1892

Ísafold, 20. febrúar 1892, 19. árg., 15. tbl., bls. 58:

Fossvogslækur og Kópavogsbrú.
Það gladdi mig, og sjálfsagt fleiri, er ég sá að skólastjóri Jón Þórarinsson vakti um daginn athygli hlutaðeigenda á Fossvogslæknum og Kópavogsbrúnni. Ég var búinn að rita grein um sama efni, sem ég ætlaði að biðja yður, herra ritstjóri, fyrir, en sleppi henni nú, en vil þó gjöra ofurlitla athugasemd við grein Jóns. Hann telur Fossvogslækinn verstan farartálma á leiðinni; ég skal fúslega játa, að hann er oft ákaflega vondur yfirferðar og margoft rétt ómögulegt yfir hann að komast, og hefir það komið fyrir mig í lífsnauðsyn, að ég komst eigi leiðar minnar sakir hans. En mér virðist gilin í Fossvogi (þau eru 3) engu betri, ef eigi verri en lækurinn, og ber hin brýnasta nauðsyn til, að vegur sé lagður fyrir ofan gilin, sem virðist hægðarleikur og getur eigi kostað mikið, þar sem hin ágætasti ofaníburður er rétt við hendina. Fyrir skömmu síðan var ég sóttur suður í Hafnarfjörð, og hefði það eigi verið um bjartan dag, hefði ég orðið að snúa heim við svo búið, því í fyrsta gilinu var ég rétt búinn að tapa hestinum því hann fór þar á kaf í krapinu, og þakka ég það eingöngu manni, sem með mér var, að hesturinn náðist upp úr. Sé læknir sóttur á næturþeli til konu í barnsnauð og þurfi þá að flýta sér, en gilin full af snjó og krapi, svo ómögulegt er að komast yfir þau, þá er hörmulegt til þess að vita, að komast eigi áfram leiðar sinnar sakir þessa farartálma. Það er hverju orði sannara, sem Jón segir um Kópavogsbrúna; það má með engu móti dragast, að gjört sé við hana. Eins og margir vita, voru oft og tíðum mestu vandræði að komast yfir Kópavogslækinn og hefir brúin bætt ágætlega úr; en hún hefir frá fyrstu gerð verið of veik, og er nú farin að fúna, svo hætta er að ríða hana, og gæti voðalegt slys orðið, ef hún brotnaði niður og þá væri of seint að kveina.
Umferðin um veg þann, sem hér ræðir um, er mjög mikil, og ég vona að sýslunefndin láti það verða eitt sitt fyrsta verk, að því er vegabætur snertir, að bæta úr þessu, sem minnst hefir verið á, og sem sannarlega er bráð-nauðsynlegt; þótt Eskihlíðarvegurinn, Kópavogshálsinn og vegurinn víðar sé ógreiðfær, þá má þó ávallt komast hann, en hitt er oft ómögulegt að komast yfir, og slíkt er óþolandi.
30/1 "92
Dr. J. Jónassen.


Ísafold, 20. febrúar 1892, 19. árg., 15. tbl., bls. 58:

Fossvogslækur og Kópavogsbrú.
Það gladdi mig, og sjálfsagt fleiri, er ég sá að skólastjóri Jón Þórarinsson vakti um daginn athygli hlutaðeigenda á Fossvogslæknum og Kópavogsbrúnni. Ég var búinn að rita grein um sama efni, sem ég ætlaði að biðja yður, herra ritstjóri, fyrir, en sleppi henni nú, en vil þó gjöra ofurlitla athugasemd við grein Jóns. Hann telur Fossvogslækinn verstan farartálma á leiðinni; ég skal fúslega játa, að hann er oft ákaflega vondur yfirferðar og margoft rétt ómögulegt yfir hann að komast, og hefir það komið fyrir mig í lífsnauðsyn, að ég komst eigi leiðar minnar sakir hans. En mér virðist gilin í Fossvogi (þau eru 3) engu betri, ef eigi verri en lækurinn, og ber hin brýnasta nauðsyn til, að vegur sé lagður fyrir ofan gilin, sem virðist hægðarleikur og getur eigi kostað mikið, þar sem hin ágætasti ofaníburður er rétt við hendina. Fyrir skömmu síðan var ég sóttur suður í Hafnarfjörð, og hefði það eigi verið um bjartan dag, hefði ég orðið að snúa heim við svo búið, því í fyrsta gilinu var ég rétt búinn að tapa hestinum því hann fór þar á kaf í krapinu, og þakka ég það eingöngu manni, sem með mér var, að hesturinn náðist upp úr. Sé læknir sóttur á næturþeli til konu í barnsnauð og þurfi þá að flýta sér, en gilin full af snjó og krapi, svo ómögulegt er að komast yfir þau, þá er hörmulegt til þess að vita, að komast eigi áfram leiðar sinnar sakir þessa farartálma. Það er hverju orði sannara, sem Jón segir um Kópavogsbrúna; það má með engu móti dragast, að gjört sé við hana. Eins og margir vita, voru oft og tíðum mestu vandræði að komast yfir Kópavogslækinn og hefir brúin bætt ágætlega úr; en hún hefir frá fyrstu gerð verið of veik, og er nú farin að fúna, svo hætta er að ríða hana, og gæti voðalegt slys orðið, ef hún brotnaði niður og þá væri of seint að kveina.
Umferðin um veg þann, sem hér ræðir um, er mjög mikil, og ég vona að sýslunefndin láti það verða eitt sitt fyrsta verk, að því er vegabætur snertir, að bæta úr þessu, sem minnst hefir verið á, og sem sannarlega er bráð-nauðsynlegt; þótt Eskihlíðarvegurinn, Kópavogshálsinn og vegurinn víðar sé ógreiðfær, þá má þó ávallt komast hann, en hitt er oft ómögulegt að komast yfir, og slíkt er óþolandi.
30/1 "92
Dr. J. Jónassen.