1891

Ísafold, 17. júní 1891, 18. árg., 48. tbl., forsíða:

Brúargæsla og brúargjald.
til herra Þorláks Guðmundssonar
frá Tryggva Gunnarssyni
I.
Þú hefir tekið til íhugunar í Ísafold XVIII. 33-34 það sem ég skrifaði í sama blaði um "brúargæslu, vegi og brúargjald". Málefnið er mikilsvert, og getur orðið því til gagns, að það sé skoðað frá tveimur hliðum; auk þess þykir mér vænt um að tala við þig um "landsins gagn og nauðsynjar", eins og í gamla daga, þegar við vorum saman á þingi; við vorum þá oftast á líku máli, og svo fer enn, vona ég, þegar þú hefir hugsað málið betur. Þó þú segist hafa lesið grein mína aftur og aftur, þá verður þú enn að taka hana, eða málefnið til íhugunar.
Það getur verið, að þér eða öðrum lánist í bráð, að fá meiri hluta manna til að álíta brúargjald óþarft og óhentugt; en að þið fáið menn til að álíta nákvæma og duglega gæslu á öllum stærri brúm ónauðsynlega, því trúi ég ekki fyr en ég tek á því. Þetta síðara er aðalatriðið; því ef ekki er haft stöðugt eftirlit, einkum á hengibrúm og járnbrúm, þá endast þær meir en helmingi skemur, og eykur það bæði feykilega útgjöld landssjóðs og getur leitt til þess, að áhugi sá, sem nú er vaknaður til brúargjörða, hverfi aftur. Þetta skilst mönnum fyr eður síðar. Þegar svo langt er komið, að menn eru orðnir sannfærðir um nauðsyn brúargæslunnar, þá leið það af sjálfu sér, að ákveða þarf, hvar taka á kostnaðinn til hennar og viðhalds brúarinnar, og er þá um tvennt að velja, annaðhvort að taka hann af landssjóði eða brúarsjóði, sem myndast af fargjaldi þeirra, er yfir brúna fara. Ég álít það síðarnefnda hentugra og eðlilegra.
Gólfið í brúnni slitnar við það að gengið er á því, naglarnir og uppihöldin slitna í öllum samskeytum við hristinginn af umferðinni, farfinn dettur af, svo járnið stendur bert eftir, og ýmsir fara óvarlega yfir brúna af drykkjuskap, gapaskap og skeytingarleysi. Allt þetta orsakar umferðin, og því segi ég, að það sé eðlilegt, að þeir, sem yfir brúna fara, borgi fyrir það slit og þá gæslu, sem leiðir af yfirferðinni; enda er það tilvinnandi fyrir þá, þegar gætt er að því gagni, sem þeir hafa af notkun brúarinnar.
Hentugra, álít ég að vegfarendur greiði kostnaðinn, en landssjóður ekki, vegna þess, að þá á hann hægra með að leggja styrk til nýrra brúa, án þess að leggja nú gjöld á landsmenn, þegar hann er laus við gjöld til gæslu og viðhalds á þeim brúm, sem lagðar eru.
Það er ekki þér líkt, að ganga fram hjá reynslunni og byggja á hugboði, eins og sumir hinna yngri manna gjöra nú um stundir; en þú verður þó að játa það, að þú hefir ekki reynslu fyrir þér, heldur hugboð í þessu efni. Þú hefir fáar stórbrýr séð, og því síður þekkir þú, hvað til þeirrar framtíðar heyrir, eður hve mikill endingarmunur er á vel hirtri og vanhirtri brú; og svo er um flesta Íslendinga. Til þessa tíma hafa fáar brýr verið til á Íslandi, og lítil reynsla fengin fyrir því, hve lengi þær endast. Þú verður því, svo framarlega sem þú ekki villt fyrirlíta þekking og reynslu, að byggja á venju og reynslu annarra þjóða, sem brýr leggja og brýr hafa haft.
Ég held að fáir núlifandi Íslendingar hafi ferðast meira en ég, þegar lagt er saman það, sem ég hef farið um landið, þvert og endilangt, og svo mun um önnur lönd. Ég hef ekki farið þetta með aftur augun, heldur hef ég veitt því eftirtekt, sem fyrir augun hefir borið, og ég hefi séð það, að meðferð á vegum á Íslandi, er svo, bæði af náttúrunnar og manna völdum, að umsjón og viðhald er nauðsynlegt, og ég hef séð erlendis, að engum kemur til hugar, að láta vegi, brýr eða byggingar vera án gæslu.
Margir hafa borið það fram, bæði á þingi og annarsstaðar, að sanngjarnt væri, að Árnesingar og Rangvellingar fengju brú á kostnað landssjóðs, fyrir það, að þeir hefðu ekkert gagn af póstskipaferðunum í samanburði við menn í öðrum fjórðungum landsins, og þú höggur í sama farið í grein þinni. Þó ég sé þessu ekki í alla staði samþykkur, þá skal ég þó í bráð fallast á, að rétt sé, að suð-austursýslur landsins fái brú, á móti því, að menn austan-, norðan-, og vestanlands hafa gufuskipaferðir. En þá verður þú að halda setningunni með mér til enda, en ekki hætta á miðri leið.
Austfirðingar, norðlendingar og vestfirðingar hafa fengið gufuskip; þetta er satt; en gættu þess, að notkun þess er ekki gefins; ef þeir senda bréf, böggul eða vörur, eða fara sjálfir til næstu hafnar, þá verða þeir að greiða flutningsgjald fyrir það, þegar þeir senda hest eða klyfjar eða fara sjálfir yfir brúna, svo þessi marg-upptekna samlíking á brú og gufuskipi er til stuðnings mínu máli en ekki þínu.
En nú erum við að nálægjast merg málsins, þegar um framfarir er að ræða, og það er: að flestar verklegar framfarir heimsins byggjast ekki á því, að menn njóti þeirra gefins, heldur á því, að þeir sem nota þær borgi fyrir það, svo þær beri sig sjálfar að öllu eða miklu leyti. Stjórnendur landa og stórfélög leggja járnbrautir og fréttaþræði, og smíða stór skip, ásamt mörgu, er til framfara heyrir fyrir þjóðirnar, en því nær allt þetta er gert í þeim tilgangi, að það skuli geta svarað kostnaði fyrr eður síðar. Í einu orði, ríkin og félögin segja við einstaklinginn: "Ég skal greiða för þína, og gjöra ýmsar framfarir þér til léttis, en þú verður að borga fyrir það, ef þú vilt nota það". Ég get ekki séð nokkuð í móti því, að vér semjum okkur að sið annarra þjóða í líku efni.
Ég veit að sönnu, að þú getur minnt mig á, að margar brýr séu erlendis, sem ekkert kostar að fara yfir. Þetta er satt; en þó borga farþegar fargjald fyrir yfirferð af meira en helmingi af öllum þeim brúm, sem til eru, þegar járnbrautarbrýr eru meðtaldar.
Brú er á Jótlandi yfir Limafjörð, sem allir þurfa að borga gjald fyrir, er yfir fara, og í Þýskalandi eru nokkrar brýr, sem greiða þarf gjald fyrir, ef yfir er farið, og svona er víðar.
Ef þú segir það í alvöru, að ekki veiti af lögregluþjónum á hverja brú til að verja þær fyrir illri meðferð, þá hlýtur þú að álíta, að umferðin um brýrnar verði skaðlega skeytingarlaus, og þá getur þú ekki lengi verið mótfallinn brúargæslu, án þess að lenda í mótsögn.
Um kostnað við brúargæsluna höfum við mjög ólíka skoðun. Þú álítur brúargjald þunga byrði á núlifandi mönnum og eftirkomendunum; en ég álít góða brúargæslu og daglegt viðhald stóran ágóða fyrir hvorutveggju, og þó einkum fyrir eftirkomendurna: ágóðinn kemur fram í því, að brýrnar endast miklu lengur, svo þegar við kveðjum, þá verður hægt að afhenda eftirkomendunum góðar brýr, í staðinn fyrir ónýtar brýr, ef þær verða gæslulausar.
Þegar þú ert að fárast yfir kostnaðinum, þá getur þú ekki þess, að það fé, sem gengur til brúargæslunnar, verður kyrrt í landinu sjálfu. Það eru ekki útlendingar sem sjúga það fé út úr landinu; og mikið er það, ef slíkt ætti að vera tilfinnanlegt fyrir alla þá, sem yfir brúna fara, að greiða það gjald, sem ein fjölskylda landsins eigin börnum þarf sér til framfæris, þegar hún aftur á móti daglega lítur eftir því, að brúin sé í góðu standi til yfirferðar og starfar að betri ending brúarinnar.
Annað er það, sem við höfum alveg gagnstæða skoðun á. Þú segir; "Aðalástæðan á móti tollinum er sú, að landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf." Ég segi: af því landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf, þá verður landssjóði um megn án nýrra álaga á landsmenn að leggja allar þessar brýr og viðhalda þeim, nema létt sé undir með honum , að minnsta kosti hvað gæslu og viðhald snertir, með gjaldi því, er þeir greiða, sem yfir brýrnar fara.
Nú verða aðrir að dæma um þetta milli okkar.
Til skýringar vil ég setja hér eitt dæmi.
Að 30 árum liðnum hafa komið inn 40.000 kr. í fargjöldum. Þar af er meiri hlutinn eyddur til gæslu og viðhalds brúarinnar, en með sömu meðferð getur hún staðið önnur 30 ár án aðalaðgjörðar, og allir þeir sem greitt hafa gjaldið standa jafnréttir. Önnur brú jafngóð hefur staðið í 30 ár án daglegrar gæslu og án brúargjalds; þá er landssjóður búinn að greiða í aðgjörðir 10.000 kr. og brúin alveg ónýt, svo þá þarf að endurreisa hana. Dæmi þessi má setja upp á marga vegu, en ég held að þessi ágiskan sé ekki fjarri sanni.
Ég hef hér að framan minna talað um brúargæslu en brúargjald; orsökin er sú, að ég tel sjálfsagt, að flestir skynsamir hirðumenn álíti brúargæslu ómissandi, einkum á járnbrautum og hengibrúm. Það vill svo vel til, að flestir menn hafa veitt því eftirtekt, hve járn ryðgar fljótt, og verður ónýtt þegar það liggur úti í vætu, og hve nauðsynlegt það er, að vernda járnið með farva eða fitu fyrir verkunum loftsins. Það er ekki einungis, að járn verður ónýtt af ryði á fáum árum, heldur fúnar og tré á stuttum tíma, ef það er ekki málað eður tjargað. Í brúnni á Ölvesá verða meira en 100 tylftir af plönkum; það kostar líka peninga, ef kaupa þarf nýtt gólf vegna fúa, eftir fá ár.
Þú kallar brúargjaldið "nýjar álögur á sérstakar sveitir". Þetta er misskilningur. Brúargjaldið kemur í stað ferjutollana, svo þeir sem áður fóru yfir Ölvesá á ferju, greiða nú minna en áður, þegar þeir fara yfir ána á brúnni, og svo bætist þar við, að þeir komast allt af tafarlaust leiðar sinnar og eiga hvorki hesta eða varning á hættu.
Að allir þurfi að leggja til löggæsluvaldsins í landinu, að tiltölu réttri, er eðlilegt; því lagaverndin er jöfn fyrir alla í þjóðfélaginu. Friðsemdarmennirnir "Hallur á Horni og Lýður á Langanesi" sitja báðir jafnt í skjóli laganna; lögin hindra óróaseggina frá því að raska friði þeirra; lögin eru öllum jöfn; en brúin á Ölvesá verður þung á vögnunum til að flytja hana um allt land þegar einhver vill komast yfir áarsprænu. Dæmi þitt á því ekki vel við, þó það sé skemmtilegt.
Þú talar um "að óþekkt sé að menn láti gæslumenn fylgja þó þeir láni grip, hús eða skip" og ef "refar ásækja fé þitt" að "landssjóður græði ekki á því, þó menn séu settir í hegningarhúsið", að brúarvörðurinn, ef hann hefir veitingar "rýi á tvær hendur úr vasa þjóðarinnar", að "hótel eigi að vera á Þingvelli og við Geysi en muni verða siðum spillandi, ef það standi við Ölvesábrú", að "það sé ekki skylda vor að ganga berir fyrir eftirkomandi kynslóðum og skilja blóðið eftir í sporunum", sem sé fyrir brúargjaldið!!, "að ef engin sýnileg ráð væru þekkt til þess, að brúa ár, þá væri sjálfsagt að landssjóður kostaði ferjurnar að öllu leyti á póstvegum og fjallvegum".
Ég skal að eins geta þess, að langur tími mun líða þar til Jökulsá á Fjöllum og í Axarfirði verður brúuð nálægt póstveginum, sömuleiðis Eyjafjarðará, Héraðsvötnin og líklega Hvítá í Borgarfirði. Væri ekki best að fara að byrja á því, að gefa mönnum á kostnað landssjóðsins ókeypis ferjur á póstvegum yfir þessar stórár?
Að öðru leyti ætla ég ekki að svara ofannefndu, til þess að flytja ekki umræðurnar út í smámuni frá aðalatriðunum, og líka vegna kunningsskapar við höfundinn; því mér finnst sumt af því nokkuð óheppilegt.
Eigum við ekki, gamli vin, að koma okkur saman um, að koma þessu yfir á prentarana, og kalla þetta eina stóra prentvillu?
Jæja, þó við getum ekki orðið sammála um það, þá gjörir það minna til; hitt er meira vert, ef okkur tekst að sannfæra menn um að, að gæsla á brúm sé ómissandi, og brúargjald sé eðlilegt hjálparmeðal til þess, að sem flestar brýr komist sem fyrst á, og að þeirra verði vel gætt.
Að endingu skal ég segja þér í allri vinsemd, að auk þess sem þig vantar reynslu með brýr, þá vantar þig þekking til að skrifa um þetta mál. Ef til vill veistu, hver byggingarmunur er á fastri brú og hengibrú, en alls ekki þekkir þú, hvernig uppihöld og ýmsir partar eru samansettir, sem mæta mestum núningi í hengibrúm, eður hversu mikið slit orsakast af miklum hristingi, eður hversu mikils það er vert, að aftra öllum óþarfa hristingi og verja járn og tré sem best fyrir áhrifum loftsins. Ég vil því ráða þér til í bróðerni, að hætta þér ekki djúpt í næstu grein, því hvað gæsluna snertir að minnsta kosti, þá hefir þú í móti þér hvern einasta mann, sem hefir grundaða þekkingu á brúarsmíði og vill landi okkar vel.


Ísafold, 17. júní 1891, 18. árg., 48. tbl., forsíða:

Brúargæsla og brúargjald.
til herra Þorláks Guðmundssonar
frá Tryggva Gunnarssyni
I.
Þú hefir tekið til íhugunar í Ísafold XVIII. 33-34 það sem ég skrifaði í sama blaði um "brúargæslu, vegi og brúargjald". Málefnið er mikilsvert, og getur orðið því til gagns, að það sé skoðað frá tveimur hliðum; auk þess þykir mér vænt um að tala við þig um "landsins gagn og nauðsynjar", eins og í gamla daga, þegar við vorum saman á þingi; við vorum þá oftast á líku máli, og svo fer enn, vona ég, þegar þú hefir hugsað málið betur. Þó þú segist hafa lesið grein mína aftur og aftur, þá verður þú enn að taka hana, eða málefnið til íhugunar.
Það getur verið, að þér eða öðrum lánist í bráð, að fá meiri hluta manna til að álíta brúargjald óþarft og óhentugt; en að þið fáið menn til að álíta nákvæma og duglega gæslu á öllum stærri brúm ónauðsynlega, því trúi ég ekki fyr en ég tek á því. Þetta síðara er aðalatriðið; því ef ekki er haft stöðugt eftirlit, einkum á hengibrúm og járnbrúm, þá endast þær meir en helmingi skemur, og eykur það bæði feykilega útgjöld landssjóðs og getur leitt til þess, að áhugi sá, sem nú er vaknaður til brúargjörða, hverfi aftur. Þetta skilst mönnum fyr eður síðar. Þegar svo langt er komið, að menn eru orðnir sannfærðir um nauðsyn brúargæslunnar, þá leið það af sjálfu sér, að ákveða þarf, hvar taka á kostnaðinn til hennar og viðhalds brúarinnar, og er þá um tvennt að velja, annaðhvort að taka hann af landssjóði eða brúarsjóði, sem myndast af fargjaldi þeirra, er yfir brúna fara. Ég álít það síðarnefnda hentugra og eðlilegra.
Gólfið í brúnni slitnar við það að gengið er á því, naglarnir og uppihöldin slitna í öllum samskeytum við hristinginn af umferðinni, farfinn dettur af, svo járnið stendur bert eftir, og ýmsir fara óvarlega yfir brúna af drykkjuskap, gapaskap og skeytingarleysi. Allt þetta orsakar umferðin, og því segi ég, að það sé eðlilegt, að þeir, sem yfir brúna fara, borgi fyrir það slit og þá gæslu, sem leiðir af yfirferðinni; enda er það tilvinnandi fyrir þá, þegar gætt er að því gagni, sem þeir hafa af notkun brúarinnar.
Hentugra, álít ég að vegfarendur greiði kostnaðinn, en landssjóður ekki, vegna þess, að þá á hann hægra með að leggja styrk til nýrra brúa, án þess að leggja nú gjöld á landsmenn, þegar hann er laus við gjöld til gæslu og viðhalds á þeim brúm, sem lagðar eru.
Það er ekki þér líkt, að ganga fram hjá reynslunni og byggja á hugboði, eins og sumir hinna yngri manna gjöra nú um stundir; en þú verður þó að játa það, að þú hefir ekki reynslu fyrir þér, heldur hugboð í þessu efni. Þú hefir fáar stórbrýr séð, og því síður þekkir þú, hvað til þeirrar framtíðar heyrir, eður hve mikill endingarmunur er á vel hirtri og vanhirtri brú; og svo er um flesta Íslendinga. Til þessa tíma hafa fáar brýr verið til á Íslandi, og lítil reynsla fengin fyrir því, hve lengi þær endast. Þú verður því, svo framarlega sem þú ekki villt fyrirlíta þekking og reynslu, að byggja á venju og reynslu annarra þjóða, sem brýr leggja og brýr hafa haft.
Ég held að fáir núlifandi Íslendingar hafi ferðast meira en ég, þegar lagt er saman það, sem ég hef farið um landið, þvert og endilangt, og svo mun um önnur lönd. Ég hef ekki farið þetta með aftur augun, heldur hef ég veitt því eftirtekt, sem fyrir augun hefir borið, og ég hefi séð það, að meðferð á vegum á Íslandi, er svo, bæði af náttúrunnar og manna völdum, að umsjón og viðhald er nauðsynlegt, og ég hef séð erlendis, að engum kemur til hugar, að láta vegi, brýr eða byggingar vera án gæslu.
Margir hafa borið það fram, bæði á þingi og annarsstaðar, að sanngjarnt væri, að Árnesingar og Rangvellingar fengju brú á kostnað landssjóðs, fyrir það, að þeir hefðu ekkert gagn af póstskipaferðunum í samanburði við menn í öðrum fjórðungum landsins, og þú höggur í sama farið í grein þinni. Þó ég sé þessu ekki í alla staði samþykkur, þá skal ég þó í bráð fallast á, að rétt sé, að suð-austursýslur landsins fái brú, á móti því, að menn austan-, norðan-, og vestanlands hafa gufuskipaferðir. En þá verður þú að halda setningunni með mér til enda, en ekki hætta á miðri leið.
Austfirðingar, norðlendingar og vestfirðingar hafa fengið gufuskip; þetta er satt; en gættu þess, að notkun þess er ekki gefins; ef þeir senda bréf, böggul eða vörur, eða fara sjálfir til næstu hafnar, þá verða þeir að greiða flutningsgjald fyrir það, þegar þeir senda hest eða klyfjar eða fara sjálfir yfir brúna, svo þessi marg-upptekna samlíking á brú og gufuskipi er til stuðnings mínu máli en ekki þínu.
En nú erum við að nálægjast merg málsins, þegar um framfarir er að ræða, og það er: að flestar verklegar framfarir heimsins byggjast ekki á því, að menn njóti þeirra gefins, heldur á því, að þeir sem nota þær borgi fyrir það, svo þær beri sig sjálfar að öllu eða miklu leyti. Stjórnendur landa og stórfélög leggja járnbrautir og fréttaþræði, og smíða stór skip, ásamt mörgu, er til framfara heyrir fyrir þjóðirnar, en því nær allt þetta er gert í þeim tilgangi, að það skuli geta svarað kostnaði fyrr eður síðar. Í einu orði, ríkin og félögin segja við einstaklinginn: "Ég skal greiða för þína, og gjöra ýmsar framfarir þér til léttis, en þú verður að borga fyrir það, ef þú vilt nota það". Ég get ekki séð nokkuð í móti því, að vér semjum okkur að sið annarra þjóða í líku efni.
Ég veit að sönnu, að þú getur minnt mig á, að margar brýr séu erlendis, sem ekkert kostar að fara yfir. Þetta er satt; en þó borga farþegar fargjald fyrir yfirferð af meira en helmingi af öllum þeim brúm, sem til eru, þegar járnbrautarbrýr eru meðtaldar.
Brú er á Jótlandi yfir Limafjörð, sem allir þurfa að borga gjald fyrir, er yfir fara, og í Þýskalandi eru nokkrar brýr, sem greiða þarf gjald fyrir, ef yfir er farið, og svona er víðar.
Ef þú segir það í alvöru, að ekki veiti af lögregluþjónum á hverja brú til að verja þær fyrir illri meðferð, þá hlýtur þú að álíta, að umferðin um brýrnar verði skaðlega skeytingarlaus, og þá getur þú ekki lengi verið mótfallinn brúargæslu, án þess að lenda í mótsögn.
Um kostnað við brúargæsluna höfum við mjög ólíka skoðun. Þú álítur brúargjald þunga byrði á núlifandi mönnum og eftirkomendunum; en ég álít góða brúargæslu og daglegt viðhald stóran ágóða fyrir hvorutveggju, og þó einkum fyrir eftirkomendurna: ágóðinn kemur fram í því, að brýrnar endast miklu lengur, svo þegar við kveðjum, þá verður hægt að afhenda eftirkomendunum góðar brýr, í staðinn fyrir ónýtar brýr, ef þær verða gæslulausar.
Þegar þú ert að fárast yfir kostnaðinum, þá getur þú ekki þess, að það fé, sem gengur til brúargæslunnar, verður kyrrt í landinu sjálfu. Það eru ekki útlendingar sem sjúga það fé út úr landinu; og mikið er það, ef slíkt ætti að vera tilfinnanlegt fyrir alla þá, sem yfir brúna fara, að greiða það gjald, sem ein fjölskylda landsins eigin börnum þarf sér til framfæris, þegar hún aftur á móti daglega lítur eftir því, að brúin sé í góðu standi til yfirferðar og starfar að betri ending brúarinnar.
Annað er það, sem við höfum alveg gagnstæða skoðun á. Þú segir; "Aðalástæðan á móti tollinum er sú, að landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf." Ég segi: af því landið er stórt og strjálbyggt og árnar margar, sem brúa þarf, þá verður landssjóði um megn án nýrra álaga á landsmenn að leggja allar þessar brýr og viðhalda þeim, nema létt sé undir með honum , að minnsta kosti hvað gæslu og viðhald snertir, með gjaldi því, er þeir greiða, sem yfir brýrnar fara.
Nú verða aðrir að dæma um þetta milli okkar.
Til skýringar vil ég setja hér eitt dæmi.
Að 30 árum liðnum hafa komið inn 40.000 kr. í fargjöldum. Þar af er meiri hlutinn eyddur til gæslu og viðhalds brúarinnar, en með sömu meðferð getur hún staðið önnur 30 ár án aðalaðgjörðar, og allir þeir sem greitt hafa gjaldið standa jafnréttir. Önnur brú jafngóð hefur staðið í 30 ár án daglegrar gæslu og án brúargjalds; þá er landssjóður búinn að greiða í aðgjörðir 10.000 kr. og brúin alveg ónýt, svo þá þarf að endurreisa hana. Dæmi þessi má setja upp á marga vegu, en ég held að þessi ágiskan sé ekki fjarri sanni.
Ég hef hér að framan minna talað um brúargæslu en brúargjald; orsökin er sú, að ég tel sjálfsagt, að flestir skynsamir hirðumenn álíti brúargæslu ómissandi, einkum á járnbrautum og hengibrúm. Það vill svo vel til, að flestir menn hafa veitt því eftirtekt, hve járn ryðgar fljótt, og verður ónýtt þegar það liggur úti í vætu, og hve nauðsynlegt það er, að vernda járnið með farva eða fitu fyrir verkunum loftsins. Það er ekki einungis, að járn verður ónýtt af ryði á fáum árum, heldur fúnar og tré á stuttum tíma, ef það er ekki málað eður tjargað. Í brúnni á Ölvesá verða meira en 100 tylftir af plönkum; það kostar líka peninga, ef kaupa þarf nýtt gólf vegna fúa, eftir fá ár.
Þú kallar brúargjaldið "nýjar álögur á sérstakar sveitir". Þetta er misskilningur. Brúargjaldið kemur í stað ferjutollana, svo þeir sem áður fóru yfir Ölvesá á ferju, greiða nú minna en áður, þegar þeir fara yfir ána á brúnni, og svo bætist þar við, að þeir komast allt af tafarlaust leiðar sinnar og eiga hvorki hesta eða varning á hættu.
Að allir þurfi að leggja til löggæsluvaldsins í landinu, að tiltölu réttri, er eðlilegt; því lagaverndin er jöfn fyrir alla í þjóðfélaginu. Friðsemdarmennirnir "Hallur á Horni og Lýður á Langanesi" sitja báðir jafnt í skjóli laganna; lögin hindra óróaseggina frá því að raska friði þeirra; lögin eru öllum jöfn; en brúin á Ölvesá verður þung á vögnunum til að flytja hana um allt land þegar einhver vill komast yfir áarsprænu. Dæmi þitt á því ekki vel við, þó það sé skemmtilegt.
Þú talar um "að óþekkt sé að menn láti gæslumenn fylgja þó þeir láni grip, hús eða skip" og ef "refar ásækja fé þitt" að "landssjóður græði ekki á því, þó menn séu settir í hegningarhúsið", að brúarvörðurinn, ef hann hefir veitingar "rýi á tvær hendur úr vasa þjóðarinnar", að "hótel eigi að vera á Þingvelli og við Geysi en muni verða siðum spillandi, ef það standi við Ölvesábrú", að "það sé ekki skylda vor að ganga berir fyrir eftirkomandi kynslóðum og skilja blóðið eftir í sporunum", sem sé fyrir brúargjaldið!!, "að ef engin sýnileg ráð væru þekkt til þess, að brúa ár, þá væri sjálfsagt að landssjóður kostaði ferjurnar að öllu leyti á póstvegum og fjallvegum".
Ég skal að eins geta þess, að langur tími mun líða þar til Jökulsá á Fjöllum og í Axarfirði verður brúuð nálægt póstveginum, sömuleiðis Eyjafjarðará, Héraðsvötnin og líklega Hvítá í Borgarfirði. Væri ekki best að fara að byrja á því, að gefa mönnum á kostnað landssjóðsins ókeypis ferjur á póstvegum yfir þessar stórár?
Að öðru leyti ætla ég ekki að svara ofannefndu, til þess að flytja ekki umræðurnar út í smámuni frá aðalatriðunum, og líka vegna kunningsskapar við höfundinn; því mér finnst sumt af því nokkuð óheppilegt.
Eigum við ekki, gamli vin, að koma okkur saman um, að koma þessu yfir á prentarana, og kalla þetta eina stóra prentvillu?
Jæja, þó við getum ekki orðið sammála um það, þá gjörir það minna til; hitt er meira vert, ef okkur tekst að sannfæra menn um að, að gæsla á brúm sé ómissandi, og brúargjald sé eðlilegt hjálparmeðal til þess, að sem flestar brýr komist sem fyrst á, og að þeirra verði vel gætt.
Að endingu skal ég segja þér í allri vinsemd, að auk þess sem þig vantar reynslu með brýr, þá vantar þig þekking til að skrifa um þetta mál. Ef til vill veistu, hver byggingarmunur er á fastri brú og hengibrú, en alls ekki þekkir þú, hvernig uppihöld og ýmsir partar eru samansettir, sem mæta mestum núningi í hengibrúm, eður hversu mikið slit orsakast af miklum hristingi, eður hversu mikils það er vert, að aftra öllum óþarfa hristingi og verja járn og tré sem best fyrir áhrifum loftsins. Ég vil því ráða þér til í bróðerni, að hætta þér ekki djúpt í næstu grein, því hvað gæsluna snertir að minnsta kosti, þá hefir þú í móti þér hvern einasta mann, sem hefir grundaða þekkingu á brúarsmíði og vill landi okkar vel.