1892

Austri, 30. mars. 1892, 2. árg., 9. tbl., bls. 34:

Um samgöngumálið.
Eftir Ara Brynjólfsson á Heyklifi.
I.
Allar þær þjóðir sem lengst eru komnar í frelsi framförum og allri fullkomnun í andlegum og líkamlegum efnum, hafa látið, og láta sig mestu skipa, að efla samgöngur sínar bæði til lands og sjávar, þær leggja á ári hverju stórfé til járnbrautalagninga, sem þandar eru eins og net út yfir löndin, og gufuskipin þjóta um höfin, inn á hverja vík og vog; þær sjá og hafa reynt það, að greiðar og hagkvæmar samgöngur eru eins nauðsynlegar fyrir þjóðfélagið, sem blóðrásin fyrir líkama mannsins, því eins og hann ekki getur þrifist nema blóðrásin sé í lagi, eins getur heldur ekki þjóðlíkaminn þrifist nema samgöngurnar séu greiðar og fjörugar. En hvað sjáum vér Íslendingar í þessu efni? Vér höfum sofið sætt og vært á kodda andvaraleysisins. Það er aðeins fyrir fáum árum, að vér erum farnir að rumskast, og ögn að hugsa um samgöngur vorar, en sú hugsun hefir enn ekki komið að þeim notum, sem krafa tímans og þörf þjóðarinnar heimtar.
Það sætir furðu hve sáralítið hefir verið ritað um þetta mikilvæga málefni, það eina verulega, sem ritað hefir verið um það í dagblöðum, eru hinar ágætu ritgjörðir í "Ísafold" 1890, eftir Jens prest Pálsson; í þeim sýnir hann fram á, að hið eina sem bætt geti úr erfiðum aðdráttum, sé, að lagðar verði akbrautir upp fjölbyggðustu héruð landsins; það er líka vafalaust hið helsta, sem létt getur ofurlítið af oss flutningsfarginu, en þá verður að breyta lögunum um vegi.
Síðan Alþingi fékk löggjafarvaldið, hefir það samið tvenn lög um vegi hér á landi, þau fyrri 1875, hin síðari 1887; eftir þeim skulu allir aðalpóstvegir gjörðir akfærir með 6 álna breiðum vegi; þetta sýnir viðleitni þingsins á að bæta samgöngur vorar, en þessi lög eru óhafandi og þurfa því að breytast til batnaðar. Það hljóta allir að sjá og viðurkenna, að vér erum ekki að svo stöddu því vaxnir að leggja 6 álna breiða akvegi á öllum aðalpóstleiðum, að vér með engu móti getum beðið eftir slíkum vegi, þótt hann kynni einhvern tíma að komast á, sem ég efa stórlega, og loks að vér alls ekki viljum láta þennan aðalpóstveg sitja í fyrirrúmi fyrir öðru lífsnauðsynlegu, slíkt væri til að láta eftirkomendurna hlæja að heimsku vorri. Enda verður því ekki neitað, að það er næsta hlægilegt, ef vér látum leggja hér um 200 mílna langan og 6 álna breiðan akveg, aðeins fyrir póstinn nokkrum sinnum á ári og stöku ferðamenn, en horfum á mikinn part þjóðarinnar flytja alla þungavöru sína sitt hvorumegin hesthryggjar. Hitt virðist liggja nær, að á landssjóðskostnað verði lagðar akbrautir frá kaupstöðum og kauptúnum upp fjölbyggð héruð, slíkt mundi gera ómetanlegt gagn fyrir alda og óborna. Það er vonandi og óskandi að þingið breyti sem fyrst veglögunum í þessa átt, en láti ekki póstveginn gleypa fleiri þúsundir króna á ári hverju, þjóðinni til lítils gagns og sóma.
Auk þeirra 60.000 kr. sem þingið veitti í sumar til að bæta aðalpóstleiðirnar, hefir þessi vegur á næstl. 14 árum upp etið um 250.000 kr., en nál. 300.000 kr. með því sem veitt var til Ölfusárbrúarinnar. Hefði miklu af þessu fé verið varið til að gjöra akvegi upp fjölbyggðustu héruð landsins, mundi nú öðruvísi á að líta; í stað hestanna með kveljandi klyfjar, mætti sjá vagnarunur með hestum fyrir, fulla af fólki og flutningi; þá spöruðust hestar og þá sparaðist tími, sem hvorutveggja eru peningar. Allir vita, hve dýrt er að hafa marga hesta á heyjum og í högum; allir vita, hve erfitt og kveljandi það er fyrir vesalings hestana að bera á fimmta hundrað pund langar leiðir yfir feni og forræði, og allir vita, hve leitt og erfitt það er fyrir mann sjálfan að dragast með marga áburðarhesta oft í misjafnri tíð og færð. En þrátt fyrir alla þá erfiðismuni sem allir aðdrættir hafa í för með sér, og þrátt fyrir það þótt öllum ætti að liggja í augum uppi, að ákvæði vegalaganna 1887 um aðalpóstvegina sé óhafandi, og þrátt fyrir það þó landsmenn stynji undir vegleysis farginu og líti vonaraugum til löggjafarvaldsins, þóknaðist þó þinginu í sumar, að fella frumvarp það um vegi, er séra Jens Pálsson kom fram með, sem í öllum aðalatriðum var mjög heppilegt og sem hafði þann aðalkost, að eftir því áttu akbrautir að leggjast upp fjölbyggð héruð, í stað þess sem aðalpóstleiðin liggur víðast þvert yfir þau, fáum að liði. Í stað þess að samþykkja nefnt frumvarp, veitti þingið á næsta fjárhagstímabili 60.000 kr. til að halda fram vegagjörð á 6 álna breiða póstveginum. Þetta er svo mikið fé, að nægja mundi til að kaupa lítið gufuskip fyrir, landsmönnum til meiri hagnaðar en 6 álna breiður póstvegur; má vera að einhverju af þessu fé verði varið til brúagerða yfir stór ár, en sé það ekki, þá eru þetta of þungar útgjaldatölur. Aðalpóstleiðirnar ættu aðeins að riðjast, svo vel yrðu hestfærar. Meira megum vér ekki hugsa að svo stöddu, en leggja alla áhersluna á áðurnefndar flutningsbrautir, líka nauðsynlegt að gjöra fjölfarna fjallvegi hestfæra enda þótt ekki sé póstleið.
Það þarf að leggja meiri áherslu en hingað til hefur verið, á að bæta hreppavegina, það er hörmung að komast ekki til kirkju eða bæja í milli, nema með því að láta hestana vaða milli hnés og kviðar, feni og forræði, eða láta þá klöngrast yfir stórgrýtis hraun og steinkatla; sem með þeim vinnukrafti sem nú er lagður í vegi þessa, verða þeir víða aldrei nema ófærir.
Til að bæta úr þessu er naumast annar vegur en sá, að unnið sé heilt dagsverk fyrir hvern verkfæran mann á landinu. Þetta er ekki tilfinnanlegt fyrir þá sem þessu verki eiga að ljúka, og bændum ætti að vera ljúft að eyða einu dagsverki af 365 til að bæta ögn vegina er þeir brúka sjálfir og sem er kveljandi fyrir vesalings hestana þeirra að fara um. Í þeim hreppum sem vegir eru vondir ætti eitthvað af sýslusjóðsgjaldinu að leggjast til hreppaveganna.
Ekki fæ ég séð hvað sýsluvegir hafa að þýða; í stað þeirra ættu fjallvegirnir að vera undir umsjón sýslunefndanna og kostast af sýslusjóðum, líkt og nú er með sýsluvegina. Komist það á, að upp verði teknar að framan áminnstar akbrautir, virðist vegadeilingin nægileg þó sýsluveganafnið hverfi; eins og þegar er sagt, ætti sýsluvegasjóðsgjaldið bæði að ganga til fjallvega og hreppavega; en nóg fyrir landssjóð að taka að sér aðflutningsbrautir og póstveginn, ásamt öllum þeim ám, er brúa þarf.
II.
Það er sorgleg saga en sönn, að ekki erum vér betur komnir með samgöngurnar á sjónum en landi. Þrátt fyrir það þótt vér Íslendingar sjálfir og útlendar þjóðir sjái og viðurkenni, að sjórinn í kringum Ísland er sú aðal samgöngu- og flutningsbraut, sem vér ættum að nota, og þrátt fyrir það, þó vér á ári hverju horfum á gufuskip erlendra þjóða, þjóta fram og aftur kringum strendur landsins, og þræða hverja vík og vog eftir sem þurfa þykir, þá hefir þó löggjafar og fjárveitingarvaldið sáralítið gjört til að bæta úr samgönguleysinu á sjónum. Aðeins með þessum ónógu og óvinsælu strandferðum dönsku gufuskipanna; ekki að tala um því hafi komið til hugar, eða nokkur hafi opinberlega vogað að hreyfa því, að landssjóður eignaðist eitt einasta gufuskip, rétt eins og sú uppástunga væri "óalandi, óferjandi öllum bjargráðum." Það hefir verið og er mín lifandi sannfæring, að hið rétta sem Alþingi hefði gjört strax þá það fékk fjárforræðið, það var að kaupa eitt eða tvö gufuskip, bæði til strandferða og til að fara landa á milli. Hefði þetta verið gjört fyrir 24 árum síðan, mundi landssjóður nú vera búinn að græða eins mikið á skipum sínum, sem hann á sama tíma hefir tapað á strandferðunum, auk þess sem landsmenn hefðu þá fengið greiðari og hagkvæmari strandferðir en verið hafa hingað til.
Á næstliðnum 14 árum er þingið búið að kasta út fyrir strandferðir dönsku gufuskipanna 228.000 kr. og auk þess með fjáraukalögum - ef mig minnir rétt - rúmum 20.000 kr. Fyrir þetta fé hefði mátt kaupa tvö stór gufuskip, sem vafalaust hefði verið búmannlegra, en láta peningahít danskra gufuskipafélagsins gleypa þetta fé; það var viðkunnanlegra að vita þessa peninga í gufuskipum er landið hefði átt, og sjá þau skrautbúin skríða með landi fram. Það er ekki gott að geta sér til, hvað því hefir valdið, að þingið hefir aldrei hreyft því að kaupa gufuskip; fátækt landssjóðs verður ekki um kennt, og þörfina á að fá greiðar og hagkvæmar strandferðir þekkja allir; að slíkt fyrirtæki ekki borgi sig, hefir ef til vill verið sú grýla er þingið hefir óttast, en það mundi naumast verða tilfellið, því ef skipin væru tvö og færu á víxl til útlanda mundu þau fá nóg að flytja, sem er aðalskilyrði fyrir, að slík fyrirtæki borgi sig. Ég get með engu móti fellt mig við þá kenningu er sumir halda fram, að gufuskip ekki geti eins borgað tilkostnaðinn við Ísland sem önnur lönd, og að dönsku strandferðaskipin hafi tapað á ferðum sínum hér við land, en gufuskipafélagið hafi af einberum mannkærleika við Íslendinga haldið hér uppi strandferðum. Sama má segja um norska og enska dampa, sem hér eru stöðugt á ferð, þeir mundu ekki halda þeim ferðum fram ef það væri einbert tap.
Setjum svo, að landsjóður keypti 2 gufuskip á svipaðri stærð sem "Laura" og útgerðarkostnaður beggja á ári yrði 120.000 kr.- meiri er hann naumast - en innvinningur aðeins 90.000 kr.; yrði tapið 30.000 kr., þá er það þó 6.000 kr. minna en það sem þingið veitti í sumar til gufuskipa og gufubátsferða á þessu ári, og jafnt því fé sem það veitti til aðgjörðar á aðalpóstleiðum, svo hér er ekki um neitt óttalegt tap að ræða þó allt færi verr en maður vonar; með því líka það þing sem sér sér fært, að veita fé svo tugum þúsunda skiptir í miður heppilegum smábitlingum, ætti ekki að láta sér í augum vaxa að eignast gufuskip. Vér Íslendingar sem viljum í ýmsum atriðum taka oss snið eftir erlendum þjóðum, sem er ofur eðlilegt, þar þær eru langt á undan oss í öllu, því skyldum vér ekki vilja það í þessu efni, er oss varðar svo miklu.
Ég geng að því sem gefnu, að of umsvifamikið þyki fyrir landsstjórnina, að annast gufuskipaúthald og hún sé ekki inn í því sem þyrfti, en þá er henni eða þinginu innan handar, að fá einhvern sem slíku er vaxinn í félag, t. d. Zölner, O. Wathne eða íslenskt gufuskipafélag er ég tel víst að myndast mundi ef von væri á töluverðu fé í því augnamiði. Orsökin, að slík félög ekki komast á fót, er bæði peningaleysi, og þröngsýni þeirra manna að kenna sem kraftinn hafa.
III.
Eins og því verður ekki neitað að Alþingi hefir að undanförnu sáralítið gjört til að bæta samgöngur með ströndum landsins, eins verður því og ekki neitað að það hefir í sumar er leið, látið sér einkar annt um að bæta úr þessari miklu þörf þjóðarinnar, en hér fór sem oft vill verða, að "sínum augum lítur hver á silfrið", þingmenn gátu hér ekki orðið á eitt sáttir, og varð því ályktun þingsins í þá átt ekki svo heppileg sem skyldi; að vísu veitti það í þetta sinn á fjárhagstímabilinu 1892 og 93 til gufuskipa og gufubátaferða 72.000 kr.; þetta er töluvert fé, svo ætla mætti, vér fengjum nú góðar og hagkvæmar strandferðir, enda er áætlun sú sem þingið samdi stór endurbót frá því er verið hefir; en "sá galli er á gjöf Njarðar" að enginn treystist að taka ferðirnar að sér, sem líklega kemur meir til af því, að sumir þeir staðir sem nefndir eru í áætlun þingsins þykja óviðfeldnir viðkomustaðir, en hinn, að féð sem til ferðanna er veitt sé of lítið. Hefði landið sjálft átt gufuskip, þá var fyrst vissa fengin fyrir því, að fjárveitingin yrði að til ætluðum notum og áætlun þingsins fylgt. Enn sem fyrr staðfestir reynslan þann sannleik, að svo lengi sem vér ekki höfum ráð á gufuskipum, svo lengi verðum vér að sætta oss við óhagkvæmar og ónógar strandferðir. Á hinn bóginn virðist það mjög óheppilega ráðið af þinginu að hafna tilboði O. Wathne, því ferðir hans mundu hafa orðið landsmönnum einkar hagkvæmar, og af þeirri einföldu ástæðu þeim 10.000 kr. sem hann óskaði sér veittar, vel farið.
Fjárveiting þingsins til gufubátaferða, mætir misjöfnum dómum eins og flest sem gjört er. Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að jafn litlir bátar, sem hér er um að ræða, gjöri lítið gagn og svari ekki kostnaði. Ég skal ekki neita því, að stórir bátar á stærra svæði borgi sig betur, en þegar þess er gætt, á hve marga viðkomustaði strandferðaskipin eiga að koma eftir áætlun þingsins, þá fæ ég ekki séð hvað stórir gufubátar hafa að þýða, þar allt hið verulega mátti fá flutt með strandferðaskipunum. Þingið hefir að mínu áliti gjört sitt besta til í þessu efni, aðeins ætlast til að bátarnir væru látnir skríða með landi fram fjarða á milli, með beitu o. s. frv. sem gæti orðið einkar hagkvæmt og þægilegt fyrir alla þá er búa með ströndum fram og fleiri. Það er vonandi að sýslunefndirnar, sem eiga að sjá um, að bátarnir fáist, láti hvorki eigingirni né annað verra drepa þennan litla framfara neista, sem með tíð og tíma - ef vel er áhaldið - gæti orðið að fögru frelsisljósi fyrir framtíðina.


Austri, 30. mars. 1892, 2. árg., 9. tbl., bls. 34:

Um samgöngumálið.
Eftir Ara Brynjólfsson á Heyklifi.
I.
Allar þær þjóðir sem lengst eru komnar í frelsi framförum og allri fullkomnun í andlegum og líkamlegum efnum, hafa látið, og láta sig mestu skipa, að efla samgöngur sínar bæði til lands og sjávar, þær leggja á ári hverju stórfé til járnbrautalagninga, sem þandar eru eins og net út yfir löndin, og gufuskipin þjóta um höfin, inn á hverja vík og vog; þær sjá og hafa reynt það, að greiðar og hagkvæmar samgöngur eru eins nauðsynlegar fyrir þjóðfélagið, sem blóðrásin fyrir líkama mannsins, því eins og hann ekki getur þrifist nema blóðrásin sé í lagi, eins getur heldur ekki þjóðlíkaminn þrifist nema samgöngurnar séu greiðar og fjörugar. En hvað sjáum vér Íslendingar í þessu efni? Vér höfum sofið sætt og vært á kodda andvaraleysisins. Það er aðeins fyrir fáum árum, að vér erum farnir að rumskast, og ögn að hugsa um samgöngur vorar, en sú hugsun hefir enn ekki komið að þeim notum, sem krafa tímans og þörf þjóðarinnar heimtar.
Það sætir furðu hve sáralítið hefir verið ritað um þetta mikilvæga málefni, það eina verulega, sem ritað hefir verið um það í dagblöðum, eru hinar ágætu ritgjörðir í "Ísafold" 1890, eftir Jens prest Pálsson; í þeim sýnir hann fram á, að hið eina sem bætt geti úr erfiðum aðdráttum, sé, að lagðar verði akbrautir upp fjölbyggðustu héruð landsins; það er líka vafalaust hið helsta, sem létt getur ofurlítið af oss flutningsfarginu, en þá verður að breyta lögunum um vegi.
Síðan Alþingi fékk löggjafarvaldið, hefir það samið tvenn lög um vegi hér á landi, þau fyrri 1875, hin síðari 1887; eftir þeim skulu allir aðalpóstvegir gjörðir akfærir með 6 álna breiðum vegi; þetta sýnir viðleitni þingsins á að bæta samgöngur vorar, en þessi lög eru óhafandi og þurfa því að breytast til batnaðar. Það hljóta allir að sjá og viðurkenna, að vér erum ekki að svo stöddu því vaxnir að leggja 6 álna breiða akvegi á öllum aðalpóstleiðum, að vér með engu móti getum beðið eftir slíkum vegi, þótt hann kynni einhvern tíma að komast á, sem ég efa stórlega, og loks að vér alls ekki viljum láta þennan aðalpóstveg sitja í fyrirrúmi fyrir öðru lífsnauðsynlegu, slíkt væri til að láta eftirkomendurna hlæja að heimsku vorri. Enda verður því ekki neitað, að það er næsta hlægilegt, ef vér látum leggja hér um 200 mílna langan og 6 álna breiðan akveg, aðeins fyrir póstinn nokkrum sinnum á ári og stöku ferðamenn, en horfum á mikinn part þjóðarinnar flytja alla þungavöru sína sitt hvorumegin hesthryggjar. Hitt virðist liggja nær, að á landssjóðskostnað verði lagðar akbrautir frá kaupstöðum og kauptúnum upp fjölbyggð héruð, slíkt mundi gera ómetanlegt gagn fyrir alda og óborna. Það er vonandi og óskandi að þingið breyti sem fyrst veglögunum í þessa átt, en láti ekki póstveginn gleypa fleiri þúsundir króna á ári hverju, þjóðinni til lítils gagns og sóma.
Auk þeirra 60.000 kr. sem þingið veitti í sumar til að bæta aðalpóstleiðirnar, hefir þessi vegur á næstl. 14 árum upp etið um 250.000 kr., en nál. 300.000 kr. með því sem veitt var til Ölfusárbrúarinnar. Hefði miklu af þessu fé verið varið til að gjöra akvegi upp fjölbyggðustu héruð landsins, mundi nú öðruvísi á að líta; í stað hestanna með kveljandi klyfjar, mætti sjá vagnarunur með hestum fyrir, fulla af fólki og flutningi; þá spöruðust hestar og þá sparaðist tími, sem hvorutveggja eru peningar. Allir vita, hve dýrt er að hafa marga hesta á heyjum og í högum; allir vita, hve erfitt og kveljandi það er fyrir vesalings hestana að bera á fimmta hundrað pund langar leiðir yfir feni og forræði, og allir vita, hve leitt og erfitt það er fyrir mann sjálfan að dragast með marga áburðarhesta oft í misjafnri tíð og færð. En þrátt fyrir alla þá erfiðismuni sem allir aðdrættir hafa í för með sér, og þrátt fyrir það þótt öllum ætti að liggja í augum uppi, að ákvæði vegalaganna 1887 um aðalpóstvegina sé óhafandi, og þrátt fyrir það þó landsmenn stynji undir vegleysis farginu og líti vonaraugum til löggjafarvaldsins, þóknaðist þó þinginu í sumar, að fella frumvarp það um vegi, er séra Jens Pálsson kom fram með, sem í öllum aðalatriðum var mjög heppilegt og sem hafði þann aðalkost, að eftir því áttu akbrautir að leggjast upp fjölbyggð héruð, í stað þess sem aðalpóstleiðin liggur víðast þvert yfir þau, fáum að liði. Í stað þess að samþykkja nefnt frumvarp, veitti þingið á næsta fjárhagstímabili 60.000 kr. til að halda fram vegagjörð á 6 álna breiða póstveginum. Þetta er svo mikið fé, að nægja mundi til að kaupa lítið gufuskip fyrir, landsmönnum til meiri hagnaðar en 6 álna breiður póstvegur; má vera að einhverju af þessu fé verði varið til brúagerða yfir stór ár, en sé það ekki, þá eru þetta of þungar útgjaldatölur. Aðalpóstleiðirnar ættu aðeins að riðjast, svo vel yrðu hestfærar. Meira megum vér ekki hugsa að svo stöddu, en leggja alla áhersluna á áðurnefndar flutningsbrautir, líka nauðsynlegt að gjöra fjölfarna fjallvegi hestfæra enda þótt ekki sé póstleið.
Það þarf að leggja meiri áherslu en hingað til hefur verið, á að bæta hreppavegina, það er hörmung að komast ekki til kirkju eða bæja í milli, nema með því að láta hestana vaða milli hnés og kviðar, feni og forræði, eða láta þá klöngrast yfir stórgrýtis hraun og steinkatla; sem með þeim vinnukrafti sem nú er lagður í vegi þessa, verða þeir víða aldrei nema ófærir.
Til að bæta úr þessu er naumast annar vegur en sá, að unnið sé heilt dagsverk fyrir hvern verkfæran mann á landinu. Þetta er ekki tilfinnanlegt fyrir þá sem þessu verki eiga að ljúka, og bændum ætti að vera ljúft að eyða einu dagsverki af 365 til að bæta ögn vegina er þeir brúka sjálfir og sem er kveljandi fyrir vesalings hestana þeirra að fara um. Í þeim hreppum sem vegir eru vondir ætti eitthvað af sýslusjóðsgjaldinu að leggjast til hreppaveganna.
Ekki fæ ég séð hvað sýsluvegir hafa að þýða; í stað þeirra ættu fjallvegirnir að vera undir umsjón sýslunefndanna og kostast af sýslusjóðum, líkt og nú er með sýsluvegina. Komist það á, að upp verði teknar að framan áminnstar akbrautir, virðist vegadeilingin nægileg þó sýsluveganafnið hverfi; eins og þegar er sagt, ætti sýsluvegasjóðsgjaldið bæði að ganga til fjallvega og hreppavega; en nóg fyrir landssjóð að taka að sér aðflutningsbrautir og póstveginn, ásamt öllum þeim ám, er brúa þarf.
II.
Það er sorgleg saga en sönn, að ekki erum vér betur komnir með samgöngurnar á sjónum en landi. Þrátt fyrir það þótt vér Íslendingar sjálfir og útlendar þjóðir sjái og viðurkenni, að sjórinn í kringum Ísland er sú aðal samgöngu- og flutningsbraut, sem vér ættum að nota, og þrátt fyrir það, þó vér á ári hverju horfum á gufuskip erlendra þjóða, þjóta fram og aftur kringum strendur landsins, og þræða hverja vík og vog eftir sem þurfa þykir, þá hefir þó löggjafar og fjárveitingarvaldið sáralítið gjört til að bæta úr samgönguleysinu á sjónum. Aðeins með þessum ónógu og óvinsælu strandferðum dönsku gufuskipanna; ekki að tala um því hafi komið til hugar, eða nokkur hafi opinberlega vogað að hreyfa því, að landssjóður eignaðist eitt einasta gufuskip, rétt eins og sú uppástunga væri "óalandi, óferjandi öllum bjargráðum." Það hefir verið og er mín lifandi sannfæring, að hið rétta sem Alþingi hefði gjört strax þá það fékk fjárforræðið, það var að kaupa eitt eða tvö gufuskip, bæði til strandferða og til að fara landa á milli. Hefði þetta verið gjört fyrir 24 árum síðan, mundi landssjóður nú vera búinn að græða eins mikið á skipum sínum, sem hann á sama tíma hefir tapað á strandferðunum, auk þess sem landsmenn hefðu þá fengið greiðari og hagkvæmari strandferðir en verið hafa hingað til.
Á næstliðnum 14 árum er þingið búið að kasta út fyrir strandferðir dönsku gufuskipanna 228.000 kr. og auk þess með fjáraukalögum - ef mig minnir rétt - rúmum 20.000 kr. Fyrir þetta fé hefði mátt kaupa tvö stór gufuskip, sem vafalaust hefði verið búmannlegra, en láta peningahít danskra gufuskipafélagsins gleypa þetta fé; það var viðkunnanlegra að vita þessa peninga í gufuskipum er landið hefði átt, og sjá þau skrautbúin skríða með landi fram. Það er ekki gott að geta sér til, hvað því hefir valdið, að þingið hefir aldrei hreyft því að kaupa gufuskip; fátækt landssjóðs verður ekki um kennt, og þörfina á að fá greiðar og hagkvæmar strandferðir þekkja allir; að slíkt fyrirtæki ekki borgi sig, hefir ef til vill verið sú grýla er þingið hefir óttast, en það mundi naumast verða tilfellið, því ef skipin væru tvö og færu á víxl til útlanda mundu þau fá nóg að flytja, sem er aðalskilyrði fyrir, að slík fyrirtæki borgi sig. Ég get með engu móti fellt mig við þá kenningu er sumir halda fram, að gufuskip ekki geti eins borgað tilkostnaðinn við Ísland sem önnur lönd, og að dönsku strandferðaskipin hafi tapað á ferðum sínum hér við land, en gufuskipafélagið hafi af einberum mannkærleika við Íslendinga haldið hér uppi strandferðum. Sama má segja um norska og enska dampa, sem hér eru stöðugt á ferð, þeir mundu ekki halda þeim ferðum fram ef það væri einbert tap.
Setjum svo, að landsjóður keypti 2 gufuskip á svipaðri stærð sem "Laura" og útgerðarkostnaður beggja á ári yrði 120.000 kr.- meiri er hann naumast - en innvinningur aðeins 90.000 kr.; yrði tapið 30.000 kr., þá er það þó 6.000 kr. minna en það sem þingið veitti í sumar til gufuskipa og gufubátsferða á þessu ári, og jafnt því fé sem það veitti til aðgjörðar á aðalpóstleiðum, svo hér er ekki um neitt óttalegt tap að ræða þó allt færi verr en maður vonar; með því líka það þing sem sér sér fært, að veita fé svo tugum þúsunda skiptir í miður heppilegum smábitlingum, ætti ekki að láta sér í augum vaxa að eignast gufuskip. Vér Íslendingar sem viljum í ýmsum atriðum taka oss snið eftir erlendum þjóðum, sem er ofur eðlilegt, þar þær eru langt á undan oss í öllu, því skyldum vér ekki vilja það í þessu efni, er oss varðar svo miklu.
Ég geng að því sem gefnu, að of umsvifamikið þyki fyrir landsstjórnina, að annast gufuskipaúthald og hún sé ekki inn í því sem þyrfti, en þá er henni eða þinginu innan handar, að fá einhvern sem slíku er vaxinn í félag, t. d. Zölner, O. Wathne eða íslenskt gufuskipafélag er ég tel víst að myndast mundi ef von væri á töluverðu fé í því augnamiði. Orsökin, að slík félög ekki komast á fót, er bæði peningaleysi, og þröngsýni þeirra manna að kenna sem kraftinn hafa.
III.
Eins og því verður ekki neitað að Alþingi hefir að undanförnu sáralítið gjört til að bæta samgöngur með ströndum landsins, eins verður því og ekki neitað að það hefir í sumar er leið, látið sér einkar annt um að bæta úr þessari miklu þörf þjóðarinnar, en hér fór sem oft vill verða, að "sínum augum lítur hver á silfrið", þingmenn gátu hér ekki orðið á eitt sáttir, og varð því ályktun þingsins í þá átt ekki svo heppileg sem skyldi; að vísu veitti það í þetta sinn á fjárhagstímabilinu 1892 og 93 til gufuskipa og gufubátaferða 72.000 kr.; þetta er töluvert fé, svo ætla mætti, vér fengjum nú góðar og hagkvæmar strandferðir, enda er áætlun sú sem þingið samdi stór endurbót frá því er verið hefir; en "sá galli er á gjöf Njarðar" að enginn treystist að taka ferðirnar að sér, sem líklega kemur meir til af því, að sumir þeir staðir sem nefndir eru í áætlun þingsins þykja óviðfeldnir viðkomustaðir, en hinn, að féð sem til ferðanna er veitt sé of lítið. Hefði landið sjálft átt gufuskip, þá var fyrst vissa fengin fyrir því, að fjárveitingin yrði að til ætluðum notum og áætlun þingsins fylgt. Enn sem fyrr staðfestir reynslan þann sannleik, að svo lengi sem vér ekki höfum ráð á gufuskipum, svo lengi verðum vér að sætta oss við óhagkvæmar og ónógar strandferðir. Á hinn bóginn virðist það mjög óheppilega ráðið af þinginu að hafna tilboði O. Wathne, því ferðir hans mundu hafa orðið landsmönnum einkar hagkvæmar, og af þeirri einföldu ástæðu þeim 10.000 kr. sem hann óskaði sér veittar, vel farið.
Fjárveiting þingsins til gufubátaferða, mætir misjöfnum dómum eins og flest sem gjört er. Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að jafn litlir bátar, sem hér er um að ræða, gjöri lítið gagn og svari ekki kostnaði. Ég skal ekki neita því, að stórir bátar á stærra svæði borgi sig betur, en þegar þess er gætt, á hve marga viðkomustaði strandferðaskipin eiga að koma eftir áætlun þingsins, þá fæ ég ekki séð hvað stórir gufubátar hafa að þýða, þar allt hið verulega mátti fá flutt með strandferðaskipunum. Þingið hefir að mínu áliti gjört sitt besta til í þessu efni, aðeins ætlast til að bátarnir væru látnir skríða með landi fram fjarða á milli, með beitu o. s. frv. sem gæti orðið einkar hagkvæmt og þægilegt fyrir alla þá er búa með ströndum fram og fleiri. Það er vonandi að sýslunefndirnar, sem eiga að sjá um, að bátarnir fáist, láti hvorki eigingirni né annað verra drepa þennan litla framfara neista, sem með tíð og tíma - ef vel er áhaldið - gæti orðið að fögru frelsisljósi fyrir framtíðina.