1892

Ísafold, 3. febrúar 1892, 19. árg., 10. tbl., forsíða:

Nokkur orð enn um brýr.
Eftir Einar B. Guðmundsson.
I.
Þegar ég næstliðið sumar var suður í Borgarfirði að gera brúna á Barnafossi yfir Hvítá, þá heyrði ég svo mikið talað um, hve stutt væri á milli klappa og þægilegt að brúa téða á niður á svo kölluðum Kláffossi, að mig langaði til að sjá það og gerði mér þann krók þangað ofan eftir um leið og ég fór heim. Og með því að ritstjóri "Ísafoldar" lætur blað sitt (94. tbl.) flytja herhvöt um að brúa þar sem allra fyrst og merkur maður borgfirskur, er ásamt fleirum kom með mér að Kláffossi, orðaði það við mig, að ég léti í ljósi álit mitt um brúarstæðið í blaðagrein -, þá finn ég hvöt hjá mér til að skrifa um þetta efni nokkrar línur, ef ritstjóri "Ísaf." vildi ljá þeim rúm í blaði sínu.
Það er reyndar ekki rétt að nefna foss í ánni á þessum stað. Þar hanga klappir út í hana frá báðum hliðum, þráðbeint hver á móti annarri, sem gera dálitla stíflu í ánni, og flýtur þar af, að yfirborð hennar er lítið eitt lægra fyrir neðan, og að hún brýst með töluverðum straumkrafti í gegn um hliðið milli klappanna, en er að öðru leyti engin mishæð á landinu. Ég vissi þá ekki um mælingu hins sænska vegfræðings Siwersons, og gerði tilraun til að mæla á milli klappanna með "snúru", er mér virtist vera nálægt 16 ál., en þar eð talsverður stormur var og enginn maður hinum megin árinnar til að halda í þráðinn á móti mér, þá varð sú mæling ekki nákvæm, og getur máske munað einni alin til eða frá.
Það munu flestir, sem koma að Kláffossi verða hissa yfir því, að ekki er búið að brúa Hvítá á þessum stað, jafnmikið heljarvatnsfall sem hún er og vaðafá, eða jafnvel vaðalaus, að Langholtsvaði undanskildu (það er ekki að telja, þó menn með talsverðri lífshættu hleypi yfir hana í stöku stað, þegar hún er sem minnst), ekki síst þegar maður hugleiðir legu hennar frá fjalli að fjöru milli Suðurlands á aðra hliðina og Norður- og Vesturlands á hina, eins og drepið er á í nefndri "Ísafoldar"-grein, hinar fjölbyggðu og auðugu sveitir, er að henni liggja báðumegin, og ennfremur það, hve sjaldgæft er að leggi á hana fulltraustan ís til yfirferðar á vetrum, eftir því sem mér var skýrt frá. Þar hefir þó náttúran gert svo úr garði, að ekkert er erfiðara að brúa Hvítá en marga smásprænu, sem maður getur kallað svo í samanburði við hana, þegar þess er gætt, að nú geta menn búið til klappir og kletta (sementssteypu), er staðið geta á móti hvers konar afli og áreynslu, er getur að komið og gjöra má ráð fyrir í þess konar sökum.
Mig furðar á því, að hinn sænski vegfræðingur skyldi gera ráð fyrir 27 ál. langri bú yfir Kláffoss, þar sem þó lengdin á milli klappanna mældist honum aðeins 14 al. Mér virtust þó klappirnar eins góðar undir stöpla að framanverðu - eða framarlega -, og það áleit ég, þegar ég var þar, að aðalbrúin þyrfti alls ekki að vera lengri en 22 ál.; en það datt mér í hug, að hagfeldara mundi verða að hafa sporða úr tré frá báðum endum, svo vatnið gæti komist leiðar sinnar þeim megin við stöpulinn, ef yfir færi klappirnar í afskaplegum vatnavöxtum. Klappirnar eru því ver of lágar, eins og hinn sænski vegfræðingur hefur tekið fram, en mjög eru þær fastar í sér og heillegar, og að öðru leyti vel lagaðar undir sementssteypustöpla, lægri að ofan, sem veitir viðspyrnu, með holum og hrufum o. s. frv.
Að mínu áliti væri ekki mál takandi að hlaða stöplana undir brúna, nema þeir væru þá því betur límdir með steinlími. Af því klappagirðingin liggur þvert fyrir í ánni og myndar stíflu í henni, þá verður vatnsþunginn ógurlega mikill í vatnavöxtum, og auk þess má gera ráð fyrir, að þó ána ekki leggi á vetrum þar fyrir ofan, svo að óttast þurfi verulegan ísruðning (graslendið sem liggur fast að ánni báðumegin við Kláffoss sýnir það líka), þá má þó gera ráð fyrir, að ís-spengur myndist við bæði löndin hingað og þangað í frostum, er straumurinn losi og beri niður eftir, þegar veðuráttu og vatnagangi hagar svo, og sem þá hljóta að reka sig á klappagirðinguna. Stöplarnir þurfa því að vera traustir mjög, og finnst mér sjálfsagt að þeir væru hafðir úr steinsteypu, sporöskjulagaðir, eða þó máske enn meira oddmyndaðir að ofan, svo þeir kljúfi betur strauminn og ísfleka, er kynnu að berast á þá. Stærðina áliti ég nægilega, að þeir (stöpl.) væru 5 ál. á lengd og 2 ál. á br., en hæðin mætti alls ekki minni vera en vegfræðingurinn gerir ráð fyrir, því ef íshroði getur á annað borð nokkuð hrönglast þar upp, þá er hæðin undir brúna, sem hann tilnefnir, sú minnsta, sem vera má.
Hvort brú á Kláffossi ætti að vera úr tré eða járni, þá liggur næst að svara því svo, að ef menn hefðu nægilegt fé til alls þess, er gera þyrfti og í allar þarfir að öðru leyti, eða með öðrum orðum, endalaust auðmagn til hvers sem vera skyldi, þá væri líkl. besta ráðið að hafa hana úr járni, þar eð hún yrði þá að líkindum endingarbetri. En eins og á stendur hjá oss hvað féföngin snertir, og hve margar ár þyrfti að brúa, auk annars, þá ætti þessi brú vafalaust að vera úr tré, af því hún yrði margfalt kostnaðarminni en úr járni, því þarna er alls engin þörf á öðru. - Brúin sjálf, úr tré, sams konar og hin á Barnafossi, hér um bil 22. ál. á lengd, eins og ég hef ráðgert hana hér að framan, nægilega traust fyrir hvað þunga lest sem væri, mundi ekki kosta meira enn 1.000 - 1.200 kr. (efni, aðflutningur og smíðalaun), þó aflviðir væru hafðir nokkuð gildari en í brúnni á Barnafossi; en þar eð sporðarnir báðumegin þyrftu nokkuð langir - líklega 8 - 10 ál. hvor, - þá tækju þeir upp nokkurt fé, þó alls ekki mera en 300-400 kr., jafnvel þó höfð væri á þeim yfirbygging með burðarafli af hornsperrum (ekki kálfasperrum), sem ákjósanlegast væri.
Hvað steinsteypu-stöplarnir mundu kosta, læt ég öðrum eftir að gjöra áætlun um, en því fé, sem til þeirra er varið, fær hvorki "mölur né ryð" grandað, ef þeir á annað borð eru nógu traustir, og niðjarnir eiga það óeytt að næstu þúsund árum liðnum. (Ef forfeðurnir hefðu þekkt sementið og steinsteypu þá, sem úr því má gjöra, þá hefðu þeir eflaust haft stöpla úr því undir brú sína, og þá hefði brú á Kláffossi að líkindum verið við lýði enn). En allur sá kostnaður yrði "hverfandi stærð" við það gagn, er brú yfir Hvítá gjörði á þessum stað.
Um landslagið sunnan við ána hjá Kláffossi er mér ekki kunnugt, þar eð ég fór þar ekki um og spurði mig ekkert fyrir um það, en að norðanverðu er mýrlendi alllangan kipp út holtarana þann, sem gengur niður frá Hlíðafjalli, en allt var það rótgott og keldulaust - ágætt yfirferðar þegar ég fór þar um - nema svo sem 60 faðma breið mýri út við holtin, er sjálfsagt þyrfti að brúa þegar, ef vegur væri lagður þar um.
Að öðru leyti ætti það alls ekki að hefta framkvæmd á brúargjörðinni, þó akvegur ekki verði jafnframt lagður að henni. Þess verður langt að bíða, að póstarnir milli Reykjavíkur og Norður- og Vesturlandsins flytji töskurnar sínar á vagni alla leið; það þarf nokkur þúsund kr. að verja í brýr og vegagjörð áður!; og gerir þá lítið til, að þessi vegarkafli bíði eftir því ásamt öðrum. Það er að minnsta kosti næst ánni að sunnanverðu graslendi - máske mýrlent -, svo það yrði áreiðanlega gott að brúnni og frá henni að vetrinum, þegar frostið búar fyrir mann, enda er ekki ólíklegt, að brúarleysið á Hvítá sé tilfinnanlegast um þann tíma ársins. Að öllum líkindum ekur pósturinn fyrst á sleða að vetrinum milli Suðurlands og hinna landsfjórðunganna, áður en hann getur notað hjólvagn alla leið þar á milli, og verða þá ekki mýrarnar út frá Kláffossi óþægri við hann en sumir aðrir kaflar vegarins.
II.
Af því að Hvítá er löng og brúin á Barnafossi svo ofarlega, að hún getur alls ekki komið til skoðunar sem aðalsamgöngubraut yfir ána; af því að áin er mikið og vont vatnsfall, sem vegur svo margra manna þarf að liggja; og af því að hana má brúa á Kláffossi (sem liggur haganlega, líklega hér um bil á miðri leið frá því Geitlandsárnar og Norðlingafljót koma saman) með tiltölulega litlum kostnaði, þá hljóta allir góðir drengir að taka undir með "herhvöt" Ísafoldar, að gera það sem allra fyrst.
Mér finnst fyrir mitt leyti sjálfsagt, að láta hinar stóru og hættulegu ár sitja fyrir hinum, hvar svo sem þær eru, þegar þær verða brúaðar með litlum kostnaði, og það jafnvel þó yfirferðin sé tiltölulega minni yfir þær.
Enginn rígur eða metnaður má komast þar að.
En eins og það er eðlilegt, að þeir sem næst búa hafi mest gagn af brúnum, eins ættu þeir að leggja meira fé til þeirra en aðrir, og ætti það því að verða að fastri reglu, að sveitirnar, sem að liggja, leggi sérstaklega nokkurn skerf til brúnna, og jafnvel þó á póstleið sé. Þá getur landssjóður meiru komið í verk, og þá er síður að gera ráð fyrir, að menn metist um, hvað af ánum, sem að öðru leyti standa jafnt að vígi, skuli brúa fyrst. Það væri í því tilliti vel tilfallið, að hafa nokkurs konar yfirboðsþing og láta þær ár ganga á undan, þar sem sveitirnar vilja leggja mest fé til. Auðvitað yrði þetta hvergi skyldugjald; en ég gjöri ráð fyrir því sem vissu, að menn vilji allsstaðar leggja nokkuð fram af frjálsum vilja, til að fá sem fyrst brýr yfir árnar í grennd við sig.
Óskandi væri, að víða á landinu kæmi fram annað eins fjör til framkvæmdar, samheldni og félagsskapar, eins og hjá íbúunum í Reykholtsdals- og Hálsasveit. Það var drengilega gert af þeim - eitthvað 40 búendum? - að snara fyrst út 3.000 kr. fyrir afréttarland, er þeir keyptu á Arnarvatnsheiði af Stefáni bónda í Kalmannstungu, og svo þegar á eftir að brúa Hvítá til að gera fjárrekstrana auðvelda og hættulausa til og frá. Þetta verk hlaut þó að "vaxa í augum", með fram fyrir hina afar-löngu leið, sem þeir þurftu að flytja stórviði og annað efni til brúarinnar. (Það er munur á, hvað flutningurinn er styttri að Kláffossi, og, eftir því sem mér var sagt, mætti líklega fleyta öllum efniviðnum þangað eftir ánni, er yrði miklum mun óerfiðara og kostnaðarminna). Þriggja manna nefnd (síra Guðmundur prófastur í Reykholti, Þorsteinn bóndi á Hofstöðum og Einar bóndi á Steindórsstöðum) stóðu fyrir framkvæmdunum, og að öðru leyti var þar hver höndin annarri liðsinnandi, að því leyti er með þurfti. Ég gerði það fyrir ítrekuð tilmæli síra Guðmundar í Reykholti - sem ég hafði haft mjög góð kynni af áður -, að fara þangað suður, þó ég væri bæði landslagi og öllu öðru ókunnugur þar, og jafnframt því, að ég ber mikla virðingu fyrir þessum skörungsskap þeirra, þá votta ég þeim hér með opinberlega þakklæti mitt fyrir það, hve ótrauðir þeir voru að útvega allt, er hafa þurfti, ekkert horfandi í kostnað og fyrirhöfn, sem ætíð gerir auðveldara að leysa verkið - hvaða verk sem er - viðunanlega af hendi, sem og alla meðferð á mér og viðurgjörning að öðru leyti. - Blöðin ættu að flytja greinilegar skýrslur um allar þesskonar félagslegar framkvæmdir, þeim til verðugs heiðurs, sem sameina þannig kraftana, og að öðrum út í frá til uppörvunar og eftirbreytni.
Efnin eru lítil hjá hverjum einstökum, en svo er þó fyrir þakkandi, að margir menn og mörg sveitarfélög hér á landi gætu dálitlu miðlað til félagslegra framkvæmda - auk skylduskattanna -, ef viljann ekki vantaði, án þess að vita nokkuð af því í efnalega tilliti, en "safnast þegar saman kemur"; og gætum vér Íslendingar töluverðu í verk komið, ef ekki vantaði samtökin. Öll mannvirki, sem eru til gagns og sóma fyrir mannfélagið, er besti arfur fyrir niðjana, og hefur hitt enga þýðingu, þó að gemlingi yrði færra fyrir það þegar búinu væri skipt.
III.
Það er svo mikið verkefni fyrir höndum hjá oss Íslendingum að brúa ár, að engin vanþörf er á að tala saman í blöðunum um það, og ættu sem flestir að láta í ljósi skoðanir sínar á hinu og þessu, er þar að lýtur. Við höfum fengið brú yfir Ölfusá, sem eflaust er hið mesta stórvirki á landinu, og fáum að líkindum áður en langt um líður brú á Þjórsá; og þó það sé nú óumflýjanlegt, að við þurfum að vera upp á útlenda komnir þegar um þess konar verk er að ræða, eins og yfir höfuð þegar leggja þarf nokkuð langar brýr, þá ættum við þó að geta gert allar hinar styttri sjálfir - allt að 40 ál. að minnsta kosti -, ef engir sérstakir örðugleikar eru til að hamla því.
Ætíð, þegar brúuð er á, þarf það að vera á svo haganlegum stað fyrir samgöngurnar, sem unnt er. Það vill nú vel til, þegar maður hefur þar til kletta eða klappir til að byggja á, því undirstaðan undir brúnum þarf að vera vel traust og góð; varanlegleiki þeirra er mikið undir því kominn. En þegar maður velur sér brúarstæði, þarf líka að taka tillit til landslagsins í kring, og tel ég ógjörning að leggja brýr niðri í djúpum giljum, þar sem snjóskafla getur lagt og svellbunka, svo ófært sé að nota brúna þegar hennar þarf helst með. Líka getur bergið í klettagljúfrum verið svo sprungið og óheillegt í sér, að illt sé að hlaða ofan á það, því vatnið finnur glufurnar, og þegar það frýs í þeim, þá hefur það í sér fólgið afl til að hrinda frá. En vanalega er þá breitt sundið á milli þess konar klappa því smátt og smátt hefur hrunið úr undanfarna tíma. Þar á móti eru klappirnar ætíð heillegri í sér og haldbetri þar sem gljúfur eru þröng, ef nokkurt vatnsmagn á annað borð er í ánni. Því þar hefur ekki hrunið úr börmunum á rennu þeirri, er hún (áin) hefur búið sér til. Ef landslagið þannig gerir tálmanir, verður maður að færa sig úr stað og hlaða þá heldur stöpla undir endana að meira eða minna leyti, og ef ísruðning er að óttast, þá þarf að velja þá staði, er ætla má, að hann geri sem minnst mein. Þar sem bugða er á ánni, þar verður aflið að ísreki mest neðan við krikann, en tekur þá aftur frákast þaðan, og er undir straumstefnunni komið og landslaginu hinumegin, hvar þetta frákast hefur mest afl þeim megin. Jakarnir geta auðvitað ýst upp á löndin báðu megin hvar sem er, en það hlýtur að vera mikill munur á, hvaða afl því fylgir, og oftast nær verða víst deplar báðu megin við ána, þar sem bugða er á henni, er stöplunum verður minni hætta búin en annarsstaðar. Árnar eru vanalega breiðari þar sem farvegur þeirra er þráðbeinn, nema klappir séu báðumegin til að halda við, en þar er þó stöplum eflaust minni hætta búin, ef þeir ekki þurfa að ganga út í ána, því þá fer ísrekið beint niður eftir straumnum og þrýstingaraflið verður meira framan á stöpulinn en á hliðina á honum.
Það væri nú auðvitað best, að hafa alla stöpla undir brúm úr sementsteypu, þar sem þarf að búa þá til; en með því að þeir kosta ærið fé, verður allvíðast einn kostur nauðugur að hlaða þá úr grjóti. Ef grjótið er gott og laglega hlaðið, geta þeir verið varanlegir, sé undirstaðan góð, ef ísruðningur eða önnur eyðandi öfl eigi ná að granda þeim. - Þannig hlaðnir stöplar eiga að stefna undan straumnum - liggja á ská við hann að ofan - og hornið, er í strauminn veit, vera vel kringlótt og sem sléttast að unnt er. Verður þá stöpullinn eðlilega talsvert breiðari þeim megin, sem að landinu veit. Ísinn er háll og skriðnar auðveldlega af skáfleti, ef ekki eru stallar eða horn, sem veita honum viðnám; er því vitanlega ágætt, ef efni eru til, að setja sementshúð yfir hliðina að ofan og framflötinn, sér í lagi efra hornið, svo að það verði sem sléttast og hrufuminnst.
Þar sem ekki fæst annað en malarsorfið grjót eða hnullungar, má auðveldlega búa til stöpul undir brúarenda með "trébúkka" eða með öðrum orðum: trégrind úr sterkum viðum og rambyggilega neglda saman með galvaníseruðum saum (hnoðgöddum), sem grjótinu væri hlaðið innan í. Trégrindin heldur þá við stöpulinn að utan, svo hann getur aldrei raskast, fyr en tréð grotnar í sundur af fúa, og þá er líka brúin sjálf búin að "út enda sína tíð". Þannig tilbúnir stöplar geta eflaust staðið af sér allan straumbeljanda og grjótrið, sem honum væri samfara, en þar sem ísruðning er að óttast, verða þeir óhentugri, af því ísjakarnir geta marið í sundur tréð og gert grindina ónýta, enda þarf þá ætíð að vera hærra undir brúna og yrði þá þannig lagaður stöpull nokkuð dýr. Auðvitað þyrftu þess konar stöplar að vera þeim mun stærri og fyrirferðarmeiri, því meiri áreynslu er þeir þurfa að mæta, og þannig lagaðir, að þeir hrindi aflinu sem best af sér. Hugsanlegt er, að fóðra þá með járni á móti ísreki, þar sem mest væri hættan, og líka mætti verja þá með grjóti að utan, þar sem það væri við hendina, er hlífði grindinni við mari og skemmdum utan frá.
IV.
Hvað byggingarform menn hafa á brúnum verður undir álitum komið, en trauðla verður annað sterkara og áreiðanlegra - tiltölulega við kostnaðinn - en yfirbygging með sperrum á brúartrénu, þar sem því verður komið við. Það er lýsing á fyrstu brúnni, sem ég smíðaði með því lagi (yfir Grafará), í Ísafold 4. sept. 1889 (bls. 282), svo ekki er vert að endurtaka það hér. En þar eð brúarkjálkana þarf að smíða á landi (eins og húsgrind) og negla alveg saman, þá þarf að renna brúnni yfir ána í heilu lagi, eða að minnsta kosti hverjum kjálkanum um sig, og til þess útheimtist góður útbúnaður í festum báðumegin, köðlum, blökkum o. fl.
Annað byggingarform er það - sem mest tíðkast í Noregi á trébrúm - að hafa skakkstífur (Stræbere) neðan undir trjánum, er setja endana framan í klettinn eða stöpulinn, er brúin stendur á, og ganga hinir endarnir upp undir brúartrén hér um bil þriðjung leiðar frá stöplinum, og verða þannig eins og sperrur eða skakkstoðir undir brúnni. En þetta fyrirkomulag útheimtir, að maður hafi háa kletta eða stöpla til að byggja brúna á, og aflviðir þurfa að vera miklum mun sterkari en með yfirbyggingunni, ef báðar brýrnar eru jafnlangar.
Einnig getur maður búið til burðarafl á brýr með því að hafa járnstagi neðan undir brúartrjánum, er gangi fyrir endann á þeim og festist vel ofan í þá með járnkengjum. Standa svo stoðir á járntaugum þessum uppundir brúartrén, svo nánar, er þurfa þykir, og geta þá ekki brúartrén bognað, ef járnstagirnir ekki láta til.
Enn fremur má búa til burðarafl á brýr, eða að minnsta kosti auka það, með krossum og skakkslám, sem greypt séu eða negld saman ofan á brúartrjánum, en trauðla verður það samt áreiðanlegt þegar um mikil þyngsli er að ræða á brúnni. Að brúa á trjám, sem ekkert eru styrkt, ætti alls ekki að gjöra, nema brúin sé þá örstutt og trén vel sterk.
Það er nú ekki lítilsvert, að brýr, ekki síður en aðrar byggingar, geti orðið sem endingarbestar. Það vill of mikið brenna við, að til okkar Íslendinga sé fluttur slæmur viður og að við þá hagnýtum hann eins og hann kemur fyrir, í stað þess að útlendir ryðja "geit" og annan óhroða utan af trjánum og hafa aðeins hjarnann í það, sem þeir vilja vanda. Geitin í furuvið er mjög gljúp og drekkur óðara í sig vatn og allan raka; hún grautfúnar á fáum árum (ég hef séð saumför í byrðingi á bátum vera orðin fúin og ónýt að 6 og 7 árum liðnum, þegar geit hefir verið í borðaröndunum), þegar skilyrðin eru fyrir hendi til þess, en þar sem hún er í einlægum þurrk, t. d. í þiljum innan um hús, þar getur hún enst vel, má ske undir það eins og annar viður; líka þolir hún nokkuð úti, þar sem loft getur leikið um hana á allar hliðar; að minnsta kosti hef ég séð nokkuð gömul geitartré, er verið hafa undir beru lofti og lítið eða ekki borið á fúa í.
Það ætti helst ekki að smíða brýr úr júffertuvið þeim, sem vanalega er fluttur til okkar, heldur úr þeim spýtum, sem sagað er utan af á allar hliðar, eins og þær eru undirbúnar erlendis, þegar söguð eru úr þeim "fjórskorin" borð og plankar; þá verður þó ekki geit í þeim til muna nema í röndunum, og má ske í þeim endanum, er mjórri var í trénu, og þá fær maður þau bein og jafngild í báða enda. Þau tré eru vitanlega dýrari; en mikið af viðarverðinu hjá oss liggur í flutningskostnaðinum frá útlöndum, svo innkaupsverðið hefir minna að þýða fyrir það. Auðvitað getum vér sjálfir sagað geitina utan af trjánum, en þá þyrfti að fá þau þeim mun gildari og flutningur og öll meðferð á hinum digru trjám er tiltölulega miklu dýrari og erfiðari.
Allur saumur í brýr (hnoðgaddar og reksaumur) ætti að vera galvaníseraður; þá endist hann "von úr viti" og ryðgar ekki; en þegar járn fer að ryðga í tré, þá brennir það út frá sér og styttist mjög í trénu allt í kring.
Allt þess konar getur maður pantað frá útlöndum í þeirri stærð og gildleika, er maður vill hafa, og rær á hnoðgaddana eftir gildleika járnteinsins. Er þá höggvinn af naglinn eftir því sem hann þarf langan til, höfð sín ró á hvorum enda og hnoðað báðumegin, svo ekki þurfi að eldbera járnið.
Hvaða áburð á að hafa á brýr, sem ver þær fúa og gerir þær endingarbetri?
Þessi spurning hefur verið lögð fyrir mig; en ég get ekki svarað henni.
Það er nú vanalegt, að bera á tré annaðhvort einhvers konar olíufarfa eða þá tjöru og er það eflaust mikil vörn, ef tréð er vel þurrt undir, því það setur húð utan á tréð og heldur vætu frá að smjúga í það. En sé tréð blautt, getur húð þessi líklega varnað vatnsefninu að gufa burtu og þeim sýrum eða vökvum, sem menn vita að eru í trénu og framleiða rotnunina í því, þegar þær hafa vatnsvökva við að styðjast. Og víst er um það, að ég hef séð tré grautfúið undir þykkri bæði farfa- og tjöruhúð, sem ekki var þó mjög gamalt. Þó að borin sé á fernisolía eintóm, þá þurrkar loftið hana og gerir húð utan á trénu, þó hún að öðru leyti smjúgi í tréð, og bindi sig við það.
Það er tíðkað af mörgum, að maka báta og önnur för að innan með grotnaðri þorskalifur eða þorskalýsi, og er reynsla fyrir því, að þau för endast vel; og víst er um það, að sá áburður gerir viðinn seigari (óbrothættari), sem og ekki er óeðlilegt. Ég held því að besti áburður á brýr sé einmitt lýsi (og þá helst þorskalýsi, sem er ódýrara og máske betra en annað lýsi), þó það ekki í sjálfu sér ef til vill sé verulegt varnarmeðal á móti fúa. Feitin smýgur vel í tréð og varnar rifum, en gerir enga húð utan á og teppir því ekki útgufunina. Þó lýsið sé léttara í sér en vatn, þá hrindir það þó vætu frá sér þegar það á annað borð er búið að líma sig við tréð, ef það ekki beinlínis þarf að liggja í vatni, og með því að áreiðanlega ver tréð rifum og einnig sest í þau hólf, er vatn getur í smogið, þá ver það að einhverju leyti vætu úr loftinu að komast inn í það.
Þó loftið sé má ske dálítið rakafyllra yfir ám, sér í lagi þar sem rjúkandi foss er undir eða í námunda, þá endast trébrýr að líkindum ekki miklum mun lakara fyrir það, ef þess er vandlega gætt, að svo sé búið um brúarendana á stöplunum, að enginn vatnsagi eða leirrennsli komist þar að endunum á brúartrjánum. Séu brýr smíðaðar úr góðum viðum, þá ættu þær að endast að minnsta kosti í 40-50 ár.
Að tjara ver fúa eða rotnun yfir höfuð að tala, á eiginlega að stafa af "karbólsýru" sem í henni er, og með því að hennar verkun (karbólsýrunnar) er eiginlega sú, að deyða hinar lifandi loftagnir (bakteríur), sem framleiða rotnun (sbr. verkun hennar á mannholdið), þá er ekki ólíklegt, að hún væri góð til blöndunar í lýsi til að bera á tré. Fyrir nokkrum árum síðan auglýsti Thomsen kaupmaður í Reykjavík, að hann hefði í verslun sinni ágætt smyrsli á tré til að verja það fúa, er hann nefndi "karbolineum". Ég hef ekkert heyrt um það síðan, og væri fróðlegt að fá að vita eitthvað meira um það, jafnvel þó engin veruleg reynsla geti verið orðin um það hér á landi enn. Nafnið er fallegt, ef efnið "ber það með rentu".


Ísafold, 3. febrúar 1892, 19. árg., 10. tbl., forsíða:

Nokkur orð enn um brýr.
Eftir Einar B. Guðmundsson.
I.
Þegar ég næstliðið sumar var suður í Borgarfirði að gera brúna á Barnafossi yfir Hvítá, þá heyrði ég svo mikið talað um, hve stutt væri á milli klappa og þægilegt að brúa téða á niður á svo kölluðum Kláffossi, að mig langaði til að sjá það og gerði mér þann krók þangað ofan eftir um leið og ég fór heim. Og með því að ritstjóri "Ísafoldar" lætur blað sitt (94. tbl.) flytja herhvöt um að brúa þar sem allra fyrst og merkur maður borgfirskur, er ásamt fleirum kom með mér að Kláffossi, orðaði það við mig, að ég léti í ljósi álit mitt um brúarstæðið í blaðagrein -, þá finn ég hvöt hjá mér til að skrifa um þetta efni nokkrar línur, ef ritstjóri "Ísaf." vildi ljá þeim rúm í blaði sínu.
Það er reyndar ekki rétt að nefna foss í ánni á þessum stað. Þar hanga klappir út í hana frá báðum hliðum, þráðbeint hver á móti annarri, sem gera dálitla stíflu í ánni, og flýtur þar af, að yfirborð hennar er lítið eitt lægra fyrir neðan, og að hún brýst með töluverðum straumkrafti í gegn um hliðið milli klappanna, en er að öðru leyti engin mishæð á landinu. Ég vissi þá ekki um mælingu hins sænska vegfræðings Siwersons, og gerði tilraun til að mæla á milli klappanna með "snúru", er mér virtist vera nálægt 16 ál., en þar eð talsverður stormur var og enginn maður hinum megin árinnar til að halda í þráðinn á móti mér, þá varð sú mæling ekki nákvæm, og getur máske munað einni alin til eða frá.
Það munu flestir, sem koma að Kláffossi verða hissa yfir því, að ekki er búið að brúa Hvítá á þessum stað, jafnmikið heljarvatnsfall sem hún er og vaðafá, eða jafnvel vaðalaus, að Langholtsvaði undanskildu (það er ekki að telja, þó menn með talsverðri lífshættu hleypi yfir hana í stöku stað, þegar hún er sem minnst), ekki síst þegar maður hugleiðir legu hennar frá fjalli að fjöru milli Suðurlands á aðra hliðina og Norður- og Vesturlands á hina, eins og drepið er á í nefndri "Ísafoldar"-grein, hinar fjölbyggðu og auðugu sveitir, er að henni liggja báðumegin, og ennfremur það, hve sjaldgæft er að leggi á hana fulltraustan ís til yfirferðar á vetrum, eftir því sem mér var skýrt frá. Þar hefir þó náttúran gert svo úr garði, að ekkert er erfiðara að brúa Hvítá en marga smásprænu, sem maður getur kallað svo í samanburði við hana, þegar þess er gætt, að nú geta menn búið til klappir og kletta (sementssteypu), er staðið geta á móti hvers konar afli og áreynslu, er getur að komið og gjöra má ráð fyrir í þess konar sökum.
Mig furðar á því, að hinn sænski vegfræðingur skyldi gera ráð fyrir 27 ál. langri bú yfir Kláffoss, þar sem þó lengdin á milli klappanna mældist honum aðeins 14 al. Mér virtust þó klappirnar eins góðar undir stöpla að framanverðu - eða framarlega -, og það áleit ég, þegar ég var þar, að aðalbrúin þyrfti alls ekki að vera lengri en 22 ál.; en það datt mér í hug, að hagfeldara mundi verða að hafa sporða úr tré frá báðum endum, svo vatnið gæti komist leiðar sinnar þeim megin við stöpulinn, ef yfir færi klappirnar í afskaplegum vatnavöxtum. Klappirnar eru því ver of lágar, eins og hinn sænski vegfræðingur hefur tekið fram, en mjög eru þær fastar í sér og heillegar, og að öðru leyti vel lagaðar undir sementssteypustöpla, lægri að ofan, sem veitir viðspyrnu, með holum og hrufum o. s. frv.
Að mínu áliti væri ekki mál takandi að hlaða stöplana undir brúna, nema þeir væru þá því betur límdir með steinlími. Af því klappagirðingin liggur þvert fyrir í ánni og myndar stíflu í henni, þá verður vatnsþunginn ógurlega mikill í vatnavöxtum, og auk þess má gera ráð fyrir, að þó ána ekki leggi á vetrum þar fyrir ofan, svo að óttast þurfi verulegan ísruðning (graslendið sem liggur fast að ánni báðumegin við Kláffoss sýnir það líka), þá má þó gera ráð fyrir, að ís-spengur myndist við bæði löndin hingað og þangað í frostum, er straumurinn losi og beri niður eftir, þegar veðuráttu og vatnagangi hagar svo, og sem þá hljóta að reka sig á klappagirðinguna. Stöplarnir þurfa því að vera traustir mjög, og finnst mér sjálfsagt að þeir væru hafðir úr steinsteypu, sporöskjulagaðir, eða þó máske enn meira oddmyndaðir að ofan, svo þeir kljúfi betur strauminn og ísfleka, er kynnu að berast á þá. Stærðina áliti ég nægilega, að þeir (stöpl.) væru 5 ál. á lengd og 2 ál. á br., en hæðin mætti alls ekki minni vera en vegfræðingurinn gerir ráð fyrir, því ef íshroði getur á annað borð nokkuð hrönglast þar upp, þá er hæðin undir brúna, sem hann tilnefnir, sú minnsta, sem vera má.
Hvort brú á Kláffossi ætti að vera úr tré eða járni, þá liggur næst að svara því svo, að ef menn hefðu nægilegt fé til alls þess, er gera þyrfti og í allar þarfir að öðru leyti, eða með öðrum orðum, endalaust auðmagn til hvers sem vera skyldi, þá væri líkl. besta ráðið að hafa hana úr járni, þar eð hún yrði þá að líkindum endingarbetri. En eins og á stendur hjá oss hvað féföngin snertir, og hve margar ár þyrfti að brúa, auk annars, þá ætti þessi brú vafalaust að vera úr tré, af því hún yrði margfalt kostnaðarminni en úr járni, því þarna er alls engin þörf á öðru. - Brúin sjálf, úr tré, sams konar og hin á Barnafossi, hér um bil 22. ál. á lengd, eins og ég hef ráðgert hana hér að framan, nægilega traust fyrir hvað þunga lest sem væri, mundi ekki kosta meira enn 1.000 - 1.200 kr. (efni, aðflutningur og smíðalaun), þó aflviðir væru hafðir nokkuð gildari en í brúnni á Barnafossi; en þar eð sporðarnir báðumegin þyrftu nokkuð langir - líklega 8 - 10 ál. hvor, - þá tækju þeir upp nokkurt fé, þó alls ekki mera en 300-400 kr., jafnvel þó höfð væri á þeim yfirbygging með burðarafli af hornsperrum (ekki kálfasperrum), sem ákjósanlegast væri.
Hvað steinsteypu-stöplarnir mundu kosta, læt ég öðrum eftir að gjöra áætlun um, en því fé, sem til þeirra er varið, fær hvorki "mölur né ryð" grandað, ef þeir á annað borð eru nógu traustir, og niðjarnir eiga það óeytt að næstu þúsund árum liðnum. (Ef forfeðurnir hefðu þekkt sementið og steinsteypu þá, sem úr því má gjöra, þá hefðu þeir eflaust haft stöpla úr því undir brú sína, og þá hefði brú á Kláffossi að líkindum verið við lýði enn). En allur sá kostnaður yrði "hverfandi stærð" við það gagn, er brú yfir Hvítá gjörði á þessum stað.
Um landslagið sunnan við ána hjá Kláffossi er mér ekki kunnugt, þar eð ég fór þar ekki um og spurði mig ekkert fyrir um það, en að norðanverðu er mýrlendi alllangan kipp út holtarana þann, sem gengur niður frá Hlíðafjalli, en allt var það rótgott og keldulaust - ágætt yfirferðar þegar ég fór þar um - nema svo sem 60 faðma breið mýri út við holtin, er sjálfsagt þyrfti að brúa þegar, ef vegur væri lagður þar um.
Að öðru leyti ætti það alls ekki að hefta framkvæmd á brúargjörðinni, þó akvegur ekki verði jafnframt lagður að henni. Þess verður langt að bíða, að póstarnir milli Reykjavíkur og Norður- og Vesturlandsins flytji töskurnar sínar á vagni alla leið; það þarf nokkur þúsund kr. að verja í brýr og vegagjörð áður!; og gerir þá lítið til, að þessi vegarkafli bíði eftir því ásamt öðrum. Það er að minnsta kosti næst ánni að sunnanverðu graslendi - máske mýrlent -, svo það yrði áreiðanlega gott að brúnni og frá henni að vetrinum, þegar frostið búar fyrir mann, enda er ekki ólíklegt, að brúarleysið á Hvítá sé tilfinnanlegast um þann tíma ársins. Að öllum líkindum ekur pósturinn fyrst á sleða að vetrinum milli Suðurlands og hinna landsfjórðunganna, áður en hann getur notað hjólvagn alla leið þar á milli, og verða þá ekki mýrarnar út frá Kláffossi óþægri við hann en sumir aðrir kaflar vegarins.
II.
Af því að Hvítá er löng og brúin á Barnafossi svo ofarlega, að hún getur alls ekki komið til skoðunar sem aðalsamgöngubraut yfir ána; af því að áin er mikið og vont vatnsfall, sem vegur svo margra manna þarf að liggja; og af því að hana má brúa á Kláffossi (sem liggur haganlega, líklega hér um bil á miðri leið frá því Geitlandsárnar og Norðlingafljót koma saman) með tiltölulega litlum kostnaði, þá hljóta allir góðir drengir að taka undir með "herhvöt" Ísafoldar, að gera það sem allra fyrst.
Mér finnst fyrir mitt leyti sjálfsagt, að láta hinar stóru og hættulegu ár sitja fyrir hinum, hvar svo sem þær eru, þegar þær verða brúaðar með litlum kostnaði, og það jafnvel þó yfirferðin sé tiltölulega minni yfir þær.
Enginn rígur eða metnaður má komast þar að.
En eins og það er eðlilegt, að þeir sem næst búa hafi mest gagn af brúnum, eins ættu þeir að leggja meira fé til þeirra en aðrir, og ætti það því að verða að fastri reglu, að sveitirnar, sem að liggja, leggi sérstaklega nokkurn skerf til brúnna, og jafnvel þó á póstleið sé. Þá getur landssjóður meiru komið í verk, og þá er síður að gera ráð fyrir, að menn metist um, hvað af ánum, sem að öðru leyti standa jafnt að vígi, skuli brúa fyrst. Það væri í því tilliti vel tilfallið, að hafa nokkurs konar yfirboðsþing og láta þær ár ganga á undan, þar sem sveitirnar vilja leggja mest fé til. Auðvitað yrði þetta hvergi skyldugjald; en ég gjöri ráð fyrir því sem vissu, að menn vilji allsstaðar leggja nokkuð fram af frjálsum vilja, til að fá sem fyrst brýr yfir árnar í grennd við sig.
Óskandi væri, að víða á landinu kæmi fram annað eins fjör til framkvæmdar, samheldni og félagsskapar, eins og hjá íbúunum í Reykholtsdals- og Hálsasveit. Það var drengilega gert af þeim - eitthvað 40 búendum? - að snara fyrst út 3.000 kr. fyrir afréttarland, er þeir keyptu á Arnarvatnsheiði af Stefáni bónda í Kalmannstungu, og svo þegar á eftir að brúa Hvítá til að gera fjárrekstrana auðvelda og hættulausa til og frá. Þetta verk hlaut þó að "vaxa í augum", með fram fyrir hina afar-löngu leið, sem þeir þurftu að flytja stórviði og annað efni til brúarinnar. (Það er munur á, hvað flutningurinn er styttri að Kláffossi, og, eftir því sem mér var sagt, mætti líklega fleyta öllum efniviðnum þangað eftir ánni, er yrði miklum mun óerfiðara og kostnaðarminna). Þriggja manna nefnd (síra Guðmundur prófastur í Reykholti, Þorsteinn bóndi á Hofstöðum og Einar bóndi á Steindórsstöðum) stóðu fyrir framkvæmdunum, og að öðru leyti var þar hver höndin annarri liðsinnandi, að því leyti er með þurfti. Ég gerði það fyrir ítrekuð tilmæli síra Guðmundar í Reykholti - sem ég hafði haft mjög góð kynni af áður -, að fara þangað suður, þó ég væri bæði landslagi og öllu öðru ókunnugur þar, og jafnframt því, að ég ber mikla virðingu fyrir þessum skörungsskap þeirra, þá votta ég þeim hér með opinberlega þakklæti mitt fyrir það, hve ótrauðir þeir voru að útvega allt, er hafa þurfti, ekkert horfandi í kostnað og fyrirhöfn, sem ætíð gerir auðveldara að leysa verkið - hvaða verk sem er - viðunanlega af hendi, sem og alla meðferð á mér og viðurgjörning að öðru leyti. - Blöðin ættu að flytja greinilegar skýrslur um allar þesskonar félagslegar framkvæmdir, þeim til verðugs heiðurs, sem sameina þannig kraftana, og að öðrum út í frá til uppörvunar og eftirbreytni.
Efnin eru lítil hjá hverjum einstökum, en svo er þó fyrir þakkandi, að margir menn og mörg sveitarfélög hér á landi gætu dálitlu miðlað til félagslegra framkvæmda - auk skylduskattanna -, ef viljann ekki vantaði, án þess að vita nokkuð af því í efnalega tilliti, en "safnast þegar saman kemur"; og gætum vér Íslendingar töluverðu í verk komið, ef ekki vantaði samtökin. Öll mannvirki, sem eru til gagns og sóma fyrir mannfélagið, er besti arfur fyrir niðjana, og hefur hitt enga þýðingu, þó að gemlingi yrði færra fyrir það þegar búinu væri skipt.
III.
Það er svo mikið verkefni fyrir höndum hjá oss Íslendingum að brúa ár, að engin vanþörf er á að tala saman í blöðunum um það, og ættu sem flestir að láta í ljósi skoðanir sínar á hinu og þessu, er þar að lýtur. Við höfum fengið brú yfir Ölfusá, sem eflaust er hið mesta stórvirki á landinu, og fáum að líkindum áður en langt um líður brú á Þjórsá; og þó það sé nú óumflýjanlegt, að við þurfum að vera upp á útlenda komnir þegar um þess konar verk er að ræða, eins og yfir höfuð þegar leggja þarf nokkuð langar brýr, þá ættum við þó að geta gert allar hinar styttri sjálfir - allt að 40 ál. að minnsta kosti -, ef engir sérstakir örðugleikar eru til að hamla því.
Ætíð, þegar brúuð er á, þarf það að vera á svo haganlegum stað fyrir samgöngurnar, sem unnt er. Það vill nú vel til, þegar maður hefur þar til kletta eða klappir til að byggja á, því undirstaðan undir brúnum þarf að vera vel traust og góð; varanlegleiki þeirra er mikið undir því kominn. En þegar maður velur sér brúarstæði, þarf líka að taka tillit til landslagsins í kring, og tel ég ógjörning að leggja brýr niðri í djúpum giljum, þar sem snjóskafla getur lagt og svellbunka, svo ófært sé að nota brúna þegar hennar þarf helst með. Líka getur bergið í klettagljúfrum verið svo sprungið og óheillegt í sér, að illt sé að hlaða ofan á það, því vatnið finnur glufurnar, og þegar það frýs í þeim, þá hefur það í sér fólgið afl til að hrinda frá. En vanalega er þá breitt sundið á milli þess konar klappa því smátt og smátt hefur hrunið úr undanfarna tíma. Þar á móti eru klappirnar ætíð heillegri í sér og haldbetri þar sem gljúfur eru þröng, ef nokkurt vatnsmagn á annað borð er í ánni. Því þar hefur ekki hrunið úr börmunum á rennu þeirri, er hún (áin) hefur búið sér til. Ef landslagið þannig gerir tálmanir, verður maður að færa sig úr stað og hlaða þá heldur stöpla undir endana að meira eða minna leyti, og ef ísruðning er að óttast, þá þarf að velja þá staði, er ætla má, að hann geri sem minnst mein. Þar sem bugða er á ánni, þar verður aflið að ísreki mest neðan við krikann, en tekur þá aftur frákast þaðan, og er undir straumstefnunni komið og landslaginu hinumegin, hvar þetta frákast hefur mest afl þeim megin. Jakarnir geta auðvitað ýst upp á löndin báðu megin hvar sem er, en það hlýtur að vera mikill munur á, hvaða afl því fylgir, og oftast nær verða víst deplar báðu megin við ána, þar sem bugða er á henni, er stöplunum verður minni hætta búin en annarsstaðar. Árnar eru vanalega breiðari þar sem farvegur þeirra er þráðbeinn, nema klappir séu báðumegin til að halda við, en þar er þó stöplum eflaust minni hætta búin, ef þeir ekki þurfa að ganga út í ána, því þá fer ísrekið beint niður eftir straumnum og þrýstingaraflið verður meira framan á stöpulinn en á hliðina á honum.
Það væri nú auðvitað best, að hafa alla stöpla undir brúm úr sementsteypu, þar sem þarf að búa þá til; en með því að þeir kosta ærið fé, verður allvíðast einn kostur nauðugur að hlaða þá úr grjóti. Ef grjótið er gott og laglega hlaðið, geta þeir verið varanlegir, sé undirstaðan góð, ef ísruðningur eða önnur eyðandi öfl eigi ná að granda þeim. - Þannig hlaðnir stöplar eiga að stefna undan straumnum - liggja á ská við hann að ofan - og hornið, er í strauminn veit, vera vel kringlótt og sem sléttast að unnt er. Verður þá stöpullinn eðlilega talsvert breiðari þeim megin, sem að landinu veit. Ísinn er háll og skriðnar auðveldlega af skáfleti, ef ekki eru stallar eða horn, sem veita honum viðnám; er því vitanlega ágætt, ef efni eru til, að setja sementshúð yfir hliðina að ofan og framflötinn, sér í lagi efra hornið, svo að það verði sem sléttast og hrufuminnst.
Þar sem ekki fæst annað en malarsorfið grjót eða hnullungar, má auðveldlega búa til stöpul undir brúarenda með "trébúkka" eða með öðrum orðum: trégrind úr sterkum viðum og rambyggilega neglda saman með galvaníseruðum saum (hnoðgöddum), sem grjótinu væri hlaðið innan í. Trégrindin heldur þá við stöpulinn að utan, svo hann getur aldrei raskast, fyr en tréð grotnar í sundur af fúa, og þá er líka brúin sjálf búin að "út enda sína tíð". Þannig tilbúnir stöplar geta eflaust staðið af sér allan straumbeljanda og grjótrið, sem honum væri samfara, en þar sem ísruðning er að óttast, verða þeir óhentugri, af því ísjakarnir geta marið í sundur tréð og gert grindina ónýta, enda þarf þá ætíð að vera hærra undir brúna og yrði þá þannig lagaður stöpull nokkuð dýr. Auðvitað þyrftu þess konar stöplar að vera þeim mun stærri og fyrirferðarmeiri, því meiri áreynslu er þeir þurfa að mæta, og þannig lagaðir, að þeir hrindi aflinu sem best af sér. Hugsanlegt er, að fóðra þá með járni á móti ísreki, þar sem mest væri hættan, og líka mætti verja þá með grjóti að utan, þar sem það væri við hendina, er hlífði grindinni við mari og skemmdum utan frá.
IV.
Hvað byggingarform menn hafa á brúnum verður undir álitum komið, en trauðla verður annað sterkara og áreiðanlegra - tiltölulega við kostnaðinn - en yfirbygging með sperrum á brúartrénu, þar sem því verður komið við. Það er lýsing á fyrstu brúnni, sem ég smíðaði með því lagi (yfir Grafará), í Ísafold 4. sept. 1889 (bls. 282), svo ekki er vert að endurtaka það hér. En þar eð brúarkjálkana þarf að smíða á landi (eins og húsgrind) og negla alveg saman, þá þarf að renna brúnni yfir ána í heilu lagi, eða að minnsta kosti hverjum kjálkanum um sig, og til þess útheimtist góður útbúnaður í festum báðumegin, köðlum, blökkum o. fl.
Annað byggingarform er það - sem mest tíðkast í Noregi á trébrúm - að hafa skakkstífur (Stræbere) neðan undir trjánum, er setja endana framan í klettinn eða stöpulinn, er brúin stendur á, og ganga hinir endarnir upp undir brúartrén hér um bil þriðjung leiðar frá stöplinum, og verða þannig eins og sperrur eða skakkstoðir undir brúnni. En þetta fyrirkomulag útheimtir, að maður hafi háa kletta eða stöpla til að byggja brúna á, og aflviðir þurfa að vera miklum mun sterkari en með yfirbyggingunni, ef báðar brýrnar eru jafnlangar.
Einnig getur maður búið til burðarafl á brýr með því að hafa járnstagi neðan undir brúartrjánum, er gangi fyrir endann á þeim og festist vel ofan í þá með járnkengjum. Standa svo stoðir á járntaugum þessum uppundir brúartrén, svo nánar, er þurfa þykir, og geta þá ekki brúartrén bognað, ef járnstagirnir ekki láta til.
Enn fremur má búa til burðarafl á brýr, eða að minnsta kosti auka það, með krossum og skakkslám, sem greypt séu eða negld saman ofan á brúartrjánum, en trauðla verður það samt áreiðanlegt þegar um mikil þyngsli er að ræða á brúnni. Að brúa á trjám, sem ekkert eru styrkt, ætti alls ekki að gjöra, nema brúin sé þá örstutt og trén vel sterk.
Það er nú ekki lítilsvert, að brýr, ekki síður en aðrar byggingar, geti orðið sem endingarbestar. Það vill of mikið brenna við, að til okkar Íslendinga sé fluttur slæmur viður og að við þá hagnýtum hann eins og hann kemur fyrir, í stað þess að útlendir ryðja "geit" og annan óhroða utan af trjánum og hafa aðeins hjarnann í það, sem þeir vilja vanda. Geitin í furuvið er mjög gljúp og drekkur óðara í sig vatn og allan raka; hún grautfúnar á fáum árum (ég hef séð saumför í byrðingi á bátum vera orðin fúin og ónýt að 6 og 7 árum liðnum, þegar geit hefir verið í borðaröndunum), þegar skilyrðin eru fyrir hendi til þess, en þar sem hún er í einlægum þurrk, t. d. í þiljum innan um hús, þar getur hún enst vel, má ske undir það eins og annar viður; líka þolir hún nokkuð úti, þar sem loft getur leikið um hana á allar hliðar; að minnsta kosti hef ég séð nokkuð gömul geitartré, er verið hafa undir beru lofti og lítið eða ekki borið á fúa í.
Það ætti helst ekki að smíða brýr úr júffertuvið þeim, sem vanalega er fluttur til okkar, heldur úr þeim spýtum, sem sagað er utan af á allar hliðar, eins og þær eru undirbúnar erlendis, þegar söguð eru úr þeim "fjórskorin" borð og plankar; þá verður þó ekki geit í þeim til muna nema í röndunum, og má ske í þeim endanum, er mjórri var í trénu, og þá fær maður þau bein og jafngild í báða enda. Þau tré eru vitanlega dýrari; en mikið af viðarverðinu hjá oss liggur í flutningskostnaðinum frá útlöndum, svo innkaupsverðið hefir minna að þýða fyrir það. Auðvitað getum vér sjálfir sagað geitina utan af trjánum, en þá þyrfti að fá þau þeim mun gildari og flutningur og öll meðferð á hinum digru trjám er tiltölulega miklu dýrari og erfiðari.
Allur saumur í brýr (hnoðgaddar og reksaumur) ætti að vera galvaníseraður; þá endist hann "von úr viti" og ryðgar ekki; en þegar járn fer að ryðga í tré, þá brennir það út frá sér og styttist mjög í trénu allt í kring.
Allt þess konar getur maður pantað frá útlöndum í þeirri stærð og gildleika, er maður vill hafa, og rær á hnoðgaddana eftir gildleika járnteinsins. Er þá höggvinn af naglinn eftir því sem hann þarf langan til, höfð sín ró á hvorum enda og hnoðað báðumegin, svo ekki þurfi að eldbera járnið.
Hvaða áburð á að hafa á brýr, sem ver þær fúa og gerir þær endingarbetri?
Þessi spurning hefur verið lögð fyrir mig; en ég get ekki svarað henni.
Það er nú vanalegt, að bera á tré annaðhvort einhvers konar olíufarfa eða þá tjöru og er það eflaust mikil vörn, ef tréð er vel þurrt undir, því það setur húð utan á tréð og heldur vætu frá að smjúga í það. En sé tréð blautt, getur húð þessi líklega varnað vatnsefninu að gufa burtu og þeim sýrum eða vökvum, sem menn vita að eru í trénu og framleiða rotnunina í því, þegar þær hafa vatnsvökva við að styðjast. Og víst er um það, að ég hef séð tré grautfúið undir þykkri bæði farfa- og tjöruhúð, sem ekki var þó mjög gamalt. Þó að borin sé á fernisolía eintóm, þá þurrkar loftið hana og gerir húð utan á trénu, þó hún að öðru leyti smjúgi í tréð, og bindi sig við það.
Það er tíðkað af mörgum, að maka báta og önnur för að innan með grotnaðri þorskalifur eða þorskalýsi, og er reynsla fyrir því, að þau för endast vel; og víst er um það, að sá áburður gerir viðinn seigari (óbrothættari), sem og ekki er óeðlilegt. Ég held því að besti áburður á brýr sé einmitt lýsi (og þá helst þorskalýsi, sem er ódýrara og máske betra en annað lýsi), þó það ekki í sjálfu sér ef til vill sé verulegt varnarmeðal á móti fúa. Feitin smýgur vel í tréð og varnar rifum, en gerir enga húð utan á og teppir því ekki útgufunina. Þó lýsið sé léttara í sér en vatn, þá hrindir það þó vætu frá sér þegar það á annað borð er búið að líma sig við tréð, ef það ekki beinlínis þarf að liggja í vatni, og með því að áreiðanlega ver tréð rifum og einnig sest í þau hólf, er vatn getur í smogið, þá ver það að einhverju leyti vætu úr loftinu að komast inn í það.
Þó loftið sé má ske dálítið rakafyllra yfir ám, sér í lagi þar sem rjúkandi foss er undir eða í námunda, þá endast trébrýr að líkindum ekki miklum mun lakara fyrir það, ef þess er vandlega gætt, að svo sé búið um brúarendana á stöplunum, að enginn vatnsagi eða leirrennsli komist þar að endunum á brúartrjánum. Séu brýr smíðaðar úr góðum viðum, þá ættu þær að endast að minnsta kosti í 40-50 ár.
Að tjara ver fúa eða rotnun yfir höfuð að tala, á eiginlega að stafa af "karbólsýru" sem í henni er, og með því að hennar verkun (karbólsýrunnar) er eiginlega sú, að deyða hinar lifandi loftagnir (bakteríur), sem framleiða rotnun (sbr. verkun hennar á mannholdið), þá er ekki ólíklegt, að hún væri góð til blöndunar í lýsi til að bera á tré. Fyrir nokkrum árum síðan auglýsti Thomsen kaupmaður í Reykjavík, að hann hefði í verslun sinni ágætt smyrsli á tré til að verja það fúa, er hann nefndi "karbolineum". Ég hef ekkert heyrt um það síðan, og væri fróðlegt að fá að vita eitthvað meira um það, jafnvel þó engin veruleg reynsla geti verið orðin um það hér á landi enn. Nafnið er fallegt, ef efnið "ber það með rentu".