1891

Ísafold, 28.mars 1891, 18. árg., 25. tbl., forsíða:

Brúargæsla, vegir og brúargjald.
eftir Tryggva Gunnarsson
I.
Margir sögðu við mig síðastliðið sumar, að þeim fyndist það bæði of dýrt og óþarft, að hafa gæslumann við brúna á Ölvesá, þegar hún er komin yfir hana.
Ég svaraði þeim því, að það væri þá nokkuð ólíkt með þessa brú og flesta aðra hluti; því fáir mundu þeir eigendur, sem vildu lána bát sinn eða smákofa almenningi til afnota án gæslumanns, auk heldur skip, stórhýsi eða byggingar, sem kosta mörg þúsund krónur.
Ég held þessir menn hafi gleymt því, "að eigi er minna um vert að gæta fengins fjár en afla þess". Sunnlendingar muna líklega hvernig gekk með sæluhúsið á Kolviðarhóli, meðan enginn var til að gæta þess; og margir, sem ferðast hafa til Austurlandsins, hafa séð sæluhúsið við Jökulsá.
Ég hef líka, eins og margir aðrir, séð meðferðina á brúm þeim, sem þegar eru komnar upp á norður- og austurlandi. Einu sinni var ég á ferð með mörgum öðrum, og komum við að brú, sem nýbúið var að leggja yfir á; nokkrir kvenmenn voru í hópnum, og höfðu þær orð á því, að þær mundi sundla, er þær færu yfir brúna. "En sú hræðsla", sögðu nokkrir unglingar, sem voru í hópnum; "við skulum sýna ykkur hvort við erum smeykir" og svo skelltu þeir undir nára og fóru á harða stökki, í kappreið, yfir brúna. Í annað sinn var ég á ferð með öðrum og rákum við á undan okkur um 200 hesta lausa. Þegar að brúnni kom, fór fylgdarmaðurinn að herða reiðina og ætlaði að reka hestana á harða stökki yfir brúna, en ég komst fram fyrir hestana og vítti hann harðlega. Það er lítið hugrekki sýnt með því, þótt hart sé riðið yfir brýrnar, en það er bæði gapsháttur og fáfræði.
Brúin yfir fjörðinn Firth of Forth á Skotlandi er hin stærsta og dýrasta brú, sem enn hefir verið gjörð; mig minnir að hún kostaði 7 milljónir punda sterling. Þegar hún var vígð, var mælt fyrir minni brúarsmiðsins og gjörði það frægur byggingameistari; hann sagði að með stórsmíð þessu hefði hann gjört landi sínu hið þarfasta verk, ef brúarinnar væri gætt; en væri það trassað, þá væru öllu þessu mikla fé varpað í sjóinn.
Og þetta er eflaust satt
Hver maður með dálítilli umhugsun hlýtur að sjá, að hve sterk sem brúin er, þá hlýtur hún að skemmast í öllum samskeytum við mikinn hristing, þó lítið sé í hvert skipti; en safnast þegar saman kemur, þá tímar líða. Hristingur á járnbrúm er þó langtum skaðlegri en á trébrúm, því járnið hefir þann eiginlegleika, að það hrekkur eins og gler í frosti. Hér í Danmörku var í vetur um tíma 4-8 stiga frost, og þá leið varla sá dagur, að járnteinar þeir, er gufuvagnarnir runnu á, brotnuðu ekki á 3-4 stöðum, þótt þeir lægju á sterkum trjám og sléttum grundvelli, hvað þá ef .þeir hefðu legið á huldu eins og brúin á Ölfusá. Mörg þús. naglar verða í brúnni, sem allir hljóta að slitna lítið eitt í hvert skipti, sem núningur fram kemur við mikinn hristing, og þar af leiðandi endast skemur.
Landssjóður hefir lagt til brúarinnar, sem öll er úr járni 40.000 kr., og Sunnlendingar 20.000 kr. Væri það þá ekki hörmulegt, ef einhver sólargapi af monti og heimsku skemmdi hann og bryti niður, með því að reka marga hesta yfir hana á harða stökki í grimmdarfrosti, svo ærið fé þyrfti til þess að kosta, að gjöra við hana aftur? Mér þætti þá gaman að eiga til við þá menn, sem ég nefndi í upphafi greinarinnar, og spyrja þá, hvort það hefði ekki verið kostnaðarminna að hafa gæslumann við brúna, til þess að vernda hana fyrir illri meðferð manna og áhrifum loftsins.
Hvar sem farið er um útlönd, standa lögregluþjónar við báða brúarsporða á öllum stærri brúm, og skrifa upp til sekta alla þá, er fara með hesta yfir brýrnar harðara en fót fyrir fót, enda þótt þær séu 10 sinnum sterkari en Íslendingar hafa efni á að gjöra brýr sínar; ég er sannfærður um, að enginn hefði í nokkru öðru landi en Íslandi komist hjá miklum fjárútlátum, sem riðið hefði yfir brú eins glannalega og þeir, sem ég gat um að framan.
Mikill áhugi er nú vaknaður á Íslandi til þess að gjöra brýr og betri vegi, og er það sannarlega lofs vert. En áhuginn er, því miður, að tiltölu jafn-lítill til þess að halda þeim við. Ég hef riðið yfir marga vegarspotta, sem ekki hefði kostað 100 kr. að gjöra við, ef það hefði verið gjört þá þegar. En svo var því frestað 2-3 ár, þangað til það var orðinn mannhætta að fara um veginn, og þá kostaði vegabótin 500-1000 kr. Eins er með brýrnar, sé það ekki bætt í tíma, sem aflögu fer, þá getur viðgjörðarkostnaðurinn margfaldast. Flestir þekkja, hve fljótt járn ryðgar, ef það liggur bert í vætu; er því nauðsynlegt að mála jafnóðum hvern blett á brúnni, sem farfinn slitnar af; en þetta getur dregist, ef ekki er duglegur gæslumaður. Ég vil ekki ásaka yfirvöldin og þá, sem brúnna eiga að gæta, fyrir það, að seint hafi gengið að kítta í rifur á brúartrjánum, svo vatnið ekki komist inn í þau, eða að mála þau, til þess að verja þau fúa; en víst er um það, að ekki er enn búið að festa upp við brúarsporðinn á einni einustu brú norðan- eða austanlands auglýsingu um það, að mönnum sé bannað að fara harðar yfir brúna en fót fyrir fót, eða misbjóða þeim á annan hátt. Ég hef farið nýlega yfir þær allar.
Af því það er svo lítill áhugi á Íslandi á viðhaldi vega og brúa, þá held ég væri vel til fallið, að þingið veitti ákveðna upphæð til viðhalds veganna. Þeim mönnum, sem hafa ferðast yfir landið, mun hafa sárnað, ekki síður en mér, að sjá, hversu nýir vegir verða því nær ófærir á fáum árum vegna viðhaldsleysis.
Hvað hitt atriðið snertir, kostnaðinn við brúargæsluna, þá er hægt að vera fáorður um það, því hver meðalhygginn maður getur séð, að kostnaðurinn t.d. við gæslu á Ölfusárbrúnni þarf ekki að vera stór.
Ef landsstjórnin reisir hús fyrir fé landssjóðsins- eða kaupir hús, sem þegar er upp komið við brúarsporðinn og eigi þarf að kosta fullgert nema 3.000 kr.-, lánar svo húsið leigulaust og gefur manni veitingaleyfi og lausn frá öllum gjöldum til landssjóðs, þá munu margir sækja um þá stöðu, þó þeir eigi að gæta brúarinnar í öllum greinum án frekara endurgjalds, enda er það álitleg staða, einkum ef hann getur keypt land öðruhvoru megin árinnar og fær leyfi til að selja allan þann greiða, er efni hans leyfa; yrði þá kostnaður landssjóðs árlega ekki nema 5% af 3.000 kr. eða 150 kr., því ákveðna leiguliðabót af húsinu fyrir fyrning og skemmdum ætti brúarvörður að greiða. Það yrði líka landinu til sóma, ef góður viðtökustaður væri við brúna, einkum fyrir útlenda ferðamenn.
Íslendingar gjöra allt of lítið til þess, að laða útlendinga til Íslands. Norðmenn verja árlega stórfé til þess, að fá til sína sem flesta útlenda ferðamenn, og jafnvel Danir, sem engin náttúruafbrigði hafa í landi sínu, verja til þess allmiklu fé. En því miður eru Íslendingar á eftir í því, eins og svo mörgu öðru, sem bætt gæti efnahag manna. Útlendingar koma mest til Íslands til þess að sjá Heklu og Geysi, en leiðin þangað frá Reykjavík getur legið yfir Ölvesárbrúna, og væri því hyggilegt af stjórn landsins og þeim sem búa í nánd við þessa leið, að laða útlenda ferðamenn til sín; en því verður best náð með sanngjörnum viðskiptum og ákveðnum föstum áfangastöðum.
Í Noregi eru ákveðnir fastir áfangastaðir fyrir innlenda og útlenda ferðamenn, með 3-6 mílna milli. Húsbóndinn er skyldur til að hafa hús og rúm fyrir tiltekna gestatölu auk þess hesta og smávagna handa gestunum m.m., og þetta verður hann að láta í té fyrir ákveðið verð, en svo er hann laus við öll gjöld til almenningsþarfa og undanþeginn því að senda syni sína til herþjónustu og landvarnar m.m.
Hvað gerir alþingi og landstjórn fyrir þá, sem í þjóðbraut búa og þá sem um þjóðbraut fara?
Ég veit þess eitt dæmi, að maður einn á Suðurlandi, sem bjó í þjóðbraut við fjallveg hefir fengið styrk til þess að standast gestagang og byggja gestaskála; en yfir þessu er þagað, í stað þess að gera það heyrum kunnugt, því það er stjórn landsins til sóma, að bera þannig umhyggju fyrir þörfum ferðamanna; það er sæmd fyrir landið, að styrkt sé til þess, að viðunanlegir viðtökustaðir séu til fyrir ferðamenn, einkum við fjallvegi, og fyllsta réttlæti gagnvart þeim mönnum, sem búa í þjóðbraut og við fjallvegi, að þeim sé veitt einhver ívilnun, fyrir átroðning og beina þann, er þeir veita ferðamönnum dögum saman, til þess að stofna ekki lífi þeirra í hættu í tvísýnu veðri og á illum fjallvegum.
II.
(síðari kafli).
Þegar landssjóður er búinn að leggja margar brýr, annaðhvort að öllu leyti eða að mestum hluta, þá þarf hann að viðhalda þeim að öllu leyti eða að réttri tiltölu, og svo síðan gera þær aftur að nýju, þegar þær eru orðnar affarafé. Hversu mikið gjald verður ekki þetta? Vilja menn leggja þetta gjald á sig og eftirkomendurna, til þess að margir óviðkomandi menn geti fengið gefins ferð yfir flestar stærri ár á landinu? Er ekki nær að mynda brúarsjóði fyrir fargjald ferðamanna, sem taka mætti af viðhaldskostnað og síðan verja til þess að endurreisa brýrnar?
Það er fullkomin þörf á því, að fara að byrja stofnun slíkra sjóða til þarflegra fyrirtækja í landinu, eins og gert er um öll lönd. Það er miklu hentugra en að demba öllu á landssjóð, sem þá getur ekki staðist nema með nýjum álögum á bændur.
Ég hygg, að meiri hluti þingmanna og margir málsmetandi menn hafi óbeit á brúargjaldi; en engu að síður vil ég skýra frá, hver rök álit mitt hefir við að styðjast, og þó menn ekki vilji taka þau til greina, þá getur verið að menn sjái það seinna, að ég hefi ekki svo rangt fyrir mér í þessu efni.
Ég er sannfærður um, að það er bæði sanngjarnt og nauðsynlegt, að taka brúargjald af Ölvesárbrúnni og öllum stærri brúm, sem hér eftir verða gerðar á Íslandi.
Aðalástæðan er sú, að landið er stórt, strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf, ef veruleg framför á að verða í samgöngum í landinu sjálfu. Það er auðséð, að landssjóði er ofvaxið að leggja brýr þessar allar, og skaðlegt er fyrir landsbúa í ýmsum héruðum að bíða með nauðsynlegar brúargerðir, þar til þingið álítur sér fært að verja svo tugum þúsunda króna skiptir gefins til nýrra brúargerða. Margir menn og hestar geta verið drukknaðir áður en sá tími kemur. Auk þess sé ég ekkert réttlæti í því, að menn á Hornströndum, Langanesi eða undir Jökli séu að leggja fé í landssjóð til þess að menn geti farið kostnaðarlaust yfir Ölvesá í Flóa eða Þjórsá eða Blöndu, og þaðan af síður sé ég ástæðu til þess, að útlendir ferðamenn eða útlendir hesta- og fjárkaupamenn með stóra hópa af hestum og sauðum fari kostnaðarlaust yfir ána á brúnni við Selfoss, þegar margir innlendir þurfa að borga ferjur yfir ána ofar og neðar, og eiga þó á hættu hesta og aðrar eignir.
Mér sýnist, að þeir, sem yfir brúna fara, hafi talsverðan hag í samanburði við þá, sem þurfa að fá ferju, þó þeir þurfi að greiða jafnhátt gjald eins og ferjutollurinn er fyrir ofan og neðan, því þeir komast hjá tímamissi við það, að bíða við ána í krapaförum um vetrartímann og í ófærum vöxtum á vorin. Þeir eru lausir við þá tímatöf, að spretta af hestum og búa upp á aftur, og lausir við alla hættu.
Ég vona, að menn sjái það fyr eða síðar, að þetta er sanngjarnt; en þó tel ég það engan veginn þýðingarmest, heldur hitt, að landssjóði er ofvaxið að leggja allar þær brýr í landinu, sem fyllsta nauðsyn er á að fá sem fyrst, ásamt að viðhalda þeim, og að með þeim hætti komast brýr seinna á árnar.
Mér þætti gaman að því, að fá rökstutt svar upp á það, hvort nokkur ástæða sé til þess, að ferðamenn hefðu á móti því að greiða fargjald fyrir hættulausa og fljóta ferð yfir stórár á brúm, fremur en á ferju, sem bæði er seinlegri og hættumeiri, eða hvort landssjóði, ömtum eða sýslufélögum sé fremur skylt að leggja brýr yfir ár til ókeypis yfirferðar en ferjur. Ef ferjur væru á öllum póstvegum til ókeypis afnota fyrir ferðamenn, þá væri það samkvæmni; en enginn fer fram á það: og því sé ég ekki samkvæmni hjá þeim, sem eru á móti brúargjaldi.
Ég býst við að mér verði svarað því, að það sé umfangsmikið og kostnaðarsamt að heimta brúartoll. Ég svara undir eins fyrirfram nei.
Hvernig fara aðrar þjóðir að með járnbrautargjald og sporvagna?
Því er svo fyrir komið, að eigendurnir gefa út kvittunarmiða - 1 þuml. á lengd og ½ þuml. á breidd - sem er kvittun fyrir því, að ferðamaðurinn hafi greitt fargjaldið, og þessum miða heldur hann þar til ferðinni er lokið. Á líkan hátt ættum vér að fara að. Landstjórnin gefur út 50-100 þúsund af álíka smámiðum, og um leið semur alþingi lög um hegningu fyrir fölsun á þeim, samkvæmt því ef bankaseðlar eru falsaðir eða peningar slegnir og seldir. Þessir miðar eru svo. t. d. hvað Ölvesárbrúna snertir, til sölu í öllum verslunum í Reykjavík, Eyrarbakka og öðrum kauptúnum sunnanlands; sömuleiðis hjá brúarverðinum sjálfum. Miða þessa- eða frímerki - kaupa svo allir ferðamenn, eins og annan varning eða frímerki á sendibréf, og afhenda þau brúarverði, þegar þeir nota brúna. Þannig er farið að á járnbrautarvögnum og sporvögnum um allan heim, og ætti ekki að vera meiri vandi að heimta fargjald hjá 70 þús. manna á Íslandi, en 700.000.000 um öll þau siðuðu lönd. Svik á sölu miða þessara geta varla komið fyrir nema hjá brúarverðinum. Þarf því að velja vandaðan mann til þessa starfa og setja með lögum þunga hegningu fyrir undanbrögð.
Útgáfa þessara brúargjaldsmiða þarf ekki að kosta landssjóð eða aðra eigendur brúnna annað en prentun og sölulaun, því það ætti að vera skylda brúarvarðar, að heimta brúargjaldið, gegn þeim hlunnindum sem að framan eru nefnd.
Ég álít, að hæfilegt fargjald yfir Ölvesárbrú sé 10 a. fyrir lausríðandi mann og 10 a. fyrir klyfjahest, 5 a. fyrir gangandi mann og 5 a. fyrir lausan hest, og 2 a. fyrir sauðkind. Með þessu mundi safnast þó nokkurt fé. Þeir, sem vilja fara yfir brúna frá kl. 11 e. m. til kl. 8 f. m. frá veturnóttum til sumarmála, ættu að greiða tvöfalt gjald, og ætti brúarvörður að njóta helmings þess fjár fyrir ómak sitt, því ekki er sanngjarnt að ákveða brúarverði miklu lengri vinnutíma en öðrum, eða að vaka nótt og dag, en skyldur ætti hann að vera að ljúka brúnni upp hvenær sem menn vilja, enda getur það verið nauðsynlegt, þegar menn þurfa að leita læknis eða eiga önnur brýn erindi. Við þessar aukatekjur bætist svo 10% af öllum þeim brúarfrímerkjum, er brúarvörður selur. 10% mega heita sanngjörn sölulaun fyrir alla aðra, er versla með þau.
Ég hef íhugað, hvort hentugra mundi vera, að brúarvörður eða brúareigandi, hver sem það er, ættu brúarvarðarhúsið, og ég hygg það miklu betra, að brúareigandinn sé eigandi hússins, og enda jarðarskika öðruhvoru megin árinnar nálægt því, til afnota fyrir hesta ferðamanna, svo hægt sé að setja brúarverði stólinn fyrir dyrnar og víkja honum frá, ef hann stendur laklega í stöðu sinni; því þó staðan sé ekki vandasöm, þá er það áríðandi, að maðurinn sé ráðvandur og kurteis og hafi nokkur efni eða lánstraust.
Þó ég sé þeirrar skoðunar, að landssjóður ætti ekki að gefa fé til þess, að brúa stórárnar, eða halda brúnum við, heldur að mynda ætti brúarsjóði, þá kemur mér ekki til hugar, að stjórnendur landssjóðs ættu að vera afskiptalausir af brúargjörðarmálum. Landssjóður ætti að vera aðalhjálparhellan til þess að sem flestar brýr komist sem fyrst á, ekki með því að gefa, heldur með því að lána fé með sanngjarnri leigu og langri afborgun. Hann hefir meira lánstraust en nokkur annar, og á honum hvílir skylda til þess, að styrkja öll þau fyrirtæki, sem miða landinu til framfara og fé þarf til, enda á hann hægra með að leggja fé fram, þegar það á að endurgjaldast, en ef það ætti að hverfa að fullu.
Ég vona, að mönnum skiljist nú fyr eða síðar, að þeir, sem fara yfir brýrnar, eru hinir réttu gjaldendur, en ekki þeir, sem aldrei fara yfir þær, og það landssjóður á miklu hægra að styrkja brúargjörð yfir hættulegar ár, án þess að ný gjöld séu lögð á landsmenn, ef það fé, sem hann leggur til brúnna, er lán, en ekki gjöf.
Ég vona líka að lærðum og leikum skiljist, að það er fullkomlega eins áríðandi að viðhalda vegum og brúm, og hlífa þeim fyrir illri meðferð, eins og að gjöra það hvorttveggja af nýju í upphafi, og að kostnaðurinn við brúargæsluna verður að tiltölu margfalt minni með föstum brúarverði, en sá skaði yrði, sé brúin gæslulaus.
Ritað í febrúarm. 1891.


Ísafold, 28.mars 1891, 18. árg., 25. tbl., forsíða:

Brúargæsla, vegir og brúargjald.
eftir Tryggva Gunnarsson
I.
Margir sögðu við mig síðastliðið sumar, að þeim fyndist það bæði of dýrt og óþarft, að hafa gæslumann við brúna á Ölvesá, þegar hún er komin yfir hana.
Ég svaraði þeim því, að það væri þá nokkuð ólíkt með þessa brú og flesta aðra hluti; því fáir mundu þeir eigendur, sem vildu lána bát sinn eða smákofa almenningi til afnota án gæslumanns, auk heldur skip, stórhýsi eða byggingar, sem kosta mörg þúsund krónur.
Ég held þessir menn hafi gleymt því, "að eigi er minna um vert að gæta fengins fjár en afla þess". Sunnlendingar muna líklega hvernig gekk með sæluhúsið á Kolviðarhóli, meðan enginn var til að gæta þess; og margir, sem ferðast hafa til Austurlandsins, hafa séð sæluhúsið við Jökulsá.
Ég hef líka, eins og margir aðrir, séð meðferðina á brúm þeim, sem þegar eru komnar upp á norður- og austurlandi. Einu sinni var ég á ferð með mörgum öðrum, og komum við að brú, sem nýbúið var að leggja yfir á; nokkrir kvenmenn voru í hópnum, og höfðu þær orð á því, að þær mundi sundla, er þær færu yfir brúna. "En sú hræðsla", sögðu nokkrir unglingar, sem voru í hópnum; "við skulum sýna ykkur hvort við erum smeykir" og svo skelltu þeir undir nára og fóru á harða stökki, í kappreið, yfir brúna. Í annað sinn var ég á ferð með öðrum og rákum við á undan okkur um 200 hesta lausa. Þegar að brúnni kom, fór fylgdarmaðurinn að herða reiðina og ætlaði að reka hestana á harða stökki yfir brúna, en ég komst fram fyrir hestana og vítti hann harðlega. Það er lítið hugrekki sýnt með því, þótt hart sé riðið yfir brýrnar, en það er bæði gapsháttur og fáfræði.
Brúin yfir fjörðinn Firth of Forth á Skotlandi er hin stærsta og dýrasta brú, sem enn hefir verið gjörð; mig minnir að hún kostaði 7 milljónir punda sterling. Þegar hún var vígð, var mælt fyrir minni brúarsmiðsins og gjörði það frægur byggingameistari; hann sagði að með stórsmíð þessu hefði hann gjört landi sínu hið þarfasta verk, ef brúarinnar væri gætt; en væri það trassað, þá væru öllu þessu mikla fé varpað í sjóinn.
Og þetta er eflaust satt
Hver maður með dálítilli umhugsun hlýtur að sjá, að hve sterk sem brúin er, þá hlýtur hún að skemmast í öllum samskeytum við mikinn hristing, þó lítið sé í hvert skipti; en safnast þegar saman kemur, þá tímar líða. Hristingur á járnbrúm er þó langtum skaðlegri en á trébrúm, því járnið hefir þann eiginlegleika, að það hrekkur eins og gler í frosti. Hér í Danmörku var í vetur um tíma 4-8 stiga frost, og þá leið varla sá dagur, að járnteinar þeir, er gufuvagnarnir runnu á, brotnuðu ekki á 3-4 stöðum, þótt þeir lægju á sterkum trjám og sléttum grundvelli, hvað þá ef .þeir hefðu legið á huldu eins og brúin á Ölfusá. Mörg þús. naglar verða í brúnni, sem allir hljóta að slitna lítið eitt í hvert skipti, sem núningur fram kemur við mikinn hristing, og þar af leiðandi endast skemur.
Landssjóður hefir lagt til brúarinnar, sem öll er úr járni 40.000 kr., og Sunnlendingar 20.000 kr. Væri það þá ekki hörmulegt, ef einhver sólargapi af monti og heimsku skemmdi hann og bryti niður, með því að reka marga hesta yfir hana á harða stökki í grimmdarfrosti, svo ærið fé þyrfti til þess að kosta, að gjöra við hana aftur? Mér þætti þá gaman að eiga til við þá menn, sem ég nefndi í upphafi greinarinnar, og spyrja þá, hvort það hefði ekki verið kostnaðarminna að hafa gæslumann við brúna, til þess að vernda hana fyrir illri meðferð manna og áhrifum loftsins.
Hvar sem farið er um útlönd, standa lögregluþjónar við báða brúarsporða á öllum stærri brúm, og skrifa upp til sekta alla þá, er fara með hesta yfir brýrnar harðara en fót fyrir fót, enda þótt þær séu 10 sinnum sterkari en Íslendingar hafa efni á að gjöra brýr sínar; ég er sannfærður um, að enginn hefði í nokkru öðru landi en Íslandi komist hjá miklum fjárútlátum, sem riðið hefði yfir brú eins glannalega og þeir, sem ég gat um að framan.
Mikill áhugi er nú vaknaður á Íslandi til þess að gjöra brýr og betri vegi, og er það sannarlega lofs vert. En áhuginn er, því miður, að tiltölu jafn-lítill til þess að halda þeim við. Ég hef riðið yfir marga vegarspotta, sem ekki hefði kostað 100 kr. að gjöra við, ef það hefði verið gjört þá þegar. En svo var því frestað 2-3 ár, þangað til það var orðinn mannhætta að fara um veginn, og þá kostaði vegabótin 500-1000 kr. Eins er með brýrnar, sé það ekki bætt í tíma, sem aflögu fer, þá getur viðgjörðarkostnaðurinn margfaldast. Flestir þekkja, hve fljótt járn ryðgar, ef það liggur bert í vætu; er því nauðsynlegt að mála jafnóðum hvern blett á brúnni, sem farfinn slitnar af; en þetta getur dregist, ef ekki er duglegur gæslumaður. Ég vil ekki ásaka yfirvöldin og þá, sem brúnna eiga að gæta, fyrir það, að seint hafi gengið að kítta í rifur á brúartrjánum, svo vatnið ekki komist inn í þau, eða að mála þau, til þess að verja þau fúa; en víst er um það, að ekki er enn búið að festa upp við brúarsporðinn á einni einustu brú norðan- eða austanlands auglýsingu um það, að mönnum sé bannað að fara harðar yfir brúna en fót fyrir fót, eða misbjóða þeim á annan hátt. Ég hef farið nýlega yfir þær allar.
Af því það er svo lítill áhugi á Íslandi á viðhaldi vega og brúa, þá held ég væri vel til fallið, að þingið veitti ákveðna upphæð til viðhalds veganna. Þeim mönnum, sem hafa ferðast yfir landið, mun hafa sárnað, ekki síður en mér, að sjá, hversu nýir vegir verða því nær ófærir á fáum árum vegna viðhaldsleysis.
Hvað hitt atriðið snertir, kostnaðinn við brúargæsluna, þá er hægt að vera fáorður um það, því hver meðalhygginn maður getur séð, að kostnaðurinn t.d. við gæslu á Ölfusárbrúnni þarf ekki að vera stór.
Ef landsstjórnin reisir hús fyrir fé landssjóðsins- eða kaupir hús, sem þegar er upp komið við brúarsporðinn og eigi þarf að kosta fullgert nema 3.000 kr.-, lánar svo húsið leigulaust og gefur manni veitingaleyfi og lausn frá öllum gjöldum til landssjóðs, þá munu margir sækja um þá stöðu, þó þeir eigi að gæta brúarinnar í öllum greinum án frekara endurgjalds, enda er það álitleg staða, einkum ef hann getur keypt land öðruhvoru megin árinnar og fær leyfi til að selja allan þann greiða, er efni hans leyfa; yrði þá kostnaður landssjóðs árlega ekki nema 5% af 3.000 kr. eða 150 kr., því ákveðna leiguliðabót af húsinu fyrir fyrning og skemmdum ætti brúarvörður að greiða. Það yrði líka landinu til sóma, ef góður viðtökustaður væri við brúna, einkum fyrir útlenda ferðamenn.
Íslendingar gjöra allt of lítið til þess, að laða útlendinga til Íslands. Norðmenn verja árlega stórfé til þess, að fá til sína sem flesta útlenda ferðamenn, og jafnvel Danir, sem engin náttúruafbrigði hafa í landi sínu, verja til þess allmiklu fé. En því miður eru Íslendingar á eftir í því, eins og svo mörgu öðru, sem bætt gæti efnahag manna. Útlendingar koma mest til Íslands til þess að sjá Heklu og Geysi, en leiðin þangað frá Reykjavík getur legið yfir Ölvesárbrúna, og væri því hyggilegt af stjórn landsins og þeim sem búa í nánd við þessa leið, að laða útlenda ferðamenn til sín; en því verður best náð með sanngjörnum viðskiptum og ákveðnum föstum áfangastöðum.
Í Noregi eru ákveðnir fastir áfangastaðir fyrir innlenda og útlenda ferðamenn, með 3-6 mílna milli. Húsbóndinn er skyldur til að hafa hús og rúm fyrir tiltekna gestatölu auk þess hesta og smávagna handa gestunum m.m., og þetta verður hann að láta í té fyrir ákveðið verð, en svo er hann laus við öll gjöld til almenningsþarfa og undanþeginn því að senda syni sína til herþjónustu og landvarnar m.m.
Hvað gerir alþingi og landstjórn fyrir þá, sem í þjóðbraut búa og þá sem um þjóðbraut fara?
Ég veit þess eitt dæmi, að maður einn á Suðurlandi, sem bjó í þjóðbraut við fjallveg hefir fengið styrk til þess að standast gestagang og byggja gestaskála; en yfir þessu er þagað, í stað þess að gera það heyrum kunnugt, því það er stjórn landsins til sóma, að bera þannig umhyggju fyrir þörfum ferðamanna; það er sæmd fyrir landið, að styrkt sé til þess, að viðunanlegir viðtökustaðir séu til fyrir ferðamenn, einkum við fjallvegi, og fyllsta réttlæti gagnvart þeim mönnum, sem búa í þjóðbraut og við fjallvegi, að þeim sé veitt einhver ívilnun, fyrir átroðning og beina þann, er þeir veita ferðamönnum dögum saman, til þess að stofna ekki lífi þeirra í hættu í tvísýnu veðri og á illum fjallvegum.
II.
(síðari kafli).
Þegar landssjóður er búinn að leggja margar brýr, annaðhvort að öllu leyti eða að mestum hluta, þá þarf hann að viðhalda þeim að öllu leyti eða að réttri tiltölu, og svo síðan gera þær aftur að nýju, þegar þær eru orðnar affarafé. Hversu mikið gjald verður ekki þetta? Vilja menn leggja þetta gjald á sig og eftirkomendurna, til þess að margir óviðkomandi menn geti fengið gefins ferð yfir flestar stærri ár á landinu? Er ekki nær að mynda brúarsjóði fyrir fargjald ferðamanna, sem taka mætti af viðhaldskostnað og síðan verja til þess að endurreisa brýrnar?
Það er fullkomin þörf á því, að fara að byrja stofnun slíkra sjóða til þarflegra fyrirtækja í landinu, eins og gert er um öll lönd. Það er miklu hentugra en að demba öllu á landssjóð, sem þá getur ekki staðist nema með nýjum álögum á bændur.
Ég hygg, að meiri hluti þingmanna og margir málsmetandi menn hafi óbeit á brúargjaldi; en engu að síður vil ég skýra frá, hver rök álit mitt hefir við að styðjast, og þó menn ekki vilji taka þau til greina, þá getur verið að menn sjái það seinna, að ég hefi ekki svo rangt fyrir mér í þessu efni.
Ég er sannfærður um, að það er bæði sanngjarnt og nauðsynlegt, að taka brúargjald af Ölvesárbrúnni og öllum stærri brúm, sem hér eftir verða gerðar á Íslandi.
Aðalástæðan er sú, að landið er stórt, strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf, ef veruleg framför á að verða í samgöngum í landinu sjálfu. Það er auðséð, að landssjóði er ofvaxið að leggja brýr þessar allar, og skaðlegt er fyrir landsbúa í ýmsum héruðum að bíða með nauðsynlegar brúargerðir, þar til þingið álítur sér fært að verja svo tugum þúsunda króna skiptir gefins til nýrra brúargerða. Margir menn og hestar geta verið drukknaðir áður en sá tími kemur. Auk þess sé ég ekkert réttlæti í því, að menn á Hornströndum, Langanesi eða undir Jökli séu að leggja fé í landssjóð til þess að menn geti farið kostnaðarlaust yfir Ölvesá í Flóa eða Þjórsá eða Blöndu, og þaðan af síður sé ég ástæðu til þess, að útlendir ferðamenn eða útlendir hesta- og fjárkaupamenn með stóra hópa af hestum og sauðum fari kostnaðarlaust yfir ána á brúnni við Selfoss, þegar margir innlendir þurfa að borga ferjur yfir ána ofar og neðar, og eiga þó á hættu hesta og aðrar eignir.
Mér sýnist, að þeir, sem yfir brúna fara, hafi talsverðan hag í samanburði við þá, sem þurfa að fá ferju, þó þeir þurfi að greiða jafnhátt gjald eins og ferjutollurinn er fyrir ofan og neðan, því þeir komast hjá tímamissi við það, að bíða við ána í krapaförum um vetrartímann og í ófærum vöxtum á vorin. Þeir eru lausir við þá tímatöf, að spretta af hestum og búa upp á aftur, og lausir við alla hættu.
Ég vona, að menn sjái það fyr eða síðar, að þetta er sanngjarnt; en þó tel ég það engan veginn þýðingarmest, heldur hitt, að landssjóði er ofvaxið að leggja allar þær brýr í landinu, sem fyllsta nauðsyn er á að fá sem fyrst, ásamt að viðhalda þeim, og að með þeim hætti komast brýr seinna á árnar.
Mér þætti gaman að því, að fá rökstutt svar upp á það, hvort nokkur ástæða sé til þess, að ferðamenn hefðu á móti því að greiða fargjald fyrir hættulausa og fljóta ferð yfir stórár á brúm, fremur en á ferju, sem bæði er seinlegri og hættumeiri, eða hvort landssjóði, ömtum eða sýslufélögum sé fremur skylt að leggja brýr yfir ár til ókeypis yfirferðar en ferjur. Ef ferjur væru á öllum póstvegum til ókeypis afnota fyrir ferðamenn, þá væri það samkvæmni; en enginn fer fram á það: og því sé ég ekki samkvæmni hjá þeim, sem eru á móti brúargjaldi.
Ég býst við að mér verði svarað því, að það sé umfangsmikið og kostnaðarsamt að heimta brúartoll. Ég svara undir eins fyrirfram nei.
Hvernig fara aðrar þjóðir að með járnbrautargjald og sporvagna?
Því er svo fyrir komið, að eigendurnir gefa út kvittunarmiða - 1 þuml. á lengd og ½ þuml. á breidd - sem er kvittun fyrir því, að ferðamaðurinn hafi greitt fargjaldið, og þessum miða heldur hann þar til ferðinni er lokið. Á líkan hátt ættum vér að fara að. Landstjórnin gefur út 50-100 þúsund af álíka smámiðum, og um leið semur alþingi lög um hegningu fyrir fölsun á þeim, samkvæmt því ef bankaseðlar eru falsaðir eða peningar slegnir og seldir. Þessir miðar eru svo. t. d. hvað Ölvesárbrúna snertir, til sölu í öllum verslunum í Reykjavík, Eyrarbakka og öðrum kauptúnum sunnanlands; sömuleiðis hjá brúarverðinum sjálfum. Miða þessa- eða frímerki - kaupa svo allir ferðamenn, eins og annan varning eða frímerki á sendibréf, og afhenda þau brúarverði, þegar þeir nota brúna. Þannig er farið að á járnbrautarvögnum og sporvögnum um allan heim, og ætti ekki að vera meiri vandi að heimta fargjald hjá 70 þús. manna á Íslandi, en 700.000.000 um öll þau siðuðu lönd. Svik á sölu miða þessara geta varla komið fyrir nema hjá brúarverðinum. Þarf því að velja vandaðan mann til þessa starfa og setja með lögum þunga hegningu fyrir undanbrögð.
Útgáfa þessara brúargjaldsmiða þarf ekki að kosta landssjóð eða aðra eigendur brúnna annað en prentun og sölulaun, því það ætti að vera skylda brúarvarðar, að heimta brúargjaldið, gegn þeim hlunnindum sem að framan eru nefnd.
Ég álít, að hæfilegt fargjald yfir Ölvesárbrú sé 10 a. fyrir lausríðandi mann og 10 a. fyrir klyfjahest, 5 a. fyrir gangandi mann og 5 a. fyrir lausan hest, og 2 a. fyrir sauðkind. Með þessu mundi safnast þó nokkurt fé. Þeir, sem vilja fara yfir brúna frá kl. 11 e. m. til kl. 8 f. m. frá veturnóttum til sumarmála, ættu að greiða tvöfalt gjald, og ætti brúarvörður að njóta helmings þess fjár fyrir ómak sitt, því ekki er sanngjarnt að ákveða brúarverði miklu lengri vinnutíma en öðrum, eða að vaka nótt og dag, en skyldur ætti hann að vera að ljúka brúnni upp hvenær sem menn vilja, enda getur það verið nauðsynlegt, þegar menn þurfa að leita læknis eða eiga önnur brýn erindi. Við þessar aukatekjur bætist svo 10% af öllum þeim brúarfrímerkjum, er brúarvörður selur. 10% mega heita sanngjörn sölulaun fyrir alla aðra, er versla með þau.
Ég hef íhugað, hvort hentugra mundi vera, að brúarvörður eða brúareigandi, hver sem það er, ættu brúarvarðarhúsið, og ég hygg það miklu betra, að brúareigandinn sé eigandi hússins, og enda jarðarskika öðruhvoru megin árinnar nálægt því, til afnota fyrir hesta ferðamanna, svo hægt sé að setja brúarverði stólinn fyrir dyrnar og víkja honum frá, ef hann stendur laklega í stöðu sinni; því þó staðan sé ekki vandasöm, þá er það áríðandi, að maðurinn sé ráðvandur og kurteis og hafi nokkur efni eða lánstraust.
Þó ég sé þeirrar skoðunar, að landssjóður ætti ekki að gefa fé til þess, að brúa stórárnar, eða halda brúnum við, heldur að mynda ætti brúarsjóði, þá kemur mér ekki til hugar, að stjórnendur landssjóðs ættu að vera afskiptalausir af brúargjörðarmálum. Landssjóður ætti að vera aðalhjálparhellan til þess að sem flestar brýr komist sem fyrst á, ekki með því að gefa, heldur með því að lána fé með sanngjarnri leigu og langri afborgun. Hann hefir meira lánstraust en nokkur annar, og á honum hvílir skylda til þess, að styrkja öll þau fyrirtæki, sem miða landinu til framfara og fé þarf til, enda á hann hægra með að leggja fé fram, þegar það á að endurgjaldast, en ef það ætti að hverfa að fullu.
Ég vona, að mönnum skiljist nú fyr eða síðar, að þeir, sem fara yfir brýrnar, eru hinir réttu gjaldendur, en ekki þeir, sem aldrei fara yfir þær, og það landssjóður á miklu hægra að styrkja brúargjörð yfir hættulegar ár, án þess að ný gjöld séu lögð á landsmenn, ef það fé, sem hann leggur til brúnna, er lán, en ekki gjöf.
Ég vona líka að lærðum og leikum skiljist, að það er fullkomlega eins áríðandi að viðhalda vegum og brúm, og hlífa þeim fyrir illri meðferð, eins og að gjöra það hvorttveggja af nýju í upphafi, og að kostnaðurinn við brúargæsluna verður að tiltölu margfalt minni með föstum brúarverði, en sá skaði yrði, sé brúin gæslulaus.
Ritað í febrúarm. 1891.