábótavant, hve erfitt væri um samfundi á ýmsum tímum árs, og þá eigi síður um nauðsynlega aðdrætti, og yfir höfuð, hve örðugt væri, að reka erindi sín við landsbúa í fjarliggjandi héruðum, einkum að vetrinum til. En það er eigi mjög langt síðan, að menn fóru að smíða lykilinn að samgöngunum, nefnil. vegi og brýr, og það lítur jafnvel út fyrir að menn hafi eigi skoðað greiðar og góðar samgöngur mjög svo þýðingarmiklar fyrir þjóðmegun vora, allt til nálægs tíma. Það mun eigi vera meira en svo sem 15-20 ár, síðan verulega sterkur áhugi vaknaði hjá oss á þessu þýðingarmikla velferðarmáli, og eigi getur heitið, að nein viðleitni í þá átt hafi komið að verulegum notum, fyr en Norðmenn fóru að stjórna hér vegagjörð, og kenna eða sýna landsbúum hvernig vegir ættu að vera.
Þessi nýja vegagerðaraðferð Norðmanna var að vísu mjög mikil umbót á vegargjörðar-káki því, sem þangað til hafði verið notað hér á landi; en, sem við var að búast, var þar með eigi ráðin bót á vanþekkingu vorri, eins og hinn svo nefndi Svínahraunsvegur, eða vegurinn frá Reykjavík upp að Svínahrauni, hefir sýnt, sem þó var að mestu leyti gjörður eingöngu undir umsjón Norðmanna. Það var og naumast við að búast, að Norðmenn, menn úr öðru landi, alveg ókunnugir hér, gætu gjört svo vegi hér, að þeim væri fullkomlega óhætt fyrir öllum áhrifum náttúrunnar, einkum vetur og vor, þegar vegunum einmitt er mest hætta búin.
Við höfum verið við vegagjörð hér á landi í nokkur ár, síðan vegagjörðaraðferð Norðmanna fór að tíðkast hér, við höfum því haft tækifæri til að kynnast vegum þeim, er þegar hafa verið lagðir hér á suðurlandi, bæði jafnóðum og þeir hafa verið lagðir, og einnig eftir það.
Reynslan hefir nú þegar sýnt, að vegir þeir, er hingað til hafa verið lagðir, eru hvergi nærri eins traustir og þeir þyrftu og ættu að vera. Auðvitað yrðu vegirnir dýrari, eftir því sem þeir væru traustari, eða með öðrum orðum; þeir yrðu styttri fyrir sömu fjárupphæð; en sá munur yrði eigi eins mikill, eins og kostnaðaraukinn við að endurbæta vegina, jafnvel á hverju ári, og það stundum máske að stórum mun.
Þetta má að nokkru leyti kenna þjóðinni, er eigi hefir látið óskir sínar í þá átt lúta að öðru en því, að fá vegina sem allra fljótast gjörða; en fjárveitingarvaldið hefir aftur orðið að sporna á móti þessari kröfu þjóðarinnar, með mjög takmörkuðum fjárframlögum. Það er því auðséð, að eigi varð annað gjört til að gjöra að vilja þjóðarinnar, en að gjöra vegina sem allra dýrasta að unnt var.
Það hefir t. d. hingað til verið látið duga, líklega helst kostnaðarins vegna, að gjöra vegarjaðrana eingöngu úr mold og þekja þá svo með torfi; en þannig lagaðir eru þeir miklu ótraustari, heldur en ef þeir væru hlaðnir upp úr sniddu eða steinlagðir, þar sem torf er ekki að fá. Auk þess þyrftu þeir að vera miklu óbrattari en þeir eru vanalega látnir vera. En einkum er það þó ofaníburðurinn, sem þyrfti að vera miklu þykkri en hann hefir verið hafður víðast hvar.
Til þess að trygging fáist fyrir, að vegirnir séu áreiðanlega traustir, þarf sá, sem verkinu stjórnar, að ferðast um og skoða vegarstæðið að vetrinum til, áður en vegurinn á að leggjast, víst einu sinni, ef ekki tvisvar, þegar mest eru snjóa- eða ísalög, og svo að vorinu til, þegar leysingar eru miklar, eins og tíðkast erlendis nálega alstaðar, þar sem vegir eru lagðir. Þá þyrfti sá, er vegagjörðinni ræður, ekki eingöngu að styðjast við sögusögn annarra, sem oft og tíðum reynist mjög misjafnlega áreiðanleg og stundum verri en engin. Veldur því bæði vanþekking manna, og ef til vill stundum líka hlutdrægni; því, sem eðlilegt er, vilja flestir helst, að vegirnir liggi nærri sér, eða sem næst sér, og benda því máske þar á vegarstæðið, sem það er miður vel valið, þrátt fyrir betri vitund; og hlýtur slíkt að hafa mjög óheillríkar afleiðingar í för með sér.
Enn fremur þarf sá, sem veginn hefir gjört, að ganga um hann eða skoða hann iðulega veturinn og vorið eftir að hann er lagður, til þess að aðgæta nákvæmlega, hvort ekki þarf að fjölga þverrennum eða stækka þær, dýpka þær eða gjöra langrennur, grafa fráveituskurði eða annað því um líkt; því þótt vegurinn kunni að standa fyrsta veturinn af, er þar með eigi fengin vissa fyrir, að hann standi af næsta vetur á eftir.
Þó að þetta hafi aukinn kostnað í för með sér, yrði hann þó margfalt minni ein hitt, að gjöra alveg aftur af nýju lengri eða skemmri kafla, sem sópast hefði burt í leysingum og vatnavöxtum, eins og dæmi Svínahraunsvegarins hefir einnig sýnt. Enda myndi þessi siður, sem hér er á bent, eigi vera tíðkaður erlendis, ef hann þætti eigi fullvel tilvinnandi og alveg nauðsynlegur.
En þessu þarf nú eigi að kasta upp á þjóðina; það er landsstjórnarinnar, að sjá um, að fé því, sem þingið veitir til almenningsþarfa, hvort heldur er til vegagjörðar eða annars, sé vel og skynsamlega varið, eða eigi kastað á glæ. Það er hennar, að sjá um viðhald veganna, en það verður aldrei viðunanlega annast, fyr en tekið er upp þetta vetrar-eftirlit, er aðrar þjóðir, með margfalt meiri þekkingu og reynslu í þeim efnum heldur en vér, leggja svo mikla áherslu á og telja allsendis ómissandi.
Það er vonandi, að landshöfðingi vor, sem svo mjög hefir verið hvetjandi og styðjandi að þessu þýðingarmikla og afarnauðsynlega samgöngumáli voru, láti sér nú framvegis um það annt, að mönnum þeim, sem eiga að standa fyrir vegum, gefist kostur á, að kynna sér sem allra best fyrirhuguð vegarstæði veturinn áður en veginn á að leggja, svo að þeir geti vitað svo nákvæmlega sem unnt er, bæði hvernig ís og snjóar liggja þar á vetrum, og hvernig og hve mikið vatn geti komið þar í leysingum á vorin, hvernig það hagi sér o. s. frv.; því "það þarf vel að vanda, sem lengi á að standa". Þar þyrfti og nauðsynlega eftir að fara sams konar eftirlit veturinn eftir að vegurinn er lagður, til þess að geta umbætt í tíma hvað lítið sem þá kynni að sýna sig að umbóta þyrfti við. Að bíða eftir meiri skemmdum verður margfalt kostnaðarsamara.


Ísafold, 16. apríl 1892, 19. árg., 31. tbl., bls. 123:
Áhugi Rangæinga hefur aukist á brúarmálinu við tilkomu Ölfusárbrúar og hvetur bréfritari til þess að drifið verði í að brúa Þjórsá og Hvítá í Borgarfirði og fleiri ár.

Brúa-málið.
(Bréfkafli úr Rangárvallasýslu).
Heldur hefir áhugi manna hér um pláss á brúarmálinu aukist en minnkað við það, að sjá og reyna Ölvesárbrúna, enda er hin mesta nauðsyn á, að kosta alls kapps um, að brúa sem fyrst allar hinar stærri ár á landinu, sem annars er kleyft að brúa; við það sparast beinlínis miklir peningar, fyrir utan allt annað hagræði, þar sem árs árlega er varið ærnu fé í þá vegi, sem liggja annarsstaðar að ánum en á brúarstaðina; það er því mjög áríðandi, að brúa fyrst og fremst allar hinar stærri ár, því þá fyrst verða vegirnir lagðir á rétta staði. Hr. Einar Guðmundsson í Hraunum hefir nú ritað allfróðlega grein um brúargjörðir, og er gleðilegt að heyra slíkar raddir frá landsmönnum viðvíkjandi þessu allsherjarmáli, samgöngumálinu, sem er lífæðin í öllum framförum þjóðarinnar.
Á næsta þingi ætti ekki að láta sér vaxa í augum að leggja fé til brúargjörðar á Þjórsá og Hvítá í Borgarfirði.
Eftir því sem Einar á Hraunum hefir gert áætlun um, er ekki stórt í ráðist að brúa Hvítá, sem væri þó mjög mikils vert fyrir Borgfirðinga og Mýramenn og yfir höfuð fyrir alla þá, sem þá leið fara, sem er almennt fjölfarinn vegur.
Að þessu búnu væri smáræði og auðunnið að brúa það, sem þá er eftir af vatnsföllum á aðalpóstveginum allt frá Markarfljóti (sem ekki verður brúað) til Reykjavíkur, og þaðan aftur upp yfir Hvítá í Borgarfirði, og gætu þá smámsaman orðið vagnvegir á öllu þessu svæði, sem liggur í rétta átt fyrir allar þær sýslur (5 til 6 að tölu), sem þess hefðu not til aðdráttar og annarra ferðalaga.


Austri, 19. apríl 1892, 2. árg., 11. tbl., bls. 42:
Hér segir Austri frá Sýslunefndarfundi Suður-Múlasýslu en þar voru ýmis vegamál tekin fyrir.

Sýslunefndarfundur Suður-Múlasýslu.
30. mars 1892.
Ár 1892, miðvikudaginn 30. mars, hélt sýslunefnd Suður-Múlasýslu aðalfund sinn á Búðareyri. Mættir eru allir sýslunefndarmenn nema úr Geithellahreppi og Mjóafjarðarhreppi, sem nú er erlendis.
¿
5. Sýslunefndin framlagði bréf Sigurðar Oddsonar hvar í hann biður um þóknun fyrir mánaðartíma er hann var veikur meðan hann sumarið 1891 var að smíða ferju á Hvammshyl og Egilsstöðum. Með 4 atkv. gegn 1 (einn greiddi ekki atkvæði) ályktaði sýslunefndin að borga ekkert í þessu skyni.
6. Sýslunefndin fól Nikulási í Arnkellsgerði að láta byggja hæfilega ferju í Vallanesi og var áætlað til hennar 200 kr. af sýslusjóði.
7. Sýslunefndarmaður Eiðahrepps bar upp uppástungu um lögferju á Fljótsbakka gagnvart Rangá á sýsluveginum um Eiðahrepp til Seyðisfjarðar og var ákveðið að fresta ákvörðun hér um þar til ákveðið er að lögferja komi að Rangá.
8. Sýslunefndin yfirfór reikninga yfir póstvega aðgjörð 1891.
9. Reikningur yfir aðgjörð á sýsluvegum 1891 var framlagður endurskoðaður, og fannst ekki ástæða til athugasemda við hann, þegar fullnægt er athugasemdum endurskoðanda. Sýslunefndin vill eigi borga út veginn yfir Reindalsheiði fyr er búið er aðgjöra veginn, sem var lagður í fyrra 5 álna breiðan þar sem það er unnt. Endurskoðandi kosinn þetta ár læknir Zeuthen.
10. Aukavega reikningar 1890 voru framlagðir endurskoðaðir af H. J. Beck. Athugasemdirnar sendist hreppsnefndum til andsvars. Til endurskoðunar á aukavegum 1891, sem ekki eru allir innkomnir var endurkosinn H. Beck.
¿
17. Sýsluvegagjaldið 1892 er: í sjóði kr. 182 17
Ársgjald til sýsluvegasjóðs 1892 um kr. 620 00
Kr. 802 17
Áætlaðar vegabætur 1892:
Reindalsheiði 1891 (í skuld) ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿... kr. 81 90
Breikkun þess vegar 1892 ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ kr. 50 00
Aðgjörð á Hólmaströnd ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ kr. 100 00
Aðgjörð á Hólmahálsi og milli Hólma og Sómastaða ¿.. kr. 100 00
Um Eiðahrepp ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿... kr. 120 00
Hallormstaðaháls og Ásar ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 120 00
Oddsskarð ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 120 00
Þórudalur ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. kr. 100 00
kr. 791 90
Um aðgjörðina á Reindalsheiði er Jón Finnbogason beðinn að annast; á Hólmahálsi og Hólmaströnd Páll Eyjólfsson á Stuðlum, um Eiðahrepp Jónas Eiríksson; á Hallormstaðahálsi og Ásum Sigurður Einarsson á Hafursá; um Oddskarð Sveinn Sigfússon; Þórudal Jón Ísleifsson.

18. Póstvegagjaldið 1892 er:
Í sjóði ¿¿. kr. 349 00
Árgjald ¿... kr. 620 00
kr. 969 00

Sýslunefndin stingur upp á þessir áætlun:

Vegurinn á Hálsströnd (í skuld) kr. 492
Flyt kr. 492

Fluttar kr. 492
Breikkun þess vegar ¿¿¿¿ kr. 200
Um Vallahrepp ¿¿¿¿¿¿ kr. 277
kr. 969

Sýslunefndin skorar á landsstjórnina að útvega úr landssjóði 1.000 kr. til framhalds póstveginum um Velli og bæta veginn, sem hefir skemmst mikið meðfram Skriðuvatni.


Ísafold, 27. apríl 1892, 19. árg., 34. tbl., forsíða:
Vegna Skeiðarárhlaups þykir ljóst að Skeiðarársandur verði ófær yfirferðar allt sumarið og allar samgöngur leggist niður milli Austur- og Vestur-Skaftafellsýslu. Ísafold birtir hér bréf frá Guðlaugi Guðmundssyni sýslumanni um þetta vandamál.

Skeiðarársandur ófær.
Það þykir nú varla efunarmál framar, að Skeiðarársandur verði allsendis ófær yfirferðar í allt sumar, þannig, að samgöngur allar hljóti að leggjast niður, milli Austur-Skaftafellssýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Austanpóstur héðan mun því verða að enda göngu sína hérna megin við sandinn, en Austur-Skaftfellingar að fá póst til sín hina leiðina, úr Múlasýslunum. Sömuleiðis litlar líkur til, að sýslumanni Skaftfellinga, sem situr á Síðunni, verði unnt að þjóna austursýslunni sumarlangt, og verði því að skipa annan mann til að vera þar.
Að öðru leyti skal vísað í eftirfarandi mikið fróðlega bréfkafla frá sýslumanninum í Skaftafellssýslu, herra Guðl. Guðmundssyni, til suður-amtsins, góðfúslega lánaða blaðinu til birtingar. Er fyrra bréfið dagsett 28. mars, en hið síðara 4. apríl (í Öræfunum):
"Eins og kunnugt mun af blaðafregnum, kom hlaup úr Skeiðarárjökli dagana 12. - 15. þ. m. og bárust eða runnu fram nokkrar jökulhrannir á sandinum austanverðum alla leið til sjávar, þannig, að þær mynda eins og há hamrabelti, allbreið og full af gjám og sprungum, er sumar eru fullar með ísmulning, er hrynur undan, ef á er stigið. Á beltum þessum eru engin auð hlið, er komist verður um, nema hvað jökulbrotin standa nokkuð strjálli fast uppi undir jöklinum sjálfum, og má þar rekja sig milli jakanna gegn um beltin öll nema eitt, en yfir það hefir verið höggvin braut og farið þar með hesta; lengra frá jöklinum, úti á sandinum, þar sem áður hefir verið farið, er ófært gangandi mönnum, hvað þá með hesta. Það er álit kunnugra, skilríkra manna, og ég get eigi annað en álitið það rétt, að þegar hitnar í veðri og jökulhrannirnar fara að þiðna á sandinum, jakarnir að sökkva niður í sandinn og þiðna niðri í honum, þá myndist þar á þessu svæði þær hyldýpisbleytur og sandhvörf, er engri lifandi skepnu verði fært yfir, nema fugli fljúgandi. Jafnvel nú, þó að frost sé á jörðu og sólbráð ekkert um daga, telja þeir, er farið hafa um sandinn, og það menn, sem ég þekki að því að vera bæði einbeittir og hugdjarfir ferðamenn, þessa leið hinn mesta glæfraveg, bæði fyrir menn og skepnur.
En þó að gjöra mætti nú ráð fyrir, að mögulegt væri að komast þennan veg fyrir sandbleytum og jökulhrönnum, sem þó eru varla líkur til nú, þá er það annað, er gjöra hlýtur leið þessa ófæra, þegar hiti kemur og vaxa fer í jökulvötnunum; það er Skeiðarár. Á undan hlaupinu kom hún undan skriðjöklinum austast og efst og rann fram vestan undir Skaftafelli og lítið eitt vestur með jöklinum að austanverðu og féll svo og fram sandinn í mörgum breiðum farvegum, er allir lágu á flatneskju, og breiddist áin þar út, svo að hún varð svo að segja aldrei ófær, að eins farvegirnir, "álarnir", fleiri og breiðari, því meir sem vatn óx í henni. Í hlaupinu hefir áin nú flutt upptök sín og kemur nú undan jöklinum nokkru vestar, hér um bil 1 mílu á að geta, og fellur þar beint fram á sandinn; er þar að vestanverðu við hana há sandalda, en að austan jökulhrönn, og fellur hún í einum fremur þröngum farveg þar á milli. Það eru að kunnugra mati áliti engar líkur til, að hún geti rutt sér þar breiðari veg fyrst um sinn, og verður því, þegar vatn vex í henni, al-ófær, en hvergi mögulegt að komast að henni framar á sandinum; þegar hún því er orðin svo vatnsmikil, að eigi er fært yfir hana undir jöklinum, rétt við uppgönguna, þá er algjör frágagnssök, hreinn ómögulegleiki, að komast þennan veg yfir sandinn. Það er því aðeins hugsanlegt, að þessi vegur verður fær í sumar, að Skeiðará flytji sig aftur í hina eystri farvegi; en þó að það vitanlega geti komið fyrir. Þá er mjög valt að byggja á því, að svo verði, enda verður vegurinn samt sem áður hættulegur, ef ekki al-ófær, vegna sandhvarfanna og bleytunnar, sem ég áður hefi lýst.
Eins og þetta því nú horfir við, er eigi annað fyrirsjáanlegt, en að umferð um Skeiðarársand verður ómöguleg frá 15. maí eða í öllu falli frá maí-lokum næstkomandi og það sjálfsagt til septemberloka eða jafnvel lengur. Það er vitanlega eigi allsendis óhugsandi, að einhver ófyrirsjáanleg breyting geti orðið á sandinum, og ef til vill getur það komið fyrir, að einstaka kunnugur maður geti brotist einhverja leið yfir sandinn eða jökulinn. En það eru eigi neinar líkur til þess nú, að vegurinn yfir sandinn geti á þessum tíma orðið svo, að hann geti talist hættulítill og alfaraleið, og kunnugir menn vilja álíta, að hann hljóti að verða opinn voði hverjum ókunnugum, er reyna kynni að fara yfir sandinn, jafnvel þó að hann ef til vill, eigi sé orðinn það nú. Ég þori heldur eigi að fullyrða, að vegurinn verði fær fram í miðjan maímánuð næsta eða til maí-loka, því tilgátur kunnugra manna um það eru á reiki, en það býst enginn við, að hann verði fær eftir þann tíma, og hann verður sjálfsagt ófær mikið fyrr, ef hitar koma eða miklar rigningar".
Hinn 3. þ. m. fór sýslumaður austur yfir sandinn, í embættisnauðynja-erindum, og lýsir ferð sinni þannig daginn eftir í bréfi til amtsins.
"Í framhaldi af bréfi mínu 28. f. m. skal ég nú, eftir að ég hefi skoðað veginn yfir Skeiðarársand, leyfa mér að skýra frá eftirfylgjandi.
Ég get í öllum verulegum atriðum staðfest skýrslu þá, er ég hefi gefið í nefndu bréfi um þennan veg. Eins og nú stendur er vegurinn ekki hættulegur fyrir menn, en nokkuð viðsjáll með hesta. Þeir kaflar á veginum, er verstir verða yfirferðar eru: kaflinn frá Lómanúp og austur fyrir svo nefndar "Sandgígjur" að vestanverðu, og kaflinn frá vestri brún jökulhrannarinnar fyrir vestan Skeiðará og austur undi Skaftafell, og þar gjöra kunnugir menn ráð fyrir, að ófært verði, þegar vaxa fer í Skeiðará, eða nálægt maí-lokum, og jafnvel fyrr, ef hitar verða nokkrir verulegir eða rigningar í vor.
Sandhvörf eru þegar farin að myndast nokkur í Núpsvatna-farveginum, jakarnir farnir að sökkva í sandinn og þiðna, og þar verður eflaust innan skamms mjög viðsjárverður vegur og t. d. alls eigi áhættandi fyrir fáa menn saman að fara þar um.
Menn voru sendir að austan yfir sandinn 2. þ. m., til að flytja mér boð um strand á Sléttaleitisfjöru í Borgarhafnarhreppi, og voru þeir fjórir saman vestur yfir jökulhrannirnar við Skeiðará, og fóru svo tveir þeirra alla leið og komust með illan leik vestur yfir.
Við vorum í gær sjö saman austur yfir Núpsvatna-farveginn, með 10 hesta; við höfðum víða hvar tvo menn gangandi á undan með stengur og þrjá lausa hesta, og þó vildu hér og hvar fara hestar á kaf í brautinni. Þessi kafli mun vera full hálf míla á breidd, og jakarnir standa nokkuð þétt um allt þetta svæði, en eru þar nokkuð minni en austar á sandinum. Þessi kafli held ég þó tæplega að verði ófær með öllu, með ef til vill með þungan flutning, en lausríðandi mönnum held ég varla að hann verði verulegur háski eða faratálmi.
Að austanverðu er vegurinn sem stendur ekki hættulegur, nema hvað vegarspöng sú, er gjörð hefir verið yfir jökulhrönnina, er svikul, og hver sem um veginn fer, verður að hafa með sér verkfæri, til að mylja klakann og fylla með honum sprungurnar, svo að hestarnir verði teymdir yfir, en svo dettur það úr og þiðnar jafnóðum. Spöngin er ekki nema 30-40 faðmar á breidd, en jökulhrönn er beggja vegna við hana, því að þar standi jakarnir nokkuð strjálla, svo að mögulegt sé að rekja sig að spönginni báðu megin. Hér er mjög hætt við, að ófært verði með hesta, þegar þiðna fer. Hrannarbeltið mun vera nálægt mílu á breidd og nær alla leið til sjávar.
Um það, hvort finna megi sér færan veg yfir skriðjökulinn, er mönnum hér lítið kunnugt; en fremur er það þó skoðun manna, að hann muni vera fær gangandi mönnum, og það er vafalaust hægt, að fá hér menn til að reyna það; en alfaraleið er óhugsandi að þar geti orðið.
Vitanlega er eigi hægt að fortaka, að á þessum vegi geti einhver sú ófyrirsjáanleg breyting orðið, að sandurinn verður fær í sumar, þó að mér þyki það næsta ótrúlegt; en, eins og ég hefi áður tekið fram, ég álít nær því vafalaust, að hann verður ófær, í öllu falli með nokkurn flutning".


Ísafold, 11. júní 1892, 19. árg., 47. tbl., forsíða:
Séra Ólafur Ólafsson á Guttormshaga vill brúa Þjórsá og telur það bæði hagkvæmt og vel gerlegt. T.d. væri hægt að gera brú á Þjórsá á hverju ári fyrir það fé sem fer til eftirlauna, mest til þeirra manna sem þjónað hafa góðum og feitum embættum og lifað hvern dag í dýrlegum fagnaði.

Brúargjörð á Þjórsá.
Eftir síra Ólaf Ólafsson á Guttormshaga.
Það er nú liðið misseri síðan brúin kom á Ölfusá; fjöldi manna er búinn að fara hana bæði með hross og fé, og allir ljúka upp sama munni, að því fé, sé vel varið, og að hagsmunir þeir, sem hún veitir, verði tæplega metnir til peninga.
En það er samt enn þá ekki nema "hálfsótt haf", meðan engin brú er á Þjórsá..
Ég ætla ekki að fara út í það mál nú, að fyrst hefði átt að brúa Þjórsá, það þýðir ekki að sakast um orðinn hlut; en þeir, sem kunnugir eru og líta vilja réttum augum á það mál, vita, að það er satt.
En því síður ættum vér að mæta mótspyrnu, er vér berum fram þá nauðsynlegu, eðlilegu og sjálfsögðu beiðni, að nú sé sem fyrst, sem allra fyrst unnið að því, að brúa þessa á.
Á síðastliðnu sumri lét landshöfðingi eftir þingsályktun ,sem samþykkt var í báðum deildum, gjöra hinn fyrsta nauðsynlega undirbúning, rannsaka og ákveða með vissu brúarstæðið og gjöra áætlun um kostnaðinn. Er kostnaðurinn að sögn áætlaður 45.000 kr.; en sjálfsagt má búast við, að hann fari eitthvað fram úr þeirri upphæð, einkum fyrir þá sök, að flutningurinn verður örðugur, bæði lengri og örðugri en að Ölfusá; en allar eru samt líkur til, að kostnaðurinn verði mun minni en við Ölfusárbrúna.
Líti maður á þetta brúarmál frá hinni almennu hlið þess, þá höfum vér 2 sterkar ástæður til þess að byggja á beiðni vora og kröfu um brúna.
Í fyrsta lagi lögin nr. 25 frá 10. nóv.br. 1887, II. kafla 5. gr., þar sem segir um póstvegi: "Skal það vera aðalregla, að fyrst séu bættar þær torfærur, sem gjöra mestan farartálma"; og VI. kafli, 22. gr.: "Brýr skal gjöra yfir ár og læki, þar sem þörf er á, þegar efni og kringumstæður leyfa".
Og í öðru lagi sanngirni og réttlæti, að vér, sem eigum að sækja alla aðdrætti yfir þetta voða-vatnsfall, en höfum ekkert beinlínis gagn af strandferðunum, séum ekki bræðrum vorum gjörðir að olnboga-börnum, og látnir um aldur og ævi gjalda þess, sem oss er ósjálfrátt, að hafnaleysi er fyrir öllum ströndum hjá oss.
Vér berum að réttri tiltölu við alla aðra landsmenn kostnað þann, sem af strandferðunum leiðir; höfum gjört það og munum gjöra það eftirtölu- og umtölulaust, enda þótt vér sjálfir höfum ekkert gagn af þeim, af því vér vitum og játum, að það er nauðsynlegt bræðrum vorum í öðrum sýslum og landsfjórðungum til hagsmuna; en þess væntum vér aftur á móti, að þeir, sem þessara hagsmuna njóta, líti með sanngirni á hag vorn og telji ekki eftir, þótt bætt sé úr hinni sárustu þörf vorri.
Setji menn sig í spor vor og sæti vort.
Hvað mundu Reykvíkingar segja, hvað Vestfirðingar, hvað Norðlendingar, hvað Austfirðingar, ef svo væri skipt um hag þeirra, að þeir, hverjir í sínu lagi, sæju gufuskipin sigla svo og svo oft á ári hverju með ströndum fram hjá sér, án þess nokkru sinni að leggja að landi? Mundi þeim þykja stór höpp að hendi borin, þótt þeir sæju reykinn úr þeim í hverjum mánuði, eða sæju í blöðunum talað um og sagt frá gufuskipakomum á þennan og þennan stað, sagt frá komum skipa, sem færðu flestum landsbúa nema þeim einhver gæði, sem léttu samgöngur og greiddu á ýmsan hátt úr mörgum vandkvæðum -; en þeir sjálfir hefðu ekkert af þessu að segja, nema að fá að borga að tiltölu við aðra kostnaðinn við þetta? Ef þeir svo enn fremur kæmust á engan verslunarstað, gætu ekkert að sér dregið af matbjörg og nauðsynjum, nema yfir versta sundvatn á landinu, sem nærfellt árlega drepur einhverja skepnu, spillir heilsu manna, heftir ferðir, skemmir farangur o. s. frv., hvað mundu þeir þá segja, sem við ekkert af þessu hafa að stríða? Menn í þessum héruðum, er ég áður nefndi, eru það glöggskyggnir á hag sinn og héraða sinna, að þeim mundi finnast þeir vera settir hjá, sem von væri, ef þeir nytu engra hlunninda í notum þess, að strandferðirnar yrðu þeim að engu gagni.
Þetta eru nú kjör vor, sem búum austan Þjórsár.
Nokkuð hefir úr þessu raknað við Ölfusárbrúna; en vér verðum þó alla jafna að fara fyrst yfir Þjórsá, áður en vér komum út að Ölfusá.
Meiri hluti allra Rangvellinga sækir verslun á Eyrarbakka; og nær undantekningarlaust sækja allir þangað eitthvað. Á heimleið fara þeir allir yfir Þjórsá, enginn yfir Ölfusá; sama er að segja um Skaftfellinga, sem eitthvað sækja á Eyrarbakka. Í Árnessýslu geta 8 hreppar komist á Eyrarbakka án þess að fara yfir Ölfusá eða nokkurt sundvatn¸ 2 verða á þeirri leið að fara yfir Hvítá (Ölfusá); en 4 ystu hrepparnir geta komist á 4 verslunarstaði án þess að fara yfir Ölfusá eða nokkurt sundvatn. Rangvellingar komast á engan verslunarstað, nema að fara yfir Þjórsá eða út í Vestmannaeyjar, sem ekki er betra; og hina sömu leið verða þeir að sækja allan sjávarafla sinn, nema það, sem fiskast fyrir "Söndum", sem er oftast lítið og stundum ekkert. En 12 hreppar í Árnessýslu geta sótt allar kaupstaðarvörur og sömuleiðis fiskæti án þess að fara yfir Ölfusá eða nokkurt sundvatn, sem sé 8 hinir eystri á Eyrarbakka, en 4 hinir ystu í Þorlákshöfn eða suður.
Hér við bætist það, að Þjórsá, að vitund allra, sem til þekkja, er iðulega ófær, þegar Ölfusá er fær.
Getur nú nokkrum manni blandast hugur um, að ekki sé síður þörf á að brúa Þjórsá en Ölfusá, eða þá hitt, að vér höfum réttlætis- og sanngirniskröfu til að njóta einhverra hlunninda í stað strandferðanna?
En ekkert getur komið oss eins vel, ekkert er oss eins lífs-nauðsynlegt, sem að fá brú á Þjórsá.
Eins og Þjórsá er oss hinn versti þröskuldur og Þrándur í götu, eins mun brú yfir hana verða oss hin blessunarríkasta lífæð, hið gæfuríkasta framfaraspor, sem greiða mun götu vora til margfaldra framfara.
En hvað kosta nú árlega ferðir Rangvellinga og annarra yfir Þjórsá?
Nærri má fara um það, þótt einhverju kunni að skeika.
Gjörum 600 bændur í Rangárvallasýslu, og að af hverju heimili fari 8 hestar á ári hverju út yfir Þjórsá, sem að áliti skynsamra og kunnugra manna mun nokkuð nærri sanni; af sumum heimilum fara vitanlega færri, en af mörgum, flestum fleiri. Það verða 4800 hestar; 25 aurar fyrir hvern hest, verða 1.200 krónur.
Gjörum enn fremur ráð fyrir, að 100 bændur úr Skaftafellssýslum með 4 hesta hver fari út yfir Þjórsá, sem er of lítið, eftir því, sem verið hefir, þá verða það 400 hestar og ferjutollar 100 krónur. Alls verða þetta 1.300 krónur.
Þar að auki má gjöra ráð fyrir, að lausríðandi menn, sem úr ýmsum áttum fara ýmist austur yfir eða út yfir, gjaldi í ferjutolla 100 krónur.
Enn eru ótaldir ferjutollar fyrir sauðfé, sem í sumum árum hefir þúsundum saman verið flutt yfir ána; hefir það gjald stundum, eftir því sem næst hefir orðið komist, numið frá 100-200 kr., en auðvitað oft minna.
Má þannig ætla á, að í ferjutolla yfir þessa á fari árlega 1.400-1.500 kr. að minnsta kosti, og í sumum ám talsvert meira.
Hér er nú ótalið það atriðið, sem ekki ætti að hafa hvað minnsta þýðingu hjá siðuðum mönnum, og það er þrælameðferð sú, sem menn verða að sýna hestum sínum á öllum tímum árs, þótt verst sé á haustin, veturna og vorin; er það stundum hryllilegt, að verða að vera sjónarvottur að því. Þannig hef ég einu sinni á sumardag eftir Jónsmessu ásamt fleirum, sem við voru, séð 20 hesta nærri farna í Þjórsá; bjóst hvorki ég né aðrir við, að þeir mundu lifandi upp úr henni koma. Hefði það verið um lok og hestar vorlegir, þá hefði engum þeirra skilað lifandi að landi; fýsir mig ekki að sjá þá sjón aftur. Þessu líku mundu fleiri geta sagt frá.
Ótalið er hér fyrirhöfn sú, vosbúð og hrakningur, sem ferðamenn verða iðulega að sæta við ferjurnar, og stórum hefir spillt heilsu margra manna, sem oft eru í ferðum; ótalin er tímatöf sú, sem alltaf er sjálfsögð, þótt allt gagni vel, hvað þá ef mönnum legast við ána; ótaldar eru skemmdir þær á farangri er hent og þeytt upp í skip af skipi. Að meta allt þetta til peninga er ekki hægt, en það er mikilsvert þrátt fyrir það; þeim ætti að vera kunnugast um það, sem reyna; og það ætti í þessu efni ekki síður vera takandi mark á orðum þeirra, sem oft á ári hverju fara yfir Þjórsá, heldur en orðum og skoðunum þeirra, sem einu sinni eða tvisvar á ævinni eða aldrei hafa yfir hana farið, og það þá um hásumarskeið, er allt er sem best og blíðast.
Einn af hagsmunum þeim, sem brú á Þjórsá mundi skapa, yrði án efa aukin verslunarsamkeppni. Menn mundu ekki lengi hugsa sig um að bregða sér suður til Reykjavíkur með vörur sínar, er ekkert væri sundavatnið á leiðinni lengur og ferðin þar af leiðandi gengi fljótar og greiðar, og reyna að sæta þar betri viðskiptum, ef byðust; og kaupmenn austan fjalls mundu aftur á móti reyna að bjóða mönnum betri kjör, er þeir sæju, að menn færu hópum saman að fara fyrir ofan garð hjá þeim og suður yfir heiði með vörur sínar. Mundi þessi greiða gata án efa mikið hjálpa til að leysa verslunina og viðskiptin manna á milli úr þeim ólags-læðingi, sem hún og þau nú eru í. -
Það er því ekki nema eðlilegt, þótt almenningur hér eystra spyrji með áhyggju: "Hvað líður brúarmálinu; kemur vonum bráðar brú á Þjórsá?"
Ég get ímyndað mér, að einhver þurfi nú að koma með gamla svarið, sem vanalega klingir, þegar eitthvað á að gjöra hjá okkur á Íslandi, sem sé: "Okkur vantar peninga; vér höfum engin tök á að snara út 50.000 krónum til að brúa eina á; og ný-búið að brúa aðra fyrir frekar 60.000 krónur".
Við þessu verð ég hreinlega að svara nei. Í raun og sannleika vantar okkur ekki fé, okkur vatnar annað fremur, og það er skynsamleg meðferð á því fé, sem vér höfum. Vér gætum sem næst gert brú á Þjórsá á hverju ári fyrir það fé, sem árlega fer til eftirlauna. Til þess fara 43.000 krónur árlega, mest til þeirra manna, sem þjónað hafa besta hluta ævinnar góðum og feitum embættum, lifað hvern dag í dýrðlegum fagnaði, að minnsta kosti sumir, án þess að bera nokkra áhyggju fyrir morgundeginum, sem sé ellinni, því að þeir vissu að sama daginn, sem þeir hættu að þjóna embætti á þeirri hátíðlegu viðskilnaðarstund mundu þeir hníga í hinn mjúka líknarfaðm landssjóðsins, sem er hið íslenska Abrahams-skaut öllum þeim, sem borið hafa embættisnafn, hverjir svo sem ávextir verka þeirra eru fyrir fósturjörðina. Já! Landssjóðurinn er nokkurs konar lífsins tré, sem þessir "uppgjafa-domini" endurnæra á lúinn líkama og þreytta sál; og á hverjum degi, sem þeir eta þar af, skulu þeir vissulega ekki deyja; því- sjá! þeir eta mikið og lifa lengi!
Vér snörum líka út frekum 18.000 krónum á ári til vísindalegra fyrirtækja og bókmennta. Fallegt er nafnið; ekki vantar það. En um þetta er það að segja, að sumt af því kemur landinu efalaust að einhverjum notum, og er veitt verðleikalítið, og sumt verður engum að neinu gagni nema þeim, sem fá krónurnar og kaupa sér fyrir þær brauðbita upp í sig.
Ýmisleg önnur meðferð og tilhögun á fé landsins er og mjög andstæð því, sem æskilegt væri.
En meðan þessu er þannig háttað með margt hvað, getum vér ekki sagt, að oss bresti fé, heldur miklu fremur hitt: vit eða vilja til að verja því á réttan hátt; og það er nær að sýna einurð, dug og dáð til að koma meðferð fjárins í rétt horf, en að vola yfir því, að fé sé ekki til.


Austri, 8. júlí 1892, 2. árg., 18. tbl., forsíða:
Á þingmálafundi Múlasýsla var m.a. rætt um samgöngumál.

Þingmálafundur
Múlasýslanna.
Ár 1892, 30. dag júnímán. var haldinn almennur pólitískur fundur að Egilsstöðum á Völlum.
Málin sem rædd voru á fundinum, voru þessi:
¿¿¿
Viðvíkjandi samgöngum á landi var samþykkt svo hljóðandi tillaga:
"Fundurinn vill að vegalögunum sé breytt samkvæmt stefnu þeirri sem kom fram á síðasta þingi, en þó þannig að brúargjörðir á stórám séu látnar sitja fyrir akvegagjörð.


Austri, 20. júlí 1892, 2. árg., 19. tbl., forsíða:
Norður-Þingeyingur skrifar hér langa og athyglisverða grein um vegi og samgöngur. Vill hann gera ýmsar grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi vegagerðar og ala t.d. upp vegfræðinga sem hann segir jafn ómissandi og búfræðinga.

Nokkur orð
um vegi og samgöngur.
Það er eigi tiltökumál þó mikið sé rætt og ritað um vegina og samgöngurnar á Íslandi, því hvað vegina snertir, þá eru þeir víða í því ásigkomulagi, að þeir eru lítt færir fyrir menn og skepnur á þeim tíma árs sem þeir eru bestir, auk heldur þá aðra tíma, svo sem haust og vor. En þar sem vegirnir eru fyrsta og seinasta skilyrðið fyrir greiðum og tíðum samgöngum, má fara nærri um, hversu mikið þeim muni ábótavant, þar sem hvergi eða nálega hvergi á landinu er um aðra vegi að ræða en um hestavegi, og þá svona ófullkomna. Hversu mikið vantar þá til að vér séum búnir að fá akvegi, og hvenær verðum vér búnir að fá þá? Ekki vantar okkur vegalögin. Nei, en okkur vantar fé og vinnukrafta til að leggja viðunanlega vegi. Það mun varla fært að auka skylduvinnu verkfærra manna til vegabótanna, því allflestir hafa ærið nóg með vinnu sína að gjöra á þeim tíma árs sem vegabætur verða unnar, eða svo er það hér norðanlands þar sem ég þekki til. Þeir landshlutar, sem hafa verið svo óheppnir, að náttúran sjálf hefir ekki búið þá út með færum vegum, verða því tilfinnanlega útundan með vegina í hreppunum, og sömuleiðis sér lítinn árangur af sýsluvegagjaldinu, því sýsluvegirnir eru þá tiltölulega eins vondir og hreppavegirnir, enda fylgir það alloftast þeim plássum, þar sem grýttur og blautur jarðvegur er, að þar er byggðin strjál og hrepparnir því stórir, svo það þyrfti mikið fé til að gjöra vegi um þá. Já! mikið meira fé en þeir geta í té látið eða unnist getur fyrir skyldugjald það sem nú er. En talsvert mætti bæta vegina fyrir þá peninga sem núna ganga eða eiga að ganga úr vasa bænda til vegabóta, ef þeim væri vel og hyggilega varið, og vegabótunum haldið fram með meiri hagsýni, kunnáttu og dugnaði en nú á sér stað. Það vantar flest skilyrði fyrir því að vegabæturnar getið roðið að verulegu liði, eða komið að tilætluðum notum með því að hver hreppur káki við þær útaf fyrir sig. Fyrst eru óvíða til menn sem hafa þekkingu á að leggja vegi svo sem best má fara, og verður því það, sem gjört er, hroðvirkniskák, sem orðið er ónýtt eftir fá ár. Í öðru lagi er fé það, sem unnið er fyrir árlega, svo lítið, að eigi er hægt að gjöra nema lítið fyrir það. Þar sem því eru stór vegstykki sem þurfa mikla aðgjörð, yrðu menn í fleiri ár að gjöra við þau, ef það ætti að vera vel og varanlega gjört; hættir mönnum þá við að gjöra litlar og óverulegar umbætur á því bráðófærasta, og er það svo aftur orðið eins bráðófært eða verra en það var áður eftir fá ár. Í þriðja lagi er hreppavegavinnunni vanalega skipt í 2-3 eða 4 staði árlega, svo það eru aðeins örfá dagsverk sem unnin eru á hverjum stað, sem, eins og áður er sagt, koma ekki að notum. Þessi skipting vinnunnar er mjög óheppileg fyrir vegabæturnar, því bæði er erfiðara að fá svo marga nýta verkstjóra, og á vondum vegi sér eigi mun með svo lítilli vinnu. En því eru menn þá að skipta vinnunni? spyrja menn. Svarið er, það er eigi hægt að koma öðru við. All-flestir bændur kjósa heldur að vinna eða láta vinna vegabótavinnuna fyrir heimili sín, en borga hana; en þá er aftur eðlilegt að hver og einn vilji láta vinna sem næst sér, eða svo að hjú hans þurfi eigi að ferðast langt til vinnunnar, því hvernig eða hverjum á að reikna þann tíma sem maðurinn ver til þess að ferðast til vinnunnar? Til þess getur þó gengið heill dagur bara aðra leiðina í sumum hreppum, fyrir þá sem lengst eiga til dráttar ef unnið er á öðrum hreppsenda. Líkt þessu gengur með sýsluvegavinnuna, henni er vanalega skipt í marga staði, oftast eins marga eins og hrepparnir í sýslunni eru, og svo koma fyrir sömu vandræðin með verkstjórana og í hreppunum, og alloftast verða þeir menn verkstjórar, sem ekki eru þeim vanda vaxnir, því þá vantar alla þekkingu á vegalagningu, sem von er, þar þeir aldrei hafa átt kost á að vera með vegfróðum mönnum, og kannske ekki einu sinni séð góða og rétt lagða vegi.
Að það sé farið að vaka fyrir sumum mönnum að vegirnir hér í Norðurþingeyjars. komist seint á, með þessu gamla fylgi, og með sömu aðferð og brúkuð hefir verið við þá hingað til, virðist sú tilraun benda á, að fá aðalpóstleiðinni breytt eins og farið var fram á á sýslufundi Norðurþingeyjarsýslu 1888 og nefndaráliti neðri deildar Alþingis frá síðasta þingi, sem gjört var að þingsályktunartillögu deildarinnar. Breytingar þær á aðalpóstleiðinni sem neðri deild Alþingis hefir gjört frá uppástungu sýslufundarins 1888 álítum vér eigi sem heppilegastar, samanbornar við aðalástæðuna fyrir því að fá póstleiðinni breytt þannig eða frá því sem nú er.
Í ástæðum sýslufundarins 1888 er það tekið fram, að ef aðalpóstleiðin sé lögð, eins og ráðgjört er þar, þá liggi hún að mestu eftir byggðum sveitum, en ekki yfir fjöll og firnindi á bak við alla aðalbyggðina, eins og nú á sér stað. Þetta, að póstleiðin liggi eftir byggðinni, svo að sem flestir héraðsbúar hafi not af póstveginum, er sú eina sanngirnisástæða fyrir því að fá póstleiðinni breytt. En til grundvallar fyrir breytingunni liggur það, að ef aðalpóstleiðin fáist þannig lögð, fái menn áður en langir tímar líða góðan veg eftir sveitum þeim sem póstleiðin liggur um og yfir heiðar þær er liggja milli þeirra, því að þá komi landssjóðurinn til að kosta veginn og að þá verður þó heldur framkvæmd (ólæsilegur texti) verði bættur, heldur en annars, eða eins og nú er. Í nefndaráliti neðri deildar, þingskjal 285, er fyrsta ástæða fyrir breytingunni þannig orðuð: "Pósturinn gengur á þann hátt eftir allfjölbyggðum sveitum, en hingað til hefir pósturinn gengið að sveitabaki yfir Mývatnsöræfi og aðeins komið við á örfáum bæjum." Þarna kemur sama ástæðan fyrir aðalpóstvegarbreytingunni eins og hjá sýslunefndinni; nefnil. að það eru not þau er almenningur hefði af póstveginum sem er eina ástæðan fyrir breytingunni, enda getur ástæðan engin önnur verið, eða er ekki öllum sama hvort þeir fá bréf og sendingar með aukapósti fyrst þeir fá þau og þær eins fljótt og skilvíslega eins og með aðalpósti væri? Það liggur í augum uppi að breyting þessi á aðalpóstleiðinni hlyti að hafa töluverðan kostnaðarauka í för með sér, eins og líka allar beinar sendingar á millum Akureyrar og Austurlandsins yrðu lengur á leiðinni, því talsvert verður hún lengri þessi fyrirhugaða nýja aðalpóstleið. En svo er aftur að vega á móti þann mikla hagnað, sem almenningur mundi hafa af því, ef góður vegur fengist eftir þeirri fyrirhuguðu póstleið, því nú er vegur þessi afar illur yfirferðar. Og blandast mönnum líklega ekki hugur um það, að hagnaðurinn sem menn hefðu af góða veginum mundi verða ofaná; jafnvel þó sá góði vegur hlyti að kosta landssjóðinn mörg þúsund krónur.
Þegar nú að tilgangurinn með þessari breytingu á aðalpóstleiðinni, er enginn annar en sá, að fá góðan landssjóðsveg eftir leið þessari, eins og ég þykist hafa sýnt hér að framan. Þá hefði sjálfsagt verið heppilegast að leggja hann hvað Norðurþingeyjarsýslu snertir eingöngu eftir till. sýslunefndarinnar 1888 sem áður er getið um. Nefnil. að láta aðalpóstinn ganga frá Skinnastað sömu leið og aukapósturinn gengur nú til Raufarhafnar og þaðan í Svalbarð, en ekki eftir uppástungu neðri deildar Alþingis, nfl. frá Skinnastað yfir Axarfjarðarheiði að Svalbarði. Eftir uppástungu sýslunefndarinnar lægi aðalpóstvegurinn þá, að svo miklu leyti að því yrði viðkomið, eftir byggðinni, og hefðu allir þeir sem sækja þurfa til Raufarhafnar bæði úr Axarfirði og Þistilfirði og margir fleiri not af honum, en af Axarfjarðarveginum hafa sárfáir not í samanburði við hina leiðina. Aftur er það vitaskuld, að það lengir póstleiðina um eina dagleið áfram ef hún liggur út á Raufarhöfn, eða pósturinn yrði einum degi lengur að fara alla leið til Vopnafjarðar, ef hann færi Axarfjarðarheiði. En á móti þessu má meta fyrst almenningsgagnið, sem vegurinn til Raufarhafnar gjörir fram yfir hinn, annað sparnað á aukapósti frá Skinnastað til Raufarhafnar, og þriðja, að það mætti til með að byggja sæluhús á Axarfjarðarheiði, ef þar yrði aðalpóstleið. Önnur breyting sem neðri deildar nefndin hefir gjört frá uppástungu sýslunefndarinnar er sú, að aðalpósturinn gangi út í Sauðanes og þaðan að Skeggjastöðum. Sýslunefndin hafði stungið upp á því að aðalpóstleiðin lægi út í Þórshöfn og þaðan yfir Brekkuheiði, og svo náttúrlega eftir ströndinni að Skeggjastað. Eftir þessum vegi fara allir sem sækja austan af Strönd til Þórshafnar, og þar að auki liggur vegur þessi að kalla má beinast við fyrir alla þá sem þurfa að ferðast á milli Þingeyjarsýslu og Norðurmúlasýslu. En aftur á móti er það fyrst og fremst talsverður krókur fyrir póstinn að fara út í Sauðanes, og svo mundu engir nota veginn yfir Sauðaneshálsinn (sem pósturinn yrði náttúrlega að fara austur), nema pósturinn og þeir, sem beinlínis ætluðu í Sauðanes og kæmu að austan. Þessi breyting á póstleiðinni er því hreint óskiljanleg, því hún hefir sér ekki annað til ágætis, en bæði að lengja póstleiðina og búa til dýran veg þar sem sárfáir hafa hans not aðrir en pósturinn. Nær væri að kosta aukapóst frá Þórshöfn út í Sauðanes, eða jafnvel lengra út eftir Langanesi. Það er nú búið að leita álits sýslunefndarinnar í Norðurþingeyjarsýslu um þessa umgetnu þingsályktunartillögu neðri deildar alþingis, og var hún samþykkt af sýslunefndinni án breytinga, ekki af því að sýslunefndin væri allskostar ánægð með breytingar þær er ég hefi getið um hér að framan, að gjörðar hafi verið frá áliti hennar á fundi 1888, heldur af því, að hún mun hafa komist á þá skoðun, að ef hún vildi binda sig við það álit sitt, mundi engin breyting verða gjörð á aðalpóstleiðinni, og vildi hún þá heldur þessa breytingu en að allt sæti við það gamla, því það hefðu óneitanlega margir not af póstveginum svona lögðum, þó það yrðu færri en ef hann hefði verið lagður eftir uppástungu sýslunefndarinnar. Það er annars nokkuð merkilegt að þessi aðalpóstleiðarbreyting skuli þurfa að ganga á undan, til þess að fá viðunanlega vegi eftir byggðum sveitum. Það lítur svo út sem aðalspursmálið sé að fá góða vegi þar sem póstarnir fara um, nefnilega aðalpóstar. Aukapóstar geta brúkað vonda vegi og brotist yfir óbrúaðar ár. Það eru einungis aðalpóstarnir sem eru þessar æðri verur að þeir mega ekki steita fót sinn við steini. Handa þeim þarf landssjóðurinn endilega að kosta einn góðan veg, þó mjög fáir aðrir eigi þar leið um, en hvorki handa alþýðu manna eftir fjölbyggðum sveitum né handa aukapóstum, sem þó stundum hafa meiri flutning meðferðis en aðalpósturinn, eins og neðrideildarnefnd alþingis segir að eigi sér stað með aukapóstinn frá Grenjaðarstað til Vopnafjarðar. Óneitanlega væri heppilegra að landssjóðurinn kostaði góðan veg eftir byggðinni, eða þar sem byggðin væri mest kringum allt landið. Auðvitað getur sá vegur ekki orðið eftir beinum línum, eða sá stysti vegur sem hægt væri að fá fyrir langferðamenn, enda komi hann að bestum notum fyrir almenning með því móti að hann lægi sem mest eftir byggðum héruðum og á sem flest kauptún landsins. Það er mjög lítið bætt úr flutningsþörf þjóðarinnar með sem beinustum og stystum aðalpóstvegum, því það getur aldrei orðið hlutverk landpósta á Íslandi að flytja annað en bréf og smásendingar á milli manna. Og hitt heldur eigi líklegt að almenningur noti þá vegi til vöruflutninga að því er nokkru nemur. Sjórinn hlýtur að vera og verða aðalflutningsbraut Íslendinga, kringum landið á hin ýmsu kauptún þess, eins fyrir innlend vöruskipti og útlenda vöru, en þá ríður landsmönnum á að hafa sem greiðasta vegi að hverju kauptúni og sín á milli í hverju héraði. Á þetta ætti þing og þjóð að leggja meiri áherslu en á aðalpóstveginn. Það þurfa brýr á fleiri ár en þær sem aðalpóstur á leið yfir, og ætti landssjóður að brúa þær eftir því sem hægt er að koma því við án tillits til þess hvort brýrnar eru á aðalpóstleið eða ekki.
Nöfnin fjallvegir, póstvegir, sýsluvegir og hreppavegir ættu öll að renna saman í eitt orð, veg. Veg, sem landssjóður, sýslusjóður og hreppavegasjóður kostuðu allir í sameiningu þannig,; að sýslumenn innheimtu vegabótagjaldið óskipt á manntalsþingum ár hvert, eitt dagsverk fyrir hvern verkfæran mann, og landssjóðurinn leggi svo til jafn mikið fé í hverja sýslu á landinu eins og vegabótagjaldið úr allir sýslunni er mikið. Sýslunefndin ákveður hvar mest nauðsyn er á vegabótunum og sér um framkvæmd á þeim. En til þess að nokkur mynd verði á vegabótunum hjá okkur þurfum við að ala upp vegfræðinga. Vér þurfum fyrst að fá stöðuga vegfræðinga frá útlöndum og svo þurfum vér að senda 2-4 menn úr hverju sýslufélagi til að læra vinnu og vegagjörð af þessum mönnum, til þess að fá vegfróða menn í hvert sýslufélag. Vegfræðingar hjá okkur eru eins ómissandi og búfræðingar. Þegar vér svo værum búnir að fá nóga vegfræðinga í hvert sýslufélag er auðsætt að engum nema vegfróðum mönnum yrði trúað fyrir vegabótunum.
Ég veit, að margt má finna að þessari uppástungu; svo sem að þar sem fólkið er fæst og strjálbyggðast er, en vegir eru oftast verstir þar verði minnst unnið og minnst fé lagt til vegabótanna. En aftur þar sem fjölbyggðast er og vegir eru góðir, enda vegabætur komnar töluvert á veg, þar sé mest lagt til þeirra. En hér vakti fyrir mér jafnréttishugsun, að því leyti, að þeir sem mest leggja til, yrðu líka að bera mest úr býtum. En ef eitthvert byggðarlag kemst svo langt, að það þarf eigi framar að bæta vegi hjá sér, þá ættu þeir hinir sömu að losast við vegabótagjaldið; en landssjóðsgjaldið helst samt við til hinna og borga því allir nokkuð til vegabóta, eins þeir er lausir eru við vegabótagjaldgreiðslu á manntalsþingum, því þeir borga í landssjóðinn eins og aðrir. En það mun seint koma fyrir, því þeir hinir sömu byrja þá á járnbrautum og telefónum þegar annað er eigi hægt að bæta.
Ég fæ eigi betur séð, en það væri heppilegra fyrir þingið að breyta vegalögunum í líka stefnu og hér er gjört ráð fyrir, og að það væri drengilegra að koma með uppástungu í þá átt, heldur en að reyna að teygja aðalpóstleiðina á milli sín eins og hrátt skinn, einungis í þeim tilgangi að fá landssjóðsveg.
Hvað okkur snertir Norðurþingeyinga, þá fengjum vér ekki í neinu tilliti betri póstgöngur, þó aðalpóstleiðin yrði lögð hér eftir sveitunum en vér höfum nú. Enda eru póstgöngur nú orðnar hér svo góðar, hvað landpóstana snertir, að menn munu ekki almennt finna þörf fyrir þær tíðari né betri.
Norðurþingeyingur.


Austri, 17. ágúst 1892, 2. árg., 22. tbl., forsíða:
Hér segir frá aðalfundi amtsráðs Austuramtsins þar sem m.a. var fjallað um ýmis vegamál.

Aðalfundur.
Aðalfundur amtsráðs Austuramtsins var haldinn á Seyðisfirði dagana 3. - 6. júlí þ. á. af amtmanni J. Havsteen og amtsráðsmönnunum Sigurði Einarssyni, séra Einari Jónssyni og Jakob Gunnlögssyni.
Þessi mál voru rædd á fundinum:
14. Framlagt landsh.br. 31. mars þ. á., þar sem hann út af áskorun n. d. alþ. 1891; um breyting á aðalpóstleið í Þingeyjarsýslu og Norðurmúlasýslu (sbr. þingskjal 412) mælist til að fá álit hlutaðeigandi sýslun. og amtsráðs um það, hvort ástæða væri til að gjöra breytingu þá, er áskorunin fer fram á.
Sýslun. í N.þingeyjarsýslu fellst á áskorun n.d. alþ. að öðru leyti en því að hún vill að aðalpóstleiðin liggi frá Skinnastöðum yfir Hólsstíg um Raufarhöfn að Svalbarði og sýslunefndin í N.múlasýslu sömuleiðis, nema hvað hún leggur til að aðalpóstleið verði ekki lögð norður að Sauðanesi, heldur að Ytri-Brekkum eða Þórshöfn og þaðan yfir Brekknaheiði og skyldi pósturinn ekki þurfa að leggja leið sína um Krossavík.
Meiri hluti amtsráðsins lagði það til að það fyrirkomulag á aðalpóstleiðinni milli Akureyrar og Seyðisfjarðar sem nú er héldist, svo og ganga aðalpóstsins milli þessara staða, og ganga aukapóstsins milli Grenjaðarstaðar og Vopnaf. um Raufarhöfn.
Minni hluti amtsráðsins féllst á tillögu sýslun. í N.múlasýslu að öllu leyti.
15. Forseti skýrði frá vegabótum á aðalpóstleið í S.múlasýslu 1891. Einnig gat forseti þess að menn hefðu góðar vonir um að fé yrði veitt á næsta ári til vegarins yfir Fjarðarheiði.
Til vörðuhleðslu á Möðrudalsheiði, sem framkvæma átti í fyrra, en fórst þá fyrir, hafði landshöfðingi eftir tillögum forseta endurveitt 250 kr. og á vörðuhleðslan að fara fram í sumar.
¿¿.
21. Samþykkt var að sýsluvegasjóður N.múlasýslu tæki að sér einn þriðja part af 4.000 kr. láni, sem Seyðisfjarðarhreppur ætlar að taka til þess að brúa Fjarðará.


Austri, 8. nóv 1892, 2. árg., 30. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá sýslunefndarfundi Suður-Múlasýslu þar sem m.a. var samþykkt að veita 250 kr. til gufuferju á Lagarfljóti. Þá var einnig rætt um ferjurnar á Hvammi, Vallanesi og á Egilsstöðum.

Útskrift úr gjörðabók sýslunefndar Suðurmúlasýslu.
Árið 1892, föstudaginn 16. sept., hélt sýslunefnd Suðurmúlasýslu fund á Egilsstöðum að Völlum, voru mættir auk sýslumanns allir sýslunefndarmennirnir nema úr Berunes-, Fáskrúðsfjarðar-, og Reyðarfjarðahreppi. Á Vallahreppsmanntalsþingi var kosinn sýslunefndarmaður Guttormur Vigfússon á Strönd og í Norðfjarðarhreppi endurkosinn Sveinn Sigfússon á Nesi.
Sýslumaður tilkynnti þessi bréf amtsins:
Dags. 17. maí 1892 um vegavinnu á aðalpóstleið í sýslunni.
Dags. 20. júlí 1892, um endurskoðun á sýslusjóðsreikningum 1891: Um að leggja 250 kr. til gufuferju á Lagarfljóti, og um að samþykkja niðurjöfnun sem gjörð var vorið 1892 til sýslusjóðs; - Athugasemdir við sýsluvegasjóðsreikning 1891.
12. Var rætt um lögferjuna á Hvammi, Vallanesi og Egilsstöðum, á þessa 3 staði eru nú komnir ferjubátar. Presturinn að Vallanesi, sem staddur var á fundinum, álítur lögferju frá Vallanesi að Ási allsendis óþarfa og óskar að sýslunefndin taki aftur þá ákvörðun sína að hafa lögferju að Vallanesi. Við atkvæðagreiðslu varð sú niðurstaða, að 5 atkv. voru með að lögferjan verði sett að Vallanesi, eitt atkv. var á móti og einn greiddi ekki atkv. - Presturinn neitar að þessi kvöð verði lögð á Vallanesprestinn, þar sem hann sem embættismaður verði varla bundinn við ferjuskyldur, en verði ferjan með skyldu sett á jarðir prestakallsins, þá verði hún sett á kirkjujörðina Strönd, sem liggi fullt eins vel við til að vera ferjustaður móti Ási, en stendur að öðru leyti töluvert nær fljótinu.
Sýslunefndin felur Jóni Bergssyni á Egilsstöðum, síra Magnúsi Blöndal í Vallanesi og Guttormi á Strönd að gjöra uppástungu til ferjulaga fyrir hinar 3 lögferjur, sem ákveðnar eru í Vallahreppi og senda sýslumanni uppástungur svo snemma að þær verði lagðar fyrir næsta sýslunefndarfund. Ferjur þessar eiga með löglegri úttekt að afhendast þeim, sem sýslunefndin í bráðina hefir falið að takast lögferjuna á hendur.
Sýslunefndin ákveður að borga í þetta skipti nauðsynlega aðgjörð á ferjunum á Egilsstöðum og Hvammi.
Tenging í allt blaðaefni ársins 1892

Þjóðólfur, 1. jan. 1892, 44. árg., 1. tbl., bls. 2:
Árið 1891 var hagsældar- og framfaraár og er fyrst og fremst að geta þess að Ölfusárbrú var fullgerð.

Árið 1891,
sem nú er um garð gengið, hefur að mörgu leyti verið hagsældarár fyrir land vort, einkum fyrir sveitabændur, þar eð veðuráttan var einhver hin hagstæðasta allt árið, veturinn ómunalega góður og skepnuhöld því almennt ágæt; þó gjörði bráðapest allmikið tjón á sumum stöðum, einkum um efri hluta Árnessýslu. Sumarveðuráttan var einkar hagstæð og grasvöxtur óvenjulega góður. Varð því heyskapur mjög mikill víðast hvar um land allt.
¿
Árið sem leið hefur ennfremur verið allmikið framfaraár. Er fyrst og fremst að geta þess, að Ölfusárbrúin, hin fyrsta hengibrú, er gjörð hefur verið hér á landi, var smíðuð og fullgjör næstliðið sumar, og opnuð til almennrar umferðar 8. september. Þessi brú er hið stórkostlegasta samgöngumannvirki, er hingað til hefur verið unnið hér á landi og er vonandi, að mörg slík fari þar á eftir, enda verður allt auðveldara, þegar fyrsta sporið er stigið bæði í þessu sem öðru. Innan skamms verður eflaust Þjórsá brúuð og sjálfsagt fleiri stórár þegar fram líða stundir. Ölfusárbrúin mun jafnan halda uppi minningu ársins 1891 ekki aðeins sem merkisárs í sögu þjóðar vorrar yfir höfuð, heldur og sem merkisárs fyrir nýtt tímabil verklegra framfara á landi voru.


Ísafold, 2. jan. 1892, 19. árg., 1. tbl., bls. 2:
Kostnaðurinn við Ölfúsárbrúarveginn fór langt fram úr áætlun og kostaði vegurinn meira en 7 kr. faðmurinn!

Ölfusárbrúarvegurinn.
Ölfusárbrúarvegurinn, sem mest hefir orðið tilrætt um í Ísafold, hefir, eftir því sem lesa má í síðustu Stjórnartíð., kostað 10.294 kr., ef öll kurl eru þá komin til grafar. Áætlunin var 5.000! Þótt menn vildu draga frá jafnvel 1.000 kr. af þessu fé sem óeytt í nýjum verkfærum og áhöldum, þá kostar samt hver faðmur í vegarspotta þessum meira en 7 kr.! Hann er sem sé 1322 faðmar alls.


Austri, 12. jan. 1892, 2. árg., 1. tbl., forsíða:
Í nýársávarpi ritstjóra Austra er komið talsvert inn á samgöngumál og finnst honum að Austfirðingafjórðungur hafi orðið útundan í þeim efnum.

Ávarp.
frá ritstjóranum til kaupendanna.
Kæru kaupendur!
Um leið og Austri byrjar annan árgang sinn þykir oss vel við eiga, að ávarpa yður með nokkrum orðum.
¿¿.
Annað eitthvert mesta velferðarmál vor Íslendinga er samgöngumálið. Það er víst að enginn landsfjórðunganna hefir orðið eins illa útundan með greiðar samgöngur á landi og umbætur á alförnustu þjóðvegum sem Austfirðingafjórðungurinn. Allt frá Reykja- og Tunguheiði á Tjörnesi og alla leið austur hingað má ekki heita að hafi verið tekinn steinn úr götu eða brúuð á. Engir fjallvegir ruddir og fáir varðaðir að nokkru gagni. En aðalpóstleiðin lögð um fjöll og firnindi, en ekki um byggðir landsins. En á sjó fer öll Norður-Þingeyjarsýsla hjá hagsmunum þeim, er hún gæti haft af strandferðaskipunum. Þetta er hróplegt ranglæti, að láta þennan hluta landsins, (sem víst mun þó leggja ríflega í landssjóð að sínum hluta) verða svo herfilega útundan, er um helstu umbætur er að ræða í samgöngum á sjó og landi. Alþingi gleymir alveg Norður-Þingeyingum í strandferða-málinu, og landstjórnin gjörir engar umbætur á póstgöngunum, þrátt fyrir tillögur Alþingis. Að umbætur fáist á samgöngum vorum á sjó og landi á vegum vorum, vill Austri styðja af fremsta megni.
¿


Ísafold, 16. jan. 1892, 19. árg., 5. tbl., forsíða:
Hér kemur fram að áætlað hafi verið að verja samtals 100.000 kr. til samgöngumála á árinu sem skiptist á milli strandsiglinga, vegabóta, póstferða og gufubátaferða.

Landsbúskapurinn 1892.
II. (síðari kafli.)
Um daginn var gjörð grein fyrir, hvað landssjóður býst við að hafa í tekjur á þessu ári. Getur sumt af því auðvitað orðið minna en við er búist, en sumt getur líka orðið meira, og er þing og stjórn nú orðin svo vön við að gjöra sínar búskaparáætlanir, eftir nær 20 ára hokur, að allt kemur að jafnaði nokkurn veginn heim. Það var harðærið og bindindis-hreyfingin, sem olli stórkostlegu hruni í brennivínstollinum fyrir nokkrum árum, - en hann var áður sterkasta reipið, - er mestan hallann hefir gert.
Þá er nú að virða fyrir sér útgjöldin, sem landssjóður verður að hafa eða býst við að hafa á þessu ári. Þau nema alls hér um bil réttri ½ milljón króna, og skal nú gerð nokkur frekari grein fyrir þeim.
¿.
Þar af stendur til, eða stóð til, að varið yrði til samgöngumála framt að 100.000; en sparist þær 21.000, er veittar voru til strandferða, verður sá kostnaður ekki nema nál. 76.000.
Stærsti liðurinn í þeirri upphæð, eða nær helmingur hennar, er vegabótafé, um 36.000 alls. Og næstur honum póstferðakostnaðurinn, er nemur 28.000, að frádregnum væntanlegum tekjum af póstferðunum. Hitt, 12.000 kr., er ætlað til gufubátsferða, og verður fráleitt notað nema nokkuð af því.
¿


Austri, 20. jan. 1892, 2. árg., 2. tbl., forsíða:
Á þessum árum töldu margir að höfn í Lagarfljótsós og gufubátaferðir á Lagarfljóti væru bestu lausnirnar á samgöngumálum Héraðsbúa. Hér skrifar Jón Jónsson alþingismaður m.a. um þetta mál.

Um strandferðirnar og gufubátsmál Austfirðinga.
Eftir alþm. Jón Jónsson frá Sleðbrjót.
¿¿
Ekki tekur herra O. Wathne vægara á þegar hann fer í 10. tbl. Austra að ámæla sýslufundinum á Egilsstöðum og Héraðsbúum fyrir meðferðina á styrk þeim er veittur var á fjárlögunum 1892-1893 til gufubátsferða á Austfjörðum. Honum finnst það ganga glæpum næst, að veita þessa upphæð sveitarfélögunum í Fljótsdalshéraði til þess að koma á gufubátsferðum í Lagarfljótsós.
Hér er herra O. Wathne auðsjáanlega "fornærmaður" yfir því að aðrir en hann skuli vilja gjöra tilraun til að koma á skipaferðum í Lagarfljótsós.
"Det er godt til at skræmme andre" sagði herra O. Wathne hlæjandi við Lagarfljótsós í fyrra sumar, þegar hann horfði á skipskrokk sinn liðast þar sundur á sandrifinu norðan við Ósinn. Mér þykir það ekki ólíklegt að hr. O. Wathne hafi hugsað eitthvað svipað er hann sendi frá sér þessa ritgjörð sína, því bæði er það að ritgjörðin minnir ósjálfrátt á skip sem farið er að gliðna sundur, og svo er hún auðsjáanlega skrifuð til að "skræmme andre" skrifuð til þess að gjöra skipaleið í Lagarfljótsós sem ægilegasta í augum þeirra sem ekki þekkja til, til þess, að gjöra aðgjörðir okkar Héraðsbúa, okkar þingmanna úr Múlasýslum, og sýslunefndar í þessu gufubátsmáli, skrifuð til þess að innræta landstjórninni, og öllum sem greinina lesa, þá trú að allir sem einhvern hluta hafa átt að þessu gufubátsmáli hafi gjört allt í blindni og af vanþekking og vilji reyna að sökkva fé landsins í "einhvern straumharðasta árós Íslands".
¿¿..
Vér Héraðsbúar höfum lengi fundið til þess hve mikill atvinnuhnekkir það er oss að þurfa að flytja allar þær nauðsynjar er vér þurfum að kaupa yfir jafn snjósæla og bratta fjallgarða eins og þeir fjallgarðar eru sem vér eigum yfir að sækja til verslunarstaðanna á Vopnaf., Sðfj., og Eskifj. Torfærurnar og vegalengdin gjörir timburflutninga til Héraðsins nær ókleyfa, nema fyrir efnuðustu bændur, og dregur það mjög úr bændum að vanda húsabyggingar sem skyldi. Oft gengur mikill tími af hinum dýrmæta heyskapartíma til kaupstaðarferða, þegar snjósöm vor eru og heiðar renna ei fyr en komið er að slætti. Hestahald verður margfalt dýrara fyrir þessa erfiðu aðflutninga, og þess vegna er ekki hægt að hafa hér eins margt sauðfé eins og annars hefði verið hægt. Auk þess gengur mjög mikill vinnukraftur, og ýmislegur annar kostnaður til kaupstaðarferðanna. Margir fara þess á mis að kaupa ýms áhöld sem þeir annars hefðu keypt, og getað notað sér til mikils gagns af því þeir hliðra sér til hjá flutningum, því fjöldanum veitist fullerfitt að flytja það sem til fæðis þarf yfir árið. Því ætíð verður að verja þeim tíma til aðflutninga sem dýrastur er nfl. sumartímanum þar sem hægt væri að flytja allan veturinn ef vörur væru til innanhéraðs. Þó stundum séu farnar kaupstaðarferðir hér á vetrum þá vita allir sem til þekkja hve hættulegar þær eru og hve oft hefir af þeim leitt hrakninga og manntjón. Vér Héraðsbúar fögnuðum því mjög er herra Tr. Gunnarsson ráðgjörði að láta Gránufélagið koma upp verslun við Lagarfljótsós, en það fórst fyrir líklega fyrir efnaskort félagsins. Svo kom herra O. Wathne og sagðist "skyldi upp í Ósinn", en þar við hefur að mestu leyti setið fyrir honum, því hin fyrirhyggjulitla ferð hans upp í Ósinn á fúnu og ónýtu seglskipi er varla teljandi.
¿¿.


Ísafold, 3. febrúar 1892, 19. árg., 10. tbl., forsíða:
Einar B. Guðmundsson brúarsmiður skrifar hér langa grein um brýr og ræðir hvernig best sé að standa að brúargerð.

Nokkur orð enn um brýr.
Eftir Einar B. Guðmundsson.
I.
Þegar ég næstliðið sumar var suður í Borgarfirði að gera brúna á Barnafossi yfir Hvítá, þá heyrði ég svo mikið talað um, hve stutt væri á milli klappa og þægilegt að brúa téða á niður á svo kölluðum Kláffossi, að mig langaði til að sjá það og gerði mér þann krók þangað ofan eftir um leið og ég fór heim. Og með því að ritstjóri "Ísafoldar" lætur blað sitt (94. tbl.) flytja herhvöt um að brúa þar sem allra fyrst og merkur maður borgfirskur, er ásamt fleirum kom með mér að Kláffossi, orðaði það við mig, að ég léti í ljósi álit mitt um brúarstæðið í blaðagrein -, þá finn ég hvöt hjá mér til að skrifa um þetta efni nokkrar línur, ef ritstjóri "Ísaf." vildi ljá þeim rúm í blaði sínu.
Það er reyndar ekki rétt að nefna foss í ánni á þessum stað. Þar hanga klappir út í hana frá báðum hliðum, þráðbeint hver á móti annarri, sem gera dálitla stíflu í ánni, og flýtur þar af, að yfirborð hennar er lítið eitt lægra fyrir neðan, og að hún brýst með töluverðum straumkrafti í gegn um hliðið milli klappanna, en er að öðru leyti engin mishæð á landinu. Ég vissi þá ekki um mælingu hins sænska vegfræðings Siwersons, og gerði tilraun til að mæla á milli klappanna með "snúru", er mér virtist vera nálægt 16 ál., en þar eð talsverður stormur var og enginn maður hinum megin árinnar til að halda í þráðinn á móti mér, þá varð sú mæling ekki nákvæm, og getur máske munað einni alin til eða frá.
Það munu flestir, sem koma að Kláffossi verða hissa yfir því, að ekki er búið að brúa Hvítá á þessum stað, jafnmikið heljarvatnsfall sem hún er og vaðafá, eða jafnvel vaðalaus, að Langholtsvaði undanskildu (það er ekki að telja, þó menn með talsverðri lífshættu hleypi yfir hana í stöku stað, þegar hún er sem minnst), ekki síst þegar maður hugleiðir legu hennar frá fjalli að fjöru milli Suðurlands á aðra hliðina og Norður- og Vesturlands á hina, eins og drepið er á í nefndri "Ísafoldar"-grein, hinar fjölbyggðu og auðugu sveitir, er að henni liggja báðumegin, og ennfremur það, hve sjaldgæft er að leggi á hana fulltraustan ís til yfirferðar á vetrum, eftir því sem mér var skýrt frá. Þar hefir þó náttúran gert svo úr garði, að ekkert er erfiðara að brúa Hvítá en marga smásprænu, sem maður getur kallað svo í samanburði við hana, þegar þess er gætt, að nú geta menn búið til klappir og kletta (sementssteypu), er staðið geta á móti hvers konar afli og áreynslu, er getur að komið og gjöra má ráð fyrir í þess konar sökum.
Mig furðar á því, að hinn sænski vegfræðingur skyldi gera ráð fyrir 27 ál. langri bú yfir Kláffoss, þar sem þó lengdin á milli klappanna mældist honum aðeins 14 al. Mér virtust þó klappirnar eins góðar undir stöpla að framanverðu - eða framarlega -, og það áleit ég, þegar ég var þar, að aðalbrúin þyrfti alls ekki að vera lengri en 22 ál.; en það datt mér í hug, að hagfeldara mundi verða að hafa sporða úr tré frá báðum endum, svo vatnið gæti komist leiðar sinnar þeim megin við stöpulinn, ef yfir færi klappirnar í afskaplegum vatnavöxtum. Klappirnar eru því ver of lágar, eins og hinn sænski vegfræðingur hefur tekið fram, en mjög eru þær fastar í sér og heillegar, og að öðru leyti vel lagaðar undir sementssteypustöpla, lægri að ofan, sem veitir viðspyrnu, með holum og hrufum o. s. frv.
Að mínu áliti væri ekki mál takandi að hlaða stöplana undir brúna, nema þeir væru þá því betur límdir með steinlími. Af því klappagirðingin liggur þvert fyrir í ánni og myndar stíflu í henni, þá verður vatnsþunginn ógurlega mikill í vatnavöxtum, og auk þess má gera ráð fyrir, að þó ána ekki leggi á vetrum þar fyrir ofan, svo að óttast þurfi verulegan ísruðning (graslendið sem liggur fast að ánni báðumegin við Kláffoss sýnir það líka), þá má þó gera ráð fyrir, að ís-spengur myndist við bæði löndin hingað og þangað í frostum, er straumurinn losi og beri niður eftir, þegar veðuráttu og vatnagangi hagar svo, og sem þá hljóta að reka sig á klappagirðinguna. Stöplarnir þurfa því að vera traustir mjög, og finnst mér sjálfsagt að þeir væru hafðir úr steinsteypu, sporöskjulagaðir, eða þó máske enn meira oddmyndaðir að ofan, svo þeir kljúfi betur strauminn og ísfleka, er kynnu að berast á þá. Stærðina áliti ég nægilega, að þeir (stöpl.) væru 5 ál. á lengd og 2 ál. á br., en hæðin mætti alls ekki minni vera en vegfræðingurinn gerir ráð fyrir, því ef íshroði getur á annað borð nokkuð hrönglast þar upp, þá er hæðin undir brúna, sem hann tilnefnir, sú minnsta, sem vera má.
Hvort brú á Kláffossi ætti að vera úr tré eða járni, þá liggur næst að svara því svo, að ef menn hefðu nægilegt fé til alls þess, er gera þyrfti og í allar þarfir að öðru leyti, eða með öðrum orðum, endalaust auðmagn til hvers sem vera skyldi, þá væri líkl. besta ráðið að hafa hana úr járni, þar eð hún yrði þá að líkindum endingarbetri. En eins og á stendur hjá oss hvað féföngin snertir, og hve margar ár þyrfti að brúa, auk annars, þá ætti þessi brú vafalaust að vera úr tré, af því hún yrði margfalt kostnaðarminni en úr járni, því þarna er alls engin þörf á öðru. - Brúin sjálf, úr tré, sams konar og hin á Barnafossi, hér um bil 22. ál. á lengd, eins og ég hef ráðgert hana hér að framan, nægilega traust fyrir hvað þunga lest sem væri, mundi ekki kosta meira enn 1.000 - 1.200 kr. (efni, aðflutningur og smíðalaun), þó aflviðir væru hafðir nokkuð gildari en í brúnni á Barnafossi; en þar eð sporðarnir báðumegin þyrftu nokkuð langir - líklega 8 - 10 ál. hvor, - þá tækju þeir upp nokkurt fé, þó alls ekki mera en 300-400 kr., jafnvel þó höfð væri á þeim yfirbygging með burðarafli af hornsperrum (ekki kálfasperrum), sem ákjósanlegast væri.
Hvað steinsteypu-stöplarnir mundu kosta, læt ég öðrum eftir að gjöra áætlun um, en því fé, sem til þeirra er varið, fær hvorki "mölur né ryð" grandað, ef þeir á annað borð eru nógu traustir, og niðjarnir eiga það óeytt að næstu þúsund árum liðnum. (Ef forfeðurnir hefðu þekkt sementið og steinsteypu þá, sem úr því má gjöra, þá hefðu þeir eflaust haft stöpla úr því undir brú sína, og þá hefði brú á Kláffossi að líkindum verið við lýði enn). En allur sá kostnaður yrði "hverfandi stærð" við það gagn, er brú yfir Hvítá gjörði á þessum stað.
Um landslagið sunnan við ána hjá Kláffossi er mér ekki kunnugt, þar eð ég fór þar ekki um og spurði mig ekkert fyrir um það, en að norðanverðu er mýrlendi alllangan kipp út holtarana þann, sem gengur niður frá Hlíðafjalli, en allt var það rótgott og keldulaust - ágætt yfirferðar þegar ég fór þar um - nema svo sem 60 faðma breið mýri út við holtin, er sjálfsagt þyrfti að brúa þegar, ef vegur væri lagður þar um.
Að öðru leyti ætti það alls ekki að hefta framkvæmd á brúargjörðinni, þó akvegur ekki verði jafnframt lagður að henni. Þess verður langt að bíða, að póstarnir milli Reykjavíkur og Norður- og Vesturlandsins flytji töskurnar sínar á vagni alla leið; það þarf nokkur þúsund kr. að verja í brýr og vegagjörð áður!; og gerir þá lítið til, að þessi vegarkafli bíði eftir því ásamt öðrum. Það er að minnsta kosti næst ánni að sunnanverðu graslendi - máske mýrlent -, svo það yrði áreiðanlega gott að brúnni og frá henni að vetrinum, þegar frostið búar fyrir mann, enda er ekki ólíklegt, að brúarleysið á Hvítá sé tilfinnanlegast um þann tíma ársins. Að öllum líkindum ekur pósturinn fyrst á sleða að vetrinum milli Suðurlands og hinna landsfjórðunganna, áður en hann getur notað hjólvagn alla leið þar á milli, og verða þá ekki mýrarnar út frá Kláffossi óþægri við hann en sumir aðrir kaflar vegarins.
II.
Af því að Hvítá er löng og brúin á Barnafossi svo ofarlega, að hún getur alls ekki komið til skoðunar sem aðalsamgöngubraut yfir ána; af því að áin er mikið og vont vatnsfall, sem vegur svo margra manna þarf að liggja; og af því að hana má brúa á Kláffossi (sem liggur haganlega, líklega hér um bil á miðri leið frá því Geitlandsárnar og Norðlingafljót koma saman) með tiltölulega litlum kostnaði, þá hljóta allir góðir drengir að taka undir með "herhvöt" Ísafoldar, að gera það sem allra fyrst.
Mér finnst fyrir mitt leyti sjálfsagt, að láta hinar stóru og hættulegu ár sitja fyrir hinum, hvar svo sem þær eru, þegar þær verða brúaðar með litlum kostnaði, og það jafnvel þó yfirferðin sé tiltölulega minni yfir þær.
Enginn rígur eða metnaður má komast þar að.
En eins og það er eðlilegt, að þeir sem næst búa hafi mest gagn af brúnum, eins ættu þeir að leggja meira fé til þeirra en aðrir, og ætti það því að verða að fastri reglu, að sveitirnar, sem að liggja, leggi sérstaklega nokkurn skerf til brúnna, og jafnvel þó á póstleið sé. Þá getur landssjóður meiru komið í verk, og þá er síður að gera ráð fyrir, að menn metist um, hvað af ánum, sem að öðru leyti standa jafnt að vígi, skuli brúa fyrst. Það væri í því tilliti vel tilfallið, að hafa nokkurs konar yfirboðsþing og láta þær ár ganga á undan, þar sem sveitirnar vilja leggja mest fé til. Auðvitað yrði þetta hvergi skyldugjald; en ég gjöri ráð fyrir því sem vissu, að menn vilji allsstaðar leggja nokkuð fram af frjálsum vilja, til að fá sem fyrst brýr yfir árnar í grennd við sig.
Óskandi væri, að víða á landinu kæmi fram annað eins fjör til framkvæmdar, samheldni og félagsskapar, eins og hjá íbúunum í Reykholtsdals- og Hálsasveit. Það var drengilega gert af þeim - eitthvað 40 búendum? - að snara fyrst út 3.000 kr. fyrir afréttarland, er þeir keyptu á Arnarvatnsheiði af Stefáni bónda í Kalmannstungu, og svo þegar á eftir að brúa Hvítá til að gera fjárrekstrana auðvelda og hættulausa til og frá. Þetta verk hlaut þó að "vaxa í augum", með fram fyrir hina afar-löngu leið, sem þeir þurftu að flytja stórviði og annað efni til brúarinnar. (Það er munur á, hvað flutningurinn er styttri að Kláffossi, og, eftir því sem mér var sagt, mætti líklega fleyta öllum efniviðnum þangað eftir ánni, er yrði miklum mun óerfiðara og kostnaðarminna). Þriggja manna nefnd (síra Guðmundur prófastur í Reykholti, Þorsteinn bóndi á Hofstöðum og Einar bóndi á Steindórsstöðum) stóðu fyrir framkvæmdunum, og að öðru leyti var þar hver höndin annarri liðsinnandi, að því leyti er með þurfti. Ég gerði það fyrir ítrekuð tilmæli síra Guðmundar í Reykholti - sem ég hafði haft mjög góð kynni af áður -, að fara þangað suður, þó ég væri bæði landslagi og öllu öðru ókunnugur þar, og jafnframt því, að ég ber mikla virðingu fyrir þessum skörungsskap þeirra, þá votta ég þeim hér með opinberlega þakklæti mitt fyrir það, hve ótrauðir þeir voru að útvega allt, er hafa þurfti, ekkert horfandi í kostnað og fyrirhöfn, sem ætíð gerir auðveldara að leysa verkið - hvaða verk sem er - viðunanlega af hendi, sem og alla meðferð á mér og viðurgjörning að öðru leyti. - Blöðin ættu að flytja greinilegar skýrslur um allar þesskonar félagslegar framkvæmdir, þeim til verðugs heiðurs, sem sameina þannig kraftana, og að öðrum út í frá til uppörvunar og eftirbreytni.
Efnin eru lítil hjá hverjum einstökum, en svo er þó fyrir þakkandi, að margir menn og mörg sveitarfélög hér á landi gætu dálitlu miðlað til félagslegra framkvæmda - auk skylduskattanna -, ef viljann ekki vantaði, án þess að vita nokkuð af því í efnalega tilliti, en "safnast þegar saman kemur"; og gætum vér Íslendingar töluverðu í verk komið, ef ekki vantaði samtökin. Öll mannvirki, sem eru til gagns og sóma fyrir mannfélagið, er besti arfur fyrir niðjana, og hefur hitt enga þýðingu, þó að gemlingi yrði færra fyrir það þegar búinu væri skipt.
III.
Það er svo mikið verkefni fyrir höndum hjá oss Íslendingum að brúa ár, að engin vanþörf er á að tala saman í blöðunum um það, og ættu sem flestir að láta í ljósi skoðanir sínar á hinu og þessu, er þar að lýtur. Við höfum fengið brú yfir Ölfusá, sem eflaust er hið mesta stórvirki á landinu, og fáum að líkindum áður en langt um líður brú á Þjórsá; og þó það sé nú óumflýjanlegt, að við þurfum að vera upp á útlenda komnir þegar um þess konar verk er að ræða, eins og yfir höfuð þegar leggja þarf nokkuð langar brýr, þá ættum við þó að geta gert allar hinar styttri sjálfir - allt að 40 ál. að minnsta kosti -, ef engir sérstakir örðugleikar eru til að hamla því.
Ætíð, þegar brúuð er á, þarf það að vera á svo haganlegum stað fyrir samgöngurnar, sem unnt er. Það vill nú vel til, þegar maður hefur þar til kletta eða klappir til að byggja á, því undirstaðan undir brúnum þarf að vera vel traust og góð; varanlegleiki þeirra er mikið undir því kominn. En þegar maður velur sér brúarstæði, þarf líka að taka tillit til landslagsins í kring, og tel ég ógjörning að leggja brýr niðri í djúpum giljum, þar sem snjóskafla getur lagt og svellbunka, svo ófært sé að nota brúna þegar hennar þarf helst með. Líka getur bergið í klettagljúfrum verið svo sprungið og óheillegt í sér, að illt sé að hlaða ofan á það, því vatnið finnur glufurnar, og þegar það frýs í þeim, þá hefur það í sér fólgið afl til að hrinda frá. En vanalega er þá breitt sundið á milli þess konar klappa því smátt og smátt hefur hrunið úr undanfarna tíma. Þar á móti eru klappirnar ætíð heillegri í sér og haldbetri þar sem gljúfur eru þröng, ef nokkurt vatnsmagn á annað borð er í ánni. Því þar hefur ekki hrunið úr börmunum á rennu þeirri, er hún (áin) hefur búið sér til. Ef landslagið þannig gerir tálmanir, verður maður að færa sig úr stað og hlaða þá heldur stöpla undir endana að meira eða minna leyti, og ef ísruðning er að óttast, þá þarf að velja þá staði, er ætla má, að hann geri sem minnst mein. Þar sem bugða er á ánni, þar verður aflið að ísreki mest neðan við krikann, en tekur þá aftur frákast þaðan, og er undir straumstefnunni komið og landslaginu hinumegin, hvar þetta frákast hefur mest afl þeim megin. Jakarnir geta auðvitað ýst upp á löndin báðu megin hvar sem er, en það hlýtur að vera mikill munur á, hvaða afl því fylgir, og oftast nær verða víst deplar báðu megin við ána, þar sem bugða er á henni, er stöplunum verður minni hætta búin en annarsstaðar. Árnar eru vanalega breiðari þar sem farvegur þeirra er þráðbeinn, nema klappir séu báðumegin til að halda við, en þar er þó stöplum eflaust minni hætta búin, ef þeir ekki þurfa að ganga út í ána, því þá fer ísrekið beint niður eftir straumnum og þrýstingaraflið verður meira framan á stöpulinn en á hliðina á honum.
Það væri nú auðvitað best, að hafa alla stöpla undir brúm úr sementsteypu, þar sem þarf að búa þá til; en með því að þeir kosta ærið fé, verður allvíðast einn kostur nauðugur að hlaða þá úr grjóti. Ef grjótið er gott og laglega hlaðið, geta þeir verið varanlegir, sé undirstaðan góð, ef ísruðningur eða önnur eyðandi öfl eigi ná að granda þeim. - Þannig hlaðnir stöplar eiga að stefna undan straumnum - liggja á ská við hann að ofan - og hornið, er í strauminn veit, vera vel kringlótt og sem sléttast að unnt er. Verður þá stöpullinn eðlilega talsvert breiðari þeim megin, sem að landinu veit. Ísinn er háll og skriðnar auðveldlega af skáfleti, ef ekki eru stallar eða horn, sem veita honum viðnám; er því vitanlega ágætt, ef efni eru til, að setja sementshúð yfir hliðina að ofan og framflötinn, sér í lagi efra hornið, svo að það verði sem sléttast og hrufuminnst.
Þar sem ekki fæst annað en malarsorfið grjót eða hnullungar, má auðveldlega búa til stöpul undir brúarenda með "trébúkka" eða með öðrum orðum: trégrind úr sterkum viðum og rambyggilega neglda saman með galvaníseruðum saum (hnoðgöddum), sem grjótinu væri hlaðið innan í. Trégrindin heldur þá við stöpulinn að utan, svo hann getur aldrei raskast, fyr en tréð grotnar í sundur af fúa, og þá er líka brúin sjálf búin að "út enda sína tíð". Þannig tilbúnir stöplar geta eflaust staðið af sér allan straumbeljanda og grjótrið, sem honum væri samfara, en þar sem ísruðning er að óttast, verða þeir óhentugri, af því ísjakarnir geta marið í sundur tréð og gert grindina ónýta, enda þarf þá ætíð að vera hærra undir brúna og yrði þá þannig lagaður stöpull nokkuð dýr. Auðvitað þyrftu þess konar stöplar að vera þeim mun stærri og fyrirferðarmeiri, því meiri áreynslu er þeir þurfa að mæta, og þannig lagaðir, að þeir hrindi aflinu sem best af sér. Hugsanlegt er, að fóðra þá með járni á móti ísreki, þar sem mest væri hættan, og líka mætti verja þá með grjóti að utan, þar sem það væri við hendina, er hlífði grindinni við mari og skemmdum utan frá.
IV.
Hvað byggingarform menn hafa á brúnum verður undir álitum komið, en trauðla verður annað sterkara og áreiðanlegra - tiltölulega við kostnaðinn - en yfirbygging með sperrum á brúartrénu, þar sem því verður komið við. Það er lýsing á fyrstu brúnni, sem ég smíðaði með því lagi (yfir Grafará), í Ísafold 4. sept. 1889 (bls. 282), svo ekki er vert að endurtaka það hér. En þar eð brúarkjálkana þarf að smíða á landi (eins og húsgrind) og negla alveg saman, þá þarf að renna brúnni yfir ána í heilu lagi, eða að minnsta kosti hverjum kjálkanum um sig, og til þess útheimtist góður útbúnaður í festum báðumegin, köðlum, blökkum o. fl.
Annað byggingarform er það - sem mest tíðkast í Noregi á trébrúm - að hafa skakkstífur (Stræbere) neðan undir trjánum, er setja endana framan í klettinn eða stöpulinn, er brúin stendur á, og ganga hinir endarnir upp undir brúartrén hér um bil þriðjung leiðar frá stöplinum, og verða þannig eins og sperrur eða skakkstoðir undir brúnni. En þetta fyrirkomulag útheimtir, að maður hafi háa kletta eða stöpla til að byggja brúna á, og aflviðir þurfa að vera miklum mun sterkari en með yfirbyggingunni, ef báðar brýrnar eru jafnlangar.
Einnig getur maður búið til burðarafl á brýr með því að hafa járnstagi neðan undir brúartrjánum, er gangi fyrir endann á þeim og festist vel ofan í þá með járnkengjum. Standa svo stoðir á járntaugum þessum uppundir brúartrén, svo nánar, er þurfa þykir, og geta þá ekki brúartrén bognað, ef járnstagirnir ekki láta til.
Enn fremur má búa til burðarafl á brýr, eða að minnsta kosti auka það, með krossum og skakkslám, sem greypt séu eða negld saman ofan á brúartrjánum, en trauðla verður það samt áreiðanlegt þegar um mikil þyngsli er að ræða á brúnni. Að brúa á trjám, sem ekkert eru styrkt, ætti alls ekki að gjöra, nema brúin sé þá örstutt og trén vel sterk.
Það er nú ekki lítilsvert, að brýr, ekki síður en aðrar byggingar, geti orðið sem endingarbestar. Það vill of mikið brenna við, að til okkar Íslendinga sé fluttur slæmur viður og að við þá hagnýtum hann eins og hann kemur fyrir, í stað þess að útlendir ryðja "geit" og annan óhroða utan af trjánum og hafa aðeins hjarnann í það, sem þeir vilja vanda. Geitin í furuvið er mjög gljúp og drekkur óðara í sig vatn og allan raka; hún grautfúnar á fáum árum (ég hef séð saumför í byrðingi á bátum vera orðin fúin og ónýt að 6 og 7 árum liðnum, þegar geit hefir verið í borðaröndunum), þegar skilyrðin eru fyrir hendi til þess, en þar sem hún er í einlægum þurrk, t. d. í þiljum innan um hús, þar getur hún enst vel, má ske undir það eins og annar viður; líka þolir hún nokkuð úti, þar sem loft getur leikið um hana á allar hliðar; að minnsta kosti hef ég séð nokkuð gömul geitartré, er verið hafa undir beru lofti og lítið eða ekki borið á fúa í.
Það ætti helst ekki að smíða brýr úr júffertuvið þeim, sem vanalega er fluttur til okkar, heldur úr þeim spýtum, sem sagað er utan af á allar hliðar, eins og þær eru undirbúnar erlendis, þegar söguð eru úr þeim "fjórskorin" borð og plankar; þá verður þó ekki geit í þeim til muna nema í röndunum, og má ske í þeim endanum, er mjórri var í trénu, og þá fær maður þau bein og jafngild í báða enda. Þau tré eru vitanlega dýrari; en mikið af viðarverðinu hjá oss liggur í flutningskostnaðinum frá útlöndum, svo innkaupsverðið hefir minna að þýða fyrir það. Auðvitað getum vér sjálfir sagað geitina utan af trjánum, en þá þyrfti að fá þau þeim mun gildari og flutningur og öll meðferð á hinum digru trjám er tiltölulega miklu dýrari og erfiðari.
Allur saumur í brýr (hnoðgaddar og reksaumur) ætti að vera galvaníseraður; þá endist hann "von úr viti" og ryðgar ekki; en þegar járn fer að ryðga í tré, þá brennir það út frá sér og styttist mjög í trénu allt í kring.
Allt þess konar getur maður pantað frá útlöndum í þeirri stærð og gildleika, er maður vill hafa, og rær á hnoðgaddana eftir gildleika járnteinsins. Er þá höggvinn af naglinn eftir því sem hann þarf langan til, höfð sín ró á hvorum enda og hnoðað báðumegin, svo ekki þurfi að eldbera járnið.
Hvaða áburð á að hafa á brýr, sem ver þær fúa og gerir þær endingarbetri?
Þessi spurning hefur verið lögð fyrir mig; en ég get ekki svarað henni.
Það er nú vanalegt, að bera á tré annaðhvort einhvers konar olíufarfa eða þá tjöru og er það eflaust mikil vörn, ef tréð er vel þurrt undir, því það setur húð utan á tréð og heldur vætu frá að smjúga í það. En sé tréð blautt, getur húð þessi líklega varnað vatnsefninu að gufa burtu og þeim sýrum eða vökvum, sem menn vita að eru í trénu og framleiða rotnunina í því, þegar þær hafa vatnsvökva við að styðjast. Og víst er um það, að ég hef séð tré grautfúið undir þykkri bæði farfa- og tjöruhúð, sem ekki var þó mjög gamalt. Þó að borin sé á fernisolía eintóm, þá þurrkar loftið hana og gerir húð utan á trénu, þó hún að öðru leyti smjúgi í tréð, og bindi sig við það.
Það er tíðkað af mörgum, að maka báta og önnur för að innan með grotnaðri þorskalifur eða þorskalýsi, og er reynsla fyrir því, að þau för endast vel; og víst er um það, að sá áburður gerir viðinn seigari (óbrothættari), sem og ekki er óeðlilegt. Ég held því að besti áburður á brýr sé einmitt lýsi (og þá helst þorskalýsi, sem er ódýrara og máske betra en annað lýsi), þó það ekki í sjálfu sér ef til vill sé verulegt varnarmeðal á móti fúa. Feitin smýgur vel í tréð og varnar rifum, en gerir enga húð utan á og teppir því ekki útgufunina. Þó lýsið sé léttara í sér en vatn, þá hrindir það þó vætu frá sér þegar það á annað borð er búið að líma sig við tréð, ef það ekki beinlínis þarf að liggja í vatni, og með því að áreiðanlega ver tréð rifum og einnig sest í þau hólf, er vatn getur í smogið, þá ver það að einhverju leyti vætu úr loftinu að komast inn í það.
Þó loftið sé má ske dálítið rakafyllra yfir ám, sér í lagi þar sem rjúkandi foss er undir eða í námunda, þá endast trébrýr að líkindum ekki miklum mun lakara fyrir það, ef þess er vandlega gætt, að svo sé búið um brúarendana á stöplunum, að enginn vatnsagi eða leirrennsli komist þar að endunum á brúartrjánum. Séu brýr smíðaðar úr góðum viðum, þá ættu þær að endast að minnsta kosti í 40-50 ár.
Að tjara ver fúa eða rotnun yfir höfuð að tala, á eiginlega að stafa af "karbólsýru" sem í henni er, og með því að hennar verkun (karbólsýrunnar) er eiginlega sú, að deyða hinar lifandi loftagnir (bakteríur), sem framleiða rotnun (sbr. verkun hennar á mannholdið), þá er ekki ólíklegt, að hún væri góð til blöndunar í lýsi til að bera á tré. Fyrir nokkrum árum síðan auglýsti Thomsen kaupmaður í Reykjavík, að hann hefði í verslun sinni ágætt smyrsli á tré til að verja það fúa, er hann nefndi "karbolineum". Ég hef ekkert heyrt um það síðan, og væri fróðlegt að fá að vita eitthvað meira um það, jafnvel þó engin veruleg reynsla geti verið orðin um það hér á landi enn. Nafnið er fallegt, ef efnið "ber það með rentu".


Austri, 10. feb. 1892, 2. árg., 4. tbl., forsíða:
Greinarhöfundur segir að það muni reynast erfitt að gera veg milli Seyðisfjarðar og Héraðs og því best að gera höfn í Lagarfljótsós.

Sigling í Lagarfljótsós.
Eftir Einar prest Jónsson á Kirkjubæ.
¿¿
Það segir sig sjálft, að ef þetta mikla hérað hefði hentuga höfn við Héraðsflóa með öflugum verslunarstað, þá væri það sjálfkjörið, til að bera ægishjálm yfir öllum Austfirðingafjórðungi. En þetta er því miður ekki svo. Það er eins og kunnugt er, engin hentug höfn til við flóann, þess vegna verða Héraðsbúar að flytja allar þessar vörur, 5.000 hestburði, á hestum yfir fjallgarða þá er liggja beggja megin Héraðsins ofan frá jöklum og út í sjó, til Vopnafjarðar, Seyðisfjarðar, og Eskifjarðar. En eftir því sem sveitum hagar í Héraði, versla Héraðsbúar langmest á Seyðisfirði, og aðeins lítill hluti á Vopnafirði og Eskifirði.
Það verður nú eigi annað sagt, en að Seyðisfjörður liggi fremur vel fyrir verslun Héraðsins í heild sinni, og best allra Austfjarða, ef ekki hindraði fjallgarður sá, er liggur þar á milli. Þó liggur hann ekki nærri eins vel fyrir verslun Héraðsins eins og Héraðsflói sjálfur, ef höfn væri fyrir honum miðjum, því að þó að komin væri jafnslétta milli Héraðsins og Seyðisfjarðar, þá væru þó vötnin Lagarfljót og Jökulsá, til mikillar hindrunar fyrir meiri hluta Héraðsins. En enn þá meiri verða erfiðleikar við að nota Seyðisfjörð fyrir verslunarstað, þegar þess er gætt, að mjög torvelt er að leggja góða vegi yfir fjöllin til Seyðisfjarðar, bæði fyrir Fjarðarheiði og Vestdalsheiði, bæði sökum bratta og einkum þess, að mjög illt er að sniðleggja þar vegi til muna, sökum kletta. Þannig eru 11 brattar brekkur ofan í Vestdalsheiði Seyðisfjarðar megin og sumar þeirra ósneiðandi til nokkurra muna, sökum kletta, nema með ærnum kostnaði. Þess vegna verður varla búist við, að vagnvegir komist á á þeim heiðum á næstu mannsöldrum. Það hindrar enn fremur flutninga um fjallvega þessa, að þeir eru mjög snjósælir, og verða snemma ófærir með hesta á haustum og seint færir á vorum. Þess vegna verða flutningar manna að fara mest fram á þeim tíma, er síst má skerða frá landbúnaðinum. Margir hafa því tekið það óyndisúrræði, að flytja að sér talsvert á útmánuðum, þegar færi kemur á fjöllin og er það þó auðvitað hættulegt og kostnaðarsamt.


Ísafold, 20. febrúar 1892, 19. árg., 15. tbl., bls. 58:
Dr. J. Jónassen tekur undir skrif Jóns Þórarinssonar um nauðsyn samgöngubóta í Fossvogi. Fossvogslækurinn er vondur farartálmi en gilin þrjú í Fossvogi engu betri.

Fossvogslækur og Kópavogsbrú.
Það gladdi mig, og sjálfsagt fleiri, er ég sá að skólastjóri Jón Þórarinsson vakti um daginn athygli hlutaðeigenda á Fossvogslæknum og Kópavogsbrúnni. Ég var búinn að rita grein um sama efni, sem ég ætlaði að biðja yður, herra ritstjóri, fyrir, en sleppi henni nú, en vil þó gjöra ofurlitla athugasemd við grein Jóns. Hann telur Fossvogslækinn verstan farartálma á leiðinni; ég skal fúslega játa, að hann er oft ákaflega vondur yfirferðar og margoft rétt ómögulegt yfir hann að komast, og hefir það komið fyrir mig í lífsnauðsyn, að ég komst eigi leiðar minnar sakir hans. En mér virðist gilin í Fossvogi (þau eru 3) engu betri, ef eigi verri en lækurinn, og ber hin brýnasta nauðsyn til, að vegur sé lagður fyrir ofan gilin, sem virðist hægðarleikur og getur eigi kostað mikið, þar sem hin ágætasti ofaníburður er rétt við hendina. Fyrir skömmu síðan var ég sóttur suður í Hafnarfjörð, og hefði það eigi verið um bjartan dag, hefði ég orðið að snúa heim við svo búið, því í fyrsta gilinu var ég rétt búinn að tapa hestinum því hann fór þar á kaf í krapinu, og þakka ég það eingöngu manni, sem með mér var, að hesturinn náðist upp úr. Sé læknir sóttur á næturþeli til konu í barnsnauð og þurfi þá að flýta sér, en gilin full af snjó og krapi, svo ómögulegt er að komast yfir þau, þá er hörmulegt til þess að vita, að komast eigi áfram leiðar sinnar sakir þessa farartálma. Það er hverju orði sannara, sem Jón segir um Kópavogsbrúna; það má með engu móti dragast, að gjört sé við hana. Eins og margir vita, voru oft og tíðum mestu vandræði að komast yfir Kópavogslækinn og hefir brúin bætt ágætlega úr; en hún hefir frá fyrstu gerð verið of veik, og er nú farin að fúna, svo hætta er að ríða hana, og gæti voðalegt slys orðið, ef hún brotnaði niður og þá væri of seint að kveina.
Umferðin um veg þann, sem hér ræðir um, er mjög mikil, og ég vona að sýslunefndin láti það verða eitt sitt fyrsta verk, að því er vegabætur snertir, að bæta úr þessu, sem minnst hefir verið á, og sem sannarlega er bráð-nauðsynlegt; þótt Eskihlíðarvegurinn, Kópavogshálsinn og vegurinn víðar sé ógreiðfær, þá má þó ávallt komast hann, en hitt er oft ómögulegt að komast yfir, og slíkt er óþolandi.
30/1 "92
Dr. J. Jónassen.


Austri, 29. feb. 1892, 2. árg., 6 tbl., forsíða:
Í þessari athyglisverðu grein um samgöngumál tekur höfundur undir orð prófessors Willard Fiske að Íslendingum ríði meira á að fá bættar samgöngur en að fá sjálfu stjórnarskrármálinu framgengt.

Samgöngur og gufubátsmál Austuramtsins.
Fyrir nokkrum árum skrifaði hinn mikli Íslandsvinur, prófessor Willard Fiske, oss til á þá leið, að honum virtist oss Íslendingum ríða miklu meira á að fá greiða vegi, ár brúaðar og hagkvæmar samgöngur á sjó, heldur en að fá jafnvel sjálfu stjórnarskrármálinu framgengt, því bættar samgöngur á sjó og landi væru vor mestu velferðarmál, og í endurbót á þeim lægi framtíð landsins og framfarir þess.
Þetta er álit hins praktíska ameríkanska vinar vors Íslendinga, og honum munu vera hér um allir þeir samdóma sem sjá, að eigi mega mestu nauðsynjamál landsins bíða eftir því, að við fáum endurbót á stjórnarskránni. Margföld aldareynsla sýnir það, að þær þjóðir eru auðþekktar úr að auði, menntun og allri farsæld, er mestar og besta hafa samgöngur bæði innanlands og við önnur lönd. Svo er um Englendinga, Frakka, Þjóðverja, Skandinava o. fl. - Það var ein af aðalástæðunum til hinna aðdáanlegu framfara Forn-Grikkja, að Grikkland er svo vogskorið, að samgöngurnar á sjó urðu fljótt svo miklar og bein sjávarleið var til annarra landa á þrjá vegu. Aftur hafa hinir sömu að mörgu leyti vel gefnu Kínverjar, einhver elsta menntaþjóð heimsins, staðið að heita má í stað, svo þúsundum ára hefir skipt, af því þeir vilja helst engar samgöngur hafa við aðrar þjóðir. Norðmenn, sem allra þjóða eru oss Íslendingum næstir að frændsemi, voru árið 1814, er þeir skyldu félagsskapinn við Dani, engu betur á veg komnir við samgöngur innanlands og við önnur lönd heldur en vér Íslendingar 1874, er hinn ástsæli konungur vor, Kristian hinn 9., gaf oss þá stjórnarskrá er vér höfum enn þá, og sem engan veginn bannar oss að bæta samgöngur bæði innanlands og við aðrar þjóðir, og leggja til þeirra svo mikið fé, sem fjárhagur landsins frekast leyfir, sem helsta og bráðasta velferðarmáls Íslands.
Fáar eða engar þjóðir hafa á þessari öld tekið meiri framförum í menntun og öllum þjóðþrifum en Norðmenn, og mátti þó heita að flest lægi hjá þeim í kaldakoli 1814 eftir félagsbú þeirra við Dani, og engin þjóð mun hafa á þessu tímabili lagt að sínu leyti meira fé til að efla og hægja allar samgöngur innanlands og utan en þeir, af því þeir með réttu álitu, að þær væru einna helsti hyrningarsteinninn undir framförum landsins. Norðmenn eru ekki einungis allra þjóða náskyldastir oss, en þar er og landslag alllíkt og hér, örðugt yfirferðar, en sjórinn aftur greiðasti, ódýrasti og haldbesti samgönguvegurinn.
Í Noregi stendur líkt og hjá oss með það, að lega landsins á jarðarhnettinum og óblíða náttúrunnar leggur óyfirstíganleg takmörk fyrir landbúnaðinn, en "gullnáma" landsins liggur í sjónum og á honum, og því hafa Norðmenn keppst svo mjög við að bæta allan sjávarútveg sinn og auka skipastólinn, svo hann muni þriðji mestur í heimi hvað seglskip snertir, sem er aðdáanlegt hjá svo fámennri þjóð.
Það er oss sönn ánægja að játa það, að Alþingi vort Íslendinga hefir þegar frá byrjun löggjafartímabils þess séð, hve bráðnauðsynlegt væri að efla samgöngur í landinu og við útlönd, og því hefir það fjárframlag farið stórum vaxandi á hverju þingi, er ætlað hefir verið til þess að bæta samgöngurnar. En aftur er það töluverðum vafa bundið, hvort aðferð Alþingis til að bæta úr samgönguleysinu hefir verið hin heppilegasta.
Þingið hefir ákveðið að leggja skuli póstvegi út frá höfuðstað landsins svo beiða, að aka megi á þeim, og er svo til ætlast, að þeir á endanum akist svo smámsaman út um land allt. En miklum örðugleikum er það bundið að leggja þá svo, að þeir komi að verulegum notum, þar sem þeir þurfa að liggja yfir fjöll og firnindi og svo háar heiðar, að þeir eru mestan hluta árs undir snjó. Er það að minnsta kosti stórt spursmál um hvort eigi hefði verið haganlegra, að láta sér nægja, svona fyrst um sinn, að ryðja vel póstleiðina og setja nauðsynlegustu brýr á árnar, en leggja akvegi eftir hinum byggðu héruðum frá kauptúnum þeirra upp í sveitirnar, þar sem þær óefað hefðu komið að meiri notum en á póstleiðinni. Hvað sérstaklega viðvíkur oss Austfirðingum, þá eru engar líkur til, að þessi fyrirhugaði póstvegur nái til vor á þessari öld, svo langt á hann í land hingað austur frá Reykjavík sunnan og norðan um land, og hefir þó enginn hluti landsins meiri þörf eða augljósari réttarkröfu til vegabóta en Austuramtið, því í samanburði við víðlendi þess, má ekki heita að hér hafi verið tekinn steinn úr götu frá ómunatíð. - Í sambandi við þessar langsóttu vegabótavonir vor Austfirðinga viljum vér leyfa oss að spyrja, á hverju hinn oft á minnsti sýslufundur á Egilsstöðum 8. okt. f. á. byggði hina glæsilegu von sína um mörg þúsund króna vegabótafé úr landssjóði til Fjarðarheiðar á næsta vori, þar eð ekkert er ætlað á fjárlögum til Alþingis til aðgjörða á fjallvegum hér austanlands?
Það virðist því eiga nokkuð langt í land með, að samgönguvegur hér í Austuramtinu taki miklum framförum svo framarlega sem næstu Alþingi halda áfram sömu stefnu í vegagjörð landsins sem hingað til hefir átt sér stað. En því bráðnauðsynlegra er það fyrir amtsbúa að leggja allt kapp á að bæta samgöngur sínar á sjó, og reyna til að verða sem best samtaka í því máli, sem má heita lífsspursmál fyrir þennan hluta landsins.
¿¿¿
Vér tókum það fram í hinu síðasta tbl. Austra, hve langt það mundi að öllum líkindum eiga í land að póstleið og aðrir höfuðvegir mundu verða endurbættir hér austanlands, þegar vegabæturnar eiga að ganga flestar út frá Reykjavík, því þær mega að norðan ekki heita að vera komnar nema að Skjálfandafljóti, og að sunnan að Þjórsá, svo það á æði langt í land; að þær komist hingað austur; en framfarir þessa landsfjórðungs þola ómögulega að bíða eftir því, að Alþingi og landsstjórn líti náðarsamlegast til okkar í þessu efni eftir nokkra tugi ár. Og þá að vegagjörðin komist loks hingað þá er landslag hér víðast svo lagað á Austfjörðum að greiðar samgöngur og góðir vegir komast varla fjarða í milli á landi, fyr en fjárhagur landsins er orðinn allur annar og miklu betri en nú, því Austfirðir eru annar sæbrattasti hluti landsins og hér víða svo torsóttir fjallvegir milli fjarðanna að naumast eru færir með hesta, þó um hásumar sé, en firðirnir sjálfir langir og djúpir og víða góðar hafnir á þeim. Svo náttúran sjálf virðist að benda oss á sjóinn sem hinn hagfelldasta samgönguveg fyrir þennan landsfjórðung. En af hinum dönsku gufuskipum hafa einir tveir til þrír firðir á öllu því mikla og vogskorna svæði frá eystra Horni og alla leið að Tjörnesi, haft nokkurt gagn, og gefur víst öllum að skilja, hversu með öllu ónógt það er fyrir samgöngur, viðskipti og félagslíf allt í þessum landsfjórðungi. Og þó að þessar strandferðir hinna erlendu gufuskipa yrðu miklu betri en þær hafa verið og viðkomustaðirnir margfalt fleiri, sem engin von er um, þá gætu þær ferðir aldrei komið amtsbúum að líkt því þeim notum, sem hæfilega stórt gufuskip er gengi að mestu leyti um firðina í þessu amti. Það eitt gæti bætt verslunina, upphafið einokunina, eflt stórkostlega atvinnuvegina og greitt fyrir öllum viðskiptum manna, langt um betur og hagfeldara, en skip sem á að fara norðanum land til Reykjavíkur og kemur ekki aftur fyr en að mánuði liðnum. Með þvílíku amtsgufuskipi ættu bændur af útkjálkunum og úr hinum afskekktari sveitum hægt með að senda verslunarvöru sína þangað, sem best er gefið fyrir hana og fá þaðan aftur útlenda vöru með betra verði en við nauðungarverslanir þær, er þeir hafa hingað til neyðst til að versla við. Með þessu móti yrðu alveg óþarfar hinar mannfreku kaupstaðarferðir um hásláttinn og besta aflatíma ársins, og er eigi unnt að verðleggja þann mikla hag, er bæði land og sjávarbóndinn mundu hafa af því.
¿


Þjóðólfur, 25. mars 1892, 44. árg., 15. tbl., bls. 59:
Hér er sagt frá skipun landshöfðingja um hvar aðalpóstleiðin skuli liggja um Húnavatnssýslu.

Aðalpóstleið
um Húnavatnssýslu skal framvegis samkvæmt skipun landshöfðingja 3. þ. m. liggja frá Stóru-Giljá um Blönduós og síðan fram Langadal að Bólstaðarhlíð, fram Svartárdal og norður Vatnsskarðsveg að sýslumótum. Hinni snörpu deilu nokkurra sýslubúa um þessa póstleið er því hér með lokið, en illa munu Svíndælingar una þeim úrslitum að vonum, enda þótt þeir fái aukapóstferð að Auðkúlu.


Ísafold, 26. mars 1892, 19. árg., 25. tbl., bls. 99:
Landshöfðingi hefir nú bundið enda á deilur um hvar leggja skuli aðalpóstleiðina í Húnavatnssýslu.

Aðalpóstleið í Húnavatnssýslu.
Sú langvinna og þráteflda þræta er nú á enda kljáð með úrskurði landshöfðingja 3. þ.m., samkvæmt vegalögunum frá 1887, þess efnis, að aðalpóstleið þessi skuli "frá Stóru-Giljá liggja um Blönduós og síðan fram Langadal að Bólstaðarhlíð, fram Svartárdal og norður Vatnsskarðsveg að sýslumótum Húnavatns og Skagafjarðar sýslna".


Austri, 30. mars. 1892, 2. árg., 9. tbl., bls. 34:
Ari Brynjólfsson skrifar hér langa grein um samgöngumálið og bendir m.a. á að vegalögin 1875 og 1887 hafi verið slæm og óhafandi hvað það verðar að allir nýir vegir á aðalpóstleiðum skulu lagðir 6 álna breiðir.

Um samgöngumálið.
Eftir Ara Brynjólfsson á Heyklifi.
I.
Allar þær þjóðir sem lengst eru komnar í frelsi framförum og allri fullkomnun í andlegum og líkamlegum efnum, hafa látið, og láta sig mestu skipa, að efla samgöngur sínar bæði til lands og sjávar, þær leggja á ári hverju stórfé til járnbrautalagninga, sem þandar eru eins og net út yfir löndin, og gufuskipin þjóta um höfin, inn á hverja vík og vog; þær sjá og hafa reynt það, að greiðar og hagkvæmar samgöngur eru eins nauðsynlegar fyrir þjóðfélagið, sem blóðrásin fyrir líkama mannsins, því eins og hann ekki getur þrifist nema blóðrásin sé í lagi, eins getur heldur ekki þjóðlíkaminn þrifist nema samgöngurnar séu greiðar og fjörugar. En hvað sjáum vér Íslendingar í þessu efni? Vér höfum sofið sætt og vært á kodda andvaraleysisins. Það er aðeins fyrir fáum árum, að vér erum farnir að rumskast, og ögn að hugsa um samgöngur vorar, en sú hugsun hefir enn ekki komið að þeim notum, sem krafa tímans og þörf þjóðarinnar heimtar.
Það sætir furðu hve sáralítið hefir verið ritað um þetta mikilvæga málefni, það eina verulega, sem ritað hefir verið um það í dagblöðum, eru hinar ágætu ritgjörðir í "Ísafold" 1890, eftir Jens prest Pálsson; í þeim sýnir hann fram á, að hið eina sem bætt geti úr erfiðum aðdráttum, sé, að lagðar verði akbrautir upp fjölbyggðustu héruð landsins; það er líka vafalaust hið helsta, sem létt getur ofurlítið af oss flutningsfarginu, en þá verður að breyta lögunum um vegi.
Síðan Alþingi fékk löggjafarvaldið, hefir það samið tvenn lög um vegi hér á landi, þau fyrri 1875, hin síðari 1887; eftir þeim skulu allir aðalpóstvegir gjörðir akfærir með 6 álna breiðum vegi; þetta sýnir viðleitni þingsins á að bæta samgöngur vorar, en þessi lög eru óhafandi og þurfa því að breytast til batnaðar. Það hljóta allir að sjá og viðurkenna, að vér erum ekki að svo stöddu því vaxnir að leggja 6 álna breiða akvegi á öllum aðalpóstleiðum, að vér með engu móti getum beðið eftir slíkum vegi, þótt hann kynni einhvern tíma að komast á, sem ég efa stórlega, og loks að vér alls ekki viljum láta þennan aðalpóstveg sitja í fyrirrúmi fyrir öðru lífsnauðsynlegu, slíkt væri til að láta eftirkomendurna hlæja að heimsku vorri. Enda verður því ekki neitað, að það er næsta hlægilegt, ef vér látum leggja hér um 200 mílna langan og 6 álna breiðan akveg, aðeins fyrir póstinn nokkrum sinnum á ári og stöku ferðamenn, en horfum á mikinn part þjóðarinnar flytja alla þungavöru sína sitt hvorumegin hesthryggjar. Hitt virðist liggja nær, að á landssjóðskostnað verði lagðar akbrautir frá kaupstöðum og kauptúnum upp fjölbyggð héruð, slíkt mundi gera ómetanlegt gagn fyrir alda og óborna. Það er vonandi og óskandi að þingið breyti sem fyrst veglögunum í þessa átt, en láti ekki póstveginn gleypa fleiri þúsundir króna á ári hverju, þjóðinni til lítils gagns og sóma.
Auk þeirra 60.000 kr. sem þingið veitti í sumar til að bæta aðalpóstleiðirnar, hefir þessi vegur á næstl. 14 árum upp etið um 250.000 kr., en nál. 300.000 kr. með því sem veitt var til Ölfusárbrúarinnar. Hefði miklu af þessu fé verið varið til að gjöra akvegi upp fjölbyggðustu héruð landsins, mundi nú öðruvísi á að líta; í stað hestanna með kveljandi klyfjar, mætti sjá vagnarunur með hestum fyrir, fulla af fólki og flutningi; þá spöruðust hestar og þá sparaðist tími, sem hvorutveggja eru peningar. Allir vita, hve dýrt er að hafa marga hesta á heyjum og í högum; allir vita, hve erfitt og kveljandi það er fyrir vesalings hestana að bera á fimmta hundrað pund langar leiðir yfir feni og forræði, og allir vita, hve leitt og erfitt það er fyrir mann sjálfan að dragast með marga áburðarhesta oft í misjafnri tíð og færð. En þrátt fyrir alla þá erfiðismuni sem allir aðdrættir hafa í för með sér, og þrátt fyrir það þótt öllum ætti að liggja í augum uppi, að ákvæði vegalaganna 1887 um aðalpóstvegina sé óhafandi, og þrátt fyrir það þó landsmenn stynji undir vegleysis farginu og líti vonaraugum til löggjafarvaldsins, þóknaðist þó þinginu í sumar, að fella frumvarp það um vegi, er séra Jens Pálsson kom fram með, sem í öllum aðalatriðum var mjög heppilegt og sem hafði þann aðalkost, að eftir því áttu akbrautir að leggjast upp fjölbyggð héruð, í stað þess sem aðalpóstleiðin liggur víðast þvert yfir þau, fáum að liði. Í stað þess að samþykkja nefnt frumvarp, veitti þingið á næsta fjárhagstímabili 60.000 kr. til að halda fram vegagjörð á 6 álna breiða póstveginum. Þetta er svo mikið fé, að nægja mundi til að kaupa lítið gufuskip fyrir, landsmönnum til meiri hagnaðar en 6 álna breiður póstvegur; má vera að einhverju af þessu fé verði varið til brúagerða yfir stór ár, en sé það ekki, þá eru þetta of þungar útgjaldatölur. Aðalpóstleiðirnar ættu aðeins að riðjast, svo vel yrðu hestfærar. Meira megum vér ekki hugsa að svo stöddu, en leggja alla áhersluna á áðurnefndar flutningsbrautir, líka nauðsynlegt að gjöra fjölfarna fjallvegi hestfæra enda þótt ekki sé póstleið.
Það þarf að leggja meiri áherslu en hingað til hefur verið, á að bæta hreppavegina, það er hörmung að komast ekki til kirkju eða bæja í milli, nema með því að láta hestana vaða milli hnés og kviðar, feni og forræði, eða láta þá klöngrast yfir stórgrýtis hraun og steinkatla; sem með þeim vinnukrafti sem nú er lagður í vegi þessa, verða þeir víða aldrei nema ófærir.
Til að bæta úr þessu er naumast annar vegur en sá, að unnið sé heilt dagsverk fyrir hvern verkfæran mann á landinu. Þetta er ekki tilfinnanlegt fyrir þá sem þessu verki eiga að ljúka, og bændum ætti að vera ljúft að eyða einu dagsverki af 365 til að bæta ögn vegina er þeir brúka sjálfir og sem er kveljandi fyrir vesalings hestana þeirra að fara um. Í þeim hreppum sem vegir eru vondir ætti eitthvað af sýslusjóðsgjaldinu að leggjast til hreppaveganna.
Ekki fæ ég séð hvað sýsluvegir hafa að þýða; í stað þeirra ættu fjallvegirnir að vera undir umsjón sýslunefndanna og kostast af sýslusjóðum, líkt og nú er með sýsluvegina. Komist það á, að upp verði teknar að framan áminnstar akbrautir, virðist vegadeilingin nægileg þó sýsluveganafnið hverfi; eins og þegar er sagt, ætti sýsluvegasjóðsgjaldið bæði að ganga til fjallvega og hreppavega; en nóg fyrir landssjóð að taka að sér aðflutningsbrautir og póstveginn, ásamt öllum þeim ám, er brúa þarf.
II.
Það er sorgleg saga en sönn, að ekki erum vér betur komnir með samgöngurnar á sjónum en landi. Þrátt fyrir það þótt vér Íslendingar sjálfir og útlendar þjóðir sjái og viðurkenni, að sjórinn í kringum Ísland er sú aðal samgöngu- og flutningsbraut, sem vér ættum að nota, og þrátt fyrir það, þó vér á ári hverju horfum á gufuskip erlendra þjóða, þjóta fram og aftur kringum strendur landsins, og þræða hverja vík og vog eftir sem þurfa þykir, þá hefir þó löggjafar og fjárveitingarvaldið sáralítið gjört til að bæta úr samgönguleysinu á sjónum. Aðeins með þessum ónógu og óvinsælu strandferðum dönsku gufuskipanna; ekki að tala um því hafi komið til hugar, eða nokkur hafi opinberlega vogað að hreyfa því, að landssjóður eignaðist eitt einasta gufuskip, rétt eins og sú uppástunga væri "óalandi, óferjandi öllum bjargráðum." Það hefir verið og er mín lifandi sannfæring, að hið rétta sem Alþingi hefði gjört strax þá það fékk fjárforræðið, það var að kaupa eitt eða tvö gufuskip, bæði til strandferða og til að fara landa á milli. Hefði þetta verið gjört fyrir 24 árum síðan, mundi landssjóður nú vera búinn að græða eins mikið á skipum sínum, sem hann á sama tíma hefir tapað á strandferðunum, auk þess sem landsmenn hefðu þá fengið greiðari og hagkvæmari strandferðir en verið hafa hingað til.
Á næstliðnum 14 árum er þingið búið að kasta út fyrir strandferðir dönsku gufuskipanna 228.000 kr. og auk þess með fjáraukalögum - ef mig minnir rétt - rúmum 20.000 kr. Fyrir þetta fé hefði mátt kaupa tvö stór gufuskip, sem vafalaust hefði verið búmannlegra, en láta peningahít danskra gufuskipafélagsins gleypa þetta fé; það var viðkunnanlegra að vita þessa peninga í gufuskipum er landið hefði átt, og sjá þau skrautbúin skríða með landi fram. Það er ekki gott að geta sér til, hvað því hefir valdið, að þingið hefir aldrei hreyft því að kaupa gufuskip; fátækt landssjóðs verður ekki um kennt, og þörfina á að fá greiðar og hagkvæmar strandferðir þekkja allir; að slíkt fyrirtæki ekki borgi sig, hefir ef til vill verið sú grýla er þingið hefir óttast, en það mundi naumast verða tilfellið, því ef skipin væru tvö og færu á víxl til útlanda mundu þau fá nóg að flytja, sem er aðalskilyrði fyrir, að slík fyrirtæki borgi sig. Ég get með engu móti fellt mig við þá kenningu er sumir halda fram, að gufuskip ekki geti eins borgað tilkostnaðinn við Ísland sem önnur lönd, og að dönsku strandferðaskipin hafi tapað á ferðum sínum hér við land, en gufuskipafélagið hafi af einberum mannkærleika við Íslendinga haldið hér uppi strandferðum. Sama má segja um norska og enska dampa, sem hér eru stöðugt á ferð, þeir mundu ekki halda þeim ferðum fram ef það væri einbert tap.
Setjum svo, að landsjóður keypti 2 gufuskip á svipaðri stærð sem "Laura" og útgerðarkostnaður beggja á ári yrði 120.000 kr.- meiri er hann naumast - en innvinningur aðeins 90.000 kr.; yrði tapið 30.000 kr., þá er það þó 6.000 kr. minna en það sem þingið veitti í sumar til gufuskipa og gufubátsferða á þessu ári, og jafnt því fé sem það veitti til aðgjörðar á aðalpóstleiðum, svo hér er ekki um neitt óttalegt tap að ræða þó allt færi verr en maður vonar; með því líka það þing sem sér sér fært, að veita fé svo tugum þúsunda skiptir í miður heppilegum smábitlingum, ætti ekki að láta sér í augum vaxa að eignast gufuskip. Vér Íslendingar sem viljum í ýmsum atriðum taka oss snið eftir erlendum þjóðum, sem er ofur eðlilegt, þar þær eru langt á undan oss í öllu, því skyldum vér ekki vilja það í þessu efni, er oss varðar svo miklu.
Ég geng að því sem gefnu, að of umsvifamikið þyki fyrir landsstjórnina, að annast gufuskipaúthald og hún sé ekki inn í því sem þyrfti, en þá er henni eða þinginu innan handar, að fá einhvern sem slíku er vaxinn í félag, t. d. Zölner, O. Wathne eða íslenskt gufuskipafélag er ég tel víst að myndast mundi ef von væri á töluverðu fé í því augnamiði. Orsökin, að slík félög ekki komast á fót, er bæði peningaleysi, og þröngsýni þeirra manna að kenna sem kraftinn hafa.
III.
Eins og því verður ekki neitað að Alþingi hefir að undanförnu sáralítið gjört til að bæta samgöngur með ströndum landsins, eins verður því og ekki neitað að það hefir í sumar er leið, látið sér einkar annt um að bæta úr þessari miklu þörf þjóðarinnar, en hér fór sem oft vill verða, að "sínum augum lítur hver á silfrið", þingmenn gátu hér ekki orðið á eitt sáttir, og varð því ályktun þingsins í þá átt ekki svo heppileg sem skyldi; að vísu veitti það í þetta sinn á fjárhagstímabilinu 1892 og 93 til gufuskipa og gufubátaferða 72.000 kr.; þetta er töluvert fé, svo ætla mætti, vér fengjum nú góðar og hagkvæmar strandferðir, enda er áætlun sú sem þingið samdi stór endurbót frá því er verið hefir; en "sá galli er á gjöf Njarðar" að enginn treystist að taka ferðirnar að sér, sem líklega kemur meir til af því, að sumir þeir staðir sem nefndir eru í áætlun þingsins þykja óviðfeldnir viðkomustaðir, en hinn, að féð sem til ferðanna er veitt sé of lítið. Hefði landið sjálft átt gufuskip, þá var fyrst vissa fengin fyrir því, að fjárveitingin yrði að til ætluðum notum og áætlun þingsins fylgt. Enn sem fyrr staðfestir reynslan þann sannleik, að svo lengi sem vér ekki höfum ráð á gufuskipum, svo lengi verðum vér að sætta oss við óhagkvæmar og ónógar strandferðir. Á hinn bóginn virðist það mjög óheppilega ráðið af þinginu að hafna tilboði O. Wathne, því ferðir hans mundu hafa orðið landsmönnum einkar hagkvæmar, og af þeirri einföldu ástæðu þeim 10.000 kr. sem hann óskaði sér veittar, vel farið.
Fjárveiting þingsins til gufubátaferða, mætir misjöfnum dómum eins og flest sem gjört er. Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að jafn litlir bátar, sem hér er um að ræða, gjöri lítið gagn og svari ekki kostnaði. Ég skal ekki neita því, að stórir bátar á stærra svæði borgi sig betur, en þegar þess er gætt, á hve marga viðkomustaði strandferðaskipin eiga að koma eftir áætlun þingsins, þá fæ ég ekki séð hvað stórir gufubátar hafa að þýða, þar allt hið verulega mátti fá flutt með strandferðaskipunum. Þingið hefir að mínu áliti gjört sitt besta til í þessu efni, aðeins ætlast til að bátarnir væru látnir skríða með landi fram fjarða á milli, með beitu o. s. frv. sem gæti orðið einkar hagkvæmt og þægilegt fyrir alla þá er búa með ströndum fram og fleiri. Það er vonandi að sýslunefndirnar, sem eiga að sjá um, að bátarnir fáist, láti hvorki eigingirni né annað verra drepa þennan litla framfara neista, sem með tíð og tíma - ef vel er áhaldið - gæti orðið að fögru frelsisljósi fyrir framtíðina.

Ísafold, 9. apríl 1892, 19. árg., 29. tbl., forsíða:
Hér birtist grein eftir “tvo vegagjörðarmenn” sem hafa verið við vegagerð í nokkur ár, síðan vegagerðaraðferðir Norðmanna voru innleiddar, og eru þeir ekki alveg sáttir við þær aðferðir.

Hin nýja vegagjörð.
Eftir tvo vegagjörðarmenn.
Það er eflaust mjög langt síðan, að menn fóru að kvarta yfir því, hve samgöngum vorum væri ábótavant, hve erfitt væri um samfundi á ýmsum tímum árs, og þá eigi síður um nauðsynlega aðdrætti, og yfir höfuð, hve örðugt væri, að reka erindi sín við landsbúa í fjarliggjandi héruðum, einkum að vetrinum til. En það er eigi mjög langt síðan, að menn fóru að smíða lykilinn að samgöngunum, nefnil. vegi og brýr, og það lítur jafnvel út fyrir að menn hafi eigi skoðað greiðar og góðar samgöngur mjög svo þýðingarmiklar fyrir þjóðmegun vora, allt til nálægs tíma. Það mun eigi vera meira en svo sem 15-20 ár, síðan verulega sterkur áhugi vaknaði hjá oss á þessu þýðingarmikla velferðarmáli, og eigi getur heitið, að nein viðleitni í þá átt hafi komið að verulegum notum, fyr en Norðmenn fóru að stjórna hér vegagjörð, og kenna eða sýna landsbúum hvernig vegir ættu að vera.
Þessi nýja vegagerðaraðferð Norðmanna var að vísu mjög mikil umbót á vegargjörðar-káki því, sem þangað til hafði verið notað hér á landi; en, sem við var að búast, var þar með eigi ráðin bót á vanþekkingu vorri, eins og hinn svo nefndi Svínahraunsvegur, eða vegurinn frá Reykjavík upp að Svínahrauni, hefir sýnt, sem þó var að mestu leyti gjörður eingöngu undir umsjón Norðmanna. Það var og naumast við að búast, að Norðmenn, menn úr öðru landi, alveg ókunnugir hér, gætu gjört svo vegi hér, að þeim væri fullkomlega óhætt fyrir öllum áhrifum náttúrunnar, einkum vetur og vor, þegar vegunum einmitt er mest hætta búin.
Við höfum verið við vegagjörð hér á landi í nokkur ár, síðan vegagjörðaraðferð Norðmanna fór að tíðkast hér, við höfum því haft tækifæri til að kynnast vegum þeim, er þegar hafa verið lagðir hér á suðurlandi, bæði jafnóðum og þeir hafa verið lagðir, og einnig eftir það.
Reynslan hefir nú þegar sýnt, að vegir þeir, er hingað til hafa verið lagðir, eru hvergi nærri eins traustir og þeir þyrftu og ættu að vera. Auðvitað yrðu vegirnir dýrari, eftir því sem þeir væru traustari, eða með öðrum orðum; þeir yrðu styttri fyrir sömu fjárupphæð; en sá munur yrði eigi eins mikill, eins og kostnaðaraukinn við að endurbæta vegina, jafnvel á hverju ári, og það stundum máske að stórum mun.
Þetta má að nokkru leyti kenna þjóðinni, er eigi hefir látið óskir sínar í þá átt lúta að öðru en því, að fá vegina sem allra fljótast gjörða; en fjárveitingarvaldið hefir aftur orðið að sporna á móti þessari kröfu þjóðarinnar, með mjög takmörkuðum fjárframlögum. Það er því auðséð, að eigi varð annað gjört til að gjöra að vilja þjóðarinnar, en að gjöra vegina sem allra dýrasta að unnt var.
Það hefir t. d. hingað til verið látið duga, líklega helst kostnaðarins vegna, að gjöra vegarjaðrana eingöngu úr mold og þekja þá svo með torfi; en þannig lagaðir eru þeir miklu ótraustari, heldur en ef þeir væru hlaðnir upp úr sniddu eða steinlagðir, þar sem torf er ekki að fá. Auk þess þyrftu þeir að vera miklu óbrattari en þeir eru vanalega látnir vera. En einkum er það þó ofaníburðurinn, sem þyrfti að vera miklu þykkri en hann hefir verið hafður víðast hvar.
Til þess að trygging fáist fyrir, að vegirnir séu áreiðanlega traustir, þarf sá, sem verkinu stjórnar, að ferðast um og skoða vegarstæðið að vetrinum til, áður en vegurinn á að leggjast, víst einu sinni, ef ekki tvisvar, þegar mest eru snjóa- eða ísalög, og svo að vorinu til, þegar leysingar eru miklar, eins og tíðkast erlendis nálega alstaðar, þar sem vegir eru lagðir. Þá þyrfti sá, er vegagjörðinni ræður, ekki eingöngu að styðjast við sögusögn annarra, sem oft og tíðum reynist mjög misjafnlega áreiðanleg og stundum verri en engin. Veldur því bæði vanþekking manna, og ef til vill stundum líka hlutdrægni; því, sem eðlilegt er, vilja flestir helst, að vegirnir liggi nærri sér, eða sem næst sér, og benda því máske þar á vegarstæðið, sem það er miður vel valið, þrátt fyrir betri vitund; og hlýtur slíkt að hafa mjög óheillríkar afleiðingar í för með sér.
Enn fremur þarf sá, sem veginn hefir gjört, að ganga um hann eða skoða hann iðulega veturinn og vorið eftir að hann er lagður, til þess að aðgæta nákvæmlega, hvort ekki þarf að fjölga þverrennum eða stækka þær, dýpka þær eða gjöra langrennur, grafa fráveituskurði eða annað því um líkt; því þótt vegurinn kunni að standa fyrsta veturinn af, er þar með eigi fengin vissa fyrir, að hann standi af næsta vetur á eftir.
Þó að þetta hafi aukinn kostnað í för með sér, yrði hann þó margfalt minni ein hitt, að gjöra alveg aftur af nýju lengri eða skemmri kafla, sem sópast hefði burt í leysingum og vatnavöxtum, eins og dæmi Svínahraunsvegarins hefir einnig sýnt. Enda myndi þessi siður, sem hér er á bent, eigi vera tíðkaður erlendis, ef hann þætti eigi fullvel tilvinnandi og alveg nauðsynlegur.
En þessu þarf nú eigi að kasta upp á þjóðina; það er landsstjórnarinnar, að sjá um, að fé því, sem þingið veitir til almenningsþarfa, hvort heldur er til vegagjörðar eða annars, sé vel og skynsamlega varið, eða eigi kastað á glæ. Það er hennar, að sjá um viðhald veganna, en það verður aldrei viðunanlega annast, fyr en tekið er upp þetta vetrar-eftirlit, er aðrar þjóðir, með margfalt meiri þekkingu og reynslu í þeim efnum heldur en vér, leggja svo mikla áherslu á og telja allsendis ómissandi.
Það er vonandi, að landshöfðingi vor, sem svo mjög hefir verið hvetjandi og styðjandi að þessu þýðingarmikla og afarnauðsynlega samgöngumáli voru, láti sér nú framvegis um það annt, að mönnum þeim, sem eiga að standa fyrir vegum, gefist kostur á, að kynna sér sem allra best fyrirhuguð vegarstæði veturinn áður en veginn á að leggja, svo að þeir geti vitað svo nákvæmlega sem unnt er, bæði hvernig ís og snjóar liggja þar á vetrum, og hvernig og hve mikið vatn geti komið þar í leysingum á vorin, hvernig það hagi sér o. s. frv.; því "það þarf vel að vanda, sem lengi á að standa". Þar þyrfti og nauðsynlega eftir að fara sams konar eftirlit veturinn eftir að vegurinn er lagður, til þess að geta umbætt í tíma hvað lítið sem þá kynni að sýna sig að umbóta þyrfti við. Að bíða eftir meiri skemmdum verður margfalt kostnaðarsamara.


Ísafold, 16. apríl 1892, 19. árg., 31. tbl., bls. 123:
Áhugi Rangæinga hefur aukist á brúarmálinu við tilkomu Ölfusárbrúar og hvetur bréfritari til þess að drifið verði í að brúa Þjórsá og Hvítá í Borgarfirði og fleiri ár.

Brúa-málið.
(Bréfkafli úr Rangárvallasýslu).
Heldur hefir áhugi manna hér um pláss á brúarmálinu aukist en minnkað við það, að sjá og reyna Ölvesárbrúna, enda er hin mesta nauðsyn á, að kosta alls kapps um, að brúa sem fyrst allar hinar stærri ár á landinu, sem annars er kleyft að brúa; við það sparast beinlínis miklir peningar, fyrir utan allt annað hagræði, þar sem árs árlega er varið ærnu fé í þá vegi, sem liggja annarsstaðar að ánum en á brúarstaðina; það er því mjög áríðandi, að brúa fyrst og fremst allar hinar stærri ár, því þá fyrst verða vegirnir lagðir á rétta staði. Hr. Einar Guðmundsson í Hraunum hefir nú ritað allfróðlega grein um brúargjörðir, og er gleðilegt að heyra slíkar raddir frá landsmönnum viðvíkjandi þessu allsherjarmáli, samgöngumálinu, sem er lífæðin í öllum framförum þjóðarinnar.
Á næsta þingi ætti ekki að láta sér vaxa í augum að leggja fé til brúargjörðar á Þjórsá og Hvítá í Borgarfirði.
Eftir því sem Einar á Hraunum hefir gert áætlun um, er ekki stórt í ráðist að brúa Hvítá, sem væri þó mjög mikils vert fyrir Borgfirðinga og Mýramenn og yfir höfuð fyrir alla þá, sem þá leið fara, sem er almennt fjölfarinn vegur.
Að þessu búnu væri smáræði og auðunnið að brúa það, sem þá er eftir af vatnsföllum á aðalpóstveginum allt frá Markarfljóti (sem ekki verður brúað) til Reykjavíkur, og þaðan aftur upp yfir Hvítá í Borgarfirði, og gætu þá smámsaman orðið vagnvegir á öllu þessu svæði, sem liggur í rétta átt fyrir allar þær sýslur (5 til 6 að tölu), sem þess hefðu not til aðdráttar og annarra ferðalaga.


Austri, 19. apríl 1892, 2. árg., 11. tbl., bls. 42:
Hér segir Austri frá Sýslunefndarfundi Suður-Múlasýslu en þar voru ýmis vegamál tekin fyrir.

Sýslunefndarfundur Suður-Múlasýslu.
30. mars 1892.
Ár 1892, miðvikudaginn 30. mars, hélt sýslunefnd Suður-Múlasýslu aðalfund sinn á Búðareyri. Mættir eru allir sýslunefndarmenn nema úr Geithellahreppi og Mjóafjarðarhreppi, sem nú er erlendis.
¿
5. Sýslunefndin framlagði bréf Sigurðar Oddsonar hvar í hann biður um þóknun fyrir mánaðartíma er hann var veikur meðan hann sumarið 1891 var að smíða ferju á Hvammshyl og Egilsstöðum. Með 4 atkv. gegn 1 (einn greiddi ekki atkvæði) ályktaði sýslunefndin að borga ekkert í þessu skyni.
6. Sýslunefndin fól Nikulási í Arnkellsgerði að láta byggja hæfilega ferju í Vallanesi og var áætlað til hennar 200 kr. af sýslusjóði.
7. Sýslunefndarmaður Eiðahrepps bar upp uppástungu um lögferju á Fljótsbakka gagnvart Rangá á sýsluveginum um Eiðahrepp til Seyðisfjarðar og var ákveðið að fresta ákvörðun hér um þar til ákveðið er að lögferja komi að Rangá.
8. Sýslunefndin yfirfór reikninga yfir póstvega aðgjörð 1891.
9. Reikningur yfir aðgjörð á sýsluvegum 1891 var framlagður endurskoðaður, og fannst ekki ástæða til athugasemda við hann, þegar fullnægt er athugasemdum endurskoðanda. Sýslunefndin vill eigi borga út veginn yfir Reindalsheiði fyr er búið er aðgjöra veginn, sem var lagður í fyrra 5 álna breiðan þar sem það er unnt. Endurskoðandi kosinn þetta ár læknir Zeuthen.
10. Aukavega reikningar 1890 voru framlagðir endurskoðaðir af H. J. Beck. Athugasemdirnar sendist hreppsnefndum til andsvars. Til endurskoðunar á aukavegum 1891, sem ekki eru allir innkomnir var endurkosinn H. Beck.
¿
17. Sýsluvegagjaldið 1892 er: í sjóði kr. 182 17
Ársgjald til sýsluvegasjóðs 1892 um kr. 620 00
Kr. 802 17
Áætlaðar vegabætur 1892:
Reindalsheiði 1891 (í skuld) ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿... kr. 81 90
Breikkun þess vegar 1892 ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ kr. 50 00
Aðgjörð á Hólmaströnd ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿ kr. 100 00
Aðgjörð á Hólmahálsi og milli Hólma og Sómastaða ¿.. kr. 100 00
Um Eiðahrepp ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿... kr. 120 00
Hallormstaðaháls og Ásar ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 120 00
Oddsskarð ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿. kr. 120 00
Þórudalur ¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿¿.. kr. 100 00
kr. 791 90
Um aðgjörðina á Reindalsheiði er Jón Finnbogason beðinn að annast; á Hólmahálsi og Hólmaströnd Páll Eyjólfsson á Stuðlum, um Eiðahrepp Jónas Eiríksson; á Hallormstaðahálsi og Ásum Sigurður Einarsson á Hafursá; um Oddskarð Sveinn Sigfússon; Þórudal Jón Ísleifsson.

18. Póstvegagjaldið 1892 er:
Í sjóði ¿¿. kr. 349 00
Árgjald ¿... kr. 620 00
kr. 969 00

Sýslunefndin stingur upp á þessir áætlun:

Vegurinn á Hálsströnd (í skuld) kr. 492
Flyt kr. 492

Fluttar kr. 492
Breikkun þess vegar ¿¿¿¿ kr. 200
Um Vallahrepp ¿¿¿¿¿¿ kr. 277
kr. 969

Sýslunefndin skorar á landsstjórnina að útvega úr landssjóði 1.000 kr. til framhalds póstveginum um Velli og bæta veginn, sem hefir skemmst mikið meðfram Skriðuvatni.


Ísafold, 27. apríl 1892, 19. árg., 34. tbl., forsíða:
Vegna Skeiðarárhlaups þykir ljóst að Skeiðarársandur verði ófær yfirferðar allt sumarið og allar samgöngur leggist niður milli Austur- og Vestur-Skaftafellsýslu. Ísafold birtir hér bréf frá Guðlaugi Guðmundssyni sýslumanni um þetta vandamál.

Skeiðarársandur ófær.
Það þykir nú varla efunarmál framar, að Skeiðarársandur verði allsendis ófær yfirferðar í allt sumar, þannig, að samgöngur allar hljóti að leggjast niður, milli Austur-Skaftafellssýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Austanpóstur héðan mun því verða að enda göngu sína hérna megin við sandinn, en Austur-Skaftfellingar að fá póst til sín hina leiðina, úr Múlasýslunum. Sömuleiðis litlar líkur til, að sýslumanni Skaftfellinga, sem situr á Síðunni, verði unnt að þjóna austursýslunni sumarlangt, og verði því að skipa annan mann til að vera þar.
Að öðru leyti skal vísað í eftirfarandi mikið fróðlega bréfkafla frá sýslumanninum í Skaftafellssýslu, herra Guðl. Guðmundssyni, til suður-amtsins, góðfúslega lánaða blaðinu til birtingar. Er fyrra bréfið dagsett 28. mars, en hið síðara 4. apríl (í Öræfunum):
"Eins og kunnugt mun af blaðafregnum, kom hlaup úr Skeiðarárjökli dagana 12. - 15. þ. m. og bárust eða runnu fram nokkrar jökulhrannir á sandinum austanverðum alla leið til sjávar, þannig, að þær mynda eins og há hamrabelti, allbreið og full af gjám og sprungum, er sumar eru fullar með ísmulning, er hrynur undan, ef á er stigið. Á beltum þessum eru engin auð hlið, er komist verður um, nema hvað jökulbrotin standa nokkuð strjálli fast uppi undir jöklinum sjálfum, og má þar rekja sig milli jakanna gegn um beltin öll nema eitt, en yfir það hefir verið höggvin braut og farið þar með hesta; lengra frá jöklinum, úti á sandinum, þar sem áður hefir verið farið, er ófært gangandi mönnum, hvað þá með hesta. Það er álit kunnugra, skilríkra manna, og ég get eigi annað en álitið það rétt, að þegar hitnar í veðri og jökulhrannirnar fara að þiðna á sandinum, jakarnir að sökkva niður í sandinn og þiðna niðri í honum, þá myndist þar á þessu svæði þær hyldýpisbleytur og sandhvörf, er engri lifandi skepnu verði fært yfir, nema fugli fljúgandi. Jafnvel nú, þó að frost sé á jörðu og sólbráð ekkert um daga, telja þeir, er farið hafa um sandinn, og það menn, sem ég þekki að því að vera bæði einbeittir og hugdjarfir ferðamenn, þessa leið hinn mesta glæfraveg, bæði fyrir menn og skepnur.
En þó að gjöra mætti nú ráð fyrir, að mögulegt væri að komast þennan veg fyrir sandbleytum og jökulhrönnum, sem þó eru varla líkur til nú, þá er það annað, er gjöra hlýtur leið þessa ófæra, þegar hiti kemur og vaxa fer í jökulvötnunum; það er Skeiðarár. Á undan hlaupinu kom hún undan skriðjöklinum austast og efst og rann fram vestan undir Skaftafelli og lítið eitt vestur með jöklinum að austanverðu og féll svo og fram sandinn í mörgum breiðum farvegum, er allir lágu á flatneskju, og breiddist áin þar út, svo að hún varð svo að segja aldrei ófær, að eins farvegirnir, "álarnir", fleiri og breiðari, því meir sem vatn óx í henni. Í hlaupinu hefir áin nú flutt upptök sín og kemur nú undan jöklinum nokkru vestar, hér um bil 1 mílu á að geta, og fellur þar beint fram á sandinn; er þar að vestanverðu við hana há sandalda, en að austan jökulhrönn, og fellur hún í einum fremur þröngum farveg þar á milli. Það eru að kunnugra mati áliti engar líkur til, að hún geti rutt sér þar breiðari veg fyrst um sinn, og verður því, þegar vatn vex í henni, al-ófær, en hvergi mögulegt að komast að henni framar á sandinum; þegar hún því er orðin svo vatnsmikil, að eigi er fært yfir hana undir jöklinum, rétt við uppgönguna, þá er algjör frágagnssök, hreinn ómögulegleiki, að komast þennan veg yfir sandinn. Það er því aðeins hugsanlegt, að þessi vegur verður fær í sumar, að Skeiðará flytji sig aftur í hina eystri farvegi; en þó að það vitanlega geti komið fyrir. Þá er mjög valt að byggja á því, að svo verði, enda verður vegurinn samt sem áður hættulegur, ef ekki al-ófær, vegna sandhvarfanna og bleytunnar, sem ég áður hefi lýst.
Eins og þetta því nú horfir við, er eigi annað fyrirsjáanlegt, en að umferð um Skeiðarársand verður ómöguleg frá 15. maí eða í öllu falli frá maí-lokum næstkomandi og það sjálfsagt til septemberloka eða jafnvel lengur. Það er vitanlega eigi allsendis óhugsandi, að einhver ófyrirsjáanleg breyting geti orðið á sandinum, og ef til vill getur það komið fyrir, að einstaka kunnugur maður geti brotist einhverja leið yfir sandinn eða jökulinn. En það eru eigi neinar líkur til þess nú, að vegurinn yfir sandinn geti á þessum tíma orðið svo, að hann geti talist hættulítill og alfaraleið, og kunnugir menn vilja álíta, að hann hljóti að verða opinn voði hverjum ókunnugum, er reyna kynni að fara yfir sandinn, jafnvel þó að hann ef til vill, eigi sé orðinn það nú. Ég þori heldur eigi að fullyrða, að vegurinn verði fær fram í miðjan maímánuð næsta eða til maí-loka, því tilgátur kunnugra manna um það eru á reiki, en það býst enginn við, að hann verði fær eftir þann tíma, og hann verður sjálfsagt ófær mikið fyrr, ef hitar koma eða miklar rigningar".
Hinn 3. þ. m. fór sýslumaður austur yfir sandinn, í embættisnauðynja-erindum, og lýsir ferð sinni þannig daginn eftir í bréfi til amtsins.
"Í framhaldi af bréfi mínu 28. f. m. skal ég nú, eftir að ég hefi skoðað veginn yfir Skeiðarársand, leyfa mér að skýra frá eftirfylgjandi.
Ég get í öllum verulegum atriðum staðfest skýrslu þá, er ég hefi gefið í nefndu bréfi um þennan veg. Eins og nú stendur er vegurinn ekki hættulegur fyrir menn, en nokkuð viðsjáll með hesta. Þeir kaflar á veginum, er verstir verða yfirferðar eru: kaflinn frá Lómanúp og austur fyrir svo nefndar "Sandgígjur" að vestanverðu, og kaflinn frá vestri brún jökulhrannarinnar fyrir vestan Skeiðará og austur undi Skaftafell, og þar gjöra kunnugir menn ráð fyrir, að ófært verði, þegar vaxa fer í Skeiðará, eða nálægt maí-lokum, og jafnvel fyrr, ef hitar verða nokkrir verulegir eða rigningar í vor.
Sandhvörf eru þegar farin að myndast nokkur í Núpsvatna-farveginum, jakarnir farnir að sökkva í sandinn og þiðna, og þar verður eflaust innan skamms mjög viðsjárverður vegur og t. d. alls eigi áhættandi fyrir fáa menn saman að fara þar um.
Menn voru sendir að austan yfir sandinn 2. þ. m., til að flytja mér boð um strand á Sléttaleitisfjöru í Borgarhafnarhreppi, og voru þeir fjórir saman vestur yfir jökulhrannirnar við Skeiðará, og fóru svo tveir þeirra alla leið og komust með illan leik vestur yfir.
Við vorum í gær sjö saman austur yfir Núpsvatna-farveginn, með 10 hesta; við höfðum víða hvar tvo menn gangandi á undan með stengur og þrjá lausa hesta, og þó vildu hér og hvar fara hestar á kaf í brautinni. Þessi kafli mun vera full hálf míla á breidd, og jakarnir standa nokkuð þétt um allt þetta svæði, en eru þar nokkuð minni en austar á sandinum. Þessi kafli held ég þó tæplega að verði ófær með öllu, með ef til vill með þungan flutning, en lausríðandi mönnum held ég varla að hann verði verulegur háski eða faratálmi.
Að austanverðu er vegurinn sem stendur ekki hættulegur, nema hvað vegarspöng sú, er gjörð hefir verið yfir jökulhrönnina, er svikul, og hver sem um veginn fer, verður að hafa með sér verkfæri, til að mylja klakann og fylla með honum sprungurnar, svo að hestarnir verði teymdir yfir, en svo dettur það úr og þiðnar jafnóðum. Spöngin er ekki nema 30-40 faðmar á breidd, en jökulhrönn er beggja vegna við hana, því að þar standi jakarnir nokkuð strjálla, svo að mögulegt sé að rekja sig að spönginni báðu megin. Hér er mjög hætt við, að ófært verði með hesta, þegar þiðna fer. Hrannarbeltið mun vera nálægt mílu á breidd og nær alla leið til sjávar.
Um það, hvort finna megi sér færan veg yfir skriðjökulinn, er mönnum hér lítið kunnugt; en fremur er það þó skoðun manna, að hann muni vera fær gangandi mönnum, og það er vafalaust hægt, að fá hér menn til að reyna það; en alfaraleið er óhugsandi að þar geti orðið.
Vitanlega er eigi hægt að fortaka, að á þessum vegi geti einhver sú ófyrirsjáanleg breyting orðið, að sandurinn verður fær í sumar, þó að mér þyki það næsta ótrúlegt; en, eins og ég hefi áður tekið fram, ég álít nær því vafalaust, að hann verður ófær, í öllu falli með nokkurn flutning".


Ísafold, 11. júní 1892, 19. árg., 47. tbl., forsíða:
Séra Ólafur Ólafsson á Guttormshaga vill brúa Þjórsá og telur það bæði hagkvæmt og vel gerlegt. T.d. væri hægt að gera brú á Þjórsá á hverju ári fyrir það fé sem fer til eftirlauna, mest til þeirra manna sem þjónað hafa góðum og feitum embættum og lifað hvern dag í dýrlegum fagnaði.

Brúargjörð á Þjórsá.
Eftir síra Ólaf Ólafsson á Guttormshaga.
Það er nú liðið misseri síðan brúin kom á Ölfusá; fjöldi manna er búinn að fara hana bæði með hross og fé, og allir ljúka upp sama munni, að því fé, sé vel varið, og að hagsmunir þeir, sem hún veitir, verði tæplega metnir til peninga.
En það er samt enn þá ekki nema "hálfsótt haf", meðan engin brú er á Þjórsá..
Ég ætla ekki að fara út í það mál nú, að fyrst hefði átt að brúa Þjórsá, það þýðir ekki að sakast um orðinn hlut; en þeir, sem kunnugir eru og líta vilja réttum augum á það mál, vita, að það er satt.
En því síður ættum vér að mæta mótspyrnu, er vér berum fram þá nauðsynlegu, eðlilegu og sjálfsögðu beiðni, að nú sé sem fyrst, sem allra fyrst unnið að því, að brúa þessa á.
Á síðastliðnu sumri lét landshöfðingi eftir þingsályktun ,sem samþykkt var í báðum deildum, gjöra hinn fyrsta nauðsynlega undirbúning, rannsaka og ákveða með vissu brúarstæðið og gjöra áætlun um kostnaðinn. Er kostnaðurinn að sögn áætlaður 45.000 kr.; en sjálfsagt má búast við, að hann fari eitthvað fram úr þeirri upphæð, einkum fyrir þá sök, að flutningurinn verður örðugur, bæði lengri og örðugri en að Ölfusá; en allar eru samt líkur til, að kostnaðurinn verði mun minni en við Ölfusárbrúna.
Líti maður á þetta brúarmál frá hinni almennu hlið þess, þá höfum vér 2 sterkar ástæður til þess að byggja á beiðni vora og kröfu um brúna.
Í fyrsta lagi lögin nr. 25 frá 10. nóv.br. 1887, II. kafla 5. gr., þar sem segir um póstvegi: "Skal það vera aðalregla, að fyrst séu bættar þær torfærur, sem gjöra mestan farartálma"; og VI. kafli, 22. gr.: "Brýr skal gjöra yfir ár og læki, þar sem þörf er á, þegar efni og kringumstæður leyfa".
Og í öðru lagi sanngirni og réttlæti, að vér, sem eigum að sækja alla aðdrætti yfir þetta voða-vatnsfall, en höfum ekkert beinlínis gagn af strandferðunum, séum ekki bræðrum vorum gjörðir að olnboga-börnum, og látnir um aldur og ævi gjalda þess, sem oss er ósjálfrátt, að hafnaleysi er fyrir öllum ströndum hjá oss.
Vér berum að réttri tiltölu við alla aðra landsmenn kostnað þann, sem af strandferðunum leiðir; höfum gjört það og munum gjöra það eftirtölu- og umtölulaust, enda þótt vér sjálfir höfum ekkert gagn af þeim, af því vér vitum og játum, að það er nauðsynlegt bræðrum vorum í öðrum sýslum og landsfjórðungum til hagsmuna; en þess væntum vér aftur á móti, að þeir, sem þessara hagsmuna njóta, líti með sanngirni á hag vorn og telji ekki eftir, þótt bætt sé úr hinni sárustu þörf vorri.
Setji menn sig í spor vor og sæti vort.
Hvað mundu Reykvíkingar segja, hvað Vestfirðingar, hvað Norðlendingar, hvað Austfirðingar, ef svo væri skipt um hag þeirra, að þeir, hverjir í sínu lagi, sæju gufuskipin sigla svo og svo oft á ári hverju með ströndum fram hjá sér, án þess nokkru sinni að leggja að landi? Mundi þeim þykja stór höpp að hendi borin, þótt þeir sæju reykinn úr þeim í hverjum mánuði, eða sæju í blöðunum talað um og sagt frá gufuskipakomum á þennan og þennan stað, sagt frá komum skipa, sem færðu flestum landsbúa nema þeim einhver gæði, sem léttu samgöngur og greiddu á ýmsan hátt úr mörgum vandkvæðum -; en þeir sjálfir hefðu ekkert af þessu að segja, nema að fá að borga að tiltölu við aðra kostnaðinn við þetta? Ef þeir svo enn fremur kæmust á engan verslunarstað, gætu ekkert að sér dregið af matbjörg og nauðsynjum, nema yfir versta sundvatn á landinu, sem nærfellt árlega drepur einhverja skepnu, spillir heilsu manna, heftir ferðir, skemmir farangur o. s. frv., hvað mundu þeir þá segja, sem við ekkert af þessu hafa að stríða? Menn í þessum héruðum, er ég áður nefndi, eru það glöggskyggnir á hag sinn og héraða sinna, að þeim mundi finnast þeir vera settir hjá, sem von væri, ef þeir nytu engra hlunninda í notum þess, að strandferðirnar yrðu þeim að engu gagni.
Þetta eru nú kjör vor, sem búum austan Þjórsár.
Nokkuð hefir úr þessu raknað við Ölfusárbrúna; en vér verðum þó alla jafna að fara fyrst yfir Þjórsá, áður en vér komum út að Ölfusá.
Meiri hluti allra Rangvellinga sækir verslun á Eyrarbakka; og nær undantekningarlaust sækja allir þangað eitthvað. Á heimleið fara þeir allir yfir Þjórsá, enginn yfir Ölfusá; sama er að segja um Skaftfellinga, sem eitthvað sækja á Eyrarbakka. Í Árnessýslu geta 8 hreppar komist á Eyrarbakka án þess að fara yfir Ölfusá eða nokkurt sundvatn¸ 2 verða á þeirri leið að fara yfir Hvítá (Ölfusá); en 4 ystu hrepparnir geta komist á 4 verslunarstaði án þess að fara yfir Ölfusá eða nokkurt sundvatn. Rangvellingar komast á engan verslunarstað, nema að fara yfir Þjórsá eða út í Vestmannaeyjar, sem ekki er betra; og hina sömu leið verða þeir að sækja allan sjávarafla sinn, nema það, sem fiskast fyrir "Söndum", sem er oftast lítið og stundum ekkert. En 12 hreppar í Árnessýslu geta sótt allar kaupstaðarvörur og sömuleiðis fiskæti án þess að fara yfir Ölfusá eða nokkurt sundvatn, sem sé 8 hinir eystri á Eyrarbakka, en 4 hinir ystu í Þorlákshöfn eða suður.
Hér við bætist það, að Þjórsá, að vitund allra, sem til þekkja, er iðulega ófær, þegar Ölfusá er fær.
Getur nú nokkrum manni blandast hugur um, að ekki sé síður þörf á að brúa Þjórsá en Ölfusá, eða þá hitt, að vér höfum réttlætis- og sanngirniskröfu til að njóta einhverra hlunninda í stað strandferðanna?
En ekkert getur komið oss eins vel, ekkert er oss eins lífs-nauðsynlegt, sem að fá brú á Þjórsá.
Eins og Þjórsá er oss hinn versti þröskuldur og Þrándur í götu, eins mun brú yfir hana verða oss hin blessunarríkasta lífæð, hið gæfuríkasta framfaraspor, sem greiða mun götu vora til margfaldra framfara.
En hvað kosta nú árlega ferðir Rangvellinga og annarra yfir Þjórsá?
Nærri má fara um það, þótt einhverju kunni að skeika.
Gjörum 600 bændur í Rangárvallasýslu, og að af hverju heimili fari 8 hestar á ári hverju út yfir Þjórsá, sem að áliti skynsamra og kunnugra manna mun nokkuð nærri sanni; af sumum heimilum fara vitanlega færri, en af mörgum, flestum fleiri. Það verða 4800 hestar; 25 aurar fyrir hvern hest, verða 1.200 krónur.
Gjörum enn fremur ráð fyrir, að 100 bændur úr Skaftafellssýslum með 4 hesta hver fari út yfir Þjórsá, sem er of lítið, eftir því, sem verið hefir, þá verða það 400 hestar og ferjutollar 100 krónur. Alls verða þetta 1.300 krónur.
Þar að auki má gjöra ráð fyrir, að lausríðandi menn, sem úr ýmsum áttum fara ýmist austur yfir eða út yfir, gjaldi í ferjutolla 100 krónur.
Enn eru ótaldir ferjutollar fyrir sauðfé, sem í sumum árum hefir þúsundum saman verið flutt yfir ána; hefir það gjald stundum, eftir því sem næst hefir orðið komist, numið frá 100-200 kr., en auðvitað oft minna.
Má þannig ætla á, að í ferjutolla yfir þessa á fari árlega 1.400-1.500 kr. að minnsta kosti, og í sumum ám talsvert meira.
Hér er nú ótalið það atriðið, sem ekki ætti að hafa hvað minnsta þýðingu hjá siðuðum mönnum, og það er þrælameðferð sú, sem menn verða að sýna hestum sínum á öllum tímum árs, þótt verst sé á haustin, veturna og vorin; er það stundum hryllilegt, að verða að vera sjónarvottur að því. Þannig hef ég einu sinni á sumardag eftir Jónsmessu ásamt fleirum, sem við voru, séð 20 hesta nærri farna í Þjórsá; bjóst hvorki ég né aðrir við, að þeir mundu lifandi upp úr henni koma. Hefði það verið um lok og hestar vorlegir, þá hefði engum þeirra skilað lifandi að landi; fýsir mig ekki að sjá þá sjón aftur. Þessu líku mundu fleiri geta sagt frá.
Ótalið er hér fyrirhöfn sú, vosbúð og hrakningur, sem ferðamenn verða iðulega að sæta við ferjurnar, og stórum hefir spillt heilsu margra manna, sem oft eru í ferðum; ótalin er tímatöf sú, sem alltaf er sjálfsögð, þótt allt gagni vel, hvað þá ef mönnum legast við ána; ótaldar eru skemmdir þær á farangri er hent og þeytt upp í skip af skipi. Að meta allt þetta til peninga er ekki hægt, en það er mikilsvert þrátt fyrir það; þeim ætti að vera kunnugast um það, sem reyna; og það ætti í þessu efni ekki síður vera takandi mark á orðum þeirra, sem oft á ári hverju fara yfir Þjórsá, heldur en orðum og skoðunum þeirra, sem einu sinni eða tvisvar á ævinni eða aldrei hafa yfir hana farið, og það þá um hásumarskeið, er allt er sem best og blíðast.
Einn af hagsmunum þeim, sem brú á Þjórsá mundi skapa, yrði án efa aukin verslunarsamkeppni. Menn mundu ekki lengi hugsa sig um að bregða sér suður til Reykjavíkur með vörur sínar, er ekkert væri sundavatnið á leiðinni lengur og ferðin þar af leiðandi gengi fljótar og greiðar, og reyna að sæta þar betri viðskiptum, ef byðust; og kaupmenn austan fjalls mundu aftur á móti reyna að bjóða mönnum betri kjör, er þeir sæju, að menn færu hópum saman að fara fyrir ofan garð hjá þeim og suður yfir heiði með vörur sínar. Mundi þessi greiða gata án efa mikið hjálpa til að leysa verslunina og viðskiptin manna á milli úr þeim ólags-læðingi, sem hún og þau nú eru í. -
Það er því ekki nema eðlilegt, þótt almenningur hér eystra spyrji með áhyggju: "Hvað líður brúarmálinu; kemur vonum bráðar brú á Þjórsá?"
Ég get ímyndað mér, að einhver þurfi nú að koma með gamla svarið, sem vanalega klingir, þegar eitthvað á að gjöra hjá okkur á Íslandi, sem sé: "Okkur vantar peninga; vér höfum engin tök á að snara út 50.000 krónum til að brúa eina á; og ný-búið að brúa aðra fyrir frekar 60.000 krónur".
Við þessu verð ég hreinlega að svara nei. Í raun og sannleika vantar okkur ekki fé, okkur vatnar annað fremur, og það er skynsamleg meðferð á því fé, sem vér höfum. Vér gætum sem næst gert brú á Þjórsá á hverju ári fyrir það fé, sem árlega fer til eftirlauna. Til þess fara 43.000 krónur árlega, mest til þeirra manna, sem þjónað hafa besta hluta ævinnar góðum og feitum embættum, lifað hvern dag í dýrðlegum fagnaði, að minnsta kosti sumir, án þess að bera nokkra áhyggju fyrir morgundeginum, sem sé ellinni, því að þeir vissu að sama daginn, sem þeir hættu að þjóna embætti á þeirri hátíðlegu viðskilnaðarstund mundu þeir hníga í hinn mjúka líknarfaðm landssjóðsins, sem er hið íslenska Abrahams-skaut öllum þeim, sem borið hafa embættisnafn, hverjir svo sem ávextir verka þeirra eru fyrir fósturjörðina. Já! Landssjóðurinn er nokkurs konar lífsins tré, sem þessir "uppgjafa-domini" endurnæra á lúinn líkama og þreytta sál; og á hverjum degi, sem þeir eta þar af, skulu þeir vissulega ekki deyja; því- sjá! þeir eta mikið og lifa lengi!
Vér snörum líka út frekum 18.000 krónum á ári til vísindalegra fyrirtækja og bókmennta. Fallegt er nafnið; ekki vantar það. En um þetta er það að segja, að sumt af því kemur landinu efalaust að einhverjum notum, og er veitt verðleikalítið, og sumt verður engum að neinu gagni nema þeim, sem fá krónurnar og kaupa sér fyrir þær brauðbita upp í sig.
Ýmisleg önnur meðferð og tilhögun á fé landsins er og mjög andstæð því, sem æskilegt væri.
En meðan þessu er þannig háttað með margt hvað, getum vér ekki sagt, að oss bresti fé, heldur miklu fremur hitt: vit eða vilja til að verja því á réttan hátt; og það er nær að sýna einurð, dug og dáð til að koma meðferð fjárins í rétt horf, en að vola yfir því, að fé sé ekki til.


Austri, 8. júlí 1892, 2. árg., 18. tbl., forsíða:
Á þingmálafundi Múlasýsla var m.a. rætt um samgöngumál.

Þingmálafundur
Múlasýslanna.
Ár 1892, 30. dag júnímán. var haldinn almennur pólitískur fundur að Egilsstöðum á Völlum.
Málin sem rædd voru á fundinum, voru þessi:
¿¿¿
Viðvíkjandi samgöngum á landi var samþykkt svo hljóðandi tillaga:
"Fundurinn vill að vegalögunum sé breytt samkvæmt stefnu þeirri sem kom fram á síðasta þingi, en þó þannig að brúargjörðir á stórám séu látnar sitja fyrir akvegagjörð.


Austri, 20. júlí 1892, 2. árg., 19. tbl., forsíða:
Norður-Þingeyingur skrifar hér langa og athyglisverða grein um vegi og samgöngur. Vill hann gera ýmsar grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi vegagerðar og ala t.d. upp vegfræðinga sem hann segir jafn ómissandi og búfræðinga.

Nokkur orð
um vegi og samgöngur.
Það er eigi tiltökumál þó mikið sé rætt og ritað um vegina og samgöngurnar á Íslandi, því hvað vegina snertir, þá eru þeir víða í því ásigkomulagi, að þeir eru lítt færir fyrir menn og skepnur á þeim tíma árs sem þeir eru bestir, auk heldur þá aðra tíma, svo sem haust og vor. En þar sem vegirnir eru fyrsta og seinasta skilyrðið fyrir greiðum og tíðum samgöngum, má fara nærri um, hversu mikið þeim muni ábótavant, þar sem hvergi eða nálega hvergi á landinu er um aðra vegi að ræða en um hestavegi, og þá svona ófullkomna. Hversu mikið vantar þá til að vér séum búnir að fá akvegi, og hvenær verðum vér búnir að fá þá? Ekki vantar okkur vegalögin. Nei, en okkur vantar fé og vinnukrafta til að leggja viðunanlega vegi. Það mun varla fært að auka skylduvinnu verkfærra manna til vegabótanna, því allflestir hafa ærið nóg með vinnu sína að gjöra á þeim tíma árs sem vegabætur verða unnar, eða svo er það hér norðanlands þar sem ég þekki til. Þeir landshlutar, sem hafa verið svo óheppnir, að náttúran sjálf hefir ekki búið þá út með færum vegum, verða því tilfinnanlega útundan með vegina í hreppunum, og sömuleiðis sér lítinn árangur af sýsluvegagjaldinu, því sýsluvegirnir eru þá tiltölulega eins vondir og hreppavegirnir, enda fylgir það alloftast þeim plássum, þar sem grýttur og blautur jarðvegur er, að þar er byggðin strjál og hrepparnir því stórir, svo það þyrfti mikið fé til að gjöra vegi um þá. Já! mikið meira fé en þeir geta í té látið eða unnist getur fyrir skyldugjald það sem nú er. En talsvert mætti bæta vegina fyrir þá peninga sem núna ganga eða eiga að ganga úr vasa bænda til vegabóta, ef þeim væri vel og hyggilega varið, og vegabótunum haldið fram með meiri hagsýni, kunnáttu og dugnaði en nú á sér stað. Það vantar flest skilyrði fyrir því að vegabæturnar getið roðið að verulegu liði, eða komið að tilætluðum notum með því að hver hreppur káki við þær útaf fyrir sig. Fyrst eru óvíða til menn sem hafa þekkingu á að leggja vegi svo sem best má fara, og verður því það, sem gjört er, hroðvirkniskák, sem orðið er ónýtt eftir fá ár. Í öðru lagi er fé það, sem unnið er fyrir árlega, svo lítið, að eigi er hægt að gjöra nema lítið fyrir það. Þar sem því eru stór vegstykki sem þurfa mikla aðgjörð, yrðu menn í fleiri ár að gjöra við þau, ef það ætti að vera vel og varanlega gjört; hættir mönnum þá við að gjöra litlar og óverulegar umbætur á því bráðófærasta, og er það svo aftur orðið eins bráðófært eða verra en það var áður eftir fá ár. Í þriðja lagi er hreppavegavinnunni vanalega skipt í 2-3 eða 4 staði árlega, svo það eru aðeins örfá dagsverk sem unnin eru á hverjum stað, sem, eins og áður er sagt, koma ekki að notum. Þessi skipting vinnunnar er mjög óheppileg fyrir vegabæturnar, því bæði er erfiðara að fá svo marga nýta verkstjóra, og á vondum vegi sér eigi mun með svo lítilli vinnu. En því eru menn þá að skipta vinnunni? spyrja menn. Svarið er, það er eigi hægt að koma öðru við. All-flestir bændur kjósa heldur að vinna eða láta vinna vegabótavinnuna fyrir heimili sín, en borga hana; en þá er aftur eðlilegt að hver og einn vilji láta vinna sem næst sér, eða svo að hjú hans þurfi eigi að ferðast langt til vinnunnar, því hvernig eða hverjum á að reikna þann tíma sem maðurinn ver til þess að ferðast til vinnunnar? Til þess getur þó gengið heill dagur bara aðra leiðina í sumum hreppum, fyrir þá sem lengst eiga til dráttar ef unnið er á öðrum hreppsenda. Líkt þessu gengur með sýsluvegavinnuna, henni er vanalega skipt í marga staði, oftast eins marga eins og hrepparnir í sýslunni eru, og svo koma fyrir sömu vandræðin með verkstjórana og í hreppunum, og alloftast verða þeir menn verkstjórar, sem ekki eru þeim vanda vaxnir, því þá vantar alla þekkingu á vegalagningu, sem von er, þar þeir aldrei hafa átt kost á að vera með vegfróðum mönnum, og kannske ekki einu sinni séð góða og rétt lagða vegi.
Að það sé farið að vaka fyrir sumum mönnum að vegirnir hér í Norðurþingeyjars. komist seint á, með þessu gamla fylgi, og með sömu aðferð og brúkuð hefir verið við þá hingað til, virðist sú tilraun benda á, að fá aðalpóstleiðinni breytt eins og farið var fram á á sýslufundi Norðurþingeyjarsýslu 1888 og nefndaráliti neðri deildar Alþingis frá síðasta þingi, sem gjört var að þingsályktunartillögu deildarinnar. Breytingar þær á aðalpóstleiðinni sem neðri deild Alþingis hefir gjört frá uppástungu sýslufundarins 1888 álítum vér eigi sem heppilegastar, samanbornar við aðalástæðuna fyrir því að fá póstleiðinni breytt þannig eða frá því sem nú er.
Í ástæðum sýslufundarins 1888 er það tekið fram, að ef aðalpóstleiðin sé lögð, eins og ráðgjört er þar, þá liggi hún að mestu eftir byggðum sveitum, en ekki yfir fjöll og firnindi á bak við alla aðalbyggðina, eins og nú á sér stað. Þetta, að póstleiðin liggi eftir byggðinni, svo að sem flestir héraðsbúar hafi not af póstveginum, er sú eina sanngirnisástæða fyrir því að fá póstleiðinni breytt. En til grundvallar fyrir breytingunni liggur það, að ef aðalpóstleiðin fáist þannig lögð, fái menn áður en langir tímar líða góðan veg eftir sveitum þeim sem póstleiðin liggur um og yfir heiðar þær er liggja milli þeirra, því að þá komi landssjóðurinn til að kosta veginn og að þá verður þó heldur framkvæmd (ólæsilegur texti) verði bættur, heldur en annars, eða eins og nú er. Í nefndaráliti neðri deildar, þingskjal 285, er fyrsta ástæða fyrir breytingunni þannig orðuð: "Pósturinn gengur á þann hátt eftir allfjölbyggðum sveitum, en hingað til hefir pósturinn gengið að sveitabaki yfir Mývatnsöræfi og aðeins komið við á örfáum bæjum." Þarna kemur sama ástæðan fyrir aðalpóstvegarbreytingunni eins og hjá sýslunefndinni; nefnil. að það eru not þau er almenningur hefði af póstveginum sem er eina ástæðan fyrir breytingunni, enda getur ástæðan engin önnur verið, eða er ekki öllum sama hvort þeir fá bréf og sendingar með aukapósti fyrst þeir fá þau og þær eins fljótt og skilvíslega eins og með aðalpósti væri? Það liggur í augum uppi að breyting þessi á aðalpóstleiðinni hlyti að hafa töluverðan kostnaðarauka í för með sér, eins og líka allar beinar sendingar á millum Akureyrar og Austurlandsins yrðu lengur á leiðinni, því talsvert verður hún lengri þessi fyrirhugaða nýja aðalpóstleið. En svo er aftur að vega á móti þann mikla hagnað, sem almenningur mundi hafa af því, ef góður vegur fengist eftir þeirri fyrirhuguðu póstleið, því nú er vegur þessi afar illur yfirferðar. Og blandast mönnum líklega ekki hugur um það, að hagnaðurinn sem menn hefðu af góða veginum mundi verða ofaná; jafnvel þó sá góði vegur hlyti að kosta landssjóðinn mörg þúsund krónur.
Þegar nú að tilgangurinn með þessari breytingu á aðalpóstleiðinni, er enginn annar en sá, að fá góðan landssjóðsveg eftir leið þessari, eins og ég þykist hafa sýnt hér að framan. Þá hefði sjálfsagt verið heppilegast að leggja hann hvað Norðurþingeyjarsýslu snertir eingöngu eftir till. sýslunefndarinnar 1888 sem áður er getið um. Nefnil. að láta aðalpóstinn ganga frá Skinnastað sömu leið og aukapósturinn gengur nú til Raufarhafnar og þaðan í Svalbarð, en ekki eftir uppástungu neðri deildar Alþingis, nfl. frá Skinnastað yfir Axarfjarðarheiði að Svalbarði. Eftir uppástungu sýslunefndarinnar lægi aðalpóstvegurinn þá, að svo miklu leyti að því yrði viðkomið, eftir byggðinni, og hefðu allir þeir sem sækja þurfa til Raufarhafnar bæði úr Axarfirði og Þistilfirði og margir fleiri not af honum, en af Axarfjarðarveginum hafa sárfáir not í samanburði við hina leiðina. Aftur er það vitaskuld, að það lengir póstleiðina um eina dagleið áfram ef hún liggur út á Raufarhöfn, eða pósturinn yrði einum degi lengur að fara alla leið til Vopnafjarðar, ef hann færi Axarfjarðarheiði. En á móti þessu má meta fyrst almenningsgagnið, sem vegurinn til Raufarhafnar gjörir fram yfir hinn, annað sparnað á aukapósti frá Skinnastað til Raufarhafnar, og þriðja, að það mætti til með að byggja sæluhús á Axarfjarðarheiði, ef þar yrði aðalpóstleið. Önnur breyting sem neðri deildar nefndin hefir gjört frá uppástungu sýslunefndarinnar er sú, að aðalpósturinn gangi út í Sauðanes og þaðan að Skeggjastöðum. Sýslunefndin hafði stungið upp á því að aðalpóstleiðin lægi út í Þórshöfn og þaðan yfir Brekkuheiði, og svo náttúrlega eftir ströndinni að Skeggjastað. Eftir þessum vegi fara allir sem sækja austan af Strönd til Þórshafnar, og þar að auki liggur vegur þessi að kalla má beinast við fyrir alla þá sem þurfa að ferðast á milli Þingeyjarsýslu og Norðurmúlasýslu. En aftur á móti er það fyrst og fremst talsverður krókur fyrir póstinn að fara út í Sauðanes, og svo mundu engir nota veginn yfir Sauðaneshálsinn (sem pósturinn yrði náttúrlega að fara austur), nema pósturinn og þeir, sem beinlínis ætluðu í Sauðanes og kæmu að austan. Þessi breyting á póstleiðinni er því hreint óskiljanleg, því hún hefir sér ekki annað til ágætis, en bæði að lengja póstleiðina og búa til dýran veg þar sem sárfáir hafa hans not aðrir en pósturinn. Nær væri að kosta aukapóst frá Þórshöfn út í Sauðanes, eða jafnvel lengra út eftir Langanesi. Það er nú búið að leita álits sýslunefndarinnar í Norðurþingeyjarsýslu um þessa umgetnu þingsályktunartillögu neðri deildar alþingis, og var hún samþykkt af sýslunefndinni án breytinga, ekki af því að sýslunefndin væri allskostar ánægð með breytingar þær er ég hefi getið um hér að framan, að gjörðar hafi verið frá áliti hennar á fundi 1888, heldur af því, að hún mun hafa komist á þá skoðun, að ef hún vildi binda sig við það álit sitt, mundi engin breyting verða gjörð á aðalpóstleiðinni, og vildi hún þá heldur þessa breytingu en að allt sæti við það gamla, því það hefðu óneitanlega margir not af póstveginum svona lögðum, þó það yrðu færri en ef hann hefði verið lagður eftir uppástungu sýslunefndarinnar. Það er annars nokkuð merkilegt að þessi aðalpóstleiðarbreyting skuli þurfa að ganga á undan, til þess að fá viðunanlega vegi eftir byggðum sveitum. Það lítur svo út sem aðalspursmálið sé að fá góða vegi þar sem póstarnir fara um, nefnilega aðalpóstar. Aukapóstar geta brúkað vonda vegi og brotist yfir óbrúaðar ár. Það eru einungis aðalpóstarnir sem eru þessar æðri verur að þeir mega ekki steita fót sinn við steini. Handa þeim þarf landssjóðurinn endilega að kosta einn góðan veg, þó mjög fáir aðrir eigi þar leið um, en hvorki handa alþýðu manna eftir fjölbyggðum sveitum né handa aukapóstum, sem þó stundum hafa meiri flutning meðferðis en aðalpósturinn, eins og neðrideildarnefnd alþingis segir að eigi sér stað með aukapóstinn frá Grenjaðarstað til Vopnafjarðar. Óneitanlega væri heppilegra að landssjóðurinn kostaði góðan veg eftir byggðinni, eða þar sem byggðin væri mest kringum allt landið. Auðvitað getur sá vegur ekki orðið eftir beinum línum, eða sá stysti vegur sem hægt væri að fá fyrir langferðamenn, enda komi hann að bestum notum fyrir almenning með því móti að hann lægi sem mest eftir byggðum héruðum og á sem flest kauptún landsins. Það er mjög lítið bætt úr flutningsþörf þjóðarinnar með sem beinustum og stystum aðalpóstvegum, því það getur aldrei orðið hlutverk landpósta á Íslandi að flytja annað en bréf og smásendingar á milli manna. Og hitt heldur eigi líklegt að almenningur noti þá vegi til vöruflutninga að því er nokkru nemur. Sjórinn hlýtur að vera og verða aðalflutningsbraut Íslendinga, kringum landið á hin ýmsu kauptún þess, eins fyrir innlend vöruskipti og útlenda vöru, en þá ríður landsmönnum á að hafa sem greiðasta vegi að hverju kauptúni og sín á milli í hverju héraði. Á þetta ætti þing og þjóð að leggja meiri áherslu en á aðalpóstveginn. Það þurfa brýr á fleiri ár en þær sem aðalpóstur á leið yfir, og ætti landssjóður að brúa þær eftir því sem hægt er að koma því við án tillits til þess hvort brýrnar eru á aðalpóstleið eða ekki.
Nöfnin fjallvegir, póstvegir, sýsluvegir og hreppavegir ættu öll að renna saman í eitt orð, veg. Veg, sem landssjóður, sýslusjóður og hreppavegasjóður kostuðu allir í sameiningu þannig,; að sýslumenn innheimtu vegabótagjaldið óskipt á manntalsþingum ár hvert, eitt dagsverk fyrir hvern verkfæran mann, og landssjóðurinn leggi svo til jafn mikið fé í hverja sýslu á landinu eins og vegabótagjaldið úr allir sýslunni er mikið. Sýslunefndin ákveður hvar mest nauðsyn er á vegabótunum og sér um framkvæmd á þeim. En til þess að nokkur mynd verði á vegabótunum hjá okkur þurfum við að ala upp vegfræðinga. Vér þurfum fyrst að fá stöðuga vegfræðinga frá útlöndum og svo þurfum vér að senda 2-4 menn úr hverju sýslufélagi til að læra vinnu og vegagjörð af þessum mönnum, til þess að fá vegfróða menn í hvert sýslufélag. Vegfræðingar hjá okkur eru eins ómissandi og búfræðingar. Þegar vér svo værum búnir að fá nóga vegfræðinga í hvert sýslufélag er auðsætt að engum nema vegfróðum mönnum yrði trúað fyrir vegabótunum.
Ég veit, að margt má finna að þessari uppástungu; svo sem að þar sem fólkið er fæst og strjálbyggðast er, en vegir eru oftast verstir þar verði minnst unnið og minnst fé lagt til vegabótanna. En aftur þar sem fjölbyggðast er og vegir eru góðir, enda vegabætur komnar töluvert á veg, þar sé mest lagt til þeirra. En hér vakti fyrir mér jafnréttishugsun, að því leyti, að þeir sem mest leggja til, yrðu líka að bera mest úr býtum. En ef eitthvert byggðarlag kemst svo langt, að það þarf eigi framar að bæta vegi hjá sér, þá ættu þeir hinir sömu að losast við vegabótagjaldið; en landssjóðsgjaldið helst samt við til hinna og borga því allir nokkuð til vegabóta, eins þeir er lausir eru við vegabótagjaldgreiðslu á manntalsþingum, því þeir borga í landssjóðinn eins og aðrir. En það mun seint koma fyrir, því þeir hinir sömu byrja þá á járnbrautum og telefónum þegar annað er eigi hægt að bæta.
Ég fæ eigi betur séð, en það væri heppilegra fyrir þingið að breyta vegalögunum í líka stefnu og hér er gjört ráð fyrir, og að það væri drengilegra að koma með uppástungu í þá átt, heldur en að reyna að teygja aðalpóstleiðina á milli sín eins og hrátt skinn, einungis í þeim tilgangi að fá landssjóðsveg.
Hvað okkur snertir Norðurþingeyinga, þá fengjum vér ekki í neinu tilliti betri póstgöngur, þó aðalpóstleiðin yrði lögð hér eftir sveitunum en vér höfum nú. Enda eru póstgöngur nú orðnar hér svo góðar, hvað landpóstana snertir, að menn munu ekki almennt finna þörf fyrir þær tíðari né betri.
Norðurþingeyingur.


Austri, 17. ágúst 1892, 2. árg., 22. tbl., forsíða:
Hér segir frá aðalfundi amtsráðs Austuramtsins þar sem m.a. var fjallað um ýmis vegamál.

Aðalfundur.
Aðalfundur amtsráðs Austuramtsins var haldinn á Seyðisfirði dagana 3. - 6. júlí þ. á. af amtmanni J. Havsteen og amtsráðsmönnunum Sigurði Einarssyni, séra Einari Jónssyni og Jakob Gunnlögssyni.
Þessi mál voru rædd á fundinum:
14. Framlagt landsh.br. 31. mars þ. á., þar sem hann út af áskorun n. d. alþ. 1891; um breyting á aðalpóstleið í Þingeyjarsýslu og Norðurmúlasýslu (sbr. þingskjal 412) mælist til að fá álit hlutaðeigandi sýslun. og amtsráðs um það, hvort ástæða væri til að gjöra breytingu þá, er áskorunin fer fram á.
Sýslun. í N.þingeyjarsýslu fellst á áskorun n.d. alþ. að öðru leyti en því að hún vill að aðalpóstleiðin liggi frá Skinnastöðum yfir Hólsstíg um Raufarhöfn að Svalbarði og sýslunefndin í N.múlasýslu sömuleiðis, nema hvað hún leggur til að aðalpóstleið verði ekki lögð norður að Sauðanesi, heldur að Ytri-Brekkum eða Þórshöfn og þaðan yfir Brekknaheiði og skyldi pósturinn ekki þurfa að leggja leið sína um Krossavík.
Meiri hluti amtsráðsins lagði það til að það fyrirkomulag á aðalpóstleiðinni milli Akureyrar og Seyðisfjarðar sem nú er héldist, svo og ganga aðalpóstsins milli þessara staða, og ganga aukapóstsins milli Grenjaðarstaðar og Vopnaf. um Raufarhöfn.
Minni hluti amtsráðsins féllst á tillögu sýslun. í N.múlasýslu að öllu leyti.
15. Forseti skýrði frá vegabótum á aðalpóstleið í S.múlasýslu 1891. Einnig gat forseti þess að menn hefðu góðar vonir um að fé yrði veitt á næsta ári til vegarins yfir Fjarðarheiði.
Til vörðuhleðslu á Möðrudalsheiði, sem framkvæma átti í fyrra, en fórst þá fyrir, hafði landshöfðingi eftir tillögum forseta endurveitt 250 kr. og á vörðuhleðslan að fara fram í sumar.
¿¿.
21. Samþykkt var að sýsluvegasjóður N.múlasýslu tæki að sér einn þriðja part af 4.000 kr. láni, sem Seyðisfjarðarhreppur ætlar að taka til þess að brúa Fjarðará.


Austri, 8. nóv 1892, 2. árg., 30. tbl., forsíða:
Hér er sagt frá sýslunefndarfundi Suður-Múlasýslu þar sem m.a. var samþykkt að veita 250 kr. til gufuferju á Lagarfljóti. Þá var einnig rætt um ferjurnar á Hvammi, Vallanesi og á Egilsstöðum.

Útskrift úr gjörðabók sýslunefndar Suðurmúlasýslu.
Árið 1892, föstudaginn 16. sept., hélt sýslunefnd Suðurmúlasýslu fund á Egilsstöðum að Völlum, voru mættir auk sýslumanns allir sýslunefndarmennirnir nema úr Berunes-, Fáskrúðsfjarðar-, og Reyðarfjarðahreppi. Á Vallahreppsmanntalsþingi var kosinn sýslunefndarmaður Guttormur Vigfússon á Strönd og í Norðfjarðarhreppi endurkosinn Sveinn Sigfússon á Nesi.
Sýslumaður tilkynnti þessi bréf amtsins:
Dags. 17. maí 1892 um vegavinnu á aðalpóstleið í sýslunni.
Dags. 20. júlí 1892, um endurskoðun á sýslusjóðsreikningum 1891: Um að leggja 250 kr. til gufuferju á Lagarfljóti, og um að samþykkja niðurjöfnun sem gjörð var vorið 1892 til sýslusjóðs; - Athugasemdir við sýsluvegasjóðsreikning 1891.
12. Var rætt um lögferjuna á Hvammi, Vallanesi og Egilsstöðum, á þessa 3 staði eru nú komnir ferjubátar. Presturinn að Vallanesi, sem staddur var á fundinum, álítur lögferju frá Vallanesi að Ási allsendis óþarfa og óskar að sýslunefndin taki aftur þá ákvörðun sína að hafa lögferju að Vallanesi. Við atkvæðagreiðslu varð sú niðurstaða, að 5 atkv. voru með að lögferjan verði sett að Vallanesi, eitt atkv. var á móti og einn greiddi ekki atkv. - Presturinn neitar að þessi kvöð verði lögð á Vallanesprestinn, þar sem hann sem embættismaður verði varla bundinn við ferjuskyldur, en verði ferjan með skyldu sett á jarðir prestakallsins, þá verði hún sett á kirkjujörðina Strönd, sem liggi fullt eins vel við til að vera ferjustaður móti Ási, en stendur að öðru leyti töluvert nær fljótinu.
Sýslunefndin felur Jóni Bergssyni á Egilsstöðum, síra Magnúsi Blöndal í Vallanesi og Guttormi á Strönd að gjöra uppástungu til ferjulaga fyrir hinar 3 lögferjur, sem ákveðnar eru í Vallahreppi og senda sýslumanni uppástungur svo snemma að þær verði lagðar fyrir næsta sýslunefndarfund. Ferjur þessar eiga með löglegri úttekt að afhendast þeim, sem sýslunefndin í bráðina hefir falið að takast lögferjuna á hendur.
Sýslunefndin ákveður að borga í þetta skipti nauðsynlega aðgjörð á ferjunum á Egilsstöðum og Hvammi.