1891

Ísafold, 24. júní 1891, 18. árg., 50. tbl., forsíða:

Hið mesta velferðarmál.
Landsins mikilvægasta framtíðarmál og mesta velferðarmálið, sem rætt verður á næsta þingi er án efa samgöngumálið, af því að verulegar og fljótar framfarir þjóðarinnar í dugnaði, menning og velmegun eru komnar undir bættum samgöngum fremur en öðru, sem er á valdi næsta þings. Dugandi samgöngubætur hafa beinni og fljótari áhrif á þjóðarhaginn heldur en jafnvel hin æskilegasta stjórnarskrábreyting mundi geta haft í bráðina.
Hinar allra minnstu kröfur sem gjöra má til þingsins í þessu máli eru þessar:
1. Að póstleiðum sé svo fjölgað, að engan tíma árs líði meira en mánuður milli póstferða nokkursstaðar á landinu. Það er sannarlega hneyksli, að bréfaskipti manna með póstum skuli vera því sem næst heft að sumrinu, og að heilar sýslur landsins skuli ekki geta með póstum fengið fréttir af þinginu frá því þing er að eins sett og til þingloka.
2. Að landið haldi úti að minnsta kosti gufuskipi, er stöðuglega sé í strandferðum þá mánuði ársins, er tiltækilegir þykja til þess.
Strandferðirnar sem vér höfum eru of fáar og óhagkvæmar, af því þeim ekki til hlítar hagað eftir vorum þörfum; vér þörfnumst strandferða, sem hagað sé eingöngu eftir ferða- og flutningaþörfum vorum. -
Til þess að reisa sér ekki hurðarás um öxl, gæti landið í þessu skyni tekið að eins eitt lítið gufuskip á leigu, og látið það stöðugt vera á ferðinni t. d. 7 mánuði árlega. Sé gjört ráð fyrir skipi er hafi 100 farþega rúm og beri 50 smálestir af flutningsvöru, þá kostar það (þ.e. skipið, skipahöfnin og kolin) hér um bil £ 320 (=5.760 kr.) um mánuð hvern, eða í 7 mánuði 40.320., reiknað eftir verðlagi því, sem nú er á skipaleigum og kolum erlendis.
Slíkt skip gæti miklu áorkað og verulega bætt úr hinu óþolandi samgönguleysi. Kostnaðurinn, liðugar 40.000 krónur árlega, ætti ekki að vera landssjóði ofvaxinn, því upp í hann mundu fást drjúgar tekjur bæði fyrir mannflutninga og vöruflutninga, þótt hvortveggi flutningurinn væri gjörður mun ódýrari en vér höfum átt að venjast, og svo má verja til þessa þeim 18.000 króna, sem nú er varið til þeirra strandferða, sem vér höfum átt við að búa.
3. Að landssjóður styðji að einhverju leyti þær tilraunir, sem einstakir menn eða félög gjöra til að koma upp gufubátum til umferða á einstökum flóum og fjörðum.
4. Að þingið annaðhvort breyti gagngjört hinum gildandi vegalögum, eður nemi þau úr gildi og semji önnur nú í þeirra stað.
Það hefir verið sýnt fram á það ýtarlega í Ísafold, að hin núgildandi vegalög eru yfir höfuð óhagfelld og í sumum atriðum fráleit. Aðalgalli þeirra er sá, að frumstefna þeirra er skökk. Aðalpóstvegirnir, sem liggja víðast um þver héruð, en annars yfir fjöll og firnindi og jökulsársanda, eru í lögum þessum hafðir í fyrirrúmi fyrir öðrum vegum; þá á að leggja sem akvegi og landssjóður að kosta þá. Þetta er röng stefna í lögunum; þar á þvert á móti að leggja akvegina, sem flutningsmagnið er mest, og þess vegna einnig flutningsþörfin brýnust.
Gjörum ráð fyrir, að vér mættum verja 4 til 5 milljónum króna til þess að leggja akvegi á öllum aðalpóstleiðum, og minna mundu þeir ekki kosta, þótt jökulsársandarnir í Skaptafellssýslum væru undanskildir, (en um þá mun tæpast unnt að leggja akveg, þótt til þess væri varið hundruðum milljóna króna), gjörum og ráð fyrir að aðalpóstvegirnir væru komnir upp og yrði svo við haldið með ærnum kostnaði, - samt sem áður yrðu aðflutningar bænda í flestum héruðum landsins jafn-erfiðir eftir sem áður. Í hinum gildandi vegalögum er ekki tekið tilhlýðilega til greina, hvar skór vegaleysisins kreppir óþyrmilegast að. Þess vegna þarf að breyta þeim í þá átt, að akvegir þeir, sem gjörðir verða fyrst um sinn, verði miðaðir við flutningsmagn og flutningaþörf almennings, og liggi þess vegna upp eftir héruðum frá höfnum þeim, er vöruflutningsstraumarnir að og frá landi liggja um, en sjórinn sé notaður til ferða og flutninga hvar sem því verður við komið, af því að hann er sú braut, sem ekkert kostar og aldrei þarf að gjöra við. Öðrum vegum ætti fyrst um sinn að halda við samkvæmt notkun þeirra sem reiðvegum eða lestavegum, en brúa torfærar ár eftir föngum.
5. Að þingið af ýtrasta megni stuðli að því, að málþráður verði sem fyrst lagður til Íslands.
p.t. Reykjavík 23. júní 1891.
Jens Pálsson.


Ísafold, 24. júní 1891, 18. árg., 50. tbl., forsíða:

Hið mesta velferðarmál.
Landsins mikilvægasta framtíðarmál og mesta velferðarmálið, sem rætt verður á næsta þingi er án efa samgöngumálið, af því að verulegar og fljótar framfarir þjóðarinnar í dugnaði, menning og velmegun eru komnar undir bættum samgöngum fremur en öðru, sem er á valdi næsta þings. Dugandi samgöngubætur hafa beinni og fljótari áhrif á þjóðarhaginn heldur en jafnvel hin æskilegasta stjórnarskrábreyting mundi geta haft í bráðina.
Hinar allra minnstu kröfur sem gjöra má til þingsins í þessu máli eru þessar:
1. Að póstleiðum sé svo fjölgað, að engan tíma árs líði meira en mánuður milli póstferða nokkursstaðar á landinu. Það er sannarlega hneyksli, að bréfaskipti manna með póstum skuli vera því sem næst heft að sumrinu, og að heilar sýslur landsins skuli ekki geta með póstum fengið fréttir af þinginu frá því þing er að eins sett og til þingloka.
2. Að landið haldi úti að minnsta kosti gufuskipi, er stöðuglega sé í strandferðum þá mánuði ársins, er tiltækilegir þykja til þess.
Strandferðirnar sem vér höfum eru of fáar og óhagkvæmar, af því þeim ekki til hlítar hagað eftir vorum þörfum; vér þörfnumst strandferða, sem hagað sé eingöngu eftir ferða- og flutningaþörfum vorum. -
Til þess að reisa sér ekki hurðarás um öxl, gæti landið í þessu skyni tekið að eins eitt lítið gufuskip á leigu, og látið það stöðugt vera á ferðinni t. d. 7 mánuði árlega. Sé gjört ráð fyrir skipi er hafi 100 farþega rúm og beri 50 smálestir af flutningsvöru, þá kostar það (þ.e. skipið, skipahöfnin og kolin) hér um bil £ 320 (=5.760 kr.) um mánuð hvern, eða í 7 mánuði 40.320., reiknað eftir verðlagi því, sem nú er á skipaleigum og kolum erlendis.
Slíkt skip gæti miklu áorkað og verulega bætt úr hinu óþolandi samgönguleysi. Kostnaðurinn, liðugar 40.000 krónur árlega, ætti ekki að vera landssjóði ofvaxinn, því upp í hann mundu fást drjúgar tekjur bæði fyrir mannflutninga og vöruflutninga, þótt hvortveggi flutningurinn væri gjörður mun ódýrari en vér höfum átt að venjast, og svo má verja til þessa þeim 18.000 króna, sem nú er varið til þeirra strandferða, sem vér höfum átt við að búa.
3. Að landssjóður styðji að einhverju leyti þær tilraunir, sem einstakir menn eða félög gjöra til að koma upp gufubátum til umferða á einstökum flóum og fjörðum.
4. Að þingið annaðhvort breyti gagngjört hinum gildandi vegalögum, eður nemi þau úr gildi og semji önnur nú í þeirra stað.
Það hefir verið sýnt fram á það ýtarlega í Ísafold, að hin núgildandi vegalög eru yfir höfuð óhagfelld og í sumum atriðum fráleit. Aðalgalli þeirra er sá, að frumstefna þeirra er skökk. Aðalpóstvegirnir, sem liggja víðast um þver héruð, en annars yfir fjöll og firnindi og jökulsársanda, eru í lögum þessum hafðir í fyrirrúmi fyrir öðrum vegum; þá á að leggja sem akvegi og landssjóður að kosta þá. Þetta er röng stefna í lögunum; þar á þvert á móti að leggja akvegina, sem flutningsmagnið er mest, og þess vegna einnig flutningsþörfin brýnust.
Gjörum ráð fyrir, að vér mættum verja 4 til 5 milljónum króna til þess að leggja akvegi á öllum aðalpóstleiðum, og minna mundu þeir ekki kosta, þótt jökulsársandarnir í Skaptafellssýslum væru undanskildir, (en um þá mun tæpast unnt að leggja akveg, þótt til þess væri varið hundruðum milljóna króna), gjörum og ráð fyrir að aðalpóstvegirnir væru komnir upp og yrði svo við haldið með ærnum kostnaði, - samt sem áður yrðu aðflutningar bænda í flestum héruðum landsins jafn-erfiðir eftir sem áður. Í hinum gildandi vegalögum er ekki tekið tilhlýðilega til greina, hvar skór vegaleysisins kreppir óþyrmilegast að. Þess vegna þarf að breyta þeim í þá átt, að akvegir þeir, sem gjörðir verða fyrst um sinn, verði miðaðir við flutningsmagn og flutningaþörf almennings, og liggi þess vegna upp eftir héruðum frá höfnum þeim, er vöruflutningsstraumarnir að og frá landi liggja um, en sjórinn sé notaður til ferða og flutninga hvar sem því verður við komið, af því að hann er sú braut, sem ekkert kostar og aldrei þarf að gjöra við. Öðrum vegum ætti fyrst um sinn að halda við samkvæmt notkun þeirra sem reiðvegum eða lestavegum, en brúa torfærar ár eftir föngum.
5. Að þingið af ýtrasta megni stuðli að því, að málþráður verði sem fyrst lagður til Íslands.
p.t. Reykjavík 23. júní 1891.
Jens Pálsson.