1891

Ísafold, 25. apríl 1891, 18. árg., 33. tbl., forsíða:

Brúargæsla, vegir og brúargjald.
svar til herra Tryggva Gunnarsson
frá Þorláki Guðmundi Guðmundssyni
I.
Ég hefi lesið og lesið aftur og enn aftur í 25. og 26. tbl. Ísafoldar þ.á. frá herra Tryggva Gunnarssyni langa ritgjörð, sem miðar til að sannfæra menn um, að þörf sé á, að setja brúargæslumann við hina væntanlega brú á Ölfusá, og undir eins, hve sanngjarnt það sé, að leggja á brúargjald.
"Sínum augum lítur hver á silfrið."
Eftir því, sem ég hugsa meira um þetta mál, finnst mér að ég verði að fjarlægjast meir og meir skoðun hins heiðraða höfundar í aðalefni málsins.
Fyrsta ástæðan, sem hann kemur með, og sem hann kveðst hafa haft fyrir vopn á mótmælendurna á næstliðnu sumri, er ekki heppilega valin.
Það er allt annað, að sá einstaki leggi fram fé til almenningsþarfa að öðru leyti en því, sem hann geldur lögboðna skatta, er renna í almennan þjóðsjóð, heldur en að hið almenna leggi fram fé til þarfa þeim einstaka, eða þeim mörgu einstöku sem mynda stærri eða smærri heild í mannfélaginu. Hinn einstaki er ekki skyldur að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, og komi fullt endurgjald fyrir, og það endurgjald verður að takast af almannafé.
Hér er því um tvennt ólíkt að ræða, og skilur jafnmikið og rétt og rangt.
Það mun óþekkt, að minnsta kosti hér á landi, að menn láni grip, hús eða skip, og láti gæslumann fylgja með, til að upp eta meira eða minna af leigunni.
Ég get verið samdóma um það, að ekki sé minna vert að gæta fengins fjár en að afla, en kringumstæðurnar verða þá að vera svo, að kostnaðurinn við gæsluna ekki upp eti þann sparnað sem af gæslunni leiðir.
Þetta sannmæli er eins og flest önnur, að það getur ekki átt við allar kringumstæður.
Ef refir ásækja fé mitt, get ég varist þeim með því, að láta fylgja fénu dýran mann dag og nótt; en það er því að eins hyggilegt, að kostnaðurinn verði ekki meiri en skaði sá, sem refar gera mér; og skal ég síðar sýna, hvern veg verða mundi með gagn og ágóða af brúargæslunni.
Að hin fáu sæluhús hér séu illa hirt, neitar víst enginn; en annað mál er, hvort það mundi borga sig, að setja launaðan mann við hvern fyrir sig af þessum kofum. Það var ekki eingöngu vegna hirðunnar, að sæluhúsvörður var settur á Kolviðarhól, heldur sér í lagi og einkum vegna þess, að þörfin var lengi búin að kalla að; hér þurfti að vera mannabyggð, til að veita mönnum aðhjúkrun og beina á þessum fjölfarna og illviðrasama fjallvegi.
Það virðist vera nokkuð annað um að ræða, þó settir séu gæslumenn og lögregluþjónar við stærstu brýr í heimi, eða víða erlendis, þar sem allt er á þjótandi ferð með gufuafli og umferðin svo mikil, að hér er engu við slíkt að jafna.
Það er ætlun mín, að fáum muni þykja fýsilegt, að ríða hart yfir slíka brú sem þessa, því að áin undir brúnni mun ógna mönnum og vernda brúna fyrir harðri reið betur en nokkurt eftirlit. Að "einhver sólargapi reki marga hesta á harða stökki yfir brúna í grimmdarfrosti", mun aldrei koma fyrir, því breidd brúarinnar gerir líka slíkt naumast hægt. Eigi brúarinnar að vera gætt fyrir harðri reið eða rekstri, svo að meira sé en nafnið tómt, þá er enginn vafi á því, að það þarf að vera lögregluþjónn við hvern brúarsporð.
Hvað segjum við svo, þegar búið er að leggja 10-15 stórbrýr á landinu og komnir eru jafnmargir brúarverðir og helmingi fleiri lögregluþjónar. Þá minnka ekki laun og eftirlaun, og þá mun verða eins og Einar á Þverá sagði - Þá munu álögurnar verða þungar; og ættu brúarverðirnir svo að lifa og laumast mest megnis af veitingum, mundi lítið batna siðferði eða efnahagur manna í nálægum héruðum við brýrnar, og mundi þá eins gott að synda í gamla haftinu.
Þessi brúarvörður þarf að hafa áreiðanlegan aðstoðarmann, eins og vitavörðurinn á Reykjanesi, þegar brúin á að vera opin nótt og dag. Launin verða því að vera allrífleg.
Hverjir mundu það nú helst vera, sem misbyðu brúnni með harðri reið? Það mundu helst vera drykkjumenn. Þeir gætu slegið undir nára, þegar þeir væri komnir út á brúna, og brúarvörður hefði ekki meira af þeim. Oft gæti orðið erfitt að sanna brotið, sem gæti þá kostað málavastur og peningaútlát fyrir landssjóð. Setjum nú samt, að hinn seki maður næðist; ef hann væri þá, eins og slíkir eru oftast, félaus, fengi hann að fara í hegningarhúsið.
Ekki græddi landssjóður á því.
Það er því eins og ég hefi áður sagt, að annaðhvort er að gera ekki neitt, eða hafa lögregluþjóna við hvern brúarsporð.
Að hér sé ofurlítið gert til að viðhalda vegum og brúm, dettur mér ekki í hug að afsaka, því ég hata allan trassaskap, í hverri mynd sem hann birtist, og án þess að leggja fram stórfé mætti gera miklu meira en gert er til viðhalds á vegum og brúm.
Ég skal t. d. nefna hina miklu stóðhópa, sem reknir eru víða um landið og mest af öllu skemma vegi og brýr; og þetta er engri reglu eða eftirliti háð; og það álít ég sjálfsagt að banna slíka stóðrekstra yfir Ölfusárbrúna, nema undir ströngu eftirliti, og mættu þeir gjarnan að auki borga toll, og til þess þarf engan brúarvörð að framkvæma þetta.
Hr. Tr. G. heldur að kostnaður við gæslu á brúnni þurfi ekki að vera mikill.
Ég held allt annað.
Hann ætlar brúarverði að hafa mestmegnis laun af veitingum og greiðasölu, eða með öðrum orðum: af fávisku og munaðargirnd þeirra, sem um veginn fara eða brúna, og hann ætlast til að þetta embætti verði svo feitt, að margir sæki um það. Eftir því á þessi embættismaður að rýja á tvær hendur. Og hvaðan eru svo launin tekin, nema úr þjóðarinnar vasa. Nú má fullyrða, að lítið verði af honum keypt. Þetta er í miðri sveit og margir eins og heim komnir þegar yfir ána er komið. Undanþágur undan landssjóðslögum væri einskisvirði fyrir hann, búlausan mann, því í atvinnuskatt mundi hann trautt komast. Það yrði því að launa honum af brúartollinum eða úr landssjóði.
Ég geng að því vísu, að ölfanga-veitingaleyfi verði aldrei veitt á þessum stað. En af því að selja greiða og hýsa menn, getur enginn þrifist hér, ef hann ekki hefir bú eða eitthvað annað við að styðjast.
Þó að upp væri sett veitingahús við brúna, mundi það ekki færa landið í virðingarskrúða í augum útlendinga, því þeir fara svo fáir þessa leið. Það eru einungis þeir, sem fara til Heklu, þó ekki nema aðra leiðina, og stundum hvoruga.
En það er vegurinn til Geysis, sem fyrst og fremst á að gjöra góðan í því augnamiði að hæna hér að útlendinga, og svo ætti að koma upp sumar-hóteli á Þingvelli og öðru við Geysi.
Það væri mikið þarft að hér yrðu fastákveðnir áfangastaðir, sem keyptir væru fyrir almannafé, öllum vegfarendum til frjálsra afnota. En það mál þarf góðan undirbúning heima í héruðum, og getur ekki vel gengið fyr en búið er að fastákveða aðal-vegina í landinu, og þá er það fyrst, að menn sjá, hvar greiðasölu-og veitingahús eiga að vera.
Því þegir hinn heiðraði höfundur yfir því, fyrst hann veit það, að einn maður hefir fengið fé til að standast gestagang og reisa gestaskála? Það er fróðlegt að fá að vita, hver það fé veitti, og hvaðan það var tekið.
II.
(Síðari kafli).
Það gildir það sama um brýr og vegi, að landssjóður verður að halda hvorutveggju við. Eru það ekki sömu útlát fyrir landssjóð, hvort hann leggur 40.000 kr. til brúar yfir Ölfusá, eða hann leggur 40.000 kr. í póstveg eða fjallveg, sem hann á að ala og annast? Það mætti því eins tolla vegina. Landssjóður er þegar byrjaður á því, að leggja brýr á ýmsar smá-ár á póstvegum. Vel geta 6-8 smærri brýr kostað 40.000 og ef það er rétt, að tolla eina stórbrú, sem þetta hefur kostað, þá er líka rétt, að tolla allar þessar smærri, sem jafnmikið hafa kostað.
Hr. Tr. G. segir: "vilja menn leggja þetta gjald á sig og eftirkomendurna til þess, að margir óviðkomandi geti fengið gefins ferð yfir flestar stórár á landinu?"
Hverjir eru þessir óviðkomandi menn? Það geta þó víst ekki verið aðrir en útlendingar.
Mundi ekki hin núverandi kynslóð vera þakklát feðrum sínum og hinni horfnu kynslóð, ef þeir og hún hefðu eftirlátið mörg þörf stórvirki í landinu, þó að nú þyrfti að halda þeim við? Það er skylda vor að gera allt sem vér vel getum gert fyrir hina komandi kynslóð; en það getur ekki verið skylda vor að ganga berir og skilja eftir blóð í sporunum.
Hr. Tr. G. telur það sanngjarnt, að tolla brúna á Ölfusá og allar stórbrýr, sem gjörðar verða í landinu. En ég tel það ósanngjarnt og óráðlegt.
Það er að elta vissa menn í sérstökum sveitum með nýjum skatti og mynda þar á ofan nýjan embættismannaflokk í landinu, sem ekki mundi verða léttari byrði á eftirkomendum vorum en viðhald og endurreisn á brúnum. Mikið af gjöldum mundi ganga til að launa tollheimtumönnunum, og á sumum stöðum hrykki tollurinn ekki að launa manninum.
Aðalástæðan er sú, að landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf. Þetta er ein aðalástæðan á móti tollinum, að þjóðin er á víð og dreif um þetta landflæmi, og þar af leiðir, að umferðin er svo lítil um hverja brú fyrir sig, að það ber sig ekki að tolla þær, nema tollurinn sé svo hár, að hann misbjóði kröftum flestra vegfarenda og fæli þá frá að fara brýrnar.
Það gleður mig, að nú er hr. Tr. G. farinn að sjá, að það er tjón fyrir menn, að fá ekki stórárnar brúaðar fyr en seint og síðar meir, og að það getur orðið mönnum og gripum að fjártjóni.
Hversu mikill framfarastyrkur var það því ekki fyrir austursýslurnar, að brúargjörðin á Ölfusá var tafin í þinginu um heilan tug ára fyrir mótstöðu einstakra manna(!).
Hér er ég þá kominn að því merkilega atriði í ritgjörð hr. Tr. G., að hann sér ekki neitt réttlæti í því, að Hallur á Horni, Auðunn á Öndverðarnesi og Lýður á Langanesi séu að leggja fé í landssjóð til að brúa Ölfusá o. s. frv.
Ég geri ráð fyrir, að þessir þrír karlar, séu friðsamir og fari aldrei í mál á ævinni. Samt verða þeir að borga dómsvaldinu, af því að þeir eru í þjóðfélaginu, en aðrir t.a.m. hér fyrir sunnan, eru oft í málaferlum og þurfa á dómsvaldinu að halda. Þeir Hallur og hans félagar eru heilsugóðir og leita aldrei til læknis, en verða þó að borga þeim.
Er þá rétt, að Öræfasveit, eða Austur-Skaptafellssýsla borgi til strandferðanna?
Höf. virðist þeir, sem brúna fara, hafa talsverðan hag í samanburði við þá, sem á ferju fara. Hér væri of miklu til kostað og fyrir sigri þessa máls of lengi barist, ef hagurinn ekki væri verulegur.
Ég skal leitast við að gera hr. Tr. G. þá ánægju, að rökstyðja það, að ekki er ástæða til að tolla brýrnar fyrir það, að lögferjur hafa verið og eru keyptar af hverjum einstökum, sem hefir þurft að nota þær.
Ef engin sýnileg ráð væru þekkt til að brúa ár, þá væri sjálfsagt, að landssjóður kostaði ferjurnar að öllu leyti á póstvegum og fjallvegum. Hér við bætist, að ferjurnar hverfa af sjálfu sér jafnskjótt og brýrnar komast á, og engin ástæða er til að ætla, að þær framfarir haldi ekki áfram, því það er nú lögboðið að brúa ár og læki svo fljótt að því verður við komið. Skyldi nokkur ástæða vera til að efast um, að ferjurnar á Laugardælum og Kotferju legðust niður, þegar brúin er komin á ána hjá Selfossi?
Ég sé það, að hr. Tr. G. hefir ekki breytt skoðun sinni frá því við vorum saman á þingi á þessu stóra þarfa- og framfaramáli þjóðarinnar, brúamálinu. Hann álítur enn sem fyr, að héruðin eigi að taka lán hjá landssjóði til að brúa stórárnar, því að landssjóði sé ofvaxið að kosta það.
Þetta er þungskilin þjóðbúskaparfræði.
Mér virðist það vera líkt og ef húsbóndi, sem hefði mörg hjú, og þyrfti að láta vinna eitthvert stórvirki, segði: "Þetta verk þarf að gera, en það er ofvaxið öllum mínum hjúum að gjöra það með samtökum og félagsskap, en ég ætla að láta eitt eða tvö gera það; þau geta þá lánað krafta hjá hinum, ef þau hafa ekki afl á því sjálf.


Ísafold, 25. apríl 1891, 18. árg., 33. tbl., forsíða:

Brúargæsla, vegir og brúargjald.
svar til herra Tryggva Gunnarsson
frá Þorláki Guðmundi Guðmundssyni
I.
Ég hefi lesið og lesið aftur og enn aftur í 25. og 26. tbl. Ísafoldar þ.á. frá herra Tryggva Gunnarssyni langa ritgjörð, sem miðar til að sannfæra menn um, að þörf sé á, að setja brúargæslumann við hina væntanlega brú á Ölfusá, og undir eins, hve sanngjarnt það sé, að leggja á brúargjald.
"Sínum augum lítur hver á silfrið."
Eftir því, sem ég hugsa meira um þetta mál, finnst mér að ég verði að fjarlægjast meir og meir skoðun hins heiðraða höfundar í aðalefni málsins.
Fyrsta ástæðan, sem hann kemur með, og sem hann kveðst hafa haft fyrir vopn á mótmælendurna á næstliðnu sumri, er ekki heppilega valin.
Það er allt annað, að sá einstaki leggi fram fé til almenningsþarfa að öðru leyti en því, sem hann geldur lögboðna skatta, er renna í almennan þjóðsjóð, heldur en að hið almenna leggi fram fé til þarfa þeim einstaka, eða þeim mörgu einstöku sem mynda stærri eða smærri heild í mannfélaginu. Hinn einstaki er ekki skyldur að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, og komi fullt endurgjald fyrir, og það endurgjald verður að takast af almannafé.
Hér er því um tvennt ólíkt að ræða, og skilur jafnmikið og rétt og rangt.
Það mun óþekkt, að minnsta kosti hér á landi, að menn láni grip, hús eða skip, og láti gæslumann fylgja með, til að upp eta meira eða minna af leigunni.
Ég get verið samdóma um það, að ekki sé minna vert að gæta fengins fjár en að afla, en kringumstæðurnar verða þá að vera svo, að kostnaðurinn við gæsluna ekki upp eti þann sparnað sem af gæslunni leiðir.
Þetta sannmæli er eins og flest önnur, að það getur ekki átt við allar kringumstæður.
Ef refir ásækja fé mitt, get ég varist þeim með því, að láta fylgja fénu dýran mann dag og nótt; en það er því að eins hyggilegt, að kostnaðurinn verði ekki meiri en skaði sá, sem refar gera mér; og skal ég síðar sýna, hvern veg verða mundi með gagn og ágóða af brúargæslunni.
Að hin fáu sæluhús hér séu illa hirt, neitar víst enginn; en annað mál er, hvort það mundi borga sig, að setja launaðan mann við hvern fyrir sig af þessum kofum. Það var ekki eingöngu vegna hirðunnar, að sæluhúsvörður var settur á Kolviðarhól, heldur sér í lagi og einkum vegna þess, að þörfin var lengi búin að kalla að; hér þurfti að vera mannabyggð, til að veita mönnum aðhjúkrun og beina á þessum fjölfarna og illviðrasama fjallvegi.
Það virðist vera nokkuð annað um að ræða, þó settir séu gæslumenn og lögregluþjónar við stærstu brýr í heimi, eða víða erlendis, þar sem allt er á þjótandi ferð með gufuafli og umferðin svo mikil, að hér er engu við slíkt að jafna.
Það er ætlun mín, að fáum muni þykja fýsilegt, að ríða hart yfir slíka brú sem þessa, því að áin undir brúnni mun ógna mönnum og vernda brúna fyrir harðri reið betur en nokkurt eftirlit. Að "einhver sólargapi reki marga hesta á harða stökki yfir brúna í grimmdarfrosti", mun aldrei koma fyrir, því breidd brúarinnar gerir líka slíkt naumast hægt. Eigi brúarinnar að vera gætt fyrir harðri reið eða rekstri, svo að meira sé en nafnið tómt, þá er enginn vafi á því, að það þarf að vera lögregluþjónn við hvern brúarsporð.
Hvað segjum við svo, þegar búið er að leggja 10-15 stórbrýr á landinu og komnir eru jafnmargir brúarverðir og helmingi fleiri lögregluþjónar. Þá minnka ekki laun og eftirlaun, og þá mun verða eins og Einar á Þverá sagði - Þá munu álögurnar verða þungar; og ættu brúarverðirnir svo að lifa og laumast mest megnis af veitingum, mundi lítið batna siðferði eða efnahagur manna í nálægum héruðum við brýrnar, og mundi þá eins gott að synda í gamla haftinu.
Þessi brúarvörður þarf að hafa áreiðanlegan aðstoðarmann, eins og vitavörðurinn á Reykjanesi, þegar brúin á að vera opin nótt og dag. Launin verða því að vera allrífleg.
Hverjir mundu það nú helst vera, sem misbyðu brúnni með harðri reið? Það mundu helst vera drykkjumenn. Þeir gætu slegið undir nára, þegar þeir væri komnir út á brúna, og brúarvörður hefði ekki meira af þeim. Oft gæti orðið erfitt að sanna brotið, sem gæti þá kostað málavastur og peningaútlát fyrir landssjóð. Setjum nú samt, að hinn seki maður næðist; ef hann væri þá, eins og slíkir eru oftast, félaus, fengi hann að fara í hegningarhúsið.
Ekki græddi landssjóður á því.
Það er því eins og ég hefi áður sagt, að annaðhvort er að gera ekki neitt, eða hafa lögregluþjóna við hvern brúarsporð.
Að hér sé ofurlítið gert til að viðhalda vegum og brúm, dettur mér ekki í hug að afsaka, því ég hata allan trassaskap, í hverri mynd sem hann birtist, og án þess að leggja fram stórfé mætti gera miklu meira en gert er til viðhalds á vegum og brúm.
Ég skal t. d. nefna hina miklu stóðhópa, sem reknir eru víða um landið og mest af öllu skemma vegi og brýr; og þetta er engri reglu eða eftirliti háð; og það álít ég sjálfsagt að banna slíka stóðrekstra yfir Ölfusárbrúna, nema undir ströngu eftirliti, og mættu þeir gjarnan að auki borga toll, og til þess þarf engan brúarvörð að framkvæma þetta.
Hr. Tr. G. heldur að kostnaður við gæslu á brúnni þurfi ekki að vera mikill.
Ég held allt annað.
Hann ætlar brúarverði að hafa mestmegnis laun af veitingum og greiðasölu, eða með öðrum orðum: af fávisku og munaðargirnd þeirra, sem um veginn fara eða brúna, og hann ætlast til að þetta embætti verði svo feitt, að margir sæki um það. Eftir því á þessi embættismaður að rýja á tvær hendur. Og hvaðan eru svo launin tekin, nema úr þjóðarinnar vasa. Nú má fullyrða, að lítið verði af honum keypt. Þetta er í miðri sveit og margir eins og heim komnir þegar yfir ána er komið. Undanþágur undan landssjóðslögum væri einskisvirði fyrir hann, búlausan mann, því í atvinnuskatt mundi hann trautt komast. Það yrði því að launa honum af brúartollinum eða úr landssjóði.
Ég geng að því vísu, að ölfanga-veitingaleyfi verði aldrei veitt á þessum stað. En af því að selja greiða og hýsa menn, getur enginn þrifist hér, ef hann ekki hefir bú eða eitthvað annað við að styðjast.
Þó að upp væri sett veitingahús við brúna, mundi það ekki færa landið í virðingarskrúða í augum útlendinga, því þeir fara svo fáir þessa leið. Það eru einungis þeir, sem fara til Heklu, þó ekki nema aðra leiðina, og stundum hvoruga.
En það er vegurinn til Geysis, sem fyrst og fremst á að gjöra góðan í því augnamiði að hæna hér að útlendinga, og svo ætti að koma upp sumar-hóteli á Þingvelli og öðru við Geysi.
Það væri mikið þarft að hér yrðu fastákveðnir áfangastaðir, sem keyptir væru fyrir almannafé, öllum vegfarendum til frjálsra afnota. En það mál þarf góðan undirbúning heima í héruðum, og getur ekki vel gengið fyr en búið er að fastákveða aðal-vegina í landinu, og þá er það fyrst, að menn sjá, hvar greiðasölu-og veitingahús eiga að vera.
Því þegir hinn heiðraði höfundur yfir því, fyrst hann veit það, að einn maður hefir fengið fé til að standast gestagang og reisa gestaskála? Það er fróðlegt að fá að vita, hver það fé veitti, og hvaðan það var tekið.
II.
(Síðari kafli).
Það gildir það sama um brýr og vegi, að landssjóður verður að halda hvorutveggju við. Eru það ekki sömu útlát fyrir landssjóð, hvort hann leggur 40.000 kr. til brúar yfir Ölfusá, eða hann leggur 40.000 kr. í póstveg eða fjallveg, sem hann á að ala og annast? Það mætti því eins tolla vegina. Landssjóður er þegar byrjaður á því, að leggja brýr á ýmsar smá-ár á póstvegum. Vel geta 6-8 smærri brýr kostað 40.000 og ef það er rétt, að tolla eina stórbrú, sem þetta hefur kostað, þá er líka rétt, að tolla allar þessar smærri, sem jafnmikið hafa kostað.
Hr. Tr. G. segir: "vilja menn leggja þetta gjald á sig og eftirkomendurna til þess, að margir óviðkomandi geti fengið gefins ferð yfir flestar stórár á landinu?"
Hverjir eru þessir óviðkomandi menn? Það geta þó víst ekki verið aðrir en útlendingar.
Mundi ekki hin núverandi kynslóð vera þakklát feðrum sínum og hinni horfnu kynslóð, ef þeir og hún hefðu eftirlátið mörg þörf stórvirki í landinu, þó að nú þyrfti að halda þeim við? Það er skylda vor að gera allt sem vér vel getum gert fyrir hina komandi kynslóð; en það getur ekki verið skylda vor að ganga berir og skilja eftir blóð í sporunum.
Hr. Tr. G. telur það sanngjarnt, að tolla brúna á Ölfusá og allar stórbrýr, sem gjörðar verða í landinu. En ég tel það ósanngjarnt og óráðlegt.
Það er að elta vissa menn í sérstökum sveitum með nýjum skatti og mynda þar á ofan nýjan embættismannaflokk í landinu, sem ekki mundi verða léttari byrði á eftirkomendum vorum en viðhald og endurreisn á brúnum. Mikið af gjöldum mundi ganga til að launa tollheimtumönnunum, og á sumum stöðum hrykki tollurinn ekki að launa manninum.
Aðalástæðan er sú, að landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf. Þetta er ein aðalástæðan á móti tollinum, að þjóðin er á víð og dreif um þetta landflæmi, og þar af leiðir, að umferðin er svo lítil um hverja brú fyrir sig, að það ber sig ekki að tolla þær, nema tollurinn sé svo hár, að hann misbjóði kröftum flestra vegfarenda og fæli þá frá að fara brýrnar.
Það gleður mig, að nú er hr. Tr. G. farinn að sjá, að það er tjón fyrir menn, að fá ekki stórárnar brúaðar fyr en seint og síðar meir, og að það getur orðið mönnum og gripum að fjártjóni.
Hversu mikill framfarastyrkur var það því ekki fyrir austursýslurnar, að brúargjörðin á Ölfusá var tafin í þinginu um heilan tug ára fyrir mótstöðu einstakra manna(!).
Hér er ég þá kominn að því merkilega atriði í ritgjörð hr. Tr. G., að hann sér ekki neitt réttlæti í því, að Hallur á Horni, Auðunn á Öndverðarnesi og Lýður á Langanesi séu að leggja fé í landssjóð til að brúa Ölfusá o. s. frv.
Ég geri ráð fyrir, að þessir þrír karlar, séu friðsamir og fari aldrei í mál á ævinni. Samt verða þeir að borga dómsvaldinu, af því að þeir eru í þjóðfélaginu, en aðrir t.a.m. hér fyrir sunnan, eru oft í málaferlum og þurfa á dómsvaldinu að halda. Þeir Hallur og hans félagar eru heilsugóðir og leita aldrei til læknis, en verða þó að borga þeim.
Er þá rétt, að Öræfasveit, eða Austur-Skaptafellssýsla borgi til strandferðanna?
Höf. virðist þeir, sem brúna fara, hafa talsverðan hag í samanburði við þá, sem á ferju fara. Hér væri of miklu til kostað og fyrir sigri þessa máls of lengi barist, ef hagurinn ekki væri verulegur.
Ég skal leitast við að gera hr. Tr. G. þá ánægju, að rökstyðja það, að ekki er ástæða til að tolla brýrnar fyrir það, að lögferjur hafa verið og eru keyptar af hverjum einstökum, sem hefir þurft að nota þær.
Ef engin sýnileg ráð væru þekkt til að brúa ár, þá væri sjálfsagt, að landssjóður kostaði ferjurnar að öllu leyti á póstvegum og fjallvegum. Hér við bætist, að ferjurnar hverfa af sjálfu sér jafnskjótt og brýrnar komast á, og engin ástæða er til að ætla, að þær framfarir haldi ekki áfram, því það er nú lögboðið að brúa ár og læki svo fljótt að því verður við komið. Skyldi nokkur ástæða vera til að efast um, að ferjurnar á Laugardælum og Kotferju legðust niður, þegar brúin er komin á ána hjá Selfossi?
Ég sé það, að hr. Tr. G. hefir ekki breytt skoðun sinni frá því við vorum saman á þingi á þessu stóra þarfa- og framfaramáli þjóðarinnar, brúamálinu. Hann álítur enn sem fyr, að héruðin eigi að taka lán hjá landssjóði til að brúa stórárnar, því að landssjóði sé ofvaxið að kosta það.
Þetta er þungskilin þjóðbúskaparfræði.
Mér virðist það vera líkt og ef húsbóndi, sem hefði mörg hjú, og þyrfti að láta vinna eitthvert stórvirki, segði: "Þetta verk þarf að gera, en það er ofvaxið öllum mínum hjúum að gjöra það með samtökum og félagsskap, en ég ætla að láta eitt eða tvö gera það; þau geta þá lánað krafta hjá hinum, ef þau hafa ekki afl á því sjálf.